Categories
Fréttir

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

Deila grein

11/12/2019

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

„Þann 10. desember ár hvert er degi mannréttinda fagnað um allan heim. Dagsetningin miðast við það þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var með mannréttindayfirlýsingu 10. desember 1948 og er þar á ferð fyrsta alþjóðlega skýringin á mannréttindum í heiminum, sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Mannréttindi eru grundvallaratriði sem allir einstaklingar hafa óháð þjóðerni, búsetu, kyni, tungumálum, litarhætti, trúarbrögðum, kynhneigð, kynvitund eða annarri stöðu. Mannréttindi hafa verið skilgreind í alþjóðasamningum, svæðisbundnum samningnum og í landsrétti flestra ríkja. Þau fela í sér alþjóðlega samþykktar kröfur til ríkja um að vernda mannhelgi borgara sinna.“

„Sem fyrr skorar Ísland hátt á flestum alþjóðlegum samanburðarlistum yfir stöðu mannréttinda en það þýðir ekki að slá slöku við því að sífellt má gera betur á því sviði. Mannréttindi eru ekki fullkomin hér frekar en nokkurs staðar annars staðar. Við eigum að halda umræðu um þau á lofti, velta upp spurningum um hvar megi gera betur, hvar megi draga lærdóm, hvert hlutverk okkar sem smáþjóðar á alþjóðavettvangi sé o.s.frv.
Virðingarleysi fyrir mannréttindum hefur leitt af sér djúpstæðan vanda sem erfitt er að kljást við, t.d. í þróunarríkjunum, og nefni ég sérstaklega fátækt, misskiptingu auðs og spillingu. Virðing fyrir mannréttindum er forsenda þess að hægt sé að færa hlutina til betri vegar til frambúðar.“

„Ég vek því athygli á viðburðum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands sem fram fóru í morgun í tilefni dagsins þar sem m.a. þessum málefnum var velt upp. Kjörtímabili Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fer senn að ljúka og munum að á vettvangi þess getum við sem lítið ríki haft mikil áhrif,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Ísland er grasræktarland

Deila grein

11/12/2019

Ísland er grasræktarland

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði „nú þegar vindurinn æðir yfir landið er veruleg hætta á jarðvegsfoki þar sem land er ekki hulið snjó. Þegar jarðvegur sem inniheldur lífrænt efni fýkur tapast mikið kolefni út í andrúmsloftið. Á degi jarðvegs 5. desember sl. stóðu bændur og stofnanir sem sinna moldinni fyrir góðum fundi. Þar var skýrt dregið fram hversu mikið verkefni við eigum fyrir höndum við að vernda mólendi landsins.“ Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins í gær.
„Með því að styrkja og auka gróðurþekju mólendis er bæði hægt að binda meira kolefni í gróðri og koma í veg fyrir að kolefni þyrlist út í andrúmsloftið í veðrum eins og í dag. Þeir sem standa í framkvæmdum eða ræktun þurfa líka að gæta þess að jarðvegur standi eins stutt opinn og mögulegt er,“ sagði Líneik Anna.

„Mikið kolefni er á hverjum tíma bundið í lífverum jarðar í hringrás náttúrunnar. Öll matvara er unnin úr lífverum sem eru hluti af hringrásinni og við ræktun matvæla er kolefni því í stöðugri hringrás.“

„Áskorun okkar er að tryggja að við matvælaframleiðsluna, vinnsluna og neysluna tapist kolefni ekki beint út í andrúmsloftið og þannig úr hringrásinni, heldur að sem allra mest af hráefninu nýtist til neyslu og það sem ekki nýtist fari beint inn í hringrásina aftur eða bindist í jarðvegi. Þá þarf að gæta að kolefnisfótspori við alla umsýslu, ræktun, meðhöndlun og flutning matvæla.

Í allri umræðu um loftslagsmál og í samhengi við val á matvælum til neyslu verður því að horfa á næringarefnahringrásina og framleiðslumöguleika í hverju landi fyrir sig sem og framleiðsluhætti. Ísland er grasræktarland og við getum verið og orðið sjálfum okkur nóg í framtíðinni um matvöru að mestu leyti; kjöt, fisk og grænmeti.

Við eigum að einbeita okkur að því að framleiða með eins litlu vistspori og mögulegt er. Liður í því er að gæta moldarinnar,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Forvarnagildi íþrótta, tómstunda eða æskulýðsstarfs óumdeilt

Deila grein

11/12/2019

Forvarnagildi íþrótta, tómstunda eða æskulýðsstarfs óumdeilt

„Það er óumdeilt að skipulagt starf barna og unglinga, hvort sem við erum að tala um íþróttir, tómstundir eða æskulýðsstarf, hefur gífurlega mikið forvarnagildi, bæði hvað varðar hinn líkamlega þátt en þó ekki síður andlega og félagslega þætti,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.

„Rannsóknir í þessum efnum sýna að umgjörðin skiptir miklu máli, að umgjörðin byggi jafnvel á föstum grunni. Þá er ég ekki einvörðungu að tala um mannvirki heldur að umgjörðin hafi verið til staðar í einhvern tíma þar sem eru reglur og hefðir, faglegar kröfur, metnaður og agi og utanumhald sem tryggja enn frekar faglega nálgun og styrkja þá tilfinningu þátttakenda að tilheyra skipulögðum hópi.“

„Hér á landi er reyndar einstakt starf unnið í skipulögðu starfi barna og unglinga í íþróttum og á fleiri sviðum. Framboðið er mikið og þátttaka foreldra er alltaf að verða meiri. Okkur hefur tekist vel til þar en við getum gert betur í að styðja við allt það sjálfboðaliðastarf sem að þessu stendur. Við vitum jafnframt að forvarnir snúa að fleiri þáttum, virðulegi forseti, og lýðheilsutengdar forvarnir spyrja heldur ekki um aldur. Þá erum við að tala um almenna heilsu og forvarnir gegn lífsstílstengdum sjúkdómum.
Því hef ég lagt fram á þessu þingi tillögu sem snýr að þjóðarátaki í lýðheilsutengdum forvörnum,“ sagði Willum Þór.

Categories
Fréttir

Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni

Deila grein

06/12/2019

Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, segir nýja samgönguáætlun bera þess glögg „merki að við erum komin á gott skrið með að greiða niður innviðaskuldina í vegakerfinu eftir hrunið og þar er stórauknu fjármagni varið til vegagerðar.“ Þetta kemur fram í grein hennar á vikudagur.is.
Líneik Anna bendir á að nýframkvæmdum sem nema um 214 milljörðum króna sé flýtt frá fyrri áætlun.
„Á landsbyggðinni er ætlunin að flýta framkvæmdum um 125 milljarða. Samgöngusáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er birtingarmynd sameiginlegrar sýnar og heildarhugsunar fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa ríkjandi og fyrirsjáanlegan umferðarvanda. Þá er lagt upp með samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni,“ segir Líneik Anna.
Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum
„Það eru líka stigin stór skref í fluginu. Flugstefna hefur verið mótuð  í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriðið í henni er að millilanda– og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem á að taka ábyrgð á varaflugvöllunum.“
„Notendur millilandaflugvalla verða að taka þátt í rekstri varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvægt flugöryggismál fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

„Sígandi lukka er best“

Deila grein

03/12/2019

„Sígandi lukka er best“

„Mér hefur reynst vel að sígandi lukka sé best. Það á þá vel við þegar talað er um uppbyggingu samgöngumannvirkja. Nýverið skrifuðu borgarstjóri og ráðherra samgöngumála undir samkomulag sem má skilja á tvo vegu með góðum vilja. Áfram verður haldið með athuganir á flugvallarkostum í Hvassahrauni og framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni er tryggð a.m.k. næstu tvo áratugi. Eitthvað virðist þetta samkomulag hafa farið öfugt ofan í suma og litið svo á að frekari uppbyggingu á öðrum flugvöllum, eins og t.d. á Akureyri, væri slegin af. En svo er nú aldeilis ekki,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Skoska leiðin
„Öflugt innanlandsflug er mikilvægt byggðamál og einn lykillinn að jafnræði byggðanna. Samhliða bættu viðhaldi á flugvöllum landsins þarf að jafna aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi. Tíðni flugferða er ekki alltaf hentug og sætanýting breytileg. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hefur reynst vel til að mæta þessum vanda í Skotlandi og er ætlunin að hrinda henni í framkvæmd hér á landi seinni hluta næsta árs. Næsta skref varðandi Akureyrarflugvöll er að útfæra leiðir til að nýta fjárlagaheimildir um stækkun flugstöðvarinnar og útfæra rekstur hennar þannig að það nýtist byggðunum og markmiðum stjórnvalda um nýja gátt inn í landið.
Stöndum saman að því að klára það sem byrjað hefur á, t.d. eins og flughlaðið á Akureyrarflugvelli. Innviðir Norðurlands eru til staðar og meira en tilbúnir til að taka á móti erlendum gestum sem vilja dvelja hjá okkur og njóta þess sem hin rómaða fegurð og náttúruperlur Norðausturlands hafa upp á að bjóða. Breið samvinna er lykill að árangri í þeim efnum.
Virðulegi forseti. Eins og svo oft er sagt í Þistilfirði: Sígandi lukka er best,“ sagði Þórarinn Ingi.

Categories
Fréttir

„Var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti“

Deila grein

03/12/2019

„Var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, benti á í störfum þingsins á Alþingi í dag, að í skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur áranna 2008-2018 eftir landshlutum, komi fram „að launagreiðslur fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum losuðu um 1 milljarð kr. á síðasta ári og um þriðjungur allra atvinnutekna af fiskeldi féll til á Vestfjörðum. Umfang fiskeldis á landinu er langmest í þeim fjórðungi. Nýjar tölur frá Hagstofunni sýna einnig að fiskeldi á töluverðan hluta af þeim varnarsigri sem hagkerfið er í þessa dagana“.
„Vöxtur síðustu ára hefur fyrst og fremst átt sér stað á Vestfjörðum í sjókvíaeldi og fyrirsjáanlegt er að á næstu árum muni áfram verða mikill uppgangur í laxeldinu þar. Gera má ráð fyrir að fiskeldi geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum á Vestfjörðum innan fárra ára. Í vor voru samþykkt lög um fiskeldi hér á Alþingi. Ein veigamesta breytingin með frumvarpinu er lögfesting á því að Hafrannsóknastofnun meti möguleika á fjölda eldislaxa í ám og gefi út ráðgjöf byggða á því mati sem kallað er áhættumat. Fyrir tveimur árum hélt Hafrannsóknastofnun opinn fund fyrir vestan þar sem nýja áhættumatinu fyrir Ísafjarðardjúp var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti. Síðan þá hefur jörðin farið einn og hálfan hring í kringum sólina. Í lögum er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun gefi út nýtt áhættumat svo fljótt sem auðið er og að tekið verði tillit til mótvægisaðgerða sem ekki hefur verið gert áður. Nú er aðeins örstutt eftir af árinu 2019 og ekki bólar enn á uppfærðu áhættumati.
Virðulegi forseti. Samfélög á Vestfjörðum, og þá sérstaklega í Ísafjarðardjúpi, og á Austfjörðum, bíða eftir uppfærðu áhættumati og vil ég hvetja Hafrannsóknastofnun til að fylgja lögum og gefa út uppfært áhættumat sem allra fyrst þannig að áfram verði hægt að byggja upp fiskeldi í sátt við náttúruna og til hagsbóta fyrir samfélögin,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Heimilisofbeldi er samfélagsmein“

Deila grein

03/12/2019

„Heimilisofbeldi er samfélagsmein“

„Heimilisofbeldi er samfélagsmein. Því fylgir skömm – ótti og sorg. Ofbeldið er yfirleitt vel falið og ofbeldi þrífst í þögninni. Skaðinn sem ofbeldið veldur er ekki bara alvarlegur heldur ferðast hann með fólki á milli kynslóða,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.

„En hvers vegna er ég að tala um þetta í dag og hvers vegna hér í sal Alþingis? Þetta er jú þekktar staðreyndir, ekki satt?

Ég er að tala um þetta nú því að við, löggjafinn, getum bætt kerfið þannig að það verji þolendur betur en nú er.

Ég lagði fram þingsályktunartillögu fyrir nokkru. Hugmyndin með henni er að kerfið takið betur utan um þolendur ofbeldis og taki þungann af þeim. Tillagan felur í sér að Alþingi feli dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem leggi fram tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum á einnig að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli sömu aðila og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni síðan Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola.

Þingsályktunartillagan hefur ekki komist á dagskrá enn þá en umsagnir hafa borist, allar mjög jákvæðar,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Græni takkinn!

Deila grein

27/11/2019

Græni takkinn!

„Virðulegi forseti. Nú erum við að ganga til atkvæðagreiðslu í 3. umræðu fjárlaga, ég held að það sé í fyrsta skipti sem við erum á tíma í þeim efnum. Þá er líklega hægt að þakka það góðri vinnu í fjárlaganefnd sem hefur verið stýrt undir styrkri stjórn hv. þm. Willums Þórs Þórssonar. Aðrir þingmenn í nefndinni mega líka fá bita af hrósi dagsins,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í dag.
„Þó að mismunandi hugmyndir eða skiptar skoðanir séu um hvernig eigi að skipta kökunni, sem birtist hér í fjölda nefndarálita og litríkum ljósum á atkvæðatöflunni, þá hefur þetta gengið vel. Sú atkvæðagreiðsla sem birtist hér er oft kómísk, niðurstaðan svolítið augljós en túlkunin skemmtileg. Samfylkingin hefur kvartað sáran hér og í fjölmiðlum um að stjórnarmeirihlutinn hafi aldrei verið á græna takkanum við tillögum hennar en gleymir að segja frá því að hún hefur heldur aldrei verið á græna takkanum við tillögum meiri hlutans þrátt fyrir margar frábærar tillögur af þeim bæ.
Telja má upp nokkur dæmi en listinn er ekki tæmandi úr fjárlögum þessa árs sem við erum að fara að samþykkja núna.

  • Það eru markvissar skattalækkanir og breytingar á tekjuskatti einstaklinga.

  • Fæðingarorlofið er aukið um einn mánuð strax á næsta ári og verður komið upp í 12 mánuði á árinu 2021.

  • Einnig eykst framlag til barnabóta um 1 milljarð og

  • stofnframlag til íbúðarbygginga hækkar einnig verulega.

  • Í samræmi við fjármálaáætlun er aukið verulega við fjárfestingu og viðhald í samgöngumálum. Frá árinu 2017 nemur aukningin 11,6 milljörðum kr. eða 32% að raungildi.

Virðulegi forseti. Það er vissulega áskorun fram undan í ríkisfjármálum og spár sýna að við erum að ganga inn í lægra hagvaxtarstig. Atvinnuleysi er að aukast og minni afkoma kallar á að við þurfum að vera vakandi. Gangi okkur vel í framhaldinu,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum“

Deila grein

27/11/2019

„Bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, spurði þingheim hvers vegna þetta þurfi að vera svona flókið, en „bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum eftir sveitarfélögum, meira að segja á sömu sorpsöfnunarsvæðunum,“ sagði Líneik Anna í störfum þingsins í dag.
„Virðulegi forseti. „Af hverju þarf þetta að vera svona flókið?“, spurði ungur Framsóknarmaður í grein í Fréttablaðinu um daginn og vísaði þar til flækjunnar við að skila af sér rusli til endurvinnslu á Íslandi. Íslendingum hefur tekist að búa til svo margar mismunandi útgáfur af flokkunarkerfum að margir fórna höndum og gefast upp fyrir verkefninu og setja allt í sama plastpokann. Bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum eftir sveitarfélögum, meira að segja á sömu sorpsöfnunarsvæðunum. Margir hafa vakið athygli á þessu og ályktað um mikilvægi samræmds flokkunarkerfis. Ég vil því vekja athygli á og fagna því að ríkisstjórnin er með málið á dagskrá og við eigum von á frumvarpi um þau mál á vorþinginu.
Að því sögðu vil ég gera brúnar tunnur og heimajarðgerð að umtalsefni. Alveg sama hvernig við horfum á það mál hlýtur sjálfbærasta leiðin til jarðgerðar alltaf að vera jarðgerð á og hjá heimilunum þegar þess er kostur. Hún hentar sérstaklega vel fyrir íbúa í dreifbýli og garðeigendur í þéttbýli, ég tala nú ekki um ef notaðar eru aðferðir sem skila litlu kolefni út í andrúmsloftið og jarðvegurinn sem myndast nýtist í eigin ræktun. Þróunin hefur hins vegar sums staðar a.m.k. orðið sú að þegar sameiginlegri jarðgerð hefur verið komið á í sveitarfélögunum hafa þeir sem jafnvel hafa jarðgert heima árum saman horfið frá því vegna þrýstings um að taka þátt í sameiginlega verkefninu.
Ég legg því áherslu á að við samræmingu flokkunarkerfa verði horft til þess að búa til hvata til heimajarðgerðar og áhersla verði lögð á leiðbeiningar og stuðning við það verkefni,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Tollvernd er ekki séríslenskt fyrirbæri

Deila grein

27/11/2019

Tollvernd er ekki séríslenskt fyrirbæri

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, gerði tolla á matvæli og tolla almennt að umtalsefni í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Virðulegur forseti. Umræða um tolla á matvæli og tolla almennt skýtur reglulega upp kollinum í umræðunni hér á landi en þá stíga gjarnan fram á völlinn valinkunnir talsmenn frjálshyggjunnar og fara frjálslega með staðreyndir. Þá virðist oft gleymast að það eru tvær hliðar á öllum málum en tollar á vörum þekkjast úti um allan heim. Þjóðir setja á tolla til að vernda framleiðslu sína, þjóðartekjur og jafna þannig aðstöðumuninn sem snertir framleiðsluna,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Til að mynda er Evrópusambandið mikið tollabandalag þar sem innri markaðurinn er eitt svæði og lönd utan hans annað. Íslendingar hafa ákveðna innflutningstolla á ESB-svæðinu fyrir skyr, lambakjöt og unninn lax. Þeir tollar eru settir af ESB til að verja eigin framleiðslu og hagkerfi og tryggja að bændur og úrvinnslugeirinn á svæði ESB hafi ákveðið öryggi fyrir framleiðslu sína.
Ísland setur tolla á ákveðnar vörur sem og önnur lönd og af hverju er það gert?
Jú, eins og áður hefur verið komið inn á er það gert til að vernda íslenska framleiðslu og hagkerfi.
Í hinum fullkomna heimi væri jafn dýrt að framleiða kjöt á Spáni og í Barðastrandasýslu en svo er hins vegar ekki.

  • Veðurfar,

  • löggjöf um aðbúnað og hirðingu,

  • húsakostur og

  • aðstæður til ræktunar eru ekki sambærilegar.

Ísland er í fremstu röð þegar kemur að hirðingu og aðbúnaði og veðurfar hér er gjörólíkt. Það hefur verulegan kostnað í för með sér fyrir framleiðsluna og síðan er ótalinn einn stærsti þátturinn sem er launakostnaður.
Virðulegi forseti. Munum að tollvernd er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur er það þannig að flest ríki og ríkjasambönd hafa tollvernd,“ sagði Þórarinn Ingi.