Categories
Fréttir

Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin

Deila grein

11/11/2019

Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin

„Það er okkur alltaf hollt að ræða málefni innflytjenda og vil ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir það tækifæri. Við getum þá velt fyrir okkur hvar við viljum standa og hvert við viljum stefna. Heyrst hefur úr þessum stól og í fjölmiðlum að það mál sem var í deiglunni í gær sé á ábyrgð núverandi stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum. Ég vísa slíkum athugasemdum til föðurhúsanna en það er gott að taka samtalið. Þeim hefur vissulega fjölgað sem hér sækja um alþjóðlega vernd og útgefnum leyfum hefur líka fjölgað. Á árinu 2018 voru þau 160 en eru komin upp í 216 á þessu ári.“ Þetta kom fram í ræðu Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í umræðu um málefni innflytjenda á Alþingi á dögunum.
„Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að það eigi að taka á þessu og áhersla er lögð á að lögð verði til grundvallar mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar og áhersla lögð á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd.
Í stjórnarsáttmálanum er líka talað um að setja á fót þverpólitíska pólitíska þingmannanefnd til að meta framkvæmd og eftir atvikum endurskoða hana. Þessi nefnd hefur ekki verið sett og er því ekki farin af stað. Þarna þurfum við að girða okkur í brók og setja hana saman til að hún geti farið að vinna.“
„Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin. Við setjum reglur og lög og viljum að farið sé eftir þeim. En mannúð og gestrisni þarf ekki að setja í lög. Þegar við framfylgjum reglum og lögum eigum við að hafa mannúð að leiðarljósi. Það má ekki gefa afslátt af henni. Það á við um okkur öll sem meðhöndlum útlendingamál,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Deila grein

11/11/2019

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, fór yfir í umræðu um málefni innflytjenda á Alþingi á dögunum að það væri fjölbreyttur hópurinn er komi til landsins af ýmsum ástæðum, svo sem til að mennta sig, atvinnu, fjölskyldutengsla eða jafnvel á flótta.
„Innflytjendur eiga sér stutta sögu á Íslandi eins og tölurnar segja og á bak við tölurnar er raunverulegt fólk. Kerfin okkar hafa þurft að takast á við miklar breytingar á skömmum tíma og hugsanlega tala kerfin ekki saman. Kerfi sem þjónustar innflytjendur og hælisleitendur beint, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og fleiri. Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 voru innflytjendur um 13% mannfjöldans og þetta fólk er lykilþáttur í hagvexti á Íslandi.“
„Það er ljóst að við getum gert svo miklu betur til þess að virkja þennan hóp í samfélagi okkar til aukinnar þátttöku. Það er nefnilega svo ótal margt sem við, hinir venjulegu Íslendingar, getum lært af fólki með aðra reynslu, annan bakgrunn, aðra hugsun og aðra menningu,“ sagði Hjálmar Bogi.
„Við hljótum flest að vera sammála um að ólíkir menningarstraumar auðgi okkar eigin menningu og geri okkur að betra samfélagi. Það er hins vegar ógjörningur fyrir okkur sem hér störfum að setja okkur í spor fólks á flótta, fólks í leit að betra lífi, og því síður ættum við að slá pólitískar keilur vegna hræðilegra aðstæðna fólks. Það eru nefnilega viðbrögðin sem skipta máli. Hvort ætlum við að standa hér til að komast í fjölmiðla eða leggja til breytingar á kerfi sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við?“
Gerum það að menningu okkar stjórnmálamanna að bæta það sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við og fögnum því að hingað til lands vilji fólk koma, dvelja hér, búa, eignast börn, læra og lifa. Ég held að hv. þm. Þórhildur Sunna hafi hitt naglann á höfuðið um gallað kerfi: Hver nýtur vafans í kerfinu? Það er rétt. Og eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir orðaði það: Kurteisi og samkennd verða ekki skrifuð í lög,“ sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Fréttir

Forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála

Deila grein

05/11/2019

Forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, spurði umhverfis- og auðlindaráðherra út í fjárframlög til Skógræktarinnar í  í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.
„Að rækta skóg er einn af þeim þáttum sem horft er til er binda á kolefni. Blásið hefur verið til sóknar í skógrækt og landgræðslu af hálfu stjórnvalda. Miðað við fjárlög 2020 er þó eins og hljóð og mynd fari ekki saman þegar talað er um framlög til Skógræktarinnar. Hinir svokölluðu Mógilsárpeningar, 28 milljónir, og Straumspeningar, 76 milljónir, samtals 104 milljónir, eru skornir af. Af þeim 200 milljónum sem stjórnvöld lögðu til sem nýja fjármuni vegna loftslagsmála skiluðu sér 32 milljónir til Skógræktarinnar.“
„Lagt var upp með á sínum tíma að skipting milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar væri 50:50. Mig langar að vita hvað hefur breyst, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, því að í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar með fjármálaáætlun 2020–2024 segir að lögð sé áhersla á, með leyfi forseta,

„að forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála umfram þá fjárhæð sem nú er í ríkisfjármálaáætluninni.“

Í umsögn fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2019–2023 í júní 2018 kemur fram að lögð er áhersla á, með leyfi forseta,

„að forgangsraðað verði til skógræktarmála. Framlög til þeirra drógust mjög saman árin eftir bankahrunið en fjárfesting í þeim málaflokki styður við mörg markmið stjórnvalda í umhverfismálum.“

„Nú þegar það lítur þannig út að Skógræktin þurfi að draga úr kostnaði við rekstur stofnunarinnar er aukning í þann lið sem heitir Framlög til skógræktar á lögbýlum, sem er vel. Skógræktin getur vel tæklað aukin umsvif miðað við hvernig hún er rekin í dag með mannafla um allt land. Skógræktin getur það hins vegar ekki þegar skorið er niður rekstrarfé til stofnunarinnar. Til að hægt sé að vera með ráðgjöf til bænda, gott gæðakerfi og árangursmat þarf fólk að vera í vinnu. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef Skógræktin á að fara að draga úr þessu eftirliti og segja upp fólki, minnka þjónustu við bændur, fækka störfum úti um landið og á sama tíma er talað um stórauknar aðgerðir í loftslagsmálum,“ sagði Þórarinn Ingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra baðst afsökunar á að þetta hafi ekki skilað sér rétt inn í fjárlagafrumvarpið. „Ástæðan fyrir því að það birtist eins og það sé niðurskurður til Skógræktarinnar á milli ára er fyrst og fremst sú að þar er um að ræða tímabundna heimild til Skógræktarinnar sem felst í eignarnámsbótum vegna jarðar sem komu inn á ákveðnu tímabili. Það voru um 76 milljónir á ári og þær eru ekki lengur til staðar. Hér er ekki verið að reyna að draga tennurnar úr Skógræktinni heldur aukast framlögin til hennar þvert á móti á næstu árum. Ég er jafnframt að leita leiða til að leiðrétta eitthvað þann mun sem verður af þeirri stóru, má segja, breytingu sem þarna er að verða á milli ára út af eignarnámsbótafjármagninu.“
Þórarinn Ingi vildi árétta í síðari ræðu sinni að þetta væri skerðing og hann gæti ekki skilið það öðruvísi en hún sé fyrir hendi í fjárlagafrumvarpinu.
„Þrátt fyrir breytingar á fjármunum varðandi Straums- og Mógilsárpeningana eru þetta 104 milljónir, sem er náttúrlega bagalegt á þeim tíma þegar við eigum að vera að bæta í skógrækt. Skógræktin vinnur mjög gott starf í gæðaeftirliti sínu og hefur t.d. gert einhverja 700 tilraunareiti o.fl. sem er verið að taka út til þess að skógræktin nái sem mestum árangri. Þá erum við að tala um nytjaskógrækt. Varðandi skiptingu á þessum 200 milljónum hef ég hingað til skilið það þannig að lagt hefði verið upp með að jöfn hlutföll væru milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í þeim málum, en Skógræktin virðist einungis fá 32 milljónir. Mér leikur forvitni á að vita hvers vegna,“ sagði Þórarinn Ingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði það vera rétt hjá Þórarin Inga það væru ekki bara eignarnámsfjármagnið sem þarna detti út heldur líka svokallaðir Mógilsárpeningar „sem ég reyndar ber enga ábyrgð á, enda ber atvinnuvegaráðuneytið ábyrgð á þeim.“

Categories
Fréttir

Einblínum á lausnir en ekki vandamál

Deila grein

01/11/2019

Einblínum á lausnir en ekki vandamál

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir Framsókn hafa haft samvinnu að leiðarljósi í síðustu kosningabaráttu, „en ekki sundrung sem fráfarandi flokksmenn  virðast hafa tekið með sér í baráttuna um framtíðina í nýjum flokki.“ Þetta kemur fram í grein hennar „Áfram veginn“ á bb.is á dögunum.

Á miðri leið er gott að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir þeim árangri sem náðst hefur – hlaða sig af endurnýjanlegri orku sem skilar okkur áfram veginn. Geta ekki allir verið sammála um það?

„Ég hef fengið tækifæri til að vinna með frábæru fólki, kynnst málefnum og fengið að vinna að mikilvægum málum inn á þingi og úti í kjördæminu. Ekki síst hefur verið frábært að vinna með ríkisstjórn sem  komið var á eftir kosningar. Þetta er sú ríkisstjórn sem þurfti að koma á til ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika í landinu. Þegar kjörtímabilið er hálfnað má þegar sjá að ríkisstjórnin sem spannar hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri hefur náð að slá nýjan tón, eins og segir í markmiði í stjórnarsáttmála hennar og náð að setja á fót lykilverkefni sem þjóðinni var mikilvægt eftir óreiðu síðasta ártugs,“ segir Halla Signý.

Framsóknarflokkurinn kom átta þingmönnum að í síðustu kosningum, þar af fimm konum. Þessi hópur hefur staðið þétt saman og liðsheildin sterk.
Ráðherrar okkar hafa unnið að mikilvægum málum og ekki bara staðið í embættum, heldur bætt og blásið í seglin svo tekið hefur eftir. Lífskjarasamningarnir sem náðust síðasta vetur voru skýrt merki um samvinnu milli verkalýðsfélaganna og ríkisstjórnarinnar.

„Við höfum unnið eftir þeirri sannfæringu að best sé að horfa fram á veginn í samvinnu við samstarfsflokka okkar og leita lausna sem allir geta sætt sig við. Má þar nefna nokkur mál eins og afgreiðslu fiskeldisfrumvarpinu á síðasta þingi og svo ekki sé minnst á hrákjötsmálið sem skilaði sameiginlegu niðurstöðu sem allir flokkar unnu að fyrir utan Miðflokkinn svo var líka um afgreiðslu á heilbrigðisstefnu.  Í þeirri vegferð einblíndum við á lausnir en ekki vandamál,“ segir Halla Signý.

Categories
Fréttir

Silja Dögg kjörin forseti Norðurlandaráðs

Deila grein

31/10/2019

Silja Dögg kjörin forseti Norðurlandaráðs

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, hefur verið kosin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 en Ísland tekur þá við formennskunni af Svíþjóð. Næsta Norðurlandaráðsþing fer því fram í Reykjavík í lok október næsta árs. Oddnýju Harðardóttur var kosin varaforseti Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvaldið milli hinna árlegu þinga. Forsætisnefndin stýrir og samræmir starf allra nefnda og ráða ráðsins, ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum og stjórnsýslulegum málum, gerir framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun og fer með ábyrgð á umfangsmiklum málefnum sem snerta utanríkis- og varnarmál.
Norðurlandaráðsþingið fór fram dagana 29.-31. október þar sem stjórnmálafólk frá öllu Norðurlöndunum kom saman í þinghúsi Svíþjóðar í Stokkhólmi. Loftslagsmál, sjálfbærni og þátttaka ungs fólk var meðal annars á dagskrá.

Ræða Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns og nýkjörins forseta Norðurlandaráðs:

Forseti,
Ég vil þakka ykkur fyrir það traust sem þið hafið sýnt mér og Oddnýju Harðardóttur með því að kjósa okkur í embætti forseta og varaforseta Norðurlandaráðs.
Nú eru eflaust einhverjir, sérstaklega þeir sem áður hafa komið á Norðurlandaráðsþing, farnir að líta í kringum sig og leita að prentaðri útgáfu formennskuáætlunar Íslendinga í Norðurlandaráði. Ég verð að hryggja ykkur með því að tilkynna að þið munið ekki finna hana.
Við ætlum eftir fremsta megni að reyna að hafa formennsku Íslendinga í Norðurlandaráði 2020 pappírslausa. Við höfum því ekki prentað formennskuáætlunina.
Eftir að ég er búinn að ljúka máli mínu ætla ég að biðja þingmenn og aðra þátttakendur á þinginu um að taka upp síma sína, spjaldtölvur eða tölvur og slá inn eitt af þessum fjórum netföngum. Þar finnið þið formennskuáætlunina á því tungumáli sem ykkur hentar. Hún er líka aðgengileg í þinggögnum á vef Norðurlandaráðs, norden.org.
Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands er „Stöndum vörð“. Einhverjum kann að finnast að þetta sé ekki nógu framsækin og uppbyggileg fyrirsögn en staðreyndin er sú að gildi og verðmæti sem við á Norðurlöndum metum mikils eru í hættu um þessar mundir og við þurfum að verja þau.
Á síðustu árum hefur verið sótt að ýmsum stoðum lýðræðissamfélags og þeim gildum sem hafa verið ríkjandi í alþjóðasamskiptum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Jafnframt stendur mannkynið allt frammi fyrir hættulegri þróun og erfiðum úrlausnarefnum í tengslum við loftslagsbreytingar. Loftslagsbreytingarnar ógna líffræðilegum fjölbreytileika sem mun valda ómældum skaða lífið á jörðinni eins og við þekkjum það í dag.
Nú reynir á ríki þar sem lýðræðishefðin er sterk, virðing fyrir mannréttindum og réttarríkinu rótgróin og áhuginn á umhverfisvernd mikill – að vinna saman og standa vörð um grundvallarverðmæti.
Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði 2020 verður lögð áhersla á:

  • að standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem grafa undan því,
  • að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika sem ógnað er af loftslagsbreytingum, mengun og fleiri þáttum sem rekja má til starfsemi manna,
  • að treysta böndin milli Norðurlandabúa með því að efla tungumálakunnáttu innan Norðurlanda til að stuðla að því að þeir geti í sameiningu tekist á við þessi stóru verkefni.

Forseti,
Á næsta ári verða 100 ár liðin frá því að Danir endurheimtu Suður-Jótland sem þá hafði verið undir yfirráðum Þjóðverja síðan í Slésvíkurstriðinu 1864. Meðan Þjóðverjar réðu landssvæðunum lögðu Danir mikla áherslu á að viðhalda þar danskri menningu og tungu.
Eftir sameininguna 1920 hafa þeir unnið að sömu markmiðum gagnvart danska minnihlutanum í Suður-Slésvík í Þýskalandi. Þar hafa ekki síst Íslandsvinirnir Christian Juhl og Bertel Haarder, félagar mínir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs verið framarlega í flokki. Nú vona ég að þeir – og aðrir danskir þingmenn – rétti okkur hjálparhönd við að bjarga dönskunni á Íslandi því hún er í hættu – eins og marka má af því að ég flyt þessa ræðu á íslensku.
En metnaður okkar snýr ekki aðeins að dönskunni á Íslandi – sem er okkar brú til Norðurlanda. Við þurfum að sjá til þess að norrænu tungumálin sundri okkur ekki heldur sameini. Allir Norðurlandabúar þurfa að fá tækifæri til að kynnast og læra tungumál nágrannalandanna.
Við þurfum að geta unnið vel saman og við þurfum að standa saman því verkefnin eru ærin.
Útdauði tegunda í heiminum eykst nú hraðar en áður hefur þekkst og ljóst er að tap á líffræðilegri fjölbreytni er að mestu leyti af mannavöldum. Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika sem kom út í maí 2019 segir að fjórðungur dýra- og plöntutegunda á jörðinni sé í útrýmingarhættu.
Á næsta ári er stefnt að því að ríki heims setji sér ný markmið um líffræðilegan fjölbreytileika sem leysa af hólmi Aichi-markmiðin svonefndu frá 2010.
Norðurlandaráð samþykkti tillögu á síðasta ári, um að vinna að því að virkja ungt fólk á Norðurlöndum þannig að það geti haft áhrif á mótun nýrra alþjóðlegra markmiða um líffræðilega fjölbreytni 2020. Ráðgert er að halda fundi ungmenna í öllum Norðurlöndunum og svo sameiginlegan norrænan fund í byrjun árs 2020 þar sem samþykktar verða ályktanir um markmiðin sem beint verður til ríkisstjórna og alþjóðasamfélagsins.
Íslandsdeild Norðurlandaráðs hyggst á formennskuárinu styðja við þetta starf og aðstoða við að koma ályktunum og ábendingum unga fólksins á framfæri.
Við ætlum jafnframt að beina sjónum að líffræðilegri fjölbreytni í hafi, en það er svið sem hefur fengið öllu minni athygli en þróunin á landi.
Við ætlum að standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Líklegt er að þetta málefni verði mjög í sviðsljósinu á næsta ári þegar forsetakosningarnar fara fram í Bandaríkjunum.
Töluvert hefur verið gert til að kortleggja vandann en við ætlum fyrst og fremst að skoða leiðir til að vinna bug á honum, til dæmis með því að efla fjölmiðlalæsi og með því að styrkja stöðu fjölmiðla sem vinna á grundvelli hefðbundinna blaðamennskugilda um trúverðugleika og traust sem mótvægi við falsfréttum. Norrænu löndin hafa öll beint sjónum að þessu málefni og sérstaklega standa Finnar framarlega og við vonumst auðvitað eftir góðu samstarfi við finnsku landsdeildina og við ykkur öll.
Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka Hans Wallmark, forseta Norðurlandaráðs, og Gunilla Carlsson varaforseta fyrir gott starf á formennskuári Svía og sömuleiðis fyrir ánægjulegt samstarf og gagnlegar samræður um ýmis málefni. Ég treysti á að við getum haldið áfram þessu nána samstarfi á næstu ári og hrint í framkvæmd þeim hugmyndum sem við höfum verið að ræða.
Jafnframt langar mig að þakka starfsmönnum sænska þingsins, starfsmönnum skrifstofu Norðurlandaráðs og síðast en ekki síst túlkunum fyrir að skapa góða umgjörð utan um fundi okkar þingmanna hér í Stokkhólmi.
Eins og ég nefndi í upphafi ætlum við að reyna að hafa formennskuárið pappírslaust. Við ætlum að halda Norðurlandaráðsþing í tónlistarhúsinu Hörpu eins og síðast og þar hafa menn tekið upp metnaðarfulla umhverfisstefnu í öllu því sem snýr að fundahaldi.
Verið hjartanlega velkomin í Hörpu, tónlistarhúsið okkar glæsilega, í lok október á næsta ári!

***

Categories
Fréttir

„Komin með risastór skref“

Deila grein

30/10/2019

„Komin með risastór skref“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að samgönguáætlun sé allt að því samfellt samráðsferli en eins og lögin kveða á um sé lögð fram samgönguáætlun til fimmtán ára og framkvæmdaáætlun til fimm ára. Áætlunin sé endurskoðuð á minnst þriggja ára fresti, jafnvel oftar. Þetta kemur fram í frétt á visir.is í dag.

„Fyrsta skrefið þegar það á að endurskoða samgönguáætlun er að ráðherra leggur fjárhagsramma fyrir samgönguráð,“ segir Líneik Anna, en í ráðinu sitja fulltrúar bæði ráðherra og fagstofnana. Ráðið vinni tillögu að samgönguáætlun og skili tillögu til ráðherra sem svo fer yfir tillöguna og gerir hana að sínu ef honum sýnist sem svo. Að því búnu fari hún svo í samráð við almenning. „Þar erum við stödd núna. Þriðji liðurinn er svo eftir þetta samráð, þá fer samgönguráðherra og hans ráðuneyti aftur yfir áætlunina, gerir hugsanlega einhverjar breytingar vegna ábendinga sem koma fram í samráðinu og eftir það verður áætlunin lögð fyrir þingið,“ segir Líneik Anna.

Þegar nefndin var með málið til skoðunar í fyrra átti eftir að ganga frá samkomulaginu um samgönguuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu sem nú er komið fram.

„Við erum komin með risastór skref frá því að við lukum vinnunni við síðustu áætlun í janúar. Við erum svo að fá inn flugstefnu í fyrsta skipti og heildarstefnu í almenningssamgöngum og ég sé fyrir mér að það verði töluverð vinna að fara í gegnum það,“ segir Líneik.

Categories
Fréttir

„Sakna að sjá ekki skýra áherslu á tungumálin“

Deila grein

30/10/2019

„Sakna að sjá ekki skýra áherslu á tungumálin“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, flutti ræðu, um framtíðarsýn, fyrir hönd færsætisnefndar á 71. Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi sem stendur nú yfir.
„Ég sakna að sjá ekki skýra áherslu á tungumálin úr framtíðarsýninni, bæði á varðveislu norrænu málanna og innbyrðis tungumálaskilnings. Þetta atriði leggur Norðurlandaráð mikla áherslu á og innbyrðis tungumálaskilningur verður eitt af þremur þemum í formennsku Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á næsta ári,“ sagði Silja Dögg.
Silja Dögg hefur verið tilnefnd sem forseti Norðurlandaráðs á næsta ári.
Á þessu ári hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, stýrt fundum samstarfsráðherranna í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni þar sem lögð er áhersla á samþætt og sjálfbær Norðurlönd.

Categories
Fréttir

Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims

Deila grein

29/10/2019

Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, segir að það hafi verið gefandi að stýra Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári með samstarfsráðherrum Norðurlandanna, nú þegar Danmörk mun taka við formennskunni á Norðurlandsráðsþingi í Stokkhólmi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hans í dag.
„Ísland hefur í ár gegnt formennsku Norrænu ráðherranefndarinnar en á síðustu mánuðum höfum við unnið að því að gera Norðulöndin opnari. Fólk á að geta flutt, farið á milli landa vegna vinnu, stundað nám og stofnað fyrirtæki í hinu löndunum án þess að eiga á hættu að lenda á gráu svæði vegna þess að lög og reglur eru ekki nógu skýrar. Slíkar hindranir eru eitt af þeim verkefnum sem skiptir okkar Íslendinga máli, þar sem hlutfallslega flestir Íslendingar búa í öðru Norrænu landi, eða 7-8%. Það hefur verið gefandi að stýra Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári með samstarfsráðherrum Norðurlandanna. Okkar helsta verkefni hefur verið að búa til framtíðarsýn um að Norðulöndin eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Á okkar síðasta fundi, á okkar formennskuári, kom skýr vilji annarra ráðherra að unnið yrði að verkefnum sem gera Norðurlöndin sterkari saman,“ segir Sigurður Ingi.
 

Categories
Fréttir

Hefja skal vinnu við nauðsynlegar rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum undir Tröllaskaga

Deila grein

25/10/2019

Hefja skal vinnu við nauðsynlegar rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum undir Tröllaskaga

„Þessa vikuna hef ég setið á þingi sem hefur verið mjög áhugavert. Lagði fram mína fyrstu þingsályktunartillögu sem fjallar um að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hefja vinnu við nauðsynlegar rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum undir Tröllaskaga. Mjög mikilvægt mál í samgöngum og þjónustu á Norðurlandi og mun breyta miklu fyrir íbúa og gesti á Norðurlandi.“ Þetta segir Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í yfirlýsingu í gær.
Tillögureinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2020.

„Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra láti hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Tröllaskagagöng hafa komið til umræðu við og við á liðnum árum. Hefur þá einkum verið rætt um tvo valkosti, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng sem færu fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði,“ segir í greinargerð tillögunnar.

Categories
Fréttir

Alvarleg staða landshlutans!

Deila grein

24/10/2019

Alvarleg staða landshlutans!

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, sagði í jómfrúrræðu sinni á Alþingi að sig langaði ræða stöðu þess landshluta sem hann byggi í, Norðurlands vestra.
„Ég vil byrja á því að segja að það er afar gott að vera íbúi í landshlutanum en þróun undanfarinna ára er með þeim hætti að aðgerða er þörf. Það er sama hvaða mælikvarðar eru notaðir, Norðurland vestra er undir landsmeðaltali, lægst eða næstlægst í þeim flestum. Ef skoðaðar eru íbúatölur frá 1998–2019 fjölgaði íbúum á landinu öllu um 30% en íbúum á Norðurlandi vestra fækkað um 12%, eða um 1.025. Að vísu, ef skoðaðar eru tölur frá 1. september 2018, var fjölgun í landshlutanum um 1,3% en 1% á landsvísu. Ef fjölgunin á Norðurlandi vestra hefði fylgt landsmeðaltali á árunum 2005–2018 hefði fjölgað um 920 íbúa í landshlutanum en raunin er fækkun um 134. Ef við skoðum íbúatölur frá 2010–2018 hefði fjölgunin átt að vera 919 en raunfjölgun er upp á 122.“
„Samkvæmt úttekt Byggðastofnunar á meðalatvinnutekjum landsmanna árið 2017 eru meðalatvinnutekjur lægstar á landinu á Norðurlandi vestra, 2,9 milljónir á ári. Á Suðurlandi er það 3,1, á Vestfjörðum 3,3 en landsmeðaltal á sama tíma er 3,5 milljónir. Útsvarsstofninn er lægsta gildi nokkurs landshluta, tæpum 600.000 kr. undir landsmeðaltali. Það er ljóst að landshlutinn þarf aðstoð stjórnvalda til að snúa þeirri þróun við. Aukinn verkefnaflutningur til svæðisins auk aðkomu ríkis við uppbyggingu hvers lags mannaflafreks iðnaðar er nauðsynlegur. Ég vil með þessu hér vekja athygli á alvarlegri stöðu landshlutans og skora á stjórnvöld að koma með raunhæfar aðgerðir áður en það verður of seint,“ sagði Stefán Vagn.