Categories
Fréttir Greinar

Frístundastyrkur og íþróttaskólinn

Deila grein

09/12/2025

Frístundastyrkur og íþróttaskólinn

Þegar íþróttaskóli HSV var stofnaður árið 2011 var stigið mikilvægt skref í að tryggja jafnt aðgengi allra barna í 1.–4. bekk grunnskóla að fjölbreyttu og uppbyggilegu íþróttastarfi. Markmiðið var skýrt; að fá sem flest börn til að iðka íþróttir, að fyrstu kynni yrðu jákvæð, að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum, auka almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu og ekki síst að lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna. Íþróttafélög sýndu sameiginlega ábyrgð, héldu æfingum fyrir þennan aldurshóp í hófi og rukkuðu ekki æfingagjöld yfir vetrartímann.

Breytt staða í íþróttastarfi yngstu barnanna

Á undanförnum árum hefur landslagið hins vegar breyst. Sum félög hafa dregið sig út úr íþróttaskólanum og önnur tekið gagnstætt skref með því að auka æfingatíðni og sérhæfingu hjá yngstu iðkendum.

Þegar rekstur íþróttaskólans færðist frá HSV til Ísafjarðarbæjar hefur þessi þróun orðið enn skýrari. Æfingum hefur fjölgað og æfingagjöld hækkað á sama tíma. Þetta hefur óumdeilanlega aukið fjárhagsábyrgð foreldra og skapað aðstöðumun milli barna.

Frístundastyrkur

Fyrir ári síðan lagði Framsókn til að komið yrði á frístundastyrk fyrir börn í 5. – 10. bekk grunnskóla sem eru utan íþróttaskólans. Rökin voru að gera sveitarfélagið enn samkeppnishæfara þegar kemur að búsetu ákvörðun fjölskyldufólks. Einnig sem hvatning fyrir börn á þessum aldri til íþrótta- og tómstundaiðkunar og styrkja það að öll börn geti tekið þátt óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.

Með breyttum forsendum og auknu fjárhagslegu byrði sem foreldrar standa frammi fyrir vegna íþróttaiðkunar barna var einhugur í skóla- íþrótta og tómstundanefnd nú að leggja til að færa frístundastyrkinn niður í 1. bekk. og halda óbreyttri upphæð sem er 40.000 kr. á ári á barn.

Ekki má gleyma því að frístundastyrkur nær út fyrir hefðbundið íþróttastarf. Hann getur nýst í tónlistarnám, listnám, dans og  aðrar skipulagðiar frístundir sem efla þroska, heilbrigði og félagsfærni barna.

Aukning styrkjapottarins úr 10 í 15 milljónir króna er ánægjulegt skref og mikilvægt til að tryggja að styrkurinn nái til fleiri barna. En slíkar ákvarðanir skila sér einungis ef þáttökugjöld í íþróttum- og tómstundum hækka ekki í kjölfarið og éta upp ávinninginn. Það er því lykilatriði að félög fari varlega í gjaldskrárbreytingar og taki virkan þátt í samfélagslegri ábyrgð gagnvart barnafjölskyldum.

Tími til að endurskoða hlutverk íþróttaskólans

Í ljósi breyttra aðstæðna er tímabært að endurskoða stöðu íþróttaskólans. Upphaflegt markmið hans hefur smám saman vikið fyrir aukinni sérhæfingu og hærri kostnaði. Nú þarf að spyrja: Hvaða hlutverki á íþróttaskólinn að þjóna til framtíðar? Hvernig má samræma starf íþróttafélaga og skólans þannig að hann verði raunverulegur vettvangur fyrir hreyfingu allra barna, óháð áhuga, getu eða efnahag?

Slík endurskoðun er ekki aðeins æskileg heldur nauðsynleg ef tryggja á að íþróttastarfið á svæðinu haldi áfram að þróast með hagsmuni barnanna í forgangi.

Áhyggjur vegna minnkandi þátttöku ungmenna

Athygli vekur að einungis um 70% barna í 5.–10. bekk hafa nýtt sér frístundastyrkinn það sem af er ári. Það gæti verið vísbending um að stór hópur barna og ungmenna taki ekki þátt í neinu skipulögðu íþrótta- eða frístundastarfi. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu þeirra til lengri tíma. Það er staða sem við megum ekki horfa framhjá.

Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa aðstæður sem hvetja börn til þátttöku, efla þau og styðja fjölskyldur. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og núna í okkar samfélagi þar sem áskoranir barnafjölskyldna hafa sjaldan verið meiri.

Elísabet Samúelsdóttir, bæjarfulltrúi og nefndarmaður í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðabæjar.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Veikar forsendur fjárlagafrumvarpsins

Deila grein

09/12/2025

Veikar forsendur fjárlagafrumvarpsins

Flestir þekkja söguna af manninum í Biblíunni sem reisti húsið sitt á sandi. Allt var í himnalagi þar til óveðrið skall á og leiddi í ljós að grunnurinn var veikur og húsið hrundi. Fjárlög sem byggjast á veikum forsendum eru af sama toga.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 virðist vera að lenda í sömu vandræðunum og hús mannsins sem reist var á sandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir mun minni hagvexti í ár eða 0,9% í stað 2,3%. Við blasir hagkerfi þar sem umsvif dragast saman og viðvarandi slaki hefur tekið við af tímabundinni kólnun. Fyrri forsendur um hagvöxt eru brostnar.

Röð áfalla í útflutningsdrifnum atvinnugreinum þjóðarbúsins hefur dunið á okkur, ásamt nýjum tollum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þessi staða hefur rýrt horfur um vöxt og tekjuöflun. Afleiðingin er sú að tekjustofnar ríkisins eru líklegir til að þróast með öðrum hætti en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Á sama tíma bendir Seðlabankinn á að árið 2026 geti orðið enn erfiðara, með minni fjárfestingu, auknu atvinnuleysi og slaka í þjóðarbúinu. Þetta hefur bæði áhrif á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs og kallar á meiri varfærni.

Óvissa er einkennandi fyrir flesta þætti efnahagskerfisins og nær ekki bara til útflutnings heldur einnig lánamarkaða, verðbólguvæntinga og gengisþróunar. Í slíkum aðstæðum ætti fjárlagagerð að byggjast á varfærnum forsendum og traustri áhættustýringu. Þrátt fyrir það er almennur varasjóður ríkissjóðs skorinn niður í 1% af heildarútgjöldum, sem er aðeins lögbundið lágmark. Í ljósi þess óvissustigs sem nú ríkir er eðlilegt að varasjóður sé frekar á bilinu 1,5-2% til að mæta þeim áföllum sem fyrirsjáanlegt er að geti átt sér stað.

Niðurstaðan er sú að forsendur fjárlaga næsta árs eru byggðar á of veikum grunni. Fjármálastefna sem miðast við þróttmikinn hagvöxt og öflugan útflutning endurspeglar ekki lengur efnahagslegan veruleika. Trúverðugleiki ríkisfjármála er forsenda þess að heildstæð efnahagsstefna njóti trausts. Þegar tekjuáætlanir byggjast á bjartsýni frekar en raunsæi, þá er hætt við að traustið minnki.

Ég hvet ríkisstjórnina til að sýna meiri fyrirhyggju, skerpa forgangsröðun og tryggja að opinber fjármál standist raunsæispróf. Að öðrum kosti má segja að verið sé byggja hús ríkisfjármálanna á sandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar fjár­lögin vinna gegn mark­miðinu

Deila grein

08/12/2025

Þegar fjár­lögin vinna gegn mark­miðinu

Fjárlög eru eitt mikilvægasta stýritæki stjórnvalda – sérstaklega þegar efnahagshorfur versna. En fjárlög 2026, eins og þau liggja fyrir, skortir nauðsynlega varfærni og byggja á veikum forsendum á tíma þegar hagvöxtur 2025 er langt undir væntingum og 2026 gæti reynst enn erfiðara ár. Í slíkri stöðu þarf skýrari forgangsröðun, meira aðhald og traustari áætlanagerð. Þess í stað blasir við útgjaldaaukning í sögulegu hámarki: 143 milljarðar milli ára af um 1.600 milljarða útgjöldum. Um leið eru vaxtagjöld komin í nýjar hæðir og hallinn verður áfram verulegur. Þetta vinnur gegn stöðugleika þegar þörfin er mest.

Trúverðugleiki ríkisfjármála – lykillinn að lægri vöxtum og verðbólgu

Það sem skiptir þó mestu er trúverðugleiki ríkisfjármála. Ríkisfjármálin eru lykilþáttur í því að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði til vaxtalækkana. Þegar útgjöld vaxa hratt, forsendur eru óhóflega bjartsýnar og halli viðvarandi dregur það úr trúverðugleika efnahagsstefnunnar. Afleiðingin getur orðið sú að verðbólguvæntingar haldast þrálátar og vaxtaálag verði hærra en ella. Ef markmiðið er að létta vaxtabyrði heimila og fyrirtækja þarf fjárlagagerðin að styðja við það markmið – ekki vinna gegn því.

Varasjóðurinn í lágmarki – minni viðnámskraftur gegn áföllum

Sérstaklega vekur athygli að almennur varasjóður ríkissjóðs er skorinn niður í um 1% – sem er lágmark samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það er gert á sama tíma og áhættur í efnahagslífinu hafa aukist, bæði heima og erlendis. Varasjóður er öryggisnet þegar forsendur bresta. Að halda honum í lágmarki við þessar aðstæður er ákvörðun sem veikir getu ríkisins til að bregðast við óvæntum áföllum.

Minnkandi trúverðugleiki ríkisfjármála

Þá er svigrúm stöðugleikareglunnar nýtt til fulls og hætt við að hún standist ekki þegar samspil útgjalda og tekna er metið. Þegar reglur um ábyrga hagstjórn eru teygðar í botn, rýrnar trúverðugleiki ríkisfjármála – og sá trúverðugleiki er forsenda þess að peningastefnan geti skilað árangri með lægri vöxtum. Vandinn er ekki aðeins tölulegur heldur líka kerfislægur: of víða eru markmið fjárlaga óljós og illa mælanleg, sem veikir getu Alþingis til að sinna fjárstjórnarhlutverki sínu. Fjárlög eiga að segja skýrt hvaða árangri er stefnt að – annars er Alþingi svipt raunhæfum grunni til að meta forgangsröðun og fylgja eftir framkvæmd.

Niðurstaða

Við þurfum fjárlög sem endurspegla efnahagslegan veruleika: meiri varfærni, burðugri varasjóð, skýrari markmið og raunhæfari forsendur. Fjárlög 2026 verða að draga úr áhættu – og vera hluti af lausninni til að ná niður verðbólgu og vöxtum, ekki þáttur í því að festa vandann í sessi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Opið bréf til heil­brigðis­ráðherra: Brýn þörf á heild­stæðum lausnum fyrir heil­brigðisþjónustu á Norður­landi

Deila grein

08/12/2025

Opið bréf til heil­brigðis­ráðherra: Brýn þörf á heild­stæðum lausnum fyrir heil­brigðisþjónustu á Norður­landi

Vandinn sem blasir við á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi er flókinn og margþættur. Í grunninn má þó rekja nær allan vandann til skorts á starfsfólki til að sinna þjónustunni.

Lokun endurhæfingar á Kristnesi um helgar hefur vakið sterk og skiljanleg viðbrögð en þar vantar átta stöðugildi svo hægt sé að halda úti óbreyttri þjónustu. Mikið álag hefur verið á lyflækningadeild og einnig ríkir óvissa vegna fyrirhugaðra uppsagna ferliverkasamninga við sérgreinalækna og hafa þrír læknar sagt upp. Þetta er keðjuverkandi mönnunarvandi sem snertir allt kerfið á svæðinu og því er nauðsynlegt að leita fjölbreyttra og samþættra leiða til að leysa hann.

Mönnun hefst í skólakerfinu

Nauðsynlegt er að ráðist verði í markvisst kynningarátak í framhaldsskólum á Norðurlandi þar sem námstækifæri í hjúkrun, sjúkraliðanámi, læknisfræði og öðrum heilbrigðisgreinum eru kynnt. Skilaboðin þurfa að vera skýr: hér eru tækifæri til starfa, hér er framtíð.

Hjúkrunarfræðinám við Háskólann á Akureyri er nú kennt sem lotunám en fjöldi nemenda af Norðausturlandi mætti vera mun meiri. Þá er enn beðið eftir hermisetri hjúkrunarfræðideildarinnar en það er nauðsynlegt til að styrkja aðstöðu fyrir verklega kennslu og þjálfun og þar með fjölga nemendum.

Viðurkenna þarf að landsbyggðin er dýrari og læra af reynslu Norðmanna

Það er einfaldlega dýrara að reka heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Því þarf að tryggja aukið fjármagn til SAk ásamt svigrúmi til launahvata og sértækra mönnunarúrræða. Við eigum jafnframt að horfa til þess sem Norðmenn hafa gert, þar sem öflugar fjarlækningar, sérhæfð þjónusta á svæðissjúkrahúsum og markvissir hvatar hafa verið notaðir til að tryggja örugga þjónustu á landsbyggðunum.

Sveitarfélagið verður líka að axla ábyrgð

Akureyri á að vera raunhæfur kostur fyrir hjúkrunarfræðinga, lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sem vill byggja líf sitt og starf á Norðurlandi. Við þurfum að fara í heildstæða skoðun á því hvað sveitarfélagið getur gert til að laða að fólk í nánu samstarfi við ríki og heilbrigðisstofnanir.

Fráflæðisvandinn

Fráflæðisvandi er nú þegar að þrýsta á lyflækningadeild SAk og endurhæfingu á Kristnesi. Ákvörðunin um að loka Kristnesi um helgar mun gera þennan vanda verri.

Það að 22 hjúkrunarrými á Hlíðarheimilinu hafi verið lokuð í nokkur ár er ólíðandi í þeirri stöðu sem nú er uppi. Það þarf að hraða opnun þessara rýma sem frekast er unnt og jafnframt skoða aðrar lausnir í millitíðinni til að mæta alvarlegum fráflæðis- og húsnæðisvanda.

Bráðaaðgerðir og langtímaáætlun

Við þurfum bæði tafarlausar aðgerðir og skýra langtímasýn.

Nú þegar þarf að tryggja mönnun á lyflækningadeild, verja endurhæfingu á Kristnesi og hraða opnun rýma á Hlíð. Á sama tíma liggur fyrir að byggja við Sjúkrahúsið á Akureyri og reisa nýtt hjúkrunarheimili. Spurningin sem við verðum að svara núna er einföld: hvernig ætlum við að manna þessa viðbót?

Ef ekki er gripið inn í nú þegar stöndum við frammi fyrir því að geta ekki lengur haldið uppi þeirri frábæru þjónustu sem starfsfólk á SAk, HNS og Heilsuvernd sinnir.

Góð skilyrði eru fyrir því að byggja upp trausta og framsækna heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi. Starfshópurinn sem nú vinnur að málinu þarf að horfa heildstætt á vandann og leita fjölbreyttra lausna í þverfaglegu samstarfi ráðuneyta og hlutaðeigenda. Þar þurfa sérstaklega að koma að ráðuneyti mennta-, heilbrigðis-, húsnæðis- og byggðamála, því aðeins með slíku samspili náum við varanlegum árangri.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjár­lögin 2026: Hvert stefnum við?

Deila grein

08/12/2025

Fjár­lögin 2026: Hvert stefnum við?

Ísland stendur frammi fyrir nýjum veruleika. Þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram í september sl. virtist hagkerfið á traustum grunni, en á örfáum vikum hafa forsendur breyst verulega. Nýjustu spár Seðlabankans gera ráð fyrir aðeins 0,9% hagvexti árið 2025 og bankinn telur jafnvel líklegt að árið 2026 verði erfiðara. Fjárlög 2026 byggja því á veikum grunni.

Mikilvægt er að undirstrika að enginn gerir ráð fyrir hruni eða alvarlegu atvinnuleysi á næsta ári. Stoðir samfélagsins eru sterkar og fjölskyldur þurfa ekki að hafa áhyggjur. En fjárlagagerð á tímum óvissu krefst varfærni, skýrleika og aga. Ef fjárlög taka ekki mið af kólnandi efnahag og styðja ekki við stöðugleika, getur niðursveiflan orðið dýpri en ella.

Það má ekki gerast.

Markmiðið er stöðugleiki fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki

Lykilmarkmið okkar allra er að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur, auk fyrirtækja, geti búið við stöðugleika í öruggu samfélagslegu umhverfi. Að allir hafi vinnu við hæfi, að verðbólga sé hófleg og vextir fasteignalána séu viðráðanlegir. Umfram allt þurfa fyrirtækin í landinu að búa við samkeppnishæf skilyrði.

Skilaboð Framsóknar felast nú í að minna á þörfina fyrir aukna varúð og læra af reynslunni við framkvæmd fjárlaga undanfarna áratugi. Við erum þekkt í ríkjum OECD fyrir að fara nánast ávallt út fyrir markmið fjárlaga. Við erum ekki nógu öguð þegar kemur að fjármálum ríkisins. Þetta er ein ástæða þess að verðbólga er hærri en hún þyrfti að vera.

Veikleikar í útflutningsgreinum

Stoðir útflutnings hafa veikst hratt. Álframleiðsla hefur dregist saman, fiskeldi stendur frammi fyrir áskorunum, óvissa ríkir í umhverfi ferðaþjónustu og ESB hefur sett tolla á útflutning kísilmálms. Á sama tíma munu auknar álögur á sjávarútveg draga úr fjárfestingu og breytt skattkerfi með hærri vörugjöldum þrengja svigrúm heimila og fyrirtækja.

Í slíku umhverfi þarf að ráðast í mótvægisaðgerðir. Hér má nefna tillögur Framsóknar um fjárfestingaátak atvinnuvega með hvötum til lausna sem miða að aukinni skilvirkni og orkusparnaði, markaðsátak til að styðja ferðaþjónustu og íslenska framleiðslu á erlendri grundu, að efla nýsköpun með nýjum nýsköpunarsjóði og stóreflingu íslenskunnar.

Samfélagið þarf á aukinni hreyfingu að halda.

Of bjartsýnar forsendur

Seðlabankinn hefur staðfest að niðursveiflan sé komin „með meiri þunga og fyrr” en áður var talið. Í slíku ástandi er óábyrgt að byggja fjárlög á bestu mögulegu sviðsmynd.

Skýrasta dæmið er áform um 8,5 milljarða tekjuaukningu vegna breytinga á vörugjöldum bifreiða. Allt bendir til þess að fólk og fyrirtæki muni flýta kaupum og rýra þannig tekjugrunn næsta árs.

Á sama tíma er almennur varasjóður færður niður í 1% sem er lagalegt lágmark. Ekki er því búist við neinu einasta áfalli á næsta ári. Er það líklegt? Almennur varasjóður á að vera borð fyrir báru og tryggja að áætlanir fjárlaga 2026 haldi.

Ósjálfbær þróun ríkisfjármála

Heildargjöld ríkisins á árinu 2026 verða um 1.626 milljarðar, vaxtagjöld nálgast 150 milljarða sem eru tæplega 10% heildarútgjalda ríkisins. Þetta er fullkomlega ósjálfbær þróun.

Halli næsta árs er áætlaður yfir 27 milljarðar króna. Slíkur halli er ekki verulegt áhyggjuefni eitt og sér, en ef ríkisstjórnin hyggst ná hallalausum fjárlögum árið 2027, sem er jákvætt markmið, þá þarf allt að ganga upp á næsta ári.

Viðvörun fjármálaráðs

Fjármálaráð benti sl. vor á að markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 krefjist „mikils aga” og að forsendur um hagvöxt, verðbólgu og ytri áföll verði að ganga upp sem sé ólíklegt í ljósi reynslunnar. Niðurstaða fjármálaráðs er að „því mætti hafa meira borð fyrir báru svo að markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 teljist trúverðugt.”

Við þurfum að taka þessum varnaðarorðum alvarlega.

Óskýr markmið um árangur

Annað sem vekur áhyggjur er að markmið fjárlaga um árangur og starfsemi heilbrigðisstofnana, menntakerfisins og atvinnuveganna eru afar óskýr. Lög um opinber fjármál gera kröfu um skýr markmið um starfsemi málefnasviða s.s. heilbrigðismála. Grundvallarspurningin er: Vitum við hvert við stefnum?

Án skýrrar stefnu er ekki hægt að forgangsraða, meta hvort útgjöld séu réttlát eða tryggja markvissa framkvæmd fjárlaga.

Leiðin fram á við

Margt er jákvætt í fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Áherslur Framsóknar varða það að benda á hættumerki og nauðsyn aukinnar varúðar. Þörf er á endurmati forsendna byggðu á raunverulegri stöðu hagkerfisins, stærri almennum varasjóði, markvissri mótvægisaðgerðum, skýrum og mælanlegum markmiðum um rekstur ríkisins og varkárari fjármálastjórn sem stuðlar að stöðugleika.

Í janúar 2026 hefst vinna við nýja fjármálaáætlun fyrir árin 2027–2031. Þar verður tækifæri til að leggja traustan grunn að hallalausum fjárlögum og ábyrgu ríkisfjármálakerfi.

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og fulltrúi Framsóknar í fjárlaganefnd.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Læknar eru lífs­björg: Tryggjum sér­nám þeirra

Deila grein

08/12/2025

Læknar eru lífs­björg: Tryggjum sér­nám þeirra

„Ef við fáum ekki sérgreinina okkar viðurkennda þá er til einskis að flytja heim,“ sagði íslenskur læknir búsettur í Svíþjóð mér á dögunum. „Þessi staða virðist tilkomin vegna reglugerðabreytinga á Íslandi þar sem ýmsir læknar lentu milli skips og bryggju þrátt fyrir að uppfylla hefðbundnar kröfur,” bætti annar læknir síðar við.

Auðvitað þarf að tryggja gæði læknanáms hugsaði ég. En hversu skynsamlegt er að láta hámenntaða íslenska lækna berjast í krefjandi kæruferlum á meðan sjúklingarnir sem þurfa á þeim að halda bíða? Á sama tíma vinna heilu nefndirnar að því að fjölga læknum. Væri ekki hægt að leysa þessi mál með skjótari og skynsamlegri yfirferð?

Vandamál sem fæstir vita af

Þegar ég kynnti mér þetta málefni betur komst ég að öðru sem fæstir vita: Grundvallarbreyting hefur orðið á möguleikum íslenskra lækna til að sækja sérnám í Svíþjóð.

Fyrir nokkrum árum þrengdi Svíþjóð skilyrði fyrir sérnám lækna verulega, meðal annars til að bregðast við auknum fjölda umsækjanda sem tekið höfðu grunnám sitt í öðru landi. Ísland lenti þar undir og missti einstakt aðgengi sitt, sérstaklega í barnalækningum, svæfingalækningum og skurðlækningum.

Noregur, sem er annar mikilvægur námsstaður íslenskra lækna, gerði einnig breytingar. Bæði ríkin hafa aukið áherslu á að mennta eigin lækna vegna óvissu í varnarmálum, á sama tíma og fjármagn er takmarkað.

Þeir sem höfðu þegar hafið sérnám féllu undir gömlu reglurnar en nýir umsækjendur standa frammi fyrir mun erfiðari aðstæðum.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Samkvæmt Læknablaðinu fer yfir helmingur íslenskra lækna sem heldur utan til sérnáms til Svíþjóðar. Þar öðlast þeir sérhæfingu sem ekki er hægt að öðlast hér á landi, bæði vegna kostnaðar við að halda úti ólíku sérnámi en líka vegna þess að þekking fæst með þjálfun á stærri spítölum þar sem tilfelli sjúklinga eru fjölbreyttari en hér heima.

Margir læknar fara annað, til dæmis til Bandaríkjanna, og það er vel. En ávinningur umfangsmikillar samvinnu við fremstu háskólasjúkrahús heims, eins og þau í Svíþjóð, nær langt út fyrir námið sjálft.

Dýrmætt net sérfræðinga – ávinningur í stærra samhengi

Í gegnum árin hefur byggst upp dýrmætt net sérfræðinga sem styður við íslenskt heilbrigðiskerfi þegar sérþekkingu eða búnað skortir. Stundum er sjúklingum flogið til Svíþjóðar, en stundum er teymi lækna flogið hingað og aðgerðir framkvæmdar á Íslandi.

Oft eru þetta krefjandi tilfelli þar sem allt er undir, fyrir sjúklinginn, fjölskylduna og samfélagið. Sem dæmi má nefna flókna hjartasjúkdóma barna, lifrarbilanir, heilaskurðlækningar og sértæk tilfelli annarra sjúkdóma.

Þetta aðgengi að sænskum læknum og stofnunum er ekki sjálfgefið. Þetta eru verðmæti sem hafa byggst upp með náinni samvinnu lækna í gegnum sérnám og viðhaldist að því loknu. Slík samvinna byggir á trausti og persónulegum tengslum sem hafa þróast yfir langan tíma.

Þessi verðmæti mega ekki glatast. Aðgengi að bestu læknum og búnaði er bæði utanríkis- og innanríkismál sem verður að leysa.

Tvö verkefni sem þarf að leysa

Í grunninn eru það tvö verkefni sem þarf að leysa:

1. Viðurkenning á námi sem þegar hefur farið fram

Ráðuneyti heilbrigðismála á enn eftir að leysa úr málum margra lækna sem bíða þess að námið þeirra verði metið. Þessir læknar lentu eins og áður segir milli skips og bryggju vegna reglugerðabreytinga hér á landi. Í kjölfar nýlegs úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins virðist einhver hreyfing vera komin á málið, en allir ættu að sjá tilgang í því að hraða vinnu svo sem flestir læknar geti hafið störf sem fyrst í takt við sérhæfingu sína.

2. Áframhaldandi aðgengi að sérnámi

Hvernig tryggjum við að íslenskir læknar haldi áfram að komast í sérnám í Svíþjóð og víðar? Í samtölum við leiðtoga læknafélaga hérlendis og fagfólk í Svíþjóð hefur komið skýrt fram að aðgangur að sérnámi er forsenda öflugs heilbrigðiskerfis. Áhrif breytinganna hefur áhrif á tugi lækna árlega sem þurfa að velja sér sérnám erlendis.

Flestir íslenskir læknar hafa lokið kandídatsári eða svokölluðum sérnámsgrunni sem er sambærilegur við það sem nú er krafist í Svíþjóð. Að auki hafa flestir nokkurra ára starfsreynslu þegar sérnám hefst. Norræna tengingin er sterk og færni íslenskra lækna í sænsku batnar hratt. Allt þetta hefur gert þá að eftirsóttum starfskröftum sem ætti að hjálpa til við að fá undanþágu.

Vilji virðist vera til að finna lausn fyrir Ísland samkvæmt samtölum sérfrærðinga og ráðamanna. En framkvæmdin, hvort sem er að koma á almennri undanþágu eða tryggja ákveðinn fjölda plássa, hefur ekki tekist.

Hvað kostar töfin?

Á meðan við ræðum vandamálið heldur kostnaðurinn áfram að safnast upp. Hver læknir sem bíður í kæruferli hér á landi er læknir sem sinnir ekki sjúklingum eins og hann gæti. Hver læknir sem seinkar sérnámi skapar minni verðmæti fyrir samfélagið okkar. Hver tengiliður við sænska sérfræðinga sem tapast vegna kynslóðaskipta er tengiliður sem tekur áratugi að byggja upp á ný.

Við höfum ekki reiknað þennan kostnað. Kannski vegna þess að hann er ekki liður í fjárlögum en hann er raunverulegur; lengri biðlistar, færri sérfræðingar og veikari tengsl við fremstu sjúkrahús heims. Þetta er ekki vandamál sem leysist af sjálfu sér ef við bíðum nógu lengi. Það versnar.

Hvernig gengur að leysa málin?

Góðu fréttirnar eru að málið hefur ratað á borð ráðuneyta og ráðherra sem hafa sýnt því skilning. Læknafélög hafa sömuleiðis fundað um stöðuna og ábendingum hefur verið komið til Svíþjóðar oftar en einu sinni.

En hvernig hefur gengið að ná árangri? Nú reynir á, því stundin sem læknar sem hafa lokið öllu námi sem hægt er að taka hér heima og þurfa að fara út fyrir ýmsar sérgreinar, er runnin upp.

Umfangsmiklar heimsóknir

Á þessu ári hafa heimsóknir íslenskra leiðtoga til Svíþjóðar þar sem fundað hefur verið með ráðamönnum Svía, verið óvenju margar. Vonandi hafa allir fylgt málinu ötullega eftir. Hér er listi sem mögulega er ekki tæmandi:

  • Utanríkisráðherra, sem fer með hagsmunabaráttu Íslands í víðu samhengi.
  • Ráðherra háskólamála, sem fer með norræna samvinnu og nám á háskólastigi.
  • Forsætisráðherra, sem leiðir ríkisstjórn og er samhæfingaraðili ráðuneyta.
  • Forseti Íslands, sem fór í ríkisheimsókn til Svíþjóðar með áherslu á heilbrigðismál.
  • Heilbrigðisráðherra, sem leiðir málaflokk heilbrigðismála og tók þátt í ríkisheimsókn.

Spurningar sem kalla á svör

Í ljósi þessara umfangsmiklu samskipta er eðlilegt að spyrja:

  • Hvernig miðar að ná fram undanþágu fyrir íslenska lækna? Undanþágu sem í raun felst í því að leyfa farsælli hefð á sviði læknanáms að halda áfram.
  • Hefur málið verið tekið upp með afgerandi hætti á öllum þessum fundum?
  • Hvernig hefur samhæfing milli ráðuneyta verið háttað?
  • Hvernig hefur eftirfylgni verið háttað?
  • Hver eru næstu skref?

Svo má velta fyrir sér: Hefði Ísland ekki leyst sambærilegt mál fyrir Svía ef nær helmingur leiðtoga Svíþjóðar hefði lagt leið sína hingað og óskað eftir jafn einfaldri en mikilvægri útfærslu? Og ef svarið er já – hvers vegna hefur árangur ekki náðst? Skortir skipulag í hagsmunagæslu eða eru aðrar fyrirstöður sem leysa þarf saman. Hér þurfa allir að leggja hönd á plóg.

Hin hljóðláta en mikilvæga hagsmunabarátta

Hagsmunabarátta lækna fyrir aðgangi að námi og viðurkenningu þess er hljóðlát í samanburði við önnur utanríkismál, svo sem varnarmál og tollaundanþágur frá Evrópusambandinu. Í þeim málum birtast brýnir hagsmunir fyrir hagkerfi dagsins í dag sem sterk hagsmunasamtök tala eðlilega um í fjölmiðlum.

En mikið er undir þegar kemur að sérhæfðri menntun lækna í nútíð og framtíð og aðgengi að sérnámi erlendis ber að taka alvarlega. Í samhengi við áherslu stjórnvalda á öryggismál ætti menntun lækna og heilbrigðisstarfsfólks einnig að vera í brennidepli fyrir herlausa þjóð.

Ég hvet ríkisstjórn til finna lausn hið fyrsta. Því læknar eru lífsbjörg sem varðar okkur öll.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Nýsköpunarátak fyrir fram­tíð Ís­lands

Deila grein

08/12/2025

Nýsköpunarátak fyrir fram­tíð Ís­lands

Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir vaxandi áskorunum. Hagvöxtur er að minnka og óvissa eykst á meðan álögur á atvinnulífið aukast stöðugt í formi hærri vörugjalda, veiðigjalds og annarra íþyngjandi þátta. Þó slíkar álögur kunni að vera réttlætanlegar út frá tilteknum sjónarhornum, skapa þær skilyrði sem hamlar verðmætasköpun og dregur úr samkeppnishæfni.

Hvað getum við gert?

Leiðin út úr efnahagslegum áskorunum felst í vexti sem byggir á nýsköpun, aukinni framleiðni og tæknilausnum. Við getum ekki lengur treyst á gamlar leiðir eða heppni. Við verðum að byggja upp nýjar tekjuöflunarleiðir og styrkja undirstöður hagkerfisins, samhliða því að styrkja innviði samfélagsins.

Nýsköpun sem grunnur velgengni

Málefni nýsköpunar og þekkingargreina standa nú frammi fyrir byltingu gervigreindar og stafrænna lausna. Ísland þarf því nauðsynlega heildstæðari stefnu um áherslur í nýsköpun þvert á atvinnugreinar svo við stöndum jafnfætis fremstu nýsköpunarríkjum heims. Þetta er undirstaða samkeppnishæfni okkar, lífskjara og byggðaþróunar til framtíðar.

Vistkerfi nýsköpunar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú til umræðu á Alþingi. Í því samhengi höfum við í Framsókn lagt til ýmsar hugmyndir til að styrkja innviði samfélagsins, ekki síst á sviði nýsköpunar.

Þannig leggur Framsókn til að þróað verði vistkerfi nýsköpunar. Slíkt vistkerfi felst í lifandi neti og samspili háskóla, fyrirtækja, fjárfesta, hins opinbera, innviða og hvata (með lögum) sem vinnur saman að því að breyta hugmyndum í verðmæti fyrir atvinnulíf, samfélag og byggðir um allt land. Slíkt net kallar á heildarhugsun og samvinnu þvert á fyrirtæki og stofnanir.

Stóra málið

Eins og flestir þekkja til er gervigreind að gjörbreyta öllum framleiðsluháttum, samskiptum og innviðum samfélaga. Tryggja þarf að ný tækni styðji við aukna velmegun og samfélagslegan ábata á öllum sviðum með lausnum á sviði orkuskipta, loftslagsmála, matvælaframleiðslu, heilbrigðisþjónustu og náttúruverndar, svo dæmi séu nefnd.

Í því ljósi þarf Ísland einnig að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á borð við Horizon Europe og norræn gervigreindarnet.

Nýsköpun um allt land

Nýsköpun má ekki vera bundin við höfuðborgarsvæðið. Byggja þarf upp innviði, tækni og ráðgjöf í öllum landshlutum þannig að hugmyndir, störf og verðmæti geti orðið til hvar sem er á landinu.

Tvíþætt hvatastefna

Nauðsynlegt er að efla frumstig hugmyndavinnu en þar kviknar nýsköpunin. Framsókn leggur því til stofnun sérstaks nýsköpunarsjóðs landsbyggðarinnar, með 500.000–1.500.000 kr. styrkjum fyrir einstaklinga og litlar teymishugmyndir. Þessi sjóður fyllir tómarúm sem hefðbundin styrkjakerfi ná ekki að dekka, sérstaklega í dreifðum byggðum.

Samhliða þessu hefur Framsókn mótað áherslur fyrir stærri fjárfestingar með hraðari afskriftum (svo dæmi sé tekið) þegar fyrirtæki fjárfesta í sjálfbærum, skilvirkum og grænum tækjum. Markmiðið er að örva fjárfestingar í tækni sem eykur framleiðni, dregur úr kostnaði og skapar samkeppnisforskot á alþjóðamarkaði.

Þannig fáum við tvíþætta nálgun: smáir hvatar fyrir hugmyndafasa og einstaklinga, en stórir hvatar fyrir fyrirtæki sem ráðast í tækni- og framleiðniaukandi fjárfestingar.

Hvatar skipta öllu máli

Skattalegir hvatar eru það sem kveikir og styður við fyrstu skref frumkvöðla bæði einstaklinga og innan stórra fyrirtækja. Þeir draga úr áhættu, flýta fjárfestingum og tryggja að hugmyndir þróist í raunveruleg verkefni. Án hvata hægir á ferli við sköpun nýrra hugmynda, en með réttum hvötum hleypur kraftur í nýsköpun og atvinnulíf.

Breytingartillaga

Í ofangreindu ljósi leggur Framsókn til að fjármagn verði aukið um 500 milljónir króna í málefnasvið 7 um nýsköpun í fjárlagafrumvarpi 2026. Þessi aukning mun styrkja uppbyggingu heildræns vistkerfis nýsköpunar, fjármagna nýjan landsbyggðarsjóð fyrir frumstigs hugmyndir, efla alþjóðlegt samstarf á sviði nýsköpunar og gervigreindar, tryggja að nýsköpunartækifæri séu til staðar um allt land og styðja við skattahvatakerfi fyrir fjárfestingar í tækni og framleiðniaukningu. Allt slíkt þarf þó að undirbúa af kostgæfni og á grunni samráðs.

Ef Ísland ætlar sér að vaxa út úr efnahagslegum áskorunum er þetta eina leiðin: heildstætt vistkerfi nýsköpunar, sterkir innviðir, alþjóðleg tenging og hvatar á öllum stigum nýsköpunar.

Slíkt er fjárfesting í framtíð Íslands.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkis­stjórnin bregst fólkinu í landinu

Deila grein

04/12/2025

Ríkis­stjórnin bregst fólkinu í landinu

Áróðursdeild ríkisstjórnarinnar situr ekki auðum höndum. Á liðnum dögum og vikum hefur birst nokkur fjöldi greina forvígismanna ríkisstjórnarinnar þar sem gerð er tilraun til að draga upp glansmynd af þessu fyrsta ári nýrrar ríkisstjórnar. Þeim til hróss verður að nefna að þau eru nokkuð lunkin í að draga upp myndir. Myndir sem eru ekki endilega í samræmi við viðurkennd gögn eða raunveruleikann, en þessi mikilvæga færni tryggði þeim glæsilega kosningu, sæti í ríkisstjórn og völd.

Óhóf og skattahækkanir

Þegar horft er yfir verkin á þessu fyrsta ári kemur í ljós óþægileg staðreynd. Stjórnin hefur brugðist loforðum sínum um hófsemi í skattheimtu og ráðdeild í ríkisrekstri. Í stað aðhalds og trúverðugrar stefnu í fjármálum eru útgjöld aukin með fordæmalausum hætti, eða um 143 milljarða króna á milli ára. Þá hlýtur það að teljast sérstakt metnaðarleysi að sitja í ríkisstjórn sem lofaði að hækka ekki skatta á venjulegt eða vinnandi fólk en boðar nú yfir 25 milljarða króna skattahækkun á næsta ári, en sú tala gæti jafnvel orðið hærri. Til að reyna að breiða yfir loforðasvikin er gripið til útúrsnúninga, nýyrða og orðaleikja. Talað um „tiltekt“ og „leiðréttingar“ í stað þess að viðurkenna berum orðum að verið sé að leggja á nýja skatta. Venjulegt fólk sér í gegnum slíkt orðagjálfur þegar upp verður staðið. Róðurinn þyngist.

Sleggjan sem hrökk af skaftinu

Eitt veigamesta verkefni nýrrar ríkisstjórnar var, og er, að hemja verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkun með trúverðugri ríkisfjármálastefnu. Þar voru stóru orðin ekki spöruð í aðdraganda kosninga. Í því verkefni hefur ríkisstjórnin gjörsamlega brugðist. Hagkerfið er vissulega að kólna, en það er ekki vegna trúverðugrar eða traustrar efnahagsstefnu heldur vegna þess að samdráttur og vandamál blasa víða við í atvinnulífinu. Ekki síst í útflutningsatvinnuvegum landsins sem eru grunnstoð farsældar landsmanna. Varnaðarorð eru hundsuð og eftir situr venjulegt fólk og fyrirtæki landsins með sárt ennið, með allt of háum vöxtum og vaxandi atvinnuleysi.

Verklaus verkstjórn

Eitt megin stefið hjá áróðursmeisturum ríkisstjórnarinnar var að nú væri loks tekin við stjórn sem ætlaði að láta verkin tala. Verkin hafa sannarlega talað síðustu mánuði og í þeim birtist ýmislegt áhugavert. Rauði þráðurinn er grímulaus andstyggð gagnvart atvinnulífi landsins og ekki síst landsbyggðinni og íbúum í dreifðum byggðum landsins.

Í upphafi fyrsta þings stjórnarinnar var málum dælt út eins og það væri hinn sanni mælikvarði á afköst, verkstjórn. Ítrekað kom í ljós að málin voru illa undirbúin, samráð var af skornum skammti og í mörgum veigamiklum málum var undirbúningur lagasetningar algerlega óviðunandi. Niðurstaðan á vorþingi var enda sú að ríkisstjórnin kastaði til hliðar á fimmta tug mála með undarlegri forgangsröðun í dagskrá þingsins.

Á yfirstandandi þingi hefur stefið verið annað. Útlit er fyrir að fá mál hljóti afgreiðslu fyrir áramót og svo virðist sem sí vaxandi núningur milli ríkisstjórnarflokkanna setji sand í tannhjólin. Þar dugar lítt að brosa á blaðamannafundum og vísa ítrekað í hvað allt sé nú æðislegt á stjórnarheimilinu. Minnir svolítið á óhamingjusöm hjón sem birta ítrekað færslur á samfélagsmiðlum til að sannfæra alla nema sjálfa sig um að allt sé í himnalagi.

Stóra núllið – vantar spýtu og sög

Tíðir blaðamannafundir ríkisstjórnarinnar hafa vakið nokkra athygli. Mantra þeirra funda hefur jafnan verið að kynna með glæsibrag og bros á vör innihaldslítil loforð um eitthvað sem koma muni síðar. Eftirminnilegur er fundurinn um fullkomlega innihaldslausan húsnæðispakka, aðgerðir sem engu máli skipta fyrir fólk í nútímanum. Fundurinn var enda svo innihaldslaus að þau hafa sjálf boðað framhaldsfund um sama málefni. Það vantaði víst spýtu og sög. Á blaðamannafundinum 3. desember þar sem kynnt var fyrsta samgönguáætlun nýrrar ríkisstjórnar, sem beðið hafði verið eftir með nokkurri eftirvæntingu, varð hið sama uppi á teningnum. Hið kunnuglega stef um umbúðir umfram innihald. Við áhorfið á fundinn fylltist venjulegt fólk ef til vill nokkurri bjartsýni, enda farið ansi fögrum orðum og frjálslega um ýmislegt. Þegar betur var að gáð kemur í ljós að megin þungi þeirra verkefna sem þar voru kynnt eru ýmist nú þegar í farvegi eða bíða síðari hluta áætlunarinnar þ.e. frá 2031-2040.

Þó var eitt sem vakti sérstaka athygli. Á síðustu árum var leiðtogum núverandi ríkisstjórnar tíðrætt um ,,stóra núllið í jarðgangnagerð“. Þau orð eru hjákátleg nú þegar við blasir með nýrri og illa rökstuddri forgangsröðun jarðgangna að ekkert minna en kraftaverk þarf til að borinn verði ræstur á þessu kjörtímabili. Fljótagöng sem nú eru fyrst í forgangsröðinni og eru vissulega mikilvæg eins og önnur, eiga eftir að fara í gegnum undirbúnings- og útboðsferli sem tekið getur 3-4 ár.

Fullkomin uppgjöf

Þegar litið er á liðið ár blasir við uppgjöf í verki. Ríkisstjórn sem bregst fólkinu í landinu.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarðarheiðargöng: Lífshætta, loforð og lokaðar dyr

Deila grein

04/12/2025

Fjarðarheiðargöng: Lífshætta, loforð og lokaðar dyr

Umræðan um jarðgangaáætlun hefur tekið nýja stefnu. Innviðaráðherra hefur lýst því yfir að náttúruvá sé forsenda nýrrar forgangsröðunar á samgönguáætlun. Þessi orð marka tímamót. Ef stjórnvöld ætla að standa við þessi orð, þá getur aðeins eitt verkefni verið efst á blaði: Fjarðarheiðargöng.

Varnarleysi á fjallvegi

Fyrir mér er þetta ekki bara spurning um malbik og steypu, heldur persónulegt öryggismál. Í nóvember 2017 lenti ég, ásamt eiginmanni mínum, í bílslysi á Fjarðarheiði þegar stjórnlaus bíll kom á móti okkur og lenti harkalega á bílnum okkar.

Sú upplifun sýndi mér svart á hvítu hversu varnarlaus við erum á þessum vegi. Það skiptir engu máli hversu varlega þú ekur sjálfur eða hversu vel búinn bíllinn þinn er; þegar aðstæður eru jafn varasamar og þær gerast á Fjarðarheiði er slysið alltaf handan við hornið. Við sluppum, en það gera ekki allir. Það er óásættanlegt að íbúar þurfi daglega að leggja líf sitt og limi að veði til að komast til vinnu, sækja þjónustu eða einfaldlega komast heim.

Náttúruváin kallar á undankomuleið

Seyðisfjörður býr við eina mestu náttúruvá á byggðu bóli á Íslandi. Við munum öll eftir aurskriðunum í desember 2020. Snjóflóðahætta er einnig viðvarandi ógn. Þegar vá ber að dyrum er lífsnauðsynlegt að íbúar hafi trygga undankomuleið. Fjarðarheiði er hins vegar veðravíti sem lokast oft á veturna – einmitt þegar hættan á ofanflóðum er mest. Að eina leiðin frá bænum sé fjallvegur, sem er oft ófær eða stórhættulegur þegar neyðarástand skapast, er öryggisleysi sem enginn ætti að búa við.

Falskar lausnir og Fannardalur

Í umræðunni hefur stundum verið ýjað að öðrum leiðum til að tengja firðina, til dæmis um Fannardal. En hvað á það að leysa, þegar Fjarðarheiðin er ófær, að beina fólki um annan fjallveg sem býr við sömu hættur?

Í Fannardal er veruleg snjóflóðahætta. Við sáum það skýrt þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað árið 2023; þá var hættuástand víða á svæðinu. Að ætla að leysa samgönguvanda Seyðisfjarðar með því að treysta á vegi sem lokast vegna sömu náttúruvár er engin lausn. Það er bara tilfærsla á vandanum. Örugg heilsársgöng undir Fjarðarheiði eru eina leiðin sem tryggir öryggi.

Atvinnulífið blæðir út

Óvissan í samgöngum hefur ekki bara áhrif á fólk, hún drepur niður atvinnulíf. Á síðustu árum höfum við horft upp á fyrirtæki loka eða flytja starfsemi sína. Skýrasta dæmið er brotthvarf Síldarvinnslunnar á síðustu tveimur árum. Fyrirtæki geta ekki treyst á flutningaleið sem er lokuð dögum saman.

Það má heldur ekki gleyma að Fjarðarheiði er hluti af Evrópuvegi nr. 1. Vegna Norrænu er Seyðisfjörður gátt Íslands til Evrópu. Lokanir á heiðinni stöðva vöruflutninga og skaða ferðaþjónustu, sem hefur áhrif á allt þjóðarbúið.

Forsendubrestur sameiningar

Það má heldur ekki gleyma grundvellinum sem sveitarfélagið okkar hvílir á. Þegar íbúar samþykktu sameiningu í Múlaþing árið 2020 var það gert með skýrum fyrirvara: Bættar samgöngur voru forsenda sameiningarinnar.

Við vorum að búa til stórt og öflugt samfélag, en það samfélag virkar ekki ef einn hluti þess er reglulega einangraður frá hinum og þjónustukjarnanum á Egilsstöðum. Án jarðganga er sameiningin í raun ófullkomnuð og íbúar upplifa nú forsendubrest á þeim samningi sem gerður var við þá.

Pólitísk loforð verða að standa

Fyrir kosningarnar á síðasta ári var tónninn skýr. Allir frambjóðendur í kjördæminu, að undanskildum Flokki fólksins, lýstu yfir stuðningi við Fjarðarheiðargöng. Kjósendur treystu þessum loforðum. Nú, þegar ráðherra setur náttúruvá á oddinn, er tækifærið til að sýna að orðum fylgi athafnir.

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann veruleika sem við búum við: Samfélag undir stöðugri ógn, tengt umheiminum með hættulegum fjallvegi sem bregst þegar mest á reynir. Göng undir Fjarðarheiði eru eina rökrétta svarið við nýrri forgangsröðun stjórnvalda.

Eygló Björg Jóhannsdóttir, íbúi á Seyðisfirði og formaður Framsóknarfélags Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. desember 2025. 

Categories
Fréttir Greinar

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Deila grein

02/12/2025

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.

Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.

Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna

Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Jafnrétti og leikskólar

Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika

Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn

Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.

Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.