Categories
Fréttir

„Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimt votlendis eða landgræðslu“

Deila grein

24/10/2019

„Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimt votlendis eða landgræðslu“

„Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimt votlendis eða landgræðslu. Við eigum að sinna öllum þeim verkefnum en vanda val á landi fyrir mismunandi verkefni. Við verðum að geyma besta ræktarlandið til að nýta við matvæla- og fóðurframleiðslu, hvort sem það er framræst votlendi, mólendi eða valllendi. Annað land bújarða getur verið skynsamlegt að nýta við endurheimt, sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Í landnotkun er best að samþætta mörg markmið, t.d. getur skógrækt bundið jarðveg í skógræktarrýru eða örfoka landi og skapað viðarauðlind, byggt upp beitiland og skapað skjól fyrir búfé, allt á sömu landspildunni. Í því tilfelli væri bæði verið að koma í veg fyrir losun kolefnis úr landi og binda kolefni í trjáviði og öðrum gróðri auk þess að rækta fóður.“
„Af umræðu á samfélagsmiðlum í kjölfar líffræðiráðstefnunnar 2019 mætti draga þá ályktun að nú séu 12% Íslands þakin skógi eða að rækta ætti nytjaskóg á 12% landsins. Hvort tveggja fer fjarri. Hið rétta er að skógur þekur nú um 2% landsins. Þar af eru 1,5% náttúrulegur skógur og ræktaðir skógar þekja um hálft prósent. Þar af er einn fjórði birki, innlend tegund. Viðurkennt markmið stjórnvalda um nytjaskógrækt er um allt að 5% þekju láglendis, undir 400 metra hæð, eða um 2% Íslands. Hins vegar hafa verið leiddar líkur að því að eftir því sem dregur úr nýtingu úthaga til beitar gætu náttúrulegir íslenskir skógar þakið allt að 6–8% og ræktaðir yndis- og útivistarskógar 1–2%.
Vissulega er mikilvægt að sátt verði um þessi markmið. Það gerist ekki með því að stilla aðferðum við kolefnisbindingu upp sem andstæðum heldur með samþættingu áætlana um landnýtingu og skipulag,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Kjörin fyrst kvenna fyrir 70 árum og fyrst í Reykjavík!

Deila grein

24/10/2019

Kjörin fyrst kvenna fyrir 70 árum og fyrst í Reykjavík!

Í dag fyrir 70 árum var Rannveig Þorsteinsdóttir fyrst kvenna til að vera kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og fyrsti Framsóknarmaðurinn sem kjörinn var í Reykjavík.
Mikið kapp var lágt á hjá Framsóknarflokknum að ná fyrsta alþingismanninum fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík í alþingiskosningunum 23.-24. október 1949.
„Reykvíkingar! Kjósið Rannveigu Þorsteinsdóttur X-B-listinn“ voru skilaboðin á loka metrum baráttunnar, einföld og skýr.
„Dagurinn í dag er örlagastund í lífi íslenzku þjóðarinnar. Sá úrskurður, sem kjósendurnir fella yfir flokkunum og frambjóðendum þeirra við kjörborðin í dag, getur haft úrslitaþýðingu fyrir sjálfstæði og afkomu þjóðarinnar um langan aldur,“ sagði í forystugrein Tímans 23. október 1949.
Í minningarorðum á Alþingi í janúar 1987 mælti forseti sameinaðs þings svo: „Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður og fyrrv. alþingismaður, andaðist á Reykjalundi í fyrradag, sunnudaginn 18. janúar, 82 ára að aldri.
Rannveig Þorsteinsdóttir var fædd 6. júlí 1904 á Sléttu í Mjóafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Þorsteinn sjómaður þar Sigurðsson bónda, síðast að Hestgerði í Suðursveit, Gíslasonar og Ragnhildur Hansdóttir bónda á Keldunúpi á Síðu Jónssonar.
Hún hóf nám í kvölddeild Samvinnuskólans 1922, settist í eldri deild skólans haustið 1923 og lauk burtfararprófi vorið 1924. Næsta vetur var hún í framhaldsdeild skólans. Tveimur áratugum síðar hóf hún að nýju skólanám, lauk stúdentsprófi utanskóla í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands vorið 1949. Héraðsdómslögmaður varð hún 1952 og hæstaréttarlögmaður 1959. Afgreiðslumaður Tímans var hún 1925-1936 og jafnframt stundakennari við Samvinnuskólann 1926-1933. Hún var bréfritari við Tóbaksverslun Íslands 1934-1946. Frá 1949 rak hún málflutningsskrifstofu í Reykjavík til 1974.
Rannveig Þorsteinsdóttir var í stjórn Kvenfélagasambands Íslands 1947-1963, formaður þess frá 1959, og hún var formaður Félags íslenskra háskólakvenna og Kvenstúdentafélags Íslands 1949-1957. Árið 1949 var hún kjörin alþingismaður Framsfl. í Reykjavík og sat á þingi til 1953, á fjórum þingum þess kjörtímabils, en áður hafði hún verið þingskrifari frá 1942 til 1948. Dómari í verðlagsdómi Reykjavíkur var hún frá 1950 nokkur ár. Hún sat oft sem varafulltrúi á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins á árunum 1951-1964. Hún var í happdrættisráði Háskóla Íslands 1951-1977, í útvarpsráði 1953-1956 og síðar nokkra mánuði milli alþingiskosninganna árið 1959 og í yfirskattanefnd Reykjavíkur var hún 1957-1963.
Rannveig Þorsteinsdóttir hóf störf sín að félagsmálum í ungmennafélagshreyfingunni og hún var síðar mörg ár í stjórn Ungmennafélags Íslands. Hún var áhugasöm um réttindi kvenna og í samtökum þeirra var hún skipuð til forustu. Í málflutningsskrifstofu hennar áttu konur stuðning vísan ef á þurfti að halda. Hún var forkur dugleg til allra verka og það er ekki allra að hverfa úr föstu starfi um fertugt og ljúka menntaskóla- og háskólanámi á skömmum tíma.
Nú eru liðnir rúmir þrír áratugir síðan hún hvarf af Alþingi eftir fjögurra ára setu. Störf sín hér vann hún með röggsemi og dugnaði svo sem önnur ævistörf. Síðustu æviárin hlaut hún þó að draga sig í hlé sökum vanheilsu.“

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) 2019

Deila grein

23/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) 2019

Þingið lýsir ánægju sinni með árangursríkt stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem byggir á metnaðarfullum stjórnarsáttmála flokkanna. Ríkisstjórnin hefur með áherslum sínum í síðustu kjarasamningum, lífskjarasamningunum, tekist að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem var orðið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk mátti sitja eftir. Með þessu náðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.

Alls staðar er tekið eftir góðum verkum ráðherra okkar og þingmanna Framsóknarflokksins. Þing KSFS lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Ráðherrum flokksins hafa verið falin mikilvæg og stór málefni en þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu í heild og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.

Mikil sóknarfæri eru í Suðurkjördæmi og liggja tækifærin víða. Ör íbúafjölgun á svæðinu með miklum vaxtarverkjum samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna reynir mjög á alla innviði. Helst má nefna heilbrigðisþjónustu sem vinna þarf í samræmi við nýsamþykkta heilbrigðisstefnu, sem tekur mið af þörfum allra landsmanna. Auk þess er afar brýnt að auka enn frekar fjármuni til löggæslu í kjördæminu til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna bæði erlendra og innlendra.

Þing KSFS fagnar nýrri tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Ánægjulegt er að sjá mikilvægar framkvæmdir í kjördæminu fyrr í nýrri áætlun enda er umferð um kjördæmið þung allan ársins hring. KSFS fagnar þeirri umræðu sem snýr að umferðaröryggi og styður skoðun á þeim möguleika að nýjum vegi yfir Hornafjarðarfljót, láglendisvegi í gegnum Mýrdal með göngum í gegnum Reynisfjall og nýrri Ölfusárbrú við Selfoss verði flýtt með innheimtu veggjalda. Þannig yrði tryggt að innheimt veggjöld renni með gagnsæjum hætti til þeirra framkvæmda sem þeim er ætlað að fara í. Þing KSFS leggur ríka áherslu á að einbreiðar brýr í kjördæminu heyri sögunni til enda eru þær dauðagildrur í þeim umferðarþunga sem nú er staðreynd.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sýnt mikið hugrekki og frumkvæði með hugmyndum að mögulegri sameiningu sveitarfélaga og þeim jákvæðu hvötum sem kynntir eru í tengslum við sameiningar. Þing KSFS hvetur fulltrúa Framsóknar í sveitarstjórnum í kjördæminu til að hafa frumkvæði að umræðu um kosti og gallasameiningar sveitarfélaga. Svör við krefjandi spurningum fást ekki nema svara sé leitað.

Ferðaþjónustan er mikilvæg útflutningsgrein í kjördæminu og er nauðsynlegt að hlúa að innviðum greinarinnar ekki hvað síst er varðar öryggi ferðamanna og ásýnd náttúru landsins. Til að standa undir frekari uppbyggingu hvetur þing KSFS til að kanna verði til hlítar hvort lagt verði á komu- eða brottfarargjald og það fært til sveitarfélaganna í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Framsókn vill öflugt menntakerfi með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Nýsköpun og þróun verður að efla á öllum skólastigum og fagnar þing KSFS áherslum mennta- og menningarmálaráðherra við að efla menntakerfið á öllum skólastigum með auknum fjárframlögum til að auka gæði náms.

Þing KSFS fagnar sérstaklega flutningi ungmennabúða UMFÍ að Laugarvatni og hvetur mennta- og menningarmálaráðherra til að efla samstarf og stuðning við íþróttir, æskulýðsstarf og öldrunarstarf eins og birtist m.a. í nýrri íþróttastefnu ríkisins.

KSFS leggur áherslu á að lausnir í húsnæðismálum eins og kynntar voru í stjórnarsáttmálanum nái fram að ganga og er þá afnám verðtryggingar af lánum einn veigamesti liðurinn í því. Erfiðleikar við að koma sér upp eigin húsnæði eru eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku samfélagi og á því þarf ríkisstjórnin að taka. Þing KSFS fagnar auknu stofnframlagi félags- og barnamálaráðherra til byggingar eða kaupa almennra íbúða með það að markmiði að fjölga leiguíbúðum í almenna íbúðakerfinu. Þá fagnar þingið ákvörðun ráðherra um sérstök lán til nýbygginga á landsbyggðinni.

Kjördæmisþing KSFS hvetur til þess að verðmæti sem safnast saman við flokkun sorps verði sem mest nýtt hér á landi til að minnka óþarfa flutninga. Með því verði dregið úr kolefnisspori landsins og stuðlað að frekari verðmætasköpun innanlands.

Í gegnum árin hefur ekki verið gefið jafnt til allra landsmanna og er helsta dæmið um það sú mismunun sem er í verðlagningu á flutningi á raforku. Þessi mismunun stendur uppbyggingu landsbyggðarinnar fyrir þrifum og nú þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt háleit markmið um orkuskipti í samgöngum er rétt að Alþingi taki af skarið og leiðrétti þetta misrétti með lagasetningu. Eðlilegt væri að landið væri allt eitt gjaldsvæði eins og í símaþjónustu.

Standa þarf vörð um íslenskan landbúnað, sem er einn af hornsteinum byggðar um allt land, og fylgja fast eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um greinina. Óásættanlegt er að fluttar séu inn búvörur sem framleiddar eru við minni kröfur um aðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi.

Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi geldur varhug við framkomnum hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þingið leggur áherslu á að fyrirliggjandi tillaga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands felur í sér skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga, réttindum íbúa þeirra ásamt því að koma í veg fyrir frekari orkuöflun á miðhálendinu. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta á miðhálendinu í ljósi áætlunar ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum.

Fyrirliggjandi tillaga hvað varðar mörk þjóðgarðs á miðhálendinu virðist fyrst og fremst tilkomin til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi á hálendi Íslands. Mikilvægt er að innan þjóðgarðs sé tryggður vöxtur og viðgangur atvinnustarfsemi heimafólks sem unnin er í sátt við íslenska náttúru með sjálfbærni að leiðarljósi.

Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á í ljósi þeirrar náttúruvár sem er í kjördæminu að lokið verði við stofnun hamfarasjóðs sem fyrirhugað er að leysi Náttúruhamfaratryggingu Íslands og A- deild bjargráðasjóðs af hólmi.

Categories
Fréttir

„Horfðu á staðreyndirnar“

Deila grein

23/10/2019

„Horfðu á staðreyndirnar“

„Hæstv. forseti. Tilhneiging mannsins til að halda að heimurinn sé verri en hann er er rík. Vissulega á og má alltaf gera betur með samvinnu og samtal að leiðarljósi og benda á lausnir og leiðir. Saman getum við nefnilega gert svo ótal margt. Við málum okkar eigin mynd með litum af hlutunum eftir því sem við lesum í dagblöðum, fréttum af netinu, af Facebook, Twitter og jafnvel í athugasemdafærslum við fréttir. Markmið þessara miðla er sjaldnast að veita ítarlega eða heildarmynd af hverju máli. Þannig mótast hin fyrirframgefna mynd af ástandinu hverju sinni,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
„Þann 20. október sl. fögnuðum við evrópska tölfræðideginum, degi hagtalna. Kjörorð dagsins eru: „Horfðu á staðreyndirnar.“ Kjörorðið minnir á að lýðræðisríki þarf að standa á traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðiupplýsinga. Í tilefni dagsins opnaði Hagstofa Íslands nýja vísasíðu sem hýsir m.a. félagsvísa og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar má finna fjölbreytta mælikvarða félagslegrar velferðar. Félagsvísar gefa heildarmynd af stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar og ég hvet alþingismenn, sveitarstjórnarfulltrúa og borgara almennt til að kynna sér og skoða þetta vefsvæði.
Með leyfi forseta langar mig að vitna í nokkrar niðurstöður: Hlutfall fólks sem verður fyrir óþægindum vegna óhreininda eða mengunar í nærumhverfi sínu minnkar. Heildartekjur eru að aukast. Hlutfall þeirra sem upplifa skort eða verulegan skort minnkar. Hlutfall þeirra sem eru viðtakendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga lækkar. Fólki sem neitar sér um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar fækkar.
Fleiri vísar eru í vinnslu og við bíðum spennt eftir þeim.
Setjum fókusinn þangað sem viðfangsefnin eru sem þarf að leysa í stað almennra frasa og fullyrðinga um alla hópa fólks þegar átt er við fáa. Gerum þess vegna gott betra fyrir alla,“ sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA) 2019

Deila grein

22/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA) 2019

19. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, haldið í Eyjafirði þann 19. október 2019, telur brýnt að áfram verði unnið með stöðugleika, traust og jöfnuð í fyrirrúmi til framtíðar, landi og þjóð til heilla.
Samgöngur tengja byggðir
Þingið fagnar átaki í samgöngum s.s. með auknum fjárframlögum í vegakerfið og jarðgöng. Markmiðið er sterkara samfélag; aukið öryggi, styttri vegalengdir og efling atvinnusvæða. Sérstaklega ber að fagna gerð jarðgangaáætlunar. Þingið fagnar því að unnið er að gerð flugstefnu fyrir Ísland og heildstæðri stefnu í almenningsamgöngum. Þingið leggur ríka áherslu á áframhaldandi uppbyggingu millilandaflugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Jafnframt að skoska leiðin komi sem allra fyrst til framkvæmda.
Menntun er meginstoð
Þingið fagnar fyrirhuguðum breytingum á LÍN, Lánasjóði íslenskra námsmanna sem felur í sér aukinn og markvissari stuðning við námsmenn og eykur jafnræði. Mikill þjóðhagslegur ávinningur felst í þeirri auknu skilvirkni sem stefnt er að með nýju kerfi. Þingið minnir á nauðsyn þess að efla hlut iðn-, tækni- og verkgreina í menntakerfinu. Þá er brýnt að standa vörð um tungumálið okkar og auka lestraráhuga þjóðarinnar. Tryggja þarf burði háskóla- og rannsóknarstarfsemi í kjördæminu til að sækja fjármagn í rannsóknar- og nýsköpunarsjóði í samvinnu við atvinnulífið.
Auðlindir í eigu þjóðar
Þingið fagnar vinnu þingflokks Framsóknarflokksins um endurskoðun á reglum um jarðakaup og bættri stjórn á landnýtingu. Sömuleiðis fagnar þingið þeirri vinnu sem skýra á stefnu og samstarf um nýtingu og verndun á miðhálendi Íslands, en varar við því að of geyst verði farið og telur að aðrar leiðir en stofnun miðhálendisþjóðgarðs geti náð sömu markmiðum. Varast þarf að hefta alla atvinnustarfsemi á miðhálendinu, skerða ákvörðunar– eða skipulagsvald sveitarfélaga og viðhalda þarf ábyrgð og frumkvæði heimamanna við umsjón og eftirlit miðhálendisins. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta eða endurheimt landgæða.
Þingið telur brýnt að skýra auðlindaákvæði í Stjórnarskrá Íslands.
Matvæli og stefna
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda, aukið virði afurða, bættan rétt neytenda og að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Þingið hvetur ríkisstjórnina til að flýta þeirri vinnu sem mest. Samræma þarf frekar stefnumörkun stjórnvalda sem tengjast málefninu og leggja frekari áherslu á þætti sem varða, auk landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, umhverfis- og auðlindamál, byggðamál, neytendamál, nýsköpun, ferðamál, matvælaöryggi og fæðuöryggi og þar með lýðheilsu og heilbrigðismál.
Hagsmunir barna og húsnæði
Þingið fagnar áherslu ríkisstjórnarinnar að setja málefni barna í forgang og tryggja meiri skilvirkni í stoðþjónustu við börn og fjölskyldur. Lenging fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og úrbætur í húsnæðismálum er hluti af nauðsynlegum úrbótum á lífskjörum íslenskra fjölskyldna. Sérstaklega leggur þingið áherslu á eftirfylgni góðra tillagna um stuðning við uppbyggingu húsnæðis á köldum svæðum á landsbyggðinni, fyrstu kaupendur og leigjendur.
Atvinna og nýsköpun
Undirstaða velferðar er atvinna. Nýsköpun og uppbygging grunninnviða skapar atvinnutækifæri víða um land. Tryggja þarf aðgang að raforku, háhraðanettengingum og að allir landsmenn greiði sama verð fyrir dreifingu raforku. Mikil tækifæri liggja í betra skipulagi landnýtingar, nýsköpun í ferðaþjónustu og bindingu kolefnis í landi en það verður að gera í samvinnu og á grunni þess landbúnaðar sem fyrir er. Tryggja þarf landbúnaði eðlilegar aðstæður í samkeppni við innflutta matvöru með samstarfi afurðastöðva og í sambærilegum kröfum um framleiðsluaðstæður og gæði vöru. Sauðfjárrækt er mikilvæg stoð allrar byggðar í strjálbýli í kjördæminu og skapa verði sauðfjárbændum tækifæri til að þróa atvinnugreinina og taka að sér fleiri verkefni sem krefjast þekkingar á landi og landnotkun. Mikilvægt er að skapa fyrirtækjum hvata til nýsköpunar til að auka verðmæti afurða auðlindanýtingar á landi og sjó. Þingið telur brýnt að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Heilbrigði fólksins
Þjóðin er að eldast og mikilvægt að huga að breyttri samfélagsgerð. Tryggja þarf minni hjúkrunarheimilum gólf í fjárveitingum og tryggja nægjanlegar og samræmdar greiðslur til annarra hjúkrunarheimila. Öflug heilsugæsla þar sem þverfagleg þekking er til staðar er grunnstoð góðrar heilbrigðisþjónustu. Það er fagnaðarefni að nú hafi geðheilbrigðisteymi tekið til starfa í heilsugæslunni. Kostnaður við þjónustu sérfræðilækna má ekki bitna á grunnþjónustu heilsugæslunnar. Lögð er áhersla á að Sjúkratryggingar Íslands ljúki samningum við sérfræðinga sem tryggi þjónustu um land allt.

Categories
Fréttir

„Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa“

Deila grein

22/10/2019

„Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa“

„Hvort, hvernig, hvenær og af hverju ætti að selja hlut ríkisins í einum banka eða öllum — eða ekki? Gagnsæ stjórnsýsla, gagnsæ upplýsingagjöf, opið og gagnsætt söluferli — hvað þýðir þetta gagnsæi? Má gagnsæi víkja fyrir hagsmunum markaðsaðila? Gagnsæi er alltaf háð takmörkunum, hvað þá í viðskiptalífinu. Lykilatriðið hér er aðgengi að upplýsingum,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í gær.
„Almenningur þarf að reiða sig á ákvarðanir stjórnmálamanna, en hversu mikil afskipti eiga stjórnmálamenn að hafa af rekstri banka? Við viljum hafa armslengdina þegar hentar en geta gripið starfsemina traustataki þegar okkur líkar ekki hvert skal stefnt, eins og með uppbyggingu höfuðstöðva Landsbanka Íslands sem stendur nú yfir hér í nágrenninu.“
„Umræðan verður líka að snúast um stefnu, hvaða skoðun þeir sem fara með valdið hafa á því hvað á að gera. Söguna þekkjum við og er búið að fara yfir hana hér. Vantraust gagnvart einum stjórnmálamanni getur yfirfærst á alla stjórnmálamenn og öll stjórnmálin. Þannig verður vantraust gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum kerfislægt.“
„Eflaust telja sumir stjórnmálamenn sig meira traustsins verða til að taka ákvarðanir varðandi sölu og/eða sameiningu bankanna. Á að breyta um rekstrarform eða fyrirkomulag eins og hugmyndir um samfélagsbanka? Er bankastarfsemi á Íslandi of stór? Er óbreytt staða besta lausnin? Þess vegna er sú umræða sem hér fer fram mjög mikilvæg og þörf og sannarlega vakna ótal spurningar. Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa,“ sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Fréttir

Bankakerfið vinni ávallt í samfélagslega þágu

Deila grein

22/10/2019

Bankakerfið vinni ávallt í samfélagslega þágu

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, tók þátt í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í gær.
„Það verður auðvitað að skoða þróunina á viðskiptaumhverfinu og kannski ekki síst í ljósi þeirra verðmæta sem eru skráð í bókum ríkisins og meta hvað er skynsamlegast að gera til að nýta þau verðmæti á sama tíma og við tryggjum það kerfi sem þjónar almenningi hvað best, eins og hv. málshefjandi vakti máls á,“ sagði Willum Þór.
Hvernig og hverjum ætti að selja?
„Lengi hefur verið rætt um að aðskilja viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi en vegna þess hversu takmörkuð samkeppnin er höfum við mögulega ekki stigið það skref. Það hlýtur að skipta máli að sama skapi þegar við ræðum aðkomu ríkisins að rekstri banka hvernig þeim málum er fyrir komið. Það má auðvitað svara því að einhverju marki af hverju skynsamlegt er að losa um eignarhlut ríkisins en það er erfiðara að svara því hvernig og hverjum ætti að selja.“
„Það liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn vill draga úr eignarhaldi bankanna eins og boðað er í stjórnarsáttmála og hefur unnið að því markvisst, m.a. með útgáfu hvítbókar þar sem liggja til grundvallar markmið um traust, gagnsæi og stöðugleika, sem eru lykilatriði sem verður að hafa í huga. Þau þurfa ávallt að vera viðmiðin, auk þess sem það er niðurstaða hvítbókarinnar að burt séð frá eignarhaldi eða eignarformi — og það er kannski mikilvægast af öllu — vinni bankakerfið ávallt í samfélagslega þágu,“ sagði Willum Þór.

Categories
Fréttir

„Það skiptir máli hverjir stjórna“

Deila grein

21/10/2019

„Það skiptir máli hverjir stjórna“

„Ég hef á ferli mínum í sveitarstjórnarmálum reynt að temja mér að hvorki örvænta um of eða fagna of snemma. En að viðhöfðum öllum almennum fyrirvörum þá eru þau drög að endurskoðaðri samgönguáætlun sem kynnt voru í morgun verulega góð tíðindi fyrir Austurland og landið í heild,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, í yfirlýsingu á dögunum.
Stefán Bogi vekur athygli á verkefnum á Austurlandi í nýrri samgönguáætlun í allnokkrum liðum.
„Mig langar að biðja ykkur að hugleiða í augnablik hvort stefnumörkun af þessu tagi hefði nokkurn tíma litið ljós ef einhver annar en formaður Framsóknarflokksins væri samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Það skiptir máli hverjir stjórna,“ segir Stefán Bogi.
 

Categories
Fréttir

Sértæk þjónustueining fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma.

Deila grein

21/10/2019

Sértæk þjónustueining fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma.

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um sértæka þjónustueiningu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma á Alþingi á dögunum.
Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur að fyrirkomulagi sértækrar þjónustueiningar fyrir einstaklinga sem greinast með sjaldgæfa sjúkdóma. Þjónustueiningin verði til þess að tryggja að sjúklingar hafi einn viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og til þess að ný þekking og nýjustu rannsóknir skili sér í bættri þjónustu sem byggist á nýjustu gagnreyndu þekkingu hverju sinni. Þá verði starfshópnum falið að leita leiða til þess að tryggja einfaldari og skjótari aðgengi að nauðsynlegum lyfjum vegna sjaldgæfra sjúkdóma.
Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en 1. september 2020.“

„Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar Evrópu eru sjaldgæfir sjúkdómar, á ensku „orphan diseases“, sjúkdómar sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá fimm eða færri af hverjum 10.000 manns og er þá miðað við Evrópska efnahagssvæðið. Þekking á þessum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir á þeim takmarkaðar og lækning fjarlæg. Sjaldgæfir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á aðstandendur og eykst álagið með versnandi sjúkdómi. Miklu varðar að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandenda þeirra,“ sagði Willum Þór.
„Styrkja þarf umgjörðina um þessa einstaklinga, fylgjast með öllum sjaldgæfum sjúkdómum og sjá til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nýjustu þekkingu í meðferðum við þeim og ekkert síður sjúklingar og aðstandendur.“
„Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á skilvirk þjónustukaup. Meðal stefnumiða er að sjúklingur með mesta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu verði settur í forgang og að gerðar verði kröfur um aðgengi, gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Þá er í greinargerð með heilbrigðisstefnunni lögð áhersla á að sameina þjónustuþætti og setja á fót þekkingarsetur með þeim rökum að betra sé að þjappa saman færni, kunnáttu og þekkingu en að dreifa kröftunum um of. Þetta er auðvitað kjarninn í þeirri hugmyndafræði sem svona miðstöð fyrir sjúklinga með sjaldgæfa sjúkdóma hefur,“ sagði Willum Þór

Í Noregi er miðstöð sjaldgæfra greininga, Senter for sjeldne diagnoser, þverfagleg og sérhæfð miðstöð á landsvísu sem veitir upplýsingar, ráðgjöf og námskeið um ýmsa sjaldgæfa sjúkdóma. Þjónustan þar er ætluð notendum, aðstandendum og fagfólki sem annaðhvort er með eða fæst við sjaldgæfa sjúkdóma. Þar er einnig hægt að hafa beint samband við sérfræðiþjónustu fyrir sjaldgæfa sjúkdóma án tilvísunar frá lækni. Heilbrigðisþjónustunni er ætlað að vakta og miðla niðurstöðum meðhöndlunar, taka þátt í rannsóknum og myndun rannsóknarnetverks, taka þátt í kennslu, annast ráðgjöf og miðla sérfræðiþekkingu til heilbrigðisstofnana og annarra þeirra sem veita þjónustuna og nýta.
Í Svíþjóð er upplýsingamiðstöð um slíka sjaldgæfra sjúkdóma. Þar er markmiðið aukin vitund og þekking á slíkum sjúkdómum.
Í Finnlandi er jafnframt að finna slíka miðstöð sem á rætur í háskólasjúkrahúsinu í Helsinki. Þar var miðstöðin stofnuð til að efla greiningu, rannsóknir og meðferðir á sjaldgæfum sjúkdómum. Þar er áherslan lögð á tengslamyndun, fjarþjónustu, samstarf við ýmis sjúklingasamtök og fulltrúa heilbrigðisþjónustu.

„Flutningsmenn tillögunnar gera ráð fyrir því að við vinnu starfshópsins verði litið til þessara fyrirmynda og kannað hvernig útfæra megi þær hér á landi. Grundvallaratriðið er að til staðar sé sértæk eining sem bregðist við þeim tilfellum sem upp koma, leiðbeini sjúklingum og tryggi með því að þeir upplifi sig ekki hornreka í heilbrigðiskerfinu.“

Löggjöf um réttinn til að reyna, The Right to Try Act, var samþykkt í Bandaríkjunum 30. maí 2018. Hún veitir einstaklingum með sjaldgæfa sjúkdóma rétt á að fá lyf sem eru enn á rannsóknarstigi þannig að notkun þeirra er á ábyrgð sjúklings í samráði við lækni.

„Slík löggjöf er, eins og ég sagði, virðulegi forseti, alls ekki óumdeild og telja flutningsmenn tillögunnar nauðsynlegt að meta kosti og galla slíkrar löggjafar og bera saman við gildandi löggjöf hér á landi og draga fram í slíkum samanburði hvað mælir með eða á móti slíkum leiðum. Í því sambandi verður að líta til þeirra siðferðilegu spurninga sem slík löggjöf hefur óumdeilanlega í för með sér og hversu ríka ábyrgð er hægt að leggja á lækna þegar lyf hafa ekki fengið markaðsleyfi. Á hinn bóginn getur verið afar þungbært fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma að vera synjað um lyf sem gætu bætt lífsskilyrði þeirra verulega,“ sagði Willum Þór.
„Við erum með gott heilbrigðiskerfi en lengi má gott bæta.“

Categories
Fréttir

Enn enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila

Deila grein

17/10/2019

Enn enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila

Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, minnti á í störfum þingsins í gær, að enn eru Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga án samnings við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila.
„Í gildi var rammasamningur milli aðila sem rann út um síðustu áramót. Frá þeim tíma hefur verið greitt samkvæmt einhliða gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem fól í sér umfangsmiklar og róttækar breytingar til lækkunar á framlögum til hjúkrunarheimila. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands annist kaup á heilbrigðisþjónustu sem byggist á þarfagreiningu og miðist við þarfir íbúanna í landinu, þar með talið íbúa hjúkrunarheimila. Viðræður milli aðila sem um ræðir hafa verið í gangi þótt stopular hafi verið á árinu og á meðan eru hjúkrunarheimilin rekin í mínus mánuð eftir mánuð,“ sagði Ásgerður.
„Samkvæmt mínum heimildum er kominn fram grunnur að samkomulagi en það þarf að ljúka gerð samnings og gera árið 2019 upp með þeim hætti að rekstur þessarar mikilvægu þjónustu nái jafnvægi. Þjónusta við aldraða er grunnþjónusta sem þarf að hlúa betur að. Það þarf að tengja aftur RUG-stuðul við nýtt dvalargjald þannig að hjúkrunarþyngd sé metin inn í gjaldstofninn.“
„Að lokum vil ég hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að skipa þverpólitíska nefnd sem fari yfir rekstur og framtíðarfyrirkomulag á byggingum og rekstri hjúkrunarheimila eins og hv. fjárlaganefnd lagði til í meirihlutaáliti sínu um fjármálaáætlun í vor. Stefnan getur ekki verið sú með fjölgun aldraðra og einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila og annarri öldrunarþjónustu að halda að ár eftir ár sé dregið úr fjármagni til þjónustunnar per rými,“ sagði Ásgerður.