Categories
Fréttir Greinar

Árangurssögur í efnahagsmálum

Deila grein

15/04/2024

Árangurssögur í efnahagsmálum

Sam­fé­lagið okk­ar er eitt sam­vinnu­verk­efni. Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á að fjár­festa í fólki vegna þess að fjár­fest­ing í mannauði skil­ar sér í auk­inni hag­sæld og vel­sæld í sam­fé­lög­um líkt og hagrann­sókn­ir sýna. Rík­is­stjórn Íslands hef­ur á und­an­förn­um árum sann­ar­lega fjár­fest í fólki, for­gangsraðað í þágu auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar og náð ár­angri á fjöl­mörg­um sviðum, þar með talið efna­hags­mál­um, þrátt fyr­ir þau innri og ytri áföll sem á vegi henn­ar hafa orðið. Í því sam­hengi er áhuga­vert að skoða þróun nokkra lyk­il­stærða í þjóðarbú­skapn­um á und­an­förn­um árum. Í fyrsta lagi hef­ur hag­vöxt­ur á síðustu þrem­ur árum verið 20%, sem er það mik­ill vöxt­ur að það er ekki mögu­legt að bera hann sam­an við önn­ur ríki. Til dæm­is eru Dan­ir að horf­ast í augu við nei­kvæðan hag­vöxt, eng­inn hag­vöxt­ur er að ráði í Evr­ópu og helst er litið til Banda­ríkj­anna eft­ir ein­hverj­um hag­vexti í nán­ustu framtíð. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur ein­mitt ný­lega lýst því sem miklu áhyggju­efni að þessi ára­tug­ur muni ein­kenn­ast af stöðnun í heims­bú­skapn­um.

Í öðru lagi er at­vinnu­stig mjög hátt en at­vinnu­leysi nem­ur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mik­il og það eru fá þjóðríki þar sem fullt at­vinnu­stig er ráðandi yfir langt tíma­bil. Eitt það mik­il­væg­asta í sam­fé­lag­inu okk­ar er að all­ir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virk­an þátt í sam­fé­lag­inu okk­ar, eflt at­vinnu­lífið og und­ir­byggt aukna verðmæta­sköp­un sem nýt­ist meðal ann­ars til að fjár­festa enn frek­ar í fólki.

Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skipt­ir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyr­ir verðbólgu und­an­far­inna miss­era höf­um við Íslend­ing­ar séð kaup­mátt launa aukast veru­lega und­an­far­in 10 ár. Nýir lang­tíma­kjara­samn­ing­ar eru góð tíðindi fyr­ir áfram­haldið og glím­una við verðbólgu, þar skipt­ir aðkoma stjórn­valda miklu máli.

Í fjórða lagi lang­ar mig til að benda á það að hrein er­lend staða þjóðarbús­ins er óvenju sterk eða sem nem­ur um 40% af lands­fram­leiðslu. Fyr­ir um 20 árum var staðan nei­kvæð um 80%. Við vor­um í gríðarleg­um erfiðleik­um með að halda já­kvæðum gjald­eyr­is­forða en hann var iðulega tek­inn að láni sem reynd­ist mik­il áskor­un fyr­ir þjóðarbúið. Kröft­ug ferðaþjón­usta hef­ur meðal ann­ars drifið þessa þróun áfram ásamt öfl­ug­um sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, hug­verk­um og vexti í skap­andi grein­um sem hef­ur skilað sér inn í hag­kerfið okk­ar. Sam­hliða þessu hef­ur gjald­eyr­is­markaður­inn dýpkað á sama tíma og hef­ur dregið úr sveifl­um. Til dæm­is er það merki­legt að jarðhrær­ing­arn­ar á Suður­nesj­um hafi ekki orðið til þess að krón­an hafi sveifl­ast mikið þótt eitt­hvert flökt hafi verið í fyrstu. Of­an­greint ber vitn­is­b­urð um góður ár­ang­ur sem við get­um verið stolt af. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar fram á veg­inn verður að ná niður verðbólgu og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta í þágu heim­ila og fyr­ir­tækja. Pen­inga­stefn­an, rík­is­fjár­mál­in og vinnu­markaður­inn eru far­in að ganga í takt, sem mun skila ár­angri fyr­ir sam­fé­lagið og und­ir­byggja betri lífs­kjör á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Góðar að­gerðir skila árangri, en meira þarf til

Deila grein

12/04/2024

Góðar að­gerðir skila árangri, en meira þarf til

Í gær mælti Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir frumvarpi sem veitir lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í félögum þar sem meginstarfsemin er langtímaleiga íbúðarhúsnæðis til einstaklinga. Ég fagna þessu frumvarpi enda hef ég áður í ræðu og riti bent á mikilvægi þess að veita lífeyrissjóðum rýmri heimild til fjárfestinga á húsnæðismarkaði og taka þátt í því mikilvæga verkefni að byggja hér upp traustan leigumarkað. Þá hefur það verið mér mikið kappsmál að benda á leiðir til þess að ná tökum á stöðunni á húsnæðismarkaði. Það er afar brýnt svo hægt sé að ná tökum á verðbólgunni til lengri tíma. Þessi heimild sem nú hefur verið mælt fyrir nú er einn liður í þeirri vegferð.

Auknar forsendur fyrir fjárfestingu

Lengi hefur verið rætt um skort á leiguhúsnæði á Íslandi ásamt fjölbreyttari úrræðum á húsnæðismarkaði. Með því að veita lífeyrissjóðum heimild til þess að fjárfesta í leiguhúsnæði skapast auknar forsendur fyrir því að lífeyrissjóðir beini fjármagni í fjárfestingu á leiguhúsnæði og er til þess fallið að halda aftur af verðhækkunum á fasteignamarkaði. Aukið framboð af leiguhúsnæði fjölgar valmöguleikum einstaklinga til að finna sér hentugt búsetuform. Þá eru fjársterkir langtímaeigendur mjög ákjósanlegir kaupendur að húsnæði og það eitt kann að flýta fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði.

Markviss skref

Lengi hefur verið kallað eftir að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Sigurður Ingi vann að því marki sem innviðaráðherra og þá ráðherra húsnæðismála. Það var meðal annars gert með framlagningu húsnæðisstefnu en þar er um að ræða fyrstu heildarstefnu í húsnæðismálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til 5 ára. Með stefnunni má stuðla að skilvirkari stjórnsýslu þannig að stefna, áherslur og aðgerðir í húsnæðismálum skapi skilyrði til að öllum sé tryggt aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins. Það frumvarp sem mælt var fyrir í gær er í samræmi við þá stefnu.

Alls hafa níu frumvörp sem eru hluti aðgerðanna í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu verið í vinnslu í ráðuneytinu eða hafa verið lögð fram á Alþingi. Frumvörpin styðja við þau markmið sem stefnan byggir á. Þá hafa ýmsar aðrar aðgerðir komið til framkvæmda og má þar nefna að alls eru 2.643 nýjar leiguíbúðir komnar í notkun af þeim 3.486 íbúðum sem hafa fengið stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum á síðustu átta árum. Langflestar íbúðanna, eða um 2.227 eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa 806 íbúðir verið fjármagnaðar í hlutdeildarlánakerfinu, sem er nýtt kerfi og er leið fólks til að komast inn á fasteignamarkaðinn sem á ekki, eða á erfitt með að safna fyrir fullri útborgun en getur greitt mánaðarlegar afborganir. Skilyrðin eru að vera kaupa íbúð í fyrsta skipti eða að hafa ekki átt íbúð síðustu 5 ár.

Það er augljóst að hið opinbera hefur á undanförnum árum verið að gera sitt til að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og óumdeilt að án styrkrar forystu Framsóknar í uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis fyrir tekju- og eignalitla væri staðan mun verri fyrir þá hópa sem hér er um rætt.

Það þurfa allir að dansa með

Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði. Við vorum á réttri leið, en það hefur komið bakslag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á lóðum á nýjum svæðum, vaxtaumhverfis og hertra lánþegaskilyrða. Með öðrum orðum; það vantar lóðir, lánsfjármagn er orðið mjög dýrt sem hefur letjandi áhrif á framkvæmdaaðila og það hefur verið gert fólki erfiðara um vik að komast í gegnum greiðslumat vegna hertra lánþegaskilyrða. Þetta er eitraður kokteill í núverandi ástand þar sem nauðsynlegt er að byggja til að anna eftirspurn.

Halda má því fram að Seðlabankinn hafi á undanförnu hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að komast út á markaðinn á sama tíma og hann hefur tafið fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Það er kominn tími til að vakna.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. apríl 2024.

Categories
Fréttir

Áframhaldandi stjórnarsamstarf á traustum grunni

Deila grein

09/04/2024

Áframhaldandi stjórnarsamstarf á traustum grunni

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafa sammælst um áframhaldandi samstarf þar sem eftirfarandi mál verða í öndvegi í ríkisstjórn í öðru ráðuneyti Bjarna Benediktssonar:

  1. Efnahagsmál.
    Allt kapp verður lagt á að ná niður verðbólgu og styðja við nýgerða kjarasamninga og koma nýsamþykktum stuðningsaðgerðum stjórnvalda við kjarasamninga til framkvæmdar hið fyrsta. Stöðugleiki í efnahagsmálum, vaxandi velsæld, aukinn kaupmáttur og lækkun verðbólgu og vaxta verða í forgrunni. Ríkisrekstur verður einfaldaður, stofnanir og sjóðir sameinaðir og þjónusta bætt. Áfram verður unnið að bættum kjörum barnafjölskyldna og lágtekjuhópa, m.a. með áframhaldandi úrbótum í húsnæðismálum og endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.
  2. Innflytjendamál.
    Tekið verður utan um málefni innflytjenda í samræmi við heildarsýn stjórnvalda. Dregið verður markvisst úr kostnaði vegna hælisleitendakerfisins/umsækjenda um alþjóðlega vernd og ráðist í gerð nýrra heildarlaga um útlendinga. Lögð verður áhersla á inngildingu innflytjenda í íslenskt samfélag, þ.m.t. í skólum og unnið að nýjum heildarlögum um inngildingu.
  3. Orku- og loftslagsmál.
    Orkuframleiðsla verður aukin, virkjanaferlið einfaldað og valkostum í grænni orkuframleiðslu fjölgað svo styðja megi við orkuskipti og atvinnuuppbyggingu. Náttúruverndarsjónarmið verða höfð að leiðarljósi við sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Til að styðja við orkuskipti í samgöngum í þágu loftslagsmála verður m.a. lokið við uppfærslu samgöngusáttmála. Unnið verður að betri nýtingu í raforkukerfinu og skilvirkni aukin í þágu loftslagsaðgerða. Haldið verður áfram með endurskoðun rammaáætlunar.

„Þetta er það skynsamlegasta sem við getum gert, til þess að koma samfélaginu áfram inn í þann stöðugleika sem við þurfum til þess að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við ætlum að styðja áfram við þá öflugu verðmætasköpun sem er í landinu og við erum á góðum stað, með öflugan þingmeirihluta og traustan málefnagrunn,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Fjármálaráðuneytið er undir stjórn Framsóknar í fyrsta sinn í 45 ár eða frá því Tómas Árnason gegndi því embætti frá 1. september 1978 til 15. október 1979.

Yfirlit yfir fjármálaráðherra Framsóknarflokksins:

  • Tómas Árnason frá 1. september 1978 – 15. október 1979
  • Halldór E. Sigurðsson frá 14. júlí 1971 – 28. ágúst 1974
  • Eysteinn Jónsson frá 24. júlí 1956 – 23. desember 1958
  • Eysteinn Jónsson frá 8. september 1954 – 24. júlí 1956
  • Skúli Guðmundsson frá 14. apríl 1954 – 8. september 1954
  • Eysteinn Jónsson frá 11. september 1953 – 14. apríl 1954
  • Eysteinn Jónsson frá 14. mars 1950 – 11. september 1953
  • Eysteinn Jónsson frá 28. júlí 1934 – 17. apríl 1939
  • Ásgeir Ásgeirsson frá 3. júní 1932 – 28. júlí 1934
  • Ásgeir Ásgeirsson frá 20. ágúst 1931 – 3. júní 1932
  • Tryggvi Þórhallsson frá 20. apríl 1931 – 20. ágúst 1931
  • Einar Árnason frá 7. mars 1929 – 20. apríl 1931
  • Tryggvi Þórhallsson frá 8. desember 1928 – 7. mars 1929
  • Magnús Kristjánsson frá 28. ágúst 1927 – 8. desember 1928
  • Klemens Jónsson frá 18. apríl 1923 – 22. mars 1924
Categories
Fréttir Greinar

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Deila grein

04/04/2024

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Íslenskt menn­ing­ar­líf hef­ur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða ver­öld. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hef­ur verið al­mennt breið sátt um það að hlúa að menn­ing­ar­líf­inu með því að fjár­festa í list­námi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrót­ar­sam­tök í menn­ing­ar­líf­inu og skapa vett­vang fyr­ir lista­menn til þess að hlúa að frumsköp­un. Þar hafa starfs­laun lista­manna þjónað sem mik­il­vægt verk­færi til að efla menn­ing­ar­starf í land­inu. Lista­manna­laun í ein­hverju formi eru rót­grón­ari en marg­an grun­ar, en saga þeirra nær allt aft­ur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skálda­laun. Um­gjörð þeirra var fyrst form­gerð með laga­setn­ingu árið 1967 þegar lög um lista­manna­laun voru samþykkt og síðar voru upp­færð árin 1991 og 2009.

Árleg­ur kostnaður við lista­manna­laun er 978 millj­ón­ir króna. Til að setja þá tölu í sam­hengi er um að ræða 1,5% af út­gjöld­um til há­skóla­stigs­ins og 0,06% af fjár­lög­um árs­ins 2024.

Ný­verið voru kynnt­ar til­lög­ur til breyt­inga á lista­manna­laun­um þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skref­um til árs­ins 2028, en eng­ar breyt­ing­ar hafa átt sér stað á kerf­inu í 15 ár. Eru boðaðar breyt­ing­ar gerðar í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem fram kem­ur í stjórn­arsátt­mála, að unnið skuli að því að styrkja fag­lega starfs­launa- og verk­efna­sjóði lista­manna. Þær eru því eðli­legt skref og for­gangsraðað verður í þágu þeirra á mál­efna­sviði menn­ing­ar­mála inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins. Í breyt­ing­un­um felst meðal ann­ars að komið verði á fót tveim­ur nýj­um þverfag­leg­um sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyr­ir lista­menn und­ir 35 ára aldri, og Veg­semd, sjóði fyr­ir lista­menn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sér­stak­lega við unga lista­menn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu inn­an sinn­ar list­grein­ar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagn­rýni sem heyrst hef­ur, að lít­il nýliðun sé inn­an kerf­is­ins. Að sama skapi er Veg­semd sér­stak­ur, þverfag­leg­ur sjóður fyr­ir eldri lista­menn sem hafa varið sinni starfsævi til list­sköp­un­ar.

Ég tel eðli­legt að við stönd­um með lista­fólk­inu okk­ar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menn­ing eitt­hvað sem sam­ein­ar okk­ar – sér­stak­lega þegar vel geng­ur. Öll fyll­umst við til að mynda stolti þegar ís­lensk­um lista­mönn­um geng­ur vel á er­lendri grundu og kast­ljós um­heims­ins bein­ist að land­inu vegna þess. Dæmi er um lista­menn sem hlotið hafa eft­ir­sótt­ustu verðlaun heims á sínu sviði sem á ein­hverj­um tíma­punkti þáðu lista­manna­laun á ferli sín­um til þess að vinna að frumsköp­un sinni. Ísland er auðugra og eft­ir­sótt­ara land fyr­ir vikið, fyr­ir okk­ur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

GREIÐUM VEGINN

Deila grein

03/04/2024

GREIÐUM VEGINN

Jarðgöng bæta samgöngur

Það má með sanni segja að páskahretið hafi haft mikil áhrif á ferðalög landsmanna síðustu daga. Víða voru vegalokanir með tilheyrandi vandkvæðum fyrir þá sem þurftu að komast leiðar sinnar. Það er mjög skiljanlegt að umræður um jarðgöng verði háværari þegar vegir lokast í lengri tíma. Ég tek undir þá umræðu og tel afar brýnt að ávallt séu í gangi framkvæmdir við jarðgöng á hverjum tíma, ef ekki tvenn. Jarðgöng eru mikilvæg fyrir samfélagsuppbyggingu á hverjum stað, eins og dæmin sanna og geta skipt sköpum fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni svo ekki sé minnst á öryggið.

Beðið er eftir mörgum göngum

Undanfarin fjögur ár hefur ekki verið unnið að neinum göngum og mikilvægt að tímabil stöðnunar verði rofið. Samgönguáætlun er til umfjöllunar hjá Alþingi og viðbúið að það þurfi að hægja á einhverjum framkvæmdum til þess að draga úr þenslu og ná niður verðbólgu. Niðurskurður er ekki í kortunum en áhersla á forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun verður í því ljósi.  Þegar því tímabili er lokið, sem verður vonandi sem fyrst er mikilvægt að endurskoða samgönguáætlun og hefja framkvæmdir af fullum krafti. Mikilvægir jarðgangakostir eru víða um land, en óhætt er að fullyrða að þörfin sé brýnust á Tröllaskaga, Austfjörðum og á Vestfjörðum. Um liðna helgi var Öxnadalsheiði lokuð og  umferðinni vísað um Tröllaskaga og umferðarteppa myndaðist við Múlagöng þar sem umferðarstjórn var tekin upp.  Ófært var til Seyðisfjarðar fimm daga í röð, en um er að ræða erfiðan fjallveg sem er í töluverðri hæð yfir sjó. Fjöldi ferðamanna sem kom með Norrænu sat fastur auk þess sem ekki var mögulegt að koma með aðföng til bæjarins. Það er mikil mildi að ekki komu upp alvarleg atvik eða veikindi á þessum tíma þar sem næsta víst er að erfitt hefði verið að bregðast við.  

Það er að mörgu að hyggja en ég fagna því að undirbúningur er hafinn vegna gangna í gegnum Almenninga, frá Siglufirði yfir Fljót þar sem segja má að Siglufjarðarvegur sé ekki á vetur setjandi.  Hér er um að ræða göng sem mikilvægt er að komist sem fyrst í gagnið. Með þeim má koma á góðum og öruggum samgöngum milli Fljóta, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Til að bæta við óskalistann þá myndi það einnig auka verulega umferðaröryggi ef ráðist yrði í ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og undir Öxnadalsheiði. Að mínu mati þarf að huga að því í alvöru hvort setja ætti slíkar framkvæmdir í einkaframkvæmd, með það að markmiði að hraða framkvæmdum.

Gjaldtaka

Til að ná árangri í jarðgangagerð þarf að ráðstafa auknu fjármagni til undirbúnings. Ferlið er flókið og tekur langan tíma. Til þess að hraða uppbyggingu og viðhald samgönguinnviða þarf nýja nálgun. Nú er unnið að greiningu á gjaldtöku í vegasamgöngum og beðið er eftir tekjumódeli fyrir jarðgöng á Íslandi frá verkefnastofu sem er á vegum fjármálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins. Það er hægt að færa rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að hafa hófsama gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi, við þekkjum það hér á svæðinu. Með þeim hætti er hægt að hraða uppbyggingu jarðganga en hafa sanngirni fyrir íbúa að leiðarljósi og haga gjaldtöku þannig að þeir sem þurfa að fara oftar greiði lægra gjald en hinn almenni ferðamaður.

Svo er rétt að minnast á það að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu í fyrra við bandaríska fyrirtækið EarthGrid um möguleika á notkun kyndilborunar á Íslandi, m.a. á jarðgöngum fyrir umferð. Mikilvægt er að kanna hvort slík tækni er raunhæfur kostur á Íslandi en prófanir á tækninni standa nú yfir.

Það sem mestu munar er að við þurfum að halda áfram við að bæta vegakerfið, með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 3. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrsta lands­á­ætlun Ís­lands um sjald­gæfa sjúk­dóma

Deila grein

03/04/2024

Fyrsta lands­á­ætlun Ís­lands um sjald­gæfa sjúk­dóma

Skömmu fyrir páska skilaði vinnuhópur á vegum Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, drögum að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Landsáætlun er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga og aðstandendur þeirra sem falla undir skilmerki um sjaldgæfa sjúkdóma.

Sjaldgæfir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á aðstandendur og eykst álagið með versnandi sjúkdómi og miklu varðar að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma. Oft og tíðum hefur verið talað um hversu flókið það getur verið að afla sér upplýsinga og fá viðeigandi þjónustu. Með þessari landsáætlun eru nú lagðar fram tillögur sem fela í sér umtalsverðan sparnað í vinnuframlagi þeirra fjölmörgu sem að koma við greiningu á sjaldgæfum sjúkdómum ásamt tillögum sem minnka álag á sjúklinga og aðstandendur. Nóg er það fyrir.

Skýr heildarsýn

Í landsáætluninni er fjallað um fimm áhersluþætti og dregnar fram helstu áskoranir, tillögur til úrbóta og væntan ávinning af framkvæmd þeirra. Áherslurnar eru eftirfarandi:

  • Stuðla að hraðri og öruggri greiningu hjá þeim sem grunur er um að hafi sjaldgæfan sjúkdóm.
  • Tryggja aðgengi að meðferð og eftirfylgd sem taki mið af þörfum notenda.
  • Sjá til þess að þjónusta sé samfelld.
  • Bæta daglegt líf þeirra sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma.
  • Vinna að góðri skráningu og samræmdum kóða fyrir sjúkdóma og meðferð.

Hópurinn leggur einnig til að stórefla Miðstöð sjaldgæfra sjúkdóma við Landspítalann með því að miðstöðin verði miðja þekkingar, greininga og heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra. Áhersla er lögð á að einfalda núverandi þjónustukerfi þannig að hægt sé að sækja þekkingu og þjónustu sem mest á einum stað. Enn fremur er lagt til að upplýsingar um sjaldgæfa sjúkdóma, réttindi, þjónustu o.fl. verði gerðar sem aðgengilegastar þannig að hægt sé að nálgast þær á einum stað.

Líta verður á áætlunina sem viðmið fyrir varanlegar breytingar fyrir sjaldgæfa sjúkdóma. Sjaldgæfir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að greining, meðferð, endurhæfing og eftirfylgd krefst sérhæfðar þekkingar og mikillar þverfaglegrar samvinnu sem nær út fyrir heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan mikilvægi þess að hafa þjónustu sem þessa til staðar þá getur áætlun sem þessi sparað töluverðan kostnaður í heilbrigðiskerfinu og þjóðfélaginu almennt með markvissari þjónustu við þau sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra

Mikilvægt framfaraskref

Það er afar mikilvægt er að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til þess að bregðast við sjaldgæfum sjúkdómum svo að þeir sem greinast með þá verði ekki hornreka í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar Evrópu eru sjaldgæfir sjúkdómar (e. orphan diseases) sjúkdómar sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá fimm eða færri af hverjum 10.000 manns á EES-svæðinu. Þekking á þessum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir á þeim takmarkaðar og lækning fjarlæg. Með þessari landsáætlun, sem er mikið framfaraskref, er verið að styrkja umgjörðina um þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra, ásamt því að tryggja að betur sé fylgst með öllum sjaldgæfum sjúkdómum og séð til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nýjustu þekkingu í meðferðum við þeim.

Um leið og ég fagna þessari góðu vinnu sem ég veit að skiptir gríðarlegu máli fyrir þá sem hana snertir, þá er mikilvægt að fylgja henni vel eftir og tryggja að þær aðgerðir sem þar eru lagðar til komist til framkvæmda.

Ágúst Bjarni Garðarssonþingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn í heil­brigðis­kerfinu

Deila grein

02/04/2024

Fram­sókn í heil­brigðis­kerfinu

Fyrir síðustu kosningar var heilbrigðiskerfið mikið til umfjöllunar enda stærsta sameiginlega verkefni þjóðarinnar. Verkefni heilbrigðiskerfisins eru ærin og þurfa stöðugrar skoðunar við og þar má aldrei slá slöku við hvorki í umbótum, þróun eða nýsköpun. Við í Framsókn vorum tilbúin til að taka við heilbrigðisráðuneytinu og það var heilla skref að Willum Þór Þórsson var valinn Heilbrigðisráðherra. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa borist margar jákvæðar fréttir úr heilbrigðiskerfinu og langar mig að draga nokkrar þeirra saman á einn stað, þótt aðeins verði stiklað á stóru.

Samningar tryggja jafnt aðgengi

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er kveðið á um að hið opinbera skuli tryggja öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Eftir áralangt samningsleysi við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Síðastliðið sumar var loks gengið frá samningum við sérfræðilækna sem höfðu verið samningslausir allt frá árinu 2019, með þessum samningum lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga sem hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Þessi samningur styrkir umgjörð um starfsemi sérfræðilækna og stuðlar að framþróun þjónustunnar ásamt því að tryggja aðgengi að henni.

Þá var annar tímamótasamningur gerður á síðasta ári þegar 24 ára stöðnun var rofin með þriggja ára samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og tannréttingasérfræðinga. Þar með sköpuðust forsendur til að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannréttingum og voru styrkir til almennra tannréttinga nær þrefaldaðir. Þessir samningar fylgja eftir markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu.

Biðlistar styttast

Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga lýðheilsutengdum aðgerðum í þeim tilgangi að tryggja tímanlegt aðgengi að þjónustunni, stytta biðlista og bæta þannig skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Hér er um að ræða aðgerðir líkt og liðskiptaaðgerðir, aðgerðir á augasteinum, kvennaaðgerðir s.s. vegna endómetríósu, sem og ýmsar hrygg- og efnaskiptaaðgerðir. Segja má að þessar aðgerðir séu liður í viðhaldi góðrar lýðheilsu. Aðgerðir af þessu tagi geta verið undirstaða lífsgæða, tryggt virkni einstaklinga jafnt í lífi og starfi og því mikilvægt að þeir sem þurfa á þeim að halda þurfi ekki að bíða.

Í þessu samhengi má nefna að aldrei hafa verið framkvæmdar jafn margar valkvæðar liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám eins og árið 2023 en þær voru samtals 2.138. Aukningin nam tæpum 60% á milli ára en aðgerðum fjölgaði um rúmlega 800. Þá fór meðalbiðtími eftir liðskiptaaðgerð úr 9,5 mánuðum í 4,6 mánuði á Landsspítala á árinu 2023. Megináherslan hefur verið að ná niður biðlistum, stytta bið sjúklinga eftir aðgerðum og tryggja aðgang óháð efnahag. Hér er mikilvægt að halda því til haga að stefnan er að tryggja öllum þjónustuna sem á þurfa að halda en ekki að fjölga aðgerðum utan opinberra stofnanna og því síður að einkavæða þjónustu.

Þetta eru ekki einu biðlistarnir sem þurft hefur að ná niður. Með breyttu skipulagi og auknu fjármagni hefur tekist að stytta verulega biðtíma barna eftir göngudeildarþjónustu hjá barna- og unglingadeild Landsspítalans (BUGL). Biðtími á BUGL var orðin óásættanlegur en að jafnaði biðu um 100-130 börn eftir þjónustu og þurftu þau oft að bíða mánuðum saman. Undir lok janúarmánaðar voru 26 börn sem biðu og biðin eftir þjónustu innan við einn og hálfur mánuður. Starfsfólk BUGL á hrós skilið fyrir ómetanlega vinnu sem hefur gert þetta kleift.

Áframhaldandi umbætur

Það er stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra og farið hefur verið í ýmsar aðgerðir sem miða að því markmiði. Má þar nefna breytingar á reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda innanlands sem fjölgar endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár. Þá hefur greiðsluþáttöku verið komið á vegna aðgerða til að fjarlægja brjóstapúða sem komið hefur verið fyrir í fegrunarskyni ef það telst vera læknisfræðilega nauðsynlegt. Vinnuhópur hefur mótað drög að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Henni er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Þá hefur ráðherra skipað starfshóp til að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Eins og sjá má er brugðist við á fjölbreyttum sviðum og í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.

Ekki er hægt að slá botninn í þessa grein án þess að nefna hjúkrunarheimilin. En heilbrigðisráðherra hefur með samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Nú er áformað að ríkið leigi húsnæði af aðilum sem þá sjá þá alfarið um að byggja, viðhalda og reka húsnæðið. Rekstur húsnæðis gæti þá orðið óháður þeim sem veitir hjúkrunarþjónustuna. Hjúkrunarþjónustan verður eftir sem áður ýmist veitt af fyrirtækjum í velferðarþjónustu og sveitarfélögum samkvæmt þjónustusamningum við ríkið, eða af ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Áskorunin er að hraða uppbyggingu hjúkrunarrýma vegna vaxandi þarfar og til að tryggja þjónustu við aldraða á réttum stað og á réttum tíma

Eins og ég sagði í upphafi er aldrei hægt að slá slöku við í heilbrigðismálum en hér að framan hef ég nefnt nokkra mikilvæga áfanga sem hafa náðst á kjörtímabilinu, með öflugri forystu og í góðri samvinnu við fólkið sem starfar í kerfinu af fagmennsku og ósérhlífni.

Við í þingflokki Framsóknar munum áfram halda okkar manni við efnið og vitum að keppnismaður eins og Willum Þór mun halda áfram við umbætur í heilbrigðiskerfinu af fullum krafti út kjörtímabilið.

Líneik Anna Sævarsdóttir, situr í velferðarnefnd Alþingis og er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Kröfur ríkisins til þing­lýstra eigna

Deila grein

02/04/2024

Kröfur ríkisins til þing­lýstra eigna

Það er óhætt að segja að framkomnar þjóðlendukröfur fjármála- og efnahagsráðherra í allar eyjar og sker umhverfis landið sem eru ofan sjávar á stórstraumsfjöru hafi vakið gríðarlega mikil viðbrögð almennings. Sveitarstjórnarfólk víða um land hefur verulegar áhyggjur af málinu og segir kröfulýsinguna vera gríðarstórt inngrip í mat á eignarrétti og framtíðarsýn fjölmargra íbúa og landeigenda um land allt. Auk þess hefur borið á gagnrýni að ekkert samráð hafi verið haft við eigendur þessara eyja. Í staðinn fyrir samráð eða póst frá óbyggðanefnd fréttu eigendur af kröfunni í gegnum fjölmiðla. Þá eru flestar eyjar sem kröfurnar beinast að þinglýstar eignir einstaklinga, sveitarfélaga og annarra aðila og í sumum tilvikum hefur ríkið selt eyjar sem það ætlar nú að taka aftur til sín.

Hefði þurft grófara sigti

Upphaflegur tilgangur með setningu laga um þjóðlendur var að leysa úr ágreiningi sem ríkt hafði í áratugi um eignarhald á hálendisvegum landsins eða þau svæði sem lengst hafa verið nefnd afréttir og almenningar. Þvert á upphaflegar áætlanir eru þessar kröfulýsingar ríkisins nú að skapa óvissu þar sem engin óvissa var fyrir, auk þess sem þær leggja stein í götu hugmynda einkaframtaks um framkvæmdir og sköpun, enda ná þessar kröfur inn á byggð svæði. Þessi mál taka öllu jafnan tvö ár hjá óbyggðanefnd og eftir það er hægt að skjóta úrskurðinum til dómstóla með tilheyrandi töfum til jafnvel fjölda ára. Það segir sig sjálft að öll fjárfesting á þessum svæðum er í uppnámi á meðan.

Að mínu mati er nú fulllangt seilst frá upphaflegum markmiðum laganna. Nú þegar er verið að sækjast eftir landsvæðum þar sem nú eru m.a. fasteignir. Svæði sem rúmast innan deiliskipulags sveitarfélaga. Það er eðlilegt að fólk sé ósátt því að ljóst er að þetta mun hafa töluverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarstjórnir og eigendur þessara landsvæða. Þessar hugmyndir óbyggðanefndar hefðu þurft að fara í gegnum mun grófara sigti auk þess sem horfa hefði mátt á gömul skjöl sem nú þegar eru til staðar. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir óþarfaupphlaup. Hér er jafnvel um að ræða eyjar þar sem búseta var eða hefur verið um margar aldir og flestar metnar til fasteignaverðs.

Kröfur að ósekju?

Á sama tíma kemur fram í fréttum að ríkið hafi í tæp tíu ár reynt að hafa þinglýstar eignir af bændum í Syðri – Fljótum, en samkvæmt opinberum kortasjám er ríkið búið að eigna sér stóran hlut af þeirri jörð og ber fyrir sig að Landgræðslan eigi landið. Þessai deila auk þeirra varna sem eigendur eyja og skerja þurfa nú að há við ríkið sæta furðu. Í öllum slíkum málum er mikilvægt að gætt sé að jafnvægi og að ríkið fari ekki fram með offorsi gagnvart einstaklingum. Ég tek undir áhyggjur landeiganda á þessari þróun og tel mikilvægt að staldrað verði við og verklagið endurskoðað.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Deila grein

01/04/2024

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Í ágætri bók eft­ir Nicholas Waps­hott, sem ber titil­inn „The Sphinx“, er fjallað um bar­átt­una sem Frank­lin D. Roosevelt, fv. for­seti Banda­ríkj­anna, háði gegn ein­angr­un­ar­hyggju í aðdrag­anda seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Ein­angr­un­ar­sinn­ar voru al­farið á móti því að Banda­rík­in sendu herafla til að verja lýðræðis­ríki í Evr­ópu. Meðal helstu and­stæðinga Roosevelts var vin­ur hans Joseph P. Kenn­e­dy, viðskipta­jöf­ur og sendi­herra, ásamt ein­stak­ling­um á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Banda­rík­in, hið nýja heimsveldi, ætti ekk­ert er­indi í stríðsátök hand­an Atlants­hafs­ins. Þessi saga rifjaðist upp fyr­ir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Banda­ríkj­un­um tala fyr­ir ein­angr­un­ar­hyggju, sem er ekki já­kvætt fyr­ir frið, vel­sæld og alþjóðaviðskipti.

Blik­ur á lofti í alþjóðaviðskipt­um

Allt er í heim­in­um hverf­ult og tíma­bil alþjóðavæðing­ar, eins hún hef­ur birst eft­ir seinni heims­styrj­öld, virðist mögu­lega hafa runnið sitt skeið. Hlut­fall vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ings á heimsvísu náði há­marki árið 2008 og hef­ur síðan þá farið lækk­andi. Heims­hag­kerfið hef­ur séð mik­inn vöxt í viðskipta­hindr­un­um síðastliðinn ára­tug. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur sýnt fram á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% á næst­unni, ef viðskipta­hindr­an­ir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á og sporna við til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í ver­öld­inni.

Auk­inn ófriður á heimsvísu og meiri skipt­ing viðskipta eft­ir póli­tískri hug­mynda­fræði hef­ur leitt af sér mikla fjölg­un í viðskipta­hindr­un­um. Sam­kvæmt Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum voru sett­ar alls 3.000 viðskipta­hindr­an­ir á síðasta ári, sem er þreföld­un frá ár­inu 2019. Saga hag­fræðinn­ar hef­ur kennt okk­ur að þegar viðskipti þjóða drag­ast sam­an, þá versna lífs­kjör. Ekk­ert þjóðríki hef­ur ávinn­ing af því að skipta hag­kerfi heims­ins í fylk­ing­ar. Þess vegna skipt­ir sam­vinna þjóða og alþjóðasam­starf svo miklu máli.

Hag­sæld Íslands grund­vall­ast á alþjóðaviðskipt­um

Íslend­ing­ar stunduðu um­fangs­mik­il viðskipti á sinni gull­öld (930-1262), fundu Norður-Am­er­íku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aser­baís­j­an. Sagna­rit­ar­arn­ir varðveittu germanska menn­ing­ar­arf­inn og sam­in voru ein­stök bók­mennta­verk, líkt og Íslend­inga­sög­urn­ar og aðrar bók­mennta­perl­ur. Á þess­um tíma ríkti bók­mennta­leg há­menn­ing á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skap­andi greina í Norður-Atlants­hafi. Mik­il viðskipti voru við Græn­land og þaðan komu dýr­grip­ir a borð við fálka, rost­ungstenn­ur og ná­hval­stenn­ur. Þetta blóma­skeið leið und­ir lok á 13. öld þegar inn­an­land­sófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið ein­angraðist frá Evr­ópu og á end­an­um glataði það sjálf­stæði sínu. Eft­ir svarta­dauða versnuðu lífs­skil­yrði veru­lega og náði sú þróun há­marki á 18. öld, þegar hver hung­urs­neyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhrær­ing­um. Dansk­ir ráðamenn töldu jafn­vel skyn­sam­legt að flytja alla Íslend­inga til Dan­merk­ur. Ein­angr­un lands­ins hafði gríðarleg áhrif á þessa nei­kvæðu þróun og eins það, að eign­ar­hald á ut­an­rík­is­viðskipt­um hvarf frá lands­mönn­um.

Sá mikli kraft­ur sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hef­ur verið aflvaki þess að lífs­kjör hundraða millj­óna manna hafa batnað. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um. Um leið og Ísland hóf aft­ur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og auðsæld. Tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagði sitt af mörk­um í þess­ari sam­felldu fram­fara­sögu, skilaði auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi fyr­ir tæp­um fjór­um ára­tug­um. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Ein­angr­un­ar­sinn­ar sækja í sig veðrið

Á síðustu öld hafa Banda­rík­in verið leiðandi í frjáls­um viðskipt­um en síðustu miss­eri hafa stjórn­völd verið að hverfa af þeirri braut. Mik­il skaut­un hef­ur ein­kennt alla póli­tíska umræðu og óvenju­breið spjót hafa tíðkast milli Demó­krata og Re­públi­kana í umræðunni um rík­is­fjár­mál, jafn­rétt­is­mál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verka­fólk í Banda­ríkj­un­um hef­ur borið skarðan hlut frá borði vegna hnatt­væðing­ar, sem hef­ur fal­ist í því að mikið af banda­rísk­um störf­um flutt­ist til ríkja þar sem launa­kostnaður var mun lægri. Raun­laun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna hús­næðis og mennt­un­ar hef­ur vaxið mikið. Þessi þróun hef­ur leitt af sér óþol gagn­vart vax­andi hnatt­væðingu í Banda­ríkj­un­um. Hins veg­ar er hægt að láta alþjóðaviðskipt­in vinna fyr­ir allt sam­fé­lagið, ef vilj­inn er fyr­ir hendi. Stjórn­mál­in hafa því síðustu miss­eri ein­beitt sér að því að flytja störf aft­ur heim. Mun harðari inn­flytj­enda­stefna var tek­in upp og hef­ur sett þrýst­ing á vinnu­markaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hef­ur verið lævi blandið í sam­skipt­um tveggja stærstu hag­kerfa heims­ins, Kína og Banda­ríkj­anna. Stjórn­völd beggja ríkja hafa mark­visst unnið að því að gera efna­hags­kerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hag­stæð fyr­ir lítið opið hag­kerfi eins og Ísland er. Til að hag­sæld auk­ist áfram á Íslandi er afar mik­il­vægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort held­ur fyr­ir vör­ur eða þjón­ustu.

Í upp­hafi grein­ar­inn­ar fór ég aft­ur í sög­una og fjallaði um þá ein­angr­un­ar­hyggju sem ein­kenndi banda­ríska stjórn­má­laum­ræðu á 4. ára­tugn­um. Roosevelt var mik­ill vandi á hönd­um, því hann taldi úti­lokað annað en að styðja við for­sæt­is­ráðherr­ann og fé­laga sinn Winst­on Churchill og lýðræðis­rík­in í Evr­ópu. Öll vit­um við í dag að aðkoma Banda­ríkj­anna og liðsauki þeirra við banda­lags­ríki sín skipti sköp­um í að hafa sig­ur á Hitler og banda­mönn­um hans. Umræðan í Banda­ríkj­un­um í dag er keim­lík þeirri sem var á 4. ára­tugn­um og munu næstu for­seta­kosn­ing­ar ráða miklu um þróun ör­ygg­is- og varn­ar­mála í Evr­ópu og Mið-Aust­ur­lönd­um. Far­sæl sam­vinna ríkja varðar veg­inn fyr­ir áfram­hald­andi vel­sæld og ör­yggi á heimsvísu. Sag­an sjálf sýn­ir okk­ur það líkt og rakið hef­ur verið hér að ofan.

Pásk­arn­ir eru hátíð trú­ar og birt­unn­ar. Birtu­hluti sól­ar­hrings­ins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími von­ar og upprisu. Von­andi fer að birta til í alþjóðamál­um. Gleðilega páska!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Eftir­liti með snyrtistofum á­bóta­vant

Deila grein

28/03/2024

Eftir­liti með snyrtistofum á­bóta­vant

Í kastljósi á RÚV á þriðjudag var fjallað um eftirlit með snyrtistofum vegna hugsanlegs mansals og eftirlits með fagmenntun þeirra sem starfa þar. Snyrtifræði er löggild iðngrein hér á landi og er varin í lögum um handiðnað. Á grundvelli þeirra laga ber lögreglu að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laganna. Það er ljóst að lítið sem ekkert eftirlit er haft með snyrtistofum hér á landi og réttindum þeirra sem þar starfa. Hvað þá eftirlit með öðrum ólöglegum athæfum líkt mansali sem er öllu alvarlegri og athæfi sem aldrei á að líða.

Í vetur hef ég lagt fram fyrirspurnir til dómsmálaráðherra á Alþingi um eftirlit með snyrtistofum hér á landi sem staðfestir umfjöllunina um vöntun á eftirliti. Í svari við fyrirspurn minni kom fram að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur lögreglan á síðastliðnum þremur árum haft til rannsóknar tvær snyrtistofur vegna brota á lögum um handiðnað, á grundvelli ábendingar, en í báðum tilvikum var rannsókn hætt. Ekki var svarað hversu mörgum snyrtistofum lögreglan hefur haft eftirlit með til þess að kanna hvort starfsmenn uppfylli skilyrði þess að starfa sem snyrtifræðingar í samræmi við lög um handiðnað, og gefur svarið vísbendingu um hversu virkt eftirlitið er.

Verjum lögverndaða iðnmenntun

Þeir snyrtifræðingar sem starfa hér á landi hafa sótt sér menntun og reynslu samkvæmt þeim stöðlum sem settir hafa verið. Þá menntun ber að virða líkt og aðra iðnmenntun. Okkur ber líka einnig að fagna erlendum iðnmeisturum sem koma hingað til lands og sannarlega eru með fagmenntun til slíkra starfa. Þá er nauðsynlegt að heilbrigðiseftirlitið og vinnueftirlitið skerpi á eftirlitinu og að staðfest sé með einhverjum ferlum að þeir sem starfi í greininni séu með löggildingu í faginu.

Lélegt eftirlit með snyrtistofum vekur einnig upp spurningar hvort sama sé upp á teningnum þegar kemur að eftirliti öðrum iðngreinum sem falla undir lög um handiðnað. Á undanförnum árum hefur eftirspurn aukist hér á landi eftir iðnaðarfólki og öllum vinnandi höndum á því sviði verið fagnað. En það þarf að fylgja eftir með eðlilegu eftirliti þannig að iðnaðarfólk sem fyrir eru geti treyst því að sömu kröfur séu gerðar til allra sem starfa í faginu og ekki síst til þess að önnur ólögleg starfsemi fái síður að blómstra hér á landi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2024.