Categories
Fréttir Uncategorized

Fréttatilkynning

Deila grein

13/11/2022

Fréttatilkynning

Nú um helgina fór fram haustfundur miðstjórnar Framsóknar og var fundurinn haldinn á Ísafirði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, talaði meðal annars í opnunarræðu sinni um þá einstöku stöðu sem við búum við á heimsvísu þegar kemur að orkumálum. Hann benti á að staða Íslands sé einstök, því við höfum tækifæri til, ef rétt er á haldið, að ná fullkomnu orkusjálfstæði. Ísland geti orðið með fyrstu þjóðum til að framleiða alla orku innanlands, spara gjaldeyri og byggja upp nýjan öflugan grænan iðnað. Þá sagði Sigurður Ingi að orkusjálfstæði sé einnig mikilvægt þegar kemur að fæðuöryggi.

Sigurður Ingi fjallaði um mikilvægi þess að ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar og nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi, að staðfesta í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Þá fjallaði Sigurður Ingi um húsnæðismál, enda snúist þau ekki bara um öryggi, lífsgæði og jöfnuð, heldur séu þau einnig stórt efnahagsmál. Því þurfi að byggja miklu meira til að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn.

Sigurður Ingi dró fram helstu áherslumál ráðherra, breytingar á heilbrigðiskerfinu undir styrkri stjórn Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra. Hann benti á að framundan séu áskoranir í heilbrigðismálunum, þjóðin sé að eldast og því fylgi verkefni sem ekki sé hægt að horfa fram hjá. Þar spila forvarnir lykilhlutverk og Willum hafi þar stigið mikilvæg skref, síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vinnur áfram að málefnum barna sem ekki aðeins hefur orðið forgangsmál hans heldur einnig snert huga þjóðarinnar. Nú er unnið að nýrri heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu sem mun tryggja jafnræði meðal allra, óháð búsetu og skólastigi. Þá hefur Ásmundur Einar tekið þétt utan um íþróttamálin og undirbúningur nýrrar þjóðarhallar er í fullum gangi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur verið sterkur talsmaður menningar og lagt áherslu á skapandi greinar, þær skipta máli fyrir listamenn sem og þjóðarbúið. Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar er að verða að veruleika, en síðasta vor fékk Lilja samþykkt á Alþingi frumvarp sem kvað á um hækkun endurgreiðslu stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35%. Þá á ferðaþjónustan stóran þátt í viðspyrnu efnahagslífsins eftir heimsfaraldurinn, ráðherra ferðamála veit það og vinnur því nú að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er viðurkennt og sérstök áhersla lögð á dreifingu ferðamanna um landið, lengingu ferðatímabils á kaldari svæðum og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður flokksins, fór meðal annars í ræðu sinni yfir stöðu efnahagsmála. Hún kom inn á að horfur á heimsvísu séu að versna en þrátt fyrir það sé staðan hér á landi óvenju góð, verðbólga á Íslandi sé næst lægst á EES svæðinu á eftir Sviss. Þar spili stórt hlutverk hversu sjálfbær við erum í orkumálum og mikilvægt sé að halda áfram á því sviði. Þá talaði Lilja um ofurhagnað bankanna og mikilvægi þess að ná utan um hann svo hægt sé að ná fram sátt í samfélaginu.

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

10/11/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haldinn í Edinborgarhúsinu, Ísafirði 12.-13. nóvember 2022

Dagskrá:

Laugardagur 12. nóv.

12:15 – Setning miðstjórnarfundar, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

12:20 – Ræða formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar

12:45 – Ræða varaformanns Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir

13:00 – Almennar umræður

15:30 – Kaffihlé

16:00 – Inngangur að umræðum um innra starf – Ásmundur Einar Daðason ritari Framsóknar

16:10 – Vinnuhópar um innra starf

18:30 – Fundi frestað til morguns

19:30 – Kvöldverðarhóf

Sunnudagur 13. nóv.

09:30 – Formaður sveitarstjórnarráðs flytur skýrslu

09:40 – Formaður launþegaráðs flytur skýrslu

09:50 – Formaður fræðslu og kynningarnefndar flytur skýrslu

10:00 – Fulltrúi málefnanefndar flytur skýrslu

10:10 – Kaffihlé

10:20 – Umræður um innra starf

12:50 – Kosningar í fastanefndir miðstjórnar, málefnanefnd, fræðslu og kynningarnefnd

12:20 – Hádegisverðarhlé

12:50 – Afgreiðsla mála

13:20 – Önnur mál

13:35 – Fundarslit

Categories
Fréttir

ADHD getur verið styrk­leiki

Deila grein

09/11/2022

ADHD getur verið styrk­leiki

Þingkonan Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er ein af fjölmörgum Íslendingum sem hafa greinst með ADHD. Hún segir að mikilvægt sé að tala ekki niður til þeirra sem glíma við ADHD.

„Þegar fólk heyrir mig tala um að ég sé með ADHD er fólk alltaf að tala um að það sjáist ekki á mér. Ef þú þekkir mig vel þá sérðu það,“ segir Haf­dís Hrönn Haf­steins­dóttir, þing­kona Fram­sóknar, létt í lund í sam­tali við Frétta­blaðið sem snýst um ADHD.

Hún tók til máls á sér­stakri ADHD ráð­stefnu sem var haldin á dögunum. At­hyglis­brestur og of­virkni, oft kallað ADHD í dag­legu tali, er tauga­þroska­röskun sem getur haft víð­tæk á­hrif á dag­legt líf.

„Maður er búin að læra inn á hvernig það má nýta þetta til góðs, og hve­nær maður á að þekkja eigin mörk. Maður lærir hvernig það má stýra þessum styrk­leikum til að nýtast manni,“ segir Haf­dís og bætir við að þetta sé lang­tíma­verk­efni.

„Þetta er lang­hlaup. Ég á það enn þá til að brjóta mig niður fyrir að vera ekki nógu góð í tíma­stjórnun.“

Flutti úr landi með dags­fyrir­vara

Haf­dís sem fékk greiningu rétt eftir tví­tugt er fædd á Ísa­firði en fluttist ung til Reykja­víkur.

„Ég fékk greininguna 21 árs. Fram að því hafði ég átt erfitt með að festa hlutina og var svo­lítið sveim­huga. Skýrasta dæmið um það er þegar ég á­kvað að flytja til Noregs með sólar­hrings­fyrir­vara. Mamma bjó úti og ég fékk þá hug­dettu að það væri ó­trú­lega sniðugt að prófa að búa er­lendis. Ég pakkaði í töskur og flutti degi síðar,“ segir Haf­dís og bætir við að það hafi verið hár­rétt á­kvörðun á þeim tíma­punkti þegar hún lítur í baksýnisspegilinn í dag.

„Ég sé ekki eftir þessari á­kvörðun. Það er oft sem maður hugsar til baka: ég hefði mátt hugsa þetta betur, en þetta er ekki ein af þeim. “

Haf­dís kannast við stefið að ADHD hafi sett í strik í reikninginn í skóla­göngu.

„Þetta hafði mikil á­hrif á skóla­ferilinn. Það komu tímar sem það tók á að reyna að halda sig við efnið, en um leið var maður góður í öðru. Tungu­mála­kunn­átta er eitt­hvað sem ég var fljót að til­einka mér, en hlutir sem kröfðust yfir­legu voru erfiðari. “

Úr lög­fræði á þing

Eftir að hafa fengið greiningu náði Haf­dís betri tökum á skóla­ferlinum og var komin með meistara­gráðu í lög­fræði nokkrum árum síðar.

„Ég fór strax á lyf sem tók eðli­lega smá tíma að stilla af og fann mikinn mun. Ég reyndi að sækja mér fræðslu sam­hliða um hvernig væri hægt að vinna með þetta og ná betri tökum og náði að sam­tvinna þetta,“ segir hún og minnist þess að í miðju há­skóla­námi hafi hún hætt á lyfjum þegar hún var barns­hafandi og ekki misst úr slag.

„Þetta var mikil keyrsla, og til við­bótar eignaðist ég barn á öðru ári í laga­náminu. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki hvernig þetta hafðist allt saman. Þegar ég var ó­létt fann ég að ég þurfti ekki á lyfjunum að halda því líkaminn var að fram­leiða hormónana sem heilanum vantaði og námið gekk betur en nokkru sinni fyrr. Líkaminn sýndi þar hvers hann er megnugur.“

Talið berst að starfi Haf­dísar. Þing­fundir geta verið tíma­frekir en hún segist vera með­vituð um leiðir til að takast á við það.

„Það eru alveg enn­þá hlutir þarna, hvat­vísi og ég verð utan við mig. Ég get átt erfitt með að sitja kyrr á löngum fundum, en maður lærir um leið inn á það og man að standa upp og hreyfa sig. Það virkar betur fyrir mig að ein­beita mér þegar ég er á hreyfingu. Á löngum fundum á maður það til að fara að fikta í ein­hverju,“ segir hún kímin.

„Þegar maður er í vinnu sem krefst ein­beitingar getur heilinn haft á­kveðin tak­mörk. Það er oft talað um að taka 50 mínútur af vinnu og tíu mínútur í hlé. Þá búir þú til að­stæður þar sem fram­leiðnin sé í há­marki.“

Hafdís, hér fyrir miðju í öftustu röð, var kosin inn á þing í fyrsta sinn á síðasta ári. Fréttablaðið/valli

Ekki rétt að kalla þetta veik­leika

Á ráð­stefnunni voru kynntar niður­stöður þar sem var fjallað um að ungar stúlkur ættu það til að vera greindar með kvíða frekar en ADHD. Strákar væru mun oftar greindir en hlut­fallið ætti að vera jafnt.

„Ég fann alltaf fyrir á­kveðnum frammi­stöðu­kvíða. Það er hræðsla um að missa af ein­hverju eða bregðast ein­hverjum. Í mínu til­felli er tíma­stjórnun af­skap­lega kvíða­valdandi, en á sama tíma getur þetta verið ofur­kraftur ef þú nærð að beisla þetta og nýta í lífinu sem þinn helsta kost. Þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem getur auðgað sam­fé­lagið. Margir af helstu frum­kvöðlum heims eru með ADHD. Það þarf að vera fram­úr­stefnu­legur í hugsun til að brydda upp á nýjungum,“ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Um­ræðan í sam­fé­laginu er enn á þann hátt að fólk vill lítið ræða þetta og telur að þetta sé jafn­vel veik­leiki, sem það er alls ekki. Það eru fáir ein­staklingar jafn út­sjónar­samir og frjóir í hugsun og þeir sem eru að eiga við þessa á­skoranir dag­lega. Þá þarf að leita annarra leiða til að láta hlutina ganga upp og skoða hlutina frá öðru sjónar­horni. Þess vegna er svo mikil­vægt að horfa ekki á þetta frá nei­kvæðu sjónar­horni og taka for­dómana úr þessu. Það er al­gengt grín að segja: ertu með ADHD? Og hlæja. Ég hef gert þetta sjálf, en það er líka frá­bært stundum að svara játandi þegar spurningin kemur.“

Mál­efni sem stendur nærri

Á ráð­stefnunni var talað um dulinn kostnað þess að það séu fjöl­margir í sam­fé­laginu sem eigi eftir að fá greiningu. Á­ætlað var að um 30-60 þúsund ein­staklingar séu með ADHD á Ís­landi og að það væri erfitt að ná að sinna öllum.

Haf­dís sem hefur um ára­bil tekið þátt í stjórn­málum á ýmsan máta tók sæti á þingi í fyrsta sinn á síðasta ári. Þar hefur hún á­kveðinn grunn í að vinna í tengslum við mál­efnið sem hefur aukið vægi fyrir hana.

„Þetta mál­efni stendur ná­lægt manni. Ég kalla þetta ofur­krafta og segi að ef þú beinir þessu í rétta átt og lærir að þekkja inn á þig þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem enginn getur fest fingur á hvað er hægt að gera með,“ segir hún og talar um mikil­vægi þess að nálgast mál­efnið rétt í til­fellum barna.

„Það er alltaf talað um að mæta krökkunum okkar þar sem styrk­leikarnir þeirra og á­huga­svið liggur til að reyna að nýta styrk­leika þeirra til fulls. Það er kostnaður sem fylgir því, en það mun borga sig marg­falt þegar búið að veita þeim að­stoð og mynda sterkari ein­stak­linga,“ segir þing­konan, spurð um að­gerðir stjórn­valda í þessum málum.

„Bannað að eyði­leggja, bók Gunnars Helga­sonar, sem tekur sögur af ADHD og setur í barna­bók. Hún er of­boðs­lega mikil­væg fyrir krakka sem eru að eiga við ADHD til að geta speglað þessar upp­lifanir. Það er mjög mikil­vægt fyrir krakkana að heyra já­kvæðar sögur.“

Á ráð­stefnunni var talað um að 75 prósent fanga væru með ADHD.

„Margir karlar á Litla Hrauni sem hafa greinst með ADHD hafa lýst því að þegar þeir voru litlir voru þeir oft bara skil­greindir sem ó­þekkir. Það er eitt­hvað sem er þörf á að laga, hvernig er talað til strákanna okkar. Ef við erum sí­fellt að saka þá um ó­þekkt, þá enda þeir á að trúa því að þeir séu einksis nýtir því þeir geti ekki setið kjurrir, “ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Það eru margar sögur frá fyrri föngum sem voru brotnir niður sem börn því þeir náðu ekki að fóta sig. Það eru ein­staklingar sem eru að lenda í að­stæðum sem þeir ráða ekki við og fara af sporinu því hvat­vísin getur alveg leitt fólk þangað.“

Viðtalið birtist vefnum: frettabladid.is 5. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar

Deila grein

03/11/2022

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar

Fram undan er sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar sem haldin verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 11. nóvember næstkomandi. Framsókn á góðu fylgi að fagna eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar sem kristallast í fjölda fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu.

Sterkari Framsókn

Af B-listum Framsóknar voru kjörnir alls 69 sveitarstjórnarfulltrúar og hafa aldrei verið fleiri í annan tíma. Framsókn bætti við sig yfir landið allt af B-listum 23 sveitarstjórnarfulltrúum. Af blönduðum framboðum voru síðan kjörnir alls 38 sveitarstjórnfulltrúar, flokksbundnir í Framsókn. Þetta gerir samantekið alls 108 sveitarstjórnarfulltrúa um land allt.

Það verður án efa af nægu að taka á ráðstefnunni enda fjölmörg málefni sem brenna á sveitarstjórnarfólki.

mynd: marinatravel.is 3. nóvember 2022

Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

31/10/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Nú eru kjördæmisþing allra Framsóknarfélaga landsins afstaðin og miðstjórnarfulltrúar hafa því verið kjörnir. Upplýsingar um haustfund miðstjórnar er að finna hér fyrir neðan. Það stefnir í virkilega góða mætingu og eru aðalmenn í miðstjórn því hvattir til að bóka hótelherbergi sem fyrst.

Categories
Fréttir

Tryggja þarf áframhaldandi virkt samráð skógræktarinnar og skógarbænda

Deila grein

26/10/2022

Tryggja þarf áframhaldandi virkt samráð skógræktarinnar og skógarbænda

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, var í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi við matvælaráðherra um samstarf við bændur vegna sameiningar Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Líneik Anna fór yfir að stærstu tækifærin með sameiningu stofnananna væru í aukinni samlegð í stoðþjónustu og ýmsum sameiginlegum verkefnum. Þar væri eitt af umfangsmestu áskorunum samstarf við bændur og landeigendur um samstarf og samninga um landgræðslu og skógrækt á því landi sem bændur hafa til umráða.

Í því fellst m.a. ráðgjöf til bænda og landeigenda um landnýtingu og landbætur og líka samningar við bændur sem eru verktakar í landgræðslu og skógrækt fyrir opinbera aðila.

Líneik Anna minnti á að stutt væri síðan sameining Skógræktar ríkisins og landshlutabundnu skógræktarverkefnanna hafi tekið gildi eða 2016 og nýrri stofnun komið á, Skógræktin.

„Í aðdraganda þeirrar sameiningar var lögð áhersla á áframhaldandi virkt samráð skógræktarinnar og skógarbænda, bæði á landsvísu við Landssamtök skógareigenda og við skógarbændur í hverjum landshluta. Samráð um stefnumótun og áherslur í starfinu og sem og um einstök verkefni eins og samningagerð, nýsköpun og þróun,“ sagði Líneik Anna.

Áhersla var á hvatningu til ræktunar og samstarf um þróun uppbyggingar skóga og eins var áhersla á umhirðu og nýtingu skógarauðlindarinnar.

„En þar eru að birtast mikil nýsköpunartækifæri ef rétt er á haldið. Nýjasta tilraunaverkefnið er útflutningur á eldiviðarkubbum úr timbri ræktuðu í Fljótsdal og endurunnu timbri til kyndingar á dönskum heimilum,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna vildi því spyrja matvælaráðherra, hver hafi verið aðkoma bænda og umsjónarmanna lands við vinnu sem lögð er til grundvallar sameiningaráformum, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Jafnframt spurði hún, hvaða áform eru um aðkomu bænda og landeigenda að frekari undirbúningi sameiningar?

Í lok ræðu sinnar spurði hún:

„Verður lögð áhersla á mótun sérstakrar og formlegrar umgjarðar um samráð og samstarf við bændur og landeigendur hjá nýrri stofnun?“

Matvælaráðherra svarði því til að undirbúningur hafi falið í sér að greina reksturinn faglega, samlegð og áhættugreiningu sem hafi verið gerð í samráði við stofnanirnar. Eins hafi verið samstarf t.d. við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skógræktarfélagið, Landvernd og tiltekin sveitarfélög.

„Fólk benti á að það væri skortur á heildarsýn og það var vilji til þess að auka rannsóknasamstarf. Þessi sameining, sem myndi þá í raun og veru byggjast á ákvörðun Alþingis — þar myndi auðvitað samstarf og samráð vera við alla hlutaðeigandi. En í nýrri stefnu og aðgerðaáætlun um landgræðslu og skógrækt, sem var samþætt, er kveðið sérstaklega á um aukið samstarf við landeigendur og sveitarfélög um stefnumörkun og aðgerðir,“ sagði matvælaráðherra.

Í framhaldi nefndi ráðherra að gert væri ráð fyrir að stuðningskerfi fyrir landeigendur og félagasamtök verði skoðuð heildstætt með hliðsjón af stefnumörkuninni.

„Hagsmunaaðilar þurfi að koma að því samtali og þar verði unnar sérstakar svæðis- og landshlutaáætlanir í samstarfi við heimaaðila þar sem skerpt verður á forgangsröðun aðgerða. Þannig að hér eftir sem hingað til leggjum við mjög mikla áherslu á aðkomu heimamanna að þessum brýnu verkefnum,“ sagði matvælaráðherra.

Líneik Anna ítrekaði að orðin væri mjög mikil breyting á umgjörð stofnananna, Skógræktarinnar og Landgræðslu, árið 2016, svo og í vinnunni við landsáætlanirnar og aðgerðaáætlanirnar.

„Ég held að dálítið mikið af orku stofnananna beinst að þeirri vinnu á kostnað þessa daglega samstarfs við bændur og landeigendur. Þess vegna álít ég að núna sé einmitt mjög góður tímapunktur til að beina sjónum að ávinningi af virku samstarfi nýrrar stofnunar og bænda og greina hvaða leiðir tryggi sem skilvirkast samstarf, með áherslu á mótun umgjarðar innan landshluta og á landsvísu.“

Categories
Fréttir

Á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks

Deila grein

25/10/2022

Á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks

„Fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna skipta sköpum fyrir allt sem á eftir kemur og við eigum sem samfélag að leggja sérstaka áherslu á að tryggja þeim eins góð skilyrði og hugsast getur. Vinna í þeim málum verður að vera stefnumiðuð og ég vil beina því til þingheims að móta skýra áætlun um nauðsynleg skref til að ná árangri í þeim efnum“ sagði Helgi Héðinsson, varaþingmaður, í störfum þingsins.

Skýrslan „Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndum“ fjallar m.a. um stefnumótunartillögur sem ætlað er að styrkja réttindi og stöðu barna og eftir atvikum foreldra frá þungun og fyrstu tvö æviárin.

Norðurlöndin standa að mörgu leyti framarlega á þessu sviði og margt hefur sannarlega þróast í rétta átt, m.a. með bættri þjónustu við barnafjölskyldur, aukinni áherslu á andlega heilsu foreldra og lengingu fæðingarorlofs.

„Málefni barna hafa fengið aukna athygli, ekki síst að frumkvæði hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, en þó er enn mikið verk að vinna,“ sagði Helgi.

Horfa þarf til lengdar og fyrirkomulags fæðingarorlofs og rétti kvenna á meðgöngu. Rannsóknir sýna fram á að á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks.

„Á þessum tíma lærum við m.a. að mynda tengsl og því er samvera með foreldrum sérstaklega mikilvæg,“ sagði Helgi.

Í skýrslunni eru samandregnar sex tillögur að stefnumörkun í þessum málaflokki en rauði þráður skýrslunnar er mikilvægi andlegrar heilsu og vellíðanar, alhliða stuðningur við fjölskyldur, jöfnuður og gæði þjónustu og að brugðist sé rétt og tímanlega við áhættuþáttum.

Ræða Helga á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafa blessunarlega fengið aukna athygli á liðnum árum, m.a. vegna frumkvæðis Íslendinga í norrænu ráðherranefndinni. Nefndin skilaði í febrúar síðastliðnum skýrslu sem byggð er á yfirgripsmikilli greiningarvinnu sem hófst árið 2019, en embætti landlæknis leiðir verkefnið fyrir Íslands hönd. Skýrslan, Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndum, fjallar m.a. um stefnumótunartillögur sem ætlað er að styrkja réttindi og stöðu barna og eftir atvikum foreldra frá þungun og fyrstu tvö æviárin. Norðurlöndin standa að mörgu leyti framarlega á þessu sviði og margt hefur sannarlega þróast í rétta átt, m.a. með bættri þjónustu við barnafjölskyldur, aukinni áherslu á andlega heilsu foreldra og lengingu fæðingarorlofs. Málefni barna hafa fengið aukna athygli, ekki síst að frumkvæði hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, en þó er enn mikið verk að vinna. Í því samhengi þarf m.a. að horfa til lengdar og fyrirkomulags fæðingarorlofs og rétti kvenna á meðgöngu. Rannsóknir hafa sýnt að á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks. Á þessum tíma lærum við m.a. að mynda tengsl og því er samvera með foreldrum sérstaklega mikilvæg. Í skýrslu nefndarinnar eru samandregnar sex tillögur að stefnumörkun í þessum málaflokki en rauði þráður skýrslunnar er mikilvægi andlegrar heilsu og vellíðanar, alhliða stuðningur við fjölskyldur, jöfnuður og gæði þjónustu og að brugðist sé rétt og tímanlega við áhættuþáttum.

Virðulegi forseti. Fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna skipta sköpum fyrir allt sem á eftir kemur og við eigum sem samfélag að leggja sérstaka áherslu á að tryggja þeim eins góð skilyrði og hugsast getur. Vinna í þeim málum verður að vera stefnumið og ég vil beina því til þingheims að móta skýra áætlun um nauðsynleg skref til að ná árangri í þeim efnum.“

Categories
Fréttir

Unnið er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur

Deila grein

25/10/2022

Unnið er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur

„Vinnan fram undan er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og reyna að auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur. Lausnin er m.a. sú að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styrki þjóðir til að virkja og nýta sínar auðlindir sem best núna til að bjarga mannslífum,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins, er hún fór yfir þingmannaferð á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York .

Þetta kom fram á fundi með fulltrúm matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Hún sinnir mikilvægum störfum en vandinn er að vaxa henni yfir höfuð.

„Þetta eru ógnvænlegar staðreyndir. Þótt við hér á Íslandi búum ekki við hungur eða matarskort þá erum við hluti af þessari heild. Matarverð hækkar í Evrópu, orkuskortur er yfirvofandi í Evrópu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og framboð á hrávöru minnkar meðan Rússar halda Úkraínu í heljargreipum. Þótt framleiðslan haldi áfram í landinu eru flutningsleiðir til Evrópu takmarkaðar,“ sagð Halla Signý.

„Búist er við að nærri 350 milljónir manna í 82 löndum standi frammi fyrir matvælaskorti á komandi ári og er það nærri fjórðungsaukning frá því sem var í byrjun þessa árs. Þar af er helmingurinn börn,“ sagði Halla Signý.

Nokkuð sögulegt var að meðan á heimsókninni stóð fór fram neyðarfundur hjá allsherjarþinginu. Til umræðu var ályktun aðildarríkja, þar sem innlimun Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu var fordæmd. Þetta var ellefti neyðarfundur allsherjarþingsins frá upphafi eða frá 1945.

Þingmannhópurinn átti fundi með nokkrum undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þar kom fram þung undiralda í áherslum þeirra: stríðið í Úkraínu, yfirvofandi matvælaskortur í heiminum, afleiðingar Covid og loftslagsváin.

Ræða Höllu Signýjar á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Ég fór ásamt þremur öðrum þingmönnum til New York og sótti heim allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Það var virkilega fróðleg og upplýsandi heimsókn. Meðan á heimsókninni stóð var neyðarfundur í þinginu þar sem til umræðu var ályktun aðildarríkja þar sem innlimun Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu var fordæmd. Þetta var neyðarfundur og sá ellefti í röðinni frá upphafi en Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1945. Við sóttum einnig heim nokkrar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Það var þung undiralda í áherslum þeirra; stríðið í Úkraínu, yfirvofandi matvælaskortur í heiminum, afleiðingar Covid og loftslagsváin. Meðal annars fengum við kynningu á starfsemi matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Þar komu fram nokkuð sláandi staðreyndir, líkt og komu fram í Silfri sunnudagsins þar sem rætt var við David Beasley framkvæmdastjóra. Búist er við að nærri 350 milljónir manna í 82 löndum standi frammi fyrir matvælaskorti á komandi ári og er það nærri fjórðungsaukning frá því sem var í byrjun þessa árs. Þar af er helmingurinn börn.

Virðulegi forseti. Þetta eru ógnvænlegar staðreyndir. Þótt við hér á Íslandi búum ekki við hungur eða matarskort þá erum við hluti af þessari heild. Matarverð hækkar í Evrópu, orkuskortur er yfirvofandi í Evrópu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og framboð á hrávöru minnkar meðan Rússar halda Úkraínu í heljargreipum. Þótt framleiðslan haldi áfram í landinu eru flutningsleiðir til Evrópu takmarkaðar.

Virðulegi forseti. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sinnir mikilvægum störfum með sína dyggu aðstoð og lausnir en vandinn er að vaxa henni yfir höfuð. Vinnan fram undan er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og reyna að auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur. Lausnin er m.a. sú að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styrki þjóðir til að virkja og nýta sínar auðlindir sem best núna til að bjarga mannslífum.“

Categories
Fréttir

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Deila grein

25/10/2022

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi störf óháð staðsetningu, í störfum þingsins, í framhaldi af sérstakri umræðu hennar í liðvinni viku við fjármálaráðherra.

„Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat,“ sagði Líneik Anna.

Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf.

„Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið,“ sagði Líneik Anna.

„Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Í síðustu viku ræddi ég hér í sérstakri umræðu við hæstv. fjármálaráðherra um störf óháð staðsetningu, dreifingu opinberra starfa um landið og mikilvægi þess að sérhæfð störf verði til um land allt. Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat. Framvegis verður því 21 stöðugildi á starfsstöðinni á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið. Á Sauðárkróki eru nú 27 störf við brunavarnir og einnig er þar þjónustuver, bakvinnsla og umsýsla með greiðslum húsnæðisbóta. Þá eru einnig starfsstöðvar í Borgarnesi og Reykjavík. Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn.“

Categories
Fréttir

Fimm störf til Akureyrar

Deila grein

25/10/2022

Fimm störf til Akureyrar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hyggst efla starfsemi sína enn frekar á landsbyggðinni með því færa verkefni á sviði brunabótamats á starfsstöð HMS á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, verða flutt til Akureyrar og nýtt teymi stofnað um verkefnin. Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti breytingarnar á fundi í starfsstöð HMS á Akureyri í dag. Hann sagði þær vera fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og að þær féllu einnig vel að stefnu HMS sem væri með öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið.

„Við fögnum því að opinberum störfum fjölgi á landsbyggðinni. Ég hef í ráðherratíð minni beitt mér fyrir því að fólk eigi kost á að vinna fjölbreytt opinber störf um land allt, ýmist með því að efla opinberar stofnanir á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða efla tækifæri til að vinna störf án staðsetningar. Það er einnig viðvarandi verkefni að efla innviði til að fólk hafi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Akureyri hefur ríku svæðisbundnu hlutverki gegna sem stærsti þéttbýliskjarni á landsbyggðinni og því er ánægjuefni að fá þessi sérfræðistörf í bæinn,“ sagði Sigurður Ingi.

Góð reynsla af flutningi starfa

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem HMS flytur verkefni til á milli starfsstöðva. Árið 2020 var brunavarnasvið flutt til Sauðárkróks. Þar eru nú um 27 störf en auk brunavarna er þar unnið í þjónustuveri og við umsýslu með greiðslu húsnæðisbóta.

„Flutningur starfa hefur góða raun hjá HMS. Nú eru breyttir tímar og tæknin vinnur með okkur. Stofnunin er ekki lengur eitt hús, heldur vinnum við í mörgum teymum um land allt, á Akureyri, í Borgarnesi, Reykjavík og á Sauðárkróki,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS. „Við ætlum að festa í sessi öflugt teymi á Akureyri sem fer með ábyrgð og framkvæmd skráningar fasteigna á öllu Íslandi. Það mun sjá um brunabótamat og endurskoða framkvæmd þess allt frá lagalegri umgjörð til tæknilegrar útfærslu. Samhliða ætlum við að hefja átaksverkefni við afmörkun eigna í landeignaskrá og birta í stafrænni kortasjá HMS. Við stefnum fljótlega að því að opna vefsjá landeigna þar sem afmörkun og þinglýst eignarhald lands verður gert aðgengilegt öllum án gjaldtöku,“ sagði Hermann.

Hagræðing skapar 300 milljóna kr. fjárfestingu í grunnkerfum

Hermann minnti á að markmiðið með flutningi fasteignaskrár til HMS var að bæta þjónustu og ná fram hagræðingu með því að nýta innviði stofnunarinnar til að styðja við fleiri teymi og verkefni. Hann upplýsti að með flutningi fasteignaskrár til HMS hafi skapast rekstrarleg samlegð sem gerir HMS kleift að fjárfesta 300 millj.kr. í grunnkerfum fasteignaskrár á árinu 2023 án nýrra fjárheimilda. „Uppbygging grunnkerfa fasteignaskrár er gríðarlega mikilvæg og í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu,“ sagði hann á fundinum.

HMS er með starfsstöðvar á Akureyri, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og í Reykjavík en stofnunin er í nánu samstarfi við sveitarfélög um allt land.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 25. október 2022.