Categories
Fréttir

Almenningur ekki undanskilinn ógnum beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum

Deila grein

18/11/2022

Almenningur ekki undanskilinn ógnum beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um fjölþáttaógnir og netöryggismál á Alþingi.

Sagði Jóhann Friðrik netöryggi vera einn anga af fjölþáttaógnum er samfélög standi frami fyrir. Herjað sé með samstilltum aðferðum á kerfislega veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins. Markmiðið er að valda óæskilegum áhrifum og/eða skaða, svo sem með dreifingu falsfrétta, netárása, íhlutun í lýðræðislegt ferli, fjárfestingum í mikilvægum innviðum. Þar liggja að baki annarlegar hvatir og tilraunir til að grafa markvisst undan stjórnvöldum og stofnunum. Farnar eru leiðir sem eru til þess fallnar að valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði.

„Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausar neitunar á ábyrgð, enda virða aðgerðir hvorki landamæri né skil á milli opinberra aðila og einkaaðila,“ sagði Jóhann Friðrik.

Netnotkun á Íslandi er hvergi meiri í heiminum en þegar komi að netöryggi verðum við að gera mun betur að mati Jóhanns Friðriks. „Almenningur er ekki undanskilinn hættunni af fjölþáttaógnum sem kann að vera beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum.“

„Við erum í hópi þeirra þjóða þar sem læsi er almennt, menntunarstig hátt og fáar hraðahindranir til staðar til aukinnar og markvissrar fræðslu. Á málþingi þjóðaröryggisráðs um fjölþáttaógnir kom fram að um 70% netsvika og fjölþáttaherferða virka vegna veikleika hjá einstökum notendum. Því er mikilvægt að auka árvekni og þekkingu okkar á hættum sem stafa af fölskum upplýsingum og tryggja örugga netumgengni,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Við höfum á síðustu árum fjölmörg dæmi um fjölþáttaógnir, netárásir á innviði samfélags, svo sem netárásir á stofnanir, orkukerfi og fjármálakerfi, og eru þær staðreyndir, en einnig tilraunir til að hafa óæskileg áhrif á niðurstöður kosninga. Með tilkomu reiknirita eða algóritma má ná til einstaklinga og hópa og beina að þeim upplýsingum án þeirra vitundar sem áhrif hafa á skoðanir þeirra og hegðun.“

Vera á varðbergi og skrefi á undan

„Besta leiðin að mínu mati og margra annarra er að skýr stefna stjórnvalda liggi fyrir með þátttöku alls samfélagsins, m.a. með því að leggja áherslu á lýðræðisleg gildi, upplýsingalæsi og árvekni í skólum og í samfélaginu. Annar veigamikill þáttur í árangri getur falist í því að berjast gegn upplýsingafölsun og þá með sannreyndum og áreiðanlegum opinberum upplýsingum sem öllum eru aðgengilegar. Alþjóðasamstarf er einnig gríðarlega mikilvægt til að tryggja og fyrirbyggja slíkar árásir. Atlantshafsbandalagið hefur lagt áherslu á umrædda þætti sérstaklega og tekur Ísland virkan þátt í þeim.“

„Útgangspunktur minn, virðulegi forseti, er því þessi: Eins og áður sagði eru netárásir aðeins hluti af vopnabúri fjölþáttaógna en sannarlega sá þáttur sem almenningur finnur hvað mest fyrir í sínu daglega lífi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi aukinnar hættu sem samfélaginu kann að stafa af fjölþáttaógnum ásamt hröðum tæknibreytingum sem kunna að auðvelda framkvæmd þeirra, hvort stjórnvöld, atvinnulíf og samfélag séu nógu vel í stakk búin til að mæta þessum áskorunum og hins vegar hver sé framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi fjölþáttaógnir og netöryggismál hér á landi,“ sagði Jóhann Friðrik.

Forsætisráðherra var til andsvara í umræðunni.

Categories
Fréttir Uncategorized

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Deila grein

17/11/2022

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Nýr starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga hélt sinn fyrsta fund í innviðaráðuneytinu í gær. Hópnum er ætlað að skila tillögu til innviðaráðherra um stefnu stjórnvalda gagnvart sveitarfélögum til fimmtán ára 2024 til 2038 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2024 til 2028 í byrjun næsta árs. Stefnumótunin byggir á ákvæði sveitarstjórnarlaga um að ráðherra leggi fram endurskoðaða stefnu í málaflokki sveitarfélaga á þriggja ára fresti. Stefnan tekur við af fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna í landinu á næsta ári.

Stefán Vagn Stefánsson veitir starfshópnum formennsku fyrir hönd innviðaráðherra. Annar fulltrúi ráðherra í hópnum er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins og borgarfulltrúi, og Jón Björn Hákonarson, varaformaður sambandsins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Áheyrnarfulltrúar í hópnum eru Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri sveitarfélaga og byggðamála í ráðuneytinu, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins.

Fyrsta stefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna fól m.a. í sér aukinn stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga, átak í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga, umbætur á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og vinnu við fjármálaviðmið og endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga. Endurskoðun stefnumótunarinnar felur m.a. í sér víðtækt samráð við sveitarfélögin í landinu, íbúa og aðra hagsmunaaðila um stöðu sveitarfélaga, áskoranir og tækifæri til framtíðar. Á fyrsta fundi starfshópsins lagði innviðaráðherra áherslu á mikilvægi stefnumótunarinnar, sagðist hlakka til að taka á móti tillögum hópsins og óskaði honum velfarnaðar í vinnunni framundan.

Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra í mars á næsta ári.

Categories
Fréttir

Farsæld barna

Deila grein

17/11/2022

Farsæld barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti nýlega áform um ný heildarlög um skólaþjónustu og í þeirri vinnu gegnir samráð við hlutaðeigandi lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa.

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt upptöku af öllum erindum og pallborðsumræðum á ráðstefnu um farsæla skólagöngu allra barna sem haldin var á mánudag, 14. nóvember 2022. Ráðstefnan var vel sótt með 260 ráðstefnugestum og 1.827 í streymi. 

Þeim 500 sem skráðu sig á ráðstefnuna, á staðnum og í streymi, hefur verið boðið að taka þátt í samráðshópum um mótun skólaþjónustu til framtíðar sem munu funda á næstu vikum. Áður höfðu 500 einstaklingar brugðist við auglýsingu ráðuneytisins um samráð og lýst yfir áhuga á þátttöku í samráðshópunum.

Lokaorð Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, með orðaskýi frá ráðstefnugestum í baksýn yfir þau orð sem koma í huga þegar hugsað er um farsæla skólagöngu barna

 „Menntun er algjört lykilatriði til að vera farsæll einstaklingur, alveg eins og það er mikilvægt að búa við góða velferð og fjárhagslegt öryggi,“ sagði Ásmundur í lokaorðum. „Það er það sem við erum að reyna að kalla fram með farsældarlöggjöfinni: Þú getur ekki slitið eitt frá öðru, þetta hangir allt saman á sömu spýtunni.“

Snærós Sindradóttir ráðstefnustjóri tekur við spurningum þátttakenda á Slido og beinir til pallborðs. Í því sátu frá vinstri: Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs Árborgar og nýráðinn skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. nóvember 2022.

Myndir: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitir Jónasar verðlaunin á degi íslenskrar tungu

Deila grein

17/11/2022

Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitir Jónasar verðlaunin á degi íslenskrar tungu

„Í dag kynnast börn, ungmenni, nýir málhafar og aðrir um allt land deginum og tungumálinu á nýjan og ólíkan hátt. Deginum sem fagnar tungumáli okkar allra. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu, hvort sem er í lestri bóka, í samfélagsumræðu, á netmiðlum eða í leik og starfi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Íslenskan er í fyrirrúmi í dag, en hún á alltaf að vera það. Við skulum fagna þessum degi saman og standa saman vörð um íslenskuna. Við skulum þróa hana saman og kætast yfir því að hún á bjarta framtíð fyrir sér ef rétt er haldið á spöðunum. Íslenskan er okkar allra. Til hamingju með daginn í dag.“

Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og textasmiður, hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaunin eru veitt árlega, á degi íslenskrar tungu, þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Sérstaka viðurkenningu dags íslenskrar tungu hlaut að þessu sinni verkefnið Tungumálatöfrar á Ísafirði sem býður upp á upp á málörvandi umhverfi í gegnum skapandi kennsluaðferðir fyrir fjöltyngd börn.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Bragi Valdimar Skúlason hlýtur verðlaunin í þetta skipti. Í rökstuðningi ráðgjafanefndarinnar segir:
Tungumál slitna ekki við notkun heldur styrkjast. Til þess að íslenska haldi velli þarf að pönkast í henni, leika sér með hana, snúa upp á hana og út úr henni. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar hlýtur að þessu sinni skáld, grínisti, auglýsingamaður og uppfræðari. Textar hans eru sungnir við brúðkaup, jarðarfarir og skírnir, kyrjaðir í tjaldútilegum og eru jafn ómissandi hluti af jólahaldi Íslendinga og ítölsk dægurlög. Hann er eftirlæti unglinga og vinnustaðagrínara, kennara og kaffibrúsakarla.

Um hann má segja að hann sé dúndur, hann sé diskó, það sé mikið í hann lagt! Verðlaunin í ár hlýtur Bragi Valdimar Skúlason sem hefur unnið markvisst að því að vekja áhuga fólks á íslenskri tungu og ræktað hana á óvenjumörgum sviðum. Hann er ekki aðeins skáld, textahöfundur og þýðandi heldur hefur hann gert vinsæla sjónvarpsþætti þar sem viðfangsefnið er tungumálið er sjálft. Að auki hefur hann lagt til efni á vef Baggalúts og unnið að auglýsingagerð.

Viðurkenning Jónasar Hallgrímssonar

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar segir um Tungumálatöfra:

„Tungumálatöfrar, Tungumálatöfrar, í takti tölum við saman,“ má heyra sungið af kór barna og fullorðinna á myndbandi sem finna má á netinu. Það var tekið upp á sumarnámskeiði fyrir börn á Ísafirði en þar saman komu krakkar á aldrinum 5–11 ára til að læra íslensku í gegnum listsköpun og leik. Námskeiðið hefur verið haldið frá árinu 2017 og er ætlað íslenskum börnum sem hafa fæðst erlendis eða flutt til annarra landa og börnum af erlendum uppruna sem hafa sest að hér á landi. Börnin eiga það því sameiginlegt að vera fjöltyngd og um leið og þau eru örvuð til að nota íslensku er þeim bent á þann styrk sem felst í því að kunna fleiri tungumál en eitt. Í lok námskeiðsins hefur verið gengin tungumálaskrúðganga á Ísafirði en einnig hafa aðstandendur þess staðið fyrir málþingum. Komið hefur fram að þeir vonist eftir því að Tungumálatöfrar á Ísafirði verði uppspretta þekkingar sem geti nýst við þróun námsefnis víðar á landinu.

Viðurkenningarhafar- Tungumálatöfrar

Tungumálatöfrar hljóta sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu vegna frumkvöðlastarfs á sviði íslenskukennslu. Um leið á viðurkenningin að vera Tungumálatöfrum hvatning til frekari rannsókna og uppbyggingarstarfs.https://www.youtube.com/embed/kVShgV4e7C8

Ráðgjafanefnd Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2022 skipuðu Haukur Ingvarsson, formaður, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir.

Hlýjar móttökur í Fellaskóla

Börnin í Fellaskóla tóku á móti ráðherra og verðlaunahöfum og voru viðstödd hátíðlega athöfn í dag. Nemendur sýndu verðlaunaatriði sitt af sviðslistahátíðinni Skrekk, en þau urðu í öðru sæti á hátíðinni. 

Börnin í Fellaskóla

Í Fellaskóla hefur verið unnið að fyrirmyndarverkefninu Okkar mál-samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi.
Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti. Leiðarljósið er að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. nóvember 2022.

Myndir: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Höfum við næga orku?

Deila grein

15/11/2022

Höfum við næga orku?

„Hæstv. forseti. Við höfum næga orku. Það er setning sem við fáum mjög oft að heyra. Og það er alveg rétt, við höfum næga orku ef við ætlum að halda áfram að keyra alla flutninga á mengandi jarðefnaeldsneyti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að fara í orkuskipti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að veita fyrirtækjum tækifæri til að styrkja eigin innviði og tryggja samkeppnishæfni sína og minnka kolefnisspor sitt á alþjóðavísu.

Þannig að ef við ætlum að fara í orkuskiptin, taka þátt í alþjóðlegum verkefnum og minnka kolefnisspor heimsins þá sé ég ekki annað en við séum ekki með næga orku. Við erum ekki sjálfbær í orkuframleiðslu og þurfum að geta farið í rannsóknir, skoðað og rætt þá orkukosti sem við höfum á Íslandi. Orkukostirnir sem við höfum eru misjafnir að gæðum og sumir munu aldrei verða að veruleika. En það er mikilvægt að við ræðum þær hugmyndir sem koma fram.

Rannsóknir á orkukostum skipta miklu máli til þess að við vitum um hvað við erum að tala og um hverja við erum raunverulega að taka ákvörðun. Það má nefna dæmi um rannsóknir á náttúru, á hljóðvist og nærliggjandi samfélagi. Þetta eru hlutir sem þarf að rannsaka áður en tekin er ákvörðun um að virkja og því er mjög mikilvægt að gera rannsóknir.

Loftslagsmál eru ekki eitthvað sem við leysum á eyju úti í Atlantshafi en við þurfum að geta lagt okkar af mörkum fyrir heimsbyggðina því að þetta er alþjóðlegt vandamál. Hvert skref skiptir máli,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi..

Categories
Fréttir

Vetrardagskrá Framsóknar í Reykjanesbæ

Deila grein

14/11/2022

Vetrardagskrá Framsóknar í Reykjanesbæ

Öflugt starf er á vegum Framsóknar í Reykjanesbæ og fram í desember eru eftirfarandi viðburðir á dagskrá að Hafnargötu 62.

Vöfflukaffi laugardaginn 19. nóvember Kl. 10:30- 12:00

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar og Eva Stefánsdóttir, fulltrúi í menningar- og atvinnuráði Reykjanesbæjar

Vöfflukaffi laugardaginn 26 nóvember Kl. 10:30-12:00

Það verður fjölmenni sem tekur á móti gestum þann 26. nóvember en þá verða þingmennirnir Jóhann Friðrik Friðriksson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir með okkur og fara yfir störf þingsins. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi og varaþingmaður Framsóknar og Friðþjófur H Karlsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar fara yfir gang mála í sveitarfélaginu.

Jólakaffi Framsóknar í Reykjanesbæ laugardaginn 3. desember kl. 10:30- 12:00

Þær Bjarney Rut Jensdóttir, formaður lýðheilsuráðs og Magnea H. Bjarnadóttir, formaður Framsóknarfélags Reykjanesbæjar taka á móti gestum í jólakaffi.

Stjórn Framsóknar í Reykjanesbæ býður gesti hjartanlega velkomna á viðburðina framundan.

Mynd: samband.is 14. nóv. 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Fréttatilkynning

Deila grein

13/11/2022

Fréttatilkynning

Nú um helgina fór fram haustfundur miðstjórnar Framsóknar og var fundurinn haldinn á Ísafirði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, talaði meðal annars í opnunarræðu sinni um þá einstöku stöðu sem við búum við á heimsvísu þegar kemur að orkumálum. Hann benti á að staða Íslands sé einstök, því við höfum tækifæri til, ef rétt er á haldið, að ná fullkomnu orkusjálfstæði. Ísland geti orðið með fyrstu þjóðum til að framleiða alla orku innanlands, spara gjaldeyri og byggja upp nýjan öflugan grænan iðnað. Þá sagði Sigurður Ingi að orkusjálfstæði sé einnig mikilvægt þegar kemur að fæðuöryggi.

Sigurður Ingi fjallaði um mikilvægi þess að ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar og nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi, að staðfesta í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Þá fjallaði Sigurður Ingi um húsnæðismál, enda snúist þau ekki bara um öryggi, lífsgæði og jöfnuð, heldur séu þau einnig stórt efnahagsmál. Því þurfi að byggja miklu meira til að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn.

Sigurður Ingi dró fram helstu áherslumál ráðherra, breytingar á heilbrigðiskerfinu undir styrkri stjórn Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra. Hann benti á að framundan séu áskoranir í heilbrigðismálunum, þjóðin sé að eldast og því fylgi verkefni sem ekki sé hægt að horfa fram hjá. Þar spila forvarnir lykilhlutverk og Willum hafi þar stigið mikilvæg skref, síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vinnur áfram að málefnum barna sem ekki aðeins hefur orðið forgangsmál hans heldur einnig snert huga þjóðarinnar. Nú er unnið að nýrri heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu sem mun tryggja jafnræði meðal allra, óháð búsetu og skólastigi. Þá hefur Ásmundur Einar tekið þétt utan um íþróttamálin og undirbúningur nýrrar þjóðarhallar er í fullum gangi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur verið sterkur talsmaður menningar og lagt áherslu á skapandi greinar, þær skipta máli fyrir listamenn sem og þjóðarbúið. Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar er að verða að veruleika, en síðasta vor fékk Lilja samþykkt á Alþingi frumvarp sem kvað á um hækkun endurgreiðslu stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35%. Þá á ferðaþjónustan stóran þátt í viðspyrnu efnahagslífsins eftir heimsfaraldurinn, ráðherra ferðamála veit það og vinnur því nú að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er viðurkennt og sérstök áhersla lögð á dreifingu ferðamanna um landið, lengingu ferðatímabils á kaldari svæðum og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður flokksins, fór meðal annars í ræðu sinni yfir stöðu efnahagsmála. Hún kom inn á að horfur á heimsvísu séu að versna en þrátt fyrir það sé staðan hér á landi óvenju góð, verðbólga á Íslandi sé næst lægst á EES svæðinu á eftir Sviss. Þar spili stórt hlutverk hversu sjálfbær við erum í orkumálum og mikilvægt sé að halda áfram á því sviði. Þá talaði Lilja um ofurhagnað bankanna og mikilvægi þess að ná utan um hann svo hægt sé að ná fram sátt í samfélaginu.

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

10/11/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haldinn í Edinborgarhúsinu, Ísafirði 12.-13. nóvember 2022

Dagskrá:

Laugardagur 12. nóv.

12:15 – Setning miðstjórnarfundar, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

12:20 – Ræða formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar

12:45 – Ræða varaformanns Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir

13:00 – Almennar umræður

15:30 – Kaffihlé

16:00 – Inngangur að umræðum um innra starf – Ásmundur Einar Daðason ritari Framsóknar

16:10 – Vinnuhópar um innra starf

18:30 – Fundi frestað til morguns

19:30 – Kvöldverðarhóf

Sunnudagur 13. nóv.

09:30 – Formaður sveitarstjórnarráðs flytur skýrslu

09:40 – Formaður launþegaráðs flytur skýrslu

09:50 – Formaður fræðslu og kynningarnefndar flytur skýrslu

10:00 – Fulltrúi málefnanefndar flytur skýrslu

10:10 – Kaffihlé

10:20 – Umræður um innra starf

12:50 – Kosningar í fastanefndir miðstjórnar, málefnanefnd, fræðslu og kynningarnefnd

12:20 – Hádegisverðarhlé

12:50 – Afgreiðsla mála

13:20 – Önnur mál

13:35 – Fundarslit

Categories
Fréttir

ADHD getur verið styrk­leiki

Deila grein

09/11/2022

ADHD getur verið styrk­leiki

Þingkonan Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er ein af fjölmörgum Íslendingum sem hafa greinst með ADHD. Hún segir að mikilvægt sé að tala ekki niður til þeirra sem glíma við ADHD.

„Þegar fólk heyrir mig tala um að ég sé með ADHD er fólk alltaf að tala um að það sjáist ekki á mér. Ef þú þekkir mig vel þá sérðu það,“ segir Haf­dís Hrönn Haf­steins­dóttir, þing­kona Fram­sóknar, létt í lund í sam­tali við Frétta­blaðið sem snýst um ADHD.

Hún tók til máls á sér­stakri ADHD ráð­stefnu sem var haldin á dögunum. At­hyglis­brestur og of­virkni, oft kallað ADHD í dag­legu tali, er tauga­þroska­röskun sem getur haft víð­tæk á­hrif á dag­legt líf.

„Maður er búin að læra inn á hvernig það má nýta þetta til góðs, og hve­nær maður á að þekkja eigin mörk. Maður lærir hvernig það má stýra þessum styrk­leikum til að nýtast manni,“ segir Haf­dís og bætir við að þetta sé lang­tíma­verk­efni.

„Þetta er lang­hlaup. Ég á það enn þá til að brjóta mig niður fyrir að vera ekki nógu góð í tíma­stjórnun.“

Flutti úr landi með dags­fyrir­vara

Haf­dís sem fékk greiningu rétt eftir tví­tugt er fædd á Ísa­firði en fluttist ung til Reykja­víkur.

„Ég fékk greininguna 21 árs. Fram að því hafði ég átt erfitt með að festa hlutina og var svo­lítið sveim­huga. Skýrasta dæmið um það er þegar ég á­kvað að flytja til Noregs með sólar­hrings­fyrir­vara. Mamma bjó úti og ég fékk þá hug­dettu að það væri ó­trú­lega sniðugt að prófa að búa er­lendis. Ég pakkaði í töskur og flutti degi síðar,“ segir Haf­dís og bætir við að það hafi verið hár­rétt á­kvörðun á þeim tíma­punkti þegar hún lítur í baksýnisspegilinn í dag.

„Ég sé ekki eftir þessari á­kvörðun. Það er oft sem maður hugsar til baka: ég hefði mátt hugsa þetta betur, en þetta er ekki ein af þeim. “

Haf­dís kannast við stefið að ADHD hafi sett í strik í reikninginn í skóla­göngu.

„Þetta hafði mikil á­hrif á skóla­ferilinn. Það komu tímar sem það tók á að reyna að halda sig við efnið, en um leið var maður góður í öðru. Tungu­mála­kunn­átta er eitt­hvað sem ég var fljót að til­einka mér, en hlutir sem kröfðust yfir­legu voru erfiðari. “

Úr lög­fræði á þing

Eftir að hafa fengið greiningu náði Haf­dís betri tökum á skóla­ferlinum og var komin með meistara­gráðu í lög­fræði nokkrum árum síðar.

„Ég fór strax á lyf sem tók eðli­lega smá tíma að stilla af og fann mikinn mun. Ég reyndi að sækja mér fræðslu sam­hliða um hvernig væri hægt að vinna með þetta og ná betri tökum og náði að sam­tvinna þetta,“ segir hún og minnist þess að í miðju há­skóla­námi hafi hún hætt á lyfjum þegar hún var barns­hafandi og ekki misst úr slag.

„Þetta var mikil keyrsla, og til við­bótar eignaðist ég barn á öðru ári í laga­náminu. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki hvernig þetta hafðist allt saman. Þegar ég var ó­létt fann ég að ég þurfti ekki á lyfjunum að halda því líkaminn var að fram­leiða hormónana sem heilanum vantaði og námið gekk betur en nokkru sinni fyrr. Líkaminn sýndi þar hvers hann er megnugur.“

Talið berst að starfi Haf­dísar. Þing­fundir geta verið tíma­frekir en hún segist vera með­vituð um leiðir til að takast á við það.

„Það eru alveg enn­þá hlutir þarna, hvat­vísi og ég verð utan við mig. Ég get átt erfitt með að sitja kyrr á löngum fundum, en maður lærir um leið inn á það og man að standa upp og hreyfa sig. Það virkar betur fyrir mig að ein­beita mér þegar ég er á hreyfingu. Á löngum fundum á maður það til að fara að fikta í ein­hverju,“ segir hún kímin.

„Þegar maður er í vinnu sem krefst ein­beitingar getur heilinn haft á­kveðin tak­mörk. Það er oft talað um að taka 50 mínútur af vinnu og tíu mínútur í hlé. Þá búir þú til að­stæður þar sem fram­leiðnin sé í há­marki.“

Hafdís, hér fyrir miðju í öftustu röð, var kosin inn á þing í fyrsta sinn á síðasta ári. Fréttablaðið/valli

Ekki rétt að kalla þetta veik­leika

Á ráð­stefnunni voru kynntar niður­stöður þar sem var fjallað um að ungar stúlkur ættu það til að vera greindar með kvíða frekar en ADHD. Strákar væru mun oftar greindir en hlut­fallið ætti að vera jafnt.

„Ég fann alltaf fyrir á­kveðnum frammi­stöðu­kvíða. Það er hræðsla um að missa af ein­hverju eða bregðast ein­hverjum. Í mínu til­felli er tíma­stjórnun af­skap­lega kvíða­valdandi, en á sama tíma getur þetta verið ofur­kraftur ef þú nærð að beisla þetta og nýta í lífinu sem þinn helsta kost. Þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem getur auðgað sam­fé­lagið. Margir af helstu frum­kvöðlum heims eru með ADHD. Það þarf að vera fram­úr­stefnu­legur í hugsun til að brydda upp á nýjungum,“ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Um­ræðan í sam­fé­laginu er enn á þann hátt að fólk vill lítið ræða þetta og telur að þetta sé jafn­vel veik­leiki, sem það er alls ekki. Það eru fáir ein­staklingar jafn út­sjónar­samir og frjóir í hugsun og þeir sem eru að eiga við þessa á­skoranir dag­lega. Þá þarf að leita annarra leiða til að láta hlutina ganga upp og skoða hlutina frá öðru sjónar­horni. Þess vegna er svo mikil­vægt að horfa ekki á þetta frá nei­kvæðu sjónar­horni og taka for­dómana úr þessu. Það er al­gengt grín að segja: ertu með ADHD? Og hlæja. Ég hef gert þetta sjálf, en það er líka frá­bært stundum að svara játandi þegar spurningin kemur.“

Mál­efni sem stendur nærri

Á ráð­stefnunni var talað um dulinn kostnað þess að það séu fjöl­margir í sam­fé­laginu sem eigi eftir að fá greiningu. Á­ætlað var að um 30-60 þúsund ein­staklingar séu með ADHD á Ís­landi og að það væri erfitt að ná að sinna öllum.

Haf­dís sem hefur um ára­bil tekið þátt í stjórn­málum á ýmsan máta tók sæti á þingi í fyrsta sinn á síðasta ári. Þar hefur hún á­kveðinn grunn í að vinna í tengslum við mál­efnið sem hefur aukið vægi fyrir hana.

„Þetta mál­efni stendur ná­lægt manni. Ég kalla þetta ofur­krafta og segi að ef þú beinir þessu í rétta átt og lærir að þekkja inn á þig þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem enginn getur fest fingur á hvað er hægt að gera með,“ segir hún og talar um mikil­vægi þess að nálgast mál­efnið rétt í til­fellum barna.

„Það er alltaf talað um að mæta krökkunum okkar þar sem styrk­leikarnir þeirra og á­huga­svið liggur til að reyna að nýta styrk­leika þeirra til fulls. Það er kostnaður sem fylgir því, en það mun borga sig marg­falt þegar búið að veita þeim að­stoð og mynda sterkari ein­stak­linga,“ segir þing­konan, spurð um að­gerðir stjórn­valda í þessum málum.

„Bannað að eyði­leggja, bók Gunnars Helga­sonar, sem tekur sögur af ADHD og setur í barna­bók. Hún er of­boðs­lega mikil­væg fyrir krakka sem eru að eiga við ADHD til að geta speglað þessar upp­lifanir. Það er mjög mikil­vægt fyrir krakkana að heyra já­kvæðar sögur.“

Á ráð­stefnunni var talað um að 75 prósent fanga væru með ADHD.

„Margir karlar á Litla Hrauni sem hafa greinst með ADHD hafa lýst því að þegar þeir voru litlir voru þeir oft bara skil­greindir sem ó­þekkir. Það er eitt­hvað sem er þörf á að laga, hvernig er talað til strákanna okkar. Ef við erum sí­fellt að saka þá um ó­þekkt, þá enda þeir á að trúa því að þeir séu einksis nýtir því þeir geti ekki setið kjurrir, “ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Það eru margar sögur frá fyrri föngum sem voru brotnir niður sem börn því þeir náðu ekki að fóta sig. Það eru ein­staklingar sem eru að lenda í að­stæðum sem þeir ráða ekki við og fara af sporinu því hvat­vísin getur alveg leitt fólk þangað.“

Viðtalið birtist vefnum: frettabladid.is 5. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar

Deila grein

03/11/2022

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar

Fram undan er sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar sem haldin verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 11. nóvember næstkomandi. Framsókn á góðu fylgi að fagna eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar sem kristallast í fjölda fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu.

Sterkari Framsókn

Af B-listum Framsóknar voru kjörnir alls 69 sveitarstjórnarfulltrúar og hafa aldrei verið fleiri í annan tíma. Framsókn bætti við sig yfir landið allt af B-listum 23 sveitarstjórnarfulltrúum. Af blönduðum framboðum voru síðan kjörnir alls 38 sveitarstjórnfulltrúar, flokksbundnir í Framsókn. Þetta gerir samantekið alls 108 sveitarstjórnarfulltrúa um land allt.

Það verður án efa af nægu að taka á ráðstefnunni enda fjölmörg málefni sem brenna á sveitarstjórnarfólki.

mynd: marinatravel.is 3. nóvember 2022