Categories
Fréttir

Stofnum Háskólafélag Suðurnesja

Deila grein

22/10/2025

Stofnum Háskólafélag Suðurnesja

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir umræðu á fundi alþingismanna með Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi vegna falls Play, en yfir 400 starfsmenn misstu vinnuna þar. Þá „misstu 120 vinnuna hjá Airport Associates, helmingur veltu veitingafyrirtækisins sem þjónustaði Play gufaði upp, a.m.k. 13 flugvirkjar misstu vinnuna og hótel og aðrir ferðaþjónustuaðilar hafa fundið fyrir samdrætti.“

„Já, áhrifin af falli Play á Reykjanesskaga eru mikil og þau eru ekki öll komin fram.“

Suðurnesin hafa „staðið höllum fæti” með tilliti til menntunar, atvinnuþróunar og álags vegna jarðhræringa.

„Við verðum að hafa í huga að þótt nýr aðili komi inn til að fylla skarð Play þá er það nú þannig að ef sá aðili hefur ekki heimilisfesti hér á landi þá munu staðbundin áhrif ekki vera þau sömu á þjónustu og atvinnusköpun,“ sagði Halla Hrund.

„Við eigum að huga að innviðunum. Við eigum að huga að því hvort það þurfi að flýta Reykjanesbrautinni, hvort þurfi að horfa á Suðurnesjalínu, hvort það þurfi að horfa á viðbygginguna við fjölbrautaskólann,“ enda getur menntun „gripið fólk sem nú hefur misst vinnuna og hjálpað því að koma sterkara inn í samfélagið.“

„Framsókn er að leggja til í samvinnu við fleiri aðila að við stofnum Háskólafélag Suðurnesja, háskólafélag sem er sambærilegt og starfar annars staðar eins og á Suðurlandi og miðar að því að efla nýsköpun, atvinnuþróun og efla rannsóknir þannig að þetta svæði geti verið öflugt,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir

„Það eru blikur á lofti“

Deila grein

22/10/2025

„Það eru blikur á lofti“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins skort á skýrum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í ljósi versnandi efnahagsumhverfis. Hann vísaði m.a. til nýlegs dóms Hæstaréttar um ólögmæta skilmála banka og sagði óvissu í hagkerfinu hafa aukist vegna hárrar vaxtastigs, þrálátrar verðbólgu og hækkandi kostnaðar á húsnæðismarkaði.

„Það eru blikur á lofti; sterkt gengi krónu, óvissa í ferðaþjónustu, háir vextir, þrálát verðbólga, hátt húsnæðisverð og skortur á trúverðugleika í ríkisfjármálum. Þetta er ekki góð blanda,“ sagði Þórarinn Ingi.

Kallar eftir greinargóðri áætlun

Þórarinn Ingi sagði ríkisrekstur á viðkvæmu stigi og tiltrú á hagstjórn minni en þörf væri á. Hann spurði hvar aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru og hvenær þær yrðu birtar. „Alþingi verður að fá skýra mynd af hagræðingarverkefnum ríkisstjórnarinnar án tafar,“ sagði hann og bætti við að aukið aðhald og skilvirkni ríkisins væri „grundvallaratriði efnahagsmála“.

Húsnæðismarkaður undir pressu

Þórarinn Ingi segir að húsnæðismarkaðurinn sýni vel þá stöðu sem uppi sé: byggingarkostnaður hafi hækkað verulega á síðustu tveimur árum, verktakar dragi saman seglin, ný verkefni tefjist og fjármögnun sé of dýr til að arðsemi haldist. „Staðan er ekki sjálfbær,“ sagði hann.

Hvetur til skjótvirkra mótvægisaðgerða

Þórarinn Ingi hvatti ríkisstjórnina til að leggja fram aðgerðir um hagræðingu og skýr áform á húsnæðismarkaði sem fyrst, þannig að unnt verði að ræða þau faglega bæði á Alþingi og með hagsmunaaðilum.

„Ég hvet ríkisstjórnina til að leggja fram aðgerðir um hagræðingu og áform m.a. á húsnæðismarkaði eins fljótt og kostur er,“ sagði hann að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Deila grein

22/10/2025

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Í stóru og fjölbreyttu sveitarfélagi eins og Múlaþingi er mikilvægt að tryggja að allir íbúar upplifi sig sem virka þátttakendur. Með sameiningu byggðarlaga fylgir sú áskorun að viðhalda nálægð og trausti milli íbúa og stjórnsýslu, og að ákvarðanir endurspegli raunverulegar þarfir fólks á öllum svæðum. Þar koma heimastjórnir sterkt inn sem lykilverkfæri í lifandi lýðræði og fjölkjarna sveitarfélagi.

Fjölkjarna sveitarfélög og lærdómur fyrir Múlaþing

Í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem ber heitið Fjölkjarna sveitarfélög og unnin var af þeim Hjalta Jóhannessyni og Arnari Þór Jóhannessyni, er fjallað um reynslu sveitarfélaga sem hafa tekið upp heimastjórnir og önnur form íbúalýðræðis eftir sameiningar. Þar kemur fram að Múlaþing sé eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur mótað skýrt kerfi heimastjórna til að tryggja tengsl milli íbúa og sveitarstjórnar.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar gegna heimastjórnir lykilhlutverki í að viðhalda staðbundinni þátttöku og skilningi á þörfum mismunandi byggðarkjarna. Þar sem heimastjórnir starfa með skýru hlutverki, reglubundnum fundum og góðu upplýsingaflæði, eykst traust, gagnsæi og skilvirkni í ákvarðanatöku. 

Hlutverk heimastjórna

Heimastjórnir eru brú milli sveitarstjórnar og íbúa. Þær tryggja að raddir fólks á öllum svæðum heyrist í stefnumótun og ákvörðunum. Þær byggja á þeirri einföldu, en áhrifaríku hugmynd, að bestu ákvarðanirnar fæðast þegar þær eru teknar í samvinnu við þá sem þekkja málin best, íbúana sjálfa.

Í fjölkjarna sveitarfélagi eins og Múlaþingi, þar sem aðstæður eru ólíkar milli byggðarlaga, er þessi nálægð sérstaklega mikilvæg. Heimastjórnir hjálpa til við að forgangsraða rétt, byggja upp traust og varðveita sérkenni hvers svæðis. Þær geta einnig verið vettvangur fyrir frumkvæði innan sveitarfélagsins, þar sem hugmyndir spretta beint úr samfélaginu sjálfu.

Gildi íbúafunda og samráðs

Skýrslan bendir jafnframt á að íbúalýðræði blómstrar ekki af sjálfu sér, það þarf að skapa vettvang fyrir samtal. Þar koma íbúafundir sterkast inn. Þeir eru ekki einungis upplýsingafundir heldur tækifæri til að ræða, spyrja og móta framtíðarsýn saman. Reglulegir íbúafundir og opið samráð tryggja að ákvarðanir sveitarfélagsins byggist á gagnsæi og þátttöku. Samkvæmt RHA er þetta eitt af lykilatriðunum sem aðgreinir þau fjölkjarna sveitarfélög sem ná árangri frá þeim sem glíma við sundrung og vantraust.

Heimastjórnir og íbúasamtal eru ekki formsatriði heldur hjarta virks sveitarfélags. Þær tryggja að lýðræðið sé lifandi, að ákvarðanir séu teknar í samvinnu og að samfélagið styrkist út frá sínum eigin grunni.

Heimastjórnir hafa boðað til funda tvisvar á ári og hafa þeir fundir reynst okkur afskaplega vel, bæði er hægt að halda kynningar á helstu málum sveitarfélagsins en einnig taka við ábendingum íbúa er varðar hin ýmsu mál. Heimastjórnirnar fjórar eru nú flestar búnar að boða haustfundi með íbúum sínum og ég vil hvetja íbúa okkar til að mæta á sínu svæði, við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B-lista og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 21. október 2025.

Categories
Fréttir

„Við þurfum sókn, ekki bara átak“

Deila grein

21/10/2025

„Við þurfum sókn, ekki bara átak“

„Kerecis, Controlant, CCP, Grid, Marel, Meniga og Myrkur Games… þetta eru ekki orð í skrúfu heldur fyrirtæki sem hafa skapað gríðarlega þekkingu og verðmæti fyrir íslenskt samfélag,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi um stöðu verkfræði-, stærðfræði-, raunvísinda- og náttúruvísindanáms á háskólastigi.

Halla Hrund lagði áherslu á að efling STEM-greina væri lykilforsenda samkeppnishæfni þjóðarbúsins, bæði með hliðsjón af yfirstandandi tæknibyltingu í gervigreind og til að laða ungt fólk aftur heim úr námi. „Ef þessum fyrirtækjum tekst vel til þá græða allir í íslensku samfélagi,“ sagði hún og nefndi m.a. Oculis, Lucinity, Bláa lónið, GeoSilica, 1939 Games og Aldin Dynamics sem dæmi um sprota og vaxtarfyrirtæki sem byggja á STEM-menntun.

Kallar eftir „sókn“ í stað „átaks“

Halla Hrund hvatti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra til að stilla upp markvissri sóknaráætlun. „Við erum að tala um átak í grunnskólum og framhaldsmenntun, en við þurfum sókn núna því málin breytast hratt,“ sagði hún og óskaði eftir skýrari útfærslu á því hvernig slík sókn myndi birtast og tengjast stuðningi við nýsköpunarumhverfið og atvinnustefnu í mótun.

Grunnurinn þarf að vera sterkur og seiglan skipti máli

Í seinni ræðu sinni þakkaði Halla Hrund fyrir málefnalega umræðu og tók undir ábendingar þingmanna um að grunnfærni í stærðfræði og raungreinum yrði að vera traust. Hún lagði jafnframt áherslu á aga og þrautseigju í námi: „Við þurfum að æfa seigluna, æfa okkur í því sem krefst aga,“ sagði hún og vísaði til innlegga sem bentu á mikilvægi vinnuvana og úthalds.

Auðlindirnar drifkraftur byggðaþróunar

Halla Hrund beindi sérstakri athygli að tækifærum í auðlindatengdri nýsköpun um land allt. „Þetta er sennilega eitt mesta tækifærið fyrir byggðaþróun; auðlindirnar eru dreifðar og því getur verðmætasköpunin orðið það líka,“ sagði hún og nefndi sem dæmi Kerecis og Primex ásamt Bláa lóninu og GeoSilica.

Til að kveikja áhuga ungmenna lagði hún til að skólakerfið og atvinnulífið næðu betur saman með markvissum kynningum og heimsóknum: „Fáum ungt fólk inn á vinnustaðina, sýnum þeim verkefnin og tengjum algebruna við raunveruleg tækifæri. Þá skýrist myndin og þá vegnar okkur vel.“

Categories
Fréttir

Vantar skýrari leiðir þegar bið raungerist

Deila grein

21/10/2025

Vantar skýrari leiðir þegar bið raungerist

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, beindi fyrirspurn til mennta- og barnamálaráðherra um stöðu meðferðarúrræða fyrir börn og ungmenni. Tilefnið er tvö nýleg mál þar sem ungmenni leituðu meðferðar erlendis vegna skorts á viðunandi þjónustu hérlendis.

Ingibjörg sagði að foreldrar hefðu lýst því sem „þungbæru“ að senda börn sín úr landi til að fá lífsnauðsynlega þjónustu. Hún tók undir mikilvægi þess að öll úrræði, heima og erlendis, byggðust á gagnreyndum aðferðum og viðurkenndum stöðlum, en lagði áherslu á að bið eftir innlendum úrræðum mætti ekki verða til þess að börn sættu þjónustuleysi.

„Þegar úrræði eru ekki til staðar innan lands eða þegar börn þurfa að bíða mánuðum saman eftir plássi eða þjónustu, lífsnauðsynlegri þjónustu, þá er mikilvægt að hægt sé að leita einhverra leiða,“ sagði hún og bætti við að ekki væri boðlegt að fjölskyldur stæðu frammi fyrir vali á milli biðar heima eða sjálfsaflaðra lausna erlendis „með tilheyrandi kostnaði og óvissu“.

Ingibjörg minnti á að ráðherra hefði áður vísað til þess að tiltekin erlendu úrræði uppfylltu ekki staðla sem gerðir eru kröfur um fyrir börn og ungmenni, hvorki hér né á Norðurlöndum, sem hún taldi rétt sjónarmið í sjálfu sér. „En það breytir ekki þeirri staðreynd,“ sagði hún, „að þegar innlend úrræði eru ekki til staðar þarf að tryggja samfellda og örugga þjónustu með öðrum hætti þar til þau eru tilbúin.“

Kallar eftir formlegu mati og mögulegri tímabundinni lausn

Ingibjörg lagði þrjár spurningar fyrir ráðherra:

  • Hefur verið metið með formlegum hætti hvort þetta umrædda úrræði uppfylli þá staðla sem við gerum kröfur um?
  • Eru önnur úrræði erlendis sem uppfylla slíka staðla?
  • Ef hægt er að tryggja meðferð erlendis á stofnunum sem uppfylla slíka staðla mun ráðherra þá endurskoða afstöðu sína til þess að veita tímabundinn stuðning við meðferðarúrræði erlendis þegar það er eina raunhæfa leiðin til að tryggja barninu samfellda og örugga þjónustu þar til innlend úrræði eru tilbúin?
Categories
Fréttir

„Hver er rétta talan?“

Deila grein

21/10/2025

„Hver er rétta talan?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, kallaði eftir skýrari svörum frá ríkisstjórninni, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, um „mjög misvísandi upplýsingar“ um mögulegan kostnað ríkissjóðs og tengdra fyrirtækja vegna falls flugfélagsins Play. Hann krafðist þess að fjármálaráðherra legði þegar fram eina, heildstæða tölu og útskýrði hvernig hún skiptist.

Sigurður Ingi vísaði til þriggja mismunandi fjárhæðna sem hafi verið nefndar á fáum dögum: „Fjármálaráðherra sagði […] að það væri trúlega um nokkur hundruð milljónir að ræða. Nokkrum dögum síðar kom hæstv. innviðaráðherra og taldi að kostnaðurinn væri 1,5 milljarðar. Síðan fréttist af minnisblaði fjármálaráðuneytisins þar sem talað var um 5 milljarða.“ Sigurður Ingi sagði þennan breytileika óásættanlegan og spurði: „Hver er rétta talan, ef einhver veit hana?“

Spyr um áhrif á stöðugleikareglu og Isavia

Jafnframt vildi Sigurður Ingi fá staðfest hvort mögulegt tjón hefði áhrif á svonefnda stöðugleikareglu ríkisfjármála. „Ef það eru 5 milljarðar er þá stöðugleikareglan í uppnámi?“ spurði hann og minnti á að „ríkisstjórnin hafi skilið um 500 milljónir eftir“ í ramma.

Mikilvægt væri að greina hvað félli á A-hluta ríkissjóðs og hvað á Isavia, sem starfar utan A-hlutans: „Ef þetta er vegna þess að kostnaðurinn falli á Isavia […] hver er þá kostnaður Isavia vegna þessa?“ bætti hann við.

Vaxandi tekjurýrnun vegna verkfalls

Í sömu andrá tengdi hann málið yfirvofandi tekjurýrnun hjá Isavia vegna verkfalls flugumferðarstjóra og áhrif þess á ferðaþjónustu og þjóðarbúið. „Er þá orðin hætta á því að lánalínur Isavia, sem er í miklum framkvæmdum, séu í uppnámi? Er hætta á innköllun á lánalínum eða […] að hér þurfi á að halda auknu eigin fé úr ríkissjóði til Isavia, til þess að Isavia geti haldið áfram sínum dampi?“ spurði hann.

Kallar eftir „heiðarlegum og réttum svörum“

Sigurður Ingi sagði brýnt að Alþingi fengi „heiðarlegri og rétt svör“ frá ríkisstjórninni og að ekki skeikaði „nokkru hundruð milljónum upp í 5 milljarða“. Hann lagði áherslu á að ráðherrar samræmdu tölur og settu fram sundurliðaða mynd af mögulegu tjóni og skuldbindingum ríkisins og dótturfyrirtækja þess.

Categories
Fréttir Greinar

1500 vanvirk ung­menni í Reykja­vík

Deila grein

21/10/2025

1500 vanvirk ung­menni í Reykja­vík

Um 1500 ungmenni á aldrinum 18–29 ára í Reykjavík eru ekki í námi, vinnu eða virkni. Bakvið þessa tölu eru raunverulegir einstaklingar. Ungt fólk sem á allt lífið framundan. Það skiptir því máli að við grípum ungt fólk í vanvirkni og veitum því þann stuðning sem það þarf til að komast aftur í virkni.

Hugtakið sem notað er yfir hópinn er NEET (e. Not in Education, Employment or Training) og er þetta hópur sem ráðamenn um alla Evrópu hafa haft vaxandi áhyggjur af. Árið 2023 var hlutfall einstaklinga á aldrinum 15-29 ára í hópnum yfir 11% í Evrópusambandinu. Á Íslandi var hlutfallið 6,3% hjá einstaklingum á aldrinum 16–24 ára árið 2022, samkvæmt Hagstofunni. Ástæður þess að einstaklingarnir eru í vanvirkni eru ólíkar. Sum ungmenni hafa flosnað úr skóla eða glímt við námserfiðleika, önnur glíma við andlega vanheilsu, veikindi eða félagslega erfiðleika sem gera þeim erfitt fyrir að hefja eða halda vinnu.

Afleiðingarnar vanvirkni eru miklar bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið. Ungt fólk í vanvirkni byggir ekki upp reynslu, færni eða tengslanet í gegnum nám eða vinnu. Sjálfstraust og félagsfærni einstaklinga í vanvirkni minnkar og hættan á félagslegri einangrun, fátækt og vanlíðan eykst. Fyrir samfélagið getur vanvirkni ungs fólks falið í sér mannauðstap, leitt til lækkunar á framleiðni þjóðarinnar og aukið kostnað við velferðarkerfið. Það er því ljóst að mikilvægt er að auka stuðning við ungmenni sem detta úr virkni.

Við þurfum að stíga stærri skref

Við í Framsókn teljum að Reykjavíkurborg þurfi að stíga stærri skref til að mæta þessum hópi ungs fólks. Á fundi borgarstjórnar í dag leggjum við til að velferðarsviði verði falið, í samstarfi við menningar- og íþróttasvið og skóla- og frístundasvið, að útfæra aðgerðir til að að auka virkni og stuðning við einstaklinga á aldrinum 16-29 ára sem eru ekki í námi, vinnu eða virkni.

Við leggjum einnig til að borgin útfæri farsældarsamninga við foreldra eða forsjáraðila barna sem ljúka grunnskóla, með það að markmiði að auka samstarf borgarinnar við framhaldsskóla og bregðast við brottfalli úr framhaldsskólum. Það gerir það að verkum að framhaldsskólinn og sveitarfélagið geta átt í nánari samstarfi og hægt er að bregðast strax við merkjum um að einstaklingur sé að flosna upp úr námi. Slíkir samningar hafa gefist vel í öðrum sveitarfélögum eins og Árborg.

Reynslan sýnir okkur að með réttri nálgun og samstilltum aðgerðum má ná árangri með hópum sem falla á milli skips og bryggju í hefðbundinni velferðarþjónustu. Með því að grípa inn í með snemmtækri íhlutun, samþættingu á þjónustu og einstaklingsmiðuðum stuðningi getum við hjálpað ungu fólki að finna sína leið og komast í nám, vinnu eða aðra virkni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að hafa trú á sam­fé­laginu

Deila grein

21/10/2025

Að hafa trú á sam­fé­laginu

Við í sveitarfélaginu Norðurþingi stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Rekstrarstöðvun PCC Bakki Silicon hefur djúpstæð áhrif á samfélagið okkar – á atvinnulífið, tekjur sveitarfélagsins og trú fólks á framtíðina. Nú þarf bjartsýni, seiglu og aðgerðir sem skapa framtíðina. En sykurhúðum ekki stöðuna. Kringum 200-250 störf tapast beint og óbeint. Það er líkt og 4000 einstaklingar í Reykjavík. Tekjur sveitarfélagsins lækka um nærri 900 milljónum króna á ári, þar af tekjur Hafnasjóðs um 70% eða 300-350 milljónir. Slíkt tekjufall hefur áhrif. Við stöndum samt keik, tökum höggið og svörum með lausnum, ekki uppgjöf.

Bjartsýni og orka

Samfélagið hefur saman farið í gegnum áföll og breytingar og endurbyggt. Við eigum grunninn og innviðina, kraftinn og reynsluna. Við eigum framtíðina ef við nýtum tækifærin sem nú blasa við. Á Bakka er eitt best staðsetta og búna iðnaðarsvæði á Íslandi. Orka. Heitt vatn. Höfn. Og tækifæri til að bæta í fyrir fjölbreyttari starfsemi. Það staðfestir nýútkomin skýrsla ríkisvaldsins. Auk þess menntað fólk og sterka samfélagsvitun. Já, það mun reyna á samstöðuna, viljann og þrautseigjuna. Tækifærið er nú til nýrrar atvinnuuppbyggingar. Við ætlum að vera í fararbroddi í þeirri vinnu. Bjartsýn. Við ætlum að sækja fram. Iðnaður, orkutækni, nýting samgönguinnviða eins og höfn og þá flugvöll til nýrrar starfsemi sem mun skapa tekjur fyrir þjóðarbúið. Að tryggja að hver króna sem fer í uppbygginguna nýtist svæðinu. Höfum þess vegna trú á samfélaginu okkar og stóru myndinni. Samhliða þessu þurfum við að treysta atvinnustarfsemi sem fyrir er og bjóða fyrirtæki, frumkvöðla og nýtt fólk velkomið í verkefnið. Að vera hluti af framtíðinni í okkar sveitarfélagi. Þegar við stöndum saman verður ekkert fjall of hátt eða áskorun of stór.

Hreyfiafl til framfara

Sveitarstjórn mun nota næstu mánuði til að þrýsta áfram á ríkisvaldið og alla haghafa um fjárfestingar og stuðning til nýrra verkefna, tryggja áframhaldandi starfsemi og tekjuöryggi og laða að ný fyrirtæki á Bakka og víðar í sveitarfélaginu. Við munum upplýsa íbúa og vinna í sameiningu að framtíðinni. Því framtíð sveitarfélagsins byggir ekki á því sem við höfum misst heldur því sem við ætlum að byggja upp saman. Bjartsýni og jákvæðni eru þar hreyfiafl til framfara. Höfum trú á samfélaginu okkar, áfallið verður að tækifæri fyrir okkur sjálf, sem hér búum. Við ætlum að halda áfram að byggja upp.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Deila grein

21/10/2025

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Evrópa hefur sýnt mikla seiglu í gegnum áföll síðustu ára, þ.e. frá heimsfaraldrinum til orkuskortsins sem fylgdi innrás Rússlands í Úkraínu. Engu að síður dregur nýjasta skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álfuna (e. Regional Economic Outlook: Europe) upp dökka mynd. Evrópa virðist vera að sigla inn í tímabil lítils hagvaxtar og stöðnunar. Stjórnvöld um alla Evrópu átta sig á vandanum en hafa ekki náð að grípa til aðgerða sem gætu snúið þessari þróun við.

Skýrsla AGS gagnrýnir þann hægagang sem virðist vera ráðandi. Viðskiptaerjur við Bandaríkin, styrking evrunnar og viðvarandi pólitísk óvissa hafa dregið úr útflutningi og fjárfestingum. Þrátt fyrir að vaxtalækkanir og aukin ríkisútgjöld ættu að örva eftirspurn atvinnulífsins hefur hagvöxtur ekki tekið við sér. Framleiðni efnahagskerfisins er stöðnuð og Evrópa heldur áfram að dragast aftur úr Bandaríkjunum.

Aðgerðaleysi er rót vandans og er ekki best geymda leyndarmálið í Brussel. Viljann til verka virðist skorta til að efla samkeppnishæfni. Atriði sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru kerfisumbætur á fjármálamarkaði og aukinn hreyfanleiki vinnuafls. Ásamt því að draga úr íþyngjandi og flóknu regluverki. Evrópusambandinu hefur ekki tekist að hrinda þessu í framkvæmd og því hefur framleiðnin dregist saman.

Efnahagslegar afleiðingar þessa stefnuleysis eru augljósar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að skuldabyrði Evrópuríkja geti hækkað í allt að 130 prósent af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2040, ef hagvöxtur tekur ekki við sér. Á sama tíma er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkisfjármál ESB-ríkja, sem er tilkominn vegna öldrunar samfélaga og kallar á aukin útgjöld til heilbrigðis- og lífeyrismála. Einnig hafa útgjöld til varnarmála og loftslagsaðgerða vaxið mikið. Án aukinnar framleiðni munu tekjur hins opinbera einfaldlega ekki standa undir nýjum skuldbindingum.

Það eru hagsmunir Íslands að Evrópa standi traustum fótum efnahagslega. Ef Evrópa stendur veikt, þá minnkar það möguleika Íslands til útflutnings á matvælum og þjónustu.

Þess vegna er mikilvægt að ráðist verði í langtíma kerfisumbætur og einföldun regluverks. Evrópusambandið þarf að ráðast í miklar kerfisbreytingar. Ísland á ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar staðan er með þessum hætti.

Undirstaða tækniframfara og atvinnusköpunar er hagvöxtur. Ísland á að bæta sína eigin samkeppnisstöðu með því að efla nýsköpun, bæta framleiðni og treysta undirstöður hagkerfisins. Þannig getum við tryggt áframhaldandi vöxt og stöðugleika, óháð því hvernig vindar blása á meginlandinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2025.

Categories
Fréttir

38. Flokksþing Framsóknar í Reykjavík 14.-15. febrúar 2026

Deila grein

20/10/2025

38. Flokksþing Framsóknar í Reykjavík 14.-15. febrúar 2026

Haustfundur miðstjórnar hefur boðað til 38. Flokksþings Framsóknar helgina 14.-15. febrúar 2026 á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík. Á þinginu verður mótuð meginstefna flokksins í landsmálum, kosið í lykilembætti og sett ný eða endurskoðuð flokkslög.

    Samkvæmt lögum Framsóknar er flokksþing haldið eigi sjaldnar en annað hvert ár og að jafnaði á fyrri hluta árs. Flokksþing hefur æðsta vald í málefnum flokksins.

    Á dagskrá þingsins er meðal annars að kjósa formann Framsóknar, sem jafnframt verður formaður miðstjórnar, auk varaformanns, ritara og tveggja skoðunarmanna reikninga. Þá verður kosið í laganefnd og siðanefnd; tveir meðstjórnendur og tveir til vara í hvora nefnd.

    Helstu dagsetningar og skilafrestir

    15. janúar: Viðmiðunardagur fulltrúatölu aðildarfélaga.

    30. janúar: Lagabreytingum skal skila til flokksskrifstofu.

    7. febrúar kl. 10.00: Kjörbréfum skal skila til flokksskrifstofu.

      Fulltrúar og þátttaka

      Hvert flokksfélag getur sent einn fulltrúa með atkvæðisrétt fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala miðast við félagatal sem liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing.

      Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum viðkomandi aðildarfélags. Tilkynna skal val á fulltrúum til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett.

      Allir félagsmenn Framsóknar eiga rétt á að sækja flokksþing með málfrelsi og tillögurétt, en miðstjórnarmenn eiga jafnframt sæti á þinginu með atkvæðisrétti.