Categories
Fréttir Greinar

Heil­brigðis­ráðu­neytið er með for­ystu

Deila grein

26/03/2024

Heil­brigðis­ráðu­neytið er með for­ystu

Nýverið kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar „Ópíóíðavandi – staða, stefna og úrræði“. Farið varið í hraðúttekt til þess að greina misnotkun á ópíóðum í ljósi þess að fréttaflutningur um aukinn vanda hafði aukist á síðustu árum. Ekki þótti ljóst hvaða aðilar hefðu bestu yfirsýn um vandann og hvernig væri tekið á honum. Það er margt gott og áhugavert sem kemur fram í þessari skýrslu en annað sem er þess fallið að valda misskilningi þar með talið umræða um forystuleysi í málaflokknum. Í skýrslunni kemur fram að enginn aðili hafi fulla yfirsýn yfir hve margir glími við ópíóíðavanda á landinu. Staðreyndin er sú að heilbrigðisráðuneytið tekur fulla forystu í málaflokknum og hefur ekki skorast undan því. Hér er um að ræða sjúkdóm sem er líf- sál og félagslegur og því eru félagsaðstæður einstaklinga margbrotnar og flóknar. Verkefnið kallar á samstarf milli ráðuneyta sem og sveitarfélaga, enda er stór liður í bataferli þessara einstaklinga að hafa skjól yfir höfuðið. Ópíóíðavandinn er alvarlegur og hvert mannslífs sem tapast þar er einu lífi of mikið.

Margvíslegar aðgerðir

Heilbrigðisráðuneytið með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í fararbroddi hefur síðustu misseri unnið að krafti við að berjast við misnotkun á ópíóðum. Tillögur heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóíða voru samþykktar í ríkisstjórn í apríl 2023 og á samkvæmt fjárlögum á að verja 150 milljónum í aðgerðirnar á þessu ári og eru margar þeirra vel á veg komnar. Tilraunaverkefni er hafið um niðurtröppun ópíóíða, svefn- og róandi lyfja í heilsugæslu. Þá hefur starfshópur tekið til starfa um skaðaminnkun og fleira. Auk þess vinnur heilbrigðisráðuneytið að stefnum í málaflokknum. Það er skaðaminnkunarstefnu og stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Í lýðheilsustefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á mikilvægi skýrrar stefnumörkunar og aðgerða í málefnum áfengis- og vímuvarna.

Þá má nefna að Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að gera heildarsamning um þjónustu SÁÁ og aukið aðgengi að viðhaldsmeðferð. Auk þess hefur heilbrigðisráðuneytið í tvígang lagt 30 milljónir til félagasamtaka í verkefni til þess að sporna við skaða af völdum fíknisjúkdóma auk þess sem Lýðheilsusjóður hefur verið stækkaður. Þá er búið er að dreifa Naloxone í bíla hjá viðbragðsaðilum þá sjá Vorteymi og Frú Ragnheiður einnig um að dreifa nefúðanum. Þess utan hefur Lyfjastofnun hafist handa við að kanna hvort mögulegt sé að gera naloxon nefúða að lausasölulyfi á Íslandi. Lyfið er notað þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem valdið getur öndunarstoppi og dauða.

Forvarnir númer eitt, tvö og þrjú

Í baráttunni við fíknivandann er er hvert líf sem glatast ekki aðeins tölfræði heldur djúpstæður harmleikur og áminning um sögu einstaklings sem varð undir í baráttunni við fíknisjúkdóm. Fíkn er langt frá því að vera eingöngu viljabrestur heldur er fíkn flókið samspil erfðafræðilegra, umhverfis- og sálfræðilegra þátta sem krefjast margþættra viðbragða. Aðgerðir sem miða að því að draga úr neyslu ávana- og vímuefna, hverju nafni sem þær nefnast, skila samfélaginu ávinningi. Árangur Íslands í forvörnum ungmenna hefur verið einstakur og eftirtektarverður og þann árangur megum við ekki gefa eftir. Þróun vímuefnaneyslu ungmenna hafa tekið stakkaskiptum í jákvæða átt síðustu ár. Leiðin niður á við getur tekið mun skemmri tíma en að ná árangri og því skipta forvarnir og heilsuefling miklu máli. Mikilvægt er að fræða og þjálfa þá sem vinna með ungmennum í daglegu starfi, með því að gera forvarnir og heilsueflingu sem hluta af skipulögðu uppeldis- og fræðslustarfi höfum við meiri möguleika á að ná til þeirra sem ella gætu orðið fíknisjúkdómum að bráð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Deila grein

23/03/2024

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og róm­ur með, hug­ur og tunga hjálpi til, herr­ans pínu ég minn­ast vil.

Páska­hátíðin er haf­in þar sem við njót­um sam­vista með fjöl­skyldu og vin­um. Pass­íusálm­arn­ir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meist­ara­verk bæði frá list­rænu og trú­ar­legu sjón­ar­miði og ein af mörg­um birt­ing­ar­mynd­um þess ríka bók­mennta­arfs sem Ísland býr að. Bók­mennt­ir eru samofn­ar sögu þjóðar­inn­ar eins og við þekkj­um. Þannig er bók­mennta­arf­ur Íslend­inga okk­ar merk­asta fram­lag til heims­menn­ing­ar en hand­rita­safn Árna Magnús­son­ar er til dæm­is á verðveislu­skrá UNESCO.

Á und­an­förn­um árum hafa verið stig­in stór skref til þess að efla um­gjörð menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland leit dags­ins ljós árið 2020 og síðan þá hef­ur mynd­list­ar­stefna, tón­list­ar­stefna, stefna í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs verið gefn­ar út og hrint í fram­kvæmd. Unnið er að stefnu í mál­efn­um sviðslista og gær samþykkti rík­is­stjórn til­lögu mína um nýja bók­mennta­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030. Nýrri bók­mennta­stefnu er ætlað að hlúa enn bet­ur að bók­mennta­menn­ingu okk­ar til framtíðar. Í stefn­unni er birt framtíðar­sýn fyr­ir mála­flokk­inn og jafn­framt þrjú meg­in­mark­mið sem aðgerðirn­ar skulu styðja við. Meg­in­mark­miðin snú­ast um fjöl­breytta út­gáfu á ís­lensku til að treysta stöðu ís­lenskr­ar tungu í sam­fé­lag­inu; um auk­inn og bætt­an lest­ur, ekki síst meðal ungra les­enda; og hvatn­ing til bóka­sam­fé­lags­ins um ný­sköp­un sem taki mið af tækniþróun og örum sam­fé­lags­breyt­ing­um.

Aðgerðaáætl­un­in hef­ur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Um­gjörð og stuðning­ur; Börn og ung­menni; Menn­ing­ar­arf­ur, rann­sókn­ir og miðlun; og Ný­sköp­un og sjálf­bærni. Aðgerðirn­ar leggja ekki síst áherslu á börn og ung­menni ann­ars veg­ar og ís­lenska tungu hins veg­ar en víða er komið við.

Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætl­un­inni snýst um end­ur­skoðun á því reglu­verki og þeirri um­gjörð sem hið op­in­bera hef­ur komið upp í tengsl­um við bók­mennt­ir og ís­lenskt mál. Þar eru und­ir lög um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls, lög um bók­mennt­ir, lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku, bóka­safna­lög o.fl. Í þeirri end­ur­skoðun er brýnt að hugað verði að breyttu lands­lagi tungu og bóka vegna til­komu gervi­greind­ar, mál­tækni, streym­isveitna og annarr­ar tækni sem er í hraðri þróun þessi miss­er­in.

Bók­mennta­stefn­an er gerð í mik­illi sam­vinnu við hags­munaaðila sem lögðu til grund­völl­inn í stefn­unni og aðgerðunum. Það er viðeig­andi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bók­mennta­stefnu sem mun leggja grunn­inn að enn metnaðarfyllra menn­ing­ar­lífi hér á landi. Ég óska öll­um gleðilegra páska.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenska páska­lambið

Deila grein

22/03/2024

Ís­lenska páska­lambið

Í gær voru samþykktar breytingar á búvörulögum, um er að ræða að breytingar sem skipta verulegu máli fyrir íslenskan landbúnað. Þeim er ætlað að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. Með þessum breytingum eru afurðastöðvum í kjötiðnaði veitt heimild til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf. Samkvæmt frumvarpinu þá er það tryggt að samkeppniseftirlitið fer með eftirlit með framkvæmdinni. Niðurstaðan er að nú er hægt að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Samkeppni

Íslenskar landbúnaðarvörur eiga í gríðarlegri og stigvaxandi samkeppni við innfluttar vörur. Það er því mikilvægt að fundin verði samvinnugrundvöllur matvælaframleiðenda hér á landi til að bregðast við breyttri stöðu. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Nú er komið að kjötinu.

Úrtölurödd

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur brugðist við með stóryrðum og myrkri og boðar heimsósóma fyrir íslenska bændur og íslenska neytendur. Segir hér verið að raska samningsstöðu bænda gagnvart viðsemjendum sínum. Það er rétt að það komi fram að framleiðendur eru tryggðir í fjórða kafla búvörulaga sem fjallar um verðskráningu á búvörum. Þar eru framleiðendur með lagalega stoð fyrir að verðlagsnefnd hafi heimild til þess að ákveða lágmarksverð til bænda á afurðum þeirra. Þá erum við hér að ganga mun skemur en Noregur, þar hafa verið samþykktar undanþágur fyrir stórar afurðastöðvar frá banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ef Noregur getur sérsniðið undanþágu fyrir norskan landbúnað þá getur Ísland sérsniðið undanþágu fyrir íslenskan landbúnað sem tekur mið af aðstæðum hér á landi.

Það má heyra það á viðbrögðum bænda og samtökum þeirra að þetta er það sem beðið hefur verið eftir og nú er fagnað um allt land. Þeir láta ekki úrtölur tala úr þeim kjarkinn við að berjast fyrir bættum kjörum.

Framsókn með forystu

Framsókn hefur ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, og hefur lagt til þessar breytingar allt frá árinu 2018, loksins náum við meirihluta fyrir þessum mikilvægubreytingum, Því það er þó naumur meirihluti sem vill í alvöru vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins.

Framsókn hefur tryggt að íslenska páskalambið rennur ljúflega niður í ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Akureyri – næsta borg Íslands

Deila grein

21/03/2024

Akureyri – næsta borg Íslands

Áhrifasvæði Akureyrar er stórt en það nær um allan Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Svæðið hefur vaxið hratt á síðustu árum og nú búa þar um 8% þjóðarinnar. Vöxturinn hefur verið með svipuðum hætti og á höfuðborgarsvæðinu enda hafa sveitarfélögin í nágrenni Akureyrar einnig verið í miklum vexti og mikilvægi sterkra byggða í nágrenninu er gífurlegt, því þær styrkja Akureyri og hlutverk hennar enn frekar.

Akureyri státar af sterku og fjölbreyttu atvinnulífi og mikilli þekkingarstarfsemi og er það ekki síst þeim mannauði sem þarna býr að þakka. Mikil gróska hefur einnig verið í menningartengdri starfsemi á svæðinu og sér ekki fyrir endann á þeim vexti, sem er vel. Við finnum það vel sem búum á svæðinu hversu mikið fjölbreytt menningarstarfsemi styrkir samfélagið og eflir lífsgæði.

Akureyri og nærsvæði hennar býr einnig við öflugar alþjóðlegar tengingar sem greiða bæði fyrir fólks- og vöruflutningum. Enn frekari tengingum hefur verið komið á undanförnum tveimur árum, bæði með tilkomu Niceair sem var og hét og svo með auknum samningum við stærri erlend flugfélög svo sem EasyJet sem hefur tvímælalaust eflt ferðaþjónustu á öllu svæðinu sem heldur enn áfram að styrkjast.

Nýr tónn í umræðu um byggðamál

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2021 kom fram að mótuð yrði stefna um að skilgreina frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Nú er búið að skila svokallaðri Borgarstefnu og sem íbúi á Akureyri og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis fagna ég tillögunum sem þar koma fram, en í stefnunni leggur starfshópurinn til að Akureyri verði næsta borg á Íslandi. Þannig verði Akureyri sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái þar af leiðandi aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Með öðru borgarsvæði er möguleiki á dreifðari byggð í landinu, þar sem búseta á áhrifasvæði borga eflist, rétt eins og þekkist frá höfuðborgarsvæðinu.

Eitt af áherslumálum í sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árin 2020-2024 var, að mótuð yrði Borgarstefna fyrir Akureyri og að svæðisbundið hlutverk bæjarins yrði skilgreint betur, sem stærsta þéttbýlisins utan stórhöfuðborgarsvæðisins. Þessi umræða er því ekki ný af nálinni og hefur skotið upp kollinum nokkrum sinnum á síðustu árum. Mikill metnaður hefur verið lagður í að bærinn okkar verði gerður að borg og því afar jákvætt að þau markmið séu þarna komin í ákveðinn farveg. Með þessum tillögum er verið að slá nýjan tón í umræðunni um byggðamál og því ber að fagna.

Svæðisborgin Akureyri

Samhliða vinnu við mótun Akureyrar sem svæðisborgar þarf áhrifasvæðið að þróast í takt sem mun skila sér í öflugra og stærra atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæðis. Í dag er mikið um að íbúar í sveitarfélögum utan Akureyrar sæki atvinnu eða aðra þjónustu til Akureyrar og hefur sá fjöldi vaxið mikið á síðustu árum. Þá þarf einnig að líta sérstaklega til stöðu samgangna í landshlutanum og frekari uppbyggingu vega. Sér í lagi þeirra sem spila sérstakt hlutverk í styttingu vegalengda á milli atvinnu- og skólasvæða en það er mikilvægur hlekkur í keðjuna hvað varðar áframhaldandi vöxt svæðisins í heild.

Við þurfum áfram að vinna ötulum höndum að eflingu og stækkun áhrifasvæðisins í góðri samvinnu milli ríkis, Akureyris og nærliggjandi sveitarfélaga.

Því þetta er jú sannkallað samvinnuverkefni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 20. mars 2024.

Categories
Greinar

Blessuð sértu, sveitin mín

Deila grein

20/03/2024

Blessuð sértu, sveitin mín

Sérstaða ís­lenskra mat­vara er ein­stök á heimsvísu þar sem lyfja- og eit­ur­efna­notk­un í land­búnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekk­ist í heim­in­um, auk þess sem notk­un vaxt­ar­horm­óna er bönnuð. Það er risa­stórt heil­brigðismál að komið sé í veg fyr­ir út­breiðslu sýkla­lyfja­ónæmra bakt­ería á Íslandi með ströng­um ráðstöf­un­um, en við sjá­um að sýkla­lyfja­ónæmi er ört vax­andi ógn í heim­in­um.

Í fyrra fékk ís­lenskt lamba­kjöt upp­runa­vott­un frá Evr­ópu­sam­band­inu. Um er að ræða vott­un með til­vís­un til upp­runa eða „Protected Designati­on Of Orig­in“ (PDO), og fær ís­lenskt lamba­kjöt nú að bera merki vott­un­ar­inn­ar í markaðssetn­ingu. Það á að stuðla að neyt­enda­vernd, auka virði afurða og koma í veg fyr­ir órétt­mæta viðskipta­hætti.

Aukinn innflutningur vinnur gegn bændum

Innflutningur á kjöti hefur færst í vöxt á undanförnum árum og er það bæði selt í matvöruverslunum hérlendis og einnig á veitingamarkaði, meðal annars mötuneytum og veitingahúsum. Færst hefur og í vöxt að minni kjötvinnslur kaupi slíkar afurðir og endurselji á veitingamarkaði, þíði kjötið sem kemur frosið til landsins, leggi í kryddlög og selji svo til stóreldhúsa og matvöruverslana. Slíkt athæfi, ásamt öðrum innflutningi á kjötvörum, vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda og getur um leið verið afar villandi fyrir neytendur þar sem pakkningar sem erlenda kjötið eru í eru oft á tíðum með íslenskum fánaröndum eða allavega íslenskt nafn á kjötvinnslunni.

Stórauka þarf stuðning við bændur og draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskra matvæla með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði. Mikið hefur verið rætt og ritað um landbúnaðinn á undanförnum árum og hafa íslenskir bændur verið að keppa í ójöfnum leik í samkeppni við innflutning þar sem vinnuafl er mun ódýrara víðast hvar annars staðar í heiminum. Íslenskum bændum fækkar með hverju árinu sem líður; íslensku sveitirnar eru að deyja út, meðalaldur bænda hækkar og enginn tekur við. Fæðuöryggið og sjálfbærni þjóðar undir

Fæðuöryggið og sjálfbærni þjóðar undir

Ég held að við séum komin á þann stað að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að stuðla að tilvist matvælaframleiðslu á íslandi. Tel ég að við þurfum að innleiða löggjöf sem gerir að verkum að óheimilt verði að flytja inn til landsins kjötafurðir frá öðrum löndum. Einnig að auka verndartolla á öðrum landbúnaðarvörum sem framleiddar eru hérlendis, meðal annars grænmeti og mjólkurafurðum, með það að markmiði að stórefla innlenda matvælaframleiðslu. Eina rétta í stöðunni væri að leggja áherslu á að auka tollvernd á íslenskum landbúnaðarafurðum til að tryggja tækifæri til atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Við sem þjóð þurfum á því að halda og landsbyggðin þarf á því að halda.

Með því að auka matvælaframleiðslu hérlendis getum við styrkt fæðuöryggi þjóðarinnar. Við þurfum aðgerðir strax og setja í gang markvissa vinnu til þess að minnka innflutning á matvælum hingað til lands, með sjálfbærni og minni útblástur gróðurhúsalofttegunda að leiðarljósi.

Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga
Engið, fjöllin, áin þín,
yndislega sveitin mín,
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga
Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga.

(Sigurður Jónsson frá Arnarvatni)

Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tónlistarauðlegð Íslands

Deila grein

14/03/2024

Tónlistarauðlegð Íslands

Ísland stát­ar af öfl­ugu tón­list­ar­lífi sem eft­ir er tekið á er­lendri grundu. Slík þróun ger­ist ekki á einni nóttu held­ur ligg­ur þar að baki afrakst­ur mik­ill­ar vinnu í gegn­um ára­tug­ina. Það er til að mynda áhuga­vert að kynna sér sögu Tón­list­ar­fé­lags Reykja­vík­ur sem stofnað var árið 1932. Fé­lagið ruddi mik­il­væg­ar braut­ir í menn­ing­ar­líf­inu en til­gang­ur þess var að bæta aðstöðu ís­lenskra tón­list­ar­manna bæði til náms og starfs en alls al­menn­ings til tónnautn­ar. Fé­lagið á sér í raun lengri sögu, en und­an­far­ar þess eru Hljóm­sveit Reykja­vík­ur, stofnuð 1925, og Tón­list­ar­skól­inn í Reykja­vík, stofnaður 1930. Saga fé­lags­ins veit­ir inn­sýn í þann mikla metnað sem ríkti í tón­list­ar­líf­inu vel fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar, en Tón­list­ar­fé­lagið kom til dæm­is að því að fá eina virt­ustu tón­list­ar­menn sam­tím­ans til lands­ins að spila á tón­leik­um. Með tíð og tíma efld­ist tón­list­ar­starf víða um land með stofn­un fleiri tón­list­ar­fé­laga og tón­list­ar­skóla, má þar nefna Tón­list­ar­skóla Ak­ur­eyr­ar sem stofnaður var árið 1946 og Tón­list­ar­skóla Ísa­fjarðar sem var sett­ur á lagg­irn­ar árið 1948. Þannig hef­ur í ára­tugi ríkt metnaður fyr­ir tón­list­ar­námi, með frá­bær­um kenn­ur­um í broddi fylk­ing­ar og góðu aðgengi að slíku námi sem skipt hef­ur sköp­um fyr­ir menn­ing­ar­líf þjóðar­inn­ar.

Á Íslensku tón­list­ar­verðlaun­un­um í vik­unni end­ur­speglaðist meðal ann­ars sá mikli kraft­ur sem býr í tón­list­ar­líf­inu hér á landi. Við höf­um einnig fylgst með glæsi­leg­um ár­angri ís­lenskra tón­list­ar­manna á alþjóðleg­um vett­vangi und­an­farið. Má þar nefna eft­ir­tekt­ar­verðan ár­ang­ur Íslend­inga á Grammy-verðlauna­hátíðinni í fe­brú­ar síðastliðnum, þar sem söng­kon­an Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir hlaut verðlaun­in eft­ir­sóttu fyr­ir plötu sína Bewitched, og til­nefn­ingu tón­list­ar­manns­ins Ólafs Arn­alds til verðlauna í sín­um flokki. Á fjór­um árum hafa Íslend­ing­ar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu til­nefn­ing­um. Það verður að telj­ast af­bragðsgott fyr­ir þjóð sem tel­ur tæp­lega 400.000. Í sam­heng­inu við mann­fjöld­ann má ein­mitt geta þess að í vik­unni bár­ust fregn­ir af því lagið Little Talks eft­ir ís­lensku hljóm­sveit­ina Of Mon­sters and Men náði að rjúfa eins millj­arðs múr­inn í hlust­un­um á streym­isveit­unni Spotify.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið stór skref til þess að efla um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu enn frek­ar með nýrri lög­gjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tón­list­armiðstöð sem og Tón­list­ar­sjóði. Ég er sann­færð um að breyt­ing­arn­ar muni treysta enn frek­ar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okk­ar hæfi­leika­ríku tón­list­ar­menn fái enn meiri byr í segl­in með nýj­um tæki­fær­um til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Greinar

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir stórt fram­fara­skref í þágu barna

Deila grein

12/03/2024

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir stórt fram­fara­skref í þágu barna

Samfélag samvinnu og jafnaðar.

Grunnskóla er ætlað það hlutverk að leggja grunn að virkri þátttöku barna í lýðræðissamfélagi og veita viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf á vinnumarkaði.

Næring er ein af grunnþörfum mannsins, öll þurfum við góða næringu til þess að geta fengist við verkefni dagsins. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna og er næring lykilatriði fyrir nemendur og hún á að vera í boði á jafnréttisgrundvelli á grunnskólastiginu án aðgreiningar og endurgjalds.

Öll viljum við að börnin okkar séu vel nærð í amstri dagsins og höfum við í Suðurnesjabæ unnið markvisst að því að auka niðurgreiðslu skólamáltíða á kjörtímabilinu, um síðustu áramót var kostnaðarhlutfall sveitarfélags hækkað úr 50% í 60% og systkinaafsláttur innleiddur þar sem foreldrar borga fyrir 2 börn en 3+ án gjalds Við í Framsókn höfum talað skýrt fyrir því að okkur þykir sjálfsagt að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Suðurnesjabæjar og var það eitt af okkar helstu baráttumálum fyrir síðustu kosningar. Með gjaldfrjálsum skólamáltíðum stuðlum við að jafnræði á milli heimila óháð efnahag og stöðu foreldra.

Grunnskólamenntun án aðgreiningar og endurgjalds

Hugsjón okkar Framsóknar í Suðurnesjabæ er sú að á íslandi er skólaskylda og teljum við það í raun hreint og klárt velferðar og jafnréttismál að bjóða upp á raunverulega gjaldfrjálsa grunnskólamenntun á Íslandi án aðgreiningar og endurgjalds. þannig stuðlum við að jafnræði barna óháð stöðu foreldra og tryggjum einnig að börn fái heita máltíð yfir daginn, en það er því miður veruleikinn á íslandi að öll börn búa ekki við slík lífsgæði. Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska, grundvallarlífskjara og náttúrugæða óháð uppruna, heilsu og efnahags.

Stutt er síðan að breytingar voru gerðar á lögum um grunnskóla nr. 91 frá 12. júní 2008 en þar kom inn ákvæði í 31. gr laganna sem fjallar um “Kostnað í skyldunámi kemur fram að Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá.

Fram­sókn hvatti sveitar­fé­lög til að styðja gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Sveitastjórnarráð Framsóknarflokksins hvatti sveitarstjórnarfólk um land allt til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, sem hafi það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu. Sveitarstjórnarráð Framsóknar studdi að ríki og sveitarfélög myndu tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórnin hafði samþykkt.

Við erum að stíga gríðarlega mikilvægt skref með því að innleiða gjaldfrjálsar skólamaltíðir á Íslandi og lýsi ég yfir ánægju með nýja kjarasamninga sem tryggja aukin lífskjör í landinu sem munu leiða af sér lækkun verðbólgu og vaxta, En þeir munu líka um leið tryggja börnunum okkar bjarta framtíð með jöfnu aðgengi að næringarríkum og hollum mat.

Ríki og sveitarfélög ættu að líta á verkefnið sem lausn sameiginlegs viðfangsefnis þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jöfnuðar

Framsókn er hreyfiafl framfara í samfélaginu og setur barnafjölskyldur í forgang

Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Deila grein

11/03/2024

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur mik­il­vægi þess að skapa styðjandi vinnu­um­hverfi fyr­ir fjöl­skyld­ur aldrei verið meira. Sem mennta- og barna­málaráðherra er ég stolt­ur stuðnings­maður þeirr­ar mik­il­vægu vinnu sem áunn­ist hef­ur með ný­und­ir­rituðum kjara­samn­ing­um breiðfylk­ing­ar­inn­ar og sam­taka at­vinnu­lífs­ins, með öfl­ugri aðkomu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þeir samn­ing­ar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lög­fræðileg skjöl; þeir eru vitn­is­b­urður um skuld­bind­ingu of­an­greindra aðila við að byggja sam­fé­lag sem met­ur vel­ferð hverr­ar fjöl­skyldu og hvers barns.

Fram­ganga sveit­ar­stjórn­ar­fólks Fram­sókn­ar á þess­ari veg­ferð hef­ur fyllt mig stolti. Enn frem­ur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnu­markaðar og þá sér­stak­lega breiðfylk­ing­unni og verka­lýðshreyf­ing­unni í heild fyr­ir að taka skýra af­stöðu með börn­um og fjöl­skyld­um þeirra, en ekki síður að hafa tekið af full­um þunga þátt í því að skapa grund­völl fyr­ir vel­sæld og stöðug­leika í land­inu.

Ég er full­viss um að af­drátt­ar­laus aðkoma rík­is og sveit­ar­fé­laga að samn­ing­un­um hafa í för með sér fram­fara­skref fyr­ir þjóðina og er það á ábyrgð okk­ar allra nú að leggj­ast á eitt til að ná þeim mark­miðum sam­an. Um­fram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórn­valda sé skýr áhersla á að fjár­festa í börn­um og barna­fjöl­skyld­um. Það hef­ur aldrei verið brýnna að for­gangsraða í þágu jafnra tæki­færa og lífs­gæða þess hóps, sam­hliða því sem við sjá­um auk­in merki þess að efn­is­leg­ur skort­ur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.

Aðgerðapakki stjórn­valda mun stuðla að aukn­um lífs­gæðum og jöfnuði meðal barna- og fjöl­skyldna. Ein af stærri áhersl­um aðgerðapakk­ans er breyt­ing­ar á barna­bóta­kerf­inu. Barna­bæt­ur verða hækkaðar, sam­hliða því sem dregið verður úr tekju­skerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri for­eldr­ar og for­sjáraðilar munu fá greidd­ar barna­bæt­ur.

Öllum börn­um á grunn­skóla­aldri verða tryggðar gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Reynsla ná­granna­ríkja á borð við Finn­land hef­ur sýnt að hér er um að ræða risa­stórt skref í átt að aukn­um jöfnuði fyr­ir öll börn. Skóla­kerfið er lang­öflug­asta jöfn­un­ar­tækið okk­ar og með því að fjár­festa í gjald­frjáls­um skóla­máltíðum efl­um við það enn frek­ar. Það er gam­an að geta þess að þessi aðgerð er einnig í sam­ræmi við eitt af áherslu­atriðum Barnaþings. Barnaþings­menn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjald­frjáls­um skóla­máltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.

Þá verða fæðing­ar­or­lofs­greiðslur hækkaðar í þrem­ur áföng­um yfir samn­ings­tím­ann, til að treysta mark­miðið um sam­vist­ir barna við báða for­eldra. Þá er samstaða allra samn­ingsaðila um að vinna sam­an að mót­un aðgerða til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla á samn­ings­tím­an­um. Það er okk­ur sem sam­fé­lagi lífs­nauðsyn­legt og þar ber sér­stak­lega að hrósa sveit­ar­fé­lög­un­um fyr­ir vilja þeirra til að ráðast í það verk­efni.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti horn­steinn þess að hægt sé að skapa sam­fé­lag á Íslandi sem gef­ur svig­rúm fyr­ir jafn­vægi í lífi vinn­andi for­eldra og for­sjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að aukn­um lífs­gæðum, sveigj­an­leika vinnu­tíma og sam­vist­um for­eldra og barna. Slík­ar ráðstaf­an­ir gera for­eldr­um kleift að taka virk­ari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skóla­at­b­urði og að geta verið viðstödd þau augna­blik sem mestu máli skipta.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti upp­skrift að því hvernig sam­fé­lag varðveit­ir gildi sín um það sem skipt­ir mestu máli fyr­ir lífs­gæði og vel­sæld. Það þarf ekki að fara mörg­um orðum hversu stóru hlut­verki slík­ur sam­fé­lags­sátt­máli gegn­ir í lífi barna og fjöl­skyldna. Þegar við horf­um fram á veg­inn skul­um við halda áfram að vinna sam­an – ríkið, sveit­ar­fé­lög­in, at­vinnu­lífið og verka­lýðsfé­lög – til að móta sam­fé­lag sem end­ur­spegl­ar sam­eig­in­leg gildi og von­ir okk­ar. Með þann hugs­un­ar­hátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífs­gæði nú­ver­andi kyn­slóða, held­ur einnig að ryðja veg­inn fyr­ir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi get­ur dafnað.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.