Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, gerði samþykkt fjárlaga 2024 að umtalsefni í störfum þingsins. Sagði hún verkefnið geta verið krefjandi á tímum óvissu, bregðast verði við þörfum og gera ráð fyrir hinu óvænta.
„Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtastig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við erum að samþykkja núna fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi,“ sagði Halla Signý.
Minnti hún á að staða ríkissjóðs væri sterk og þó svo að ekki sé hægt að hafa stjórn á öllu sem gerist, þá höfum við val um viðbrögð og aðgerðir. „Það er mikilvægt að muna það þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.“
„Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili. Allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningnum með hógværum hækkunum, það er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt og krefjandi á tímum óvissu, bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi. Að mörgu þarf að huga, bregðast við þörfum og ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænta. Efnahagsleg áhrif í kjölfar heimsfaraldurs voru margvísleg. Það er til marks um hversu kvikk við erum og snörp hversu hratt þjóðarbúið hefur tekið við sér að nýju. Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtastig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við erum að samþykkja núna fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.
Miklum náttúruhamförum á Suðvesturlandi á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er hvergi nærri lokið. Þá ríkir óvissa vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Staða ríkissjóðs er sterk. Við getum tekist á við verkefni sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði. Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir. Það er mikilvægt að muna það þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.
Virðulegi forseti. Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili. Allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningnum með hógværum hækkunum, það er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt.“

14/12/2023
„Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar ‒ mannúðin verður að sigra“Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, tók þátt í umræðu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, vegna munnlegrar skýrslu utanríkisráðherra, á Alþingi. Sagðist hann hafa þá trú að Ísland geti haft áhrif með því að bjóða fram mannúðaraðstoð, með því að taka á móti kvótaflóttafólki frá Palestínu og með því að bjóða fram vettvang fyrir friðarviðræður.
„Við í Framsókn studdum viðurkenningu sjálfstæðrar Palestínu á Alþingi Íslendinga árið 2011 og við studdum tveggja ríkja lausnina. Við trúum á tveggja ríkja lausnina. Forystumenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því að hitta og hlusta á forystumenn Palestínu. Við fordæmum allt ofbeldi. Við fordæmum þegar hryðjuverkamenn ráðast á saklaust fólk. Við virðum rétt ríkja til að verja sig eins og stuðningur okkar við Úkraínu sýnir. Við virðum réttinn til sjálfsvarnar en við fordæmum viðbjóðslegar árásir á saklaust fólk og börn á Gaza. Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar,“ sagði Sigurður Ingi.
„Ísland talar fyrir friði og lýðræði á alþjóðavettvangi. Við verðum að tala fyrir friðarviðræðum, fyrir því að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, halda samtalinu opnu milli þeirra, milli okkar og þeirra og að samtalsleiðirnar séu opnar. Við verðum að þrýsta á bandalagsþjóðir okkar, Evrópuþjóðir og Bandaríkin, um að þessum hræðilegu árásum linni.“
„Ísland talar fyrir friði og lýðræði á alþjóðavettvangi. Við verðum að tala fyrir friðarviðræðum, fyrir því að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, halda samtalinu opnu milli þeirra, milli okkar og þeirra og að samtalsleiðirnar séu opnar. Við verðum að þrýsta á bandalagsþjóðir okkar, Evrópuþjóðir og Bandaríkin, um að þessum hræðilegu árásum linni. Við getum ekki horft upp á þúsundir barna drepnar. Mannúðin verður að sigra,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.
Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Hv. þingheimur. Við höfum öll fylgst með hryllingi sem nú geisar fyrir botni Miðjarðarhafs. Saklaust fólk hefur týnt lífi sínu í þúsundatali. Þar af er samkvæmt fréttum stór hluti fórnarlambanna börn. Við þekkjum flest þá tilfinningu að missa, þekkjum hvernig sorgin og angistin heltekur okkur þegar einhver nákominn fellur frá. Það er hins vegar erfiðara að reyna að setja sig í spor fólks sem hefur misst ættingja og ástvini í hryðjuverkaárás eða þegar hermenn láta byssukúlum og sprengjum rigna yfir heimili þess. Það er erfiðara að ímynda sér tilfinninguna þegar einhver nákominn hefur verið tekinn í gíslingu. Ég get ímyndað mér sorgina en ég get ekki ímyndað mér heiftina, heiftina sem hefur byggst upp í hugum og hjörtum fólks í áratugi, heiftina sem sprettur af ótta við næstu nágranna.
Ísland hefur í utanríkismálum haft þá stefnu að standa með vina- og bandalagsþjóðum okkar í Evrópu og Bandaríkjunum. Sérstaklega hefur samband okkar við Norðurlandaþjóðirnar verið mikilvægt. Norðurlöndin eru líka fyrirmynd í heiminum þegar kemur að velferð og friðsæld. Við í Framsókn studdum viðurkenningu sjálfstæðrar Palestínu á Alþingi Íslendinga árið 2011 og við studdum tveggja ríkja lausnina. Við trúum á tveggja ríkja lausnina. Forystumenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því að hitta og hlusta á forystumenn Palestínu. Við fordæmum allt ofbeldi. Við fordæmum þegar hryðjuverkamenn ráðast á saklaust fólk. Við virðum rétt ríkja til að verja sig eins og stuðningur okkar við Úkraínu sýnir. Við virðum réttinn til sjálfsvarnar en við fordæmum viðbjóðslegar árásir á saklaust fólk og börn á Gaza. Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar.
Ég er ekki svo oflætisfullur að ég trúi því að íslensk stjórnvöld geti komið á friði fyrir botni Miðjarðarhafs, ekki frekar en við getum lægt ofbeldisöldur í Mjanmar, Jemen, Úkraínu og öllum þeim löndum þar sem hræðileg stríð geisa. En ég trúi því að við getum haft áhrif þegar við tökum saman höndum með vinaþjóðum okkar og ég trúi því að við getum, Íslendingar, lagt okkar af mörkum með því að bjóða fram mannúðaraðstoð, sem við höfum gert með því að skoða að taka á móti kvótaflóttafólki frá Palestínu, með því að bjóða fram vettvang fyrir friðarviðræður.
Ísland talar fyrir friði og lýðræði á alþjóðavettvangi. Við verðum að tala fyrir friðarviðræðum, fyrir því að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, halda samtalinu opnu milli þeirra, milli okkar og þeirra og að samtalsleiðirnar séu opnar. Við verðum að þrýsta á bandalagsþjóðir okkar, Evrópuþjóðir og Bandaríkin, um að þessum hræðilegu árásum linni. Við getum ekki horft upp á þúsundir barna drepnar. Mannúðin verður að sigra.“

14/12/2023
Samfylkingin gefur lítið fyrir staðreyndir eða gögn!„Samfylkingin hefur ekki látið staðreyndir eða gögn flækjast fyrir sér í þeirri vegferð að sannfæra íslensku þjóðina um það að íslenska heilbrigðiskerfið standi á brauðfótum, sé fjársvelt og þjónustan fari versnandi þrátt fyrir að staðreyndir og alþjóðlegur samanburður bendi til hins gagnstæða,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, í störfum þingsins.
„Það er ábyrgðarhluti kjörinna fulltrúa að halda sig í raunheimum og við staðreyndir.
Í tíð ríkisstjórnarinnar hafa framlög til heilbrigðismála vaxið um 32% á föstu verðlagi — 32%. Það gerir um 80 milljarða viðbót í kerfi sem vissulega þurfti á auknu fjármagni að halda.
Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 1 milljarði í varanlegt viðbótarfjármagn til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og stefnan er að tryggja að þær stofnanir geti sinnt mikilvægri grunnþjónustu í sínu umdæmi og létt álagi af Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Sú viðbót kemur í kjölfarið á því að grunnrekstur allra heilsugæslustöðva var styrktur um 2 milljarða ásamt því að gerð var varanleg viðbótarfjárveiting upp á 450 milljónir til heilbrigðisstofnana til endurheimtar og endurreisnar.
Þetta eru allt staðreyndir sem endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um heilbrigðiskerfið.
Við erum á réttri leið og við höfum bætt verulega í en við vitum það líka að Róm var ekki byggð á einum degi. Vissulega má alltaf gera betur og alltaf viljum við meira fjármagn inn í velferðarkerfið okkar og því er afar ánægjulegt að heyra að Samfylkingin ætli ekki að láta á sér standa þar. En að halda því fram að kerfið sé fjársvelt og þjónustan fari sífellt versnandi á ekki við rök að styðjast. Fólkið sem vinnur dag og nótt í heilbrigðiskerfinu okkar á betra skilið,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Það er ábyrgðarhluti kjörinna fulltrúa að halda sig í raunheimum og við staðreyndir. Samfylkingin hefur ekki látið staðreyndir eða gögn flækjast fyrir sér í þeirri vegferð að sannfæra íslensku þjóðina um það að íslenska heilbrigðiskerfið standi á brauðfótum, sé fjársvelt og þjónustan fari versnandi þrátt fyrir að staðreyndir og alþjóðlegur samanburður bendi til hins gagnstæða. Í tíð ríkisstjórnarinnar hafa framlög til heilbrigðismála vaxið um 32% á föstu verðlagi — 32%. Það gerir um 80 milljarða viðbót í kerfi sem vissulega þurfti á auknu fjármagni að halda. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 1 milljarði í varanlegt viðbótarfjármagn til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og stefnan er að tryggja að þær stofnanir geti sinnt mikilvægri grunnþjónustu í sínu umdæmi og létt álagi af Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sú viðbót kemur í kjölfarið á því að grunnrekstur allra heilsugæslustöðva var styrktur um 2 milljarða ásamt því að gerð var varanleg viðbótarfjárveiting upp á 450 milljónir til heilbrigðisstofnana til endurheimtar og endurreisnar. Þetta eru allt staðreyndir sem endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Við erum á réttri leið og við höfum bætt verulega í en við vitum það líka að Róm var ekki byggð á einum degi. Vissulega má alltaf gera betur og alltaf viljum við meira fjármagn inn í velferðarkerfið okkar og því er afar ánægjulegt að heyra að Samfylkingin ætli ekki að láta á sér standa þar. En að halda því fram að kerfið sé fjársvelt og þjónustan fari sífellt versnandi á ekki við rök að styðjast. Fólkið sem vinnur dag og nótt í heilbrigðiskerfinu okkar á betra skilið.“

13/12/2023
Þurfum við að fara í sérstakt fræðsluátak um skaðsemi áfengis?Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, minnti á í störfum þingsins að ekki megi auglýsa áfengi á Íslandi, né megi selja áfengi á netinu í smásölu. „En þetta er samt gert og viðbrögðin við því hafa verið mjög takmörkuð. Við sjáum þetta á auglýsingaskiltum, við sjáum þetta á samfélagsmiðlum, í sjónvarpinu og útvarpinu. Þetta er um allt.“
Sagði Lilja Rannveig þessa stöðu vera mjög áhugaverða, það taki um fimm mínútur að panta áfengi á netinu og varan verið afhennt samdægurs. „Þó það sé ekki enn og verður mögulega aldrei löglegt þá er þetta samt sem áður möguleiki og umræður um þetta hafa skapast síðastliðnar vikur.“
„Maður verður að vissu leyti hugsi yfir viðbrögðum stjórnmálamanna en líka almennings.“
„Við fórum í mjög gott átak fyrir mörgum árum um skaðsemi reykinga. Ástæðan fyrir því að ég nefni það er vegna þess að ég hef verið að spyrja í kringum mig upp á síðkastið hvort fólk viti hver áhrif áfengis eru á líkamann. Það er náttúrlega þannig að sumt fólk drekkur ekki og aðrir drekka mjög mikið en einhverra hluta vegna virðist vera mjög takmörkuð þekking á því hver áhrifin eru af áfengi,“ sagði Lilja Rannveig.
„Þegar við spyrjum fólk um skaðsemi reykinga þá segir það: Þú getur fengið krabbamein og þetta getur skaðað lungun. En það eru mun loðnari svör þegar þú spyrð um áhrif áfengis. Það var rætt hér áðan í störfum þingsins, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór yfir það áðan, að það hefur orðið bakslag í unglingadrykkju. Það má því spyrja sig: Er þetta vegna þess að þau átta sig ekki á því hver áhrifin eru? Er það þannig að við þurfum að fara í sérstakt fræðsluátak um skaðsemi áfengis,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp dómsmálaráðherra um vefsölu áfengis. Þetta er um margt mjög áhugavert því að við hér inni vitum að það getur tekið okkur u.þ.b. fimm mínútur að panta áfengi á netinu og það getur verið komið heim til okkar samdægurs. Þó það sé ekki enn og verður mögulega aldrei löglegt þá er þetta samt sem áður möguleiki og umræður um þetta hafa skapast síðastliðnar vikur. Það má ekki auglýsa áfengi á Íslandi. Það má ekki selja áfengi á netinu í smásölu. En þetta er samt gert og viðbrögðin við því hafa verið mjög takmörkuð. Við sjáum þetta á auglýsingaskiltum, við sjáum þetta á samfélagsmiðlum, í sjónvarpinu og útvarpinu. Þetta er um allt. Maður verður að vissu leyti hugsi yfir viðbrögðum stjórnmálamanna en líka almennings. Við fórum í mjög gott átak fyrir mörgum árum um skaðsemi reykinga. Ástæðan fyrir því að ég nefni það er vegna þess að ég hef verið að spyrja í kringum mig upp á síðkastið hvort fólk viti hver áhrif áfengis eru á líkamann. Það er náttúrlega þannig að sumt fólk drekkur ekki og aðrir drekka mjög mikið en einhverra hluta vegna virðist vera mjög takmörkuð þekking á því hver áhrifin eru af áfengi. Þegar við spyrjum fólk um skaðsemi reykinga þá segir það: Þú getur fengið krabbamein og þetta getur skaðað lungun. En það eru mun loðnari svör þegar þú spyrð um áhrif áfengis. Það var rætt hér áðan í störfum þingsins, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór yfir það áðan, að það hefur orðið bakslag í unglingadrykkju. Það má því spyrja sig: Er þetta vegna þess að þau átta sig ekki á því hver áhrifin eru? Er það þannig að við þurfum að fara í sérstakt fræðsluátak um skaðsemi áfengis?“
„Þannig virkar lífið því miður ekki“

13/12/2023
„Þannig virkar lífið því miður ekki“Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, sagði í störfunum á Alþingi að stjórnmálin væru oft skemmtileg en á tímum væru þau einnig krefjandi og það sérstaklega í dag. Auðvelt væri að hlaupa á eftir popúlísku áliti, „en að standa í lappirnar, hafa trú á eigin sannfæringu og nálgast umræðuna út frá staðreyndum sem er aflað með því að kynna sér málin og það sem liggur til grundvallar hverju sinni.“
„Hér ætla ég ekki að tiltaka neitt eitt umfram annað en oft hættir okkur til að láta undan í ákvarðanatökum vegna sjónarmiða sem ekki verður annað séð en að byggist á pólitískum rétttrúnaði eða til að styggja ekki neinn,“ sagði Hafdís Hrönn.
„Við verðum að passa að láta prinsippin ekki flækjast fyrir í okkar vinnu að framfaramálum í þágu þjóðarinnar og orð sem hér eru látin falla eða annars staðar úti í samfélaginu af okkar hálfu bera svo sannarlega ábyrgð því fólk hlustar á okkur.“
„Þetta ferðalag sem lífið er býður ekkert oft upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags en við vinnum af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni. En að því sögðu þá vil ég hvetja okkur til að nálgast næstu daga og vikur með samvinnuhugsjón og nálgast hlutina út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Fólkið okkar treystir á það og við í Framsókn munum gera akkúrat það, nú sem áður, að hafa samvinnu að leiðarljósi svo hægt sé að vinna áfram að framfaramálum þjóðinni til heilla,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.
Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Á þeim tímum sem við búum á er auðvelt að hlaupa á eftir popúlísku áliti annarra og jafnvel er það bara auðveldara til skemmri tíma en að standa í lappirnar, hafa trú á eigin sannfæringu og nálgast umræðuna út frá staðreyndum sem er aflað með því að kynna sér málin og það sem liggur til grundvallar hverju sinni. Við höfum öll fengið ýmiss konar áskoranir um að ráðast í ýmsar aðgerðir undanfarnar vikur, úr ýmsum áttum. Þeir póstar varða ýmis mál. Hafa allar staðreyndir verið hafðar til grundvallar í þeirri umræðu? Hér ætla ég ekki að tiltaka neitt eitt umfram annað en oft hættir okkur til að láta undan í ákvarðanatökum vegna sjónarmiða sem ekki verður annað séð en að byggist á pólitískum rétttrúnaði eða til að styggja ekki neinn. En þannig virkar lífið því miður ekki. Við verðum að passa að láta prinsippin ekki flækjast fyrir í okkar vinnu að framfaramálum í þágu þjóðarinnar og orð sem hér eru látin falla eða annars staðar úti í samfélaginu af okkar hálfu bera svo sannarlega ábyrgð því fólk hlustar á okkur. Það treystir því og býst við því að við nálgumst umræðuna með röksemdum, skynsemi og staðreyndum. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekkert oft upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags en við vinnum af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni. En að því sögðu þá vil ég hvetja okkur til að nálgast næstu daga og vikur með samvinnuhugsjón og nálgast hlutina út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Fólkið okkar treystir á það og við í Framsókn munum gera akkúrat það, nú sem áður, að hafa samvinnu að leiðarljósi svo hægt sé að vinna áfram að framfaramálum þjóðinni til heilla.“

12/12/2023
„Mikil sóknarfæri við að auka gæði menntunar“Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segist fagna nýsamþykktum lögum Alþingis um nýja stofnun í skólakerfinu, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Henni er ætlað að vera ný þjónustu- og þekkingarstofnun sem starfi í þágu barna og ungmenna á sviði menntamála. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu mun þjónusta leik-, grunn- og framhaldsskóla um land allt með áherslu á gæði menntunar og skólaþjónustu.
„Ný Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er fagleg þekkingarmiðstöð og leiðtogi þegar kemur að gæðum menntunar og farsældar barna í skólum. Hún veitir stuðning við verkefni skóla sem krefjast sérhæfðrar þekkingar í stað þess að þau séu leyst í hverjum skóla fyrir sig. Í henni felast mikil sóknarfæri við að auka gæði menntunar, samræma og deila þekkingunni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu markar stórt skref við eflingu menntunar og innleiðingu menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Í víðtæku samráði um framtíðarskipan skólaþjónustu gegnir hún lykilhlutverki í stuðningi við skóla og framkvæmd fyrirhugaðrar heildarlöggjafar um skólaþjónustu.
Miðstöðin hefur störf 1. apríl 2024 og kemur í stað Menntamálastofnunar sem verður lögð niður. Frumvarp til laga um Miðstöðina var lagt fyrir Alþingi á haustþingi og samþykkt á föstudag. Ný störf hjá nýrri stofnun verða auglýst á næstunni.
Verkefni nýrrar stofnunar eru m.a. að:
- styðja, efla og samhæfa menntun, skólaþjónustu og annað skólastarf um land allt,
- sjá nemendum fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum,
- byggja upp og halda utan um aðferðir og úrræði fyrir skóla sem styðja við skólastarf, þar á meðal gæðaviðmið, verkferla, verkfæri og matstæki til greiningar námsárangurs,
- styðja við innleiðingu stefnumótunar stjórnvalda á sviði menntunar og farsældar barna og ungmenna, þ.m.t. menntastefnu og aðalnámskráa.
Samhliða nýrri þjónustustofnun styrkist geta mennta- og barnamálaráðuneytisins til að afla, greina og birta upplýsingar um menntamál. Lagasetningin er liður í að efla greiningarhæfni stjórnvalda á sviði farsældar barna í heild sinni. Þá verður eftirlit og ytra mat sameinað í mennta- og barnamálaráðuneytinu, í það minnsta fyrst um sinn.
Fagna nýsamþykktum lögum um nýja stofnun í skólakerfinu, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, samþykkt á Alþingi. …
Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 12. desember 2023

11/12/2023
Málstefna fyrir íslenskt táknmálÍ vikunni mælti menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrir þingsályktunartillögu um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun. Þar er gengið út frá að íslenskt táknmál sé hefðbundið minnihlutamál og fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Stjórnvöld stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji að öðru leyti við menningu og menntun táknmálsfólks og táknmálsbarna eins og segir í tillögunni.
Með málstefnu íslensks táknmáls er gert ráð fyrir að hún taki til fimm meginstoða, þ.e. máltöku táknmálsbarna, jákvæðs viðhorfs, fjölgunar umdæma íslensks táknmáls, lagaumhverfis og máltækni. Tillögu um málstefnu fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára. Að þeim árum liðnum verða bæði málstefnan og aðgerðaráætlun endurskoðuð.
Táknmál er ekki einkamál
Táknmál er ekki einkamál heyrnalausra, heldur er það tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og því tímabært að táknmáli sé gert hærra undir höfði. Þrátt fyrir að táknmál sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál sem og menningu og sögu heyrnarlausra fyrir nemendum, en það er með þetta eins og svo margt annað, því með því að auka fræðslu í samfélaginu myndu fordómar minnka og aukinn skilningur yrði á þörfum náungans.
Táknmál er minnihlutamál og því vegur viðhorf til tungumálsins meira heldur en til meirihlutamáls. Táknmál er ekki einka-mál þeirra sem ekki heyra. Það er heyrnarlausum gagnlaust ef hann getur ekki haft samskipti við aðra á sínu tungumáli. Táknmálið er því mikilvægt inni á heimilum, skóla, vinnustað og í samfélaginu öllu.
Á Íslandi eru tvö opinber tungumál, íslenska og íslenskt táknmál. Það er samt staðreynd að þeir sem tala táknmáli hafa ekki sama aðgengi að þjóðfélaginu og aðrir. Viðhorf til tungumálsins hefur áhrif á stöðu einstaklings í þjóðfélaginu og til að breyta því þarf að breyta viðhorfi þjóðfélagsins til táknmálsins. Jákvæð áhrif stjórnvalda hafa líka áhrif og áðurnefnd þingsályktunartillaga er til þess fallin að bæta viðhorf og gera íslenska táknmálinu hærra undir höfði. Eins og segir í greinagerð með þingsályktunartillögunni, þá er jákvætt viðhorf til íslensks táknmáls grundvöllur þess að táknmálstalandi fólk hafi tækifæri á við aðra og skiptir sköpum fyrir aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum um tungumálið
Talaðu við mig
Þegar barn fæðist heyrnalaust eða einstaklingur missir heyrn er mikilvægt að bæði barnið/einstaklingurinn fái stuðning og ekki bara hann því fjölskyldan og nánasta umhverfi hennar þarfnast líka stuðnings. Í aðgerðaráætlun er talað um að ef barn reynist vera með skerta heyrn verði snemmtækri íhlutun beitt til að tryggja viðkomandi barni og fjölskyldu þess öll úrræði sem koma barninu að gagni. Sé ástæða til, verði foreldrum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna bent á þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þetta er atriði sem getur skipt sköpum fyrir framtíð barns sem fæðist heyrnarlaust. Þá er mikilvægt að þessi úrræði grípi fjölskyldur um allt land. Samskiptamiðstöð hefur verið með slík verkefni á sinni könnu og gefist vel. Bæði við að styðja fjölskyldur og skóla sem viðkomandi þarf að sækja.
Það er ósk mín að þessi málstefna íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun verði virkjuð sem fyrst okkur öllum til bóta.
Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2023.

10/12/2023
Raunsæispólitík er nauðsynlegSaga íslensks þjóðfélags er saga framfara. Á fyrri hluta 20. aldarinnar var Ísland meðal fátækustu ríkja Evrópu en á undanförnum áratugum hafa lífskjör batnað mikið og skipar landið sér nú í hóp fremstu ríkja heims þegar ýmsir mælikvarðar eru skoðaðir. Umskipti sem þessi gerast ekki af sjálfu sér, að baki þeim liggur þrotlaus vinna kynslóðanna og sú raunsæja afstaða að nýting auðlinda landsins sé drifkrafturinn og aflvakinn á bak við efnahagslega velsæld.
Innlend orka gulls ígildi
Virði innlendrar orku kom bersýnilega í ljós í kjölfar ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu. Orkuskortur fór að gera vart við sig á meginlandi Evrópu og miklar hækkanir á orkuverði í álfunni urðu til þess að verðbólga hækkaði enn frekar. Þannig kynntu stjórnvöld í ýmsum löndum aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þessara hækkana á raforku, til dæmis með lánalínum, beingreiðslum til heimila og hvalrekasköttum á orkufyrirtæki til þess að fjármagna mótvægisaðgerðir. Ísland býr aftur á móti við mikið sjálfstæði í orkumálum miðað við ýmsar aðrar þjóðir og framleiðir mikla endurnýjanlega orku fyrir heimili og fyrirtæki. Íslensk heimili greiða lágt verð fyrir orku en verðlagning hennar lýtur ekki sömu lögmálum og verðlagning á orku á meginlandi Evrópu, þar sem íslenska flutningsnetið er ótengt því evrópska. Orkuöflun hefur verið burðarás í íslenskri lífskjarasókn og til að viðhalda þeirri sókn þarf að afla frekari orku. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyrir því að búa þau til, í sátt við náttúru og samfélagið. Okkur hefur vegnað vel í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og af því getum við verið stolt. Það er með öllu óraunsætt fyrir hagkerfið að sækja fram af viðlíka krafti og undafarna áratugi án frekari orkuöflunar.
Keppikefli efnahagsstjórnarinnar
Staða ríkissjóðs hefur styrkst verulega á umliðnum áratug. Þar skiptir miklu máli hvernig stjórnvöldum tókst á sínum tíma að tryggja farsælar málalyktir í þágu íslenskra hagsmuna gagnvart slitabúum föllum bankanna. Þær ráðstafanir hafa skilað ríkinu mörg hundruð milljörðum sem meðal annars hafa nýst til að greiða niður opinberar skuldir og treysta þannig stöðu opinberra fjármála. Þá hefur ferðaþjónustan einnig fært mikla björg í bú fyrir hagkferið. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að ríkissjóður hefur verið vel undir það búinn að takast á við risastór verkefni, líkt og heimsfaraldurinn á sama tíma og fjárfest hefur verið af miklum myndarskap í ýmsum málaflokkum á vegum hins opinbera. Keppikefli efnahagsstjórnarinnar núna er að ná verðbólgunni niður í þágu samfélagsins alls. Slíkt verkefni verður ekki leyst nema í samvinnu ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðhaldssamt fjárlagafrumvarp þar sem Stjórnarráðið tekur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launahækkun æðstu embættismanna ríkisins sem var lækkuð niður í 2,5%, sem kallast á við verðbólgumarkmið Seðlabankans, og gjaldskrárhækkanir takmarkaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórnvöld leiða með góðu fordæmi enda mikið í húfi fyrir fólk og fyrirtæki að ná verðbólgunni niður. Allir verða að líta raunsætt í eigin rann til að leggja sitt af mörkum. Þar munu komandi kjarasamningar skipta lykilmáli um framhaldið. Verkefnið er stórt og flókið en vel gerlegt að leysa. Ég bind miklar vonir við samtakamátt okkar allra, við þurfum öll að stunda raunsæja pólitík til að ná settu marki; að sigrast á verðbólgunni og halda áfram að bæta lífskjörin í landinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2023.

01/12/2023
Opinská samtöl í átt að betri landbúnaðiMatarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleiddar heilnæmar afurðir sem unnar eru af alúð. Íslensk matvælaframleiðsla göfgar okkar samfélag og menningu.
Við erum rík af náttúrutengingu okkar, en einn af hornsteinum landbúnaðarins er að tryggð sé rétt nýting lands og verndun þess. Með öflugum landbúnaði, sem hingað til hefur verið eitt einkenna okkar Íslendinga, er stuðlað að bæði fæðuöryggi landsmanna og afli til að viðhalda blómlegri byggð um landið. Framleiðslan hefst hjá bændum, sem hafa unnið hörðum höndum við að tryggja að íslensk matvæli eru heilnæm, örugg og í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á stéttin undir þungt högg að sækja.
Við í Framsókn höfum alltaf unnið við að styðja þessa mikilvægu stétt og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höfum talað fyrir þeim sjónarmiðum að áfram þurfi að leita leiða til að styrkja landbúnað sem atvinnugrein, stuðla að aukinni sjálfbærni og gæta að búsetuöryggi á landsbyggðinni.
Ein elsta starfsgrein landsins sinnir mjög mikilvægu hlutverki til framtíðar og við verðum að tryggja henni tækifærin til þess.
Grafalvarleg staða
Þó svo að bændur séu því vanir að staða starfsgreinarinnar sé sveiflukennd þá hefur útlitið sjaldan verið eins slæmt né óvissan jafnmikil og núna. Það hefur varla farið fram hjá landsmönnum að aðstæður bænda og rekstrargrundvöllur fara versnandi með hverjum mánuði.
Margar ástæður eru fyrir þessari stöðu, en hana má aðallega rekja til utanaðkomandi atburða og aðstæðna. Við í Framsókn horfum á núverandi stöðu innan stéttarinnar alvarlegum augum, en hún er í raunverulegri hættu sem við verðum að gera út af við.
Á undanförnum vikum buðum við bændum á opna fundi á Norður- og Austurlandi, enda er það allra mikilvægasta að heyra áhyggjur þeirra beint. Andrúmsloftið á fundunum var skiljanlega þungt á köflum, en þeir voru góðir, gagnlegir og vel sóttir þar sem farið var yfir stöðuna og ekki síður horfur innan greinarinnar á opinskáan máta.
Af umfjöllun síðustu mánaða og framangreindum fundum með bændum er ljóst að fjöldi verkefna hefur beðið úrlausnar í of langan tíma þegar kemur að málefni landbúnaðarins og styrkingu á öflugri byggð á dreifðari svæðum. Allir eru sammála um að einfalda þurfi regluverkið í kringum atvinnugreinina, bæta aðgengi og efla rekstrarumhverfi innan landbúnaðarins.
Langur verkefnalisti
Bændur hafa lengi bent á að bú sé langtímastarfsemi, en bændur hafa farið í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa leitt til talsverðrar skuldsetningar.
Takmarkaðir fjármögnunarmöguleikar hafa, í samspili við hátt vaxtaumhverfi, leitt til þess að þungbærar horfur blasa nú við.
Á fundum okkar með bændum kom m.a. fram að rík þörf er fyrir endurfjármögnunarmöguleikum þar sem horft er til lengri tíma lánveitingu. Við viljum skoða möguleika á opinberu fyrirkomulagi sem getur styrkt greinina í heild og miðar að eðli starfseminnar.
Á sama tíma er mikilvægt að einfalda rekstrarumhverfi svo að unnt sé að skapa aukin tækifæri í landbúnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þau sjónarmið eru í samræmi við það sem ungir bændur og nýliðar í greininni hafa lagt mikla áherslu á. Þau úrræði sem komið hafa fram að undanförnu, svo sem hlutdeildarlán, hafa ekki nýst ungum fjölskyldum í búrekstri sem skyldi. Þessar leiðir eru áhugaverðar og jákvæðar en þarfnast frekari útfærslu svo þær gefi góða raun, enda teljum við brýnt að nýliðun í landbúnaði verði útfærð þannig að hún hjálpi til við að lækka þröskuldinn fyrir þá aðila sem hyggjast hefja búrekstur.
Við í Framsókn tökum undir með bændum um að endurskoða þurfi fyrirkomulag tolla hér á landi og innflutning á afurðum erlendis frá. Tollavernd er innlendri matvælaframleiðslu afar mikilvæg og á að stuðla að því að hún geti stundað eðlilega samkeppni við sívaxandi innflutning á réttum og sanngjörnum forsendum. Á fundum okkar með bændum voru ræddar þær kröfur sem við eigum að gera til innfluttra matvæla. Þær verða að vera í samræmi við þær kröfur sem við gerum hér heima. Þá eiga að vera gerðar kröfur m.t.t. sýklalyfjanotkunar, aðbúnað dýra og túlkun á gildandi löggjöf.
Tekjur og málefni afurðastöðva voru einnig rædd. Ekki síst í tengslum við verðmið við innflutning, sem er krónutölubundinn að hluta en fylgir ekki verðlagi. Það eru fjölmörg skýr dæmi um hversu brýnt er að huga sérstaklega að tekjum afurðastöðva innan landbúnaðarins.
Augljóst er að verkefnin eru fjölmörg og geta ekki beðið úrlausnar í langan tíma. Sjaldan hefur verið jafn nauðsynlegt að bretta upp ermar í þessum málaflokki. Bændur eiga það skilið að ríkið vinni með þeim á erfiðum tímum og aðstoði þá við að bæta stöðu þeirra og rekstrargrundvöll áður en að stór hluti greinarinnar heyri sögunni til í stað þess að spila sitt hlutverk til framtíðar.
Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. nóvember 2023.

01/12/2023
Fullveldissagan og framtíð hennar á íslenskuSérhverjum fullveldisdegi þjóðarinnar ber að fagna. Í dag eru liðin 105 ár frá því að sambandslögin milli Íslands og Danmerkur tóku gildi og þannig viðurkennt að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. Sá áfangi markaði upphafið að framfarasögu fullvalda þjóðar sem í dag skipar sér í röð meðal fremstu ríkja veraldar á fjölmörgum sviðum. Í amstri hversdagsins vill það stundum gleymast að við getum ekki tekið grundvallarhlutum í samfélagsgerð okkar sem sjálfsögðum. Frelsi og fullveldi, lýðræði og mannréttindi eru því miður fjarlægir og jafnvel framandi hlutir fyrir mörgum jarðarbúum. Í okkar eigin heimsálfu geisar til dæmis enn ólöglegt innrásarstríð þar sem sótt er að þessum gildum.
Íslenskan, þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi, er eitt af einkennum þjóðar okkar. Íslenskuna telja sennilega margir vera hið eðlilegasta og sjálfsagðasta mál sem fylgt hefur íbúum þessa lands í meira en 1.100 ár. Þannig var tungumálið til dæmis samofið baráttu þjóðarinnar fyrir fullveldi sínu þar sem hún þjónaði sem okkar helsta vopn, en hún var í senn álitin sameiningartákn og réttlæting íslensku þjóðarinnar fyrir sérstöðu sinni; sérstök þjóðtunga, sérstök menning.
Það er engum blöðum um það að fletta í mínum huga að íslenskan stendur á ákveðnum krossgötum. Hraðar og umfangsmiklar þjóðfélagsbreytingar undanfarinna ára hafa framkallað áskoranir af áður óþekktum stærðargráðum fyrir tungumálið okkar. Örar tæknibreytingar hafa gjörbylt því málumhverfi sem börn alast upp í og enskan er nú alltumlykjandi hvert sem litið er.
Við sem þjóðfélag getum ekki horft á tungumálið okkar þynnast út og drabbast niður. Í vikunni kynntu stjórnvöld 19 aðgerðir í þágu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur, aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar til hins betra en íslenskan er úti um allt í samfélagi okkar og því tekur það sinn tíma að stilla saman strengi í jafn fjölbreyttu verkefni og raun ber vitni.
Við getum öll gert okkar til þess að efla og þróa tungumálið okkar til framtíðar. Og það þurfa allir að gera – það er verkefni samfélagsins að tryggja framtíð íslenskunnar og þar er ekki í boði að skila auðu. Ég finn skilning á þessu mikilvæga viðfangsefni vaxa með viku hverri og við ætlum að tryggja að fullveldissaga þjóðarinnar verði áfram skrifuð á íslensku um ókomna framtíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2023.