Categories
Fréttir Greinar

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Deila grein

18/11/2025

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Fjarðarheiðargöng eru eitt af mikilvægustu samgönguverkefnum á Austurlandi. Öryggi vegfarenda er ein helsta ástæða framkvæmdarinnar ásamt því að tryggja aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu allan ársins hring. Með tilkomu ganganna verður tryggð örugg og greið leið milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs allan ársins hring, áreiðanleg, örugg og nauðsynleg samgönguleið innan sveitarfélagsins og til Evrópu. Samgöngubætur af þessari stærðargráðu hafa einnig bein áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf, eykur möguleika íbúa til atvinnu og menntunar, styrkir ferðaþjónustu og skapar traustari forsendur fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Göngin verða þannig mikilvæg stoð í að efla búsetu og efnahagslíf á Austurlandi öllu.

Hringtenging Austurlands

Fjarðarheiðargöng eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands, jarðgangatenging sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur kallað árum saman og frá árinu 2013 hafa bókanir SSA verið skýrar og samhljóða um að næstu göng á Austurlandi skuli verða Fjarðarheiðargöng. Það er svo með staðfestingu Svæðisskipulags Austurlands í byrjun þessa kjörtímabils sem vilji allra sveitarstjórna á Austurlandi er enn frekar staðfestur.

Ígrunduð ákvörðun

Árið 2011 kom út skýrslan „Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum“ sem unnin fyrir Vegagerðina. Í skýrslunni kemur fram að hugmyndir hafi áður verið uppi um jarðgöng frá Héraði niður í Mjóafjörð. Þau voru þó ekki talin raunhæfur valkostur í samanburði við Fjarðarheiðargöng sökum þess að slík göng myndu ekki tengja Seyðisfjörð. Afstaðan var því sú að jarðgöng til Mjóafjarðar voru skoðuð sem hugmynd, en felld úr frekari athugun vegna lítillar umferðar og skorts á tengingu við lykilhafnir og samgöngur. Í skýrslunni er fjallað um nokkra möguleika gangna en niðurstaðan er að jarðgöng undir Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða séu besti kosturinn.

Það var síðan árið 2017 sem þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng og var í framhaldinu gefin út skýrslan „Seyðisfjarðargöng – Valkostir og áhrif á Austurlandi“. Markmið verkefnisins var að undirbúa ákvörðun um samgöngubót sem best væri til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu. Fram kemur í ályktun og niðurstöðu hópsins:

Það er mat verkefnishópsins að með hliðsjón af ávinningi samfélagsins og atvinnulífsins á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að fylgja áliti Alþingis, Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og þorra íbúa og fulltrúa atvinnulífs og samfélags á svæðinu og rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði sem fyrsta áfanga og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar í síðari áfanga. Hópurinn leggur mikla áherslu á að ákvörðun um samgöngubætur með hringtengingu liggi fyrir eins fljótt og auðið er og að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst til að jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs skili sér ekki of seint.

Alþingi hefur margsinnis samþykkt framkvæmd Fjarðarheiðarganga

Í samgönguáætlun 2011-2022 sem samþykkt var á Alþingi 19. júní 2012 kom þetta fram:

Jarðgangaáætlun: Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.

Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Hringtenging Austurlands er umfjöllunarefni meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis árið 2020 en þá kom fram í áliti þeirra:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur leið um Fjarðarheiði

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að núverandi Seyðisfjarðarvegur uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar um breidd og hámarkshalla stofnvegar. Vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Fjarðarheiði.

Fjarðarheiðargöng eru fullhönnuð af hálfu Vegagerðarinnar og hefur Múlaþing staðfest breytingar á skipulagi í samræmi við hönnun. Göngin eru fullhönnuð og hefur þegar um 600 milljónum verið varið í þá vinnu.

Rjúfum kyrrstöðuna

Kæri samgönguráðherra Eyjólfur Ármansson, ég skora á þig að rjúfa stopp í jarðganga gerð og bjóða út Fjarðarheiðargöng, þau eru einu jarðgöngin sem hægt er að hefja vinnu við á þessu kjörtímabili. Kæra ríkisstjórn, ég krefst þess að þið standið við stóru orðin, loforð sem meðal annars forsætisráðherra hafði uppi í kosningaþætti RÚV.

Af stað með göngin!

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Deila grein

15/11/2025

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Bestu ákvarðanirnar eru teknar þegar við sjáum heildarmyndina. Til að sjá heildarmyndina verðum við að horfa út fyrir nærumhverfi okkar og sjá landið allt, fólkið allt. Núverandi ríkisstjórn virðist þó ekki vera alveg sammála þessu sjónarmiði. Hún sér landið okkar í gegnum þröngan glugga höfuðborgarinnar. 

Þetta hefur þær afleiðingar að dregið er sífellt úr þjónustu á landsbyggðinni, fjármunum er frekar beint að þéttbýlinu og reglur settar án þess að spurt sé hvernig þær snerta fólk sem býr og starfar utan höfuðborgarsvæðisins.

Landsbyggðarmat 

Af þessari ástæðu lagði þingflokkur Framsóknar fram tillögu á Alþingi í liðinni viku um að innleiða svokallað landsbyggðarmat í íslenska stjórnsýslu og lagasetningarferli (e. rural proofing). Hugmyndin er einföld og gengur út á að slíkt mat verði lögbundin og skyldubundin leið við undirbúning frumvarpa, reglugerða og stærri stefnumótunar- og fjárfestingaráætlana ríkisins. Ef áhrif ákvarðana eða verkefna eru neikvæð, þá þarf að huga að því hvernig hægt er að milda þau eða koma með mótvægisaðgerðir. Ef tækifæri felast í breytingunni er spurt hvernig þau verði nýtt. 

Það gleymist oft að aðstæður á Íslandi eru afar ólíkar milli landshluta og byggðarlaga. Ákvarðanir stjórnvalda verða ávallt að taka mið af því. Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp landsbyggðarmat. 

Aðför að landsbyggðinni í boði ríkisstjórnarinnar

Ákvarðanir stjórnvalda sem bitna á landsbyggðinni birtast á ótal sviðum. Við sjáum það t.d. þegar starfsemi heilbrigðisþjónustu er sameinuð með þeim afleiðingum að lengri tíma en áður tekur að fá læknisaðstoð. Við sjáum sambærileg dæmi almennt þegar nýjar reglur eða aðrar kröfur eru skrifaðar út frá forsendum höfuðborgarinnar án þess að tillit sé tekið til raunverulegra aðstæðna í dreifbýli. 

Ákvarðanir stjórnvalda snerta lífsviðurværi, öryggi og framtíð fólks um allt land. Og þegar þær eru teknar án þess að áhrif á landsbyggðina séu metin, verður niðurstaðan oftar en ekki sú sama: verri þjónusta á landsbyggðinni og færri tækifæri. 

Skortur á skilningi á ólíkum aðstæðum úti á landi er ekki aðeins kæruleysi heldur felur í sér aðför að landsbyggðinni. Það getur aldrei talist eðlilegt að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir sem kunna að veikja lífsgæði fólks utan höfuðborgarinnar án þess að greinargott mat á áhrifum slíkra ákvarðana hafi farið fram. 

Þetta er ekki ósk um forgang eða sérmeðferð landsbyggðarinnar. Þetta er einfaldlega krafa um ábyrgð og gæði í stjórnsýslu og við lagasetningu. Landsbyggðarmat er eins konar gæðalinsa í opinberri stefnumótun, leið til að sjá heildina og forðast að góð áform hafi óheppilegar aukaverkanir. 

Fjöldi ríkja hefur tekið slíkt ferli upp með góðum árangri. Í Bretlandi, Finnlandi og Kanada hefur það leitt til betri ákvarðanatöku, aukins jafnræðis og skilvirkari nýtingar fjármuna. Það sama gæti átt við hér ef viljinn er fyrir hendi. 

Sameiginleg ábyrgð

Við eigum ekki að draga línu milli höfuðborgar og landsbyggðar. Við eigum að horfa á okkur sem eina heild, þjóð sem byggir á fjölbreytileika, samstöðu og ótal tækifærum til verðmætasköpunar þvert á landshluta. 

Þegar landsbyggðin styrkist, styrkist landið allt. Þegar þjónusta og tækifæri eru tryggð á landsbyggðinni, þá vex samfélagið í heild. Við eigum ekki að horfa á byggðir landsins sem keppinauta, heldur sem samstarfsnet sem heldur þjóðinni saman. 

Þetta snýst ekki um forréttindi heldur jafnræði. Ekki um aukinn kostnað heldur um skynsamari ákvarðanir. Það er miklu dýrara að bæta fyrir skaðann eftir á en að hugsa hlutina vel í upphafi og þess vegna er landsbyggðarmat mikilvægt. 

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 15. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkið græðir á eigin fram­kvæmdum

Deila grein

14/11/2025

Ríkið græðir á eigin fram­kvæmdum

Það er ákveðinn misskilningur að stórar framkvæmdir á borð við jarðgöng og vegagerð séu fyrst og fremst kostnaðarsamar fyrir ríkissjóð. Það kemur til af því að slíkar framkvæmdir eru kostnaðartölur í samgönguáætlun en höfum það á hreinu samgönguáætlun fjallar ekki um tekjuhlið ríkissjóðs af eigin framkvæmdum. Ríkið græðir helling af eigin framkvæmdum.

Framkvæmdir eru fjárfesting – ekki útgjöld

Framkvæmdir eru fjárfestingar sem eignfærast, skapa tekjur, störf og verðmæti á framkvæmdatíma, bæði fyrir ríkið sjálft sem og fyrir samfélagið í heild.

Þegar ríkið ræsir stórar samgönguframkvæmdir fer hluti fjármagnsins nær samstundis aftur í ríkiskassann. Virðisaukaskattur, tryggingagjöld, tekjuskattar, gjöld af vélum og ökutækjum, tollar og vörugjöld fyrir utan fjölmörg önnur opinber gjöld sem víða leynast. Áætla mætti að ríkið endurheimti allt frá 25-35 % af kostnaði framkvæmda þegar á framkvæmdatíma. Þá strax myndast hreyfing í efnahagslífinu, þjónusta og verslun vex á framkvæmdatíma fyrir utan þann langtíma ábata samfélagsins og ríkisins af bættum samgöngum og auknum atvinnutækifærum. Þetta er því ekki útgjöld, heldur fjárfesting sem borgar sig margfalt.

Þetta gildir til dæmis um Fjarðarheiðargöng og nýjan veg um Öxi. Fyrir íbúa og fyrirtæki í Múlaþingi og á Austurlandi þýðir þetta styttri og öruggari leiðir, minni eldsneytisnotkun og lægri rekstrarkostnað. Fyrir ríkið þýðir það meiri umsvif, auknar skatttekjur og sterkari byggðir. Betri samgöngur eru sannarlega burðarás byggðafestu. Fólk er líklegra til að setjast að þar sem þjónusta og aðgengi eru tryggð, fyrirtæki sjá tækifæri í hraðari flutningum og ferðaþjónustan getur vaxið á traustari grunni. Hver króna sem fer í slíkar framkvæmdir er fjárfesting í framtíð byggðanna.

Tíminn er peningar – líka fyrir ríkið

Tafir í framkvæmdum kosta peninga. Fyrir hvert ár sem líður án framkvæmda tapar ríkið mögulegum tekjum og störfum. Því fyrr sem verkin verða að veruleika, því fyrr nýtist ávinningurinn fyrir þjóðarbúið.

Það er kominn tími til að breyta hugsunarhætti okkar um að samgönguframkvæmdir séu eingöngu gjaldaliðir, framkvæmdir eru tekjulindir – fjárfestingar sem efla atvinnulíf, tryggja öryggi og styrkja ríkissjóð til framtíðar. Spurningin sem eftir stendur er ekki hvort við höfum efni á að ráðast í þessi verk – heldur hvort við höfum efni á að láta þau ógert.

Sveitarstjórn Múlaþings stendur þétt saman í því að nýta hvert einasta tækifæri til að vekja máls á mikilvægi Fjarðarheiðarganga og Axarvegar. Það er okkar skýlausa krafa að farið verði strax af stað með útboð og framkvæmdir til að efna gefin loforð við sameiningu sveitarfélagsins. Loforð sem eru sannarlega skrifleg í gildandi samgönguáætlun. Samgönguáætlun sem er pólitísk og stjórnsýslulega bindandi áætlun, lögbundin langtímaáætlun ríkisins um samgöngur og samþykkt af Alþingi.

Hún er skuldbinding Alþingis og stjórnvalda gagnvart almenningi og sveitarfélögum landsins og því lágmark að farið sé í þær framkvæmdir sem ítrekað hafa verið samþykktar, enda hefur ríkið tekjur af eigin framkvæmdum.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrir þau sem stoppa stutt

Deila grein

13/11/2025

Fyrir þau sem stoppa stutt

Á síðustu árum hefur heimsendingarþjónusta á vörum og mat aukist verulega, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins. Neytendur hafa í auknum mæli tileinkað sér þau þægindi sem felast í að fá sendar vörur og mat beint heim að dyrum, og hafa matar- og vöruinnkaup í gegnum netið orðið fastur hluti af daglegu lífi fjölmargra. Þessi þróun hefur þó skapað áskoranir í miðborginni, þar sem aðgengi bíla er takmarkað og bílastæði ofanjarðar fá. Sendibílstjórar og aðrir sem sinna skammtímaakstri neyðast oft til að leggja ólöglega eða langt frá áfangastað, sem veldur seinkunum, truflunum í umferð og eykur hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Aðilar sem stunda heimsendingarþjónustu hafa bent á mikilvægi þess að svæði séu hönnuð þannig að hægt sé að sækja vörur og mat án þess að þurfa að leggja langt frá þeim stað þar sem sækja á varninginn, og án þess að greiða háar fjárhæðir fyrir aðeins 5-10 mínútna stopp. Skortur á skammtímastæðum leiðir til þess að tími og kostnaður sendibílstjóra eykst, sem bitnar bæði á fyrirtækjum og neytendum.

Sleppistæði, þar sem heimilt væri að staldra við í stuttan tíma án gjaldtöku, myndu leysa stóran hluta þessara áskorana. Með þeim væri hægt að tryggja fljótlegt og öruggt aðgengi fyrir þá þjónustu sem einungis krefst þess að stoppað sé í skamma stund. Slík stæði myndu ekki aðeins bæta starfsskilyrði fyrir heimsendingarþjónustu, heldur einnig gagnast leigubílum sem sinna farþegum í miðborginni og velferðarþjónustu sem afhendir mat og lyf heim til fólks og sér um akstursþjónustu.

Raunhæfar lausnir

Skipulagning á sleppistæðum myndi stuðla að betra flæði í miðborginni, draga úr ólöglegum stoppum og bæta upplifun og öryggi bæði íbúa og gesta. Við í Framsókn viljum horfa til raunhæfra lausna sem bæta daglegt líf borgarbúa og styrkja atvinnulífið í miðborginni. Því lögðum við til að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að móta tillögur um útfærslu skammtímasleppistæða í miðborg Reykjavíkur í nálægð við veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni. Þrátt fyrir að tillagan sé skynsamleg og í takt við þá þróun sem á sér stað í borgum víða um heim ákvað borgarstjórnarmeirihlutinn að hafna henni. Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins felldu tillöguna. Það er sorglegt að þau virðast ekki sjá þörfina fyrir að bæta umferðarflæði né styðja við atvinnulífið í miðborginni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Akra­nes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu

Deila grein

12/11/2025

Akra­nes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu

Það er eitthvað fallegt við þann tíma árs þegar við setjumst niður og förum yfir fjárhagsáætlun bæjarins. Flestir sjá kannski bara töflur, línur og tölur – en fyrir mér sem bæjarfulltrúa, er þetta aðeins meira en það. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er ekki bara Excel-skjöl og útgjaldaliðir. Hún er spegilmynd þess hvernig við sem samfélag viljum forgangsraða. Hverju við veljum að hlúa að. Hún segir frá gildum okkar, framtíðarsýn og þeirri ábyrgð sem við berum gagnvart fólkinu sem heldur bænum gangandi.

Við erum að koma út úr einu mesta uppvaxtarskeiði í sögu Akraneskaupstaðar. Á örfáum árum hefur bæjarfélagið tekið gríðarlegum breytingum. Hér hefur verið byggt, endurnýjað, stækkað og þróað. Við höfum fjárfest í nýjum íþróttamannvirkjum (fimleikahúsi, reiðhöll, golfskála, stórglæsilegu fjölnota íþróttahúsi), byggt við Dvalarheimilið Höfða, endurbætt báða grunnskólana og reist nýjan leikskóla. Þetta hefur verið gert samtímis og við höfum þurft að fara í umfangsmiklar viðgerðir á eldra íþróttahúsi bæjarins og ýmsum stofnunum. Þetta hefur kostað mikla peninga og fórnir – en það hefur líka verið fjárfesting í framtíðinni. Sem betur fer var bærinn vel undirbúinn og hefur ekki þurft að taka eins mikið að láni og ætla mætti. Það er merki um ábyrga fjármálastjórn og sterkan grunn.

En nú er kominn tími til að hægja á. Að setjast niður, draga andann djúpt – og hugsa um akurinn.

Tími til að hlúa – ekki aðeins að byggja

Við höfum verið dugleg að reisa og byggja, en garðurinn þarf meira en steypu og stál. Hann þarf að fá tíma, næringu og umhyggju. Ef við viljum uppskera áfram, þá verðum við að vökva. Því það sem raunverulega heldur bænum okkar uppi er ekki húsin eða mannvirkin – heldur fólkið. Starfsfólkið sem sinnir börnunum okkar, styður aldraða, heldur bænum hreinum og tryggir þjónustu við íbúa, starfsmenn stjórnsýslunnar og starfsmenn Fjöliðjunnar sem taka við dósunum okkar. Svona mætti lengi áfram telja.

Álagið hefur aukist, kröfurnar hækkað og stjórnsýslan orðið flóknari. En stuðningurinn hefur ekki alltaf fylgt með. Það er ekki áfellisdómur – heldur ákall. Það eru allir að gera sitt besta við oft erfiðar aðstæður. Nú er kominn tími til að huga að fólkinu sem bærinn byggir á. Þetta er eins og með fjölskylduna okkar, þau vita alveg að við elskum þau en stundum mættum við vera duglegri við að segja þeim það!

Ég hef oft líkt Akranesi við garð. Það dugir ekki að sá og stinga niður stiklum ef við gleymum að vökva. Þá vex illgresið og ræturnar visna. Við getum ekki ætlast til ríkulegrar uppskeru ef við hlúum ekki að jarðveginum.

Skipurit, traust og samtal

Það eru nú tvö ár síðan við hófum vinnu við nýtt skipurit. Markmiðið er gott – að gera stjórnsýsluna skilvirkari, skýrari og nær fólkinu. En teikning á blaði breytir engu ef hún er ekki lifandi. Skipurit virkar aðeins ef það er byggt á trausti, hlustun og þátttöku. Starfsfólkið þarf að skilja tilganginn og fá að taka þátt í ferlinu. Það er ekki nóg að segja fólki hvert það eigi að fara – það þarf að skilja af hverju það er á ferðinni. Þá verða breytingar ekki ógn, heldur tækifæri.

Að nýta betur, ekki skera niður

Við verðum líka að horfa heiðarlega á kostnað. Sérstaklega þann sem tengist aðkeyptri þjónustu. Það hefur verið bent á þetta í mörg ár – en lítið gerst. Nú þurfum við að spýta í lófana. Það þarf að liggja fyrir heildstæð greining á stöðunni, forgangsröðun og gagnsæi. Kjörnir fulltrúar eiga að hafa skýra mynd af raunveruleikanum – og vinna í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk. Þetta snýst ekki um niðurskurð. Þetta snýst um að nýta betur. Að taka upplýstar ákvarðanir, byggðar á gögnum, samráði og trausti.

Starfsfólk er fjárfesting, ekki kostnaður

Eitt af því leiðinlegast við fjárhagsáætlun er þegar það er stanslaust verið að tala um kostnað, kostnað, kostnað. Það er mikilvægt að líta á mannauðinn sem fjárfestingu en ekki sem kostnað sem hægt er að stilla til eftir þörfum. Með því að styðja starfsfólk í fræðslu, þróun og aukinni starfsánægju byggjum við upp sterkara samfélag. Fólk sem finnur til virðingar, hefur skýran tilgang og tækifæri til að vaxa í starfi skilar betri þjónustu og meiri stöðugleika – bæði til framtíðar og í daglegum rekstri.

Ég vil að Akraneskaupstaður sé vinnustaður sem fólk er stolt af. Staður þar sem það finnur að það skiptir máli. Þar sem virðing, samvinna og traust eru ekki slagorð, heldur raunveruleg gildi í daglegu starfi. Þegar við hlúum að fólkinu okkar, hlúum við að framtíð bæjarins.

Liðsheildin Akranes

Við þurfum líka að hætta að hugsa í einingum og sviðum – og byrja að hugsa í tengslum. Akranes er ekki safn deilda sem keppast um fjármuni, heldur eitt lið. Ég líki þessu stundum við ÍA – liðsheild sem nær árangri þegar allir vinna saman. Starfsfólk bæjarins á ekki að finna að það starfi fyrir sitt „félag“, heldur fyrir Akranesliðið. Þegar við róum í sömu átt, með trausti, gagnsæi og virðingu, þá eykst leikgleðin – og árangurinn líka.

Framtíð með hjarta

Við stöndum á tímamótum. Við höfum gert ótrúlega hluti, byggt upp sterka bækistöð og fjárfest í framtíðinni. Nú þurfum við að staldra við, endurhugsa forgangsröðun og leggja áherslu á það sem ekki sést alltaf á fjárhagsáætlun – fólkið, menninguna, samfélagið.

Það er auðvelt að tala um niðurskurð. Það kveikir þó sjaldnast eldmóð. Við þurfum að tala um uppbyggingu – um hugrekkið til að breyta, um samtal, um ábyrgð og um ást á bænum okkar. Því þegar við hlustum á hvort annað, þegar við vinnum saman í stað þess að draga í sundur, þegar við hugsum með hjartanu jafnt og hausnum – þá blómstrar bærinn. Ekki bara á pappír, heldur í lífi fólksins sem hér býr og vinnur.

Akranes er garður sem hefur vaxið hratt. Nú er tími til að vökva hann, rækta hann og leyfa honum að dafna. Þá verður uppskeran ríkuleg.

Liv Åse Skarstad, bæjarfulltrúi Framsóknar og Frjálsra á Akranesi

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Deila grein

11/11/2025

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja sanngjarna skattlagningu sem endurspeglar raunverulega stöðu íbúa og atvinnulífs. Á kjörtímabilinu höfum við lagt áherslu á að bregðast við ósanngjörnum hækkunum á fasteignaskatti sem hafa bitnað á heimilum og fyrirtækjum og eru tilkomnar vegna mikilla hækkana á fasteignamati á undanförnum árum. Til að mæta þessari þróun og breyttu vaxtaumhverfi hafa bæjarfulltrúar Framsóknar lagt fram tillögur um að sveitarfélagið lækki sín álagningarviðmið, þannig að íbúar og fyrirtæki greiði ekki hærri fasteignaskatta milli ára en sem nemur verðbólgu ársins.  

 Mynd: Byggðastofnun. Hér vantar þó árið 2026 en hækkun á fasteignamati milli ára er þá 9,2.

Fasteignamat á Akureyri hefur hækkað verulega frá árinu 2022 eða um 60% á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir þetta hefur álagningarprósentan aðeins einu sinni verið lækkuð á kjörtímabilinu, og þá aðeins óverulega fyrir íbúðarhúsnæði, en ekkert fyrir atvinnuhúsnæði. Þessar breytingar hafa haft í för með sér mikla hækkun fasteignaskatta á bæði heimili og fyrirtæki.

Tillaga að lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í takt við lækkun á íbúðahúsnæði

Við afgreiðslu fasteignagjalda í bæjarráði lögðum við bæjarfulltrúar Framsóknar fram tillögu þess efnis að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður um fjóra punkta í stað tveggja, úr 1,63% í 1,59%. Með þessari breytingu yrði hækkun fasteignaskatts í takt við verðbólgu ársins, líkt og íbúahúsnæði. Frá árinu 2022 hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri hækkað um 44%, og hefur skattbyrði fyrirtækja því aukist verulega án þess að álagningarhlutfallið hafi verið endurskoðað í samræmi við þær breytingar og krefjandi rekstrarumhverfi í háu vaxtaumhverfi.

Sanngirni og stöðugleiki í fyrirrúmi

Markmið Framsóknar er að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru rekstrarumhverfi sveitarfélagsins og sýna ráðdeild í rekstri til að koma til móts við hækkandi álögur á íbúa og fyrirtæki. Hluti af því er að bregðast við hækkunum á fasteignamati. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 8. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Bættar sam­göngur og betra sam­félag í Hafnar­firði

Deila grein

11/11/2025

Bættar sam­göngur og betra sam­félag í Hafnar­firði

Við leggjum mikla áherslu á að skapa öruggt og gott umhverfi fyrir alla vegfarendur í Hafnarfirði. Góð umferðamenning skiptir þar höfuðmáli. Hún byrjar hjá okkur sjálfum. Hún snýst um virðingu, tillitssemi og það að við tökum ábyrgð hvert á öðru í umferðinni. Þannig byggjum við upp bæ þar sem öryggi, þægindi og umhverfisvitund haldast í hendur.

Reykjanesbrautin frá Kaplakrika að N1

Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur skilað auknu og betra flæði umferðar og aukið öryggi til muna. Reykjanesbrautin er ein mikilvægasta samgönguæð landsins og hefur mikil áhrif á daglegt líf íbúa Hafnarfjarðar. Kaflinn frá Kaplakrika að N1 við Lækjargötu er sérstaklega mikilvægur, þar sem umferðaþungi hefur aukist jafnt og þétt. Ég hef átt í góðu samtali við Vegagerðina um þennan vegkafla sem er á samgönguáætlun.

Í lok þessa árs verður kynnt valkostagreining um væntanlegar framkvæmdir. Ég hef komið því skýrt á framfæri við Vegagerðina að þessi framkvæmd þurfi að vera í algjörum forgangi, ásamt þeim sjónarmiðum að umferðaflæði og öryggi verði tryggt á framkvæmdartíma. Ég mun sjá til þess að íbúar fái góða kynningu á þessari framkvæmd, sem er forgangsmál fyrir okkur Hafnfirðinga og samfélagið allt vegna tengingar við alþjóðaflugvöllinn. Stefnt er að verklokum þessara framkvæmda árið 2032.

Almenningssamgöngur niður Reykjavíkurveg

Verið er að vinna frumdrög Borgarlínu frá Fjarðarkaupum, niður Reykjavíkurveg að Firði. Þessi leið er lykiltenging í samgöngum bæjarins og hluti af ásýnd og sjarma Hafnarfjarðar. Við höfum átt uppbyggilegt og gagnlegt samstarf við Betri samgöngur um áformin þar sem áherslan er á lausnir sem bæta samgöngur án þess að skerða aðgengi eða gæði umhverfisins. Einnig er mikilvægt að góðar almenningssamgöngur nái alveg að Tækniskólanum. Fjölmargir nemendur Tækniskólans koma til með að nýta sér bættar almenningssamgöngur og því þarf að vera öflug stoppistöð við skólann.

Ég legg á það áherslu að ég mun ekki styðja það ef lagt verður til að rífa íbúðarhús til að koma fyrir Borgarlínu. Slíkt verður ekki gert á minni vakt.

Umferð eykst með komu Tækniskólans

Koma Tækniskólans á Suðurhöfnina í Hafnarfirði er mikið fagnaðarefni. Þar er einnig að fara af stað mikil uppbygging íbúða og þjónustu við Hvaleyrarbraut, Óseyrarbraut og Flensborgarhöfn. Með nýjum nemendum og starfsfólki í Tækniskólanum ásamt nýjum íbúum á svæðinu mun umferð aukast. Það kallar á gott skipulag og ný umferðarmannvirki við Flensborgartorg, Strandgötuna og við gatnamótin við Strandgötu og Reykjanesbraut. Unnið er að því að greina umferðina og koma með lausnir. Hér er um að ræða jákvæða þróun á þessu svæði sem eðli máls kallar á raunhæfar lausnir. Ég mun leggja á það áherslu að hægt verði að kynna slíkt fyrir íbúum ekki síðar en snemma á næsta ári.

Samvinna skilar árangri

Í Hafnarfirði leggjum við áherslu á samvinnu. Samvinnu við íbúa, fyrirtæki og opinbera aðila. Samstarfið við Vegagerðina og Betri samgöngur hefur verið traust og uppbyggilegt og saman erum við að móta framtíðarsýn sem gerir Hafnarfjörð að enn betri bæ til að ferðast um, búa í og starfa.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grindavík og samstaða þjóðar

Deila grein

11/11/2025

Grindavík og samstaða þjóðar

Tvö ár eru liðin frá því að Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa. Föstudagskvöldið stendur ljóslifandi í minni flestra Íslendinga, en þá þurftu íbúar bæjarins að yfirgefa heimili sín. Slíkir atburðir eru afar þungbærir en sem betur fer fátíðir í sögulegu samhengi. Íbúar Grindavíkur hafa sýnt einstaka þrautseigju og seiglu í þessum aðstæðum, bæði í því að finna sér nýjan samastað en um leið að huga að framtíð síns bæjar. Samstarf og samvinna við íbúa Grindavíkur var afar mikilvæg í öllum þessum hremmingum. Margt gekk vel en sumt hefði verið hægt að gera betur. Aðalatriðið er að þegar vá stendur fyrir dyrum er brýnt að við stöndum saman og setjum okkur í spor annarra.

Saga Grindavíkur er merk en byggð hefur verið þar frá landnámi. Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru þeir Molda-Gnúpur Hrólfsson og Þórir Vígbjóðsson. Þrátt fyrir hrjóstrugt og vatnssnautt land í gegnum aldirnar, þá nýttu Grindvíkingar sér auðlindir sjávar og fjörunnar til matar og fóðurs. Fiskur, söl, þang, fjörugrös og selir veittu mikilvægan viðbótarafla þegar hey og bithagar brugðust. Með dugnaði gátu Grindvíkingar lifað af í harðbýlu landi. Atvinnulífið hefur ávallt verið öflugt í Grindavík og sést það einna skýrast á öflugum fyrirtækjum bæjarins.

Jarðhræringarnar samtímans eru ekki eina áfallið sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa með. Um Jónsmessuleytið árið 1627 varð sá atburður sem lengi sat í minni Grindvíkinga en það var Tyrkjaránið svonefnda. Þá gerðu sjóvíkingar frá Alsír strandhögg á Íslandi, og bar eitt af fjórum skipum þeirra að landi í Grindavík. Talið er að sjóvíkingarnir hafi numið á brott um tólf einstaklinga frá Grindavík, en alls er talið að 400 manns hafi verið rænt af landinu öllu. Framsæknir einstaklingar í Grindavík og víðar á landinu standa fyrir því að minnast þessara atburða á næsta ári.

Þessi misserin er líf smám saman aftur að fæðast í hinum merka bæ Grindavík. Endurreisnin er hafin og afar ánægjulegt sjá dugnaðinn sem er þar á ferð. Ljóst er í mínum huga að fólkið frá Grindavík þurfti að fást við aðstæður sem reyndu gríðarlega á þrek þeirra og sálu. Við sem búum á þessu gjöfula landi en erfiða verðum ávallt að hafa það hugfast að hugsa um náunga okkar og sérstaklega þegar neyð blasir við. Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá þessum náttúruhamförum eru þau líklega sem heil eilífð í huga þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín. Ljóð Einars Benediktssonar á vel við:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2025.

Categories
Greinar

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Deila grein

06/11/2025

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu.

Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót, sem er ein sú mesta hækkun á landinu. Þetta er veruleg hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu.

Slík hækkun þýðir í raun að núverandi fasteignagjöld myndu hækka að sama skapi um 17,2 % ef ekki er brugðist við með breytingum á álagningarstuðli fasteignagjaldanna. Það myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna í Suðurnesjabæ.

Hækkun fasteignamats hefur einnig áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar. Þar er gjaldtakan bundin við fasteignamat, en það er hægt að breyta með ákvörðun bæjarstjórnar til að tryggja sanngirni og jafnræði milli íbúa.

Að standa vörð um heimilin í krefjandi efnahagsumhverfi

Á síðasta fundi bæjarstjórnar, þann 5. nóvember 2025, lögðum við – bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar ásamt Magnúsi S. Magnússyni – fram tvær tillögur við vinnu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2026.

Á tímum þar sem háir vextir, þrálát verðbólga og mikill kostnaður á húsnæðismarkaði þrýsta á heimilin, viljum við tryggja að sveitarfélagið bæti ekki við þá byrði. Því leggjum við til að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði í Suðurnesjabæ verði óbreyttir árið 2026.

Efnahagslegt ástand hefur verið krefjandi um langt skeið, háir vextir hafa aukið greiðslubyrði heimila, verðbólga hefur dregið úr ráðstöfunartekjum og húsnæðismarkaðurinn er í ójafnvægi. Við teljum að í slíku ástandi beri sveitarfélaginu að sýna samfélagslega ábyrgð og hófsemi í gjaldtöku. Við leggjum því til að fasteignaskattar hækki ekki árið 2026.

Jafnræði í vatnsgjöldum

Önnur tillaga okkar snýr að því að leiðrétta ósanngjarnt misræmi í vatnsgjöldum milli íbúa í Sandgerði og Garði.

Við leggjum til að sveitarfélagið noti sömu reikni stuðla og HS Veitur í Garðshluta við útreikning á köldu vatni, svo allir íbúar greiði samkvæmt sama kerfi. Það er einfaldlega óeðlilegt að íbúar í sama sveitarfélagi greiði gjöld eftir mismunandi reglum – þar sem annars staðar er miðað við fasteignamat, en annars staðar við rúmmetra.

Slíkt misræmi gengur gegn jafnræði og gagnsæi, og Framsókn mun halda áfram að beita sér fyrir því að réttlæti og samræmi ráði í allri gjaldtöku sveitarfélagsins.

Ábyrgð í þágu íbúa

Við fögnum því að bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögum okkar til frekari vinnu við fjárhagsáætlun 2026. Það er skref í rétta átt – og vonandi merki um að meirihlutinn sé tilbúinn að taka undir ábyrgðina gagnvart íbúum.

Framsókn í Suðurnesjabæ mun áfram standa vörð um heimilin, hagsmuni íbúa og ábyrga fjármálastjórn sem byggir á jafnræði, hófsemi og heilbrigðri forgangsröðun.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 6. nóvember 2025.