Categories
Fréttir

Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni

Deila grein

27/04/2016

Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni

HÖ/-
Reykjavík 27/4 2016
 
Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni.
Ég hef ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins frá og með deginum í dag.  Þetta hef ég tilkynnt framkvæmdastjórn flokksins og öðrum sem fara með trúnaðarstörf fyrir hann.
Þessa ákvörðun tek ég í ljósi þess hversu einsleit og óvægin umræðan er.  Þetta er persónuleg ákvörðun mín og á engan hátt viðurkenning á því að ég hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti.
Spurningum blaðamanna um mjög tímabundna aðkomu mína að tveimur aflandsfélögum tel ég mig hafa svarað fullnægjandi.
Því hefur ranglega verið haldið fram að ég hafi keypt hlutafé í BM Vallá með tortryggilegum hætti.  Arion banki bauð BM Vallá til sölu í opnu söluferli sem félag mitt ásamt öðrum fjárfestum tók þátt í.  Að bendla þau kaup við aflandsfélög er alfarið rangt.
Ég dreg mig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn og þau góðu störf sem hann hefur unnið að í tíð þessarar ríkisstjórnar.  Ég er ekki kjörinn fulltrúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörðun.
Við þessi tímamót vil ég nota tækifærið og þakka öllum gott og ánægjulegt samstarf þann tíma sem ég hef gegnt störfum framkvæmdastjóra fyrir flokkinn.
 
Hrólfur Ölvisson

Categories
Fréttir

Starfshópur fjalli um ákvörðun ESA varðandi ríkisaðstoð við orkufyrirtæki

Deila grein

27/04/2016

Starfshópur fjalli um ákvörðun ESA varðandi ríkisaðstoð við orkufyrirtæki

SIJÁ ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að setja á fót starfshóp fjögurra ráðuneyta undir forystu forsætisráðuneytisins til að undirbúa viðbrögð við nýlegri ákvörðun Eftirlitsstofnunar Efta (ESA) er varðar nýtingu náttúruauðlinda í þágu rafmagnsframleiðslu.
Með ákvörðun dags. 20. apríl sl. beindi ESA þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að gerðar verði breytingar á lagaumhverfi sem varðar samninga við orkufyrirtæki um nýtingu náttúruauðlinda í opinberri eigu til rafmagnsframleiðslu. Með þeim breytingum verði betur tryggt að markaðsverð sé greitt fyrir slíka nýtingu og jafnframt skýrar kveðið á um hvaða verklag skuli viðhaft við ákvörðun markaðsverðs. Að mati ESA eru úrbætur nauðsynlegar til þess að ekki verði litið svo á að hér sé um ólögmæta ríkisaðstoð og röskun á samkeppni á raforkumarkaði að ræða.
Loks mælist ESA til þess að áður gerðir samningar við orkufyrirtæki um nýtingu verði teknir til skoðunar m.t.t. þess hvort þeir endurspegli markaðsverð og þeir endurskoðaðir ef svo er ekki, að því er varðar eftirstöðvar slíkra samninga.
Samkvæmt tilmælunum skulu allar framangreindar ráðstafanir hafa átt sér stað eigi síðar en 1. janúar 2017. Stjórnvöld hafa einn mánuð til að fallast skilyrðislaust á tilmælin, en hætta ella á að ESA opni svokallaða formlega rannsókn vegna málsins.
Verklag við ákvörðun verðs vegna nýtingar náttúruauðlinda, m.a. vegna raforkuframleiðslu, hefur verið að mótast á undanförnum árum hjá þeim ráðuneytum sem hafa með þjóðlendur og aðrar ríkiseignir að gera – forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Það verklag endurspeglar meðal annars meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og hagkvæmni við ráðstöfun takmarkaðra gæða.
Breytingar á lagaumhverfi sem ESA leggur til myndu festa í sessi þær meginreglur og þá aðferðafræði sem verið hefur að mótast og gætu tryggt enn betur að verð sem orkufyrirtæki greiða fyrir aðgang að auðlindum í opinberri eigu sé ákveðið á markaðsforsendum. Í starfshópnum verða fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Starfshópurinn mun á næstu vikum taka til skoðunar hvort rétt sé að fallast á tilmæli ESA og undirbúa viðbrögð að öðru leyti.  Óskað verður eftir viðræðum við orkufyrirtæki vegna áður gerðra samninga. Samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem tilefni er til.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Fyrirkomulag strandveiða 2016

Deila grein

26/04/2016

Fyrirkomulag strandveiða 2016

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraAukning verður á veiðiheimildum á svæðum A og B fyrir strandveiðibáta á strandveiðitímabilinu sem hefst 2. maí og stendur til 31. ágúst 2016. Önnur ákvæði um veiðisvæði, veiðidaga, hámarksafla á dag og fjölda handfærarúlla verða óbreytt frá fyrri árum.

Við úthlutun aflaheimilda er byggt á svæðaskiptingu; svæði A) nær frá A. Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, svæði B) nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps, svæði C) nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps og svæði D) nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar.

Strandveiðar hófust fyrst í júní 2009 og var heildarmagnið þá 4.000 tonn. Á komandi vertíð verður leyfilegur heildarafli 9.000 tonn og er það aukning um 400 tonn frá fyrra ári. Reikna má með að útgefin veiðileyfi verði rúmlega 700.

Svæði D sker sig töluvert úr hvað varðar meðalveiði á bát, en þar er veiði að jafnaði mun lakari en á hinum svæðunum.  Síðustu tvö ár voru um 100-200 tonn óveidd á svæði D. Núverandi veiðidagar á svæðum gera ráð fyrir um 30 – 60 dögum í veiði. Fæstir veiðidagar eru á svæði A en flestir á svæði D.

Til þess að ná meiri jöfnuði í meðalveiði á bát á komandi vertíð fyrir svæði A, B og C mun aukningin fara á svæði A og að auki 150 tonn frá svæði D. Þá verða 50 tonn flutt af svæði D yfir á svæði B.


Svæði
Meðal- dagafjöldi á bát
2014/2015
Meðalafli í kg. á bát á dag 2014/2015 Meðalveiði alls tonn  á bát 2014/2015 Fjöldi báta á svæði 2014/2015 Líkleg meðalveiði í tonnum á bát 2016 m.v. reglugerð  Breyting í tonnum á svæði 2016
 
A 32 394 12,6 233 15,1 + 550
B 50 305 15,3 141 15,7  + 50
C 56 282 15,8 147 15,8  0
D 66 171 11,3 120 11,3 – 200

Úthlutun 2016:
 

Botnfiskur Maí Júní Júlí Ágúst
Svæði A 852 1.023 1.023 512
Svæði B 521 626 626 313
Svæði C 551 661 661 331
Svæði D 520 455 195 130

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

Categories
Fréttir

Utanríkisráðuneytið felur Flóttamannastofnun SÞ að ráðstafa 300 milljónum

Deila grein

26/04/2016

Utanríkisráðuneytið felur Flóttamannastofnun SÞ að ráðstafa 300 milljónum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, mun ráðstafa 300 milljónum króna af þeim hálfa milljarði sem utanríkisráðuneytinu var falið að úthluta árið 2016 til aðstoðar við flóttamenn frá Sýrlandi á vettvangi af sérstökum framlögum Íslands til málefna flóttamanna frá Sýrlandi.   Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna ráðstafar 50 milljónum, Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) 50 milljónum, borgarasamtök á Íslandi 50 milljónum og lagt er til að 25 milljónum króna verði varið til verkefnis UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Óráðstafað er öðrum 25 milljónum.
Ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar um málefni flóttafólks og innflytjenda lagði fram tillögur sem samþykktar voru í ríkisstjórn sl. haust og síðar í fjárlögum á Alþingi  um að verja allt að einum milljarði króna af fjárlögum ársins 2016 til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi. Var utanríkisráðuneytinu falið að ráðstafa hálfum milljarði af þessu framlagi til stuðnings við verkefni alþjóðastofnana og félagasamtaka á vettvangi.
Framlagið til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) verður nýtt  til að styðja við flóttamenn innan landamæra Sýrlands en einnig til stuðnings við flóttamenn sem hafast við í helstu nágrannaríkjum Sýrlands.  Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) nýtir framlagið til neyðarverkefna innan Sýrlands þar sem mikið skortur hefur verið á aðstoð og Palestínuflóttamannaaðstoðin mun ráðstafa framlaginu frá Íslandi til verkefna í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.
Þegar hefur verið auglýst eftir styrkumsóknum vegna framlagsins til íslenskra borgarasamtaka.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Heimilt að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum

Deila grein

22/04/2016

Heimilt að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum

islenskifaninn-sijAlþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Samkvæmt lögunum er nú heimilt, án sérstaks leyfis, að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum.
Tilgangur laganna er að auka möguleika framleiðenda vöru til koma íslenskum uppruna hennar á framfæri við markaðssetningu erlendis og hér á landi, þ. á m. gagnvart erlendum ferðamönnum. Þau sjónarmið búa jafnframt að baki lögunum að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um lögunum.
Eftirlit með framkvæmd laganna verður á hendi Neytendastofu.

Ljósmynd: Sigurður Ingi Jóhannsson.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Sigrún undirritar Parísarsamninginn

Deila grein

22/04/2016

Sigrún undirritar Parísarsamninginn

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir Íslands hönd við athöfn í New York. Í ávarpi í tilefni undirritunarinnar sagði ráðherra að Ísland ynni að því að framkvæma markmið samningsins, m.a. með aðgerðum á sviði samgangna, fiskveiða og landbúnaðar, auk kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu.
Fulltrúar yfir 160 ríkja skrifuðu undir samninginn við athöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag. Aldrei áður hafa jafn mörg ríki skrifað undir alþjóðasamning við slíka athöfn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði í ræðu sinni að Ísland myndi leggja sig fram við að hrinda markmiðum Parísarsamningsins í framkvæmd. Endurnýjanleg orka væri notuð við hitun og rafmagnsframleiðslu á Íslandi, en draga yrði úr losun frá öðrum uppsprettum. Íslensk stjórnvöld styddu við uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og ynnu að minnkun losunar frá sjávarútvegi og landbúnaði í samvinnu við atvinnulífið. Mikilvægt væri að vinna að kolefnisbindingu úr andrúmsloftinu jafnframt því að draga úr losun. Ísland myndi efla skógrækt og landgræðslu, en á heimsvísu væri mikilvægt að berjast gegn eyðimerkurmyndun.
Sigrún sagði að Ísland styddi þróunarríki við verkefni á sviði loftslagsmála og hreinnar orku. Alþjóða jarðhitabandalagið hefði verið sett á fót í París og Ísland bindi vonir við að það ýti undir nýtingu jarðhita á heimsvísu. Ráðherra minnti á mikilvægi þess að konur nytu fulls jafnréttis og væru virkjaðar til ákvörðunartöku og starfa og benti á að jafnt kynjahlutfall sé í ríkisstjórn Íslands.
„Jafnrétti er markmið í sjálfu sér og mun að auki hjálpa okkur að vinna að grænni og betri framtíð. Parísarsamningurinn mun hjálpa okkur við að virkja pólitískan vilja og fjármagn til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Ísland mun leggja sitt af mörkum,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Fullgilding Parísarsamningsins

""

Parísarsamningurinn er lagalega bindandi alþjóðasamningur undir Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (sem er oftast kallaður Loftslagssamningur SÞ). Parísarsamningurinn hefur sömu lagalegu stöðu og Kýótó-bókunin við Loftslagssamninginn, sem skrifað var undir 1997 og tók gildi 2005. Skuldbindingar ríkja samkvæmt Kýótó-bókuninni renna út árið 2020, en skuldbindingar ríkja innan Parísarsamningsins eru miðaðar við tímann eftir 2020. Aðild ríkja að Parísarsamningnum fer í gegn um tvö skref, undirskrift og fullgildingu. Með undirskrift lýsa fulltrúar ríkisstjórna yfir vilja sínum til að uppfylla ákvæði samningsins, en fullgilding jafngildir staðfestingu á því að samningurinn hafi verið samþykktur í samræmi við innri reglur viðkomandi ríkis og eru ríki frá þeim tíma bundin við reglur hans. Ísland hefur nú undirritað samninginn ásamt yfir 160 öðrum ríkjum, en fullgilding er eftir. Vinna við það er hafin, en hún kallar meðal annars á þýðingu og lagalega rýni varðandi atriði sem kann að þurfa að leiða í íslensk lög. Ákvæði eru í Parísarsamningnum um að hann gangi í gildi alþjóðlega þegar minnst 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann.

Ráðherra átti stuttan fund með Barböru Hendricks umhverfisráðherra Þýskalands.Ráðherra átti stuttan fund með Barböru Hendricks umhverfisráðherra Þýskalands.

Ísland hefur lýst yfir ætlun að vinna að sameiginlegu markmiði með 28 ríkjum ESB innan Parísarsamningsins. Noregur hefur lýst yfir sams konar áformum, en bæði ríkin eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. EES-samningnum. Hafnar eru óformlegar viðræður Íslands og Noregs með ESB um útfærslu á sameiginlegu markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Ísland mun einnig hafa samráð við ESB og Noreg varðandi fullgildingu Parísarsamningsins í ljósi þess að stefnt er að því að 30 Evrópuríki vinni að sameiginlegu markmiði innan hans.
Ávarp Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun Parísarsáttmálans (pdf-skjal).

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Heimsmarkmiðum SÞ verði hrint í framkvæmd

Deila grein

22/04/2016

Heimsmarkmiðum SÞ verði hrint í framkvæmd

sigrunmagnusdottir-umhverfismalÁtak gegn matarsóun, loftslagsvæn orka, landgræðsla og barátta fyrir jafnrétti kynjanna eru meðal áherslumála Íslands við að hrinda í framkvæmd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra nefndi þetta í ávarpi sínu í gær fyrir Íslands hönd á sérstökum ráðherrafundi um markmiðin í New York.
Ráðherra sagði að ríkisstjórnin myndi vinna að framkvæmd markmiðanna undir stjórn forsætisráðuneytis, í náinni samvinnu við utanríkisráðuneyti sem og önnur ráðuneyti og fulltrúa hinna ýmsu aðila í samfélaginu. Ráðherra sagði að barátta gegn matarsóun gagnaðist bæði við minnkun úrgangs og við að ná loftslagsmarkmiðum. Hún sagði að Ísland myndi vinna að markmiðunum heima fyrir, en einnig styrkja þróunarríki við að ná þeim. Hún nefndi í því samhengi starf verkefna Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þar sem nemendur frá þróunarríkjum fá fræðslu á sviði jafnréttismála, landgræðslu, fiskveiða og jarðhita.
Ráðherra sagði að fullt jafnrétti kvenna og virk þátttaka væri nauðsynleg forsenda þess að Heimsmarkmiðin næðu fram að ganga.  Markmiðin eru 17 talsins, með 169 undirmarkmiðum. Þau voru samþykkt haustið 2015 og eiga að vera leiðarljós ríkja við að bæta lífskjör og efla umhverfisvernd til 2030. Efnt var til ráðherrafundarins nú til að vekja athygli á markmiðunum og hvetja ríki til að vinna að þeim í raun.
Yfirlýsing Íslands vegna heimsmarkmiðanna (pdf)

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað

Deila grein

20/04/2016

Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað

loftlagsmál og umhverfiSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands undirrituðu í dag samkomulag um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.
Vegvísirinn verður unninn í samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands og mun taka mið af sambærilegri vinnu í sjávarútvegi, greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og vinnu í öðrum geirum. Skipuð verður verkefnisstjórn til að hafa umsjón með verkefninu. Henni er meðal annars ætlað að greina losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi með hliðsjón af sambærilegum greiningum sem unnar hafa verið í öðrum ríkjum s.s. í Noregi og Nýja Sjálandi. Í framhaldinu verða mótaðar tillögur að raunhæfum lausnum sem miða að samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði hérlendis.
Vegvísirinn er meðal verkefna í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem ætlað er að leiða til minni losunar og auðvelda Íslandi að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum. Er í áætluninni lögð áhersla á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í því skyni að tryggja sem bestan árangur verkefnanna.
Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað (pdf-skjal)
Á myndinni eru: Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Uggur og áhyggjur

Deila grein

20/04/2016

Uggur og áhyggjur

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Við Íslendingar stærum okkur af því að hér sé jafnrétti meira en víðast hvar annars staðar og þá er ég að tala um jafnrétti kynjanna. Við stærum okkur af því að staða kvenna sé óvíða betri en á Íslandi. Víst er það svo að þegar maður sækir alþjóðaráðstefnur, eins og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, sér maður að vissulega höfum við náð langt og erum framarlega. Það eru samt tvær fréttir sem hafa heyrst á Íslandi á síðustu vikum sem valda mér ugg og áhyggjum, í fyrsta lagi frétt um að fjöldi heimilisofbeldismála sem komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu meira en tvöfaldaðist á milli áranna 2014 og 2015. Tvö heimilisofbeldismál koma til kasta lögreglu á degi hverjum.
Hin fréttin varðar það að kynferðisbrotum fjölgar og kærum fækkar. Fjöldi kynferðisbrotamála hjá Stígamótum hefur aukist á milli síðustu tveggja ára en af 468 málum sem komið hafi til kasta Stígamóta hefur einungis 41 verið kært.
Vissulega eru báðir þessir brotaflokkar mjög erfiðir. Það vill svo til að ég held að á Alþingi liggi enn fyrir þverpólitískt mál um að stemma stigu við heimilisofbeldi. Það væri góðu heilli gjört að koma því í gegnum Alþingi á þeim tíma sem við höfum til stefnu.
Ég held enn fremur að hugarfarsbreyting þurfi að verða í þjóðfélaginu, sérstaklega meðal karlmanna, hvað þessi mál varðar. Karlmenn eru gerendur í langflestum þessara tilvika. Það þarf að senda þau skilaboð inn í þennan hóp að slík framkoma í garð kvenna líðist ekki og muni ekki líðast. Við þurfum að gera gangskör í því að taka á þessum málum.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 19. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki

Deila grein

20/04/2016

Staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í pólitísku umróti liðinna daga er oft gott að leita í grunninn og spyrja grundvallarspurninga. Hvað er okkur mikilvægast? Ég get svarað þessu svo til að fólk hafi vinnu og þak yfir höfuðið. Auðvitað er þetta ekki svo einfalt en fræðilega viðurkennt að til útskýringa er einfaldleikinn oft góður.
Þá finnst mér hollt þegar ákall um breytingar er sterkt að velta fyrir mér andstæðu breytinga og hversu mikilvægur stöðugleikinn sé. Það er staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki allt kjörtímabilið með batnandi hag á mörgum sviðum og að atvinnuástand er með besta móti þar sem skráð atvinnuleysi í mars síðastliðnum samkvæmt Hagstofunni var 2,7% og hefur farið jafnt og þétt lækkandi. Fleiri og fleiri hafa vinnu og atvinnutækifæri. Það sem er einkar ánægjulegt er að atvinnulausum hefur fækkað í öllum landshlutum.
Ég held því ekki fram að þingkosningar raski endilega stöðugleika, þær eru alla jafna á fjögurra ára fresti, en það er viss hætta á að við gleymum okkur í því kappi sem fylgir. Kosningafjárlög sem við þekkjum í sögunni eru kannski besta dæmið um það. Stöðugleikinn er hreint ekki sjálfgefinn og það hefur náðst mikill árangur á því sviði. Mikilvægast er að við höldum áfram að vinna að því að bæta þau tæki og tól sem geta áfram tryggt efnahagslegan stöðugleika. Við höldum áfram að bæta hér umgjörð peningastefnunnar, vinnum ábyrga ríkisfjármálaáætlun sem rammar inn fjárlög og látum þessi tvö hagstjórnartæki vinna saman. Vinnumarkaðurinn verður að fylgja í takt með launaþróun og hækkunum í takt við framleiðnivöxt og getu hagkerfisins á hverjum tíma.
Virðulegi forseti. Breytingar í formi þróunar eru æskileg framvinda, en stöðugleikinn er okkur nauðsynlegur.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 19. apríl 2016.