Categories
Fréttir Greinar

Til hvers var barist?

Deila grein

25/05/2025

Til hvers var barist?

Til að auka hag­sæld og bæta lífs­kjör á Íslandi voru háð þrjú erfið þorska­stríð við Bret­land. Með þraut­seigju, sam­vinnu og framtíðar­sýn tókst að stækka land­helg­ina í 200 míl­ur. Þetta var gert í fjór­um áföng­um. Fyrst úr 3 í 4 sjó­míl­ur árið 1952, 12 míl­ur (1958), 50 míl­ur (1972) og svo loks 200 míl­ur (1976). Þessi sókn Íslend­inga varð að einni mestu lífs­kjara­bót sem ein þjóð hef­ur upp­lifað á svo skömm­um tíma. Allt til árs­ins 2000 komu yfir 60% af gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins frá sjáv­ar­út­vegi, sem gegndi lyk­il­hlut­verki í efna­hags­legu sjálf­stæðu þjóðar­inn­ar. Hæst fór hlut­deild sjáv­ar­út­vegs í vöru­út­flutn­ingi í rúm 97% árið 1949.

Á síðustu 50 árum hef­ur sam­setn­ing út­flutn­ings breyst tölu­vert, og nú koma um 22% gjald­eyristekna frá sjáv­ar­út­vegi. Það hef­ur fært þjóðarbú­inu aukið jafn­vægi og minni sveifl­ur, en um leið sýn­ir þetta hversu mik­il áhrif sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur enn. Gjald­miðill­inn var háður gengi sjáv­ar­af­urða, og sam­keppn­is­hæfni lands­ins réðst að stór­um hluta af af­komu grein­ar­inn­ar. Þær kerf­is­breyt­ing­ar sem gerðar voru á sín­um tíma til að styrkja meg­in­út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar urðu einnig grunn­ur að því að skapa um­gjörð fyr­ir ný­sköp­un og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf.

Í vik­unni var kynnt­ur nýr samn­ing­ur Evr­ópu­sam­bands­ins við Bret­land. ESB-rík­in hafa áfram aðgang að fiski­miðum Bret­lands næstu tólf árin, sem er veru­leg stefnu­breyt­ing. Bret­ar vildu upp­haf­lega tak­marka aðgang­inn við fjög­ur til fimm ár. Sjáv­ar­út­vegs­stefna ESB hef­ur verið gagn­rýnd og hef­ur skaðað bresk­an sjáv­ar­út­veg veru­lega. For­sæt­is­ráðherra Bret­lands hef­ur sætt harðri gagn­rýni fyr­ir að hafa gefið eft­ir kröf­una um full yf­ir­ráð yfir fiski­miðunum, þó að í staðinn hafi Bret­land fengið aukið aðgengi að mörkuðum fyr­ir vör­ur og þjón­ustu. Fram­lag sjáv­ar­út­vegs í lands­fram­leiðslu Breta er ekki nema 0,14% sam­an­borið við 6% á Íslandi. Mik­il­vægi sjáv­ar­út­vegs fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf er marg­falt og því hags­mun­ir sam­kvæmt því.

Helstu út­flutn­ings­grein­ar okk­ar búa nú við mikla óvissu. Í fyrsta lagi er stefnt að veru­legri skatta­hækk­un án þess að nægi­legt sam­tal eða grein­ing fari fram. Í öðru lagi rík­ir alþjóðleg óvissa vegna nýrr­ar viðskipta­stefnu Banda­ríkj­anna, þar sem erfitt er að sjá fyr­ir þróun mála. Í þriðja lagi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það á stefnu­skrá að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Öll þessi óvissa dreg­ur úr fjár­fest­ingu, minnk­ar hag­vöxt og eyk­ur áhættu í at­vinnu­líf­inu. Tveir af þess­um óvissuþátt­um, skatta­hækk­an­ir og ESB-veg­ferð, eru sjálf­skapaðir og vekja að mörgu leyti undr­un. Gleym­um því ekki að öll hag­sæld þjóðar­inn­ar grund­vall­ast á verðmæta­sköp­un, dugnaði og far­sælli framtíðar­sýn. Evr­ópu­för rík­is­stjórn­ar­inn­ar er ekki leiðin til hag­sæld­ar og við get­um spurt okk­ur, til hvers var bar­ist á dög­um þorska­stríðanna?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. ut­an­rík­is­ráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2025.

Categories
Greinar

Brýn þörf á auknum fjárveitingum vegna sjávarflóða

Deila grein

19/05/2025

Brýn þörf á auknum fjárveitingum vegna sjávarflóða

Sjáv­ar­flóð eru nátt­úru­vá sem Íslend­ing­ar þurfa að búa við og mik­il­vægt er að bregðast við á viðeig­andi hátt. Líkt og í bar­átt­unni við of­an­flóð, þar sem sterk og mark­viss varn­ar­vinna hef­ur skilað góðum ár­angri, er nauðsyn­legt að setja upp öfl­ug­ar sjóvarn­ir til að lág­marka skaða af völd­um sjáv­ar­flóða.

Hækk­andi sjáv­ar­staða og aukn­ar veður­sveifl­ur gera það að verk­um að mik­il­vægi sjóvarna hef­ur aldrei verið meira. Sam­kvæmt áætl­un­um sam­göngu­áætlun­ar er gert ráð fyr­ir að verja 150 millj­ón­um króna ár­lega í sjóvarn­ir á landsvísu. Það er ljóst að þessi upp­hæð er langt frá því að nægja til að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem skap­ast hef­ur á und­an­förn­um árum, sér­stak­lega á þeim svæðum sem eru hvað viðkvæm­ust fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Á Suður­nesj­um hafa ít­rekað komið upp til­vik þar sem sjáv­ar­flóð hafa ógnað byggð og innviðum. Í Suður­nesja­bæ varð stór­tjón 1. mars 2025 þegar hafn­ar­mann­virki og aðrar eign­ir urðu fyr­ir mikl­um skaða af völd­um sjáv­ar­flóða. Bænd­ur og land­eig­end­ur urðu fyr­ir veru­legu tjóni og ann­ar golf­völl­ur­inn í sveit­ar­fé­lag­inu var illa leik­inn. Kirkju­g­arðar voru einnig í stór­hættu á að verða fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Ástandið er þannig að jafn­vel þyrfti í raun að nýta alla þá fjár­hæð sem ætluð er í sjóvarn­ir á landsvísu ein­göngu í Suður­nesja­bæ til að tryggja nauðsyn­leg­ar varn­ir þar. Þetta und­ir­strik­ar hversu brýnt það er að end­ur­skoða fjár­mögn­un sjóvarna hér á landi.

Eitt mögu­legt úrræði væri að skoða stofn­un sér­staks sjáv­ar­flóðasjóðs að fyr­ir­mynd of­an­flóðasjóðs. Þannig mætti tryggja sam­ræmda stefnu og stöðugan fjár­hags­leg­an stuðning við varn­ir gegn sjáv­ar­flóðum um landið allt. Að sama skapi mætti horfa til þess að auka fjár­veit­ing­ar rík­is­ins í sjóvarn­ir og setja slíkt á dag­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Þegar horft er til framtíðar er ljóst að vand­inn mun aðeins aukast. Lofts­lags­breyt­ing­ar, hækk­andi sjáv­ar­staða og auk­in tíðni óveðra eru staðreynd­ir sem ekki er hægt að líta fram­hjá. Nú er tím­inn til að bregðast við – áður en kostnaður­inn við aðgerðir verður óviðráðan­leg­ur.

Ég skora á rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokki fólks­ins að setja sjáv­ar­flóð og sjóvarn­ir á dag­skrá. Það er deg­in­um ljós­ara að þörf­in er knýj­andi og hún á aðeins eft­ir að aukast á kom­andi árum. Nú er mik­il­vægt að grípa til aðgerða til að tryggja vernd viðkvæmra svæða fyr­ir sjáv­ar­flóðum.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland er efst á lífskjaralista SÞ

Deila grein

19/05/2025

Ísland er efst á lífskjaralista SÞ

Á sól­rík­um og björt­um dög­um á Íslandi finnst okk­ur flest­um ástæða til að gleðjast yfir land­inu okk­ar og þeim gæðum sem það hef­ur upp á að bjóða. Sjálf hef ég ávallt verið stolt af Íslandi, þeim ár­angri sem náðst hef­ur og þeim tæki­fær­um sem sam­fé­lagið býður upp á. Við búum í öfl­ugu og fram­sæknu sam­fé­lagi sem hef­ur lagt hart að sér við að skapa þau lífs­kjör sem við njót­um í dag. Efna­hags­leg­ar fram­far­ir síðustu ald­ar vekja at­hygli á heimsvísu.

Ný­verið birti Þró­un­ar­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna lífs­kjaralista sinn, þar sem horft er til lífs­líka, mennt­un­ar og þjóðartekna á mann. Þar kem­ur fram að Ísland trón­ir nú á toppi list­ans, efst allra ríkja heims. Sam­kvæmt skýrsl­unni hef­ur lífs­kjara­vísi­tala Íslands hækkað um tæp 16%, sem má einkum rekja til auk­inna lífs­líka, lengri skóla­göngu og hækk­un­ar þjóðartekna um 77,3%. Sér­stök áhersla er lögð á áhrif gervi­greind­ar í skýrsl­unni og bent á að hún muni umbreyta nán­ast öll­um þátt­um sam­fé­lags­ins. Há­tekju­ríki, þar á meðal Ísland, eru sögð hafa for­skot vegna þróaðra sta­f­rænna innviða. Þetta set­ur Ísland í ein­stak­lega sterka stöðu til að nýta mögu­leika gervi­greind­ar til sam­fé­lags­legr­ar upp­bygg­ing­ar – með skýrri sýn á þær kerf­is­breyt­ing­ar sem eru fram und­an, meðal ann­ars á vinnu­markaði.

Þessi ár­ang­ur Íslands á lífs­kjaralist­an­um gef­ur til­efni til að staldra við og meta hvað hef­ur verið gert vel. Eitt af því sem skipt­ir sköp­um er öfl­ug þróun mennta­kerf­is­ins, einkum á fram­halds­skóla­stig­inu, þar sem brott­hvarf nem­enda hef­ur dreg­ist veru­lega sam­an á und­an­förn­um árum. Fram kem­ur í skýrsl­unni að þar stend­ur Ísland fram­ar en til að mynda Nor­eg­ur. Síðasta rík­is­stjórn lagði ríka áherslu á að efla fram­halds­skóla­stigið og fjár­festi mark­visst í því – meðal ann­ars með sér­stakri fjár­veit­ingu upp á tæp­an millj­arð króna til að fjár­festa í því að minnka brott­hvarfið í sam­starfi við okk­ar öfl­uga skóla­sam­fé­lagið. Sam­starfið skilaði því að brott­hvarf hef­ur aldrei mælst lægra á Íslandi.

Það er þó ekki síður mik­il­vægt að horfa fram á við. Nú­ver­andi fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ger­ir ráð fyr­ir veru­leg­um niður­skurði til mennta­mála, einkum á fram­halds­skóla­stigi. Sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur, bæði í að draga úr brott­hvarfi og efla verk­nám, stend­ur því tæpt – og þar með einnig þau lífs­kjör sem gera okk­ur kleift að skara fram úr á heimsvísu.

Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur virðist ekki hafa metnað til að styrkja mennta­kerfið á þeim tím­um þegar mik­il­vægi mennt­un­ar er hvergi meira – á tím­um gervi­greind­ar og tækni­breyt­inga. Verk­stjórn­in geng­ur í það að brjóta niður þann markverða ár­ang­ur sem náðst hef­ur. Fram­sókn legg­ur áherslu á að með öfl­ugu, aðgengi­legu og metnaðarfullu mennta­kerfi tryggj­um við að Ísland verði áfram land tæki­fær­anna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Deila grein

16/05/2025

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Það var ánægju­legt að sækja fund hjá Fé­lagi eldri borg­ara á Ak­ur­eyri (EBAK) síðastliðinn föstu­dag. Rétt rúm­lega hundrað manns mættu – áhuga­sam­ir, upp­lýst­ir og mál­efna­leg­ir. Þar skapaðist gott sam­tal um þau mál sem brenna mest á eldra fólki í dag. Ábend­ing­ar komu víða að og spurn­ing­arn­ar voru marg­ar og skýr­ar. Það var sér­stak­lega áber­andi að umræðan sner­ist ít­rekað að sömu kjarna­mál­un­um: skerðing­um, líf­eyr­is­sjóðum en einnig að heil­brigðisþjón­ustu.

Heyrn­ar­tæki – ekki munaður held­ur nauðsyn

Þegar fólk eld­ist verður þörf­in fyr­ir hjálp­ar­tæki meiri, rætt var um frek­ari niður­greiðslu á gler­aug­um og tannviðgerðum en oft­ast kom upp staða heyrn­ar­tækja og niður­greiðslur þeim tengd­ar. Það er ekki sjálf­gefið að hafa efni á góðum heyrn­ar­tækj­um, sem kosta oft hundruð þúsunda króna og þurfa að end­ur­nýj­ast reglu­lega. Samt er það svo að góð heyrn skipt­ir öllu máli fyr­ir þátt­töku, sam­skipti og lífs­gæði.

Jafn­rétti til þátt­töku í sam­fé­lag­inu

Það þarf ekki langa um­fjöll­un til að átta sig á að aðgengi að heyrn­ar­tækj­um er jafn­rétt­is­mál. Ef ein­stak­ling­ar á efri árum hafa ekki tök á að fjár­magna þessi nauðsyn­legu hjálp­ar­tæki er verið að úti­loka fólk frá eðli­legri þátt­töku í sam­fé­lag­inu – í sam­töl­um, fjöl­skyldu­sam­skipt­um, fé­lags­starfi og fleiru. Þetta hef­ur áhrif á líðan og get­ur leitt til fé­lags­legr­ar ein­angr­un­ar sem við vilj­um öll forðast.

Þess vegna verðum við að skoða hvort hægt sé að gera bet­ur í þess­um efn­um. Horfa til annarra landa, til dæm­is má líta til Bret­lands. Þar sjá einkaaðilar um heyrn­ar­mæl­ing­ar, sjón­mæl­ing­ar og grein­ing­ar, en ríkið tek­ur stærri þátt í kostnaði við hjálp­ar­tæk­in sjálf. Slík skipt­ing get­ur létt á op­in­bera kerf­inu, aukið fram­boð og stuðlað að betri þjón­ustu en ekki síður aukið tæki­færi til frek­ari niður­greiðslu – svo fremi sem gæði og aðgengi eru tryggð.

Hagræðing sem skil­ar sér í aukn­um stuðningi

Þetta er ekki ein­göngu spurn­ing um þjón­ustu – held­ur líka um skil­virkni og hag­kvæmni. Með því að nýta sérþekk­ingu og innviði í kerf­inu öllu, líkt og gert er í Bretlandi og víðar, væri unnt að veita þjón­ust­una hraðar og víðar – og á sama tíma nota þá fjár­muni sem spar­ast til að greiða niður heyrn­ar­tæki sjálf í aukn­um mæli. Slík hagræðing myndi gera rík­is­valdi kleift að styðja bet­ur við eldri borg­ara, sér­stak­lega þá sem eru tekju­lág­ir, án þess að auka heild­ar­kostnað í kerf­inu.

Við þurf­um að ræða þetta op­in­skátt, lausnamiðað og finna leiðir sem virka í ís­lensku sam­hengi. Hvort sem það felst í auk­inni niður­greiðslu, breyttri skipt­ingu á þjón­ustu og tækj­um, reglu­legri skimun, sam­starfi við einkaaðila eða öðrum lausn­um – þá er ljóst að það þarf að bregðast við. Fólk á ekki að þurfa að velja á milli grunnþarfa og þess að geta tekið þátt í sam­tali við barna­börn sín.

Við í Fram­sókn höf­um talað skýrt fyr­ir því að setja mál­efni eldri borg­ara í for­gang – og það ger­um við með því að hlusta, mæta til sam­tals og vinna með þær upp­lýs­ing­ar sem koma frá fólk­inu í land­inu. Fund­ur­inn með EBAK var skýr áminn­ing um að margt hef­ur tek­ist vel, mörg mál eru enn óleyst – en líka vitn­is­b­urður um mik­inn vilja fólks til að leggja sitt af mörk­um til að leysa þau.

Við ætl­um að fylgja mál­um eft­ir. Við ætl­um að vinna með eldra fólki og fé­laga­sam­tök­um þeirra. Og við ætl­um að styðja við öll mál­efna­leg og fram­kvæm­an­leg skref sem miða að bætt­um kjör­um og þjón­ustu þessa hóps.

Heyrn er ekki munaður. Hún er for­senda fyr­ir þátt­töku – og þátt­taka er lífs­gæði.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Deila grein

15/05/2025

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Í dag eru rafveitur undanþegnar fasteignamati. Það þýðir að stærstur hluti mannvirkja til orkuframleiðslu – svo sem stíflur, lón og önnur tilheyrandi mannvirki – bera ekki fasteignaskatt. Eingöngu er greiddur fasteignaskattur af stöðvarhúsum, og það eitt.

Fasteignaskattur er þó einn af þremur lögbundnum tekjustofnum sveitarfélaga, ásamt útsvari og greiðslum úr Jöfnunarsjóði. Þessi undanþága veldur því að sveitarfélög verða af verulegum tekjum, sérstaklega þau sem hýsa stórar virkjanir.

Nefna má mitt eigið sveitarfélag, Múlaþing. Þar er að finna Kárahnjúkavirkjun. Uppistöðulón hennar, Hálslón, er 57 ferkílómetra stórt – það er allt innan marka Múlaþings, hefur 600 metra fallhæð og afkastagetu upp á 690 megavött. Hálslón er svo stórt að það sést frá geimnum – það er stærra en Bermúdaeyjar.

Til að setja þetta í samhengi: Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, kostaði 146 milljarða króna við upphaf og er núvirt í dag rúmlega 335 milljarðar. Árið 2023 nam hagnaður Landsvirkjunar af grunnrekstri (fyrir skatta) 50 milljörðum króna, og árið þar á undan 40 milljörðum.

Þrátt fyrir þessa gríðarlegu verðmætasköpun fær Múlaþing einungis fasteignaskatt af vatnsréttindum – um 15 milljónir króna á ári. Fljótsdalshreppur fær einnig tekjur af stöðvarhúsi og vatnsréttindum – um 150 milljónir. Samtals fær Austurland því rétt tæplega 170 milljónir í fasteignaskatt vegna þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar.

Það er mikilvægt að minna á að verðmætin verða ekki til í rafmagnslínunum heldur í náttúrunni – þar sem orkan er framleidd, ekki endilega nýtt.

Enn í dag bíðum við eftir þriggja fasa rafmagni á Jökuldal – þótt risavirkjunin sé staðsett í bakgarðinum. Fjöldi starfa vegna raforkuframleiðslunnar er hverfandi – áætlað er að innan við tuttugu störf falli til vegna hennar á Austurlandi. Og ofan á þetta greiðum við háar upphæðir í dreifbýlisgjald raforku.

Nærsamfélög eiga skýlausan rétt á sanngjörnum hlut af þeim verðmætum sem verða til innan þeirra. Því fagna ég sérstaklega þeim áformum innviðaráðherra sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni – um að leggja fram frumvarp á haustþingi sem afnemur undanþágu vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvera frá fasteignamati.

Þetta skref er ekki einungis eðlilegt heldur sanngjarnt og réttlátt.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og stjórnarmaður í Samtökum orkusveitarfélaga.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Deila grein

15/05/2025

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Í vik­unni hóf ég umræðu á Alþingi um hvað ný­legt álit óbyggðanefnd­ar frá 10. apríl sl. þýðir fyr­ir Vest­manna­eyj­ar. Í stuttu máli bygg­ist álitið á því að leiðbein­andi laga­regla fel­ist í loka­málslið 2. kapí­tula reka­bálks Jóns­bók­ar frá 1281: Eyj­ar og sker sem „liggja fyr­ir landi“ telj­ist til þeirr­ar jarðar sem næst ligg­ur, nema sýnt sé fram á annað með lög­gern­ingi.

Út frá þess­ari laga­reglu hef­ur óbyggðanefnd mótað það sjón­ar­mið að eyj­ar og sker sem liggja 2 km eða minna frá landi (frá grunn­línu net­laga jarðar eða heima­eyju), séu eign­ar­land en ekki þjóðlenda. Fyr­ir Vest­manna­eyj­ar eru þetta mik­il tíðindi.

Vissu­lega þarf að horfa þarf til margra þátta við end­an­legt mat á því hvort eyj­ar og sker telj­ist til eign­ar­landa allt í kring­um landið. Þetta breyt­ir ekki því að óbyggðanefnd hef­ur slegið nýj­an og mik­il­væg­an tón.

Rétt­ur­inn er sterk­ur

Ríkið (fjár­mála- og efna­hags­ráðherra) þarf að bregðast án taf­ar við áliti óbyggðanefnd­ar og end­ur­meta kröf­ur sín­ar frá grunni. Eign­ar­rétt­ar­leg staða Vest­manna­eyja er mun skýr­ari en áður og kröf­ur rík­is­ins mun meira íþyngj­andi en víðast hvar ann­ars staðar á land­inu.

Rétt er að minn­ast þess að upp­haf­lega (2024) krafðist ríkið þess að sjálf­ur Heimaklett­ur og Blát­ind­ur – auk hlíða Herjólfs­dals og þar á meðal brekk­an sem Brekku­söng­ur­inn á Þjóðhátíð er kennd­ur við, yrðu viður­kennd sem þjóðlend­ur ásamt nýja hraun­inu.

Eign­ar­rétt­ar­leg staða virðist þó aug­ljós en bær­inn keypti árið 1960 all­ar Vest­manna­eyj­ar (með ör­fá­um und­an­tekn­ing­um), þar með talið út­eyj­ar, af rík­inu, sbr. lög frá 1960 sem heim­iluðu rík­is­stjórn­inni að selja „land allt í Vest­manna­eyj­um“ sem þá var í eigu rík­is­ins.

Órjúf­an­leg­ur hluti af sögu og samtíð Vest­manna­eyja

Hinar mörgu út­eyj­ar sem hér um ræðir voru öld­um sam­an mat­arkista Eyja­manna sem sækja þangað enn þann dag í dag. Úteyj­arn­ar geyma því bæði sögu og lif­andi samtíð heima­fólks og eru órjúf­an­leg­ur hluti Vest­manna­eyja; þar sem hjarta þeirra sann­ar­lega slær, eins og seg­ir í þjóðhátíðarlag­inu.

Kröf­ur end­ur­skoðaðar í tíð Fram­sókn­ar

Íþyngj­andi kröf­ur rík­is­ins voru end­ur­skoðar er Fram­sókn tók við mála­flokkn­um. Á vakt for­manns Fram­sókn­ar var ein­ung­is haldið eft­ir kröf­um í Stór­höfða og þær út­eyj­ar þar sem vafi þótti leika á um eign­ar­rétt og skera þurfti úr um málið. Þeim vanda hef­ur nú að miklu leyti verið ýtt til hliðar með áliti óbyggðanefnd­ar.

Afstaða óbyggðanefnd­ar í höfn – en hvað svo?

Álit óbyggðanefnd­ar er í sinni ein­föld­ustu mynd afar skýrt. Í ljósi hags­muna Vest­manna­eyja og sveit­ar­fé­laga um allt land er mik­il­vægt að kröfu­gerð rík­is­ins verði end­ur­skoðuð hið fyrsta, að hlutaðeig­andi aðilar hefji nýtt sam­tal og málið verði unnið hratt og vel til að eyða allri óvissu.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Skýr og lausnamiðuð af­staða Fram­sóknar til veiðigjalda

Deila grein

15/05/2025

Skýr og lausnamiðuð af­staða Fram­sóknar til veiðigjalda

Framsókn hefur tekið skýra og málefnalega afstöðu í umræðunni um veiðigjöld. Við styðjum heilshugar réttmæta kröfu samfélagsins um að sameiginleg sjávarauðlind þjóðarinnar skili arði sem gagnast samfélaginu öllu. Hins vegar skiptir máli hvernig það er gert. Óvönduð skattheimta getur skaðað atvinnulíf, dregið úr nýsköpun og veikt byggðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi.

Við í Framsókn teljum að það sé svigrúm til hækkunar veiðigjalda, en þær breytingar verða að gerast á yfirvegaðan, gagnsæjan og skynsamlegan hátt. Áhrifin af frumvarpinu sem nú liggur fyrir eru of víðtæk og hafa ekki verið nægilega vel metin, sérstaklega hvað varðar sveitarfélög sem byggja útsvarstekjur sínar á útgerð, vinnslu og tengdum atvinnugreinum. Framsókn hefur bent á nauðsyn þess að gera ítarlega áhrifagreiningu áður en slíkar breytingar eru festar í lög.

Sveitarfélög víða um land hafa lýst yfir áhyggjum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa á grunnþjónustu ef útsvarstekjur skerðast. Það er staðreynd að þegar sjávarútvegurinn dregst saman hefur það bein áhrif á getu sveitarfélaga til að reka skóla, félagsþjónustu og viðhalda mikilvægum innviðum svo fátt eitt sé nefnt.

Eru aðrar skynsamlegri leiðir?

Í ljósi þessa leggur Framsókn fram aðra leið sem tryggir sanngjarnar og stöðugar tekjur fyrir ríkissjóð án þess að veikja byggðir eða draga úr atvinnusköpun og fjárfestingum. Við höfum lagt til þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt á útgreiddan arð og söluhagnað. Þannig tryggjum við að skattheimtan beinist að raunverulegum hagnaði sem er tekinn út úr sjávarútveginum, en ekki að rekstrinum sjálfum, sem tryggir áframhaldandi verðmætasköpun og fjárfestingu.

Gagnsæi

Við í Framsókn höfum einnig lagt ríka áherslu á gagnsæi í útreikningum á áhrifum frumvarpsins. Nauðsynlegt er að skýrt sé hvernig mismunandi fyrirtæki, stór sem smá, staðsett í dreifðum byggðum eða stærri sveitarfélögum verða fyrir áhrifum.

Við erum einnig mjög meðvituð um hættu á samþjöppun og ójafnræði sem illa útfærðar skattbreytingar geta valdið. Slíkar breytingar gætu skert rekstrarumhverfi smærri útgerða sem eru mikilvægar fyrir byggðir víðs vegar um landið.

Fyrirsjáanleiki

Framsókn hefur tekið undir mikilvægi fyrirsjáanleika og aðlögunartíma ef breytingar verða á veiðigjöldum, líkt og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra var tíðrætt um í aðdraganda kosninganna í nóvember 2024. Það er mikilvægt fyrir stöðugleika atvinnulífsins og til að treysta fjárfestingu til framtíðar.

Að lokum hefur Framsókn lagt áherslu á raunverulegt samráð. Samráð snýst ekki aðeins um formsatriði heldur um virkt samtal milli stjórnvalda, atvinnulífs og samfélagsins þar sem lausnir eru unnar í sameiningu.

Vöndum til verka

Að þessu sögðu er mjög mikilvægt að vandað sé til verka. Sjávarútvegurinn er ekki aðeins órjúfanlegur hluti þjóðarsálarinnar og sögunnar heldur flaggskip Íslands í nútímanum. Við erum í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að veiðum, vinnslu, nýsköpun og sölu á sjávarafurðum og íslenskur sjávarútvegur er einstakur á heimsvísu hvað varðar sjálfbærni. Við getum með vönduðum og yfirveguðum vinnubrögðum tryggt að svo verði áfram.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkis­stjórnin ræðst gegn ferða­þjónustu bænda

Deila grein

14/05/2025

Ríkis­stjórnin ræðst gegn ferða­þjónustu bænda

Undanfarnar vikur hefur ný ríkisstjórn talað hátt og snjallt um aðgerðir gegn húsnæðisskorti, en í skjóli þess hefur hún lagt fram frumvarp sem skerðir verulega möguleika bænda til að stunda heimagistingu – eina af fáum tekjulindum sem styður við búsetu í dreifbýli. 

Á þingi liggur núna frumvarp sem stjórnarliðar segja að sé lausn á húsnæðisvandanum og takmarki heimagistingu um allt land. En það er ekki rétt. Þannig að eina sem hægt er að takmarka núna er það sem var skilið eftir síðast. Það er dreifbýlið. 

Hvað gerði síðasta ríkisstjórn? 

Framsókn hafði áður lagt fram frumvarp sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili. Það var til að takmarka Airbnb-útleigu í þéttbýli. Þar var markmiðið að draga úr þrýstingi á leigumarkaðinn og tryggja að íbúðarhúsnæði nýtist frekar til búsetu en sem Airbnb gisting. 

Ég, sem framsögumaður málsins í atvinnuveganefnd, lagði mikla áherslu á að þessi takmörkun skyldi einungis eiga við um þéttbýli – ekki um bændur og aðra í dreifbýli sem hafa nýtt heimagistingu sem tekjuauka. Í upphaflegu frumvarpi átti þessi takmörkun við um allt land, bæði dreifbýli og þéttbýli. 

Við fengum fjölmargar ábendingar um þetta og breyttum frumvarpinu. Það tryggði að bændur þyrftu ekki að fara í kostnaðarsamar deiliskipulagsbreytingar fyrir smáhýsi eða bústaði á jörðum sínum. Þetta var mikilvægt og markviss stuðningur við atvinnu í dreifbýli. Ég er mjög stolt af þeirri vinnu sem við fórum í sem skilaði þeirri niðurstöðu að heimagisting er takmörkuð allverulega í þéttbýli en bændur geta enn haft heimagistingu á jörð sinni. 

Hér má sjá þegar ég flutti framsöguræðu um málið eftir að það var búið í atvinnuveganefnd. 

Hér má sjá þegar þáverandi ráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mælti fyrir frumvarpinu. 

Hvað þýða hugmyndir nýju ríkisstjórnarinnar í alvöru? 

En nú hefur ný ríkisstjórn – undir forystu Samfylkingarinnar – ákveðið að snúa þessari vernd við. Nýtt frumvarp leggur til að heimagisting verði aðeins heimiluð á lögheimili viðkomandi og í einni annarri fasteign utan þéttbýlis. Þessi breyting beinist beint gegn bændum – þeim sem eru með tvö til þrjú smáhýsi eða fleiri – og skerðir möguleika þeirra til að byggja upp litla, sjálfbæra ferðaþjónustu á eigin jörð. 

Í greinargerð nýja frumvarpsins stendur: 

„Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að skráningarskyld heimagisting afmarkist við lögheimili einstaklings og eina aðra fasteign í eigu hans utan þéttbýlis, en húsnæðisvandi sem leitast er við að greiða úr með frumvarpinu á ekki við utan þéttbýlissvæða.“ 

Akkúrat! Húsnæðisvandinn á ekki við utan þéttbýlissvæða! Af hverju eru þá áhrif nýja frumvarpsins nær eingöngu utan þéttbýlissvæða? 

Er það vegna þess að það var búið að herða lögin á öllum öðrum sviðum og því var þetta það eina sem var eftir? 

Þau þurftu að koma bara með eitthvað til að fólk myndi trúa því að þau væru að fara í raunverulegar aðgerðir fyrir húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Sem þau eru ekki að gera. 

Eina stóra takmörkunin sem hægt er að fara í – varðar bændur 

Þetta er því ekki bara tæknilegt atriði í húsnæðismálum – heldur pólitísk aðgerð gegn landsbyggðinni. Það var sérstaklega biturt að heyra atvinnuvegaráðherra flytja framsöguræðu um þetta mál þar sem aðeins er rætt um leigumarkað og fjárfesta í þéttbýli, en ekkert minnst á þá sem verða raunverulega fyrir áhrifum: bændur á landsbyggðinni, fyrr en í andsvörum alveg í lokin og það svar varð ekki til þess að minnka áhyggjur mínar. Ég vil ekki trúa því að ríkisstjórnin ætli í alvöru að sparka svona harkalega í bændur – en ef þau taka þetta úr frumvarpinu þá er frumvarpið orðið mjög þunnt. 

Þetta er árás á dreifbýlið. 

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími til um­bóta í byggingar­eftir­liti

Deila grein

13/05/2025

Tími til um­bóta í byggingar­eftir­liti

Húsnæðismál eru eitt stærsta hagsmunamál almennings. Þegar fólk fjárfestir í íbúð, leggur það oft stærstu fjárhagslegu skuldbindingu ævi sinnar undir. Þá skiptir öllu máli að sú íbúð sé örugg, vönduð og án leyndra galla. Því miður hefur íslenskt kerfi í mannvirkjagerð um árabil dregist aftur úr og núverandi fyrirkomulag byggingareftirlits veitir hvorki neytendum næga vernd né stuðlar að faglegri og skilvirkri uppbyggingu.

Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem unnin var í framhaldi af vinnu sem ég sem innviðaráðherra beitti mér fyrir, dregur þetta skýrt fram. Þar er lagður fram vegvísir að breyttu eftirliti á Íslandi, sem setur fram djörf en nauðsynleg markmið fyrir íslenskan mannvirkjaiðnað.

Um er að ræða kerfisbreytingar sem lúta að ytra eftirliti, ábyrgð í framkvæmd og tryggingum. Meðal tillagna er að leggja niður byggingarstjórakerfið, koma á fót óháðum skoðunarstofum sem framkvæma eftirlit og festa í sessi lögbundna byggingargallatryggingu sem verndar kaupanda, jafnvel ef byggingaraðili verður gjaldþrota. Þessar breytingar eru ekki einungis til að auka gæði í mannvirkjagerð – þær eru líka efnahagslega skynsamlegar.

Kostnaður vegna byggingargalla er nú metinn á að minnsta kosti 25 milljarða króna árlega. Með því að færa ábyrgð til þeirra aðila sem raunverulega ráða yfir verkinu – hönnuða, iðnmeistara og einkum verkeiganda – má draga úr ósýnilegum áhættuþáttum sem valda skaða fyrir neytendur og samfélagið í heild. Lögbundin byggingargallatrygging, að danskri fyrirmynd, getur þar orðið lykilatriði.

Skýrslan undirstrikar einnig mikilvægi stafrænnar þróunar, samræmingar umsóknarferla og gagnsæis í framkvæmdum. Með því að nýta Mannvirkjaskrá sem miðlægt kerfi má einfalda stjórnsýsluna, draga úr kostnaði og tryggja rekjanleika. Þetta eru raunhæfar og framkvæmanlegar tillögur sem eiga sér fyrirmynd í árangursríkum breytingum á rafmagnseftirliti frá árinu 1997.

Umbætur af þessu tagi gerast ekki á einni nóttu. Þær krefjast samráðs, aðlögunar og samstöðu. En með réttum skrefum má byggja upp kerfi sem umbunar vönduðum aðilum og ver neytendur gegn dýrum og oft ósýnilegum byggingargöllum.

Nú er rétti tíminn til að hrinda þessum breytingum í framkvæmd. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur lagt traustan grunn. Næsta skref er pólitísk forysta og breið samstaða um að framtíð mannvirkjagerðar á Íslandi eigi að byggjast á ábyrgð, gagnsæi og hagsmunum almennings. Það er mikilvægt að nú verði unnið hratt og vel að framgangi málsins sem snýr að grundvallarhagsmunum fyrir alla landsmenn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. maí 2025.

Categories
Greinar

Borg þarf breidd, land þarf lausnir

Deila grein

12/05/2025

Borg þarf breidd, land þarf lausnir

Ég var svo dásamlega lánsöm að alast upp á heimili þar sem rætt var um stjórnmál og enn lánsamari með það að ekki voru öll sammála. Við borðið hjá ömmu þar sem ég dvaldi öllum mögulegum stundum voru sjónarmið sósíalista yfir í frjálshyggju og allt þar á milli rædd yfir kaffinu. Fólk ræddi málin, hækkaði stundum röddina en naut þess jafnframt að verja tíma saman og borða saman. Ef til vill hef ég öðlast skilning á því að hversu ólíkar skoðanir fólks geta verið við það að alast upp við frjáls og óheft skoðanaskipti. Fólk fær drifkraft frá ólíkum hlutum og hefur misjafna sýn á lífið, þó það sé úr sömu fjölskyldunni. Alla tíð hef ég litið á það sem gjöf að í stjórn landsins sé fólk sem er fulltrúar þessarar fjölbreytni.

Það er að mínu viti ómögulegt að ætla að stýra landi eða sveitarfélagi út frá einni stefnu, því þá þjónum við bara einum hópi fólks. Við erum samfélag mismunandi heima, ólíkrar reynslu og fjölbreyttra skoðanna. Til að skapa trúverðugt og traust samfélag þar sem við þjónum breiðum hópi fólks þá þarf að vera fjölbreytni, ólíkar lausnir og fjölbreyttar leiðir að markmiðum. Borgin má og á að vera fjölbreytt. Fólk þarf að hafa val um það hvort það vill nýta sér þær samgöngur sem eru í boði en þær þurfa þá einnig að vera raunverulegur valkostur fyrir fólk. Einnig á fólk að geta valið hvort það vill búa á svæði umkringt litlum grænum svæðum eða á þéttbýlum reit þar sem þú getur skokkað á náttsloppnum í næstu verslun því mjólkin gleymdist.

En umfram allt þurfum við að vera tilbúin að hlusta hvert á annað. Með virðingu og hlustun getum við setið við sama borðið og notið samverunnar þrátt fyrir ólíkar skoðanir. Ef við hlustum, heyrum við líka að um margt erum við sammála. Það þarf að moka snjóinn þegar það snjóar, hvort heldur fyrir gangandi, hjólandi eða akandi svo við komumst leiðar okkar. Það þarf einnig að hirða sorpið því okkur líður betur í hreinni og vel hirtri borg. Það þarf að huga að innviðum því við viljum ekki að fólk þurfi að stunda vinnu sína eða nám í óheilnæmu umhverfi.

Það er nefnilega þannig að það er meira sem sameinar okkur en sundrar ef við erum tilbúin að hlusta.

Af hverju framsókn?

Þegar ég er í kringum Framsóknarfólk, þá er ég í kringum fólk sem skilur einnig að borg þarf breidd. Landið þarf lausnir. Fólk sem skilur og setur í fólk og fjölskyldur í forgang. Framsóknarfólk skilur að jafnrétti og fjölbreytileiki eru ekki bara hugtök, heldur lykillinn að hamingjusömu samfélagi. Kannanir hafa sýnt að Framsóknarfólk er hamingjusamara og það kemur mér ekki á óvart.

Ásta Björg Björgvinsdóttir, formaður Framsóknarflokksins í Reykjavík og varaborgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. maí 2025.