Kæri lesandi.
Í hillu norður í Reykjadal rakst ég á kvæði eftir Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind. Kvæðið heitir Mold og birtist í bókinni Segðu mér að sunnan sem kom út árið 1920. Þetta er afar fallegt kvæði, lofsöngur um mold og líf, sem á vel við að rifja upp á þessum kaldasta tíma ársins þegar sól er byrjuð að hækka á lofti á ný.
Þú dökka, raka, mjúka mold,
sem mildi sólar hefur þítt.
Hve ann ég þér, hve óska ég mér,
að um þig streymi sumar nýtt.
Við þekkjum öll mikilvægi moldarinnar, ekki síst við sem búum í sveitum landsins. Moldin er tákn mildi og umhyggju og um leið tákn um vöxt.
Öflugt starf að umbótum
Hlutverk stjórnvalda er ekki síst fólgið í því að skapa frjóan jarðveg til að upp fólk geti nýtt hæfileika sína til að skapa sér og samfélaginu verðmæti. Þau verðmæti geta bæði verið veraldleg og andleg. Oft eru þau hvort tveggja eins og við sjáum á þeirri miklu sókn sem íslensk list er í, bæði hér á landi og erlendis. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að skapa list og menningu góða umgjörð auk þess sem hún hefur unnið að framtíðarstefnu fyrir ferðaþjónustu og undirstrikað mikilvægi neytendamála. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisherra hefur lagt áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið og meðal annars náð samningum við sérfræðilækna og með aðstoð einkaframtaksins náð að lina þjáningar þeirra sem beðið hafa eftir liðskiptum og aðgerðum vegna endómetríósu. Ásmundur Einar Daðson hefur haldið áfram góðum störfum sínum í þágu barna auk þess að hlúa að íþróttastarfi, ekki síst með nýrri afreksstefnu. Þær umbætur sem orðið hafa á vakt þessara dugmiklu ráðherra eiga það sameiginlegt að skapa aðstæður til aukins vaxtar, aðstæður sem gera fólki kleift að springa út.
Nýtt ráðuneyti sannar sig
Innviðaráðuneytið á tveggja ára afmæli um næstu mánaðamót. Með nýju ráðuneyti voru sameinuð undir einum hatti svið samgangna, sveitarstjórnarmála, byggðamála, húsnæðismála og skipulagsmála. Með þessu viðamikla ráðuneyti hefur náðst betri sýn yfir þessa mikilvægu málaflokka og síðast en ekki síst meiri samhæfing. Fyrr í haust lagði ég fyrir þingið stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem hefur verið samþykkt. Auk þess lagði ég fyrir þingið samgönguáætlun, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu sem allar eru til umfjöllunar í nefndum þingsins. Það sem af er þingi hafa sex frumvörp innviðaráðherra orðið að lögum, þar á meðal lög sem hafa í för með sér nauðsynlega úrbætur í brunavörnum og lög um hagkvæmar íbúðir.
Hlúa þarf að landbúnaði
Landbúnaður er ekki aðeins mikilvæg atvinnugrein fyrir okkur á Íslandi. Landbúnaður er hluti af menningu okkar og varðveitir stofna búfjár og gróðurs og er samtvinnaður menningu okkar frá landnámi. Landbúnaðurinn hefur átt undir högg að sækja vegna aukinnar samkeppni við ódýrar afurðir sem fluttar eru hingað um langan veg frá löndum sem búa oft við lægri laun. Óhagstætt vaxtaumhverfi sem aukin verðbólga hefur leitt af sér hefur einnig lagst þungt á bændur. Ungir bændur hófu upp öfluga raust sína á haustmánuðum til að benda á þessar erfiðu aðstæður. Ríkisstjórnin brást við með aðgerðum sem leggja áherslu á nýliðun og kynslóðaskipti með aðstoð við yngri bændur. Það er þó ekki nóg. Við þurfum að horfa til framtíðar og rífa greinina upp úr hjólförum sem mótuð eru af afskiptaleysi og skort á skilningi á ákveðnum sviðum í íslensku samfélagi.
Lægri vextir eru stórt hagsmunamál
Árið 2023 hefur ekki verið dans á rósum. Við höfum þurft að takast á við verðbólgu sem hefur í för með sér hærri vexti sem leggjast illa á heimili og fyrirtæki. Við sjáum þó að aðgerðir stjórnvalda eru farin að hafa áhrif nú í lok árs. Ábyrg fjárlög skipta þar miklu máli. Einnig er ánægjulegt að sjá að aðilar vinnumarkaðarins ganga fram með það að markmiði að verðbólga lækki. Það er ljóst að stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja er að vextir lækki og gott að náðst hafi samstaða þar um. Ríkisstjórnin mun leggja sitt a f mörkum til að skapa umgjörð sem stuðlar að skynsamlegum kjarasamningum en þó leggja áherslu á að kjarasamningar eru á ábyrgð samningsaðila.
Við stöndum með Grindvíkingum
Þær hamfarir sem dunið hafa yfir í næsta nágrenni Grindavíkur eru þó sá atburður sem er mér efst í huga á þeim tímamótum sem áramót eru. Enginn er ósnortinn af þeirri hugprýði og því æðruleysi sem Grindvíkingar hafa sýnt við erfiðar aðstæður. Það er erfitt að gera sér í hugarlund tilfinninguna að þurfa að yfirgefa heimili sitt um lengri tíma vegna umbrota í náttúrunni. Oft er sagt að óvissan sé versti óvinurinn og það er svo sannarlega satt þegar horft er til Grindavíkur. Vísindin og okkar öfluga fólk sem þau stunda eru okkur mikil stoð þegar kemur að hamförum eins og þeim sem dunið hafa yfir en meira að segja þau geta ekki sagt með fullri vissu til um hvað framtíðin ber í skauti sér.
Innviðaráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja húsnæði fyrir sem flesta Grindvíkinga, meðal annars með kaupum Bríetar leigufélags á 80 íbúðum sem grindvískar fjölskyldur hafa nú þegar fengið lyklana að eða fá á næstu dögum. Samvinna stjórnarráðsins við yfirvöld í Grindavík hefur verið þétt frá byrjun og verður það áfram svo lengi sem þörf er á.
Fimmtíu ár eru síðan íbúar heils byggðarlags þurftu að yfirgefa heimili sín. Við þessar aðstæður er skylda okkar sem samfélags að standa þétt við bakið á Grindvíkingum. Vonandi getum við brátt séð lengra fram í tímann svo daglegt líf lifni að nýju í Grindavík, þessu öfluga bæjarfélagi.
Þörf fyrir græna uppbyggingu
Náttúran getur verið grimm en hún er einnig gjöful. Það vitum við á Íslandi sem byggt höfum velsæld okkar á gæðum náttúrunnar, hvort sem það er í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða með orkunni sem veitir heimilum okkar yl og ljós. Við gerum okkur betur ljós fyrir mikilvægi orkuvinnslu þegar hætta steðjar að. Reistir hafa verið varnargarðar um Svartsengi vegna þeirrar mikilvægu starfsemi þar sem fer fram og tryggir Reykjanesinu öllu hita og birtu. Ísland væri ansi fátækt og mannlífið fátæklegt ef ekki væri fyrir framsýni fyrri kynslóða með raf- og hitaveituvæðingu. Við stöndum framar flestum þjóðum þegar kemur að grænni orku. Það er þó ljóst að ráðast verður í skynsamlega virkjanakosti til að viðhalda lífsgæðum á Íslandi, virkjanakosti sem ganga ekki um of á stórkostlega náttúru okkar. Ábyrg uppbygging verður að eiga sér stað á næstu árum.
Kæri lesandi.
Síðustu áramót voru yfirskyggð af stríði í Úkraínu. Það stríð geisar enn. Ári síðar kveðjum við árið 2023 í skugga annars skelfilegs stríðs fyrir botni Miðjarðarhafs. Hjörtu okkar Íslendinga hafa lengið fundið til með Palestínumönnum. Steingrímur Hermannsson hneykslaði einhverja ráðamenn á Vesturlöndum þegar hann átti fund með Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, fyrir margt löngu en vakti með því athygli á aðstæðum þeirra. Ísland varð síðar eitt fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Við hljótum öll að sameinast í bæn um frið.
Við sem búum á Íslandi getum verið þakklát fyrir friðinn sem ríkir á Íslandi. Þakklát fyrir þá samheldni sem einkennir okkur þegar á bjátar. Þakklát fyrir þann jarðveg sem við erum sprottin upp úr. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á árinu 2024 og lýk þessum pistli á orðum Huldu:
Þú byrgir hjörtu, hljóð og köld,
við hjarta þitt, sem fallin strá.
Þér fólu eilíf, óþekkt völd
að endurskapa jarðlíf smá.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2023.