Categories
Fréttir Greinar

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Deila grein

20/02/2025

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Að lok­inni þing­setn­ingu, sem fram fór 4. fe­brú­ar sl. og þar sem ný rík­is­stjórn hef­ur lagt fram þing­mála­skrá vorþings, er rétt að minna á eina mik­il­væg­ustu áskor­un sam­tím­ans: orku­mál. Orku­mál hafa um langa hríð verið mikið deilu­efni á Alþingi, en í ljósi þjóðar­hags­muna er nauðsyn­legt að nálg­ast þau af meiri skyn­semi og trausti en verið hef­ur, bæði varðandi nýt­ingu auðlinda og nátt­úru­vernd. Það er von mín að umræða um orku­mál á kom­andi árum verði mark­viss og lausnamiðuð og byggi á sam­eig­in­leg­um lang­tíma­sjón­ar­miðum, öll­um til hags­bóta.

Hraðar breyt­ing­ar á orku­markaði

Ef við horf­um til síðasta ára­tug­ar sést glöggt hversu sveiflu­kennd þróun eft­ir­spurn­ar og fram­boðs á orku get­ur verið. Á þessu tíma­bili var ál­verið í Helgu­vík blásið af. Fram­boð á raf­orku var nægt og orku­verð lágt. Heims­far­ald­ur­inn sem skall á árið 2020 dró enn frek­ar úr eft­ir­spurn eft­ir orku.

Eft­ir COVID-19 far­ald­ur­inn tók orku­markaður­inn stakka­skipt­um. Verð á áli og ra­f­ræn­um gjald­miðlum hækkaði, iðnaður sótti fram og stríð í Evr­ópu ýtti enn frek­ar und­ir eft­ir­spurn eft­ir raf­orku. Á sama tíma varð raf­orku­skort­ur hér á landi vegna verstu vatns­ára í sögu Lands­virkj­un­ar. Nú hef­ur staðan aft­ur lag­ast vegna auk­inna rign­inga, en þessi öfga­fullu og sveiflu­kenndu tíma­bil minna okk­ur á að breyt­ing­ar ger­ast hratt og geta haft víðtæk áhrif. Á kjör­tíma­bil­inu munu svo verða enn frek­ari breyt­ing­ar. Þannig mun ís­lenski raf­orku­markaður­inn þró­ast til sam­ræm­is við reglu­gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB). Síðast en ekki síst munu sum­ar þeirra virkj­ana sem fyrri rík­is­stjórn samþykkti koma til fram­kvæmda.

Alþjóðleg­ar áskor­an­ir og áhrif á Ísland

Örar breyt­ing­ar á orku­markaði und­ir­strika mik­il­vægi þess að við séum vak­andi fyr­ir þróun á alþjóðleg­um mörkuðum. Banda­rík­in og Evr­ópa hafa til­kynnt gríðarleg­ar fjár­fest­ing­ar í orku­fram­leiðslu og innviðum fyr­ir gervi­greind og spurn­ing­ar vakna um hvaða áhrif þær muni hafa á Ísland. Verðum við eft­ir­sótt­ara land fyr­ir orku­frek­an iðnað? Hver verður sam­keppn­is­hæfni Íslands í ljósi auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar í orku­geir­an­um ann­ars staðar? Þetta eru spurn­ing­ar sem við þurf­um að ræða og svara af yf­ir­veg­un og skyn­semi.

Setj­um sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang

Orku­saga Íslands er sam­tvinnuð sögu ungr­ar sjálf­stæðar þjóðar sem leitaði leiða til að bæta lífs­kjör. Við byggðum hita­veit­ur, virkj­an­ir og byggðalínu og tryggðum orku­ör­yggi al­menn­ings í lög­um. Gleym­um ekki sam­fé­lags­áhersl­um nú þegar frjáls orku­markaðar ryður sér til rúms.

Tryggj­um orku­ör­yggi al­menn­ings á nýj­an leik til að koma í veg fyr­ir verðhækk­an­ir líkt og í Evr­ópu. For­gangs­röðum fjár­magni með áherslu á hita­veit­ur og jarðhita­leit, sér­stak­lega á köld­um svæðum. Ýtum und­ir að ein­angraðir staðir, eins og Vest­f­irðir og Vest­manna­eyj­ar, fái sterk­ara flutn­ings­kerfi, sem skipt­ir lyk­il­máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa. Sköp­um hvata þannig að ný orku­fram­leiðsla efli at­vinnu­tæki­færi um allt land, í takt við ólík mark­mið stjórn­valda, allt frá mat­væla­fram­leiðslu til orku­skipta, en fari ekki til hæst­bjóðenda hverju sinni. Að setja slík­ar sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang kall­ar á skýra póli­tíska sýn og ná­kvæmni í inn­leiðingu stefnu. Þær geta hins veg­ar eflt mögu­leika íbúa og aukið verðmæta­sköp­un at­vinnu­lífs um allt land.

Ný­sköp­un og nátt­úru­vernd í orku­stefnu

Ný­sköp­un, ork­u­nýtni og nátt­úru­vernd þurfa einnig að vera lyk­il­hug­tök í orkupóli­tík framtíðar­inn­ar, ekki síst nú þegar umræðan um vindorku er að aukast. Vindorka get­ur orðið mik­il­væg viðbót við orku­fram­leiðslu lands­ins, en henni fylgja nýj­ar áskor­an­ir sem þarf að tak­ast á við af ábyrgð á grunni heild­stæðrar stefnu­mót­un­ar með verðmæti nátt­úru í huga.

Sam­vinna í orku­mál­um

Orku­mál eiga ekki að vera vett­vang­ur fyr­ir skot­graf­ir og upp­hróp­an­ir. Við þurf­um sam­vinnu, fag­lega nálg­un og lausnamiðaða stefnu sem trygg­ir hags­muni bæði nú­ver­andi og kom­andi kyn­slóða. Framtíð Íslands á það skilið.

Megi traust ríkja í nýt­ingu okk­ar ein­stöku og fjöl­breyttu auðlinda á grunni virðing­ar fyr­ir nátt­úru og um­hverfi.

Ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Friður felst í því að efla varnir

Deila grein

20/02/2025

Friður felst í því að efla varnir

Þess er minnst um heim all­an að 80 ár eru síðan seinni heims­styrj­öld­inni lauk en hún fól í sér mestu mann­fórn­ir í ver­ald­ar­sög­unni. Víða hef­ur verið háð stríð eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina en ekk­ert í lík­ind­um við hana. Öll vit­um við að friður er far­sæl­ast­ur og býr til mesta vel­meg­un í sam­fé­lagi manna.

Mikið upp­nám hef­ur ríkt í alþjóðastjórn­mál­un­um eft­ir ör­ygg­is­ráðstefn­una í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heims­mynd­in sé gjör­breytt vegna hvatn­ing­ar stjórn­ar Banda­ríkj­anna um að Evr­ópa taki á sig aukn­ar byrðar í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. En á þessi afstaða Banda­ríkj­anna að koma á óvart?

Skila­boðin hafa alltaf verið skýr um að Evr­ópa þyrfti að koma frek­ar að upp­bygg­ingu í eig­in ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Í kjöl­far stór­felldr­ar inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu fyr­ir þrem­ur árum hef­ur Evr­ópu ekki tek­ist að styrkja varn­ir sín­ar í takt við um­fang árás­ar Rúss­lands, að und­an­skild­um ríkj­um á borð við Pól­land og Eystra­salts­rík­in. Evr­ópa hef­ur held­ur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rúss­land. Í merki­legu viðtali sem tekið var við Jens Stolten­berg við brott­hvarf hans úr stóli fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins lagði hann ríka áherslu á mik­il­vægi þess að ríki í Evr­ópu myndu styrkja og auka sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um ásamt því að staða Atlants­hafs­banda­lags­ins yrði styrkt.

Fyr­ir Ísland er mik­il­vægt að vera með sterka banda­menn beggja vegna Atlantsála. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in hef­ur auk­ist und­an­far­in miss­eri. Ísland hef­ur tryggt nauðsyn­lega varn­araðstöðu og -búnað fyr­ir loft­rýmis­eft­ir­lit og aðrar NATO-aðgerðir. Banda­rík­in hafa tekið þátt í loft­rým­is­gæslu og stutt við varn­ir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upp­lýs­ingaflæði, sam­ráð og sam­eig­in­leg­ar æf­ing­ar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvu­ör­yggi. Meg­in­mark­miðið hef­ur verið að efla tví­hliða varn­ar­sam­starf og tryggja ör­yggi á Norður-Atlants­hafi.

Ísland er ekki und­an­skilið í þeim efn­um að veita auk­inn stuðning til ör­ygg­is- og varn­ar­mála. Það er brýnt að við sinn­um okk­ar hlut­verki til þess að sinna og efla varn­ir lands­ins inn­an þeirr­ar getu sem er fyr­ir hendi. Við höf­um átt í far­sælu sam­starfi og sam­vinnu við helstu banda­lagsþjóðir okk­ar og mik­il­vægt er að fram­hald verði á því til að styðja við sjálf­stæði þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Deila grein

19/02/2025

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Í gær mælti ég fyrir þingsályktun á Alþingi þess efnis að fasteignakaupendur geti tekið óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir heimili landsins. Þessi möguleiki er sjálfsagður hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en hefur ekki verið tryggður íslenskum neytendum. Stórar fjárhagslegar ákvarðanir á borð við fasteignakaup ættu að byggja á fyrirsjáanleika í afborgunum og hagstæðum kjörum, en íslenskir bankar bjóða ekki upp á sambærileg lán og gerist erlendis.

Þessar aðgerðir hafa verið til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins og voru hluti af skoðun sem ég hóf fljótlega eftir að ég kom í fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Nú liggur fyrir skýrsla, grundvölluð á þeirri vinnu sem ég setti af stað, og mikilvægt að afrakstur þeirrar vinnu nái nú fram að ganga. Við eigum að tryggja íslenskum heimilum sömu valmöguleika og fasteignakaupendur hafa í nágrannalöndunum í stað þess að vera föst í úreltu fjármálafyrirkomulagi sem vinnur gegn þeirra hagsmunum.

Íslenskir bankar eru of smáir og bundnir eigin fjármagnskostnaði, sem gerir þeim erfitt fyrir að veita óverðtryggð lán á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Á hinn bóginn er íslenska ríkið og lífeyrissjóðir í sterkari stöðu til að veita slíka fjármögnun, sem gæti útvegað heimilum stöðugri og hagstæðari lánskjör.

Til að bankar geti veitt óverðtryggð fasteignalán til lengri tíma, það er yfir 20 ár, þarf íslenski fjármálamarkaðurinn að þróast. Stjórnvöld hafa hér tækifæri til að bæta regluverk og gera fjármálamarkaðinn sveigjanlegri, svo fjármálastofnanir geti boðið upp á slík lán líkt og í nágrannalöndunum. Áhrif þessarar kerfisbreytingar gæti einnig haft í för með sér lægri vaxtakostnað fyrir ríkissjóð þannig að þar er til mikils að vinna.

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Með innleiðingu óverðtryggðra langtímalána á hagstæðum föstum vöxtum fá fasteignakaupendur fyrirsjáanlega fjármögnun og eru ekki berskjaldaðir fyrir hækkandi vöxtum eða verðbólgu. Það veitir heimilum stöðugleika og dregur úr áhættu. Önnur áhrif þessarar kerfisbreytingar að fólk mun síður taka verðtryggð húsnæðislán og færa sig í stöðugra umhverfi.

Eins og áður sagði þá liggja nú fyrir útfærslur á þessari leið en þeirri vinnu var skilað til fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum vikum. Ríkisstjórninni er því ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu þessarar kjarabótar fyrir íslensk heimili. Við í Framsókn munum fylgja þessu máli fast eftir og kalla eftir aðgerðum til þess að þetta markmið okkar náist.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Pólitísk ábyrgð

Deila grein

19/02/2025

Pólitísk ábyrgð

Ný rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur nú birt þing­mála­skrá sína, en skrá­in fel­ur í sér yf­ir­lit um þau mál sem rík­is­stjórn­in hyggst leggja fram á þing­inu ásamt áætl­un um hvenær þeim verður dreift. Þing­mála­skrá­in hef­ur vakið at­hygli, ekki síst vegna þess að stór hluti henn­ar bygg­ir á mál­um sem þegar voru í und­ir­bún­ingi hjá fyrri rík­is­stjórn. Það vek­ur upp spurn­ing­ar um hversu illa hafi í raun verið stjórnað áður, eins og gefið var í skyn af nú­ver­andi vald­höf­um, í ljósi þess hve margt er nú tekið upp á ný af sömu aðilum og gagn­rýndu fyrri stjórn harðlega. Vit­an­lega gef­ur þetta til kynna að fjöl­mörg mik­il­væg og brýn mál hafi verið í far­vegi og staða þjóðarbús­ins hafi verið góð.

Hvar eru kosn­ingalof­orðin?

Við yf­ir­lest­ur þing­mála­skrár­inn­ar sést að sum af þeim kosn­ingalof­orðum sem voru sett fram með mikl­um þunga fyr­ir kosn­ing­ar eru hvergi sjá­an­leg. Það virðist nefni­lega vera óskráð regla í ís­lensk­um stjórn­mál­um að kosn­ingalof­orð breyt­ast á einni nóttu (eft­ir kosn­ing­ar) í ein­hvers kon­ar stefnu­mark­mið sem ekki þarf að standa við. Það er áhyggju­efni að stjórn­mála­menn skuli ekki axla meiri ábyrgð gagn­vart kjós­end­um sín­um og sýna að lof­orð verði efnd.

Ófyr­ir­séð fjár­málastaða – eða fyr­ir fram þekkt?

Í upp­hafi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðna var full­yrt að nýj­ar upp­lýs­ing­ar um fjár­hags­stöðu rík­is­ins gerðu nýrri rík­is­stjórn það ómögu­legt að efna gef­in lof­orð. Þetta er sér­stak­lega áhuga­vert í ljósi þess að all­ar upp­lýs­ing­ar um af­komu og efna­hag hins op­in­bera lágu þegar fyr­ir við gerð fjár­laga fyr­ir árið 2025 og voru öll­um flokk­um vel kunn­ar í fjár­laga­nefnd. Þetta vek­ur spurn­ing­ar um hvort stjórn­ar­flokk­arn­ir hafi gefið lof­orð án þess að ætla sér raun­veru­lega að standa við þau, eða hvort þeir hafi ein­fald­lega hunsað fyr­ir­liggj­andi gögn.

Sam­göngu­mál í upp­námi

Sam­göngu­mál hafa verið fyr­ir­ferðar­mik­il í umræðunni, sér­stak­lega í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Það er já­kvætt að fram­kvæmd­ir á Dynj­and­is­heiði og í Gufu­dals­sveit eru tryggðar í fjár­lög­um fyr­ir 2025, en lof­orð um tvenn jarðgöng á hverj­um tíma, sem innviðaráðherra gaf fyr­ir kosn­ing­ar, sjást ekki í þing­mála­skránni. Ný sam­göngu­áætlun er ekki vænt­an­leg fyrr en í haust, og ljóst er að for­gangs­röðun verður lyk­il­atriði. Fólk í kjör­dæm­inu hef­ur vænt­ing­ar um að lof­orðin verði efnd og að sam­göngu­bæt­ur verði að veru­leika – ekki aðeins orð á blaði.

Á síðasta lög­gjaf­arþingi var því ít­rekað haldið fram af nú­ver­andi sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra að nægt fjár­magn væri til staðar til að hefja fram­kvæmd­ir. Þannig voru gef­in lof­orð um Álfta­fjarðargöng, göng um Mikla­dal og Hálf­dán (Suður­fjarðargöng), tvö­föld­un Hval­fjarðargangna og göng und­ir Kletts­háls.

Nú virðist sem tónn­inn sé breytt­ur. Stjórn­mál eiga þó að byggj­ast á ábyrgð, og stjórn­mála­menn verða að standa við gef­in fyr­ir­heit.

Breytt afstaða til stjórn­ar­skrár?

Eitt það furðuleg­asta í störf­um hinn­ar nýju rík­is­stjórn­ar er stefnu­breyt­ing sumra ráðherra varðandi stjórn­ar­skrána. Ráðherra sem áður sagði að bók­un 35 stæðist ekki stjórn­ar­skrá styður nú ekki aðeins málið held­ur er sjálf­ur í rík­is­stjórn sem hyggst leggja það fram. Þetta vek­ur upp spurn­ing­ar um hvort siðferði og prinsipp skipti í raun máli í stjórn­mál­um, eða hvort sjón­ar­mið ís­lenskra flokka breyt­ist ein­fald­lega eft­ir því hvort þeir séu í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu.

Sam­ein­ing sýslu­mann­sembætta

Til­laga um að sam­eina sýslu­mann­sembætt­in í eitt hef­ur einnig vakið mikla umræðu. Þetta myndi þýða að embætt­in, sem gegna gríðarlega mik­il­vægu hlut­verki hins op­in­bera í hverj­um lands­hluta, yrðu sam­einuð í eina miðlæga stofn­un. Við í Fram­sókn telj­um slíkt ekki til fram­fara, en styðjum þess í stað aukið sam­starf embætt­anna, skil­virk­ari verka­skipt­ingu og betri sam­vinnu.

Ábyrgð og sam­vinna í stjórn­mál­um

Þrátt fyr­ir of­an­greind­ar áhyggj­ur og sjón­ar­mið vil ég leggja áherslu á að all­ir þing­menn, óháð flokksaðild, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna að hags­mun­um þjóðar­inn­ar. Þó að stefn­ur og áhersl­ur séu mis­mun­andi ætti mark­miðið alltaf að vera að gera Ísland betra í dag en í gær. Ég hlakka til sam­starfs­ins á þessu kjör­tíma­bili og vona að stjórn­mála­menn sýni bæði ábyrgð og staðfestu í ákvörðunum sín­um.

Við eig­um ávallt að stefna að því að gera bet­ur. Það á að vera meg­in­regl­an í allri póli­tík.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Deila grein

19/02/2025

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Sæll Daði Már Kristó­fers­son! Þegar þú ung­ur dreng­ur stóðst á hlaðinu í Reyk­holti og horfðir yfir hið fagra hérað Borg­ar­fjörð, þá hreifstu af hinni miklu feg­urð og land­gæðum sem blöstu við í ríki Snorra Sturlu­son­ar! Gróið hérað glæsi­leg lönd bænda og land­búnaðar­ins, jarðhiti, blóm­leg bænda­býli og gott und­ir bú. Þú hef­ur hugsað til Snorra og bók­fell­anna sem naut­in gáfu til að skrifa sögu Íslands og Norður­land­anna. Þú hef­ur heill­ast af þeim tæki­fær­um sem land­búnaður­inn gaf og gæti enn gefið þjóð þinni. Þú hugsaðir um að gam­an væri að mennta þig í land­búnaðarfræðum og árið 2000 út­skrifaðistu með B.Sc.-gráðu í land­búnaðarfræðum frá Land­búnaðar­há­skóla Íslands á Hvann­eyri. Sama ár sótt­ir þú þér meist­ara­gráðu frá Agricultural Uni­versity í Nor­egi, allt eft­ir hag­fræðinámið.

Þú hef­ur sem land­búnaðar­hag­fræðing­ur sinnt land­búnaði og oft flutt góð er­indi og til­lög­ur á bændaþing­um. Nú skrifa ég þér þess­ar lín­ur af því að þú kannt fræðin bet­ur en flest­ir og komn­ar eru upp deil­ur við ESB út af skil­grein­ingu á ost­um sem snýr að öll­um EES-þjóðunum Íslandi, Nor­egi og Sviss. Um er að ræða 85% mjólkurost með jurta­feiti. Spurn­ing­in er und­ir hvort flokk­ast ost­ur­inn, mjólk eða jurta­ríkið? Þú veist jafn­vel og und­ir­ritaður að 45% vín er sterkt vín, að bjór og hvítt og rautt er létt­vín, hvað þá 85% mjólkurost­ur, hann hlýt­ur að vera frá land­búnaði. Nor­eg­ur og Sviss hafa haldið sinni skil­grein­ingu þrátt fyr­ir kröfu­gerð ESB, Nor­eg­ur í 12 ár. Verði niðurstaða þín röng tapa tíu til fimmtán bænd­ur á Íslandi vinnu sinni við að fram­leiða mjólk að talið er. Og ef þú ger­ir mis­tök munu heild­sal­ar gera kröfu um að þú far­ir rangt að á fleiri sviðum í þinni embætt­is­færslu. Ég treysti þér þar til annað kem­ur í ljós, Daði Már.

Sann­leik­ur­inn birt­ist enn og aft­ur

Er þetta er ritað, 17. fe­brú­ar, ligg­ur fyr­ir enn ein niðurstaða dóm­stóla í máli þar sem sjón­ar­miðum þeirra sem sótt hafa ít­rekað að rík­inu var hafnað enn og aft­ur. Þetta snýst um skil­grein­ing­ar skatta- og tolla­yf­ir­valda um toll­flokk­un á pizza­osti, sem eins og fyrr seg­ir er sam­sett­ur af 85% hluta mjólkurosts. Á það þá að vekja undr­un og jafn­vel átök að slík vara kall­ist ost­ur? Sér­fræðing­ar viðkom­andi stofn­ana hafa unnið sitt starf sam­kvæmt skyldu sinni og af sann­fær­ingu við viðkom­andi toll­flokk­un.

Það er skylda hvers manns, og ekki síst stjórn­mála­manna, að gæta að hags­mun­um okk­ar allra. Þeir fel­ast hvað sterk­ast í því að verja markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni þjóðar­inn­ar sem og at­vinnu­tæki­færi okk­ar. Það er ekki til­vilj­un ein að okk­ur stærri lönd, og sam­bönd þeirra, verji fyrst og fremst markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni sinna þjóða og þá verðmæta­sköp­un sem þeim fylg­ir.

En nú er mál að linni. Þess­ari sneypu­för sem fólg­in er í veg­ferðinni um þenn­an pizza­ost verður að ljúka. Mál­flutn­ing­ur þeirra sem sótt hafa að stofn­un­um rík­is­ins í gegn­um dóm­stóla er bor­inn fram í – að menn halda – fleytifullri fötu sann­leik­ans. En það er ekki svo – fat­an held­ur engu og allt lek­ur úr aft­ur og aft­ur eins og forðum.

Botn­inn er suður í Borg­ar­f­irði!

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Deila grein

17/02/2025

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er einn af hornsteinum íslensks velferðarkerfis og á að vera réttur allra landsmanna, óháð búsetu og efnahag. Þrátt fyrir að Ísland státi af öflugu heilbrigðiskerfi, standa íbúar landsbyggðarinnar enn frammi fyrir hindrunum sem borgarbúar þurfa ekki að takast á við. Ein af þessum hindrunum er ferðakostnaður við að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Sú staðreynd að ferðum einstaklinga hefur verið fjölgað úr tveimur í fjórar á síðasta kjörtímabili er mikið fagnaðarskref, en enn er verk að vinna til að tryggja raunverulegt jafnrétti í aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Ófullnægjandi fyrirkomulag

Einstaklingar á landsbyggðinni sem þurfa að ferðast til Reykjavíkur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eiga rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar gegn framvísun staðfestingar á læknisheimsókn. Þrátt fyrir að þetta úrræði sé mikilvægt, hefur komið í ljós að það er ekki alltaf sanngjarnt eða réttlátt. Tilvik hafa komið upp þar sem einstaklingar hafa ferðast langar vegalengdir í góðri trú, en læknistímar þeirra hafa verið afbókaðir með skömmum fyrirvara af hálfu heilbrigðisstofnana. Í slíkum tilfellum eru sjúklingar ekki einungis sviptir nauðsynlegri læknisþjónustu, heldur einnig réttinum til endurgreiðslu á ferðakostnaði.

Kostnaður vegna þjónustu sem ekki er veitt

Slíkt fyrirkomulag er ekki aðeins ósanngjarnt heldur veldur það fjárhagslegum kostnaði fyrir viðkomandi einstaklinga. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur verið umtalsverður, sérstaklega fyrir þá sem eru tekjulágir eða búa á afskekktum svæðum. Þegar einstaklingur hefur þegar lagt í för og læknistíminn fellur niður af ástæðum sem hann sjálfur ræður ekki við, er ekki réttlátt að hann beri kostnaðinn.

Til að tryggja sanngjarnara og réttlátara kerfi er nauðsynlegt að sjúklingar fái ferðakostnað endurgreiddan jafnvel þótt læknistími þeirra falli niður af hálfu heilbrigðisstofnana. Með því væri dregið úr fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og tryggt að landsbyggðarfólk hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á sömu eða amk. svipuðum forsendum og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er réttlætismál að sjúklingar sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlega meðferð njóti sanngjarnari meðferðar í endurgreiðslukerfinu.

Undirrituð vinnur að málinu

Undirrituð vinnur nú að framlagningu máls á Alþingi þar sem lagðar verða til breytingar á núverandi reglum um ferðakostnað sjúklinga. Markmiðið er að tryggja að þeir sem lenda í þeirri stöðu að læknistímar þeirra falli niður af ástæðum sem þeir ráða ekki við, eigi samt rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar.

Þessi breyting yrði mikilvægt skref í átt að raunverulegu jafnrétti innan heilbrigðiskerfisins og myndi stuðla að því að allir landsmenn njóti sama aðgengis að nauðsynlegri læknisþjónustu, óháð búsetu þeirra. Jafnrétti til heilbrigðisþjónustu má ekki einungis vera markmið á pappír – það verður að endurspeglast í framkvæmd kerfisins.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Skattahækkanir, mið­stýring og ESB-þráhyggja

Deila grein

16/02/2025

Skattahækkanir, mið­stýring og ESB-þráhyggja

Eitt helsta einkenni núverandi ríkisstjórnar undir forystu Kristrúnar Frostadóttur er sterk tilhneiging til miðstýringar. Það er áhyggjuefni hvernig ríkisafskipti eru að aukast á mörgum sviðum án þess að nægur sveigjanleiki sé til staðar fyrir frumkvæði í atvinnulífinu og einkarekstri. Sósíaldemókratísk stefna leggur of oft áherslu á lausnir þar sem ríkið á að sjá um allt, frekar en að skapa skilyrði fyrir heilbrigða samkeppni og sjálfbærar lausnir.

Framsókn hefur alla tíð talað fyrir jafnvægi milli ríkis og einkageirans – ríkið á ekki að kæfa frumkvæði með of miklum höftum og reglugerðum heldur styðja við fólk og fyrirtæki með skynsamlegum hætti. Þegar horft er til efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar virðist skorta þessa skynsemi og sveigjanleika.

Landsbyggðin gleymd

Eins og svo oft áður virðist áhersla ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst liggja á Höfuðborgarsvæðinu, en hvað með landsbyggðina? Það er lítið sem ekkert sem bendir til þess að stjórnin hafi metnað fyrir raunverulegum aðgerðum til að styrkja byggðir utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er grundvallaratriði að tryggja sterkar byggðir um allt land með öflugri atvinnustefnu, góðri innviðaþróun og hagstæðum skattaívilnunum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Í staðinn virðist stefna ríkisstjórnarinnar fara í öfuga átt – áframhaldandi höfuðborgarmiðaðar aðgerðir sem gera lítið fyrir lífsskilyrði og framtíð fólks á landsbyggðinni.

Við í Framsókn teljum að byggðastefna verði að vera öflug og markviss, ekki eitthvað sem ríkisstjórnin tekur upp í orði en ekki á borði. Það þarf að tryggja atvinnutækifæri, byggja upp samgöngur og huga að framtíðarsýn sem felur ekki bara í sér borg og miðstýrt kerfi, heldur einnig samfélög um allt land.

Alþjóðastefna sem hættir að vinna gegn íslenskum hagsmunum

Kristrún Frostadóttir hefur talað um nauðsyn þess að treysta alþjóðasamstarf og efla samskipti við Evrópusambandið. Þó samstarf við önnur ríki sé mikilvægt, má það ekki ganga gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Það virðist þó vera stefna ríkisstjórnarinnar að færa okkur nær Evrópusambandinu með skrefum sem veita erlendum stofnunum meira vald yfir okkar innlendum málefnum. Sérstaklega eru áhyggjur varðandi sjávarútveg og landbúnað, þar sem Íslendingar þurfa að hafa full yfirráð yfir eigin auðlindum. Framsókn hefur ávallt verið skýr í því að sjálfstæði Íslands í þessum málum er ósveigjanlegt grundvallaratriði.

Við verðum að gæta þess að stefna í alþjóðamálum sé í þágu okkar eigin fólks og atvinnuvega, en ekki hluti af óraunhæfri hugmyndafræði sem setur hagsmuni Íslendinga í annað sæti.

Sjálfbærar efnahagsaðgerðir – ekki skattahækkanir

Ein stærsta gagnrýni sem hægt er að færa á ríkisstjórn Kristrúnar er skortur á sjálfbærni í efnahagsmálum. Í stað þess að beita markvissum lausnum til að örva hagvöxt og auka framleiðni, virðist stjórnin líta til skattahækkana sem aðalúrræðisins til að fjármagna loforð sín.

Sósíaldemókratísk stefna gengur of oft út á að hækka álögur á fyrirtæki og einstaklinga, án þess að huga nægilega að langtímaafleiðingum þess fyrir hagkerfið. Ef við viljum tryggja velferðarkerfi sem stendur undir sér til framtíðar, þarf skynsamlega fjármálastjórn og stuðning við atvinnulíf, ekki stefnulausa skattahækkanastefnu sem dregur úr hvata til fjárfestinga og nýsköpunar.

Tími til að stjórna af raunsæi – ekki hugmyndafræðilegum kreddum

Að lokum má segja að stærsta vandamálið við ríkisstjórn Kristrúnar sé skortur á raunverulegri pragmatískri nálgun. Þegar stjórnmál eru drifin áfram af hugmyndafræðilegum forsendum sem kallast í þessi tilfelli plan Samfylkingarinnar verður stjórnin óraunsæ og lausnamiðuð nálgun víkur fyrir flokkspólitískum markmiðum.

Framsókn hefur alltaf verið flokkur sem leggur áherslu á skynsamlegar, hagnýtar lausnir, fyrir ísland allt. Við þurfum ríkisstjórn sem hugsar um heildarhagsmuni landsins, ekki einungis um hvernig hægt sé að framkvæma sósíaldemókratíska stefnu án þess að horfa til raunveruleikans.

Það er sú nálgun sem Framsókn stendur fyrir, og það er sú nálgun sem Ísland þarf.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Deila grein

15/02/2025

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Við upp­haf nýs kjör­tíma­bils standa von­ir margra til þess að stjórn­mál­in verði afl sam­ein­ing­ar frek­ar en sundr­ung­ar. Þjóðin þarf á sam­stöðu að halda, ekki síst á tím­um efna­hags­legra áskor­ana og auk­inn­ar óvissu í alþjóðamál­um. Hins veg­ar vek­ur það áhyggj­ur að ný rík­is­stjórn sýn­ir eng­an skýr­an vilja til slíkr­ar sam­ein­ing­ar, ef marka má stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra.

Hús­næðismál í for­gangi

For­gangs­mál Fram­sókn­ar nú við upp­haf þings er þing­mál um 25 ára óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Sú leið sem við höf­um lagt til, og bygg­ir á vinnu sem sett var af stað í minni tíð í fjár­málaráðuneyt­inu, hef­ur vakið at­hygli enda um mikla kjara­bót að ræða fyr­ir ís­lensk heim­ili. Það er mjög mik­il­vægt fyr­ir lán­tak­end­ur að hafa ör­yggi og fyr­ir­sjá­an­leika við af­borg­an­ir hús­næðislána og nái þessi áform fram að ganga mun það tryggja betri lána­kjör með bætt­um hag fyr­ir heim­il­in.

Upp­bygg­ing leigu­hús­næðis

Við í Fram­sókn mun­um líka styðja við aukna upp­bygg­ingu leigu­hús­næðis í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Það er fagnaðarefni að ný rík­is­stjórn ætli að halda áfram á þeirri braut sem við í Fram­sókn höf­um markað og nú hef­ur verið veitt­ur stuðning­ur til bygg­ing­ar 4.000 íbúða í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Við þurf­um með þess­um hætti að stuðla að fjöl­breytt­ari og hag­kvæm­ari val­kost­um á leigu­markaði. Um 1.000 fjöl­skyld­ur hafa eign­ast sitt eigið hús­næði með til­komu hlut­deild­ar­lána en áfram þarf að efla þetta úrræði og tryggja að það gagn­ist sem flest­um. Með þess­um aðgerðum í hús­næðismál­um get­um við stuðlað að auknu hús­næðis­ör­yggi og aukið lífs­gæði fólks.

For­gang­ur heim­ila og smærri fyr­ir­tækja að raf­orku

Annað for­gangs­mál Fram­sókn­ar er til­laga um for­gang heim­ila og lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja að raf­orku. Um leið er mik­il­vægt að inn­leiða verðvernd og stuðla þannig að hag­kvæmu orku­verði til handa heim­il­um og at­vinnu­lífi. Reynsla annarra þjóða, t.d. Norðmanna, þar sem raf­orku­kostnaður rauk upp er víti til varnaðar.

At­vinna og verðmæta­sköp­un

Sterkt at­vinnu­líf er und­ir­staða góðra lífs­kjara. At­vinnu­leysi á Íslandi er lágt í sam­an­b­urði við önn­ur lönd en ný rík­is­stjórn sýn­ir litla framtíðar­sýn í at­vinnu­mál­um, sér­stak­lega utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Það vek­ur einnig áhyggj­ur að fyr­ir­hugaðar skatta­hækk­an­ir á sjáv­ar­út­veg­inn muni bitna sér­stak­lega á minni og meðal­stór­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tækj­um, sem get­ur leitt til enn frek­ari samþjöpp­un­ar í grein­inni.

Hvað verður um ís­lensk­an land­búnað?

Óljós stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar í land­búnaðar­mál­um veld­ur einnig áhyggj­um. Á að svipta bænd­ur rétti sín­um til að reka eig­in fyr­ir­tæki á sama tíma og er­lend­ir bænd­ur njóta slíks rétt­ar? Er verið að hygla stór­um inn­flutn­ingsaðilum á kostnað ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu? Í heimi þar sem fæðuör­yggi verður sí­fellt mik­il­væg­ara ætti rík­is­stjórn­in að leggja áherslu á að styrkja ís­lensk­an land­búnað í stað þess að veikja hann.

Ómark­viss stefna í ferðaþjón­ustu

Ferðaþjón­ust­an er mik­il­væg at­vinnu­grein fyr­ir Ísland og hef­ur skapað fjöl­mörg störf og mik­il verðmæti. Sam­keppn­is­hæfni grein­ar­inn­ar er hins veg­ar viðkvæm og því vek­ur það furðu að rík­is­stjórn­in sé að hringla með óljós­ar skatt­heimtu­hug­mynd­ir sem geta skaðað grein­ina. Stöðug­leiki og skýr stefna eru lyk­il­atriði til að tryggja áfram­hald­andi vöxt ferðaþjón­ust­unn­ar, en af umræðunni að dæma virðist rík­is­stjórn­in ekki hafa neina skýra sýn um framtíð henn­ar.

Þögn­in um þjóðar­at­kvæði

Eitt það at­hygl­is­verðasta við stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra var hvað ósagt var látið. Eng­in umræða fór fram um mögu­lega þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þrátt fyr­ir að Sam­fylk­ing­in og Viðreisn hafi lagt mikla áherslu á málið. Enn meira kem­ur á óvart að Flokk­ur fólks­ins hafi skipt um stefnu í mál­inu og veiti nú slík­um hug­mynd­um stuðning. Raun­ar virðast fá stefnu­mál flokks­ins, sem kynnt voru svo mynd­ar­lega í aðdrag­anda kosn­inga, hafa hlotið braut­ar­gengi.

Ábyrgð rík­is­stjórn­ar­inn­ar

Það eru vissu­lega tæki­færi til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi. En til að nýta þau þarf rík­is­stjórn sem sam­ein­ar þjóðina í stað þess að sundra henni. Við í Fram­sókn erum til­bú­in að vinna að upp­bygg­ingu sam­fé­lags­ins og vinna sam­an að góðum mál­um. En við mun­um einnig veita rík­is­stjórn­inni nauðsyn­legt aðhald þar sem þess ger­ist þörf. Það er ekki nóg að tala um framtíðar­sýn – það þarf að fram­kvæma. Við þurf­um stefnu sem tek­ur til­lit til alls lands­ins, ekki stefnu sem veik­ir lands­byggðina, skaðar at­vinnu­lífið og van­ræk­ir mik­il­væg mál á borð við at­vinnu, innviði og fæðuör­yggi.

Sigurur Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóra

Deila grein

14/02/2025

Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóra

Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri hef­ur nú sýnt að hann er flest­um stjórn­mála­mönn­um fremri, sann­fær­ing ræður för. Hann hik­ar ekki við að fórna starfi og stund­ar­frama þegar ekk­ert miðar í þeim áform­um sem hann og flokk­ur hans hétu Reyk­vík­ing­um og þjóðinni í mál­efn­um höfuðborg­ar­inn­ar. Stærst veg­ur þar sú ábyrgð að standa með líf­inu, frammi fyr­ir þeirri lífs­hættu sem flugáhöfn­um og farþegum er bú­inn á Reykja­vík­ur­flug­velli. Þar veg­ur þyngst sjúkra­flug með fólk í lífs­áhættu þar sem ekki mín­út­ur held­ur sek­únd­ur skipta máli. Takið eft­ir, oft er eins og flug­völl­ur­inn í Vatns­mýr­inni sé bara sjúkra­flug­völl­ur lands­byggðarfólks. Reyk­vík­ing­arn­ir og höfuðborg­ar­bú­arn­ir skipta þúsund­um sem eiga flug­vell­in­um líf sitt eða ást­vin­ar síns að launa.

Það er mik­il sorg­ar­saga hvernig stjórn­mála­menn hafa látið leiða sig út í hvert óhæfu­verkið eft­ir annað til að slátra Reykja­vík­ur­flug­velli með heimsku­leg­um aðgerðum. Þrengja mis­kunn­ar­laust að flug­vell­in­um eins og ann­ar flug­völl­ur sé inn­an seil­ing­ar, sem loks­ins er viður­kennt eft­ir ákvörðun Ein­ars og umræðu hans og fleiri um flug­völl­inn að er ekki til staðar og ekki í sjón­máli.

Nú ligg­ur fyr­ir að í Hvassa­hrauni eru glóru­laus áform um vara- og neyðarflug­völl, sem samt er haldið áfram með. Íþrótta­fé­lagið Val­ur hef­ur með mis­kunn­ar­laus­um ásetn­ingi haldið áfram að sækja leyfi til að byggja blokk­ir til að eyðileggja flug­völl­inn, og bygg­ing­arn­ar eru farn­ar að ögra með svipti­vind­um flugi á flug­braut­inni þeirri einu sem opin er. Svo stend­ur til að þrengja svo um mun­ar að flug­vell­in­um með risa­blokk­um í Skerjaf­irði, borg­in með ráðherra­leyfi sem ber að aft­ur­kalla.

Loks­ins tókst þér Ein­ar Þor­steins­son, á neyðar­stundu þegar aðflugi að flug­vell­in­um, neyðarbraut­inni, er lokað, að fá liðið í borg­ar­stjórn­inni til að skipta um skoðun, já eða þora ekki annað en að taka sjúk­linga fram yfir tré. Skóg­ar­höggið er hafið og öll þessi tré eiga að fara og byggja úti­vist­ar­svæði með göngu­braut­um, birki­trjám og blóm­um.

For­sæt­is-, um­hverf­is- og orku­málaráðherra eru geng­in í lið með Ein­ari og krefjast aðgerða. Eyj­ólf­ur Ármanns­son sam­gönguráðherra hef­ur talað skýr­ast allra ráðherra fyrr og síðar, burt með trén. Marg­ir eru söku­dólg­ar í máli flug­vall­ar­ins en einn mann ber þar hæst, hann ætti að spyrja í dags­birtu hvaða skoðun hann hafi á hinni miklu neyðaraðgerð að höggva skóg­inn við þær aðstæður sem nú blasa við, eða lok­un neyðarbraut­ar­inn­ar? Og ann­arri enn mik­il­væg­ari neyðarbraut var áður fórnað og lokað.

Til ham­ingju Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri, það er stál­vilji og virðing­ar­vert að hverfa frá völd­um og neita að bera ábyrgð þar sem harm­leik­ur get­ur átt sér stað á hverri stundu á skert­um ör­ygg­is­flug­velli Íslands í Reykja­vík. Ég vildi ekki bera ábyrgð á þeirri stöðu. En þú les­andi minn? Lesið svo sög­una á Vísi af Birni Sig­urði Jóns­syni sauðfjár­bónda þar sem lækn­ir hans sagði að tvær mín­út­ur hefðu skilið á milli lífs og dauða. Hjart­anu í Vatns­mýr­inni blæðir nú.

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Saga Íslands og Grænlands samofin

Deila grein

13/02/2025

Saga Íslands og Grænlands samofin

Áhugi á Græn­landi hef­ur stór­auk­ist eft­ir að for­seti Banda­ríkj­anna lýsti yfir vilja sín­um til að eign­ast landið. Mik­il­vægi Græn­lands hef­ur auk­ist veru­lega í breyttri heims­mynd. Auðlind­ir Græn­lands eru afar mikl­ar á sviði málma og steinefna, olíu og gass, vatns, orku, fisk­veiða og ferðaþjón­ustu. Vegna lofts­lags­breyt­inga aukast lík­urn­ar á því að hægt sé að nýta auðlind­ir Græn­lands í meira mæli en síðustu ár­hundruðin.

Sam­skipti og saga Íslands og Græn­lands er stór­merki­leg og er vel skrá­sett í tengsl­um við land­nám og sigl­ing­ar milli Íslands, Nor­egs og Norður-Am­er­íku.

Nefna má í þessu sam­hengi; Ei­ríks sögu rauða, Græn­lend­inga­sögu, forn­manna­sög­ur og fleiri rit eins og Flat­eyj­ar­bók.

Í þess­um rit­um má finna at­vinnu­sögu ríkj­anna og hvernig sigl­ing­ar skipuðu veiga­mik­inn sess í viðskipt­um og vel­sæld þeirra.

Sög­un­ar gefa ein­staka inn­sýn í fyrstu skrá­settu viðskipta­sam­skipti Evr­ópu­búa við frum­byggja Norður-Am­er­íku og hver ávinn­ing­ur og áhætt­an voru í þess­um efn­um.

Saga ríkj­anna er samof­in frá land­náms­öld fram á 15. öld, en síðustu ritaðar heim­ild­ir um nor­rænt sam­fé­lag á Græn­landi eru frá ár­inu 1408, þegar ís­lensk hjóna­vígsla átti sér stað í Hvals­eyj­ar­kirkju í Eystri­byggð.

Ein stærsta ráðgáta sögu norður­slóða er hvarf þess­ar­ar byggðar nor­ræns fólks af Græn­landi. Ýmsar til­gát­ur hafa verið nefnd­ar og eru þess­ari sögu, til dæm­is, gerð góð skil í bók­inni: „Hrun sam­fé­laga – hvers vegna lifa sum meðan önn­ur deyja“ eft­ir Jared Diamond pró­fess­or.

Megin­á­stæðurn­ar fyr­ir þess­ari þróun á Græn­landi eru lofts­lags­breyt­ing­ar, það er að kóln­andi lofts­lag hafi gert all­an land­búnað erfiðari.

Dregið hafi úr sigl­ing­um vegna minna fram­boðs af rekaviði og öðrum efniviði í skipa­gerð og því hafi sam­göng­ur minnkað veru­lega.

Einnig er nefnt að eft­ir­spurn eft­ir einni aðal­út­flutn­ingsaf­urð Græn­lands, rost­ung­stönn­um, hafi hrunið vegna auk­inn­ar sam­keppni frá fíla­bein­stönn­um í Afr­íku og Asíu ásamt því að svarti­dauðinn hafi leitt til mik­ill­ar fólks­fækk­un­ar á Norður­lönd­um, sem hafi minnkað Græn­landsviðskipt­in veru­lega.

Græn­land er í brenni­depli alþjóðastjórn­mál­anna vegna vax­andi tæki­færa til frek­ari auðlinda­nýt­ing­ar og land­fræðilegr­ar legu, ekki ósvipuð staða og var fyr­ir um 1000 árum.

Lyk­il­atriði fyr­ir Ísland er að tryggja greið alþjóðaviðskipti og far­sæl sam­skipti við okk­ar helstu banda­menn, þar sem lýðræði er helsta grunn­gildi þjóðar­inn­ar.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2025.