Framsókn sendir landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár!
Gleðileg jól!

24/12/2018
Gleðileg jól!24/12/2018
Gleðileg jól!14/12/2018
Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun AkureyrarbæjarGuðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Ísaksen, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri, skrifa grein í Vikudag ásamt öðrum bæjarfulltrúm meirihlutans, um forgangsverkefni á árinu 2019 og á kjörtímabilinu verði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum.
„Undirbúningur er þegar hafin að byggingu nýs leikskóla við Glerárskóla sem taka á í notkun árið 2021 og þar að auki á að hefja undirbúning á frekari fjölgun leikskólarýma í upphafi næsta árs. Næsta haust verður börnum mánuði yngri en áður boðið rými á leikskóla samhliða því sem að á árinu 2019 verða hafnar jöfnunargreiðslur til foreldra baran 17 mánaða og eldir hjá dagforeldrum til jafns við kostnað á leikskólum,“ segja Guðmundur Baldvin og Ingibjörg, ásamt öðrum bæjarfulltrúm meirihlutans.
Ennfremur segja bæjarfulltrúar meirihlutans, „veittir verða stofnstyrkir til dagforeldra, þeir studdir til endur- og símenntunar og dagforeldrum gefinn kostur á að nýta önnur rými en eigin heimahús til starfseminnar. Með þessu vonumst við til að fjölga dagforeldrum hratt og örugglega á meðan unnið er að fjölgun leikskólarýma.“
Greinina má lesa hér.
14/12/2018
Landgræðsla – nýmæli um landgræðsluáætlunLíneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í ræðu á Alþingi í dag, frumvarp um landgræðslu. Markmið með nýjum lögum er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.
„Með þessu frumvarpi um landgræðslu verða mjög mikilvæg tímamót þar sem þau koma í stað 50 ára gamalla laga um landgræðslu og jafnframt í stað laga gegn landbroti,“ sagði Líneik Anna.
„Landgræðsla er mjög mikilvæg fyrir okkur til að varðveita þá auðlind sem jarðvegur og gróður er í landinu. En landgræðslan er líka mikilvæg á heimsvísu. Því að við hér höfum í gegnum árin flutt út þekkingu sem nýtist annarsstaðar í heiminum þar sem landeyðing er mjög víða mikið vandamál, sérstaklega í Afríku, svo að sú heimsálfa sé nefnd, en einnig í Mið-Asíu og víðar. En hingað hafa þessar þjóðir sótt sér þekkingu í gengum Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er sú stofnun sem vinnur gegn landeyðingu í heiminum og horfir til þess hvernig við Íslendingar höfum nálgast þau mál,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 14. desember 2018.
Landgræðsluáætlun er nýmæli fest í sessi í frumvarpinu og er ætlað að kveða á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum um:
Einnig á að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
„Áætlunin getur verið leiðbeinandi fyrir aðalskipulagsvinnu sveitarfélaga. Í raun er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti tekið upp áform um landgræðsluáætlun við endurskoðun aðalskipulagsáætlana sinna.
Gert er ráð fyrir að áætlunin þurfi að fara í gegnum umhverfismat áætlana þar sem hún getur falið í sér mörkun stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum og einnig þarf hún að taka mið af landsskipulagsstefnu,“ segir í greinargerð.
14/12/2018
„Aflið er svo sannarlega afl til góðs í samfélaginu“Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur gert samning við samtökin Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Aflið á Akureyri fær 18 milljóna króna framlag til að standa straum af starfsemi sinni. Ásmundur Einar og Hjalti Ómar Ágústsson fyrir hönd Aflsins undirrituðu samninginn á Akureyri í gær.
„Aflið er svo sannarlega afl til góðs í samfélaginu. Sjálfboðaliðar og fagfólk sinna störfum sínum af miklum metnaði og það er augljóst, því miður, að þörfin fyrir þessa starfsemi er mikil. Það er því ástæða til að þakka fjárlaganefnd Alþingis fyrir að hafa greitt götu Aflsins með ákvörðun um 18 milljóna króna framlag á næsta ári til starfseminnar. Samningurinn byggist á því,“ segir Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar segir starfsemi Aflsins skipta miklu máli eins og komi glöggt fram í nýjustu ársskýrslu samtakanna þar sem meðal annars er birt tölfræði sem varpar ljósi á umfangið. Árið 2017 fjölgaði til að mynda einstaklingsviðtölum um 15,3% frá fyrra ári og voru þá rúmlega 1400 talsins, nýjum skjólstæðingum fjölgaði um 43% milli ára og svo mætti áfram telja.
Þjónusta Aflsins felst í faglegri ráðgjöf og stuðningi við þolendur, forvarnarfræðslu og handleiðslu. Aflið var stofnað árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta og Jafnréttisstofu. Undanfarin ár hefur Aflið verið með þjónustusamning við Akureyrarbæ og átt í samvinnu við bæjaryfirvöld sem á móti veitt hafa félaginu afnot af húsnæði fyrir starfsemi sína í Aðalstræti 14. Samstarfið felst meðal annars í viðveru og sýnileika sjálfboðaliða á vegum Aflsins á fjölmennum viðburðum og einnig á tjaldstæðum og víðar þegar margmennt er í bænum um helgar. Auk þess veita ráðgjafar Aflsins fræðslu í grunnskólum bæjarins samkvæmt samkomulagi.
Á myndinni eru frá hægri: Hjalti Ómar Ágústsson, Ásmundur Einar Daðason og Elínbjörg Ragnarsdóttir
Heimild: stjornarradid.is
13/12/2018
Símenntun og fullorðinsfræðsla – heildarlög um nám fullorðinnaLilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, svaraði fyrirspurn um símenntun og fullorðinsfræðslu á Alþingi í vikunni. Fyrirspyrjandi var Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður.
„Þörfin á símenntun og endurmenntun er sífellt að aukast vegna þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað í okkar samfélagi með sjálfvirknivæðingu og öðru slíku. Og svo er það líka þannig að málefni líðandi stundar eru að breytast talsvert mikið, m.a. vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað varðandi loftslagsmálin. Samfélög eru að verða sífellt meðvitaðri um það sem er að gerast og þau sem taka á þessum málum á skilvirkan og uppbyggilegan hátt mun vegna betur er varðar samkeppnishæfni þjóða,“ sagði Lilja Dögg.
Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 10. desember 2018.
„Hv. þingmaður spurði hvaða áform væru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarstöðva, ekki síst á landsbyggðinni. Þá vil ég nefna að á vegum ráðuneytisins er nú verið að undirbúa frumvarp til laga um nám fullorðinna og undir þá vinnu fellur endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu. Þau lög taka sérstaklega til fullorðinna sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi og afmarkast við starfsemi sem ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.
Hugtakið fullorðinsfræðsla nær yfir mun stærri hóp. Þessi víðari nálgun er en megin ástæða þess að ákveðið var að hefja vinnu við ný heildarlög um nám fullorðinna og um leið einfalda regluverkið og breyta hugtakarammanum þannig að lögin ávarpi stærra mengi en ella. Þannig getum við enn betur styrkt stoðirnar undir það að allir búi yfir nægilegri grunnfærni til að lifa og starfa og mæta áskorunum dagsins í dag. Ég legg mikla áherslu á það að heyra rödd hagsmunaaðila í þessum málaflokki. Þess vegna skipaði ég 20 manna samráðshóp um nám fullorðinna í byrjun þessa árs og gildir skipunin til fjögurra ára,“ sagði Lilja Dögg.
„Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessi mál á dagskrá þingsins. Þau skipta máli er varðar framvindu málaflokksins og við viljum efla grunnfærni sem flestra á íslenskum vinnumarkaði svo að hægt sé að efla hann,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
13/12/2018
„Þetta er ekki ásættanlegt“Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, skrifaði nýlega grein um mikilvægi þess að auðvelda ungu fólki kaup á fyrstu fasteign. Samkvæmt nýjustu könnun Íbúðalánasjóðs telja 57% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 94% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Einungis 8% leigjenda eru á leigumarkaði vegna þess að þeir vilja vera þar en 64% leigjenda segjast vera á leigumarkaðnum af nauðsyn.
„Þetta er ekki ásættanlegt,“ sagði Ásmundur Einar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þess.“
„Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%,“ sagði Ásmundur Einar.
„Nýlega lagði ég fram tillögu í ríkisstjórn um að farið væri í að útfæra fyrrgreindar lausnir hér á landi. Ég bind miklar vonir við að úrbætur til handa fyrstu kaupendum verði til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Ásmundur Einar Daðason.
Greinina má lesa hér.
13/12/2018
Barnalífeyrir – mikilvægt áherslumálSilja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, var fyrsti flutningsmaður, frumvarps til laga um breytingu á lögum um barnalífeyrir í þessu hausti. En þetta var einnig fyrsta þingmál Framsóknar á núverandi þingi og því mikilvægt áherslumál. Frumvarpið gekk út á að við bættist ný grein, svohljóðandi:
„Barnalífeyrir vegna sérstakra útgjalda. Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.“
„Um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0–18 ára hafa misst foreldri. Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi. Einnig geta einstæðir foreldrar sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barnið, það getur t.d. átt við um tæknifrjóvgun. Frá 1. janúar 2018 er barnalífeyrir 33.168 kr. á mánuði með hverju barni eða 398.016 kr. á ári,“ sagði Silja Dögg.
„Samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum á vef sýslumanna á þessu ári þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir:
72.000–95.000 kr. vegna fermingar,
19.000–24.000 kr. vegna skírnar,
72.000–106.000 kr. vegna greftrunar.
Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga sem hér eru talin.
Sambærilega heimild er ekki að finna til handa barnalífeyrisþegum þar sem staðan er þó sú sama á þann veg að einn framfærandi ber hitann og þungann af öllum kostnaði sem upp kemur. Flutningsmenn telja að með því sé börnum einstæðra foreldra mismunað, þ.e. eftir því hvort báðir foreldrar eða annar er á lífi. Í 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að nauðsynlegt sé að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað, t.d. vegna stöðu foreldra þess. Slík mismunun fer einnig gegn hugmyndum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands,“ sagði Silja Dögg.
Í greinargerðinni kemur fram að „flutningsmenn telja að hér sé verið að mismuna börnum sem hafa misst annað foreldri sitt og rétt að sambærileg heimild verði fest í lög um almannatryggingar á þann veg að framfæranda barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Í frumvarpinu er miðað við að sömu sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mat á viðbótarframlagi og stuðst er við í 60. gr. barnalaga. Beiðni um slíkt framlag skal beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna.“
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, sagði við afgreiðslu málsins við þriðju umferð: „Hæstv. forseti. Fyrir hönd jafnréttis- og samvinnufólksins í þingflokki [Framsóknarmanna] vil ég þakka góðar undirtektir og fagna þessum áfanga.“
Lagafrumvarpið varð að lögum með samþykkt 55 þingmanna, en 8 voru fjarstaddir.
13/12/2018
Fjölskylduvænar áherslur einkenna fjárhagsáætlunÁgúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar segir í yfirlýsingu um samþykkt bæjarstjórnar á fjárhagsáætluninni 2019 að hann sé stoltur enda sé verið að lækka álagningarstuðul fasteignaskatts, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði og að auki væru fjölskylduvænar áherslur.
„Fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar nú undir kvöld. Ég er mjög stoltur af þeirri áætlun og öllum þeim sem að henni komu. Í henni er margt gott að finna, m.a. lækkun álagningarstuðuls fasteignaskatts, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði – og fjölskylduvænar áherslur.
Ég vil segja að með þessari fjárhagsáætlun séum við að stíga mjög stór og afgerandi skref í átt að betra samfélagi fyrir alla með fjölskylduvænum áherslum.
Þetta og margt fleira á vef Hafnarfjarðar. Áfram veginn,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson.
13/12/2018
Heimavist á höfuðborgarsvæðinuLilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmaður, flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi í gær. Fór hún yfir vanda framhaldsskólanema af landsbyggðinni sem flytja á höfuðborgarsvæðið til að stunda nám og lenda í húsnæðisvanda.
„Hæstv. forseti. Hér er ég komin í dag til að vekja athygli á vandamáli sem hefur verið til staðar í mörg ár. Það er vandamál framhaldsskólanema af landsbyggðinni sem flytja á höfuðborgarsvæðið til að stunda nám. Staðreyndin er sú að 17 af framhaldsskólum landsins eru á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög margt ungt fólk sem kemur af landsbyggðinni til að stunda nám en lendir á vegg. Það er nefnilega ekki neitt húsnæði í boði fyrir það.
Þeir nemendagarðar sem eru á höfuðborgarsvæðinu eru ætlaðir fyrir háskólanema. Því reyna mjög margir nemendur að flytja inn á vinafólk eða ættingja og sumir reyna fyrir sér á leigumarkaðinum, en sá frumskógur hentar ekki 15-18 ára ungmennum. Því eru sumir sem bregða á það ráð að hætta í námi eða skipta um námsbraut og það bitnar gjarnan á iðnnámi. Þetta á ekki að vera svona. Ungmenni eiga rétt á að stunda það nám sem þau vilja. Húsnæðismál eiga ekki að vera vandamál fyrir þennan aldurshóp og ég er nokkuð viss um að foreldrar vilji ekki senda börnin sín í slíkar óvissuaðstæður.
Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að komið verði á fót heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni. Það myndi opna möguleika margra nemenda og einnig vera leið til að auka jafnrétti nemenda á Íslandi, því að allir eiga rétt á sama námi óháð því hvaðan þeir koma.
Sú sem hér stendur leggur því í dag fram tillögu til þingsályktunar um heimavist á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)“
Jómfrúrræða Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur, varaþingmanns, á Alþingi, 12. desember 2018.
12/12/2018
MannréttindayfirlýsinginHalla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir, í störfum þingsins á Alþingi í gær, þau tímamót að að liðin séu 70 ár frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var undirrituð. „Heimsstyrjöldin síðari var nýlokið og heimurinn vildi gera betur. Helsti hvatamaður hennar var Eleanor Roosevelt stjórnmálakona og forsetafrú Bandaríkjanna. Hún var hvatamaður að stofnun Sameinuðu þjóðanna og hún var einnig fulltrúi sendinefndar Bandaríkjanna þar inni. Innan Sameinuðu þjóðanna barðist hún fyrir mannréttindum og réttindum flóttafólks sem hraktist frá heimkynnum sínum í styrjöldinni. Já, það er annar hljómur sem berst nú frá Hvíta húsinu,“ sagði Halla Signý.
Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, frá störfum þingsins 11. desember 2018.
„Mannréttindayfirlýsingin lýsir markmiðum og er ekki lagalega bindandi. Hún kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana o.s.frv. Sameinuðu þjóðirnar eru nú að vinna að tveimur mannréttindasamþykktum sem snúa að annars vegar að málefnum flóttafólks og hins vegar að málefnum farenda. Við erum svo heppin hér á Íslandi að stjórnvöld geta tekið þátt í og samþykkt slíkar yfirlýsingar þar sem þær fara saman við yfirlýsta stefnu núverandi stjórnvalda og stór hluti þjóðarinnar getur í hjarta sínu kvittað upp á þau mannréttindi.
Því er það beinlínis sorglegt að hlýða á þann málflutning sem er hér í boði Miðflokksins. Hann elur á tortryggni, andúð og beinlínis hroka. Nú skal blása lífi í skoðanakannanir og tala til atkvæða sem eru á flökti, það er líklega sama hvaðan gott kemur. Ég vil ganga svo langt að kalla þetta sparðatínslu.
Með aðkomu að samþykktum SÞ um málefni flóttafólks tökum við þátt í alþjóðlegum mannréttindaviðurkenningum og getum fylgt okkar sjálfdæmi um eigin innflytjendalöggjöf og stefnu í málefnum innflytjenda. Um þá gagnrýni sem snýr að því að umræða um þessi mál séu kæfð eða þokukennd og stjórnvöld vilji ekki ræða þessi mál, vil ég segja að við getum litið svo á að þetta sé einmitt sá grunnur sem umræðan á að byggja á,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir.