Categories
Fréttir

„Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum“

Deila grein

14/03/2025

„Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um stöðu efnahagsmála í aðdraganda fjármálaáætlunar á Alþingi. Sagði hann við blasa meiri háttar áskoranir bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að þingið ræði helstu áskoranir og tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir, sérstaklega í ljósi óvissu í alþjóðamálum.

Alþjóðleg óvissa hefur áhrif á íslenskt efnahagslíf

„Breytingar á tollaumhverfi, líkur á aukinni verðbólgu, áframhaldandi stríðsátök og sveiflur í hrávöruverði skapa krefjandi aðstæður utan frá sem krefjast varfærinnar og markvissrar hagstjórnar. Það blasir við að staða mála er mörkuð mun meiri óvissu en síðastliðið haust,“ sagði Sigurður Ingi. Hann lagði áherslu á að við yrðum að vera vakandi yfir því hvernig þessi þróun hefur áhrif á stöðu Íslands og hvernig bregðast megi við til að tryggja velferð almennings.

Hagræðing og sjálfbær fjármál í forgrunni

Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur um hagræðingu í opinberum rekstri sem forsenda sjálfbærra fjármála ríkisins. Einnig hefur verið lagt fram langtímaáætlun fjármálaráðuneytisins um efnahagsmál sem lýsir umtalsverðri óvissu um stöðu efnahagsmála.

Sigurður Ingi spurði fjármála- og efnahagsráðherra um viðbrögð og aðgerðaáætlanir ríkisstjórnarinnar vegna hugsanlegra breytinga á tollaumhverfi og sölu ríkiseigna. Hann benti á að fram settar tölur um áætlaðan sparnað væru byggðar á veikum grunni og kallaði eftir skýrum svörum um hvort tillögur hagræðingarhópsins yrðu settar fram í komandi fjármálaáætlun. Hann lagði einnig áherslu á nauðsyn þess að tryggja að aðstæður haldist til frekari vaxtalækkunar.

Óvissa um sölu ríkiseigna

Þá vék hann einnig að sölu ríkiseigna og spurði sérstaklega um stöðu Íslandsbanka og Isavia.

„Hvað með sölu ríkiseigna? Væntanlega stendur til að selja Íslandsbanka á næstunni þrátt fyrir andstöðu Flokks fólksins, alla vega á síðasta kjörtímabili, í hinni samhentu ríkisstjórn. Stendur það til? Hvað með Isavia? Á síðustu mánuðum mínum í fjármálaráðuneytinu lét ég vinna skýrslu til að fá betri upplýsingar um eignarhald og rekstrarfyrirkomulag á slíku fyrirkomulagi eins og hjá Isavia. Er sú skýrsla komin fram, mér skilst það, og verður hún birt?“

Framsókn kallar eftir gegnsæi og samstöðu

Sigurður Ingi undirstrikaði mikilvægi skýrrar stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hann kallaði eftir samstöðu Alþingis og auknu gegnsæi við stjórn ríkisins til að tryggja velferð almennings og bregðast við óvissu í alþjóðamálum. Hann lýsti yfir vilja Framsóknar til heiðarlegs og málefnalegs samtals um efnahagsmál.

„Við nálgumst tíu ára afmæli laga um opinber fjármál. Lögin hafa gjörbreytt stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Í ljósi tíu ára reynslu og áforma um nýja stöðugleikareglu, sem við í Framsókn styðjum, sem ríkisstjórnin hefur kynnt er tilefni til að ræða hvort ekki sé kominn tími til að meta hvort lögin hafi yfirleitt skilað tilætluðum árangri og hvað megi bæta.“

Ítrekaði Sigurður Ingi mikilvægi þess að stjórnvöld og Alþingi standi saman í mótun efnahagsstefnu landsins.

Skýr stefna og afstaða ríkisstjórnarinnar er nauðsyn. Samstaða Alþingis vegna stöðunnar í alþjóðamálum hefur sjaldan verið eins mikilvæg og nú. Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum og aukið gegnsæi við stjórn ríkisins. Við í Framsókn erum tilbúin í heiðarlegt og málefnalegt samtal um allt ofangreint. Við verðum að standa saman.“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging hjúkrunarheimila á Íslandi

Deila grein

14/03/2025

Uppbygging hjúkrunarheimila á Íslandi

Upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila hef­ur verið eitt brýn­asta verk­efnið í ís­lensku vel­ferðar­kerfi und­an­far­in ár. Með hækk­andi meðal­aldri þjóðar­inn­ar vex þörf­in fyr­ir hjúkr­un­ar­rými hratt, en fram­kvæmd­in hef­ur því miður reynst hæg. Fram­kvæmda­áætl­un til árs­ins 2028 var lögð fram af fyrri rík­is­stjórn með það að mark­miði að bæta úr skorti á hjúkr­un­ar­rým­um, strax á þessu ári. Nú þegar ný rík­is­stjórn hef­ur tekið við vakn­ar spurn­ing­in hvort þau muni fylgja þeirri stefnu og tryggja fram­gang verk­efn­is­ins eða gera breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lag­inu.

Í síðustu viku lagði ég fram fyr­ir­spurn til fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra um hvernig ný stjórn­völd hygðust tryggja raun­hæfa og tím­an­lega upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila. Ég benti á mik­il­vægi póli­tísks vilja svo fjár­magn fylgdi sett­um mark­miðum. Því var mik­il­vægt að fá skýr svör um hvort ný rík­is­stjórn hygðist fylgja áætl­un­inni eða hvort stefnu­breyt­ing væri fyr­ir­huguð.

Hver er staðan nú?

Sam­kvæmt ný­legri skýrslu um fram­kvæmda­áætl­un hjúkr­un­ar­heim­ila er ljóst að á næstu árum þarf að byggja og bæta yfir 900 hjúkr­un­ar­rými, þar af fjölg­un um 724 rými. Á þessu ári er gert ráð fyr­ir um 250 nýj­um hjúkr­un­ar­rým­um, þar á meðal á Boðaþingi og Nesvöll­um sem verða opnuð með vor­inu og búið er að leigja aðstöðu í Urðar­hvarfi.

Ný verk­efni eins og hjúkr­un­ar­heim­ili á Ak­ur­eyri, í Húsa­vík, Pat­reks­firði og á höfuðborg­ar­svæðinu voru á dag­skrá fyrri rík­is­stjórn­ar þar sem fara átti svo­kallaða leigu­leið til að flýta fyr­ir fram­kvæmd­um.

Fram­kvæmd­ir og framtíðar­sýn

Ein af lyk­il­spurn­ing­um sem ég beindi til ráðherra var hvort rík­is­stjórn­in ætlaði að fylgja þeirri stefnu fyrri rík­is­stjórn­ar að nota leigu­leiðina til að hraða upp­bygg­ingu. Þessi aðferð fel­ur í sér að ríkið aug­lýs­ir eft­ir fast­eigna­fé­lög­um eða bygg­ing­araðilum til að reisa og reka hjúkr­un­ar­heim­il­in, en ríkið tek­ur þau síðan á lang­tíma­leigu. Þetta hef­ur reynst skila skjót­ari ár­angri en hefðbund­in fram­kvæmda­leið.

Svar ráðherra var óljóst, sagði þau vera að vinna verkið og fram­kvæma en svaraði engu til með leigu­leiðina. Þetta lof­orð um fram­kvæmd er án efa já­kvætt, en það þarf að tryggja að skýr­ar fjár­veit­ing­ar og samn­ing­ar fylgi með. Án fjár­magns og sam­stöðu rík­is og sveit­ar­fé­laga geta fram­kvæmd­ir taf­ist óþarf­lega, eins og dæm­in sanna. Ég mun áfram fylgj­ast náið með hvernig þess­ar fram­kvæmd­ir þró­ast, því það skipt­ir máli að eldri borg­ar­ar okk­ar fái þann stuðning og þá umönn­un sem þeir eiga skilið.

Á næstu árum mun eft­ir­spurn eft­ir hjúkr­un­ar­rým­um aðeins aukast. Fyr­ir­spurn mín til ráðherra var því ekki bara spurn­ing um fram­kvæmda­áætlan­ir, held­ur um sam­fé­lags­lega ábyrgð. Nú er það verk­efni rík­is­stjórn­ar­inn­ar að láta verk­in tala og munu næstu mánuðir leiða í ljós hvort hún ætl­ar að standa við lof­orð og tryggja að upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila verði ekki aðeins orð á blaði held­ur áþreif­an­leg­ur veru­leiki.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2025.

Categories
Fréttir

„Leikskólapláss varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna“

Deila grein

13/03/2025

„Leikskólapláss varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fór yfir í störfum þingsins, hver staðan í Reykjavík væri við að tryggja öllum börnum leikskólapláss, en hundruð foreldra bíða nú eftir slíku fyrir börnin sín. „Að tryggja öllum börnum leikskólapláss er mikilvægt verkefni sveitarfélaga. Þau varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna.“

Framsókn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til tímabundnar heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi. Hugmyndin er að greiðslurnar séu bundnar við virka umsókn og falli niður strax og barnið fær úthlutað rými. Meirihluti borgarstjórnar hafnaði þessari tillögu.

„Heimgreiðslur geta dregið úr fjárhagslegu álagi á fjölskyldur sem standa frammi fyrir bili milli fæðingarorlofs og leikskólavistar. Sveitarfélög ættu að nýta sér þetta tímabundna úrræði samhliða því að fjölga leikskólaplássum með samvinnu við atvinnulífið og fjölbreyttari rekstrarformum,“ sagði Ingibjörg.

„Við í Framsókn viljum styðja við fjölskyldur með raunhæfum úrræðum sem bæta lífsgæði barna og foreldra.“

Ingibjörg kallaði eftir viðbrögðum Kolbrúnar Baldursdóttur, alþingismanns, frá Flokki fólksins, varðandi viðhorf til heimgreiðslna og hugsanlegra annarra lausna, svo sem lengingar fæðingarorlofs eða leikskóla rekna af fyrirtækjum eins og Alvotech hefur boðið fram.

„Hver er þín sýn á heimgreiðslur til foreldra? Styður þú rök meiri hluta borgarstjórnar um að þetta sé óraunhæft úrræði eða telur þú að slíkar greiðslur geti skipt sköpum fyrir fjölskyldur í erfiðri stöðu? Styður þú lengingu fæðingarorlofs sem lausn til að draga úr þessu bili sem myndast á milli fæðingarorlofs og leikskóla? Og hvað finnst þér varðandi annað rekstrarform leikskóla eins og Alvotech var reiðubúið í?,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Störf þingsins – Ingibjörg Isaksen:
Categories
Fréttir

Gagnrýnir ráðherra fyrir rangar upplýsingar um viðbragðstíma í Háholti

Deila grein

13/03/2025

Gagnrýnir ráðherra fyrir rangar upplýsingar um viðbragðstíma í Háholti

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi harðlega í ræðu á Alþingi nýlega ákvörðun stjórnvalda um að hafna nýtingu Háholts í Skagafirði fyrir vistun barna. Sagði hann mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, um að fara með rangar upplýsingar varðandi viðbragðstíma neyðaraðila á svæðinu, sem gætu haft þau áhrif að ranglega sé metið að staðurinn henti ekki fyrir vistun barna og þannig útilokað mögulega mikilvægt úrræði á röngum forsendum.

„Ráðherra heldur því fram að viðbragðstíminn í Háholti sé 30 mínútur. Raunveruleikinn er sá að frá Sauðárkróki að Háholti eru aðeins 22 km. Það myndi því þýða að ekið væri á aðeins 40 km. hraða í neyðarakstri, sem er auðvitað fjarstæðukennt,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann sveitarfélagið hafa fengið ófullnægjandi eða engin svör frá ráðuneytinu varðandi nýtingu húsnæðisins í Háholti og að enginn fulltrúi hafi einu sinni komið á staðinn til að kanna aðstæður.

„Þetta eru rökleysur og sýna fram á illa upplýsta ákvörðun. Ég hvet ráðherra til að endurskoða málið, koma sjálf á staðinn og kanna aðstæður og tryggja að ákvörðun um nýtingu Háholts verði tekin á grundvelli réttra upplýsinga og raunverulegra staðreynda,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Störf þingsins – Stefán Vagn Stefánsson:

Categories
Fréttir

Sjávarflóð verða algengari – kallað eftir sérstökum viðlagasjóði

Deila grein

13/03/2025

Sjávarflóð verða algengari – kallað eftir sérstökum viðlagasjóði

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi á Alþingi þau miklu áhrif sem sjávarflóð höfðu nýlega á Suðurnesjum. Hún benti á að slíkar náttúruhamfarir séu orðnar sífellt tíðari og lagði áherslu á loftslagsbreytingar sem aðalorsökina. Hærra sjávarborð væri afleiðing bæði hlýnunar hafsins og bráðnunar jökla, en að áhrifin væru önnur hér á landi, sérstaklega vegna nálægðar Íslands við Grænland.

„Við sjáum þegar slíka atburði eiga sér stað erlendis, eins og í New York vegna sjávarflóða og Kaliforníu vegna skógarelda, þá draga tryggingafélög sig gjarnan út af þeim svæðum sem verða verst úti,“ sagði Halla Hrund.

Í ljósi þessa kallaði hún eftir framtíðarsýn stjórnvalda og spurði hvort kominn væri tími á að stofna sérstakan sjóð til að mæta afleiðingum sjávarflóða. „Við þurfum að skoða hvort það sé nauðsynlegt að stofna sérstakan viðlagasjóð, sambærilegan þeim sem nú þegar tekur á skriðuföllum og snjóflóðum.“

Halla Hrund benti sérstaklega á áhættusvæði eins og Suðurnes, Seltjarnarnes og Reykjavík sem gætu staðið frammi fyrir aukinni tíðni flóða í framtíðinni.

Störf þingsins – Halla Hrund Logadóttir:

Categories
Fréttir Greinar

Tollastríð er tap allra

Deila grein

13/03/2025

Tollastríð er tap allra

Eft­ir hag­stjórn­ar­villu mill­i­stríðsár­anna var lagt upp með að eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina grund­vallaðist alþjóðaviðskipta­kerfið á frjáls­um viðskipt­um. Rík­ur vilji var fyr­ir því að gera þjóðir háðari hver ann­arri, þar sem það minnkaði lík­urn­ar á átök­um og stríðum. Kenn­ing­ar breska hag­fræðings­ins Dav­id Ricar­do um frjáls viðskipti hafa verið leiðarljós í þess­ari heims­skip­an. Helstu rök­in fyr­ir frjáls­um viðskipt­um eru að þau stuðla að auk­inni fram­leiðni ríkja, lækka vöru­verð, auka fram­boð af vör­um og skila meiri hag­vexti fyr­ir þau ríki sem taka þátt í þeim. Hag­vöxt­ur á heimsvísu tók ekki að aukast að ráði fyrr en eft­ir seinni heims­styrj­öld, sér­stak­lega á tíma­bil­inu 1945-1973, sem hef­ur verið kallað „gull­öld markaðshag­kerf­is­ins“. Meðal þeirra þátta sem stuðluðu að þess­um hag­vexti voru stöðug­leik­inn sem skapaðist með Brett­on-Woods kerf­inu, end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins eft­ir stríð og af­nám hafta­bú­skap­ar og lækk­un tolla. Í kjöl­farið hef­ur vel­sæld og hag­vöxt­ur auk­ist veru­lega með opn­un viðskipta við ríki á borð við Kína og Ind­land.

En skjótt skip­ast veður í lofti. Nú er hafið tolla­stríð. For­seti Banda­ríkj­anna hef­ur hrint í fram­kvæmd efna­hags­stefnu sinni, sem geng­ur út á að Banda­rík­in end­ur­heimti auð sem þau telja sig eiga um all­an heim, meðal ann­ars með því að setja tolla á helstu viðskipta­ríki sín og jafn­vel nán­ustu banda­menn! Með þessu ætl­ar hann sér að leiðrétta viðvar­andi viðskipta­halla Banda­ríkj­anna og nota fjár­magnið til að lækka skuld­ir. Af­leiðing­arn­ar eru vel þekkt­ar í hag­fræðinni og má lýsa sem „tapi allra“. Í fyrsta lagi verður óvissa og órói á fjár­mála­mörkuðum. Stefn­an skap­ar mikla óvissu, sem veld­ur óstöðug­leika á öll­um fjár­mála­mörkuðum og hluta­bréfa­verð í Banda­ríkj­un­um féll um tæp 3% á mánu­dag. Í öðru lagi hækk­ar verðlag og verðbólga eykst. Öll ríki hafa þegar átt í bar­áttu við verðbólgu eft­ir covid og hætta er á að þessi stefna ýti und­ir frek­ari verðhækk­un. Í þriðja lagi minnka alþjóðaviðskipti og hag­vöxt­ur. Þetta er sér­stak­lega slæmt núna, þar sem mörg ríki eru skuld­sett eft­ir gríðarleg út­gjöld á covid-tíma­bil­inu og þurfa hag­vöxt til að draga úr fjár­mögn­un­ar­kostnaði. Í fjórða lagi minnka gjald­eyris­tekj­ur og gjald­miðlar veikj­ast. Að lok­um tap­ast traust og sam­skipti ríkja versna.

Fyr­ir lítið og opið hag­kerfi eins og Ísland er þessi þróun afar nei­kvæð. Mik­il­væg­ustu viðbrögð ís­lenskra stjórn­valda ættu nú að vera að vinna í nánu sam­starfi við at­vinnu­lífið til að tryggja að ís­lensk­ir markaðir hald­ist opn­ir og verði ekki fyr­ir þess­um nýju álög­um. Vel­meg­un Íslands er ná­tengd alþjóðaviðskipt­um og út­flutn­ings­tekj­um þjóðarbús­ins. Við verðum öll að standa vörð um hags­muni Íslands í þessu nýja og krefj­andi viðskiptaum­hverfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Meirihlutinn sem segir nei

Deila grein

12/03/2025

Meirihlutinn sem segir nei

Nú bíða nokk­ur hundruð for­eldr­ar í Reykja­vík eft­ir dag­vist­un fyr­ir börn sín. Þá staðreynd tek ég al­var­lega og vil leggja lóð á vog­ar­skál­arn­ar til þess að styðja við for­eldra sem hafa lokið fæðing­ar­or­lofi og kom­ast ekki út á vinnu­markaðinn vegna skorts á dag­vist­un. Við í Fram­sókn lögðum því fram til­lögu í borg­ar­stjórn um heim­greiðslur til for­eldra sem bíða eft­ir dag­vist­un. Til­lag­an gerði ráð fyr­ir að greiðslurn­ar væru skil­yrt­ar við virka um­sókn um dag­vist­un og féllu niður um leið og dag­vist­un­ar­plássi væri út­hlutað.

Fjölg­un leik­skóla­plássa er for­gangs­mál og þarf ekki að fara mörg­um orðum um mik­il­vægi leik­skól­ans fyr­ir mennt­un og þroska barna og fyr­ir tekju­öfl­un og jafn­ari at­vinnuþátt­töku for­eldra. En staðreynd­in er sú að jafn­vel þótt það sé eitt af for­gangs­verk­efn­um sveit­ar­fé­laga að tryggja yngstu íbú­un­um leik­skóla­vist verður að telja það óraun­hæft að 12 mánaða börn kom­ist í dag­vist­un í bráð. Því þótt við mynd­um bæta við nægj­an­lega mörg­um bygg­ing­um und­ir starf­semi leik­skóla og tryggja ávallt nægi­legt rekstr­ar­fé þarf að manna stöður leik­skóla­kenn­ara, sem eru ekki á hverju strái. Fjölg­un ein­stak­linga í mik­il­vægri stétt leik­skóla­kenn­ara er verðugt mark­mið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta for­eldr­um sem eru í bráðum vanda og bíða eft­ir dag­vist­un­ar­plássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt. Meiri­hlut­inn kaus hins veg­ar gegn til­lög­unni með tvenn­um rök­um.

Of kostnaðarsamt?

Í fyrsta lagi taldi meiri­hlut­inn til­lög­una of kostnaðarsama og hún gæti þar af leiðandi dregið úr upp­bygg­ingu leik­skóla­plássa. Auðvitað kost­ar það að greiða fjöl­skyld­um heim en það er okk­ar sem sitj­um í sal borg­ar­stjórn­ar að ákveða hvernig við verj­um fjár­mun­um borg­ar­inn­ar. Við get­um ákveðið að bæði upp­bygg­ing leik­skóla og heim­greiðslur séu for­gangs­mál. Til að mæta kostnaðinum get­um við hagrætt í rekstri borg­ar­inn­ar – af nógu er að taka í þeim efn­um. En ljóst er að meiri­hlut­inn vill for­gangsraða fjár­magni í annað en stuðning við for­eldra sem bíða eft­ir dag­vist­un. For­eldra sem bíða vegna þess að borg­in hef­ur ekki staðið sig nægi­lega vel í því að fjölga leik­skóla­pláss­um þrátt fyr­ir ít­rekuð lof­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um pláss fyr­ir 12 mánaða börn.

Ógn við jafn­rétti?

Í öðru lagi tel­ur meiri­hlut­inn að heim­greiðslur séu kvenna­gildra sem grafi und­an jafn­rétti kynj­anna. Þau telja að greiðslurn­ar muni leiða til þess að kon­ur séu leng­ur heima. Slík gagn­rýni bygg­ist á þeirri for­sendu að fólk hafi val um að senda barn ekki í leik­skóla og fái þess í stað greiðslur. Staðreynd­in er þó sú að for­eldr­ar eru hvort sem er heima vegna skorts á dag­vist­unar­úr­ræðum – það er hin raun­veru­lega „kvenna­gildra“. Greiðslurn­ar milda það tekjutap sem mynd­ast á meðan beðið er eft­ir dag­vist­un og með því að skil­yrða greiðslurn­ar við um­sókn um dag­vist­un er dregið úr áhrif­um kynjam­is­rétt­is. Mörg heim­ili standa frammi fyr­ir erfiðum aðstæðum að loknu fæðing­ar­or­lofi vegna skorts á dag­vist­un. Vand­inn hef­ur vaxið í þrálátri verðbólgu, jafn­vel þótt for­eldr­ar sýni fyr­ir­hyggju með því að dreifa fæðing­ar­or­lofinu eða spara fyr­ir tekjutap­inu sem fylg­ir barneign­um. Sér í lagi ef aðeins eitt for­eldri get­ur aflað tekna á meðan beðið er eft­ir dag­vist­un. Spurn­ing­in er því: Hvort er betra að for­eldr­ar séu heima án tekna eða fái greiðslur sem hjálpa til við að halda heim­il­is­bók­hald­inu rétt­um meg­in við núllið?

Þá hef­ur því verið haldið fram að það séu börn­in sem mest þurfi á því að halda að fara í leik­skóla sem séu heima vegna heim­greiðslna, t.d. börn inn­flytj­enda sem þurfi að til­einka sér tungu­mál þess lands sem þau búa í. Án frek­ari mála­leng­inga má sjá að áður­nefnd rök um skil­yrt­ar heim­greiðslur eiga einnig við hér. Ljóst er þó að huga þarf sér­stak­lega að börn­um sem eru ekki í leik­skóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með ein­hverj­um hætti.

Sama gamla upp­skrift­in

Fyrst og fremst snýst þetta um börn og for­eldra þeirra, sem mörg hver eru í veru­leg­um vanda með að brúa bilið og ná end­um sam­an. Meiri­hlut­inn virðist þó ekki vera til­bú­inn að sýna það í verki að Reykja­vík styðji við barna­fjöl­skyld­ur. Ekki má horfa til fjöl­breyttra lausna. Ekki má semja við vinnustaði um rekst­ur leik­skóla og ekki er hægt að koma á fót heim­greiðslum, þrátt fyr­ir að Pírat­ar, Flokk­ur fólks­ins og Sósí­al­ist­ar, sem nú eru í meiri­hluta, hafi áður talað fyr­ir heim­greiðslum. Rík­is­stjórn­in virðist þá ekki held­ur ætla að lengja fæðing­ar­or­lofið. Nei – enn og aft­ur á að reyna við sömu gömlu upp­skrift­ina sem ekki hef­ur skilað nægj­an­leg­um ár­angri.

Við eig­um að hlusta á for­eldra og taka ósk­ir þeirra og ábend­ing­ar al­var­lega. Þær eru ekki auka­atriði og stjórn­mál­in verða hverju sinni að ganga var­lega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyr­ir bestu. Við meg­um ekki gleyma því að börn og for­eldr­ar lifa þenn­an raun­veru­leika í dag, á meðan rif­ist er yfir göml­um kredd­um. Það er okk­ar verk­efni að létta róður­inn með því að leggj­ast á ár­arn­ar og brúa bilið á milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla og draga úr fram­færslu­kvíða for­eldra.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Deila grein

12/03/2025

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Ríkissjóður stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Boðuð útgjöld nýrrar ríkisstjórnar hafa vakið upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna þessa aukningu án þess að grafa undan stöðugleika í efnahagslífinu. Í ljósi þess að við erum nú að ná markverðum árangri við að lækka verðbólgu og stýrivaxtaferlið er í fullum gangi er brýnt að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisfjármálum og grípi ekki til aðgerða sem gætu ýtt undir verðbólguþrýsting.

Fjárlög síðustu ríkisstjórnar miðuðu að því að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum og tryggja þannig að efnahagslífið haldi jafnvægi. Ef aukin útgjöld leiða til meiri skuldsetningar ríkissjóðs án hagræðingar eða skýrrar tekjuöflunar getur það leitt til aukinnar verðbólgu og hækkunar stýrivaxta, sem bitnar mest á heimilum og fyrirtækjum.

Óljósar skattahækkanir valda áhyggjum

Í nýliðinni kjördæmaviku þar sem þingflokkur Framsóknar hélt 19 opna stjórnmálafundi kom meðal annars fram að mörgum þykir skortur á skýrleika um fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu og sjávarútveg. Þessar atvinnugreinar eru burðarásar í efnahagslífinu og óvissa um skattlagningu getur dregið úr fjárfestingu og valdið röskun á markaði. Margir hafa áhyggjur af því að auknar álögur geti dregið úr samkeppnishæfni þessara greina og haft keðjuverkandi áhrif á aðra hluta hagkerfisins.

Ferðaþjónustan hefur farið í gegnum mikið umbreytingartímabil eftir heimsfaraldurinn og treystir á stöðugleika og fyrirsjáanleika til áframhaldandi vaxtar. Óvæntar skattahækkanir gætu dregið úr aðdráttarafli Íslands sem áfangastaðar, sérstaklega ef verðlag hækkar verulega. Að sama skapi er sjávarútvegur ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins, og skattahækkanir gætu leitt til minni arðsemi, samdrætti í fjárfestingu og neikvæðra áhrifa á efnahagslífið í heild. Ég hef áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda muni sérstaklega bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum sem eru burðarásar atvinnulífs í mörgum byggðarlögum. Reyndar hefur það raungerst að smærri útgerðir hafa nú þegar ákveðið að leggja upp laupana í ljósi boðaðra hækkana sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar í sjávarútvegi sem er þvert á gefin fyrirheit núverandi ríkisstjórnarflokka.

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld án óstöðugleika?

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir tveimur valkostum: annaðhvort að halda aftur af útgjöldum eða tryggja skýra tekjuöflun án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika. Einn möguleiki væri að einblína á hagkvæmari nýtingu fjármuna ríkissjóðs í stað þess að leggja auknar álögur á atvinnugreinar. Með meiri aga í ríkisfjármálum og hagræðingu í opinberum rekstri mætti draga úr þörfinni fyrir skattahækkanir. Einnig mætti horfa til þess að auka skatttekjur með því að efla hagvöxt frekar en að setja beinar álögur á tilteknar atvinnugreinar.

Stjórnvöld þurfa að sýna ábyrgð

Til þess að viðhalda trausti á íslensku efnahagslífi þurfa stjórnvöld að koma fram með skýra stefnu um hvernig boðuð útgjöld verða fjármögnuð án þess að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ef stjórnvöld halda áfram á óljósri braut skattahækkana á atvinnulífið án þess að útskýra áhrif þeirra, er hætta á að þetta leiði til minni fjárfestingar, minni hagvaxtar og efnahagslegs óstöðugleika.

Í ljósi alls þessa er mikilvægt að ríkisstjórnin sýni forystu í ríkisfjármálum og tryggi að allar ákvarðanir um útgjöld og skattheimtu séu byggðar á langtímahugsun og ábyrgri hagstjórn. Hvernig ætlar forsætisráðherra að tryggja að boðuð útgjöld verði fjármögnuð án þess að bitna á hagvexti, stöðugu verðlagi og almennri velferð?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 12. mars 2025.

Categories
Fréttir

„Af hverju var tækifærið ekki nýtt?“

Deila grein

11/03/2025

„Af hverju var tækifærið ekki nýtt?“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi á fundi Alþingis um neyðarástand í úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Hún benti á að ríkisstjórnin hafi talað um mikilvægi þess að byggja upp meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 80% þessara barna búa. Ingibjörg sagði að þrátt fyrir að þetta væri nauðsynlegt, dugi það ekki eitt og sér.

Sérfræðingar innan kerfisins hafa bent á að eina raunhæfa lausnin sé ekki bara að bæta úrræði í borginni heldur einnig að skapa langtímalausnir utan hennar. Þetta myndi draga úr aðgengi barna að fíkniefnum og rjúfa hættuleg tengsl sem viðhalda vandanum, auk þess sem hægt væri að bregðast við vandanum á landsbyggðinni.

Ingibjörg gagnrýndi stjórnvöld fyrir að horfa fram hjá þeirri staðreynd að húsnæði sem uppfyllti öll skilyrði hafi verið til staðar, en ekki nýtt. Hún nefndi Háholt í Skagafirði, sem áður hefur þjónað þessu hlutverki. Húsnæðið var til staðar, samfélagið reiðubúið og fagfólkið til staðar, en samt var þessari lausn hafnað án þess að ráðuneytið hafi kynnt sér aðstæður. Nú er það of seint, þar sem Háholt hefur verið selt og þessi möguleiki er úr sögunni.

„Við verðum að byggja upp úrræði á höfuðborgarsvæðinu, það er engin spurning. En á meðan við vinnum að því, því það mun taka tíma, þá vil ég spyrja: Af hverju var tækifærið ekki nýtt í stað þess að gera ekki neitt og leyfa vandanum að vaxa? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera núna til að mæta því neyðarástandi sem uppi er í málaflokknum?“ sagði Ingibjörg að lokum.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi um áhyggjur Grindvíkinga: „Treystið okkur“

Deila grein

11/03/2025

Sigurður Ingi um áhyggjur Grindvíkinga: „Treystið okkur“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, ræddi á fundi Alþingis um áhyggjur Grindvíkinga vegna yfirvofandi eldgoss og biðar eftir aðgerðum stjórnvalda. Hann sagði að þingmenn Suðurkjördæmis hefðu átt ágætis fund með bæjarstjórn Grindavíkur í kjördæmaviku og að þingflokkur Framsóknar hefði nýtt þingflokksfundadaginn til heimsóknar í Grindavík til að hitta íbúa bæjarins.

Hann sagði að atvinnulíf í Grindavík væri í blóma, með 750-800 manns starfandi þar daglega og yfir 120 manns sem gista í bænum.

„Tónninn sem ég heyrði hins vegar á báðum þessum fundum var að upplifunin væri, allt frá kosningum, svolítil bið. Það væru skilaboðin, jafnvel eftir fund með hæstv. forsætisráðherra, að það þyrfti að bíða. Ég skil mjög vel að fólkið í Grindavík sé farið að hafa áhyggjur af því að það sé ekki hægt að bíða endalaust,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi benti á að ríkið eigi tæpar 1.000 íbúðir í Grindavík og að fólk hafi áhuga á að flytja þangað. Hann nefndi stofnun hollvinasamtakanna Járngerðar, þar sem íbúar sögðu: „Treystið okkur.“ Hann spurði forsætisráðherra hvort stjórnvöld væru farin að ganga of langt í forræðishyggjunni.

„Hvar megum við koma að? Í vinnu stjórnvalda er verið að vinna sviðsmyndagreiningar með sérfræðingum, jafnvel erlendum aðilum, en þau spyrja: Hvar erum við? Erum við farin að ganga of langt í forræðishyggjunni? Það er það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Fólkið segir: Treystið okkur. Við erum vön að fylgja veðurspám og sérfræðingum Veðurstofunnar. Við erum vön að fylgja þeim tilmælum sem koma. Við kunnum þetta. Við þekkjum bæinn okkar og sprungurnar betur en flestir aðrir. Þau okkar sem eru tilbúin að setjast að og prófa, megum við prófa? Bannið okkur ekki. Treystið okkur til að taka þátt í samtalinu. Hvert er plan ríkisstjórnarinnar?“