„Hæstv. forseti. Mig langar að ánýja ögn það sem ég fór með hér í gær um tregðu Fjármálaeftirlitsins til að taka á tveim málum sem ég tel að heyri undir það. Annars vegar er það álit Fjármálaeftirlitsins, sem nýlega kom fram, um að sala Landsbankans á hlut ríkisins í Borgun hefði ekki verið í samræmi við eðlilega viðskiptahætti. Hins vegar er það það sem ég vakti athygli á hér í gær, þ.e. að framkvæmdastjóri eins af viðskiptabönkunum á Íslandi er einstaklingur sem var í forsvari fyrir fyrirtæki fyrir nokkrum árum sem á Íslandsmet í stjórnvaldssektum. Á fyrirtækið hafa verið lagðar stjórnvaldssektir upp á á annan milljarð, sumar fyrir atbeina Hæstaréttar.
Ég hef út af fyrir sig ekki fengið nein sérstök viðbrögð frá Fjármálaeftirlitinu, eða séð þau, síðan þessi ræða í gær var haldin. Þess vegna kom ég hér upp aftur um sama mál. Ég sé ekki betur en að nauðsynlegt sé að ég beini þeirri formlegu beiðni til hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, að nefndin boði á sinn fund fulltrúa Fjármálaeftirlitsins til þess að þeim aðilum gefist kostur á að útskýra fyrir nefndinni hvers vegna Fjármálaeftirlitið hefur ekki tekið afstöðu í þessum málum, þ.e. í öðru málinu mjög seint og í hinu málinu alls ekki.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 25. maí 2016.
Tregða hjá Fjármálaeftirlitinu
26/05/2016
Tregða hjá Fjármálaeftirlitinu