,,Hæstv. forseti. Nú er kjördæmaviku lokið og við þingmenn margs fróðari um hin ýmsu verkefni í byggðum landsins. Eftir ferð mína um Norðausturkjördæmi er mér efst í huga hve rík við erum af mögnuðu fólki sem er drifkrafturinn í hinum ýmsu samfélögum. Í dag langar mig til að vekja athygli á verkefninu Brothættar byggðir sem nú er í gangi á sjö svæðum. Þau heita: Raufarhöfn og framtíðin, Breiðdælingar móta framtíðina, Skaptárhreppur til framtíðar, Bíldudalur: Samtal um framtíðina, Hrísey: Perla Eyjafjarðar, Glæðum Grímsey, Öxarfjörður í sókn.
Ég var svo heppin að fá að sitja íbúafund á Raufarhöfn í liðinni viku. Sá fundur var liður í verkefninu sem leitt er af Byggðastofnun og sett var af stað á Raufarhöfn í samvinnu við íbúa. Frá upphafi var ætlunin að þar yrði til aðferð og verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu líka frammi fyrir þeim vanda sem felst í fólksfækkun og erfiðleikum í atvinnulífi.
Markmið sem íbúar Raufarhafnar settu á oddinn voru aukinn kvóti til að styrkja grunninn, aukið íbúðahúsnæði, áframhaldandi vinna við heimskautsgerðið, internet, tryggur hótelrekstur og fleiri góð verkefni. Skemmst er frá því að segja að öll þessi verkefni eru í farvatni og jafnvel langt komin. Íbúum hefur fjölgað undanfarin tvö ár.
En til að komast á næsta stig þarf að styrkja ferðaþjónustuna og laga samgöngur. Þar á ríkisvaldið að koma inn í. Ég hlakka til að heyra hvernig ríkisstjórnin ætlar að fylgja þessu verkefni eftir sem fest hefur verið í sessi með samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hvernig ætla menn að fóðra það að ekki virðist eiga að standa að fullu við loforð um framkvæmdir við Dettifossveg? Hann er svæðinu öllu mikilvægur. Hægri höndin verður að vita hvað sú vinstri gerir.
Ég vil óska Raufarhafnarbúum og öðrum í verkefninu alls hins besta. Heimsþorpið Raufarhöfn á sannarlega framtíðina fyrir sér.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 22. febrúar 2017.
23/02/2017
Styrkja þarf ferðaþjónustuna og laga samgöngur