Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins samgönguframkvæmdir og umferðarmenningu og hversu miklar framfarir hafi orðið á þessari öld. En ástæða sé til að staldra við og íhuga hvað hægt sé að gera betur þar sem banaslysin í umferðinni séu þegar orðin sjö á þessu ári, voru átta í heildina allt árið í fyrra.
„Við höfum farið í gríðarmikið átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir í bættu öryggi.“
En hvað hefur breyst á þessum árum, á þessari öld?
„Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður en voru fyrir aldarfjórðungi. Á þeim tíma var samfélagsgerðin allt önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaganna og samfélaga mun stærri,“ sagði Halla Signý.
Nefndi hún að atvinnusóknarsvæði séu „stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann lengri leið og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði.“
„Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hafa kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Við skulum muna það að eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið. Stöldrum við og íhugum málið,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Banaslys í umferðinni sem af er þessu ári eru orðin sjö en þau voru átta í heildina allt árið í fyrra. Þessar staðreyndir kalla á að við stöldrum við og íhugum hvað við getum gert betur. Árið 2000 voru banaslys í umferðinni 32. Flest þeirra voru í kringum höfuðborgarsvæðið og á Akureyri og sömu sögu er að segja árið á eftir. Margt hefur sannarlega breyst á þessari öld, bæði hvað varðar framfarir í samgönguframkvæmdum og umferðarmenningu. Við höfum sett mikið átak í að tvöfalda og bæta vegi á suðvestursvæðinu sem hefur skilað sér í að færri banaslys hafa orðið á þessum fjölförnu vegum. Við höfum farið í gríðarmikið átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir í bættu öryggi. Banaslysum hefur fækkað ár frá ári þótt hlutfallslega séu fleiri slys á vegum landsins núna síðustu ár. En hvað hefur breyst á þessum árum, á þessari öld? Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður en voru fyrir aldarfjórðungi. Á þeim tíma var samfélagsgerðin allt önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaganna og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann lengri leið og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði. Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hafa kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Við skulum muna það að eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið. Stöldrum við og íhugum málið.“
27 milljarðar í leigu á húsnæði!
14/02/2024
27 milljarðar í leigu á húsnæði!Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins þann mikla kostnað ríkisins er fer í leigu á húsnæði. Á síðasta ári var leigukostnaður ríkisins 27 milljarðar. Hann telur augljóst að hér megi fara betur með opinbert fé og ná fram meiri hagræðingu í nýtingu á húsnæði ríkisins.
Hefur Ágúst Bjarni í þessu augnamiði lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu, um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana, er hefur að markmiði ríkið efli samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana ásamt því að stuðla að hagræðingu, minnka yfirbyggingu og auka sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis o.s.frv.
„Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir hafi ekki alltaf verið samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á sínum tíma þar sem m.a. var óskað eftir yfirliti yfir það hversu oft á síðustu árum ríkið hefði gert samninga við aðra en lægstbjóðendur, sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hefði verið samið við lægstbjóðanda,“ sagði Ágúst Bjarni.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra var staðfest „að í tíu tilfellum hafði ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafði lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar. Gott og vel, en þetta eru ansi þunn rök þegar við berum þetta saman við meðferð á opinberu fé.“
„Svarið var því tilefni til seinni fyrirspurnar minnar um sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem þá var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarað og í ljósi þess sem ég hef farið yfir þá tel ég fullt tilefni til að endurvekja hana og fá þá upp á yfirborðið hvað það er sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamninga við aðila sem buðu hærra verð,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Ríkið greiddi 27 milljarða í leigu á húsnæði árið 2023. Þetta eru háar tölur og ég tel að þarna sé svigrúm til þess að fara betur með opinbert fé og ná meiri hagræðingu með samnýtingu. Mér varð hugsað til þingsályktunartillögu sem ég lagði fram á sínum tíma sem fjallaði einmitt um þetta, hvernig nýta mætti hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana ásamt því að stuðla að hagræðingu, minnka yfirbyggingu og auka sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis o.s.frv. Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir hafi ekki alltaf verið samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á sínum tíma þar sem m.a. var óskað eftir yfirliti yfir það hversu oft á síðustu árum ríkið hefði gert samninga við aðra en lægstbjóðendur, sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hefði verið samið við lægstbjóðanda. Svarið staðfesti það að í tíu tilfellum hafði ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafði lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar. Gott og vel, en þetta eru ansi þunn rök þegar við berum þetta saman við meðferð á opinberu fé.
Svarið var því tilefni til seinni fyrirspurnar minnar um sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem þá var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarað og í ljósi þess sem ég hef farið yfir þá tel ég fullt tilefni til að endurvekja hana og fá þá upp á yfirborðið hvað það er sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamninga við aðila sem buðu hærra verð.“
14/02/2024
Förum varlega á vegum útiBanaslys í umferðinni eru orðin 7 sem af er þessu ári en þau voru 8 í heildina, allt árið í fyrra. Þessar staðreyndir kalla á að við stöldrum við og íhugum hvar við getum gert betur. Ef við horfum aftur til aldamóta hefur margt breyst. Árið 2000 voru banaslys í umferðinni 32 talsins, flest þeirra voru í kringum höfuðborgarsvæðið og Akureyri og sömu sögu var að segja árið eftir. Þá eru ótalin þau slys þar sem fólk hefur hlotið örkuml eða varanlegan skaða.
Margt hefur sannarlega breyst á þessari öld, bæði hvað varðar framfarir í samgönguframkvæmdum og umferðarmenningu. Við höfum sett mikið átak í að tvöfalda og bæta vegi á suðvestursvæðinu sem hefur skilað sér í því að færri banaslys hafa orðið á þessum fjölförnu vegum. Við höfum farið í átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir að bættu öryggi, en umferðarþungi hefur aukist gríðarlega á þessari öld. Á árunum 2018- 22 vorum við í fjórða lægsta sæti yfir tölu látinna í umferðarslysum í Evrópu á hverja 100.000 íbúa. Neðar voru Bretland, Svíþjóð og Noregur.
Banaslysin færast út á þjóðvegi landsins
Banaslysum hér á landi hefur fækkað ár frá ári og sérstaklega miðað við umferðaraukningu en hlutfall banaslysa í dreifbýli hefur hækkað úr 40% frá árinu 1975-84 í rúmlega 70% á árunum 2005-14 og enn hefur þetta hlutfall hækkað. Hvað veldur því?
Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hefur kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Lagni ökumannanna sem aka slíkum bifreiðum kemur þeim þó í langflestum tilfellum slysalaust milli landshluta en allir þekkja hvernig er að mæta stórum vöruflutningabílum á kræklóttum vegum landsins, í vondu veðri og reyna að halda einbeitingunni. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið og margir sem keyra hér um landið gera það óvanir þeim aðstæðum sem við búum við. Auk þess hefur verið talað um að stór hluti þeirra bíla sem ferðamenn eru að taka á bílaleigum séu með lægri öryggisstaðla heldur en bílahluti landsmanna.
Breytt þjóðfélagsmynd
Í dag er uppi allt aðrar aðstæður heldur en voru fyrir um aldarfjórðung. Á þeim tíma var samfélagsgerðin önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag, þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf innan byggðarlagsins. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin lengri leið í skólann og jafnvel í leikskóla og þjónustan færist svo sífellt á færri staði. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Að bæta umferðaröryggi á vegum landsins allt árið um kring kallar á stóraukna vetrarþjónustu og áframhaldandi vegabætur um land allt. Mikilvægt er að auka fræðslu til erlendra ferðamanna sem aka hér um vegi, hér er stærsti hluti vegakerfisins um stórbrotna náttúru landsins sem einmitt markmið ferðamanna er að komast á til að njóta og þjóta.
Eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 14. febrúar 2024.
14/02/2024
Áhrif náttúruhamfara á innviði á SuðurnesjumAð beiðni Jóhanns Friðriks Friðrikssonar þingmanns Framsóknar flutti forsætisráðherra munnlega skýrslu á alþingi um áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðunesjum. Umræðan var góð og fróðleg og varpar ljósi á þær gífurlegu áskoranir sem standa fyrir dyrum. Forsætisráðherra fór í máli sínu yfir þann yfirgripsmikla undirbúning og margvíslegu aðgerðir sem gripið hefur verið til, svo varna megi tjóni og neikvæðum áhrifum á líf fólks.
Fyrir hönd Framsóknar tóku til máls formaður flokksins og innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, auk Jóhanns Friðriks Friðrikssonar.
Í máli Sigurðar Inga kom meðal annars fram: ,,Staðreyndin er sú að við höfum frá fyrstu dögum, kallað fullt af fólki til vinnu og verka til að skipuleggja hvernig er hægt að takast á við náttúruna, undirbúa plan A, plan B, plan C jafnvel, og vera tilbúin til að gera fleiri hluti þegar það þarf vegna þess að stundum leikur náttúran á okkur. Stundum vinnum við en stundum vinnur náttúran og þá þurfum við að vera með viðbótarplan. Þess vegna hafa menn getað brugðist við svo hratt sem raun ber vitni í þeim atburðum sem við erum að horfa á núna í baksýnisspeglinum næst okkur.”

Enn fremur sagði Sigurður Ingi: ,, Við þurfum úti um allt land að átta okkur á því að náttúruváin er til staðar þó að hún hafi ekki ógnað okkur í 100 ár. Hún getur gert það á næstu 50 árum, getur gert það eftir nokkur ár, hún getur gert það þess vegna á næstu mánuðum. Það er mikilvægt til þess að hugsa, hér í þessari umræðu um hamfarirnar á Suðurnesjum, að við erum búin að undirbúa okkur gríðarlega vel. En við getum hins vegar ekki komið hér og fullyrt að við séum búin að koma í veg fyrir allt sem gerist af því að þrátt fyrir okkar virtu vísindamenn og þekkingu þá getum við ekki vitað hvað nákvæmlega gerist. Við getum spáð fyrir um það. Við getum undirbúið það eins og var gert svo vel í þessum hamförum síðustu daga og þess vegna var hægt að grípa til plans B þegar A gekk ekki og vera tilbúin með plan C ef það myndi ekki ganga.
Jóhann Friðrik vék að því hversu stolt við erum öll af því fólki sem stendur vaktina, dag og nótt, en það er í eðli okkar Íslendinga að standa saman þegar gefur á bátinn. ,,Ég er stoltur af öllu þessu frábæra fólki og veit að það eru íbúar á Suðurnesjum og landsmenn allir. En hér hefur verið nefnt: Og hvað svo? Nú þegar þessum viðburði er lokið í bili verðum við að fara yfir það sem betur mætti fara. Við eigum að taka þá umræðu á heiðarlegan hátt og halda ótrauð áfram. Suðurnesjamenn hafa gengið í gegnum ýmislegt í gegnum tíðina en gríðarlegar jarðhræringar og eldgos í námunda við byggð hafa ekki ógnað tilveru okkar og lífsgæðum frá því að land byggðist. Sú byrði hefur lent af ómældum þunga á Grindvíkingum sem nú búa fjarri heimilum sínum og við þeim blasir óvissa sem stjórnvöld þurfa að mæta eftir fremsta megni. Það orðatiltæki að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur, hefur verið mjög ofarlega í huga á undanförnum dögum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að huga að okkar innviðum til lengri tíma. Ég er stoltur af þeim verkefnum sem stjórnvöld hafa farið í á undanförnum mánuðum og árum til að bregðast við þeirri náttúruvá sem hefur blasað við okkur og ég er þess fullviss að sú vinna mun halda áfram. Ég vil nýta þetta tækifæri undir lok ræðu minnar til að segja aftur: Takk, kæru íbúar á Suðurnesjum, fyrir þolgæði ykkar, dugnað og samkennd á þessum tíma. Við munum áfram standa þétt við bakið á ykkur.”

08/02/2024
Menntun innflytjenda – falinn fjársjóðurÍ janúar sá ég viðtal við tannlækni frá Úkraínu sem kom til Íslands sem flóttamaður vorið 2022 og hefur nú fengið leyfi landlæknis til að starfa sem tannlæknir hér á landi. Þetta eru virkilega jákvæðar fréttir. En því miður heyri ég samhliða of margar sögur um að innflytjendur fái fyrra nám eða starfsréttindi ekki metin á Íslandi. Hingað til hefur oft verið óljóst hvert eigi að snúa sér til að fá fyrra nám metið. Það er því mikið fagnaðarefni að í byrjun febrúar var opnuð þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum á Island.is.
Atvinnuþátttaka innflytjenda er mikil
Innflytjendur eru nú um 18 prósent af heildarfjölda landsmanna en hlutfallið er mjög breytilegt á milli byggðarlaga. Hæst er hlutfall innflytjenda yfir 60% í Mýrdalshreppi, í allmörgum sveitarfélögum er það yfir 30% en þar sem hlutfall innflytjenda er lægst fer það niður fyrir fimm prósent. Sveitarfélög með hæst hlutfall innflytjenda eru öll á landsbyggðinni en ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu fer yfir 20% nema Reykjavík. Seinni hluta síðasta árs voru innflytjendur um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi. Almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% en atvinnuþátttaka innflytjenda er enn meiri, eða tæplega 87%, og er það mun hærra hlutfall en í öðrum norrænum ríkjum. Ekki hefði verið mögulegt að manna mikilvæg störf síðustu ár án aðkomu innflytjenda, t.d. í fiskvinnslu, iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
Menntunarstig innflytjenda er áþekkt menntunarstigi innlendra
Margir innflytjendur sinna störfum þar sem ekki er gerð rík krafa um menntun og það oft þrátt fyrir að vera jafnvel með sérhæfða menntun sem mikil þörf er fyrir á íslenskum vinnumarkaði. Það þarf að nýta þennan mannauð betur. Staðreyndin er sú að um 42% innflytjenda hér á landi vinna störf sem ekki krefjast sérstakrar menntunar þrátt fyrir að hlutfall þeirra innflytjenda sem hér búa og ekki hafa lokið sértækri menntun sé 17%. Þá vekur það athygli að menntunarstig innlendra og innflytjenda á Íslandi er áþekkt. Þá er ekki marktækur munur á menntunarstigi þeirra sem koma hingað frá svæðum utan EES og innan EES.
Bylting við mat á menntun og færni
Eins og áður sagði var þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum opnuð í byrjun febrúar. Með þjónustugáttinni er verið að tengja umsækjendur í gegnum miðlæga síðu við alla þá sem koma að mati og viðurkenningu á námi hér á landi. Þannig batnar aðgengi fólks sem vill fá menntun frá útlöndum metna, óháð því hvort um er að ræða innflytjendur eða innfædda. Hér er um að ræða mjög mikilvægt skref til einföldunar og loks verður hægt að sjá á einum stað allar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar á menntun eða færni. Ég fagna þessu skrefi sem hér hefur verið tekið en legg áherslu á að frekari umbóta er þörf. Matið heyrir undir þrjú ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið varðandi starfsleyfi heilbrigðisstétta; háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi starfsréttindi iðngreina; og mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi starfsleyfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Verkefnið dreifist víða og þess vegna er brýnt að skilgreina vel hlutverk skóla við mat á námi, leiðbeiningar og þjónustu. Ég er sannfærð um að hér eru frekari tækifæri til úrbóta og aukinnar skilvirkni án þess að slaka á kröfum til þekkingar og færni.
Við þurfum á þekkingu allra íbúa að halda
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ber ábyrgð á móttöku innflytjenda, og þar hefur nú verið unnin grænbók um stöðuna í málefnum innflytjenda og unnið er að stefnumótun í nánu samstarfi við ráðherranefnd í málaflokknum. Á kjörtímabilinu hafa nú þegar verið samþykktar lagabreytingar á grunni þeirrar vinnu til að auðvelda ráðningu sérfræðinga frá útlöndum, þjónustugáttin er komin og unnið að eflingu raunfærnimats og skilvirkara mati á námi og starfsréttindum. Þessi vinna er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir: „Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.“ Það er mikilvægt að fjárfesta í fólki eins og við í Framsókn leggjum áherslu á. Við þurfum á þekkingu allra að halda þar sem við á og kannski leynist þekking sem hefur skort í sum byggðarlög nú þegar meðal íbúa.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúar 2024.
07/02/2024
Tölum um hvalrekaskattHvalrekaskattar á banka hafa verið lagðir á í ýmsum ríkjum Evrópu að undanförnu og áform um slíkt hefur víða komið til tals. En hvað er hvalrekaskattur? Um að ræða sérstakan skatt sem stjórnvöld geta lagt á atvinnugreinar eða fyrirtæki sem hagnast óvænt vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna hækkana á vöruverði, hagstæðra breyting á reglum eða annarra ytri þátta sem leitt geta til óvenjulegrar aukningar á hagnaði og hafa í raun ekkert með daglegt rekstrarumhverfi fyrirtækja og ákvarðanir því tengdu að gera.
Ein helstu rökin fyrir notkun hvalrekaskatts eru að með honum er tímabundið hægt að vinna bug á tekjuójöfnuði með því að beina spjótum sínum að fyrirtækjum eða atvinnugreinum sem hagnast óeðlilega vegna fyrrnefnda ástæðna á kostnað heimila, fyrirtækja, neytenda eða skattgreiðenda. Stjórnvöld geta þannig með hvalrekaskatti stuðlað að sanngjarnari skiptingu byrða milli fólks og fyrirtækja.
Þaulreynd aðferðafræði
Hvalrekaskattur er ekki nýtt fyrirbæri en til hans hefur oft verið gripið á undanförnum áratugum í löndum sem við berum okkur saman við vegna óvenjulegra aðstæðna og aukningar í hagnaði af sérstökum aðstæðum. Skatturinn er samofinn ýmsum efnahagslegum og pólitískum viðburðum sem margir kannast við. Má þar nefna hvalrekaskatt á olíufyrirtæki í kjölfar olíukreppunnar árið 1970 sem var tilkomin vegna viðskiptabanns OPEC ríkjanna og leiddi til verulegrar hækkunar olíuverðs. Þá var skatturinn meðal annars settur á í Bandaríkjunum og Bretlandi. Aftur var hvalrekaskattur lagður á olíufyrirtæki í Bretlandi vegna óeðlilegs hagnaðar árið 1981 þegar hægristjórn Margrétar Thatcher var við völd. Þá kom Tony Blair, fyrrv. forsætisráðherra Breta og formaður verkamannaflokksins, hvalrekaskatti til leiðar á veitufyrirtæki.
Undanfarið ár hefur talsverð umræða átt sér stað víða í heiminum um hvalrekaskatta og fjölmörg lönd í Evrópu hafa innleitt þá á orkufyrirtæki vegna mikillar hækkunar raforkuverðs og stóraukins hagnaðar orkufyrirtækja sem að stórum hluta má rekja til árásarstríðs Rússa í Úkraínu. Skattinum er þannig ætla að koma til móts við almenning sem tekið hefur á sig talsvert þyngri byrðar vegna hás orkuverðs.
Ekki spurning um hægri eða vinstri
Það er sannfæring mín og okkar í Framsókn að þegar óvenjulegur hagnaður verður vegna tímabundins ójafnvægis á markaðnum eða annarra tímabundinna ytri þátta getur hvalrekaskattur hjálpað til við að leiðrétta slíka röskun og stuðlað að meira jafnvægi í efnahagslífinu, heimilum og fyrirtækjum til hagsbóta. Slíkt er ekki spurning um hægri eða vinstri strauma í stjórnmálum eins og dæmin sanna erlendis frá, heldur eðlileg viðbrögð ríkisins við óvenjulegu ástandi í samfélaginu.
Á tímum þar sem að stýrivextir hafa hækkað mikið og vaxtamunur bankanna hér á landi hafa aukist tel ég eðlilegt og sanngjarnt að íslensk stjórnvöld fari þá leið að setja á hvalrekaskatt með það að markmiði að styðja betur við þau heimili sem verst hafa orðið fyrir barðinu á hækkun vaxta. Til að mynda hafa hreinar vaxtatekjur íslensku bankanna margfaldast á árinu 2023 og hafa verið yfir arðsemismarkmiðum, það segir ákveðna sögu. Ég tel rétt á sama tíma að geta þess að ríkisstjórnin lagðist á árarnar á Covid tímabilinu og studdi við bakið á fyrirtækjum í landinu og nutu bankarnir þannig óbeint verulegs stuðnings frá hinu opinbera og hafa frá síðasta ári notið uppskeru þeirra aðgerða.
Skattheimta getur stuðlað að jöfnum tækifærum
Einn helsti átakapunktur stjórnmálanna snýr að skattheimtu og réttlátri skiptingu. Umræðu um skattheimtu hverju sinni, hvort sem hún snýr að fólki eða fyrirtækjum, þarf að taka með (fyrirsjáanlegum) yfirveguðum og málefnalegum hætti hverju sinni. Slæmar og illa ígrundaðar ákvarðanir í skattastefnustefnu stjórnvalda geta haft slæm áhrif á fyrirtæki og samfélagið í heild. Það gefur auga leið að slíkt er engu samfélagi til gagns. Það er hins vegar engum vafa undirorpið að skattheimta getur stuðlað að jöfnum tækifærum, félagslegum jöfnuði og sterkari samfélögum. Það eru til dæmis Norðurlöndin þekkt fyrir á heimsvísu sem við Íslendingar viljum oft og tíðum bera okkur saman við.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 7. febrúar 2024.
07/02/2024
„Innflytjendur eru undirstaða hagvaxtar á Íslandi“Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir stöðu innflytjenda í störfum þingsins og mikilvægi þess að ef við viljum búa í samfélagi inngildingar eða samlögunar í stað stéttaskiptingar og skautunar þurfi að fara fram markvissa vinna. Innflytjendur eru nú tæpur fimmtungur landsmanna. „En hlutfallið er mjög breytilegt á milli byggðarlaga. Sveitarfélögin með hæst hlutfall innflytjenda eru öll á landsbyggðinni en ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu fer yfir 20%, nema Reykjavík.“
„Ég hef allt mitt sextíu ára líf búið í samfélagi með innflytjendum. Lengst af fannst mér viðhorf stjórnvalda vera: Innflytjendur eru margir úti á landi en það reddast því að návígið þar er svo mikið. En loksins erum við að vakna sem samfélag og í gær sáum við virkilega góða umfjöllun í þættinum Torgið hjá RÚV,“ sagði Líneik Anna.
Fór Líneik Anna yfir að unnið sé að fjölbreyttum umbótum í málaflokknum. Nýbúið sé að opna samræmda Þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum island.is, sem muni bæta til muna aðgengi að þjónustu og upplýsingum.
„Það er ótrúlega stutt síðan við fórum að skoða hvernig best væri að kenna og læra íslensku sem annað tungumál. Þar þurfum við að halda áfram að afla þekkingar um íslensku sem annað mál, bæta tækifæri allra kennara á öllum skólastigum til símenntunar og auka framboð af námsefni. – Við þurfum að tryggja aðgang að námskeiðum um grundvallarorðaforða íslenskunnar fyrir foreldra.“
„Innflytjendur eru undirstaða hagvaxtar á Íslandi síðustu ár og eru hluti af bjartri framtíð Íslands ef við stöndum okkur næstu árin,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Innflytjendur eru tæpur fimmtungur landsmanna en hlutfallið er mjög breytilegt á milli byggðarlaga. Sveitarfélögin með hæst hlutfall innflytjenda eru öll á landsbyggðinni en ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu fer yfir 20% nema Reykjavík. Ég hef allt mitt sextíu ára líf búið í samfélagi með innflytjendum. Lengst af fannst mér viðhorf stjórnvalda vera: Innflytjendur eru margir úti á landi en það reddast því að návígið þar er svo mikið. En loksins erum við að vakna sem samfélag og í gær sáum við virkilega góða umfjöllun í þættinum Torgið hjá RÚV.
Ef við viljum búa í samfélagi inngildingar eða samlögunar í stað stéttaskiptingar og skautunar þarf markvissa vinnu. Sem betur fer er nú unnið að fjölbreyttum umbótum. Þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum opnaði á island.is í byrjun febrúar. Þar með batnar aðgengi fólks að þjónustu og upplýsingum. Í framhaldinu er hægt að fara í frekari úrbætur verkferla. Það er ótrúlega stutt síðan við fórum að skoða hvernig best væri að kenna og læra íslensku sem annað tungumál. Þar þurfum við að halda áfram að afla þekkingar um íslensku sem annað mál, bæta tækifæri allra kennara á öllum skólastigum til símenntunar og auka framboð af námsefni. Leik-, grunn-, framhalds- og háskólar, framhaldsfræðslan, starfsmenntasjóðir, verkalýðsfélög, atvinnurekendur, sveitarfélög og ríki hafa öll formlegt hlutverk í móttöku og inngildingu innflytjenda og þurfa að vinna saman. Starfstengd íslenska er mikilvæg og gleymum ekki mikilvægasta viðfangsefni allra foreldra, uppeldishlutverkinu. Við þurfum að tryggja aðgang að námskeiðum um grundvallarorðaforða íslenskunnar fyrir foreldra. Innflytjendur eru undirstaða hagvaxtar á Íslandi síðustu ár og eru hluti af bjartri framtíð Íslands ef við stöndum okkur næstu árin.“
„Við viljum öll komast heil heim“
07/02/2024
„Við viljum öll komast heil heim“„Nú eru 37 dagar liðnir af árinu og á þessum stutta tíma hafa orðið fjögur alvarleg umferðarslys þar sem margir hafa slasast og sex manns hafa hlotið bana. Ég votta aðstandendum þeirra samúð mína,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.
„Nú byrja ég hvern einasta vinnudag á því að keyra hingað á höfuðborgarsvæðið úr Borgarfirðinum. Á þessu ári hefur nær alltaf verið nýr bíll í kantinum sem hefur lent í vandræðum á veginum og jafnvel keyrt út af og jafnvel oltið, af því að við búum á hættulegu landi þegar kemur að veðurfari og umferð.“
Fór hún yfir að á þjóðvegi 1 sé „gríðarlega þung umferð“ og ferðamenn að aka hér í fyrsta sinn. Til viðbótar þá féllu á síðasta sólarhring snjóflóð í Súðavíkurhlíð og í Ólafsfjarðarmúla. „Við hér á þingi getum gert margt til að vernda fólk í umferðinni; með betra undirlagi, jarðgöngum, vegriðum og hreinlega að loka vegum þegar þeir eru hvað hættulegastir.“
„Við erum að vinna að samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd hér á þingi og ég veit að hæstv. innviðaráðherra sem fer með samgöngumálin brennur fyrir því að vegir hér á landi séu eins öruggir og hugsast getur. En þetta tekur allt tíma og slysin gera ekki boð á undan sér. Því vil ég biðla til þeirra sem eru hér að hlusta: Keyrið varlega og sýnið þeim þolinmæði sem eru ekki jafn örugg í umferðinni og þið, því að við viljum öll komast heil heim,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Nú eru 37 dagar liðnir af árinu og á þessum stutta tíma hafa orðið fjögur alvarleg umferðarslys þar sem margir hafa slasast og sex manns hafa hlotið bana. Ég votta aðstandendum þeirra samúð mína. Nú byrja ég hvern einasta vinnudag á því að keyra hingað á höfuðborgarsvæðið úr Borgarfirðinum. Á þessu ári hefur nær alltaf verið nýr bíll í kantinum sem hefur lent í vandræðum á veginum og jafnvel keyrt út af og jafnvel oltið, af því að við búum á hættulegu landi þegar kemur að veðurfari og umferð. Í gær féllu tvö snjóflóð, í Súðavíkurhlíð og í Ólafsfjarðarmúla. Súðavíkurhlíð er reyndar hættuleg allt árið því að þar er einnig grjóthrun úr hlíðinni. Á Vestfjörðum eru oft mjög erfiðar aðstæður og margir sem veigra sér við því að keyra á milli staða. Á hringveginum er síðan gríðarlega þung umferð og oft er þar fólk að keyra um íslenska vegi í fyrsta sinn. Við hér á þingi getum gert margt til að vernda fólk í umferðinni; með betra undirlagi, jarðgöngum, vegriðum og hreinlega að loka vegum þegar þeir eru hvað hættulegastir. Við erum að vinna að samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd hér á þingi og ég veit að hæstv. innviðaráðherra sem fer með samgöngumálin brennur fyrir því að vegir hér á landi séu eins öruggir og hugsast getur. En þetta tekur allt tíma og slysin gera ekki boð á undan sér. Því vil ég biðla til þeirra sem eru hér að hlusta: Keyrið varlega og sýnið þeim þolinmæði sem eru ekki jafn örugg í umferðinni og þið, því að við viljum öll komast heil heim.“
07/02/2024
Grundvallarbreyting sem getur skipt sköpum fyrir börnin„Þetta er grundvallarbreyting til góðs“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Að tryggja börnum þessa mikilvægu þjónustu tímanlega getur skipt sköpum fyrir velferð þeirra í framtíðinni. Í lok janúar biðu 26 börn eftir þjónustu og biðin er að jafnaði innan við 1,3 mánuðir. Áður en þetta aukna fjárframlag kom til biðu jafnan um 100-130 börn á hverjum tíma eftir þjónustu og biðin var oft margir mánuðir. Ég er afar þakklátur yfir hve vel hefur tekist til og mun leggja mitt af mörkum til að tryggja að þessi góði árangur verði varanlegur.“
Með breyttu skipulagi og auknu fjármagni hefur tekist að stytta bið barna eftir göngudeildarþjónustu Barna- og unglingadeildar Landspítala (BUGL) verulega. Um nýliðin áramót hafði náðst það markmið að ekkert barn bíði eftir þjónustu lengur en 90 daga frá því að þjónustubeiðni er samþykkt og er það í samræmi við viðmið embættis landlæknis.
Ákvörðun Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um að ráðstafa í þessu skyni 55 milljónum króna árlega í þrjú ár, hefur gert öflugu starfsfólki göngudeildarþjónustu BUGL kleift að umbreyta þjónustunni með þessum árangursríka hætti.
Í fjárlögum síðasta árs voru tryggðar rúmar 260 milljónir króna til ýmissa heilsufarslegra aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Framlagið var tímabundið til þriggja ára og nemur í heild rúmum 780 m.kr. Við ráðstöfun fjárins ákvað Willum að nýta fjármagnið til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og efla heilsugæsluþjónustu í skólum. Við þá ákvörðun hafði hann sérstaklega að leiðarljósi ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og ályktun Alþingis um stefnu í geðheilbrigðismálum.
Meðferðarteymum fjölgað úr tveimur í þrjú
Aukið fjármagn hefur gert BUGL kleift að ráða fleiri sérfræðinga og fjölga meðferðarteymum göngudeildarinnar úr tveimur í þrjú. Samhliða voru gerðar breytingar á verkferlum og skipulagi þjónustunnar með auknu samstarfi göngudeildar og legudeildar BUGL. Þetta hefur gefist vel og aukið þjónustugetuna til muna.
Það gleður mig mjög að sjá þennan árangur! Í lok janúar biðu 26 börn eftir þjónustu og biðin að jafnaði innan við 1,3…
Posted by Willum Þór Þórsson on Þriðjudagur, 6. febrúar 2024
06/02/2024
Sóttvarnaaðgerðir á Íslandi í heimsfaraldri voru mjög árangursríkar!Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins nýlega skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD og þá niðurstöðu skýrslunnar að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldurs hafi verið mjög árangursríkar. Ítarleg greining leiðir í ljós að af OECD-ríkjum voru dauðsföll á Íslandi færri en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölda og aldurssamsetningu þjóðar.
Minnti Líneik Anna á að í þingsal Alþingis hafi ítrekað verið velt upp þeirri spurningu hvort dauðsföll hér á landi á meðan sóttvarnaaðgerðum á tímum heimsfaraldurs Covid stóð hafi verið umfram samanburðarlönd. „Af þeirri umræðu að dæma var greinilegt að fólk las á mjög mismunandi hátt út úr fyrirliggjandi tölfræði í rauntíma.“
„Aðeins á Nýja-Sjálandi var hlutfall umframdauðsfalla lægra en hér á landi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir lýðfræðilegum breytum og tekið tillit til fólksfjölgunar og aldurssamsetningar voru að meðaltali 5,3% fleiri dauðsföll í OECD-ríkjunum á árunum 2020–2022 en á samanburðarárum fyrir faraldurinn,“ sagði Líneik Anna.
„Mér finnst mikilvægt að draga þessar upplýsingar fram hér og hrósa um leið þeim sem stóðu í stafni í sóttvarnaaðgerðum, starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að við gætum sinnt ábyrgðinni um að vera öll almannavarnir,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Í þessum þingsal hefur þeirri spurningu ítrekað verið velt upp á síðustu þingum hvort dauðsföll hér á landi á meðan sóttvarnaaðgerðum á tímum heimsfaraldurs Covid stóð hafi verið umfram samanburðarlönd. Af þeirri umræðu að dæma var greinilegt að fólk las á mjög mismunandi hátt út úr fyrirliggjandi tölfræði í rauntíma. Það var þess vegna mjög ánægjulegt að sjá í nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldurs hafi verið mjög árangursríkar. Niðurstaða skýrslunnar sem byggir á ítarlegum greiningum leiðir í ljós að af OECD-ríkjum voru dauðsföll á Íslandi færri en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölda og aldurssamsetningu þjóðar. Aðeins á Nýja-Sjálandi var hlutfall umframdauðsfalla lægra en hér á landi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir lýðfræðilegum breytum og tekið tillit til fólksfjölgunar og aldurssamsetningar voru að meðaltali 5,3% fleiri dauðsföll í OECD-ríkjunum á árunum 2020–2022 en á samanburðarárum fyrir faraldurinn. Munur milli landa var hins vegar verulegur og níu lönd af 41 skera sig úr þar sem dauðsföll á Covid-árunum voru færri en búast mátti við miðað við árin á undan. Þeirra á meðal eru Nýja-Sjáland, Ísland, Noregur, Írland og Austurríki. Mér finnst mikilvægt að draga þessar upplýsingar fram hér og hrósa um leið þeim sem stóðu í stafni í sóttvarnaaðgerðum, starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að við gætum sinnt ábyrgðinni um að vera öll almannavarnir.“
