Categories
Fréttir Greinar

Fyrir þau sem stoppa stutt

Deila grein

13/11/2025

Fyrir þau sem stoppa stutt

Á síðustu árum hefur heimsendingarþjónusta á vörum og mat aukist verulega, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins. Neytendur hafa í auknum mæli tileinkað sér þau þægindi sem felast í að fá sendar vörur og mat beint heim að dyrum, og hafa matar- og vöruinnkaup í gegnum netið orðið fastur hluti af daglegu lífi fjölmargra. Þessi þróun hefur þó skapað áskoranir í miðborginni, þar sem aðgengi bíla er takmarkað og bílastæði ofanjarðar fá. Sendibílstjórar og aðrir sem sinna skammtímaakstri neyðast oft til að leggja ólöglega eða langt frá áfangastað, sem veldur seinkunum, truflunum í umferð og eykur hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Aðilar sem stunda heimsendingarþjónustu hafa bent á mikilvægi þess að svæði séu hönnuð þannig að hægt sé að sækja vörur og mat án þess að þurfa að leggja langt frá þeim stað þar sem sækja á varninginn, og án þess að greiða háar fjárhæðir fyrir aðeins 5-10 mínútna stopp. Skortur á skammtímastæðum leiðir til þess að tími og kostnaður sendibílstjóra eykst, sem bitnar bæði á fyrirtækjum og neytendum.

Sleppistæði, þar sem heimilt væri að staldra við í stuttan tíma án gjaldtöku, myndu leysa stóran hluta þessara áskorana. Með þeim væri hægt að tryggja fljótlegt og öruggt aðgengi fyrir þá þjónustu sem einungis krefst þess að stoppað sé í skamma stund. Slík stæði myndu ekki aðeins bæta starfsskilyrði fyrir heimsendingarþjónustu, heldur einnig gagnast leigubílum sem sinna farþegum í miðborginni og velferðarþjónustu sem afhendir mat og lyf heim til fólks og sér um akstursþjónustu.

Raunhæfar lausnir

Skipulagning á sleppistæðum myndi stuðla að betra flæði í miðborginni, draga úr ólöglegum stoppum og bæta upplifun og öryggi bæði íbúa og gesta. Við í Framsókn viljum horfa til raunhæfra lausna sem bæta daglegt líf borgarbúa og styrkja atvinnulífið í miðborginni. Því lögðum við til að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að móta tillögur um útfærslu skammtímasleppistæða í miðborg Reykjavíkur í nálægð við veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni. Þrátt fyrir að tillagan sé skynsamleg og í takt við þá þróun sem á sér stað í borgum víða um heim ákvað borgarstjórnarmeirihlutinn að hafna henni. Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins felldu tillöguna. Það er sorglegt að þau virðast ekki sjá þörfina fyrir að bæta umferðarflæði né styðja við atvinnulífið í miðborginni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Akra­nes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu

Deila grein

12/11/2025

Akra­nes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu

Það er eitthvað fallegt við þann tíma árs þegar við setjumst niður og förum yfir fjárhagsáætlun bæjarins. Flestir sjá kannski bara töflur, línur og tölur – en fyrir mér sem bæjarfulltrúa, er þetta aðeins meira en það. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er ekki bara Excel-skjöl og útgjaldaliðir. Hún er spegilmynd þess hvernig við sem samfélag viljum forgangsraða. Hverju við veljum að hlúa að. Hún segir frá gildum okkar, framtíðarsýn og þeirri ábyrgð sem við berum gagnvart fólkinu sem heldur bænum gangandi.

Við erum að koma út úr einu mesta uppvaxtarskeiði í sögu Akraneskaupstaðar. Á örfáum árum hefur bæjarfélagið tekið gríðarlegum breytingum. Hér hefur verið byggt, endurnýjað, stækkað og þróað. Við höfum fjárfest í nýjum íþróttamannvirkjum (fimleikahúsi, reiðhöll, golfskála, stórglæsilegu fjölnota íþróttahúsi), byggt við Dvalarheimilið Höfða, endurbætt báða grunnskólana og reist nýjan leikskóla. Þetta hefur verið gert samtímis og við höfum þurft að fara í umfangsmiklar viðgerðir á eldra íþróttahúsi bæjarins og ýmsum stofnunum. Þetta hefur kostað mikla peninga og fórnir – en það hefur líka verið fjárfesting í framtíðinni. Sem betur fer var bærinn vel undirbúinn og hefur ekki þurft að taka eins mikið að láni og ætla mætti. Það er merki um ábyrga fjármálastjórn og sterkan grunn.

En nú er kominn tími til að hægja á. Að setjast niður, draga andann djúpt – og hugsa um akurinn.

Tími til að hlúa – ekki aðeins að byggja

Við höfum verið dugleg að reisa og byggja, en garðurinn þarf meira en steypu og stál. Hann þarf að fá tíma, næringu og umhyggju. Ef við viljum uppskera áfram, þá verðum við að vökva. Því það sem raunverulega heldur bænum okkar uppi er ekki húsin eða mannvirkin – heldur fólkið. Starfsfólkið sem sinnir börnunum okkar, styður aldraða, heldur bænum hreinum og tryggir þjónustu við íbúa, starfsmenn stjórnsýslunnar og starfsmenn Fjöliðjunnar sem taka við dósunum okkar. Svona mætti lengi áfram telja.

Álagið hefur aukist, kröfurnar hækkað og stjórnsýslan orðið flóknari. En stuðningurinn hefur ekki alltaf fylgt með. Það er ekki áfellisdómur – heldur ákall. Það eru allir að gera sitt besta við oft erfiðar aðstæður. Nú er kominn tími til að huga að fólkinu sem bærinn byggir á. Þetta er eins og með fjölskylduna okkar, þau vita alveg að við elskum þau en stundum mættum við vera duglegri við að segja þeim það!

Ég hef oft líkt Akranesi við garð. Það dugir ekki að sá og stinga niður stiklum ef við gleymum að vökva. Þá vex illgresið og ræturnar visna. Við getum ekki ætlast til ríkulegrar uppskeru ef við hlúum ekki að jarðveginum.

Skipurit, traust og samtal

Það eru nú tvö ár síðan við hófum vinnu við nýtt skipurit. Markmiðið er gott – að gera stjórnsýsluna skilvirkari, skýrari og nær fólkinu. En teikning á blaði breytir engu ef hún er ekki lifandi. Skipurit virkar aðeins ef það er byggt á trausti, hlustun og þátttöku. Starfsfólkið þarf að skilja tilganginn og fá að taka þátt í ferlinu. Það er ekki nóg að segja fólki hvert það eigi að fara – það þarf að skilja af hverju það er á ferðinni. Þá verða breytingar ekki ógn, heldur tækifæri.

Að nýta betur, ekki skera niður

Við verðum líka að horfa heiðarlega á kostnað. Sérstaklega þann sem tengist aðkeyptri þjónustu. Það hefur verið bent á þetta í mörg ár – en lítið gerst. Nú þurfum við að spýta í lófana. Það þarf að liggja fyrir heildstæð greining á stöðunni, forgangsröðun og gagnsæi. Kjörnir fulltrúar eiga að hafa skýra mynd af raunveruleikanum – og vinna í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk. Þetta snýst ekki um niðurskurð. Þetta snýst um að nýta betur. Að taka upplýstar ákvarðanir, byggðar á gögnum, samráði og trausti.

Starfsfólk er fjárfesting, ekki kostnaður

Eitt af því leiðinlegast við fjárhagsáætlun er þegar það er stanslaust verið að tala um kostnað, kostnað, kostnað. Það er mikilvægt að líta á mannauðinn sem fjárfestingu en ekki sem kostnað sem hægt er að stilla til eftir þörfum. Með því að styðja starfsfólk í fræðslu, þróun og aukinni starfsánægju byggjum við upp sterkara samfélag. Fólk sem finnur til virðingar, hefur skýran tilgang og tækifæri til að vaxa í starfi skilar betri þjónustu og meiri stöðugleika – bæði til framtíðar og í daglegum rekstri.

Ég vil að Akraneskaupstaður sé vinnustaður sem fólk er stolt af. Staður þar sem það finnur að það skiptir máli. Þar sem virðing, samvinna og traust eru ekki slagorð, heldur raunveruleg gildi í daglegu starfi. Þegar við hlúum að fólkinu okkar, hlúum við að framtíð bæjarins.

Liðsheildin Akranes

Við þurfum líka að hætta að hugsa í einingum og sviðum – og byrja að hugsa í tengslum. Akranes er ekki safn deilda sem keppast um fjármuni, heldur eitt lið. Ég líki þessu stundum við ÍA – liðsheild sem nær árangri þegar allir vinna saman. Starfsfólk bæjarins á ekki að finna að það starfi fyrir sitt „félag“, heldur fyrir Akranesliðið. Þegar við róum í sömu átt, með trausti, gagnsæi og virðingu, þá eykst leikgleðin – og árangurinn líka.

Framtíð með hjarta

Við stöndum á tímamótum. Við höfum gert ótrúlega hluti, byggt upp sterka bækistöð og fjárfest í framtíðinni. Nú þurfum við að staldra við, endurhugsa forgangsröðun og leggja áherslu á það sem ekki sést alltaf á fjárhagsáætlun – fólkið, menninguna, samfélagið.

Það er auðvelt að tala um niðurskurð. Það kveikir þó sjaldnast eldmóð. Við þurfum að tala um uppbyggingu – um hugrekkið til að breyta, um samtal, um ábyrgð og um ást á bænum okkar. Því þegar við hlustum á hvort annað, þegar við vinnum saman í stað þess að draga í sundur, þegar við hugsum með hjartanu jafnt og hausnum – þá blómstrar bærinn. Ekki bara á pappír, heldur í lífi fólksins sem hér býr og vinnur.

Akranes er garður sem hefur vaxið hratt. Nú er tími til að vökva hann, rækta hann og leyfa honum að dafna. Þá verður uppskeran ríkuleg.

Liv Åse Skarstad, bæjarfulltrúi Framsóknar og Frjálsra á Akranesi

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Deila grein

11/11/2025

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja sanngjarna skattlagningu sem endurspeglar raunverulega stöðu íbúa og atvinnulífs. Á kjörtímabilinu höfum við lagt áherslu á að bregðast við ósanngjörnum hækkunum á fasteignaskatti sem hafa bitnað á heimilum og fyrirtækjum og eru tilkomnar vegna mikilla hækkana á fasteignamati á undanförnum árum. Til að mæta þessari þróun og breyttu vaxtaumhverfi hafa bæjarfulltrúar Framsóknar lagt fram tillögur um að sveitarfélagið lækki sín álagningarviðmið, þannig að íbúar og fyrirtæki greiði ekki hærri fasteignaskatta milli ára en sem nemur verðbólgu ársins.  

 Mynd: Byggðastofnun. Hér vantar þó árið 2026 en hækkun á fasteignamati milli ára er þá 9,2.

Fasteignamat á Akureyri hefur hækkað verulega frá árinu 2022 eða um 60% á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir þetta hefur álagningarprósentan aðeins einu sinni verið lækkuð á kjörtímabilinu, og þá aðeins óverulega fyrir íbúðarhúsnæði, en ekkert fyrir atvinnuhúsnæði. Þessar breytingar hafa haft í för með sér mikla hækkun fasteignaskatta á bæði heimili og fyrirtæki.

Tillaga að lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í takt við lækkun á íbúðahúsnæði

Við afgreiðslu fasteignagjalda í bæjarráði lögðum við bæjarfulltrúar Framsóknar fram tillögu þess efnis að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður um fjóra punkta í stað tveggja, úr 1,63% í 1,59%. Með þessari breytingu yrði hækkun fasteignaskatts í takt við verðbólgu ársins, líkt og íbúahúsnæði. Frá árinu 2022 hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri hækkað um 44%, og hefur skattbyrði fyrirtækja því aukist verulega án þess að álagningarhlutfallið hafi verið endurskoðað í samræmi við þær breytingar og krefjandi rekstrarumhverfi í háu vaxtaumhverfi.

Sanngirni og stöðugleiki í fyrirrúmi

Markmið Framsóknar er að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru rekstrarumhverfi sveitarfélagsins og sýna ráðdeild í rekstri til að koma til móts við hækkandi álögur á íbúa og fyrirtæki. Hluti af því er að bregðast við hækkunum á fasteignamati. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 8. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Bættar sam­göngur og betra sam­félag í Hafnar­firði

Deila grein

11/11/2025

Bættar sam­göngur og betra sam­félag í Hafnar­firði

Við leggjum mikla áherslu á að skapa öruggt og gott umhverfi fyrir alla vegfarendur í Hafnarfirði. Góð umferðamenning skiptir þar höfuðmáli. Hún byrjar hjá okkur sjálfum. Hún snýst um virðingu, tillitssemi og það að við tökum ábyrgð hvert á öðru í umferðinni. Þannig byggjum við upp bæ þar sem öryggi, þægindi og umhverfisvitund haldast í hendur.

Reykjanesbrautin frá Kaplakrika að N1

Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur skilað auknu og betra flæði umferðar og aukið öryggi til muna. Reykjanesbrautin er ein mikilvægasta samgönguæð landsins og hefur mikil áhrif á daglegt líf íbúa Hafnarfjarðar. Kaflinn frá Kaplakrika að N1 við Lækjargötu er sérstaklega mikilvægur, þar sem umferðaþungi hefur aukist jafnt og þétt. Ég hef átt í góðu samtali við Vegagerðina um þennan vegkafla sem er á samgönguáætlun.

Í lok þessa árs verður kynnt valkostagreining um væntanlegar framkvæmdir. Ég hef komið því skýrt á framfæri við Vegagerðina að þessi framkvæmd þurfi að vera í algjörum forgangi, ásamt þeim sjónarmiðum að umferðaflæði og öryggi verði tryggt á framkvæmdartíma. Ég mun sjá til þess að íbúar fái góða kynningu á þessari framkvæmd, sem er forgangsmál fyrir okkur Hafnfirðinga og samfélagið allt vegna tengingar við alþjóðaflugvöllinn. Stefnt er að verklokum þessara framkvæmda árið 2032.

Almenningssamgöngur niður Reykjavíkurveg

Verið er að vinna frumdrög Borgarlínu frá Fjarðarkaupum, niður Reykjavíkurveg að Firði. Þessi leið er lykiltenging í samgöngum bæjarins og hluti af ásýnd og sjarma Hafnarfjarðar. Við höfum átt uppbyggilegt og gagnlegt samstarf við Betri samgöngur um áformin þar sem áherslan er á lausnir sem bæta samgöngur án þess að skerða aðgengi eða gæði umhverfisins. Einnig er mikilvægt að góðar almenningssamgöngur nái alveg að Tækniskólanum. Fjölmargir nemendur Tækniskólans koma til með að nýta sér bættar almenningssamgöngur og því þarf að vera öflug stoppistöð við skólann.

Ég legg á það áherslu að ég mun ekki styðja það ef lagt verður til að rífa íbúðarhús til að koma fyrir Borgarlínu. Slíkt verður ekki gert á minni vakt.

Umferð eykst með komu Tækniskólans

Koma Tækniskólans á Suðurhöfnina í Hafnarfirði er mikið fagnaðarefni. Þar er einnig að fara af stað mikil uppbygging íbúða og þjónustu við Hvaleyrarbraut, Óseyrarbraut og Flensborgarhöfn. Með nýjum nemendum og starfsfólki í Tækniskólanum ásamt nýjum íbúum á svæðinu mun umferð aukast. Það kallar á gott skipulag og ný umferðarmannvirki við Flensborgartorg, Strandgötuna og við gatnamótin við Strandgötu og Reykjanesbraut. Unnið er að því að greina umferðina og koma með lausnir. Hér er um að ræða jákvæða þróun á þessu svæði sem eðli máls kallar á raunhæfar lausnir. Ég mun leggja á það áherslu að hægt verði að kynna slíkt fyrir íbúum ekki síðar en snemma á næsta ári.

Samvinna skilar árangri

Í Hafnarfirði leggjum við áherslu á samvinnu. Samvinnu við íbúa, fyrirtæki og opinbera aðila. Samstarfið við Vegagerðina og Betri samgöngur hefur verið traust og uppbyggilegt og saman erum við að móta framtíðarsýn sem gerir Hafnarfjörð að enn betri bæ til að ferðast um, búa í og starfa.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grindavík og samstaða þjóðar

Deila grein

11/11/2025

Grindavík og samstaða þjóðar

Tvö ár eru liðin frá því að Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa. Föstudagskvöldið stendur ljóslifandi í minni flestra Íslendinga, en þá þurftu íbúar bæjarins að yfirgefa heimili sín. Slíkir atburðir eru afar þungbærir en sem betur fer fátíðir í sögulegu samhengi. Íbúar Grindavíkur hafa sýnt einstaka þrautseigju og seiglu í þessum aðstæðum, bæði í því að finna sér nýjan samastað en um leið að huga að framtíð síns bæjar. Samstarf og samvinna við íbúa Grindavíkur var afar mikilvæg í öllum þessum hremmingum. Margt gekk vel en sumt hefði verið hægt að gera betur. Aðalatriðið er að þegar vá stendur fyrir dyrum er brýnt að við stöndum saman og setjum okkur í spor annarra.

Saga Grindavíkur er merk en byggð hefur verið þar frá landnámi. Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru þeir Molda-Gnúpur Hrólfsson og Þórir Vígbjóðsson. Þrátt fyrir hrjóstrugt og vatnssnautt land í gegnum aldirnar, þá nýttu Grindvíkingar sér auðlindir sjávar og fjörunnar til matar og fóðurs. Fiskur, söl, þang, fjörugrös og selir veittu mikilvægan viðbótarafla þegar hey og bithagar brugðust. Með dugnaði gátu Grindvíkingar lifað af í harðbýlu landi. Atvinnulífið hefur ávallt verið öflugt í Grindavík og sést það einna skýrast á öflugum fyrirtækjum bæjarins.

Jarðhræringarnar samtímans eru ekki eina áfallið sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa með. Um Jónsmessuleytið árið 1627 varð sá atburður sem lengi sat í minni Grindvíkinga en það var Tyrkjaránið svonefnda. Þá gerðu sjóvíkingar frá Alsír strandhögg á Íslandi, og bar eitt af fjórum skipum þeirra að landi í Grindavík. Talið er að sjóvíkingarnir hafi numið á brott um tólf einstaklinga frá Grindavík, en alls er talið að 400 manns hafi verið rænt af landinu öllu. Framsæknir einstaklingar í Grindavík og víðar á landinu standa fyrir því að minnast þessara atburða á næsta ári.

Þessi misserin er líf smám saman aftur að fæðast í hinum merka bæ Grindavík. Endurreisnin er hafin og afar ánægjulegt sjá dugnaðinn sem er þar á ferð. Ljóst er í mínum huga að fólkið frá Grindavík þurfti að fást við aðstæður sem reyndu gríðarlega á þrek þeirra og sálu. Við sem búum á þessu gjöfula landi en erfiða verðum ávallt að hafa það hugfast að hugsa um náunga okkar og sérstaklega þegar neyð blasir við. Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá þessum náttúruhamförum eru þau líklega sem heil eilífð í huga þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín. Ljóð Einars Benediktssonar á vel við:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2025.

Categories
Greinar

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Deila grein

06/11/2025

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu.

Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót, sem er ein sú mesta hækkun á landinu. Þetta er veruleg hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu.

Slík hækkun þýðir í raun að núverandi fasteignagjöld myndu hækka að sama skapi um 17,2 % ef ekki er brugðist við með breytingum á álagningarstuðli fasteignagjaldanna. Það myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna í Suðurnesjabæ.

Hækkun fasteignamats hefur einnig áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar. Þar er gjaldtakan bundin við fasteignamat, en það er hægt að breyta með ákvörðun bæjarstjórnar til að tryggja sanngirni og jafnræði milli íbúa.

Að standa vörð um heimilin í krefjandi efnahagsumhverfi

Á síðasta fundi bæjarstjórnar, þann 5. nóvember 2025, lögðum við – bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar ásamt Magnúsi S. Magnússyni – fram tvær tillögur við vinnu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2026.

Á tímum þar sem háir vextir, þrálát verðbólga og mikill kostnaður á húsnæðismarkaði þrýsta á heimilin, viljum við tryggja að sveitarfélagið bæti ekki við þá byrði. Því leggjum við til að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði í Suðurnesjabæ verði óbreyttir árið 2026.

Efnahagslegt ástand hefur verið krefjandi um langt skeið, háir vextir hafa aukið greiðslubyrði heimila, verðbólga hefur dregið úr ráðstöfunartekjum og húsnæðismarkaðurinn er í ójafnvægi. Við teljum að í slíku ástandi beri sveitarfélaginu að sýna samfélagslega ábyrgð og hófsemi í gjaldtöku. Við leggjum því til að fasteignaskattar hækki ekki árið 2026.

Jafnræði í vatnsgjöldum

Önnur tillaga okkar snýr að því að leiðrétta ósanngjarnt misræmi í vatnsgjöldum milli íbúa í Sandgerði og Garði.

Við leggjum til að sveitarfélagið noti sömu reikni stuðla og HS Veitur í Garðshluta við útreikning á köldu vatni, svo allir íbúar greiði samkvæmt sama kerfi. Það er einfaldlega óeðlilegt að íbúar í sama sveitarfélagi greiði gjöld eftir mismunandi reglum – þar sem annars staðar er miðað við fasteignamat, en annars staðar við rúmmetra.

Slíkt misræmi gengur gegn jafnræði og gagnsæi, og Framsókn mun halda áfram að beita sér fyrir því að réttlæti og samræmi ráði í allri gjaldtöku sveitarfélagsins.

Ábyrgð í þágu íbúa

Við fögnum því að bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögum okkar til frekari vinnu við fjárhagsáætlun 2026. Það er skref í rétta átt – og vonandi merki um að meirihlutinn sé tilbúinn að taka undir ábyrgðina gagnvart íbúum.

Framsókn í Suðurnesjabæ mun áfram standa vörð um heimilin, hagsmuni íbúa og ábyrga fjármálastjórn sem byggir á jafnræði, hófsemi og heilbrigðri forgangsröðun.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 6. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Frosta­veturinn mikli

Deila grein

05/11/2025

Frosta­veturinn mikli

Það er ekki laust við að það hafi gengið illa hjá ríkisstjórninni að ná heyinu í hlöðu á hinu svokallaða “verðmætasköpunarhausti” sem boðað var af miklum móð seinni part sumars. Ríkisstjórnin virðist þó hafa verið meira spennt fyrir því að ætla að skattleggja atvinnuvegi, sér í lagi þá sem skipta mestu máli fyrir landsbyggðina ef vel gengi í verðmætasköpunarhaustinu. Því hið meinta verðmætasköpunarhaust sem boðað var átti nefnilega að vera upptaktur af skattlagningu á skattlagningu ofan á atvinnuvegina. Það var byrjað með áhlaupi á útgerðina í vor. Kjarnorkuákvæðinu var beitt til að beygja andstöðuna í duftið og svo skáluðu stjórnarliðar vel og vandlega fyrir því að hafa haft útgerðina undir. Þau áttuðu sig kannski ekki að svona hlutir hafa afleiðingar sem eru farnar að birtast nú þegar í uppsögnum starfsfólks, sölu á skipum og lokun á fiskvinnslum.

Það snjóaði snemma

Um það leyti sem verðmætasköpunarhaustið var boðað hjá ríkisstjórninni fóru hins vegar skýin að hrannast upp og fyrstu hretin fóru að gera vart við sig. PCC á Bakka búið að loka og óvíst að það opni aftur, Play fór í þrot, nær 70% af framleiðslugetu álversins á Grundartanga úr leik, fasteignamarkaðurinn botnfrosinn og samdráttur í ferðaþjónustu sem birtist meðal annars í hópuppsögn og minna framboði hjá Icelandair. Einnig er algjör óvissa í lánamálum vegna dóms Hæstaréttar þar sem ríkisstjórnin var ekki tilbúin með aðgerðir til að bregðast við, þrátt fyrir að það hafi legið fyrir mjög lengi að þetta yrði líklega niðurstaðan. Svo ofan í kaupið er verið að bæta hlaðborði af sköttum og álögum á venjulegt fólk í framlögðu fjárlagafrumvarpi. Svo sem vörugjöld á bíla, kílómetragjald og skattlagningu á ferðamenn. Allt þetta er síðan gert í kraft þeirrar sannfæringar að það sé „gott“ fyrir fólk að borga þessa skatta til að auka veg ríkisbáknsins af því að ríkisstjórnin kunni betur að fara með þessa peninga en fólkið í landinu.

Kafaldsbylur

Þegar hretið sem gekk yfir þjóðina var farið að breytast í byl ákvað Frostavetursríkisstjórnin að boða til fundar til að kynna stóran húsnæðispakka. Sem reyndist eftir á að hyggja vera meira í líkingu við smápakka eða skógjöf á aðventunni. Þar var aftur tilkynnt um enn eina skattlagninguna sem í þetta skiptið beinist gegn leigutekjum þeirra einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð. Sem mun aðeins gera eitt, leigan mun hækka. Sem aftur mun hafa áhrif á vísitölu neysluverðs og skapa hækkandi verðbólgu sem mun þýða enn hærri vexti og lánin hjá almenningi hækka. Það var reyndar einnig tilkynnt að það ætti að byggja nokkur þúsund íbúðir í almenna íbúðakerfinu fyrir venjulegt fólk, það gleymdist bara að taka fram að það kerfi er fyrir fólk undir tekju og eignamörkum og er leigukerfi en ekki eigna fyrirkomulag. Þannig að ríkisstjórnin ætlar að reyna halda fólki á leigumarkaði frekar en að fólk geti eignast eigið húsnæði. En það hefði hún getað gert með því að miða aðgerðir að lækkun verðbólgu og lækkun vaxta.

Átakanlegt aðgerðaleysi

Þegar allt þetta er saman dregið er komin kreppa á Íslandi.

Hundruðir einstaklinga hafa misst vinnuna, fyrirtæki eru byrjuð að fara í þrot, verðbólga hækkar bara, vextir lækka ekki neitt, húsnæðismarkaður og byggingargeirinn að leggjast í dvala og ekkert er gert. Ríkisstjórnin hefur öll vopn í höndum sínum til að snúa þessu við en trú þeirra á sinn eigin sannleika um hvernig samfélaginu skal fyrir komið vefst fyrir þeim. Það þarf nefnilega ennþá að framleiða og búa til verðmæti til þess að standa undir velferð. Verðmætin verða ekki til í ríkissjóði þau verða til hjá fyrirtækjunum í landinu. Ríkisstjórnin gæti til að mynda sett myndarlegt framlag í markaðsetningu í ferðaþjónustu og fjölgað ferðamönnum á ný, aukið gjaldeyristekjur fjölgað störfum o.s.frv. Þetta hefur ferðaþjónustan sjálf meðal annars bent á. Hún gæti líka losað um höft á húsnæðismarkaði með lagasetningu á sveitarfélög til að tryggja framboð á byggingarlóðum og svo margt margt fleira.

Frasapólitíkin hefur náð yfirhöndinni með stórum orðum en engu innihaldi. Það er ekkert plan, sleggjan er horfin og sennilega er hann genginn í garð veturinn sem allir óttuðust; Frostaveturinn mikli.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, ritari Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar veikindi mæta van­trú

Deila grein

05/11/2025

Þegar veikindi mæta van­trú

Það er fátt sem reynir meira á mann en að verða veikur, nema kannski að upplifa að manni sé ekki trúað. Þegar líkaminn bregst, en samfélagið virðist efast. Þegar fólk sem stendur í daglegu stríði við orkulítið líf og stöðug hjartsláttarónot finnur að kerfið sér það ekki.

Undanfarin misseri höfum við heyrt af einstaklingum glíma við langvinn veikindi í kjölfar COVID-19, veikindi sem reyna bæði á líkama og sál. Sjúkdómar á borð við POTS, ME og langvinn einkenni eftir COVID hafa sýnt okkur að líkaminn bregst á margbreytilegan hátt við veiru sem við þekktum ekki fyrir fáum árum. Þrátt fyrir að þekkingin hafi aukist verulega er enn margt óljóst og vísindin eiga langt í land með að skýra allar orsakir eða finna viðurkenndar meðferðir.

Í slíkri stöðu er það ekki aðeins erfitt að vera veikur heldur einnig að finna fyrir vantrú.

Margir sjúklingar hafa lýst því að hafa fundið meðferð sem bætir líðan þeirra, eins og vökvagjöf í æð, sem hefur dregið úr einkennum og gert þeim kleift að lifa eðlilegra lífi.

Þegar ákveðið var að hætta niðurgreiðslu þeirrar meðferðar án þess að önnur úrræði kæmu í staðinn, upplifðu mörg vonleysi. Að lífsgæðin sem þeir höfðu endurheimt væru tekin af þeim á ný.

Hvers vegna núna?

Sjúkratryggingar Íslands hafa vísað til þess að meðferðin sé ekki gagnreynd og því ekki réttlætanlegt að niðurgreiða hana. Slíkt sjónarmið er skiljanlegt þar sem kerfið verður að byggjast á áreiðanlegum grunni og gagnreyndri þekkingu.

En það sem vekur spurningar er tímasetningin.

Vökvagjöf í æð hefur verið niðurgreidd um árabil, á meðan full vitneskja var um að meðferðin væri ekki formlega gagnreynd fyrir þessa sjúkdóma og heilkenni. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að slík breyting sé rökstudd og að tryggt sé að aðrir valkostir standi til boða áður en niðurgreiðsla fellur niður þar sem sjúklingar eiga ávallt rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þá hafna Sjúkratryggingar Íslands greiðsluþátttöku á ýmsum gagnlegum hjálpartækjum og lyfjum fyrir þennan sárþjáða hóp. Þess ber að geta að margir sjúklingar innan þessa hóps eiga erfitt fjárhagslega eftir að vera lengi frá vinnu vegna veikinda. Auk þess vekur það spurningar þegar ráðherra styður ákvörðun SÍ um stöðvun niðurgreiðslu en felur landlækni á sama tíma að setja á fót og leiða vinnuhóp til að fjalla um heilbrigðisþjónustu við sjúklinga með sjúkdómsheilkenni sem á ensku kallast post-acute infection syndromes, skammstafað PAIS. Undir þetta falla meðal annars langvinnt COVID, ME-sjúkdómur og POTS en talsverð skörun getur verið þarna á milli og einkenni geta verið afar fjölbreytt og mismunandi.

Lærdómur úr sögu læknavísindanna

Við megum ekki gleyma að saga læknavísindanna er löng og oft illskiljanleg í upphafi. Það er ekki óalgengt að meðferðir sem síðar reyndust gagnlegar hafi verið notaðar löngu áður en vísindin gátu skýrt af hverju þær virkuðu. Við höfum áður séð að sjúkdómar sem voru áður taldir geðrænir eða ímyndaðir fengu síðar líffræðilega útskýringu og meðferð sem var upphaflega byggð á reynslu lækna og sjúklinga varð síðar staðfest með rannsóknum. Við verðum að gefa þessu ferli svigrúm, sérstaklega þegar lífsgæði fólks eru í húfi.

Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra hef ég óskað eftir svörum um hvernig tryggt hafi verið að málið væri unnið í samræmi við stjórnsýslulög, andmælarétt og rannsóknarskyldu stjórnvalda.

Var samráð haft við sjúklinga, sérfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk?

Var metið hvaða áhrif ákvörðunin hefði á lífsgæði og atvinnuþátttöku fólks?

Og var tekið tillit til réttmætra væntinga þeirra sem höfðu notið meðferðarinnar?

Heilbrigðiskerfi með hjarta

Heilbrigðiskerfið okkar á að byggjast á vísindalegri þekkingu og faglegum grunni.

En það þarf einnig að byggjast á samtali, trausti og virðingu fyrir reynslu sjúklinga.

Breytingar á meðferð eða þjónustu verða að vera yfirvegaðar og byggðar á raunhæfum lausnum áður en fyrri úrræði eru felld niður. Slíkt verklag er forsenda ábyrgra og farsælla ákvarðana og þjónustu.

Við stöndum nú frammi fyrir nýjum áskorunum í heilbrigðismálum. Faraldurinn hefur haft í för með sér fjölbreytt og langvinn einkenni sem kalla á opnari umræðu, fleirirannsóknir og nánara samstarf.

Til að mæta þessum áskorunum þurfum við að tryggja samvinnu stjórnvalda, heilbrigðisstarfsfólks, vísindasamfélagsins og sjúklinga.

Ég hvet hæstvirtan heilbrigðisráðherra til að endurskoða afstöðu sína í málinu og tryggja að enginn verði skilinn eftir.

Við verðum að sýna að íslenskt heilbrigðiskerfi byggir ekki aðeins á þekkingu og fagmennsku heldur einnig á hlustun, samkennd og mannúð.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Best að spyrja börnin

Deila grein

04/11/2025

Best að spyrja börnin

Okkar Mosó er skemmtilegt verkefni sem hingað til hefur hvatt hinn almenna íbúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku bænum til heilla.

Í ár breyttum við meirihlutinn áherslunni í Okkar Mosó og nefndum það Krakka Mosó 2025. Það er svo mikilvægt að efla rödd barna og ungmenna og þátttöku í lýðræði. Þetta er líka í fullu samræmi við áherslurnar í Barnvænu sveitarfélagi sem Mosfellsbær er að innleiða og er á lokametrunum með. Krakka Mosó er því liður í að efla lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í bæjarfélaginu og að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfið sitt með sinni sköpunargleði og krafti.

Framkvæmd Krakka Mosó

Verkefnið var útfært í nánu samstarfi við fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig og það eru Varmárskóli, Kvíslarskóli, Lágafellsskóli og Helgafellsskóli.

Til þess að svona verkefni verði að veruleika þarf mikla samvinnu á milli starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs ásamt bæjarstjóra og öðrum úr stjórnsýslunni og vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu.

Börnin og ungmennin fengu fræðslu um lýðræði og hvað felst í þátttöku í svona verkefni og eftir það fór fram hugmyndasamkeppni. Þau létu ekki sitt eftir liggja og komu fram með fullt af góðum hugmyndum sem stuðla að meiri útiveru, hreyfingu og leik í bænum okkar. Það var lagður mikill metnaður í kosningadaginn þann 20. maí 2025.

Íslenski fáninn var dreginn að hún, það voru kjörkassar á staðnum og hver skóli var með kjörstjórn og í henni voru tveir fulltrúar frá miðstigi, tveir fulltrúar frá unglingastigi auk formanns nemendaráðs. Á kjörskrá voru 1178 nemendur og 997 kusu sem er 85% kosningaþátttaka.

Skemmtileg leiktæki

Þrjár af öllum þessum hugmyndum fengu flest atkvæðin og er nú búið að framkvæma þær á þremur svæðum í bænum. Í Ævintýragarðinum er komin upp stór og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli, á Stekkjaflötinni er komin skemmtileg þrautabraut á vatni og á svæði við Rituhöfðann er komin snúningsróla og önnur leiktæki.

Við unga fólkið okkar vil ég segja takk fyrir að vera til fyrimyndar, sýna frumkvæði og sköpun og taka þátt í Krakka Mosó 2025. Með þessum skemmtilegu og góðu hugmyndum ykkar glæðið þið bæinn okkar enn meira lífi.

Framtíðin er björt, allir út að leika.

Halla Karen Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 30. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Allir út að leika!

Deila grein

04/11/2025

Allir út að leika!

Það er fátt sem gleður meira en að sjá bæinn okkar vaxa og dafna, ekki bara í tölum og framkvæmdum heldur einnig í lífi og leik.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið mikið unnið að því í Mosfellsbæ að bæta aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur. Í bæ þar sem íbúum fjölgar stöðugt og hlutfall barna og barnafjölskyldna er hátt, skiptir miklu máli að leik- og útivistarsvæði séu góð, örugg og aðgengileg.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni sem hefur átt sér stað á leikvöllum víðsvegar um bæinn, nýir og endurnýjaðir leikvellir eru nú orðnir enn meira áberandi hluti af bæjarmyndinni og það sýnir hversu mikla áherslu Mosfellsbær leggur á leik og samveru. Þessi uppbygging hefur verið eitt af áherslumálum Framsóknar og meirihlutans í Mosfellsbæ á kjörtímabilinu.
Má þar nefna leikvöllinn við Klapparhlíð, sem hannaður er með aðgengi fyrir öll börn í huga, leikvöllinn við Leirutanga, sem hefur fengið nýtt líf með gervigrasvelli, körfuboltavelli og fjölbreyttum leiktækjum, og nýju leikvellina við Liljugötu og Snæfríðargötu í Helgafellshverfi sem hafa þegar orðið vinsælir viðkomustaðir í hverfinu.
Eins hefur Ævintýragarðurinn fengið ýmsar viðbætur og lagfæringar sem heppnast hafa virkilega vel. Þá hefur leikvöllurinn í Lindarbyggð verið endurnýjaður og bættur til muna og er orðinn að skemmtilegu leik- og samverusvæði fyrir börn og fjölskyldur í hverfinu. Því til viðbótar hafa heilmiklar endurbætur átt sér stað við skólalóðir Varmárskóla og Lágafellsskóla, sem og leikskólalóðirnar við Hlíð og Hulduberg og Reykjakot. Að ógleymdu leiksvæðinu við nýjasta leikskóla bæjarins, Sumarhús í Helgafellshverfi.
Þessi leikvæði eru ekki bara staðir til að leika sér, þau eru hjartsláttur nærumhverfisins. Svæðin skapa rými þar sem börn fá að leika sér og efla hreyfigetu, og þar sem foreldrar hittast og mynda tengsl. Það að leggja áherslu á barnvænt umhverfi er ekki aðeins spurning um framkvæmdir, það snýst um lífsgæði. Með því að skapa aðstöðu sem hvetur til leiks, útivistar og samveru, erum við að styrkja grunninn að samfélagi þar sem börnum líður vel og allir fá að taka þátt.
Það er í raun þessi daglega samvera sem gerir samfélag eins og Mosfellsbæ að góðum stað til að ala upp börn.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 30. október 2025.