Categories
Fréttir

Upphaf skólaársins er tákn um vilja, þrek og samhug

Deila grein

28/08/2020

Upphaf skólaársins er tákn um vilja, þrek og samhug

„Virðulegur forseti. Nú reynir á íslenskt samfélag en ég er sannfærð um að okkur takist að ná utan um þá áskorun sem farsóttin er. Mín meginmarkmið sem ráðherra mennta- og menningarmála eru að standa vörð um skólahald í landinu og styrkja menningu og íþróttir. Ég er sannfærð um að það takist.

Í vor tókst okkur að halda menntakerfinu gangandi. Ísland var eitt fárra ríkja sem vann það afrek. Ljóst er að skólastjórnendur, kennarar, nemendur og foreldrar lögðu mikið á sig til að halda úti skólastarfi. Leiðarljósið í þeirri vinnu var velferð nemenda. Það var mjög ánægjulegt að sjá nemendur útskrifast og halda áfram. Það gladdi hjarta mitt mjög mikið að sjá að á Íslandi væri hægt að gera þessa hluti á sama tíma og skólabörn víða í veröldinni hafa ekki komið inn í skólana sína frá því í febrúar. Það er hryllileg tilhugsun. Hér á landi höfum við náð að halda utan um grunnstoðir þessa samfélags. Auðvitað eru áskoranir og við vitum að það fylgir þessari farsótt.

Fyrsti skóladagur vetrarins markar nýtt upphaf í huga nemenda en í þetta sinn er upphaf skólaársins einnig tákn um vilja, þrek og samhug þeirra sem bera ábyrgð. Við munum gera það sem þarf til að tryggja fjármagn inn í menntakerfið og að skólahald verði fyrir sem minnstri röskun. Við sjáum öll hversu viðkvæm staðan er en við verðum öll að vinna í sameiningu og samvinnu. Ég hef verið í mikilli samvinnu við öll skólastig landsins og er stolt af skólafólki okkar og kennaraforystu. Á næstunni mun ég kynna nýja menntastefnu fyrir Ísland en tilgangur hennar er að móta öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem nær til framtíðarinnar.

Virðulegur forseti. Ljóst er að það hefur reynt á menninguna og íþróttirnar. Stjórnvöld gripu strax til aðgerða með því að veita aukið fjármagn til menningarmála og íþrótta. Ég vil nefna að við erum áfram að vinna með þá stöðu. Það er ljóst að við þurfum að fara í frekari aðgerðir og mig langar að nefna að við erum að skoða listasjóð sem gæti náð til listamanna sem hafa misst tekjurnar tímabundið. Þarna erum við að horfa í átt til annarra Norðurlanda. Auðvitað hefur það líka verið tilkynnt að hlutabótaleiðin hefur verið framlengd. Hún hefur verið að nýtast listamönnum afar vel og það er gott að við séum með slík úrræði til að styðja betur við samfélagið okkar. Það sama á við um íþróttirnar. Auðvitað viljum við geta mætt og stutt okkar lið og við erum að vonast til þess að þær aðgerðir sem við höfum gripið til verði til þess að von bráðar getum við mætt á völlinn til þess. Við erum að gera allt sem við mögulega getum til að tryggja að íþróttastarf í landinu nái að halda áfram og að börnin okkar geti sótt æfingar sínar. Við erum ekki bara að gera allt sem við mögulega getum til þess að verja grunnstoðir samfélagsins heldur líka til að efla þær. Ég er sannfærð um að við munum ná utan um þessa stöðu, tryggja öflugt skólahald og líka sækja fram á sviði menningar og íþrótta.“

Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknar á Alþingi 27. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

Boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar

Deila grein

27/08/2020

Boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar

Virðulegi forseti.

Í viðtali í síðustu viku sagði yfirlæknir ónæmisdeildar Landspítalans, með leyfi forseta: „Það sem gerist er að það verður þessi gríðarlega samvinna og samskipti. Okkar fremstu vísindamenn á alþjóðavísu og fyrirtæki á þessum markaði fara að deila upplýsingum. Þetta er einstakt – sigur fyrir mannkynið, ef ég má orða það sem svo“.

Það viðhorf er orðið ríkjandi að samvinnan og samskiptin muni leiða okkur út úr þessu ástandi sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Þetta er viðhorf sem er inngróið í stefnu Framsóknar enda hefur flokkurinn í gegnum tíðina verið boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur fært okkur mörg og stór verkefni. Hver hefði ímyndað sér fyrir ári síðan að fara þyrfti í aðgerðir til að tryggja flugsamgöngur til landsins, tryggja almenningssamgöngur milli svæða, heimila sérstaklega fjarfundi hjá sveitarstjórnum því fólk gæti ekki komið saman,  og margt fleira má telja upp. Þá má ekki gleyma því að í miðju kófinu í vor voru samþykkt lög og þingsályktanir um samgönguverkefni sem að heildarumfangi nema 900 milljörðum króna næstu 15 árin. Í því felast störf, meira umferðaröryggi og aukin lífsgæði um landið allt.

Það sem stendur upp úr í mínum huga er þó sú samheldni sem hefur einkennt viðbrögð þjóðarinnar. Fólk hefur tekið höndum saman um að berjast við veiruna þótt það hafi kostað fórnir, bæði efnahagslegar og hvað varðar breytingu á daglegu lífi fólks. En líkt og þjóðin hefur staðið með sóttvarnaryfirvöldum þá mun Framsókn og þessi ríkisstjórn standa með þjóðinni. Nú er mikilvægasta verkefnið að verja störf og skapa störf – fjölbreytt störf um allt land því áfall ferðaþjónustunnar er áfall landsbyggðanna. Í viðbragðinu nú leika tvö ráðuneyti Framsóknar lykilhlutverk, félags- og barnamálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem tryggja velferð okkar og skapa tækifæri okkar fyrir framtíðina.

Stærsta ákvörðun, sú langstærsta, sem þessi ríkisstjórn hefur tekið er ákvörðunin um að mæta þessari kreppu ekki með skattahækkunum eða niðurskurði heldur með sókn. Við sækjum fram með auknum fjárfestingum ríkisins á sama tíma og við grípum þá sem lenda tímabundið í hremmingum vegna atvinnumissis. Þetta getur þessi ríkisstjórn af því hún hefur breiða skírskotun. Hún er ríkisstjórn jafnvægis og með þessu jafnvægi hefur okkur tekist að ná samstöðu um að breyta námslánakerfinu, barnamálakerfinu, húsnæðiskerfinu, samgöngukerfinu – svo nokkur mál Framsóknar séu nefnd.

Heimsfaraldurinn getur leitt til sundrungar og átaka en líkt og þegar kemur að því að ráða niðurlögum veirunnar sjálfrar þá þurfum við samvinnu til að byggja upp sterkara samfélag. Framsókn mun hér eftir sem hingað til vinna að sátt um framþróun samfélagsins. Sú sátt verður ekki til með öfgum til hægri eða vinstri. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknar á Alþingi 27. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

Mikilvægar breytingar á lögum er varða vinnumarkaðinn fyrir Alþingi

Deila grein

26/08/2020

Mikilvægar breytingar á lögum er varða vinnumarkaðinn fyrir Alþingi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fékk samþykkit í ríkisstjórn í dag frumvarp um breytingu á lögum er varða vinnumarkaðinn til að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins.

„Ég held að okkur sé það öllum ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjöldaatvinnuleysi muni dragast á langinn. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tryggjum stöðu heimilanna við þessar krefjandi aðstæður og stöndum með fjölskyldum landsins, og það erum við að gera með þessum aðgerðum,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

  • Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fara úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt.
  • Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði.
  • Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.

Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna Covid-19 faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021.

Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfali vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hlutabótaleiðin, hefur verið lengdur til 31. október 2020. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar en samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 50 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.

Þá verða tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.

Categories
Fréttir

„Nám er tækifæri“

Deila grein

26/08/2020

„Nám er tækifæri“

„Við vitum að næstu misseri verða krefjandi á ýmsum vígstöðvum en við ætlum að blása til sóknar og gera atvinnuleitendum, sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur, betur kleift að stunda nám án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

„Það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að verja fjármunum í að virkja atvinnuleitendur til náms. Slíkt skilar sér í aukinni færni, þekkingu og verðmætum fyrir samfélagið allt til lengri tíma.“

  • Atvinnuleitendum verður gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. 
  • Frítekjumark vegna skattskyldra tekna einstaklinga sem koma af vinnumarkaði hefur verið hækkað úr 4,1 m.kr. í 6,8 m.kr. til að tryggja þessum hópi rýmri rétt til námslána. 

Aðgerðirnar eru hluti af átakinu „Nám er tækifæri“ en markmiðið er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

  • Fjármögnun er tryggð fyrir allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám í dagskóla á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám mun það ekki hafa áhrif á bótarétt og nýtingu hans.
  • Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Atvinnuleitendum verður einnig greidd leið í brúarnám.
  • Þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og kennslugreinum.

Ríflega helmingur þeirra sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur hafa einungis lokið grunnnámi. 500 milljónir króna verða settar í aðgerðir til að fjölga verulega þátttakendum í vottuðum námsleiðum framhaldsfræðslunnar og símenntastöðvanna í samstarfi Vinnumálastofnunar og Fræðslusjóð. Þá er fjármagn tryggt fyrir allt að 150 námsmenn í háskólabrýr.

Fjölbreyttar aðgerðir til uppbyggingar

100 milljónir króna verða settar í sérstakan kynningar- og þróunarsjóð til að skapa svigrúm til þróunar á nýjungum í námi, kennsluaðferðum og mati á reynslu atvinnuleitenda. 

Þá verður ráðist í fjölbreyttar aðgerðir til uppbyggingar:

  • Má þar nefna samskiptatorg atvinnu- og menntamála á Suðurnesjum.
  • Aukin áhersla hjá Vinnumálastofnun til að aðstoða viðkvæmustu hópana aftur inn á vinnumarkað ásamt því að NEET verkefni Vinnumálastofnunar, í samstarfi við VIRK, sem snýr að því að virkja 18-29 ára einstaklinga sem hafa flosnað upp úr námi eða verið inn og út af vinnumarkaði verður útvíkkað á landsvísu.
Categories
Fréttir

Framsóknarfélag Múlaþings samþykkir framboðslista

Deila grein

21/08/2020

Framsóknarfélag Múlaþings samþykkir framboðslista

Framboðslisti fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, var samþykktur á almennum félagsfundi Framsóknarfélags Múlaþings sem fram fór í gær. Kosið verður til sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags 19. september næstkomandi.

Framboðslisti Framsóknar hefur tekið lítils háttar breytingum frá listanum sem búið var að samþykkja vegna áður boðaðra kosninga í vor.

Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, færist úr þriðja sæti upp í annað sæti. Jónína Brynjólfsdóttirverkefnastjóri hjá Austurbrú, færist úr fimmta sæti upp í það þriðja og Helga Erla Erlendsdóttir, fyrrverandi skólastjóri á Borgarfirði, fer að eigin ósk úr öðru sæti í það fimmta.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, leiðir framboðslistann og Eiður Ragnarsson, ferðaþjónustubóndi og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, skipar fjórða sæti framboðslistans.

Framboðslisti Framsóknar var samþykktur samhljóða og mikill hugur er í Framsóknarfólki fyrir komandi kosningar. Sérstakur gestur fundarins var Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sem færði fundinum og frambjóðendum kveðjur frá þingflokki Framsóknarmanna.

B-lista Framsóknarflokks fyrir sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, 19. september næstkomandi skipa:

  1. Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi, Fljótsdalshéraði
  2. Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi, Seyðisfirði
  3. Jónína Brynjólfsdóttir, Fljótsdalshéraði
  4. Eiður Ragnarsson, Djúpavogi
  5. Helga Erla Erlendsdóttir, Borgarfirði eystri
  6. Helga Rós Magnúsdóttir, Seyðisfirði
  7. Benedikt Hlíðar Stefánsson, Fljótsdalshéraði
  8. Alda Ósk Harðardóttir, Fljótsdalshéraði
  9. Guðmundur Björnsson Hafþórsson, Fljótsdalshéraði
  10. Jón Björgvin Vernharðsson, Fljótsdalshéraði
  11. Gunnhildur Helga Eldjárnsdóttir, Seyðisfirði
  12. Karl Snær Valtingojer, hreppsnefndarmaður, Djúpavogi
  13. Guðrún Ásta Friðbertsdóttir, Fljótsdalshéraði
  14. Þorsteinn Kristjánsson, Borgarfirði eystra
  15. Valgeir Sveinn Eyþórsson, Fljótsdalshéraði
  16. Óla Björg Magnúsdóttir, Seyðisfirði
  17. Eiður Gísli Guðmundsson, Djúpavogi
  18. Guðfinna Harpa Árnadóttir, Fljótsdalshéraði
  19. Hjalti Þór Bergsson, Seyðisfirði
  20. Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, Fljótsdalshéraði
  21. Þorvaldur Jóhannsson, fv. Bæjarstjóri, Seyðisfirði
  22. Gunnhildur Ingvarsdóttir, Fljótsdalshéraði

Mynd: Frá vinstri, Eiður Ragnarsson, Vilhjálmur Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson og Jónína Brynjólfsdóttir.  

Categories
Fréttir

Endurskoðum vegalög

Deila grein

18/08/2020

Endurskoðum vegalög

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir í færslu á Facebook að endurskoða verði vegalög þar sem að allt of margir vegkaflar hafi verið aflagðir þar sem jarðir eða byggingar séu í fullum notum og auðlindanýting enn stunduð. Vegarkaflar mega ekki grotna niður þó engin eigi lögheimili á viðkomandi stöðum.

Alls hafa 262 vegarkaflar verið felldir af vegaskrá á tímabilinu 2014 til 2020. Lengd þeirra er samtals 143 kílómetrar. Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu, um niðurfellingu vega af vegaskrá.

Samanlagt hafa flestir kílómetra þjóðvega verið aflagðir í Norðurþingi. Flestir vegkaflar hafa hins vegar verið aflagðir í Skagafirði.

Vegagerðin fellir vegi af vegaskrá ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrði vegalaga til þess að geta talist þjóðvegir. Eftir að vegur fellur af vegaskrá er veghald hans ekki lengur á ábyrgð Vegagerðarinnar. 

Categories
Fréttir

Minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum

Deila grein

18/08/2020

Minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum

Hér að neðan fer minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum sem lagt var fram í ríkisstjórn:

Minnisblaðið er unnið að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á sóttvarnaráðstöfunum á landamærum. Minnisblaðið fylgir í kjölfar greinargerðar um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana frá því í júní 2020. Þá þótti hvorki rétt að opna né loka landamærum algjörlega heldur beita skimun til að lágmarka eftir fremsta megni líkur á að smit bærust til landsins og leiddu til harðra sóttvarnaaðgerða. Skýrt var frá upphafi að þær ákvarðanir þyrftu að vera í stöðugri endurskoðun í ljósi þeirrar þekkingar sem aflast og vegna þess að faraldurinn tekur sífelldum breytingum.

Niðurstöður

  • Í ljósi stöðu faraldursins alþjóðlega og hérlendis er þjóðhagslega hagkvæmt að skima á landamærum, í þeim skilningi að skimunin virðist svara kostnaði þar sem stórt hlutfall smitaðra er greindur og þeir sem ferðast valda samfélagslegum kostnaði vegna smithættu. Landamæraskimunin hefur auk þess fælingarmátt gagnvart einstaklingum sem vita að þeir kunna að bera veiruna. Ferðalangar ættu að greiða allan kostnað við skimun.
  • Ef gera á breytingar á landamæraskimun nú virðast hin hagrænu rök frekar hníga að því að herða en losa kröfur. Ef of langt er gengið í þeim efnum er einfaldara að vinda ofan af þeim ákvörðunum en að hemja útbreitt smit. Hvort rétta leiðin við smitvarnir á landamærum sé að hefja skimun allra sem hingað koma ásamt sértækri gjaldtöku og stífari kröfum fyrir þá sem hafa sterk samfélagsleg tengsl hér, hefja almenna tvöfalda skimun með sóttkví eða beiting einhverra annarra úrræða ræðst fyrst og fremst að sóttvarnarsjónarmiðum við núverandi aðstæður. Mikilvægt er að skýrt sé við hvaða aðstæður hægt verður að létta ráðstöfunum.
  • Að öllu jöfnu hníga rík hagfræðileg rök að því að þeir sem leggja í ferðalög greiði sérstaklega fyrir þann samfélagslega kostnað sem af þeim hljótast við núverandi aðstæður til viðbótar við greiðslu fyrir kostnað af landamæraskimun.

Samantekt

  • Í grundvallaratriðum hafa forsendur ekki breyst frá því greinargerð um efnahagsleg sjónarmið við sóttvarnaraðgerðir á landamærum var birt í júní. Enn er með öllu óvíst hvenær faraldurinn gengur yfir og hvenær bóluefni verður aðgengilegt. Þó er enn ljósara nú en fyrr að faraldurinn verður viðvarandi á heimsvísu þar til bóluefni kemst í almenna dreifingu. Sú reynsla sem hefur byggst upp í sumar er hins vegar gagnleg við að meta skynsamleg viðbrögð. Við túlkun þeirra upplýsinga ber þó að hafa í huga að faraldurinn er síbreytilegur bæði hérlendis og erlendis.
  • Við núverandi aðstæður heimsfaraldurs felst bæði ábati og kostnaður í því að létta á ferðatakmörkunum. Ábatinn birtist með augljósustum hætti í tekjum ferðaþjónustunnar en ekki er við því að búast að ferðamenn sæki landið heim í teljandi mæli séu þeir krafðir um smitgát eða sóttkví í marga daga eftir komu til landsins. Ferðatakmarkanir hér á landi og erlendis eru þó langt frá því að vera eini ráðandi þátturinn um fjölda ferðamanna því ferðavilji fer ekki síður eftir stöðu faraldursins hér á landi og erlendis.
  • Ábati af opnum landamærum felst einnig – og ekki síst – í því að viðhalda og skapa ný viðskiptatengsl, tryggja frjálst flæði vinnuafls og þeim útflutningsmöguleikum sem felast í þéttriðnu flutningsneti, bæði til og frá landinu. Þessi ábati er þó líklega minni á meðan faraldur geisar á helstu markaðssvæðum. Einnig felst samfélagslegur ábati í því að sá fjöldi Íslendinga sem býr erlendis geti komið til landsins og að einstaklingar geti ferðast erlendis.
  • Frá þjóðhagslegu sjónarhorni hafa minni ferðalög landsmanna erlendis þó þann kost að flytja a.m.k. hluta af erlendri neyslu Íslendinga til landsins sem styður við innlend efnahagsumsvif. Reynsla undanfarinna vikna bendir til þess að tilflutningur neyslu sé síst minni en vænta mátti fyrir. Ekki er þó ljóst hvort að sá stuðningur sem hagkerfið hefur fengið af flutningi neyslu til landsins reynist viðvarandi eftir sumarið.
  • Svo lengi sem einhverjar líkur eru á því að smitaðir ferðalangar komist inn í landið felst ekki aðeins ábati heldur einnig kostnaður af ferðalögum á milli landa. Hann kemur fram í aukinni tíðni harðari sóttvarnaaðgerða, veikindum og hugsanlegum dauðsföllum auk tapaðra vinnustunda vegna sóttkvía. Við það bætist óefnislegur kostnaður vegna ótta og minna ferða- og athafnafrelsis innanlands. Kostnaður einstaklinga við ferðalög ætti að endurspegla þessa áhættu.
  • Reynsla Íslands og annarra eyríkja bendir til að það sé líklega ekki hægt að koma algjörlega í veg fyrir að veiran berist til landsins. Aðgerðir á landamærum geta þó haft veruleg áhrif. Efnahagsleg áhrif ólíkra aðgerða á landamærunum ráðast ekki síst af því hversu mikið þær draga úr líkunum á því að veiran berist til landsins, að hún dreifist hér og að smit leiði til harðra sóttvarnaaðgerða. Svör við þessum grundvallarspurningum eru frekar í fórum sérfræðinga í smitsjúkdómum en hagfræðinga. Þó má leiða af því líkur að fjórðungur þeirra sem var með veiruna við komuna til landsins hafa ekki greinst við fyrstu skimun. Af fjórum hópsýkingum í sumar hefur svo ein endað í faraldri.
  • Ákvörðun um sóttvarnaráðstafanir á landamærum verður að byggja á fjölþættu hagsmunamati, sem einskorðast ekki við efnahagslega greiningu, og endurspegla þá grundvallaróvissu sem er um þróun faraldursins. Nú er ljóst að eftirspurn er meðal ferðamanna og Íslendinga að ferðast til og frá landinu. Reynslan sýnir einnig að þessum ferðalögum fylgir áhætta sem mikilvægt er að lágmarka og að skimun á landamærum hefur dregið verulega úr mögulegum samfélagslegum kostnaði ferðalaga milli landa þótt hún sé áfram nokkur nema frekar verði að gert. 

Meginmál

Efnahagslegur ávinningur er almennt af opnum landmærum. Íslenska hagkerfið er háð utanríkisverslun og íslenskur vinnumarkaður er þéttofinn þeim evrópska, enda búa hér um 50.000 erlendir ríkisborgarar og þúsundir Íslendinga búa utan landsteinanna. Auknar tengingar við útlönd stuðla að hagsæld; einangrun til lengdar hefur í för með sér margvíslegan kostnað. Efnahagslegur ávinningur af tíðum og fjölbreyttum samgöngum er þó líklega minni við núverandi aðstæður þar sem víðtækar sóttvarnaaðgerðir eru í öllum okkar helstu viðskiptalöndum.

Efnahagslegur kostnaður af smitum, ótta við smit og sóttvarnaráðstöfunum er verulegur. Kostnaðurinn felst að miklu leyti í tekjutapi vegna minni umsvifa. Einnig fylgir því beinn kostnaður að aðlagast smithættu, vegna sóttkvía og ekki síst vegna veikinda og dauðsfalla en langtímaáhrif af því að veikjast af COVID-19 eru enn óþekkt. Niðurstaða rannsóknar í Bandaríkjunum var sú að samfélagslegur kostnaður af hverju COVID-19 smiti væri jafnvirði um 40 milljóna króna á núverandi gengi.

Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli. Mun meiri kostnaður er af almennum sóttvarnaaðgerðum, svo sem samkomubanni, en sértækum aðgerðum á borð við smitrakningu og sóttkví. Þegar faraldurinn stóð sem hæst var kortavelta Íslendinga innanlands um 10 milljörðum króna minni á mánuði en hún hefði verið án faraldursins eða sem samsvarar um 4% af landsframleiðslu hvers mánaðar. Í mörgum Evrópulöndum þar sem beitt var harðari aðgerðum en á Íslandi dróst landsframleiðsla saman um 10-20% á öðrum ársfjórðungi.

Óefnislegur kostnaður af því að faraldurinn geisi er einnig verulegur. Það er til dæmis lýjandi að þurfa að búa við ótta við að veikjast, að lúta sóttvarnareglum í langan tíma og geta ekki hitt vini og vandamenn. Margir væru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir að komast hjá þessu ef það væri mögulegt. Við stefnumótun ber að taka tillit til þessa kostnaðar ekki síður en beina efnahagslega kostnaðarins.

Fá smit, jafnvel aðeins eitt, geta haft í för með sér mikinn kostnað. Ástæðan er sú að einstaka smit sem ekki reynist unnt að rekja geta dreifst með veldisvexti nema gripið sé til kostnaðarsamra ráðstafana. Þannig eru um 700 manns í sóttkví þegar þetta er skrifað og stór hluti þeirra vegna smita sem líklega má rekja til eins smitaðs einstaklings sem kom til landsins. Kostnaður samfélagsins vegna þeirra sóttkvía sem hefur þurft að beita í sumar hleypur líklega á hundruðum milljóna króna.

Kostnaður af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum dreifist ekki jafnt og ræðst m.a. af starfstétt, aldri og kyni. Ríkissjóður hefur hlutverki að gegna við að dreifa þessum kostnaði og hefu r gert það m.a. með hlutabótum, greiðslum launa í sóttkví, verulega auknum útgjöldum til menntakerfisins auk hefðbundinna atvinnuleysisbóta.

Í sumar hefur innlend eftirspurn tekið hraðar við sér en búist var við í fyrstu. Árangur í sóttvörnum skiptir þar miklu máli. Vísbendingar eru um að einkaneysla hafi verið mun sterkari á 2. ársfjórðungi en talið var fyrr í sumar. Batinn í innlendri eftirspurn hefur vegið þungt á móti samdrætti í útfluttri ferðaþjónustu. Að hluta til er þessi hagstæða þróun vegna hagstjórnaraðgerða en einnig vegna þess að fyrr í sumar gat verslun og þjónusta átt sér stað án smithættu. Loks hefur stór hluti þeirrar neyslu Íslendinga sem hefði ella átt sér stað erlendis flust til landsins. Í júní var kortavelta Íslendinga erlendis 9 mö.kr minni en í fyrra en innanlands var hún 13 mö.kr meiri. Ekkert bendir til annars en að neysla landsmanna erlendis haldi áfram að flytjast til landsins á meðan ferðalög eru takmörkunum háð, þótt enn sé erfitt að spá fyrir um hve mikill hluti hennar kemur fram í aukinni neyslu innanlands og hve stórum hluta er varið í sparnað.

Frá 15. júní hafa um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins. Því til viðbótar hafa komið um landamærin 45 þúsund íslenskir ríkisborgarar. Upplýsingar úr þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands benda til þess að framlag hvers ferðamanns til hagkerfisins geti legið á bilinu 100 til 120 þúsund. Því má áætla að þeir ferðamenn sem hafa sótt landið heim undanfarna tæpa tvo mánuði hafi lagt um 8 ma.kr. til efnahagslífsins á þeim tíma, en júní, júlí og ágúst eru mikilvægustu mánuðirnir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Til samanburðar getur útbreiðsla faraldursins ásamt hörðum sóttvarnaráðstöfunum dregið úr neyslu innlendra aðila um 10 ma.kr. á mánuði, líkt og greint er frá að framan.

Það er forsenda fyrir komum ferðamanna til Íslands að landamærin séu tiltölulega opin, en einnig að stjórn hafi náðst á faraldrinum hérlendis og í heimalandi ferðamanna. Við núverandi aðstæður heimsfaraldurs felst bæði ábati og kostnaður í því að létta á ferðatakmörkunum. Ábatinn birtist með augljósustum hætti í tekjum ferðaþjónustunnar en ekki er við því að búast að ferðamenn sæki landið heim í teljandi mæli séu þeir krafðir um smitgát eða sóttkví í marga daga eftir komu til landsins. Má t.a.m. líta til þess að ríflega helmingur ferðamanna dvelur hér á landi í fimm nætur eða skemur en víst má telja að jafnvel þeir sem hyggjast dvelja hér lengur hugsi sig tvisvar um séu þeir krafnir um smitgát eða sóttkví. Ferðatakmarkanir hér á landi og erlendis eru þó langt frá því að vera eini ráðandi þátturinn um fjölda ferðamanna því ferðavilji fer ekki síður eftir stöðu faraldursins hér á landi og erlendis.

Óvissa um horfur í ferðaþjónustu á heimsvísu næstu mánuði er alger. Ógerningur er að spá fyrir um komur ferðamanna þegar aðstæður geta breyst verulega milli daga og því ekki gerð tilraun til þess hér. Ef hins vegar gert er ráð fyrir óbreyttum aðstæðum út árið má nota komur ferðamanna í júlí ásamt árstíðasveiflu í fjölda ferðamanna árið 2019 til að framreikna fjölda ferðamanna það sem eftir lifir árs. Slík æfing bendir til þess að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bilinu 165 til 200 þúsund. Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar sem draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu. Þá störfuðu um 28 þúsund einstaklingar í einkennandi greinum ferðaþjónustu á síðasta ári, sem ætla má að verði fyrir beinum áhrifum af hörðum sóttvarnaaðgerðum. Hafa ber í huga í fyrsta lagi að alger óvissa um fjölda ferðamanna næstu mánuði leiðir af sér mikla óvissu um framangreint mat og í öðru lagi að ábati þjóðarbúsins af opnum landamærum er víðtækari en svo að hann megi aðeins rekja til ferðaþjónustu. Þá ber einnig að líta til þess að Íslendingar hafa flutt til landsins neyslu sem ella hefði átt sér stað erlendis. Þannig vó 13 ma.kr. vöxtur í kortaveltu Íslendinga hér á landi í júní samanborið við sama mánuð í fyrra að hluta á móti 23 ma.kr. samdrætti í veltu erlendra ferðamanna hér á landi yfir sama tímabil.

Landamæraskimun dregur verulega úr líkunum á því að smitaðir ferðamenn komi inn í landið, en þrátt fyrir það eru vísbendingar um að einhver fjöldi smitaðra ferðalanga hafi komist hingað. Með landamæraskimun næst í fyrsta lagi að bera kennsl á stóran hluta þeirra sem koma smitaðir með flugi til landsins, en greinst hafa um 40 smit á landamærum og er hlutfall smitaðra um 0,05%. Í öðru lagi er ólíklegra að einstaklingar sem eru líklega sýktir leggi í ferðalag til landsins þar sem þeir eiga í hættu á að lenda í sóttkví. Í um mánuð hefur tiltekinn hópur þurft að undirgangast tvöfalda skimun, þ.e. sýnatöku við landamæri og aftur nokkrum dögum síðar. Í þessum hópi hafa nú 14 greinst í fyrri sýnatökunni (0,2%) en 2 í seinni sýnatökunni (0,02%). Með öðrum orðum eru vísbendingar um að flestir þeir smituðu greinist strax við landamærin en að einhverjir komist smitaðir inn í landið. Leiða má að því líkur að svo sé einnig hjá þeim hópi sem þarf aðeins að undirgangast landamæraskimun, þ.e. fólki frá lágáhættusvæðum og þeim sem dvelja hér skemur en í 10 daga. Ekki má draga of víðtækar ályktanir af þessum tölum þar sem þess má vænta að hlutfall smitaðra ferðamanna sé mjög háð stöðu faraldursins í upprunalandi þeirra og hún tekur sífelldum breytingum. 

Landamæraskimun er líklega til þess fallin að minnka verulega líkur á útbreiðslu veirunnar þrátt fyrir að hlutfall smitaðra á landamærunum sé lágt. Sem fyrr segir er hlutfall einstaklinga sem bera virkt smit við komuna til landsins aðeins um 0,05% af fjölda skimaðra á landamærunum. Það er þó við því að búast að einstaklingar sem koma til landsins vitandi að þeir verða skimaðir og sæta sóttkví reynist þeir smitaðir séu ólíklegri en aðrir til að hafa virkt smit. Landamæraskimun verður því varla hætt með vísan í tölfræði um fá smit við landamærin, enda fá smit líklega bein afleiðing fyrirkomulags sóttvarna á landamærum. Má þannig reikna með að hlutfall smitaðra frá tilteknu ríki vaxi um leið og skimun er aflögð á farþega frá viðkomandi ríki. Þess utan fylgir því í einhverjum tilvikum lítill kostnaður fyrir ferðamenn að einfaldlega fljúga til landsins frá ríkjum sem eru undanþegin skimun jafnvel þótt þeir séu ekki búsettir þar.

Svo lengi sem einhver hætta er á því að fólk sem kemur erlendis frá smiti út frá sér felst efnahagslegur kostnaður í komum fólks til landsins. Þessi kostnaður er óviss og háður aðstæðum. Væntur kostnaður á hvern ferðalanga er háður hættunni á því að þeir séu smitaðir, hættunni á því að þeir smiti aðra innanlands og hversu líklegt er að þau smit kalli á víðtækar sóttvarnaaðgerðir. Efnahagslegur kostnaður af smithættu vegna ferðalaga til landsins fer meðal annars eftir stöðu faraldursins hér á landi. Ef á annað borð er búið að ná stjórn á faraldrinum innanlands og sóttvarnaaðgerðum hefur verið aflétt getur kostnaður af völdum smithættu við ferðalög til landsins verið meiri en ella.

Reynsla erlendis frá bendir til að þó ferðatakmarkanir geti dregið verulega úr hættunni á smitum milli landa geti þær ekki komið alveg í veg fyrir hana. Í Færeyjum og Nýja-Sjálandi hafa þannig nýlega komið upp smit eftir að tekist hafði að svo gott sem útrýma veirunni. Allir sem koma til Færeyja þurfa að undirgangast landamæraskimun en þar virðist engu að síður vera kominn af stað talsverður faraldur eftir margar vikur þar sem fá sem engin smit greindust. Í Nýja-Sjálandi hefur enn harðari ferðatakmörkunum verið beitt en þar greindust innanlandssmit fyrr í mánuðinum í fyrsta sinn í 102 daga.

Frá hagfræðilegu sjónarmiði væri eðlilegt að farþegar til landsins greiði gjald til að koma til móts við samfélagslegan kostnað vegna hættu á að smit berist til landsins. Skimun við landamæri minnkar smithættuna og þar með kostnað af hennar völdum. Eðlilegt er að ferðalangar greiði sjálfir að fullu fyrir beinan kostnað af landamæraskimun. Að auki hníga hagræn rök til þess að gjald sé lagt á komur farþega til að koma til móts við þann samfélagslega kostnað sem fylgir hættu á að smit berist til landsins við núverandi aðstæður og endurspeglast ekki í verðlagningu ferðalaga á markaði, en of lágt verð leiðir til óhagkvæmrar áhættutöku sem slíku gjaldi er falið að leiðrétta. Markmið gjaldsins er því hliðstætt markmiði kolefnisgjalds sem ætlað er að draga úr kolefnisútblæstri fremur en að fjármagna ríkissjóð. Eins og áður segir er vandkvæðum bundið að meta þennan samfélagslega kostnað sem er breytilegur eftir stöðu faraldursins. Hann gæti þó verið umtalsverður í samanburði við t.d. flugverð og meðaltekjur þjóðarbúsins af hverjum ferðamanni. Ekki er að merkja mun á komum ferðamanna síðan þeir þurftu sjálfir að greiða fyrir skimunina. Hins vegar benda komur ferðamanna í júlí til þess að samdrátturinn frá þeim ríkjum sem hafa verið undanþegin skimun sé minni en í fjölda ferðamanna frá öðrum ríkjum. Slíkur samanburður er þó verulega vandasamur þar sem fjölmargir þættir spila inn í ákvörðun einstaklinga um að hefja ferðalög um þessar mundir, s.s. efnahagur, staða faraldurs í heimalandi, fjarlægð frá áfangastað o.fl.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

„Störfin heim!“

Deila grein

17/07/2020

„Störfin heim!“

„Það er gamaldags að hugsa sem svo að hið opinbera geti ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið. Úti á landi býr mikill mannauður sem getur vel sinnt þeim verkefnum sem þeim er falið af hinu opinbera. Aukinn fjölbreytileiki starfa eflir landsbyggðina og byggir upp sterkari samfélög,“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í grein á visir.is, „Störfin heim!“.

„Það er ákvörðun að halda byggð í landinu. Til þess að svo megi vera þarf að huga að samgöngum, menntun, menningu og síðast en ekki síst að fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu til staðar,“ segir Ingibjörg Ólöf.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Ingibjörg Ólöf:

„Við þurfum að færa okkur til nútímans og ég tel það gríðarlega mikilvægt. Við sáum það í kóvinu, þar sem kom í ljós að fólk gat unnið heiman frá sér, og að við getum hugsað þetta lengra. Við eigum að nýta okkur þekkinguna og tæknina og fara í það markvisst að flytja opinber störf út á land.“

Það ætti að ganga enn lengra!

„Það ætti reyndar að mínu mati að ganga enn lengra og miða við það að opinber störf væru almennt frekar úti á landi en í höfuðborginni þar sem fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri eru á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi,“ segir Ingibjörg Ólöf.

„Við viljum öll sjá blómlega byggð í landinu, við getum öll verið sammála um það. Og til að svo megi verða þurfum við að breyta til, við þurfum að efla landsbyggðina og þá m.a. að fjölga atvinnutækifærum. En við erum að sjá það allt of oft að unga fólkið okkar fer til Reykjavíkur eða erlendis að mennta sig. Það vill síðan koma til baka í sína heimabyggð en hefur ekki haft tækifæri til þess þar sem það er engin atvinna til staðar fyrir það við hæfi,“ segir Ingibjörg Ólöf í Bítinu.

Categories
Fréttir

„Allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist“

Deila grein

10/07/2020

„Allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ítrekar í færslu á facebook í dag sýn fyrri orð „að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana“.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti á fundi sínum í morgun að allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist fyrir lok dags í dag, 10. júlí 2020.

„Háskólinn á Akureyri gegnir lykilhlutverki við að tryggja jafnrétti til náms. Þessi frétt er mér mikið fagnaðarefni og staðfesting á að þrautseigja og samvinna skila árangri.

Það var engin tilviljun að ég fagnaði því sérstaklega í eldhúsdagsræðu að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana.

Í tilfelli HA var þó fleira sem þurfti að skýra og nú hefur það verið gert.

Rúmlega 60% nemenda HA búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa rannsóknir sýnt að nemendur sem ljúka námi í heimabyggð eru mun líklegri til að starfa þar fimm árum eftir brautskráningu. Námsframboð HA skiptir landsbyggðina miklu máli, á næstu árum þarf líka að tryggja að þar verði í boði tæknifræðinám og nám í íslensku fyrir innflytjendur,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Dómsmálaráðherra verður að bregðast við

Deila grein

09/07/2020

Dómsmálaráðherra verður að bregðast við

„Þarna sýnist mér eitt kerfi hafa reiknað út sparnað út frá mjög þröngu sjónarhorni, hvorki er horft á samlegð með verkefnum lögreglunnar, né þörfina fyrir möguleika á afplánun á norðurlandi,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í færslu á Facebook í gær.

En fram er komin óánægja með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að loka fangelsinu á Akureyri.

Allir fangar sem dvalið hafa í fangelsinu á Akureyri voru fluttir í önnur úrræði í vor. Með því átti að spara peninga en til stóð að opna aftur í september. Það var svo tilkynnt í gær að af því verður ekki.

„Ég tel dómsmálaráðherra þurfa að láta fara fram ítarlegri skoðun á heildaráhrifum þessarar breytinga,“ segir Líneik Anna.

Þjónustun sem þarna hefur verið veitt skiptir máli við að skapa tækifæri til betrunar í fangelsiskerfinu, né þörfina fyrir möguleika á afplánun á norðurlandi (þó minnihluti fanga sé þaðan hefur það sýnt sig að slíkt getur skipt miklu fyrir fjölskyldur fanga).

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður þingflokks Framsóknarmanna, segir í færslu í Facebook að eitthvað finnist sér mikið skakkt við þessa ákvörðun Fangelsinsmálastofnunar.

„Eitthvað finns mér nú mikið skakkt við þessa ákvörðun. Hún samrýmist ekki stefnu stjórnvalda um að fjölga störfum á landsbyggðinni.

Samlegðaráhrif lögreglunnar á Norðurlandi og fangelsisins á Akureyri hafa alltaf verið mikil. Það samstarf er mikilvægt, öll störf eru dýrmæt og þjónustan er mikils virði fyrir samfélagið.

Við þurfum meira samtal og samvinnu til að glata ekki yfirsýnni þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar.

Heildarmyndin þarf að vera skýr svo sjá megi fyrir öll áhrif ákvarðana,“ segir Þórunn.