Categories
Greinar

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Deila grein

22/12/2020

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Fyrir rúmum þremur árum urðu vörusiglingar til Þorlákshafnar að veruleika, eftir hundrað ára bið. Aðdraganda þeirra má rekja til þess þegar bændur af öllu landinu komu saman til fundar að Þjórsártúni í janúar 1916. Tilefnið var að berjast fyrir jákvæðri byggðaþróun og uppbyggingu landsins. Í framhaldinu varð Framsóknarflokkurinn stofnaður, 16. desember sama ár, og er því nýorðinn 104 ára. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu landsins. Á fundinum að Þjórsártúni, sem haldinn var úti um miðjan vetur, var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að byggja upp höfn í Þorlákshöfn sem myndi tryggja bændum ódýrari og betri flutninga til og frá landinu án afskipta Reykjavíkurvaldsins og kaupmanna.

Haustið 2017 skrifaði ég grein sem birtist í Dagskránni um vörusiglingar til Þorlákshafnar sem þá voru loks nýhafnar, eftir 100 ára bið. Þar hvatti ég Sunnlendinga sem aðra að nýta tækifærin sem út- og innflutningshöfn hefur að færa. Forsenda þess að stærri höfn gæti orðið að veruleika væri sú að ríkisstjórnin kæmi að með aukna fjármuni. Það er því afar ánægjulegt að geta sagt nú, að ríkisstjórnin hefur samþykkt að auka fjármagn svo um munar, til hafnarbótasjóðs og styðja dyggilega við stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn og aðrar brýnar framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir. Þetta hefur verið staðfest á Alþingi með nýsamþykktri fjármálaáætlun.

Það er engum blöðum um það að fletta að vöruflutningar um Þorlákshöfn hafa opnað nýja möguleika fyrir ferskflutning á sjávarföngum frá Íslandi til meginlands Evrópu. Eftirspurn eftir vöruflutningum hefur aukist jafnt og þétt á ekki lengri tíma og er árangurinn framar vonum. Tvær vöruflutningaferjur, Mykines og Mistral, sigla á vegum færeyska skipafélagsins Smyril-Line vikulega og hugmyndir eru uppi um farþegasiglingar frá Þorlákshöfn til Evrópu. Kostirnir eru ótvíræðir með verulegum ávinningi fyrir sunnlenskt atvinnulíf og byggðaþróun. Fyrir utan störf sem skapast við löndun og ýmsa aðra þjónustu þá er sjóflutningstíminn sá stysti til og frá landinu sem styrkir ferskfiskútflutninginn til muna. Flutningur á ferskum sjávarafurðum kemur til með að stóraukast á næstunni þar sem meiri krafa er um að afurðir séu fluttar á markað á sem hagkvæmastan hátt, fyrir umhverfið. Ef fyrirætlanir um stækkun í fiskeldi verða að veruleika þurfa innviðir að vera í stakk búnir til þess að afkasta aukinni framleiðslu á markaði erlendis. Núverandi skip sem venja komu sína til Þorlákshafnar fullnýta stærðarramma hafnarinnar og því er ekki möguleiki á að taka við stærri skipum ef uppfylla á alþjóðlegar öryggiskröfur.

Inn á núgildandi samgönguáætlun er endurbygging á tveimur stálþilsbryggjum í Þorlákshöfn, við Svartaskersbryggju og Suðurvarabryggju auk dýpkunar framan við Svartaskersbryggju. Aukið fjármagn í fjármálaáætlun gefur sveitarfélaginu svigrúm til að ráðast í þær breytingar sem þarf að gera á höfninni til þess að taka á móti stærri skipum og er ekki inn á samþykktri samgönguáætlun. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vinnur að forgangsröðun verkefna miðað við aukið fjármagn sem verður lögð fram á nýju ári.

Þolinmæði er dyggð og ekkert gerist af sjálfu sér. Samstaða sunnlenskra sveitarfélaga með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur skilað sér. Stuðningur þingmanna kjördæmisins var mikilvægur. Áratuga löng barátta er loks í höfn. Jú, það er sagt að við Sunnlendingar séum þolinmóðir. Það þarf þrautseigju og dugnað til. Áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhansson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2020.

Categories
Greinar

Menntun leiðir okkur áfram á óvissutímum

Deila grein

21/12/2020

Menntun leiðir okkur áfram á óvissutímum

Alþingi samþykkti fjár­lög fyr­ir árið 2021 og eitt af ein­kenn­um þeirra er mik­ill stuðning­ur við mennt­un og menn­ingu. Rík­is­stjórn Íslands hef­ur tekið ákvörðun um að styðja við grunn­kerfi þess og fjár­festa í mannauðinum. Það eru for­rétt­indi fyr­ir þjóð að vera í þeirri stöðu að geta náð utan um þá for­dæma­lausu stöðu sem upp er kom­in í kjöl­far kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Framúrsk­ar­andi mennt­un er ein meg­in­for­senda þess að Ísland verði sam­keppn­is­hæft í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Verðmæta­sköp­un næstu ára­tuga mun í aukn­um mæli byggj­ast á hæfni, hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un.

Fram­halds­skóla­stigið hækk­ar um 9%

Mennt­un og auk­in hæfni er und­ir­staða sjálf­bærni, fram­fara og auk­inna lífs­gæða. Mik­il aðsókn var í nám í haust og ákvað rík­is­stjórn­in að fram­halds­skól­um og há­skól­um yrði tryggt nægt fjár­magn til að mæta eft­ir­spurn­inni. Það hef­ur tek­ist með nýj­um fjár­lög­um. Fjár­veit­ing­ar til fram­halds­skól­anna aukast um 9% milli ára og verða 40,4 millj­arðar kr. Um helg­ina eru fjöl­marg­ir fram­halds­skól­ar að út­skrifa nem­end­ur sína, vissu­lega með breyttu sniði vegna tak­mark­ana. Við út­skrift­ar­nem­end­ur vil ég því segja til hjart­ans ham­ingju!

Há­skóla­stigið hækk­ar um 14%

Fjár­laga­frum­varpið í ár sýn­ir glögg­lega mik­il­vægi mennta­kerf­is­ins og hvernig er for­gangsraðað í þágu þessa. Um 40% af fjár­veit­ing­um ráðuneyt­is­ins renna til há­skóla­starf­semi, sem er stærsti ein­staki mála­flokk­ur ráðuneyt­is­ins. Fram­lög til há­skóla- og rann­sókn­a­starf­semi aukast um 14% milli ára, þar sem bæði er um að ræða auk­inn bein­an stuðning við skóla­starfið og fjár­veit­ing­ar til ein­stakra verk­efna. Eitt af fyr­ir­heit­um í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að fram­lög til há­skóla­stigs­ins næðu meðaltali ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar. Það hef­ur tek­ist og er það fagnaðarefni.

Fjár­lög marka tíma­mót

Þetta frum­varp til fjár­laga fyr­ir árið 2021 mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og ein­kenn­ist af miklu hug­rekki og fram­sýni. Mark­mið frum­varps­ins er skýrt: Að gera það sem þarf til að koma Íslandi út úr kór­ónu­veirunni. Við erum að ná utan um fólkið okk­ar, heil­brigðis- og mennta­kerfi. Við ætl­um að koma Íslandi í gegn­um þetta og ljóst að nokkr­ar lyk­ilþjóðhags­stærðir eins og sam­neysla, einka­neysla og fjár­fest­ing líta nokkuð vel út.

Stærsta áskor­un­in er að skapa at­vinnu og er ég sann­færð um að um leið og við náum utan um kór­ónu­veiruna, þá verður mik­ill viðsnún­ing­ur og hann verður einna kröft­ug­ast­ur hér á Íslandi. Af hverju? Vegna þess að við höf­um myndað efna­hags­lega loft­brú í far­aldr­in­um og notað krafta hins op­in­bera til að ná utan um sam­fé­lagið okk­ar. Hug­rekki hef­ur stýrt för í aðgerðum stjórn­valda og vil ég þakka fjár­laga­nefnd kær­lega fyr­ir vel unn­in störf og sér­stak­lega for­manni fjár­laga­nefnd­ar, Will­um Þór Þórs­syni, fyr­ir ein­staka for­ystu. Við höf­um gert það sem þarf og höld­um áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020.

Categories
Greinar

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Deila grein

21/12/2020

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Mjög villandi umræða og beinlínis röng, hefur fengið vængi í fjölmiðlum hvað varðar rétt til töku fæðingarorlofs undir nálgunarbanni. Að því tilefni er ég knúin til að rita nokkur orð til þess að leiða umræðuna á rétta braut.

Í frumvarpi til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof, eins og það var lagt fram fyrir Alþingi var í upphafi að finna ákvæði sem hljóðaði á um að þegar annað foreldri lúti nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili skyldi réttur þess foreldris til töku orlofs samkvæmt lögunum færast yfir til hins foreldrisins. Undir meðferð málsins fyrir velferðarnefnd Alþingis var vakin athygli á því að vegna þess hvernig framkvæmd sé háttað í málum er varði nálgunarbann væri sjaldgæft að foreldri sætti nálgunarbanni gagnvart ungu barni sínu. Mögulega þyrfti að breyta ákvæðinu á þá leið að einnig féllu undir ákvæðið þær aðstæður þegar foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu.

Rétt skal vera rétt

Við þriðju umræðu málsins á Alþingi lagði meirihluti velferðarnefndar fram breytingartillögu sem hljóðar á um að ákvæði þetta nái einnig til þess þegar annað foreldrið sæti nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Sú breytingartillaga var samþykkt og gildir því ákvæðið nú um bæði nálgunarbann gagnvart barni og/eða foreldri. Umræða síðustu daga hefur haldið öðru fram og skal það leiðrétt hér.

Þessu til viðbótar var með samþykkt breytingartillögunnar sett inn bráðabirgðaákvæði sem hljóðar upp á það að starfshópur verði skipaður á vegum félags- og dómsmálaráðuneyta. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða hvort og/eða hvernig breyta skuli lögum í því skyni að ákvæðið nái markmiðum sínum. Störfum starfshópsins skal ljúka eigi síðar en 1. apríl 2021, með frumvarpi að lagabreytingum verði þess þörf.

Með þessari breytingatillögu sem samþykkt var af Alþingi er tryggt að ákvæðið gildir um foreldri sem sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða hinu foreldrinu. Tilgangur skipunar starfshópsins er að kanna frá öllum hliðum hvort og þá hvernig betur megi skerpa á bæði lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um nálgunarbann í þeim tilgangi að markmiðum og tilgangi beggja laga sé náð með sem bestum hætti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. desember 2020.

Categories
Greinar

Riðuveiki blossar upp að nýju

Deila grein

18/12/2020

Riðuveiki blossar upp að nýju

Nú á haustmánuðum var staðfest riðuveiki á nokkrum sauðfjárbúum í Skagafirði. Við finnum öll til með þeim bændum sem lenda í áfalli sem þessu, áfallið er bæði tilfinningalegt sem og fjárhagslegt. Samkvæmt reglugerð þarf að skera niður allt búfé þar sem riða hefur komið upp og má því segja að fótunum sé kippt undan ævistarfi þeirra bænda sem lenda í þessum hremmingum. Fyrir utan að missa allt sitt fé þurfa bændur einnig að rífa allt innan úr fjárhúsum, sótthreinsa og skipa um jarðveg, það er mikil og erfið vinna fram undan.

Tilfinningalegt tjón bænda verður seint bætt en ríkið hefur og þarf að stíga inn í og koma til móts við þá aðila sem hafa misst allt sitt fé vegna riðu. Nú stendur yfir vinna við að reikna bætur sem bændur í Skagafirði fá greiddar úr ríkissjóði en frummat hefur farið fram vegna áætlaðs kostnaðar bóta. Áætlað er að heildarbætur muni nema um 200 millj. kr. sem fyrirhugað er að verði mætt með sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði.

Fyrirbyggjandi ráðstafanir

Þegar þessi alvarlega staða kom upp í Skagafirði innti ég landbúnaðarráðherra eftir svörum hvort búið væri að móta stefnu varðandi rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna riðuveiki í sauðfé hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðherra er hafin vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við Matvælastofnun við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðuveiki, varnalínu búfjár, bótafyrirkomulags vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar auk endurskoðunar á regluverki dýraheilbrigðis. Ég fagna því að rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn riðuveiki sé hluti af þeim þáttum sem eru til skoðunar og þá sérstaklega að tekið verði til skoðunar hvort til staðar séu aðrar aðgerðir sem feli í sér minna inngrip, röskun og kostnað en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi ef riðuveiki hefur greinst í fé.

Smit getur borist úr jarðvegi þar sem fé hefur verið urðað

Riða er bráðsmitandi og því þarf að huga vel að því hvernig smitað fé er urðað, dæmi er um að smit hafi borist úr jarðvegi þar sem riðuveikt fé hefur verið urðað. Samkvæmt reglugerð á að farga riðusmituðum úrgangi með brennslu. Riðusmitið sem greindist í Skagafirði nú í haust var gríðarlega umfangsmikið og magn úrgangs sem til féll við niðurskurð var meira en tiltækur brennsluofn réð við. Vegna þessara sérstöku aðstæðna var í samráði atvinnuvegaog nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar tekin ákvörðun um að urða það magn sem ekki var unnt að brenna. Úrgangur var urðaður á aflögðum urðunarstað í nágrenni við þau sauðfjárbú þar sem framkvæma þurfti niðurskurð vegna riðuveiki. Þessi staða sem þarna kom upp kalla á skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að tryggja að fyrir hendi séu innviðir sem gera þar til bærum yfirvöldum kleift að fara að reglum við eyðingu á úrgangi sem þessum. Auk þess verður að tryggja eftirlit með urðunarstöðum lengur en nú ert gert ráð fyrir því þessi óboðni gestur getur legið í leyni í marga áratugi.

Viðbragðsáætlanir alvarlegra búfjársjúkdóma

Nauðsynlegt er að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu vegna alvarlegra búfjársjúkdóma. Við vitum aldrei hvar eða hvenær þeir banka upp á. Matvælastofnun heldur utan um viðbragðsáætlun við helstu dýrasjúkdómum. Í áætluninni er að finna það ferli sem unnið er eftir við uppkomu þeirra sjúkdóma sem áætlunin tekur til. Ákvarðanir um aðgerðir byggjast á fjölmörgum þáttum sem geta verið ólíkir í hverju tilfelli, leiðbeiningar um viðbrögð eru sem betur fer í stöðugri endurskoðun og miðað er að því að þeim fjölgi jafnt og þétt. Matvælastofnun heldur reglulega viðbragðsæfingar til þess að kanna og aðlaga viðbragðsáætlanir. Það er mikilvægt að byggja upp þekkingu og viðhalda henni til að takast á við margslungnar hættur sem geta læðst upp að okkur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Jólakveðja frá Framsókn

Deila grein

18/12/2020

Jólakveðja frá Framsókn

Það eru að koma jól. Og eins og alltaf fyrir jólin síðustu ár, í ati þingsins, verður mér hugsað til þess þegar dýralæknirinn Sigurður Ingi fékk símtal seint að kvöldi aðfangadags um að lítil tík ætti í erfiðleikum með fæðingu. Á þessum tíma var ég ekki með fullkomna aðstöðu fyrir skurðaðgerðir þannig að ég bað fólkið um að koma með hundinn heim til mín. Síðar um nóttina framkvæmdi ég keisaraskurð á tíkinni sem fæddi heilbrigða hvolpa. Þessi minning frá jólanótt er mér alltaf kær.

Það líður að lokum þessa árs, sem betur fer, myndi einhver segja. Það er ljóst að það verður lengi í minnum haft. Ekki hefur aðeins geisað heimsfaraldur heldur hafa náttúruöflin verið okkur erfið; síðasti vetur með sín vályndu veður og jarðskjálftar sunnanlands og norðan. Maður finnur fyrir þreytu í kringum sig og sér á samfélaginu að fólk er komið með nóg af þessu ástandi. Það er skiljanlegt. Maður finnur til með þeim sem hafa misst ástvini og strítt við erfið veikindi og þeim sem hafa misst vinnuna vegna faraldursins. Við í ríkisstjórninni höfum lagt mikla áherslu á að milda höggið með fjölbreyttum aðgerðum eins og hlutabótaleiðinni, lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, viðspyrnustyrkja og svo mætti lengi telja. Og áfram munum við leita leiða til að brúa bilið þangað til bóluefni tryggir hjarðónæmi þjóðarinnar. Þegar því verður náð hef ég trú á því að efnahagslífið nái hröðum bata. Verkefnið er, eins og ég hef áður sagt, að standa vörð um störf og skapa störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Þótt ég sé kannski ekki mjög aldraður maður, hef ég lifað þá tíð að horfa upp á íslenskt efnahagslíf rísa og hníga til skiptis. Það mun halda áfram. En ég er búinn að átta mig á því að það er beinlínis óskynsamlegt að treysta of mikið á eitthvað eitt. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum að styðja við nýjar greinar en hlúa áfram að rótgrónari atvinnuvegum. Eitt á ekki að útiloka annað. Við verðum að byggja á samvinnu, málamiðlunum og árangri. Við finnum leiðir.

Mér þykir það augljóst að styðja verður dyggilega við íslenska matvælaframleiðslu, hvort heldur hún felst í því að yrkja jörðina, rækta búpening eða veiða eða ala fisk. Það er mikilvægt að standa vörð um matvælaöryggi og þá framleiðslu sem er hér á landi. Það er ekki síður mikilvægt að við breikkum þann grundvöll sem verðmætasköpun á Íslandi stendur á.

Við þekkjum öll mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnu um allt land. Hún er augljóslega lykillinn að hraðri viðspyrnu. Við sáum það í ferðum okkar um landið í sumar hversu metnaðarfull uppbygging ferðaþjónustunnar hefur verið. Nú standa flest hótel tóm og tækifæri þeirra sem störfuðu í ferðaþjónustu fá og jafnvel engin. En, og þetta er mikilvægt en, allir þeir glæstu innviðir sem byggðir hafa verið upp, hvort heldur í samgöngum eða gistingu, öll sú þekking sem ferðaþjónustufólk hefur öðlast og síðast en ekki síst náttúran, landið sjálft, er enn til og bíður þess að ferðalangar leggi leið sína að nýju til okkar. Því hingað mun fólk vilja koma. Þá mun aftur lifna yfir landinu.

Við eigum eftir að minnast þessara jóla lengi vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Heims­mark­miðin og Fram­sókn eiga sam­leið

Deila grein

17/12/2020

Heims­mark­miðin og Fram­sókn eiga sam­leið

Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Heimsmarkmiðin eru algild og aðildarríkin hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra sem er árið 2030. Ísland er þar ekki undanskilið og hafa sífellt fleiri fyrirtæki, samtök og stofnanir innleitt Heimsmarkmiðin í sinni starfsemi. Það hefur hins vegar ekki borið á því að stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi á markvissan hátt innleitt Heimsmarkmiðin. Samt sem áður er eðli málsins samkvæmt gríðarlega mikilvægt að stjórnmálaflokkar séu fremstir í flokki við að tileinka sér Heimsmarkmiðin þar sem áhrif þeirra sem gegna pólitískum embættum á bæði landsvísu og á sveitarstjórnarstigi eru mikil eins og stjórnsýslulög gefa til kynna.

Framsóknarflokkurinn hefur tekið þessari mikilvægu áskorun og hófst undirbúningur að innleiðingu Heimsmarkmiðanna innan flokksins í kjölfar haustfundar miðstjórnar flokksins sem fram fór á Akureyri í nóvember 2019 þar sem undirrituð bar upp þá tillögu að flokkurinn myndi hafa Heimsmarkmiðin að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Það var samþykkt samhljóða að hefja þessa vinnu og í kjölfarið voru tveir starfshópar skipaðir innan flokksins, annars vegar um hvort og þá hvernig grundvallarstefnuskrá flokksins samræmdist Heimsmarkmiðunum og svo hins vegar um innleiðingu markmiðanna í starfshætti innan flokksins svo þau verði til hliðsjónar í allri ákvarðanatöku, stefnumótun og framkvæmd innan flokksins sem utan. Hóparnir hafa skilað af sér sinni vinnu sem kynnt var ári eftir að tillagan var samþykkt, á haustfundi miðstjórnar í nóvember sl.

Þegar grunnstefna Framsóknarflokksins er borin saman við Heimsmarkmiðin kemur ekki á óvart að mikill samhljómur er þar á milli og tengsl eru þar nú þegar við öll Heimsmarkmiðin á einn eða annan máta. Í 104 ára tilverutíð Framsóknar hafa umhverfis- og jafnréttismál verið í forgrunni og grunnstefin Vinna – Vöxtur – Velferð eiga vel við. Í grundvallarstefnuskrá Framsóknar kemur m.a. fram að Framsókn berst fyrir mannréttindum og virðingu fyrir einstaklingnum og hafnar allri mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Það samræmist Heimsmarkmiðum nr. 1-6, 10 og 16. Þá kemur fram í stefnuskránni að Framsókn vill skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaðar ekki hagsmuni komandi kynslóða og að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta innlendri stjórn. Það samræmist markmiðum nr. 6-9 og 11–15.

Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikill samhljómur er nú þegar á milli nýstárlegra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og grunngilda þessa rótgróna stjórnmálaflokks sem hefur þrátt fyrir háan aldur verið ávallt í takt við tímann og aldrei skorast undan að takast á við þær áskoranir sem eru hverju sinni í samfélaginu. Með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi í fortíð, nútíð og framtíð mun Framsókn áfram vera í fararbroddi til að leita ávallt nýrra leiða til að koma á móts við þær aðstæður sem við búum við hverju sinni með framsækni og lausnamiðaða hugsun að vopni.

Linda Hrönn Þórisdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Verjum störf og sköpum ný

Deila grein

15/12/2020

Verjum störf og sköpum ný

Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að atvinna sé undirstaða velferðar. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á skjót viðbrögð stjórnvalda. Ríkisstjórnin hefur nú þegar bætt verulega í fjárveitingar til nýsköpunar. Þá hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu, til að viðhalda störfum, verkefnum og fyrirtækjum sem eiga framtíð fyrir sér. Þrátt fyrir ofangreindar aðgerðir er þörf á frekari hvötum til tekju- og atvinnuskapandi verkefna sem komast hratt til framkvæmda.

Samdráttur í atvinnuvegafjárfestinga

Það liggur fyrir að verulegur samdráttur hefur orðið í atvinnuvegafjárfestingu. Verulega hefur dregið úr útlánum til fyrirtækja vegna minnkandi efnahagsumsvifa og arðsemiskröfu fjármálastofnanna til fyrirtækjalána. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að samdráttur atvinnuvegafjárfestinga haldi áfram á komandi ári. Af þessu má daga þá ályktun að einkaaðilar glími við skort á fjármagni til atvinnuþróunar og tregða sé í lánveitingum fjármálastofna til atvinnulífsins. Því liggur atvinnuþróun á Íslandi í dái eins og er.

Ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar

Stjórnvöld verða að bregðast við og hvetja fjármálastofnanir og lífeyrissjóði til útlána. Það má gera með aðgerðum sem senda skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og skynsamlegt sé að nota það fjármagn sem til staðar er í landinu til atvinnuþróunar. Í þessum tilgangi hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram tillögu um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar.

Aðgerðin gengur út að auka möguleika einkaaðila sem hyggjast fara í nýungar í sínum rekstri við að nálgast lánsfjármagn með ríkisábyrgðum á lánum til atvinnuþróunarverkefna. Atvinnuþróunarverkefni þyrftu að vera skýr og afmörkuð verkefni til þróunar á vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð, geta skapað störf og aukið gjaldeyristekjur. Þannig myndu stjórnvöld deila áhættu af atvinnuþróun á óvissutímum með fjármálastofnunum og atvinnurekendum.

Allar líkur eru á því að aðgerðin hefði jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs til lengri tíma litið. Beinar og óbeinar tekjur af þeim atvinnuþróunarverkefnum sem vaxa og dafna í kjölfar viðspyrnuláns ættu að verða vel umfram þann kostnað sem fellur á ríkissjóð vegna verkefna sem ekki heppnast. Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokkins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. desember 2020.

Categories
Greinar

Sælustund á aðfangadagskvöld

Deila grein

15/12/2020

Sælustund á aðfangadagskvöld

Íslend­ing­ar búa að ríku­legri menn­ingu sem hef­ur fylgt okk­ur um alda­bil. Þjóðlög og rím­ur hafa ómað síðan á 12. öld og hug­vit þjóðar­inn­ar á sviði tón­list­ar er botn­laust. Tón­list­in vek­ur at­hygli um víða ver­öld, safn­ar verðlaun­um og viður­kenn­ing­um. Þátta- og kvik­mynda­fram­leiðend­ur flykkj­ast til lands­ins og all­ir vilja upp­lifa andagift­ina sem Íslandi fylg­ir. Með mik­illi fag­mennsku hef­ur tón­list­ar­mönn­um tek­ist að koma Íslandi á kortið sem tón­list­ar­landi – eitt­hvað sem við Íslend­ing­ar viss­um auðvitað fyr­ir löngu.

Við erum einnig mik­il bóka- og sagnaþjóð. Íslend­inga­sög­urn­ar, Hall­dór Lax­ness og hið ár­lega jóla­bóka­flóð er ein­stakt fyr­ir­bæri og raun­ar hef­ur jóla­bóka­flóðið aldrei verið stærra en nú! Ef­laust eru marg­ir sem finna fyr­ir val­kvíða enda munu jól­in ekki duga til að lesa allt sem okk­ur lang­ar. Fyr­ir tveim­ur árum samþykkti Alþingi frum­varp mitt um stuðnings­kerfi við út­gáfu bóka á ís­lensku. Ákvörðunin markaði þátta­skil í ís­lenskri bók­mennta­sögu og töl­urn­ar tala sínu máli. Útgefn­um titl­um fjölg­ar – sér­stak­lega í flokki barna­bóka – og bók­sala fyr­ir jól­in er um 30% meiri en á sama tíma í fyrra.

Á ár­inu hafa marg­ir lista­menn orðið fyr­ir miklu tekjutapi, enda listviðburðir bannaðir meira og minna síðan í mars. Stjórn­völd hafa stutt við lista­fólk með ýms­um hætti, t.d. með 10 stuðningsaðgerðum sem kynnt­ar voru í októ­ber. Ein þeirra var vit­und­ar­vakn­ing um mik­il­vægi menn­ing­ar og lista og um helg­ina var kynnt áhuga­vert verk­efni í þá veru, sem miðar að því færa þjóðinni listviðburði heim að dyr­um!

Al­menn­ingi um allt land býðst að senda vina­fólki eða ætt­ingj­um sín­um landsþekkt lista­fólk, sem bank­ar upp á 19. og 20. des­em­ber til að skemmta þeim opn­ar. Alls verða heim­sókn­irn­ar 750 tals­ins og yfir 100 lista­menn taka þátt í verk­efn­inu. Það er unnið í sam­starfi við Lista­hátíð í Reykja­vík og ég vona að sem flest­ir fái notið þess­ar­ar glæsi­legu gjaf­ar.

Við erum lukku­leg þjóð. Við meg­um ekki gleyma því að við eig­um of­gnótt af bók­um, hríf­andi tónlist, mynd­list og hönn­un sem hlýj­ar þegar frostið bít­ur í kinn­ar. Við eig­um að standa vörð um ís­lenska menn­ingu og list­ir, styðja við lista­menn­ina okk­ar og setja ís­lenska list í jólapakk­ana. Miðstöð hönn­un­ar og arki­tekt­úrs hef­ur birt yf­ir­lit á vefsíðu sinni yfir versl­an­ir sem selja ís­lenska hönn­un, og þar er sko af nægu að taka. Bæk­ur og leik­húsmiðar eru ekki ama­leg gjöf held­ur, ekki síst þegar viðburðaþyrst þjóðin losn­ar úr Covid-klón­um!

Það bær­ist eitt­hvað innra með manni þegar ró leggst yfir heim­ilið á aðfanga­dags­kvöld, allt heim­il­is­fólk satt og sælt, ljúf­ir jólatón­ar óma og maður kúr­ir með jóla­bók í hönd. Þessi stund ramm­ar inn ham­ingj­una hjá mér um jól­in. Ég segi því hik­laust – ís­lensk menn­ing og list­ir eru jóla­gjöf­in í ár!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2020.

Categories
Greinar

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Deila grein

14/12/2020

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Fæðingaorlofsfrumvarp félagsmálaráðherra liggur fyrir Alþingi. Frumvarpið boðar 12 mánaða fæðingaorlof með jafna skiptinu milli foreldra og rétturinn skiptist þannig að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði sex mánuðir. Hvort foreldri um sig getur svo framselt einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Eitt ár í lífi barns er mikilvægt og fyrsta árið lang mikilvægast. Það er því stórt skref fyrir börn og foreldra að ná þessu marki. Meginmarkmið frumvarpsins er að ryðja úr vegi eldri viðhorfum um að faðirinn beri meginábyrgð á efnahag heimilisins með tekjuöflun sinni. Niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda meðal annars til að „feðrakvótinn“ svokallaði, eða fæðingarorlofsréttur sem einungis feður geta nýtt, sé rétt stefna til að ná fram markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera þannig foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Vinnumarkaðsúrræði

Meginmarkmið frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar skal tryggja barni samvistum við foreldra sína í 12 mánuði, og allir eru sammála um það. Svo er það hins vegar að jafna rétt foreldra við töku á fæðingaorlofi. Við eigum auðvelt með að sjá fyrir okkur yndislegar samverustundir foreldra og barna, draga að sér ilm af hvítvoðungnum og styrkja tilfinningatengslin sem lifir út ævina. Við viljum börnum okkar það besta og að einstaklingar af öllum kynjum beri sama rétt í samfélaginu sem og á vinnumarkaði. Fæðingaorlofsrétturinn er mikilvægur fyrir jafnréttisbaráttu á vinnumarkaði. Meðan jafnri skiptingu er ekki náð þá náum við ekki jafnlaunarétti milli kynjanna. Við skulum líka tala um jafnrétti í lífeyrismálum, en þar spilar jafn réttur fæðingaorlofs stóran þátt. Þegar barátta fyrir fæðingaorlofi hófst voru þessir þættir hafðir að leiðarljósi.

Tímamótaáfangi

Að jafna rétt foreldra til töku á fæðingaorlofi er tímamótaáfangi og stórt jafnréttismál. Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Þar af leiðir að með jafnri skiptingu á fæðingaorlofi komumst við skrefi nær jafnrétti kynja á vinnumarkaði, bæði hvað varðar laun og lífeyrisréttindi. Við eigum ekki að gefa eftir í þeirri baráttu.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. desember 2020.

Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.