Categories
Fréttir Greinar

Þegar líf liggur við

Deila grein

11/12/2025

Þegar líf liggur við

Á undanförnum vikum hefur umræðan um fjárlög næsta árs leitt í ljós grafalvarlega stöðu í fjármögnun krabbameinslyfja. Þessi staða hefur ekki aðeins komið fram í umsögnum helstu fagstofnana, heldur einnig í beinum ábendingum Landspítala, Krabbameinsfélags Íslands og fjárlaganefndar Alþingis. Öll þessi gögn benda til sömu niðurstöðu um að líf fólks og lífsgæði ráðast af ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi næstu daga.

Fjárþörf langt umfram áætlanir

Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 700 milljóna króna aukningu til lyfjakaupa vegna fjölgunar krabbameinstilfella og raunvaxtar í lyfjakostnaði. Þrátt fyrir það liggur fyrir að þörf er á mun meira fjármagni. Lyfjanefnd Landspítala hefur bent á að tíu nýjar og mikilvægar meðferðir, sem fyrst og fremst varða ný krabbameinslyf sem þegar eru innleidd á hinum Norðurlöndunum, bíða innleiðingar hér á landi. Þetta eru lyf sem geta skipt sköpum en þau lengja líf, bæta lífsgæði og umfram allt auka líkur á bata.

Engu að síður er ljóst að samkvæmt núverandi fjárheimildum er hvorki svigrúm til að taka upp ný lyf né samþykkja nýjar ábendingar fyrir núverandi lyf. Í umsögn forstjóra Landspítala kom fram að rúman milljarð króna vanti til að tryggja eðlilega og nauðsynlega þjónustu á árinu 2026. Sú niðurstaða ein og sér ætti að kveikja rauð ljós.

Íslendingar dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum

Fjárveitingar til nýrra krabbameinslyfja hafa staðið í stað. Á þessu ári hefur ekkert nýtt lyf verið tekið upp og ekkert verður bætt við á næsta ári nema fjárheimildir verði hækkaðar. Afleiðingin er sú að Íslendingar eru að dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum í innleiðingu nýrra meðferða og það þýðir lakari lífshorfur, lakari lífsgæði og ósamræmi við yfirlýst markmið stjórnvalda um heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

Hér er ekki aðeins um fjárhagslegt sjónarmið að ræða, heldur spurningu um hvort íslenskir sjúklingar geti fengið meðferð sem stenst samanburð við það besta sem gerist á Norðurlöndum. Í dag er svarið því miður neikvætt. Veikustu sjúklingar okkar fá ekki aðgang að þeim krabbameinslyfjum sem bjarga lífi og bæta lífsgæði í nágrannalöndum okkar.

Vaxandi þrýstingur á heilbrigðiskerfið

Samkvæmt Krabbameinsfélagi Íslands greinast um 2.000 manns árlega með krabbamein á Íslandi. Spár sýna 63% fjölgun greininga fram til ársins 2045. Sú þróun mun auka stórlega álag á heilbrigðiskerfið og krefjast markvissrar uppbyggingar.

Þá blasir einnig við umtalsverð endurnýjunarþörf lækningatækja, bæði á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Flutningur starfsemi í nýtt húsnæði á Landspítala kallar á endurnýjun fjölmargra tækja. Jafnframt er uppbygging geislameðferðar engan veginn tryggð til framtíðar, þótt kerfið velti nú á yfirvinnu starfsfólks og útvistun meðferða á sjúklingum til útlanda. Ábyrgð stjórnvalda er mikil og margþætt.

700 milljóna króna aukning sem samþykkt var í 2. umræðu fjárlaga dugar ekki þó vissulega sé það jákvætt skref. Minnihluti fjárlaganefndar hefur ekki fengið nákvæmar upplýsingar um raunverulega fjárþörf, en við vitum að hún er umtalsvert meiri ef tryggja á aðgang að bestu krabbameinslyfjunum.

Sjálf hef ég ítrekað óskað eftir upplýsingum um stöðu lyfjakaupa í velferðarnefnd, síðast í síðustu viku. Þrátt fyrir að málið snerti líf og heilsu þúsunda hafa svör ekki borist sem er með öllu óásættanlegt.

En ábyrgð stjórnvalda felst fyrst og fremst í því að tryggja aðgengi að bestu mögulegu meðferð hverju sinni. Þegar fjárlög tryggja ekki fjármagn til að innleiða lífsnauðsynleg lyf eða byggja upp geislameðferðarkerfi sem stenst einfaldar kröfur nútímans þá bregst ríkisvaldið skyldum sínum.

Það er því afar mikilvægt að heilbrigðisráðuneytið og ríkisstjórnin fari yfir framkomin gögn og leggi þegar í stað mat á nauðsyn frekari fjárheimilda.

Líf og lífsgæði ráðast af ákvörðunum næstu daga

Á Alþingi eigum við nú tækifæri til að bregðast við og taka ábyrgðarfullar ákvarðanir. Tryggjum að fjárlög ársins 2026 innihaldi raunhæfar fjárveitingar til lyfjakaupa, til geislameðferðar og til brýnna tækjakaupa. Líf og lífsgæði íslenskra krabbameinssjúklinga ráðast af þeim ákvörðunum sem teknar verða á næstu dögum. Við getum tryggt að þeir njóti sömu meðferðar og lífshorfna og veikustu sjúklingar á hinum Norðurlöndunum, einmitt á þeim tímum þegar mest reynir á í lífi þeirra.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Út­haf efna­hags­mála – fjár­lög 2026

Deila grein

11/12/2025

Út­haf efna­hags­mála – fjár­lög 2026

Með ákveðinni einföldun má líkja efnahagsmálum þjóða við siglingu á úthafi þar sem aðstæður geta breyst hratt. Nú er aukinn mótvindur, vaxandi ölduhæð og óvissan um þróun mála meiri en vænlegt er. Hagvöxtur verður minni en vonast var til, helstu útflutningsgreinar hafa upplifað mótbyr og Seðlabankinn spáir áframhaldandi áskorunum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Á slíkum tímum reynir sérstaklega á forystu ríkisstjórnar og Alþingis að sýna samstöðu, festu og raunsæi. Við höfum áður siglt í gegnum margs kyns öldurót og það gerum við áfram með árvekni og ábyrgum aðgerðum.

Jákvæð skref í fjárlagafrumvarpinu

Heilt yfir er jákvætt að ríkisstjórn Íslands haldi fast við markmiðið um jafnvægi í ríkisfjármálum árið 2027 í fjárlögum. Það markmið skiptir máli fyrir stöðugleika og trúverðugleika ríkisfjármála. Þá eru auknar fjárfestingar í lykilinnviðum fagnaðarefni, ekki síst í heilbrigðiskerfi s.s. í málefnum fólks með fíknivanda og í samgöngum sem snerta landið í heild.

Þetta eru allt dæmi um mikilvægar forsendur fyrir öflugu og sanngjarnara samfélagi sem hrósa má fyrir.

Þrátt fyrir þetta eru ýmsar brotalamir í frumvarpi til fjárlaga. Hér eru fimm dæmi um hvar gera þarf betur.

1. Þörf er á átaki og skýrari markmiðum í menntamálum

Staða menntamála er ein helsta áskorun þjóðarinnar. Árangur nemenda er langt frá því að vera ásættanlegur og þróunin á lestrarfærni bendir til kerfislægs vanda. Ef ekkert verður af hálfu ríkisins blasir við hrun í færni, tækifærum og þátttöku ungs fólks í samfélaginu á næstu árum. Þetta varðar ekki aðeins íslenskukunnáttu heldur verðmætasköpun, atvinnulíf og framtíðarstöðu íslenskunnar sjálfrar.

Markmið fjárlagafrumvarpsins um menntamál bera þess ekki nægilega skýr merki að um neyðarástand sé um að ræða.

Þess vegna þarf sameiginlegt menntunarátak þjóðarinnar. Við þurfum að hraða heildarendurskoðun á skipulagi kerfisins, skýra gæðaramma, samræmt ytra mat og gagnadrifnar ákvarðanir. Það þarf líka að auka aga innan skólakerfisins og virðingu fyrir námi í gegnum samvinnu heimilis og skóla.

Við þurfum framtíðarsýn með skýrum mælanlegum markmiðum sem nær yfir leik-, grunn- og framhaldsskóla og tryggir öllum börnum menntun sem stenst bestu alþjóðlegar kröfur. Nú þarf metnað, hugrekki og viljastyrk til breytinga. Ekki orð á blaði.

2. Auka þarf sókn í nýsköpun og efla aðgang að alþjóðlegum mörkuðum

Það blasir einnig við að sókn í nýsköpun og atvinnuþróun er of veikburða miðað við aðstæður. Hagkerfið er að kólna en fjárfestingar í nýjum tækifærum hafa ekki fylgt eftir. Landbúnaður, svo dæmi sé tekið, þarf aukna nýliðun og sókn, ekki hindranir. Fæðuöryggi er hluti af þjóðaröryggi og á að endurspeglast í auknum fjárheimildum til öryggismála.

Þá þarf að styrkja innviði nýsköpunar um allt land. Sprotafyrirtæki og frumkvöðlar eru lykillinn að því að fá meira virði fyrir auðlindir, efla hugvit og móta tækni. Þess vegna leggjum við til aukna fjárfestingu í nýsköpunarverkefnum. Jafnframt leggjum við til átak í alþjóðlegri markaðssetningu fjölbreyttrar íslenskrar framleiðslu; allt frá íslenskum matvælum yfir í hugbúnað og hönnun. Sama á við um ferðaþjónustuna sem er í krefjandi alþjóðlegri samkeppni.

Sóknarfæri Íslands eru til staðar en þau þurfa aukið eldsneyti og kraft. Með því byggjum við fleiri stoðir undir atvinnulífið sem núverandi áskoranir í iðnaði sýna svo glöggt að þörf er á.

3. Varasjóður ríkisins þarf að vera raunhæfur

Almennur varasjóður ríkisins á að vera öryggisventill þegar áföll dynja yfir. Í fjárlögum er hann aðeins 1% af heildarútgjöldum sem er lögbundið lágmark. Það er einfaldlega ekki nægilegt. Forsendur ársins 2026 eru brothættar og reynslan sýnir að óvænt áföll eru regla frekar en undantekning hérlendis.

Ef varasjóðurinn er of rýr er fjárlagafrumvarpið að öllum líkindum of bjartsýnt. Þá næst jafnvægi aðeins ef allt gengur upp og það gerist sjaldan. Við þurfum raunhæf fjárlög, borð fyrir báru og meiri varfærni í áætlanagerð.

4. Tungumálið og menningin eru verðmæti sem þarf að hlúa betur að

Við verðum einnig að horfast í augu við að við fjárfestum ekki nægilega í mikilvægustu innviðum samfélagsins; tungumálinu sem tengir okkur saman og varðveitir að auki bæði menningu okkar og sögu. Án skýrra og róttækra aðgerða heldur staða íslenskunnar áfram að versna. Menningarleg sjálfsmynd okkar, samheldni þjóðarinnar og framtíðarmöguleikar ungs fólks eru í húfi. Hér þarf að fjárfesta mun meira, skýra umgjörð og setja mælanleg markmið í framkvæmd, eins konar TOEFL-próf íslenskunnar. Fjármagn og aðgerðir skila litlu ef ekki er hægt að meta hvernig tekst til.

5. Að standa vörð um landið er skynsamleg fjárfesting

Þá er kominn tími til að endurmeta hvernig við hugsum um landið sjálft. Eignarhald auðlinda skiptir máli. Nýting lands og auðlinda er mikilvægur grunnur fjölbreyttrar verðmætasköpunar á Íslandi en er oft rædd með áherslu á hraða og skammtímaverðmæti. Verndun býr líka til verðmæti og oftar en ekki til lengri tíma.

Sjónarmið þess að fara vel með hálendið þurfa ekki endilega að felast í fórn heldur geta búið til langtímafjárfestingu. Við þurfum að vera opin fyrir því samtali. Ósnortin víðerni eru eins konar náttúruauðlindasjóður sem hækkar í virði eftir því sem þau verða fágætari og eykur sérstöðu Íslands til framtíðar.

Á sama tíma styrkir varfærin innviðauppbygging sérstöðu Íslands í ferðaþjónustu. Hér má enn upplifa eina raunverulega ósnortna hálendisupplifun Evrópu. Slík sérstaða er mikils virði bæði beint og óbeint.

Hugsun um verndun náttúru og ábyrga nýtingu með langtímasýn á að vera leiðarljós í allri okkar áætlunargerð, samhliða öflugri uppbyggingu grunninnviða á borð við heilbrigðisþjónustu, menntun og samgöngur.

Styrkur Íslands eykst með þessum áherslum

Þjóð sem menntar sig vel og fjölgar eggjum í körfu hagkerfisins þegar á móti blæs með áherslu á nýsköpun og sókn atvinnuvega eflir seiglu sína og kraft.

Þjóð sem sýnir ráðdeild á óvissutímum á meiri möguleika ef það gefur á bátinn.

Þjóð sem ver náttúru, tungu og menningu hefur skýran áttavita um hver eru hennar mestu verðmæti.

Með slíkum fjárfestingum hefur Ísland meiri möguleika óháð því hvort við siglum á lygnum sjó eða í ölduhæð úthafsins.

Högum fjárlögum á þá vegu.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ný flug­stöð á rekstar­lausum flug­velli?

Deila grein

11/12/2025

Ný flug­stöð á rekstar­lausum flug­velli?

Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki fyrir samgöngur innanlands. Hann er tenging á milli landsbyggðar og höfuðborgar, lendingarstaður fyrir sjúkraflug og varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Um árabil hefur þó tilvist hans verið ógnað. Fólk skiptist í fylkingar, vini eða óvini flugvallarins, eftir því hvort það vilji að hann fari úr Vatnsmýrinni eða ekki. Þannig hefur jafnframt myndast gjá milli ríkis og borgar og borgar og landsbyggðar. Staðreyndin er þó sú að ekki liggur fyrir önnur staðsetning á innanlandsflugvelli á höfuðborgarsvæðinu og þó svo væri er ljóst að uppbygging á nýjum flugvelli tekur langan tíma.

Af samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar 2026-2040 má ráða að ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir að flugvöllurinn sé á förum á næstunni. Þvert á móti á að ráðast í uppbyggingu á nýrri flugstöð. Áætlunin gerir ráð fyrir því að byrjað verði að fjármagna nýja flugstöð árið 2029 og verkið standi yfir til 2040. Á sama tíma gerir aðalskipulag Reykjavíkurborgar þó ráð fyrir að flugvallarstarfsemi í Vatnsmýri leggist af árið 2032. Með öðrum orðum: borgin miðar við að rekstur flugvallarins hætti árið 2032 en ríkið miðar við að klára uppbyggingu á nýrri flugstöð árið 2040. Þarna blasir því við djúpstæð mótsögn á milli ríkis og borgar. Það byggir enginn flugstöð á flugvelli sem er ekki lengur til staðar.

Breyta þarf Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar

Árið 2019 gerðu ríki og borg samkomulag um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar þar til nýr flugvöllur, á jafngóðum eða betri stað, væri tilbúinn. Sá staður hefur ekki verið fundinn. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa skapað verulega óvissu um Hvassahraun sem mögulegt flugvallarstæði og því ólíklegt að fjármagni verði varið í að byggja þar flugvöll. Þrátt fyrir það virðist meirihluti borgarstjórnar ætla að halda fast í stefnu borgarinnar um að flugvöllurinn skuli víkja árið 2032. Jafnframt leggjast borgarfulltrúar meirihlutans gegn uppbyggingu á nýrri flugstöð. Innviða­uppbyggingu sem er mikilvæg til þess að tryggja öryggi og þjónustu við flugfarþega.

Þetta þarf þó ekki að vera togstreita. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar er mannanna verk og því má breyta. Á næsta fundi borgarstjórnar leggjum við í Framsókn til að rekstur Reykjavíkurflugvallar verði tryggður út gildistíma aðalskipulagsins.

Orð og verk fara ekki saman

Forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar hefur nýlega viðurkennt að engin ákvörðun liggi fyrir um nýjan flugvöll og að það geti tekið áratugi að koma nýjum flugvelli í gagnið. Hún hefur jafnframt sagt að því verði að styrkja Reykjavíkurflugvöll á meðan enginn annar kostur er fyrir hendi. Þetta eru skynsamleg orð en þau stangast beint á við stefnu borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að flugvöllurinn hætti starfsemi árið 2032. Spyrja verður því hvort að Samfylkingin ætli að endurskoða aðalskipulagið eða eru orð formannsins merkingarlaus? Hver er raunveruleg stefna flokksins?

Orð eru til alls fyrst en án verka eru þau merkingarlaus.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Erum við að gleyma fólkinu?

Deila grein

11/12/2025

Erum við að gleyma fólkinu?

Fjárlögin segja meira en mörg orð. Þau sýna í verki hvar ríkisstjórn hvers tíma hyggst forgangsraða og hverjir sitja eftir. Fjárlög ársins 2026 benda því miður til þess að fólk í landinu, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins, sé ekki í forgangi. Þvert á móti er verið að leggja auknar byrðar á heimilin með skattahækkunum, þjónustuskerðingu og útgjaldaaukningu sem standast ekki grunngildi um varúð og ábyrgð.

Loforð um skatta stóðust ekki

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins lofaði því hátíðlega að skattar á almenning yrðu ekki hækkaðir. En loforðin stóðust ekki. Samsköttun hjóna er afnumin, kílómetragjald kemur til framkvæmda og vörugjöld hækka. Þar að auki eru lagðar 90 milljónir króna í auknar álögur á akstursíþróttir og lyfjakostnaður einstaklinga hækkar.

Allar þessar skattahækkanir lenda á almenningi.

Grundvallarforsendur fjárlaga næsta árs byggjast á afar veikum grunni. Tekjuforsendur fela í sér verulega bjartsýni og jafnvel óskhyggju. Atburðir síðustu mánaða hafa breytt efnahagshorfum verulega til hins verra. Jafnframt má leiða að því líkum að markmið gildandi fjármálastefnu, sem byggjast á forsendum um þróttmikinn hagvöxt, mikla innlenda eftirspurn og stöðugan útflutning, standist ekki lengur.

Útlit er fyrir að hagvöxtur verði mun minni árið 2025 en spáð var, og einnig árið 2026. Í ljósi þess er brýnt að efla verðmætasköpun og styðja við atvinnulífið með raunverulegum aðgerðum sem styðja við nýsköpun, frumkvöðla, matvælaframleiðendur og hugverkaiðnað. Fjárlögin 2026 tryggja ekki nægilegan stuðning eða metnað á þessum sviðum.

Útgjöld ríkisins aukast um 143 milljarða á milli áranna 2025 og 2026, sem er 9% hækkun í 4% verðbólgu. Þetta er mesta hækkun fjárlaga að nafnvirði frá árinu 2007. Við vitum hvernig það endaði en tveimur árum síðar varð efnahagshrun. Með þessu er ekki átt við að hrun sé í vændum nú, en þessi staða minnir okkur á að samhliða auknum útgjöldum verður að huga vel að stöðugleika, verðmætasköpun atvinnulífsins og stuðningi við það.

Fjárlögin fela einnig í sér að hætt er við að fjármagna varasjóði ráðuneyta annað árið í röð. Varasjóðir málaflokka eru til að auka sveigjanleika og draga úr notkun fjáraukalaga. Slíkur niðurskurður takmarkar verulega svigrúm ráðherra til að bregðast við óvæntum aðstæðum.

Heilbrigðisþjónusta vanfjármögnuð

Mikilvægar stoðir samfélagsins fá ekki það fjármagn sem þær þurfa. Meðferðarstofnanir eins og Ljósið, Reykjalundur og Náttúrulækningahælið fá samtals 700 milljónir króna, sem dugar skammt miðað við fyrirliggjandi þörf.

Lyfjamál eru einnig í ólestri. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir undirritaðrar í velferðarnefnd hafa engar haldbærar upplýsingar fengist frá ráðuneyti heilbrigðismála um lyfjakostnað. Ekki er nægilegt fjármagn sett í lyfjamál til að tryggja Íslendingum sem veikastir eru aðgang að bestu fáanlegu krabbameinslyfjum. Þeir sem greinast með krabbamein á Íslandi búa því miður ekki við sömu tækifæri til lækningar og sjúklingar annars staðar á Norðurlöndum. Það er óásættanlegt.

Menntamál vanfjármögnuð

Í menntamálum blasir enn fremur við skortur á faglærðum kennurum, íslenskukennslu og aðgengi að nútímalegum námsgögnum. Í minnihlutaáliti okkar í Framsókn lögðum við til aukin framlög og skýrari markmið um gæði menntunar til að snúa þeirri þróun við og styrkja íslenska menntun til framtíðar. Þeim var hafnað af stjórnarmeirihlutanum.

Margt er jákvætt í fjárlögum ársins 2026 og mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim framförum sem þar birtast. En við verðum jafnframt að gera betur. Á Alþingi höfum við tækifæri til að bæta úr og tryggja að fjárlög næsta árs leggi raunhæfan grunn að framtíðinni. Það þýðir meiri varúð í áætlanagerð ríkisins, stuðning við verðmætasköpun og skýra forgangsröðun þar sem velferð fólks er í fyrsta sæti. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Frístundastyrkur og íþróttaskólinn

Deila grein

09/12/2025

Frístundastyrkur og íþróttaskólinn

Þegar íþróttaskóli HSV var stofnaður árið 2011 var stigið mikilvægt skref í að tryggja jafnt aðgengi allra barna í 1.–4. bekk grunnskóla að fjölbreyttu og uppbyggilegu íþróttastarfi. Markmiðið var skýrt; að fá sem flest börn til að iðka íþróttir, að fyrstu kynni yrðu jákvæð, að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum, auka almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu og ekki síst að lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna. Íþróttafélög sýndu sameiginlega ábyrgð, héldu æfingum fyrir þennan aldurshóp í hófi og rukkuðu ekki æfingagjöld yfir vetrartímann.

Breytt staða í íþróttastarfi yngstu barnanna

Á undanförnum árum hefur landslagið hins vegar breyst. Sum félög hafa dregið sig út úr íþróttaskólanum og önnur tekið gagnstætt skref með því að auka æfingatíðni og sérhæfingu hjá yngstu iðkendum.

Þegar rekstur íþróttaskólans færðist frá HSV til Ísafjarðarbæjar hefur þessi þróun orðið enn skýrari. Æfingum hefur fjölgað og æfingagjöld hækkað á sama tíma. Þetta hefur óumdeilanlega aukið fjárhagsábyrgð foreldra og skapað aðstöðumun milli barna.

Frístundastyrkur

Fyrir ári síðan lagði Framsókn til að komið yrði á frístundastyrk fyrir börn í 5. – 10. bekk grunnskóla sem eru utan íþróttaskólans. Rökin voru að gera sveitarfélagið enn samkeppnishæfara þegar kemur að búsetu ákvörðun fjölskyldufólks. Einnig sem hvatning fyrir börn á þessum aldri til íþrótta- og tómstundaiðkunar og styrkja það að öll börn geti tekið þátt óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.

Með breyttum forsendum og auknu fjárhagslegu byrði sem foreldrar standa frammi fyrir vegna íþróttaiðkunar barna var einhugur í skóla- íþrótta og tómstundanefnd nú að leggja til að færa frístundastyrkinn niður í 1. bekk. og halda óbreyttri upphæð sem er 40.000 kr. á ári á barn.

Ekki má gleyma því að frístundastyrkur nær út fyrir hefðbundið íþróttastarf. Hann getur nýst í tónlistarnám, listnám, dans og  aðrar skipulagðiar frístundir sem efla þroska, heilbrigði og félagsfærni barna.

Aukning styrkjapottarins úr 10 í 15 milljónir króna er ánægjulegt skref og mikilvægt til að tryggja að styrkurinn nái til fleiri barna. En slíkar ákvarðanir skila sér einungis ef þáttökugjöld í íþróttum- og tómstundum hækka ekki í kjölfarið og éta upp ávinninginn. Það er því lykilatriði að félög fari varlega í gjaldskrárbreytingar og taki virkan þátt í samfélagslegri ábyrgð gagnvart barnafjölskyldum.

Tími til að endurskoða hlutverk íþróttaskólans

Í ljósi breyttra aðstæðna er tímabært að endurskoða stöðu íþróttaskólans. Upphaflegt markmið hans hefur smám saman vikið fyrir aukinni sérhæfingu og hærri kostnaði. Nú þarf að spyrja: Hvaða hlutverki á íþróttaskólinn að þjóna til framtíðar? Hvernig má samræma starf íþróttafélaga og skólans þannig að hann verði raunverulegur vettvangur fyrir hreyfingu allra barna, óháð áhuga, getu eða efnahag?

Slík endurskoðun er ekki aðeins æskileg heldur nauðsynleg ef tryggja á að íþróttastarfið á svæðinu haldi áfram að þróast með hagsmuni barnanna í forgangi.

Áhyggjur vegna minnkandi þátttöku ungmenna

Athygli vekur að einungis um 70% barna í 5.–10. bekk hafa nýtt sér frístundastyrkinn það sem af er ári. Það gæti verið vísbending um að stór hópur barna og ungmenna taki ekki þátt í neinu skipulögðu íþrótta- eða frístundastarfi. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu þeirra til lengri tíma. Það er staða sem við megum ekki horfa framhjá.

Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa aðstæður sem hvetja börn til þátttöku, efla þau og styðja fjölskyldur. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og núna í okkar samfélagi þar sem áskoranir barnafjölskyldna hafa sjaldan verið meiri.

Elísabet Samúelsdóttir, bæjarfulltrúi og nefndarmaður í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðabæjar.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Veikar forsendur fjárlagafrumvarpsins

Deila grein

09/12/2025

Veikar forsendur fjárlagafrumvarpsins

Flestir þekkja söguna af manninum í Biblíunni sem reisti húsið sitt á sandi. Allt var í himnalagi þar til óveðrið skall á og leiddi í ljós að grunnurinn var veikur og húsið hrundi. Fjárlög sem byggjast á veikum forsendum eru af sama toga.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 virðist vera að lenda í sömu vandræðunum og hús mannsins sem reist var á sandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir mun minni hagvexti í ár eða 0,9% í stað 2,3%. Við blasir hagkerfi þar sem umsvif dragast saman og viðvarandi slaki hefur tekið við af tímabundinni kólnun. Fyrri forsendur um hagvöxt eru brostnar.

Röð áfalla í útflutningsdrifnum atvinnugreinum þjóðarbúsins hefur dunið á okkur, ásamt nýjum tollum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þessi staða hefur rýrt horfur um vöxt og tekjuöflun. Afleiðingin er sú að tekjustofnar ríkisins eru líklegir til að þróast með öðrum hætti en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Á sama tíma bendir Seðlabankinn á að árið 2026 geti orðið enn erfiðara, með minni fjárfestingu, auknu atvinnuleysi og slaka í þjóðarbúinu. Þetta hefur bæði áhrif á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs og kallar á meiri varfærni.

Óvissa er einkennandi fyrir flesta þætti efnahagskerfisins og nær ekki bara til útflutnings heldur einnig lánamarkaða, verðbólguvæntinga og gengisþróunar. Í slíkum aðstæðum ætti fjárlagagerð að byggjast á varfærnum forsendum og traustri áhættustýringu. Þrátt fyrir það er almennur varasjóður ríkissjóðs skorinn niður í 1% af heildarútgjöldum, sem er aðeins lögbundið lágmark. Í ljósi þess óvissustigs sem nú ríkir er eðlilegt að varasjóður sé frekar á bilinu 1,5-2% til að mæta þeim áföllum sem fyrirsjáanlegt er að geti átt sér stað.

Niðurstaðan er sú að forsendur fjárlaga næsta árs eru byggðar á of veikum grunni. Fjármálastefna sem miðast við þróttmikinn hagvöxt og öflugan útflutning endurspeglar ekki lengur efnahagslegan veruleika. Trúverðugleiki ríkisfjármála er forsenda þess að heildstæð efnahagsstefna njóti trausts. Þegar tekjuáætlanir byggjast á bjartsýni frekar en raunsæi, þá er hætt við að traustið minnki.

Ég hvet ríkisstjórnina til að sýna meiri fyrirhyggju, skerpa forgangsröðun og tryggja að opinber fjármál standist raunsæispróf. Að öðrum kosti má segja að verið sé byggja hús ríkisfjármálanna á sandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar fjár­lögin vinna gegn mark­miðinu

Deila grein

08/12/2025

Þegar fjár­lögin vinna gegn mark­miðinu

Fjárlög eru eitt mikilvægasta stýritæki stjórnvalda – sérstaklega þegar efnahagshorfur versna. En fjárlög 2026, eins og þau liggja fyrir, skortir nauðsynlega varfærni og byggja á veikum forsendum á tíma þegar hagvöxtur 2025 er langt undir væntingum og 2026 gæti reynst enn erfiðara ár. Í slíkri stöðu þarf skýrari forgangsröðun, meira aðhald og traustari áætlanagerð. Þess í stað blasir við útgjaldaaukning í sögulegu hámarki: 143 milljarðar milli ára af um 1.600 milljarða útgjöldum. Um leið eru vaxtagjöld komin í nýjar hæðir og hallinn verður áfram verulegur. Þetta vinnur gegn stöðugleika þegar þörfin er mest.

Trúverðugleiki ríkisfjármála – lykillinn að lægri vöxtum og verðbólgu

Það sem skiptir þó mestu er trúverðugleiki ríkisfjármála. Ríkisfjármálin eru lykilþáttur í því að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði til vaxtalækkana. Þegar útgjöld vaxa hratt, forsendur eru óhóflega bjartsýnar og halli viðvarandi dregur það úr trúverðugleika efnahagsstefnunnar. Afleiðingin getur orðið sú að verðbólguvæntingar haldast þrálátar og vaxtaálag verði hærra en ella. Ef markmiðið er að létta vaxtabyrði heimila og fyrirtækja þarf fjárlagagerðin að styðja við það markmið – ekki vinna gegn því.

Varasjóðurinn í lágmarki – minni viðnámskraftur gegn áföllum

Sérstaklega vekur athygli að almennur varasjóður ríkissjóðs er skorinn niður í um 1% – sem er lágmark samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það er gert á sama tíma og áhættur í efnahagslífinu hafa aukist, bæði heima og erlendis. Varasjóður er öryggisnet þegar forsendur bresta. Að halda honum í lágmarki við þessar aðstæður er ákvörðun sem veikir getu ríkisins til að bregðast við óvæntum áföllum.

Minnkandi trúverðugleiki ríkisfjármála

Þá er svigrúm stöðugleikareglunnar nýtt til fulls og hætt við að hún standist ekki þegar samspil útgjalda og tekna er metið. Þegar reglur um ábyrga hagstjórn eru teygðar í botn, rýrnar trúverðugleiki ríkisfjármála – og sá trúverðugleiki er forsenda þess að peningastefnan geti skilað árangri með lægri vöxtum. Vandinn er ekki aðeins tölulegur heldur líka kerfislægur: of víða eru markmið fjárlaga óljós og illa mælanleg, sem veikir getu Alþingis til að sinna fjárstjórnarhlutverki sínu. Fjárlög eiga að segja skýrt hvaða árangri er stefnt að – annars er Alþingi svipt raunhæfum grunni til að meta forgangsröðun og fylgja eftir framkvæmd.

Niðurstaða

Við þurfum fjárlög sem endurspegla efnahagslegan veruleika: meiri varfærni, burðugri varasjóð, skýrari markmið og raunhæfari forsendur. Fjárlög 2026 verða að draga úr áhættu – og vera hluti af lausninni til að ná niður verðbólgu og vöxtum, ekki þáttur í því að festa vandann í sessi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Opið bréf til heil­brigðis­ráðherra: Brýn þörf á heild­stæðum lausnum fyrir heil­brigðisþjónustu á Norður­landi

Deila grein

08/12/2025

Opið bréf til heil­brigðis­ráðherra: Brýn þörf á heild­stæðum lausnum fyrir heil­brigðisþjónustu á Norður­landi

Vandinn sem blasir við á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi er flókinn og margþættur. Í grunninn má þó rekja nær allan vandann til skorts á starfsfólki til að sinna þjónustunni.

Lokun endurhæfingar á Kristnesi um helgar hefur vakið sterk og skiljanleg viðbrögð en þar vantar átta stöðugildi svo hægt sé að halda úti óbreyttri þjónustu. Mikið álag hefur verið á lyflækningadeild og einnig ríkir óvissa vegna fyrirhugaðra uppsagna ferliverkasamninga við sérgreinalækna og hafa þrír læknar sagt upp. Þetta er keðjuverkandi mönnunarvandi sem snertir allt kerfið á svæðinu og því er nauðsynlegt að leita fjölbreyttra og samþættra leiða til að leysa hann.

Mönnun hefst í skólakerfinu

Nauðsynlegt er að ráðist verði í markvisst kynningarátak í framhaldsskólum á Norðurlandi þar sem námstækifæri í hjúkrun, sjúkraliðanámi, læknisfræði og öðrum heilbrigðisgreinum eru kynnt. Skilaboðin þurfa að vera skýr: hér eru tækifæri til starfa, hér er framtíð.

Hjúkrunarfræðinám við Háskólann á Akureyri er nú kennt sem lotunám en fjöldi nemenda af Norðausturlandi mætti vera mun meiri. Þá er enn beðið eftir hermisetri hjúkrunarfræðideildarinnar en það er nauðsynlegt til að styrkja aðstöðu fyrir verklega kennslu og þjálfun og þar með fjölga nemendum.

Viðurkenna þarf að landsbyggðin er dýrari og læra af reynslu Norðmanna

Það er einfaldlega dýrara að reka heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Því þarf að tryggja aukið fjármagn til SAk ásamt svigrúmi til launahvata og sértækra mönnunarúrræða. Við eigum jafnframt að horfa til þess sem Norðmenn hafa gert, þar sem öflugar fjarlækningar, sérhæfð þjónusta á svæðissjúkrahúsum og markvissir hvatar hafa verið notaðir til að tryggja örugga þjónustu á landsbyggðunum.

Sveitarfélagið verður líka að axla ábyrgð

Akureyri á að vera raunhæfur kostur fyrir hjúkrunarfræðinga, lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sem vill byggja líf sitt og starf á Norðurlandi. Við þurfum að fara í heildstæða skoðun á því hvað sveitarfélagið getur gert til að laða að fólk í nánu samstarfi við ríki og heilbrigðisstofnanir.

Fráflæðisvandinn

Fráflæðisvandi er nú þegar að þrýsta á lyflækningadeild SAk og endurhæfingu á Kristnesi. Ákvörðunin um að loka Kristnesi um helgar mun gera þennan vanda verri.

Það að 22 hjúkrunarrými á Hlíðarheimilinu hafi verið lokuð í nokkur ár er ólíðandi í þeirri stöðu sem nú er uppi. Það þarf að hraða opnun þessara rýma sem frekast er unnt og jafnframt skoða aðrar lausnir í millitíðinni til að mæta alvarlegum fráflæðis- og húsnæðisvanda.

Bráðaaðgerðir og langtímaáætlun

Við þurfum bæði tafarlausar aðgerðir og skýra langtímasýn.

Nú þegar þarf að tryggja mönnun á lyflækningadeild, verja endurhæfingu á Kristnesi og hraða opnun rýma á Hlíð. Á sama tíma liggur fyrir að byggja við Sjúkrahúsið á Akureyri og reisa nýtt hjúkrunarheimili. Spurningin sem við verðum að svara núna er einföld: hvernig ætlum við að manna þessa viðbót?

Ef ekki er gripið inn í nú þegar stöndum við frammi fyrir því að geta ekki lengur haldið uppi þeirri frábæru þjónustu sem starfsfólk á SAk, HNS og Heilsuvernd sinnir.

Góð skilyrði eru fyrir því að byggja upp trausta og framsækna heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi. Starfshópurinn sem nú vinnur að málinu þarf að horfa heildstætt á vandann og leita fjölbreyttra lausna í þverfaglegu samstarfi ráðuneyta og hlutaðeigenda. Þar þurfa sérstaklega að koma að ráðuneyti mennta-, heilbrigðis-, húsnæðis- og byggðamála, því aðeins með slíku samspili náum við varanlegum árangri.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjár­lögin 2026: Hvert stefnum við?

Deila grein

08/12/2025

Fjár­lögin 2026: Hvert stefnum við?

Ísland stendur frammi fyrir nýjum veruleika. Þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram í september sl. virtist hagkerfið á traustum grunni, en á örfáum vikum hafa forsendur breyst verulega. Nýjustu spár Seðlabankans gera ráð fyrir aðeins 0,9% hagvexti árið 2025 og bankinn telur jafnvel líklegt að árið 2026 verði erfiðara. Fjárlög 2026 byggja því á veikum grunni.

Mikilvægt er að undirstrika að enginn gerir ráð fyrir hruni eða alvarlegu atvinnuleysi á næsta ári. Stoðir samfélagsins eru sterkar og fjölskyldur þurfa ekki að hafa áhyggjur. En fjárlagagerð á tímum óvissu krefst varfærni, skýrleika og aga. Ef fjárlög taka ekki mið af kólnandi efnahag og styðja ekki við stöðugleika, getur niðursveiflan orðið dýpri en ella.

Það má ekki gerast.

Markmiðið er stöðugleiki fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki

Lykilmarkmið okkar allra er að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur, auk fyrirtækja, geti búið við stöðugleika í öruggu samfélagslegu umhverfi. Að allir hafi vinnu við hæfi, að verðbólga sé hófleg og vextir fasteignalána séu viðráðanlegir. Umfram allt þurfa fyrirtækin í landinu að búa við samkeppnishæf skilyrði.

Skilaboð Framsóknar felast nú í að minna á þörfina fyrir aukna varúð og læra af reynslunni við framkvæmd fjárlaga undanfarna áratugi. Við erum þekkt í ríkjum OECD fyrir að fara nánast ávallt út fyrir markmið fjárlaga. Við erum ekki nógu öguð þegar kemur að fjármálum ríkisins. Þetta er ein ástæða þess að verðbólga er hærri en hún þyrfti að vera.

Veikleikar í útflutningsgreinum

Stoðir útflutnings hafa veikst hratt. Álframleiðsla hefur dregist saman, fiskeldi stendur frammi fyrir áskorunum, óvissa ríkir í umhverfi ferðaþjónustu og ESB hefur sett tolla á útflutning kísilmálms. Á sama tíma munu auknar álögur á sjávarútveg draga úr fjárfestingu og breytt skattkerfi með hærri vörugjöldum þrengja svigrúm heimila og fyrirtækja.

Í slíku umhverfi þarf að ráðast í mótvægisaðgerðir. Hér má nefna tillögur Framsóknar um fjárfestingaátak atvinnuvega með hvötum til lausna sem miða að aukinni skilvirkni og orkusparnaði, markaðsátak til að styðja ferðaþjónustu og íslenska framleiðslu á erlendri grundu, að efla nýsköpun með nýjum nýsköpunarsjóði og stóreflingu íslenskunnar.

Samfélagið þarf á aukinni hreyfingu að halda.

Of bjartsýnar forsendur

Seðlabankinn hefur staðfest að niðursveiflan sé komin „með meiri þunga og fyrr” en áður var talið. Í slíku ástandi er óábyrgt að byggja fjárlög á bestu mögulegu sviðsmynd.

Skýrasta dæmið er áform um 8,5 milljarða tekjuaukningu vegna breytinga á vörugjöldum bifreiða. Allt bendir til þess að fólk og fyrirtæki muni flýta kaupum og rýra þannig tekjugrunn næsta árs.

Á sama tíma er almennur varasjóður færður niður í 1% sem er lagalegt lágmark. Ekki er því búist við neinu einasta áfalli á næsta ári. Er það líklegt? Almennur varasjóður á að vera borð fyrir báru og tryggja að áætlanir fjárlaga 2026 haldi.

Ósjálfbær þróun ríkisfjármála

Heildargjöld ríkisins á árinu 2026 verða um 1.626 milljarðar, vaxtagjöld nálgast 150 milljarða sem eru tæplega 10% heildarútgjalda ríkisins. Þetta er fullkomlega ósjálfbær þróun.

Halli næsta árs er áætlaður yfir 27 milljarðar króna. Slíkur halli er ekki verulegt áhyggjuefni eitt og sér, en ef ríkisstjórnin hyggst ná hallalausum fjárlögum árið 2027, sem er jákvætt markmið, þá þarf allt að ganga upp á næsta ári.

Viðvörun fjármálaráðs

Fjármálaráð benti sl. vor á að markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 krefjist „mikils aga” og að forsendur um hagvöxt, verðbólgu og ytri áföll verði að ganga upp sem sé ólíklegt í ljósi reynslunnar. Niðurstaða fjármálaráðs er að „því mætti hafa meira borð fyrir báru svo að markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 teljist trúverðugt.”

Við þurfum að taka þessum varnaðarorðum alvarlega.

Óskýr markmið um árangur

Annað sem vekur áhyggjur er að markmið fjárlaga um árangur og starfsemi heilbrigðisstofnana, menntakerfisins og atvinnuveganna eru afar óskýr. Lög um opinber fjármál gera kröfu um skýr markmið um starfsemi málefnasviða s.s. heilbrigðismála. Grundvallarspurningin er: Vitum við hvert við stefnum?

Án skýrrar stefnu er ekki hægt að forgangsraða, meta hvort útgjöld séu réttlát eða tryggja markvissa framkvæmd fjárlaga.

Leiðin fram á við

Margt er jákvætt í fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Áherslur Framsóknar varða það að benda á hættumerki og nauðsyn aukinnar varúðar. Þörf er á endurmati forsendna byggðu á raunverulegri stöðu hagkerfisins, stærri almennum varasjóði, markvissri mótvægisaðgerðum, skýrum og mælanlegum markmiðum um rekstur ríkisins og varkárari fjármálastjórn sem stuðlar að stöðugleika.

Í janúar 2026 hefst vinna við nýja fjármálaáætlun fyrir árin 2027–2031. Þar verður tækifæri til að leggja traustan grunn að hallalausum fjárlögum og ábyrgu ríkisfjármálakerfi.

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og fulltrúi Framsóknar í fjárlaganefnd.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Læknar eru lífs­björg: Tryggjum sér­nám þeirra

Deila grein

08/12/2025

Læknar eru lífs­björg: Tryggjum sér­nám þeirra

„Ef við fáum ekki sérgreinina okkar viðurkennda þá er til einskis að flytja heim,“ sagði íslenskur læknir búsettur í Svíþjóð mér á dögunum. „Þessi staða virðist tilkomin vegna reglugerðabreytinga á Íslandi þar sem ýmsir læknar lentu milli skips og bryggju þrátt fyrir að uppfylla hefðbundnar kröfur,” bætti annar læknir síðar við.

Auðvitað þarf að tryggja gæði læknanáms hugsaði ég. En hversu skynsamlegt er að láta hámenntaða íslenska lækna berjast í krefjandi kæruferlum á meðan sjúklingarnir sem þurfa á þeim að halda bíða? Á sama tíma vinna heilu nefndirnar að því að fjölga læknum. Væri ekki hægt að leysa þessi mál með skjótari og skynsamlegri yfirferð?

Vandamál sem fæstir vita af

Þegar ég kynnti mér þetta málefni betur komst ég að öðru sem fæstir vita: Grundvallarbreyting hefur orðið á möguleikum íslenskra lækna til að sækja sérnám í Svíþjóð.

Fyrir nokkrum árum þrengdi Svíþjóð skilyrði fyrir sérnám lækna verulega, meðal annars til að bregðast við auknum fjölda umsækjanda sem tekið höfðu grunnám sitt í öðru landi. Ísland lenti þar undir og missti einstakt aðgengi sitt, sérstaklega í barnalækningum, svæfingalækningum og skurðlækningum.

Noregur, sem er annar mikilvægur námsstaður íslenskra lækna, gerði einnig breytingar. Bæði ríkin hafa aukið áherslu á að mennta eigin lækna vegna óvissu í varnarmálum, á sama tíma og fjármagn er takmarkað.

Þeir sem höfðu þegar hafið sérnám féllu undir gömlu reglurnar en nýir umsækjendur standa frammi fyrir mun erfiðari aðstæðum.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Samkvæmt Læknablaðinu fer yfir helmingur íslenskra lækna sem heldur utan til sérnáms til Svíþjóðar. Þar öðlast þeir sérhæfingu sem ekki er hægt að öðlast hér á landi, bæði vegna kostnaðar við að halda úti ólíku sérnámi en líka vegna þess að þekking fæst með þjálfun á stærri spítölum þar sem tilfelli sjúklinga eru fjölbreyttari en hér heima.

Margir læknar fara annað, til dæmis til Bandaríkjanna, og það er vel. En ávinningur umfangsmikillar samvinnu við fremstu háskólasjúkrahús heims, eins og þau í Svíþjóð, nær langt út fyrir námið sjálft.

Dýrmætt net sérfræðinga – ávinningur í stærra samhengi

Í gegnum árin hefur byggst upp dýrmætt net sérfræðinga sem styður við íslenskt heilbrigðiskerfi þegar sérþekkingu eða búnað skortir. Stundum er sjúklingum flogið til Svíþjóðar, en stundum er teymi lækna flogið hingað og aðgerðir framkvæmdar á Íslandi.

Oft eru þetta krefjandi tilfelli þar sem allt er undir, fyrir sjúklinginn, fjölskylduna og samfélagið. Sem dæmi má nefna flókna hjartasjúkdóma barna, lifrarbilanir, heilaskurðlækningar og sértæk tilfelli annarra sjúkdóma.

Þetta aðgengi að sænskum læknum og stofnunum er ekki sjálfgefið. Þetta eru verðmæti sem hafa byggst upp með náinni samvinnu lækna í gegnum sérnám og viðhaldist að því loknu. Slík samvinna byggir á trausti og persónulegum tengslum sem hafa þróast yfir langan tíma.

Þessi verðmæti mega ekki glatast. Aðgengi að bestu læknum og búnaði er bæði utanríkis- og innanríkismál sem verður að leysa.

Tvö verkefni sem þarf að leysa

Í grunninn eru það tvö verkefni sem þarf að leysa:

1. Viðurkenning á námi sem þegar hefur farið fram

Ráðuneyti heilbrigðismála á enn eftir að leysa úr málum margra lækna sem bíða þess að námið þeirra verði metið. Þessir læknar lentu eins og áður segir milli skips og bryggju vegna reglugerðabreytinga hér á landi. Í kjölfar nýlegs úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins virðist einhver hreyfing vera komin á málið, en allir ættu að sjá tilgang í því að hraða vinnu svo sem flestir læknar geti hafið störf sem fyrst í takt við sérhæfingu sína.

2. Áframhaldandi aðgengi að sérnámi

Hvernig tryggjum við að íslenskir læknar haldi áfram að komast í sérnám í Svíþjóð og víðar? Í samtölum við leiðtoga læknafélaga hérlendis og fagfólk í Svíþjóð hefur komið skýrt fram að aðgangur að sérnámi er forsenda öflugs heilbrigðiskerfis. Áhrif breytinganna hefur áhrif á tugi lækna árlega sem þurfa að velja sér sérnám erlendis.

Flestir íslenskir læknar hafa lokið kandídatsári eða svokölluðum sérnámsgrunni sem er sambærilegur við það sem nú er krafist í Svíþjóð. Að auki hafa flestir nokkurra ára starfsreynslu þegar sérnám hefst. Norræna tengingin er sterk og færni íslenskra lækna í sænsku batnar hratt. Allt þetta hefur gert þá að eftirsóttum starfskröftum sem ætti að hjálpa til við að fá undanþágu.

Vilji virðist vera til að finna lausn fyrir Ísland samkvæmt samtölum sérfrærðinga og ráðamanna. En framkvæmdin, hvort sem er að koma á almennri undanþágu eða tryggja ákveðinn fjölda plássa, hefur ekki tekist.

Hvað kostar töfin?

Á meðan við ræðum vandamálið heldur kostnaðurinn áfram að safnast upp. Hver læknir sem bíður í kæruferli hér á landi er læknir sem sinnir ekki sjúklingum eins og hann gæti. Hver læknir sem seinkar sérnámi skapar minni verðmæti fyrir samfélagið okkar. Hver tengiliður við sænska sérfræðinga sem tapast vegna kynslóðaskipta er tengiliður sem tekur áratugi að byggja upp á ný.

Við höfum ekki reiknað þennan kostnað. Kannski vegna þess að hann er ekki liður í fjárlögum en hann er raunverulegur; lengri biðlistar, færri sérfræðingar og veikari tengsl við fremstu sjúkrahús heims. Þetta er ekki vandamál sem leysist af sjálfu sér ef við bíðum nógu lengi. Það versnar.

Hvernig gengur að leysa málin?

Góðu fréttirnar eru að málið hefur ratað á borð ráðuneyta og ráðherra sem hafa sýnt því skilning. Læknafélög hafa sömuleiðis fundað um stöðuna og ábendingum hefur verið komið til Svíþjóðar oftar en einu sinni.

En hvernig hefur gengið að ná árangri? Nú reynir á, því stundin sem læknar sem hafa lokið öllu námi sem hægt er að taka hér heima og þurfa að fara út fyrir ýmsar sérgreinar, er runnin upp.

Umfangsmiklar heimsóknir

Á þessu ári hafa heimsóknir íslenskra leiðtoga til Svíþjóðar þar sem fundað hefur verið með ráðamönnum Svía, verið óvenju margar. Vonandi hafa allir fylgt málinu ötullega eftir. Hér er listi sem mögulega er ekki tæmandi:

  • Utanríkisráðherra, sem fer með hagsmunabaráttu Íslands í víðu samhengi.
  • Ráðherra háskólamála, sem fer með norræna samvinnu og nám á háskólastigi.
  • Forsætisráðherra, sem leiðir ríkisstjórn og er samhæfingaraðili ráðuneyta.
  • Forseti Íslands, sem fór í ríkisheimsókn til Svíþjóðar með áherslu á heilbrigðismál.
  • Heilbrigðisráðherra, sem leiðir málaflokk heilbrigðismála og tók þátt í ríkisheimsókn.

Spurningar sem kalla á svör

Í ljósi þessara umfangsmiklu samskipta er eðlilegt að spyrja:

  • Hvernig miðar að ná fram undanþágu fyrir íslenska lækna? Undanþágu sem í raun felst í því að leyfa farsælli hefð á sviði læknanáms að halda áfram.
  • Hefur málið verið tekið upp með afgerandi hætti á öllum þessum fundum?
  • Hvernig hefur samhæfing milli ráðuneyta verið háttað?
  • Hvernig hefur eftirfylgni verið háttað?
  • Hver eru næstu skref?

Svo má velta fyrir sér: Hefði Ísland ekki leyst sambærilegt mál fyrir Svía ef nær helmingur leiðtoga Svíþjóðar hefði lagt leið sína hingað og óskað eftir jafn einfaldri en mikilvægri útfærslu? Og ef svarið er já – hvers vegna hefur árangur ekki náðst? Skortir skipulag í hagsmunagæslu eða eru aðrar fyrirstöður sem leysa þarf saman. Hér þurfa allir að leggja hönd á plóg.

Hin hljóðláta en mikilvæga hagsmunabarátta

Hagsmunabarátta lækna fyrir aðgangi að námi og viðurkenningu þess er hljóðlát í samanburði við önnur utanríkismál, svo sem varnarmál og tollaundanþágur frá Evrópusambandinu. Í þeim málum birtast brýnir hagsmunir fyrir hagkerfi dagsins í dag sem sterk hagsmunasamtök tala eðlilega um í fjölmiðlum.

En mikið er undir þegar kemur að sérhæfðri menntun lækna í nútíð og framtíð og aðgengi að sérnámi erlendis ber að taka alvarlega. Í samhengi við áherslu stjórnvalda á öryggismál ætti menntun lækna og heilbrigðisstarfsfólks einnig að vera í brennidepli fyrir herlausa þjóð.

Ég hvet ríkisstjórn til finna lausn hið fyrsta. Því læknar eru lífsbjörg sem varðar okkur öll.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2025.