Categories
Fréttir

Íbúar um land allt kalla eftir úrbótum í samgöngumálum

Deila grein

26/08/2016

Íbúar um land allt kalla eftir úrbótum í samgöngumálum

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Í gær birti Fréttablaðið viðtal við ungan ferðaþjónustubónda, Svavar Eysteinsson, sem flutti fyrir tveimur árum með fjölskyldu sína til Berufjarðar og hóf þar matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Ungi bóndinn lýsir reynslu sinni í viðtalinu og fer yfir hversu hamlandi umrædd vöntun á þriggja fasa rafmagni er fyrir atvinnuuppbyggingu sem og vöntun á góðu netsambandi.

Þessi staðreynd kemur mörgum á óvart. Menn sitja alls ekki við sama borð hvað varðar aðgang að því sem mörg okkar telja sjálfsagða innviði. Samgöngumál á landsbyggðinni eru víða í ólestri, of litlu fé hefur verið varið til viðhalds vega síðustu ár og nýframkvæmdir mæta afgangi. Vík er þorp með 500 íbúa en þar fer mikill straumur ferðamanna um. Þjóðvegurinn liggur í gegnum þorpið og aðeins 3–5 metrar eru á köflum frá vegi að næsta íbúðarhúsi. Umferðin í gegnum þorpið skapar gríðarlega slysahættu þar sem börn þurfa að fara yfir þjóðveginn daglega til að komast í skóla.

Hæstv. forseti. Til að gefa fólki hugmynd um umferðarþungann í gegnum þorpið fóru t.d. 3.200 bílar um Reynisfjall þann 22. ágúst sl. og á sama tíma um 1.700 bílar yfir Holtavörðuheiði. Á þessu ári varð banaslys á Gatnabrún á Reynisfjalli en Gatnabrún er mikil slysagildra. Íbúar í Mýrdalnum eru samstiga og kalla eftir úrbótum í samgöngumálum, krafa þeirra er göng í gegnum Reynisfjall. Sú framkvæmd mundi bæta umferðaröryggi verulega.

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða einbreiðar brýr að þessu sinni en útrýming þeirra er einnig mikilvægt umferðaröryggismál. Íbúar um land allt kalla eftir úrbótum í samgöngumálum. Við vitum ekki enn hver næstu skref verða í þeim efnum af hálfu stjórnvalda. Því er nauðsynlegt að við fáum á yfirstandandi þingi að sjá samgönguáætlun til næstu fjögurra ára sem og næstu 12 ára.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 23. ágúst 2016. 

Categories
Fréttir

Utanríkisráðherra á fundi NB8 ríkjanna

Deila grein

26/08/2016

Utanríkisráðherra á fundi NB8 ríkjanna

u69fedhr25 ára samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, staða öryggis- og varnarmála, málefni flóttamanna og mannréttindi í Tyrklandi voru meðal þess sem rætt var á fundi utanríksráðherra landanna sem lauk í Riga í Lettlandi fyrir stundu. Fundurinn var haldinn undir hatti NB8 – Nordic Baltic Eight – sem er samstarfsvettvangur átta ríkja við Eystrasalt og á Norðurlöndum.
,,Samstarf þessara þjóða er afar mikilvægt. Við deilum gildum og höfum að jafnaði viðlíka afstöðu til helstu mála á alþjóðavettvangi. Okkar rödd heyrist hátt þegar við tölum einum rómi,” segir Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra.
Á fundinum minntist Lilja stuðningsyfirlýsinga Íslands við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, en í dag eru 25 ár síðan stjórnmálasambandi var komið á milli þjóðanna. Utanríkisráðherrar Íslands, Eistlands, Lettlands og Litháen undirrituðu yfirlýsingu þess efnis í Höfða í Reykjavík 26. ágúst 1991 og síðan hefur samband þjóðanna verið sterkt. Lilja færði utanríkisráðherrum landanna ljósmynd frá undirrituninni í Höfða að gjöf.
Á fundinum í Riga var ennfremur fjallað um niðurstöður leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var í síðasta mánuði. Þá voru helstu mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til umræðu, þar sem ráðgert er að halda sérstakan fund um málefni flóttamanna samhliða allsherjarþingi SÞ í næsta mánuði. Svíþjóð tekur sæti í öryggisráði SÞ í haust og mun þar m.a. halda á lofti sjónarmiðum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Staða mála í Úkraínu og Sýrlandi voru sömuleiðis til umfjöllunar.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Áhugi á beinu áætlunarflugi milli Íslands og Japan

Deila grein

24/08/2016

Áhugi á beinu áætlunarflugi milli Íslands og Japan

LDA2Vinna við gerð tvísköttunarsamnings, samstarf á sviði auðlinda- og orkumála og áhuginn á gerð loftferðasamnings var meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, ræddi í dag við hóp japanskra þingmanna sem staddir eru hér á landi. Tilefni heimsóknarinnar er 60 ára afmæli stjórnmálasambands milli Japans og Íslands.
Á fundinum var einnig rætt um samskipti landanna og samstarf á sviði alþjóðamála, viðskipta og menningar. Þar hafa löndin átt áralangt og gott samstarf og er Japan eitt af helstu viðskiptalöndum Íslands. Gagnkvæmur áhugi þjóðanna á að styrkja þessi samskipti enn frekar var ítrekaður í sérstakri yfilýsingu sem utanríkisráðherrar landanna undirrituðu árið 2014 og er nú unnið að því. Mikill áhugi er til dæmis fyrir því að koma á beinu áætlunarflugi milli landanna, en bæði íslensku millilandaflugfélögin búa yfir flugvélum sem gætu flogið til Japans án millilendingar.
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, fagnaði því á fundinum að viðræður um gerð tvísköttunarsamnings milli Íslands og Japan séu hafnar, en íslensk skattayfirvöld telja brýnt að slíkur samningur komist á sem fyrst. Þá voru eldri hugmyndir um gerð fríverslunarsamnings milli Japans og Íslands ítrekaðar og ræddar.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Deila grein

24/08/2016

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að gera framtíð Reykjavíkurflugvallar að umtalsefni í dag. Það virðist sem betur fer að samstaða sé meðal þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi um að leggja fram þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um flugvöllinn í Vatnsmýri. Ég leyfði mér að vekja athygli á því í byrjun vikunnar að þessi samstaða væri að myndast. Ég fékk þá einkunn frá borgarstjóranum í Reykjavík að þetta væri nú týpískt fyrir stjórnmálamenn sem vilji láta bera á sér. Ég ætla ekki að fara í ágreining við ólympíumeistarann í þeirri grein, en ég ætla samt að láta þess getið að sá sem hér stendur hefur ekki rekið sína pólitík fyrir framan myndavélalinsur að miklu leyti.

Það sem mig langar að fara yfir er að gefið var út afsal í gær sem byggist á samkomulagi sem tveir samfylkingarmenn gerðu 1. mars 2013. Í nýlegum dómi Hæstaréttar kemur fram, með leyfi forseta, í 4. kafla dómsins:

„Ekki var því um kaupsamning um fasteign að ræða samkvæmt 7. gr. laga nr. 40/2002.“

Efnislega þýðir þetta að vinna þarf annan kaupsamning að flugvellinum og hugsanlega verður þá þessi spilda seld fyrir meira en þessar þrjár glerperlur og snafs eins og er í þessum samningi, þetta minnir á Manhattan forðum, því 430 milljónir fyrir þessa spildu er náttúrlega grín, svo því sé haldið til haga.

En ég gleðst yfir því að það sé að myndast samstaða á Alþingi um framtíð flugvallarins. Ég vona að þeir sem stjórna Reykjavíkurborg komi til með að hlusta á þá þjóðaratkvæðagreiðslu meira en þeir hafa gert með 70.000 manna undirskriftir, næststærstu undirskriftasöfnun á Íslandi sem var hér fyrir nokkrum árum og hefur gjörsamlega verið hunsuð af því fólki sem ætlar að reka nýja pólitík og láta þjóðina ráða.“

Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt glæsilega kjörtímabil

Deila grein

24/08/2016

Mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt glæsilega kjörtímabil

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að lýsa ánægju minni með framgang þingstarfanna. Málefnin hafa verið í forgrunni umræðunnar og skipulag hefur haldið. Þetta vil ég segja vegna þess að afar mikilvægt er að hæstv. ríkisstjórn klári sitt glæsilega kjörtímabil þrátt fyrir að hafa verið stytt í annan endann, að hæstv. ríkisstjórn klári það í samræmi við þann sáttmála sem liggur til grundvallar. Þegar ég tala um málefni, skipulag og glæsilegan árangur þá eru þau dæmi hér daglega á dagskrá. Frumvarp hæstv. menntamálaráðherra er tímamót fyrir námsmenn þar sem nú loksins verða styrkveitingar viðurkenndar og jafnræði virt. Í gær fóru svo til hv. efnahags- og viðskiptanefndar tvö lagafrumvörp sem snúa að stuðningi til kaupa á fyrstu íbúð og breytinga á lánafyrirkomulagi til að fólk geti myndað séreign hraðar og fyrr og lækkað skuldsetningu í húsnæðinu. Þá var samþykkt í gær ríkisfjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma, tímamót að því leyti að þrátt fyrir að hilli undir kosningar er hún hófstillt, ábyrg og til þess fallin að verja þann árangur sem náðst hefur á þessu kjörtímabili sem er líklegast til að verja stöðugleikann sem varað hefur í 30 mánuði samfleytt, halda verðbólgu í skefjum, skapa áframhaldandi jafnan hagvöxt, verja þá miklu kaupmáttaraukningu tekna sem náðst hefur og stuðla að áframhaldandi stöðugri kaupmáttaraukningu sem yrði meira í takt við raunverðmætasköpun og framleiðniaukningu.

Síðar í dag kemur svo fyrir þingið enn einn áfanginn í áætlun stjórnvalda til að auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja með losun fjármagnshafta. Ég gæti nefnt margt fleira til en mikilvægast af öllu er þó hér í lokin að nefna að svigrúmi þessa árangurs verði forgangsraðað í velferðar-, heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið.“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Framsókn í Reykjavík – kynning á frambjóðendum

Deila grein

23/08/2016

Framsókn í Reykjavík – kynning á frambjóðendum

Tvöfalt kjördæmisþing Reykjavík 2016 - forsíðaTvöfalt kjördæmaþing í Reykjavík fer fram laugardaginn 27. ágúst fyrir Reykjavík norður og í Reykjavík suður, en kosið verður um 5 efstu sætin í hvoru kjördæmi. Framboðsfrestur var föstudagurinn 12. ágúst s.l..
Tólf bjóða sig fram á lista Framsóknar í Reykjavík. Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sækist ein eftir efsta sætinu í Reykjavíkurkjördæmi suður en í Reykjavíkurkjördæmi norður sækjast þeir Karl Garðarsson alþingismaður, Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður og Haukur Logi Karlsson lögfræðingur en allir sækjast eftir efsta sætinu. Þá sækist Lárus Sigurður Lárusson héraðsdómslögmaður eftir 2. sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður. Aðrir sem sækjast eftir 2.-5. sæti eru: Alex Björn B. Stefánsson háskólanemi, Ásgerður Jóna Flosadóttir MBA og BA í stjórnmála- og fjölmiðlafræði, Björn Ívar Björnsson háskólanemi, Gissur Guðmundsson matreiðslumaður, Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur, Ingvar Mar Jónsson flugstjóri og varaborgarfulltrúi og Sævar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður.
Kynningarblað á frambjóðendum á tvöföldu kjördæmaþingi.
 

Categories
Fréttir

Vesturlandsvegur hefur setið eftir í umbótum í vegaframkvæmdum

Deila grein

23/08/2016

Vesturlandsvegur hefur setið eftir í umbótum í vegaframkvæmdum

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Mig langar að ræða Vesturlandsveg. Það undra sig kannski einhverjir á því að þingmaður Norðvesturkjördæmis ræði vegamál utan kjördæmis síns, en það er nú svo að Vesturlandsvegur skiptir miklu máli m.a. fyrir íbúa Akraness, en Akranes er stærsta sveitarfélagið í Norðvesturkjördæmi með 7.000 íbúa. Góðar samgöngur um Vesturlandsveg skipta jafnframt miklu máli fyrir önnur sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi. Greining hefur sýnt fram á það að á hverjum degi fara um 2.000 bílar allt í allt fram og til baka úr sveitarfélögunum næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin og í þeim er fólk sem sækir bæði vinnu og skóla til höfuðborgarinnar á hverjum degi. Greining hefur jafnframt sýnt fram á það að Vesturlandsvegur hefur setið eftir þegar kemur að umbótum í vegaframkvæmdum.

Það er nú svo að á köflum getur verið mjög erfitt fyrir bíla í forgangsakstri m.a. að komast leiðar sinnar eins og ég sá í gær þegar sjúkrabíll í forgangsakstri var á leið frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og átti erfitt með að komast leiðar sinnar vegna þéttrar umferðar á þröngum vegi. Slíkir sjúkraflutningar eru farnir nánast undantekningarlaust dag hvern. Það er brýnt að fara í endurbætur á Vesturlandsvegi og bæjarstjórn Akraness hefur ályktað um málið og bent á brýna nauðsyn þess.

Í því samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu mína um Vesturlandsveg sem lögð var fram í þinginu þann 2. nóvember 2015. Hún fjallar um að hæstv. innanríkisráðherra hefji viðræður við borgarfulltrúa í Reykjavík, bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ og fulltrúa í sveitarfélögum á Vesturlandi, hafi samband við Vegagerðina og aðra hlutaðeigandi aðila um nauðsynlegar vegaumbætur á Vesturlandsvegi.

Mig langar að skora á hv. þingmenn og frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi að koma í lið með okkur flutningsmönnum tillögunnar um að þrýsta á þetta brýna samgöngumál til umbóta fyrir íbúa Vesturlands og fyrir íbúa á landinu öllu.“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

Deila grein

23/08/2016

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður hefur verið stoð íslensks samfélags gegnum tíðina og verið grunnur byggða um allt land. Hann hefur farið í gegnum miklar breytingar og þróun síðastliðna áratugi, en nú stöndum við frammi fyrir að ná sáttum um nýjan samning um greinina sem tekur utan um nauðsynlegar breytingar með nýjum áherslum. Við erum að fara inn í nýja tíma sem krefjast róttækra breytinga á landbúnaði á Íslandi.

Landbúnaður líkt og aðrar atvinnugreinar þarf að búa við ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika til framtíðar. Það er því mikilvægt að rammi samningsins sem hér um ræðir er til tíu ára. Aftur á móti er mikilvægt að vinna markvisst og þétt að endurskoðun og mati á áhrifum samningsins og virkni hans. Þess vegna vona ég að við berum gæfu til að hnykkja á þeim atriðum samningsins sem lúta að endurskoðun, kalla fleiri aðila að því borði og hafa samráð og samvinnu sem eykur sátt um íslenskan landbúnað. Þar þurfa hagsmunir íslenskra bænda og neytenda að fara saman í sátt við umhverfið og náttúruna.

Hæstv. forseti. Íslenskir bændur eru metnaðarfullir framleiðendur gæðavöru sem neytendur geta treyst að framleidd er á þann hátt að miklar kröfur eru gerðar til aðbúnaðar og meðferðar skepna og lyfjagjöf er með því lægsta sem gerist í heiminum. Mikilvægt er að reglugerð um upprunamerkingar á matvælum verði framfylgt þannig að tryggt sé að neytendur fái réttar upplýsingar um uppruna þeirrar vöru sem er til sölu í matvöruverslunum.

Hæstv. forseti. Bændur hafa verið virkir þátttakendur í uppgræðslu landsins og mikilvægt að áfram verði lögð áhersla á samspil landbúnaðar og umhverfisverndar með áherslu á sjálfbæra nýtingu. Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður sem nýtist til styrkingar byggða um allt land. Tækifærin eru mýmörg og mikilvægt að leggja áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar þegar kemur að hreinleika og lítilli lyfjanotkun svo dæmi sé tekið. Matvælalandið Ísland getur líka verið ferðamannaland sem við viljum búa í.“

Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Nýir kaflar í ólánssögu Borgunar

Deila grein

23/08/2016

Nýir kaflar í ólánssögu Borgunar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Nær daglega eru skrifaðir nýir kaflar í þá ólánssögu sem kennd er við fyrirtækið Borgun og sölu á hlut ríkisins í því í nóvember 2014. Nýlega var frá því skýrt í fjölmiðlum, sem hafði svo sem reyndar legið fyrir síðan sumarið 2013 og fram á haustið 2013, að vegna samruna Visa í Ameríku og Visa í Evrópu mundi fyrirtækið Borgun fá í sinn hlut 6,5 milljarða kr. Það þýðir að þeir sem voru hinir heppnu kaupendur að hlut ríkisins í því fyrirtæki í nóvember 2014 fengu núna á einu bretti kaupverðið endurgreitt, þ.e. um 2,1 milljarð kr. Það er í sjálfu sér alveg ótrúlegt, eins og hér hefur margoft komið fram í máli þess sem hér stendur, að Landsbanki Íslands skyldi haga sölunni á þessum hlut ríkisins með þeim hætti sem gert var. Nú hefur Landsbankinn gripið til þess ráðs að höfða mál á hendur fulltrúum Borgunar sem keyptu af Landsbankanum og er sá málatilbúnaður farinn að líkjast allmikið sögunni af Heródesi og Pílatusi, svo það sé sagt. Það er hins vegar sérstakt áhyggjuefni að meðan á öllu þessu stendur heyrist ekki múkk í Fjármálaeftirlitinu. Ég hef talað um það áður úr þessum ræðustól að það var fyrst í mars á þessu ári sem Fjármálaeftirlitið lét eitthvað frá sér fara um söluna á Borgun og tók þá nokkuð upp í sig en hefur ekki fylgt því bréfi eftir á neinn hátt. Það tók sem sagt Fjármálaeftirlitið um 18 mánuði að komast að því að það var eitthvað varhugavert við þessa sölu, en þeir hafa ekki gert neitt utan að skrifa eitt bréf. Það er sérstakt rannsóknarefni.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016.

 

Categories
Fréttir

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

Deila grein

23/08/2016

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í athyglisverða grein hagfræðings VR sem birtist á vefmiðli Kjarnans þar sem tilteknar eru þrjár meginástæður fyrir lágri verðbólgu, í fyrsta lagi lágt olíuverð, í öðru lagi gengisstyrking krónunnar og í þriðja lagi lágt verð á öðrum hrávörum en olíu.

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd Seðlabankans hefur gert ráð fyrir. Þeirri spurningu er velt upp í annarri grein á vefmiðli Kjarnans hvað peningastefnunefndin geri þegar kemur að næstu ákvörðun stýrivaxta. Meginstýrivextir nú eru 5,75% og verðbólgan 1,1% sem þýðir að raunvextir hér á landi eru hvergi hærri í heiminum og fátt sem bendir til þess að verðbólgan fari af stað eða að sú staða breytist í náinni framtíð ef marka má forsendurnar sem ég fór yfir. Því verður fróðlegt að sjá hvernig peningastefnunefndin bregst við þessari stöðu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að vissulega skipta vextir almenning og atvinnulíf gríðarlegu miklu máli. Ekki má gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í að viðhalda hér verðstöðugleika og gera má ráð fyrir að peningastefnunefnd stígi varlega til jarðar en staðreyndin er sú varðandi hið háa verð á peningum, og endurspeglast í þessum háu raunvöxtum, að almenningur og atvinnulíf fjármagnar stöðugleikann með háu verði. Þetta gagnast auðvitað vel þeim sem eiga laust og meðfærilegt fé til ávöxtunar.

Hvað mun peningastefnunefndin gera? Mun hún einblína áfram á að halda neyslu og lántöku niðri með háum stýrivöxtum, sem reyndar bíta fyrst og fremst á lán sem lúta því fyrirkomulagi að fylgja nafnvöxtum Seðlabankans, þ.e. óverðtryggðum lánum, eða mun hún meta verðbólguvæntingar í takt við forsendur, líkt og ég fór yfir í upphafi máls míns?“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016