Skýrsla fjármálaráðherra um langtímahorfur í efnahags- og opinberum fjármálum var birt á dögunum. Skýrslan er mikilvæg undirstaða fyrir umræður á Alþingi um efnahagsmál þjóðarinnar og stuðlar að betri yfirsýn yfir áskoranir í fjármálum hins opinbera. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, sem brátt verður lögð fram á Alþingi, verður að taka eins og kostur er mið af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir til lengri tíma. Svo er þó ekki.
Engin innviðaskuld?
Í fyrsta lagi er í skýrslu fjármálaráðherra lítið sem ekkert fjallað um svokallaða innviðaskuld og hina tímabæru uppbyggingu innviða sem mun óhjákvæmilega standa yfir næstu ár og jafnvel áratugi. Þessi uppbygging mun kosta tugi milljarða króna á ári ef vel á að vera. Vandað mat á þróun útgjalda vegna átaks í innviðauppbyggingu er grundvallarforsenda þess að hægt sé að leggja raunhæft mat á þróun efnahagsmála og opinberra fjármála.
Engin veruleg aukning útgjalda til varnar- eða öryggismála?
Í öðru lagi fjallar skýrslan á engan hátt um hugsanlega aukningu útgjalda til varnar- og öryggismála, sem flest Evrópuríki standa nú frammi fyrir. Útgjöld Íslands til varnarmála gætu hæglega numið allt að 2% af landsframleiðslu ár hvert, og jafnvel meira, verði sama þróun hérlendis og í öðrum löndum Evrópu. Hér gæti verið um tugmilljarða króna viðbótarútgjöld að ræða og mikilvægt að búnar séu til sviðsmyndir um áhrif þeirra næstu ár og áratugi. Vissulega er erfitt að spá fyrir um þróun alþjóðamála í þessu ljósi, en eini tilgangur skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum er einmitt sá að tryggja yfirsýn og stuðla að umræðum um hugsanlegar (og meiriháttar) áskoranir næstu ára og áratuga.
Engin óvissa í tollamálum?
Í þriðja lagi ríkir veruleg óvissa um þróun tollamála og alþjóðlegra viðskipta. Skýrslan fjallar að einhverju leyti um aukna spennu í samskiptum ríkja, tollastríð og myndun nýrra viðskiptablokka. Þá má halda því fram að þróun tollamála varði einkum hagsmuni til skemmri tíma. Það blasir þó við að landslag alþjóðaviðskipta hefur breyst, meiri háttar óvissa ríkir um framtíð alþjóðaviðskipta og stórfyrirtæki um allan heim eru þegar farin að endurhugsa framleiðsluaðferðir og stjórnun virðiskeðja.
Skemmtiefni?
Gerð skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum er eðli málsins samkvæmt krefjandi og vandasamt verk. Tilgangurinn er þó ekki sá einn að búa til almenna og fræðilega umfjöllun, einhvers konar skemmtiefni, heldur að skapa traustan grunn fyrir ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnar við mótun hagstjórnar og þróun fjármála hins opinbera.
Í ofangreindu ljósi er ekki annað hægt en að draga í efa forsendur og nytsemi skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2025.