Categories
Greinar

Stýritæki seðlabankans hefur kostað 28 milljarða frá hruni

Deila grein

19/11/2013

Stýritæki seðlabankans hefur kostað 28 milljarða frá hruni

Frosti SigurjónssonPeningaþenslan er komin af stað, aftur. Bankar hafa aukið laust fé í umferð um 10% á aðeins hálfu ári. Þessi þróun er áhyggjuefni og kallar á skjót viðbrögð. Í aðdraganda hrunsins óx peningamagn hratt, þrátt fyrir háa stýrivexti. Peningastefna Seðlabankans, sem á þeim tíma byggði á stýrivaxtatækinu, kom hvorki í veg fyrir gengdarlausa peningaþenslu bankanna, né það hrun er af henni leiddi.

Hvað getum við lært af þeirri reynslu?

Bindiskylda er stýritæki sem Seðlabanki gæti beitt til að draga úr peningaþenslu. Bindiskylda hefur verið óbreytt 2% allt frá árinu 2003 en þá var hún lækkuð úr 4%.

Aukin bindiskylda gæti verið ódýrara tæki til að draga úr peningaþenslu, en það tæki sem Seðlabankinn beitir. Nú hefur Seðlabanki selt bönkum 120 milljarða af innstæðubréfum sem bera 5.7% vexti. Tilgangurinn með því er að binda laust fé. En kostnaðurinn við þetta stýritæki er gríðarlegur fyrir Seðlabankann. Samkvæmt tölum DataMarket er kostnaðurinn frá því í janúar 2009 til dagsins í dag orðinn 28 milljarðar. Sá kostnaður leggst á Ríkissjóð og þar með skattgreiðendur og heimilin í landinu.
Með virkri notkun bindiskyldu gæti Seðlabanki dregið úr peningaþenslu og jafnframt lækkað útgjöld sín um nokkra milljarða árlega. Vissulega á Seðlabankinn að vera sjálfstæður í mótun peningastefnu, en það þýðir ekki að hann eigi að vera undanskilinn því markmiði að ná sem bestum árangri án óþarfa útgjalda.
Frosti Sigurjónsson
Categories
Greinar

Enginn með lygaramerki á tánum

Deila grein

14/11/2013

Enginn með lygaramerki á tánum

Silja Dögg GunnarsdóttirStærsta mál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var að leiðrétta stökkbreytt fasteignalán íslenskra heimila. Forsætisráðherra lagði fram aðgerðaáætlun í tíu liðum þann 13. júní s.l. sem var samþykkt á Alþingi. Í henni kemur m.a. fram að: „Settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Tillögur liggi fyrir í nóvember 2013.“ Vinna hópsins gengur vel og mun hann boða til blaðamannafundar og kynna niðurstöður sínar í lok nóvember. Á þeim tímapunkti getur fólk mátað sína stöðu við niðurstöðu sérfræðinganna. Leiðréttingin sjálf mun síðan taka nokkra mánuði enda um flókið verkefni að ræða.

Alið á ótta og óvissu

Það hefur verið mjög einkennilegt að fylgjast með umræðunni sl. mánuði. Svo virðist sem það vaki fyrir ákveðnum einstaklingum að grafa undan von fólks að skuldaleiðréttingaleiðin sé fær. Reynt hefur verið að ala á ótta og vantrú af einhverjum öflum, sem erfitt er að festa hönd á. Vanlíðan margra og óvissa er alveg nógu mikil án þess að vísvitandi sé alið á þessum erfiðu tilfinningum. Væri ekki eðlilegra að bíða eftir niðurstöðum sem eiga að liggja fyrir í nóvember í stað þess að tala um svik. Hver sveik annars hvern? Mitt mat er að þeir sem voru við stjórnvölinn í síðustu ríkisstjórn hafi svikið almenning. Ekki núverandi ríkisstjórn. Hún hefur ekki svikið gefin loforð og mun ekki gera það.

Ekki hlustað á tillögur Framsóknar 2009

Framsóknarflokkurinn fékk umboð sitt frá kjósendum í síðustu Alþingiskosningum. Þá vann flokkurinn sögulegan kosningasigur og undirritaði í framhaldinu stjórnarsáttmála ásamt Sjálfstæðiflokki. Í stjórnarsáttmála má lesa eftirfarandi: „Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“ Flokkarnir vinna nú samkvæmt þessu sáttmála og samstarfið gengur vel.

Í vor var kosið um skuldamálin. Það er ekki rétt að flokksmenn hafi lofað öllu fögru kortér í kosningar til að komast til valda, eins og sumar litlar sálir halda fram. Það er afbökun á sannleikanum. Hið rétta er að þingmenn flokksins töluðu fyrir skuldaleiðréttingu allt síðasta kjörtímabil, en á þá var ekki hlustað og lítið gert úr þeirra tillögum til skuldaleiðréttingar.

Staðfastur hópur að baki stórum verkefnum

Í þingflokki Framsóknar starfar fólk sem vill íslenskum heimilum vel og er tilbúið að leggja mikið á sig til að koma þeim til hjálpar. Fyrir margar er það því miður orðið of seint. Tillögurnar munu koma fram innan skamms og það er vitað að það verða ekki allir ánægðir með þær tillögur. Sumum mun eflaust finnast að niðurstaðan sé ekki rétt fyrir sig. Aðrir vilja fara allt aðrar leiðir í skuldaleiðréttingum og svo er þeir sem telja skuldaleiðréttingu óþarfa með öllu. Þingmenn Framsóknarflokksins voru kosnir til að leysa þetta verkefni og þeir ætla að halda áfram að standa með íslenskum heimilum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Categories
Greinar

Íslenskt, já takk!

Deila grein

11/11/2013

Íslenskt, já takk!

Silja Dögg GunnarsdóttirNú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem fjallar um að rýmka lög um notkun á þjóðfána Íslands. Ef slík lög verða samþykkt þá heimila þau notkun fánans við markaðssetningu á íslenskum vörum. Hugmyndin er að vörur sem eru íslenskar af uppruna verði þá vel merktar með íslenska fánanum. Þetta mál hefur lengi verið til umfjöllunar og farið fyrir nokkur þing.

Hvað er íslenskur uppruni?

Neytendur eiga rétt á að vita hvaðan varan kemur sem þeir eru að kaupa; hvort sem um er að ræða matvöru eða hönnunarvöru. Mér finnst ekki rétt að selja fólk vörur í þeirri trú að varan sé íslensk, en þegar betur er að gáð þá er hráefnið erlent, framleiðslan fer fram erlendis en umbúðirnar eru á íslensku og vörumerkið íslenskt. En þegar rýnt er í smáa letrið þá kemur í ljós að varan er erlend að uppruna. Ég tek dæmi um kjötvörur sem eru stundum markaðssettar með þessum hætti. Svona vinnubrögð eru til þess fallin að blekkja neytendur. Annað dæmi eru lopapeysuframleiðsla en hún er mjög vinsæl vara hjá erlendum ferðamönnum og þeir telja sig vera að kaupa séríslenska vöru, merkta „Made in Iceland“. En það hefur gerst að lopinn sem notaður er í peysurnar er erlendur, framleiðslan fer fram erlendis og því ekkert íslenskt nema vörumerkið. Er þetta þá íslensk vara?

Hönnun og hefðir

Matar- og menningarferðamennska nýtur vaxandi vinsælda og því væri það ekki síður gagnlegt fyrir erlenda ferðamenn sem áhuga hafa á innlendri matargerð og matarminjagripum, sem og íslenska neytendur að vörur af íslenskum uppruna sé merktar með íslenska fánanum. Þær myndu klárlega vekja meiri athygli og um leið tryggja ákveðin gæði.

Flækjustigið sem ég rak mig á við endurskoðun þessa frumvarps var skilgreiningin varðandi hönnunarvörur og hið sama gildir um hefðbundnar íslenskar matvörur, sem þó eru úr erlendu hráefni. Þannig að lausnin er að hönnunarvara sé hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefnið sér erlent, t.d. húsgögn og fatnaður. Hið sama gildir um vörur framleiddar skv. íslenskri hefð eða sem hafa verið framleiddar í meira en hálfa öld, eins og t.d. Nóa konfekt, kleinur og slíkt, en þær yrðu einnig skilgreindar sem vörur af íslenskum uppruna.

Rétt er að geta þess grundvöllur þessara skilgreininga og lagabreytingar er að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Nú er þetta mál til umfjöllunar hjá Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis og verður vonandi afgreitt á Alþingi síðar í vetur.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki

Categories
Greinar

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Deila grein

28/10/2013

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Frosti SigurjónssonLandsbankinn, Arionbanki og Íslandsbanki eru taldir of stórir til að falla. Það þýðir að ef einhver þessara þriggja banka yrði gjaldþrota, þá myndi ríkissjóður koma til bjargar og lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Það má segja að á innstæðum í þessum þrem stærstu bönkum verði ekki komist hjá ríkisábyrgð. Eðlilegt væri því að þessir bankar greiddu ríkisábyrgðargjald í ríkissjóð í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Slíkt gjald myndi skila nokkrum milljörðum í ríkissjóð og jafna aðstöðu á bankamarkaði.

Njóti banki ríkisábyrgðar í reynd, án þess að greiða ríkisábyrgðargjald, þá má jafna ábyrgðinni við ríkisstyrk. Það er vafamál hvort tilefni sé til að ríkið styrki stærstu bankana sérstaklega og spurning hvort smærri bankar, sem ekki njóta sömu fyrirgreiðslu, eigi að sætta sig við slíka mismunun á markaði.

Í hruninu lýsti þáverandi ríkisstjórnin því yfir á ögurstundu að ríkisábyrgð væri á öllum innstæðum í innlendum bönkum. Yfirlýsingin dugði til þess að stöðva peningaflótta úr bönkunum. Hún bindur þó vart ríkissjóð, þar sem hún var aldrei samþykkt sem lög frá Alþingi. Ekki veit ég til þess að bankar hafi greitt ríkisábyrgðargjald vegna yfirlýsingarinnar. Yfirlýsinguna mætti afturkalla til að taka af allan vafa í hugum fólks.

Innstæðutryggingasjóði er ætlað að koma innstæðuhöfum til bjargar ef banki fellur. Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum sem bankar greiða og á honum er ekki bakábyrgð ríkisins. Í hruninu voru um 20 milljarðar í sjóðnum, sem hefði kannski dugað til að bjarga litlum banka eða sparisjóði, en ekki neinum af stóru bönkunum.

Ríkissjóður mun því þurfa að hlaupa undir bagga ef stór banki fellur, jafnvel þótt bankinn hafi greitt samviskusamlega í tryggingasjóð innstæðna.

Ríkisábyrgð á innstæðum í stóru bönkunum virðist því miður óumflýjanleg hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Best væri því að horfast í augu við þá staðreynd, skilgreina ríkisábyrgðina nánar og sjá til þess að stóru bankarnir greiði vegna hennar sanngjarnt gjald í ríkissjóð.

Innstæður í stóru bönkunum 30.6.2013 

Arion banki        467 milljarðar
Íslandsbanki      476 milljarðar
Landsbanki       449 milljarðar
Samtals:       1.392 milljarðar

Ríkið þyrfti ekki að ábyrgjast allar þessar innstæður. Líklega gæti meiri hluti þessara innstæðna beðið á meðan fallinn banki væri settur í gjaldþrotameðferð. Takmarka þyrfti ábyrgðina við þær innstæður sem brýnast væri að tryggja. Til dæmis mætti hugsa sér að hámarkstrygging á hvern einstakling væri 3 milljónir kr. og hjá lögaðilum mætti tryggja innstæður að hámarki 3 milljónir á hvert stöðugildi hjá fyrirtækinu. Þannig gæti stór hluti einstaklinga og fyrirtæki þraukað, kannski í 3-6 mánuði, á meðan greitt væri úr mesta vanda bankans, eða eignir hans seldar upp í forgangskröfur.

Mjög gróft áætlað, mætti líklega takmarka ríkisábyrgð á innstæðum stóru bankanna við 4-500 milljarða í heild. Með því mætti afstýra mesta tjóninu af falli stórs banka. Væri ríkisábyrgðargjaldið 1% af þeirri fjárhæð myndi það skila 4-5 milljörðum árlega í ríkissjóð.

 

Frosti Sigurjónsson

 

 

Categories
Greinar

Helgi og kröfuhafar

Deila grein

25/10/2013

Helgi og kröfuhafar

Eygló HarðardóttirÍ nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni. Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna. Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.

Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

 

Eygló Harðardóttir

 

Categories
Greinar

Þekking til framfara

Deila grein

24/10/2013

Þekking til framfara

Sigmundur Davíð GunnlaugssonKvennafrídagurinn 24. október er merkilegur dagur í sögu íslenskrar kvennahreyfingar því segja má að þann dag árið 1975 hafi hún á ný risið upp sem hin öfluga, fjölmenna samstöðuhreyfing sem hefur mótað samfélag okkar æ síðan. Framlag hennar er mikilvægt fyrir þróun jafnréttisbaráttunnar, en ekki síður fyrir þróun stjórnmálanna og lýðræðisins.

Frá upphafi hefur áherslan verið á réttindi kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og aðgengi að menntun, störfum og valdastöðum innan atvinnulífs og stjórnmála. Þess vegna er 24. október hátíðar- og baráttudagur og mikilsvert tilefni til að minna okkur öll á ríkulegt framlag kvenna til lífsgæða, mannréttinda og auðlegðar Íslands.

Í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins á sínum tíma og í þakkarskyni við framlag jafnréttishreyfingarinnar til þróunar samfélagsins var stofnað til Jafnréttissjóðs til að styrkja nýsköpun þekkingar á sviði jafnréttis- og kynjafræða með sérstakri áherslu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í því fólst viðurkenning á nauðsyn þess að efla rannsóknir á hlutskipti kvenna og karla og að skjóta sterkari stoðum þekkingar undir starf að jafnrétti kynjanna á margvíslegum vettvangi, bæði á vegum stjórnsýslunnar sem annarra.

Sérstaklega skyldi styðja ungar fræðikonur við uppbyggingu á fræðimannsferli sínum. Að auki höfðu sterkar líkur verið leiddar að því að konur sem umsækjendur eða rannsóknarverkefni á sviði jafnréttis kynja gætu borið skarðan hlut frá borði við samkeppni um fé í rannsóknarsamfélaginu í heild.

Jafnréttissjóður hefur nú styrkt hátt á þriðja tug rannsóknarverkefna. Í dag er úthlutað styrkjum til fimm ólíkra rannsókna sem öll munu nýtast í jafnréttisstarfinu. Rannsóknirnar snúa að launajafnrétti kynjanna, viðhorfum unglinga til verkaskiptingar kynja, ólíkum áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna auk þess sem sjónum verður beint að orðræðu samfélagsins sem tengist móðurhlutverkinu.

Loks ber að nefna rannsóknarverkefni þar sem kastljósinu verður beint að fjarveru kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna. Með þessu leggur Jafnréttissjóður sitt lóð á vogarskálarnar til eflingar þekkingar sem nýtist jafnréttisbaráttunni og samfélaginu öllu.
Til hamingju með daginn.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU 24. október 2013)

Categories
Greinar

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Deila grein

17/10/2013

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Gunnar Bragi SveinssonÍ tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB gaf í gær út skýrslur sínar um einstök ríki sem eru í aðildarferli að ESB lýsti stækkunarstjóri ESB því mati sínu að „…við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins.“

Hér er farið heldur frjálslega með. Staðreynd málsins er sú að öll stærstu málin í þessum viðræðum stóðu enn út af þegar hlé var gert á þeim. Þrátt fyrir að margir samningskaflar höfðu verið opnaðir og um þriðjungi lokað, þá fær það ekki staðist að stutt hafi verið í samningsniðurstöðu þegar kaflar um sjávarútveg og landbúnað höfðu ekki verið opnaðir svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ESB hafði ekki einu sinni afgreitt sína eigin rýniskýrslu um sjávarúvegskaflann.

Þessi fullyrðing stækkunarstjórans sýnir að það er brýnt að réttar upplýsingar um stöðu viðræðnanna við ESB séu á borðinu. Þess vegna mun sá þáttur einmitt verða hluti af þeirri úttekt sem ég mun kynna fljótlega á nýju ári.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Íslenskur raunveruleiki?

Deila grein

10/10/2013

Íslenskur raunveruleiki?

Elsa Lára ArnardóttirFjármálastöðugleikarit Seðlabanka Íslands kom út í gær og greint var frá því í kvöldfréttum. Þar kom fram að samkvæmt mati Seðlabankans væri fjárhagsleg staða íslenskra heimila að styrkjast vegna þess að skuldir þeirra hafi lækkað og eignir hafi aukist. Fram kom að skuldir íslenskra heimila hafi lækkað um 3,2% að raunvirði og mætti meðal annars rekja hækkunina til hærra fasteignaverðs.

Jafnframt kom fram að vanskil heimila væru enn mikil og gætu aukist ef efnahagslífið yrði fyrir áföllum.

Ég set stórt spurningamerki við þetta mat Seðlabankans og hef miklar efasemdir um að íslensk heimili hafi það betra nú en fyrir einhverjum árum eða mánuðum síðan. Það sýnir sig best í þeim fjölda heimila sem boðin eru upp en það eru um það bil þrjú heimili á dag hvern einn einasta dag ársins.

Ég veit vel, og ég heyri það í kringum mig, að róðurinn þyngist stöðugt þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna aukast dag frá degi. Heimilin hafa beðið aðgerða, aðgerða sem munu leiða af sér réttlæti. Því miður hafa margir gefist upp, sumir reynt að selja eignir í þeirri von að losna undan skuldum og þá er húsnæðisverðið sprengt upp úr öllu valdi til að reyna að dekka það sem hvílir á eignunum.

Einnig er spurningin hvort þær eignir sem fjármálastofnanir hafa eignast á undanförnum mánuðum séu teknar með í reikninginn en það eru talsvert háar upphæðir sem liggja þar að baki.

Ég vara því við umræðunni um að íslensk heimili hafi það betra nú en áður. Róðurinn þyngist enn. Enn banka erfiðleikar upp á og ekki batnar ástandið þegar fjöldi lána hrúgast inn úr frystingum eða sértækum skuldaaðlögunum; aðgerða sem gerðu ekkert annað en að lengja aðeins í hengingarólinni ef þannig má að orði komast.

Ég vildi svo sannarlega óska þess að þessi jákvæði tónn sem finna má í riti Seðlabankans ætti við rök að styðjast en þetta er ekki íslenski raunveruleikinn.

Pössum umræðna, verum raunsæ og stöndum með íslenskum heimilum. Það ætlum við framsóknarmenn að gera!

 

ELSA LÁRA ARNARDÓTTIR

Categories
Greinar

„Mennt er máttur“

Deila grein

03/10/2013

„Mennt er máttur“

Gunnar Bragi SveinssonMenntun þjóðar er einn besti mælikvarðinn sem til er á þróun og framfarir. Þjóð sem er vel menntuð er nær örugglega vel stödd efnahagslega. Ríkari þjóðir heims tryggja öllum grunnmenntun, sem í dag þýðir víðast hvar vel yfir tíu ára skólagöngu – og flestir eiga kost á framhaldsmenntun, að miklu leyti á kostnað hins opinbera.

Hjá fátækum þjóðum heimsins er þessu öðruvísi farið. Þar er engan veginn víst að öll börn eigi þess kost að sækja skóla, og þaðan af síður að skólinn geti boðið þeim upp á hæfa kennara, kennslugögn eða jafnvel þak yfir höfuðið. Þótt miklar framfarir hafi orðið á seinni árum í því að tryggja börnum aðgang að skóla, og þar hafa þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna verið mikill hvati, vantar mikið upp á að sú kennsla sem þar fer fram nái markmiðum sínum, ekki síst vegna lélegs aðbúnaðar.

Þegar börnin komast á kynþroskaaldurinn hverfa þau frá námi til að leggja sitt til framfærslu fjölskyldunnar. Staða ungra stúlkna er verri en drengja og allt of oft eru þær teknar úr skóla, bæði af efnahagslegum og menningarlegum ástæðum, og hverfa þá stundum beint úr hálfnuðu grunnskólanámi í hjónaband. Ein helsta áskorunin sem heimurinn horfist í augu við gagnvart menntun í fátækum löndum er að halda börnunum í skóla þar til grunnskóla lýkur. Önnur megináskorunin er að auka gæði námsins, með því að tryggja betri námsaðstæður fyrir börnin.

Grundvallarmenntun
Það er skylda þjóða sem hafa efni á, að styðja fátækar þjóðir til þess að veita börnum grundvallarmenntun, svo að allir kunni að lesa, skrifa og reikna. Íslendingar hafa viðurkennt þessa skyldu sína um árabil. Eins og fram kemur í áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016, sem samþykkt var á Alþingi í mars 2013, er menntun einn mikilvægasti þátturinn í þróunarsamvinnu okkar. Hluti hennar er á háskólastigi í gegnum Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en þar höldum við uppi myndarlegu starfi Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans.

Þá styðjum við einnig við starf stofnana á borð við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), sem styður m.a. við menntun, heilsu og þroska barna og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) sem starfar að því að tryggja konum grundvallarréttindi á borð við menntun og tækifæri til að nýta hana sér og fjölskyldum sínum til framdráttar.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur lagt verulega áherslu á menntun í verkefnum sínum í fátækum löndum Afríku. Hún snýr að grunnskólamenntun í sumum löndum, að fullorðinsfræðslu í öðrum og atvinnutengdri menntun í enn öðrum. Í öllum tilfellum er menntunin veitt á forsendum heimalandsins og í þeim tilgangi að styrkja félagslega innviði. Áherslan í grunnskólamenntun hefur fyrst og fremst verið á að tryggja menntun barna í fátækum byggðum og á menntun stúlkna.
Þá er rétt að geta þess góða starfs sem mörg íslensk félagasamtök hafa unnið á sviði menntunar í fjölmörgum löndum þar sem unnið er af heilum hug að því að bæta aðgengi barna að námi og auka gæði þess.

Nú stendur yfir kynningarvika sem ber yfirskriftina „Komum heiminum í lag“, en að henni standa félagasamtök sem starfa á sviði þróunarsamvinnu í samvinnu við ÞSSÍ, með stuðningi utanríkisráðuneytisins. Þetta er þriðja árið í röð sem staðið er fyrir slíku kynningarátaki, en að þessu sinni er áherslan á menntun og mikilvægi hennar. Bæði fyrir þróunarlönd og íbúa þeirra, sem og fyrir þegna þeirra ríkja sem veita framlög til þróunarsamvinnu.

Stuðningur við menntun skilar sér margfalt til baka og myndar þær stoðir sem nauðsynlegar eru hverju samfélagi. Menntun eykur hagsæld, jöfnuð og velferð. Mennt er máttur.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum og minnst framlög

Deila grein

06/09/2013

Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum og minnst framlög

Aldraðir eiga að fá áhyggjulaust ævikvöld. Aldraðir einstaklingar sem eru búnir að skila af sér myndarlegu lífsverki eiga að vera metnir að verðleikum og fá þá þjónustu sem þeir þurfa, helst í heimabyggð eða sem næst henni. Hlutfallslega fæst hjúkrunarrými er á hvern íbúa á Suðurnesjum, miðað við aðra landshluta og minnst framlög. Þessu þurfum við Suðurnesjamenn að breyta.

Samræmis á að gæta milli landshluta

Verulega hallar á Suðurnesin þegar fjöldi hjúkrunarrýma og framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru borin saman við aðra landshluta.Á tímabilinu 2000-2010 voru úthlutanir úr Framkvæmdasjóðnum til Suðurnesja aðeins 1,5% af heildinni en 5% aldraðra búa á Suðurnesjum. Úhlutanir til svæðisins nema því aðeins 30,4% af því sem fjöldi aldraðra gefur tilefni til. Framlag úr sjóðnum hefði átt að vera 385 millj. kr. en var aðeins 116,9 millj. kr. Þarna vantar háa upphæð til að sanngirni sé gætt og jafnræði sé á milli landshluta.

Fæst hjúkrunarrými eru á Suðurnesjum á landinu á hverja 1000 íbúa, eða 5,4 en landsmeðaltalið er 7,4. Ef hjúkrunarrými á Suðurnesjum væru í samræmi við meðaltal þá væru þau 157, eða 43 fleiri en þau eru í dag. Þetta eru sláandi staðreyndir og ljóst er að við Suðurnesjamenn verðum að standa saman og bæta stöðu okkar verulega á þessu sviði.

Við þurfum á Garðvangi að halda

Með tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum bætast við 60 hjúkrunarrými sem mikil þörf er á. Umræðan hefur snúist um hvort loka eigi Garðvangi þegar þau rými hafa verið tekin í notkun. Samkvæmt skýrslu frá Haraldi L. Haraldssyni hagfræðingi sem kynnt var á fundi í Gerðaskóla í síðustu viku, kemur fram að áfram verður skortur á rýmum þrátt fyrir tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum.

Því væri réttast að halda Garðvangi opnum en gera á honum nauðsynlegar endurbætur svo aðstaðan þar samræmist nútíma kröfum um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Ef endurbætur verða gerðar á Garðvangi þá væri hægt að reka þar 18,8 rými í stað 39 rýma í dag. Kostnaðaráætlun skv. útreikningum byggingarfulltrúa nemur um 153,2 millj.kr. sem er aðeins 2/3 af kostnaðaráætlun Velferðarráðnuneytisins.

Hvað með fjármögnun? Hver á að borga? Ef viljinn er fyrir hendi, þá er hægt að fara ýmsar leiðir til að hægt sé að ráðast í verkefnið. Sveitarfélagið Garður gæti gæti mögulega farið svokallaða leiguleið, þ.e. tekið 100% lán hjá  Íbúðalánasjóði til 40 ára og Ríkið síðan borgað 85% af leiguverði en sveitarfélagið 15%. Það er leið sem vert að skoða vel.

Nesvellir eru góð byrjun

Samkvæmt samþykkt svæðisskipulags Suðurnesja sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum luku við að staðfesta í desember 2012, kemur m.a. fram að stefnan sé að fjölga hjúkrunarrýmum til samræmis við aðra landshluta, auka samvinnu og sérhæfingu á þessu sviði og byggja upp hjúkrunarrými í hverjum þjónustukjarna. Minn skilningur er því sá, að þessu sögðu, að það sé vilji allra sveitarfélaga á Suðurnesjum að byggja upp öldrunarþjónustu á hverjum stað fyrir sig. Þörfin er svo sannarlega til staðar. Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum er nauðsynleg viðbót en betur má ef duga skal!

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í fréttamiðlinum Reykjanesi 5. September 2013