Categories
Fréttir

„Ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu“

Deila grein

20/05/2019

„Ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í ræðu á Alþingi, 14. maí s.l., ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn. Í ræðu sinni rakti Silja Dögg mikilvægi þess að orka verði í eigu almennings og að sú ákvörðun sé í höndum íslenskra stjórnmálaflokka, ekki í höndum Evrópusambandsins. Framsóknarflokurinn væri skýr með þetta atriði og að mikilvægt væri að aðrir flokkar myndu skýra sína afstöðu. Einnig fór Silja Dögg yfir að með orkupakkanum væri ekki verið að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi sæstreng eða á annan hátt framselja valdheimildir íslenskra yfirvalda til slíkrar ákvarðanatöku. Ítrekaði hún að ekki verið væri að taka ákvörðun um framsal valds til ACER. Fram kom hjá Silju Dögg að  meginbreytingin frá orkupakka tvö í þrjú væri að Orkustofnun hafi auknar heimildir til eftirlits á raforkumarkaði, Orkustofnun væri íslenskt stjórnvald og verði það áfram, ekki afgreiðslustofnun eða útibú frá ACER.
Í lok ræðu sinnar sagði Silja Dögg að hlustað hafi verið á gagnrýnisraddir og að þær hafi hjálpað mikið til við að bæta málið. „Framundan er vinna við orkupakka fjögur og fimm. Við þurfum að vera vel vakandi við þá vinnu og gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Einnig er mikilvægt að tryggja að eignarhald orkufyrirtækja verði áfram hjá hinu opinbera, opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að ljúka við orkustefnu sem er á teikniborðinu og gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og Landsnet sem og að uppfæra stjórnarskrá okkar og þá á ég við auðlindaákvæðið og heimildir um valdaframsal. Að mínu mati myndi það styrkja málið verulega ef sett yrði inn ákvæði í frumvarp um sæstreng er varða þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Silja Dögg.
Ræða Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns, 14. maí.

„Hæstv. forseti. Umræðan um þriðja orkupakkann hefur dregið athygli þjóðarinnar að stefnumörkun í orkumálum, eignarhaldi auðlinda sem og utanríkismálum. Sú umræða hefur verið holl og skiptir máli til framtíðar. Við þurfum að tryggja að orkan verði í eigu almennings. Við þurfum að breyta lögum um vatnsréttindi og eignarhald á jörðum til að tryggja innlent eignarhald. Við ættum einnig þótt fyrr hefði verið að beita okkur fyrir því að aðeins verði um einn taxta að ræða fyrir dreifingu raforku. Allt sem nefnt hefur verið er íslensk pólitík. Þessar ákvarðanir eru í höndum íslenskra stjórnmálaflokka, ekki í höndum Evrópusambandsins. Það er líka í okkar höndum hvort við ætlum að halda áfram EFTA-samstarfinu. Það er í okkar höndum hvort við viljum leggja sæstreng. Það er í okkar höndum hvort við viljum vera áfram aðilar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
Herra forseti. Það er tími til kominn að íslenskir stjórnmálaflokkar stígi fram og geri grein fyrir hvar þeir standa í þessum málum. Það er alveg á hreinu hvar Framsóknarflokkurinn stendur. Við viljum tryggja eignarhald almennings á orkufyrirtækjum, að Landsvirkjun verði áfram í opinberri eigu og trygga innlent eignarhald á jörðum og vatnsréttindum. Við viljum að eitt og sama verð sé á dreifingu raforku fyrir alla. Við viljum styrkja þennan sameiginlega grunn og eignarhald, til að mynda sjáum við fyrir okkur að sameina Landsnet og Rarik. Við teljum að orkuauðlindin sé ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu og því þarf að tryggja að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga. Framsóknarflokkurinn telur tengingu við raforkukerfi Evrópu með sæstreng ekki þjóna hagsmunum landsmanna.
Umræðan um orkupakka þrjú í þjóðfélaginu hefur verið lífleg. Talsvert hefur borið á rangfærslum um hvert sé raunverulegt innihald pakkans. Sumir hafa haldið því fram að innleiðum við þriðja orkupakkann væri Alþingi að samþykkja eftirfarandi:

1. Að afsala okkur yfirráðum yfir auðlindum okkar með því að færa ACER, eftirlitsstofnun Evrópu, valdheimildir.

2. Að orkupakkinn skyldi okkar til að leggja sæstreng, virkja og flytja orku til erlendra ríkja.

3. Með því að neita að leggja sæstreng myndi íslenska ríkið skaðabótaskylt á grundvelli fjórfrelsis EES-samningsins þar sem orka er skilgreind sem vara samkvæmt honum og því væri bann við lagningu sæstrengs brot á viðskiptafrelsi Evrópska efnahagssvæðisins.

4. Þá halda sumir því fram að innleiðingu á orkupakka þrjú feli í sér einkavæðingu orkufyrirtækja.

Hæstv. forseti. Um þetta vil ég segja að það er eðlilegt að fólk velti slíku fyrir sér enda um mikla hagsmuni að ræða. Það er gott að svo margir hafi áhuga á málinu því að þá náum við að kalla fram margar hliðar og rannsaka málið út frá þeim. Því fór hv. utanríkismálanefnd vandlega yfir þessar fullyrðingar, fékk til sín fjölda gesta og umsagnir sérfræðinga og annarra sem höfðu eitthvað til málanna að leggja. Yfirferð nefndarinnar er vandlega skjalfest í nefndarálitinu, sem að mínu mati er mjög gott og ítarlegt. Þar er gerð grein fyrir niðurstöðu meiri hlutans sem er sú að ofangreindar fullyrðingar standist ekki skoðun. Það er ekki verið að brjóta gegn stjórnarskrá og um það er enginn lagalegur ágreiningur. Með orkupakkanum er ekki verið að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi sæstreng eða á annan hátt framselja valdheimildir íslenskra yfirvalda til slíkrar ákvarðanatöku. Það er ekki verið að taka ákvörðun um framsal valds til ACER. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að aðrir en íslensk stjórnvöld hafi forræði um nýtingu orkuauðlinda. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að íslensk stjórnvöld þurfi að selja auðlindir sínar eða missi forræði á slíkum eignum sínum. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að íslensk stjórnvöld þurfi að selja eða einkavæða raforkufyrirtæki í sinni eigu. Ríkið er ekki skaðabótaskylt á grundvelli fjórfrelsisins ef það neitar að leggja sæstreng.
Herra forseti. Annar punktur sem mikið hefur verið ræddur í tengslum við málið er hvers vegna við séum að samþykkja orkupakkann þar sem við erum ótengd evrópskum raforkumarkaði, hann skipti okkur engu máli. Við ættum auðvitað að hafna honum á þeim forsendum og senda málið til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar, það sé hin rétta leið, eins og sumir vilja kalla það.
Þá er rétt að spyrja: Myndi höfnun á pakkanum þjóna hagsmunum Íslendinga betur en að samþykkja hann með framlögðum fyrirvörum? Er höfnun raunverulegur valkostur í ljósi samstarfs okkar í EFTA og gagnvart EES-samningnum?
Ísland gekk í EFTA árið 1970 og Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994, fyrir 25 árum síðan. Að flestra mati voru þessar ákvarðanir framfaraskref. Þegar við samþykktum EES-samninginn var skoðað vandlega hvort upptaka samningsins bryti stjórnarskrá okkar. Svo var ekki. Það kom í ljós við vinnslu málsins að 102. gr., þar sem kveðið er á um að ríkið geti hafnað tilskipunum, er fyrst og fremst öryggisventill. Yfir þetta er farið mjög vandlega í nefndaráliti meiri hlutans. Greinin er tæki í samningsferlinu í nefndinni fyrir ríki til að skapa sér ákveðna samningsstöðu innan nefndarinnar. Það er ástæða fyrir því að engin fordæmi eru fyrir því í 25 ára sögu samningsins að ríki hafni tilskipunum eftir að ríki hafa lokið vinnu í sameiginlegu nefndinni og komið sér saman um niðurstöðu. Að gera slíkt væri misbeiting á réttindum okkar innan EFTA.
Herra forseti. Í meirihlutaáliti hv. utanríkismálanefndar er vandlega farið yfir þessa þætti eins og fyrr segir. Nefndin fékk m.a. á sinn fund títtnefndan Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins. Hann útskýrði m.a. að innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hvílir sú ábyrgð á fulltrúum að leggja sig fram við að viðhalda góðri framkvæmd samningsins. Þessi regla er kölluð favor contractus upp á latínu og skiptir mjög miklu máli. Herra Baudenbacher talaði um að höfnun myndi án efa skaða hagsmuni íslenska ríkisins verulega og rökstuddi það mjög ítarlega. EFTA-ríkin verði að tala einni röddu gagnvart EES. Ísland er bundið hollustuskyldu gagnvart samstarfsríkjum sínum. Samstarf okkar byggist á gagnkvæmu trausti og náinni samvinnu þjóða og því gera bæði Liechtenstein og Noregur ráð fyrir því að við séum heil í okkar samstarfi og að við afléttum hinum stjórnskipulega fyrirvara í orkupakka þrjú sem þau hafa þegar gert.
Þannig að svarið er, herra forseti: Ástæða þess að við kjósum að innleiða reglur um orkumarkað með fyrirvörum er að við erum aðilar að innri markaði Evrópu og höfum verið það í 25 ár.
Sameiginlega EES-nefndin er sá vettvangur þar sem þjóðir geta aðlagað regluverkið aðstæðum í heimalandinu, fengið undanþágur og annað slíkt. Þjóðþing hafa ítrekaða aðkomu að því ferli eins og gerðist í okkar tilfelli og er einmitt rakið í nefndarálitinu þegar vinnan stóð við að innleiða orkupakka þrjú. Í starfi sameiginlegu nefndarinnar liggur sveigjanleikinn en ekki í því að hafna reglum þegar aðlögun hefur átt sér stað.
Hvenær og hvers vegna hófst þessi vegferð Íslendinga með innleiðingu á reglum um evrópskan orkumarkað? Hún hófst árið 2003 þegar við innleiddum orkupakka eitt. Með þeirri innleiðingu hófst í raun markaðsvæðing raforkukerfisins. Afleiðing þeirrar vegferðar var m.a. aukin samkeppni á markaði, aukin neytendavernd og lægra orkuverð til heimila, svo eitthvað sé nefnt. Nokkrum árum síðar, árið 2009 var orkupakki tvö innleiddur og hann er nú í gildi. Í svari hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni á þskj. 1315 á yfirstandandi löggjafarþingi kemur m.a. fram hvers vegna þessi ákvörðun var tekin og margt reyndar fleira varðandi alla orkupakkana þrjá og fjögur og fimm. Í svarinu er bent á ákvæði 2. mgr. 194. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, sem við erum reyndar ekki aðilar að en er grunnurinn að EES-samningnum að hluta til, þar sem fram kemur að ráðstafanir samkvæmt málsgreininni séu með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar. Stefán Már Stefánsson, sem kom fyrir hv. utanríkismálanefnd og skilaði áliti, ítrekaði gildi 194. gr. sáttmálans og benti á að þar sem Ísland væri ekki í Evrópusambandinu mætti ætla að reglur Evrópusambandsins gengu ekki lengra hvað okkur varðar sem erum ekki aðilar að Evrópusambandinu.
Herra forseti. Rétt er að undirstrika að með innleiðingu orkupakka þrjú fellur orkupakki tvö úr gildi. En hvað er í pakkanum? Þar eru gerðir varðandi jarðgas en Ísland fékk undanþágu frá þeim. Það er krafa um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja. Ísland fékk undanþágu. Það eru ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits, nýmæli, m.a. um sjálfstæði frá aðilum á markaði og stjórnvöldum. Hnykkt er á þeim sterka neytendarétti sem einkennir alla orkupakkana og felst m.a. í skýrum rétti neytenda til að velja sér orkusala að vild, skipta hratt og auðveldlega um orkusala sem og að fá ítarlegar upplýsingar um orkunotkun og verðlagningu.
Fyrir okkur Íslendinga er meginbreytingin frá orkupakka tvö í þrjú sú að Orkustofnun fær auknar heimildir til eftirlits á raforkumarkaði. Það liggur ljóst fyrir að Orkustofnun er íslenskt stjórnvald og verður það áfram, ekki afgreiðslustofnun eða útibú ACER. Yfir þetta höfum við farið mjög vandlega í hv. utanríkismálanefnd. Þetta er alveg skýrt. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór vandlega yfir þetta í sinni ræðu.
Hér á landi starfa nokkur orkufyrirtækja á samkeppnismarkaði og um starfsemi þeirra gilda samkeppnislög eins og áður segir. Svo er ágætt að undirstrika það að hér á landi erum við einnig með raforkulög sem skipta máli í samhengi hlutanna. Ég tel að við getum verið sammála um að styrking Orkustofnunar sé hið besta mál.
Í þessu samhengi er rétt að nefna þær áhyggjur sem margir hafa haft varðandi þann fyrirvara sem Ísland setur gagnvart tilskipun 713/2009 sem snýr að ACER. Í fyrsta lagi var sleginn sá varnagli að leggja fram frumvarp sem kveður á um að ekki verði lagður sæstrengur án samþykkis Alþingis og endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar.
Í öðru lagi, til að skerpa á sérstöðu Íslands sem eyju með ótengt raforkukerfi við meginland Evrópu, sendu Miguel Arias Canete, orkumálaráðherra Evrópu og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, frá sér sameiginlega yfirlýsingu, dags. 20. mars á þessu ári. Í yfirlýsingunni kemur fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum. Yrði sæstrengur lagður í framtíðinni hefði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri en ekki ACER líkt og samþykkt hefði verið í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem endurspeglar sjálfstæði stofnana EFTA undir tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Í þriðja lagi varðandi fyrirvarana þá lögðu EFTA-ríkin sem eiga aðild að EES-samningnum, ríkin þrjú, Ísland, Noregur og Liechtenstein, fram sameiginlega yfirlýsingu í sameiginlegu EES-nefndinni, 8. maí sl., þar sem sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkaði ESB er enn frekar áréttuð. Í yfirlýsingunni kemur fram að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð ríkjanna yfir orkuauðlindum sínum, ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa þeirra og orkukerfs innri markaðar ESB væri ávallt á forræði þeirra. Komi til lagningar sæstrengs í framtíðinni sé fyrirkomulagið þannig að ESA úrskurði um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki ACER. Það er í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Þetta eru lykilskjöl í málinu, herra forseti. Með þessum yfirlýsingum og frumvarpi um sæstreng frá hæstv. iðnaðarráðherra er tryggt að fyrirvarar Alþingis halda til framtíðar. Þeir hafa óumdeilanlega lagalegt gildi, þjóðréttarlegt gildi, og því er afar mikilvægt við afgreiðslu málsins að árétta að þeir séu forsenda afgreiðslu málsins.
Nefnt hefur verið að fyrirvarar muni ekki halda þrátt fyrir allt og sumir byggja þá skoðun sína á hráakjötsmálinu svokallaða. Þessi tvö mál er ekki sambærileg. Í kjötmálinu komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki innleitt samningsskuldbindingar sínar samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með réttum hætti. Innleiðing á Íslandi var gerð þannig að frumvarp til laga vegna innleiðingar var lagt fram á Alþingi nokkrum sinnum. Þegar það var loks samþykkt eftir nokkrar tilraunir var það í nokkuð breyttri mynd frá því sem upphaflega var lagt til, til að innleiða umræddar gerðir. Þarna voru gerð mistök af hálfu Alþingis. Þetta var ekki rétt gert. Nú erum við að tala um allt aðra hluti.
Niðurstaða mín er sú að við höfum búið þannig um hnútana í þessu máli að fyrirvarar muni örugglega halda. Við erum í raun ekki bara komin með belti og axlabönd eins og við í Framsóknarflokknum höfum lagt mikla áherslu á frá upphafi, heldur erum við komin með, ja, hvað skal segja, álímdan hártopp, smekkbuxur og nýja skó.
Herra forseti. Það er ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu. Ekkert slíkt felst í þriðja orkupakkanum og málið snýst því ekki um það. Sérstaða Íslands með einangrað raforkukerfi er áréttuð með lagalegum fyrirvara í þingsályktunartillögunni sjálfri og í sameiginlegri tilkynningu utanríkisráðherra Íslands og framkvæmdastjóra orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB, ásamt bréfi dags. 8. maí sl. frá EFTA-ríkjunum sem ég hef áður fjallað um.
Við höfum hlustað á gagnrýnisraddir. Þær athugasemdir hafa hjálpað til við að bæta málið. Fram undan er vinna við orkupakka fjögur og fimm. Við þurfum að vera vel vakandi við þá vinnu og gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Einnig er mikilvægt að tryggja að eignarhald orkufyrirtækja verði áfram hjá hinu opinbera, opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að ljúka við orkustefnu sem er á teikniborðinu og gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og Landsnet sem og að uppfæra stjórnarskrá okkar og þá á ég við auðlindaákvæðið og heimildir um valdaframsal. Að mínu mati myndi það styrkja málið verulega ef sett yrði inn ákvæði í frumvarp um sæstreng er varða þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir afar gott utanumhald í störfum nefndarinnar, gott skipulag, góða upplýsingagjöf til nefndarmanna og nefndarmönnum utanríkismálanefndar fyrir samstarfið. Ég tel, varðandi þær efasemdir sem sum okkar kunna að hafa haft í upphafi við vinnslu málsins, að við höfum fengið gott pláss til að fara yfir þær og fá svör við þeim spurningum sem á okkur brunnu, þannig að ég get ekki annað en hrósað formanni nefndarinnar og nefndarmönnum fyrir mjög gott samstarf og ítarlega yfirferð.
Að lokum vil ég gera orð formanns Framsóknarflokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem hann ritar í grein í Kjarnanum í dag að mínum þar sem hann segir, með leyfi forseta:
„Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim. Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar — í bráð og lengd. Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum. Að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans, og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.““

Categories
Fréttir

„Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands“

Deila grein

15/05/2019

„Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands“

Alex B. Stefánsson, varaþingmaður, ræddi mikilvægi menntunar í störfum þingsins, á Alþingi, í gær. Breytingar í tækni hafa áhrif á líf okkar dagsdaglega, algríma og gervigreind ráða ríkjum. Áskorun samfélagsins er að skapa „menntatækni framtíðarinnar, börnunum okkar og öllum til góða“.

„Virðulegur forseti. Á hverjum morgni hlaupa börn spennt af stað í grunnskóla landsins til að mennta sig fyrir framtíðina. Við útskrift úr grunnskóla hafa þau eytt um 65% ævi sinnar í að undirbúa sig fyrir áskoranir framtíðarinnar. Það er alla vega það sem við ætlum menntakerfinu að gera, en er það raunin?
Síðastliðinn áratug hefur heimurinn umturnast vegna hinna ýmsu tækniframfara sem ekki sér fyrir endann á. Þær breytingar hafa áhrif á það hvernig við högum lífi okkar. Ein mest áberandi birtingarmynd þeirra framfara er snjallsímarnir sem flestir eru orðnir órjúfanlegur þáttur í daglegu lífi. Breytingar hafa ekki bara breytt lífi okkar því að varla er til sá iðnaður sem ekki hefur breyst af tækninnar völdum. Nú er talað um að við séum gengin af stað í fimmtu iðnbyltinguna þar sem algríma og gervigreind ráða ríkjum.
Með leyfi forseta:
„Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2019 og 2023 er lögð áhersla á að námsefni þurfi að standast samanburð við það sem best gerist á öðrum tungumálum og vera þannig úr garði gert að það veki áhuga á íslenskum veruleika og íslenskri tungu.“
Herra forseti. Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu og því mikilvægt að við breytum þessu landslagi, byggjum upp stefnu og framtíðarsýn fyrir menntakerfið, sem tryggir að kynslóðir sem koma á eftir okkur fái bestu mögulegu menntun sem völ er á, framtíðarsýn sem endurspeglar breytingar fjórðu og fimmtu iðnbyltingarinnar. Aðeins með þeim hætti getum við sagt að við séum að undirbúa börnin okkar fyrir framtíðina. Tökum höndum saman, stígum þetta framfaraskref og sköpum menntatækni framtíðarinnar, börnunum okkar og öllum til góða.“

Categories
Fréttir

Heilsa og velferð manna og dýra

Deila grein

13/05/2019

Heilsa og velferð manna og dýra

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar og Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknar, skrifuðu grein 8. maí á visir.is þar sem þau fylgdu eftir varnaðarorðum varðandi innflutning á kjöti til Íslands frá virtum vísindamönnum, innlendra og erlendra.
„Með því að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist væru íslensk stjórnvöld einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi illa. Varðar það bæði sýkingar í matvælum og einnig áður nefnt sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Viljum við slíka tilraunastarfsemi? Og vill verslunin stunda slíka tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann?,“ segja greinarhöfundar.
„Samkeppni er öllum holl en hún verður að vera skynsamleg fyrir lýðheilsu þjóðarinnar og verður að tryggja að íslenskir bændur keppi á jafnréttisgrundvelli við innfluttar vörur. Þær varnaðaraðgerðir sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur til í frumvarpi sínu sem liggur fyrir Alþingi eru í rétta átt en betur má ef duga skal. Stíga verður stærra skref sem felur í sér hreint og klárt bann við dreifingu matvæla sem sýkt eru af salmonellu og kampýlóbakter og innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur yfir ákveðnu marki“, segja Halla Signý og Þórarinn Ingi.

 

Categories
Fréttir

Með varmadælum þar sem við á er stuðlað að sjálfbærni!

Deila grein

08/05/2019

Með varmadælum þar sem við á er stuðlað að sjálfbærni!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í dag að „eitt af þeim málum sem afgreitt var á Alþingi í gær var framlenging á heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af varmadælum sem notaðar eru til húshitunar á heimilum. Þetta er mikilvægt mál og nú þarf að finna leið til styðja og hvetja til uppsetningar varmadæla í öðru húsnæði utan hitveitusvæða.
Varmadælur eru umhverfisvænar lausnir sem bæta orkunýtni og lækka rafhitunarkostnað. Hægt er að fá 2–5 kílóvattstundir af hitaorku úr hverri kílóvattstund af raforku sem knýr varmadælu á meðan bein rafhitun skilar aðeins einni kílóvattstund af rafhita fyrir hverja kílóvattstund af raforku sem fer inn í íbúðarhúsnæði. Með notkun varmadæla þar sem við á er stuðlað að sjálfbærni.“

 

Categories
Fréttir

Hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Deila grein

03/05/2019

Hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór sérstaklega yfir norrænt samstarf í umræðu um skýrslu um utanríkismál á Alþingi í vikunni, en Silja Dögg gegnir embætti formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir hönd Alþingis.
„Norrænt samstarf er og hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs sem stofnað var árið 1952. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Norðurlandanna.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sendiskrifstofur Íslands eru í góðum samskiptum við norræna kollega heima og að heiman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem og annarra alþjóðastofnana. Þess má geta að Norðurlöndin starfrækja sendiráð sín á sameiginlegu sendisvæði í Berlín. Það hefur gefist afar vel.
En hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland? Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland afar miklu máli. Ísland er auðvitað smáríki og því veitir norrænt samstarf okkur ákveðna fótfestu á alþjóðavettvangi. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi. Þannig tala Norðurlöndin oft einum rómi, t.d. þegar kemur að öryggismálum, umhverfis- og loftslagsmálum og jafnréttismálum. Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grundvallargildi eins og mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins og um friðsamlega lausn deilumála. Á þessum sviðum eru Norðurlandaþjóðir í fararbroddi á heimsvísu og leggja áherslu á að deila þekkingu sinni til að efla samfélög í öðrum heimshlutum.“
Og áfram hélt Silja Dögg, „pólitísk fótfesta, öflug utanríkisviðskipti og samstarf um menningu, menntun, vísindi og þróun eru kostir norræns samstarfs í hnotskurn og styrkurinn felst í því hversu ótrúlega margir taka þátt í samvinnunni á hverjum degi. Við erum án efa sterkari saman. Íslendingar hafa haft mörg stór hlutverk í norrænu samstarfi á þessu ári. Þar höfum við gegnt formennsku í norrænu ráðherranefndinni, formennsku í samstarfi norræna utanríkisráðherra, sem kallast N5, og samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, NB8, ásamt því að taka sæti í stjórn Alþjóðabankans í Washington DC í fyrir hönd NB8-hópsins.“

Categories
Fréttir

Gleðilega páskahátíð

Deila grein

17/04/2019

Gleðilega páskahátíð

Vegna páskaleyfis verður skrifstofa Framsóknar lokuð frá 18. apríl til og með 22. apríl. Opnum aftur þriðjudaginn 23. apríl.
Ef þið viljið koma að fyrirspurnum eða upplýsingum um flokksstarf má senda erindið á netfangið framsokn@framsokn.is.
Skrifstofa Framsóknar óskar landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Skrifstofa Framsóknar

Categories
Fréttir

Fyrst íslenskra kvenna fyrir 60 árum

Deila grein

11/04/2019

Fyrst íslenskra kvenna fyrir 60 árum

Í gær voru 60 ár, upp á dag, frá því að Rannveig Þorsteinsdóttir varð fyrst allra íslenskra kvenna til að öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti Íslands.
Rannveig Þorsteinsdóttir var alþingismaður Framsóknarflokksins 1949 til 1953. Í Húsfreyjunni frá 1959 segir svo frá: „FÖSTUDAGINN 10. apríl gerðist sá atburður, að íslenzk kona lauk málflutningi í síðasta prófmáli sínu fyrir hæstarétti. Þessi kona var Rannveig Þorsteinsdóttir, sem öllum lesendum „Húsfreyjunnar” er vel kunn. Að loknum málflutningi, mælti forseti hæstaréttar, Árni Tryggvason, nokkur orð, lýsti því fyrir hönd réttarins, að málflutningurinn hefði verið fullnægjandi próflausn, óskaði Rannveigu til hamingju og bauð hana velkomna í hóp hæstaréttarlögmanna, einkum með tilliti til þess, að hún er fyrsta íslenzka konan, sem prófi þessu lýkur og hlýtur þessi réttindi.“
Í minningarorðum á Alþingi í janúar 1987 mælti forseti sameinaðs þings svo: „Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður og fyrrv. alþingismaður, andaðist á Reykjalundi í fyrradag, sunnudaginn 18. janúar, 82 ára að aldri.
Rannveig Þorsteinsdóttir var fædd 6. júlí 1904 á Sléttu í Mjóafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Þorsteinn sjómaður þar Sigurðsson bónda, síðast að Hestgerði í Suðursveit, Gíslasonar og Ragnhildur Hansdóttir bónda á Keldunúpi á Síðu Jónssonar.
Hún hóf nám í kvölddeild Samvinnuskólans 1922, settist í eldri deild skólans haustið 1923 og lauk burtfararprófi vorið 1924. Næsta vetur var hún í framhaldsdeild skólans. Tveimur áratugum síðar hóf hún að nýju skólanám, lauk stúdentsprófi utanskóla í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands vorið 1949. Héraðsdómslögmaður varð hún 1952 og hæstaréttarlögmaður 1959. Afgreiðslumaður Tímans var hún 1925-1936 og jafnframt stundakennari við Samvinnuskólann 1926-1933. Hún var bréfritari við Tóbaksverslun Íslands 1934-1946. Frá 1949 rak hún málflutningsskrifstofu í Reykjavík til 1974.
Rannveig Þorsteinsdóttir var í stjórn Kvenfélagasambands Íslands 1947-1963, formaður þess frá 1959, og hún var formaður Félags íslenskra háskólakvenna og Kvenstúdentafélags Íslands 1949-1957. Árið 1949 var hún kjörin alþingismaður Framsfl. í Reykjavík og sat á þingi til 1953, á fjórum þingum þess kjörtímabils, en áður hafði hún verið þingskrifari frá 1942 til 1948. Dómari í verðlagsdómi Reykjavíkur var hún frá 1950 nokkur ár. Hún sat oft sem varafulltrúi á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins á árunum 1951-1964. Hún var í happdrættisráði Háskóla Íslands 1951-1977, í útvarpsráði 1953-1956 og síðar nokkra mánuði milli alþingiskosninganna árið 1959 og í yfirskattanefnd Reykjavíkur var hún 1957-1963.
Rannveig Þorsteinsdóttir hóf störf sín að félagsmálum í ungmennafélagshreyfingunni og hún var síðar mörg ár í stjórn Ungmennafélags Íslands. Hún var áhugasöm um réttindi kvenna og í samtökum þeirra var hún skipuð til forustu. Í málflutningsskrifstofu hennar áttu konur stuðning vísan ef á þurfti að halda. Hún var forkur dugleg til allra verka og það er ekki allra að hverfa úr föstu starfi um fertugt og ljúka menntaskóla- og háskólanámi á skömmum tíma.
Nú eru liðnir rúmir þrír áratugir síðan hún hvarf af Alþingi eftir fjögurra ára setu. Störf sín hér vann hún með röggsemi og dugnaði svo sem önnur ævistörf. Síðustu æviárin hlaut hún þó að draga sig í hlé sökum vanheilsu.“
Frétt í Tímanum frá 15. apríl 1959:

Categories
Fréttir

Suðurnesin munu fljótt ná fyrri styrk!

Deila grein

10/04/2019

Suðurnesin munu fljótt ná fyrri styrk!

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir í yfirlýsingu, í dag, að Suðurnesin standi „mjög vel saman, traust er á milli fólks og gleði þrátt fyrir mótbyr. Ég er viss um það að Suðurnesin ná fljótt fyrri styrk.“
Unnið hefur verið að því af hálfu Reykjanesbæjar að kortleggja áhrifin af gjaldþroti WOW í góðu samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum.
Síðan segir Jóhann Friðrik, „við höfum átt fundi með ýmsum hagsmunaaðilum, sér í lagi bæjarstjóri og starfsmenn auk framkvæmdastjóra SSS og hafa viðtökur verið góðar og ljóst að ekki stendur á viðbrögðum. Öll þessi vinna er þverpólitísk og er ánægjulegt að finna þann mikla samvinnuanda sem ríkir meðal aðila.“

Categories
Fréttir

Aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Deila grein

05/04/2019

Aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Húsnæðismál eru meðal megin áherslumála ríkisstjórnarinnar enda er öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiguverð íbúða farið mjög hækkandi og ungt fólk og tekjulágir eiga erfiðara með að eignast húsnæði en áður. Hlutfall þeirra sem leigja hefur því aukist á sama tíma og kannanir sýna að langflestir leigjendur myndu fremur kjósa að búa í eigin húsnæði. Verkefnisstjórn um aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn var skipuð af félags- og barnamálaráðherra þann 27. desember 2018 og tók þegar til starfa. Skipan starfshópsins er liður í því að fylgja eftir ákvæðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er varða húsnæðismál ungs fólks og tekjulágra.
Starfshópinn skipa Frosti Sigurjónsson, formaður, Hermann Jónasson, Íbúðalánasjóði, Bergþóra Benediktsdóttir, tiln. af forsætisráðuneytinu og Anna B. Olsen og til vara Sigurður Páll Ólafsson bæði tiln. af fjármálaráðuneytinu. Starfsmaður hópsins er Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Starfshópurinn hefur unnið fyrstu drög að tillögum en með fyrirvörum um nánari útfærslu, greiningu á kostnaði og áhrifum. Tillögurnar miða meðal annars að því að hraða öflun höfuðstóls og létta afborgunarbyrði lána hjá ungu fólki og tekjulágum hópum. Í tillögum starfshópsins er meðal annars að finna ný úrræði og breytingar á gildandi úrræðum svo þau beinist með markvissari hætti að þeim hópum sem eiga í erfiðleikum með að eignast íbúð.

Categories
Fréttir

Jón Helgason látinn

Deila grein

04/04/2019

Jón Helgason látinn

Jón Helgason, fyrrverandi ráðherrra og alþingsmaður, er látinn. Jón lést í fyrradag, 2. apríl. Hann var alþingismaður Suðurlands 1974–1995 og varaþingmaður Suðurlands mars-apríl 1972. Jón var landbúnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðherra 1983-1987 og landbúnaðarráðherra 1987-1988.
Jón var fæddur í Seglbúðum í Landbroti 4. október 1931, sonur Helga Jónssonar (fæddur 29. apríl 1894, dáinn 22. maí 1949) bónda og Gyðríðar Pálsdóttur (fædd 12. mars 1897, dáin 15. maí 1994) húsmóður. Jón giftist Guðrúnu Þorkelsdóttur (fædd 21. apríl 1929) húsmóður, dóttir Þorkels Sigurðssonar og Bjarneyjar Bjarnadóttur. Börn Jóns og Guðrúnar eru: Björn Sævar Einarsson (fóstursonur, 1962), Helga (1968) og Bjarni Þorkell (1973).
Jón Helgason, tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Stóð fyrir búi móður sinnar í Seglbúðum nokkur ár að námi loknu. Bóndi þar síðan 1959. Sá um sauðfjárræktarbú í Seglbúðum 1950–1980. Stundakennari við unglingaskólann á Kirkjubæjarklaustri 1966-1970. Endurskoðandi Kaupfélags Skaftfellinga 1951-1972 og stjórnarformaður þess 1972-1983.
Í félagsstörfum var Jón formaður Félags ungra framsóknarmanna og síðan Framsóknarfélags Vestur-Skaftafellssýslu 1955-1974. Í hreppsnefnd Kirkjubæjarhrepps 1966-1986, oddviti 1967-1976. Sýslunefndarmaður 1974-1978. Í fyrstu stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Fulltrúi á Búnaðarþingi 1973-1975 og á fundum Stéttarsambands bænda 1961-1975, í stjórn þess og Framleiðsluráðs 1972-1979. Í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins 1978-1983. Í stjórn Endurbótasjóðs menningarstofnana 1990-2002. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1975 og 1988. Fulltrúi Íslands á fundum þingmannanefndar EFTA 1977, 1980-1981 og 1991. Í Norðurlandaráði 1978. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1991-1994. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins frá 1990. Formaður Búnaðarfélags Íslands 1991-1995. Í lýðveldishátíðarnefnd 1994. Í Þingvallanefnd 1994-1995.
Við Framsóknarmenn minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar.
Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.