Categories
Greinar

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 1/3

Deila grein

15/04/2025

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 1/3

Ábyrgur og sjálfbær rekstur Reykjavíkurborgar er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarbúa með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Áætlaðar skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar árið 2025 nema um 558 milljarða króna. Það er upphæð sem flestir myndu telja óásættanlega háa. Skuldahlutfall borgarinnar var 158% samkvæmt ársreikningi 2023 sem er yfir hámarksviðmiði nýrra ákvæða í sveitarstjórnarlögum sem taka gildi árið 2026. Áætlanir gera ráð fyrir að hlutfallið fari lækkandi og brýnt er að það gangi eftir.

Borgarfulltrúar Framsóknar hafa beitt sér fyrir aukinni hagræðingu og umbótum í rekstri borgarinnar, forgangsröðun verkefna og betri þjónustu í þágu borgarbúa. Á þeim tíma sem við vorum í meirihluta náðist, með samstilltum og skýrum aðgerðum, að snúa rekstri A-hluta borgarsjóðs úr 15,6 milljarða halla í áætlaðan afgang árið 2024. Ljóst er að meira þarf að koma til svo hægt sé að mæta auknum útgjöldum og greiða niður skuldir borgarinnar.

Ég hef því tekið saman um 25 tillögur, stórar sem smáar, sem miða að betri nýtingu tíma og fjármuna í rekstri Reykjavíkurborgar. Tillögunum er skipt í 3 þemu; Samvinnu og skipulag, aukið aðhald og forgangsröðun verkefna og að lokum umbætur í þjónustu. Þær snúa meðal annars að skipulagsbreytingum, endurskoðun á verkefnum, auknu samstarfi milli eininga, fækkun stöðugilda, frestun og fækkun verkefna, hagkvæmari innkaupum og útvistun verkefna, bættu skipulagi og eftirliti með framkvæmdum og viðhaldi, auknu aðhaldi í rekstri og skilvirkari verkferlum. Tillögurnar verða sendar inn í samráðsgátt Reykjavíkurborgar.

Hér birtist fyrsti hluti tillögupakkans sem snýr að samvinnu og skipulagi. Tillögunum er ekki raðað eftir mikilvægi, enda er markmiðið að skoða allar leiðir sem geta leitt til hagræðingar í rekstri borgarinnar – í því samhengi skiptir máli að velta hverjum steini við.

ÞEMA 1: SAMVINNA OG SKIPULAG – 8 tillögur

Tillaga 1 – Fækka stöðugildum og minnka yfirbyggingu

Ráðast þarf í heildstætt mat og endurskipulagningu á þjónustu borgarinnar og rýni á mannaflaþörf með það að markmiði að minnka yfirbyggingu, fækka stöðugildum og lækka launakostnað. Halda þarf áfram með ráðningabann borgarinnar og innleiða gervigreind og stafrænar lausnir með markvissum hætti til að bæta þjónustu og fækka handtökum.

Tillaga 2 – Auka hagkvæmni í innkaupum

Taka til í innkaupum og athuga hvort það er ekki tilefni að gera rammasamninga á grundvelli útboða og kaupa rekstrarvörur og búnað í magninnkaupum fyrir starfsstaði borgarinnar. Samræma og samnýta stafrænar lausnir á milli starfsstöðva ásamt því að endurskoða eða segja upp áskriftum að lausnum sem ekki eru nýttar eða hægt að nýta aðrar lausnir í sama tilgangi.

Tillaga 3 – Leggja niður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu

Færa nauðsynleg verkefni til annarra fagsviða og leggja önnur verkefni niður eða færa þau yfir til ríkisins sem nú er að stofna Mannréttindastofnun.

Tillaga 4 – Samstarf um heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisnefndir á höfuðborgarsvæðinu

Samstarf eða sameining heilbrigðiseftirlits og heilbrigðisnefnda á höfuðborgarsvæðinu skapar aukið hagræði í rekstri og dregur úr yfirbyggingu. Jafnframt væri hægt að skoða hvort tilefni sé til að útvista ákveðnum verkefnum sem ekki er nauðsynlegt að opinberir aðilar sinni.

Tillaga 5 – Bjóða út sorphirðu

Bjóða út rekstur á sorphirðu borgarinnar með það fyrir augum að auka fyrirsjáanleika og hagræða í rekstri sorphirðu.

Tillaga 6 – Bjóða út akstursleiðir Strætó

Bjóða ætti út akstursleiðir Strætó með það fyrir augum að hagræða og auka fyrirsjáanleika í rekstri Strætó. Samkvæmt greiningu KPMG í júní 2024 er kostnaður á ekinn km í aðkeyptum akstri um 13% lægri en hjá Strætó eða um 109 kr. á hvern ekinn km dísel-vagna.

Tillaga 7 – Útvista stafrænum verkefnum

Útvista stafrænum verkefnum í auknum mæli með það fyrir augum að auka sveigjanleika og draga úr kostnaði við stafræn verkefni og þjónustu.

Tillaga 8 – Útboð eða tilboða aflað í verklegar framkvæmdir

Aflað verði tilboða í allar verklegar framkvæmdir eða þær settar í útboð með það að markmiði að fá hagstæðasta tilboðið í verkið. Hér er ekki átt við minniháttar viðhaldsverkefni eða smáverk.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. apríl 2025.

Categories
Greinar

Var þetta planið í geðheil­brigðisþjónustu?

Deila grein

14/04/2025

Var þetta planið í geðheil­brigðisþjónustu?

Fyrsta stóra skrefið í plani ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hvað varðar geðheilbrigði ungs fólks hefur verið tekið – að loka einstöku úrræði fyrir ungt fólk með fjölþættan vanda.

Janus-endurhæfing hefur í 25 ár verið ómetanlegt skjól fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára sem glímir við andleg veikindi og félagslegan vanda. Þetta er ekki bara eitt úrræði af mörgum heldur það eina sinnar tegundar á landinu.

Þar fá þau sem hafa dottið úr skóla og vinnu vegna veikinda á borð við kvíða, þunglyndi, einhverfu eða vegna áfalla stuðning frá fagteymi með geðlækni. Þjónustan er veitt á einum stað, án þess að einstaklingurinn þurfi að hlaupa milli kerfa og stofnana í leit að nauðsynlegri aðstoð.

Markmið Janusar er ekki bara að halda fólki gangandi heldur að byggja upp færni og sjálfstraust svo fólk geti snúið aftur í nám, vinnu eða bara daglegt líf af aukinni lífsgleði. Vitandi að ef eitthvað kemur upp á er teymið alltaf til staðar til þess að grípa viðkomandi strax.

Sé árið 2023 tekið sem dæmi um framlag Janusar, þá voru 86 einstaklingar í starfsendurhæfingu þar það árið og hvorki meira né minna en 68% þeirra sneru aftur til vinnu, náms eða í virka atvinnuleit – þrátt fyrir þung geðræn vandamál. Samkvæmt mælitækinu Heilsutengd lífsgæði hækkuðu lífsgæði 80% þeirra sem útskrifuðust.

Ríflega 2800 manns hafa þegar skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að loka ekki Janus-endurhæfingu. Geðlæknafélagið, Píeta, Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og Geðhjálp hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau krefjast aðgerða í þágu þessa unga fólks og lýsa yfir miklum áhyggjum vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.

Kannski, mögulega, eitthvað, einhverntíman

Þessi áform kunna að skjóta skökku við fyrir þau sem fylgdust vel með kosningabaráttunni og kynntu sér sáttmála ríkisstjórnarinnar. Í kosningabaráttunni sló Viðreisn sig til riddara og ætlaði heldur betur að taka til hendinni í geðheilbrigðismálum og í stjórnarsáttmálanum segir að sérstök áhersla verði lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu og styðja fjölbreytt rekstrarform.

Það tók þau rétt rúma 100 daga að svíkja það.

Ef fram fer sem horfir lokar Janus-endurhæfing 1. júní á þessu ári. Og hvað tekur við? Tæpast hefur ríkisstjórnin ákveðið að loka úrræði fyrir svo viðkvæman hóp án skýrra áætlana um hvað tekur við – eða hvað?

Heilbrigðisráðherra hefur áhyggjur af því úr hvaða skúffu ríkissjóðs peningarnir fyrir úrræðinu koma, allavega alls ekki úr hennar skúffu. Hún segir að það þurfi að kanna þarfirnar, leita að úrræðum og finna út úr þessu bara svona einhvern veginn. Fá svör að finna um framhaldið á þeim bæ sem sagt.

Félags- og húsnæðismálaráðherra segir yfirlýstar áhyggjur fagfólks og skjólstæðinga óþarfar vegna þess að ríkisstjórnin sé að vinna í nýjum úrræðum. Kannski hefði verið skynsamlegt að bíða með að loka úrræðinu þar til nýtt væri tilbúið. En það virðist ekki hafa þótt mikilvægt.

Báðar segja þær að VIRK muni taka við hluta af þjónustu Janusar. Slit á þjónustusamningi milli VIRK og Janusar er ástæða lokunarinnar. Framkvæmdastjóri VIRK sagði sjálf í viðtali við Kastljós að þjónusta Janusar geti ekki fallið undir þeirra starfsemi og þess vegna hafi samningnum verið slitið. Fagaðilar hafa bent á það að á meðan VIRK er starfsendurhæfingarsjóður sé Janus lífsbjargandi úrræði og geðendurhæfing, þessu tvennu sé tæpast hægt að líkja saman. Þá segja skjólstæðingar Janusar sem hafa reynslu af endurhæfingu VIRK úrræði þeirra ekki duga til og utanumhaldið þar ónægt til að skila árangri. VIRK er því augljóslega ekki lausnin.

Sorgleg vinnubrögð og vanvirðing fyrir málaflokknum

Ummæli ráðherra ríkisstjórnarinnar um lokunina bera það með sér að þær viti raunar lítið um það hvað það er sem Janus gerir. Nema það sé virkilega meining þeirra að geðheilbrigðismál séu ekki heilbrigðismál og þær geti ekki gert greinarmun á mismunandi tegundum endurhæfingar. Ég vona að Reykjalundi verði ekki sópað undir VIRK næst.

Þetta þekkingarleysi þarf svosem ekki að koma á óvart enda hefur enginn ráðherra eða stjórnarþingmaður þegið boð um að kynna sér starfsemi Janusar á vettvangi. Er áhuginn á geðheilbrigði ungs fólks virkilega svona lítill þegar öllu er á botninn hvolft? Og það þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Telji þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar sig borna hér röngum sökum um áhuga- og þekkingaleysi þá hvet ég þau til þess að sanna það. Sýnið í verki að þið hafið ekki séð geðheilbrigði ungs fólks sem flott slagorð í kosningabaráttu, kynnið ykkur starfsemi Janusar og snúið svo þessari ákvörðun við.

Lokun Janusar væri stórt skref aftur á bak fyrir geðheilbrigðismál á Íslandi – og það verður ungt fólk í viðkvæmri stöðu sem mun líða fyrir það.

Berglind Sunna Bragadóttir,  formaður velferðarnefndar Sambands ungra Framsóknarmanna

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. apríl 2025.

Categories
Greinar

Takk Willum Þór

Deila grein

14/04/2025

Takk Willum Þór

Suður­nesja­bær er ört vax­andi sveit­ar­fé­lag á Suður­nesj­um, og íbú­um fjölg­ar jafnt og þétt.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Þjóðskrá Íslands er íbúa­fjöldi í Suður­nesja­bæ nú kom­inn yfir 4.000, eða alls 4.312 nú í byrj­un apríl. Þegar Suður­nesja­bær varð til við sam­ein­ingu Sand­gerðis­bæj­ar og Sveit­ar­fé­lags­ins Garðs fyr­ir sjö árum var íbúa­fjöld­inn um 3.400. Íbúum hef­ur því fjölgað um 912 manns á þess­um tíma, sem sam­svar­ar rúm­lega 26,8% fjölg­un.

Upp­bygg­ing í heil­brigðismál­um á Íslandi hef­ur verið tölu­verð á und­an­förn­um árum.

Fyrr­ver­andi heil­brigðisráðherra, Will­um Þór Þórs­son, lagði mikla vinnu í þau mik­il­vægu verk­efni sem hon­um voru fal­in og sýndi mikla vinnu­semi á þeim tíma sem hann gegndi embætt­inu.

Heil­brigðisþjón­usta í heima­byggð að raun­ger­ast

Bæj­ar­yf­ir­völd í Suður­nesja­bæ hafa lengi kallað eft­ir því að heilsu­gæsluþjón­usta verði veitt í sveit­ar­fé­lag­inu. Við bæj­ar­full­trú­ar Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ hóf­um taf­ar­laust sam­töl við þing­menn okk­ar í Suður­kjör­dæmi og heil­brigðisráðherra eft­ir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar 2022, enda var þetta eitt af helstu áherslu­mál­um okk­ar – að tryggja heil­brigðisþjón­ustu í heima­byggð.

Eft­ir góð og grein­argóð sam­töl við þing­menn Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi og Will­um Þór Þórs­son, þáver­andi heil­brigðisráðherra, var skrifað und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu þann 30. ág­úst 2024 um að opna skyldi heilsu­gæslu­stöð í Suður­nesja­bæ.

Mark­mið verk­efn­is­ins er skýrt

Mark­miðið er að bæta aðgengi að heilsu­gæslu í sveit­ar­fé­lag­inu, færa þjón­ust­una nær íbú­um og styrkja þannig þjón­ustu við fólk í heima­byggð. Á starfs­stöðinni verður boðið upp á al­menna heilsu­gæslu á ákveðnum tím­um og fell­ur þetta fyr­ir­komu­lag vel að áhersl­um stjórn­valda um jafnt aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu – óháð bú­setu.

Það er því sér­stak­lega ánægju­legt að sjá þetta mik­il­væga rétt­læt­is­mál raun­ger­ast, þetta mikla bar­áttu­mál okk­ar í Fram­sókn.

Opn­un er áætluð í maí 2025, í sam­ræmi við vilja­yf­ir­lýs­ingu ráðherra, þar sem fram kom að þjón­ust­an skyldi hefjast ekki síðar en 1. maí 2025.

Með mikl­um sam­taka­mætti og sam­vinnu­hug­sjón að leiðarljósi er þessi mik­il­væga þjón­usta nú að verða að veru­leika – heil­brigðisþjón­usta fyr­ir íbúa í heima­byggð.

Stefna Fram­sókn­ar­flokks­ins um heil­brigðismál und­ir­strik­ar þetta vel: „Heil­brigðis­kerfið er horn­steinn sam­fé­lags­ins og bygg­ir und­ir hag­sæld þjóðar­inn­ar. Heil­brigðis­kerfið bygg­ir á fé­lags­leg­um grunni þar sem hið op­in­bera trygg­ir lands­mönn­um jafnt aðgengi að nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu. Fram­sókn legg­ur áherslu á mik­il­vægi þess að standa vörð um heil­brigðis­kerfið og um­fram allt tryggja jafnt og tím­an­legt aðgengi að öfl­ugri heil­brigðisþjón­ustu, óháð efna­hag og bú­setu.“

Ég leit við í hús­næðið á dög­un­um og þar er allt á fullu og fram­kvæmd­ir ganga vel og áætl­un stefnt er á opn­un núna í maí.

Takk fyr­ir sam­starfið í þessu mik­il­væga verk­efni Will­um Þór Þórs­son.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2025.

Categories
Greinar

Ofþétting byggðar í Breið­holti?

Deila grein

10/04/2025

Ofþétting byggðar í Breið­holti?

Það er kannski mikilvægt á þessum tímapunkti að minna á þá orðræðu sem við í Framsókn í Reykjavík höfum talað fyrir á þessu kjörtímabili; Þéttum byggð þar sem það er skynsamlegt, en riðjum líka nýtt land og gerum fleiri lóðir byggingarhæfar. Við þurfum nefnilega að byggja bæði meira og fjölbreyttar. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið.

Sem íbúi í Seljahverfinu í Breiðholti vil ég benda á að í hverfinu eru tveir frábærir skólar. Það eru Ölduselsskóli, og svo besti grunnskóli í heimi, gamli skólinn minn; Seljaskóli. Þétting byggðar í Seljahverfi kann að hljóma eins og hin allra besta hugmynd, en við verðum að hafa í huga að hverfið er að yngjast, barnafólki er að fjölga þarna aftur og skólarnir verða þéttar setnir á næstu árum en þeir hafa verið núna – og er þó ansi þétt setinn bekkurinn.

Við skulum líka ekki gleyma að í öllum hverfum er þörf á einhverjum grænum blettum, grænum svæðum. Það ríkir gríðarleg ánægja með Seljahverfið eins og það er – og í raun Breiðholtið allt. Breiðhyltingar eru stoltir af hverfinu sínu og njóta þess að vera þarna úti við leik og hreyfingu. En það þýðir ekki að það megi ekkert byggja – heldur verðum við að gera það í takt við útlit og anda hverfisins, vilja íbúa og þróa áfram grænu svæðin þannig að þau nýtist íbúum sem best. Við getum gert bæði.

Gleymum því ekki að fólk sem býr í Breiðholti býr í dag við bílastæðaskort. Sá skortur hefur verið viðvarandi frá upphafi, þar sem fleiri íbúðir voru byggðar á flestum reitum en upphaflega var áætlað. Það er því full ástæða til þess að minna alla kjörna fulltrúa á það að hvar sem á að byggja, í Breiðholtinu eða annars staðar, þarf að gera ráð fyrir fleiri bílastæðum en 0,5 á hverja íbúð, enda fæstir að keyra um á hálfum bílum. Það er ekki á bílastæðaskortinn í Breiðholti bætandi. Við þurfum að styðja við raunverulegt val fólks til ferðamáta.

Að lokum, þegar kemur að þéttingu, þá þarf að huga að góðu samráði við íbúa þar sem verið er að raska gömlum og grónum hverfum. Þétting má ekki hafa þau áhrif að hún rýri lífsgæði íbúa sem fyrir eru: það verður að hlusta á áhyggjur íbúa hverfanna þegar þær koma upp og vinna að lausnum þar sem mesta sáttin ríkir.

Kjörnir fulltrúar þurfa að mæta íbúum með auðmýkt og samtali. Við þurfum að hlusta á sérfræðingana í hverju hverfi, það er íbúana.

Þorvaldur Daníelsson, fyrsti varaborgarfulltrúi Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Deila grein

10/04/2025

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Braut­skrán­ing­um úr iðnnámi hjá ein­stak­ling­um yngri en 21 árs hef­ur fjölgað um 150% frá ár­inu 2016, sam­kvæmt töl­fræði Hag­stofu Íslands. Al­gjör straum­hvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngrein­um.

Eitt af áherslu­mál­um síðustu rík­is­stjórn­ar var að efla iðnnám á Íslandi, og því má með sanni segja að það hafi tek­ist í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in. Mennta­stefna til árs­ins 2030 legg­ur sér­stak­an metnað í iðnnám og fram­kvæmda­áætl­un um stefn­una. Megin­á­stæða þess að ráðist var í metnaðarfulla stefnu­gerð og aðgerðir var sú staðreynd að mun færri sóttu iðnnám á Íslandi en í öðrum OECD-ríkj­um. Skýr vilji stjórn­valda stóð til þess að fleiri sæktu sér starfs- og tækni­mennt­un til að koma bet­ur til móts við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Stjórn­völd og skóla­sam­fé­lagið gerðu sam­komu­lag árið 2020 við Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um að fara í sam­stillt­ar aðgerðir til að efla iðnnám í fimm liðum: Í fyrsta lagi var ráðist í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar á iðnnámi með það að mark­miði að ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms. Ný reglu­gerð var sett um vinnustaðanámið, þar sem helsta breyt­ing­in var að fram­halds­skól­ar báru ábyrgð á gerð og staðfest­ingu vinnustaðanáms­samn­inga fyr­ir iðnnema í gegn­um ra­f­ræna ferl­ibók. Í stuttu máli: Fram­halds­skól­arn­ir tóku í aukn­um mæli ábyrgð á öllu nám­inu – frá inn­rit­un til út­skrift­ar. Í öðru lagi var ráðist í breyt­ing­ar á lög­um um há­skóla­stigið, þannig að iðnmenntaðir skyldu njóta sömu rétt­inda og þeir sem lokið hafa stúd­ents­prófi til að sækja um há­skóla­nám. Í þriðja lagi var mark­visst unnið að því að bæta aðgengi að starfs- og tækni­námi á lands­byggðinni, enda ræður náms­fram­boð í heima­byggð miklu um námsval ung­menna að lokn­um grunn­skóla. Nýr Tækni­skóli er á teikni­borðinu og aðstaða bætt víða um land. Í fjórða lagi skyldi náms- og starfs­ráðgjöf í grunn­skól­um styrkt, bæði fyr­ir ung­menni og for­eldra.

Far­sæl sam­vinna og sam­starf allra lyk­ilaðila skilaði góðum ár­angri fyr­ir land og þjóð. Ég vil þakka öll­um þeim sem lögðu hönd á plóg til að efla iðnnám á Íslandi fyr­ir gott sam­starf.

Í rík­is­fjár­mála­áætl­un nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar er boðaður stór­felld­ur niður­skurður í mennta­mál­um. Sér­stakt áhyggju­efni er fram­halds­skóla­stigið, þar sem veru­lega á að lækka fjár­fram­lög­in. Með þess­um áform­um er hætta á að rík­is­stjórn­in sé að fresta framtíðinni og grafa und­an framtíðar­hag­vexti sem byggður er á mennt­un.

Ljóst er í mín­um huga að ef hand­verk iðnmenntaðra væri ekki til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi væri afar tóm­legt um að lit­ast. Full­yrðing Njáls á Bergþórs­hvoli, um að land vort skuli byggt með lög­um, er ljóðræn og fög­ur – en raun­in er sú að miklu meira en laga­bók­staf­inn þarf til að byggja sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherralilja­alf@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl 2025.

Categories
Greinar

Iðkun rafíþrótta og velferð barna

Deila grein

09/04/2025

Iðkun rafíþrótta og velferð barna

Rafíþrótt­ir og fram­gang­ur þeirra hér á landi hef­ur mér hjart­ans mál um langt skeið og í dag mun ég mæla fyr­ir til­lögu okk­ar í Fram­sókn um stofn­un stýri­hóps sem mun hafa það mark­mið að marka stefnu borg­ar­inn­ar varðandi rafíþrótt­ir og iðkun þeirra.

Rafíþrótta­hreyf­ing­in hef­ur það að mark­miði líkt og aðrar íþrótta­hreyf­ing­ar að stuðla að betri heilsu og bættri and­legri líðan barna, sem ég veit fyr­ir víst að skipt­ir alla Íslend­inga máli. Með þetta að leiðarljósi hafa rafíþrótta­fé­lög hér á landi náð að laða til sín um 3.500 iðkend­ur á grunn­skóla­aldri.

Fé­lög sem starf­rækja rafíþrótta­deild­ir núna í Reykja­vík eru Fylk­ir og Ármann. KR starf­rækti hér deild í stutt­an tíma en hún varð frá að hverfa vegna fjár­magns­leys­is og er mik­il eft­ir­sjá að henni.

Um­hverfi rafíþrótta er að mörgu leyti erfitt hér á landi. Starf­semi rafíþrótta­fé­laga hef­ur mætt skiln­ings­leysi hjá for­svars­mönn­um ÍSÍ og hef­ur Reykja­vík­ur­borg ekki enn markað sér stefnu um rafíþrótt­ir og iðkun þeirra meðal barna og ung­linga, þrátt fyr­ir að ÍBR hafi samþykkt að rafíþrótt­ir til­heyri sínu sviði og komið því þannig fyr­ir að keppt er í rafíþrótt­um á Reykja­vík­ur­leik­un­um.

Þessu þarf að breyta og því vill Fram­sókn að Reykja­vík­ur­borg taki þetta mál föst­um tök­um og marki sér stefnu í rafíþrótt­um og iðkun þeirra.

Rök­in fyr­ir því að borg­in taki upp sér­staka stefnu í þess­um mála­flokki eru ein­föld. Með skýrri stefnu um rafíþrótt­ir fyr­ir börn væri stuðlað að því að virkja fjölda af krökk­um sem eru ekki í neinu skipu­lögðu íþrótt­a­starfi eða hafa sýnt lít­inn áhuga á slíku.

Frá stofn­un Rafíþrótta­sam­bands Íslands (RÍSI) hef­ur Fram­sókn stutt dyggi­lega við upp­bygg­ingu skipu­lagðrar starfs­semi rafíþrótta. Ég tel nauðsyn­legt að halda þeirri veg­ferð áfram og tryggja að við náum til stærri hóps krakka með fjöl­breytt­ari nálg­un í íþrótta- og tóm­stunda­mál­um.

Frá­bær und­ir­bún­ing­ur fyr­ir framtíðina

Í ung­dómi Íslands er framtíð lands­ins fal­in og því er það mik­il­vægt mál­efni stjórn­mál­anna að styðja við þroska og hæfi­leika­rækt­un ung­menna. Fjórða iðnbylt­ing­in er haf­in og meiri­hluti þeirra starfa sem nú eru til verður horf­inn eft­ir nokkra ára­tugi. Störf framtíðar­inn­ar munu snú­ast um tölvu­tækni og því er afar mik­il­vægt að börn og ung­ling­ar séu hag­vön að nýta sér hana. Ein vin­sæl­asta dægra­dvöl ís­lenskra krakka og ung­linga er að spila tölvu­spil og geta slík spil bæði gefið þeim tæki­færi til að kynn­ast tölvu­tækni þannig að það nýt­ist þeim á hinum ýms­um sviðum. Iðkun rafíþrótta get­ur kennt börn­um okk­ar að spila tölvu­leiki með ábyrg­um hætti, en eins og ég kom inn á hér að ofan að er mark­mið rafíþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar eins og skil­greint er af Rafíþrótta­sam­bandi Íslands (RÍSÍ) að stuðla að lík­am­legri hreyf­ingu af ýmsu tagi og þjálf­un í taktískri hugs­un og áherslu á and­leg­an und­ir­bún­ing og hollt matræði.

Það hljóm­ar fyr­ir mér eins og frá­bær und­ir­bún­ing­ur fyr­ir framtíðina.

Við stönd­um frammi fyr­ir því verk­efni að mennta okk­ar unga fólk þannig að það og Ísland verði sam­keppn­is­hæft inn í næstu 100 árin og geta rafíþrótt­ir gegnt mik­il­vægu hlut­verki í því sam­bandi.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óboðleg fjármálaáætlun

Deila grein

09/04/2025

Óboðleg fjármálaáætlun

Í síðustu viku lagði rík­is­stjórn­in fram fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2026-2030. Þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar um ábyrgð og gegn­sæi vek­ur áætl­un­in áleitn­ar og al­var­leg­ar spurn­ing­ar um skort á skýr­leika og aðgengi Alþing­is og lands­manna að upp­lýs­ing­um um hvert stefn­ir í fjár­mál­um al­menn­ings og hins op­in­bera næstu ár. Hvaða stofn­an­ir verða lagðar niður? Hver verður stefn­an í gjald­töku auðlinda? Hvar á að hagræða? Hvaða verk­efni á að stöðva?

Blind­flug eða lang­tíma­horf­ur

Í mars 2025 kynnti fjár­málaráðherra skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um. Þrátt fyr­ir að veita al­menna yf­ir­sýn um áskor­an­ir næstu ára og ára­tuga fjallaði skýrsl­an því miður hvorki um mik­il­væga þætti eins og vax­andi þrýst­ing frá NATO um hærri út­gjöld til varn­ar­mála, tolla­stríð sem gæti haft áhrif á gengi krón­unn­ar og út­flutn­ing (s.s. ferðaþjón­ustu), né tölu­legt um­fang innviðaskuld­ar sem krefst lang­tíma­fjár­fest­inga. Þessi van­ræksla er mjög baga­leg.

Óljós fjár­mála­stefna

Með sama hætti eru for­send­ur ný­fram­lagðrar fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar til næstu fimm ára (2026-2030) í besta falli óljós­ar. Eins og í skýrslu fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um, sem birt var í mars, er í fjár­mála­stefn­unni lítið sem ekk­ert fjallað um fyr­ir­huguð auk­in út­gjöld til varn­ar­mála næstu ára, sem ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur þó gefið til kynna, nú síðast um liðna helgi.

Þá er eng­an veg­inn fjallað um mögu­leg nei­kvæð áhrif tolla­stríðs á ís­lenskt efna­hags­líf, sér­stak­lega ferðaþjón­ustu. Útlitið er ekki bjart. Það veit fólk sem starfar í grein­inni. Eng­ar tölu­leg­ar for­send­ur eru lagðar fram í því ljósi, sem vek­ur spurn­ing­ar um hvort for­send­ur hag­stjórn­ar séu rétt­ar, hvort tekju- og út­gjalda­for­send­ur stand­ist og hvort af­komu­mark­mið séu raun­hæf.

Óljós fjár­mála­áætl­un

Svo­kölluð fjár­mála­áætl­un er svo enn einn hluti af gang­verki stefnu­mörk­un­ar hins op­in­bera, og kem­ur í kjöl­far fjár­mála­stefnu. Fjár­mála­áætl­un á að veita Alþingi og al­menn­ingi skýra og inni­halds­ríka mynd af þróun út­gjalda og tekna mál­efna­sviða eins og starf­semi fram­halds­skóla, há­skóla, land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs og heil­brigðismála.

Í áætl­un­inni á að birta áhersl­ur, mark­mið og mæli­kv­arða um starf­semi s.s. á sviði mennta- og heil­brigðismála og sýna for­gangs­röðun næstu fimm árin. Nán­ast eng­in slík mark­mið koma fram. Al­menn­ing­ur get­ur eng­an veg­inn áttað sig á hvað ár­angri rík­is­stjórn­in hyggst ná á fyrr­nefnd­um mál­efna­sviðum, enda vant­ar alla mæli­kv­arða.

Alþingi sjálft veit lítið sem ekk­ert og áætl­un­in upp­fyll­ir með engu móti þær kröf­ur sem gera verður til rík­is­valds­ins um vandaða stefnu­mót­un.

Rétt­ur Alþing­is til grunnupp­lýs­inga

Sam­kvæmt lög­um um op­in­ber fjár­mál á Alþingi rétt á aðgangi að skýr­um gögn­um um mark­mið, mæli­kv­arða, tíma­setn­ing­ar og fjár­mögn­un aðgerða inn­an hvers mál­efna­sviðs sem fjalla á um í grein­ar­gerð með fjár­mála­áætl­un. Án þess­ara upp­lýs­inga get­ur þingið ekki rætt grunn­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar, sem dreg­ur úr getu þess til að sinna eft­ir­lits­hlut­verki sínu. Um hvað á að ræða ef ekk­ert markvert kem­ur fram í fjár­mála­áætl­un næstu ára um mark­mið og mæli­kv­arða í starf­semi mál­efna­sviða?

Hagræðing­ar­til­lög­ur og út­gjalda­stefna

Þá vek­ur meiri hátt­ar at­hygli að nán­ast eng­in efn­is­leg um­fjöll­un er í fjár­mála­áætl­un­inni um hagræðing­ar­til­lög­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem þó voru kynnt­ar op­in­ber­lega ný­lega – og rík­is­stjórn­in hef­ur samþykkt. Ekk­ert ligg­ur fyr­ir um hvernig sparnaður upp á tugi millj­arða króna á ári á að nást næstu fimm ár, hvaða stofn­an­ir eigi að sam­eina eða leggja niður, svo dæmi séu tek­in. Útgjalda­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar eru veru­lega ótrygg­ar. Fólk, þ.m.t. op­in­ber­ir starfs­menn, veit ekk­ert um hvað koma skal.

Gilda mark­mið fyrri rík­is­stjórn­ar frá 2024?

Þar sem nán­ast eng­in mark­mið og mæli­kv­arðar koma fram um starf­semi mál­efna­sviða er rétt­mæt spurn­ing hvort mark­mið síðustu fjár­mála­áætl­un­ar, frá vori 2024, gildi enn og eigi að gilda næstu ár. Ef svo er má spyrja hvernig þau passa við nýja út­gjalda­áætl­un og stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Skýrt ósam­ræmi við lög um op­in­ber fjár­mál

Sam­kvæmt 5. og 20. gr. laga um op­in­ber fjár­mál skal fjár­mála­áætl­un inni­halda skýra stefnu­mörk­un fyr­ir hvert mál­efna­svið, ásamt mark­miðum, mæli­kvörðum, fjár­mögn­un og áætlaðri tíma­setn­ingu aðgerða. Hver sá sem hef­ur grunn­færni í lestri, hvað þá grunn­færni í hag­fræði, veit hvað átt er við. Þar sem þessa efn­isþætti vant­ar upp­fyll­ir fjár­mála­áætl­un 2026-2030 ekki laga­leg­ar kröf­ur. Í stað þess að gang­ast við mis­tök­un­um og bæta úr þeim mæt­ir fjár­málaráðherra og stjórn­arþing­menn ábend­ing­un­um með full­yrðing­um sem í besta falli eru hagræðing á sann­leika máls­ins.

Blind­flugið held­ur áfram

Skort­ur á skýr­leika, gegn­sæi og aðgengi að grunnupp­lýs­ing­um í fjár­mála­áætl­un 2026-2030, sér­stak­lega um starf­semi inn­an mál­efna­sviða s.s. land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs, hjúkr­un­ar­heim­ila og mennta­mála, veld­ur óvissu, dreg­ur úr skiln­ingi al­menn­ings og hagaðila á stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar og veik­ir al­mennt traust á stjórn­völd­um.

Rík­is­stjórn­in verður að gera bet­ur. Til að þing­menn geti sinnt lög­bundnu hlut­verki sínu verða að liggja fyr­ir full­nægj­andi gögn í sam­ræmi við ákvæði laga. Þau eru ekki til staðar og er með öllu óboðlegt að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert var síðastliðinn mánu­dag í þing­inu.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Deila grein

07/04/2025

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er fátt sem sameinar okkur eins og þegar íslenskt íþróttafólk stígur inn á stóra sviðið erlendis. Flest þekkjum við tilfinninguna þegar við setjumst saman fyrir framan sjónvarpið, klædd í landsliðstreyju, með hjartað í buxunum og full af stolti. Við hvetjum íþróttafólkið okkar áfram, lifum okkur inn í leikinn. Fögnum þegar vel gengur, syrgjum saman og styðjum okkar fólk – sama hvar það er í heiminum. Við stöndum saman sem þjóð.

Dýrmætt starf sjálfboðaliða

En það gleymist stundum að í hvert skipti sem íslenskur íþróttamaður stendur á sviðinu, þá standa ótal sjálfboðaliðar að baki hans – ósýnilegir en ómissandi. Á bak við hvert mark, hverja medalíu og hvern leik liggur þrotlaus vinna sem á sér rætur í hverfinu heima. Á íþróttasvæðinu, í félagsheimilinu, á æfingunni, á mótunum – þar eru sjálfboðaliðarnir mættir til að aðstoða, skipuleggja, keyra, moka snjó af vellinum, setja upp rásir, selja vöfflur og svo margt fleira – allt án þess að fá borgað fyrir. Án þessa fólks væru engin landslið – og ekkert EM.

Áætlað er að sjálfboðaliðar í íþróttum vinni um 7,7 milljónir klukkustunda á ári. Verðmæti þeirrar vinnu er metið á yfir 15 milljarða króna á ári ef miðað er við tímagjald upp á um 1.950 kr. Þetta er byggt á greiningum og svörum félaga innan ÍSÍ og UMFÍ og birtist í skýrslu ÍSÍ um sjálfboðaliða 2024. Þetta sýnir svart á hvítu að íslenskt íþróttastarf stendur og fellur með þessu gríðarlega ólaunaða framlagi. Í raun er þetta stærsti „sjóðurinn“ sem hreyfingin byggir á – og hann er algjörlega háður vilja fólks til að gefa vinnu sína. Þó að starfið hafi haldist öflugt lengi, þá standa blikur á lofti.

Stöndum með sjálfboðaliðunum okkar

Vísbendingar eru um að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa en áður. Sérstaklega í ábyrgðarhlutverk eins og stjórnir og nefndir, fá fólk til að sjá um viðburði og halda utan um starfið. Hluti þess skýrist af auknum kröfum og væntingum – en einnig af því að sjálfboðaliðar búa oft við óljósa réttstöðu og takmarkaðan stuðning. Það dregur úr vilja fólks til þátttöku ef það veit ekki hvaða ábyrgð það ber – eða hvort það fái aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Þess vegna lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu um aukið réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum úr öllum lykilstofnunum viljum við greina stöðuna, skýra ábyrgð, bæta tryggingavernd, efla fræðslu og styðja við sjálfboðaliða með markvissum hætti.

Það þarf að tryggja að tryggingar séu til staðar – bæði gegn slysum og mögulegri ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis. Að verklýsingar séu skýrar. Að fræðsla og þjálfun sé aðgengileg. Að fólk viti hvað er verið að fara fram á – og hvað það fær til stuðnings. Það mun auka öryggi, draga úr brottfalli og ekki síst – hvetja fleiri til þátttöku.

Við viljum nefnilega hvetja fleiri til þátttöku. Það gerum við með því að gera hlutverk sjálfboðaliða skýrara, bjóða upp á handbækur, kynningar, aðgengi að upplýsingum – og ekki síst: sýna þakklæti. Það getur verið í formi viðurkenninga, fríðinda eða einfaldlega þess að einhver segi „takk fyrir“.

Íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að missa þetta fólk

Það er auðvelt fyrir okkur að fagna og hvetja áfram okkar afreksfólk og landslið Íslands. Við stöndum þétt saman þegar að þau keppa úti í heimi. En til að landsliðið verði til þurfa tugir, jafnvel hundruð sjálfboðaliða að hafa staðið vaktina árum saman. Nú er tími til kominn að við stöndum með fólkinu sem vinnur ósýnilegu vinnuna til að ryðja veginn svo afreksfólkið okkar geti haldið áfram að láta ljós sitt skína og skila árangri í hús.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Komum náminu á Höfn í höfn

Deila grein

05/04/2025

Komum náminu á Höfn í höfn

„Við erum með þrjú gengi sem skiptast á, vinna í klukkutíma í senn við mokstur og niðurbrot á ís. Þannig munum við sigla áfram inn í daginn”, sagði Sveinn Rúnar Kristjánsson á vettvangi aðgerða í kjölfar hrun íshellisins í Breiðamerkurjökli síðastliðið haust.

Í slysinu lést einn ferðamaður. Það minnti harkalega á hversu mikilvæg þekking í leiðsögn er í síbreytilegu umhverfi jökla hér á landi. Þar skiptir fagmennskan öllu. Færni. Reynsla. Ábyrgð.

Þessa þrjá þætti hefur fjallamennskunámið við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Höfn einmitt lagt mikla áherslu á. Námið er eina sinnar tegundar á Íslandi. Það útskrifar fólk með eftirsótta þekkingu fyrir lykilgrein á Íslandi; ferðaþjónustuna. Slíkt er þarft og ekki síst „höfuðstöðvum“ helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúmlega 500% á undanförnum árum.

Samhliða aukningu hafa ný ferðaþjónustufyritæki sprottið fram og eftirspurn eftir fólki með sérhæfða þekkingu í leiðsögn aukist langt umfram framboð. Svo mikið að ráðuneytisstjórahópur sem lagði mat á aðgerðir í kjölfar slyssins ályktaði sérstaklega; „að auka þyrfti kröfur um menntun og reynslu til þess að starfa í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Öflugt nám er einfaldlega forsenda þess að leiðsögn á jökla, sem eru eitt helsta aðdráttarafl landsins, sé vönduð, enda er orðspor okkar sem áfangastaðar undir. Allt annað er áhætta fyrir fólk, fyrirtæki og framtíð ferðaþjónustunnar, greinar sem styður jafnframt blómlega byggð um allt land. Námið er einmitt uppskera kraftmikils fólks sem margt hvert sneri aftur heim í Öræfin með fjölbreytta menntun og reynslu í farteskinu.

Námsbrautinni á hins vegar nú að loka. Kostnaðurinn þykir of mikill. Spurningin ætti þó heldur að vera; hvað kostar Ísland að hafa ekki slíkt nám? Að ógna öryggi ferðaþjónustunnar sem telur í dag rúm átta prósent af landsframleiðslu Íslands. Að draga úr vaxtatækifærum í menntun og atvinnu utan höfuðborgarinnar. Hvernig framtíðarsýn er það?

Við mat á verðmæti námsins þarf einfaldlega að setja hlutina í stærra samhengi; víkka linsuna á vaxtatækifærin sem eru til staðar. Hægt væri að sækja hluta tekna til reksturs námsins frá erlendum nemendum og áhugafólki um útivist, og gefa kost á að nýta ákveðnar einingar þess á háskólastigi. Þetta þekkir undirrituð frá því að hafa byggt upp alþjóðlegt nám við Háskólann í Reykjavík og Harvard.

Til viðbótar við ferðaþjónustu mætti einnig horfa á þverrandi líðan ungs fólks og spyrja; er fjallamennskunám mögulega sproti sem við ættum að leyfa okkur sem þjóð að fjárfesta meira í sem hluta af samfélagsáherslu Íslands í menntun. Vel er þekkt að sú vellíðan og liðsheild sem myndast í samveru á fjöllum er á við margar vítamínssprautur og skapar bæði seiglu og þrótt fyrir verkefnin sem við fáum í fangið í lífsins ólgusjó.

Ég skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gefa náminu svigrúm til þess að finna nýjan farveg í stað þess að hætta stuðningi nú. Til þess þarf plan til eins til þriggja ára á meðan fjölbreyttari tekjugrundvöllur er þróaður. Ég trúi því að þingmenn óháð flokkum horfi sömu augum á málið og að við leggjumst öll á árarnar.

Komum náminu á Höfn í höfn; með langtímahagsmuni og metnaðarfulla sýn fyrir Ísland að leiðarljósi.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Deila grein

03/04/2025

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að sérstök áhersla verði lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu og styðja fjölbreytt rekstrarform. Þessi loforð eru innantóm, því fyrsta stórtæka aðgerðin í geðheilbrigðismálum nýrrar ríkisstjórnar er að loka Janusi endurhæfingu – úrræði sem hefur í 25 ár þjónustað einn viðkvæmasta hóp samfélagsins; ungt fólk með alvarlegan geðrænan og félagslegan vanda.

Þetta eru ungmenni sem hafa dottið út úr skóla og vinnu. Mörg þeirra með greiningu á einhverfurófi, þunglyndi, kvíða, áfallasögu og félagslega einangrun að baki. Þau hafa leitað víða í kerfinu – og fengið þau svör að úrræði sniðið að þeirra þörfum sé ekki til staðar. Í Janusi endurhæfingu hafa þau fundið skjól, fundið von og náð árangri. Rúmlega 56% (meðaltal) þeirra sem hafa lokið þjónustu síðastliðin 3 ár hafa farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit. Þjónustan sem Janus veitir skjólstæðingum sínum er veitt af sérfræðiteymi með sértæka þekkingu undir forystu geðlæknis með áratuga reynslu. Janus er einstök, þverfagleg og samhæfð þjónusta, sem finnst hvergi annarsstaðar í kerfinu.

Úrræðinu lokað – ekkert sambærilegt tekur við

Nú á að leggja þessa þjónustu niður. Starfsfólki hefur verið sagt upp. Engin sambærileg lausn er tilbúin. Fjöldi ungmenna – sem og þeir sem bíða eftir plássi – standa eftir í algjöru tómarúmi, óvissan um framtíðina þjakar aðstandendur þeirra líka.

Í fyrirspurn á Alþingi á dögunum, spurði ég heilbrigðisráðherra út í hvað taki við fyrir þetta unga fólk. Engin skýr svör fengust. Ekki hvar, ekki hvenær, ekki hvernig! Ekki einu sinni viðurkenning á því hversu alvarleg staðan er þegar ljóst er að ekkert úrræði mun taka á móti þessum viðkvæma og jaðarsetta hópi með sama hætti.

Það sem er einnig alvarlegt er að hvorki heilbrigðisráðherra né stjórnarþingmenn hafa sýnt því sóma að kynna sér starfsemi Janusar endurhæfingar á vettvangi. Fulltrúar Janusar endurhæfingar hafa boðið ráðherrum að koma og skoða aðstöðuna, kynna sér starfsemina. En engin heimsókn hefur orðið að veruleika. Þögnin er ærandi. Ábyrgðarleysið augljóst.

Fagfólk varar við

Geðlæknafélagið, Píeta samtökin, Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og fleiri hafa varað við að úrræði á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs – sem nú eiga að taka við hlusta af þjónustunni – hafi ekki þá fagþekkingu sem til þarf. Ungmennin sem Janus endurhæfing þjónustar eru ekki tilbúin í hefðbundin atvinnutengd úrræði – þau þurfa fyrst geðræna endurhæfingu, í öruggu og samþættu umhverfi veitta af fagaðilum með sértæka þekkingu, reynslu og tryggum aðgangi að geðlækni.

Það er erfitt að sjá þessa ákvörðun sem annað en hugmyndafræðilega aðför að einkaframtaki. Það læðist að grunur – sem ekki er úr lausu lofti gripinn – að ef Janus endurhæfing hefði verið ríkisrekið úrræði, þá væri þetta ekki að gerast. En hér er það ekki kerfið sem þarf að verja – heldur unga fólkið.

Í þjónustukönnunum og viðtölum lýsa þátttakendur hvernig Janus endurhæfing hefur bjargað lífi þeirra, veitt þeim tilgang, sjálfstraust og nýja byrjun. Foreldrar ungmenna segja frá því að þar hafi þau loksins fundið stað sem skilur þarfir barnanna þeirra. Hvers konar samfélag lítur fram hjá þessari reynslu?

Það er siðferðilega rangt – og faglega ábyrgðarlaust – að loka virku úrræði án þess að annað jafngott sé tilbúið. Það er ekki boðlegt að færa slíka þjónustu yfir í almennara kerfi án mats, aðlögunar eða raunverulegs samtals við þá sem þekkja þjónustuna best.

Enn er glugginn opinn

En það er enn tími til stefnu. Heilbrigðisráðherra getur snúið frá þessari ákvörðun. Hún getur gert bráðabirgðasamning, tryggt áframhaldandi starfsemi á meðan unnið er að framtíðarsýn í samstarfi við fagfólk, notendur og aðstandendur.

Við eigum ekki að fórna framtíð ungs fólks fyrir kerfisreglur. Við eigum ekki að þegja þegar þjónusta sem virkar er tekin niður – af því hún er ekki hluti af stóru opinberu myndinni. Við verðum að láta í okkur heyra. Vegna þeirra sem ekki fá rödd – og vegna þess sem í húfi er.

Ef Janusi endurhæfingu verður lokað – þá er það í boði stjórnarmeirihlutans. Ráðamenn bera þá ábyrgð – bæði pólitíska og siðferðilega.

Unga fólkið okkar hefur stofnað undirskriftalista til að mótmæla þessari aðför að lífsbjargandi úrræði þeirra. Sýnum stuðning í verki;

https://island.is/undirskriftalistar/ace3bde9-f921-4833-b2ff-21e966be072d

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.