Evrópusambandið er komið aftur á dagskrá íslenskra stjórnmála. Stjórnvöld hafa tilkynnt að fyrirhuguð sé þjóðaratkvæðisgreiðsla um hvort Íslandi eigi að hefja að nýju viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Atkvæðagreiðslan fer fram á árinu 2027. Það er mikilvægt að þjóðin geti kosið um þetta mikilvæga mál.
Hagvöxtur skiptir miklu máli til að auka velferð þjóða og til að hægt sé að fjárfesta í menntun og heilbrigðisþjónustu. Evran átti að efla hagvöxt og efnahagslegan stöðugleika innan þess efnahagssvæðis. Reynslan hefur hins vegar sýnt að hagvöxtur er mun minni í samanburði við önnur ríki. Hagvöxtur á Íslandi hefur á síðustu áratugum verið þróttmikill og atvinnuleysi lítið. Hagvöxtur síðustu fimm ár hefur að meðaltali verið rúm 2,5% og fjöldi nýrra starfa hefur orðið til á öllum sviðum samfélagsins. Til samanburðar hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum verið 2% og á evrusvæðinu 1%. Hálfgerður þokuhjúpur er yfir hagvexti á evrusvæðinu. Flest ríki vilja vera í stöðu Íslands, þar sem hagvaxtarhorfur eru góðar og atvinnuleysi er lítið.
Efnahagsleg frammistaða evrusvæðisins hefur verið lakari en Bandaríkjanna. Tölurnar tala sínu máli. „Evrópa hefur farið úr því að vera 90 prósent af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna niður í 65 prósent á 10 til 15 árum. Það er ekki góð þróun,“ sagði Jaime Dimon, bankastjóri JPMorgan Chase, á ráðstefnu í Dublin nú á dögunum. Ummæli Dimons endurspegla þá miklu áskorun sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir í að örva hagvöxt og auka samkeppnishæfni álfunnar. Dimon bætti við að álfan hefði mjög stórt markaðssvæði og einkar öflug fyrirtæki með alþjóðleg umsvif. Hins vegar væri staðreyndin sú að þau væru sífellt færri og samkeppnishæfni þeirra hefði beðið hnekki með ári hverju. Mest fer fyrir framförum í gervigreind og hátækni í Bandaríkjunum og Kína. Ísland á að nýta sér landfræðilega legu sína til að geta stundað frjáls viðskipti við sem flest ríki.
Á síðasta ári kallaði Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri Evrópu, eftir nýrri iðn- og fjárfestingarstefnu fyrir álfuna sem myndi krefjast 800 milljarða evra árlegra fjárfestinga til að viðhalda samkeppnishæfni gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Í Draghi-skýrslunni kemur skýrt fram að efla verði stöðu Evrópu ef álfan á ekki eftir að dragast enn meira aftur úr.
Það er samdóma álit einna virtustu hagfræðinga veraldarinnar að meginorsök þessarar þróunar sé hin sameiginlega mynt. Evran er ekki sú töfralausn sem margir boða. Fórnarkostnaðurinn við evruna er lægri hagvöxtur og aukið atvinnuleysi. Höldum staðreyndum til haga í komandi umræðu, svo að farsælasta leiðin verði valin fyrir okkar góða land. Mikið er í húfi fyrir framtíðarkynslóðir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júlí 2025.
Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.