Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína á Alþingi í gær, 10. september. Forsætisráðherra sagði að bjartsýni, kjarkur og þor væru forsendur framfara og árangurs.
„Náttúra Íslands minnir stöðugt á hve krefjandi það er að búa í landi elds og íss. Þeir kraftar sem takast nú á í iðrum jarðar og brjótast fram á hálendinu eru í senn stórfenglegir og ógnvekjandi. Hugur margra leitar þá til þeirra tíma þegar forfeður okkar þurftu að kljást við afleiðingar slíkra náttúruhamfara með mun minni bjargir en við þekkjum í dag. Það er því mjög ánægjulegt að sjá hve framúrskarandi vísindamönnum Ísland hefur á að skipa og hve mikið og gott starf hefur verið unnið á sviði almannavarna. Allt þeirra starf eykur mjög öryggi okkar í því ófyrirsjáanlega umhverfi sem náttúra landsins býr okkur.
En þrátt fyrir þessar hættur náttúrunnar erum við Íslendingar svo heppnir að búa í landi sem er í senn ægifagurt og gjöfult með gnægð auðlinda. Hvort sem litið er til jarðnæðis, vatns, hreinleika eða möguleika til matvælaframleiðslu eru fáar þjóðir í heiminum sem búa við jafn rík tækifæri frá náttúrunnar hendi og við. Landið sér okkur fyrir nægri umhverfisvænni orku og úr fegurð og aðdráttarafli náttúrunnar og auðlindum sjávar verða til gríðarleg verðmæti. Mannauður okkar og hugvit bætir sífellt við þau verðmæti enda vinnur nú stærri hluti þjóðarinnar að rannsóknum en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu.
Sé litið til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í efsta sæti við mat á öryggi og friði og jafnrétti kynjanna. Raunar hefur það sýnt sig að í alþjóðlegum samanburði á þeim kostum sem lönd búa yfir er Ísland gjarnan í hópi þeirra efstu, hvort sem spurt er hvar best sé að búa í heiminum, um stöðu lýðræðis, um réttindi ólíkra hópa, frelsi fjölmiðla, árangur af heilbrigðisstefnu eða um stöðugustu ríki heims. Slíkur samanburður er ekki algildur en veitir þó mikilvæga vísbendingu um það hversu góð lífsskilyrði við búum við“, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í stefnuræðu sinni sem flutt var á Alþingi í gær.
Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, var með ræðu í annarri umferð stefnuræðu forsetisráðherra.
„Eftir 15 mánaða setu ríkisstjórnarinnar hefur orðið algjör viðsnúningur hér á landi. Það er hlutverk stjórnvalda að forgangsraða í ríkisrekstri og ráðstafa skattfé í grunnstoðir samfélagsins. Samtímis og ráðist var í sparnaðaraðgerðir og forgangsröðun fyrir fjárlagaárið 2014 var stefnan sett á hallalaus fjárlög í fyrsta sinn um langa hríð og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2015 er gert ráð fyrir afgangi.
Vinnan gengur afar vel.
Þessi agi eykur traust á landi og þjóð – innan lands sem utan – og er sérstaklega mikilvægt að sýna þetta aðhald fyrir lánardrottna ríkisins því að eitt af forgangsmálunum er að greiða niður skuldir til að ná himinháum vaxtagjöldum ríkisins niður. Stóra málið er, eins og minnst hefur verið á hér í kvöld, losun gjaldeyrishafta og samningar við kröfuhafa og áríðandi er að vel takist til því að allt er undir í því máli. Því eru afar mikilvægir tímar fram undan fyrir okkur öll og áríðandi að standa saman þjóðinni til heilla.
Þessi vinna er langhlaup og krefst aga, festu og framsýni. Víða má spara, sameina og hagræða. Það krefst kjarks og dugs að leggja til og fylgja eftir breytingum á kerfi sem hefur byggst upp í áratugi. Almenni vinnumarkaðurinn fæst við slíka endurskoðun á hverjum degi og því er brýnt að sækja fordæmi og þekkingu þangað. Einnig er nauðsynlegt að auka og auðvelda streymi vinnuafls frá hinu opinbera inn á almenna vinnumarkaðinn því að þar verða hinar raunverulegu skatttekjur til með verðmætasköpun.
Bjartsýni, von og trú á íslenskt samfélag hefur náð rótum á ný, þ.e. fyrir utan það sem framtíðarsýn hv. þm. Árna Páls Árnasonar hefur að segja. Hann kom hér fram og sá allt svart í kvöld en það verður að bíða betri tíma að útskýra fyrir hv. þingmanni í hverju þetta felst. Staðfesta og skýr framtíðarsýn skiptir sköpum. Segja má að fjárlög hvers árs séu takmörkuð auðlind. Ofnýting hennar, stöðug framúrkeyrsla kemur niður á komandi kynslóðum. Sviðið allt verður að skoða með heildarsýn að leiðarljósi en ekki einblína á einstaka, afmarkaða þætti. Ef bætt er í fjármagni á einum stað verður að færa það frá öðrum minna mikilvægum málaflokkum til að vera innan fjárlagaramma með forgangsröðun að leiðarljósi“, sagði Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt var á Alþingi í gær.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, var með ræðu í þriðju umferð stefnuræðu forsetisráðherra.
„Samfélagið er þeir sem byggja það, lifa í því og trúa á það. Viljinn til breytinga lá í hjarta þessa samfélags fyrir ári þegar gengið var til kosninga. Langlundargeð þjóðar eftir réttri forgangsröðun var búið. Breytinga var þörf og að taka á vandamálum sem lá fólki næst. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði unnið að því ötullega síðastliðið ár og nokkrum vikum betur. Það var þreytt þjóð árið 2013 sem fór í kjörklefann, þreytt á hruni, þreytt á bið, þreytt á rifrildi meðal stjórnarflokka, skorti á lausnum og hún var orðin óþolinmóð. Ríkisstjórnin átti erfitt verk fram undan en tók strax til við uppbygginguna. Það er þó ekki hægt að laga hlutina á einu ári eða einni nóttu. Unnið hefur verið mikið og vel á einu ári og er ég þess fullviss að lausnirnar eru góðar.
Góðir landsmenn. Það er viðurkennt að sú ákvörðun að taka ekki skuldir fallinna einkabanka var grunnurinn að því að við stöndum svo framarlega í dag. Mistökin voru þau að lán heimilanna sátu eftir, en nú erum við að leiðrétta það. Leiðréttingin er komin til framkvæmda eftir umsóknatímabil þar sem gríðarlegur áhugi var hjá þjóðinni þrátt fyrir úrtöluraddir og almenna neikvæðni stjórnarandstöðunnar. Leiðrétting á skuldum heimilanna er mun áhrifaríkari leið til þess að bæta hag þeirra en þær fálmkenndu aðferðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili. En saman sköpum við jákvæða hvata, aukið traust og trú á samfélag okkar, traust til þess að framkvæma það sem þarf til að tryggja framtíðaríbúum eyjunnar okkar velmegun og farsæld.
Sérstakir fjármunir hafa verið veittir í verkefni sem voru einna mest aðkallandi í heilbrigðis- og löggæslumálum og störfum hefur verið skilað til landsbyggðarinnar. Breytingarnar eru sjáanlegar, munu koma áfram í ljós á næstu mánuðum og árum. Þá gefa hallalaus fjárlög fyrirheit um betri tíma í framtíðinni“, sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt var á Alþingi í gær.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.