Categories
Fréttir

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

Deila grein

02/09/2016

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Aðalfundur eignarhaldsfélags Kaupþings fór fram í gær. Þar voru bónusgreiðslur til um 20 starfsmanna félagsins samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa ákvörðun nema að nú er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Þær hugmyndir sem voru ræddar í þinginu í gær voru margar hverjar mjög áhugaverðar. Ég hef því óskað eftir því að eiga sérstaka umræðu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um málið og ég vona svo sannarlega að sú umræða fari fram sem fyrst.
Það var samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Í dag eru fréttir af verulegri aukningu umferðar um Hvalfjarðargöngin það sem af er þessu ári. Þetta er í samræmi við upplifun fólks sem keyrir þessa leið um göngin og Vesturlandsveg og margir hverjir á hverjum degi. Mikill þungi umferðar kemur úr þeim sveitarfélögum sem liggja hvað næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin en eins og fram kom fyrir nokkru síðan aka um 2.000 bílar þessa leið dag hvern úr þeim sveitarfélögum. Þar er m.a. um að ræða fólk sem sækir vinnu og skóla í höfuðborginni. Þessir einstaklingar borga talsvert í ferðakostnað til að komast til og frá vinnu eða skóla. Það er óhætt að segja að mörgum finnist þessi kostnaður ósanngjarn þar sem þetta er eina leiðin úr höfuðborginni þar sem gjaldtaka fer fram. Öll gerum við okkur grein fyrir því að umferðarþunginn er orðinn mikill um Hvalfjarðargöngin og Vesturlandsveg og nauðsynlegt verður áður en langt um líður að fara í úrbætur á þessum vegum. Auk þess hafa átt sér stað umræður um fyrirhugaða Sundabraut sem verður vonandi að veruleika innan einhverra ára og tel ég að hún verði mikil samgöngubót fyrir svæðið.
Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu 5. október 2015. Hún fjallaði um að þeim skattskyldu mönnum sem þurfa að greiða háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Tel ég að það fyrirkomulag sem tillagan kveður á um, þ.e. að taka upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu, gæti verið skref í rétta átt við að styrkja atvinnusvæði víða um landið og jafnframt jákvætt fyrir fólk sem þarf að greiða talsverðar upphæðir til að komast til og frá vinnu eða í skóla. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga, hún væri mikið framfaraskref.“
Elsa Lára Arnardóttir 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Verk ríkisstjórnarinnar tala sínu máli

Deila grein

02/09/2016

Verk ríkisstjórnarinnar tala sínu máli

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Þegar dregur nær kosningum eykst eðlilega spenna og pólitískur titringur. Það mátti og greina í umræðunni á Alþingi í gær um búvörulög og búvörusamning, við greinum þetta í opinberri umræðu. Í umræðu um búvörulögin var að greina slíkan spennutón en þrátt fyrir allt fannst mér sú umræða afar góð og málefnaleg og mun vafalítið taka á sig frekari mynd þegar við ræðum það mál áfram og svo síðar um tollasamninginn.
Þessi spenna kristallast vel í þeirri pólitísku spurningu hversu mörg mál og hvaða mál þingið ætti að klára og mikilvægt er að klára eða yfir höfuð ástæða til að klára áður en yfir lýkur, áður en þingið lýkur störfum, við klárum hina pólitísku baráttu og þjóðin kýs sína fulltrúa.
Virðulegi forseti. Ég mundi auðvitað helst vilja að þessi hæstv. ríkisstjórn sæti sem lengst. Verk hennar tala sínu máli en fyrst og síðast er þessari hæstv. ríkisstjórn umhugað um að klára þann sáttmála sem hún gerði og lofaði þjóð sinni.
Það hefur þessi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sannarlega gert og er umhugað um að ljúka vel við. Það er ástæða til að benda á það hér hver verk þessarar hæstv. ríkisstjórnar hafa verið því að stóra myndin er afar hagfelld. Auðvitað erum við í kapphlaupi við tímann en þannig verður það ekki alltaf. Þrátt fyrir að nú séu uppi óvenjulegar aðstæður með styttra kjörtímabil hefur hingað til, hæstv. forseti, verð ég að segja, í góðri samvinnu við þingflokksformenn, stjórn og stjórnarandstöðu, sem ég vil jafnframt hrósa, verið haldið uppi góðum vinnubrag og það er engin ástæða til annars en að ætla að við klárum þetta með sóma.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Styðja og styrkja litla fjölmiðla

Deila grein

02/09/2016

Styðja og styrkja litla fjölmiðla

Karl_SRGB„Virðulegi forseti. Undanfarið hefur heyrst sú skoðun að samkeppnisstaðan á fjölmiðlamarkaði sé ójöfn, hún sé ósanngjörn og komi í veg fyrir að einkareknir fjölmiðlar sem flestir eða allir verða að reiða sig á auglýsingatekjur geti vaxið og dafnað og þar með sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ég er sammála þessu viðhorfi. Það er þó nauðsynlegt að hafa eitt í huga. Ef við ætlum að taka RÚV út af auglýsingamarkaði eða skerða tekjur félagsins kannski um milljarð eða meira verður að svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig bæta eigi félaginu upp tekjumissinn. Á að auka framlög úr ríkissjóði eða draga úr þjónustu? Þetta er lykilspurning sem verður að svara. Það er ekki hægt að ákveða einhliða að breyta tekjumódeli RÚV nema ákveða framtíð þess í leiðinni.
Rekstur einkarekinna, lítilla fjölmiðla er þungur og það verður að styðja þá og styrkja. Fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og lýðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu. Það er skylda okkar að hlúa að þessum miðlum þótt ekki sé nema til að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast í þjóðfélagsumræðunni.
Það er hins vegar ekki sjálfgefið að sú aðgerð að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði með einu pennastriki gagnist nógu vel. Það er t.d. ekki víst að auglýsendur beini auglýsingum sínum jafnt á alla aðra miðla. Það er hætta á að þeir smæstu verði út undan.
Annar möguleiki er að hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega til að gefa öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem leiðir til þess að auglýsendur velja oft RÚV.
Loks vil ég nefna þann möguleika að setja þak á auglýsingatekjur RÚV. Í dag nema þessar tekjur um 2,2 milljörðum á ári. Hægt væri að setja þak á þessa upphæð þannig að hún verði t.d. 1,5 milljarðar á ári og síðan gæti sú upphæð smám saman lækkað. Þá yrði að bæta félaginu upp tímabundið þennan tekjumissi. Þetta er umræða sem við verðum að taka í tengslum við framtíð Ríkisútvarpsins.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Fyllast ótta um starfsöryggi

Deila grein

02/09/2016

Fyllast ótta um starfsöryggi

Páll„Virðulegi forseti. Greinilegt er á umræðunni hér á Alþingi að kosningar eru í nánd. Margir þingmenn býsnast yfir því hvað útgerðin greiðir lítið til samfélagsins og hóta að hækka það svo um munar svo hægt verði að bæta í heilbrigðiskerfið eða eitthvað annað sem nauðsynlegt er að bæta. Ekki þarf annað en að skoða skipasölurnar til að sjá að kosningar eru í nánd því að sjaldan hafa fleiri litlar útgerðir verið til sölu. Ég trúi því ekki að þeir þingmenn sem á tyllidögum vilja að hér þrífist blönduð útgerð, allt frá smábátum til togara, geri sér grein fyrir því hvað neikvæð umræða um fjölskylduútgerð sægreifa, eða hvaða nöfn þeir kunna að nota, geta haft á þessa útgerðarflóru sem er þó enn við lýði, sem betur fer.
Eftir því sem við sáum fleiri óvissufræjum fyrir kosningar fjölgar þeim einyrkjum sem fyllast ótta um starfsöryggi sitt og aðkomu og selja. Hverjir kaupa? Það eru þeir stóru. Mikið hefur verið rætt undanfarið um svokallaða uppboðsleið, líkt og Færeyingar gerðu tilraun með. Hver var útkoman þar? Örfá fyrirtæki keyptu sem voru meira og minna í eigu útlendinga. Er það það sem við viljum?
Hvar endar markaðshyggja vinstri manna? Reynum að sjá fyrir okkur hver útkoman verður hér á landi. Hverjir koma til með að kaupa? Verða það litlu fjölskyldufyrirtækin, einyrkjarnir eða kannski bara stóru fyrirtækin sem eru meira og minna í eigu lífeyrissjóða og stórra fjárfesta?
Hvert er eðli markaðarins? Það er að þeir sterku kaupa. Hvað gerist hjá þeim sem ekki fær? Bíður hann með sinn bát í ár eða lengur og vonar að hann fái næst? Hver hefur efni á því? Er það einyrkinn sem hefur engar aðrar tekjur eða sá stóri sem hefur fleiri tekjuleiðir? Hvað þarf sá stóri að kaupa oft til að sá litli keppi ekki oftar um veiðiheimildir?
Tölum skýrt en ekki í blekkingum. Það er pólitísk ákvörðun ef við viljum fækka einyrkjum í útgerð og hafa fá og stór sjávarútvegsfyrirtæki sem geta vafalaust greitt talsvert hærri veiðigjöld. Uppsjávarfyrirtækin hafa fengið að hagræða að vild og standa vel. Viljum við sjá þá þróun í bolfiskinum?“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Gagnlegur fundur með Seðlabanka

Deila grein

31/08/2016

Gagnlegur fundur með Seðlabanka

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í gær fór fram opinn fundur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd með fulltrúum peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands til þess að ræða peningamálin, síðustu skýrslu og vaxtaákvarðanir, en nú síðast var sú ánægjulega ákvörðun tekin að lækka stýrivexti.
Þessi skýrslugjöf og samræða sem á sér stað millum þingsins og Seðlabankans um þessi málefni er samkvæmt lögum og hefur verið afar gagnleg og nauðsynleg. Það er nauðsynlegt að ræða milliliðalaust forsendur slíkra ákvarðana og þá stöðu í þjóðarbúinu sem grundvallar slíkar ákvarðanir og ekki er síður mikilvægt að gefa peningastefnunefnd færi á að bregðast við þeirri gagnrýni sem viðhöfð er á peningastefnuna, aðallega hátt vaxtastig, og svara spurningum um að beita m.a. öðrum tækjum af meiri krafti.
Fundurinn í gær var engin undantekning, hann var afar gagnlegur. Ég ætla að draga fram það sem mér fannst markverðast á þessum fundi. Í fyrsta lagi: Jákvæð staða þjóðarbúsins og sá árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum þar sem flestallir hagvísar eru jákvæðir. Í öðru lagi er erfitt að hrekja það að aðhaldssöm peningastefna hefur náð raunverulegum árangri. Það er þriggja ára samfellt stöðugleikatímabil til vitnis um. Eftir stendur sú spurning hvort sama árangri hefði verið hægt að ná með lægra vaxtastigi og með teknu tilliti til hagstæðra ytri skilyrða. Í þriðja lagi nefni ég styrkingu krónunnar og stöðu útflutningsatvinnugreina. Þar var sérstaklega rætt um ferðaþjónustu sem hefur vaxið hratt með tilheyrandi fjárfestingum. Í fjórða lagi er það jákvæð þróun í lagaumgjörð ríkisfjármála sem með auknum aga og festu ætti til lengdar að geta stutt betur við peningastefnu en hingað til. Í síðasta lagi nefni ég þær miklu áskoranir fyrir peningastefnuna sem sannarlega felast í frekari losun fjármagnshafta.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 30. ágúst 2016. 

Categories
Fréttir

Þetta er allt ógeðslegt

Deila grein

31/08/2016

Þetta er allt ógeðslegt

Karl Garðarsson„Virðulegur forseti. Þær fréttir sem berast af bónusgreiðslum tengdum fjármálakerfinu eru ömurlegar en því miður fyrirsjáanlegar. Fjórir stjórnendur LBI, eignarhaldsfélags utan um eignir gamla Landsbankans, geta fengið samtals mörg hundruð milljónir kr. í bónusgreiðslur hver um sig á komandi árum ef þeir geta aukið virði eigna gamla Landsbankans. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fær 23 millj. kr. í þóknun á ári fyrir að sitja í stjórn LBI, fyrir utan væntanlegar bónusgreiðslur. Þau laun miða við að hann starfi fyrir stjórnina að hámarki 40 daga á ári. Það þýðir að hann fær 575 þús. kr. fyrir hvern dag sem hann starfar fyrir stjórnina, rúma hálfa milljón á dag.
Í DV segir að heildarbónusgreiðslur til þessara fjögurra æðstu stjórnenda félagsins sé litið fram í tímann geti numið milljörðum króna. Ef þetta er ekki nóg þá skýrði DV frá því í síðustu viku að um 20 starfsmenn eignarhaldsfélags Kaupþings, sem tók við hlutverki slitabús Kaupþings, geti tryggt sér 1.500 millj. kr. í bónusgreiðslur ef þeim tekst að hámarka virði þeirra eigna sem eru óseldar.
Rétt er að benda á að stærsta óselda eign Kaupþings er 87% hlutur í Arion banka, viðskiptabanka sem starfar að mestu á íslenskum markaði og var endurreistur af íslenska ríkinu með íslenskum innstæðum.
Við höfum nýjar persónur og leikendur á sviðinu. Tilgangurinn er sá sami, að græða sem mest á sem einfaldastan hátt. Þetta verður að stöðva með öllum ráðum.
Fyrrverandi ritstjórn Morgunblaðsins lét þau orð falla fyrir nokkrum árum að þetta væri ógeðslegt þjóðfélag, „… þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Sagði hann.
Okkur hefur miðað í rétta átt á mörgum sviðum síðan þessi orð féllu, en það er greinilega margt ógert.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 30. ágúst 2016

Categories
Fréttir

Finnum leið gegn bankabónusum

Deila grein

31/08/2016

Finnum leið gegn bankabónusum

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Í síðustu viku ræddum við nokkrir hv. þingmenn bankabónusa hjá eignarhaldsfyrirtækinu Kaupþingi. Í dag lesum við hins vegar fréttir þess efnis að fjórir starfsmenn gamla Landsbankans geti hver um sig fengið samtals mörg hundruð milljónir í bónusgreiðslur á komandi árum. Manni dettur helst til hugar við lestur þessara frétta orðatiltækið: Mikið vill meira.
Þetta eru ekki góðar fréttir af vinnubrögðum innan þessara eignarhaldsfélaga. Þessar fréttir eða réttara sagt þessar ákvarðanir innan umræddra eignarhaldsfélaga hjálpa okkur ekki að byggja upp traust að nýju í samfélagi okkar. Þessar ákvarðanir ala hins vegar á óánægju og sundrungu í okkar annars ágæta samfélagi. Það getur ekki verið það sem við viljum. Ég verð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að sjá vinnubrögð sem þessi.
Mig langar að biðla til þeirra sem ráða innan umræddra eignarhaldsfélaga að endurskoða ákvarðanir sínar um bónusgreiðslur. Að eignarhaldsfélagið Kaupþing hætti við ákvörðun sína sem fyrirhugað er að samþykkja á fundi félagsins í dag. Mig langar að biðja forsvarsmenn eignarhaldsfélags Landsbankans að endurskoða ákvörðun sína um það bónuskerfi sem samþykkt var á vormánuðum. Ég biðla til þessara félaga að hjálpa okkur að byggja upp traust að nýju, sýna samfélagslega ábyrgð og byggja með okkur betra samfélag. Ef ekki, virðulegur forseti, þá þarf að hugsa aðrar leiðir. Það þarf að skoða frekari skattlagningu á þessi félög í gegnum bankaskattinn, en núverandi ríkisstjórn skattlagði þau með bankaskatti. Þessar fréttir sýna að svigrúm til skattlagningar virðist vera enn meira. Það væri bæði ábyrgt og gott að ganga til þeirra verka.
Ósættið vegna þessara bónusákvarðana má m.a. rekja til þess að eftir hrun fengu nýju bankarnir skuldir heimilanna með miklum afslætti. Bankarnir hafa gengið hart fram í því að innheimta þær að fullu. Á sama tíma hafa bankarnir hagnast um 500 milljarða frá hruni, vaxtagjöldin eru há og þjónustuliðir og þjónustugjöld sem rukkuð er fyrir hafa sjaldan eða aldrei verið hærri.
Hv. þingheimur. Tökum höndum saman og finnum lausn í þessu mikilvægu málum. Samkvæmt fréttum og umræðunni virðist vera þverpólitísk sátt um að finna lausn eða leið. Vinnum saman að því.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 30. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

90-98% skatturá bónusgreiðslur

Deila grein

31/08/2016

90-98% skatturá bónusgreiðslur

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Hrunið sem hér varð árið 2008 lét nánast engan Íslending ósnortinn. Fólk missti heimili sín, fyrirtæki, vinnuna, þeir sem ekki misstu vinnuna urðu fyrir launaskerðingum í nokkur ár. En það var einn hópur sem tapaði ekki í hruninu heldur stórgræddi á því. Það voru erlendir kröfuhafar. Ríkisstjórn þess tíma á árunum 2010–2013 afhenti þessum aðilum íslensku bankana með einu pennastriki og það er væntanlega stærsti gjafagerningur í Íslandssögunni samanlagðri. Svo vill til að nú er búið að endurheimta nokkuð af þessu í gegnum stöðugleikaframlög sem unnin voru undir forustu framsóknarmanna.
Það sætir hins vegar nokkrum tíðindum að slitabúin eru núna búin að ráða sér nokkra rukkara til þess að hámarka gróða sinn af áðurnefndum gjafagerningi. Við vitum ekki hvaða eignir þetta eru. Eru þetta fyrirtæki sem voru rifin af fólki? Eru þetta heimili þeirra? Við vitum ekki hvaða eignir þetta eru. En rukkararnir eiga að innheimta þessa peninga og fyrir þá vinnu sína eiga þeir að fá bónusa sem eru eins og ársvelta lítilla fyrirtækja.
Ég vil nefna það sem hægt er að gera til þess að vinda ofan af þessu. Glaður vil ég að slitabúin skili peningum aftur til Íslands eins og þarna er ráð fyrir gert, ég kæri mig bara ekki um að þeir lendi í fjögurra eða fimm manna höndum. Ég mundi leggja til að við yrðum fljót að setja lög um það að 90–98% skattur yrði lagður á slíkar bónusgreiðslur þannig að við gætum tryggt að þessi framlög slitabúanna sem eru að koma til Íslands færu ekki til fjögurra til fimm manna hóps heldur þjóðarinnar allrar.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 30. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Aukið samstarf milli Íslands og Nígeríu

Deila grein

31/08/2016

Aukið samstarf milli Íslands og Nígeríu

LDA3Formlegur samstarfsvettvangur vegna viðskipta milli Íslands og Nígeríu er í burðarliðnum, eftir að utanríkisráðherra Nígeríu lýsti stuðningi við tillögu Lilju Alfreðsdóttur þess efnis á fundi þeirra í Abuja í Nígeríu. Markmiðið er að styrkja viðskiptasamband ríkjanna, auka gagnkvæm viðskipti og kanna möguleikann á útflutningi á íslensku hugviti til Nígeríu, m.a. tæknilausnum í fiskvinnslu og útgerð.
Nígería hefur um langt skeið verið afar mikilvægur markaður fyrir herta þorkshausa og annan þurrkaðan fisk frá Íslandi. Útflutningsverðmætin námu 13,8 milljörðum króna á síðasta ári og var Nígería þá annar stærsti útflutningsmarkaður íslenskra afurða utan Evrópu, næst á eftir Bandaríkjunum. Á þessu ári hefur útflutningurinn hins vegar dregist saman um ríflega 60% vegna efnahagsþrenginga og tollahækkana. Nígería glímir við mikinn efnahagsvanda sökum verðfalls á olíu, sem er helsta útflutningsvaran. Vegna verðfallsins hafa tekjur nígeríska ríkisins lækkað um 70%, skv. upplýsingum frá Seðlabanka Nígeríu.
,,Frá árinu 2010 höfum við flutt út vörur til Nígeríu fyrir 75 milljarða króna og öllum ætti að vera ljóst hve mikilvæg þessi viðskipti eru fyrir íslenska þjóðarbúið. Varan er mikils metin hér í Nígeríu og ég finn fyrir miklum áhuga á því að styrkja samband þjóðanna til hagsbóta fyrir báða aðila. Nígeríumenn horfa t.d. til þess árangurs sem náðst hefur á Íslandi við fullnýtingu á sjávarafurðum og þar kunna að vera tækifæri fyrir íslensk þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki,” segir Lilja Alfreðsdóttir.
Vegna reglna hjá Seðlabanka Nígeríu geta innflytjendur á íslenskum fiski ekki keypt gjaldeyri á opinberum markaði. Þess í stað þurfa þeir að afla hans á hliðarmarkaði og greiða þar hátt verð fyrir dollarann. Það hefur þrýst niður verðinu sem íslenskir fiskverkendur hafa fengið fyrir vöruna. Til viðbótar hefur innflutningstollur á sjávarafurðir fjórfaldast á undanförnum 18 mánuðum, úr 5% í 20%.
,,Þrátt fyrir krefjandi aðstæður virðast ráðamenn áhugasamir um að auðvelda viðskipti milli landanna, enda hafa þau staðið í áratugi og eru mikils metin beggja vegna borðsins. Ég er bjartsýn á að þetta stærsta hagkerfi Afríku muni rétta úr kútnum og hér séu mörg tækifæri til frekari viðskipta,” segir Lilja.
Heimsókn Lilju Alfreðsdóttur til Nígeríu hófst í fyrradag og henni lýkur í dag. Hún mun ræða við fjóra ráðherra í ríkisstjórn Nígeríu um samskipti ríkjanna auk þess sem hún fundar með Seðlabankastjóra Nígeríu og hittir kaupendur íslenskra fiskafurða. Með í för eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem framleiða og selja þurrkaðar íslenskar sjávarafurðir til Nígeríu, sendiherra Íslands gagnvart Nígeríu (með aðsetur í London) og fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Auglýsing vegna framboða í Norðausturkjördæmi

Deila grein

31/08/2016

Auglýsing vegna framboða í Norðausturkjördæmi

logo-framsokn-gluggiKjörstjórn Norðausturkjördæmis auglýsir eftir framboðum á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 29. október 2016.
Þeir flokksmenn sem hafa hug á því að taka sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar skulu senda kjörstjórn skriflega kynningu þar sem frambjóðendur kynna sig og gera grein fyrir helstu baráttumálum auk þess að tilgreina hvaða sætum á lista sóst er eftir. Kynningunni skal fylgja ljósmynd.
Sjá reglur á vef Framsóknar: www.framsokn.is/reglur-um-tvofalt-kjordaemisthing/
Framboðsfrestur er til kl. 12.00 á hádegi föstudaginn 2. september nk.
Framboðum skal skilað á netföngin: brattahlid10@simnet.is og eythor1@simnet.is.
Kjörstjórn Norðausturkjördæmis
Norðaustur - framboðsauglýsing 2016