Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í fyrri umferð og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í seinni umferð.
„Til að tryggja að börn nái almennri farsæld og árangri á eigin forsendum þurfum við að vinna alla uppbyggingu næstu kynslóðar í kringum einstaklinginn sjálfan, í kringum börnin sjálf,“ sagði Ásmundur Einar í ræðu sinni og hélt áfram: „Þau eiga ekki að þurfa að passa inn í fyrir fram ákveðna kassa. Þessu þarf að vera öfugt farið; kerfin, menntakerfið og öll þjónustan sem við byggjum upp þarf að passa börnunum, að þau sem þurfa stuðning fái hann og þau sem geta flogið hærra verði efld til þess.“
„Við viljum og munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu risastóra en mikilvæga verkefni“
Ásmundur Einar sagði mikilvægt að ráðist yrði í breytingar í menntakerfinu. Sagði hann breytingarnar tengjast lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna.
„Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til þess að sameina skóla sameininganna vegna. Nú eða hagræða hagræðinganna vegna. Heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu.“
Ásmundur Einar sagði ástæðurnar fyrir breytingunum vera þær að of mörg börn og ungmenni næðu ekki fullnægjandi námsárangri, ættu ekki vini eða liði ekki nógu vel.
„Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld.“
Ræða mín í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Það er gífurleg uppspretta orku og ástríðu að fá að fylgjast með því…
Posted by Ásmundur Einar Daðason on Miðvikudagur, 13. september 2023
Ræða Ásmundar Einars í heild sinni á Alþingi:
„Kæru landsmenn. Í störfum mínum sem mennta- og barnamálaráðherra fæ ég að hitta mikinn fjölda fólks sem starfar daglega með börnum og ungmennum hér á landi. Ég verð að segja að það er gífurleg uppspretta orku að fá að fylgjast með því öfluga starfi sem fram fer um allt land í þessu efni, að finna kraftinn í frumkvöðlum og ástríðufólki sem vinnur ótrúlega vinnu með okkar mikilvægustu borgurum. Til að tryggja að börn nái almennri farsæld og árangri á eigin forsendum þurfum við að vinna alla uppbyggingu næstu kynslóðar í kringum einstaklinginn sjálfan, í kringum börnin sjálf. Þau eiga ekki að þurfa að passa inn í fyrir fram ákveðna kassa. Þessu þarf að vera öfugt farið; kerfin, menntakerfið og öll þjónustan sem við byggjum upp þarf að passa börnunum, að þau sem þurfa stuðning fái hann og þau sem geta flogið hærra verði efld til þess.
Um þetta snúast einmitt lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna. Innleiðing þessara laga er gríðarlega umfangsmikil og til að mynda í síðustu viku komu hátt í 1.000 manns saman í Hörpu til að fara yfir stöðu innleiðingarinnar. Það er mikilvægt að þetta gangi vel því að í þeim skugga sem kassar hinna ólíku kerfa skapa grasserar ójöfnuður og mismunun og það er þar sem ástríðufullt starfsfólk örmagnast, frumkvöðlar, börn og fjölskyldur sem með réttum stuðningi hefðu getað blómstrað.
Kæru landsmenn. Af öllu því sem við gerum er skólakerfið ekki bara mest stefnumótandi til framtíðar heldur eru gæði þess og styrkur það langmikilvægasta sem við gerum til að tryggja farsæld næstu kynslóðar. Þar er lagður grunnur að því hvert við stefnum og hvers konar samfélag við viljum byggja upp. Opinber stefnumörkun í menntun er mjög afgerandi í því að tryggja eigi góða menntun og jafnræði barna. Til að ná þessum markmiðum höfum við síðan lagt línurnar um hvaða breytingar þurfa að verða á menntakerfinu til ársins 2030. Það var gert með róttækri menntastefnu sem unnin var í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra og samþykkt var hér á Alþingi.
En af hverju markaði menntastefnan ákveðnar breytingar á menntakerfinu? Af hverju þarf að ráðast í breytingar? Ástæðan er einföld: Það eru því miður blikur á lofti. Þrátt fyrir fögur orð og metnað til margra ára í menntakerfinu er staðan sú að of mörg börn og ungmenni ná ekki fullnægjandi námsárangri, eiga ekki vini eða líður ekki nógu vel. Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld, alveg öfugt við þau gildi sem við höfum í hávegum og þau orð sem fram koma í lögum og stefnum.
Kæru landsmenn. Það er á okkar ábyrgð að bæta úr þessari stöðu, á minni ábyrgð sem mennta- og barnamálaráðherra, á ábyrgð ríkisstjórnar og raunar Alþingis alls. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að við byggjum hvert barn hér á landi upp með farsæld, framfarir og seiglu að leiðarljósi, að öll börn njóti sömu tækifæra. Það er á okkar ábyrgð að styðja við kennara og annað frábært starfsfólk sem vinnur með börnunum okkar á hverjum einasta degi. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að menntun, sem nú á tímum er dýrmætustu réttindi hvers samfélags, skili sér raunverulega til þeirra sem réttinn eiga. Til þess að ná því þurfum við breytingar á skólakerfinu, breytingar sem ekki verða gerðar í afmörkuðum kössum hver í sínu horni heldur í samvinnu.
Kæru landsmenn. Nokkur umræða hefur skapast um stöðu framhaldsskólanna síðustu vikur. Ég fagna þessari umræðu og að gefnu tilefni vil ég segja að þær aðgerðir sem unnið er að miða í öllu að því að bregðast við þessari stöðu sem ég hef hér rakið; þeirri staðreynd að of mörg börn eru ekki að ná fullnægjandi árangri og farsæld. Í þessu verkefni erum við að sjálfsögðu háð þeim ramma, þeim fjárheimildum og verkfærum sem úthlutað hefur verið til verkefnisins og það er ekkert leyndarmál að staðan í ríkisfjármálum hefur sett okkur ákveðnar skorður. Tímarnir eru hins vegar að breytast og ótrúlega hröð breyting á stöðu ríkissjóðs til hins betra á að geta gefið okkur tækifæri til að auka fjárfestingu okkar í þessum börnum, m.a. í gegnum framhaldsskólakerfið.
Fáist ekki aukið fjármagn og verði ekki farið í ansi róttækar breytingar á landsvísu sem skila sér m.a. í betri nýtingu fjármagns mun það fljótt hafa mikil áhrif. Það er því miður ekki langt í að erfitt verður eða ókleift að auka við stuðning við skóla og nemendur sem þess þurfa. Við stöndum þannig frammi fyrir því að einhverjir skólar munu í náinni framtíð mögulega ekki geta sinnt lögbundinni þjónustu eða menntun vegna fjár- eða húsnæðisskorts, til að mynda til þess að mæta aukningu í starfs- og verknám.
Þetta er krefjandi staða því að breytingar, ekki síst á rótgrónum menntastofnunum, þurfa aðdraganda og umræðu og oftar en ekki eru þetta menntastofnanir sem er fullkomlega eðlilegt að margir beri mjög sterkar tilfinningar til. Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til að sameina skóla sameininganna vegna, nú eða hagræða hagræðingarinnar vegna, heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu. Þar liggur ábyrgðin. Fáist ekki nýtt fjármagn og ef við þurfum að velja milli farsældar og jöfnuðar meðal barna, og mæta þeim áskorunum sem ég nefndi, eða að viðhalda rótgrónum stofnunum þá þurfum við að forgangsraða í þágu barna. Þar höfum við ekkert val.
Kæru landsmenn. Stöndum vörð um hvert barn hér á landi, farsæld, tækifæri, menntun þeirra og líðan. Stöndum vörð um fjölskyldur, foreldra og ekki síst starfsfólkið okkar sem á hverjum degi vinnur að því að tryggja velsæld samfélags okkar til framtíðar. Það er það verkefni sem ég mun óska eftir samstarfi um við ykkur og Alþingi á þessum þingvetri fram undan. Við viljum og við munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu stóra en mikilvæga verkefni. — Góðar stundir.“
***
14/09/2023
Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag?Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í fyrri umferð og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í seinni umferð.
Lilja Dögg sagði í ræðu sinni viðureignina við verðbólguna verða að ganga eftir svo vextir lækki fyrir heimilin. Sagði hún ríkisstjórnina muna gera allt sem í hennar valdi standi til að vinna bug á henni og telji hún að einhverju leyti séu jákvæð teikn á lofti í baráttunni. Sagði hún sitt ráðuneyti ekki láta sitt eftir liggja í samkeppnis- og neytendamálum.
Ekki einn dropi verður einkavæddur í Landsvirkjun
Lilja Dögg lagði áherslu á auðlindir Íslands og baráttuna um þær í ræðu sinni. Að okkur beri að umgangast auðlindir landsins af sérstakri virðingu og með sjálfbærri nýting þeirra til þess að komandi kynslóðir njóti þeirra. Lilja Dögg sagði það hvellskýrt í sínum huga og Framsóknar að ekki einn vatnsdropi í Landsvirkjun yrði einkavæddur. Hún sagðist sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni. Ísland gæti verið leiðandi á heimsvísu í grænu orkuskiptunum ef við höldum rétt á spilunum með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.
„Opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í,“ sagði Lilja Dögg.
„Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu í grænum orkuskiptum og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó fara leið samvinnunnar, þar sem unnið er með sátt að uppbyggingu.
Stjórnmál eru hreyfiafl sem við verðum að nýta til þess að takast á við þessar áskoranir og fleiri til. Þjóðin verður að sækja fram og fara í grænu orkuskiptin og gera það með ákveðinni sátt að leiðarljósi,“ sagði Lilja Dögg.
Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Í ræðu minni…
Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Miðvikudagur, 13. september 2023
Ræða Lilju Daggar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nýr árstími er að ganga í garð, hið fallega haust. Fyrir marga markar haustið ákveðin tímamót, nýjar áskoranir og eftirvænting er í loftinu. Það sama á við hér í kvöld í upphafi nýs þings. Því er viðeigandi að spyrja sig: Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag? Ljóst er að baráttuna við verðbólguna mun bera hæst í vetur og þar skiptir mestu máli fyrir heimilin að hún lækki svo vextir geti lækkað. Ríkisstjórnin mun auðvitað gera allt sem í hennar valdi stendur til að vinna bug á verðbólgunni og ég tel að það séu að einhverju leyti jákvæð teikn á lofti í þeirri baráttu. Í því samhengi mun mitt ráðuneyti ekki láta sitt eftir liggja í samkeppnis- og neytendamálum.
Mig langar þessa kvöldstund að víkja að einu framtíðarmáli; auðlindum Íslands og baráttunni um auðlindir Íslands. Snemma á síðustu öld gengu stjórnmálin út á hina pólitísku baráttu við dönsk stjórnvöld, um fullveldið og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Ekkert annað komst að í upphafi síðustu aldar. Um miðbik aldarinnar gekk baráttan út á efnahagslegt sjálfstæði og hvar við vildum staðsetja okkur í alþjóðasamvinnu. Hin nýja sjálfstæða þjóð fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast eignarhald yfir sjávarauðlindinni. Orrusturnar voru nokkrar en sigur hafðist í stríðunum, sem var upphafið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.
Utanríkismálin urðu einnig mikið bitbein á þessum tíma þar sem hart var deilt um hina vestrænu samvinnu. Það var mikil framsýni á sínum tíma að taka afgerandi afstöðu með lýðræðisríkjum, gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og leggja mikla rækt við opin utanríkisviðskipti. Farsæld Íslands er háð nánu samstarfi við þjóðir heimsins um verslun og viðskipti. Þessi pólitíska barátta skilaði landinu miklum auðæfum. Á skömmum tíma var byggt upp öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi og undir lok síðustu aldar voru þjóðartekjur á hvern einstakling meðal þeirra hæstu í veröldinni. Gríðarleg umskipti höfðu orðið á mjög stuttum tíma hjá íslensku þjóðinni. Fyrri kynslóðir börðust fyrir betri framtíð lands og þjóðar og við njótum þess svo sannarlega í dag. Þegar samfélag eins og okkar nær svona góðum lífskjörum þá breytast baráttumálin og snúa að því að verja góða stöðu en líka að horfa til framtíðar og sækja fram.
Virðulegur forseti. Ísland býr yfir miklum auðlindum og hagkerfið ber þess merki; gjöful fiskimið, gríðarleg náttúrufegurð, mikið landrými, hreint vatn, endurnýjanleg orka og mikill félagsauður. Þessar auðlindir okkar eru mjög eftirsóknarverðar á heimsvísu og ljóst er að skortur verður á slíkum auðlindum í fyrirsjáanlegri framtíð. Barátta stjórnmálanna í dag snýst um auðlindir landsins og réttláta skiptingu arðs af þeim. Okkur ber að umgangast auðlindir landsins af sérstakri virðingu þar sem vallarsýnin er sjálfbær nýting þeirra.
Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið eigi að losa um hlut sinn í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti til innlendra eða erlendra fjárfesta. Það er alveg skýrt í mínum huga og í huga Framsóknar að ekki einn dropi verður einkavæddur í Landsvirkjun. Opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndartáknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í.
Kæru landsmenn. Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu í grænu umskiptunum og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó að fara leið samvinnunnar þar sem unnið er með sátt að uppbyggingu. Kæru landsmenn. Stjórnmál eru hreyfiafl sem við verðum að nýta til að takast á við þessar áskoranir og fleiri til. Þjóðin verður að sækja fram og fara í grænu orkuskiptin en gera það með ákveðna sátt að leiðarljósi. Það er til mikils að vinna því að í mínum huga er yndislegt að búa á Íslandi. — Eigið góðar stundir.“
***
14/09/2023
Okkar kynslóð getur ekki skilað auðuSnemma á síðustu öld gengu stjórnmálin út á hina pólitísku baráttu við dönsk stjórnvöld, um fullveldið og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Um miðbik aldarinnar gekk baráttan út á efnahagslegt sjálfstæði og stefnu okkar í alþjóðasamvinnu. Þjóðin fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast forræði yfir sjávarauðlindinni og baráttusöngvar voru ortir á borð við texta Núma Þorbergssonar: „Þau eru svo eftirsótt Íslandsmið, að enskir þeir vilja oss berjast við.“ Sigrar unnust í þorskastríðunum, sem var upphafið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Utanríkismálin urðu einnig mikið bitbein þjóðarinnar á þessum tíma, þar sem hart var deilt um hina vestrænu samvinnu. Það var mikil framsýni að taka afgerandi stöðu með lýðræðisríkjum, gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og leggja mikla rækt við opin utanríkisviðskipti. Farsæld Íslands er háð nánu samstarfi við þjóðir heimsins um verslun og viðskipti.
Þessi pólitíska barátta skilaði landinu miklum auðæfum. Á skömmum tíma var byggt upp öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi og undir lok síðustu aldar voru þjóðartekjur á hvern einstakling meðal þeirra allra hæstu í veröldinni. Forfeður og –mæður okkar börðust fyrir betri framtíð lands og þjóðar og við njótum þess í dag. Þegar samfélag eins og okkar nær svona góðum lífskjörum, þá breytast baráttumálin og snúa að því að verja góða stöðu en líka horfa til framtíðar um með hvaða hætti það er gert.
Ísland býr yfir miklum auðlindum og ljóst er að skortur verður á slíku í fyrirsjáanlegri framtíð. Okkur ber því enn ríkari skylda til að umgangast auðlindirnar af sérstakri virðingu þar sem vallarsýnin er sjálfbær nýting.
Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.
Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í.
Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.
Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó að vera unnin á grundvelli samvinnunnar enda eru virkjanir og orkumannvirki vandasamar stórframkvæmdir. Það er til mikils að vinna ef rétt er haldið á spilum, í þágu íslenskra hagsmuna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023.
12/09/2023
Áframhald á framkvæmd Kvikmyndastefnu fyrir ÍslandÍ nýkynntu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 eru áætluð framlög til kvikmyndamála 3.915,6 m.kr. Þar af munu framlög til Kvikmyndasjóðs nema 1.114,3 m.kr. Í fjárlögum ársins 2023 var framlagið 1.288,9 m.kr. Breytingarnar skýrast annars vegar af því að tímabundinni hækkun á framlagi til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði til framleiðslustyrkja úr Kvikmyndasjóði fellur niður og hins vegar af kröfu um aukið aðhald í ríkisfjármálum.
Mynd 1: Heildarframlög til kvikmyndamála árin 2017 –2024 á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Um er að ræða framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Kvikmyndasjóðs, endurgreiðslukerfis í kvikmyndagerð og Kvikmyndasafns Íslands. Fjárhæðir fyrir árin 2023 og 2024 eru án endanlegra upphæða í endurgreiðslukerfi kvikmynda sem liggja fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á haustin og ráðast af endanlegu umfangi kvikmyndaverkefna.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 verður 113 m.kr. af 500 m.kr. tímabundnu fjárfestingarframlagi til menningarmála vegna heimsfaraldursins varið til Kvikmyndasjóðs en framlaginu var frestað í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 sem hluta af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að sporna gegn þenslu í efnahagslífinu. Þá verður 50 m.kr. af framlaginu varið til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og 20 m.kr. til Kvikmyndasafns Íslands vegna áframhaldandi vinnu við aðgerðir í Kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra kynnti árið 2020.
Tæpur 1,3 milljarður í viðbótarframlög í Kvikmyndasjóð
Árin 2021 og 2022 var í fjárlögum úthlutað aukalega 460 m.kr., hvort ár um sig, í Kvikmyndasjóð auk 50 m.kr. viðbótarframlags til Kvikmyndamiðstöðvar vegna sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs. Þá er sjóðnum veitt 250 m.kr. aukaframlag á þessu ári til þess að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða notið skuldbindinga með samningi. Samtals munu tímabundin viðbótarframlög til Kvikmyndasjóðs vegna heimsfaraldursins og önnur aukaframlög nema 1.298 m.kr. fyrir tímabilið 2021-2024.
Mynd 2: Framlög í kvikmyndasjóð árin 2017-2024.
Áætluð framlög í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar árið 2024 eru 2.493,9 m.kr. Lækkun frá 2023 skýrist af framvindu verkefnisins True Detective sem var stærsta kvikmyndaverkefni hér á landi hingað til. Endanleg fjárhæð í endurgreiðslur í kvikmyndagerð hefur ákvarðast í fjáraukalögum hvers árs, þegar umfang verkefna á ársgrundvelli liggur fyrir.
Mynd 3: Framlög til endurgreiðslna árin 2017-2024. Fjárhæðir fyrir árin 2023 og 2024 eru án endanlegra upphæða í endurgreiðslukerfi kvikmynda sem liggja fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á haustin og ráðast af endanlegu umfangi kvikmyndaverkefna.
Endurgreiðslukerfinu var komið á árið 1999 og hafa umsvif kvikmyndagerðar aukist verulega, sérstaklega á síðustu árum, en endurgreiðslur vegna innlendra sem og erlendra verkefna hafa aukist. Á árinu 2022 nam hlutfall endurgreiðslna til innlendra verkefna 44% og 56% til erlendra.
Góður gangur í framkvæmd Kvikmyndastefnunnar
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að efla umhverfi kvikmyndagerðar á Íslandi í samræmi við Kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030. Má þar meðal annars nefna hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35%, tímabundin viðbótarframlög í Kvikmyndasjóð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aukin framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi.
Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni. Þá hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands unnið að ýmsum verkefnum í samræmi við stefnuna sem snúa meðal annars að eflingu kvikmyndalæsis. Einnig má nefna vinnusmiðjur, mælaborð í samvinnu við fagfélög og áframhaldandi samstarf við fagfélög um bætt vinnuumhverfi og fleira.
Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda
Á þingmálaskrá menningar- og viðskiptaráðherra fyrir þingveturinn 2023-2024 er að finna frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar. Með frumvarpinu verður komið á nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styðja við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Með breytingunni verður Kvikmyndasjóði heimilt að veita styrki með svipuðum skilyrðum um endurheimt og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn enda er fyrirmynd breytinganna sótt þangað.
Þá ráðgerir menningar- og viðskiptaráðherra að kynna nýjan starfslaunasjóð kvikmyndahöfunda sem hluta af endurskoðun á starfslaunakerfi listamanna, en unnið hefur verið að breytingum á kerfinu sem ráðgert er að innleiða á næstu árum. Ofantaldar aðgerðir eru hluti af aðgerðum kvikmyndastefnu.
Sjá einnig: Fjárlagafrumvarpið fyrir 2024
Heimild: stjr.is
Gunnar nýr formaður SUF
06/09/2023
Gunnar nýr formaður SUFLiðna helgi fór fram 48. Sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á Sauðárkróki. Þar sat ungt Framsóknarfólk og vann öflugt málefnastarf ásamt því að kjósa sér nýja stjórn og nýjan formann, Gunnar Ásgrímsson. Fráfarandi formaður SUF er Unnur Þöll Benediktsdóttir en hún hefur gegnt formennsku nú í tvö kjörtímabil.
Gunnar, nýr formaður, er 23 ára Skagfirðingur sem stundar nám í kennslufræði við Háskóla íslands og starfar sem stuðningsfulltrúi í Háteigsskóla. Gunnar hefur verið virkur í félagsstarfi flokksins og innan sambandsins síðan 2018, og síðustu þrjú árin setið í framkvæmdastjórn SUF, fyrst sem ritari en síðustu tvö ár sem varaformaður undir formennsku fráfarandi formanns, Unnar Þallar.
„Ég hlakka mikið til komandi starfsárs, við erum með flotta stjórn sem ég hef mikla trú á, en það eru stór verkefni framundan í vetur. Það verður flokksþing hjá Framsókn í vor þar sem við í SUF munum svo sannarlega láta í okkur heyra, eins og á öðrum viðburðum flokksins síðustu ár. Helstu verkefnin munu því tengjast málefnastarfinu okkar en einnig má búast við fjölbreyttu viðburðastarfi hjá okkur. Það hefur heppnast vel að halda svokölluð Skuggaráðuneyti, þar sem ungt Framsóknarfólk fær að spjalla við ráðherrana okkar, en einnig þeir Örfundir sem við höfum átt með þingmönnum og sveitarstjórnarfólki um hin ýmsu mál. Má því búast við miklu þetta ár og hvet ég því áhugasöm um að mæta á viðburði hjá okkur í vetur.“ – Gunnar Ásgrímsson.
Mörg deilu- og hitamál voru rædd á þinginu, þar á meðal útlendingamál, samgöngusáttmáli, heilbrigðismál, menntamál og hvalveiðar. Allar ályktanir þingsins verða birtar á samfélagsmiðlum SUF og hér á vefnum á næstu dögum.
Einnig var kosið í nýja stjórn SUF og er hún eftirfarandi:
- Ágúst Guðjónsson
- Berglind Sunna Bragadóttir
- Díana Íva Gunnarsdóttir
- Hafdís Lára Halldórsdóttir
- Heiðdís Geirsdóttir
- Hrafn Splidt Þorvaldsson
- Inga Berta Bergsdóttir
- Karel Bergmann Gunnarsson
- Mikael Jens Halldórsson
- Ólöf Rún Pétursdóttir
- Skúli Bragi Geirdal
- Urður Björg Gísladóttir
Á nýliðnu Sambandsþingi var unnið öflugt málefnastarf þar sem málefnum var skipt upp í fjóra flokka. Eftirfarandi eru þær ályktanir sem samþykktar voru á 48. Sambandsþingi SUF.
Innviði, umhverfi, orka og loftslag
- Ungt Framsóknarfólk vill að veiðar á hvölum verði lagðar af.
- Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að styðja við styrkingu innviða fjölfarinna ferðamannastaða á Íslandi til að þola ágang ásamt því að eðlilega dreifingu ferðafólks um allt land verði tryggð með því að leggja áherslu á staði sem færri ferðamenn sækja heim vegna ófullnægjandi innviða.
- Ungt Framsóknarfólk styður samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins enda felur sáttmálinn í sér bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta sem minnka eiga tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun.
- Ungt Framsóknarfólk telur að huga eigi að betri nýtingu þeirrar raforku sem nú þegar er framleidd með jafnari nýtingu utan álagstíma. Til dæmis með vetnisframleiðslu að nóttu til.
- Ungt Framsóknarfólk styður markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi og full orkuskipti eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti. Til að það markmið nái fram að ganga verður að auka framboð raforku í landinu og hvetur ungt Framsóknarfólk því ríkisstjórnina til þess að skoða frekari virkjunarkosti með sjálfbærni í huga.
- Ungt framsóknarfólk vill minna á að í lok áratugarins þurfa öll ríki heimsins að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Því er nauðsynlegt að heimsmarkmiðin verði höfð enn frekar að leiðarljósi í vinnu ríkis og sveitarfélaga sem og fyrirtækja.
- Ungt Framsóknarfólk vill að settar verði hömlur á hækkun leiguverðs húsnæðis í langtíma útleigu yfir fyrirfram ákveðið tímabil og samhliða verði þróun húsaleigubóta látin fylgja verðlagsþróun.
Heilbrigði og málefni eldra fólks
- Ungt Framsóknarfólk vill að lausasala ólyfseðilskyldra lyfja verði gerð heimil í almennum verslunum.
- Ungt Framsóknarfólk hvetur heilbrigðisráðherra til þess að tryggja getu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til þess að starfrækja á ný heilsugæslusel á Suðurnesjum samfara auknum áherslum á aðgengi og fyrirbyggjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
- Ungt Framsóknarfólk skorar á háskólaráðherra að fullfjármagna nám í heilabilunarráðgjöf við Háskólann á Akureyri
- Ungt Framsóknarfólk vill heimila blóðgjöf einstaklinga óháð kynhneigð og kynlífshegðun blóðgjafanna. Núverandi reglugerð er úrelt og útilokar stóran hóp hugsanlegra blóðgjafa ásamt því að hún er lituð af fordómum gagnvart hinsegin fólki
- Ungt Framsóknarfólk vill ókeypis getnaðarvarnir fyrir fólk yngra en 25 ára á Íslandi.
- Ungt Framsóknarfólk hvetur ráðuneyti háskólamála að nýta menntasjóð námsmanna til að efla stöðu heilbrigðisstarfsmanna á landsbyggðinni.
- Ungt Framsóknarfólk fagnar því að samningar hafið náðst við ségreinalækna.
- Ungt Framsóknarfólk fagnar því að sjúkratryggingar Íslands hækka greiðsluþátttöku til tannréttinga.
- Ungt Framsóknarfólk vill að tryggt verði að heilsugæslur um allt land séu vel tækjum búnar og ákjósanlegur vinnustaður. Einnig leggur ungt Framsóknarfólk áherslu á að heilsugæslustöðvar séu vel aðgengilegar um allt land.
Efnahagur, utanríkismál, stjórnskipan, menning, mannréttindi og málefni innflytjenda
- Ungt Framsóknarfólk vill að þau fornu íslensku handrit sem eru enn í vörslu í Danmörku verði flutt heim. Meðal þeirra sjöhundruð handrita sem eru enn eftir í Danmörku eru Heimskringla Snorra Sturlusonar, Snorra-Eddu handrit og Reykjabók Njálu sem er elsta heillega handrit Njálu. Það er táknrænt fyrir hina íslensku þjóð að þessum menningararfi verði skilað.
- Ungt Framsóknarfólk hvetur stjórnvöld til þess að stytta og einfalda umsóknarferli fyrir dvalar- og atvinnuleyfi hérlendis.
- Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að skýrt sé kveðið á um hvað taki við eftir að einstaklingi er synjað um alþjóðlega vernd og grunnþjónusta fellur niður.
- Ungt Framsóknarfólk ítrekar að skattþrep tekjuskatts verði endurskoðuð með reglubundnum hætti í samræmi við launaþróun, sem léttir skattbyrði lág- & meðaltekjufólks.
Atvinna, menntun og börn
- Ungt Framsóknarfólk telur að hækka þurfi frítekjumark Menntasjóðs námsmanna í samræmi við verðlags- og launaþróun. Einstaklingar eiga ekki að verða fyrir óhóflegum skerðingum vinni þeir með námi.
- Ungt Framsóknarfólk telur að þörf sé á auka stafræna miðlun kennsluefnis og fjölga þeim námsleiðum sem í boði eru í stafrænu námi og fjarnámi í ríkisreknum háskólum. Aðgengi að námi á ekki að vera háð búsetu, fjárhag eða fjölskylduaðstæðum.
- Ungt Framsóknarfólk telur að viðurkenna þurfi leikskóla sem fyrsta skólastigið af löggjafanum.
- Ungt Framsóknarfólk telur að endurskoða þurfi stöðu dönskukennslu sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum
- Ungt Framsóknarfólk telur að efla þurfi vægi samfélagsgreina og lífsleikni í aðalnámskrá grunnskólanna.
Unni Þöll er þakkað fyrir vel unnin störf!
Í dag skila ég af mér minu stærsta verkefni hingað til, formennsku í Sambandi ungra Framsóknarmanna. Ég óska nýrri…
Posted by Unnur Þöll Benediktsdóttir on Sunnudagur, 3. september 2023
06/09/2023
Ekki einn dropi einkavæddur í LandsvirkjunAllar götur frá stofnun árið 1965 hefur Landsvirkjun í almannaeigu verið burðarás í íslensku atvinnulífi og stuðlað að nýtingu orkuauðlinda landsins til að standa undir aukinni verðmætasköpun í íslensku efnahagslífi. Virkjanir og orkumannvirki eru vandasamar stórframkvæmdir sem fólk hefur sterkar skoðanir á og snerta samspil við náttúruvernd, byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þrátt fyrir umdeilt eðli virkjanaframkvæmda, tel ég að það sé þó eitt sem mikil meirihluti þjóðarinnar geti verið sammála um: að Landsvirkjun verði áfram í fullri samfélagslegri eigu.
Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti, nú síðast í þættinum Dagmál á vefnum MBL. Þar viðraði forstjóri Kauphallarinnar leiðir til þess að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, meðal annars með að ríkið seldi 20% hlut í Landsvirkjun sem væri til þess fallið að laða að erlenda fjárfesta bæði vegna stærðar félagsins en einnig vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun.
Ég get tekið undir með forstjóra Kauphallarinnar að það sé mikilvægt að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, dýpka hann, fjölga félögum og stuðla að skilvirkari verðmyndum íslenskra fyrirtækja. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fjölgun félaga í Kauphöllinni undanfarin ár sem gefur fólki fleiri kosti á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með greiðum hætti.
Hins vegar er ég ósammála forstjóra Kaupahallarinnar að Landsvirkjun eigi að vera kostur í því að dýpka hlutabréfamarkaðinn til þess að laða að erlenda fjárfesta, meðal annars einmitt vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun hér á landi og því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir fyrir land og þjóð. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.
Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í. Þess vegna á ekki að ráðast í breytingar eignarhaldinu, breytinganna vegna. Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.
05/09/2023
RafmagnsleysiRafmagn er grundvallarorkugjafi okkar. Það lýsir upp heimili okkar og án þess gæti verið flókið að elda kvöldmatinn, þvo þvott og geyma matvæli. Þá er rafmagn mikilvægt í heilbrigðisþjónustu þar sem það knýr áfram lífsnauðsynleg lækningatæki. Sífellt fleiri rafmagnsbílar koma á göturnar, jafnvel rafmagnsflutningabílar.
Auk þess er rafmagn notað á öllum sviðum atvinnulífsins. Ekkert okkar gæti hugsað sér að lifa lífi án rafmagns líkt og forfeður okkar gerðu áður fyrr. Rafmagnið er okkur í dag jafn mikilvægt og vatnið.
Hvað þarf til?
Hreyfiafl breytinga eru af ýmsum toga en oftar en ekki eru það bæði innri ytri áhrifaþættir sem skapa nýjar þarfir og hraða þróun. Við höfum á undanförnum árum heyrt rætt um framtíðarþarfir á sviði orkumála, hugsanlegan orkuskort, sem í huga margra Íslendinga hljómar sem fjarlægur veruleiki.
En er hann svo fjarlægur?
Við erum lánsöm að búa í landi sem framleiðir endurnýjanlega græna orku. Jafnt og þétt bætist í orkuþörf, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum. Sérfræðingar hafa bent á aukna orkuþörf hér á landi í takt við aukinn fjölda íbúa og vaxandi atvinnulíf. Tryggja þarf að á hverjum tíma sé næg græn orka í boði fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Ég þarf ekki að tíunda í þessari grein hvaða afleiðingar orkuskortur kann að hafa fyrir atvinnuuppbyggingu og fyrirhuguð orkuskipti í landinu.
Að vinna bug á orkuskorti krefst margvíslegra aðgerða. Ekki bara það að virkja meira. Til dæmis þarf að draga úr sóun á orkunni okkar með öflugra dreifikerfi og horfa þarf til notkunar á fleiri nýtingarvalmöguleikum, þ.e. orkukosta á borð við vind, sjávarfall og jafnvel fleiri sem koma til með að vera nýttir í meiri mæli í framtíðinni.
Höfum við brugðist við?
Yfirstandandi stríð og heimsfaraldur hafa hvort á sinn hátt fært okkur nær því að horfast í augu við mikilvægi sjálfbærni þjóðarinnar m.a. í orkumálum. Þannig þurfum við að horfa á heildarþarfir landsins, en um leið að horfa á öryggi innan hvers landshluta og svæðis. Þegar betur er að gáð sjáum við að það búa ekki allir við sömu gæði og öryggi í orkumálum.
Við þurfum bæði að hugsa til lengri og skemmri tíma þegar við horfum til breytinga. Þá bæði hvað varðar alla heildina og möguleika í stærri og smærri einingum. Það er mitt mat að tækifærin leynast víða, tækifæri sem við eigum að nýta til lengri og skemmri tíma. Hugsanlega getum við einnig styrkt innviði fyrr með breyttu verklagi og betri nýtingu á því sem fyrir er.
Nauðsynlegar úrbætur stjórnvalda
Það skiptir miklu máli að uppbygging raforkukosta og dreifingu raforkunnar geti haldið áfram í takt við stórauknar þarfir. Viðbrögð og geta innra stjórnkerfis okkar er of hægfara og þung. Lagaumhverfi rammaáætlunar þarf að endurskoða því eins og staðan er í dag líða mörg ár frá umsókn um leyfi þar til að rafmagnið skilar sér til notanda. Því þurfum við að kappkosta að vinda ofan af þeim flækjum við ákvarðanatöku, en ekki síður að minnka kostnað við umsýslu þegar við tökum ákvarðanir um orkunýtingu. Þó þannig að ekki verði á nokkurn hátt minnkuð krafa um rannsóknir og náttúruvernd. Löng og farsæl virkjanasaga síðustu 100 ára segir okkur að vernd og nýting geta haldist í hendur.
Einnig er kallað eftir skýrari afstöðu ríkisins til nýtingar á eigin vatnsréttindum. Ég tek heilshugar undir að mikilvægt er skýra þá afstöðu, bæði til lengri og skemmri tíma. Samningaferlið við landeigendur og vatnsréttarhafa er langt og stundum erfiðasti hjallurinn í virkjunarmálum. Í flestum tilfellum þarf að ræða við og ná saman við stóran hóp með ólíkar skoðanir og samningsmarkmið. En það eitt að hefja viðræður við landeigendur um nýtingu orku gæti flýtt nýjum og smærri virkjanakostum til muna. Ríkisvaldið hefur fram til þessa ekki viljað ræða við rekstraraðila um leigu á vatnsréttindum og landnotkun fyrr en verkefni hefur verið samþykkt í nýtingarflokk af Alþingi. Þessu væri hægt að breyta auðveldlega og þar með stytta heildarvinnslutímann á þann hátt að hefja samningaviðræður samhliða ferli rammaáætlunar með fyrirvara um að viðkomandi verkefni verði samþykkt í nýtingarflokk.
Þó að við viljum flýta okkur hægt og vinna eftir vel ígrunduðu ferli vil ég þó í lokin staldra við tímamörk, því vissulega þarf fleira að koma til. Þar vil ég benda á möguleika sem við höfum til að bæta gæði stjórnsýslu er varðar lögbundnar umsagnir, en þar koma fjölmargir aðilar að. Frestir eru langir í ferlinu en þrátt fyrir það þarf ítrekað að lengja tímafresti vegna umsagnaraðila á ýmsum vinnslustigum. Hver frestur hefur mikil áhrif á þann tíma sem ferlið tekur og vinnur gegn okkar markmiðum um frekari orkuöflun. Við þessu þarf að bregðast.
Allt þetta hafa sérfræðingar ítrekað bent á. Orkuþörfin er áríðandi og það blasir við að alvarlegur orkuskortur muni raungerast ef engu er breytt. Umræðan hefur átt sér stað meðal þeirra sem starfa við raforkuframleiðslu og dreifingu og víðar í langan tíma. Það er þó löngu tímabært að ganga í aðgerðir og láta hugmyndir okkar verða að veruleika.
Þörfin varðar ekki einungis atvinnulífið heldur heimilin okkar líka. Við þurfum að nýta orkuna og innviðina skynsamlega, finna leiðir að settu marki og tryggja öllum örugga orku hvar sem þeir búa á landinu. Það hlýtur að vera réttlætismál sem knýr okkur öll áfram. Enginn vill vera rafmagnslaus í miðju óveðri aftur.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2023.
05/09/2023
„Við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára“Alls tóku yfir 1.100 manns þátt í Farsældarþingi sem mennta- og barnamálaráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag, þar af voru um 700 manns á staðnum. Á þinginu fór fram víðtækt samtal fagfólks, þjónustuveitenda, stjórnvalda, barna og aðstandenda um farsæld barna og er þingið mikilvægur liður í stefnumótun og áætlanagerð þegar kemur að innleiðingu laga um farsæld barna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra opnaði þingið og kynnti nýjan vef og mælaborð um farsæld barna.
Fundað var í Silfurbergi og Norðurljósum í Hörpu
Innleiðing farsældarlaganna er í fullum gangi á vettvangi sveitarfélaga, framhaldsskóla, heilbrigðiskerfisins og innan lögreglunnar. Kerfi íþrótta og tómstunda hafa þar einnig miklu hlutverki að gegna. Hefur ráðherra lagt áherslu á gott samtal og samstarf ólíkra aðila og er farsældarþing öflugt tæki til að auðvelda þessum ólíku kerfum að stilla saman strengi með samþættingu og farsæld barna að leiðarljósi.
Það eru 1.000 manns (+ nokkur hundruð með streymi) í Hörpu núna að skipuleggja næstu skref þegar kemur að farsæld barna….
Posted by Ásmundur Einar Daðason on Mánudagur, 4. september 2023
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði formlega nýjan vef um þjónustu í þágu farsældar barna þar sem farið er yfir forsendur og framkvæmd samþættingar þjónustunnar. Þá sýndi hann mælaborð um farsæld barna sem hefur verið í þróun frá árinu 2019 og verður formlega opnað á næstunni. Aðalmarkmiðið með mælaborðinu er að draga fram heildstæða mynd af farsæld barna hér á landi fyrir ríki og sveitarfélög á grundvelli þeirra fjölþættu tölfræðigagna sem til staðar eru.
„Ég er ótrúlega þakklátur þessum mikla fjölda fólks sem tók þátt í Farsældarþinginu vegna þess að það er svo mikilvægt að við heyrum í öllum þessum ólíku aðilum sem starfa með börnum alla daga. Þá vil ég sérstaklega þakka þeim 38 börnum sem voru með okkur hér í dag og tóku þátt í vinnunni. Ég hef lagt á það ríka áherslu að við fylgjumst vel með innleiðingu farsældarlaganna og að við getum samhliða átt opið og hreinskilið samtal, þar sem við gerum upp það sem hefur gengið vel og ræðum hvað hefur síður gengið eftir – og það var meðal annars markmiðið með Farsældarþinginu, ásamt því að við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Börn tóku þátt og komu sínum sjónarmiðum að á þinginu
Upptöku af Farsældarþingi má nálgast hér:
https://vimeo.com/event/3674241/embed
Heimild: stjr.is
05/09/2023
Það er borð fyrir báru hjá bönkunumNýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá vann hópurinn einnig greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar.
Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þá dró skýrslan einnig fram að sum þjónustugjöld eru ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum. Það sem kom mest á óvart var að kortagengið er óhagstæðara en svokallað seðlagengi sem almennt er óhagstæðasta gengið hjá bönkum.
Talsverð umræða hefur spunnist um niðurstöður skýrslunnar og hefur meðal annars verið bent á það að vaxtamunur heimila hafi aldrei verið lægri. Á móti kemur hins vegar að vaxtamunur á fyrirtæki er í hámarki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem almenningur borgar.
Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að hér sé starfrækt öflugt bankakerfi enda er hlutverk banka veigamikið í að styðja við aukna verðmætasköpun í landinu. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég stend við það sem kemur fram í skýrslunni og tel að bankarnir hafi rými til þess að gera betur við neytendur, hvort sem það er fólk eða fyrirtæki. Sú arðsemi sem birtist í uppgjörum bankanna er mikil og í ofanálag sýna tölur að vaxtamunur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.
Stærsta hagsmunamál samfélagsins er að ná verðbólgunni niður og þar verða allir að leggja sitt af mörkum og er bankakerfið ekki undanskilið því. Sú uppbyggilega umræða sem hefur átt sér stað í kjölfar skýrslunnar er af hinu góða enda snerta neytendamál okkur öll. Sem ráðherra neytendamála mun ég láta uppfæra skýrsluna árlega til að stuðla að upplýstri umræðu um þessi mál, samfélaginu til hagsbóta.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2023.
04/09/2023
Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinuÍ öllum þjóðfélögum er mikilvægt að allir standi neytendavaktina, ekki síst á verðbólgutímum. Nýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá fól ég hópnum að gera greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar, og hvers kyns þóknana og gjaldtöku af almenningi, sem meðal annars horfði til Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Hópnum var einnig falið að vinna tillögur.
Bankar eru samfélagslega mikilvægar stofnanir og sterkt bankakerfi er nauðsynlegt til að viðhalda öflugu hagkerfi og atvinnulífi. Það er mikilvægt að bankar njóti almenns trausts í samfélaginu svo þeir geti stuðlað að heilbrigðu viðskiptalífi og þar af leiðandi aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið hafa upp spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég tel að þessi nýja skýrsla sé upplýsandi innlegg í þá umræðu.
Meiri vaxtamunur og aukin arðsemi
Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þannig er vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, töluvert meiri en á Norðurlöndunum þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Árin 2021 og 2022 náðu bankarnir arðsemismarkmiði sínu eftir að hafa verið undir því í mörg ár þar á undan og var hún svipuð og hjá norrænum bönkum af samfélagslegri stærð.
47 milljarðar í erlendra greiðslumiðlun
Kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar, sem má líkja við pípulagnir fyrir greiðslur, er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Sökum mikillar notkunar alþjóðlegra greiðslukorta hér á landi er kostnaður við greiðslumiðlun sem hlutfall af landsframleiðslu mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr. Greiðslumiðlunin er að miklu leyti á ábyrgð færsluhirða en ekki bankanna, og stærstu færsluhirðar landsins eru í erlendri eigu.
Þörf á meira gegnsæi í verðlagningu
Það kemur fram að útgjöld vegna fjármálaþjónustu (að vaxtagjöldum undanskildum) vegur ekki þungt í heildarútgjöldum heimilanna skv. útgjaldarannsókn Hagstofunnar en þau hafa lækkað að raunvirði. Er áætlað að þau séu áætluð 0,4% af heildarneysluútgjöldum meðalheimilis á Íslandi. Hins vegar eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Hjá dæmigerðu ungu pari getur kostnaður við gengisálag bankanna numið um 30% af heildarkostnaði við bankaþjónustu á ári. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.
Stóru málin og næstu skref
Eins og fram kom að ofan hefur vaxtamunur verið að aukast. Þegar uppgjör bankanna það sem af eru ári eru skoðuð er hann enn að aukast. Ég tel eðlilegt að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningum með neytendum á sanngjarnari hátt. Sér í lagi þegar að vaxtamunurinn er enn þá að aukast en í árshlutauppgjörum fyrir árið 2023 má sjá hann aukast enn frekar. Það á ekki að vera náttúrulögmál að það halli á neytendur með þessum hætti. Þá er jafnframt mikilvægt að bankarnir bæti gagnsæi í gjaldtöku sinni hjá viðskiptavinum.
Kostnaður við erlendra greiðslumiðlun er of hár, en það er einnig þjóðaröryggismál að Ísland búi að innlendri greiðslumiðlun líkt og önnur ríki. Hefur forsætisráðherra meðal annars boðað frumvarp um innlenda greiðslumiðlun sem myndi auka efnahagslegt þjóðaröryggi Íslands. Jákvæð hliðaráhrif slíkra breytinga væri umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið, sem ætti á skila sér í lægra vöruverði til neytenda.
Aukið aðhald í þágu neytenda
Það er samfélagslegur ávinningur fólginn í öflugri neytendavakt en sú vakt þarf að vera samvinnuverkefni okkar allra. Þessi skýrsla er liður í því, en sem ráðherra neytendamála hyggst ég láta uppfæra hana árlega í þágu heimila og fyrirtækja í landinu og stuðla þannig að auknu aðhaldi og umræðu um þau kjör sem bjóðast hjá viðskiptabönkunum.
Ég vil þakka starfshópnum fyrir vel unnin störf en hann skipuðu fulltrúar menningar- og viðskiptaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna, Hagsmunasamtaka heimilanna, Alþýðusambands Íslands, Samstaka fjármálafyrirtækja og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Nánari niðurstöður og tillögur er að finna í skýrslunni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2023.