Categories
Fréttir

20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna

Deila grein

19/05/2016

20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Frá árinu 1976 höfum við Íslendingar talið okkur vera í forustusveit jafnréttismála en það ár samþykkti Alþingi lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Í dag eru því 40 ár síðan fyrstu lög um jafnrétti kynjanna voru samþykkt. Í ljósi þessa er áhugavert að rifja upp orð Gunnlaugs Finnssonar, fyrrum hv. þingmanns Framsóknar. Hann var þingmaður Vestfirðinga en samkvæmt núverandi kjördæmaskipan norðvesturkjördæmis. Í umræðum um jafnréttislögin vakti hann máls á þeim launamun sem var á milli kynjanna. Með leyfi forseta langar mig að vitna í ræðu hans, en hann sagði:
„Mér finnst ástæða til þess líka að vekja athygli á því að þessi aðstöðumunur kvenna og karla í atvinnulífinu er e.t.v. mestur og verstur hjá því unga fólki sem að sumri til er að vinna fyrir sínum skólakostnaði. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Sumt af því er hefðbundið. Það er ekki tekið tillit til þess í úthlutunarreglum lánasjóða eða annarri fyrirgreiðslu, en það mun ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru.“
Virðulegur forseti. Síðan þessi orð voru sögð hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt breyst. Lögunum hefur verið breytt fjórum sinnum og þar hefur verið unnið með nýjar áherslur, ný málefni og nýjar leiðir. Þrátt fyrir það er enn þá of mikill munur á stöðu kynjanna og talið er að það sé allt að 20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna. Það er of mikið og við verðum að halda áfram að finna leiðir til að vinna gegn þeim mismun. Ég vona að við Íslendingar verðum þeirrar gæfu aðnjótandi að ná að jafna þennan launamun sem allra fyrst.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Vinna þarf að jafnara náms- og starfsvali kynjanna

Deila grein

19/05/2016

Vinna þarf að jafnara náms- og starfsvali kynjanna

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt. Síðan þá hafa þau verið endurskoðuð fjórum sinnum með nýjum áherslum, nýjum málefnum og nýjum leiðum. Margt hefur áunnist en af nógu er að taka.
Í því ljósi er það fagnaðarefni að í gær lagði hv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára fyrir árin 2016–2019. Þetta er í sjötta sinn sem slík áætlun er lögð fram og er markmið hennar að tilgreina þau verkefni sem brýnust eru talin á sviði kynjajafnréttis.
Að mínu áliti er eitt af mikilvægustu verkefnunum fram undan að vinna að jafnara náms- og starfsvali kynjanna. Ég tel að þar liggi lykillinn að árangri á fjölmörgum öðrum sviðum til jafnréttis.
Þetta verkefni er sérstaklega hrópandi þessa dagana þegar nemendur á öllum skólastigum eru að velja sér námsleiðir fyrir næsta ár og næstu ár. Verkefnum sem ætlað er að stuðla að jafnara náms- og starfsvali falla undir mörg málefnasvið og eru á verksviði margra ólíkra aðila.
Ég tel því ákaflega mikilvægt að í tengslum við endurskoðun framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum verði sett skýr markmið í þeim efnum. Við gætum t.d. byrjað á því að setja okkur markmið um kynjahlutföll í ákveðnum greinum árið 2019. Hvernig væri að byrja á því að setja markmið varðandi kynjahlutfall innritaðra í kennaranám og nokkrar iðngreinar? Þá væri hægt að beita viðeigandi hvötum.
Í öllu falli er mikilvægt að hafa skýr markmið um mælanleg skref þegar fjöldi aðila þarf að vinna saman til þess að árangur náist.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Íslensk verslun hefur ekki skilað tollalækkunum

Deila grein

19/05/2016

Íslensk verslun hefur ekki skilað tollalækkunum

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það eru tvær nýlegar fréttir, ekki beint tengdar, og þó, sem verða til þess að ég tek til máls í dag. Önnur fréttin er sú að samkvæmt verðlagsvakt ASÍ hafa þeir ágætu menn og konur fundið út að íslensk verslun hefur ekki skilað til neytenda þeim tollalækkunum sem urðu á fatnaði og skóm um síðustu áramót. Þetta kemur í viðbót við það sem áður hefur komið fram, m.a. í ræðum þess sem hér stendur, að verslunin hefur heldur ekki staðið skil á því að íslenska krónan hefur styrkst. Þess er skemmst að minnast að síðustu tólf mánuði hefur íslenska krónan styrkst að meðaltali um 6% gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Þessar staðreyndir sýna fram á lítið siðferðisþrek hjá verslunarmönnum, að þeir skuli seilast í það sem ríkið lætur eftir í stað þess að skila því til neytenda. Það er satt að segja forkastanlegt að það hafi ekki gerst.
Hin fréttin sem er þessu tengd, og þó kannski ekki, er sú að þegar Hagar hf., sem er eitt stærsta fyrirtæki í verslun á Íslandi, skilaði ársreikningum um daginn kom í ljós að fyrirtækið er nánast skuldlaust eftir fimm ára starfsemi. Til fyrirtækisins var stofnað árið 2011 með endurskipulagningu sem kostaði bankakerfið í kringum 35–40 milljarða kr., síðan selt dugmiklum mönnum sem í samstarfi við lífeyrissjóðina, þ.e. sjóði íslenskra erfiðismanna, reistu fyrirtækið upp með þessum hætti. Nú er það sem sagt orðið skuldlaust eða skuldlítið eftir fimm ára starf.
Þessi þróun er í boði lífeyrissjóða landsmanna. Nú held ég að menn ættu að hugsa sig verulega vel um, sérstaklega þeir sem sitja í stjórnum fyrirtækja fyrir hönd lífeyrissjóða, (Forseti hringir.) eða að lífeyrissjóðir fái menn í stjórn í samræmi við sitt eignarhald til að hægt sé að koma böndum á þessi mál á Íslandi.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

40 ár frá fyrstu lögum um jafnrétti

Deila grein

19/05/2016

40 ár frá fyrstu lögum um jafnrétti

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu lög um jafnrétti á Íslandi voru samþykkt. Þó höfðu áður verið samþykkt atriði sem hluti af öðrum lögum, eins og ákvæði um almennan launajöfnuð kvenna og karla árið 1961, en opinberir starfsmenn voru fyrsta starfsstéttin sem hlaut lögverndað launajafnrétti árið 1954. Það er frekar sorglegt til þess að hugsa hversu langt er liðið frá lagasetningu um launajöfnuð og að við skulum samt ekki vera komin lengra með málið.
Íslenskar konur hafa verið mjög samhentar þegar kemur að því að þoka jafnréttismálum áfram. En núna er markmiðið sett hærra og er mikilvægt að kynin komi saman til að vinna að jafnréttismálum, hagsmunamálum sem varða báða aðila, og að flestir séu með í átakinu HeForShe sem UN Women á Íslandi og aðilar víða í heiminum standa að.
Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla karlmenn til þátttöku. Það er ekki einungis efnahagslegt mál að kynin standi jöfn heldur einnig samfélagslegt. Það snýr líka að því að karlmenn fái tækifæri til að sinna öllu því sem er þeim hugleikið án fyrir fram mótaðra kynjahlutverka. Það er ekkert samfélagslega samþykkt nema við leyfum það. Við skulum ekki láta önnur 40 ár líða áður en við náum árangrinum sem við stefnum að.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis

Deila grein

19/05/2016

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá samþykkt laga um jafnrétti kvenna og karla. Í lögunum var tekið fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Lögin beindust fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði, ekki síst hvað varðaði launajafnrétti. Einnig voru ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum og kveðið var á um að auglýsendum væri óheimilt að birta auglýsingar sem orðið gætu öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar.
Á þessum tímamótum er rétt að minnast þess að þótt 40 ár séu frá setningu þessara laga eru enn til staðir í heiminum sem ekki veita konum rétt á jafnri stöðu á við karlmenn. 52 ríki eru ekki með jafnrétti í sinni stjórnarskrá líkt og kveðið er á um í 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. 26 ríki veita kynjunum ekki jafna stöðu þegar kemur að erfðarétti og 60% af þeim sem skortir grunnmenntun í heiminum, á borð við lesskilning, eru konur. Kynbundið ofbeldi er stórkostlegt vandamál um heim allan. Sums staðar tíðkast enn að gifta barnungar stúlkur eldri karlmönnum. Konur eru víðast hvar í minni hluta þegar kemur að stjórnun fyrirtækja, þær eru í minni hluta í flestöllum ef ekki öllum þjóðþingum heims og svo mætti lengi telja — árið 2016.
Hluti utanríkismálanefndar Alþingis heimsótti japanska þingið fyrir skömmu. Á nánast öllum fundum var að frumkvæði gestgjafanna rætt um jafnrétti en japanska ríkisstjórnin leggur nú áherslu á að bæta jafnrétti í landinu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki bara um mannréttindi fólks, heldur hefur jafnrétti afar jákvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.
Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis. Við getum miðlað af reynslunni og haldið áfram að vera góð fyrirmynd fyrir þjóðir sem eru skemmra á veg komnar en við, en við megum samt sem áður ekki sofna á verðinum.
Dagur sem þessi minnir okkur á það.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi í heimsókn í Washington og heim aftur í vorverkin

Deila grein

18/05/2016

Sigurður Ingi í heimsókn í Washington og heim aftur í vorverkin

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Barack Obama Bandaríkjaforseti áttu samtal í Hvíta húsinu, nánar til tekið í Oval skrifstofunni á föstudaginn. Í lok samtalsins bauð forsætisráðherra Obama að sækja Ísland heim hvenær sem kynni að henta.
13254470_10153747704951676_1613145335636541279_n
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði blómsveig við minnisvarða óþekkta hermannsins við athöfn í Arlington kirkjugarði á laugardagsmorgun. Hinir leiðtogar Norðurlandanna gerðu slíkt hið sama.
13239390_10153749884291676_122712198475944898_n13260048_10153749884191676_4216659426221677602_n
Er heim var komið tóku vorverkin við og þau jafnvel langt komin. Allavegana búið að slóðadraga.
13237857_1359496554065417_4132788992749140287_n13087490_1359496550732084_3959209235002197607_n

Categories
Fréttir

Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Deila grein

18/05/2016

Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum tilfjögurra ára. Þetta er í sjötta sinn sem slík áætlun er lögð fram en markmið hennar er að tilgreina þau verkefni sem brýnust eru talin á sviði kynjajafnréttis.
Framkvæmdaáætlunin er lögð fram samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Skal ráðherra leggja hana fram að fengnum tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón skal höfð af umræðum á jafnréttisþingi. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum skal fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi.
Jafnréttisþing var haldið í fjórða skipti 25. nóvember 2015. Tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016–2019 fylgir skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2013–2015 sem lögð var fyrir jafnréttisþingið.
Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti í framkvæmdaáætluninni.
Í framkvæmdaáætluninni er fjallað um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Gerð er tillaga um úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála þar sem kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýslu jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi.
Miðað er við að á gildistíma áætlunarinnar verði áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja og árangur þeirra metinn. Lögð er áhersla á innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST-85:2012 og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Í framkvæmdaáætluninni er í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmiðiðið er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig öll stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum

Deila grein

18/05/2016

Heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum

Hjálmar Bogi Hafliðason„Hæstv. forseti. Ég fann í fórum mínum þriggja ára gamla ræðu sem mér fannst ástæða til að dusta rykið af, eins og prestar gera. Víða í hinum ýmsu byggðum landsins er skortur á læknum. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Öll viljum við hafa greiðan aðgang að læknisþjónustu og langar mig aftur að benda á ákveðna lausn á því máli.
Á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 2012 var ályktað um dreifbýlislækningar, eða héraðslækningar eins og sumir læknar vilja tala um. Í þeirri ályktun var skorað á heilbrigðisráðherra og stendur, með leyfi forseta:
„… að binda í reglugerð heimild til þess að læknir með sérfræðileyfi geti fengið viðurkennda undirsérgreinina dreifbýlislækningar“ og að skilgreina um leið hvað í því felst.
Fram kemur í greinargerð með ályktuninni að lítil endurnýjun hafi átt sér stað meðal heimilislækna í hinum ýmsu byggðum. Jafnframt sé starf læknis í dreifbýli eða héraði að mörgu leyti frábrugðið læknisstarfinu á mölinni. Fámennið veldur einnig því að vaktabyrði er almennt meiri á strjálbýlum svæðum og fjölbreyttari vandamál sem upp koma á vöktum. Á sama tíma eru minni möguleikar á félagslegum og ekki síst faglegum stuðningi kollega í læknastéttinni.
Það kom einmitt fram á fundi á Akureyri fyrir skömmu. Læknar og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana frá strjálbýlum, norðlægum svæðum í Noregi, Kanada, Svíþjóð og Skotlandi ásamt Íslandi komu þar saman. Þar flutti erindi Roger Strasser, rektor Northern Ontario School of Medicine í Kanada. Hann sagði meðal annars að heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum verði að taka frumkvæði til þess að leysa úr vanda við að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa.
Roger Strasser segir, með leyfi forseta: „Mikilvægast er að taka stjórnina og láta hlutina ganga upp fyrir okkur við okkar aðstæður.“
Síðan árið 2003 hefur Sjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega þátt í menntun lækna. Nú er lag að taka upp nýja námsgrein enda Ísland strjálbýlt land. Nám í dreifbýlislækningum er nefnilega víða viðurkennt. Ég sé fyrir mér uppbyggingu og styrkingu Háskólans á Akureyri í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri vegna þessa og um leið uppbyggingu og styrkingu heilbrigðisstofnana víða um land.
Það er lykilatriði að taka frumkvæði í þessum málum og sýna ábyrgð öllum til heilla alltaf og alls staðar.“
Hjálmar Bogi Hafliðason í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Af hverju eru vextirnir hærri hér á landi

Deila grein

18/05/2016

Af hverju eru vextirnir hærri hér á landi

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Af hverju eru vextir hér á landi miklu hærri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum? Það er meðal annars vegna þess að hér er verðtryggt lánafyrirkomulag á íbúðalánum. Algengasta aðferð við árangursmat er að meta árangur út frá settum markmiðum. Ef við notum þá aðferð við mat á árangri Seðlabankans við að framfylgja peningastefnu má segja að Seðlabankanum hafi tekist vel til, náð toppárangri. Þar er meginmarkmið að halda verðlagi stöðugu og að mæld verðbólga sé alltaf undir 2,5%. Það hefur nú tekist í rúmlega tvö ár og er lengsta samfellda verðstöðugleikatímabil frá því að þessi markmiðsaðferð var tekin upp árið 2001.
Þrátt fyrir þennan markverða árangur verðstöðugleika er það staðreynd að vaxtastig hér er himinhátt í öllum samanburði. Það er sá kostnaður sem heimilin og atvinnulífið bera. Þessi árangur er heimilum og atvinnulífi of dýru verði keyptur. Það er ekki sú framtíðarsýn sem við eigum að bjóða, að við fjármögnum uppsveifluna og rembumst á móti með að viðhalda verðstöðugleika hverju sinni. Sem dæmi þá eru nafnvextir á íbúðalánum í Noregi, með sína sjálfstæðu mynt, á bilinu 1–2%. Munurinn er gríðarlegur en hann þarf ekki að vera svo mikill.
Á opnum fundi með efnahags- og viðskiptanefnd viðurkenndi seðlabankastjóri að stýrivextir bíta ekki sem skyldi hér á landi vegna þess að stór hluti húsnæðislána heimilanna er verðtryggður og tekur mið af neysluvísitölu mældri af Hagstofunni en ekki stýrivöxtum Seðlabankans. Mér finnst þetta stórmerkilegt. Það blasir við að vaxtaokrið er ekki álagning bankanna heldur verðtryggt raunvaxtagólf Seðlabankans. Þessu kerfi verður að breyta. Þessu lánafyrirkomulagi verðtryggingar og vaxta á uppreiknaðan höfuðstól verður að breyta. Kjörtímabilið er ekki búið og það er enn þá tími til að breyta þessu.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans

Deila grein

18/05/2016

Stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það ríkir öfundsvert ástand á Íslandi, finnst mörgum sem búa ekki við sama hagvöxt og við, sem ekki búa við sama litla atvinnuleysið og við, sem ekki búa við sama verðstöðugleika og við. Það er mjög athyglisvert sem fram kemur í útgáfu Seðlabankans í gær að almenningur nýtir það góða svigrúm sem hér er til að lækka skuldir sínar og til að fylgja eftir, eins og Seðlabankinn segir, með leyfi forseta, „árangursríkri skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar“.
Stöðugleikinn á Íslandi birtist líka í öðrum myndum. Hann birtist m.a. í því að sama hvað á gengur er stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans, sem eru allt of háir. Í frétt á mbl.is gaf yfirhagfræðingur Seðlabankans skýringu á því hvers vegna stýrivextir á Íslandi væru hærri en annars staðar. Hann sagði, með leyfi forseta að „verðbólguvæntingar hefðu þráfaldlega verið yfir markmiði hér á landi í gegnum tíðina“.
Það segir ekkert um nútímann. En málið er að verðbólguvæntingar á Íslandi eru helstar þær að verðbólga þarf að lækka og mun lækka m.a. vegna þess að kaupmenn hafa ekki sinnt þeirri siðferðislegu skyldu sinni að skila að fullu lækkun gjalda sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.
Hér segir líka að verðbólga hafi verið undir markmiði hér í tvö ár og að önnur iðnríki glími við allt annan vanda en Seðlabankinn. Þar sé vandamálið að reyna að ýta undir verðbólgu, eins og hér segir. Ef við berum okkur saman við Svíþjóð er hækkun á húsnæðisverði þar líklega enn meiri en hér. Þar er verðbólga með svipuðum hætti og hér, að teknu tilliti til þess að húsnæðiskostnaður er þar ekki inni, eins og víða er í OECD. Til þess að burðast við að laga þetta ástand í Svíþjóð eru menn með -0,5% stýrivexti.
Nú verð ég að spyrja enn einu sinni: Hvað kann seðlabankastjóri Íslands sem seðlabankastjóri Svíþjóðar kann ekki?“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 12.05.2016.