Categories
Fréttir

Mannréttindi alþjóðleg og altæk

Deila grein

28/04/2016

Mannréttindi alþjóðleg og altæk

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Mikilvægi virðingar fyrir mannréttindum og þáttur þeirra í utanríkisstefnu Íslands var umfjöllunarefni Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra, á alþjóðlegum hringborðsumræðum um mannréttindamál, sem haldin er í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Á fjórða tug fræðimanna, dómara, embættismanna og stjórnmálamanna, hvaðanæva að úr heiminum, taka þátt í umræðunum, sem haldnar eru hér á landi að frumkvæði Ögmundar Jónassonar, alþingismanns og Institute for Cultural Diplomacy.
„Mannréttindabrot eru ein meginástæða átaka og stríðs í heiminum og baráttunni fyrir mannréttindum er hvergi nærri lokið“, sagði Lilja í ávarpi sínu og lagði í því sambandi áherslu á að ekki mætti slaka á gagnvart kröfum öfgaafla um að skerða mannréttindi einstakra hópa.
Baráttan fyrir mannréttindum hefur verið einn hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu um langt skeið. Hennar sér ekki síst stað í áherslu Íslands á kynjajafnrétti og þess að alþjóðaskuldbindingar á þessu sviði séu virtar, þar með talið alþjóðasamningurinn um afnám allrar mismununar gegn konum. „Ég tel að einn þáttur í jafnréttisbaráttunni sé að fá karla til að taka virkari þátt í henni. Ég vil halda áfram því góða starfi sem forveri minn vann í þeim efnum, m.a. með því að halda fleiri Rakarastofuráðstefnur,“ sagði Lilja.
Uttanríkisráðherra minntist einnig á reglubundna skoðun Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna en mannréttindaástandið á Íslandi verður tekið fyrir af ráðinu í nóvember. „Okkur er hollt að ræða stöðuna og að fá utanaðkomandi augu til að meta hana. Ef þetta kerfi á að virka og veita aðhald verða öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að taka þátt í því á jafningjagrundvelli og í góðri trú.  Ekkert ríki getur haldið því fram að mannréttindamál séu innanríkismál.  Mannréttindi eru alþjóðleg og altæk.“
Ávarp utanríkisráðherra á hringborðsumræðunum

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi ræddi málefni landbúnaðar og sjávarútvegs við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins

Deila grein

28/04/2016

Gunnar Bragi ræddi málefni landbúnaðar og sjávarútvegs við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraGunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra átti í dag fundi með þeim Phil Hogan, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála og Karmenu Vella, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu.

 Á fundinum með Hogan voru ræddar reglur Evrópusambandsins sem varða lífrænan landbúnað en þær leyfa ekki notkun fiskimjöls sem fóðurgjafa. Einnig ræddu þeir nýgerðan samning milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Gunnar Bragi og Karmenu Vella ræddu stöðuna í viðræðum strandríkja við NA Atlantshaf um skiptingu deilistofna. Báðir lýstu þeir yfir vilja til að starfa náið saman að lausn þeirra mála. Málefni bláa hagkerfisins, sem er hvers konar efnahags starfsemi á haf- og strandsvæðum (blue economy), voru rædd. Þar sagði Vella að Íslendingar væru Evrópusambandinu góð fyrirmynd. Þeir ræddu einnig málefni hafsins (ocean governance) og málefni norðurslóða. Báðir voru þeir sammála um að nýting auðlinda yrði að byggja á bestu vísindarökum þannig að sjálfbærni væri sem best tryggð. Gunnar Bragi lýsti þeirri sýn Íslands hvernig ábyrgð og ákvarðanir um nýtingu náttútuauðlinda á sjálfbæran hátt væri best fyrirkomið á staðbundinn og svæðisbundinn hátt en yfirþjóðleg þegar því sleppti.

Að endingu ræddu þeir Gunnar Bragi og Vella tvíhliða samkomulag Íslands og Evrópusambandsins um fiskveiðimálefni frá árinu 1992. Samkomulagið var gert í tengslum við gerð EES samkomulagsins en hefur verið óvirkt um nokkurra ára skeið. Þeir urðu ásáttir um að skoða leiðir til að endurvekja og endurnýja samkomulagið. Verður embættismönnum beggja aðila falið að funda á næstunni vegna þessa.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal

Categories
Fréttir

Forsætisráðherra með lokaávarp á ráðstefnu um samkeppnishæfni

Deila grein

28/04/2016

Forsætisráðherra með lokaávarp á ráðstefnu um samkeppnishæfni

SIJSigurður Ingi Jóhannsson,forsætisráðherra, flutti lokaávarp á ráðstefnunni ,,Social Progress – What Works“ sem haldin var í Hörpu fyrr í dag.
Forsætisráðherra benti á það í ræðu sinni að það ætti ekki að koma neinum á óvart að Ísland væri á meðal fremstu þjóða þegar stuðst væri við mælikvarða sem mæla gæði samfélagsins almennt. Hann benti einnig á að eigi að síður þyrftu Íslendingar stöðugt að svara nýjum og áleitnum spurningum um styrk samfélagslegra innviða á Íslandi. Þrátt fyrri kosti sjálfstæðis og sérstöðu sé Íslendingum hollt að líta út fyrir landsteinana, bera sig saman við aðrar þjóðir og læra af þeim, líkt og þær geti vonandi lært af Íslendingum.
„Það er von mín að þetta geti orðið árlegur viðburður hér á landi sem endurvarpar á áhugaverðan hátt framtíðarsýn og stefnumótun samfélaga og geti um leið orðið  til að vekja athygli á okkar góða árangri hér á landi,“ sagði ráðherra í ræðu sinni en Ísland er nú í 4. sæti samkvæmt mælingu Social Progress Index.
Ræðan var flutt á ensku og hana má lesa hér á vefnum.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Aukið mikilvægi jarðhita í orkubúskap heimsins

Deila grein

28/04/2016

Aukið mikilvægi jarðhita í orkubúskap heimsins

LiljaAlfreðsdóttir-utanríkisráðuneytiAukið mikilvægi jarðhita í orkubúskap heimsins og framlag Íslands til sjálfbærrar orkunýtingar var meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, gerði að umtalsefni í opnunarerindi sínu á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu, Iceland Geothermal Conference, sem fram fer hér á landi dagana 27.-29. apríl.
Í máli sínu gerði ráðherra jafnframt grein fyrir samstarfi Íslands við alþjóðastofnanir á sviði jarðhita, meðal annars í þróunarríkjum í Afríku, og lagði áherslu á þýðingu endurnýjanlegrar orku í loftslagsmálum og framfylgd heimsmarkmiðanna.„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu horft er til Íslands þegar kemur nýtingu og aðgengi að jarðhita. Hér höfum við mikilsverða þekkingu fram að færa sem sífellt fleiri horfa til,” segir Lilja en rúmlega 700 manns sækja ráðstefnuna sem fram fer í Hörpu.
Í tengslum við ráðstefnuna fundaði utanríkisráðherra með Rachel Kyte, sérstökum fulltrúa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri átaksins „Endurnýjanlega orku fyrir alla“, sem hefur það markmið að tvölda hlut endurnýjanlegra orkugjafa og orkunýtingu fyrir árið 2030. Á fundi sínum lagði ráðherra áherslu á möguleika á nýtingu jarðhita víða um heim, orkuöryggi og hét átakinu áframhaldandi og aukinn stuðning Íslands.
Þá átti utanríkisráðherra sömuleiðis fund með Adnan Amin, forstjóra IRENA, alþjóðlegrar stofununar um endurnýjanlega orkugjafa. Voru orkumál rædd og kom fram að stuðningur Íslands við stofnunina væri vel metinn.
Ávarp utanríkisráðherra

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni

Deila grein

27/04/2016

Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni

HÖ/-
Reykjavík 27/4 2016
 
Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni.
Ég hef ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins frá og með deginum í dag.  Þetta hef ég tilkynnt framkvæmdastjórn flokksins og öðrum sem fara með trúnaðarstörf fyrir hann.
Þessa ákvörðun tek ég í ljósi þess hversu einsleit og óvægin umræðan er.  Þetta er persónuleg ákvörðun mín og á engan hátt viðurkenning á því að ég hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti.
Spurningum blaðamanna um mjög tímabundna aðkomu mína að tveimur aflandsfélögum tel ég mig hafa svarað fullnægjandi.
Því hefur ranglega verið haldið fram að ég hafi keypt hlutafé í BM Vallá með tortryggilegum hætti.  Arion banki bauð BM Vallá til sölu í opnu söluferli sem félag mitt ásamt öðrum fjárfestum tók þátt í.  Að bendla þau kaup við aflandsfélög er alfarið rangt.
Ég dreg mig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn og þau góðu störf sem hann hefur unnið að í tíð þessarar ríkisstjórnar.  Ég er ekki kjörinn fulltrúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörðun.
Við þessi tímamót vil ég nota tækifærið og þakka öllum gott og ánægjulegt samstarf þann tíma sem ég hef gegnt störfum framkvæmdastjóra fyrir flokkinn.
 
Hrólfur Ölvisson

Categories
Fréttir

Starfshópur fjalli um ákvörðun ESA varðandi ríkisaðstoð við orkufyrirtæki

Deila grein

27/04/2016

Starfshópur fjalli um ákvörðun ESA varðandi ríkisaðstoð við orkufyrirtæki

SIJÁ ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að setja á fót starfshóp fjögurra ráðuneyta undir forystu forsætisráðuneytisins til að undirbúa viðbrögð við nýlegri ákvörðun Eftirlitsstofnunar Efta (ESA) er varðar nýtingu náttúruauðlinda í þágu rafmagnsframleiðslu.
Með ákvörðun dags. 20. apríl sl. beindi ESA þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að gerðar verði breytingar á lagaumhverfi sem varðar samninga við orkufyrirtæki um nýtingu náttúruauðlinda í opinberri eigu til rafmagnsframleiðslu. Með þeim breytingum verði betur tryggt að markaðsverð sé greitt fyrir slíka nýtingu og jafnframt skýrar kveðið á um hvaða verklag skuli viðhaft við ákvörðun markaðsverðs. Að mati ESA eru úrbætur nauðsynlegar til þess að ekki verði litið svo á að hér sé um ólögmæta ríkisaðstoð og röskun á samkeppni á raforkumarkaði að ræða.
Loks mælist ESA til þess að áður gerðir samningar við orkufyrirtæki um nýtingu verði teknir til skoðunar m.t.t. þess hvort þeir endurspegli markaðsverð og þeir endurskoðaðir ef svo er ekki, að því er varðar eftirstöðvar slíkra samninga.
Samkvæmt tilmælunum skulu allar framangreindar ráðstafanir hafa átt sér stað eigi síðar en 1. janúar 2017. Stjórnvöld hafa einn mánuð til að fallast skilyrðislaust á tilmælin, en hætta ella á að ESA opni svokallaða formlega rannsókn vegna málsins.
Verklag við ákvörðun verðs vegna nýtingar náttúruauðlinda, m.a. vegna raforkuframleiðslu, hefur verið að mótast á undanförnum árum hjá þeim ráðuneytum sem hafa með þjóðlendur og aðrar ríkiseignir að gera – forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Það verklag endurspeglar meðal annars meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og hagkvæmni við ráðstöfun takmarkaðra gæða.
Breytingar á lagaumhverfi sem ESA leggur til myndu festa í sessi þær meginreglur og þá aðferðafræði sem verið hefur að mótast og gætu tryggt enn betur að verð sem orkufyrirtæki greiða fyrir aðgang að auðlindum í opinberri eigu sé ákveðið á markaðsforsendum. Í starfshópnum verða fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Starfshópurinn mun á næstu vikum taka til skoðunar hvort rétt sé að fallast á tilmæli ESA og undirbúa viðbrögð að öðru leyti.  Óskað verður eftir viðræðum við orkufyrirtæki vegna áður gerðra samninga. Samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem tilefni er til.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Fyrirkomulag strandveiða 2016

Deila grein

26/04/2016

Fyrirkomulag strandveiða 2016

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraAukning verður á veiðiheimildum á svæðum A og B fyrir strandveiðibáta á strandveiðitímabilinu sem hefst 2. maí og stendur til 31. ágúst 2016. Önnur ákvæði um veiðisvæði, veiðidaga, hámarksafla á dag og fjölda handfærarúlla verða óbreytt frá fyrri árum.

Við úthlutun aflaheimilda er byggt á svæðaskiptingu; svæði A) nær frá A. Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, svæði B) nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps, svæði C) nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps og svæði D) nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar.

Strandveiðar hófust fyrst í júní 2009 og var heildarmagnið þá 4.000 tonn. Á komandi vertíð verður leyfilegur heildarafli 9.000 tonn og er það aukning um 400 tonn frá fyrra ári. Reikna má með að útgefin veiðileyfi verði rúmlega 700.

Svæði D sker sig töluvert úr hvað varðar meðalveiði á bát, en þar er veiði að jafnaði mun lakari en á hinum svæðunum.  Síðustu tvö ár voru um 100-200 tonn óveidd á svæði D. Núverandi veiðidagar á svæðum gera ráð fyrir um 30 – 60 dögum í veiði. Fæstir veiðidagar eru á svæði A en flestir á svæði D.

Til þess að ná meiri jöfnuði í meðalveiði á bát á komandi vertíð fyrir svæði A, B og C mun aukningin fara á svæði A og að auki 150 tonn frá svæði D. Þá verða 50 tonn flutt af svæði D yfir á svæði B.


Svæði
Meðal- dagafjöldi á bát
2014/2015
Meðalafli í kg. á bát á dag 2014/2015 Meðalveiði alls tonn  á bát 2014/2015 Fjöldi báta á svæði 2014/2015 Líkleg meðalveiði í tonnum á bát 2016 m.v. reglugerð  Breyting í tonnum á svæði 2016
 
A 32 394 12,6 233 15,1 + 550
B 50 305 15,3 141 15,7  + 50
C 56 282 15,8 147 15,8  0
D 66 171 11,3 120 11,3 – 200

Úthlutun 2016:
 

Botnfiskur Maí Júní Júlí Ágúst
Svæði A 852 1.023 1.023 512
Svæði B 521 626 626 313
Svæði C 551 661 661 331
Svæði D 520 455 195 130

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

Categories
Fréttir

Utanríkisráðuneytið felur Flóttamannastofnun SÞ að ráðstafa 300 milljónum

Deila grein

26/04/2016

Utanríkisráðuneytið felur Flóttamannastofnun SÞ að ráðstafa 300 milljónum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, mun ráðstafa 300 milljónum króna af þeim hálfa milljarði sem utanríkisráðuneytinu var falið að úthluta árið 2016 til aðstoðar við flóttamenn frá Sýrlandi á vettvangi af sérstökum framlögum Íslands til málefna flóttamanna frá Sýrlandi.   Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna ráðstafar 50 milljónum, Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) 50 milljónum, borgarasamtök á Íslandi 50 milljónum og lagt er til að 25 milljónum króna verði varið til verkefnis UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Óráðstafað er öðrum 25 milljónum.
Ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar um málefni flóttafólks og innflytjenda lagði fram tillögur sem samþykktar voru í ríkisstjórn sl. haust og síðar í fjárlögum á Alþingi  um að verja allt að einum milljarði króna af fjárlögum ársins 2016 til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi. Var utanríkisráðuneytinu falið að ráðstafa hálfum milljarði af þessu framlagi til stuðnings við verkefni alþjóðastofnana og félagasamtaka á vettvangi.
Framlagið til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) verður nýtt  til að styðja við flóttamenn innan landamæra Sýrlands en einnig til stuðnings við flóttamenn sem hafast við í helstu nágrannaríkjum Sýrlands.  Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) nýtir framlagið til neyðarverkefna innan Sýrlands þar sem mikið skortur hefur verið á aðstoð og Palestínuflóttamannaaðstoðin mun ráðstafa framlaginu frá Íslandi til verkefna í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.
Þegar hefur verið auglýst eftir styrkumsóknum vegna framlagsins til íslenskra borgarasamtaka.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Heimilt að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum

Deila grein

22/04/2016

Heimilt að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum

islenskifaninn-sijAlþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Samkvæmt lögunum er nú heimilt, án sérstaks leyfis, að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum.
Tilgangur laganna er að auka möguleika framleiðenda vöru til koma íslenskum uppruna hennar á framfæri við markaðssetningu erlendis og hér á landi, þ. á m. gagnvart erlendum ferðamönnum. Þau sjónarmið búa jafnframt að baki lögunum að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um lögunum.
Eftirlit með framkvæmd laganna verður á hendi Neytendastofu.

Ljósmynd: Sigurður Ingi Jóhannsson.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Sigrún undirritar Parísarsamninginn

Deila grein

22/04/2016

Sigrún undirritar Parísarsamninginn

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir Íslands hönd við athöfn í New York. Í ávarpi í tilefni undirritunarinnar sagði ráðherra að Ísland ynni að því að framkvæma markmið samningsins, m.a. með aðgerðum á sviði samgangna, fiskveiða og landbúnaðar, auk kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu.
Fulltrúar yfir 160 ríkja skrifuðu undir samninginn við athöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag. Aldrei áður hafa jafn mörg ríki skrifað undir alþjóðasamning við slíka athöfn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði í ræðu sinni að Ísland myndi leggja sig fram við að hrinda markmiðum Parísarsamningsins í framkvæmd. Endurnýjanleg orka væri notuð við hitun og rafmagnsframleiðslu á Íslandi, en draga yrði úr losun frá öðrum uppsprettum. Íslensk stjórnvöld styddu við uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og ynnu að minnkun losunar frá sjávarútvegi og landbúnaði í samvinnu við atvinnulífið. Mikilvægt væri að vinna að kolefnisbindingu úr andrúmsloftinu jafnframt því að draga úr losun. Ísland myndi efla skógrækt og landgræðslu, en á heimsvísu væri mikilvægt að berjast gegn eyðimerkurmyndun.
Sigrún sagði að Ísland styddi þróunarríki við verkefni á sviði loftslagsmála og hreinnar orku. Alþjóða jarðhitabandalagið hefði verið sett á fót í París og Ísland bindi vonir við að það ýti undir nýtingu jarðhita á heimsvísu. Ráðherra minnti á mikilvægi þess að konur nytu fulls jafnréttis og væru virkjaðar til ákvörðunartöku og starfa og benti á að jafnt kynjahlutfall sé í ríkisstjórn Íslands.
„Jafnrétti er markmið í sjálfu sér og mun að auki hjálpa okkur að vinna að grænni og betri framtíð. Parísarsamningurinn mun hjálpa okkur við að virkja pólitískan vilja og fjármagn til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Ísland mun leggja sitt af mörkum,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Fullgilding Parísarsamningsins

""

Parísarsamningurinn er lagalega bindandi alþjóðasamningur undir Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (sem er oftast kallaður Loftslagssamningur SÞ). Parísarsamningurinn hefur sömu lagalegu stöðu og Kýótó-bókunin við Loftslagssamninginn, sem skrifað var undir 1997 og tók gildi 2005. Skuldbindingar ríkja samkvæmt Kýótó-bókuninni renna út árið 2020, en skuldbindingar ríkja innan Parísarsamningsins eru miðaðar við tímann eftir 2020. Aðild ríkja að Parísarsamningnum fer í gegn um tvö skref, undirskrift og fullgildingu. Með undirskrift lýsa fulltrúar ríkisstjórna yfir vilja sínum til að uppfylla ákvæði samningsins, en fullgilding jafngildir staðfestingu á því að samningurinn hafi verið samþykktur í samræmi við innri reglur viðkomandi ríkis og eru ríki frá þeim tíma bundin við reglur hans. Ísland hefur nú undirritað samninginn ásamt yfir 160 öðrum ríkjum, en fullgilding er eftir. Vinna við það er hafin, en hún kallar meðal annars á þýðingu og lagalega rýni varðandi atriði sem kann að þurfa að leiða í íslensk lög. Ákvæði eru í Parísarsamningnum um að hann gangi í gildi alþjóðlega þegar minnst 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann.

Ráðherra átti stuttan fund með Barböru Hendricks umhverfisráðherra Þýskalands.Ráðherra átti stuttan fund með Barböru Hendricks umhverfisráðherra Þýskalands.

Ísland hefur lýst yfir ætlun að vinna að sameiginlegu markmiði með 28 ríkjum ESB innan Parísarsamningsins. Noregur hefur lýst yfir sams konar áformum, en bæði ríkin eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. EES-samningnum. Hafnar eru óformlegar viðræður Íslands og Noregs með ESB um útfærslu á sameiginlegu markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Ísland mun einnig hafa samráð við ESB og Noreg varðandi fullgildingu Parísarsamningsins í ljósi þess að stefnt er að því að 30 Evrópuríki vinni að sameiginlegu markmiði innan hans.
Ávarp Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun Parísarsáttmálans (pdf-skjal).

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is