Categories
Greinar

Fram­sókn í 108 ár!

Deila grein

16/12/2024

Fram­sókn í 108 ár!

Í dag fögnum við 108 ára afmæli Framsóknarflokksins!

Framsóknarflokkurinn var stofnaður þann 16. desember 1916 við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda og er elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Flokkurinn átti upphaf sitt í samvinnuhreyfingunni og ungmennafélagshreyfingunni, og markmiðið var skýrt: að efla lífskjör, byggja upp innviði og tryggja jöfnuð fyrir landsmenn.

Á þessum tíma var Ísland töluvert dreifbýlt og Framsóknarflokkurinn sótti fylgi sitt fyrst og fremst til landsbyggðarinnar. Í upphafi var áherslan lögð á hagsmuni bænda og dreifbýlisfólks, en með breyttum samfélagsháttum, sérstaklega eftir miðja 20. öld, þróaðist flokkurinn í það að verða flokkur allra stétta. Kjarninn var þó alltaf sá sami: samvinna, jöfnuður og lausnamiðuð stjórnmál.

Í gegnum árin hefur Framsóknarflokkurinn verið burðarás í íslensku samfélagi. Með uppbyggingu skólakerfisins, stuðningi við samvinnuhreyfinguna, félagslegum réttindum og stórum innviðaverkefnum hefur flokkurinn lagt grunn að mörgum af þeim framfaramálum sem við njótum í dag.

Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, og með áherslu á nýsköpun, menntun og framtíðarsýn hefur hann verið ómissandi hluti af sögu og þróun Íslands.

Þótt Framsóknarflokkurinn hafi séð betri daga hvað fylgistölur varðar, þá er það staðföst trú mín að hann muni rísa á ný – sterkari en nokkru sinni fyrr. Rætur hans liggja djúpt í jarðvegi landsins,

Til hamingju með daginn allt Framsóknarfólk!

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2024.

Categories
Greinar

Tækifæri Íslands utan ESB

Deila grein

15/12/2024

Tækifæri Íslands utan ESB

Ísland hef­ur farið þá leið að standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB) en eiga í góðu og upp­byggi­legu sam­starfi við banda­lagið á grund­velli EES-samn­ings. Það hef­ur veitt okk­ur tæki­færi fyr­ir sjálf­stæða stefnu­mót­un á sviðum eins og fisk­veiði- og auðlinda­mál­um, og efna­hags- og pen­inga­mál­um, ásamt því sem Ísland get­ur eflt tengsl við önn­ur svæði fyr­ir utan Evr­ópu á grund­velli fríversl­un­ar­samn­inga.

Stóri kost­ur­inn við að vera utan ESB er frelsið til að móta eig­in fisk­veiðistefnu. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er burðarás í ís­lensku hag­kerfi, og sjálf­stæði frá sam­eig­in­legri fisk­veiðistefnu ESB ger­ir Íslandi kleift að stýra þess­ari auðlind sjálft, stjórna veiðum á sjálf­bær­an hátt og tryggja að sjáv­ar­af­urðir skili þjóðarbú­inu meiri tekj­um en ella. Í dag er staðan sú að Ísland er leiðandi þjóð í sjálf­bær­um og arðbær­um sjáv­ar­út­vegi á alþjóðavísu.

Það sama á við um land­búnað, þar sem við get­um mótað eig­in stefnu án þess að þurfa að aðlaga okk­ur sam­eig­in­legri land­búnaðar­stefnu ESB. Þetta leyf­ir land­inu að þróa sér­tæka nálg­un sem hent­ar ís­lensk­um aðstæðum best, þar sem veður­skil­yrði og land­fræðileg­ar aðstæður eru tölu­vert frá­brugðnar meg­in­landi Evr­ópu. Það ligg­ur í aug­um uppi að inn­ganga í tolla­banda­lag ESB-ríkja að þessu leyti myndi veikja ís­lensk­an land­búnað til muna, á tím­um þar sem fæðuör­yggi þjóða verður sí­fellt mik­il­væg­ara. Orðið fæðuör­yggi kann að hljóma óspenn­andi en þýðing þess er hins veg­ar gríðarlega mik­il­væg. Flokk­ar sem tala fyr­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið hafa aldrei svarað þeirri spurn­ingu hvernig þeir sjái fyr­ir sér að tryggja mat­væla­ör­yggi hér á landi með öfl­ugri inn­lendri mat­væla­fram­leiðslu, en það þarf að huga að henni.

Ísland get­ur einnig ein­beitt sér að því að nýta nátt­úru­lega eig­in­leika til að fram­leiða ein­stak­ar land­búnaðar­vör­ur. Dæmi um þetta eru ís­lenskt lamba­kjöt, mjólk­ur­vör­ur og græn­meti ræktað við sér­stak­ar aðstæður, eins og í gróður­hús­um sem nýta jarðhita. Þess­ar vör­ur hafa mögu­leika á að öðlast sér­stöðu á alþjóðleg­um mörkuðum þar sem upp­runi og gæði eru met­in hátt.

Þá fylg­ir því aukið viðskiptafrelsi fyr­ir Ísland að standa utan ESB. En landið býr við auk­inn sveigj­an­leika með gerð tví­hliða viðskipta­samn­inga sem geta hentað ís­lensk­um aðstæðum bet­ur en stór­ir alþjóðasamn­ing­ar. Nýta má þessa sér­stöðu til að byggja upp betri út­flutn­ings­mögu­leika og auka fjöl­breytni í markaðssetn­ingu ís­lenskra afurða á er­lend­um mörkuðum.

Staðan er sú að Íslandi hef­ur vegnað vel á grund­velli EES-samn­ings­ins, utan Evr­ópu­sam­bands­ins. Hér hef­ur hag­vöxt­ur verið meiri, at­vinnu­leysi minna og laun og kaup­mátt­ur hærri. Það verður áhuga­vert að sjá hvort Sam­fylk­ing­in og Flokk­ur fólks­ins láti Viðreisn teyma sig í aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu á þess­um tíma­punkti í yf­ir­stand­andi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum en slík veg­ferð yrði ekki góð nýt­ing á tíma og fjár­mun­um næstu rík­is­stjórn­ar verði hún að veru­leika.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Deila grein

09/12/2024

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Orðatiltækið „Köld eru kvenna ráð“ kemur úr Njálu og þar er átt er við að ráðleggingum kvenna sé ekki alltaf treystandi. Þessi fornu orð hafa lengi fylgt umræðum um ráðvendni og hlutverk kvenna en nútímarannsóknir sýna að þátttaka þeirra í ákvörðunum styrkir oft útkomur með breiðari sýn, aukinni samvinnu og sjálfbærri nálgun.

Nú, þegar þrjár sterkar konur freista þess að semja um stjórn landsins, er því áhugavert að velta fyrir sér hvort samstarfið geti markað þáttaskil í stjórnmálum Íslands. Gæti það skilað sér í nýrri tegund af kraftmikilli samvinnu á Alþingi? Munu leiðtogarnir jafnvel horfa til mála í stjórnarsáttmála sem voru ekki efst á baugi í kosningabaráttu þeirra en eru ákaflega brýn fyrir samfélagið á næstu árum?

Það er erfitt að spá fyrir um á þessari stundu. En með óbilandi trú á öflugri samvinnu má setja fram óskalista um málefni fyrir nýja ríkisstjórn að umvefja og gera að sínum – fyrir land og þjóð:

1Orkuöryggi almennings: Ef orkuöryggi almennings er ekki betur tryggt þá mun raforku verð til heimila, hárgreiðslustofa, matvöruverslana og garðyrkjubænda halda áfram að hækka. Við verðum að muna að þessi viðkvæmi hópur er í allt annarri samningsstöðu en mjög stórir raforkunotendur sem njóta langtímasamninga. Raforkukerfið okkar var hannað þannig að almenningur nyti verndar en árið 2003 var hún tekin af þegar við byrjuðum að innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Margar leiðir eru þó í boði til að bæta stöðuna innan þess kerfis og það þarf að gera. Þetta mál ætti að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn.

2) Takmörkum jarðakaup erlendra aðila : Þegar við seljum jarðir úr landi þá seljum við auðlindir vatns, jarðhita og jarðefna með þeim. Það virðist kannski saklaust þegar ein og ein jörð er seld, en þegar fram í sækir teiknast upp heildarmynd sem hefur áhrif á auðlindastýringu og langtímahagsmuni Íslands. Þegar hafa tugir jarða verið seldar. Vöknum og bregðumst við, og lærum af öðrum þjóðum.

3) Nýsköpun-, mennta- og atvinnuþróun : Lífsgæði geta aukis víða um land með áherslu á nýsköpun. Eflum nýsköpunarhraðla og stýrum fjármagni til þeirra með atvinnuþróun á landsbyggð í huga; frá Suðurnesjum og hringinn í kringum landið. Ísland á til dæmis stór tækifæri í orku- og matvælatengdri nýsköpun til sjávar og sveita og við eigum að setja enn meiri kraft í að sækja þau. Sköpum hvata til að ungt fólk með fjölbreytta menntun flytji heim og móti framtíðar Marel og Kerecis. Styrkjum menntun á ólíkum stöðum á landinu fyrir slíka sókn svo sem í gegnum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Keili á Suðurnesjum.

4) Sókn í landbúnaði : Landbúnaður á undir högg að sækja, á sama tíma og okkur fjölgar hratt. Spurningin er; ætlum við að fæða þjóðina innfluttri matvöru eða skapa skilyrði þannig að fjölbreytt matvælaframleiðsla geti blómstrað og vaxið með okkur? Gleymum ekki að öflugur landbúnaður er hluti fæðuöryggi og getur dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda sem fylgir miklum vöruflutningum að utan. Einnig er fæðuframleiðsla hér lýðheilsumál því að í matvælaframleiðslu því lyfjanotkun er algengari erlendis og gæði vatns í framleiðslu ekki þau sömu. Jafnframt verðum við að átta okkur á að sókn í landbúnaði er líka einstaklega mikilvæg fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu því að ferðamenn sækja ekki í tómar sveitir og innfluttan mat; heldur blómlega byggð og mat sem er ekta. Til að ná árangri á þessu sviði þarf meðal annars að huga að nýliðun og afkomu bænda, og lánakjörum til uppbyggingar.

5) Auðlindir og umhverfismál: Nýting auðlinda og virðing fyrir umhverfinu á að haldast í hendur. Tryggjum að uppbygging orkuinnviða á borð við flutningskerfi, sé í forgangi þar sem brýn þörf er á svo sem til Vestmannaeyja og Vestfjarða og tengjum landið okkar betur saman svo að nýtni raforkukerfisins aukist. Eflum fjölnýtingu jarðhita og skoðum tækifæri á jöldum svæðum. Sköpum hvata þannig að aukin raforkuframleiðsla rati í markmið stjórnvalda, hvort sem er fyrir atvinnuvegi eða orkuskipti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vöndum okkur í framkvæmd. Það er til dæmis ekki einstakri náttúru okkar í hag að teppaleggja landið með vindorkuverum en með skynsamri langtímahugsun er hægt að ná árangri í nýtingu án þess að slíta samfélög í sundur og náttúruna um leið. Útfærum lög þannig að ábati af raforkuframleiðslu rati til samfélagsins og skapi verðmæti í heimabyggð.

6) Framsækin ferðaþjónusta: Ferðaþjónusta er lífæð margra byggða og á mikið inni. Leggjum áherslu á gæði í ferðaþjónustu með sterkri framtíðarsýn. Breytumst ekki í „litlu Ameríku“ þar sem stór auglýsingaskilti og aðgangseyrir lita sífellt meira upplifum. Hægt væri til dæmis að skipta hóflegu gjaldi á hvern ferðamann niður á áfangastaði eftir rafrænni talningu heimsókna og koma þannig í veg fyrir bílastæðaposa við annan hvern hól. Höldum fast í frelsi þess að geta skoðað fallega landið okkar án slíkra takmarkanna.

7) Sterkir innviðir: Hinir mjúku innviðir samfélaga; læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og fjölbreyttir fagkennarar, allt frá stærðfræði yfir í tónlist, eru ekki síður mikilvægir og það að byggja brýr, göng og vegi. Aukum áherslu á að byggja upp mjúka og harða innviði á landsbyggðinni því þar verða verðmæti auðlinda til sem við treystum öll á. Sterk samfélög þjóna bæði heimamönnum og draga að hæfileikafólk sem efla atvinnu- og menningarlíf landsins enn frekar.

Til viðbótar við þennan lista má nefna mikilvæg málefni sem líklega eru þegar á dagskrá í viðræðunum – og eiga sannarlega heima þar:

7) Heima er best: Heimili eiga ekki að vera áhættufjárfesting. Setjum markið á langtíma óverðtryggð lán fyrir heimili og takmörkum samkeppni venjulegs fólks við fagfjárfestingar í fasteignum ætlaðar Airbnb. Setjum reglur þannig ekki sé braskað með lóðir því það hægir á framkvæmdum og hækkar fasteignaverð.

8) Grípum inn í fátækt: Fátækt skilur eftir sig opin sár meðal ungra og aldna sem gagnast engum í okkar ríka samfélagi. Hlustum á skýrt ákall eldri borgara og þeirra sem minna mega sín úr þessum kosningum. Finnum leiðir til að taka skýr skref sem oft tengjast dýrum húsnæðismarkaði.

9) Grunnskólinn sem griðastaður: Sterkt skólakerfi og fjárfesting í æskulýðsstarfi er besta forvörn sem völ er á og hér halda þarf áfram að sækja fram með metnaðarfullum hætti. Ljúkum við innleiðingu nýrra samræmdra prófa og verum leiðandi í framkvæmd símalausra skóla.

10) Tungumálið er hjarta menningar: Íslenskan er límið í menningu okkar. Eflum íslenskukennslu og komum á skýrum hvötum í atvinnulífi til að stuðla að lærdómi hennar svo allir eigi jafna möguleika. Hér getur fjárfesting í menningarstarfi og listum sem tengir saman Íslendinga og innflytjendur hjálpað. Fáum eldri borgara líka með í lið við talþjálfun innflytjenda með því að gefa þeim færi á að afla sér tekna án tekjuskerðingar. Þannig má draga úr einangrun og efla samveru á marga vegu.

Þessi málefnalisti, sem gæti verið mun lengri, á við sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Hann er þó settur fram með þá trú að við séum mögulega í dauðafæri að sjá fyrstu kvenleiddu ríkisstjórn Íslands fæðast, sem geti komist í sögubækurnar með því að slá nýjan tón í samvinnu og málefnaáherslur þvert á flokkadrætti. Stjórn þar sem mýtan „köld eru kvennaráð“ víkur fyrir breiðari áherslu á samstarf í útfærslu og framkvæmd stjórnarsáttmála. Sáttmála sem styðja má við og veita skýrt aðhald á þingi, samfélaginu okkar og framtíð til heilla.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2024.

Categories
Greinar

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Deila grein

06/12/2024

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Það er vel við hæfi að dagur sjálfboðaliðans sé haldinn hátíðlegur stuttu eftir nýafstaðnar kosningar. Þessi dagur minnir okkur á þá ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar inna af hendi við að halda uppi flokksstarfi og kosningabaráttu.

Samvinnuverkefni

Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem eiga öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Grasrótin er hjartað í kosningabaráttunni – hópurinn sem stendur vaktina frá morgni til kvölds við að skipuleggja viðburði, taka á móti gestum og hringja í kjósendur. Hún lætur hvorki skoðanakannanir né aðrar aðstæður slá sig út af laginu. Heldur brettir upp ermar og leggur sitt af mörkum – af hugsjón. Við sem störfum í stjórnmálum eigum þessum bakhjörlum allt að þakka. Það er þessi kraftmikla og ósérhlífna grasrót sem gerir stjórnmálastarf mögulegt.

Sjálfboðaliðinn: Stoð samfélagsins

Náttúruhamfarir minna okkur reglulega á mikilvægi sjálfboðaliðans. Hvort sem um er að ræða eldgos, snjóflóð eða ófærð vegna veðurs, eru þeir ávallt reiðubúnir til að hlúa að samfélaginu. Með umhyggju og ósérhlífni leggja þeir sig fram við að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Á hverjum degi leggja sjálfboðaliðar ómetanlega vinnu í samfélagsleg verkefni og félagsstarf. Þeir eru burðarásar í íþróttafélögum, foreldrafélögum, kvenfélögum og mannúðarfélögum, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun má segja að sjálfboðaliðar séu ein mikilvægasta stoðin sem samfélag okkar hvílir á.

Þakklæti

Í dag vil ég sérstaklega þakka félögum mínum í Framsókn fyrir óeigingjarnt starf í nýafstaðinni kosningabaráttu. Um leið vil ég þakka öllum þeim sem sinna sjálfboðaliðastarfi víðsvegar um landið fyrir það mikilvæga starf sem þeir inna af hendi í þágu samfélagsins.

Takk fyrir ykkar framlag og gleðilegan dag sjálfboðaliðans.

Skrifað í tilefni af degi sjálfboðaliðans 5. desember.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tekið við góðu búi

Deila grein

05/12/2024

Tekið við góðu búi

Stjórn­mál­in eru hverf­ull vett­vang­ur þar sem hlut­irn­ir geta breyst hratt. Í kosn­ing­un­um liðna helgi leiðbeindu kjós­end­ur stjórn­mála­flokk­un­um í hvaða átt skyldi stefna næstu árin.

Það er því ekki óeðli­legt að Sam­fylk­ing­in, Viðreisn og Flokk­ur fólks­ins hafi hafið form­leg­ar stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður eft­ir þeirra kosn­inga­sig­ur. Raun­ger­ist rík­is­stjórn þess­ara flokka er ljóst að hún tek­ur við góðu búi.

Fjár­laga­frum­varp Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar legg­ur grunn­inn að því að verðbólga og vext­ir eru á fallanda fæti auk mark­vissra aðgerða stjórn­valda og aðila vinnu­markaðar­ins.

Þá eru skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lág í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og staða rík­is­sjóðs sterk, at­vinnuþátt­taka er mik­il og tæki­færi fyr­ir frek­ari lífs­kjara­sókn sam­hliða lækk­andi fjár­mögn­un­ar­kostnaði.

Þá hef­ur gangskör verið gerð í hinum ýmsu mála­flokk­um svo eft­ir hef­ur verið tekið. Má þar sér­stak­lega nefna í ráðuneyt­um Lilju Al­freðsdótt­ur, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, Will­ums Þórs Þórs­son­ar heil­brigðisráðherra og Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, mennta- og barna­málaráðherra.

Það verður sjón­ar­svipt­ir að þess­um verk- og reynslu­miklu ráðherr­um Fram­sókn­ar sem hafa komið mörg­um fram­fara­mál­um til leiðar.

Brýn­ustu mál næstu rík­is­stjórn­ar eru að ná betri tök­um á hús­næðismarkaðnum og lækka fjár­magns­kostnað Íslands. Ráðist hef­ur verið í ýms­ar aðgerðir á hús­næðismarkaðnum að und­an­förnu til að mæta þeirri auknu eft­ir­spurn sem mynd­ast hef­ur.

Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar var farið í hlut­deild­ar­lán og stofn­fjár­fram­lög til að mæta markaðsbresti á hús­næðismarkaði. Það þarf þó að fara í frek­ari kerf­is­breyt­ing­ar til að auka fram­boð af hús­næði um land allt. Sam­starf rík­is og sveit­ar­fé­laga verður að aukast til að ná meiri ár­angri.

Á sveit­ar­stjórn­arstig­inu mun Fram­sókn áfram leggja sig fram við að koma að lausn þeirra áskor­ana sem blasa við sam­fé­lag­inu okk­ar.

Við erum sam­vinnu­flokk­ur, hvort sem við erum í rík­is­stjórn eður ei.

Fjár­magns­kostnaður Íslands er of hár og á það við um kjör rík­is­sjóðs Íslands og allt hag­kerfið.

Það verður að fara ofan í saum­ana á því hvers vegna staðan er þessi í ljósi þess að all­ar grunnstoðir hag­kerf­is­ins eru sterk­ar. Láns­hæfis­ein­kunn rík­is­sjóðs Íslands hef­ur þó verið að hækka og þá ættu kjör­in að verða betri.

Hefja þarf stór­sókn í þess­um efn­um til að auka verðmæta­sköp­un Íslands.

Stefán Vagn Stefánsson, alþing­ismaður og fyrr­ver­andi formaður fjár­laga­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst Morgunblaðinu 5. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíðin er í húfi

Deila grein

28/11/2024

Fram­tíðin er í húfi

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum stigið stór skref í átt að því að bæta lífsskilyrði barna og fjölskyldna. Í þessu verkefni hefur Framsókn verið í leiðtogahlutverki. Við höfum gripið til markvissra aðgerða til að styrkja grunnstoðir mennta- og velferðarkerfisins og haft þar skýra áherslu á fyrirbyggjandi stuðning, aukinn jöfnuð og betra aðgengi að þjónustu.

Fjárfest í börnum og unglingum

Við hjá Framsókn höfum lagt áherslu á umfangsmikla fjárfestingu í börnum og fjölskyldum. Meðal lykilverkefna sem hafa verið sett í farveg eru:

  1. Farsældarlög: Ný löggjöf sem tryggir þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Öll börn eiga nú rétt á tengilið sem starfar í nærumhverfi barnsins, ef þörf er á stuðningi eða þjónustu.
  2. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir: Öllum börnum á grunnskólaaldri er nú tryggð næringarrík máltíð óháð efnahag fjölskyldunnar.
  3. Tvöföldun fjármagns til íþrótta- og frístundastarfs: Stórt átak í því skyni að auka þátttöku barna í íþrótta- og frístundastarfi. Í þessu verkefni hefur til dæmis gjaldfrjáls þátttaka í unglingalandsliðum verið tryggð og auknu fjármagni verið veitt til íþróttastarfs fatlaðra barna.
  4. Samræmd skólaþjónusta og stuðningur við kennara: Fjárfest hefur verið í starfsþróun kennara og framlög til námsgagna verið tvöfölduð.
  5. Innleiðing samþætts námsmats: Nýtt námsmat tekur nú við af úreltum samræmdum prófum og tryggir betri yfirsýn yfir námsárangur og færni. Innleiðingin er löngu hafin og gengur vel.

Raunverulegur árangur

Stefna Framsóknar og þær aðgerðir sem hafa verið innleiddar á undanförnum árum eru þegar að skila mælanlegum árangri í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Lítum á nokkra mælikvarða.

  • Andleg heilsa barna hefur batnað: Tíðni kvíða meðal yngri barna hefur minnkað um 15%.
  • Einelti hefur minnkað: Aðeins 4% nemenda í 10. bekk upplifa nú einelti – lægsta mæling sem hefur sést.
  • Meiri samfella í þjónustu: Fjölskyldur upplifa betri samfellu sem auðveldar þeim að fá nauðsynlegan stuðning á réttum tíma. Níu af hverjum 10 ungmennum telja mikilvægt að leggja sig fram í námi.

Þessar niðurstöður eru ekki aðeins tölur; þær endurspegla raunveruleg lífsgæði fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hér eru skýrar vísbendingar um að markviss stefnumótun og fjárfesting í börnunum okkar skilar sér í betra samfélagi.

Megináherslur næstu fjögur árin

Þrátt fyrir að miklu hafi verið áorkað eru áskoranir enn til staðar. Við í Framsókn höfum skýra framtíðarsýn og leggjum áherslu á eftirfarandi verkefni á næstu fjórum árum:

  • Innleiðing þjónustutryggingar: Við ætlum að útrýma biðlistum eftir greiningu og þjónustu. Þjónustutrygging mun tryggja að hámarksbiðtími barns verði skilgreindur. Ef opinberir aðilar uppfylla ekki tímamörkin verður fjölskyldum boðin þjónusta hjá einkaaðilum. Með þessu tryggjum við að ekkert barn þurfi að bíða óhóflega lengi .
  • Námsárangur í fremstu röð: Með innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum munum við fá öflugri tæki í hendurnar til að styðja með markvissum hætti við námsárungur barna á Íslandi.
  • Gjaldfrjáls námsgögn fyrir öll skólastig: Við munum tryggja að börn hafi jafnan aðgang að námsgögnum á öllum skólastigum. Gjaldfrjálst nám eru mannréttindi.
  • Frístundalög: Með nýjum lögum verður réttur barna til þátttöku í frístundastarfi tryggður, óháð búsetu eða efnahag fjölskyldunnar.
  • Aukin áhersla á snemmtækan stuðning: Við munum halda áfram að styrkja innleiðingu farsældarlaganna til að tryggja að hver fjölskylda fái þjónustu sem miðast við þarfir þeirra á hverjum tíma.
  • Lengjum fæðingarorlof í 18 mánuði og hækka lágmarksgreiðslur: Undirritaður var félagsmálaráðherra þegar fæðingarorlofið var lengt í 12 mánuði úr 9 og næsta skref er að lengja það í 18 til að tryggja foreldrum tíma með börnunum sínum. Þá verður að hækka lágmarksgreiðslur til foreldra.

Hverjum treystið þið?

Á undanförnum árum höfum við í Framsókn lagt grunn að samfélagi þar sem börn og fjölskyldur þeirra njóta forgangs. Verkin tala sínu máli.

En verkefninu er langt frá því að vera lokið. Við erum í miðri á í risavöxnum breytingum á öllu því er snýr að börnunum okkar. Markmiðið er skýrt: Að skapa samfélag þar sem öll börn fá sömu tækifæri til þátttöku í samfélaginu, öryggis og farsældar.

Verkefnið er ekki bundið við eitt kjörtímabil. Það krefst staðfestu og framtíðarsýnar. Við í Framsókn erum staðráðin í að halda áfram á þessari vegferð.

Ég treysti á ykkur!

Kæru kjósendur! Á þessu kjörtímabili höfum við gert ýmis mikilvæg verkefni að veruleika. En það sem skiptir enn meira máli núna er allt það sem við eigum enn eftir að hrinda í framkvæmd. Til að þær hugmyndir og áherslur verði að veruleika þarf ég á ykkar stuðningi að halda. Ég er í pólitík af hugsjón og hef unnið af heilindum að því að ná árangri í störfum mínum sem ráðherra. Nú legg ég mín verk í ykkar dóm og treysti á stuðning ykkar á kjördag.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra. Hann skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.

Categories
Fréttir Greinar

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Deila grein

27/11/2024

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Undanfarin þrjú ár hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan.

Þetta sýnir gríðarlega uppbyggingu í orkumálum en dregur jafnframt fram alvarlegan vanda: ný raforka fer oftar en ekki til stórnotenda eins og gagnavera og stóriðju, í stað þess að styrkja innviði sem styðja við almenning, minni fyrirtæki og sjálfbæra framleiðslu. Þessi þróun krefst þess að stjórnmálamenn setji skýrar reglur og hafi pólitískan kjark til að tryggja jafnvægi í nýtingu auðlinda okkar.

Ógn við innlenda framleiðslu

Núverandi kerfi styður við að raforka sé seld hæstbjóðanda á markaði, án þess að veita heimilum og minni fyrirtækjum vernd. Þetta veldur því að mikilvægar greinar eins og matvælaframleiðsla – landbúnaður og garðyrkja, sem eru ekki í nokkurri samkeppnisstöðu gagnvart stórnotendum, verða út undan. Áhrifin eru alvarleg – mikilvægir samfélagsþættir eins og fæðuöryggi, lýðheilsa og sjálfbærni eru í hættu.

Að glata fæðuöryggi og fjölbreytni atvinnulífsins

Garðyrkjubændur og önnur matvælafyrirtæki geta ekki keppt við stórnotendur á orkumarkaði. Hækkun raforkuverðs um 15 til 25%, eins og við höfum verið að sjá undanfarið, grefur undan samkeppnishæfni þeirra og leiðir til hærra matvælaverðs fyrir neytendur og þyngri álaga á framleiðendur sem ógna framtíð þeirra. Í ofanálag tala sumir flokkar um að lækka tolla á innfluttri matvöru, sem gæti gjörbreytt landslagi íslenskrar matvælaframleiðslu.

Erum við tilbúin að fórna heilnæmri innlendri framleiðslu, sem er gjaldeyrissparandi, vistvæn og styður við sjálfbærni, markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðir landsins?

Nýjar virkjanir leysa ekki vandann einar og sér

Ný og ný virkjun leysir ekki grunnvandann því engin trygging er fyrir því að raforkan rati í samfélagslega mikilvæg verkefni. Eins og staðan er í dag fer orkan þangað sem best er boðið – til stórnotenda með langvarandi samninga og sterka stöðu. Hér er ekki verið að tala gegn fjölbreyttum hópi stórnotenda heldur því að gætt sé að minni aðilum sem ekki eru í sömu samningsstöðu á okkar einangraða raforkumarkaði.

Framkvæmdir sem bæta raforkuöryggi

Við þurfum að sjá til þess að orkan okkar rati til þeirra verkefna sem talað er fyrir. Sem orkumálastjóri samþykkti ég eina metnaðarfyllstu kerfisáætlun í langan tíma. Framkvæmd hennar mun bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og auka nýtingu orkuauðlinda um allt land – sem er lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut jafnframt því að skapa hvata til þess að orkan rati til samfélagslega mikilvægra verkefna.

Við höfum gengið of langt í að treysta á markaðslögmál án þess að innleiða varnir fyrir almenning og venjuleg fyrirtæki. Núverandi löggjöf gefur löndum skýrar heimildir til að vernda minni aðila. Fjöldi landa hefur nú þegar innleitt slíkar heimildir í sitt regluverk til að tryggja jafnvægi í notkun auðlinda sinna – Ísland ætti ekki að vera undantekning.

Tilgangur stóriðjustefnunnar var aldrei að skapa markað þar sem almenningur og minni framleiðendur væru skildir eftir á hliðarlínunni eða þyrftu að keppa við stórnotendur á samkeppnismarkaði um orkuna. Hún var hönnuð til að tryggja ódýra og örugga orku fyrir samfélagið allt, byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og efla efnahagslega sjálfbærni. Því verðum við að endurskoða núverandi regluverk og tryggja að það styðji við þessa grunnþætti.

Tími fyrir pólitískan kjark

Núverandi kerfi setur almannahagsmuni í hættu og grefur undan sjálfbærni Íslands ef ekki er gripið inn í. Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að íslenskur almenningur vill hvorki borga evrópskt raforkuverð né missa innlenda matvælaframleiðslu.

Stjórnvöld verða að axla ábyrgð og hætta að treysta á blind markaðslögmál. Þau þurfa að innleiða reglur sem tryggja forgang heimila, minni fyrirtækja og matvælaframleiðslu að raforku. Það er ekki nóg að byggja upp fleiri virkjanir ef ekki er tryggt að sú orka nýtist í þágu þeirra verkefna sem talað er fyrir og samfélagið kallar eftir.

Ég ætla að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu almannahagsmuna, fjölbreytts atvinnulífs og innlendrar framleiðslu. Ég ætla að tryggja að íslenskur almenningur og venjuleg fyrirtæki hafi aðgang að raforku á sanngjörnum kjörum, svo við missum hvorki matvælaframleiðslu né sjálfbærni úr höndum okkar.

Við eigum ekki að láta tækifærin sem náttúran hefur gefið okkur fara forgörðum. Það er okkar ábyrgð að nýta þau skynsamlega – fyrir Íslendinga, atvinnulífið og komandi kynslóðir.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 25. nóvember 2024.

Categories
Greinar

108 ár – hverjum treystir þú?

Deila grein

27/11/2024

108 ár – hverjum treystir þú?

Íslensk stjórnmál hafa gengið í gegnum ótal umbreytingar síðustu áratugi. Flokkar hafa komið og farið, öfgar hafa verið reiddar fram og óstöðugleiki hefur oft sett mark sitt á landslagið. En eitt stendur upp úr sem stoð í íslenskri samfélagsgerð: Framsóknarflokkurinn. Með 108 ára sögu er Framsókn meira en bara stjórnmálaflokkur – hann er hluti af íslenskri sjálfsmynd og byggir á grunni trausts, stöðugleika og framtíðarsýnar.

Arfleifð byggð á trausti

Frá upphafi hefur Framsókn haft að leiðarljósi að vinna fyrir fólkið í landinu. Með sterkum rótum í sveitum og sjávarbyggðum hefur flokkurinn staðið vörð um hagsmuni alþýðunnar, jafnað réttindi lands og borgar og skapað grundvöll fyrir hagvöxt og velferð. Hvað sem á hefur gengið, hefur Framsókn sýnt og sannað að flokkurinn stendur fyrir lausnum sem virka í raunheimum, ekki bara í orðum.

Við sjáum þetta í stórkostlegum umbótum á sviði húsnæðismála, í aukinni áherslu á stuðning við fjölskyldur og í þrautseigju flokksins að tryggja stöðugleika í efnahagslífi. Þegar aðrir hafa tapað áttum hefur Framsókn staðið vörð um almannahagsmuni – af ábyrgð og yfirvegun.

Forysta framtíðarinnar

Þrátt fyrir sögulega arfleifð snýst Framsókn ekki um að horfa aðeins til baka. Það er vilji flokksins til að nýta reynsluna og samtvinna hana við nýsköpun sem gerir hann einstakan. Framsókn vinnur ekki aðeins fyrir nútímann heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Stefna flokksins í loftslagsmálum, stafrænu Íslandi og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins endurspeglar þessa sýn.

Ungt fólk er að vakna til vitundar um að Framsókn sé ekki bara flokkur fortíðarinnar heldur líka flokkur framtíðarinnar. Með framsæknum leiðtogum sem setja hagsmuni fólks ofar pólitísku leikriti er Framsókn leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.

Hverjum treystir þú?

Treystir þú þeim sem koma og fara með háværan skarkala? Eða þeim sem standa fastir fyrir, jafnvel í mótlæti? Treystir þú flokki sem hefur 108 ára reynslu af því að byggja upp samfélag?

Veldu stöðugleika. Veldu lausnir sem virka. Veldu Framsókn.

Þetta er spurning um traust – og svarið hefur verið augljóst í 108 ár.

Kjartan Helgi Ólafsson skipar 10. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Engin miðja án Framsóknar

Deila grein

26/11/2024

Engin miðja án Framsóknar

Sam­talið við kjós­end­ur er það skemmti­leg­asta við stjórn­mál­in. Kom­andi kosn­ing­ar skipta miklu máli fyr­ir næstu fjög­ur ár. Kann­an­ir helgar­inn­ar sýna að Fram­sókn á á bratt­ann að sækja. Við fram­bjóðend­ur flokks­ins finn­um hins veg­ar fyr­ir mjög hlýj­um straum­um og trú­um því að okk­ar fjöl­mörgu verk í þágu sam­fé­lags­ins nái í gegn fyr­ir kosn­ing­arn­ar hinn 30. nóv­em­ber.

Við finn­um að fólk kann ein­mitt að meta að Fram­sókn hafi frek­ar ein­beitt sér að því að klára verk­efn­in í stað þess að taka þátt í reglu­leg­um deil­um Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri grænna. Því fylg­ir ábyrgð að stjórna landi.

Við heyr­um líka að mörg­um hrýs hug­ur við að upp úr kjör­köss­un­um komi hrein hægri­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Viðreisn­ar og Miðflokks með til­heyr­andi svelti­stefnu, niður­skurði og van­hugsaðri einka­væðingu rík­is­eigna.

Nú eða hrein ESB-stjórn Pírata, Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar, sem mun hækka skatta og leggja gjörv­allt stjórn­kerfið und­ir aðlög­un­ar­ferli að Evr­ópu­sam­band­inu næstu árin með til­heyr­andi átök­um í þjóðfé­lag­inu.

Aðild að ESB mun leiða af sér minni hag­vöxt og framsal á full­veldi Íslands, þar með talið í auðlinda­mál­um. Það eru staðreynd­ir.

Við þurf­um ekki fleira til þess að ala á ósætti og óvissu í sam­fé­lag­inu. Eini val­kost­ur­inn til þess að koma í veg fyr­ir fyrr­nefnd stjórn­ar­mynst­ur er að kjósa Fram­sókn, flokk­inn á miðjunni, sem hef­ur einn stjórn­mála­flokka fylgt þjóðinni sam­fellt í meira en heila öld. Það er eng­in miðja án Fram­sókn­ar, og eng­in fram­sókn án miðju.

Mik­il­væg­asta verk­efnið fram und­an er áfram­hald­andi lækk­un vaxta og verðbólgu.

Því er ekki að neita að verðbólga í kjöl­far for­dæma­lauss heims­far­ald­urs og stríðsins í Evr­ópu hef­ur tekið á. Þá missti 1% þjóðar­inn­ar hús­næði sitt vegna jarðhrær­ing­anna í Grinda­vík. Stjórn­völd tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við sam­fé­lagið í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins, þegar 20.000 störf hurfu og margs kon­ar starf­semi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í sam­fé­lagi sem lenti á báðum fót­um.

Það er hins veg­ar ánægju­legt að mark­viss­ar og samþætt­ar aðgerðir op­in­berra aðila og aðila vinnu­markaðar­ins séu farn­ar að skila sér í lækk­un stýri­vaxta, sem hafa lækkað um 75 punkta síðan í októ­ber. Árang­ur í þessa veru ger­ist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tóma­rúmi kosn­ingalof­orða. Þetta er staðfest­ing á að stefna okk­ar virk­ar sem miðar að því að ná niður vöxt­um og verðbólgu. Við erum með ábyrga efna­hags­stefnu og með nægj­an­legt aðhald og skýra for­gangs­röðun í rík­is­fjár­mál­um. Við í Fram­sókn vilj­um halda áfram á þeirri braut og ósk­um eft­ir stuðningi í þau verk.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Willum Þór – fyrir konur

Deila grein

26/11/2024

Willum Þór – fyrir konur

Í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra hefur hann unnið markvisst að kvenheilsumálum, sem hafa oft verið vanrækt í heilbrigðisumræðunni. Þrátt fyrir að kvenheilsa sé grundvallaratriði í lýðheilsu hafa þessi mál ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Willum hefur því lagt sig fram um að lyfta þessum málaflokki upp samhliða öðrum mikilvægum verkefnum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%. Til að styðja betur við forvarnir lækkaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, gjald fyrir brjóstaskimun úr rúmlega 6.000 krónum í 500 krónur, sem er sami kostnaður og fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni. Þessi breyting á að hvetja fleiri konur til þátttöku, en það er áhyggjuefni að þátttaka í skimunum hefur dregist saman, sérstaklega meðal yngri kvenna og innflytjenda.

Nýtt samkomulag um aðgerðir vegna endómetríósu

Willum Þór Þórsson stóð einnig fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu. Hér er um að ræða mikilvægt skref sem hefur bætt líf fjölda kvenna og staðfestir á sama tíma alvarleika sjúkdómsins sem alltof lengi fékk litla sem enga athygli. Endómetríósa, oft kölluð endó, er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn veldur meðal annars bólgum og innvortis blæðingum og hefur margvísleg áhrif á daglegt líf. Samningurinn veitir þeim sem glíma við þennan þungbæra sjúkdóm aukið aðgengi að nauðsynlegri meðferð. Með þessu er staðfest að endómetríósa er ekki lengur bara „túrverkir“ sem hægt er að harka af sér, heldur alvarlegur sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega.

Aukin greiðsluþátttaka í tæknifrjóvgun

Þá hefur Willum lagt til aukna greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Drög að nýrri reglugerð hafa verið birt í samráðsgátt þar sem gert er ráð fyrir föstum styrkjum í stað hlutfallsbundinnar greiðsluþátttöku. Samkvæmt nýju reglugerðinni munu einstaklingar fá 150.000 kr. í styrk fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400.000 kr. fyrir hverja meðferð frá annarri til fjórðu. Þetta er mikil breyting frá núverandi kerfi þar sem greiðsluþátttaka var 5% fyrir fyrstu meðferð og 65% fyrir meðferðir 2-4. Með þessu aukast styrkir fyrir fyrstu meðferð sexfalt og fyrir meðferðir 2-4 um tæpar 90.000 kr. fyrir hverja meðferð. Þessar breytingar gera kostnað við tæknifrjóvgun fyrirsjáanlegri og létta verulega á þeim einstaklingum sem þurfa þessa dýru meðferð. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2025. Willum Þór Þórsson hefur sýnt og sannað að hann gengur í verkin og klárar þau. Við treystum honum til þess að leiða okkur áfram.

Tryggjum Willum á þing!

Heiðdís Geirsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, frambjóðendur Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.