Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Ásgerður K. Gylfadóttir

Deila grein

19/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Ásgerður K. Gylfadóttir

Á Hornafirði leiddi Ásgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður bæjarráðs, lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Ásgerður er 50 ára, fædd 10. desember 1968, í Hnífsdal í Ísafjarðardjúpi. Hún hefur búið á Höfn í Hornafirði frá árinu 2002 og „vil ég hvergi annars staðar búa“. Ásgerður er gift Jónasi Friðrikssyni rafvirkja, á þrjú börn á aldrinum 30 til 13 ára og einn sonarson sem er 6 ára.
Ásgerður er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunarsviði hjá HSU Hornafirði. Í dag er hún hjúkrunarfræðingur í hlutastarfi en ekki hjúkrunarstjóri enda hefur pólitíkin tekið aukinn tíma frá öðru. Ásgerður er einnig leiðbeinandi í skyndihjálp og kennir jóga eldsnemma á morgnanna þegar flestum finnst best að sofa. Ásgerður hefur verið í bæjarráði, fræðslu- íþrótta- og tómstundanefnd og skipulagsnefnd auk þess sem hún gegndi embætti bæjarstjóra um tíma. Einnig situr Ásgerður í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Ásgerður er á sínu þriðja kjörtímabili í bæjarstjórn og jafnframt er hún varaþingmaður Suðurkjördæmis frá 2017 og hefur tekið sæti á Alþingi í maí-júní 2018 og nóvember 2018 til mars 2019.

Af hverju áhugi á bæjarmálefnum?

„Ég vil búa í góðu og heilbrigðu samfélagi. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að gera gott samfélag fjölskylduvænt og skilvirkt. Tækifærin séu enn betri fyrir okkur sem hér búum og það það sé eftirsóknarvert fyrir aðra að setjast hér að, og það fyrir fólk á öllum aldri,“ segir Ásgerður.

Áherslumál Framsóknar og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Við leggjum áherslu á að bæjarstjórinn, ásamt öðru forystufólki sveitarfélagsins, láti að sér kveða og tali máli sveitarfélagsins, þannig að eftir sé tekið á landsvísu. • Byggð verði upp öflug og opin stjórnsýsla með skýrum verkferlum. • Auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku með auknu íbúalýðræði og viðhorfskönnun meðal íbúa um ýmsa þætti í þjónustu sveitarfélagsins. • Sveitarfélagið verði eftirsóttur vinnustaður þar sem meðal annars er vel hugað að sí- og endurmenntun starfsmanna auk heilsueflandi þátta. • Lækka fasteignaskatta á heimili í sveitarfélaginu. • Sveitarfélagið eigi gott samstarf við hagsmunafélög atvinnugreina í heimabyggð. • Stutt verði dyggilega við rannsóknir, nýsköpun og þróun. • Haldið verði áfram uppbyggingu á tækjakosti Matarsmiðjunnar í samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. • Gerð verði könnun á húsnæðisþörf í sveitarfélaginu í heild, á meðal allra aldurshópa. • Nægt fé fáist til rannsókna á Grynnslunum. • Gerð verði verkáætlun um varanlega lausn á innsiglingunni með hliðsjón af rannsóknum. • Fylgt verði eftir samningi ríkis og sveitarfélagsins um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis. • Stutt verði við frumkvöðla í menningarstarfsemi í sveitarfélaginu. • Sveitarfélagið verði í fararbroddi í loftslagsmálum og náttúruvernd.

Fréttir og greinar

„Njótum lífsins í náttúruperlum Suðausturlands“

„Að gegna stjórnunarstöðu og vera oddviti í bæjarstjórn auk annarra trúnaðarstarfa getur verið ansi tímafrekt. Því hef ég undanfarin ár unnið markvisst að því að njóta hverrar einustu stundar og einfalda líf mitt. Liður í því var að skella mér í yogakennaranámYoga, núvitund og hugleiðsla er mín leið til að hlaða mig orku og krafti.
Fjölskyldan er nú orðin nokkuð vön því að ég hlaupi milli funda eða sé á flakki milli landshluta vegna starfa minna en ferðalög og útivist með þeim innan lands og utan eru bestu stundirnar sem við erum alltaf að reyna að fjölga,“ segir Ásgerður.
„Í sumar setjum við fókusinn sérstaklega á nærumhverfið og njótum lífsins í náttúruperlum Suðausturlands.“
 

Ljósmynd: Ásgerður K. Gylfadóttir, við  Svartafoss í Skaftafelli í  Vatnajökulsþjóðgarði, sem er nú kominn á heimsminjaskrá UNESCO.

Categories
Fréttir

„Get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar“

Deila grein

19/07/2019

„Get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar“

Land er og hef­ur verið auðlind í aug­um Íslend­inga frá upp­hafi byggðar og bera marg­ar af Íslend­inga­sög­un­um þess merki að bar­átta um land og eign­ar­hald á því hafi verið einn af megin­á­steyt­ings­stein­um í gegn­um sögu okk­ar. Þetta segir Jón Björn Hákonarson, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Fjarðabyggðar og rit­ari Fram­sókn­ar, í grein í Morgunblaðinu 18. júlí sl.
Frá landnámsöld hefur það verið metnaður Íslendinga að það sé skýrt hvað landeigendur eiga með rétti, segir Jón Björn. „Skap­ast hef­ur mik­il umræða í kjöl­far upp­kaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þing­eyj­ar­sýslu, þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárn­ar og vatna­svæði þeirra. Hef­ur því eðli­lega fylgt mik­il gagn­rýni á laga­setn­ingu og þann ramma sem skapaður hef­ur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjöl­far breyt­inga á jarðalög­un­um sem gerð voru í upp­hafi þess­ar­ar ald­ar. Þá hef­ur hluti af gagn­rýni þeirri sem komið hef­ur fram vegna inn­leiðing­ar orkupakka þrjú, hér á landi, einnig snúið að eign­ar­haldi á auðlind­um og vatns­rétt­ind­um á Íslandi.“
„Nauðsyn­legt er því í þessu ljósi að fara að styrkja þær stoðir sem snúa að laga­setn­ingu vegna búj­arða og slíkt get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar eins og verið hef­ur síðustu ár. Jarðalög­um þarf að breyta þannig að hægt sé að setja ákveðnar regl­ur varðandi eign­ar­hald á jörðum og að ekki sé hægt að selja auðlind­ir okk­ar úr landi,“ segir Jón Björn.

Categories
Fréttir

Skapa áform um friðlýsingu ný tækifæri á Úthéraði?

Deila grein

18/07/2019

Skapa áform um friðlýsingu ný tækifæri á Úthéraði?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir að vel hafi tekist til við með uppbyggingu aðstöðu ferðamanna við Goðafoss í Þingeyjarsveit og að áform um friðlýsingu jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss í Hjaltastaðarþinghá gætu skapað ný tækifæri á Úthéraði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Líneik Anna spyr, „skapa áform um friðlýsingu ný tækifæri á Úthéraði“ og „hvaða tækifæri og áskoranir fylgja friðlýsingu þessara jarða.“
Á áformuðu friðlýstu svæði jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss í Hjaltastaðarþinghá er afar fjölbreytt landslag þar sem fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á landslagið. Víða má sjá berghlaup og grjótjökla, en frægast þeirra er Stórurð undir Dyrfjöllum. Að Stórurð liggur vinsæl gönguleið frá Vatnsskarði.

Svæðið er að hluta innan Úthéraðs þar sem fuglalíf er mjög fjölbreytt og meðal annars að finna tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Enn fremur eru á svæðinu merkar sögulegar minjar, m.a. gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík.
Frestur til að skila athugasemdum og ábendingum við áformin er til 18. september 2019, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Categories
Fréttir

Fleiri kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

Deila grein

17/07/2019

Fleiri kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

Elsa Lára Arnardóttir, formaður bæjarráðs Akraness, greinir frá því að fleiri sveitarfélög á Vesturlandi en Akranes hafi kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum í yfirlýsingu í gær.
„Nú hafa sveitarfélögin Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær jafnframt kært ákvörðunina með sömu forsendum og við á Akranesi,“ segir Elsa Lára.
En fram hefur komið að Akranes og íbúar þess hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að umferðaröryggi íbúa og að framkvæmdinni sé hraðað en Akraneskaupstað er umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið segir m.a. í yfirlýsingu frá fundinum. „Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum.“ En það er mat bæjarráðs Akraness að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð verulegum annmörkum, sé byggð á röngum forsendum og sé í ósamræmi við fyrri ákvarðanir og beri að ógilda. Ekki sé um að ræða nýjan veg heldur breikkun vegarins í 2+1 ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Land sem raskast við framkvæmdina hefur þegar orðið fyrir röskun vegna þess vegar sem nú liggur um svæðið.

Jafnframt hefur komið fram að það sé verulegt ósamræmi við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu sambærilegra framkvæmda og ef breyta ætti stjórnsýsluframkvæmd þá þurfi að rökstyðja það sem ekki er gert. Ósamræmi er við ákvarðanir Skipulagsstofnunar er varða t.d. endurbætur á Þingvallavegi, breytingar á Kjalvegi og breikkun Grindavíkurvegar. Óskiljanlegt er hvers vegna önnur sjónarmið eru látin ráða för við ákvörðun um matsskyldu breikkunar Vesturlandsvegar.
Þegar hefur Vegagerðin einnig ákveðið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar segir að áformað sé að breikka um 9 kílómetra kafla Vesturlandsvegar á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Um er að ræða breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Yfirlýst markmið framkvæmdanna er að breikka Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og fækka vegtengingum.
„Ákvörðunin eins og hún er fram sett getur að mati Vegagerðarinnar valdið vafa um hvernig meðhöndla eigi aðrar slíkar framkvæmdir með tilliti til mats á umhverfisáhrifum. Vegagerðin mun samhliða flýta undirbúningi verkefnisins eins og kostur er þannig að framkvæmdir tefjist sem allra minnst,“ segir í yfirlýsingu Vegagerðarinnar.

Categories
Fréttir

Óþolandi staða að séu engin tengsl við byggðina né landið!

Deila grein

16/07/2019

Óþolandi staða að séu engin tengsl við byggðina né landið!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir það óþolandi stöðu að hlunnindatekjur falli í hendur sama aðila og það séu engin tengsl við byggðina né heldur landið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í gær.
„Þegar hlunnindatekjur sem hafa alltaf verið ein stoðin undir byggðinni fara út úr byggðunum bitnar það á samfélögunum á margan hátt.“ segir Líneik Anna.
Líneik Anna segir það skýra afstöðu sína að takmarka eigi fjölda og stærð jarðeigna á hendi sama aðila og eins séu tengsl við landið forsenda fyrir eignarhaldi. Hún vilji að á grunni skipulags sveitarfélaga verði búsetuskylda skilgreind, landbúnaðarland skilgreint og að lagaumgjörð um skráningu landeigna verði bætt.
 

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Elsa Lára Arnardóttir

Deila grein

15/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Elsa Lára Arnardóttir

Á Akranesi leiddi Elsa Lára Arnardóttir, aðstoðarskólastjóri, lista Framsóknar og frjálsra í bæjarstjórnarkosningunum 2018. Elsa Lára er fædd árið 1975 og uppalin í Lambhaga í Hvalfjarðarsveit og einnig á Hornafirði. Hún er með B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og starfaði í nokkur ár sem kennari áður en hún fór út í stjórnmál 2013. Einnig hefur Elsa Lára lokið meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Elsa Lára hlaut sæti á Alþingi árið 2013 og sat þar fram að alþingiskosningunum 2017, en gaf þá ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Elsa Lára er gift Rúnari G. Þorsteinssyni, rafiðnfræðingi og saman eiga þau Þorstein Atla og Þórdísi Evu. Og ekki má gleyma heimiliskettinum, Ólafi Högnasyni.

Einstaklega heppin að fá að leiða hóp af duglegu og jákvæðu fólki

„Ég ákvað að stíga út úr landsmálunum og gefa kost á mér í bæjarstjórn Akraness. Mig langaði til að nota þekkingu mína og krafta til að nýta þau sóknarfæri sem Skaginn á. Ég vil gera gott samfélag enn betra og legg mikla áherslu á að gera Skagann okkar að fjölskylduvænna samfélagi, fyrir unga sem aldna. Áhugamál mín eru útivist eins og að skokka um Skagann og ganga á Akrafjall. Samverustundir með fjölskyldu og vinum gefa mér einnig mikið,“ segir Elsa Lára.
Elsa Lára var varabæjarfulltrúi fyrir Framsókn á Akranesi 2010-2018 og m.a. setið í stjórn Akranesstofu, afmælisnefnd Akraneskaupstaðar og verið varamaður í fjölskylduráði.
„Ég var einstaklega heppin að fá að leiða lista Framsóknar og frjálsra enda skipaður duglegu og jákvæðu fólki sem hefur brennandi áhuga á að gera gott Akranes að enn betra Akranesi.“

Áherslumál Framsóknar og frjálsra

Við í Framsókn og frjálsum leggjum áherslu á Akranes sem fjölskylduvænt samfélag. • Við munum tryggja fjölskyldum dagvistunarúrræði á loknu fæðingarorlofi. • Við munum efla góðu skólana okkar með auknum stuðningi og betri vinnuaðstæðum fyrir nemendur og starfsfólk. • Við viljum sveigjanleika milli skóla – og íþrótta og æskulýðsstarfs. • Leggjum áherslu á velferð Skagamanna á öllum aldri og auk þessa umhverfismál, atvinnumál, skipulagsmál, samgöngur, umferðaröryggi og mennta – og safnamál. • Auk þessa leggjum við áherslu á aukið íbúalýðræði.

Fréttir og greinar

Reykjavíkurmaraþon – Elsa Lára Arnardóttir #3994


„Þetta árið er ég nokkuð róleg og skokka 10 km. Málefnið er hins vegar mjög gott en að þessu sinni skokka ég fyrir Ólavíu 5 ára vinkonu mína. Ólavía greindist með heilaæxli þann 3. júní 2019 sem var svo fjarlægt með skurðaðgerð tveimur dögum síðar. Því miður kom í ljós að æxlið var illkynja stjarnfrumuæxli af gráðu 4. Af þeim sökum þarf Ólavía því að gangast undir erfiða lyfja- og geislameðferð sem mun taka rúmt ár. Hún byrjar á því að fara í 6 vikna lyfja- og geislameðferð þar sem hún þarf að fara í geisla alla virka daga á þessu tímabili og eftir að því lýkur tekur við ein lyfjagjöf á mánuði í rúmt ár. Mér þætti vænt um ef þið væruð til í að styrkja Ólavíu í þessu verkefni. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Elsa Lára.

 

Categories
Fréttir

Ákvörðun Skipulagsstofnunar óskiljanleg

Deila grein

12/07/2019

Ákvörðun Skipulagsstofnunar óskiljanleg

Elsa Lára Arnardóttir, formaður bæjarráðs Akraness, segir að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg muni hafa „afar jákvæð samfélagsleg áhrif vegna bætts umferðaröryggis“ enda ætlað „að taka á lífshættulegum aðstæðum vegfarenda,“ í yfirlýsingu í dag. Og í því ljósi sé ákvörðun Skipulagsstofnunar að breikkunin sé háð mati á umhverfisáhrifum óskiljanleg. Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun.
Akranes og íbúar þess hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að umferðaröryggi íbúa og að framkvæmdinni sé hraðað en Akraneskaupstað er umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið segir m.a. í yfirlýsingu frá fundinum. „Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum.“ En það er mat bæjarráðs Akraness að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð verulegum annmörkum, sé byggð á röngum forsendum og sé í ósamræmi við fyrri ákvarðanir og beri að ógilda. Ekki sé um að ræða nýjan veg heldur breikkun vegarins í 2+1 ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Land sem raskast við framkvæmdina hefur þegar orðið fyrir röskun vegna þess vegar sem nú liggur um svæðið.
Verulegt ósamræmi er við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar um mastskyldu sambærilegra framkvæmda og ef breyta ætti stjórnsýsluframkvæmd þá þurfi að rökstyðja það sem ekki er gert. Ósamræmi er við ákvarðanir Skipulagsstofnunar er varða t.d. endurbætur á Þingvallavegi, breytingar á Kjalvegi og breikkun Grindavíkurvegar. Óskiljanlegt er hvers vegna önnur sjónarmið eru látin ráða för við ákvörðun um matsskyldu breikkunar Vesturlandsvegar.
Elsa Lára segir að byggðarráð Borgarbyggðar hafi tekið undir sjónarmið Akraneskaupstaðar og styðji þar með kæru bæjarráðs Akraness.
Vegagerðin hefur einnig ákveðið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Vegagerðin áformar að breikka um 9 kílómetra kafla Vesturlandsvegar á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Um er að ræða breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Yfirlýst markmið framkvæmdanna er að breikka Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og fækka vegtengingum.
„Ákvörðunin eins og hún er fram sett getur að mati Vegagerðarinnar valdið vafa um hvernig meðhöndla eigi aðrar slíkar framkvæmdir með tilliti til mats á umhverfisáhrifum. Vegagerðin mun samhliða flýta undirbúningi verkefnisins eins og kostur er þannig að framkvæmdir tefjist sem allra minnst,“ segir í yfirlýsingu Vegagerðarinnar.

Categories
Fréttir

„Lilja alveg með þetta“ – stórt skref í byggðaþróun í landinu

Deila grein

12/07/2019

„Lilja alveg með þetta“ – stórt skref í byggðaþróun í landinu

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir Lilju Alfreðdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, „alveg með þetta“ en að frumvarpsdrög um nýjan stuðningssjóð íslenskra námsmanna sé „verið að stíga mörg ár fram í sögu lánamála námsmanna,“ í yfirlýsingu í dag.
„Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að lægri skuldsetningu námsmanna að námi loknu. Svo dæmi má nefna er veitt heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búa og starfa í brothættum byggðum. Það er stórt skref í byggðaþróun í landinu,“ segir Halla Signý.
Halla Signý segist vonast til að frumvarpið fái gott „gengi í málsmeðferð inn á Alþingi“ og hvetur hún endilega fólk að fara í samráðsgáttin og gera „athugasemdir sem nýtast munu í vinnu við frumvarpið“.

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Hjálmar Bogi Hafliðason

Deila grein

12/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Hjálmar Bogi Hafliðason

Í Norðurþingi leiddi Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og deildarstjóri, lista Framsóknarflokks og félagshyggjufólks. Hjálmar Bogi er 39 ára Húsvíkingur með sveitatengingu inn í Aðaldalinn. Hann er grunnskólakennari að mennt og er deildarstjóri í Borgarhólsskóla á Húsavík. Hefur hann starfað við kennslu síðastliðin 13 ár auk þess kennt hin og þessi námskeið og starfað á meðferðarheimili fyrir unglinga.
„Ég var fyrst í framboði 18 ára árið 1998 og síðan eru liðin mörg ár. Setið í ótal nefndum og ráðum bæði á sveitarstjórnarstiginu eða hjá ríkinu síðan þá. Sat í sveitarstjórn árið 2010-2014 og af fáu er ég eins stoltur og þegar sveitarfélagið byggði gervigrasvöll og mötuneyti við Borgarhólsskóla. Framsókn hafði þá afgerandi forystu í málefnum sveitarfélagsins þar sem vörn var snúið í sókn þó að aðrir vilji skreyta sig með stolnum fjöðrum. Var varabæjarfulltrúi á síðasta kjörtímabili, er varaþingmaður og sinnt því áður,“ segir Hjálmar Bogi.

Þjónn samfélagsins

„Mér finnst gaman að láta gott af mér leiða með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Að vera þjónn samfélagsins og eiga samskipti við ólíka einstaklinga sem vilja fara ólíkar leiðir með sama markmið í huga; að gera samfélagið okkar betra. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar taki þátt í samfélaginu og það tel ég mig gera; á kórloftinu eða kórpöllunum, á leiksviðinu, í útkalli eða með því að slá kúlu á golfvellinum,“ segir Hjálmar Bogi.

Áherslumál Framsóknarflokks og félagshyggjufólks

Við leggjum áherslu á forvarnir og lýðheilsu í víðum skilningi • Það þarf að auka afþreyingu • Við viljum skipuleggja og hefja uppbyggingu á skíða- og útivistarsvæði við Reyðarárhnjúk ofan Húsavíkur – þar opnast algjör paradís • Við viljum lækka álögur á barnafjölskyldur og bjóða upp á heimagreiðslur þannig að foreldrar hafi val um að vera heima með barni sínu eftir að fæðingarorlofi lýkur og til tveggja ára aldurs • Við viljum taka upp samninga við íþrótta- og tómstundafélög og auka í þann málaflokk með langtímamarkmið í huga • Sömuleiðis að stórauka hvatastyrki á sem víðustum grunni til barna og ungmenna, m.a. til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og hverju því sem stuðlar að vellíðan og þroska barna • Við viljum mæta framtíðinni og tæknivæða skólastarf, m.a. með því að hver nemandi frá 4. bekk grunnskóla og upp úr fái spjaldtölvu til afnota við nám

Fréttir og greinar

Húsavík rétt í þessu…

Ljósmynd: Hjálmar Bogi Hafliðason.

Categories
Fréttir

Nýtt námsstyrkjakerfi: „Róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi“

Deila grein

10/07/2019

Nýtt námsstyrkjakerfi: „Róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi“

Frumvarpsdrög nýrra laga um námsstyrkjakerfi Stuðningssjóðs íslenskra námsmanna (SÍN) hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu.
„Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að lægri skuldsetningu námsmanna að námi loknu. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nýtt námsstyrkjakerfi mun stuðla að bættri námsframvindu háskólanema, og þar með aukinni skilvirkni og betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu. Námsaðstoð ríkisins verður gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verður efld og jafnræði mun aukast milli námsmanna. Þá veitir nýja fyrirkomulagið lánþegum meira frelsi til að velja hvernig þeir haga sínum lánamálum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Meðal helstu breytinga í frumvarpinu:

Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstóli námsláns þeirra. Styrkurinn er í formi niðurfellingar sem kemur til framkvæmda að námi loknu.

Námsstyrkur verður veittur vegna framfærslu barna lánþega.

Veitt er heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búa og starfa í brothættum byggðum.

Veitt er heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega vegna tiltekinna námsgreina, svo sem starfs- og verknáms eða kennaranáms.

Endurgreiðslutími námslána er almennt háður lántökufjárhæð en námslán skal ávallt vera að fullu greitt á 65. aldursári lánþega. Námslán greiðast með mánaðarlegum afborgunum í stað tveggja afborgana á ári hverju. Ljúki lánþegi námi fyrir 35 ára aldur getur hann valið hvort endurgreiðslan sé tekjutengd eða með jöfnum greiðslum.

Nýmæli er að lánþegar geta valið við námslok um hvort þeir endurgreiði námslán með óverðtryggðu eða verðtryggðu skuldabréfi.

Framfærsla námsmanna verður almennt sú sama á Íslandi og erlendis. Veitt er heimild til stjórnar SÍN um að bæta við staðaruppbót til erlendra lánþega í úthlutunarreglum sjóðsins, þ.e. viðbótarláni sem miðast við kostnað og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað.

Frumvarpið mun leysa af hólmi gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Það er afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem lengi hefur staðið yfir. Á undanförnum árum hafa verið lögð fram tvö frumvörp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, á 141. löggjafarþingi vorið 2013, og 145. löggjafarþingi vorið 2016. Athugasemdir sem bárust við þau frumvörp voru höfð til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps.

***

Nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu:

Róttæk breyting – lægri skuldsetning – bætt námsframvinda – efld staða vegna félagslegra aðstæðna – aukið jafnræði – meira valfrelsi.