Categories
Fréttir

Framtíð matarnýsköpunar

Deila grein

12/02/2021

Framtíð matarnýsköpunar

Ungt Framsóknarfólk í Reykjavík hélt opin fund í gærkvöldi um framtíð nýsköpunar í matvælaiðnaði. Á fundinum komu fram Brynja Laxdal, markaðsfræðingur og fyrrum verkefnastjóri Matarauðs Íslands, Finnbogi Magnússon, formaður stjórnar Landbúnaðarklasans, ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Íris Gísladóttir, formaður Ung Framsókn í Reykjavík stýrði fundinum.

Farið var yfir víðan völl er kemur að tækifærum sem felast í nýrri tækni og nýjum leiðum til framleiðslu matvæla hér á landi. Augljóst var á fyrirlestrum Brynju og Finnboga að gríðarleg vaxtartækifæri væru í matvælaframleiðslu hér á landi. Þar má þakka nýrri tækni og því mikla hugviti sem býr í þeim framúrskarandi frumkvöðlum sem hafa lagt alúð sína í að tryggja Íslendingum hágæða matvöru framleidda úr þeim hágæða hráefnum sem finnast hér á landi.

Töluverð gróska hefur verið á þessu sviði síðustu ár og tilraunir til fjölbreyttari framleiðslu hafa skilað góðum árangri. Mikið er af matarfrumkvöðlum víðsvegar um land sem hafa með einstakri natni hafið fjölbreytta framleiðslu sem eru nú í boði fyrir landsmenn. Þó nokkur fyrirtæki hafa gert sér mat úr kartöflunni, en þar má til að mynda nefna Álfur brugghús og Ljótu kartöflurnar sem framleiða annarsvegar bjór og hinsvegar snakk úr kartöflum sem annars fara til spillis. Connective Collective, Bone & Marrow og North Marine Ingredients hafa einnig fundið leiðir til að nýta hráefni sem annars er hent með góðum árangri. Þá hafa fjölmargir frumkvöðlar hafið notkun á jurtum landsins við framleiðslu á matvörum, áfengi, lyfjum og hágæða snyrtivörur. Þannig mætti lengi telja. 

Ljóst er að mikil tækifæri felast í aukinni fjölbreytni í fullvinnslu matar, ræktun fjölbreyttara grænmetis og matjurta. Í því samhengi hefur verið horft til þess að nýta heita vatnið sem er ein af okkar bestu náttúrulegu auðlindum til þess að stunda útiræktun á ökrum allt árið um kring. Enn fleiri horfa einnig til aukinnar nýtingu á þeim gróðri sem hér vex náttúrulega, s.s. smáþörunga, gras, lúpínu, túnfífil, vallhumal, hvönn, njóla, burnirót, hafþyrni, kúmen, mjaðjurt, hamp, lín ofl. 

Þó svo að töluverð gróska hafi farið af stað mátti heyra að enn stæðu ákveðnar hindranir í vegi fyrir enn meiri grósku í matarnýsköpun. Þar bar hæst erfiðleikar við að fóta sig í frumkvöðlaumhverfinu og að geta aflað fyrirtækjum nauðsynlegt fjármagn til að koma þeim af hugmyndastigi í sölu í búðir. Aukin samheldni og samvinna frumkvöðla á milli gæti hjálpað við það og því væri áhugavert að sjá hvort áform um uppbyggingu frekari klasastarfsemi hér á landi hefði jákvæð áhrif. Markviss innkaup á innlendri framleiðslu ríkis og sveitarfélaga gæti einnig ýtt undir slíka grósku. 

Möguleikarnir í auknum útflutningi matvæla myndi einnig styrkja enn frekari uppbyggingu í matvælaiðnaði. Íslenskir framleiðendur eiga þar mikið af ónýttum tækifærum. Hægt væri að nýta enn frekar ímynd Íslands sem hið hreina, örugga og óspillta land sem hefur byggst upp í tengslum við ferðaþjónustu í markaðssetningu á íslenskum matvælum erlendis. Markviss markaðssetning með þeim hætti myndi gera íslenskum matvælaframleiðendum kleift að gera útflutning á fjölbreyttari matvöru jafn arðbæra og útflutningur fisks hefur verið. Þannig væri hægt að skapa fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur fyrir land og þjóð.

Mörg tækifæri felast á þessu sviði, bæði við ræktun fjölbreyttari fæðu sem og í frekari fullnýtingu þeirra landbúnaðarvara sem nú þegar eru framleidd hér á landi. Fróðlegt var að heyra svo margar hliðar á þessum spennandi iðnaði sem á framtíðina fyrir sér hér landi.

Ef þú misstir af fundinum þá getur þú séð upptökur af beinu streymi fundarins á fésbókarsíðu UngFramsókn í Reykjavík

Categories
Fréttir

Við verðum á skjánum!

Deila grein

06/02/2021

Við verðum á skjánum!

Næstu daga verða ráðherrar og þingmenn Framsóknar með opna fundi á netinu að ræða þau mál sem eru efst á baugi. Árangur, uppbygging, jákvæð stjórnmál, samgöngur, húsnæðismál, menntamál og atvinna, atvinna, atvinna.

  • Framfarir og umbætur byggja á samvinnu og samtali.
  • Þess vegna ræðst framtíðin á miðjunni.
10. febrúar kl. 20.00 — Þessi með Höllu Signýju og Ásmundi Einari í Norðvesturkjördæmi

Zoom hlekkur á fundinn: https://us02web.zoom.us/j/83913435671

10. febrúar kl. 20.00 — Þessi með Sigurði Inga og Silju Dögg í Suðurkjördæmi

Zoom hlekkur á fundinn: https://us02web.zoom.us/j/85607846443

15. febrúar kl. 20.00 — Þessi stóri með öllu liðinu í beinu streymi frá Reykjavík
Categories
Fréttir

Framboð og tilnefningar!

Deila grein

05/02/2021

Framboð og tilnefningar!

Framsókn í Reykjavík leitar að öflugu og áhugasömu fólki á framboðslista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður fyrir komandi alþingiskosningar.

Áhugasamir eru hvattir til að tilnefna sjálfan sig.

Framboð þurfa að berast fyrir lok dags 14. febrúar næst komandi. Fullum trúnaði heitið.

Categories
Fréttir

Skriður kominn á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni

Deila grein

04/02/2021

Skriður kominn á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, benti á að nú væri kominn skriður á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni sem Framsóknarflokkurinn hefur unnið, að með einum eða öðrum hætti, frá 2013. Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Uppbygging íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni er komin á skrið eftir langt hlé. Það er m.a. að þakka leigufélaginu Bríeti sem tók til starfa í mars 2019 en leigufélagið er mikilvægur liður í úrbótum á húsnæðismarkaði sem Framsóknarflokkurinn hefur unnið að með einum eða öðrum hætti frá 2013 og nú eru komnar til framkvæmda. Ný Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur það hlutverk að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja almenningi aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem er á eignar- eða leigumarkaði,“ sagði Líneik Anna.

Bríeti er ætlað að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að búsetuöryggi með sérstakri áherslu á landsbyggðina. Félagið vinnur með sveitarfélögum og langtímamarkmið þess er að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu þar sem þörf er á húsnæði á landsbyggðinni.

„Félagið er sjálfstætt starfandi og er áhersla á rekstur og útleigu íbúða til lengri tíma en félagið byggir eða kaupir eldra húsnæði til endurbóta og kaupir og selur, til að vera í takt við þarfir á markaði á hverjum stað og tíma.“

„Tilvist Bríetar leigufélags hefur heldur betur sannað sig og er félagið ásamt hlutdeildarlánum að rjúfa stöðnun sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði víða á landsbyggðinni í árum saman. Þá tryggir tilvist félagsins líka að nú er hægt að bregðast hratt við húsnæðisþörf á Seyðisfirði eftir náttúruhamfarirnar þar í desember. Í gær var undirritað samkomulag um byggingu sex íbúða þar með hraði og tækifæri eru til þess að byggja enn fleiri íbúðir á næstunni ef þörf reynist á. Bríet hefur einnig nýlega auglýst eftir samstarfsaðilum um byggingu hagkvæmra íbúða á Fáskrúðsfirði og Djúpavogi og bygging er hafin á íbúðum á Vopnafirði,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Fréttir

„Hakúna matata“

Deila grein

04/02/2021

„Hakúna matata“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vakti máls á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengileg Íslendingum í fyrra, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Nokkur umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga um skort á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengileg Íslendingum í fyrra. Íslenskusérfræðingar og ráðamenn hafa vakið athygli á þessu og sent áminningu til Disney um málið. Það er vel því að við viljum vernda íslenska tungu, tungumálið, sem er í hættu ef við stöndum ekki vörð um það,“ sagði Halla Signý.

„En við þurfum að líta okkur nær. Textun innlends sjónvarpsefnis heyrir nánast til undantekninga í íslensku sjónvarpi. Textun innlends efnis myndi gagnast tugþúsundum landsmanna. Jafnvel erlent barnaefni vantar textun og heyrnarskertir krakkar, sem eiga erfitt með að fylgjast með talmáli, missa því af barnaefni. Það hefur verið baráttumál heyrnarskertra að íslenskur texti fylgi ávallt því myndefni sem innlendar fjölmiðlaveitur miðla, og þá texti sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnis eins nákvæmlega og kostur er. Frumvarp þess efnis hefur nokkrum sinnum verið lagt fram af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, nú ráðherra, en ekki náð fram að ganga, sem er miður,“ sagði Halla Signý.

Um 200 börn og unglingar þurfa á heyrnartækjum að halda hér á landi. Einnig eru um 15% þjóðarinnar heyrnarskert að einhverju leyti.

„Í dag er lögð mikil áhersla á læsi barna sem hefur farið hnignandi. Textun efnis gæti eflt læsi barna. Það er samt ekki aðeins textun á barnaefni sem er ábótavant heldur textun á öðru íslensku efni, svo sem kvikmyndum og þjóðfélagslegri umræðu í sjónvarpi. Í byrjun faraldurs var vel staðið að textun á sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta. Þá var ánægjulegt að sjá táknmálið sýnilegt. En betur má ef duga skal og er því mikilvægt að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu, að halda áfram á sömu braut. Óskastaðan væri sú að við stjórnmálamenn gætum sagt „hakúna matata“ í þessum málum, en þangað til er það okkar að þrýsta á þetta réttlætismál,“ sagði Halla Signý að lokum.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi fjallaði um störf án staðsetningar á málþingi

Deila grein

03/02/2021

Sigurður Ingi fjallaði um störf án staðsetningar á málþingi

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra héldu í síðustu viku málþing um störf án staðsetningar undir yfirskriftinni Fólk færir störf. Sérstaklega var sjónum beint að stefnu ríkisstjórnarinnar um að 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði auglýst án staðsetningar árið 2024.

Í ræðu sinni fór Sigurður Ingi yfir stöðuna á verkefninu og sýn sína á uppbyggingu starfa án staðsetningar. „Ég man eftir því að hafa fyrir nokkru síðan lesið grein um mannauðsmál fyrirtækja þar sem rætt var við forstjóra veitingasölukeðju í Bretlandi,“ sagði Sigurður Ingi. „Það hafði vakið mikla athygli hvað viðhorf og framkoma starfsmanna keðjunnar var jákvæð og að starfsmenn hefðu hærri starfsaldur en í sambærilegum keðjum. Forstjórinn var spurður hvað olli þessu, hvernig stefna fyrirtækisins í mannauðsmálum væri frábrugðin annarra. Hann sagði að stefnan væri frekar einföld. Þau legðu sig fram um að ráða hamingjusamt fólk til starfa. Ég nefni þetta hér og nú af því að ég held að störf án staðsetningar snúist ekki aðeins um byggðamál, ekki aðeins um það að ráða þann hæfasta burtséð frá búsetu heldur ekki síst um það að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt.“

Árið 2019 skipaði ríkisstjórnin verkefnishóp með fulltrúum allra ráðuneyta til að annast framkvæmd verkefnisins og tryggja að þau markmið sem að er stefnt náist. Verkefnisstjórn er í höndum fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. 

Í febrúar í fyrra óskað hópurinn eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum og stofnunum þeirra á höfuðborgarsvæðinu um heildarfjöldi starfa og þar af fjölda starfa sem geta verið án tilgreindrar staðsetningar. 

100 stofnanir af 122 skiluðu greiningu og voru niðurstöðurnar kynntar í ríkisstjórn í nýliðnum janúar. Þar kemur fram að mögulegt er að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar eða 13% stöðugilda þeirra stofnana sem svöruðu. Hlutfallið var mismunandi eftir ráðuneytum, hæst hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 38% og lægst hjá dómsmálaráðuneytinu, eða 2%.

Staðir, störf og hamingja – ræða ráðherra á málþingi SSNE

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Allt ofbeldi gegn samborgurum okkar er ofbeldi gagnvart frjálsu samfélagi

Deila grein

31/01/2021

Allt ofbeldi gegn samborgurum okkar er ofbeldi gagnvart frjálsu samfélagi

Það setur að manni óhug við þau tíðindi að skotið hafi verið á fjölskyldubíl borgarstjóra. Komu þessar fréttir í kjölfar tíðinda af því að skotið hafi verið á skrifstofur stjórnmálaflokka. Á Íslandi njótum við þess að búa í öruggu samfélagi þar sem umburðarlyndi er ríkjandi. Það hefur einnig átt við í stjórnmálunum þótt merkja hafi mátt aukna heift í umræðum á þeim vettvangi á síðustu misserum. Það er ljóst að öfgafullur málflutningur getur ýtt undir ofstæki sem er eitur í samfélögum.

Það geta allir ímyndað sér þann óhugnað að óttast um öryggi sitt og líf, öryggi barna sinna og sinna nánustu. Allt ofbeldi gegn samborgurum okkar er ofbeldi gagnvart frjálsu samfélagi, allt ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum og stjórnmálaflokkum er ofbeldi gagnvart lýðræðinu. Það fordæmum við í Framsókn.

Stöndum saman vörð um okkar góða, opna og lýðræðislega samfélag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður

Jón Björn Hákonarson, ritari

Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður

Categories
Fréttir

Stafræn þróun má ekki skipta landsmönnum í tvennt !

Deila grein

27/01/2021

Stafræn þróun má ekki skipta landsmönnum í tvennt !

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar“ til afgreiðslu á Alþingi.

„Enda þótt við búum við sterka innviði og átak í stafrænni stjórnsýslu sýni mjög góðan árangur gefa alþjóðlegar greiningar og rannsóknir til kynna að Ísland standi að mörgu leyti illa þegar kemur að stafrænni þróun og þá ekki síst ef tekið er mið af stöðu okkar helstu samanburðarríkja. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð,“ sagði Silja Dögg í færslu á Facebook.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta heildstæða stefnu um stafræna þróun með aðgerðaáætlun til fimm ára hið skemmsta. Markmiðið verði:

a. að móta framtíðarsýn stafrænnar þróunar á Íslandi og aðgerðatillögur um hvernig megi efla stafræna þróun innan fyrirtækja, með áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki, efla stafræna hæfni á vinnumarkaði, efla stafræna þróun í rannsóknum, nýsköpun og frumkvöðlastarfi og efla stafræna hæfni á öllum skólastigum, og þar á meðal í sí- og endurmenntun,

b. að leggja áherslu á netöryggismál, gagnaaðgengi og nýtingu gagna, viðeigandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli, hvort sem snýr að atvinnulífinu eða hinu opinbera, stafrænt stjórnkerfi, stafræna innviði, gervigreind, íslensku í stafrænum heimi, hvernig betur megi grípa þau tækifæri sem stafræn þróun hefur í för með sér og hvernig lágmarka má neikvæðar afleiðingar stafrænnar þróunar.

Forsætisráðherra skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2021.

„Notkun veraldarvefsins og stafrænnar tækni fjórðu iðnbyltingarinnar breytir heiminum. Hún hefur víðtæk áhrif á hagkerfi nútímans og verður samfélögum sífellt mikilvægari. Þessi þróun er óumflýjanleg og mannkyninu gagnleg og getur skapað gríðarleg verðmæti. Í slíkri þróun felast í senn mikil tækifæri og hættur og því er gífurlega mikilvægt að undir hana séum við búin. Sú hætta kann að raungerast að stafræn þróun skipti landsmönnum í tvennt, þ.e. í þá sem hafa þekkingu og getu til að hagnýta stafræna tækni og þá sem það geta ekki. Á alþjóðavettvangi er mikil áhersla lögð á verðmætasköpun og ávinning af hagnýtingu stafrænnar tækni. Er þannig hafið kapphlaup sem þjóðríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar verða að taka þátt í ætli þau að vera samkeppnishæf og tryggja lífsgæði.

Samkeppnishæfni Íslands.

Enda þótt við búum við sterka innviði og átak í stafrænni stjórnsýslu sýni mjög góðan árangur gefa alþjóðlegar greiningar og rannsóknir til kynna að Ísland standi að mörgu leyti illa þegar kemur að stafrænni þróun og þá ekki síst ef tekið er mið af stöðu okkar helstu samanburðarríkja. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Almenningur gegnir fyrst og fremst hlutverki neytenda stafrænnar tækni. Nauðsynlegt er að bæta tækni- og upplýsingalæsi og efla frumkvæði þegar kemur að nýtingu stafrænnar tækni til framþróunar og sköpunar. Ef svo fer fram sem horfir mun staða okkar draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þjóðarinnar allrar. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð.

Samstarf innan Norðurlanda.

Önnur Norðurlönd standa mun framar en Ísland þegar að stafrænni umbreytingu kemur en þau ríki lenda jafnan mjög ofarlega í öllum samanburði. Ísland hefur tækifæri til að líta til reynslu þeirra, t.d. í norrænu samstarfi. Þegar hefur samstarf á ýmsum sviðum litið dagsins ljós, eins og Framkvæmdaáætlun Norðurlandaráðs 2021–2024, um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi, og Ráðherrayfirlýsingin Digital North 2.0 bera með sér. Annars staðar á Norðurlöndum hefur jafnframt verið unnin heildstæð stafræn stefna, sem Ísland getur litið til. Má þar sérstaklega benda á stefnur Dana, Norðmanna og Svía, en í Finnlandi eru slík málefni í raun samofin annarri stefnumótun. Við vinnuna mætti líta til reynslu Norðurlandaþjóðanna og annarra minni þjóða sem lengst eru komnar í mótun stafrænnar stefnu, svo sem Hollands og Írlands.

Stafræn tækni og efnahagsmál.

Stafræn þróun og þróun í átt til aukinnar sjálfbærni eru umfangsmestu breytingarnar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Góð nýting stafrænnar tækni getur m.a. aukið framleiðni, hvatt til nýsköpunar, bætt þjónustu, einfaldað þátttöku í samfélaginu, skapað störf, bætt lífsgæði, aukið lífslíkur og haft jákvæð áhrif á hagvöxt. Aukin færni og þekking á stafrænni tækni hefur þannig í för með sér fjölbreyttan ávinning. Hagnýting stafrænnar tækni getur aukið efnahagslega samkeppnishæfni og leikið lykilhlutverk í umhverfismálum og leikur lykilhlutverk í framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur skuldbundið sig til að vinna að. Efling stafrænnar hæfni og nýting stafrænnar tækni er jafnframt talin ein besta leiðin til að koma efnahagskerfi heimsins út úr þeirri kreppu sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið.

Stefna stjórnvalda.

Stjórnvöld gera sér grein fyrir mikilvægi þess að bregðast við þeim áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér og að nýta þau tækifæri sem hún býður upp á. Þetta má m.a. leiða af umfjöllun í skýrslu forsætisráðuneytisins um fjórðu iðnbyltinguna og aðgerðaáætlun í kjölfar hennar, nýsköpunarstefnunni, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2022, en ekki síður í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kemur m.a. fram að lögð verði áhersla á að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum.

Þrátt fyrir að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi málefnisins og mikil og góð vinna hafi þegar verið unnin á ýmsum sviðum, svo sem í rafrænni stjórnsýslu, með máltæknistefnu, norrænu samstarfi þar sem stafræn tækni leikur lykilhlutverk, stefnumótun um gervigreind og tillögum að aðgerðum tengdum fjórðu iðnbyltingunni, þarf að líta heildstæðar á stafræna þróun og þá hæfni sem til þarf eigi Ísland að geta viðhaldið samkeppnishæfni sinni og lífsgæðum. Ljóst er að stafræn þróun hefur áhrif um allt samfélagið og ekkert er henni óviðkomandi. Því er nauðsynlegt að tryggja yfirsýn og samræmingu allra aðgerða helstu hagaðila til að nýta megi samlegðaráhrif til fullnustu, tryggja þekkingaryfirfærslu, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja að ekkert gleymist í þessari mikilvægu vinnu. Í dag vantar m.a. mikið upp á að til staðar séu skýr stefna og aðgerðir varðandi stuðning við fyrirtæki í stafrænni umbreytingu, eflingu stafrænnar hæfni á vinnumarkaði og að efling stafrænnar hæfni sé skýrt og markvisst fram sett í menntastefnu og aðgerðum í menntamálum. Hins vegar má sjá allt þetta skýrt sett fram í fjölmörgum stefnum og aðgerðaáætlunum þeirra landa sem við helst berum okkur saman við, svo sem Norðurlandanna. og í löndum sem vel hentar að líta til og læra af í þessum málum, svo sem í Hollandi og Írlandi.

Hvetja þarf og styðja stjórnvöld, sveitarfélög, menntakerfið, atvinnulífið og launþega til að grípa til skjótra, öflugra og markvissra aðgerða í þeim tilgangi að efla stafræna þekkingu og færni og auka þannig tækifæri til nýtingar stafrænnar tækni í íslensku atvinnulífi og samfélaginu í heild. Að öðrum kosti er hætt við að Ísland dragist aftur úr helstu samanburðarríkjum þegar að stafrænni þróun kemur, standi höllum fæti í alþjóðlegri samkeppni og að almenningur muni því búa við minni lífsgæði. Þetta verður best gert með öflugu samstarfi allra hagaðila, þvert á atvinnugreinar, jafnt í hinu opinbera sem einkageiranum. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að unnið verði markvisst að samstarfi og stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar svo tryggja megi áframhaldandi samkeppnishæfni landsins og lífsgæði.“

Categories
Fréttir

„Öflug forysta í menntamálum og málefnum barna skiptir máli“

Deila grein

21/01/2021

„Öflug forysta í menntamálum og málefnum barna skiptir máli“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir öfluga forystu í menntamálum og í málefnum barna skipti máli til að koma þróunarverkefnum til framkvæmda. Í störfum þingsins á Alþingi í gær nefndi hún sem dæmi annars vegar stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna og hins vegar verkefnið Tækifæri fyrir alla: Frábært skólastarf í Fellahverfi. Líneik Anna segir þessi verkefni munu skipta gríðarmiklu máli fyrir þróun íslensks samfélags og aðgang nemenda af erlendum uppruna að menntun og tækifærum hér á landi.

„Stöðumatið er verkfæri sem skólakerfið hefur lengi kallað eftir til að kortleggja námsstöðu nemenda sem koma inn í íslenskt skólakerfi á mismunandi tímum skólagöngunnar. Stýrihópur hefur unnið stöðumatið að sænskri fyrirmynd og mun fylgja innleiðingu eftir með kynningu, leiðsögn og áframhaldandi þróun. Matið getur nýst grunnskólum og framhaldsskólum og unnið er að útfærslu fyrir leikskóla. Verkefnið miðar að því að bregðast sem fyrst við námsþörfum nýrra nemenda, byggja á styrkleikum þeirra og efla námshæfni með markvissri íhlutun á fyrstu stigum í skólagöngu í nýju landi. Stöðumatið er fyrir einstaklinga og skólasamfélagið í heild og er nú aðgengilegt á 40 tungumálum á vef Menntamálastofnunar. Hitt verkefnið er samstarfsverkefni til þriggja ára um að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna í Fellahverfi,“ segir Líneik Anna.

„Þessi verkefni sýna hvernig ríki og sveitarfélög geta unnið saman að skólamálum þó að ábyrgðinni á verkefninu sé deilt milli stjórnsýslustiga. Verkefnin eiga eftir að nýtast öllum skólum landsins. Öflug forysta í menntamálum og málefnum barna skiptir máli til að koma þróunarverkefnum af þessu tagi til framkvæmda. Ég fagna þessari vinnu mjög. Við svona fréttir klæjar mig eiginlega í puttana að fá tækifæri til að vinna með þessi tæki í skólastarfi,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

„Stórar kerfisbreytingar“ segir Ásmundur Einar

Deila grein

20/01/2021

„Stórar kerfisbreytingar“ segir Ásmundur Einar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur fengið samþykki Alþingis fyrir auknu fjármagni svo að þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verði bætt.

Veita á 80 milljónum króna til Greiningarstöðvar til þess að vinna á biðlistum. Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðtíma barna á aldrinum 2-6 ára eftir þjónustu.

Ásmundur Einar boðar stórar kerfisbreytingar

„Það er mikilvægt að þessi fjárveiting hafi verið samþykkt enda eiga börn ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem bæta lífsgæði þeirra. Við þurfum líka að vera meðvituð um að samhliða þessu munum við innleiða stórar kerfisbreytingar á næstu árum þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf,“ segir Ásmundur Einar. Með breytingunum verði hægt að setja aukinn kraft í greiningu og ráðgjöf fyrir þau börn sem hafa miklar þarfir fyrir stuðning. Tryggja á börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þvert á kerfi og tryggja að hin mismunandi þjónustukerfi innan velferðarþjónustunnar vinni saman til að tryggja farsæld barna.

Með því að bjóða snemmtækan stuðning á fyrri þjónustustigum megi draga úr þörf fyrir þjónustu Greiningarstöðvarinnar. Þannig skapist svigrúm til að sinna þeim börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa miklar stuðningsþarfir.

Biðlistar lengst á síðustu árum

Biðlistar hjá Greiningarstöðinni hafa lengst smátt og smátt á síðustu þremur árum. Bið eftir greiningu er nú 13-24 mánuðir en var 10-17 mánuðir árið 2017. Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður GRR, sagði í samtali við fréttastofu RUV um miðjan desember að tilvísunum til stöðvarinnar hefði fjölgað mikið á undanförnum árum enda vantaði betri samhæfingu milli þeirra kerfa sem ættu að mæta þörfum barna. Hún sagði að biðin væri lengst hjá börnum á aldrinum 2-6 ára.

Soffía sagði að ástæðan fyrir mikilli eftirspurn væri margþátta. Vandi barna hefði aukist, ekki síst vegna þess að kerfunum hefði ekki tekist nógu vel að mæta þörfum þeirra. Það þyrfti markvissari vinnubrögð og að kerfin ynnu betur saman svo börn væru gripin fyrr. Hún sagðist binda vonir við að biðin eftir greiningu myndi styttast með fyrirhugaðri lagasetningu um samþættingu þjónustu í þágu barna. Með henni yrði gerð skýrari grein fyrir því hvaða hópur ætti erindi á GRR og þannig ættu biðlistarnir að styttast.

Soffía sagði að hér á landi hefði aldrei jafnmikið gerst í málefnum barna eins og einmitt nú, og vísaði til greiningarvinnu innan stjórnsýslunnar og frumvarps félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu barna, sem nú hefur verið samþykkt. „Nú loks eru börn sett á dagskrá og það er mikið fagnaðarefni,“ sagði hún.