Categories
Fréttir

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Deila grein

23/11/2018

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans í annari umferð um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.
Willum Þór fór yfir að áhrif breytingartillagna, milli fyrstu og annarar umræðu, séu að nettóbreytingin á tekjuhlið sé hækkun tekna um 364,2 milljónir og nettóbreytingin á gjaldahlið til aukningar um 396,4 milljónir. Eftir sem áður er áætlað að afgangur verði 1% af vergri landsframleiðslu eins og lagt er upp með í fjármálastefnu og fjármálaáætlun.
Ríkissjóður hefur skilað afgangi á hverju ári frá og með árinu 2014 og einskiptis- og tímabundnar tekjur hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir. „Á sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af vergri landsframleiðslu í 31% nú í árslok,“ sagði Willum Þór.

„Endurmat tekjuáætlunar frumvarpsins hefur tekið óverulegum breytingum frá uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 2. nóvember, tæpum 400 milljónum með frávikum í báðar áttir. Þar munar mest um lækkun virðisaukaskatts um 4 milljarða vegna minnkandi einkaneyslu og minnkandi eyðslu ferðamanna hérlendis sem hefur áhrif á hann. Á móti vegur 1,7 milljarða kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 milljarða kr. tekjur af sölu losunarheimilda“, sagði Willum Þór.
Lagt er til að fjárheimildir aukist um 3,8 milljarða kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum frumvarpsins. Á móti vega endurmat og ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnar til lækkunar á ýmsum útgjaldaskuldbindingum sem leiða til 4,3 milljarða kr. lækkunar.
Willum Þór fór yfir að landsmenn verði að vera á vaktinni og að við þurfum að vanda okkur þegar kemur að efnahagsmálum og horfum í nýjustu efnahagsspá. „Það hefur hægst á í hagkerfinu en við erum með hagvöxt. Það er ánægjulegt að geta lagt til útgjaldaaukningu og innviðauppbyggingu á öllum málefnasviðum, til allt að því allra málefnaflokka, og standa við loforð um að fjárfesta í velferð, menntun, samgöngum og aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og taka þátt í því verkefni jafn myndarlega og gert er. Þetta er ávísun á hagvöxt til framtíðar og uppbyggingu fyrir komandi kynslóðir“, sagði Willum Þór.
 

Categories
Fréttir

Gott hús er gestum heill

Deila grein

22/11/2018

Gott hús er gestum heill

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn tillögu um skipun starfshóps sem á að útfæra ákveðnar aðgerðir til að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa sér íbúðarhúsnæði, sem gefist hafa vel hjá grannþjóðum.
Ákvörðunin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega kveðið á um að ríkisstjórnin muni fara í aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og endurskoða í því skyni stuðningskerfi hins opinbera þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verði skoðaðir möguleikar á því að nýta lífeyrissparnað til þessa.
Velferðarráðuneytið í samvinnu við Íbúðalánasjóð hefur um skeið unnið að kortlagningu ýmissa úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar bjóða tekjulágum á húsnæðismarkaði og hafa gefið góða raun. Þessi kortlagning hefur beint sjónum sérstaklega að tilteknum leiðum sem farnar hafa verið í Sviss og Noregi.
Ásmundur Einar segir tíma aðgerða að renna upp: „Nú er mikil greiningarvinna að baki og komið að því að stíga fyrstu skref til aðgerða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að kalla fleiri að borðinu til að útfæra þær nánar og hrinda þeim í framkvæmd.“
Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%.
Husbanken, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs í Noregi, býður upp á sérstakan húsnæðisstuðning, svokölluð startlán, til að aðstoða afmarkaðan hóp tekjulágra heimila við að kaupa eigin íbúð. Startlán eru íbúðalán með lægri vöxtum og lægri eiginfjárkröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjármögnunar fyrir íbúð með hefðbundnum hætti. Stærsti hópur lántaka eru fjölskyldur sem búa við slæma fjárhagslega stöðu en startlán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaupenda, flóttafólks, fólks með fötlun og fólks sem býr við félagsleg vandamál.

Categories
Fréttir

Micro:bit-tölvan

Deila grein

22/11/2018

Micro:bit-tölvan

„Ég er mjög hlynnt þessu verkefni og mun skoða það enn frekar hvernig á því stendur að staðan á því er eins og hv. þingmaður lýsir. En það er fullur vilji hjá þessum ráðherra til að halda áfram með þetta verkefni“, sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
En fyrirspyrjandi, Björn Leví Gunnarsson, alþingismaður, telur að menntamálaráðuneytið ætli að hætta fjárveitingum til verkefnisins þar sem að tölvunni hafi ekki verið dreift núna í haust til allra nemenda í 6. og 7. bekk á Íslandi. Björn Leví benti á að micro:bit-tölvan væri lítil, handhæg og forritunarleg tölva fyrir unga sem aldna. „Þann 5. maí síðastliðinn var tilkynnt á vef Stjórnarráðsins að hópur nemenda í tölvunarfræði hefði lokið við að þýða forritunarritil tölvunnar yfir á íslensku. Þetta eða sambærilegt verkefni er gríðarlega mikilvægt fyrir vegferð íslenska menntakerfisins inn í 4. iðnbyltinguna. Þetta er fullkomið innlegg fyrir eflingu stafrænna smiðja, samanber tillögu sem samþykkt var í þinginu í vor“, sagði Björn Leví.
Lilja Dögg benti á að ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. „Við sjáum að framlög til þessara málaflokka hækka á milli ára um 16,3%. Verið er að setja gríðarlega metnaðarfulla stefnu af stað á vegum ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um að efla þennan málaflokk.“
„Varðandi þetta verkefni þá erum við bara mjög hlynnt því. Við viljum að það haldi áfram. Búið er að fjárfesta heilmikið í því og við munum sjá til þess að sú mikla fjárfesting sem við erum búin að setja í það verkefni geti haldið áfram. Við vitum að það er mikil ánægja með það í grunnskólanum og það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns, þetta er einföld tölva. Hún kennir forritun og hjálpar verulega til við það. Það er því ekki á stefnuskrá þessara ráðherra að hætta við þetta verkefni”, sagði Lilja Dögg.
***
Til upplýsingaMicro:bit tölvan

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

19/11/2018

Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins, haldinn að Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit dagana 17.-18. nóvember 2018, hvetur ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áfram til góðra verka en leggur áherslu á nauðsyn þess að halda áfram öflugri uppbyggingu innviða, atvinnutækifæra og lyfta grettistaki í húsnæðismálum.

Þjóðarátak í húsnæðismálum

Lyfta þarf grettistaki í húsnæðismálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að auka framboð af íbúðarhúsnæði á landinu öllu á viðráðanlegu verði. Það er óviðunandi hversu hægt sum sveitarfélög, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa dregið lappirnar í lóðaúthlutunum og ýtt þannig undir miklar og óraunhæfar verðhækkanir á húsnæði. Sérstaklega þarf að huga að stöðu fyrstu kaupenda og þeirra sem koma að nýju inn á húsnæðismarkaðinn og Skorar miðstjórn Framsóknarflokksins á ríkisstjórnina alla að vinna svissnesku leiðinni brautargengi á kjörtímabilinu enda eru húsnæðismál velferðarmál.

Menntamál eru efnahagsmál

Ríkisstjórnin á að halda áfram sókn sem er hafin í menntamálum landsins. Menntastefna og atvinnustefna verða að haldast í hendur enda getur skortur á vinnuafli í ýmsum fagstéttum haft neikvæð áhrif á verðlagsþróun og hagvöxt í landinu. Í því samhengi er þarf að halda áfram að efla sérstaklega verk-, iðn-, og starfsnám á landinu öllu og auka nýliðun í kennarastétt. Mennta- og námslánakerfið á að tryggja jöfn tækifæri fólks til að auka færni sína og þekkingu. Klára þarf heildarendurskoðun námslánakerfisins á kjörtímabilinu með það að markmiði að skapa jákvæða hvata fyrir námsmenn til náms og vinnu. Huga þarf að vellíðan nemenda á öllum skólastigum og tryggja greiðan aðgang þeirra að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu.

Afnám verðtryggingarinnar

Miðstjórn Framsóknarflokksins telur afar brýnt að húsnæðisliðurinn verði tekinn  úr vísitölu neysluverðs og að verðtryggingin verði bönnuð  af nýjum neytendalánum á kjörtímabilinu. Miðstjórn telur að kostnaður við eigið húsnæði sem reiknast til neysluverðsvísitölu sé  fremur fjárfesting  en neysla og í því ljósi skal húsnæðisliðurinn undanþeginn. Breytingunni er ætlað að vera til hagsbóta fyrir þorra lánþega. Framsóknarflokkurinn vill enn fremur að skapa hvata og stuðning til þess að heimili geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Þriðji orkupakkinn

Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.

Matvæli

Miðstjórn Framsóknarflokksins vill herða löggjöf á innfluttum matvælum til að verja lýðheilsu gegn matvælum sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið hér á landi auk þess að kolefnisspor þess er stórt. Ísland stendur öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, þar sem lyfjanotkun er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum. Aðrar kröfur um aðbúnað dýra og heilbrigði matvæla eru með þeim metnaðarfyllstu sem um getur.  Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess við erum eyja með hreina búfjárstofna. Miðstjórn krefst þess að stjórnvöld taki það upp við Evrópusambandið að núgildandi reglur um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum fái að gilda áfram.

Landbúnaður

Miðstjórn Framsóknarflokksins skorar á Alþingi að samþykkja frumvarp sem stuðlar að eflingu afurðastöðva í kjötiðnaði. Veita þarf innlendum kjötiðnaði tækifæri til samvinnu og bregðast við ört vaxandi samkeppni með því að undanþiggja afurðastöðvar frá ákvæðum samkeppnislaga. Uppgræðsla á landi og skógrækt eru verðmæt verkefni fyrir bændur til kolefnisjöfnunar og sem styður við metnaðarfullt loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Þá áréttar fundurinn mikilvægi þess að stjórnsýsla í kringum landbúnaðinn verði efld nú þegar til að halda á hans málum innan ríkisstjórnarinnar meðal annars með nýju matvælaráðuneyti.

Samgöngumál

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar þeirri miklu aukningu á fjármunum sem nú er varið til vegamála, bæði þegar kemur að nýfjárfestingum og viðhaldi. Þá fagnar Framsókn markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr loftmengun með því að auka rafvæðingu og orkuskipti í samgöngum. Hlutfall umhverfisvænna bifreiða fer ört vaxandi, nú þegar eru nýskráningar í okt 26% sem er jákvætt og í ljósi þess er nauðsynlegt að útfæra nýjar fjármögnunarleiðir sem renna til vegakerfisins. Miðstjórn Framsóknarflokksins styður tekjuleiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum.
Framsókn leggur áherslu á uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni.
Fundurinn leggur áherslu á að gerð eigendastefnu fyrir Isavia verði lokið sem fyrst með stækkandi atvinnugrein og hag þjóðarinnar í huga. Slík stefna þarf að liggja fyrir áður en ráðist er í skuldbindingar vegna stórframkvæmda.

Kjaramál

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamningum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistrygginga, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykillinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.

Efling nýsköpunar og rannsóknar

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar því að lagt hefur verið fram stjórnarfrumvarp um hækkun á þaki á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði úr 300 m. í 600m.kr. auk þess sem skattaafsláttur til handa einstaklingum sem fjárfesta í nýsköpunarfélögum er framlengdur. Hér er um mikilvægt skref að ræða til að efla nýsköpun fyrir Ísland. Miðstjórn Framsoknar fagnar einnig þingsályktunartillogu þingflokksins um mótun klasastefnu fyrir Ísland. Miðstjórnarfundur flokksins skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir að auka hvata til nýsköpunar enn frekar með því að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar og þróunarkostnað og með því að stofna sérstakan mótframlagssjóð ríkisins sem myndi fjárfesta með viðurkenndum fjárfestum í nýsköpunarfyrirtækjum.

Áframhaldandi uppbygging fiskeldis

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein og mun skapa okkur miklar útflutningstekjur.
Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að tryggja verndun villta laxstofnsins við Ísland, þess vegna er fiskeldi á afmörkuðum svæðum.
Mikil verðmæti eru fólgin í því að byggja upp fiskeldið og Framsóknarflokkurinn sem byggðastefnuflokkur mun styðja við þá uppbyggingu sem snýr að fiskeldi því að þau svæði sem hafa verið í uppbyggingu í greininni þurfa að hafa möguleika á að blómstra. Áfram þarf að vinna að mótvægisaðgerðum sem tryggja verndun alls lífríkis og lágmarka hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofninn.
Framsóknarflokkurinn er umhverfissinnaður flokkur. Því er mikilvægt  að finna jafnvægi á milli þessara hagsmuna, þeirra sem vilja vernda og nýta. Eitt útilokar ekki annað og alli hagsmunaaðilar eiga að geta blómstrað á Íslandi. Framsóknarflokkurinn mun hér eftir sem hingað til standa með þeim byggðum sem eiga undir högg að sækja.

Réttlæti handa heimilunum

Miðstjórn Framsóknarflokksins ítrekar ályktun sem samþykkt var á flokksþinginu í mars 2018 um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.
Það getur hvorki talist eðlilegt né ásættanlegt að um 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum eftir hrun og þegar fjöldinn er slíkur er ekki hægt að líta svo á að um „einkamál“ sé að ræða, heldur djúpstæðan kerfislægan galla sem verður að finna, skoða og leiðrétta.
Framsóknarflokkurinn mun ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan fleiri fjölskyldur missa heimili sín. Lög um nauðungaruppboð og aðfarir eru hliðholl fjármálafyrirtækjum og þau þarf að endurskoða. Jafnframt er kominn tími til að heimilin njóti vafans sem sannanlega er fyrir hendi í viðskiptum þeirra við fjármálafyrirtæki.

Upprunavottorð raforku

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins vill að leita verði leiðað til að sölu upprunavottana raforku úr landi verði hætt og að orkufyrirtækin verði hvött til að láta af þeirri stefnu. Það er mikilvægt skref í rétta átt í sívaxandi umræðu um kolefnislosun.

Categories
Fréttir

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

Deila grein

13/11/2018

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, fagnar farsælu ríkisstjórnarsamstarfi flokksins. Þau mál sem brenna heitast á fjölskyldum og almenningi í Reykjavík eru helstu stefnumál flokksins. Þau snúa öll að réttlæti. Bann við verðtryggðum húsnæðislánum er réttlæti, lægri vextir með tilkomu samfélagsbanka er réttlæti, húsnæðisliður úr vísitölu er réttlæti, Svissneska leiðin í húsnæðiskaupum er réttlæti, uppskurður lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðing er réttlæti, verja þarf rétt neytenda gegn ofurvaldi fjármálafyrirtækja, því það er réttlæti. Löngu er tímabært að almenningur geti leitað skjóls gegn fjármálastofnunum sem fara offari. Framsóknarmenn fagna því að gerð verði skýrsla um framferði yfirvalda og fjármálafyrirtækja eftir hrun.
11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Fréttir

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

Deila grein

13/11/2018

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, fagnar farsælu ríkisstjórnarsamstarfi flokksins. Þau mál sem brenna heitast á fjölskyldum og almenningi í Reykjavík eru helstu stefnumál flokksins. Þau snúa öll að réttlæti. Bann við verðtryggðum húsnæðislánum er réttlæti, lægri vextir með tilkomu samfélagsbanka er réttlæti, húsnæðisliður úr vísitölu er réttlæti, Svissneska leiðin í húsnæðiskaupum er réttlæti, uppskurður lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðing er réttlæti, verja þarf rétt neytenda gegn ofurvaldi fjármálafyrirtækja, því það er réttlæti. Löngu er tímabært að almenningur geti leitað skjóls gegn fjármálastofnunum sem fara offari. Framsóknarmenn fagna því að gerð verði skýrsla um framferði yfirvalda og fjármálafyrirtækja eftir hrun.
11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

Deila grein

12/11/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið í Kópavogi, föstudaginn 9. nóvember 2018, lýsir yfir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á.
Kjördæmisþingið þakkar þann góða stuðning sem listar flokksins fengu í kjördæminu í sveitastjórnarkosningunum sem leiddi til þess að framsóknarmenn eru nú í meirihluta í tveimur af stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogi og Hafnarfirði.
Kjördæmisþingið fagnar því að tillaga samgönguráðherra að samgönguáætlun sé komin fram og að fimm ára samgönguáætlun sé fullfjármögnuð.  Fátt er þó mikilvægara í daglegu amstri íbúa kjördæmisins en bættar samgöngur og er ljóst að væntingar eru um mun hraðari uppbyggingu samgangna í kjördæminu en þar birtist.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að helstu mál flokksins í húsnæðismálum gangi eftir er varðar möguleikann á að nýta lífeyrisiðgjald til að kaupa á fyrstu íbúð (svissneska leiðin), að afborgunarhlé verði á námslánum af sama tilefni, bann við verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum og að húsnæðiskostnaður falli út úr vísitölu neysluverðs.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamingum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins.  Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykilinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.
Kjördæmisþingið telur menntun, menningu og íþróttir vera lykilstoðir í samfélagi okkar.  Því skiptir miklu máli að auka fjárveitingar til háskólanna og framhaldsskólanna til að efla starf þeirra. Lengi hefur verið beðið eftir breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Tekur kjördæmisþingið undir áherslur menntamálaráðherra um að breyta hluta námslána í námsstyrk, nýta LÍN til að stuðla að jafnræði til náms út um allt land og bregðast við alvarlegum skorti á ákveðnum starfsstéttum.
Kjördæmisþigið lýsir yfir áhyggjum af skorti á kennaramenntuðum starfsmönnum í leikskólum landsins. Rannsóknir sýna fram á að snemmtæk íhlutun í menntun og öðrum málefnum barna skiptir sköpum um þroska og velferð hvers einstaklings . Mikilvægt er að grípa til úrræða sem gerir starf innan leikskóla eftir sóknarvert svo hæfasta fólkið veljist til starfa.
Kjördæmisþingið lýsir yfir áhyggjum af aukinni vanlíðan ungs fólks og brottfalli þess úr framhaldsskóla. Mikilvægt er að skimma fyrir líðan nemenda í grunnskóla og grípa inn í fyrr en nú er gert og veita börnum aðstoð og þjálfun við hæfi. Einnig er mikilvægt að börn, unglingar og ungt fólk eigi greiðan aðgang að sálfræðiaðstoð og öðrum stuðningi sem hvetur þau til samfélagslegrar virkni og stuðlar að vellíðan.
Kjördæmisþingið telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

Deila grein

21/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, haldið á Fljótsdalshéraði þann 20. október 2018, telur brýnt  að áfram verði unnið með stöðugleika, traust og jöfnuð í fyrirrúmi til framtíðar, landi og þjóð til heilla.
Þingið leggur áherslu á að nýrri og metnaðarfyllri byggðaáætlun verði fylgt eftir af fullum þunga og áhersla verði lögð á jöfnuð óháð búsetu. Jafnaður verði húshitunarkostnaður landsmanna og byggð verði upp traust heilbrigðisþjónusta. Standa verður vörð um starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í kjördæminu og stórauka þarf fjölda hjúkrunarrýma og tryggja fjármuni til reksturs þeirra. Þá verður að gera stórátak í geðheilbrigðismálum um land allt til að hlú að þeim sem slíka þjónustu þurfa.
Um leið og þingið fagnar því að búið sé að leggja fram fullfjármagnaða samgönguáætlun þá minnir það á þá miklu þörf sem er í kjördæminu fyrir bættum samgöngum til að rjúfa vetrareinangrun byggðarlaga og styrkja atvinnusvæði innan þess. Því hvetur þingið til þess að leitað verði allra leiða til að flýta sem mest brýnum slíkum verkefnum sem bíða og hefur verið raðað aftar á samgönguáætlun.
Þingið fagnar forystu framsóknar í menntamálum enda er sá málaflokkur ein mikilvægasta stoð samfélagsins. Í þeim efnum minnir þingið á nauðsyn þess að efla hlut iðn- og tæknigreina í menntakerfinu. Þá er brýnt að standa vörð um tungumálið okkar og auka lestur ungmennna.
Þingið lýsir yfir ánægju sinni með þá vinnu sem félagsmálaráðráðherra hefur hafið í húsnæðismálum á landsbyggðinni þar sem meðal annars er horft til þess markaðsbrest sem víða er. Er mikilvægt að þeirri vinnu ljúki sem fyrst.
Þá leggur þingið áherslu á það að atvinnuuppbygging um land allt geti þrifist innan þess regluverks sem gildandi er og ekki sé hægt leggja stein í götu slíkrar uppbyggingar með flækjustigum og óskýrum lagabókstöfum eins og til að mynda í fiskeldi. Regluverk atvinnulífsins þarf að vera einfalt, heilbrigt og skýrt til að uppbygging geti átt sér stað um land allt.
Þingið hvetur ráðherra og ríkisstjórn í samvinnu við verkalýðshreyfinguna að leiða til lykta farsæla lausnir í komandi kjarasamningum sem treysta mun efnahag og hagsæld landsins með jöfnuð og félagshyggju í forgrunni.
Þá minnir þingið á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið allt og þá miklu þörf sem er fyrir aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til að mæta þeim tímbundnu erfiðleikum sem að landbúnaðinum steðja. Þar þarf framsóknarflokkurinn að stíga fast til jarðar og leiða slíka vinnu. Ekki þarf að fjölyrða neitt um nauðsyn matvælaöryggis fyrir þjóðina og er landbúnaðurinn ein af grunnstoðum í því. Þá þarf að ljúka vinnu við regluverk um eignarhald á bújörðum og stefnu í málefnum ríkisjarða. Þessi mál þola enga bið og hafa þarf hagsmuni bænda að leiðarljósi við hana.
Þá leggur þingið þunga áherslu á að fjölgað verði innkomuleiðum ferðamanna inn í landið með frekari uppbyggingu millilandaflugvalla kjördæmisins, Akureyri og Egilsstöðum, þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Isavia verði gerð eigandastefna með þetta í huga þannig að jafnræði sé gætt milli millilandaflugvalla landsins. Þá verði hin svokallaða „Skoska leið“ innleidd þannig að flugsamgöngur á landsbyggðinni geti gengt hlutverki sínu sem almenningssamgöngur sem þær sannarlegu eru fyrir þá sem lengst búa frá höfuðborginni.
***
18. Kjördæmisþing KFNA, haldið á Egilsstöðum þann 20. október 2018, fagnar auknu fjármagni til vegamála í tillögu að samgönguáætlun, en harmar að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng skuli ekki vera á framkvæmdaáætlun næstu fimm ára og skorar á þingmenn Framsóknarflokksins að sjá til þess að því verði breytt.

Categories
Fréttir

Þingflokkur og landsstjórn funduðu á Hellu

Deila grein

13/10/2018

Þingflokkur og landsstjórn funduðu á Hellu

Landsstjórn og þingflokkur  Framsóknarflokksins funduðu á Hellu um helgina. Fundurinn er liður í flokksstarfinu og hluti undirbúnings fyrir fyrirhugaðan miðstjórnarfund í nóvember. 
Farið var yfir áherslumál þingflokks og landsstjórnar. Áherslan verður á húsnæðismálin, kjaramálin, málefni barna, menntamál og fjölskyldna.  Mótun stefnu í málefnum aldraðra er í farvatninu, vinna skal áfram að bættum kjörum öryrkja og leggja áherslu á forvarnir í öllum aldurshópum
Fundurinn lagði áherslu á að innleiða svissnesku leiðina og að afnema verðtryggingu.
Byggðamál eru í brennidepli og mikilvægi íslensks landbúnaðar, matvælaöryggi er þjóðinni dýrmætt og ljóst að dómur hæstaréttar kallar á viðbrögð við innflutningi á hráu kjöti. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka upp viðræður við Evrópusambandið um matvælalöggjöf.
Eigendastefna opinberra fyrirtækja þarf að vera gagnsæ og þjóna þörfum landsmanna betur.
Fundurinn lagði ríka áherslu á mikilvægi samgangna, þær eru grunnur að velferð þjóðarinnar og framþróunar atvinnulífs. Nú hefur verið lögð fram fjármögnuð samgönguáætlun, með stefnumótun til framtíðar, sem nauðsynlegt er að fylgja eftir svo árangur náist.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

07/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

18. Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS), haldið í Þingborg í Flóahreppi, laugardaginn 6. október, lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á. Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Ráðherrum flokksins hafa verið falin mikilvæg og stór málefni en þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu í heild og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.
Mikil sóknarfæri eru í Suðurkjördæmi og liggja tækifærin víða. Ör íbúafjölgun á svæðinu með miklum vaxtaverkjum samhliða sprengingu í fjölgun ferðamanna reynir mjög á alla innviði. Helst má nefna heilbrigðisþjónustu, en mikilvægt er að samræmd heilbrigðistefna sé unnin fyrir landið með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Auk þess er afar brýnt að auka fjármuni til löggæslu í kjördæminu til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna bæði erlendra og innlendra.
Kjördæmisþingið fagnar tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Þýðingarmikið er að hún er fjármögnuð um leið. Ljóst er þó að væntingar voru um hraðari uppbygginu á Suðurlandi en þarna birtist. KSFS fagnar þeirri umræðu sem snýr að umferðaröryggi og styður skoðun á þeim möguleika að göngum í gegnum Reynisfjall og nýrri Ölfusárbrú við Selfoss verði flýtt með innheimtu vegatolla. Jafnframt er lögð rík áhersla á að einbreiðar brýr í kjördæminu heyri sögunni til enda eru þær dauðagildrur í þeim umferðarþunga sem nú er staðreyndin.
Í gegnum árin hefur ekki verið gefið jafnt til allra landsmanna og eru helsta dæmið um það sú mismunun sem í verðlagningu á flutningi á raforku. Þessi mismunum stendur uppbyggingu landsbyggðarinnar fyrir þrifum og nú þegar ríkistjórnin hefur samþykkt háleit markmið um orkuskipti í samgöngum er rétt að Alþingi Íslendinga taki af skarið leiðrétti þetta misrétti með lagasetningu. Eðlilegt væri að landið væri allt eitt gjaldsvæði eins og í símaþjónustu.
Framsókn vill öflugt menntakerfi þar sem ný tækifæri eru sköpuð á umbreytingartímum. Kjördæmisþing KSFS fagnar áherslum mennta- og menningarmálaráðherra við að efla menntakerfið á öllum skólastigum með auknum fjárframlögum til að auka gæði náms.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á að lausnir í húsnæðismálum eins og kynntar voru í stjórnasáttmálanum nái fram að ganga og er þá afnám verðtryggingar af lánum einn veigamesti liðurinn í því. Erfiðleikar við að koma sér upp eigin húsnæði eru eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku samfélagi og á því þarf núverandi ríkisstjórn að taka. Einnig er mjög brýnt að taka á stórkostlegum vanda á húsaleigumarkaði hið fyrsta.
Leggja þarf áherslu á í komandi kjarasamningum að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk hafa setið eftir. Með þessu næðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.
Standa þarf vörð um íslenskan landbúnað og fylgja fast eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um greinina. Koma þarf til móts við þann tímabundna vanda sem nú er uppi í sauðfjár- og loðdýrarækt.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á í ljósi þeirrar náttúruvár sem er í kjördæminu að lokið verði við stofnun hamfarasjóðs sem fyrirhugað er að leysi viðlagatryggingu og A- deild bjargráðsjóðs af hólmi.