Categories
Fréttir

„Baunabyssur“, viðskiptasaga, rjúpnaveiðitímabilið, leiðréttingin og einangrunnarsinnnar á Alþingi

Deila grein

23/10/2014

„Baunabyssur“, viðskiptasaga, rjúpnaveiðitímabilið, leiðréttingin og einangrunnarsinnnar á Alþingi

Í störfum þingsins í vikunni voru þingmenn Framsóknarflokksins áberandi.
Karl GarðarssonKarl Garðarsson ræddi „baunabyssurnar“ og sagði lögregluna hafa í „haft yfir að ráða skotvopnum í tugi ára“. Þó flestum þingmönnum og jafnvel fyrrverandi ráðherrum hafi yfirsést það. „Við lifum nefnilega ekki í neinu Disneylandi þó að stjórnarandstaðan haldi svo. Hlutverk lögreglu felst ekki bara í því að mæla umferðarhraða eða hjálpa gömlu fólki yfir götu. Við lifum ekki í heimi barnaævintýra þar sem allir eru innst inni vinir þó að einstaka sinnum slettist upp á vinskapinn.“ Karl bætti við að hans mati hafi „bullkvóti ársins hafi verið fylltur í umræðu um þessi mál á þingi í gær“.

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir fór yfir svör við skriflegri fyrirspurn sinni „varðaði skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum“. Viðskiptasaga einstaklinga eru mjög persónulegar upplýsingar sem geta verið viðkvæmar, upplýsingar sem eiga ekki að fara neitt án samþykkis þess er þær varða. Fram kemur í svari fjármálaráðherra að bankar hafi „aðgang að gagnasöfnum upplýsingastofa og í því samhengi má benda á skuldastöðukerfi og vanskilaskrá Creditinfo hf“. Eins fóru öll gagnasöfn með upplýsingum um viðskiptasögu einstaklinga frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana.
„Í þessu samhengi hef ég velt fyrir mér nokkrum þáttum. Hvað varð um stöðu neytandans í þessu máli? Hvað varð um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga?
Gerum okkur grein fyrir að margir íslenskir neytendur á íslenskum heimilum fóru jafnframt illa út úr því sem gerðist hér haustið 2008, m.a. vegna ýmissa þátta innan fjármálakerfisins. Það veit Framsóknarflokkurinn og hann hefur ítrekað bent á þá staðreynd hve erfið staða heimilanna er. Þessa dagana berjast samt sem áður aðilar er samþykktu neyðarlögin, hv. þingmenn er samþykktu neyðarlögin, á móti því að heimilin fái eitthvað að gert í sínum málum og að komið verði á móts við skuldastöðu þeirra. Mér finnst það til skammar.“

Þórunn EgilsdóttirÞórunn Egilsdóttir ræddi rjúpnaveiðitímabilið, er stendur yfir í 12 daga, þar sem má veiða í þrjá daga í senn, frá föstudegi til sunnudags, fjórar helgar í röð, síðasti veiðidagur er 16. nóvember. „Það er ekki víst að veðrið verði veiðimönnum hliðhollt alla daga og því er mikilvægt að huga vel að undirbúningi. Ég hvet alla sem ætla að ganga til veiða að huga vel að þeim undirbúningi. Menn þurfa að þekkja vopnin sín, vita hvað þeir eru með í höndunum, hvernig á að fara með það og gæta varúðar í öllu. Það er mjög mikilvægt að menn kanni landslagið, þekki til staðhátta og láti vita af sér. Áður en farið er af stað er mjög mikilvægt að vera í vatnsheldum skóm með grófum sóla því að maður veit aldrei í hverju maður lendir. Ef maður villist af leið er mjög gott að hafa áttavita, kort og fjarskiptatæki til að láta vita af sér. Þannig er það með mörg verkefni sem við förum í því að það er árviss viðburður að björgunarsveitir eru ræstar út til að bjarga rjúpnaskyttum í vanda. Veiðimönnum ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að fyrirbyggja slíkt. Því er undirbúningurinn það sem öllu máli skiptir og ég hvet okkur til að gæta vel að honum.“

Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir fór yfir leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. „Á sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Það sem ég vil draga fram í dag er að samþykkt tillaga er í tíu liðum. Leiðréttingin sjálf er aðeins einn liður af þessum tíu.
Ég verð að segja að mér finnst dálítið einkennilegt að heyra suma hv. þingmenn sem kenna sig við jöfnuð og réttlæti tala þessa aðgerð niður, gera hana jafnvel tortryggilega. Það er eiginlega bara sorglegt. Þetta gera jafnvel sömu þingmenn og vildu fara í slíkar aðgerðir á síðasta kjörtímabili en án árangurs. Hvað hefur breyst? Eru menn heiðarlegir í málflutningi sínum eða ástunda þeir lélega pólitík? Spyr sá sem ekki veit.“
„Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim hópi þingmanna sem hefur barist fyrir heimilin í landinu. Rökin fyrir leiðréttingunni eru bæði sanngirnisrök og efnahagsleg rök. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 var ráðist í stórar efnahagsaðgerðir. Skuldir fyrirtækja voru færðar að því sem greiðslugeta þeirra sagði til um og gengistryggð lán voru endurreiknuð vegna dóma Hæstaréttar. Þá hafa fjármagnseigendur verið í sterkri stöðu þar sem skuldarar bera verðbólguáhættuna vegna verðtryggingar. Þeir sátu eftir sem skulduðu verðtryggð lán á meðan holskeflan reið yfir.“

Þorsteinn SæmundssonÞorsteinn Sæmundsson vék athygli á hverjir væru hinu einu sönnu einangrunarsinnar á Alþingi. „Árið 1982 var sett á sérsveit á Keflavíkurflugvelli sem hafði yfir að ráða hríðskotavopnum. Af hverju? Vegna þess að hér er alþjóðaflugvöllur. Það kemur kannski úr óvæntri átt en flokkurinn sem ég tilheyri hefur verið sakaður um einangrunartilburði. En hvað mundi það þýða ef við stæðumst ekki kröfur sem alþjóðaflugvellir þurfa að búa yfir? Þá væri hér ekkert millilandaflug. Hverjir eru einangrunarsinnar hér?
Annað er það að hér hafa hreiðrað um sig glæpasamtök sem hafa alþjóðlegar tengingar. Ætlum við að senda lögreglumennina okkar, þetta fólk sem fórnar fjölskyldulífi sínu og öðru, berhenta á vettvang? Er það svo? Höfum við meiri áhyggjur í þessum sal af góðkunningjum lögreglunnar en lögreglunni sjálfri? Á sú stétt sem stóð vörð um þessa stofnun hér þegar hart var í ári það skilið að verið sé að sá fræjum tortryggni í hennar garð í þessu húsi? Ég held ekki, þingmenn góðir.“

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

B – hliðin

Deila grein

22/10/2014

B – hliðin

sigrunmagnusdottir-vefmyndVið eigum marga góða þingmenn og það er Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, sem sýnir okkur B – hliðina í þetta sinn.
Fullt nafn:  Sigrún Magnúsdóttir.
Gælunafn:  Didda (nánast allir hættir að nota það, en gekk undir því í æsku minni).
Aldur:  70 ára.
Hjúskaparstaða?  Gift.
Börn?  2 dætur, svo fékk ég 3 með Páli mínum = 5.
Hvernig síma áttu?  Samsung.
Uppáhaldssjónvarpsefni?  Landinn.
Uppáhalds vefsíður:  Á enga. Sinni því lítið að vafra.
Besta bíómyndin?  Á hverfanda hveli.
Hvernig tónlist hlustar þú á?  Hlusta lítið nema í bílnum. Þjóðlagatónlist.
Uppáhaldsdrykkur:  Kaffi.
Hvað finnst þér best að borða?  Skötuna á Þorláksmessu.
Hvaða lag kemur þér í gírinn?  Frjáls eins og fuglinn.
Ertu hjátrúarfull?  Já… trúi á tölur og tákn.
Hverslags viðfangsefni myndirðu ekki leggja nafn þitt við?  Einelti.
Hver var fyrirmyndin þín á yngri árum?  Pabbi.
Hver er fyrirmyndin þín í dag?  Pabbi.
Hverjir eru sessunautar þínir á Alþingi?  Ásmundur Einar Daðason (hef bara einn).
Hver eru helstu áhugamálin?  Fjölskyldan. Stjórnmál. Handavinna. Þjóðfræði.
Besti vinurinn í vinnunni?  Vigdís og Þórunn.
Helsta afrekið hingað til?  Koma á laggirnar Sjóminjasafni í Reykjavík.
Uppáhalds manneskjan?  Barnabörnin 17.
Besti skyndibitinn?  Harðfiskur með smjöri.
Það sem þú borðar alls ekki?  Ég sniðgeng innflutt hormónakjöt. (Hinsvegar borða ég bæði roð og bein, kæst og sigið ha ha).
Lífsmottóið?  Seigla. Aldrei gefast upp.
Þetta að lokum:
Stolt af flokknum mínum. Ánægð með víðsýni félagana að velja bæði yngstu og elstu konuna sem inn á Alþingi hafa sest vorið 2013. Nánast hálf öld skilur þær að í aldri. Hamingjusöm að hafa fengið þetta tækifæri – að fá að taka þátt í endurreisn landsins. Allt að dafna á ný.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Norðvesturkjördæmi (KFNV)

Deila grein

20/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Norðvesturkjördæmi (KFNV)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar ánægjulegum árangri á mörgum sviðum á fyrsta starfsári núverandi ríkisstjórnar. Má þar nefna:

  • aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna,
  • hallalaus fjárlög,
  • aukinn verðlagsstöðugleika,
  • aukinn kaupmátt heimilanna,
  • lækkun skatta,
  • hækkun barnabóta,
  • aukin framlög í þágu eldri borgara og öryrkja,
  • aukin framlög til heilbrigðismála,
  • aukin framlög til hvatningar rannsókna og nýsköpunar og þannig mætti áfram telja.

Ekki hafa þó allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið unnar með nægjanlega faglegum hætti eða hlotið eðlilegan framgang. Má þar nefna sameiningar heilbrigðisstofnana í þremur heilbrigðisumdæmum, þ.e. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi en þær sameiningar voru keyrðar í gegn án samráðs við heimamenn á hverjum stað og á grundvelli órökstuddra markmiða með einfaldri reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra. Þingið telur með ólíkindum að jafn viðamikil breyting skuli geta verið háð duttlungum og ákvörðun eins manns og lýsir yfir megnri óánægju með hvernig að þessum sameiningum var staðið. Mikilvægt er að sú þjónusta sem veitt var á þeim stofnunum sem sameinaðar voru skerðist ekki frá því sem nú er heldur verði lögð áhersla á að bæta hana þannig að landsmenn njóti sömu grunnþjónustu, óháð búsetu.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði lýsir yfir andstöðu við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á matvæli en með þeirri hækkun er fyrst og fremst vegið að innlendri matvælaframleiðslu og fjöldi starfa á landsbyggðinni sett í hættu. Þeim mun meiri undrun vekur að um leið og álögur á matvæli eins og grænmeti skuli vera hækkaðar leggi fjármálaráðherra til að svokallaður sykurskattur verði felldur niður en þar er um að ræða tekjustofn sem styður við markmið um lýðheilsu og forvarnir. Hækkun virðisaukaskatts á almenn matvæli gengur einfaldlega gegn þeim er lakari hafa kjörin og stríðir gegn stefnu flokksins um jöfnuð og velferð í íslensku þjóðfélagi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar í byggðamálum þar sem lögð er áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Minnir þingið þar sérstaklega á að mjög víða á landsbyggðinni búa íbúar við algjörlega óviðunandi aðstöðu hvað varðar fjarskipti, s.s. aðgengi að ljósleiðara, auk bágra samgangna og ótryggs raforkuöryggis. Auk þess sem veitt verði auknu fjármagni til vegamála í kjördæminu og áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks verði tryggt með framlagi úr ríkissjóði. Sömuleiðis verði staðið við núverandi samgönguáætlun.
Nauðsynlegt er við breytingar á húsnæðislánakerfi að gætt verði að jöfnuði er kemur að aðgengi íbúa landsins að lánsfé til íbúðakaupa og nýbygginga.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði krefst þess að orkukostnaður heimila og fyrirtækja verði jafnaður til fulls.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar áformum um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni sem eðlilegu mótvægi við opinbera þjónustu og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Minnir þingið í því sambandi á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar skipan Norðvesturnefndar og væntir mikils af niðurstöðum hennar. Í kjölfarið verði ráðist í sambærilegar úttektir og tillögugerðir fyrir önnur landssvæði sem glíma við fólksfækkun og veikt atvinnustig, svo sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að vel verði gert við menntastofnanir í kjördæminu og aðrar þær aðgerðir sem hækka menntunarstig íbúa landsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir að fjölbreytileiki í skólastarfi sé lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi. Fjárlög ársins 2015 eru í hróplegu ósamræmi við þessa yfirlýsingu. Þar er boðuð algerlega óásættanleg fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum og verulega þrengt að háskólunum að Bifröst, Hólum og Hvanneyri. Þingið krefst þess að samræmi verði milli orða og efnda þannig að þessar mikilvægu stofnanir geti áfram sinnt hlutverki sínu og treyst undirstöður búsetu og aukna samkeppnisfærni landsbyggðarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði heitir á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að tryggja samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs við fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og búi greininni rekstrarlegan stöðugleika, sérstaklega verði gætt að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þingið hvetur ráðherra til að tryggja að hluti af sértæku veiðigjaldi renni beint til viðkomandi sveitarfélags. Þá skorar þingið á ríkisvaldið að efla rannsóknir á sviði fiskeldis, s.s. burðarþolsmats sem er forsenda þess að atvinnugreinin geti þróast í sátt við umhverfið.
Þingið skorar á ráðherra að bregðast nú þegar við mikilli ýsugengd á grunnslóð sem gerir mönnum ókleift að sækja þorskinn. Ýsan er nú ráðandi í afla bátanna. Ýsukvótinn er í engu samræmi við allt það magn sem er á veiðislóðinni og því nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða strax.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til rannsókna á mögulegum virkjanakostum í kjördæminu sem stuðlað geta að aukinni uppbyggingu fjölbreyttra og vel launaðra starfa. Sérstaklega skal þar horfa til Blönduvirkjunar, Hvalárvirkjunar og mögulegrar nýtingar fallvatnanna í Skagafirði. Tengigjald frá virkjunum verði afnumið í Norðvesturkjördæmi og farið verði nú þegar í hringtengingu raforku og ljósleiðara í Norðvesturkjördæmi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að vekja athygli á og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða um land allt til að dreifa ferðamönnum víðar um landið og draga úr álagi á þá staði sem fjölsóttastir eru. Vinna þarf áfram að lengingu ferðamannatímabilsins svo ferðaþjónusta verði atvinnugrein sem veitt getur starfsfólki vel launaða atvinnu árið um kring og skilað enn auknum tekjum til þjóðarbúsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði minnir á grunngildi flokksins sem eru m.a. byggð á frjálslyndri hugmyndafræði þar sem leitast er við að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt unnið að hugmyndum og lausnum sem miða að því að koma til móts við heimilin, standa vörð um velferðarkerfið, skapa jákvætt umhverfi fyrir atvinnulíf, fjárfestingar og nýta tækifæri sem eru allt í kringum okkur. Með slík grunngildi að leiðarljósi er ljóst að bjartari tímar eru framundan í íslensku samfélagi.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur

Deila grein

16/10/2014

Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur

AMEJómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur á Alþingi, flutt í störfum þingsins 15. október sl.:
„Herra forseti. Ég fagna því að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 sé gert ráð fyrir því að fjármagn vegna úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis verði gert varanlegt, en fram til þessa hefur fjárframlagið verið tímabundið og þannig heft skipulagt starf Barnahúss til lengri tíma. Ég tel að með ráðningu tveggja sérfræðinga í Barnahús, sem tillaga samráðshóps um samhæfða framkvæmd stjórnvalda til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi hljóðar upp á, fái þolendur kynferðisofbeldis þá aðstoð sem nauðsynleg er til að þeir geti unnið úr málum sínum.
Eins og við vitum öll er atburðurinn ekki tekinn til baka heldur þurfa þeir sem fyrir ofbeldinu verða að læra að lifa með því um ókomna tíð. Það er staðreynd að þeir sem lenda í áföllum af mannavöldum eru í mikilli hættu á að þjást af áfallaröskun. Fyrir þá sem ekki vita er áfallaröskun einkenni um andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar áfalls og skaða sem lýsir sér í endurupplifun atburða, vantrausti á öðrum, hræðslu við umhverfi, skömm, sektarkennd, sjálfsásökunum og lágu sjálfsmati. Slík röskun getur því, ef ekki er gripið til aðgerða strax, haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar seinna á lífsleiðinni með tilheyrandi auknum heilbrigðiskostnaði.
Í skýrslu Barnaverndarstofu þar sem bornir eru saman fyrstu sex mánuðir ársins 2013 og 2014 kemur fram að þrátt fyrir fækkun rannsóknarviðtala á árinu 2014 um 40% hefur greiningar- og meðferðarviðtölum fjölgað um 15%. Erfitt er þó að leggja mat á þessar tölur þar sem fjölgun rannsóknarviðtala á árinu 2013 var slík að ekki var hægt að veita viðeigandi úrræði til allra sem eftir þjónustunni leituðu.“

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

10 staðreyndir um leiðréttinguna

Deila grein

16/10/2014

10 staðreyndir um leiðréttinguna

leidrettingin-sigmundurHér eru 10 staðreyndir um leiðréttinguna:

  1. Leiðréttingin snýst um sanngirni og réttlæti, að lántakendur sem urðu fyrir forsendubresti í kjölfar hrunsins fái stökkbreytt lán sín leiðrétt.
  2. Leiðréttingin mun bæta hag heimilanna, minnka greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar.
  3. Heildarumfang leiðréttingarinnar og séreignarsparnaðarleiðarinnar eru um 150 milljarðar fyrir heimilin í landinu.
  4. Yfir 90% heimila með verðtryggð húsnæðislán sóttu um leiðréttingu. Þessi mikla þátttaka staðfestir að landsmenn voru sammála því að leiðrétta þyrfti verðtryggð húsnæðislán í kjölfar þess fjármálaáfalls sem dundi yfir.
  5. Framkvæmd leiðréttingarinnar er á áætlun og landsmenn munu sjá endurútreikning sinna lána á haustmánuðum.
  6. Tæplega helmingur fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 6 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 250 þúsund krónur í mánaðarlaun.
  7. Um 60% fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 8 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 335 þúsund í mánaðarlaun.
  8. Bankaskatturinn, sem nemur upphæð leiðréttingarinnar, var margfaldaður og undanþága þrotabúa var afnumin. Þar með er í fyrsta skipti lagður skattur á þrotabú föllnu bankanna. Vissulega fer skatturinn inní ríkissjóð og leiðréttingin útúr ríkissjóð á móti, það er eðlilegt ferli.
  9. Leiðréttingin er almenn aðgerð og dreifist jafnar á tekjuhópa en fyrri úrræði gerðu.
  10. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tilkynnt að fylgst verði með framkvæmd leiðréttingarinnar og hvort í henni felist ríkisaðstoð til banka. Það er af og frá að svo sé. Miðað er að því að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðilum vegna greiðslu leiðréttingarhluta láns.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

Deila grein

09/10/2014

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna (LFK) telur afar mikilvægt að lýðheilsusjónarmið séu umfram allt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu frumvarps sem lagt hefur verið fram um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Frumvarpið brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda frá því í janúar sl. í áfengis og vímuvörnum þar sem markmiðin eru, m.a:

  • Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
  • Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.
  • Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.

Framkvæmdastjórn LFK bendir á, í þessu sambandi, að alþjóðlegum rannsóknum ber saman um að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar neyslu þess og að samhliða aukinni áfengisneyslu mun samfélagslegur kostnaður aukast vegna neyslutengdra vandamála þeirra sem neyta áfengis.
Framkvæmdastjórn LFK skorar því á alþingismenn, alla sem einn, að huga að fyrrnefndum atriðum við afgreiðslu frumvarpsins.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Deila grein

08/10/2014

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum, því hann bætti við sig embættum forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra voru erlendis á ráðstefnum. Og þá var Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, einnig staddur erlendis og var því Sigurður Ingi staðgengill forsætisráðherra einnig einn af þremur handhöfum forsetavalds um stundarsakir.
Sigurður Ingi hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga og eru hér að neðan slóðir á ýmis viðtöl við hann sem gott er að deila áfram á flokksmenn og aðra stuðningsmenn flokksins.
eyjan.is – Sigurður Ingi hjólar í Kastljós: „Talið við kartöflubændur, talið um hver hefur ráðið markaðnum þar“
Í bítið – “Kerfið er í endurskoðun”, landbúnaðarráðherra ræddi MS málið
Kastljós – Vissi ekki um tengsl Ólafs
Fréttir RÚV – Flutningi Fiskistofu ekki breytt
Sprengisandur – Fór með rangt mál
Sprengisandur – Ver ekki samkeppnisbrot
 
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

Deila grein

07/10/2014

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

logo-suf-forsidaStjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir fullum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og gerir alvarlegar athugasemdir við rangfærslur Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Athugasemdir við stjórnarsamstarfið byggja á rangfærslum
Athugasemdir SUS við stjórnarsamstarfið virðast ýmist byggðar á rangfærslum eða pólitískum öfgum. Svo dæmi sé tekið hafa Framsóknarmenn ekki lagst gegn komu verslunarkeðjunnar Costco, til landsins, þeir hafa þvert á móti fagnað möguleikanum á aukinni samkeppni í matvöruverslun. Framsóknarmenn hafa hins vegar hafnað því að landslögum sé breytt að kröfu eins fyrirtækis án frekari skoðunar. Ungir sjálfstæðismenn virðast hins vegar tilbúnir til að láta kröfur stórfyrirtækja ráða því hvernig lög landsins líta út.
Framsóknarmenn hafa heldur ekki lagst gegn skattalækkunum. Þvert á móti hafa þeir lýst efasemdum um hækkun neðra þreps virðisaukaskatts og viljað fá staðfestingu á því að heildarálögur á almenning, sérstaklega þá tekjulægri, komi til með að lækka með breytingum á skattkerfinu eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lagt áherslu á.
Þá lýsir Samband ungra framsóknarmanna yfir mikilli ánægju með skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar sem er til þess fallin að létta byrðar þeirra sem urðu fyrir forsendubresti með verðtryggð húsnæðislán sín eftir hrunið 2008 og þannig koma til móts við þann hóp sem setið hefur eftir.
Það er dapurlegt að sjá andstöðu ungra sjálfstæðismanna við að heimili landsins fái í einhverjum mæli að njóta þeirra afskrifta sem þegar hafa farið fram á lánum til heimilanna þegar þau voru færð milli fjármálastofnanna m.a. undir handleiðslu ríkisins. Samband ungra framsóknarmanna sér ástæðu til að benda á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var ósammála SUS um þetta eins og margt annað, enda er það undarlegt viðhorf að fjármálakerfið eigi að hafa heimili landsins að féþúfu og innheimta að fullu lán sem þegar hafa verið færð niður.
Ungir sjálfstæðismenn hverfi frá öfgafullri hugmyndafræði
Samband ungra framsóknarmanna lýsir áhyggjum af þeirri öfgakenndu hugmyndafræði sem fram kemur í nýsamþykktri stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna sem virðist gegnsýrð af óheftri nýfrjálshyggju.
SUF fordæmir þær hugmyndir sem þar koma fram um einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfisins og bendir á að sagan hefur fyrir löngu afsannað þá bábilju að frjálshyggjan sé besta jafnréttisstefnan. Óheft nýfrjálshyggja og einkavæðingarstefna í þeim anda sem fram kemur í stefnu SUS hefur aldrei leitt til samfélagslegra framfara eða bættra kjara fyrir almenning.
Skammt er að minnast þess að SUS lagði fram fjárlagatillögur byggðar á svipuðum grundvelli undir yfirskriftinni „Sýnum ráðdeild“.
Í tillögunum lýsa ungir sjálfstæðismenn vilja sínum til að leggja niður jafnréttissjóð, Jafnréttisstofu, Raunvísindastofnun Háskólans,Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Launasjóð listamanna, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Rannsóknarsjóð, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Fornleifavernd ríkisins, Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun, Verkefnasjóð sjávarútvegsins, Siglingastofnun og Flugmálastjórn, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga svo dæmi séu tekin.
Þá leggur SUS til að greiðslum til sérframlaga í fæðingarorlofssjóð, mæðra- og feðralauna, mannréttindamála, skógræktar, landgræðslu og þjóðgarðsins á Þingvöllum verði hætt og að Ísland leggi niður Þróunarsamvinnustofnun, hætti allri þróunaraðstoð og reyni þess í stað að auka velmegun í þróunarríkjum með því að ýta undir alþjóðaviðskipti.
Samband ungra framsóknarmanna telur ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af því að ungliðahreyfing stærsta stjórnmálaflokks landsins sé föst í viðjum svo öfgakenndrar hugmyndafræði og skorar á SUS að hverfa frá henni.

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

06/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október lýsir ánægju með góðan árangur sem náðst hefur í stjórn landsmála á því rúma ári sem liðið er frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum undir forsæti Framsóknarflokksins. Flestir mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Það er ekki tilviljun. Þeirri stöðu hefur verið náð með forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur almenna flokksmenn og sveitarstjórnarmenn til að halda á lofti þessum góða árangri, sérstaklega núna þegar hillir undir að leiðrétting húsnæðislána nái fram að ganga. Höfuðstólsleiðréttingin og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar mun lækka greiðslubyrði og hækka ráðstöfunartekjur. Hraða verður vinnu við afnámi verðtryggingar á neytendalánum og afnámi hafta.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur ríkisstjórnina til að gera betur í málefnum hinna dreifðu byggða. Hraða skal uppbyggingu háhraðanets og annarar grunnþjónustu sem krafist er í nútímasamfélagi, þar með talin þriggja fasa rafmagns.
Þá fagnar kjördæmisþingið áformum ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Mjög hefur hallað á hana í þeim efnum á undanförum árum og fáir hreyft mótmælum þegar opinber störf hafa verið lögð niður á landsbyggðinni. Því kemur hin mikli órói, vegna áforma um flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu, á óvart. Þar er um jákvætt skref að ræða og eru stjórnvöld eindregið hvött til að halda áfram á þessari braut.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október  leggur þunga áherslu á umferðaöryggi, styttingu vegalengda og viðhald vega svo að allir komist um landið með öruggum og greiðum hætti. Viðhaldi og uppbyggingu hafna er ábótavant og nauðsynlegar úrbætur eru brýnar, s.s. á Suðurnesjum og uppbygging Þorlákshafnar sem inn- og útflutningshafnar. Brýnt er að halda áfram rannsóknum við Landeyjarhöfn og Hornafjörð.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Mikilvægt er að samráð sé haft við heimamenn þegar ráðist er í breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Standa þarf vörð um grunnþjónustu í heilbrigðismálum kjördæmisins, s.s. uppbyggingu hjúkrunarheimila.
Þingið leggur áherslu á að fundnar verði leiðir til að efla næringarvitund í átt að bættri lýðheilsu, með því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Góð lýðheilsa er beinn sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að menntasetur í kjördæminu verði efld og þeim tryggður rekstrargrundvöllur. Það er nauðsynlegt að gera fólki kleift að stunda nám heima í héraði.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur stjórnvöld til að stuðla að aukinni matvælaframleiðslu. Hagræðing innan greinarinnar hefur skilað neytendum miklu á undanförnum árum, en hún má ekki verða á kostnað eðlilegri samkeppni.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október fagnar áformum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að leggja fram frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkar breytingar mega þó ekki þrengja að samkeppnis- og rekstrarhæfni greinarinnar. Tryggja verður fyrirsjáanleika í greininni, slíkt eykur byggðafestu og treystir stöðu sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum. Þá hvetur kjördæmisþingið stjórnvöld til að tryggja hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindum hafsins er renni aftur heim í hérað, s.s. í uppbyggingu hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að hlúð verði að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í kjördæminu, einkum þó á Suðurnesjum og Skaftafellssýslum. Þingið hvetur til að vandað verði til uppbyggingar í ferðaþjónustu og lýsir yfir stuðningi við fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október minnir á að standa beri vörð um náttúru Íslands. Um leið er rétturinn tryggður til að njóta hennar. Mikilvægt er að huga að sjálfbærri nýtingu til heilla fyrir samfélagið allt og komandi kynslóðir.
Þingið fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um aukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og hvetur til þess að sem fyrst verði hafist handa við að vinna eftir þeim áformum.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Jafnréttisráðstefna karla í New York

Deila grein

01/10/2014

Jafnréttisráðstefna karla í New York

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssamband framsóknarkvenna hefur fylgst náið með þróun kynjajafnréttisumræðunnar sem helst hefur birst undanfarið í átakinu HeforShe og vill þess vegna vekja athygli á frumkvæði utanríkisráðherra Íslands, Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem hann boðaði í ræðu sinni á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í vikunni, að Ísland og Súrínam muni halda málþing um kynjajafnréttismál í New York í janúar á næsta ári.
Framkvæmdastjórnin hefur því sent frá sér eftirfarandi ályktun:
„Framkvæmdarstjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir ánægju sinni með frumkvæði utanríkisráðherra á sviði kynjajafnréttis. Jafnréttisráðstefna karla, sem utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hefur boðað, verður haldin í janúar á næsta ári á vettvangi sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan mun án efa vekja heimsathygli. Framkvæmdastjórnin fagnar því einnig að ráðstefnunni sé sérstaklega ætlað að beina kastljósinu að ofbeldi gegn konum sem birtist sem dagleg ógn margra kvenna í heiminum. Það er ennfremur fagnaðarefni að nú fái karlar tækifæri til þess að tala saman og láta sig þetta mikilvæga málefni varða. Að lokum vill framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna benda á að það er afar jákvætt að íslenskir karlar séu í fararbroddi í undirskriftum vegna HeForSe átaksins í heiminum.“
Framkvæmdastjórn LFK vill hvetja alla karla til þess að skrifa undir á slóðinni: www.heforshe.org
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.