Categories
Fréttir Greinar

Mið­stýring sýslu­manns Ís­lands

Deila grein

28/01/2026

Mið­stýring sýslu­manns Ís­lands

Sýslumenn gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Þeir fara með framkvæmdavald og stjórnsýslu ríksins og er þeim ætlað að stuðla að jöfnu aðgengi að þjónustu óháð búsetu þannig að að skipulag þjónustunnar taki mið af þörfum íbúa fyrir staðbundna þjónustu. Sýslumönnum er einnig ætlað leiðbeina fólki um þjónustu ríkisstofnanna og standa vörð um starfsemi sýslumanns á landsbyggðinni, m.a. með það að markmiði að fjölga verkefnum og störfum.

Lengi hefur verið uppi umræða um stöðu sýslumanna, fjölda þeirra og staðsetningu útibúa.Lög um sameiningu og fækkun sýslumanna og aðskilnað milli sýslumanna og lögreglu var samþykkt árið 2015 á Alþingi en til að sætta sjónarmið íbúa á landsbyggðinni var fastsett hvar starfsstöðvar sýslumanns og lögreglu ættu að vera niður komnar. Var þetta gert til að koma til móts við þau byggðarsjónarmið að þjónusta og störf héldust á landsbyggðinni.

Nú er frumvarp ríkistjórnarinnar um að leggja af sýslumenn á lokametrunum í þinginu og þriðja og síðasta umræða boðuð í dag. Þar með verður sýslumönnum, fulltrúum ríkis í héraði, fækkað úr níu í einn.

Ekki liggur fyrir samkvæmt frumvarpinu hvar þessi eini verði staðsettur, hvort hann verður á höfuðborgarsvæðinu eða staðsettur utan þess. Enginn vissa er um þjónustu á landsbyggðinni eftir breytingarnar en þrátt fyrir að það sé nefnt í frumvarpinu að markmið frumvarpsins sé að efla starfsstöðvarnar á landsbyggðinni þá er ekkert í frumvarpinu sjálfu sem tryggir slíkt. Engin vissa um að útibú sýslumanna verði áfram þar sem þau eru í dag. Engin vissa um að fjöldi starfsmanna verði sá sami eða aukinn. Engin vissa fyrir því að þjónusta verði ekki skert. Engin vissa um neitt. Öll útfærsla er í höndum ráðherra sem getur með reglugerð breytt eftir eigin geðþótta. Aðkomu þingsins er ekki óskað er varðar framtíðar breytingar, ákvörðunin er alfarið í höndum framkvæmdavaldsins, hjá ráðherra.

Þessu hef ég mótmælt. Fyrir okkur sem höfum barist fyrir hagsmunum okkar svæða, bæði í sveitarstjórnum sem á Alþingi vitum að þau opinberu störf sem haldast hvað best út á landi eru í þeim stofnunum sem hafa sjálfstæðan forstöðumann staðsettan á svæðinu sem ver sína stofnun, sín störf og þjónustuna. Það er því miður staðreynd að störfin leka af landsbyggð til höfuðborgarinnar og með fækkun starfa dregur úr þjónustunni sem stofnunin á að veita íbúum.

Með því frumvarpi sem ríkistjórnin hefur nú lagt fram og er til umræðu á Alþingi er hættan sú að verulega muni draga úr opinberum störfum á landsbyggðinni sem og þeirri þjónustu sem sýslumenn veita í dag. Sporin hræða.

Það að hagræða í ríkisrekstri er nauðsynlegt og viðvarandi verkefni en að gera það á kostnað starfa og þjónustu á landsbyggðinni er ekki það sem við sem þar búum þurfum.

Að tala um eflingu landsbyggðarinnar á sama tíma verið er að skera niður störf og þjónustu þar hefur aldrei farið saman og gerir það ekki nú.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Hagur barnsins er leiðar­ljós að betra sam­fé­lagi

Deila grein

28/01/2026

Hagur barnsins er leiðar­ljós að betra sam­fé­lagi

Hversu langur á leikskóladagurinn að vera? Er það vinnumarkaðarins að stýra því eða á velferð barnsins að vera í fyrsta sæti? Eftir rúm tvö ár af breyttu fyrirkomulagi í leikskólum Kópavogs er það augljóst að styttri dagar og meiri sveigjanleiki búa til bætt starfsumhverfi fyrir öll börn, sama hversu lengi þau dvelja í leikskólanum.

Kópavogsmódelið er ekki bara skipulagsbreyting, það er samfélagsleg viðhorfsbreyting þar sem hagur barnsins er leiðarljósið. Rúmlega helmingur barna dvelur nú skemur í leikskólanum en fyrir breytingu og meðaldvalartíminn hefur styst. Dagurinn byrjar í rólegheitum þar sem börnin mæta eitt af öðru í skólann og endar með sama hætti þegar þau eru sótt. Umhverfið er því betra fyrir börnin, sér í lagi þau yngstu sem hafa minna álagsþol.

Stjórnendur og starfsfólk lýsa því að við þetta skapist meira rými og ró til að sinna þeim börnum sem þurfa á lengri dvalartíma að halda; álag hefur minnkað og starfsánægja aukist. Það sem skiptir miklu máli fyrir öryggi barnanna er að starfsmannavelta er nú minni og auðveldara er að manna stöður en áður. Raunin er sú að ekki hefur þurft að loka deildum vegna manneklu síðan módelið var innleitt.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að hagur barnsins skuli vera í forgrunni þegar ákvarðanir um líf þess eru teknar og það höfum við í Kópavogi gert. Leikskólinn er ein mikilvægasta stoð sveitarfélagsins og samfélagsins alls og við verðum að horfa á þarfir og hag barnsins sem grunnstoðirnar í öllu starfi. Með styttri leikskóladögum og auknum sveigjanleika sköpum við rými þar sem barnið fær að njóta þess að vera barn, læra í leik, mynda tengsl og þroskast í styðjandi og kærleiksríku umhverfi.

Reynsla okkar af Kópavogsmódelinu sýnir að aukinn sveigjanleiki í vistun, sex tíma gjaldfrjáls leikskóli og skráningardagar hafa skapað tækifæri fyrir foreldra til að samræma betur vinnu og fjölskyldulíf. Leiðarljós okkar, sem mótum leikskólastarf í Kópavogi, er að vera rödd barnsins, setja þarfir þess og þroska í fyrsta sæti og skapa samfélag þar sem börn fá að blómstra.

Ef svarið við spurningunni „Hverjum á kerfið að þjóna?“ er barnið – þá er leiðin skýr.

Heiðdís Geirsdóttir, formaður leikskólanefndar Kópavogs og Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Eru opin­berir starfs­menn ekki í­búar?

Deila grein

27/01/2026

Eru opin­berir starfs­menn ekki í­búar?

Undanfarið hefur verið lögð mikil áhersla á að draga fram kostnað vegna veikinda starfsmanna í hinu opinbera. Tölur eru bornar fram af þunga og notaðar sem rök fyrir því að eitthvað sé „að“ í kerfinu. Sem bæjarfulltrúi hef ég sjálf tekið þátt í þeirri gagnrýni. Það er hluti af ábyrgð kjörinna fulltrúa að fylgjast með rekstri og spyrja gagnrýninna spurninga.

Á sama tíma og þessi umræða er orðin of einföld, þá er staðreyndin sú að hún er einfaldlega hættuleg.

Við erum farin að tala um veikindi starfsfólks eins og þau séu rekstrarbrestur. Eins og fólk sé vandamálið. Sú nálgun á heima í einkarekstri þar sem markmiðið er arðsemi. Hún á ekki heima í hinu opinbera.

Hið opinbera er ekki fyrirtæki. Það er samfélag.

Starfsmenn þess eru ekki „aðrir“. Þeir eru íbúar. Þeir greiða í sameiginlega sjóði, ala hér upp börn, sinna þjónustu og bera kerfið uppi. Samband okkar við þá er ekki hefðbundið vinnusamband — heldur samfélagslegur sáttmáli.

Við vitum öll hvar mörkin liggja þegar kemur að veikindum barna. Enginn sest niður og reiknar út hvað það „kostar“ að lækna barn með krabbamein. Ég veit það af eigin reynslu. Þegar dóttir mín, Ólavía, veiktist af alvarlegu krabbameini – tvisvar með stuttu millibili – var engin umræða um kostnað í þeim skilningi. Þar ríkti algjör samstaða: við hjálpum. Punktur. Ég hef enga hugmynd um hversu miklu hefur verið varið í hennar meðferð síðustu ár. Það hleypur eflaust á hundruðum milljóna, ef ekki meira. En það skiptir einfaldlega engu máli. Í slíkum aðstæðum skipta krónur engu.

Staðreyndin er sú að ef meðferð hennar hefði verið metin út frá kostnaði, þá er ég fullviss um að hún væri ekki hér í dag.

Þessi hugsun er ekki tilviljun. Hún er meðvituð ákvörðun samfélagsins um að mannlegt líf og heilsa séu ekki mæld í krónum.

Sú ákvörðun gildir líka um fullorðna. Hún gildir líka um starfsfólk.

Þegar veikindatölur eru háar er það tilefni til að spyrja spurninga — en rangar spurningar leiða til rangra lausna. Ef við spyrjum aðeins „hvað kostar þetta?“ fáum við aðeins svar í bókhaldi. Ef við spyrjum hins vegar „hvað er að í kerfinu?“ fáum við tækifæri til raunverulegra umbóta.

Veikindi eru oft einkenni. Einkenni álags, skorts á stuðningi, ósveigjanlegra kerfa og menningar sem gerir kröfur án þess að hlúa.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa nær ekki bara til þeirra sem fá þjónustu. Hún nær líka til þeirra sem veita hana. Ef við gleymum því erum við ekki að verja samfélagið — við erum að veikja það.

Kannski er kominn tími til að hætta að telja veikindadaga.

Og byrja að telja ábyrgðina rétt.

Liv Åse Skarstad, bæjarfulltrúi Framsóknar og frjálsra á Akranesi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Ögurstund fyrir íslenskt samfélag

Deila grein

27/01/2026

Ögurstund fyrir íslenskt samfélag

Núverandi ríkisstjórn hefur sett Evrópumálin hressilega á dagskrá. Ríkisstjórnin hefur uppi áform um að keyra í gegnum þingið bókun 35, enda snýst þetta allt um að búa til gott veður milli Íslands og ESB áður en boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið fer fram. Bæði þessi atriði hafa verið boðuð á vorþingi.

Um hvað snýst bókun 35?

Í grunninn var EES-samningurinn gerður til að tengja EFTA-ríkin við innri markað Evrópusambandsins án þess að þau gengju í ESB.

En af hverju er bókun 35 svona umdeild? Vegna þess að margir telja að hún færi EES-samninginn frá því að vera samstarf um markað yfir í að vera kerfi þar sem ESB-reglur fá forgang í landsrétti.

Ef frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, um bókun 35 við EES-samninginn verður að lögum mun það leiða til þess að reglur frá Evrópusambandinu, sem hafa verið teknar upp í gegnum EES-aðild Íslands, fái sérstaka stöðu í íslenskum rétti. Slíkt regluverk myndi í reynd standa ofar annarri löggjöf sem Alþingi setur, þar sem nýlögleidd forgangsregla yrði tekin upp. Samkvæmt henni myndu EES-reglur ganga framar íslenskum lögum, einfaldlega vegna uppruna síns.

Í ljósi þessa er skiljanlegt að margir virtir lögfræðingar hafi lýst yfir áhyggjum af því að sú leið sem frumvarpið boðar geti stangast á við fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar. Meðal þeirra eru bæði fræðimenn sem telja æskilegt að innleiða bókunina, en leggja áherslu á að það verði ekki gert nema stjórnarskránni verði breytt fyrst, og aðrir sem eru alfarið andvígir henni. Afstaða lögspekinga er því langt frá því að vera einhlít og málið umdeilt. Við slíkar aðstæður hlýtur að vera eðlilegt að túlka stjórnarskrána íslensku fullveldi í hag. Eðlilegt fyrsta skref væri að fá úr því skorið með því að bera málið undir EFTA-dómstólinn.

Einn þeirra sem hafa varað við hugsanlegum árekstrum við stjórnarskrána er Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar. Í grein í afmælisriti EFTA-dómstólsins frá árinu 2014 benti hann á að ekki hefði verið unnt að ganga lengra í framkvæmd bókunar 35 innan þeirra marka sem stjórnarskrá Íslands setur. Hann taldi að stjórnarskráin heimilaði hvorki framsal löggjafarvalds til alþjóðastofnana né að landslög, sem byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum á borð við EES-samninginn, öðlist forgang fram yfir aðra almenna löggjöf eingöngu á þeim grundvelli.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kemur skýrt fram í 2. gr. að Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Komið að ögurstundu fyrir íslenskt samfélag

Íslendingar standa nú frammi fyrir því að þurfa að berjast fyrir því að halda sjálfsákvörðunarrétti sínum innanlands og verja stjórnarskrána og það er ekkert ólíklegt að það muni reyna á forseta lýðveldisins í þeim efnum. Það væri siðlaust að beita 71. grein þingskapalaga til að þvinga fram slíkt mál. Í sumar beitti forseti Alþingis þeirri grein til að stöðva umræðu og knýja fram atkvæðagreiðslu um stórt skattamál. Það frumvarp þótti þó ekki fela í sér stjórnarskrárbrot.

Nú virðist sem forseti þingsins og meirihlutinn séu reiðubúin að nota þetta sama tæki gegn lýðræðinu og fullveldinu. Það væri alvarleg valdníðsla að beita slíku ákvæði í máli sem beinlínis varðar stjórnarskrá landsins og felur í sér framsal á grundvallarrétti fullveldis.

Forsætisráðherra lýsti því yfir í upphafi ferils síns að hún teldi ekki forgangsmál að kljúfa þjóðina með aðildarumræðu um ESB eða með því að knýja fram mál sem gætu falið í sér stjórnarskrárbrot.

Ef það er hins vegar einbeittur vilji utanríkisráðherra og ríkisstjórnar að skapa slíkan ágreining gegn þjóðinni og fullveldinu með svokallaðri „bókun 35“, þá er það skýr og óumdeilanleg krafa að þjóðin fái sjálf að greiða atkvæði um slíkt framsal á fullveldisrétti og þá mun reyna á forseta Íslands.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Ís­land einn jaðar á einum stað?

Deila grein

26/01/2026

Ís­land einn jaðar á einum stað?

Umræða um jöfnun atkvæðavægis á Íslandi er bæði eðlileg og mikilvæg. Lýðræðislegt jafnræði er grundvallargildi og fá deila um að atkvæði landsmanna eigi að vega jafnt. Sú umræða verður að taka mið af því að horft sé til þess hvernig samfélagið er skipulagt og hvaða afleiðingar það hefur þegar vald, þjónusta og ákvarðanataka þjappast sífellt meira saman á einn stað.

 Íslenskt samfélag hefur um árabil þróast í þá átt að miða í vaxandi mæli við suðvesturhorn landsins. Kerfi, stjórnsýsla og þjónusta ganga í reynd út frá því að þar sé miðjan og að aðrir landshlutar aðlagi sig að henni. Þessi þróun er ekki einstök. Hún er orðin mun öfgakenndari hér en í flestum sambærilegum löndum ekki síst vegna smæðar samfélagsins. 

Allt á einum stað 

Jöfn atkvæði tryggja ekki sjálfkrafa jafna stöðu fólks í daglegu lífi. Lýðræði snýst ekki aðeins um kosningar heldur einnig um raunverulegt aðgengi að þjónustu, tækifærum og ákvarðanatöku. Þegar megnið af sérhæfðri þjónustu og opinberum störfum er staðsett á einum stað verður jafnræðið aðeins formlegt fremur en raunverulegt. 

Reynsla annarra landa sýnir skýrt hvert slík þróun getur leitt. Í Frakklandi hefur samþjöppun í kringum París skapað djúpa gjá milli miðju og jaðarsvæða með félagslegri fjarlægð og vantrausti í kjölfarið. Í Svíþjóð hefur stöðug fækkun í dreifðum byggðum leitt til lokunar innviða og aukins brottflutnings. Með markvissri valddreifingu líkt og í Noregi hefur tekist betur að viðhalda jafnvægi í byggðaþróun. 

Á Íslandi magnast þessi áhrif hraðar en víðast hvar. Þegar fólksfjölgun, fjárfestingar og tækifæri safnast á einn stað verður búsetuval fólks sífellt þrengra. Mörg flytja, ekki vegna þess að þau vilji það heldur vegna þess að kerfið gerir ráð fyrir því. Þá er vandinn ekki einstaklinganna heldur skipulagið sjálft. 

Kerfisbundið gegn dreifðri byggð 

Samþjöppun á sér sjaldnast stað vegna einnar stórrar ákvörðunar. Hún verður til í gegnum fjölda smárra ákvarðana sem allar virðast skynsamlegar einar og sér; sameining þjónustu, miðlæg stjórnun og hagkvæmnissjónarmið. Saman mynda þær þó kerfi sem vinnur kerfisbundið gegn dreifðri byggð. 

Sterkar landsbyggðir eru ekki rómantísk hugmynd heldur grundvallarinnviður samfélagsins. Það tengist fæðuöryggi, orkuöryggi, verðmætasköpun og viðbragðsgetu þjóðarinnar. Lönd sem hafa leyft stórum svæðum að veikjast samfélagslega glíma í dag við mikinn kostnað við að reyna að snúa þróuninni við. Oft án árangurs. Gefið að vilji sé til staðar. 

Hefur fólk raunverulegt val? 

Jöfnun atkvæðavægis getur verið rétt og sanngjarnt. Það verður að fara saman við markvissa valddreifingu. Annars er hætt við að lýðræðið verði jafnt í orði en ekki á borði. Raunverulegt jafnræði felst ekki aðeins í því hvernig kosið er heldur í því hvernig landið allt er byggt upp. 

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því ekki hvort öll eigi jafnt atkvæði heldur hvort við viljum samfélag sem gengur út frá því að Ísland sé eitt þjónustusvæði eða land þar sem fólk getur raunverulega valið sér búsetu án þess að þurfa að fórna aðgengi, tækifærum eða lífsgæðum. 

Ef kerfið gerir ráð fyrir einni miðju og mörgum jaðrum þá er hætt við að landið allt verði jaðar að lokum. 

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Næst á dagskrá

Deila grein

24/01/2026

Næst á dagskrá

Framsóknarflokkurinn hefur átt góða samleið með íslensku þjóðinni í gegnum tíðina og tekið virkan þátt í að koma Íslandi í fremstu röð þjóða. Tímamót eru fram undan hjá Framsókn, þar sem ný forysta verður kosin – þar sem ég hef boðið mig fram til formennsku. Ég legg áherslu á eftirtalin mál:

Heimilin og atvinnulífið

Standa þarf betur með heimilunum í landinu, þar sem þrengt er að stöðu þeirra. Heimilin finna fyrir auknum álögum í formi skattahækkana og greiðslu opinberra gjalda. Jafnframt hefur verðbólgan verið þrálát. Brýnasta verkefnið er að ná niður verðbólgu til að vextir geti lækkað. Sterkt atvinnulíf er lykillinn að öflugri velferð. Einfalda verður regluverk, minnka álögur og gera það enn samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Heimagerð óvissa ríkir um þessar mundir, sem dregur úr fjárfestingum og hagvexti. Stjórnvöld þurfa að leiða með góðu fordæmi, halda aftur af eigin launahækkunum og hækkunum opinberra álaga og gjalda með 2,5% þaki sem kallast á við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Fullveldi Íslands og alþjóðasamvinna

Frelsi og fullveldi þjóðarinnar eru undirstaða framfara. Velmegun er mest í landinu, þegar við ráðum okkar málum og auðlindum sjálf. Sjálfbær auðlindanýting er grunnurinn að þeim lífskjörum sem Ísland býr við í dag. Aðild að Evrópusambandinu mun ekki auka hagsæld á Íslandi og hagsmunum Íslands er best borgið utan þess. Halda skal áfram góðum og nánum samskiptum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins.

Greiður aðgangur að helstu útflutningsmörkuðum þjóðarinnar er lykillinn að hagsæld, og því brýnt að Ísland sé í mikilli alþjóðasamvinnu og að hagsmunagæsla Íslands sé efld til muna. Við stöndum með frænd- og vinaþjóðum okkar, styðjum við Grænlendinga og lífskjarasókn þeirra og leggjum áherslu á að alþjóðalög séu virt. Áframhaldandi samstarf í öryggis- og varnarmálum á grundvelli Atlantshafsbandalagsins verður áfram hryggjarstykki í utanríkismálum þjóðarinnar.

Menntun, tækniframfarir og tungumálið

Menntun og tækniframfarir eru grundvöllurinn að áframhaldandi lífskjarasókn á Íslandi. Við verðum að gera betur í því að efla menntakerfið okkar en það viðfangsefni krefst samvinnu við kennara og skólastjórnendur. Fjárfestum í menntun og ráðumst í kerfisbreytingar sem byggjast á rannsóknum sem munu skila meiri árangri fyrir framtíð unga fólksins. Fjárfesta verður í tækniframförum, því tækifærin fyrir Ísland eru mörg á þessu sviði hvort heldur í hreinni orku, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða gervigreind. Tungumálið okkar, íslenskan, sameinar okkur. Fjárfestum í tungumálinu og gerum það aðgengilegt – þannig að allir geti lært íslensku. Ísland stendur frammi fyrir mörgum áskorunum en í því felast líka tækifæri, ef rétt er haldið á málum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Hver spurði þig?

Deila grein

20/01/2026

Hver spurði þig?

Hver spurði þig um bílastæðareglur Reykjavíkurborgar?

Sennilega ekki borgin.

Árið 2019 setti Reykjavíkurborg sér reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík. Það kann að hljóma skynsamlegt að setja viðmið um bílastæðafjölda við nýbyggingar. Þar til umræddar reglur eru lesnar.

Samkvæmt ferðavenjukönnunum nota um 70% fullorðinna Reykvíkinga bíl sem sinn aðal samgöngumáta til vinnu eða skóla. Fjölskyldubílinn er því lang mest nýtti ferðamáti borgarbúa en samt gera reglur borgarinnar ráð fyrir að hámarki 0,75 bílastæði við 2 herbergja íbúð á svæði 1 sem teygir sig yfir borgina endilanga.

Þau sem búa við nýbyggingar upplifa afleiðingarnar þessara reglna á hverjum degi, þ.e. skort á bílastæðum fyrir utan heimili þeirra. Við þekkjum öll sögur af fólki sem fær ekki að breyta hluta af garðinum í bílastæði, blokkir sem eru byggðar með 0,25 bílastæði á íbúð og umræðuna há bílastæðagjöld.

Reglur Reykjavíkurborgar um bílastæði eru umdeildar. Ekki af ástæðulausu enda eru þær mjög íþyngjandi fyrir borgarbúa og hafa bein áhrif á lífsgæði þeirra. Eðlilegt er því að spyrja borgarbúa hvernig þeir vilja að reglur borgarinnar um bílastæði sé háttað.

Raunverulegt ferðafrelsi felst ekki í því að þröngva öllum í einn samgöngumáta. Það felst í jafnvægi. Að byggja samtímis upp innviði fyrir bíla, hjól, strætó og gangandi vegfarendur. Fólk á að hafa raunverulegt val um ferðamáta, ekki aðeins þann kost sem borgarstjórnarmeirihlutinn telur æskilegan.

Yfirlýsingar fulltrúa meirihlutans benda þó til þess að sjónarmið þeirra séu úr takti við vilja borgarbúa. Borgarstjóri Samfylkingarinnar hefur til dæmis sagt að bílastæði sem nú eru fyrir utan heimili fólks séu ekki endilega örugg til framtíðar. Þá hefur nýr oddvitaframbjóðandi sama flokks lýst því yfir að bílastæðagjöld í Reykjavík séu of lág miðað við aðrar borgir.

Dæmi hver fyrir sig í næstu kosningum.

Við í Framsókn teljum tímabært að Reykjavíkurborg kanni afstöðu borgarbúa og leggjum til að gerð verði könnun á meðal Reykvíkinga á reglum borgarinnar um bíla- og hjólastæði. Slík könnun myndi gefa borginni heildstæðari mynd af vilja og þörfum íbúanna og nýtast við framtíðarákvarðanir.

Það er kominn tími til að borgin spyrji þig!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Þjónustukjarni eldri borgara – lykill að gæðasamfélaginu í Hvera­gerði

Deila grein

18/01/2026

Þjónustukjarni eldri borgara – lykill að gæðasamfélaginu í Hvera­gerði

Gæði samfélags mælast í því hvernig við þjónustum íbúana. Íbúasamsetning í Hveragerði er fjölbreytt og býr í bænum m.a. fjölmennur og virkur hópur eldra fólks. Það er eitt af megin áherslumálum Framsóknar að bjóða upp á fjölbreyttan búsetuvalkost fyrir alla hópa samfélagsins. Það er því mikilvægt að hlusta eftir því hvað hentar hverjum. Í Hveragerði er öflugt félagsstarf hjá Félagi eldri borgara. Félagið heldur úti fjölbreyttri starfsemi fyrir þau sem hafa náð 60 ára aldri. Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks og það gera þau með því að vekja athygli á þörfum eldri borgara. Þá er markmið um að stuðla að aukinni þjónustu og skipuleggja og framkvæma tómstunda- og félagsstarf meðal félaga. Samtal bæjaryfirvalda og FEB er gríðarlega mikilvægt og viljum við trúa því að afrakstur þeirrar samvinnu kristallist í undirbúningshópi sem nú hefur verið komið á.

Undirbúningshópur vegna nýs þjónustukjarna eldri borgara í Hveragerði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 9. október 2025 að stofnaður yrði undirbúningshópur vegna nýs þjónustukjarna eldri borgara í Hveragerði. Fram kom á þeim fundi að hópnum sé ætla að vinna að og skila skýrslu til bæjarstjórnar. Markmið skýrslunnar er að draga saman forsendur fyrir slíku verkefni. Einnig er hópnum ætlað að skila tillögum að ákjósanlegri staðsetningu og þarfagreiningu á hlutverki og mögulegri starfsemi þjónustukjarnans.

Hópurinn skipaður

Erindið var tekið fyrir á fundi Öldungaráðs Hveragerðisbæjar þann 11. desember 2025 og þar skipað í undirbúningshópinn. Samþykkt var að skipa í hópinn einn fulltrúa frá hverju stjórnmálaafli í Hveragerði og tvo fulltrúa frá FEB. Framsókn í Hveragerði: Garðar Rúnar Árnason, Okkar Hveragerði: Anna Jórunn Stefánsdóttir, Sjálfstæðisflokkur: Ásta Magnúsdóttir, Félag eldri borgara í Hveragerði: Kristinn G. Kristjánsson og Daði V. Ingimundarson. Að auki mun starfsmaður hópsins koma frá Hveragerðisbæ. Í undirbúningshópnum er því gert ráð fyrir samvinnu sveitarfélagsins, Öldungaráðs og Félags eldri borgara.

Aukin lífsgæði

Stofnun þessa stýrihóps markar spennandi skref í átt að aukinni þjónustu sem mætir þörfum eldri borgara. Með sameiginlegu átaki og góðri samvinnu er færi á að móta framtíðarsýn um uppbyggingu þjónustukjarna sem stuðlar að auknum lífsgæðum fyrir öll sem nýta þjónustuna. Þetta er fjárfesting í framtíð sem þjónar okkur öllum – hvort sem er í dag eða síðar á lífsleiðinni.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir er oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar og Garðar Rúnar Árnsason er fulltrúi Framsóknar í öldungaráði Hveragerðisbæjar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Mikilvægasta auðlindin er sjálfstæði þjóðarinnar

Deila grein

17/01/2026

Mikilvægasta auðlindin er sjálfstæði þjóðarinnar

Frjálsum og fullvalda lýðræðisríkjum hefur vegnað einna best í mannkynssögunni. Fram kemur í Íslendingabók Ara fróða að: „Ísland hafi fyrst byggst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra“. Ein meginástæða þess að fólk ákvað að nema nýtt land á Íslandi ásamt ónógu landrými, var viljinn til að skapa nýtt samfélag sem var frjálst undan konungsvaldi. Vilji var til þess að móta nýjan samfélagssáttmála, þar sem lýðræði réð ríkjum um allt land en ekki á takmörkuðu svæði líkt og Gulaþing gerði. Landnemar Íslands náðu að reisa merkilegt samfélag sem við enn í dag njótum góðs af. Framfarir á Íslandi hafa átt sér stað þegar valdið hefur verið sem næst fólkinu í landinu. Þess vegna var barist fyrir endurreisn Alþingis og frjálsu og fullvalda ríki af Jóni Sigurðssyni forseta. Ein mesta sátt sem náðst hefur á Íslandi á síðari tímum var stofnun lýðveldisins Íslands.

Fullveldis- og sjálfstæðissaga Íslands einkennist af framförum og lífskjarasókn. Sjálfstæð nýting auðlinda okkar er áfram grundvöllurinn að áframhaldandi vexti þjóðarinnar. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi sjálfstæði Íslands á öllum sviðum og ekki síst við stjórn orkumála, sjávarútvegs og annarra náttúruauðlinda.

Hagsæld fæst ekki með umfangsmikilli skattlagningu, miðstýringu eða með því að fela stjórnun á eigin málum í hendur annarra. Enn verra er að blanda þessu þrennu saman. Flest ríki sem hafa reynslu af slíku stjórnarfari hafa ekki góða sögu að segja.

Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hagvöxtur á Íslandi verið meira en helmingi hærri frá aldamótum en á evrusvæðinu. Atvinnuleysi hefur jafnframt verið hér helmingi minna og atvinnutekjur að meðaltali einna hæstar innan evrópska efnahagssvæðisins. Flestir hagfræðingar myndu segja að þetta væri nokkuð góður árangur.

Í umróti alþjóðastjórnmálanna er nauðsynlegt að rifja upp söguna og muna hvað hefur þjónað okkur vel. Í mínum huga er sjálfstæði þjóðarinnar ein mikilvægasta auðlind okkar. Því eigum við ekki að gefa því undir fótinn að ganga í Evrópusambandið né heldur vera undir öðru erlendu valdi.

Fram kemur í Ritgerð um ríkisvald hjá John Locke: „Frelsi mannsins í samfélagi felst í að lúta hvorki lögsögu neins annars valds en þess sem hefur verið komið á í ríkinu með samkomulagi, né að vera undir yfirráðum vilja nokkurs manns eða takmörkunum annarra laga en þeirra sem löggjafarvaldið hefur sett í samræmi við það umboð sem því hefur verið veitt.“ Grunninn að frjálsum lýðræðisríkjum má finna í þessari hugsun Locke. Höfum þessi grunngildi hugföst þegar umræðan um stöðu Íslands hefst fyrir alvöru og munum til hvers var barist á sínum tíma. Sýnum því virðingu og umfram allt skilning.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

32 dagar

Deila grein

14/01/2026

32 dagar

Í tveimur leikskólum borgarinnar hefur verið gripið til svokallaðra fáliðunaraðgerða til að mæta viðvarandi manneklu. Foreldrar á leikskólanum Funaborg þurfa að taka einn og hálfan frídag frá vinnu í hverri viku vegna fáliðunar. Það jafngildir 32 dögum út vorönnina og bætast þeir ofan á allt að 20 daga sumarfrí leikskólanna. Samtals eru þetta því hið minnsta 52 frídagar á þessu ári, en hinn almenni launþegi á aðeins rétt á 25–30 daga sumarfríi árlega. Haldi aðgerðirnar áfram næsta haust má reikna með dagafjöldinn nálgist hundrað.

Það dylst engum að dæmið gengur ekki upp án þess að leiða til verulegs tekjutaps fyrir fjölskyldur og mikils óhagræðis, bæði fyrir foreldra og atvinnulífið í heild.

Mætum fjölskyldum strax

Lokanir vegna fáliðunar eru ekki tilkomnar af ástæðulausu heldur er ráðist í þær til að tryggja öryggi barna. Aðgerðirnar eru íþyngjandi fyrir bæði börn og foreldra og geta haft veruleg fjárhagsleg áhrif á heimilin í borginni, ekki síst fyrir einstæða foreldra. Við í Framsókn viljum mæta fjölskyldum í þessari stöðu strax og leggjum til að foreldrum barna sem lenda í fáliðunaraðgerðum verði greiddar 20 þúsund krónur fyrir hvert barn, hvern dag, sem þær standa yfir.

Flestir foreldrar eru með skuldbindingar á vinnumarkaði og þurfa því að grípa til ráðstafana eins og að skiptast á að vera með börnin hjá sér, kaupa pössun með tilheyrandi kostnaði eða taka sér á launalaust frí. Það vegur þungt í heimilisbókhaldið. Fáliðunaraðgerðir leiða jafnframt til ójafnræðis barna að leikskóladvöl, eftir því hvort leikskólinn þeirra er fullmannaður eða ekki.

Fáliðun hefur það í för með sér að fjármagn sem áætlað er í laun fullmannaðra leikskóla situr eftir og eðlilegra er að greiða það út til foreldra til að létta undir með heimilunum. Slíkar greiðslur skapa þá fjárhagslegan hvata fyrir borgina til að leysa mönnunarvanda leikskólanna til framtíðar en tillagan gerir ráð fyrir að borgin þurfi að meta kostnað borgarinnar vegna aðgerðanna áður en ákvörðun um þær er tekin. Stóra verkefnið er þó hér eftir sem hingað til að tryggja mönnun leikskólanna enda er samfélagslega ósjálfbært að keyra á fáliðunaraðgerðum í leikskólum mánuðum eða árum saman.

Mönnun leikskóla er lykilverkefni

Leikskólar eru fyrsta menntastigið og grunnur alls náms. Þar er unnið eitt mikilvægasta starf samfélagsins með því dýrmætasta sem við eigum, börnunum okkar. Leikskólar gegna jafnframt lykilhlutverki í jafnréttismálum, en þau lönd sem hafa fjárfest markvisst í leikskólum standa betur þegar kemur að jafnrétti kynja. Það er því brýnt að við sofnum aldrei á verðinum í uppbyggingu leikskólastigsins og leggjum allt kapp á að tryggja þá mikilvægu menntun og þjónustu sem þar er veitt.

Til að bregðast við stöðunni þarf aukið samstarf ríkis, sveitarfélaga, kennara og menntastofnana með það að markmiði að fjölga starfsfólki í leikskólum. Með markvissum aðgerðum er hægt að ná árangri. Til marks um það varð 160% aukning í kennaranám eftir að Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, beitti sér fyrir því að kennaranemar fengju launað starfsnám og námsstyrki vegna lokaverkefna árið 2019. Það kennir okkur að rétt útfærðar aðgerðir skila raunverulegum árangri. Verkefninu er þó ekki lokið. Enn þarf að gera starfsumhverfi leikskóla raunverulega aðlaðandi fyrir nýútskrifaða leikskólakennara og leikskólaliða. Það krefst samstillts átaks allra hlutaðeigandi.

Við eigum alltaf að gera ríkar kröfur til þeirra sem starfa með börnum og því er mikilvægt að fjölga fagmennuðu starfsfólki í leikskóla. Borgin á að halda áfram að eiga í góðu samstarfi við menntastofnanir og kanni sérstaklega hvort skapa megi frekari hvata til að fá fleiri einstaklinga í nám til leikskólakennara og leikskólaliða, sem og að skapa hvata sem laða fagmenntað fólk til starfa í leikskólum.

Það er alveg ljóst að við verðum að gera betur þegar kemur að mönnun leikskóla, bæði til skamms tíma svo bregðast megi við þeirri stöðu sem nú er uppi og til lengri tíma litið svo tryggja megi öflugt leikskólastarf til framtíðar. Án umbóta í starfsumhverfi leikskóla er erfitt að laða nýtt fólk til starfa og halda því sem fyrir er. Huga þarf meðal annars betur að hljóðvist í leikskólum, undirbúningstíma starfsfólks, skipulagi leikskóladagsins, íslenskukunnáttu starfsfólks, kjörum og fleiru. Gleymum ekki að fjárfesting í mannauði leikskólanna er fjárfesting í framtíðinni, fjárfesting í börnunum okkar.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. janúar 2026.