Categories
Fréttir

Eflum neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu

Deila grein

03/10/2024

Eflum neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði á síðasta ári starfshóp um greiningarvinnu í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána með það að markmiði að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og auka fjármálalæsi. Starfshópurinn fór m.a. yfir skjal frá Neytendastofu varðandi upplýsingar sem lánveitendum ber að veita lántökum skv. lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán og er lokaafurð hópsins nýtt og endurbætt upplýsingaskjal.

Starfshópinn skipuðu Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík (formaður), Einar B. Árnason, hagfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneyti, Rósa Björk Sveinsdóttir, sérfræðingur í Seðlabanka Íslands og Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu.

Verkefni starfshópsins var margþætt og var lögð áhersla á að skoða hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta og verðbólgu og hvernig megi miðla þeim upplýsingum með skilvirkum hætti. Starfshópurinn kannaði einnig hvernig staðið er að upplýsingamiðlun og leiðbeiningum til lántaka, sem og eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands í því samhengi. Greinagerð starfshópsins má finna hér.

Með það að markmiði að efla og samræma upplýsingagjöf til lántaka endurskoðaði og uppfærði starfshópurinn skjal Neytendastofu varðandi upplýsingar til lántaka, samanber framangreint.

Uppfært upplýsingaskjal Neytendastofu 

Með aukinni tækniþróun, breyttu neyslumynstri og tíðari lánveitingum, m.a. vegna endurfjármögnunar, hefur lánveitendum fjölgað síðustu ár. Aukin samkeppni í þeim efnum kallar á að lánveitendur vilja geta afgreitt lán hratt og sem mest rafrænt. Því fylgir aukin krafa til neytenda um að kynna sér mismunandi lánsform og gaumgæfa það efni sem lánveitendum er skylt að leggja fram, þar á meðal upplýsingaskjal Neytendastofu. Í vinnu starfshópsins var áhersla lögð á að gera þær upplýsingar eins aðgengilegar og skýrar og mögulegt er.

Til að mæta þeim breiða og fjölbreytta hópi sem tekur fasteignalán var útbúið yfirlit fremst í upplýsingaskjalinu. Skjalið var þannig einfaldað og gert heildstæðara og um leið m.a. lagað að efni sem Evrópusambandið hefur útbúið til að efla fjármálalæsi.

Við yfirferð starfshópsins var lögð áhersla á að skýrður væri munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Leitast var við að búa til stuttar skýringar sem fjármálastofnanir gætu notað til að veita lántökum upplýsingar.

Upplýsingaskjalinu er ætlað að veita neytendum tilteknar upplýsingar um sögulega þróun verðlags og breytilegra vaxta og áhrif þeirra á höfuðstól og greiðslubyrði auk upplýsinga um þróun verðlags og ráðstöfunartekna s.l. 10 ár. Í skjalinu er þannig m.a. útskýrður munur á lánsformum eins og verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og munurinn á jöfnum greiðslum og afborgunum.

Aukið samstarf við eftirlit

Neytendastofa hefur eftirlit með upplýsingagjöf samkvæmt lögum um neytendalán og fasteignalán til neytenda en Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur almennt eftirlit með viðskiptaháttum fjármálafyrirtækja. Starfshópurinn leggur til að gengið verði frá samstarfssamningi milli stofnananna með það að markmiði að stuðla að skilvirkari neytendavernd í opinberu eftirliti á fjármálamarkaði.

Neytendastofa mun í kjölfar vinnu starfshópsins taka til nánari skoðunar upplýsingagjöf lánveitenda til neytenda og fylgja því eftir að lánveitendur uppfylli skilyrði laga með fullnægjandi hætti. Búið er að uppfæra vefsíðu Neytendastofu varðandi fjármálalæsi og útskýringar á lánaformum auk þess sem samstarfsamningur við Seðlabankann er í undirbúningi, líkt og starfshópurinn lagði til.

Neytendavernd á dagskrá stjórnmála

Menningar- og viðskiptaráðherra lagði nýverið fyrir Alþingi fyrstu heildstæðu neytendastefnu landsins þar sem lögð er áhersla á að auka neytendavernd á Íslandi.

„Þessi vinna er dæmi um slíka aðgerð og er liður í að setja neytendavernd á dagskrá stjórnmála. Fjármalalæsi er ábótavant hérlendis og það er lykilatriði að neytendur séu ekki í uppgjöf gagnvart lánaumhverfinu og séu hreinlega farnir að sætta sig við að skilja ekki svo mikilvæg málefni. Fasteignalán eru stærsta fjárfesting flestra á lífsleiðinni, því hvet ég fólk eindregið til þess að lesa uppfært upplýsingaskjal Neytendastofu og leita eftir frekari fjármálaráðgjöf ef þarf og finna kraftinn sem fylgir því að öðlast dýpri skilning á fjármálaumhverfinu og um leið eigin valkostum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Categories
Fréttir Greinar

Neytendavernd viðkvæmra hópa

Deila grein

01/10/2024

Neytendavernd viðkvæmra hópa

Neyt­enda­mál hafa verið í for­gangi í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu á kjör­tíma­bil­inu. Þannig hef­ur viðskipta­bönk­un­um til að mynda verið veitt aðhald með út­tekt á gjald­töku þeirra og arðsemi, stutt hef­ur verið við verðlags­eft­ir­lit á dag­vörumarkaði, niðurstaða út­tekt­ar á trygg­inga­markaðnum er vænt­an­leg fyr­ir ára­mót og ný­verið mælti ég fyr­ir heild­stæðri stefnu í neyt­enda­mál­um til árs­ins 2030. Ein aðgerðanna í þeirri stefnu snýr að neyt­enda­vernd viðkvæmra hópa, en ákveðnir hóp­ar neyt­enda í til­tekn­um aðstæðum geta verið viðkvæm­ir fyr­ir markaðssetn­ingu og aug­lýs­ing­um og þurfa því sér­staka vernd, svo sem börn, eldri borg­ar­ar og fatlað fólk.

Við höf­um m.a. litið til sam­an­b­urðarríkja í þess­um efn­um þar sem ým­is­legt hef­ur verið til skoðunar, eins og t.d. end­ur­skoðun á stöðlum fyr­ir barna­vör­ur, fjár­málaráðgjöf til neyt­enda sem standa höll­um fæti fjár­hags­lega og aukið gagn­sæi og ráðgjöf til að nálg­ast upp­lýs­ing­ar. Á þing­mála­skrá minni er m.a. að finna frum­varp til markaðssetn­ing­ar­laga sem inni­held­ur ákvæði sem snúa að viðskipta­hátt­um sem bein­ast að börn­um og ung­ling­um und­ir 18 ára aldri. Ákvæðið bygg­ist á sam­bæri­leg­um ákvæðum í dönsku og norsku markaðssetn­ing­ar­lög­un­um sem byggj­ast að miklu leyti á siðaregl­um Alþjóðaviðskiptaráðsins um aug­lýs­ing­ar og markaðssetn­ingu að því er varðar vernd barna og ung­linga.

Á Íslandi hafa mál­efni smá­lána verið til sér­stakr­ar skoðunar und­an­far­in ár og hafa stjórn­völd, með Neyt­enda­stofu í broddi fylk­ing­ar, lagt tals­vert kapp á að koma smá­lána­starf­semi í lög­mætt horf. Þannig hef­ur smá­lána­starf­semi tekið mikl­um breyt­ing­um í kjöl­far eft­ir­litsaðgerða m.a. með skil­grein­ingu viðbót­ar­kostnaðar, út­gáfu raf­bóka, lána­starf­semi frá Dan­mörku o.s.frv. Eft­ir nauðsyn­leg­ar laga­breyt­ing­ar hef­ur ekki borið jafn mikið á ólög­mæt­um smá­lán­um og var fyr­ir breyt­ing­una. Hins veg­ar hafa viðskipta­hætt­ir tengd­ir smá­lán­um breyst og tekju­lind­in virðist hafa færst yfir í lög­inn­heimtu tengda smá­lán­um með til­heyr­andi vanda­mál­um fyr­ir viðkvæma neyt­end­ur. Neyt­end­ur, og sér­stak­lega neyt­end­ur í viðkvæmri stöðu, leita oft ekki rétt­ar síns þar sem þá skort­ir fjár­magn, tíma og þekk­ingu, auk þess sem mála­ferl­um fylg­ir oft óhagræði. Til skoðunar er að inn­heimtu­hætt­ir á þess­um markaði verði kortlagðir og að fyr­ir­komu­lag eft­ir­lits með frum-, milli- og lög­inn­heimtu verði end­ur­skoðað heild­stætt til að unnt sé að taka á órétt­mæt­um inn­heimtu­hátt­um.

Í neyt­enda­mál­um líkt og öðrum mál­um skipt­ir máli að huga sér­stak­lega að viðkvæm­ustu hóp­um sam­fé­lags­ins. Það vilj­um við gera með auk­inni fræðslu, aðhaldi og eft­ir­liti til þess að efla rétt neyt­enda á breiðum grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2024.

Categories
Fréttir

Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf

Deila grein

27/09/2024

Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Markmið tillögunnar er að fest verði í sessi lýðheilsumat hér á landi og lýðheilsa þannig gerð að föstum hluta stjórnsýslunnar.

Lýðheilsumat er í senn áhrifarík og einföld aðgerð þar sem hægt er að leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu. Lífslíkur landsmanna hafa aukist verulega á síðustu áratugum og er aldurssamsetning þjóðarinnar að taka breytingum. Sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hvern 65 ára og eldri. Samhliða eykst byrði langvinnra sjúkdóma og ýmsar áskoranir eru fyrirliggjandi, m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að áhrif á kostnað og þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu sem og öðrum kerfum aukast verulega og áhrif heilsuleysis leiða af sér verulega neikvæð áhrif á samfélagið í heild. Flutningsmenn telja því mikilvægt að innleiða lýðheilsumat til þess að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna þessa.

Tillögugreinin orðast svo:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Hópurinn skal skila stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. maí 2025.“

Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um sjúkraskrár

Deila grein

27/09/2024

Breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um sjúkraskrár

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, mælti fyrir á Alþingi í gær frumvarpi sínu til nýrra sóttvarnalaga og frumvarpi sem fjallar um heilbrigðisskrár og felur í sér breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um sjúkraskrár. Frumvörpunum hefur nú verið vísað til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram 15 lagafrumvörp á 155. löggjafarþingi, þar af tólf á haustþinginu.

Frumvarp til nýrra sóttvarnalaga er nú lagt fram á Alþingi í fjórða sinn. Gerðar hafa verið á því minniháttar breytingar frá 154. löggjafarþingi, einkum með hliðsjón af ábendingum sem þá komu fram í þinglegri meðferð velferðarnefndar. Þar ber helst að nefna breytingar sem lúta að ákvörðunum ráðherra um sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegs sjúkdóms í 28. gr., um að reglugerðir settar samkvæmt ákvæðinu hafi að hámarki átta vikna gildistíma.

Frumvarp um heilbrigðisskrá

Frumvarp ráðherra sem snýr að heilbrigðisskrám var áður flutt á 154. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú endurflutt lítið breytt með hliðsjón af sjónarmiðum Landspítala og Persónuverndar í umsögnum sem velferðarnefnd aflaði við meðferð málsins. Meginmarkmið frumvarpsins eru þríþætt:

  1. Setja ítarleg ákvæði um tilgang heilbrigðisskráa, öflun upplýsinga í slíkar skrár, rekstur þeirra og notkun.
  2. Tryggja lagastoð fyrir stofnun og rekstri gæðaskráa af hálfu heilbrigðisstofnana og starfsstofa heilbrigðisstarfsfólks.
  3. Lagðar til breytingar er varða aðgang heilbrigðisyfirvalda að sjúkraskrám við meðferð kvörtunar- eða kærumála vegna veittrar meðferðar og við rannsóknir á atvikum í heilbrigðisþjónustu.
Categories
Fréttir

Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga

Deila grein

27/09/2024

Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Markmið tillögunnar er að starfshópur kanni möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga og setji í því skyni fram tillögur í skýrslu til Alþingis með skilgreindum verkefnum og aðgerðum. Sjálfbærnimarkmið verði höfð að leiðarljósi í skýrslunni, þ.e. að skapa tækifæri fyrir fólk til að nýta þörunga til framleiðslu á t.d. lífeldsneyti, matvælum, lífefnavörum eða fóðurbæti fyrir dýr sem og líförvandi efnum til ræktunar. Eins segir í greinargerð að mikilvægt verði að í tillögum sé miðað að því að skapa störf á þeim svæðum þar sem ræktun eða sláttur á sér stað.

Tillögugreinin orðast svo:
Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:
 1.      Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.
 2.      Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.
 3.      Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.
Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2025.

Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Okkar að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land

Deila grein

26/09/2024

Okkar að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins hversu stór skref hafi verið stigin sem styrkja sérstaklega heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, s.s. fjarheilbrigðisþjónustu og undirbúning fyrir ívilnun í Menntasjóðnum fyrir svæði þar sem vantar sérfræðinga, eins og í heilbrigðiskerfinu. Það mun allt hjálpa til við að fá sérfræðinga til að flytja út á land.

„Við viljum búa heilbrigðisstarfsmönnum okkar gott vinnuumhverfi. Við sjáum dæmi um að það eru sjúkrabílaskýli þar sem hefur þurft að brjóta úr veggjum til að koma nútíma sjúkrabílum fyrir. Á sumum landsvæðum er heimahjúkrun enn ekki til staðar og stundum þurfa foreldrar að ferðast langar vegalengdir til að fara í mæðravernd og ungbarnavernd. Einnig vitum við að hægt væri að nýta húsnæði heilbrigðisstofnana mun betur sums staðar og jafnvel samnýta með öðrum opinberum stofnunum,“ sagði Lilja Rannveig.

„Við sem búum úti á landi finnum vel fyrir því að mannauðurinn í heilbrigðiskerfinu, sem er til staðar, er mjög góður. En við þurfum að sjá til þess að vinnuumhverfi þeirra standist nútímakröfur og því er úrbóta þörf á mörgum heilsugæslum.“

„Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hafa tekið vel í ábendingar mínar varðandi úrbætur sem þarf að fara í á heilsugæslum í kjördæminu. Heilbrigðismál skipta okkur öll miklu máli og því þurfum við stöðugt að hafa augun á boltanum til að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Categories
Fréttir

„Svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi“

Deila grein

26/09/2024

„Svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði það hafa verið átakanlegt að horfa á Kveik um daginn þar sem fjallað var um aðbúnað erlendra verkamanna, vinnumansal, í störfum þingsins.

„Þetta er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi. Við eigum að gera miklu, miklu betur hvað þetta varðar. Fyrir sex árum síðan var fjallað um nákvæmlega sömu stöðu og það kemur mér á óvart að við skulum ekki vera komin lengra,“ sagði Jóhann Friðrik.

Sagði hann það eðlilegt að þingheimur kallaði eftir sterkari viðbrögðum frá Vinnumálastofnun, Vinnueftirliti og Skattinum en að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins væru svo sannarlega að hlusta.

„Í dag fer fram í Hörpu sameiginlegur fundur, sameiginleg ráðstefna þeirra til þess að reyna að stemma stigu við þessu vandamáli. Mér finnst það virðingarvert, virðulegi forseti, en ég kalla eftir miklu sterkari viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Við verðum að klára að uppfæra viðbragðsáætlun. Við verðum að stíga miklu fastar niður hvað varðar vinnumansal og mansal almennt á Íslandi. Við þurfum að klára að uppfæra aðgerðaáætlun og hrinda henni í framkvæmd. Ég kalla eftir því að stjórnvöld stígi fastar niður. Ég held að allt samfélagið sé að krefjast þess og við eigum að hlusta og bregðast við,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Categories
Fréttir

„Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur“

Deila grein

26/09/2024

„Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var gestur í Bítinu á Bylgjunni og ræddi forskotið er Ísland er komið með í heimi gervigreindar. En menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur gefið út leiðarvísi sem fjallar um hvernig íslensk máltækni hefur náð fótfestu í heimi gervigreindarinnar og ávinning samstarfs íslenskra stjórnvalda og þeirra samstarfsaðila við tæknifyrirtækið Open AI. Leiðarvísirinn er gefin út á íslensku og ensku í samstarfi við íslenska gervigreindar- og máltæknifyrirtækið Miðeind og Almannaróm, miðstöð máltækni á Íslandi ber heitið Íslenska-nálgunin: Hvernig stuðla má að fjölbreytni tungumála og menningar á sviði gervigreindar.

„Þetta er lykillinn að því að tungumálið okkar lifi og ég hef stundum líkt því við þegar var verið að þýða Biblíuna yfir á hin ýmsu tungumál, þá náðu tungumálin að lifa í stað þess að hafa þetta allt á latínu. Þetta er bara nákvæmlega sama vegferðin og eftir þessu er tekið, en við erum ekki alveg komin í mark,“ sagði Lilja Dögg.

Umsjónmaður Bítisins, Heimir Karlsson, lagði spurningu fyrir gervigreindina á meðan viðtalinu stóð, þar sem hann spurði hvað hún myndi sjálf gefa sér í einkunn fyrir íslensku, frá 0 upp í 10. Svarið sem hann fékk var athyglisvert, „ég myndi gefa mér sjálfri 7 í einkunn í íslensku. Ég get yfirleitt svarað spurningum og notað rétt málfar en er ekki fullkomin og gæti gert smávægilegar villur í flóknari samhengi“.

Íslenska-nálgunin var kynnt tæknisamfélaginu á málþingi Open AI sem haldin var í tilefni af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York á mánudaginn. Inntak málþingsins var að setja áherslu á að leysa flókin samfélagsvandamál með hjálp gervigreindar og stuðla þannig að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Lilja Dögg var gestur í pallborðsumræðum fyrirtækisins um fjölbreytni menningar- og tungumála í gervigreind. Sam Altman, forstjóri OpenAI, og Anna Makanju aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðamála Open AI voru gestgjafar viðburðarins og stýrði Anna pallborðsumræðunum. Aðrir þáttakendur voru Robert Opp, strafrænn þróunarstjóri UNDP, Gabriela Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóri félags- og hugvísinda, UNESCO, Max K gervigreindarsérfræðingur hjá UNESCO og Dr. ‘Bosun Tijani, samskipta-, nýsköpunar- og stafrænn efnahagsráðherra Nígeríu.

„Með því að tryggja að nýjasta tækni sé aðgengileg á íslensku getum við teygt okkur í allar áttir. Ég er full af tæknilegu hugrekki eftir að hafa séð þann árangur sem náðst hefur með aðstoð gervigreindar í flóknum verkefnum þar sem aukin tækifæri og jöfnuður verða raunhæfur kostur með tilkomu gervigreindarinnar. Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur. Velgengnisssögur dagsins í dag spanna allt frá aukinni uppskeru til stórbætts árangurs í menntun og heilbrigðismálum. Með samhentu átaki í máltækni eru stjórnvöld að tryggja að landsmenn geti tekið þátt í nýjustu tækni – á íslensku,“ segir Lilja Dögg.

Í leiðarvísinum leggur Ísland til að unnið verði að stofnun alþjóðlegs samstarfsverkefnis fyrir tungumál og menningarheima sem hafa ekki náð fótfestu í nýrri tækni. Í slíku samstarfi yrði komið á alþjóðlegum gagnreyndum aðferðum og þróuð mælipróf fyrir getu mállíkana í slíkum tungumálum. Slíkt samstarf myndi einnig auðvelda gagnasöfnun og geymslu gagna og styðja við rannsóknir á sviði fjölmenningarlegrar og margmála gervigreindar. Slíkt verkefni ætti að fela í sér aðkomu hagsmunaaðila frá gervigreindarfyrirtækjum, rannsókna- og fræðasamfélaginu, ríkisstjórnum og fulltrúum samfélagsins, svo og alþjóðlegum stofnunum á borð við UNESCO.

Samstarfið skilar gríðarlegum árangri

Ísland og OpenAI hófu samstarf sitt við að þjálfa ChatGPT í íslensku árið 2022. Ráðist var í samstarfið í kjölfar heimsóknar sendinefndar forseta Íslands og menningar- og viðskiptaráðherra til Bandaríkjanna þar sem hún fundaði meðal annars með Sam Altman, forstjóra OpenAI. Miðeind kom að samstarfinu fyrir hönd Íslands og hefur fyrirtækið unnið náið með OpenAI; deilt með því íslenskum gögnum úr máltækniáætlunum stjórnvalda, veitt líkaninu endurgjöf í þjálfun og mælt bæði skilning þess á íslensku og færni í að mynda réttar setningar á íslensku. Árangurinn af máltæknivinnu Íslands er ótvíræður en allar mælingar á færni líkana OpenAI milli uppfærslna sýna stórbætta íslenskugetu þeirra. Sjá nánar. 

Yfirlýst markmið OpenAI með samstarfinu við Ísland hefur ávallt verið að komast að því hvaða aðferðir nýttust best við að kenna stóru mállíkani eins og ChatGPT tungumál sem fáir tala. Samstarfið hefur leitt ýmislegt í ljós, bæði hvaða aðferðir virðast nýtast best en einnig hvaða aðferðir virka illa. Í leiðarvísinum er helsti lærdómur Íslands af samstarfinu dreginn saman og farið yfir það máltæknistarf sem unnið hefur verið hér á landi frá árinu 2019, þegar máltækniáætlun 1 var sett í gang. Með henni fjárfestu stjórnvöld í gagnasöfnun fyrir íslenska tungu og þróun nauðsynlegra tæknilegra innviða fyrir tungumálið og heldur sú vinna áfram að gefa og byggir Máltækniáætlun 2 á þeim árangri en sú áætlun gildir til 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Orð­ræða seðla­banka­stjóra veldur mér á­hyggjum

Deila grein

26/09/2024

Orð­ræða seðla­banka­stjóra veldur mér á­hyggjum

Ég hefði talið að það væri öllum ljóst að þörf væri á frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um allt land. Þetta sýna auðvitað allar tölur, með sterku ákalli frá verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem sér um að greina stöðuna á húsnæðismarkaði mjög markvisst. Þessu mati, allra þessara aðila og fleiri, virðist seðlabankastjóri fullkomlega ósammála og lét hafa eftir sér á fundi Fjármálastöðuleikanefndar Seðlabankans í morgun að umræðan um að of lítið væri byggt, væri á villigötum.

Skoðum tölurnar

Þrátt fyrir mesta uppbyggingartímabil Íslandssögunnar árin 2019-2024, þá erum við þó að byggja langt undir áætlaðri íbúðaþörf. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að þörf sé á 4 til 5 þúsund íbúðum á hverju ári til 2033. Talningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á íbúðum í byggingu benda til þess að árlega muni 2 til 3 þúsund íbúðir koma inn á markað árin 2024-2026. Það er langt frá því að vera nóg. Það er líka svo að þegar það verður dýrt að byggja (háir vextir) og erfitt að selja/kaupa (lánþegaskilyrðin) þá dregur úr framkvæmdavilja, þvert á það sem við þurfum í dag. Það þýðir ekkert fyrir seðlabankastjóra að hneykslast yfir sig á þessum staðreyndum, sem hann virðist samt sem áður gera og jafnvel kveinka sér undan þeim.

Þetta sjáum við til að mynda vel á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem samþykkt var árið 2015 og gildir til ársins 2040. Það skipulag vanmetur vænta fjölgun íbúa, en skipulagið gerir ráð fyrir að íbúum svæðisins myndi fjölga um 70 þúsund á tímabilinu 2015-2040. Nú þegar hefur okkur fjölgað um 38 þúsund og árið er 2024. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir 52 þúsund íbúa fjölgun til viðbótar til ársins 2032. Þá þegar er fjölgunin 90 þúsund, eða 20 þúsund meira en áætlanir gerðu ráð fyrir til ársins 2040 og árið er 2024. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands fyrir árin 2032-2040 má búast við fjölgun um 32 þúsund íbúa til viðbótar. Það þýðir ekki endalaust að hlusta á draumsýn embættismanna, heldur þurfa stjórnmálamenn að þora að horfast í augu við breyttar forsendur líkt og hér um ræðir og taka um leið réttar ákvarðanir.

Seðlabankastjóri á villigötum

Ekki er langt síðan seðlabankastjóri lét þau ummæli falla að allir þeir sem gætu haldið á hamri væru komnir að smíða. Þau ummæli vöktu upp talsverða reiði meðal iðnaðarmanna og Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði sendi frá sér sérstaka ályktun eftir stjórnarfund þar sem ummælin voru sögð taktlaus og röng á sama tíma og félagið lýsti yfir fullum vilja og getu sinna félagsmanna til að taka þátt í aukinni uppbyggingu húsnæðis. En hvað gerist? Seðlabankastjóri stígur á bensíngjöfina og gefur í.

Í könnun sem Samtök iðnaðarins lét framkvæma koma fram vísbendingar um að samdráttur sé í vændum. Það sést meðal annars í verkefnastöðu arkitekta og verkfræðinga sem þýðir að á næstu árum væri um að ræða minna framboð íbúðarhúsnæðis. Í könnun sem gerð var meðal arkitekta- og verkfræðistofa innan Samtaka iðnaðarins nú í september kemur fram að yfir 60% þeirra segja að verkefnum hafi fækkað og ekki nema 9% sem segja að verkefnum hafi fjölgað. Hér ættu öll viðvörunarljós að blikka um leið. Ekki hjá seðlabankastjóra.

Á undanförnum árum hef ég fjallað mikið um húsnæðismál hér á landi og viðrað áhyggjur mínar af stöðunni til framtíðar ef ekkert yrði að gert. Þetta hef ég gert bæði sem sveitarstjórnarmaður á sínum tíma og nú sem þingmaður. Það er að afleiðingarnar af óbreyttri stöðu yrðu á endanum hátt fasteigna- og leiguverð sem leiða myndi að óbreyttu til aukins þrýstings á verðbólgu. Seðlabankastjóri lokar augunum.

Seðlabankinn þarf að sjá ljósið

Ríkisstjórnin hefur komið að mikilvægum aðgerðum sem snúa að kröftugri húsnæðisuppbyggingu sem gagnast þeim sem eru eignalitlir og tekjulágir og hafa því átt erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum. Hér er um að ræða aðgerðir sem eru bæði raunverulegar og skynsamlegar. Einnig tel ég brýnt að lífeyrissjóðir nýti sér þá auknu heimild sem Alþingi veitti þeim í sumar og mun auðvelda þeim að fjárfesta í leigufélögum. Það mun styðja okkur í því verkefni að byggja upp heilbrigðari leigumarkað en hér hefur verið með meira öryggi og fyrirsjáanleika fyrir fólk sem það kýs. Almenni markaðurinn þarf þó einnig að koma með því staðreyndin er sú að við erum að byggja of lítið. Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði.

Lækkun vaxta, skynsamleg skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum og fjölgun lóða er það sem til þarf.

Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. september 2024.

Categories
Fréttir

Berglind nýr starfsmaður þingflokks

Deila grein

24/09/2024

Berglind nýr starfsmaður þingflokks

Berglind Sunna Bragadóttir hefur verið ráðin starfsmaður þingflokks Framsóknar. 

Berglind er fædd árið 1992 og uppalin á Suðurnesjunum. Hún er með B.A.-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Berglind hefur um árabil starfað við markaðsstörf, hún gegndi hlutverki verkefnastjóra og síðar upplýsinga- og kynningarstjóra hjá Keili 2019-2021, verkefnastjóra kynningarmála hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt 2022-2023 og hefur starfað sem sérfræðingur við markaðsdeild Icelandair frá júní 2023. 

Berglind hefur alla tíð verið virk í trúnaðar- og félagsstörfum. Hún mun gegna störfum varaformanns Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) og gjaldkera Landssambands Kvenna í Framsókn fram að þingum þeirra nú í haust. Þá er hún formaður skólanefndar Menntaskólans við Sund sem og formaður námsstyrkjanefndar.

Berglind hefur störf undir lok árs og tekur við af Sonju Lind Estrajher Eyglóardóttur sem nýverið hóf störf sem aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.