Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging og kerfisbreytingar fyrir fólk

Deila grein

16/10/2025

Uppbygging og kerfisbreytingar fyrir fólk

Að kaupa sér fasteign er ein stærsta fjárhagslega ákvörðun sem einstaklingur tekur á ævinni. Fólk þarf að geta skipulagt framtíð sína með trú á efnahagslegt jafnvægi og öryggi, án þess að sveiflur í verðbólgu og vöxtum setji fjárhagslegt öryggi og framtíðaráætlanir fólks í uppnám. Fyrirsjáanleiki í afborgunum húsnæðislána er þar lykilatriði, því hann gerir fólki kleift að gera raunhæfar áætlanir til langs tíma. Það krefst stöðugs efnahagsumhverfis og lánakerfis sem þjónar fólkinu, ekki öfugt.

Óverðtryggð lán skapa stöðugleika

Til að ná fram slíkum stöðugleika þarf að endurskoða lánakerfið og bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma, líkt og tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar. Slíkt kallar á kerfisbreytingar sem ég hóf skoðun á þann stutta tíma sem ég var í fjármálaráðuneytinu. Á grundvelli þeirrar vinnu liggja nú fyrir tillögur í skýrslu dr. Jóns Helga Egilssonar sem birt var í upphafi þessa árs.

Niðurstaða skýrslunnar er að við getum boðið upp á óverðtryggð langtímalán, rétt eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Slík leið er raunhæf og framkvæmanleg, og Framsókn hefur þegar lagt fram þingmál á Alþingi sem miða að því að gera þessa breytingu mögulega. Þessi breyting mun að auki gera fjármögnun ríkissjóðs hagkvæmari til framtíðar og lækka vaxtakostnað. Áætlað er að vaxtagjöld ríkissjóðs nemi um 125 milljörðum króna árið 2026. Hagkvæmari fjármögnun mun því skila ríkissjóði miklu sem við getum þá nýtt til eflingar innviða eða bættrar þjónustu.

Með þeirri kerfisbreytingu sem við höfum lagt til mun vægi verðtryggðra lána dragast verulega saman, sem gerir alla hagstjórn markvissari og stöðugri. Það er mikilvægt að stíga út úr umhverfi verðtryggðra húsnæðislána, og þingmál Framsóknar er skref í þá átt. Þetta er áfangi að heilbrigðara fjármálaumhverfi, þar sem stöðugleiki, fyrirsjáanleiki og traust verða meginstoðir íslensks efnahagslífs.

Það er miður að fjármálaráðherra Viðreisnar hafi hafnað því að ráðast í nauðsynlegar breytingar sem myndu gera þetta að veruleika. Sú afstaða er í raun þvert á það sem bæði forystufólk verkalýðshreyfingar og atvinnulífs hefur kallað eftir. Eina lausn ríkisstjórnarinnar virðist nú felast í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sem er hvorki skjót né einföld leið til að takast á við þau brýnu, innlendu efnahagsvandamál sem íslensk heimili standa frammi fyrir.

Fleiri lóðir, fjölbreyttari uppbygging

En það þarf að grípa til fleiri aðgerða til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Sveitarfélög þurfa jafnframt að auka framboð lóða og tryggja að fólk geti sjálft byggt sér heimili, ekki eingöngu í gegnum stórverktaka. Víða um land er það orðið nánast ógerlegt að kaupa eða byggja sitt eigið húsnæði, hvort sem er vegna skorts á lóðum eða kostnaðar sem gerir einstaklingum erfitt að standa í slíku. Við treystum fólki til að ala upp börnin sín og taka ábyrgð á eigin lífi, en samt er því oft ekki treyst né gert kleift að kaupa lóð á viðráðanlegum kjörum og reisa sitt eigið heimili. Þessu þarf að breyta.

Til þess þarf samhæfðari sýn og heildstætt svæðisskipulag, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, með það að markmiði að stórauka lóðaframboð og gera einstaklingum og smærri byggingaraðilum kleift að byggja heimili á eigin forsendum. Nýtt skipulag þarf að vera raunhæft og í takt við þarfir fólks, þannig að aðgengi, samgöngur og bílastæði endurspegli daglegt líf og venjur heimila.

Við eigum að endurnýja þá hugsun sem einkenndi húsnæðissamvinnufélög fyrri tíma, þegar fólk tók höndum saman og byggði sitt eigið húsnæði. Sú sýn var á grunni samvinnu og samhjálpar, og þannig reis mikill fjöldi heimila, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að tryggja að sú leið sé raunhæfur valkostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur í dag.

Innviðagjöld og tekjuskipting

Jafnframt þarf að huga að því að innviðagjöld og álögur sveitarfélaga auki ekki kostnað við nýtt húsnæði og ýti þannig undir verðbólgu. Það er raunverulegt vandamál að lóðagjöld fyrir íbúð geti numið allt að tuttugu milljónum króna, sem einstaklingar og fjölskyldur þurfa að greiða áður en nokkrar framkvæmdir hefjast. Þetta kerfi setur mörgum skorður og dregur úr möguleikum fólks til að byggja sér heimili á eigin forsendum. Samhliða þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, enda munu lægri innviðagjöld óhjákvæmilega hafa áhrif á tekjur sveitarfélaga og því þarf að mæta því með slíkri endurskoðun.

Við þurfum aðgerðir sem breyta stöðunni á íslenskum húsnæðismarkaði, stuðla að auknum stöðugleika og gera hagstjórnina beittari og skilvirkari til framtíðar. Þetta eru leiðir til þess.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Í Hafnar­firði finnur unga fólkið rými, rödd og raun­veru­leg tæki­færi

Deila grein

16/10/2025

Í Hafnar­firði finnur unga fólkið rými, rödd og raun­veru­leg tæki­færi

Það er engum blöðum um það að fletta að Hafnarfjörður stendur sig einstaklega vel þegar kemur að því að hlusta á ungt fólk, skapa tækifæri og stuðla að samvinnu.

Á undanförnum misserum hefur bærinn byggt upp öflugt net þar sem ungmenni fá að láta ljós sitt skína, taka þátt, læra og hafa áhrif. Tvö dæmi sem sýna þessa nálgun sérstaklega vel eru annars vegar öfluga félags- og nýsköpunarstarfið sem nú er í gangi við Lækinn og hins vegar félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni.

Þar sem ungt fólk finnur sinn stað

Félagsstarf fyrir ungt fólk í Hafnarfirði hefur tekið miklum breytingum og blómstrar nú á nokkrum stöðum í bænum. Gamli Lækjarskóli er orðinn lifandi samkomustaður fyrir ungt fólk með fjölbreytt áhugamál.

Þar má m.a. finna:

  • Hreiðrið við Lækinn. Staður fyrir ungmenni til að hittast í notalegu og skapandi umhverfi. Ungmennaráð nýtir aðstöðuna til að funda og fleira.
  • Músík við Lækinn. Það er tónlistar- og upptökurými þar sem hægt er að spila, semja og taka upp.
  • Nýsköpunarsetrið við Lækinn. Þar eru m.a. stafrænar smiðjur, myndvinnsluaðstaða, listasalur og vinnurými fyrir frumkvöðla og skapandi einstaklinga.
  • Gafló leiklistarskólinn í umsjón Gaflaraleikhússins. Þar er boðið uppá kennslu í leik- og sviðslistum.

Á öðrum stöðum:

  • Kletturinn. Félagsstarf fyrir fatlað ungt fólk. Þar er lögð áhersla á jafningjastuðning og sjálfstæði. Kletturinn er staðsettur á Suðurgötu.
  • Bergið. Frí ráðgjöf fyrir 12 – 25 ára þar sem má ræða líðan, álag og sambönd á öruggan og trúnaðarmiðaðan hátt. Bergið er til húsa við Austurgötu.
  • Mótorhúsið. Það er fyrir þau sem hafa áhuga á vélum og tækni og vilja læra í öruggu umhverfi. Mótorhúsið er til húsa í Kvartmíluklúbbnum.

Þetta eru ekki bara verkefni, þetta er vettvangur þar sem ungt fólk getur bæði skapað og lært og fundið sína rödd innan samfélagsins.

Félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni í Hafnarfirði

Í Hafnarfirði er öllum ungmennum ætlaður staður þar sem þau geta verið þau sjálf, óháð kyni, kynhneigð eða bakgrunni.

HHH er félagsmiðstöð og samveruvettvangur fyrir hinsegin ungmenni og aðra sem vilja hittast á öruggum og hlýjum stað. Þar er lögð áhersla á að skapa hlýlegt andrúmsloft þar sem virðing, umburðarlyndi og vinátta ráða för.

HHH er hluti af þeirri víðtæku stefnu Hafnarfjarðar að tryggja að öll ungmenni í bænum finni sig velkomin og hafi sinn stað.

Þannig sýnir Hafnarfjörður í verki að samfélag styrkist þegar öll fá að tilheyra.

Við vinnum þetta saman

Það sem sameinar öll þessi verkefni er einfalt, við vinnum þetta saman.

Hafnarfjörður trúir á unga fólkið sitt, á kraftinn, hugmyndirnar og hæfileikana sem búa í hverjum og einum.

Við viljum skapa samfélag þar sem ungmenni fá ekki bara tækifæri heldur taka virkan þátt, þar sem á þau er hlustað, hugmyndir þeirra teknar alvarlega og þau fá stuðning til að blómstra á eigin forsendum.

Hafnarfjörður er bær sem tekur utan um ungt fólk, treystir því og vinnur með því. Þannig byggjum við sterkari framtíð.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnafjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­vinningur fyrri ára í hættu

Deila grein

15/10/2025

Á­vinningur fyrri ára í hættu

Heilbrigðiskerfið okkar er ein af grunnstoðum samfélagsins. Á síðasta kjörtímabili náðust mikilvægir áfangar í að bæta þjónustu en nú horfum við hins vegar upp á fjölmörg merki um afturför, þar sem nýjar ákvarðanir stjórnvalda virðast grafa undan þeim árangri sem náðst hefur. Sérstaklega blasir þetta við á landsbyggðinni, þar sem íbúar utan höfuðborgarsvæðisins eins og á Akureyri og nágrenni finna nú fyrir skerðingu þjónustu og aukinni byrði.

Árangur síðasta kjörtímabils, bætt þjónusta og lægri kostnaður

Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór skref til framfara í heilbrigðismálum. Markvisst var unnið að því að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og draga úr biðlistum.

Samningar náðust við nær allar stéttir heilbrigðisgeirans, frá sérfræðilæknum og sjúkraþjálfurum til hjúkrunarfræðinga og tannlækna eftir margra ára óvissu og óánægju. Þessir mikilvægu samningar skiluðu betri starfsanda, stöðugleika í þjónustunni og auknu trausti milli heilbrigðisstarfsfólks og ríkisins.

Með samningum við sjálfstætt starfandi aðila tókst að bæta nýtingu fjármagns, fjöldi liðskiptaaðgerða jókst verulega og aðgerðir til að vinna á biðlistum vegna hinna ýmsu aðgerða báru árangur.

Á Akureyri og víðar var ráðist í uppbyggingu. Ný heilsugæsla reis í Sunnuhlíð, samningar voru gerðir um nýtt hjúkrunarheimili og fjármagn til endurhæfingar aukið. Heilbrigðisþjónusta utan höfuðborgarsvæðisins styrktist, og fólk fann raunverulega fyrir breytingu til batnaðar.

Nú blasa við merki um afturför

Því miður má nú sjá víða að þróunin hefur snúist við. Ný ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir og lagt fram lagafrumvörp sem grafa undan þeim framförum sem náðst hafa. nefna nokkur dæmi um hvernig verið er að vega að heilbrigðisþjónustunni á landsvísu.

  • Skert samningsfrelsi og óvissa í þjónustu: Nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem gerir ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands geti „einhliða ákveðið greiðslur og skilmála fyrir þjónustu án samninga“ og jafnframt bannað þjónustuaðilum að innheimta gjöld af sjúklingum á meðan greitt er samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Hér er unnið gegn stefnu síðustu ríkisstjórnar og heilbrigðisstefnu til 2030 um jafnt aðgengi óháð efnahag. Ljóst er að ef þetta hefur þau áhrif að samningar við lækna losna munu einhverjir einstaklingar hreinlega neita sér um heilbrigðisþjónustu. Frumvarpið hefur mætt harðri andstöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks sem benda á að þetta væri fordæmalaust inngrip ríkisins í samningsfrelsi þessara stétta og framsal valds til Sjúkratrygginga. Fulltrúar sérfræðilækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og fleiri hafa varað við að þetta geti haft bein neikvæð áhrif á þjónustuna sem í boði verður.
  • Sérfræðilæknaþjónusta á Akureyri í uppnámi: Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) var um árabil hægt að tryggja ákveðna sérfræðilæknaþjónustu í gegnum svokallaða ferliverkasamninga við sjálfstætt starfandi lækna. Nú hefur forstjóri SAk, að tilmælum ráðuneytisins, sagt upp þessum samningum. Í kjölfarið óttast íbúar og sérfræðilæknar á svæðinu verulega skerðingu á þjónustu. Ljóst er að draga verður mjög úr þjónustunni á SAk ef ekki tekst að finna lausnir til að halda sérfræðilæknunum norðan heiða.
  • Skerðing endurhæfingar á Kristnesi: Á Kristnesi er rekin mikilvæg endurhæfingardeild sem þjónustar bæði fólk í kjölfar veikinda og eldri einstaklinga. Nú hefur verið ákveðið að breyta endurhæfingardeild Kristnesspítala í svokallaða 5 daga deild frá áramótum, þ.e. leggja af hefðbundna 7 daga legudeild og hafa einungis dagdeildarþjónustu og virka daga innlagnir.
  • Loforð um nýja stöð svikið: Fyrir lá áætlun um að byggja aðra heilsugæslustöð á Akureyri til að bæta aðgengi íbúa bæjarins að grunnþjónustu. Þeirri framkvæmd hefur nú verið frestað um a.m.k. fimm ár. Þess í stað er ætlunin að reyna að fleyta núverandi kerfi með því að stækka lítillega þá stöð sem þegar er til staðar í Sunnuhlíð. Þrátt fyrir að ánægja sé með þjónustuna þar sem hún er, þá er þessi stefnubreyting mikil vonbrigði. Akureyri er ört stækkandi samfélag og þörfin fyrir öfluga heilsugæslu eykst ár frá ári.
  • Hækkandi lyfjakostnaður sjúklinga: Á sama tíma og þjónusta dregst saman á vissum sviðum, eru sjúklingar farnir að greiða meira úr eigin vasa fyrir lyf. Frá næstu áramótum tekur gildi ný þrepaskipting í greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum. Hún felur í sér að einstaklingar greiða fyrst allan kostnað sjálfir, síðan 40% af verði lyfja eftir að ákveðnu þrepi er náð. Þetta er hluti af svokallaðri hagræðingaraðgerð sem á að spara ríkinu um 450 milljónir króna, fjárhæð sem leggst beint á sjúklinga og fjölskyldur um allt land. Hækkunin felur í sér raunverulega hækkun á útgjöldum þeirra sem nota mörg lyf, einkum langveikra einstaklinga og aldraðra. Þetta markar viðsnúning frá þeirri stefnu sem fylgt var á síðasta kjörtímabili þegar markvisst var unnið að því að draga úr kostnaði sjúklinga og bæta aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu um land allt

Árangurinn sem náðst hefur á síðustu árum eins og lægri greiðslubyrði sjúklinga, styttri biðlistar, bætt aðgengi og uppbygging nýrra innviða er nú í hættu.

Sem þingmaður utan höfuðborgarsvæðisins finnst mér sérstaklega mikilvægt að árétta að heilbrigðisþjónusta þarf að standa jafnfætis fyrir alla landsmenn. Afturförin sem hefur orðið í málaflokknum bitnar þó einna harðast á landsbyggðinni þar sem hver einasta skerðing þýðir að fólk þarf annaðhvort að ferðast lengra eða bíða lengur eftir nauðsynlegri þjónustu.

Stjórnvöld verða að endurskoða forgangsröðun sína í heilbrigðismálum.

Það er tímabært að endurvekja þá hugsjón sem byggði upp heilbrigðiskerfið: að það sé fyrir fólkið, ekki kerfið sjálft.

Að annars vegar læknirinn, sjúkraþjálfarinn og hjúkrunarfræðingurinn hafi svigrúm til að sinna starfi sínu og hins vegar að sjúklingurinn viti að hann fái þá þjónustu sem hann þarf, án þess að þurfa að greiða sífellt meira úr eigin vasa.

Það er mikilvægt að eiga gott samtal og samvinnu, fjárfesta í mannauði, semja við fagstéttirnar af virðingu, lækka kostnað sjúklinga og bæta aðgengi að þjónustu, sama hvar á landinu fólk býr. Heilbrigðiskerfið á ekki að vera vettvangur niðurskurðar eða valdabaráttu, heldur sameiginlegt verkefni okkar allra í þágu landsmanna. Öflug og aðgengileg heilbrigðisþjónusta er grundvallaratriði fyrir velferð þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Gefum í – því ung­lingarnir okkar eiga það skilið

Deila grein

15/10/2025

Gefum í – því ung­lingarnir okkar eiga það skilið

Það eru margar leiðir að því að stuðla að vellíðan barna og unglinga. Ein af áhrifaríkustu leiðunum er félagsmiðstöðin. Þessi opni vettvangur þar sem ungmenni fá að vera þau sjálf, prófa sig áfram, læra, skapa og vera hluti af hópi þar sem virðing, lýðræði og þátttaka eru leiðarljós. Þarna blómstrar sjálfsmyndin og þar liggur styrkur samfélagsins. Í tilefni af því að í dag er félagsmiðstöðvardagurinn er tækifæri til að draga þær fram.

Félagsmiðstöðvar eru meira en hús með borðtennisborði og PlayStation. Þær eru faglegt uppeldisstarf sem byggir á rannsóknum, hugmyndafræði og menntun sérfræðinga í frítímastarfi. Starfið er markvisst og meðvitað og það byggir á trausti, tengslum og að mæta börnum og unglingum á þeirra eigin forsendum.

Við vitum að þegar við bjóðum unglingum upp á öruggt rými með jákvæðum fyrirmyndum og fjölbreyttum viðfangsefnum, þá aukum við líkurnar á heilbrigðum lífsstíl og drögum úr áhættuhegðun. Félagsmiðstöðvar eru því ekki bara „góð viðbót“, þær eru kjarninn í forvarnarstarfi og félagslegu öryggisneti ungs fólks.

En nú er verið að draga úr! Ekki auka þessa grunnstoð. Á Akureyri var til að mynda öllu fagfólki félagsmiðstöðva sagt upp í sl. vor og starfsemin færð undir stjórn skólastjórnenda. Til að setja í samhengi má segja að það sé eins og við myndum leggja niður heilbrigðisþjónustu og segja leikskólastjórum að sinna skurðlækningum. Þetta er ekki spurning um góðan ásetning heldur spurning um fagmennsku.

Það skiptir máli að frítími barna sé skipulagður af fólki sem hefur menntun í tómstunda- og félagsmálafræði. Fólki sem hefur þjálfun í að styðja við sjálfsmynd barna, efla félagsfærni og byggja upp verndandi tengslanet í kringum unglinga. Þetta er ekki hlutverk skólastjóra, sem sinna allt öðru fagstarfi, heldur sérfræðinga í frístundastarfi, sérfræðinga í hópaþróun, sérfræðinga í að finna styrkleika og efla þá í hverjum á einum á þeirra forsendum. Sérfræðinga í að skapa öruggt rými þar sem hægt er að rekast á í samskiptum og sérfræðinga í að veita tólin og tækin til að vinna úr þeim árekstrum ásamt öruggu rými til þess að læra af því. Sérfræðinga í ígrundun og reynslunámi. Sérfræðinga í félagsfærni sem skiptir mestu máli á tímum gervigreindar. Sérfræðinga í frítíma barna og ungmenna.

Við sjáum merki um breytingar í unglingamenningu og í raun miklu meira en merki. Við sjáum aukna vanlíðan, aukna áhættuhegðun og aukið ofbeldi. Það sýnir hversu mikilvægt það er að eiga einhvern sem maður getur treyst. Einhvern sem segir: „Ég sé þig. Þú ert velkomin/n/ð.“ Sá “einhver” er oftar en ekki starfsfólkið í félagsmiðstöðvunum.

Við verðum að spyrja okkur: Viljum við virkilega veikja þessa starfsemi? Eða ætlum við að styrkja hana, efla hana og veita henni þá virðingu sem hún á skilið? Því sem samfélag getum við valið. Við getum staðið með börnum og unglingum. Við getum veitt þeim rými, traust og tengsl. Við getum sagt: „Tíminn þinn skiptir máli og við erum hér til að styðja þig.“

Ég vil að við gefum í.

Til hamingju við öll með félagsmiðstöðvar og öryggið sem þær færa börnunum okkar og unglingum.

Ásta Björg Björgvinsdóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknar og formaður Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Er hægt að bíða lengur?

Deila grein

15/10/2025

Er hægt að bíða lengur?

Það er með miklum þunga sem Velferðar- og mannréttindaráð Kópavogsbæjar lýsir yfir áhyggjum af þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú ríkir í þjónustu við börn og ungmenni sem þurfa á meðferðarúrræðum að halda – hvort heldur sem er vegna fjölþætts vanda eða vímuefnavanda. Þessi staða hefur verið óviðunandi lengi, en á síðustu mánuðum hefur hún farið úr böndunum.

Þann 19. mars 2025 undirrituðu stjórnvöld samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu í þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Samkomulagið átti að marka þáttaskil. Ríkið skyldi verja þremur milljörðum króna til málaflokksins og taka yfir framkvæmd og fjármögnun sérhæfðrar þjónustu fyrir börn sem þurfa að búa utan heimilis. Þetta var mikið fagnaðarefni – en síðan hefur ekkert gerst.

Sveitarfélögin, sem árum saman hafa brugðist við með takmörkuðum fjármunum og ótrúlegri seiglu, standa nú ein eftir með allan kostnaðinn og ábyrgðina – enn á ný. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafa þau ekki fengið fjármagn til að tryggja bráðnauðsynleg úrræði þar til ríkið tekur formlega við málaflokknum um áramótin.

Á sama tíma magnast vandinn. Fjöldi leitarbeiðna vegna ungmenna í neyslu og stroki hefur aukist til muna og álagið á barnavernd og lögreglu er orðið gríðarlegt og langt umfram það sem eðlilegt getur talist, svo ekki sé talað um að börnin okkar og fjölskyldur þeirra standa eftir vonlítil og úrræðalaus. Enn er ekkert langtímameðferðarheimili til staðar fyrir drengi eftir að Lækjarbakki lokaði í apríl 2024 vegna myglu, og foreldrar hafa í örvæntingu þurft að leita út fyrir landsteinana eftir viðeigandi meðferð fyrir börn sín – mörg hver í lífshættu. Sveitarfélögin geta þar því miður ekki stutt við bakið á þeim, meðal annars þar sem eftirlit og upplýsingar um meðferðaráform, framvindu eða áætlanir eru ekki á þeirra höndum.

Það er óásættanlegt að börn í einna viðkvæmustu stöðu samfélagsins séu látin bíða í von og óvissu á meðan áætlanir dragast og loforð gleymast. Hver dagur sem líður án aðgerða getur haft og hefur haft óafturkræfar afleiðingar fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra.

Því er spurningunni hér í upphafi fljótsvarað – nei við getum ekki beðið lengur!

Björg Baldursdóttir, formaður Velferðar- og mannréttindaráðs Kópavogs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á hvaða veg­ferð er heil­brigðis­ráð­herra?

Deila grein

15/10/2025

Á hvaða veg­ferð er heil­brigðis­ráð­herra?

Heilbrigðismál hafa verið til umræðu í samfélaginu enda málaflokkur sem skiptir miklu máli. Nú þegar nýr heilbrigðisráðherra hefur fengið eitt ár til að hrinda sínum stefnumálum í framkvæmd er vert að spyrja sig – hvað hefur eiginlega verið gert í heilbrigðismálum?

Samráð og stjórnsýsluhættir – traust byggist á gegnsæi

Eitt það sem Alma D. Möller fékk á sig gagnrýni fyrir voru ákvarðanir og yfirlýsingar sem tengjast sérgreinalæknisþjónustu á Akureyri. Þar var bent á að ráðherra hefði ekki átt samráð við forstjóra sjúkrahússins eða þá sem þjónustan snerti beint áður en breytingar voru ræddar. Hún viðurkenndi síðar að hún hefði ekki haft slíkt samráð og ákvað jafnframt að segja sig frá málinu vegna skyldleikatengsla við einn þeirra sem þar starfa.

Það er vissulega jákvætt þegar ráðherra tekur afstöðu og axlar ábyrgð með því að víkja vegna vanhæfis. En hitt er jafnframt ljóst: ákvarðanir sem varða jafn viðkvæma þjónustu ættu alltaf að byggjast á víðtæku samráði og faglegri greiningu áður en tillögur eru kynntar. Þar hefur gagnrýnin stoð – því heilbrigðiskerfið þarf ekki einhliða ákvarðanir, heldur traust, samráð og gagnsæ ferli.

Þjónusta á landsbyggðinni – jöfnuður í orði og verki

Annað sem hefur vakið hörð viðbrögð er möguleg skerðing þjónustu á landsbyggðinni, einkum á Akureyri þar sem sérgreinalæknar veita þjónustu sem nær langt út fyrir sitt svæði. Þingmenn og heilbrigðisstarfsfólk hafa varað við að ef verktakasamningar lækna verði endurskoðaðir án lausna, muni þjónustan dragast saman og sjúklingar þurfa að ferðast suður eftir fyrir þjónustu sem áður var aðgengileg heima fyrir.

Þessi gagnrýni er bæði réttmæt og mikilvæg. Jöfn dreifing heilbrigðisþjónustu er hornsteinn íslenska velferðarkerfisins. Þegar ráðherra boðar breytingar sem hugsanlega veikja þjónustu úti á landi, þarf jafnframt að liggja fyrir áætlun um hvernig jafnræði og aðgengi verða tryggð. Án þess er hætt við að byggðastefna og heilbrigðisstefna rekist á.

POTS-málið – illa ígrunduð stefna ráðherra

Eitt af þeim málum sem hafa vakið sterkustu viðbrögðin er POTS-málið.

Ráðherra hefur verið gagnrýnd fyrir ákvörðun um að hætta greiðsluþátttöku fyrir vökvagjöf, sem margir einstaklingar með POTS treysta á til að lifa við ásættanleg lífsgæði.

Samtök um POTS á Íslandi hafa krafist þess að ráðherra dragi ummæli sín til baka og viðurkenni að um sé að ræða raunverulega læknisfræðilega meðferð – ekki ímyndaðan vanda.

Þótt ráðuneytið hafi skipað vinnuhóp til að skoða þjónustu við einstaklinga með POTS, ME og langvinnt COVID, hafa sjúklingar bent á að skaðinn sé þegar skeður. Fólk hafi misst aðgengi að meðferð, tapað starfsgetu og trausti á heilbrigðiskerfinu.

Það er ekki gott þegar ráðherra dregur í efa meðferðir sem einstaklingar segja bjarga lífi sínu.

Framkvæmd og eftirfylgni – stefna þarf að verða að verki

Ítrekuð gagnrýni hefur líka beinst að því að heilbrigðisstefnur séu kynntar án skýrra framkvæmdaráætlana og eftirlits. Dæmi má nefna nýja aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Þótt slík stefna sé mikilvæg, spyrja margir: hvernig verður árangur mældur? Hver ber ábyrgð? Hvenær verður endurskoðun?

Þetta eru ekki smáatriði – þau eru kjarni góðrar stjórnsýslu. Það er auðvelt að kynna áætlanir; erfiðara að fylgja þeim eftir. Hér væri tækifæri fyrir ráðherra að gera betur.

Janus endurhæfing – afleikur ráðherra

Ein stærsta gagnrýnin sem beindist að ráðherra snýr að ákvörðun um að endurnýja ekki samning við Janus endurhæfingu.

Notendur og starfsfólk benda á að úrræðið býður einstaklingum með fjölþættan vanda einmitt þann stuðning sem eigi engan annan stað — geðlæknisaðstoð, tengiliði og þræðir sem hjálpa til við að komast aftur út í samfellda virkni.

Ráðherra hefur í raun ekki ennþá svarað hvernig hún ætli að tryggja þessum hópi þá þjónustu sem hann nauðsynlega þarf á að halda. Það liggur í augum uppi að ráðherra er með þessu að lengja biðlista og það sem verra er – fækka úrræðum.

Þessi gagnrýni er réttmæt og mikilvægt er að leggja spurningu að ráðherra: hvernig verður tryggt að ekki verði þjónusturof, sérstaklega fyrir viðkvæma hópa sem treysta á slík úrræði?

Lokaorð

Það er nauðsynlegt að veita ráðherrum aðhald vegna þess að ábyrgð þeirra er mikil. Hér hefur verið velt vöngum yfir ýmsum málum en þegar öllu er á botninn hvolft verðum við að geta spurt okkur; er þessi vegferð í heilbrigðismálum ásættanleg?

Kjartan Helgi Ólafsson, ritari Sambands ungra Framsóknarmanna og stjórnarmaður Ung Framsókn Kraginn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hafnar­fjörður er leiðandi í jafn­réttis­málum

Deila grein

15/10/2025

Hafnar­fjörður er leiðandi í jafn­réttis­málum

Hafnarfjörður hefur lengi verið í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum. Frá árinu 2017 hefur Hafnarfjörður verið með jafnlaunavottun og vorum við fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta slíka viðurkenningu. Markmið okkar með innleiðingu á formlegu jafnlaunakerfi er skýrt en það er að tryggja að sömu laun séu greidd fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, óháð kyni.

Síðasta jafnlaunaúttekt, í maí 2025, staðfesti að launamunur kynjanna er aðeins 1,1% konum í vil. Með því að fylgja eftir árangrinum með gagnsæjum mælingum og stöðugu samtali höfum við náð að viðhalda traustu og sanngjörnu vinnuumhverfi þar sem allir eru metnir að verðleikum.

Öflug og skýr jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Hafnarfjarðar 2023–2027 er eitt mikilvægasta verkfærið okkar í þessari vinnu. Hún tryggir að kynja- og jafnréttissjónarmið séu samþætt í allri starfsemi bæjarins hvort sem um er að ræða stjórnsýslu, þjónustu, ráðningar eða daglegt starf.

Áætlunin byggir á því að jafnrétti sé ekki aukaatriði heldur hluti af menningu, verklagi og stefnumótun bæjarins. Hún fjallar meðal annars um launajafnrétti, jöfn tækifæri til starfsþróunar, sveigjanleika í starfi, aðgerðir gegn einelti og áreitni og stuðning við fólk með ólíkan bakgrunn.

Viðurkenning sem skiptir máli

Við erum ákaflega stolt af því að Hafnarfjörður fékk nýverið Jafnvægisvogina í fjórða sinn. Viðurkenningin er veitt þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa náð jafnvægi í stjórnunarhlutföllum og sýna í verki að jafnrétti er hluti af daglegum rekstri og menningu.

Að hljóta þessa viðurkenningu er staðfesting á því faglega og öfluga starfi sem unnið hefur verið í þessum málaflokki síðustu ár. Hafnarfjörður er bær þar sem jafnræði og traust eru ekki orðin tóm heldur raunveruleg gildi sem við vinnum eftir dag frá degi.

Jafnrétti bætir samfélagið allt

Jafnrétti er fjárfesting í betra samfélagi. Þegar fólk fær jöfn tækifæri þá blómstrar nýsköpun, samstarf og samkennd. Við sjáum það á vinnustöðum bæjarins, í skólum, í þjónustu við íbúa og í stjórnsýslu.

Þegar við tryggjum að rödd allra heyrist þá styrkjum við ekki bara einstaklingana heldur allt samfélagið.

Það er þessi hugsun sem liggur að baki jafnréttisvinnu Hafnarfjarðar. Við ætlum að byggja bæ þar sem allir geti notið sín.

Við í Hafnarfirði trúum því að jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér, það er meðvituð ákvörðun sem krefst ábyrgðar og samstöðu. Við öll sem störfum hjá Hafnarfjarðarbæ höfum lagt okkar að mörkum. Með þannig samstöðu sjáum við árangur, árangur sem við getum verið stolt af.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíð Fram­sóknar byrjar í gras­rótinni

Deila grein

14/10/2025

Fram­tíð Fram­sóknar byrjar í gras­rótinni

Kæru lesendur og annað gott Framsóknarfólk

Grasrótin er hjartað í Framsókn

Framsóknarflokkurinn var stofnaður árið 1916 og er uppruni flokksins er einstakur þar sem hann varð til úr grasrótinni. Hann spratt upp úr kaupfélögunum, úr bændastéttinni, úr sveitarfélögunum, úr lífi og starfi venjulegs fólks sem vildi byggja réttlátara samfélag og sá það gat gert meira saman en í sitthvoru lagi. Hreyfingin varð að veruleika vegna þess að fólk lagði saman krafta sína saman, ekki fyrir sjálft sig, heldur fyrir heildina. Þessi hugsjón lifir enn í dag. Hún er ekki minning um liðna tíma; hún er grunnurinn að framtíðinni.

Framsóknarflokkurinn hefur lifað af tímana vegna þess að hann hefur alltaf treyst á kraft fólksins. Það er þessi trú á manneskjuna, á skynsama manneskjulega nálgun, sem hefur haldið okkur á floti og gert okkur að þeim flokki sem við erum.

Lausnin liggur í grasrótinni

Við getum talað um stefnu, samstarf, stjórnarsáttmála og stjórnmálalega stöðu, en ekkert af þessu skiptir máli nema flokkurinn hafi lifandi, virka og stolta grasrót. Við verðum að leggja áherslu á starfið innanfrá með því að hlusta á félagana, virkja nýtt fólk, og skapa vettvang þar sem hugmyndir spretta fram, þroskast og verða að aðgerðum því þegar grasrótin er sterk, er Framsókn sterk.

Við þurfum að styrkja tengslin milli forystunnar og aðildarfélaganna, tryggja að upplýsingaflæði sé lifandi og gagnkvæmt, og skapa virka farvegi fyrir félaga til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanir. Slíkum markmiðum náum við með markvissum aðgerðum á borð við reglulegum fundum, opnu samtali og skipulögðu reglulegu starfi um allt land.

Að láta meira að okkur kveða í íslenskum stjórnmálum

Framsókn hefur alla burði til að vera sterkara afl í íslenskum stjórnmálum en nokkru sinni fyrr. Við höfum sýnt árangur í verkum í húsnæðismálum, innviðauppbyggingu, menntamálum og efnahagsmálum en það er ekki nóg að vinna vel, við verðum líka að segja frá því. Við verðum að minna fólk á hvers vegna Framsókn skiptir máli. Við erum flokkur jafnvægis, ábyrgðar, samvinnu og í dag þegar samfélagið virðist oft klofið og samtalið hart, er þörfin fyrir miðju og manneskjulega rödd meiri en nokkru sinni.

Hlutverk ritara er að vera brú milli forystu og fólks

Ritari Framsóknar þarf að vera brú milli forystu og félaga og ef mér verður treyst fyrir því hlutverki mun ég vinna að því að styrkja innra starf flokksins með skipulagi og samvinnu, efla þátttöku nýrra félaga með hvatningu og fræðslu.

Ég býð mig fram til ritara Framsóknarflokksins vegna þess að ég trúi á þetta starf okkar, á samvinnu, á félagshyggjuna og á þann kraft sem býr í félögum um land allt. Ég trúi því af heilum hug að framtíð Framsóknar liggi ekki í því að elta strauma, heldur að styrkja rótina. Að lausnin á næstu áratugum hvort sem er í stjórnmálum, samfélagsumræðu eða innra starfi felst í því að efla grasrótina, tengja fólk og byggja traust innan frá.

Þegar við gerum það, verður Framsókn aftur sú kraftmikla hreyfing sem færir fólki von, traust og framtíðarsýn. Því Framsókn er ekki aðeins flokkur hún er hreyfing fólks og framtíðin okkar byrjar í grasrótinni.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti í Múlaþingi, varaþingmaður í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi í embætti ritara Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lausnir í stað loforða

Deila grein

14/10/2025

Lausnir í stað loforða

Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar ritar undarlega grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. október síðastliðinn. Þar gagnrýnir hann tillögu Framsóknar um að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Það er á mörkunum að grein Sigmars, sem virðist ekki mjög vandlega ígrunduð, sé svaraverð en þar er sleginn kunnuglegur tónn. Enda hafa þingmenn Viðreisnar og raunar fjármálaráðherra fremstur í flokki keppst við að misskilja inntak tillögunnar og markmið. Það er einkennileg pólitík Viðreisnar að vilja ekki ræða lausnir til að leysa vanda íslenskra heimila í því skjóli að það henti ekki pólitískri draumsýn, sem í núverandi ástandi ESB er svo gersamlega úr sér gengin að það er pínlegt á að horfa.

Vandinn

Íslensk heimili hafa of lengi búið við sveiflukenndan lánamarkað. Þegar stýrivextir hækka víkja óverðtryggð lán og verðtryggingin tekur yfir. Í dag eru um 2/3 nýrra íbúðalána verðtryggðir, sem þýðir að skuldir heimila með slík lán hækka í takt við verðbólgu.

Þetta er ekki sjálfbært kerfi og heldur ekki sanngjarnt gagnvart fólki sem vill einfaldlega öruggt og fyrirsjáanlegt húsnæðislán. Þessi veruleiki gerir enn fremur peningastefnu Seðlabankans bitlausa og tefur fyrir lækkun verðbólgu.

Í flestum löndum geta heimili valið löng fasteignalán á föstum vöxtum, og vita fyrir fram hvað þau greiða næstu 20-30 árin. Hér á landi er slíkur kostur ekki fyrir hendi – ekki vegna krónunnar, heldur vegna úrelts regluverks og ónógrar þróunar fjármálamarkaðarins.

Tillaga Framsóknar í hnotskurn

Tillaga Framsóknar gengur út á að skapa skilyrði fyrir óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma – svipuð og þekkjast víða á Norðurlöndum. Nýleg skýrsla dr. Jóns Helga Egilssonar, sem kynnt var í janúar, sýnir að þetta er fýsilegur og framkvæmanlegur kostur, ef stjórnvöld og markaðsaðilar vinna saman að breytingum.

Helstu lykilatriði eru þessi:

Endurskoða þarf reglur um uppgreiðslugjöld. Núverandi reglur letja bankana frá því að bjóða löng föst lán. Með einfaldri breytingu þar má auka fjölbreytni og samkeppni án þess að ríkið taki á sig áhættu.

Þróa markað fyrir vaxtaskiptasamninga. Með slíkum samningum geta bankar tryggt sér fasta fjármögnun til langs tíma – eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum – og þannig boðið neytendum stöðugri vexti.

Nýta styrk lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir geta fjárfest í sértryggðum skuldabréfum sem tengjast húsnæðislánum. Það lækkar fjármögnunarkostnað bankanna og skilar lægra vaxtastigi til heimilanna.

Heimatilbúinn vandi – og lausnir fyrir hendi

Þeir sem telja að krónan sé rót alls ills gleyma því að jafnvel innan evrusvæðisins eru vaxtakjör á húsnæðislánum mjög mismunandi milli landa. Þýskaland og Portúgal deila sama gjaldmiðli – en hafa gjörólík vaxtakjör. Það sýnir að gjaldmiðillinn einn ræður ekki úrslitum; regluverk, traust og hagstjórn skipta meira máli.

Við þurfum ekki að afsala okkur stjórn peningamála til að auka stöðugleika. Við þurfum einfaldlega að laga og bæta okkar eigið kerfi. Með markvissum lagabreytingum og aukinni samvinnu við lífeyrissjóði og fjármálageirann getum við byggt upp stöðugt, sanngjarnt og sjálfbært lánakerfi – í íslenskum krónum.

Lausnir í stað loforða

Við í Framsókn trúum á raunhæf skref sem bæta stöðu íslenskra heimila – núna, ekki eftir áratug í bið eftir aðildarviðræðum við ESB.

Evran leysir ekki sjálfkrafa húsnæðisvanda íslenskra fjölskyldna. Hún myndi taka frá okkur stjórn á vöxtum og gengisstefnu, án þess að tryggja betri kjör. Raunhæfar umbætur á innlendum fjármálamarkaði gera það hins vegar.

Við höfum öll tækin til að tryggja stöðugri greiðslubyrði, minnka vægi verðtryggingar og bjóða upp á lægri vexti fyrir íslensk heimili. Það krefst pólitísks vilja sem því miður ríkir ekki hjá núverandi ríkisstjórn.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Deila grein

14/10/2025

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Heimshagkerfið er á ákveðnum krossgötum vegna mikilla tækniframfara og átaka. Þjóðartekjur á mann hafa þrátt fyrir það aukist á heimsvísu síðustu þrjá áratugi. Margt fólk upplifir þó að það sé skilið eftir og þetta á sérstaklega við um ungt fólk. Frá Reykjavík til Naíróbí hefur gremja aukist vegna skorts á tækifærum til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegu verði. Heimsbúskapurinn hefur engu að síður sýnt óvænta seiglu. Í upphafi árs var spáð efnahagslægð á alþjóðavísu en það hefur ekki ræst. Meginskýringarnar má rekja til þess að viðskiptahindranir urðu minni en óttast var, atvinnulífið hefur náð að aðlagast betur en búist var við og alþjóðavextir hafa lækkað. Heimsmyndin er þó brothætt, svo sem sjá má af vaxandi eftirspurn eftir gulli, óvissu í tollamálum og yfirverðlögðum eignamörkuðum.

Í þessu umhverfi alþjóðlegrar óvissu og óstöðugleika þurfa íslensk stjórnvöld að beina sjónum að þremur markmiðum: Ná tökum á verðbólgu, styrkja opinber fjármál og tryggja langtímahagvöxt. Ráðast verður í meira afgerandi aðgerðir til að ná verðbólgunni niður. Verðbólgan mælist nú á breiðum grunni og hefur verið þrálát um 4%. Engu að síður er hagkerfið að kólna hratt, þrátt fyrir að launahækkanir hafi mælst miklar og að verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði. Ríkisstjórnin tók ekki þessa þrálátu verðbólgu föstum tökum og leiddi sjálf launahækkanir sem voru yfir almenna markaðnum. Að sama skapi er raunútgjaldaaukning í fjárlagafrumvarpinu en ekki það aðhald sem fjármála- og efnahagsráðherra var búinn að boða. Tekjuaukinn í ár nemur 80 mö.kr. og ef aðhalds hefði verið gætt, þá hefði verið hægt að skila afgangi á fjárlögum strax árið 2025. Hefði ríkisstjórnin sýnt slíka væntingakænsku, þá hefði það haft mjög jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar og lækkað ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Skuldir hins opinbera hafa lækkað umtalsvert á Íslandi síðustu tíu ár. Brýnt er að halda áfram á þeirri vegferð til að vaxtagjöldin lækki hraðar. Jákvæður hagvöxtur er einnig mikilvægur fyrir samfélagið, þar sem hann heldur uppi atvinnu og velsæld. Flest ríki í Evrópu eru að leita að hagvexti til að efla samfélögin sín og lífskjör. Afar erfitt er að átta sig á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á síðustu árum hefur hátæknigeirinn og ferðaþjónusta skapað þjóðarbúinu miklar tekjur og framtíðarhorfur eru bjartar, að því gefnu að ríkið fari ekki að setja þannig byrðar á atvinnugreinarnar að þær nái ekki að fjárfesta í framtíðinni.

Á þessum óvissutíma hefur styrk hagstjórn aldrei verið mikilvægari. Ég var sannfærð um að ný ríkisstjórn myndi leggja allt sitt undir í því að ná tökum á verðbólgunni, ríkisfjármálum og efla íslenskt efnahagslíf. Það plan hefur enn ekki litið dagsins ljóst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.