Til að auka hagsæld og bæta lífskjör á Íslandi voru háð þrjú erfið þorskastríð við Bretland. Með þrautseigju, samvinnu og framtíðarsýn tókst að stækka landhelgina í 200 mílur. Þetta var gert í fjórum áföngum. Fyrst úr 3 í 4 sjómílur árið 1952, 12 mílur (1958), 50 mílur (1972) og svo loks 200 mílur (1976). Þessi sókn Íslendinga varð að einni mestu lífskjarabót sem ein þjóð hefur upplifað á svo skömmum tíma. Allt til ársins 2000 komu yfir 60% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins frá sjávarútvegi, sem gegndi lykilhlutverki í efnahagslegu sjálfstæðu þjóðarinnar. Hæst fór hlutdeild sjávarútvegs í vöruútflutningi í rúm 97% árið 1949.
Á síðustu 50 árum hefur samsetning útflutnings breyst töluvert, og nú koma um 22% gjaldeyristekna frá sjávarútvegi. Það hefur fært þjóðarbúinu aukið jafnvægi og minni sveiflur, en um leið sýnir þetta hversu mikil áhrif sjávarútvegurinn hefur enn. Gjaldmiðillinn var háður gengi sjávarafurða, og samkeppnishæfni landsins réðst að stórum hluta af afkomu greinarinnar. Þær kerfisbreytingar sem gerðar voru á sínum tíma til að styrkja meginútflutningsgrein þjóðarinnar urðu einnig grunnur að því að skapa umgjörð fyrir nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf.
Í vikunni var kynntur nýr samningur Evrópusambandsins við Bretland. ESB-ríkin hafa áfram aðgang að fiskimiðum Bretlands næstu tólf árin, sem er veruleg stefnubreyting. Bretar vildu upphaflega takmarka aðganginn við fjögur til fimm ár. Sjávarútvegsstefna ESB hefur verið gagnrýnd og hefur skaðað breskan sjávarútveg verulega. Forsætisráðherra Bretlands hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa gefið eftir kröfuna um full yfirráð yfir fiskimiðunum, þó að í staðinn hafi Bretland fengið aukið aðgengi að mörkuðum fyrir vörur og þjónustu. Framlag sjávarútvegs í landsframleiðslu Breta er ekki nema 0,14% samanborið við 6% á Íslandi. Mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt efnahagslíf er margfalt og því hagsmunir samkvæmt því.
Helstu útflutningsgreinar okkar búa nú við mikla óvissu. Í fyrsta lagi er stefnt að verulegri skattahækkun án þess að nægilegt samtal eða greining fari fram. Í öðru lagi ríkir alþjóðleg óvissa vegna nýrrar viðskiptastefnu Bandaríkjanna, þar sem erfitt er að sjá fyrir þróun mála. Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin sett það á stefnuskrá að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Öll þessi óvissa dregur úr fjárfestingu, minnkar hagvöxt og eykur áhættu í atvinnulífinu. Tveir af þessum óvissuþáttum, skattahækkanir og ESB-vegferð, eru sjálfskapaðir og vekja að mörgu leyti undrun. Gleymum því ekki að öll hagsæld þjóðarinnar grundvallast á verðmætasköpun, dugnaði og farsælli framtíðarsýn. Evrópuför ríkisstjórnarinnar er ekki leiðin til hagsældar og við getum spurt okkur, til hvers var barist á dögum þorskastríðanna?
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2025.