Categories
Fréttir

Vorfundur miðstjórnar

Deila grein

11/05/2023

Vorfundur miðstjórnar

Landsstjórn Framsóknar hefur samþykkt að boða til vorfundar miðstjórnar föstudaginn 2. júní næstkomandi. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík, en að fundi loknum verður móttaka fyrir miðstjórnarfulltrúa að Hverfisgötu 33.

Við viljum ítreka að aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

Þá viljum við biðja þá fulltrúa sem skrá sig að taka fram hvort þeir sjá fram á að taka þátt í kvöldverðarhlaðborði á Grand Hótel.

Fulltrúar greiða sjálfir fyrir matinn við mætingu á fundinn, verð á mann er 6.900 kr.

Þá minnum við á að eftir lagabreytingu flokksins þá er allt sveitarstjórnarfólk Framsóknar sjálfkjörið í miðstjórn.

Drög að dagskrá fundarins:

18:00– Setning fundarins

18:05 – Kosning fundarstjóra og ritara

18:10 –Ræða formanns – Sigurður Ingi Jóhannsson 

18:25 – Ræða varaformanns – Lilja Dögg Alfreðsdóttir 

18:35 – Yfirlit yfir málefna- og innrastarf – Ásmundur Einar Daðason 

18:45 – Almennar stjórnmálaumræður 

20:15 – Kvöldverður á Grand Hótel Reykjavík

21:30 – Móttaka að Hverfisgötu 33 

Categories
Fréttir Greinar

Fæðingarorlof – börn í forgangi

Deila grein

11/05/2023

Fæðingarorlof – börn í forgangi

Það eru rétt um 20 ár frá gildistöku laga um fæðingarorlof, frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið breytingum í takt við þarfir og auknar kröfur um fjölskylduvænni samfélag. Nú síðast árið 2021 þegar ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tók gildi en þar var fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði. Þegar breytingin var lögð fram á Alþingi voru miklar umræður um skiptinu réttinda á milli foreldra. Háværar raddir voru um að rétt væri að hafa frjálst val foreldra um skiptingu en niðurstaðan varð sú að hvort foreldrið ætti rétt á 6 mánuðum en 6 vikur væru framseljanlegar, þannig að annað gæti tekið 7 og hálfan mánuð.

Aukinn réttur foreldra til fæðingarorlofs var tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Kannanir meðal foreldra hafa sýnt að sjálfstæður réttur foreldra til orlofstöku sé sérstaklega mikilvægur sér í lagi þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Sem betur fer tókst að halda þessari skiptingu því það sýnir að með henni hvetur það til þess að báðir foreldrar taki jafna ábyrgð á fyrstu mánuðum barnsins.

Fleiri feður taka fæðingarorlof

Frá því að ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi í janúar fyrir tveimur árum hafa aldrei fleiri feður nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs og þar með erum við að færast nær markmiði laganna, sem er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Frelsið er yndislegt en á meðan launajafnrétti hefur ekki verið náð verðum við að beita þeim aðferðum sem gilda til að jafna nýtingu fæðingarorlofs milli foreldra, því alltaf þurfum við að horfa út frá hagsmunum barnsins. Í nýlegri skýrslu frá félags- og vinnumarkaðsráðherra um hvernig hafi tekist til með að uppfylla markið fæðingarorlofslaganna sem voru samþykkt voru árið 2020, sem þá verandi félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lagði fram, kemur fram að fleiri feður taki fæðingarorlof. Þá segir jafnframt að framseljanlegur réttur til hins foreldrisins fyrir árin 2021 og 22 hafi nær undantekningalítið verið nýttur af móður.

Þróum þetta áfram

Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Best er að samspilið sé á pari, þess vegna verðum við að halda áfram við að þróa orlofið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um að unnið verði áfram í samvinnu við sveitarfélögin við að brúa þetta bil. Núverandi mennta- og barnamálaráðherra heldur á þessum málum og hefur þegar hafið vinnu við þetta verkefni. Þetta verður alltaf að vera samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga og skiptir verulegu máli fyrir , foreldra, börn og atvinnumarkaðinn að vel takist til.

Fæðingum fækkar

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur dregið verulega úr fæðingum barna og þurfum við að fara aftur á miðja 19. öld til að finna sambærilega fjölda fæddra barna á ári. Við erum hætt að viðhalda okkur til lengri tíma. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 en talið er að það þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda.

Það þýðir lítið fyrir konu sem komin er úr barneign að hvetja til barneigna, jæja! Ég er búin að skila mínu. Mitt verkefnið og stjórnvalda er þó að búa svo í haginn að hvati til fjölgunar sé til staðar því daufur er barnlaus bær. Því er mikilvægt að koma því svo fyrir að foreldrar geti treyst því að á sama tíma og foreldrum sé búið öruggt umhverfi til að njóta fyrstu mánuðina með barninu sé afkomu og atvinnuöryggi ekki ógnað.  Að lokum langar mig að hvetja pör hér á landi að taka sér smá kósí-kvöld um helgina, það er víða spáð rigningu og aðeins kólnandi veðri á laugardagskvöldið og því tilvalið að fara snemma undir sæng.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á dv.is 11. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvar liggur björgunarviljinn?

Deila grein

11/05/2023

Hvar liggur björgunarviljinn?

Allt frá árinu 2019 hefur verið í bígerð tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu með það að markmiði að veita bráðveikum og slösuðum sérhæfða þjónustu með sem skjótustum hætti. Árið 2019 var heilbrigðisráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra falið í ríkisstjórn að útfæra fjármögnun og tímasetningu verkefnisins. Síðan eru liðin á að verða fjögur ár en ákveðið var að bíða með verkefnið þegar heimsfaraldur Covid skall á.

Fjármögnun ekki tryggð

Í haust hafði undirrituð í hyggju að setja fram þingsályktunartillögu um tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi, búið var að óska eftir meðflutningsmönnum þegar ég ákvað að draga tillöguna til baka þar sem ég hafði fréttir af því innan úr heilbrigðisráðuneytinu að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra væri á fullu við að vinna að slíku tilraunaverkefni um sjúkraþyrlur í samræmi við tillögur sem Svandís Svavarsdóttir kynnti í ríkisstjórn árið 2019. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafði þegar skipaði samráðshóp samkvæmt tillögu starfshóps frá 2018, um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. En því miður hafa þær tillögur og hugmyndir sem þar hafa komið fram runnið út í sandinn þar sem fjármálaráðherra hefur ekki haft vilja til þess að tryggja fjármögnun verkefnisins. En tilraunaverkefni um sérhæfða sjúkraþyrlu hefur verið lagt fram í fjármálaáætlun síðustu tveggja ára en fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið samþykkt. Eðli málsins samkvæmt getur heilbrigðisráðherra ekki tekið verkefnið lengra meðan fjármálaráðherra hefur ekki vilja til þess að tryggja því fjármögnun.

Það þarf að dekka álagssvæði

Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og almenningur í landinu vill standa vörð um hana líkt og bersýnilega kom fram þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlaði sér í vetur að selja eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar vegna fjárskorts. Almenningur í landinu vill heldur sjá verkefni landhelgisgæslunnar efld heldur en hitt, enda hefur hún löngum sannað mikilvægi sitt. Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á síðasta þingi kom fram að fyrrgreindur starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem skilaði af sér skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 var sammála um mikilvægi þess að efla sjúkraflutninga með þyrlum en ekki um leiðir að því marki. Meirihlutinn, eða fimm af sjö meðlimum, vildi ná markmiðinu með þyrlum LHG sem einnig sinna leit og björgun en minnihlutinn vildi starfrækja sérstaka sjúkraþyrlu utan Landhelgisgæslunnar.

Sú sem hér skrifa telur afar mikilvægt að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli, sér í lagi á álagssvæðum líkt og á Suðurlandi en útköll á svæðinu vegna slysa og bráðra veikinda hafa aukist verulega vegna sí stækkandi hóps ferðamanna á svæðinu. Yfir sumartímann ríflega þrefaldast fólksfjöldi landshlutans og það á þeim tíma sem sérfræðingar á sjúkrastofnunum eru margir hverjir í sumarfríum og erfitt reynist að tryggja mönnun reynslumikilla starfsmanna á þessu víðfeðma svæði. Ef ekki er hægt að fjármagna sjúkraþyrlu á svæðinu má velta upp þeim möguleika að bæta við starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Suðausturlandi en þannig mætti dekka enn stærra svæði en hægt er í dag og þar með efla björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Það þarf líka að tryggja að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar fái tafarlaust viðhald og viðgerðir þegar svo ber við og að þær séu allar nothæfar. Það skortir ekki vilja eða frumkvæði af hálfu heilbrigðisráðherra í þessu máli og er vel tilbúinn að setja slíkt verkefni af stað. Boltinn er nú hjá fjármálaráðherra sem þarf að svara hvort og þá hvenær hann muni tryggja fjármögnun á sjúkra- eða björgunarþyrlum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. maí 2023.

Categories
Fréttir

Myndlistarstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi

Deila grein

11/05/2023

Myndlistarstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti í gær tillögu Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2030.

Þessari fyrstu myndlistarstefnu er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins. Myndlistarstefnan á einnig að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bæti lífsgæði og ánægju.

„Þetta mikilvæga skref er eitt af mörgum slíkum sem stigin hafa verið á undanförnum árum til að bæta umhverfi menningar- og skapandi greina á Íslandi. Við höfum unnið með skipulögðum hætti á þessari vegferð og það er gaman að sjá eftirtektarverðan árangur raungerast,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra um þessi tímamót.

Kraftmikil myndlistarmenning

Í myndlistarstefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Með myndlistarstefnunni eru lagðar til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.

„Framtíðarsýnin er að myndlist leiki stórt hlutverk í samfélaginu og verði órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi fólks um allt land, óháð aðstæðum,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Mikilvægt að tryggja undirstöðurnar

Þetta hefur verið tíðindamikil vika fyrir menningu og skapandi greinar á Íslandi en fyrr í vikunni samþykkti Alþingi fyrstu heildarlöggjöfina um tónlist og nýja tónlistarstefnu til 2030.

Hagstofan kynnti svo í gær uppfærða menningarvísa þar sem fram kom að rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum voru rúmlega 126 milljarðar árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári.

„Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Categories
Fréttir

Góður árangur í áraraðir af starfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa

Deila grein

10/05/2023

Góður árangur í áraraðir af starfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði í störfum þingsins ekki vilja sjá ríki og sveitarfélög skerða mikilvæga þjónustu sem félagsmiðstöðvar og ungmennahús vinna dag hvern. Bætti hann svo við og sagði:

„Ég legg til að það verði skoðað af alvöru að starfsemin flokkist undir lögbundna þjónustu hér á landi.“

Tekur hann hér undir nýlega ályktun frá Samfés um að faglegt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa flokkist sem lögbundin þjónusta. Eins ályktaði Samféls vegna áhyggna af því að þegar kreppir að verði félagsmiðstöðvar og ungmennahús fyrir barðinu á niðurskurði.

SamFestingurinn

„Hátíðin SamFestingurinn er haldin fyrir tilstilli Samfés, Landssamtaka félagsmiðstöðva og unglingahúsa á Íslandi. Félagsmiðstöðvar eru afdrep fyrir ungt fólk á aldrinum 10–16 ára þar sem þau geta sótt í félagsskap jafnaldra sinna og tekið þátt í skipulögðu tómstundastarfi,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Í starfinu eru ungmenni hvött til að skemmta sér saman án vímugjafa og áhersla er lögð á fjölbreytileika, þroska og félagsleg samskipti.
Ungmennahús sinna sambærilegu hlutverki en þar er ungmennum boðið upp á tómstundir sem hafa forvarna-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska.“

Starfsemin er mikilvæg nærsamfélaginu og hefur m.a. átt þátt í því að unglingadrykkja hefur minnkað á síðustu árum.

Samfés hefur birt ályktun um að faglegt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa flokkist sem lögbundin þjónusta. Þá hafa samtökin áhyggjur af því að þegar kreppir að verði félagsmiðstöðvar og ungmennahús fyrir barðinu á niðurskurði.

„Við ætlum okkur að fjárfesta í fólki, fjárfesta í ungu fólki, fjárfesta í fólki framtíðarinnar, með metnaðarfullu forvarnastarfi og með því að stuðla að jákvæðum þroska þeirra. Þetta hafa félagsmiðstöðvar og ungmennahús gert í áraraðir með góðum árangri,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Um síðustu helgi var hin árlega tónlistarhátíð SamFestingurinn haldin. Hátíðin er haldin fyrir tilstilli Samfés, Landssamtaka félagsmiðstöðva og unglingahúsa á Íslandi. Það er því við hæfi að ræða um mikilvægi starfsins sem félagsmiðstöðvar og ungmennahús vinna dag hvern. Félagsmiðstöðvar eru afdrep fyrir ungt fólk á aldrinum 10–16 ára þar sem þau geta sótt í félagsskap jafnaldra sinna og tekið þátt í skipulögðu tómstundastarfi. Í starfinu eru ungmenni hvött til að skemmta sér saman án vímugjafa og áhersla er lögð á fjölbreytileika, þroska og félagsleg samskipti. Ungmennahús sinna sambærilegu hlutverki en þar er ungmennum boðið upp á tómstundir sem hafa forvarna-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Starfsemin er mikilvæg nærsamfélaginu og hefur m.a. átt þátt í því að unglingadrykkja hefur minnkað á síðustu árum.

Samfés hefur birt ályktun um að faglegt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa flokkist sem lögbundin þjónusta. Þá hafa samtökin áhyggjur af því að þegar kreppir að verði félagsmiðstöðvar og ungmennahús fyrir barðinu á niðurskurði. Nýlegir atburðir minna okkur einnig á hversu mikilvægt það er að vinna gegn ofbeldi meðal ungmenna. Þar skipar forvarnastarf félagsmiðstöðvanna stóran sess.

Virðulegi forseti. Við ætlum okkur að fjárfesta í fólki, fjárfesta í ungu fólki, fjárfesta í fólki framtíðarinnar, með metnaðarfullu forvarnastarfi og með því að stuðla að jákvæðum þroska þeirra. Þetta hafa félagsmiðstöðvar og ungmennahús gert í áraraðir með góðum árangri. Ég biðla því til ríkis og sveitarfélaga að skerða ekki þá mikilvægu þjónustu sem þau veita unga fólkinu okkar. Ég legg til að það verði skoðað af alvöru að starfsemin flokkist undir lögbundna þjónustu hér á landi.“

Categories
Fréttir

„Við og þið“ eða „við og hinir“

Deila grein

10/05/2023

„Við og þið“ eða „við og hinir“

„Ef við ætlum okkur að ná tökum á verðbólgunni og tökum á ástandinu þá þurfa allir að taka þátt í því og stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við sáum í síðustu viku fréttir af miklum hagnaði viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur hækka umtalsvert,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Ég skynja á umræðunni að upplifun fólks er sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Það má ekki gera lítið úr þessum tilfinningum fólks og alls ekki vanmeta þá upplifun fólks að hér séu ekki allir að taka þátt. Það er vond staða.“

Dróg Ágúst Bjarni það fram að skammt virðist ætla höfða til hinna breiðu baka samfélagsins og beina til þeirra um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

„Almenningur tekur á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, fyrirtæki og aðrir, sem halda að þau séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum hér saman. Við erum auðvitað í tímabundnu ástandi, líkt og önnur lönd Evrópu og ég hef sagt það áður og segi það aftur að mér finnst það vel koma til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega, greiða þá niður skuldir og styðja við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er bæði óskynsamlegt og ósanngjarnt. Verkefni okkar sem störfum á Alþingi eru margvísleg en þau eru fyrst og fremst að standa með fólkinu í landinu. Og ef við getum ekki fengið hin breiðu bök með okkur í þetta verkefni er nauðsynlegt að beita þeim tækjum og tólum sem löggjafarvaldið hefur úr að spila,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágúst Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Ef við ætlum okkur að ná tökum á verðbólgunni og tökum á ástandinu þá þurfa allir að taka þátt í því og stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við sáum í síðustu viku fréttir af miklum hagnaði viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur hækka umtalsvert. Ég skynja á umræðunni að upplifun fólks er sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Það má ekki gera lítið úr þessum tilfinningum fólks og alls ekki vanmeta þá upplifun fólks að hér séu ekki allir að taka þátt. Það er vond staða.

Það virðist duga skammt að ætla að höfða til þeirra sem teljast til hinna breiðu baka í samfélaginu og biðla til þeirra um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Almenningur tekur á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, fyrirtæki og aðrir, sem halda að þau séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum hér saman. Við erum auðvitað í tímabundnu ástandi, líkt og önnur lönd Evrópu og ég hef sagt það áður og segi það aftur að mér finnst það vel koma til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega, greiða þá niður skuldir og styðja við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er bæði óskynsamlegt og ósanngjarnt. Verkefni okkar sem störfum á Alþingi eru margvísleg en þau eru fyrst og fremst að standa með fólkinu í landinu. Og ef við getum ekki fengið hin breiðu bök með okkur í þetta verkefni er nauðsynlegt að beita þeim tækjum og tólum sem löggjafarvaldið hefur úr að spila.“

Categories
Fréttir Greinar

Tækifæri tónlistarinnar

Deila grein

10/05/2023

Tækifæri tónlistarinnar

Í einni stærstu tónlistarviku ársins er viðeigandi að skrifa um þau risastóru skref sem við höfum tekið á Alþingi síðustu daga, í þágu íslenskt tónlistarlífs.

Við höfum unnið og samþykkt ný lög um tónlist og nýja tónlistarstefnu. Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskt samfélag og tónlistarlíf.

Tónlist hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára og fólk nýtir hana til afþreyingar, til að hlýja sálina, græða sár eða koma sér í gírinn. Til eru fjölmargar tegundir og undirtegundir af tónlist og það þyrfti að leita lengi til að finna einstakling sem hefur ekki gaman af tónlist.

Íslendingar hafa lengi framleitt eigin tónlist, og síðastliðin ár hefur íslensku tónlistarfólki fjölgað umtalsvert. Íslensk tónlist hefur skapað sér sérstöðu á heimsmælikvarða og vinsældir hennar fara aukandi, hvort sem það er á sviði rappsins, poppsins, kvikmyndatónlistar eða hvaða sviði sem er. Með fjölgandi tækifærum og fleiri einstaklingum sem framleiða hér tónlist að atvinnu er tímabært að stjórnvöld marki heildarramma fyrir málefni tónlistar, styðji við upprennandi tónlistarmenn og búi til hagstæð skilyrði til frekari sköpunar.

Tónlistin er hluti af menningunni

Tónlist er ríkur hluti af menningararfi hvers samfélags. Við þekkjum það vel sem Íslendingar að gömul lög mynda arfleið Íslendinga. Við tengjum við lögin og þekkjum sögurnar sem þau segja. Lögin verða hluti af ógleymanlegum augnablikum í lífi okkar. Ekki er hægt að verðleggja menningu þjóðar þó að við vitum hversu verðmæt hún er.

Ásamt þessu er tónlist, eins og aðrar skapandi greinar, atvinnuskapandi. Hún skapar tónlistarmönnunum sjálfum atvinnu ásamt því að geta skapað afleidd störf. Tónlistin er mikilvæg útflutningsgrein og af henni getum við styrkt samfélagið og skapað frekari tekjur sem áður voru ekki staðar.

Styrkjum stöðu íslenskrar tónlistar

Í ljósi mikilvægi tónlistarinnar bæði á sviði menningar og atvinnu lagði menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fram þingsályktunartillögu um tónlistarstefnu fyrir árin 2023-2030 og frumvarp til tónlistarlaga. Málin hafa verið í umræðu hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd. Nú höfum við samþykkt bæði tónlistarstefnuna og ný tónlistarlög. Markmiðið er skýrt; að mynda umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar hér á landi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Ný tónlistarmiðstöð

Í nýjum tónlistarlögum var samþykkt að setja á stofn tónlistarmiðstöð. Markmið hennar er að vera samstarfvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar. Einnig á tónlistarmiðstöðin að hafa utanumhald með tónlistarsjóði, tónlistarfólki, fyrirtækjum, verkefnum og markaðsstarfi. Það verður spennandi að sjá áhrif tónlistarsmiðstöðvarinnar á næstu árum á íslenskt menningarlíf.

Að auki tekur regluverk og styrkjakerfi hvað varðar tónlist breytingum með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu og tryggja frekari hvata til sköpunar. Með framangreindri stefnu og lagabreytingum tryggjum við kjörskilyrði til tónlistarsköpunar, styðjum upprennandi tónlistarfólk við að finna sitt hljóð og sjáum vonandi tónlistasenuna blómstra enn frekar með áframhaldandi sköpunargleði óttaleysi við að fara nýjar leiðir í tónlist, sem hefur verið hugmyndafræði íslenskrar tónlistar í áranna raðir.

Til hamingju með þessi stóru skref í þágu íslenskrar menningu og gleðilega Eurovisionviku!

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 10. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eru leikreglurnar sanngjarnar?

Deila grein

08/05/2023

Eru leikreglurnar sanngjarnar?

Hvað ætl­um við að gera og hvernig á að gera það? Það er stóra spurn­ing­in sem all­ir kapp­kosta við að tjá sig um þess­ar mund­ir. Vinnu­markaður­inn kall­ar eft­ir skýr­um aðgerðum stjórn­valda og að kjör fólks séu jöfnuð með ein­hverj­um hætti. Það er út­ópía að halda því fram að full­kom­inn jöfnuður í þróuðu sam­fé­lagi sé mögu­leg­ur. Það er þó hægt að jafna stöðuna með aðgerðum af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Við stönd­um frammi fyr­ir stór­um verk­efn­um og það er ekk­ert laun­unga­mál. Það þarf að beita sam­vinnu­hugs­un­inni og sam­heldni til að koma bönd­um á verðbólg­una með fjölþætt­um aðgerðum og stuðla að frek­ari kaup­mátt­ar­aukn­ingu hjá venju­legu launa­fólki.

Mennt­un met­in til launa

Ákveðin kjaragliðnun hef­ur átt sér stað en sú þróun hef­ur átt sér stað lengi.

Við þurf­um líka að horf­ast í augu við að þá gliðnun má einnig rekja til hærra mennt­un­arstigs hér á landi. Það er fagnaðarefni að sjá fólk sækja sér aukna þekk­ingu og þar með er það að skila þeirri þekk­ingu í virðis­aukn­ingu fyr­ir sam­fé­lagið. Við vilj­um að mennt­un sé met­in til launa og að það sé hvati til að auka þekk­ingu sína og færni á vinnu­markaði. Það er eðli­legt að slík­ur hvati sé til staðar til að afla sér frek­ari þekk­ing­ar á sínu sviði og fyr­ir aukna þekk­ingu er sann­gjarnt að fá bet­ur greitt. Við eig­um að hvetja fólk til að sækja sér aukna þekk­ingu og þarna á jöfnuður­inn að vera mest­ur. Að all­ir geti aflað sér þekk­ing­ar í formi mennt­un­ar og að það skili sér í laun­um.

Eru sann­gjarn­ar leik­regl­ur til staðar?

Kjaragliðnun­in er mest á milli fjár­magnseig­enda og launa­fólks en á und­an­förn­um tíu árum hafa fjár­magn­s­tekj­ur auk­ist gíf­ur­lega eða um 120% að raun­v­irði. At­vinnu­tekj­ur í hag­kerf­inu juk­ust um 53%.

Ekki er greitt trygg­ing­ar­gjald né út­svar af út­greidd­um arði og mik­ill mun­ur er á milli skatt­lagn­ing­ar á hagnað lögaðila og tekju­skatts. Það er því spurn­ing hvort ekki sé löngu kom­inn tími til að taka þetta til end­ur­skoðunar. Að mínu mati er þess­ari spurn­ingu auðsvarað. Það þarf að girða fyr­ir tekju­til­flutn­ing milli launa og fjár­magn­stekna.

All­ir skila sínu til sam­fé­lags­ins

Er ekki kom­inn tími til að taka sam­talið um það skatt­hlut­fall sem fjár­magnseig­end­ur greiða af út­greidd­um arði? Við þurf­um að skapa sann­gjarn­ara og skil­virk­ara skatt­kerfi og að fjár­magn­s­tekju­skatt­ur verði sett­ur í þrepa­skipt­ingu. Við eig­um að styðja vel við ný­sköp­un­ar­starf­semi auk lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja. Punkt­ur­inn með þess­ari grein er að breiðu bök­in borgi rétt til sam­fé­lags­ins. Við get­um gert mun bet­ur í þeim efn­um og ég kalla eft­ir því hér með.

Við búum jú öll í þessu landi sam­an og ætt­um þar af leiðandi að bera sam­fé­lags­lega ábyrgð sam­an og að all­ir greiði sitt með skil­virk­ari hætti inn í sam­neysl­una. Það á að vera leiðarljósið í þess­um efn­um og við eig­um að búa til sann­gjarn­ari leik­regl­ur í skatt­kerf­inu okk­ar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu

Deila grein

07/05/2023

Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu

Opinber fjármál hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við þróun verðbólgu. Innan hagfræðinnar eru ýmsar kenningar uppi um hvaða þættir efnahagskerfisins hafi mest áhrif á þróun verðlags og eru um það skiptar skoðanir. Meginorsakirnar liggja víða í hagkerfinu og því þarf enn sterkara samspil peningamála, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðarins til að ná tökum á verðbólgunni.

Ljóst er að Covid-19 aðgerðir bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, áhrif framleiðsluhnökra í alþjóðahagkerfinu og stríðið í Úkraínu hafa haft mikil áhrif á verðbólgu síðasta árs. Hins vegar sjáum við að áhrif stríðsins fara dvínandi á verðbólgu, þar sem hækkanirnar hafa þegar komið fram. Í stjórnmálaumræðunni er kastljósið er í auknum mæli að beinast að þætti opinberra fjármála. Því er við hæfi að fara yfir nýlega kenningu hagfræðingsins John F. Cochrane en í nýútgefinni bók sinni Fiscal Theory and the Price Level beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála.

Ríkisfjármálakenningin og verðbólga

Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefnu, þar með talið útgjalda-og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör.

Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

„Minni fjárlagahalli skapar störf!”

„Minni fjárlagahalli býr til störf“! Þetta var eitt af því sem hagfræðingateymi Clintons, sem leitt var af fjármálaráðherra hans Robert Rubin, sögðu við hann þegar var verið að kljást við mikinn halla á fjárlögum.

Í heimi hagfræðinnar voru þeir Stephen Turnovsky og Marcus Miller (1984), ásamt Olivier Blanchard (1984), byrjaðir að þróa hagfræðikenningar sem færðu rök fyrir því hvernig trúverðugur samdráttur á væntum fjárlagahalla í framtíðinni gæti aukið heildareftirspurn í hagkerfi dagsins í dag.

Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.

Grunnhugmynd þeirra var sú að ef fjárfestar væru sannfærðir um að skuldir ríkisins yrðu lægri í framtíðinni, þá myndu langtímavextir í dag lækka og örva þannig núverandi eftirspurn. Líkön þeirra sýndu hins vegar ekki fram á að lækkun á núverandi fjárlagahalla yrði þensluhvetjandi þá stundina. Með öðrum orðum að margfeldi skatta væri neikvætt. Turnovsky-Miller-Blanchard-kenningin gaf samt fræðilega útskýringu á efnahagslegum uppgangi á Clinton-tímabilinu. Ríkissjóðurinn fór úr methalla í góðan afgang á örskömmum tíma.

Heimild: Fiscal Theory and Price Level, Kafli 4, Debt, Deficits, Discount Rates, and Inflation, bls 84.

Frumjöfnuður ríkissjóðsins fór úr því að vera í jafnvægi um 1990 í 6% afgang af vergri landsframleiðslu árið 2001. Á sama tíma fór skuldir ríkissjóðs úr því að vera um 50% af landsframleiðslu í 30%. Þessi miklu umskipti þýddu meðal annars að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Eins og sá má á ofangreindri mynd, þá er sterk fylgni á milli afgangs á frumjöfnuði, lækkun ríkisskulda og lágrar verðbólgu. 

Fjármálaráðherrann Rubin hefur iðulega fengið lof í lófa fyrir að hafa stýrt því að þessi leið yrði farin enda skildu fáir skuldabréfamarkaðinn eins vel og hann. Stjórnvöld settu fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum og fjárfestar keyptu hana og því skiluðu aðhaldssöm ríkisfjármál lægra vaxtastigi!

Ríkisfjármálakenningin og mikilvægi væntinga

Grunnhugmyndin á bak við kenningu John Cochrane er að aðhald fjármála hins opinbera ákvarði verðlag í hagkerfinu. Ríkisfjármálakenningin hans snýst að auki um hvert virði ríkisskulda sé. Virði ríkisskuldabréfa annars vegar og almennra hlutabréfa og skuldabréfa hins vegar er metið að jöfnu. Á sama hátt og hlutabréf- eða skuldabréfaverð skila arði og/eða verðbótum á núvirði, þá jafngildir raunvirði ríkisskulda núvirtum afgangi ríkisfjármála. Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.

Að mati Cochrane á að vera hægt að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila bæði er varðar vænt ríkisfjármál og peningastefnu.

Hvað með Ísland?

Verðbólga mældist 9,9% á ársgrundvelli í apríl. Verðbólga er of há. Þessi mæling var hærri en flestir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hratt en jafnaði sig þó þegar líða tók á daginn. Baráttan við verðbólguna er á vandasömum tímapunkti. Ljóst er að allar aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisfjármálanna þurfa að miða að því að ná böndum á verðbólgunni áður en upphefst víxlverkun launa og verðlags. 

Hægt er að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila

Trúverðugleikinn er allt á þessum tímapunkti og má með sanni segja að núverandi ríkisstjórn hafi kappkostað við að minnka skuldir ríkissjóðs til að auka lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skuldir ríkissjóðs nema um 33% af landsframleiðslu og við lok ríkisfjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að þær nemi um 30%.

Lokaorð

Í þessari grein hef ég lagt út með hagfræðikenningar sem eiga við Bandaríkin. Ljóst er að mikill munur er hagkerfum Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar eru það ákveðin lögmál hagfræðinnar sem eiga ávallt við. Sterk skuldastaða lækkar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf. Sjálfbær ríkisfjármál lækka verðbólgu. 

Lítið hagkerfi þarf ávallt að hafa borð fyrir báru í efnahagsmálum. Skuldir þurfa að vera lágar, gjaldeyrisforði hár og viðskiptajöfnuðurinn þarf að skila afgangi. Náist þessi árangur á næstunni munu vextir lækka og staða heimila og fyrirtækja batna. Ísland hefur skapað ein bestu lífskjör sem völ eru á og hefur alla burði til að auka enn frekar jöfnuð og fjárfesta í velferðarkerfinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Fréttir Nýjast

Jóhann H. Sigurðsson ráðinn skrifstofustjóri Framsóknar

Deila grein

05/05/2023

Jóhann H. Sigurðsson ráðinn skrifstofustjóri Framsóknar

Jóhann H. Sigurðsson hefur verið ráðinn skrifstofustjóri Framsóknar. Hann tekur við af Teiti Erlingssyni, sem hefur sinnt hlutverki skrifstofustjóra tímabundið en er að hefja störf sem aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra. Jóhann hefur störf 8. maí. 

Jóhann er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin 2 ár stundað nám í alþjóðlegum stjórnmálum og opinberri stjórnsýslu (e. International Public Administration and Politics) við Háskólann í Hróarskeldu (e. Roskilde University) og mun útskrifast núna í sumar með M.Sc. gráðu. Jóhann hefur verið virkur þátttakandi í starfi Framsóknarflokksins um árabil, meðal annars sem miðstjórnarfulltrúi og stjórnarmeðlimur SUF. Síðustu ár hefur Jóhann starfað meðfram námi í Forsætisráðuneytinu og hjá Bezzerwizzer í Kaupmannahöfn.

Við bjóðum Jóhann velkominn til starfa og þökkum Teiti fyrir vel unnin störf á skrifstofu Framsóknar.