Categories
Fréttir Greinar

Þegar Inga Sæ­land sendir reikninginn á næsta borð

Deila grein

25/11/2025

Þegar Inga Sæ­land sendir reikninginn á næsta borð

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur skrifað borgarstjórn allri bréf þar sem spurt er hvers vegna ekki er gert ráð fyrir því að fjármagna 42 umsóknir um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Minnt er á að nýlega hafi samningur Sameinuðu þjóðanna verið lögfestur á Alþingi og vilji löggjafans sé skýr. Gagnrýnt er að í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár sjáist þess hvergi merki um að meirihlutinn í borginni ætli sér að fjármagna samningana þrátt fyrir lagaskyldu.

Þessir 42 NPA samningar í Reykjavík kosta líklega tæpa 2.5 milljarða. Bréf ÖBÍ kom mér ekki á óvart og það er eflaust það fyrsta af mörgum sem munu berast.

Að fella tár

Inga Sæland, félagsmálaráðherra felldi tár þegar Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var lögfestur á dögunum. Lögfestingin felur í sér að þau réttindi sem felast í samningnum eru orðin bindandi fyrir sveitarfélögin en þannig var það ekki áður. Þannig mátti áður hafa biðlista eftir þjónustu fyrir fatlað fólk eins og flesta aðra þjónustu en nú geta fatlaðir farið í mál við sveitarfélag ef það veitir ekki þjónustuna.

Það er auðvitað mikið fagnaðarefni að stjórnvöld skuli sýna með svo afgerandi hætti að þau vilji veita fötluðu fólki þessi réttindi. Við í Framsókn styðjum það eindregið. En þessi ákvörðun kostar mikla fjármuni. Í úttekt sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lét vinna kemur fram að árlegur viðbótarkostnaður eftir lögfestingu samningsins verði í heild um 14 milljarðar á ári. Og svo aftur árlega inn í framtíðina.

Svo kom hneykslið

Hneykslið í þessu máli er að Inga Sæland og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákváðu að láta ekki eina einustu krónu fylgja þessari ákvörðun þingsins. Þau ákváðu einfaldlega að líta framhjá 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að það verði að gera mat á fjárhagslegum áhrifum lagasetningar á sveitarfélögin áður en frumvarp er samþykkt. Slíkt mat hefur ekki verið gert. Því var bara sleppt. Það er líka brot á 66. gr. laga um opinber fjármál en það truflar ekki stjórnarliða því lögfestingin á greinilega ekki að hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Alþingi ætti líka að hafa í huga að málsmeðferðin brýtur í bága við 30.gr þingskaparlaga.

Eðlilega voru felld tár yfir þessum frábæra árangri ráðherrans sem væntanlega fær mikið klapp á bakið frá fjármálaráðherra fyrir að koma öllum þessum kostnaði yfir á sveitarfélögin en ríkisstjórnin fær hrósið. Þetta er svona dálítið eins og að velja kampavín á veitingastað en senda reikninginn á næsta borð.

Fólk með fötlun á ekki að þurfa að lögsækja sveitarfélögin

Nú vil ég taka fram að ég styð að þessi samningur sé lögfestur og ég vil að fólki með fötlun sé sýnd sú virðing að geta lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélagi okkar eins og 19. gr. samningsins kveður á um. En mér finnst einfaldlega andstyggilegt af Ingu Sæland og félögum hennar í ríkisstjórninni að koma svona fram við fólk með fötlun. Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að stilla þessum viðkvæma hópi upp á milli steins og sleggju eina ferðina enn? Svo hvetur Inga Sæland fatlað fólk til að fara með mál sín fyrir dómstóla ef sveitarfélögin veita ekki umbeðna þjónustu.

Ríkið veitir réttindin í orði en tryggir ekki fjármagn til að hægt sé að veita þjónustuna. Sveitarfélögin reyna hvað þau geta að mæta óskum umsækjenda en hafa einfaldlega ekki tekjustofna til þess að greiða fyrir þjónustuna og allt þetta veit ríkisstjórnin upp á hár. Og á meðan öllu þessu gengur þegir borgarstjóri Reykjavíkur þunnu hljóði.

Fjárlagafrumvarpið

Við vitum öll að ríkisstjórninni hefur ekki tekist vel upp með efnahagsstjórn landsins það sem af er þessu kjörtímabili og ríkisfjármálin eru í óvissu. En ef ríkisstjórnin ætlar að láta taka sig alvarlega og Inga Sæland ætlar ekki að verða sér til ævarandi skammar hvet ég hana til að fylgja lögum og láta gera ítarlegt kostnaðarmat og breyta svo fjárlagafrumvarpinu þannig að verkefnið verði full fjármagnað. Annað eru svik við fólk með fötlun.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Deila grein

25/11/2025

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Íslenska menntakerfið stendur á ákveðnum krossgötum. Margt hefur áunnist að undanförnu en ráðist hefur verið í fjölmargar mikilvægar aðgerðir: Heildstæð menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi, átakinu „Fjölgum kennurum“ var hrint í framkvæmd með góðum árangri, Menntafléttan og sérstakur sjóður fyrir menntarannsóknir voru sett á laggirnar og unnið var að skýrari matsviðmiðum í íslensku og stærðfræði, brotthvarf á framhaldsskólastiginu minnkaði, hálftómar verknámsstofur urðu yfirfullar í kjölfar róttækra breytinga, matsferill þróaður til að meta betur árangur barna í menntakerfinu ásamt ýmsum öðrum aðgerðum. Samt blasir við að betur má ef duga skal. Alþjóðlega PISA-menntarannsóknin sýnir svart á hvítu að ungmennin okkar eru að halda áfram að dragast aftur úr jafnöldrum sínum og árangurinn því nú orðinn lakari en meðaltal OECD-ríkja.

En hvers vegna er staðan þessi? Eitt af því sem við vitum er að fagorðaforði barnanna er lakari en í samanburðarríkjum – en hvers vegna? Við vitum að í löndum eins og Svíþjóð og Eistlandi fá nemendur á miðstigi fleiri kennslustundir í móðurmáli og náttúruvísindum. Hins vegar þurfum við frekari menntarannsóknir til þess að skýra þessa þróun betur og vera í stakk búin til þess að bæta stefnuna. Næsta rökrétta skref er því ítarleg, óháð samanburðarrannsókn á íslenska menntakerfinu og þeim kerfum í Evrópu sem ná góðum árangri. Slík rannsókn þarf að fara ofan í saumana á helstu lykilþáttum menntakerfa eins og fjölda kennslutíma í grunnfögum, námsefni, námsgagnagerð, námsmati, umfangi snemmtækrar íhlutunar, kennaramenntun, starfsumhverfi kennara og skólastjórnenda, forgangsröðun fjármuna og hlutverki ríkis og sveitarfélaga.

Til að þessi vegferð verði trúverðug þurfum við þjóðarsátt um mikilvægi menntunar. Menntun þarf í auknum mæli að verða forgangsmál þvert á flokka í samstarfi við kennara, skólastjórnendur, atvinnulíf og verkalýðshreyfinguna. Menntastefnan til 2030 getur veitt skýra sýn um vegferðina, en samanburðarrannsóknin og mælanleg markmið verða að vera til að tryggja að breytingarnar sjáist inni í kennslustofunni, ekki aðeins í skýrslum. Framtíðarsókn í menntamálum snýst um að öll börn á Íslandi fái raunveruleg tækifæri til að láta ljós sitt skína í skólanum. Öflugt menntakerfi er ekki aukaatriði heldur forsenda velferðar og verðmætasköpunar. Framtíð Íslands ræðst af því hvort okkur takist að fylgja þessari sýn eftir. Um leið verðum við að tryggja að hvert barn finni nám við hæfi. Við höfum alla burði til að sækja fram í menntamálum; kennararnir eru öflugir en til að styrkja menntakerfið okkur þurfum við betri samanburð og vera tilbúin að ráðast í róttækari breytingar í þágu samfélags.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Er þetta í þínu boði kæri for­sætis­ráð­herra?

Deila grein

24/11/2025

Er þetta í þínu boði kæri for­sætis­ráð­herra?

Rangfærsla í fréttum RÚV um helgina

Í fréttum RÚV um helgina sagði Eyjólfur Ármannsson að útboð á hönnun Fljótaganga væri eðlileg enda væru göngin númer 2 á samgönguáætlun. Þetta er alrangt. Samgönguáætlun var síðast samþykkt árið 2020. Þau jarðgöng sem eru þar tilgreind eru Fjarðarheiðargöng, hér er bókun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. 

Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur göng eru tilgreind í gildandi samgönguáætlun önnur en Fjarðarheiðargöng. Samgönguáætlun var samþykkt samhljóða á Alþingi 2020 eftir ítarlega umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar. Ráðherrann var um helgina að vísa í samgönguáætlun sem síðasta ríkisstjórn lagði fram en var aldrei samþykkt. Það er grundvallarmunur á málum sem fá þinglega meðferð og þeim sem gera það ekki.

Fljótagöng hafa ekki hlotið þinglega meðferð né nokkur önnur göng á Íslandi.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur ekki fjallað um framkvæmd við Fljótagöng, engin umsögn hefur verið gefin, engin nefndarálit liggja fyrir og engin samþykkt Alþingis um forgangsröðun jarðganga. Sveitarfélög og hagsmunaaðilar hafa ekki fengið að tjá sig. Það er því rangt, og í raun hættulegt, að ráðherra fari fram með þeim villandi málflutningi að hægt sé að skipa Fljótagöngum í röð jarðganga sem Alþingi hefur fjallað um, eða þess þá ákveðið. Fljótagöng eru ástfóstur ráðherrans enda er honum umhugað um sitt eigið kjördæmi, hann fer því hér fram með miklum einræðistilburðum og sýnir starfi Alþingis litla virðingu.

Á Alþingi sitja nú fjöldi þingmanna sem hafa ekki áður komið að gerð samgönguáætlunar og annarra stórra áætlana ríksins, til að mynda fjárlög. Við ykkur segi ég, látið ekki glepjast, ráðherrar eru ekki einráðir. Oddvitar allra flokka nema Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi lýstu yfir stuðningi við Fjarðarheiðargöng í aðdraganda síðustu kosninga.

Vonir mínar um að samgönguráðherra sætti sig við staðreyndir eða jafnvel hlusti á okkur eru að engu orðnar og því biðla ég til forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur að bera virðingu fyrir samþykktum framkvæmdaáætlunum ríkisins sem samgönguáætlun. Samgönguáætlun er löggilt stefnumótun sem á að tryggja að uppbygging samgöngukerfisins sé skipulögð, gagnsæ og byggð á faglegum forgangsröðunum. Hún er grundvallartæki Alþingis til að tryggja að fjármunir ríkisins nýtist þar sem samfélagslegur ávinningur er mestur og að stórar framkvæmdir hljóti vandaða og lýðræðislega meðferð. Kæri forsætisráðherra við krefjumst þess að hlustað sé á SSA sem hefur bókað hefur hringtengingu Austaralands árum og áratugum saman.

Kæri forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, er framganga innviðaráðherra þér og þínu ráðuneyti sæmandi? Ég krefst þess fyrir hönd allra landshluta að okkur sé sýnd sú lágmarksvirðing að Alþing fjalli um stórar framkvæmdir líkt og jarðgöng frekar en að ráðherrar með einræðistilburði í kjördæmapoti fái sínu fram.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Deila grein

24/11/2025

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Íslenska þjóðin stendur á hátíðardegi sínum, 1. desember, og minnist þess að árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Þótt rúm heil öld sé liðin frá þeim tímamótum er nauðsynlegt að rifja upp þessi sögulegu tímamót og við gerum okkur grein fyrir því sem þjóð að fullveldi verður aldrei tekið sem gefnu. Þjóð sem gleymir uppruna sínum og því hvernig hún vann rétt sinn getur misst sjónar á því sem mestu skiptir.

Aðdragandi fullveldisins var afrakstur áratuga ósveigjanlegrar baráttu fyrir því að stjórn landsins væri á íslenskum forsendum. Stjórnarskráin 1874 markaði fyrstu stóru breytinguna, þótt hún væri sett af danska þinginu án samþykkis Íslendinga. Þjóðin fékk fjárstjórnarvald og mótaði þannig eigin stöðu innan ríkjasambandsins. Þjóðfundurinn 1851 hafði áður sýnt að Íslendingar ætluðu ekki að láta af hendi rétt sinn til sjálfstæðrar tilveru. Þar var grunnurinn lagður að þeirri samstöðu sem síðar varð lykillinn að sjálfstæðismálunum.

Árin fyrir aldamótin 1900 jukust kröfurnar um skýrari aðgreiningu Íslands og Danmerkur. Heimastjórnin 1904 var loks staðfesting á því að Íslendingar gætu og vildu stjórna eigin málum. Íslenskur ráðherra í Reykjavík var ekki bara táknrænn sigur heldur raunverulegt valdaskref sem færði þjóðina nær markinu.

Stjórnarskrárbreytingarnar 1915 styrktu grundvöll lýðræðis enn frekar, þingræðið varð skýrara. Alþingi var orðið miðja íslenskrar valdsmyndunar – þar var þjóðin stödd þegar sambandslögin voru samþykkt árið 1918.

Sambandslögin voru í senn niðurstaða og upphaf. Þar var Ísland viðurkennt sem fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Íslendingar fengu fulla stjórn í eigin málum, sjálfstæða stöðu í þjóðarétti og rétt til að ráða framtíð sinni. Í kjölfarið tók ný stjórnarskrá gildi árið 1920, og hún varð burðarás íslenskrar stjórnskipunar fram til lýðveldisstofnunar 1944.

Ákvæði sambandslaganna um mögulega endurskoðun eftir 1940 var lykilatriði. Þegar heimsstyrjöld skók Evrópu ákvað Alþingi árið 1941 að leið þjóðarinnar skyldi ekki liggja aftur í sameiginlegar samningaviðræður við Dani. Íslendingar ætluðu sér að verða sjálfstætt fullvalda lýðveldi – og svo varð árið 1944 á Lögbergi við Öxará.

Þetta er sagan sem 1. desember á að minna okkur á. Saga um þjóð sem stóð saman, treysti á eigið afl og vann frelsi sitt með einhug og þrautseigju. Það er því óskynsamlegt að láta þann dag líða hjá án þess að gera honum hærra undir höfði. Fullveldið er hornsteinn íslenskrar tilveru – og slíka hornsteina á ekki að veikja með afsali á fullveldis til valdstofnunar í Evrópu.

Í samtímanum, þar sem ákveðin stjórnmálaöfl færast sífellt nær fjölþjóðlegum stofnunum og landamæri valds verða óljós, skiptir íslenskt fullveldi meira máli en oft áður. Við ráðum okkar auðlindum, okkar löggjöf, okkar menningu og okkar landi sjálf. Það er réttur sem forfeður okkar börðust fyrir – og ábyrgð sem við verðum að axla.

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt. Það er verkefni sem kallar á samstöðu, sjálfsvirðingu og þjóðlega stefnu sem hvílir á íslenskum forsendum.

Kæru Íslendingar – til hamingju með fullveldisdaginn.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heima­vinnu lokið – aftur at­vinnu­upp­bygging á Bakka

Deila grein

23/11/2025

Heima­vinnu lokið – aftur at­vinnu­upp­bygging á Bakka

Þrátt fyrir mótbyr í samfélaginu eru tækifærin til byggja upp bæði augljós og skýr. Sterkir innviðir, öflugt samfélag og auðlindir í Þingeyjarsýslum. Trú á eigin getu og samfélag er lykilatriði. Betri tímar koma ekki af sjálfu sér heldur með markvissum aðgerðum, heimavinnu og sameiginlegri framtíðarsýn. Á þessu kjörtímabili hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu, sérstaklega iðnaðarsvæðið á Bakka með nægu landrými, aðgengi að höfn og orku. Þó við séum langt frá höfuðborgarsvæðinu hvar mestan og sjálfsagðan vöxt má finna er ljóst að uppbygging í Þingeyjarsýslum í námunda við Akureyrarborg er bæði hagkvæm og skynsamleg fyrir land og þjóð. Að skapa tekjur, störf og treysta búsetu.

Núna á Bakka

Efnahagslegar aðstæður fyrir starfsemi PCC á Bakka eru sannarlega krefjandi en um leið er mikilvægt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er á Bakka. Þar er möguleiki á hágæða framleiðslu á kísilmálmi með umhverfisvænni orku. Iðnaðurinn með kísilmálm gegnir lykilhlutverki í efna- og plastiðnaði á heimsvísu og sömuleiðis sem íblöndun í ál. Það er því fagnaðarefni að fjármálaráðuneytið íhugar að setja jöfnunartolla á innfluttan kísilmálm. Í stóra samhenginu er miklu meira undir en framleiðsla á kísiljárni og -málmi á Íslandi heldur sameppnishæfni Evrópu sem heimshluta á þessum nauðsynlegu vörum.

Næstu skref

Iðnaðarsvæðið á Bakka er þegar skipulagt svæði fyrir atvinnustarfsemi. Til stendur að breyta spennivirkinu fyrir svæðið svo fjölbreyttari atvinnustarfsemi sé möguleg. Sveitarfélagið Norðurþing er með viljayfirlýsingu við fyrirtæki um uppbyggingu gagnavers, niðurdælingu á kolefni og landeldi. Raunhæf verkefni sem unnið er að kanna fýsileika til að byggja á Bakka og víðar í sveitarfélaginu og í Þingeyjarsýslum. Þá eru sömuleiðis í athugun námuvinnsla á móbergi bæði í Grísatungufjöllum og Jökulsá á Fjöllum, álúrvinnsluverkefni, próteinframleiðsla og önnur matvælatengd starfsemi og fleiri verkefni. Öll verkefnin lúta að nýtingu auðlinda, aðgangs að orku og innviðum.

Tímabil

Nú þegar rekstrarstöðvun PCC liggur fyrir þurfa sveitarfélagið Norðurþing, fyrirtæki, stofnanir og íbúar að brúa bilið frá deginum í dag til þess dags að atvinnuuppbygging hefjist aftur á Bakka. Þá er mikilvægt að rýna inn á við og sjá alla þá öflugu starfsemi sem fyrir er; fyrirmyndarfyrirtæki, framleiðslu á vörum á heimsvísu og mannauð sem halda þarf í. Auk þess hefur undirbúningur sveitarstjórnar falist í skipulagsvinnu í þéttbýli bæði á Húsavík og á Kópaskeri. Það er alltaf vilji til að gera meira og ekkert að missa. Í því felst vonin og væntingar. Samhliða allri umræðunni um viljayfirlýsingar, auðlindanýtingu og möguleikann að skapa störf þarf að finna jafnvægið milli raunhæfra væntinga og veruleikans. Staðreyndin er að atvinnuuppbygging er möguleg og heimavinnunni lokið. Nýjum verkefnastjóra atvinnuuppbyggingar er ætlað að samræma skilaboð, sækja verkefni og ná samningum svo verkefni hljóti framgang.

Stóð alltaf til

Það stóð alltaf til að halda áfram atvinnuuppbyggingu þegar farið var í orkuvinnslu, hafnar- og gangnagerð. Við þurfum sjálf berjast fyrir atvinnuuppbyggingu. Það krefst samstöðu og trú á að skapa tækifærin sjálf. Það er okkar hlutverk að sækja spennandi verkefni, rýna í uppbyggingarmöguleika og hvernig þau geta skapað störf, fjárfestingar og tekjur fyrir samfélagið. Samfélag þarf vinnu, vöxt og velsæld. Það gerir þetta enginn fyrir okkur.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Deila grein

21/11/2025

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ferðaþjónustan á Norðurlandi stendur á tímamótum. Aldrei áður hafa tækifærin verið jafn augljós og raunhæf. Ný hótel rísa, fjölbreytt afþreying vex, og heilsársferðaþjónusta er orðin að veruleika. Staðan er gjörbreytt frá því fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur þegar opnað dyr að nýjum tækifærum og auknum lífsgæðum fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi þróun haldi áfram og nái einnig til Egilsstaða.

Það er brýnt að stjórnvöld tryggi að beint flug til Akureyrar verði sjálfbært og Egilsstaðir fylgi hratt á eftir. Flugþróunarsjóður, sem hefur styrkt flugfélög og ferðaþjónustuaðila til að taka áhættu og hefja beint flug til Norðurlands, hefur sýnt gildi sitt. En sjóðurinn þarf að fá aukinn slagkraft til að fylgja þessu flugi eftir og fjármagna aukna markaðssetningu á Egilsstöðum sem áfangastað.

Beint flug – beint í betri lífsgæði

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur breytt miklu fyrir svæðið. Nú er hægt að ferðast án þess að leggja í langan og kostnaðarsaman legg til Keflavíkur. Með millilandafluginu er svæðið orðið aðgengilegra fyrir ferðamenn, en ekki síður hefur það aukið lífsgæði heimamanna. Það sparar tíma, eykur öryggi, og styrkir fyrirtæki á öllum sviðum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja áframhaldandi stuðning við millilandaflug til Akureyrar því slík fjárfesting eru fjárfesting í framtíðinni.

Þúsundir starfa

Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum orðið einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs. Hún hefur skapað þúsundir starfa, aukið tekjur heimila og veitt landsbyggðinni ný og öflugri tækifæri.

Árið 2023 námu gjaldeyristekjur greinarinnar um 600 milljörðum króna og skatttekjur ríkis og sveitarfélaga námu 200 milljörðum króna. Þetta eru tölur sem skipta máli fyrir alla landsmenn því velgengni ferðaþjónustunnar er velgengni samfélagsins í heild.

Sem þingmaður Norðausturkjördæmis sé ég daglega hve jákvæð áhrif öflug ferðaþjónusta hefur á líf fólks. Hún gefur ungu fólki tækifæri til að byggja framtíð sína heima, styrkir atvinnulífið og heldur samfélögum lifandi.

Fjárfestum í innviðum

Ný flugstöð á Akureyri, stærra flughlað og nýr aðflugsbúnaður eru dæmi um fjárfestingar sem efla ekki aðeins ferðaþjónustu heldur allt samfélagið.

Svo er rétt að hafa í huga niðurstöður áhugaverðrar skýrslu Jóns Þorvalds Heiðarssonar hagfræðings um áhrif beins millilandaflugs til Akureyrar. Skýrslan sýnir svart á hvítu að flug EasyJet til Akureyrar frá bæði London og nú Manchester var ekki fjarlægur draumur heldur arðbært fyrir samfélagið allt. Það sýnir hversu mikill kraftur býr í landsbyggðinni ef tækifærin eru nýtt.

Kraftur landsbyggðarinnar

Fyrir stuttu síðan fór fram VestNorden sýningin á Akureyri, þar sem um 550 aðilar úr ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum komu saman til að skapa ný tækifæri og tengsl.

Þar sýndi Norðurland að landsbyggðin getur verið miðpunktur alþjóðlegrar ferðaþjónustu og uppbyggingar. Með góðri skipulagningu, sterkum innviðum og samstilltu átaki fjölda fólks er allt hægt. VestNorden var ekki eingöngu ráðstefna. Hún fól í sér tákn um bjartsýni og mikilvægi samstarfs til að bæta hag landsbyggðarinnar og kom okkur þingmönnunum sem mættum skemmtilega á óvart.

Ferðaþjónustan er auka egg í körfu landsbyggðanna

Ferðaþjónustan er ekki bara atvinnugrein. Hún er lífæð margra samfélaga og lykillinn að framtíð landsbyggðarinnar. Þegar ferðamenn dreifast um landið skapast meira jafnvægi: ný störf, fjölbreytt atvinnulíf og tækifæri fyrir ungt fólk til að setjast að í heimabyggð.

Til þess þarf að huga að innviðum s.s. vegum, flugvöllum, orkuframboði, stafrænni þjónustu og menntun með framtíðarsýn að leiðarljósi. Þannig byggjum við upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem eykur lífsgæði og dregur úr ósjálfbærri miðstýringu.

Fyrir framtíðina

Framsókn hefur ávallt staðið vörð um jafnvægi og jöfn tækifæri um land allt.

Öflug ferðaþjónusta á landsbyggðinni er ekki aðeins stefnumál heldur er hún grundvallarmál fyrir fólkið í landinu bæði með tilliti til atvinnu, lífsgæða og öryggis.

Þó blikur séu á lofti í pólitísku andrúmslofti þessa dagana, munum við í Framsókn standa vörð um þá framtíðarsýn. Við viljum land þar sem lífsgæði, tækifæri og von dreifast jafnt, þar er ferðaþjónustan brú milli fólks, byggða og framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Deila grein

21/11/2025

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Fæðingarorlof er í heildina 12 mánuðir, eftir það á leikskólinn að taka við en víðast er lengri bið eftir leikskólaplássi. Ég og mín fjölskylda erum heppin og með frábært bakland, við eigum 14 mánaða gutta og ömmur og afar sjá um drenginn fyrir okkur þegar við þurfum að vinna upp í útgjöld heimilisins. Það eru ekki allir svo heppnir, ég veit að það er fullt af fólki sem hefur ekki öflugt bakland. Foreldrar sem sinna börnum sínum og komast ekki til vinnu á meðan, búnir með sinn rétt til fæðingarorlofs (þar sem fólk er að fá töluvert skert laun) og er því oft annar aðilinn launalaus í heilt ár, ef ekki lengur.

Þegar maður skoðar sveitarfélög út frá barnafjölskyldum er áhugavert að bera Árborg saman við nágrannasveitarfélögin í Árnessýslu. Oft hafa sveitarfélög auglýst sig sem barnvæn samfélög, það er þó gríðarlegur munur á milli sveitarfélaga. Ætli sér einhver að byggja sér heimili eru byggingarréttar- og gatnagerðargjöld í Árborg einhver þau hæstu sem þekkjast á Suðurlandi. Sem dæmi er einbýlishúsalóð í Móstekk með heimild til byggingar rúmlega 290fm hús að kosta um 13,7 m.kr. í gatnagerðargjöld og 10,7 m.kr. í byggingarréttargjald. Samtals rúmar 24 m.kr. áður en fyrsta skóflustunga er tekin. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er einbýlishúsalóð í Brautarholti með heimild til byggingar 250fm hús að kosta um 7 m.kr. í heildina og önnur sveitarfélög Uppsveita virðast vera með svipað verðlag. Í Hveragerði eru lóðir sem heimila um 550 fm byggingu á rúmar 27 m.kr., sem er sambærilegt verð en fyrir tæplega tvöfalt stærri lóð.

Þetta skilar sér inn í fasteignaverð, sem er hærra í Árborg, þá sérstaklega á Selfossi, en annars staðar í sýslunni. Þegar einstaklingur hefur byggt eða fest kaup á húsi þarf hann að greiða fasteignagjöld sem eru einnig hærri í Árborg en í nágrannasveitarfélögum og raunar með þeim hæstu á landinu, eins og sjá má á mælaborði Byggðastofnunar.

Svo bætist við að börn fá leikskólapláss seinna í Árborg en víða annars staðar. Jafnvel er mismunað eftir fæðingarmánuði, barn fætt snemma á árinu er líklegra til að fá pláss við 16 mánaða aldur, en barn fætt seint á árinu gæti þurft að bíða fram yfir 24 mánaða aldur. Sem betur fer á ég von á næsta barni í mars sem er prýðis mánuður ef horft er til inntöku í leikskóla. Mörg sveitarfélög brúa þetta bil með heimgreiðslum til foreldra, sem gæti verið raunhæf lausn fyrir Árborg, lausn sem er ekki svo dýr en getur skipt miklu máli fyrir þá sem þurfa á að halda. Þar að auki eru leikskólagjöldin hærri í Árborg en annars staðar í sýslunni. Ég gæti haldið áfram og nefnt æfingagjöld, gjöld fyrir tómstundir og önnur gjöld sem snerta barnafjölskyldur.

Ég er ekki að segja að allt sé ómögulegt, flest sem tengist barnafjölskyldum er gert af miklum glæsibrag í Árborg. Við höfum glæsilega leik- og grunnskóla, fjölbreytt framboð íþrótta og tómstunda og frístundastarfið er í hæsta gæðaflokki, eitthvað fyrir alla! En við getum alltaf gert betur og ég er að benda á það sem mér og öðrum finnst að mætti betur fara. Barnvænt samfélag snýr bæði að því sem er í boði, aðgengi að þeirri þjónustu og kostnaði.

Fjárhagsáætlunin er í sjálfu sér góð, það er ekki hægt að óska eftir öllu fyrir alla þegar horfa þarf til aðhalds og hagræðingar hjá sveitarfélaginu. Verið er að vinna upp skuldir og bæta rekstur. Sum gjöld lækka hlutfallslega, fasteignagjöld eru að lækka, þ.e.a.s. hlutfallslega, það skilar sér í lækkun eða hækkun eftir því hvar í sveitarfélaginu þú býrð sökum hækkandi fasteignamats. Heilt yfir er um ábyrgan rekstur að ræða og því ber að hrósa kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf. Sérstaklega ber að þakka íbúum, þeir hafa tekið hvað mest á sig fjárhagslega á síðastliðnum árum. Það eru fyrst og fremst skattahækkanir sem eru að skila bættum rekstri ásamt uppsögnum og hagræðingu. Fjárfesta á fyrir 2-3 milljarða á ári sem er vel, mér sýnist hins vegar fjárfestingar næstu ára snúa að því að mæta núverandi þörf. Á sama tíma horfum við á áframhaldandi fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Því velti ég fyrir mér hvort við gætum aftur lent í innviðaskuld, við vitum hvernig það endaði síðast. Þetta eru þó aðeins vangaveltur eftir stutta yfirferð síðastliðna daga.

Þetta er umfjöllun um afmarkaðan hóp íbúa í sveitarfélaginu, en þetta eru allt saman hlutir sem skipta máli. Það þarf sömuleiðis að ræða þátt ríkisins þegar kemur að barnafjölskyldum, þar er ýmislegt sem má bæta, t.d. fæðingarorlofskerfið. Þó engan bilbug á mér sé að finna í barneignum þá kemur mér ekki á óvart að fæðingartíðni sé lág á Íslandi.

Matthías Bjarnason, varabæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 20. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Deila grein

18/11/2025

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Fjarðarheiðargöng eru eitt af mikilvægustu samgönguverkefnum á Austurlandi. Öryggi vegfarenda er ein helsta ástæða framkvæmdarinnar ásamt því að tryggja aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu allan ársins hring. Með tilkomu ganganna verður tryggð örugg og greið leið milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs allan ársins hring, áreiðanleg, örugg og nauðsynleg samgönguleið innan sveitarfélagsins og til Evrópu. Samgöngubætur af þessari stærðargráðu hafa einnig bein áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf, eykur möguleika íbúa til atvinnu og menntunar, styrkir ferðaþjónustu og skapar traustari forsendur fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Göngin verða þannig mikilvæg stoð í að efla búsetu og efnahagslíf á Austurlandi öllu.

Hringtenging Austurlands

Fjarðarheiðargöng eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands, jarðgangatenging sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur kallað árum saman og frá árinu 2013 hafa bókanir SSA verið skýrar og samhljóða um að næstu göng á Austurlandi skuli verða Fjarðarheiðargöng. Það er svo með staðfestingu Svæðisskipulags Austurlands í byrjun þessa kjörtímabils sem vilji allra sveitarstjórna á Austurlandi er enn frekar staðfestur.

Ígrunduð ákvörðun

Árið 2011 kom út skýrslan „Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum“ sem unnin fyrir Vegagerðina. Í skýrslunni kemur fram að hugmyndir hafi áður verið uppi um jarðgöng frá Héraði niður í Mjóafjörð. Þau voru þó ekki talin raunhæfur valkostur í samanburði við Fjarðarheiðargöng sökum þess að slík göng myndu ekki tengja Seyðisfjörð. Afstaðan var því sú að jarðgöng til Mjóafjarðar voru skoðuð sem hugmynd, en felld úr frekari athugun vegna lítillar umferðar og skorts á tengingu við lykilhafnir og samgöngur. Í skýrslunni er fjallað um nokkra möguleika gangna en niðurstaðan er að jarðgöng undir Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða séu besti kosturinn.

Það var síðan árið 2017 sem þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng og var í framhaldinu gefin út skýrslan „Seyðisfjarðargöng – Valkostir og áhrif á Austurlandi“. Markmið verkefnisins var að undirbúa ákvörðun um samgöngubót sem best væri til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu. Fram kemur í ályktun og niðurstöðu hópsins:

Það er mat verkefnishópsins að með hliðsjón af ávinningi samfélagsins og atvinnulífsins á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að fylgja áliti Alþingis, Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og þorra íbúa og fulltrúa atvinnulífs og samfélags á svæðinu og rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði sem fyrsta áfanga og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar í síðari áfanga. Hópurinn leggur mikla áherslu á að ákvörðun um samgöngubætur með hringtengingu liggi fyrir eins fljótt og auðið er og að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst til að jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs skili sér ekki of seint.

Alþingi hefur margsinnis samþykkt framkvæmd Fjarðarheiðarganga

Í samgönguáætlun 2011-2022 sem samþykkt var á Alþingi 19. júní 2012 kom þetta fram:

Jarðgangaáætlun: Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.

Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Hringtenging Austurlands er umfjöllunarefni meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis árið 2020 en þá kom fram í áliti þeirra:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur leið um Fjarðarheiði

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að núverandi Seyðisfjarðarvegur uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar um breidd og hámarkshalla stofnvegar. Vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Fjarðarheiði.

Fjarðarheiðargöng eru fullhönnuð af hálfu Vegagerðarinnar og hefur Múlaþing staðfest breytingar á skipulagi í samræmi við hönnun. Göngin eru fullhönnuð og hefur þegar um 600 milljónum verið varið í þá vinnu.

Rjúfum kyrrstöðuna

Kæri samgönguráðherra Eyjólfur Ármansson, ég skora á þig að rjúfa stopp í jarðganga gerð og bjóða út Fjarðarheiðargöng, þau eru einu jarðgöngin sem hægt er að hefja vinnu við á þessu kjörtímabili. Kæra ríkisstjórn, ég krefst þess að þið standið við stóru orðin, loforð sem meðal annars forsætisráðherra hafði uppi í kosningaþætti RÚV.

Af stað með göngin!

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Deila grein

15/11/2025

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Bestu ákvarðanirnar eru teknar þegar við sjáum heildarmyndina. Til að sjá heildarmyndina verðum við að horfa út fyrir nærumhverfi okkar og sjá landið allt, fólkið allt. Núverandi ríkisstjórn virðist þó ekki vera alveg sammála þessu sjónarmiði. Hún sér landið okkar í gegnum þröngan glugga höfuðborgarinnar. 

Þetta hefur þær afleiðingar að dregið er sífellt úr þjónustu á landsbyggðinni, fjármunum er frekar beint að þéttbýlinu og reglur settar án þess að spurt sé hvernig þær snerta fólk sem býr og starfar utan höfuðborgarsvæðisins.

Landsbyggðarmat 

Af þessari ástæðu lagði þingflokkur Framsóknar fram tillögu á Alþingi í liðinni viku um að innleiða svokallað landsbyggðarmat í íslenska stjórnsýslu og lagasetningarferli (e. rural proofing). Hugmyndin er einföld og gengur út á að slíkt mat verði lögbundin og skyldubundin leið við undirbúning frumvarpa, reglugerða og stærri stefnumótunar- og fjárfestingaráætlana ríkisins. Ef áhrif ákvarðana eða verkefna eru neikvæð, þá þarf að huga að því hvernig hægt er að milda þau eða koma með mótvægisaðgerðir. Ef tækifæri felast í breytingunni er spurt hvernig þau verði nýtt. 

Það gleymist oft að aðstæður á Íslandi eru afar ólíkar milli landshluta og byggðarlaga. Ákvarðanir stjórnvalda verða ávallt að taka mið af því. Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp landsbyggðarmat. 

Aðför að landsbyggðinni í boði ríkisstjórnarinnar

Ákvarðanir stjórnvalda sem bitna á landsbyggðinni birtast á ótal sviðum. Við sjáum það t.d. þegar starfsemi heilbrigðisþjónustu er sameinuð með þeim afleiðingum að lengri tíma en áður tekur að fá læknisaðstoð. Við sjáum sambærileg dæmi almennt þegar nýjar reglur eða aðrar kröfur eru skrifaðar út frá forsendum höfuðborgarinnar án þess að tillit sé tekið til raunverulegra aðstæðna í dreifbýli. 

Ákvarðanir stjórnvalda snerta lífsviðurværi, öryggi og framtíð fólks um allt land. Og þegar þær eru teknar án þess að áhrif á landsbyggðina séu metin, verður niðurstaðan oftar en ekki sú sama: verri þjónusta á landsbyggðinni og færri tækifæri. 

Skortur á skilningi á ólíkum aðstæðum úti á landi er ekki aðeins kæruleysi heldur felur í sér aðför að landsbyggðinni. Það getur aldrei talist eðlilegt að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir sem kunna að veikja lífsgæði fólks utan höfuðborgarinnar án þess að greinargott mat á áhrifum slíkra ákvarðana hafi farið fram. 

Þetta er ekki ósk um forgang eða sérmeðferð landsbyggðarinnar. Þetta er einfaldlega krafa um ábyrgð og gæði í stjórnsýslu og við lagasetningu. Landsbyggðarmat er eins konar gæðalinsa í opinberri stefnumótun, leið til að sjá heildina og forðast að góð áform hafi óheppilegar aukaverkanir. 

Fjöldi ríkja hefur tekið slíkt ferli upp með góðum árangri. Í Bretlandi, Finnlandi og Kanada hefur það leitt til betri ákvarðanatöku, aukins jafnræðis og skilvirkari nýtingar fjármuna. Það sama gæti átt við hér ef viljinn er fyrir hendi. 

Sameiginleg ábyrgð

Við eigum ekki að draga línu milli höfuðborgar og landsbyggðar. Við eigum að horfa á okkur sem eina heild, þjóð sem byggir á fjölbreytileika, samstöðu og ótal tækifærum til verðmætasköpunar þvert á landshluta. 

Þegar landsbyggðin styrkist, styrkist landið allt. Þegar þjónusta og tækifæri eru tryggð á landsbyggðinni, þá vex samfélagið í heild. Við eigum ekki að horfa á byggðir landsins sem keppinauta, heldur sem samstarfsnet sem heldur þjóðinni saman. 

Þetta snýst ekki um forréttindi heldur jafnræði. Ekki um aukinn kostnað heldur um skynsamari ákvarðanir. Það er miklu dýrara að bæta fyrir skaðann eftir á en að hugsa hlutina vel í upphafi og þess vegna er landsbyggðarmat mikilvægt. 

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 15. nóvember 2025.