Categories
Greinar

Samvinna – lykill að árangri

Deila grein

16/01/2025

Samvinna – lykill að árangri

Sam­vinnu­hug­sjón­in á ræt­ur að rekja til Bret­lands árið 1844 og barst til Íslands á 19. öld. Grunn­hug­mynd­in er ein­föld: með sam­eig­in­legu átaki ná menn lengra en í ein­angruðum verk­efn­um.

Þetta viðhorf hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú í krefj­andi alþjóðlegu sam­hengi. Sam­vinna er ómiss­andi þátt­ur í stjórn­un lands, og Fram­sókn hef­ur beitt henni til að ná ár­angri fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag í yfir heila öld.

Leið að sjálf­bær­um hag­vexti

Einn áhrifa­mesti hag­fræðing­ur sög­unn­ar, Al­fred Mars­hall (1842-1924), sem er tal­inn einn af feðrum nú­tíma­hag­fræði, lagði mikla áherslu á sam­vinnu og gerði rann­sókn­ir á efna­hags­leg­um ávinn­ingi sam­vinnu­fé­laga.

Niðurstaða hans var að sam­vinnu­fé­lög gætu aukið fram­leiðni og bætt lífs­kjör með því að sam­eina hags­muni vinnu­afls og stjórn­enda. Hann benti einnig á að sam­vinna og sér­hæf­ing inn­an ákveðinna land­fræðilegra svæða gætu aukið fram­leiðni.

Áhuga­vert er einnig að skoða hag­fræðikenn­ing­ar nó­bels­verðlauna­haf­ans Ed­munds Phelps en hann hef­ur bent á mik­il­vægi sam­vinnu fyr­ir sjálf­bær­an hag­vöxt. Kenn­ing­ar hans leggja áherslu á tengsl ný­sköp­un­ar, menn­ing­ar og efna­hags­legs vaxt­ar.

Hag­vöxt­ur bygg­ist ekki ein­göngu á fjár­fest­ingu og vinnu­afli held­ur einnig á hug­viti, sköp­un­ar­gáfu og þátt­töku ein­stak­linga. Sam­vinna auðveld­ar miðlun hug­mynda og þróun lausna, sem er und­ir­staða ný­sköp­un­ar. Í markaðshag­kerfi verður sam­vinna milli ein­stak­linga og fyr­ir­tækja að afli sem stuðlar að fram­leiðniaukn­ingu og tækniþróun.

Sam­kvæmt hagrann­sókn­um eyk­ur fé­lags­legt traust skil­virkni í fram­leiðslu­ferl­um og skap­ar sam­eig­in­leg mark­mið og verðmæti sem gagn­ast sam­fé­lag­inu. Sér­stak­lega á tím­um tækniþró­un­ar er sam­vinna milli rík­is, fyr­ir­tækja og rann­sókna lyk­ill að stöðugum hag­vexti.

Án henn­ar hætt­ir hag­kerf­um til að staðna, en með henni verður til um­hverfi sem hvet­ur til ný­sköp­un­ar og hag­sæld­ar fyr­ir alla.

Hug­sjón sem höfð verður í brenni­depli

Sam­vinnu­hug­sjón­in er því grund­vall­ar­atriði, bæði í stjórn­mál­um og efna­hags­lífi, þar sem hún legg­ur grunn að nýj­um lausn­um og sjálf­bærri þróun. Sam­vinna er hug­mynda­fræði sem á er­indi við sam­tím­ann og mun Fram­sókn leggja áherslu á að sú hug­sjón haldi áfram að skapa fé­lags­leg­an og efna­hags­leg­an auð á Íslandi.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2025.

Categories
Greinar

Í upphaf árs; samfélag tækifæra

Deila grein

13/01/2025

Í upphaf árs; samfélag tækifæra

Framtíðin gerist ekki af sjálfu sér. Við mótum hana. Eitt er víst að breytingar eiga sér ekki stað í aðgerðarleysi. Það kallar á samtal, samstöðu og kjark til að taka ákvarðanir. Hvert er þitt framlag í að móta þessa framtíð? Að skapa tækifæri fyrir komandi kynslóðir, bregðast við áskorunum, nýta auðlindir, laða að fólk og fjárfestingar, styrkja samstöðu, byggja upp traust og stuðla að jákvæðni.

Börn og ungmenni

Í fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir ráðdeild í rekstri, eflingu grunnþjónustu og forgangsraða í þágu barna og ungmenna. Nýtt húsnæði fyrir félagsmiðstöð og frístundaþjónustu verður boðið út með hækkandi sól. Starfshópur mun skila niðurstöðu um leikskólaþjónustu til framtíðar, hvar og hvernig henni verður best fyrir komið. Í framhaldi þarf að huga að uppbyggingu íþróttamannvirkja og aðstöðu fyrir menningarviðburði. Til stendur að byggja upp stúku á PCC vellinum og skipta um gervigras sem mun gjörbylta íþróttaiðkun og keppnishaldi á vellinum. Unnið verður að hönnun og útboði vegna endurnýjunar sundlaugar í Lundi.

Það hyllir undir raunverulegan framgang í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík en unnið er að því að koma verkefninu í útboðsferli.

Stóra myndin sem sameinar

Til að standa undir velferðinni og uppbyggingunni þarf að auka tekjur og einn helsti tekjustofn sveitarfélaga er að fjölga fólki. Í hvernig samfélagi vill fólk búa? Vinna, vöxtur og velferð. Góð kjörorð sem eiga alltaf við. Fólk þarf atvinnu til að skapa tekjur. Nýlega var iðnaðarfyrirtæki úthlutað lóð á Bakka og áfram unnið að því að byggja upp þetta iðnaðarsvæði. Áhugaverð verkefni eru til skoðunar og verði þau að veruleika mun það styrkja og treysta iðnaðarsvæðið á Bakka í sessi til framtíðar. Því samhliða þurfum við að treysta innviði eins og orkuöflun og heitt vatn. Áfram verður borað eftir heitu vatni til hverskonar nýtingar og unnið að því að koma hitaveitu á iðnaðarsvæðið á Bakka. Skynsamleg nýting auðlinda er lykill að sjálfbærri uppbyggingu og velsæld samfélaga. Hvort sem um ræðir náttúruauðlindir; fiskimið og sjávargróður, vindinn, jörðina sjálfa og landið eða mannauðinn og nýsköpun með langtímahugsun og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Sameinumst um stóru myndina en látum ekki litlu myndina sundra okkur.

Nýting auðlinda

Til stendur að stækka virkjunina á Þeistareykjum, Landsvirkjun kannar nýtingu vindauðlindarinnar í Krubbsfjallsmóum, áform eru um vindorkuver á Hólaheiði, uppbygging á fiskeldi hefur verið gríðarlega mikil í og við Öxarfjörðinn, eitt stærsta sauðfjársláturhús landsins er staðsett við Húsavík, GPG seafood hefur styrkt stöðu sína í sjávarútvegi og áform eru uppi um nýtingu stórþara við strendur Norðurlands. Ferðaþjónustan er sterk og vaxandi stoð í atvinnulífi Norðurþings og verður það áfram enda sveitarfélagið ríkt af kunnum náttúruperlum. Að nýta auðlindir til að skapa störf, styrkja grunninn, stunda nýsköpun sem skilur eftir bæði tekjur og þekkingu.

Tækifæri í myrkrinu?

Áhersla er lögð á uppbyggingu Heimskautsgerðisins til að styrkja innviði ferðaþjónustu á svæðinu. Heilsársferðaþjónusta og góðar samgöngur þurfa að fara saman hvort sem um ræðir þjónusta á Dettifossvegi eða að hverskonar þjónustuseglar séu aðgengilegir og opnir bæði heimafólki og gestum. Það eru mikil tækifæri til áframhaldandi áfangastaðaþróunar. Hér eru einhver merkilegustu undur íslenskrar náttúru eins og Ásbyrgi, Dettifoss, Kópaskersmisgengið eða Rauðinúpur og Hraunhafnartangi, nyrstu punktar meginlandsins. Hver veit, kannski leynast í myrkrinu mikil tækifæri?

Lóðir fyrir fólk og fyrirtæki

Áfram verður unnið að gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Þéttbýlið á Kópaskeri hefur verið deiliskipulagt hvar finna má lóðir til áframhaldandi uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Unnið er að þéttingu byggðar með mjög spennandi byggingarmöguleikum innan þéttbýlisins á Húsavík suður frá Hjarðarholti og í Reitnum. Um leið opnast spennandi tækifæri í miðbæ Húsavíkur að fjölga þar íbúum þar sem skapast líflegra og spennandi mannlíf sem stuðningur við verslun og þjónustu. Þá nýtast innviðir betur og dregur úr bílaumferð sem skapar félagslega samheldni með skilvirkari landnýtingu.

Framsýni og stolt

Fjárfestum áfram í innviðum fyrir fjölskyldur, menningu, íþróttir og tómstundir. Verum stolt af því góða sem gerist og rýnum til gagns. Verum stolt af fyrirtækjunum okkar og þeim auðlindum sem þau nýta. Sækjum fleiri og nýtum auðlindirnar okkar til að fjölga störfum og skapa tekjur til að byggja upp samfélagið okkar.

Framtíðin ræðst ekki af því sem við ætlum að gera, heldur því sem við gerum í dag. Framtíðin bíður ekki – hún mótast af ákvörðunum okkar í dag. Með samstöðu, framsýni, seiglu og kjarki getum við byggt upp öflugt og sjálfbært samfélag þar sem tækifæri blómstra. Hvernig getur þú tekið þátt í að byggja samfélag sem við getum öll verið stolt af?

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Deila grein

09/01/2025

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Und­an­farið hef­ur umræða um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið (ESB) vakið at­hygli og verið áhuga­vert að lesa hinar ólíku hliðar og sjón­ar­mið í þess­ari umræðu. Mik­il­vægt er þó að skýra að slík at­kvæðagreiðsla snýst ekki um fram­hald eldri viðræðna held­ur um upp­haf nýrra viðræðna – og þar ligg­ur veru­leg­ur mun­ur.

Upp­lýst þjóð er lyk­il­atriði

Til að slík þjóðar­at­kvæðagreiðsla sé mark­tæk er lyk­il­atriði að þjóðin fái góðar og grein­argóðar upp­lýs­ing­ar um hvað felst í slík­um viðræðum. Hverj­ir eru kost­irn­ir og gall­arn­ir? Hvað get­ur Ísland fengið frá ESB sem ekki er þegar til staðar í gegn­um EES-samn­ing­inn?

Ef þjóðin kysi að hefja viðræður við ESB væri ekki um ein­falt fram­hald eldri viðræðna að ræða. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur breyst um­tals­vert á síðustu árum og sá samn­inga­grunn­ur sem var lagður fram áður er úr sög­unni. Nýj­ar viðræður þýða að við fær­umst inn í ferli sem get­ur verið tíma­frekt og kostnaðarsamt. Þetta er ekki ein­ung­is spurn­ing um viðræður held­ur einnig um aðlög­un að regl­um sam­bands­ins og breyt­ing­ar á ótal sviðum, auk þess sem viðræðuferlið get­ur tekið mörg ár. Í því ljósi ætti þjóðin að gera sér grein fyr­ir því hvað þær viðræður fela í sér. Er það tím­ans og kostnaðar­ins virði að hefja aft­ur viðræður á byrj­un­ar­reit þegar grund­vall­ar­spurn­ing­um, sem sigldu viðræðunum í strand síðast, hef­ur ekki enn verið svarað með full­nægj­andi hætti?

Krón­an eða evr­an

Ef­laust trúa því ein­hverj­ir að inn­ganga í ESB leysi öll okk­ar vanda­mál og er þá litið á evr­una sem galdra­tæki sem bjargað geti öll­um vand­ræðum okk­ar í eitt skipti fyr­ir öll. Evr­ópu­sam­bandið er annað, stærra og meira en bara upp­taka á evru, auk þess sem inn­ganga í sam­bandið er ekki lausn und­an verðbólgu, sem þó fer hratt lækk­andi hér á landi.

En þetta er mik­il­vægt atriði í umræðunni sem gott er að liggi fyr­ir. Því til þess að hægt sé að taka upp evru hér á landi þarf Ísland að upp­fylla Ma­astricht-skil­yrðin, sem fela í sér meðal ann­ars fjár­hags­leg­an stöðug­leika, lágt skulda­hlut­fall og stöðuga vexti. Vissu­lega ástand sem er ákjós­an­legt en þetta er langt ferli sem myndi krefjast ótal efna­hags­legra um­bóta og ekki víst að slík­ar um­bæt­ur ná­ist. En ef þær nást vakn­ar spurn­ing­in hvort þetta er skref sem við þurf­um að stíga.

Hags­mun­um Íslands bet­ur komið utan ESB

Við í Fram­sókn erum þeirr­ar skoðunar að hags­mun­um Íslands sé bet­ur borgið utan Evr­ópu­sam­bands­ins, en inn­an EES. Ísland, Nor­eg­ur og Sviss, sem öll standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins, eru á meðal þeirra landa sem telj­ast hafa hvað best lífs­kjör í ver­öld­inni. EES-samn­ing­ur­inn veit­ir Íslandi aðgang að einu stærsta viðskipta­svæði heims án þess að þurfa að hlíta ströng­um regl­um og stefn­um ESB.

Við höf­um öll tæki­færi til þess að ná tök­um á ástand­inu og eru þegar far­in að sjást sterk merki um það núna þegar verðbólga er á hraðri niður­leið. Við í Fram­sókn höf­um trú á Íslandi og tæki­fær­um lands­ins. Við búum við kröft­ug­an hag­vöxt, erum með sterka innviði, lítið at­vinnu­leysi og út­flutn­ings­grein­ar sem vegn­ar vel. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um öll lönd inn­an ESB. Ísland hef­ur staðið vel í alþjóðleg­um sam­an­b­urði hvað varðar lífs­kjör, heil­brigðis­kerfið, mennt­un og þannig mætti áfram telja þótt vissu­lega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brest­ur á í kjöl­far heims­far­ald­urs, sama hvaða gjald­miðil er um að ræða. Þá skal hafa í huga stærð og sér­stöðu lands og þjóðar þegar kem­ur að sam­an­b­urði og sam­keppn­is­hæfni við önn­ur stærri og fjöl­menn­ari lönd. Myndi inn­ganga í ESB þjóna hags­mun­um þjóðar­inn­ar í heild sinni eða aðeins hluta? Það ber að var­ast að trúa á ein­hverj­ar kostnaðarsam­ar, óljós­ar og órök­studd­ar töfra­lausn­ir. Það er í mörg horn að líta varðandi viðræður við ESB og því mik­il­vægt að gleyma sér ekki í að horfa ein­göngu á það sem hent­ar hverju sinni. Auðlind­ir okk­ar eru grund­völl­ur hag­vaxt­ar og eiga ekki að vera notaðar sem skipti­mynt í samn­ingaviðræðum við ESB. Við eig­um að horfa til lengri tíma með hags­muni lands og þjóðar í fyr­ir­rúmi og með skýr mark­mið að leiðarljósi.

Þannig tryggj­um við far­sæla framtíð ís­lenskr­ar þjóðar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Var eitthvert plan eftir allt saman?

Deila grein

09/01/2025

Var eitthvert plan eftir allt saman?

Það hef­ur verið ein­kenni­legt að fylgj­ast með rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins eft­ir að stefnu­yf­ir­lýs­ing flokk­anna var kynnt. Yf­ir­lýs­ing­in er rýr í roðinu og eft­ir því sem fleiri viðtöl birt­ast við full­trúa þess­ara flokka því meira hugsi verður maður. Þau eru fá og fá­tæk­leg svör­in þegar spurt er út í hvert planið sé hjá rík­is­stjórn­inni í rík­is­fjár­mál­um, gjald­töku á at­vinnu­lífið, sjáv­ar­út­vegi og fleiri mál­um. Eng­ar út­færsl­ur eða leiðir; ekk­ert. Það er ein­kenni­legt í því ljósi að þess­ir flokk­ar hafa setið á Alþingi und­an­far­in kjör­tíma­bil í stjórn­ar­and­stöðu og töluðu mikið, með óljós­um hætti þó, um breyt­ing­ar fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. Maður skyldi ætla að það væru fleiri svör á reiðum hönd­um en raun ber vitni nú þegar flokk­arn­ir þrír fá hin langþráðu lykla­völd að Stjórn­ar­ráðinu.

Það vakti til dæm­is furðu margra þegar ný rík­is­stjórn fór strax að út­hýsa hlut­verki sínu við stjórn rík­is­fjár­mála og varpa ábyrgð á henni yfir á al­menn­ing í land­inu með því að óska eft­ir sparnaðarráðum. Það er sér­stak­lega ein­kenni­legt í ljósi dig­ur­barka­legra en óljósra út­gjaldalof­orða, tekju­öfl­un­ar­áforma sem og sparnaðaraðgerða í rík­is­fjár­mál­um sem dundu á lands­mönn­um í kosn­inga­bar­átt­unni. Má þar nefna yf­ir­lýs­ing­ar um sparnað upp á 28 millj­arða í op­in­ber­um inn­kaup­um, hinar frægu skatta- og skerðing­ar­lausu 450.000 krón­ur, skatta- og gjalda­hækk­an­ir og fleira. Auðvitað á það ekki að vera al­menn­ings að skera rík­is­stjórn­ina niður úr þeirri lof­orðasnöru sem hún setti sig sjálf í. Rík­is­stjórn­in verður ein­fald­lega að taka ábyrgð á sjálfri sér í stað þess að gef­ast strax upp á verk­efn­inu. Því fylg­ir nefni­lega ábyrgð að stjórna landi og til þess voru þess­ir flokk­ar kosn­ir. Það voru því von­brigði að sjá hversu mátt­laus hin stutta stefnu­yf­ir­lýs­ing rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar var, sem fær mann til þess að hugsa hvort það hafi verið eitt­hvert raun­veru­legt plan eft­ir allt sam­an.

Hið rétta er að ný rík­is­stjórn tek­ur við mjög góðu búi á marga mæli­kv­arða. Verðbólga hef­ur meira en helm­ing­ast, vext­ir hafa lækkað um 75 punkta síðan í októ­ber síðastliðnum, at­vinnuþátt­taka hef­ur verið mik­il, stutt var við lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, skuld­astaða rík­is­sjóðs er góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur, stríðsátök í Evr­ópu og verðbólg­una tengda þeim, og jarðhrær­ing­arn­ar í Grinda­vík og svo má lengi telja. Þá hef­ur verið fjár­fest af krafti í innviðum um allt land á und­an­förn­um árum og fjöl­mörg­um verk­efn­um komið til leiðar og mörg verk­efni langt kom­in sem ný rík­is­stjórn mun njóta góðs af hvort sem litið er til heil­brigðismála, mennta- og barna­mála, íþrótta­mála, sam­göngu­mála, út­lend­inga­mála, menn­ing­ar­mála eða ann­ars.

Ný rík­is­stjórn verður fyrst og fremst að passa að taka ekki rang­ar ákv­arðanir og breyta um kúrs í of mörg­um mál­um, enda væri ekki gott að hinar marg­um­töluðu breyt­ing­ar stjórn­ar­flokk­anna yrðu til hins verra. Að því sögðu vil ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og mun leggja mín lóð á vog­ar­skál­arn­ar við að halda henni við efnið á kom­andi miss­er­um.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Greinar

Að bera virðingu fyrir sjálf­stæðis­bar­áttunni

Deila grein

02/01/2025

Að bera virðingu fyrir sjálf­stæðis­bar­áttunni

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga er einn helsti hornsteinn íslenskrar sögu. Áratugalöng barátta fyrir sjálfsforræði á 19. og 20. öld tryggði fullveldi árið 1918 og varð hápunktur í stofnun lýðveldisins árið 1944. Þessi barátta var ekki aðeins tákn um sjálfstæði þjóðarinnar, heldur líka grundvöllur fyrir lýðræði, menningu og frelsi. Þjóðin stóð saman í þeirri trú að Íslendingar ættu að vera herrar í eigin landi, ráðstafa eigin auðlindum og ákvarða eigin framtíð.

En nú, á tímum þar sem fullveldi okkar ætti að vera fast í sessi, virðist sjálfstæði Íslands standa frammi fyrir nýrri ógn. Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur sett það á stefnu sína að taka upp viðræður við Evrópusambandið (ESB), sem felur í sér beina ógn við sjálfstæði þjóðarinnar.

Frá fullveldi til lýðveldis – Barátta sem mótaði þjóðina

Íslendingar háðu langa baráttu við að losa sig undan stjórn Dana og öðlast rétt til að ráða eigin málum. Árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki með eigin stjórnarskrá og stjórnarhætti. Það var þó ekki fyrr en 1944, þegar lýðveldið Ísland var stofnað, að þjóðin varð algjörlega laus við erlend yfirráð. Þetta tímabil markaði upphaf nýrrar aldar, þar sem Ísland réði eigin málum og byggði upp samfélag í anda íslensks sjálfsforræðis.

Þessi saga er ekki aðeins söguleg staðreynd, heldur sjálfsmynd þjóðarinnar. Sjálfstæðið hefur gert Íslandi kleift að nýta auðlindir sínar, stjórna eigin fiskimiðum og vera fyrirmynd í sjálfbærni og stjórnmálum á alþjóðavettvangi.

Af hverju innganga í ESB er ógn við sjálfstæðið

Nú virðist ríkisstjórnin tilbúin að kasta þessum grunni fyrir borð. Með því að taka upp viðræður við ESB er verið að undirbúa afsal á fullveldi til stórveldis sem hefur engan áhuga á sérstöðu Íslands. Aðild að ESB myndi fela í sér eftirfarandi:

  • Tap á yfirráðum yfir auðlindum: Ísland myndi missa stjórn á fiskimiðunum sínum, sem hafa verið grundvöllur efnahagslegs sjálfstæðis okkar. Reglugerðir ESB myndu ráða för og veikja íslenska fiskveiðistjórnun.
  • Minnkandi lýðræðislegt sjálfsforræði: Ísland yrði bundið af lögum og reglum sem eru settar í Brussel, oft án beins áhrifavalds Íslands í ákvarðanatökuferlinu.
  • Skert sjálfstæði í utanríkismálum: Ísland yrði hluti af sameiginlegri stefnu ESB, þar sem minni þjóðir oft verða undir í samningum.

Þetta er skýrt afsal á sjálfstæðinu sem forfeður okkar börðust fyrir af svo mikilli elju. Þjóð sem hefur verið frjáls í tæpa öld ætti ekki að samþykkja svo alvarlega skerðingu á fullveldi sínu.

Af hverju sjálfstæði skiptir enn máli

Sumir halda því fram að innganga í ESB sé nauðsynleg í heimi hnattvæðingar. En sannleikurinn er sá að Ísland hefur sýnt að sjálfstætt ríki getur þrifist í alþjóðlegu samhengi. Í gegnum EES-samninginn hefur Ísland aðgang að evrópskum mörkuðum án þess að fórna sjálfstæði sínu. Með því að standa utan ESB hefur Ísland líka getað tekið ákvarðanir sem henta best hagsmunum þjóðarinnar.

Sjálfstæði er ekki gamaldags hugtak. Það er nauðsynleg forsenda þess að þjóðin geti viðhaldið eigin menningu, stjórnskipan og efnahagsstefnu. Þegar ríkisstjórn leggur til inngöngu í ESB, þá er hún ekki aðeins að fórna þessum grundvallarstoðum, heldur líka að svíkja arfleifð sjálfstæðisbaráttunnar.

Þjóðin á krossgötum

Ný ríkisstjórn vill nú feta braut sem gæti leitt Ísland í ógöngur. Það er á ábyrgð þjóðarinnar að hafna þessari stefnu og standa vörð um það sjálfstæði sem var svo dýru verði keypt. Íslendingar eiga ekki að sætta sig við að verða enn ein jaðarríkið í stórveldi þar sem hagsmunir stórra þjóða ráða ferðinni.

Sjálfstæðisbarátta Íslands var ekki til einskis, og það er okkar að tryggja að hún verði ekki gleymd eða gerð að engu. Við eigum að varðveita þann rétt sem forfeður okkar unnu fyrir okkur: réttinn til að stjórna eigin landi, eigin auðlindum og eigin framtíð. Þetta er það sem sjálfstæði þýðir – og það skiptir enn máli.

Ný ríkistjórn ætti að tileinka sér það að að bera virðingu fyrir sjálfstæðisbaráttunni.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Deila grein

02/01/2025

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tím­inn margra spor
þá man og elsk­ar kyn­slóð vor
sitt fagra föður­land.

Á þess­um kröft­ugu lín­um hefst ljóð Davíðs Stef­áns­son­ar sem flest­ir ef ekki all­ir karla­kór­ar lands­ins hafa ein­hvern tím­ann haft á efn­is­skrám sín­um und­ir lagi Páls Ísólfs­son­ar. Við búum við það, Íslend­ing­ar, að nátt­úr­an er lif­andi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyr­ir vel­sæld okk­ar, ástæðan fyr­ir því gríðarlega stökki sem ís­lenskt sam­fé­lag tók á síðustu öld inn í nú­tím­ann. Þær kyn­slóðir sem fædd­ar voru um og eft­ir alda­mót­in 1900 voru fram­sýn­ar, þær voru dug­leg­ar og við eig­um þeim mikið að þakka. Og við höf­um lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera fram­sýnn og annað að hafa kraft og þor til að fram­kvæma þær hug­mynd­ir sem kvikna.

Ákalli um breyt­ing­ar var svarað

Ára­mót eru mik­il­væg tíma­mót því þau kalla á að við tök­um okk­ur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið um­brota­ár í ís­lensku sam­fé­lagi. Þjóðin kaus sér for­seta í byrj­un sum­ars og síðan brast á með þing­kosn­ing­um í lok nóv­em­ber eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sleit sam­starf­inu við okk­ur í Fram­sókn og Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð. Niðurstaða kosn­ing­anna var af­ger­andi: Rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um var hafnað og þeir flokk­ar sem boðuðu breyt­ing­ar unnu sig­ur og hafa nú náð sam­an um rík­is­stjórn. Ég óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og heiti því að Fram­sókn mun stunda öfl­uga og mál­efna­lega stjórn­ar­and­stöðu.

Öflug stjórn við erfiðar aðstæður

Ákallið um breyt­ing­ar var sterkt í kosn­inga­bar­átt­unni. Trú­in á þeirri rík­is­stjórn sem hafði starfað frá haust­inu 2017 hafði dofnað veru­lega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórn­ar­kreppu. Þótt sam­starfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar tók­um við í Fram­sókn þá af­stöðu að mik­il­væg­ara væri að ganga hnar­reist til verks og láta ekki sund­ur­lyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verk­efni sem flokk­arn­ir þrír höfðu komið sér sam­an um í stjórn­arsátt­mála að hrinda í fram­kvæmd. Við ákváðum, eðli­lega, að láta þjóðar­hag hafa for­gang um­fram hags­muni flokks­ins.

Breyt­ing­arn­ar á þingi eru veru­leg­ar en mik­il nýliðun varð í kosn­ing­un­um. Það var mik­il reynsla sem bjó í síðustu rík­is­stjórn þar sem for­menn stjórn­ar­flokk­anna höfðu all­ir á ein­hverj­um tíma setið í stóli for­sæt­is­ráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stór­kost­legu áskor­un­um sem rík­is­stjórn­in stóð frammi fyr­ir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flug­fé­lagið Wow air féll með lát­um á fyrra kjör­tíma­bil­inu. Heims­far­ar­ald­ur geisaði með lam­andi áhrif­um á sam­fé­lag og at­vinnu­líf. Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öfl­ug­asta bæj­ar­fé­lag lands­ins, Grinda­vík, vegna elds­um­brota. Svo eitt­hvað sé nefnt.

Síðustu ár hafa verið ár um­bóta

Ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem Fram­sókn náði í störf­um sín­um í rík­is­stjórn frá ár­inu 2017 þegar þetta óvenju­lega stjórn­ar­mynst­ur varð til. Fram­lög til sam­göngu­mála voru stór­auk­in, tíma­móta­sam­komu­lag um upp­bygg­ingu í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu náðist með sam­göngusátt­mál­an­um og und­ir­bún­ings­vinnu á Sunda­braut gekk vel, rann­sókn­ar­vinnu er nán­ast lokið og get­ur útboðsfer­ill farið í gang þegar leiðar­val ligg­ur fyr­ir og breyt­ing á aðal­skipu­lagi hef­ur verið aug­lýst. Þá er Reykja­nes­braut­in að verða tvö­föld allt að Fitj­um í Reykja­nes­bæ, sam­vinnu­verk­efnið um Ölfusár­brú er komið af stað, með verk­efn­inu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stolt­ast­ur af á mín­um ferli, hef­ur verið komið á ljós­leiðara­teng­ingu í öll­um sveit­um lands­ins, af­slátt­ur fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar með Loft­brú hef­ur fest sig í sessi og byggðamál­in eru orðin mik­il­væg­ur þátt­ur í starfi Stjórn­ar­ráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar í hús­næðismál­um hef­ur tek­ist að byggja upp nor­rænt hús­næðis­kerfi sem trygg­ir þúsund­um fjöl­skyldna ör­uggt þak yfir höfuðið. Nú rík­ir mun betra jafn­vægi á hús­næðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land und­ir bygg­ingu 800 íbúða í Reykja­nes­bæ. Stór­sókn í heil­brigðismál­um hef­ur átt sér stað síðustu árin und­ir stjórn Will­ums Þórs sem hef­ur ekki síst komið fram í jöfn­un aðgeng­is að kerf­inu með samn­ing­um við all­ar heil­brigðis­stétt­ir sem ósamið hafði verið við um ár­araðir, auknu fjár­magni til mála­flokks­ins og bætt­um rekstr­ar­skil­yrðum Land­spít­al­ans. Mark­viss vinna Lilju Dagg­ar í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar, auk­inn stuðning­ur við menn­ingu og list­ir og 35% end­ur­greiðslan hef­ur styrkt stoðir kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Ásmund­ur Ein­ar setti mál­efni barna á dag­skrá, ekki síst með far­sæld­ar­lög­un­um sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veik­ust eru fyr­ir í ís­lensku sam­fé­lagi og ekki má held­ur gleyma stuðningi hans við íþrótt­irn­ar með nýrri Þjóðar­höll og aukn­um stuðningi við yngri landslið okk­ar. Allt þetta og meira til er á af­reka­skrá Fram­sókn­ar frá ár­inu 2017. Og á þessu geta rík­is­stjórn­ir framtíðar­inn­ar byggt til hags­bóta fyr­ir þjóðina.

Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi

Staða Íslands er góð, hag­kerfið er því næst í jafn­vægi með hátt at­vinnu­stig, lítið at­vinnu­leysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri rík­is­stjórn náði stjórn á verðbólg­unni sem fór á flug eft­ir heims­far­ald­ur og stríð í Úkraínu. Við sjá­um fram á mjúka lend­ingu hag­kerf­is­ins, sjá­um fram á lækk­andi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er mik­il­væg­ur þátt­ur í þeim ár­angri sem fyrri rík­is­stjórn náði í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það sem var þó ekki síður mik­il­vægt var að með aðkomu hins op­in­bera náðust kjara­samn­ing­ar til fjög­urra ára á al­menn­um markaði.

Gat­an er því nokkuð greið fyr­ir all­hraðar vaxta­lækk­an­ir á nýju ári.

Já, framtíðin er björt. Þeirri rík­is­stjórn sem af­henti val­kyrj­un­um lykl­ana að Stjórn­ar­ráðinu fyr­ir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir und­ir efna­hag lands­ins. Hin nýja stoð hug­vits og skap­andi greina er ört vax­andi og veit­ir ekki aðeins aukn­ar tekj­ur inn í þjóðarbúið held­ur skap­ar ný og spenn­andi störf fyr­ir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi, nokkuð sem stefnt hef­ur verið að í lang­an tíma og er nú að nást.

Óvissu­tím­ar

Við lif­um á tím­um þar sem mik­il óvissa rík­ir á alþjóðasviðinu. Það geis­ar styrj­öld í Evr­ópu. Fjölda fólks er fórnað á víg­vell­in­um í Úkraínu. Það er nöt­ur­legt að horfa upp á Rússa, sögu­legt stór­veldi sem nú stend­ur á brauðfót­um og er stýrt af manni sem virðist svíf­ast einskis til að halda stöðu sinni. Hryll­ing­ur­inn á Gasa held­ur áfram. Sýr­land hef­ur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janú­ar sest á ný í stól for­seta Banda­ríkj­anna maður sem virðist horfa öðrum aug­um á hlut­verk Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna en flest­ir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hef­ur sagst hafa áform um nær fram að ganga get­ur það haft mik­il áhrif á viðskipti í heim­in­um og þar með á lífs­kjör okk­ar hér á landi. Sam­band okk­ar við Banda­rík­in hef­ur alltaf verið gott og mik­il­vægt er að hlúa að því sama hver sit­ur þar í for­sæti.

Kæri les­andi.

Eitt er það sem mik­il­væg­ast er fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og það er að öðlast ró og ham­ingju. Árið 2024 ein­kennd­ist af óróa og of­beldi, nokkuð sem við get­um ekki þolað. Við þurf­um að hlúa vel að fjöl­skyld­um, þurf­um að hlúa vel að börn­un­um okk­ar, fyrstu kyn­slóðinni sem elst upp við ótrú­leg­ar breyt­ing­ar sem tækn­in hef­ur gert á sam­skipt­um okk­ar og sam­fé­lagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólk­inu sínu at­hygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nán­ustu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir það að eiga góða og sterka fjöl­skyldu sem hægt er að treysta á í lífs­ins ólgu­sjó.

Ég óska þér, les­andi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæf­an fylgja þér árið 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.

Categories
Greinar

Óvissa sem gagnast engum

Deila grein

02/01/2025

Óvissa sem gagnast engum

Í upp­hafi nýs árs ber að óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Hún tek­ur við góðu búi á marga mæli­kv­arða sem mik­il­vægt er að grafa ekki und­an og rýra. Við lest­ur stefnu­yf­ir­lýs­ing­ar og kynn­ing­ar á þeim verk­efn­um sem rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins hyggst ráðast í vakna ýms­ar spurn­ing­ar, enda er yf­ir­lýs­ing­in rýr í roðinu miðað við rík­is­stjórn­arsátt­mála fyrri kjör­tíma­bila. Svör um hvert planið er í ýms­um mála­flokk­um eru óskýr eða eng­in. Það voru boðaðar breyt­ing­ar án þess að til­taka á skyn­sam­leg­an hátt í hverju þær ættu að fel­ast og end­ur­spegl­ar stefnu­yf­ir­lýs­ing­in það í veiga­mikl­um atriðum.

Ný rík­is­stjórn boðar auðlinda­gjöld á okk­ar stærstu at­vinnu­grein­ar án þess að hafa mörg svör um hvað á að fel­ast í þeim. Þess­ar at­vinnu­grein­ar hafa drifið áfram hag­vöxt í land­inu og skapað verðmæt­ar út­flutn­ings­tekj­ur í þeirri hörðu alþjóðlegu sam­keppni sem þær búa við. Spor­in hræða vissu­lega þegar kem­ur að þess­um mála­flokk­um, en síðasta vinstri­stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri-grænna kjör­tíma­bilið 2009-2013 hóf þá veg­ferð að ætla að um­turna sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu með inn­köll­um afla­heim­ilda. Sú veg­ferð varð til þess að fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi fóru að halda að sér hönd­um, frost varð í fjár­fest­ing­um og óvissa skapaðist meðal þeirra þúsunda sem starfa í grein­inni.

Viðreisn hef­ur áður boðað markaðsleið í sjáv­ar­út­vegi sem fól í sér upp­boð á afla­heim­ild­um. Hún var sama marki brennd og sú sem Sam­fylk­ing og Vinstri-græn börðust fyr­ir; um­lukt óvissu. Svo virðist sem Viðreisn hafi stungið þeirri hug­mynd ofan í skúffu, áhuga­vert væri að vita af hverju það er. Það verður að vanda til verka þegar gjald­heimta er boðuð af at­vinnu­líf­inu, en hin óljósa stefna nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður til þess að fyr­ir­tæki í grein­inni halda að sér hönd­um í fjár­fest­ing­um. Það þjón­ar ekki hags­mun­um sam­fé­lags­ins.

Það gleym­ist oft að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er há­tækniiðnaður sem hef­ur borið ís­lenskt hag­kerfi uppi í logni og stormi í gegn­um tíðina. Hann er arðbær og án rík­is­styrkja, ólíkt því sem tíðkast í hinu fyr­ir­heitna landi rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Evr­ópu­sam­band­inu. Þá er um­gengni við nytja­stofna sjáv­ar til fyr­ir­mynd­ar og grein­in skil­ar miklu í rík­is­sjóð, meðal ann­ars í formi veiðigjalda. Það fylg­ir því ábyrgð að stjórna landi. Óvissa sem skap­ast með al­gjör­lega óút­færðum hug­mynd­um til gjald­töku af at­vinnu­líf­inu í land­inu gagn­ast eng­um.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2025.

Categories
Greinar

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Deila grein

23/12/2024

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Kæru íbúar í Suðurnesjabæ!

Senn líður að áramótum og tel ég því mikilvægt að líta yfir farinn veg.

Árið hefur verið tíðindamikið á vettvangi stjórnmálanna og ekki síst hér í bæjarpólitíkinni í Suðurnesjabæ. Margt hefur áunnist og erum við í Framsókn(B) stolt af mörgum þeim málum sem við náðum að klára og höfum unnið markvisst að frá kosningunum 2022. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks (D) Bæjarlistans(O) og Samfylkingar(S) tók til starfa á 71. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, fimmtudaginn 11. júlí 2024. Við í B-lista Framsóknar erum stolt af störfum okkar síðustu tveggja ára í meirihluta Suðurnesjabæjar. Við horfum ánægð yfir farinn veg á þau áherslumál sem flokkurinn kom í framkvæmd. Reynslunni ríkari höldum við áfram og hlökkum til að starfa áfram saman af heilindum fyrir fólkið í Suðurnesjabæ, nú í minnihluta.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – stórt framfaraskref

Eitt af áherslumálum Framsóknar í Suðurnesjabæ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn. Þessi mikilvæga hugsjón var samþykkt á síðasta fundi mínum sem formaður bæjarráðs í vor, og voru gjaldfrjálsar máltíðir innleiddar í grunnskólum sveitarfélagsins í haust. Við höfum unnið markvisst að hækkun niðurgreiðslna til foreldra og innleitt systkinaafslátt. Svo kom þessi aðgerð til fulls í kjölfar kjarasamningsgerðar og auðvitað fannst okkur það mikilvægt að Suðurnesjabær yrði fyrirmynd og stigi skrefið til fulls, enda eitt af megináherslum okkar í Framsókn.

Við lítum á þetta sem stórt velferðar- og jafnréttismál. Með því að tryggja öllum börnum heita máltíð óháð stöðu foreldra stuðlum við að jafnræði og bætum lífsgæði barna. Á Íslandi er skólaskylda, og því er það eðlileg og réttmæt krafa að grunnskólamenntun sé gjaldfrjáls, án aðgreiningar.

Þetta framfaraskref styrkir samfélagið og tryggir að börn fái nauðsynlega næringu til að læra og þroskast í öruggu umhverfi. Það er ánægjulegt að sjá þessa framtíðarsýn okkar verða að veruleika.

Grettistaki lyft í leikskólamálum

Leikskólamál hafa verið í brennidepli í Suðurnesjabæ, og nú hefur nýr kafli hafist með opnun leikskólans Grænuborgar í Sandgerði. Gamla leikskólahúsnæðið var löngu orðið úrelt, og endurnýjun þess var tímabær og brýn. Við í Framsókn studdum þetta metnaðarfulla verkefni heilshugar, enda markar það stórt framfaraskref í þjónustu við börn og fjölskyldur í bænum.

Grænaborg er sex deilda leikskóli sem býður framúrskarandi aðstöðu fyrir bæði börn og starfsfólk. Skólinn, sem er 1.135 fermetrar að flatarmáli, hefur rúmgott eldhús, stoðrými og veglega aðstöðu fyrir starfsfólk. Leikskólalóðin, sem er 3.800 fermetrar, býður upp á fjölbreytt leiktæki og öruggt umhverfi fyrir börn.

Eftir opnun Grænuborgar hefur öllum börnum sem sótt hafa um pláss verið tryggt leikskólapláss. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfélagið og stórt skref í átt að jafnari tækifærum og betri velferð fyrir fjölskyldur í Suðurnesjabæ. Nú þurfum við að huga að samskonar uppbyggingu í Garði og setja í gang markvissa vinnu til að hefja þá vegferð.

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Í sveitarstjórnarkosningunum 2022 setti B-listi Framsóknar sér skýr markmið um að þrýsta á ríkið að koma á heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Sveitarfélagið er það stærsta á landinu sem hefur ekki heilsugæslu. Suðurnesjabær, sem er 4.200 manna sveitarfélag sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hefur séð mikla fjölgun íbúa síðustu ár.

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þáverandi þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fráfarandi fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig áttum við fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, fráfarandi heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjón að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Þann 30. ágúst var undirrituð viljayfirlýsing um opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ sem mun opna á nýju ári.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa mikil

Það er grundvallarskylda okkar, sem störfum í umboði almennings sem kjörnir fulltrúar, að fara vel með fjármuni samfélagsins. Virðing fyrir almannafé krefst ábyrgðar og gagnsæis í allri ákvarðanatöku. Við verðum að spyrja okkur spurninga eins og: Eru þessi útgjöld réttlætanleg? Er verið að hámarka notagildi fjárins? Hvernig mun þessi ákvörðun koma samfélaginu til góða? Óskynsamleg eða óréttmæt ráðstöfun almannafjár getur grafið undan trausti almennings á stjórnvöldum. Það er því hlutverk okkar að tryggja að hver króna sé nýtt á sem skilvirkastan hátt og að forgangsröðun fjárveitinga taki mið af hagsmunum heildarinnar, ekki sérhagsmuna.

Deilur um íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um fyrirhugaða uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ. Þetta viðkvæma mál hefur skapað talsverðar deilur og hafði bein áhrif á fall meirihluta Framsóknarflokks(B) og Sjálfstæðisflokks(D) í vor. En hvað olli þessum ágreiningi?

Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2024 gerði oddviti D-listans þá kröfu við B-lista að mannvirkið, gervigrasvöllur, yrði sett á dagskrá fjárfestingaráætlunar fyrir árið 2024. Þetta var krafa Sjálfstæðismanna, sem vildu gera ráð fyrir verkefninu á komandi ári. Við í Framsókn töldum þessa kröfu fremur bratta, þar sem verkefnið er mjög fjárfrekt, og ekki væri komin niðurstaða um hvar ætti að reysa það – sérstaklega á sama tíma og við vorum í stórri fjárfestingu vegna byggingar nýs leikskóla.

Samt sem áður var sammælst um að setja 200 milljónir króna í verkefnið fyrir árið 2024 með því skilyrði okkar í Framsókn að ákvörðun um staðsetningu vallarins lægi fyrir í mars/apríl sama ár. Okkur fannst mikilvægt að virða samstarfsflokkinn og setja þetta verkefni inn, þar sem uppbygging íþróttamannvirkja var hluti af málefnasamningi listanna í meirihlutasamstarfinu.

Fyrir lá skýrsla frá verkfræðistofunni Verkís, sem kom út í maí árið 2022. Oddvitar D- og B-lista sammæltust um að setja málið á dagskrá bæjarráðs strax í janúar 2024 til að koma hreyfingu á málið og reyna að ljúka því. Á vinnufundi voru oddvitar D- og B-lista einnig sammála um að eina rökrétta lausnin til að halda kostnaði við rekstur í lágmarki væri að mannvirkið risi á öðrum hvorum aðalvelli Reynis eða Víðis.

Í kjölfar þess lagði knattspyrnufélagið Víðir til aðalvöll sinn fyrir verkefnið, þó hann hefði ekki verið tekinn með í skýrslunni frá Verkís. Var þá ákveðið að fara í svokallaða valkostagreiningu á báðum aðalvöllum félaganna. Verkís var falið að meta báða kosti.

Ef skoðaður er samanburðurinn í valkostagreiningunni, sem verkfræðingar hjá Verkís gerðu á milli aðalvallar Reynis í Sandgerði og aðalvallar Víðis í Garði, sýnir hann að það er mun hagstæðara að byggja gervigrasvöllinn í Sandgerði út frá kostnaðarsjónarmiðum og styrk innviða. Kostnaður við að byggja völlinn í Sandgerði er áætlaður 472 milljónir króna, samanborið við 509 milljónir króna fyrir Garð, sem gerir 36 milljóna króna sparnað. Auk þess eru innviðir eins og félagsheimili og stærri stúka þegar til staðar í Sandgerði, sem dregur úr viðbótarkostnaði. Sandgerði býður einnig upp á fleiri og betri bílastæði og hefur betri aðstöðu fyrir vallarinnviði með tilbúnum tækjageymslum, almenningssalernum og steinsteyptri stúku sem rúmar 340 manns.

Niðurstaðan er því skýr: Sandgerði er bæði skynsamlegri og hagkvæmari kostur fyrir staðsetningu gervigrasvallarins.

Ef við skoðun kostnaðartölur úr skýrslu Verkís sem kom út í maí 2022 er mismunurinn þar á milli malarvallarins í Garði og aðalvelli Reynis í Sandgerði. Þá eru efri mörkin 121.100.000 ISK krónur í mismun og áætlunin er 80.781.000 ISK krónur í mismun á verðlagi í maí 2022. Mismunurinn er því gríðarlega mikill í kostnaðarauka fyrir bæjarsjóð að setja gervigrasvöllinn á malarvöllinn í Garðinum útreiknað af verkfræðingum Verkís.

Bæjarráð fundaði oft og stíft um málið fram á vorið 2024, bæði á formlegum fundum og óformlegum vinnufundum. Sigursveinn Bjarni Jónsson fyrir hönd S-lista lagði fram tillögu í bæjarráði og bæjarstjórn um að reisa ætti mannvirkið á aðalvelli Reynis í Sandgerði. Jónína Magnúsdóttir fyrir hönd O-lista lagði það til á fundi bæjarráðs að mannvirkið ætti að reisa á milli byggðarkjarnanna, en eins og áður hefur komið fram töldu D- og B-listi það óraunhæft vegna mikils kostnaðar, þar sem engir innviðir eru til staðar í miðjunni. Auk þess er eignarhald á þeirri landspildu í blandaðri eigu margra aðila.

Ýmsir aðilar voru kallaðir til, þar á meðal forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynirs og sérfræðingar sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála. Við greiningu á eignarhaldi kom í ljós að aðalvöllur Víðis stendur að hluta til í landi einkaaðila, svokallaðri Miðhúsajörð þar sem sveitarfélagið greiðir umtalsverða lóðarleigu, en aðalvöllur Reynirs er í landi sveitarfélagsins.

Við í Framsókn töldum því þrjár ástæður fyrir því að völlurinn ætti að rísa á aðalvelli Reynis:

  • Skýrsla Verkís.
  • Valkostagreiningin.
  • Yfirráð sveitarfélagsins yfir landinu undir mannvirkið.

Við reyndum hvað við gátum að mynda breiða pólitíska sátt um málið. Þrátt fyrir þetta var tillögum S- og O-lista í bæjarráði og bæjarstjórn, sem beindust í ólíkar áttir, ítrekað frestað. Við sendum Sjálfstæðismönnum skýr skilaboð: Framsóknarflokkurinn styður skýrslu og valkostagreiningu Verkís bæði gögnin og leggur hag bæjarsjóðs til grundvallar. Á þessum tímapunkti voru allir flokkar tilbúnir með sína afstöðu í málinu nema D-listi Sjálfstæðismanna.

Samráðsteymi um gervigras sett á laggirnar til að bjarga meirihlutanum

Oddviti D-listans Einar Jón Pálsson lagði til aðeins 30 mínútum fyrir 139. fund bæjarráðs, haldinn 26. mars 2024, að stofnað yrði samráðsteymi. Þar var oddviti D-listans Einar Jón Pálsson efnislega ósammála oddvita B-listans, Anton Guðmundssyni sem þá var formaður bæjarráðs, og fulltrúa D-listans Magnús Sigfúsi Magnússyni í bæjarráði um efnislega afgreiðslu á málinu. Tilgangur teymisins var að koma með tillögu að lausn á máli gervigrasvallar í Suðurnesjabæ.

Í teyminu voru starfsmenn sveitarfélagsins, fulltrúi frá KSÍ (sem þó var aldrei kallaður til fundar), og forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynis. Þegar niðurstöður samráðsteymisins lágu fyrir og málið var tekið fyrir í bæjarráði á ný, kom í ljós að bæjarráði hafði ekki borist öll gögn í málinu fyrir fundinn. Þrátt fyrir að þessi gögn hefðu borist stjórnsýslu Suðurnesjabæjar höfðu þau ekki verið sett í fundargáttina.

Meðal þeirra gagna var yfirlýsing frá Ólafi Þór Ólafssyni, formanni aðalstjórnar Reynis, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekki haft umboð frá íþróttafélaginu Reyni til að taka ákvarðanir í málinu. Hann hafði því dregið til baka stuðning Reynis við samráðsteymisniðurstöðuna. Samkvæmt pósti sem hann hafði sent öllum í samráðsteyminu ásamt byggingarfulltrúa og bæjarstjóra.

Þessi yfirlýsing hafði afgerandi áhrif á málið. Þar með varð ljóst að verið var að halda gögnum og upplýsingum frá sem höfðu afgerandi áhrif á málið.

Tillaga lögð fram á 143. fundi bæjarráðs 29. maí 2024

Fulltrúar B-lista (Anton Guðmundsson) og D-lista (Magnús S Magnússon) lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði, eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.

Auk þess leggur bæjarráð til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem þegar hefur verið skipaður af bæjarráði, geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu íþróttamannvirkja til næstu ára.

Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.“

Bæjarráð þakkaði verkfræðistofunni Verkís ásamt starfsmönnum Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í málinu.

Málið fer fyrir bæjarstjórn

Á 70. fundi bæjarstjórnar, þann 5. júní 2024, var tillagan samþykkt með 2 atkvæðum B-lista, 2 atkvæðum S-lista og 1 atkvæði D-lista, gegn 2 atkvæðum O-lista og 2 atkvæðum frá D-lista, að íþróttamannvirkið – gervigrasvöllur – yrði reist á aðalvelli Reynis í Sandgerði.

Þessi ákvörðun var í samræmi við niðurstöður Verkís og valkostagreiningar sem lögðu til þessa staðsetningu út frá kostnaðar- og rekstrarsjónarmiðum. Í kjölfar þessarar samþykktar sprakk meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Nýr meirihluti var myndaður í sveitarfélaginu. Meirihluti Bæjarlistans (O), Samfylkingar (S) og tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks (D) tók við, og málið var tekið upp á ný á 74. fundi bæjarstjórnar, þann 6. nóvember 2024. Þar samþykktu 2 fulltrúar D-lista, 2 fulltrúar O-lista og 2 fulltrúar S-lista að byggja gervigrasvöllinn á gamla malarvellinum í Garði, þvert á ráðleggingar Verkís. Á móti greiddu 2 fulltrúar B-lista og Magnús S. Magnússon, sem hafði áður verið fulltrúi D-lista.

Einnig gerðust þau tíðindi í millitíðinni á 149. fundi bæjarráðs, sem haldinn var 28. ágúst, þar barst erindi frá Knattspyrnufélaginu Víði. Í erindinu var lögð fram tillaga um að staðsetja nýtt íþróttasvæði á miðsvæði milli byggðarkjarnanna í Suðurnesjabæ.

Nýr meirihluti D-, S- og O-lista svaraði erindi Víðis með þeim upplýsingum að bæjarstjórn hefði þegar samþykkt staðsetningu á gervigrasvelli. Á aðalvelli Reynis í Sandgerði Fram kom að unnið væri samkvæmt þeirri samþykkt, þar sem forsendur ákvörðunarinnar hefðu ekki breyst.

Hvenær á að taka mark á Samfylkingunni í Suðurnesjabæ?

Það er óumflýjanlegt að spyrja sig: Hvenær á að taka mark á S-lista? Er það á sumri eða vetri?

Í júní samþykkti S-listinn, ásamt B-lista og hluta D-lista, að fylgja niðurstöðum faglegra ráðlegginga Verkís, þar sem lagt var mat á hagkvæmustu og skynsamlegustu lausnina. Í nóvember, aðeins fimm mánuðum síðar, samþykkti S-listinn hins vegar að hunsa þessar sömu ráðleggingar og velja óhagkvæmari valkost, þvert á þau sjónarmið sem áður voru lögð til grundvallar.

Þessi stefnubreyting vekur upp spurningar um ábyrgð og stöðugleika í ákvarðanatöku. Er verið að taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi eða með tilliti til annarra sjónarmiða?

Við í Framsókn teljum mikilvægt að byggja upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ, en það verður að gera á skynsaman og ábyrgan hátt. Kostnaðarsöm verkefni eins og aukin gatnagerð, bygging nýs leikskóla í Garði, stækkun Sandgerðisskóla og nauðsynlegt viðhald á fráveitum og götum bíða okkar einnig í náinni framtíð. Fjármagn er takmarkað og því verðum við að taka ákvarðanir með langtímahagsmuni bæjarins að leiðarljósi og setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum.

Það er eina leiðin til að byggja upp sterkt og sjálfbært samfélag. Umsvifamiklar lántökur eru ekki langtímalausnir, þær duga skammt þar sem þær auka á fjármagnskostnað og verðbætur bæjarsjóðs, sem skilar minni rekstrarafgangi.

Aukið framboð lóða til úthlutunar – Lausn á húsnæðisvandanum

Til að mæta vaxandi þörf á húsnæði í Suðurnesjabæ þarf að auka framboð lóða til úthlutunar. Húsnæðismarkaðurinn hefur verið undir miklu álagi, og skortur á byggingarlóðum hefur hindrað möguleika fjölskyldna og einstaklinga á að koma sér upp húsnæði. Með því að fjölga lóðum sköpum við ný tækifæri fyrir íbúabyggð. Það þarf að setja aukinn kraft í það verkefni, til dæmis með þéttingu á óbyggðum byggingarreitum bæði í Garði og Sandgerði.

Markviss rekstrarrýni til framtíðaruppbyggingar

Til að styrkja fjárhagsstöðu Suðurnesjabæjar og tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar er nauðsynlegt að rýna enn betur í rekstur bæjarins. Með því að auka samlegðaráhrif milli stofnana og reksturs sveitarfélagsins getum við aukið rekstrarafgang, sem svo má nýta til mikilvægra fjárfestinga í innviðum og samfélagsþjónustu.

Þessi nálgun stuðlar að betri nýtingu fjármuna og dregur úr þörf á lántökum, sem styrkir fjárhag sveitarfélagsins til lengri tíma. Með ábyrgum og markvissum aðgerðum tryggjum við að bæjarfélagið geti haldið áfram að vaxa og dafna án þess að auka skuldbindingar á íbúa þess. Þetta er lykillinn að sjálfbæru og vel reknu samfélagi.

Grunninnviðir í almannaeigu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði.

Á 155. fundi bæjarráðs, þann 4. desember síðastliðinn, lagði Sigursveinn Bjarni Jónsson, oddviti S-lista og formaður bæjarráðs, fram minnisblað frá bæjarstjóra um Vatnsveitu Suðurnesjabæjar.

Minnihlutinn hefur ekki atkvæðisrétt í bæjarráði, og tíðkast það hvergi á byggðu bóli á Íslandi nema í Suðurnesjabæ. Þar samþykkti bæjarráð samhljóða að fela bæjarstjóra að eiga viðræður við HS Veitur ehf. um mögulegan samruna Vatnsveitu Suðurnesjabæjar við HS Veitur ehf.

Kjarngóðar umræður sköpuðust á síðasta bæjarstjórnarfundi um málið að frumkvæði minnihlutans. HS Veitur eru að stórum hluta í eigu einkaaðila.

Við í Framsókn teljum að grunninnviðir eins og vatnsveita séu lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur.

Kæru íbúar Suðurnesjabæjar.

Nú fer í hönd tími jólanna. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðsællar hátíðar. Megi þessi tími færa ykkur og fjölskyldum ykkar hlýju, gleði og góðar stundir í faðmi ástvina. Megi árið 2025 verða ykkur gæfuríkt og gott.

Með ósk um gleðilega hátíð,
Anton Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan færir björg í bú

Deila grein

22/12/2024

Ferðaþjónustan færir björg í bú

Ferðaþjón­ust­an hef­ur vaxið á til­tölu­lega stutt­um tíma úr því að vera er lít­ill at­vinnu­veg­ur yfir í það að vera einn af horn­stein­um hag­kerf­is­ins og gætt landið allt lífi. Hún hef­ur veitt fjöl­mörg tæki­færi til at­vinnuþró­un­ar, menn­ing­ar­legr­ar teng­ing­ar og innviðaupp­bygg­ing­ar víða um landið. Í raun er hægt að segja að ferðaþjón­ust­an hafi sumstaðar umbreytt byggðum lands­ins til hins betra og tryggt ákveðna byggðafestu Þannig hef­ur fjöl­breytni at­vinnu og þjón­ustu, frá hót­el­um og veit­inga­stöðum til afþrey­ing­ar og leiðsögu­ferða, auk­ist veru­lega sem nýt­ist heima­mönn­um jafnt sem ferðamönn­um.

Það er ánægju­legt að geta deilt óend­an­legri feg­urð lands­ins með er­lend­um gest­um. Nátt­úruperl­ur á borð við Jök­uls­ár­lón, Mý­vatn, Snæ­fells­nes og Vest­f­irði draga að sér fjölda gesta sem leita eft­ir ein­stakri upp­lif­un í nátt­úr­unni. Fjár­fest­ing­ar í innviðum, svo sem vega­gerð, flug­völl­um, áfanga­stöðum og merk­ing­um, hafa gert aðgengi að áfanga­stöðum auðveld­ara og ör­ugg­ara, meðan stuðlað er að dreif­ingu ferðamanna um landið, en auk­in dreif­ing ferðamanna og leng­ing ferðatíma­bils­ins er stórt hags­muna­mál fyr­ir at­vinnu­grein­ina hring­inn í kring­um landið. Með auk­inni dreif­ingu nýt­ast innviðir lengri part úr ár­inu og skapa þannig sterk­ari grunn til þess að fjár­festa enn frek­ar.

Mik­il­væg­asta þró­un­in sem stuðlað hef­ur að vexti ferðaþjón­ustu á lands­byggðinni er aukn­ing á milli­landa­flugi til flug­valla utan Reykja­vík­ur. Það hef­ur verið uppörv­andi að fylgj­ast með frá­far­andi ferðamálaráðherra Lilju Al­freðsdótt­ur leggja ríka áherslu á að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs í gegn­um alþjóðaflug­vell­ina á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Nú er svo komið að flug­fé­lagið Ea­syjet býður nú upp á beint flug að vetr­ar­lagi til Ak­ur­eyr­ar frá London og Manchester í Bretlandi – og hef­ur gang­ur­inn í flug­inu verið góður. Ég bind einnig von­ir við að ár­ang­ur ná­ist í upp­bygg­ingu milli­landa­flugs til Eg­ilsstaða á næstu árum. Það tek­ur tíma að byggja upp flug­leiðir sem þess­ar og því er mik­il­vægt að stjórn­völd sýni út­hald og haldi áfram að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs á lands­byggðinni, meðal ann­ars í gegn­um Flugþró­un­ar­sjóð.

Í nýrri ferðamála­stefnu til árs­ins 2030, sem mik­il og góð vinna hef­ur verið lögð í, er ein­mitt lögð áhersla á dreif­ingu ferðamanna um landið. Það er brýnt að ný rík­is­stjórn slökkvi ekki á því leiðarljósi með því að stinga stefn­unni ofan í skúffu, enda er um að ræða tíma­mótaplagg fyr­ir einn helsta at­vinnu­veg þjóðar­inn­ar. Það þarf að halda áfram að styrkja um­gjörð grein­ar­inn­ar og tryggja sam­keppn­is­hæfni henn­ar. Þannig mun hún halda áfram að skapa verðmæti um allt land.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. desember 2024.

Categories
Greinar

Fram­sókn í 108 ár!

Deila grein

16/12/2024

Fram­sókn í 108 ár!

Í dag fögnum við 108 ára afmæli Framsóknarflokksins!

Framsóknarflokkurinn var stofnaður þann 16. desember 1916 við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda og er elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Flokkurinn átti upphaf sitt í samvinnuhreyfingunni og ungmennafélagshreyfingunni, og markmiðið var skýrt: að efla lífskjör, byggja upp innviði og tryggja jöfnuð fyrir landsmenn.

Á þessum tíma var Ísland töluvert dreifbýlt og Framsóknarflokkurinn sótti fylgi sitt fyrst og fremst til landsbyggðarinnar. Í upphafi var áherslan lögð á hagsmuni bænda og dreifbýlisfólks, en með breyttum samfélagsháttum, sérstaklega eftir miðja 20. öld, þróaðist flokkurinn í það að verða flokkur allra stétta. Kjarninn var þó alltaf sá sami: samvinna, jöfnuður og lausnamiðuð stjórnmál.

Í gegnum árin hefur Framsóknarflokkurinn verið burðarás í íslensku samfélagi. Með uppbyggingu skólakerfisins, stuðningi við samvinnuhreyfinguna, félagslegum réttindum og stórum innviðaverkefnum hefur flokkurinn lagt grunn að mörgum af þeim framfaramálum sem við njótum í dag.

Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, og með áherslu á nýsköpun, menntun og framtíðarsýn hefur hann verið ómissandi hluti af sögu og þróun Íslands.

Þótt Framsóknarflokkurinn hafi séð betri daga hvað fylgistölur varðar, þá er það staðföst trú mín að hann muni rísa á ný – sterkari en nokkru sinni fyrr. Rætur hans liggja djúpt í jarðvegi landsins,

Til hamingju með daginn allt Framsóknarfólk!

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2024.