Categories
Fréttir Greinar

Líf ís­lensk land­búnaðar hangir á blá­þræði

Deila grein

17/10/2023

Líf ís­lensk land­búnaðar hangir á blá­þræði

Það hefur legið fyrir um tíma að staða bænda hafi farið versnandi á síðustu árum, staðan hefur verið margrædd en lítið að gert. Veruleikinn er sá að afkoma bænda hefur verið með öllu óviðunandi frá árinu 2020, rekstrargrundvöllurinn er hverfandi með hverjum mánuði, nýliðun er lítil sem engin og bændur kalla ítrekað eftir aðgerðum til að koma starfsgreininni aftur í fyrra horf.

Það er ekkert einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Fæðuöryggi þjóðarinnar er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og bænda. Vel rekin bú berjast í bökkunum vegna fjárhagsvanda. Hækkun stýrivaxta ásamt ófyrirséðum stökkbreytingum í verði á aðföngum síðustu ára hafa eðli málsins samkvæmt gríðarleg áhrif á rekstur búa. Hækkun afborgana vegna hækkunar stýrivaxta nemur allt að 5,8 milljörðum hjá kúabúum, nautakjötsframleiðendum, sauðfjárbúum og í garðyrkju. Á sama tíma hafa bændur undirgengist ýmist strangt regluverk um velferð búfjár, mikilvægt regluverk sem kostað hafa miklar fjárfestingar á síðustu árum. Því miður er staða bænda á Íslandi nú svo grafalvarleg að fjöldagjaldþrot blasir við greininni verið ekkert að gert. Það sér hver í hendi sér að íslenskur landbúnaður getur ekki ofan í allt annað tekið á sig þessar hækkanir, stjórnvöld verða að bregðast við án tafar.

Betri lán í gegnum Byggðastofnun

Til að reka bú í dag þarf að fara í gríðarmikla fjárfestingar, fjárfestingar sem eru í engum takti við veltu búa. Í núverandi stöðu eru bændur að ganga á eignir til þess að geta staðið við rekstrarlegar skuldbindingar. Sá sem hér skrifar telur mikilvægt að við finnum leiðir til þess að hægt sé að byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu, við verðum að bæta starfsskilyrði bænda. Rétta leiðin er ekki sú sem lagt er upp með í dag, það er, að eignast húseignir, bústofn, jarðnæði og land á 20 árum. Það er ekki raunhæft að ætla bændum að greiða niður nokkur hundruð milljón króna fjárfestingar á aðeins 20 árum og það er engin skynsemi í því. Við þurfum aðrar leiðir, að mínu mati ætti að veita bændum lán í gegnum Byggðastofnun á lágum vöxtum til lengri tíma, í anda gömlu stofnlánadeildarinnar. Svo það sé mögulegt þarf að stórauka fjármagn til Byggðastofnunar. Það er aðgerð sem myndi skila sér aftur til þjóðarinnar, ekki bara fyrir bændur heldur einnig sem liður í fæðuöryggi þjóðar. Markmiðið með þessum aðgerðum væri ekki að hækka vöruverð til neytenda heldur að tryggja að hér verði öflug matvælaframleiðsla í framtíðinni.

Hlutdeildarlán fyrir nýliða

Þá er nýliðun orðið „orð“ sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan auk þess fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Það að fara út í jarðarkaup í dag með öllu tilheyrandi er á fárra færi, undirritaður telur að skoða þurfi af fullri alvöru möguleika á að útfæra hlutdeildarlán til nýliðunar bænda.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru hlutdeildarlán úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga og er ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup. Í þeim tilvikum veitir HMS kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs. Að mínu mati mætti útfæra lán til bænda með þeim hætti að stjórnvöld legði til 25-30% af kaupverði jarða og líkt og er með hlutdeildarlán til fasteignakaupa endurgreiði stjórnvöld sinn hlut að lánstíma loknum eða ef kæmi til sölu. Í rauninni er þetta eina leiðin sem er fær ef við viljum í alvöru tryggja nýliðun innan bændastéttarinnar.

Það er verk að vinna

Bændur á Íslandi framleiða með heilnæmustu matvörum í heiminum, það segir sig sjálft að það er mun kostnaðarsamara en að framleiða matvöru með aðstoð aukaefna líkt og gert er víða erlendis. Bændur vilja halda áfram að framleiða gæða landbúnaðarvörur, þar sem velferð búfjár, umhverfismál og loftslagsmál eru í fyrirrúmi. Svo að það sé og verði mögulegt áfram verðum við að bregðast við þeirri stöðu sem er nú uppi með ýmsum nýjum ráðum og afkoman verður að batna. Þá verður að tryggja að tollverndin haldi, því kerfið er hriplekt eins og það er í dag. Við verðum að tryggja að skipulag Íslands sem matvælaframleiðslulands verði forgangsmál hjá stjórnvöldum. En fyrsta verkefnið er að setjast niður með bændum og fara yfir stöðuna, hvað er til ráða, því að ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Virkjum allt unga fólkið

Deila grein

16/10/2023

Virkjum allt unga fólkið

Mikill meirihluti ungs fólks er í skóla og vinnur hluta úr ári, auk þess að sinna fjölbreyttu tómstundastarfi. Á hverjum tíma er þó ákveðin hópur sem einhverra hluta vegna hefur lítil tækifæri til virkni. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður líkt og áföll, langtíma eða skammtímaveikindi, taugaraskanir, flutningur milli samfélaga eða hreinlega eitthvað allt annað. Það sem skiptir máli fyrir hvert samfélag er að sinna þessum hópi og það á forsendum hvers og eins. Þá þarf að virða að ástæður þess að fólk er ekki virkt eru mismunandi. Allir þessir einstaklingar hafa sína einstöku sögu og þurfa að fá sín tækifæri til þess að ná að vera virkir í samfélaginu. Þessi hópur hefur ekki verið stór hér á landi í samanburði við önnur lönd en við verðum samt stöðugt að vera á vaktinni við að sinna honum.

Það sem hentar einum hentar ekki öllum

Mörgum framhaldsskólum hefur tekist vel við að grípa fólk sem á erfitt með að fóta sig í skóla en sú leið hentar ekki endilega öllum. Það er því mikið fagnaðarefni að á dögunum var undirritaður samningur sem tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir þann hóp sem oft er skilgreindur sem NEET hópurinn (fólk sem ekki er í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu). Um er að ræða þríhliða samning um samvinnu milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda. Samningurinn er liður í tveggja ára tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu milli ráðuneyta og endurhæfingarúrræða. Gert er ráð fyrir að árlegt fjármagn til þjónustunnar nemi um 330 milljónum króna.

Janus endurhæfing mun veita þjónustuna sem stendur til boða alla virka daga. Þjónustan er sérstaklega ætluð þeim ungmennum sem eru með þráláta, kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda eða ungmennum með röskun á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál. Þá er í endurhæfingunni lögð sérstök áhersla á náið samstarf og samráð við heilbrigðiskerfið og VIRK sem gefur möguleika á góðri, faglegri, heildrænni nálgun og samfellu í þjónustunni. Árangur verkefnisins verður metinn á sex mánaða fresti á samningstímanum með það að markmiði að halda áfram að bæta þjónustu við þennan mikilvæga hóp ungmenna.

Markmið samningsins er skýrt, það er að hjálpa ungu fólki sem hefur átt erfitt með að fóta sig í lífinu til að ná upp virkni og getu. Takist það, aukast lífsgæði þess og opnar fyrir því möguleika til að njóta sín betur í framtíðinni. Samvinnan sem hér á sér stað er mikilvægt skref í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og það er óhætt að segja að við munum öll uppskera ef vel tekst til.

Allir eiga rétt á tækifæri

Verkefnið er í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 um að efla gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði. Endurhæfingarráð hefur leitt undirbúninginn og þátttakendur í því eru m.a. geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðferðareining lyndisraskana á Landspítala og VIRK. Vinnan hefur m.a. falist í að meta þörf einstaklinga fyrir þessa þjónustu ásamt því að sérsníða þjónustuna að þörfum þeirra. Þá er verkefnið mikilvægt í tengslum í breytingum á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem m.a. gengur út á að styðja ungt fólk til atvinnu með sérhæfðum stuðningi. Fyrir utan að auka, færni og sjálfstraust er hér lagt upp með að bæta líðan og lífsgæði. Verkefnið getur komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og skapað sjálfbærara samfélag. Við í Framsókn viljum, að öll eigi raunveruleg tækifæri til að vera virk í samfélaginu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. október 2023.

Categories
Greinar

Mikill kraftur og sókn í Suðurnesjabæ

Deila grein

16/10/2023

Mikill kraftur og sókn í Suðurnesjabæ

Suður­nesja­bær er ört vax­andi sveit­ar­fé­lag á Suður­nesj­um og íbú­um fjölg­ar jafnt og þétt. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um þjóðskrár er íbúa­fjöldi í Suður­nesja­bæ kom­inn yfir 4.000, nán­ar til­tekið í alls 4.046. Þegar Suður­nesja­bær varð til við sam­ein­ingu Sand­gerðis­bæj­ar og Sveit­ar­fé­lags­ins Garðs fyr­ir fimm árum var íbúa­fjöld­inn um 3.400. Íbúum hef­ur því fjölgað um 600 manns á þess­um fimm árum, eða um 17,5%.
Staða at­vinnu­mála er góð í sveit­ar­fé­lag­inu þar sem sjáv­ar­út­veg­ur og flug­tengd starf­semi í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar í Suður­nesja­bæ eru burðar­póst­arn­ir í sveit­ar­fé­lag­inu á því sviði, einnig fjölg­ar störf­um í ferðaþjón­ustu nokkuð.

Sjáv­ar­klas­inn opn­ar Græn­an iðngarð

Eft­ir að Norðurál Helgu­vík var tekið til gjaldþrota­skipta hef­ur verið unnið að því að selja þær eign­ir sem voru í eigu þrota­bús­ins. Nú ligg­ur fyr­ir að Reykja­nesklas­inn eign­ast mann­virkið sem byggt var í þeim til­gangi að starf­rækja ál­bræðslu Norðuráls. Sam­kvæmt til­kynn­ingu sem Reykja­nesklas­inn hef­ur sent frá sér er ætl­un­in að nýta mann­virkið til þess að þróa þar og starf­rækja Græn­an iðngarð. „Ætl­un­in er að hýsa inn­lend og er­lend fyr­ir­tæki sem þurfa rými fyr­ir sprot­astarf, rann­sókn­ar- og til­rauna­starf­semi, þróun, fram­leiðslu og sam­setn­ingu á vör­um eða aðstöðu fyr­ir fisk­eldi og rækt­un, svo eitt­hvað sé nefnt.“ Þá kem­ur einnig fram að starf­sem­in muni m.a. byggj­ast á hug­mynda­fræði um hringrás­ar­hag­kerfi.

Smám sam­an er að fær­ast aukið líf í Græna iðngarðinn í Suður­nesja­bæ. Um er að ræða mjög metnaðarfullt verk­efni sem bygg­ist á hug­mynda­fræði um klasa­starf­semi sem hef­ur sannað sig hjá Sjáv­ar­klas­an­um. Það verður áhuga­vert að fylgj­ast með fram­gangi máls­ins.

Upp­bygg­ing á innviðum sveit­ar­fé­lags­ins

Mik­ill upp­bygg­ing er að eiga sér stað í gatna­gerð í báðum byggðar­kjörn­um, Sand­gerði og Garði, sem mynda Suður­nesja­bæ. Hef­ur út­hlut­un lóða og sala fast­eigna verið mik­il, sér­stak­lega með til­komu hlut­deild­ar­lána en sveit­ar­fé­lagið er nú skil­greint sem vaxt­ar­svæði.

Ný­lega var tek­in í gagnið glæsi­leg stækk­un við Gerðarskóla í Garði og þá er sveit­ar­fé­lagið að byggja nýj­an og glæsi­leg­an leik­skóla í Sand­gerði sem tel­ur sex deild­ir og eru áætluð verklok í mars 2024. Um að ræða bylt­ingu í leik­skóla­mál­um í Suður­nesja­bæ þar sem leik­skól­inn verður einn sá veg­leg­asti á land­inu. Svo er mik­il vinna í gangi við end­ur­nýj­un og lag­fær­ingu á eldri göt­um sveit­ar­fé­lags­ins sem hafa látið á sjá.

Áform um bætta aðstöðu til íþróttaiðkun­ar

Stækk­un er haf­in á hús­næði sund­laug­ar­inn­ar í Sand­gerði sem mun gera aðstöðu starfs­fólks en betri og tryggja þannig meira ör­yggi sund­laug­ar­gesta.

Ný­lega var samþykkt í bæj­ar­ráði Suður­nesja­bæj­ar að fara af stað með frí­stunda­akst­ur í sveit­ar­fé­lag­inu á milli byggðakjarna til að stuðla þannig að auk­inni þátt­töku ung­menna í íþrótt­um.

Í mál­efna­samn­ingi B- og D-lista kem­ur fram að „bæta skal aðstöðu til íþróttaiðkun­ar með bygg­ingu gervi­grasvall­ar þar sem horft verði til framtíðar við hönn­un hans og gert verði ráð fyr­ir að hægt verði að byggja yfir hann síðar“. Unnið er mark­visst að þess­ari fram­kvæmd og er nú í gangi grein­ing­ar­vinna um staðsetn­ingu vall­ar­ins sem á að ljúka á allra næstu miss­er­um. Því næst er að taka skjóta ákvörðun um staðsetn­ingu hans til þess að upp­bygg­ing geti haf­ist.

Anton Guðmundssonodd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2023.

Categories
Greinar

Bann við símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar?

Deila grein

15/10/2023

Bann við símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar?

Mikil umræða hefur verið undanfarið um símanotkun barna- og ungmenna í grunnskólum og skort á stafrænu læsi. Það er frábært þegar þjóðþekktur aðili eins og Þorgrímur Þráinsson leggur orð í belg því þá virðist þjóðin hlusta en þá þarf líka að bregðast við og grípa til aðgerða.

Barna- og menntamálaráðherra hefur sett af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Við bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri viljum bregðast strax við og munum leggja fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi næstkomandi þriðjudag:

Fræðslu- og lýðheilsuráði er falið í samstarfi við ungmennaráð og fulltrúum skólasamfélagsins, skólastjórnendum, kennurum og nemendaráðum grunnskóla, að setja reglur um notkun síma í grunnskólum Akureyrarbæjar. Reglurnar eiga að taka gildi í síðasta lagi um næstu áramót og gilda þar til barna- og menntamálaráðherra hefur lokið vinnu við mótun reglna um notkun síma í grunnskólum landsins.

Skilja börn og ungmenni orðið bergmálshellir?

Einnig munum við leggja fram fyrirspurn um stöðu vinnu við að efla stafrænt læsi barna- og ungmenna en undirrituð skrifaði grein um eflingu stafræns læsis fyrir ári síðan, Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni, og lagði svo fram eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn sem var samþykkt: Bæjarstjórn telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og í framhaldinu í aðgerðaáætlun forvarnastarfs sem tæki þá ekki aðeins á notkun og samskiptum á miðlunum heldur einnig markaðsstarfi þeirra.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson eru bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Traust og ábyrgð

Deila grein

14/10/2023

Traust og ábyrgð

Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði hefur undanfarin ár verið treyst til að takast á við stórar áskoranir með hagsmuni almennings að leiðarljósi og undir því trausti höfum við staðið. Í síðustu kosningum fékk ríkisstjórnin skýrt endurnýjað umboð og gerði með sér sáttmála um áframhaldandi samstarf. Við höfum verið einhuga um að rísa undir því trausti og þeirri ábyrgð að vinna fyrir fólkið í landinu.

Ríkisstjórnin hefur undanfarið unnið að fjölmörgum verkefnum á grundvelli stjórnarsáttmála og drjúgur meirihluti þeirra er kominn vel á veg eða þeim lokið. Á síðari hluta kjörtímabilsins ætlum við að halda ótrauð áfram. Það eru krefjandi aðstæður uppi um þessar mundir og brýn verkefni fram undan. Verðbólga hefur haft áhrif á allt samfélagið. Fólk og fyrirtæki hafa glímt við hækkandi vexti sem reynist mörgum þungt. 

Stærsta verkefni vetrarins er að ná tökum á verðbólgunni. Til að svo megi verða þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum. Á sama tíma ætlum við áfram að veita viðkvæmum hópum skjól fyrir áhrifum hennar. Þrátt fyrir áskoranir er grunnurinn sem lagður hefur verið síðustu ár traustur. Atvinnuleysi er í lágmarki og nýjum tækifærum fjölgar í stöðugt fjölbreyttara atvinnulífi. Afkoma og skuldastaða ríkissjóðs eru langt umfram fyrri væntingar og fara hratt batnandi. Raunhæfar væntingar eru um að verðbólga lækki hratt næstu mánuði og að við náum efnahagslegum stöðugleika á nýju ári. Það er okkar að tryggja að sá ábati skili sér inn á heimilin í landinu.

Það eru hagsmunir allra að farsælir kjarasamningar náist á vinnumarkaði til að skapa forsendur fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir áframhaldandi stuðningi við lífskjör launafólks, traustri umgjörð kjarasamninga, stöðugu framboði og öryggi á húsnæðismarkaði og bættri afkomu barnafjölskyldna. Við munum eiga samtal við forystufólk launafólks og atvinnurekenda og leggja okkar af mörkum til að greiða fyrir farsælum langtímasamningum. 

Til að ná sátt og jafnvægi í íslensku samfélagi verður áhersla ríkisstjórnar Íslands næstu mánuði fyrst og fremst á efnahagsmálin og það brýna verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við höfum áður mætt erfiðum aðstæðum. Þeim erfiðleikum höfum við mætt af yfirvegun og öryggi. Það mun ekki breytast. Því getur þjóðin treyst.

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Categories
Fréttir Greinar

Framfarir í úrgangsmálum

Deila grein

13/10/2023

Framfarir í úrgangsmálum

Hvernig við komum frá okkur sorpi snertir hvert einasta heimili og er lögbundið verkefni sveitarfélaga. Það verða því flestir varir við það þegar verða breytingar í málaflokknum.

Á síðustu mánuðum hafa verið innleiddar mestu breytingar í úrgangsmálum sem orðið hafa um langa hríð á höfuðborgarsvæðinu. Aukin flokkun sorps frá heimilum er stórt verkefni sem hefur, þegar á heildina er litið, gengið mjög vel og er strax farið að skila miklum árangri.
Það má þó ekki gleyma því að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru vanir að flokka en 60% af þeim úrgangi sem kemur frá heimilum er skilað á endurvinnslustöðvar Sorpu og 40% er sótt í tunnur við heimili.

Áframhaldandi starfsemi í Álfsnesi – raunhæf markmið um lokun

En hvað verður svo um sorpið? Það er kannski viðfangsefni sem Mosfellingar hafa haft meiri áhyggjur af á síðustu árum og sú staðreynd að urðunarstaðurinn í Álfsnesi er kominn ansi nálægt byggðinni okkar. Síðasta áratuginn hefur verið í gildi samkomulag milli eigenda Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um að hætta urðun í Álfsnesi.
Á þessum tíma hefur ýmislegt verið gert. Það verður þó að viðurkennast að framfarirnar hafa ekki verið nægar til að raunhæft sé að loka urðunarstaðnum í lok þessa árs. Leit að nýjum urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið er umfangsmikið verkefni á meðan við urðum ennþá eins mikið magn og raun ber vitni.

Annar viðauki hefur því verið gerður við þetta samkomulag og teljum við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar raunhæft að við náum árangri í því að loka urðunarstaðnum innan næstu fimm ára eins og markmið samkomulagsins er.

Samkomulagið kveður þó ekki á um óbreytt ástand. Í fyrsta lagi tökum við stórt skref með aukinni flokkun. Sorpa hefur gert samninga við önnur sorpsamlög og fyrirtæki um móttöku á lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum enda verður bannað að urða lífrænt í Álfsnesi frá og með næstu áramótum. Þar verður eingöngu leyfilegt að urða óvirkan úrgang sem gefur ekki frá sér lykt.

Annar stór áfangi er að hefja útflutning á blönduðum brennanlegum úrgangi. Útflutningur hefur verið boðinn út og hefst núna á allra næstu vikum. Bara þetta tvennt breytir starfseminni í Álfsnesi gríðarlega.

Gætum hagsmuna Mosfellinga

Samþykkt annars viðauka varðandi lokun urðunarstaðarins og enn frekari frestun á því er ekki eitthvað sem bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ eru sátt við eða ánægð með. Við komumst hins vegar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri óábyrgt að ganga ekki til samninga um framhaldið en að öðrum kosti hefði skapast ófremdarástand í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu.

Við gerðum okkar allra besta til að tryggja hagsmuni Mosfellinga í samkomulaginu og meðal annars með því að fá eigendur Sorpu og landeiganda Álfsness, sem er Reykjavíkurborg, til að samþykkja að ekki verði byggð sorpbrennsla í Álfsnesi. Auk þess sem farið verður í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að ná tökum á lyktarmengun frá þeim úrgangi sem þegar hefur verið urðaður þarna. Lykilatriði er að fylgja þessum ákvæðum eftir og það munum við gera.

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og stjórnarkona í Sorpu BS

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 12. október 2023.

Categories
Greinar

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Deila grein

12/10/2023

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Nú á dögunum staðfesti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið, þótti starfandi meirihluta tímabært að mörkuð yrði skýr stefna í þeim málaflokki.

Mikil samstaða var um að farið yrði af stað í stefnumótunarvinnu í kjölfar síðustu kosninga og greinilegt að þörf var á skerpingu í atvinnumálum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar leiddi stefnumótunarvinnuna sem hófst í byrjun árs og lauk nú á sumarmánuðum, fékk nefndin utanaðkomandi ráðgjafa til að halda utan um verkefnið frá byrjun.
Það var mikið lagt upp úr því að stefnan yrði hnitmiðuð og auðlesin, markmiðin raunhæf og hægt að ýta sem flestum aðgerðum úr vör á næstu 1-3 árum. Ásamt því að árangur aðgerða yrði mælanlegur til að gera alla eftirfylgni skilvirkari og markvissari.

Vel heppnaður íbúafundur

Það komu fjölmargir að stefnumótunarvinnunni en mikilvægur partur af ferlinu var að opna umræðuna með íbúum og var vel heppnaður íbúafundur haldinn í Fmos á vormánuðum. Mætingin var mjög góð og umræður gagnlegar í meira lagi. Það bar þess greinilega merki að íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þótti þörf á því að bærinn kæmi markvisst að því að efla enn frekar atvinnulíf í sveitarfélaginu.

Öflugu atvinnulífi fylgir aukin þjónusta fyrir íbúa og frekari tækifæri, íbúafjöldinn í Mosfellsbæ er farinn að nálgast 14 þúsund og það væri kærkomið að sjá jafn kröftugan vöxt í atvinnuuppbyggingu samhliða hröðum íbúavexti. Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið sé skilgreint sem eitt atvinnusvæði þá skapar sérstaða Mosfellsbæjar fjöldamörg sóknarfæri sem í enn frekara mæli ber að nýta. Hér eru vissulega fjöldi öflugra fyrirtækja starfandi sem má ekki gleyma í þessu samhengi, en að sama skapi á sveitarfélagið mikið inni í atvinnumálum.

Öflug upplýsingamiðlun og markaðssetning

Megininntak atvinnustefnunnar er annars vegar hvernig sveitarfélagið geti stutt sem best við atvinnuuppbyggingu og hins vegar helstu áherslu atvinnugreinar. Það kemur fram að mikilvægt sé að huga vel að upplýsingamiðlun og þá helst varðandi framboð atvinnulóða og móttöku fyrirspurna, nauðsynlegt að ferlið sé sem einfaldast og að allar helstu upplýsingar séu aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar.

Hin hliðin á peningnum er öflug markaðssetning, í stefnunni er fjallað um frumkvæði sveitarfélagsins, t.d. með gerð markaðsáætlunar og skilgreiningu á ábyrgðaraðilum vegna þeirra verkefna sem bíða við innleiðingu á stefnunni.

Næstu skref

Nú tekur við innleiðingarferli á atvinnustefnunni þar sem hægt verður að hrinda fyrstu aðgerðum í framkvæmd og undirbúa jarðveginn fyrir frekari uppbyggingu. Stefnan hefur ekki verið birt, en það má búast við að hún verði birt á vef Mosfellsbæjar á næstunni. Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér innihaldið þegar að því kemur.

Að lokum vill undirritaður þakka öllum þeim sem komu að vinnunni við stefnumótunina fyrir hönd Atvinnu- og nýsköpunarnefndar, þar er okkar trú að þetta verði farsælt skref fyrir Mosfellsbæ sem blæs frekara lífi í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Betri tíð í samgöngumálum

Deila grein

12/10/2023

Betri tíð í samgöngumálum

Þau sem fylgst hafa með um­ræðum um sam­göngu­mál á höfuð­borgar­svæðinu síðustu árin og ára­tugina hafa orðið vitni af stöðugum á­greiningi milli ríkis og sveitar­fé­laga og þá sér­stak­lega á milli ríkis og Reykja­víkur­borgar. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að beina athygli að samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega að samgöngusáttmálanum sem undirritaður var af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Fyrir undirritun samgöngusáttmálans hafði ríkt al­gjör stöðnun í sam­göngum hér á þessu fjöl­mennasta svæði landsins og af­leiðingarnar voru aug­ljósar; sí­fellt þyngri um­ferð, meiri tafir og meiri mengun.

Almennt séð þá tel ég að það séu ekki ýkja margir sem gera sér grein fyrir því af­reki sem Sigurður Ingi Jóhanns­son, innviðaráðherra, vann með því að ná þessum samningi í gegn á sínum tíma. Þar er mikilvægast að sveitarfélögin er nú sameinuð í sinni framtíðarsýn þegar kemur að samgöngumálum. Því miður er umræðan um samgöngusáttmálann ekki á þeim stað sem hún þarf að vera. Umræðan snýst eingöngu um fjármagn en ekki stóru myndina og þá miklu framtíðarsýn sem hann samgöngusáttmálinn staðfestir. Það er nú þannig að ekkert gert án fjármuna um leið og tæknin þróast á ógnarhraða. Að því sögðu er að sjálfsögðu eðlilegt og nauðsynlegt að allar áætlanir, hvort sem um er að ræða kostnaðar- eða framkvæmdaáætlanir, séu stöðugt til skoðunar með það að markmiði að fjármunir séu vel nýttir og að við séum að styðjast við bestu tækni. Viðræðuhópur hefur verið skipaður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að rýna í áætlanir sáttmálans með það fyrir augum að uppfæra forsendur hans og undir­bún­ing á viðauka við hann.

Samvinna skilar betri árangri

Sam­göngu­sátt­málinn sem skrifað var undir árið 2019 markaði tíma­mót að mörgu leyti. Með sáttmálanum sameinuðust ríki og sveitarfélögin á höfuð­borgarsvæðinu um framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á svæðinu. Sú leið var ekki ein­föld, eða niðurstaðan auðsótt, enda ólík sjónar­mið uppi milli sveitarfélaga. En með þessu sam­tali ráð­herrans við sveitar­fé­lögin og Vega­gerðina var ísinn brotinn og við í­búar á höfuð­borgar­svæðinu öllu erum farin að sjá fram á betri tíð í sam­göngum. Mikilvægar framkvæmdir hafa nú þegar klárast, svo sem á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Suður­landsvegi milli Vesturlandsvegar og Hádegismóa og á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Þá hafa einnig verið lagðir rúmlega 13 km af hjólastígum.

Á höfuðborgarsvæðinu er nú unnið að stórfelldri uppbyggingu innviða fyrir alla ferðamáta. Tímabærar framkvæmdir á stofnvegum þar sem umsvifa­mest er lagning stórra umferðaræða í stokka, munu greiða fyrir umferð, draga úr umhverfis­áhrifum og skapa mannvænni byggð í grennd við umferðaræðar. Þróun hágæðaalmenn­ings­samgangna ásamt nýju stofnleiðakerfi hjólreiða er svo lykilþáttur í þróun svæð­isins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi. Aukin hlutdeild almenningssamgangna í ferðamáta­vali á svæðinu mun greiða fyrir umferð og halda aftur af aukningu umferðartafa á svæð­inu. Sjálfbærara samfélag er mikilvægur þáttur í að auka lífsgæði og efla samkeppnis­hæfni svæðisins, en höfuðborgarsvæðið er í samkeppni um mannauð við stórborgir í nágranna­lönd­um. Niður­staðan er fjöl­breyttar sam­göngur þar sem stofn­brautir verða byggðar upp, göngu- og hjóla­stígar lagðir og inn­viðir al­vöru al­mennings­sam­gangna verða að veru­leika. Allt styður þetta við heil­brigðara sam­fé­lag, styttir ferða­tíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt umferðaröryggi.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ófriðartímar í heiminum

Deila grein

12/10/2023

Ófriðartímar í heiminum

Tíðar frétt­ir af ófriði og átök­um um heim all­an hafa birst okk­ur á und­an­förn­um miss­er­um. Auk­inn ófriður í heim­in­um er óheillaþróun með til­heyr­andi slæm­um áhrif­um fyr­ir íbúa heims­ins. Bentu Sam­einuðu þjóðirn­ar meðal ann­ars á fyrr á ár­inu að fjöldi átaka hef­ur ekki verið meiri síðan á tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar en um 2 millj­arðar manna, fjórðung­ur mann­kyns­ins, búa á svæðum sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um af átök­um. Það má segja að sjald­an hafi reynt jafn­mikið á þau helstu grund­vall­ar­gildi sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru reist­ar á; að viðhalda alþjóðleg­um friði og ör­yggi.

Far­ald­ur vald­arána í Afr­íku, þar sem vald­arán hafa verið fram­in í átta ríkj­um á þrem­ur árum og bæt­ist við ófrið sem þar var fyr­ir, deil­ur Aser­baís­j­an og Armen­íu, ólög­legt inn­rás­ar­stríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísra­ela og Ham­as-liða í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-liða í Ísra­el um liðna helgi.

Það sem þessi átök eiga sam­eig­in­legt er að ekki sér fyr­ir end­ann á þeim. Deil­an fyr­ir botni Miðjarðar­hafs er ára­tuga löng en full­yrða má að at­b­urðir síðustu helg­ar séu mesta stig­mögn­un henn­ar í ára­tugi. Hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un átak­anna, en viðvör­un­ar­ljós í þá veru eru þegar far­in að blikka með skær­um á landa­mær­um Ísra­els og Líb­anon milli Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna. Svæðinu öllu svip­ar til púðurtunnu. Það þarf fyr­ir alla muni að kom­ast hjá frek­ari stig­mögn­un á svæðinu, með til­heyr­andi óstöðug­leika fyr­ir alþjóðasam­fé­lagið.

Að sama skapi sér ekki enn fyr­ir end­ann á árás­ar­stríði Rússa í Úkraínu, sem haft hef­ur skelfi­leg áhrif á millj­ón­ir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mann­fall hef­ur verið hjá báðum lönd­um, á sama tíma og Rúss­ar eru langt frá því að ná upp­haf­leg­um hernaðarmark­miðum sín­um. Efna­hag­ur beggja landa hef­ur gjör­breyst og skaðast mikið með til­finn­an­leg­um áhrif­um á alþjóðahag­kerfið. Hækk­an­ir á orku- og mat­væla­verði í kjöl­far stríðsins smituðust í alþjóðleg­ar virðiskeðjur og urðu helsti or­saka­vald­ur­inn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarn­an ger­ist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyr­ir þessu. Það er mik­il­vægt að Vest­ur­lönd standi áfram af full­um þunga með Úkraínu og tryggi land­inu nauðsyn­lega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálf­stæði sitt.

Við erum lán­söm á Íslandi. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og við þekkj­um hann líkt og millj­arðar jarðarbúa finna á eig­in skinni. Bless­un­ar­lega hafa heilla­drjúg­ar ákv­arðanir verið tekn­ar í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um Íslands í gegn­um tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gervigreind á þingi

Deila grein

12/10/2023

Gervigreind á þingi

Hvernig geta þing­menn notað gervi­greind til dag­legra starfa? Þetta var ein af spurn­ing­un­um sem spurt var á ný­af­stöðnu heimsþingi framtíðar­nefnda þjóðþinga. Á fund­inn mættu þing­menn alls staðar að úr heim­in­um til þess að ræða tæki­færi og hætt­ur gervi­greind­ar og hvernig við gæt­um nýtt hana okk­ur í hag. Gervi­greind­in get­ur nefni­lega gert ótrú­lega hluti. Hún get­ur aðstoðað okk­ur við ræðuskrif, frum­varpa­gerð og reiknað út svör við ýms­um fyr­ir­spurn­um. Ég tók þátt í pall­borði á heimsþing­inu um mögu­leika gervi­greind­ar­inn­ar á þjóðþing­um. Ég talaði um þær hætt­ur sem fæl­ust í því ef þing­menn færu að nota gervi­greind­ina í þessa vinnu án þess að gjalda var­hug við henni. Gervi­greind­in er byggð á gögn­um sem eru nú þegar til á net­inu, mörg ár aft­ur í tím­ann. Stór hluti þess­ara gagna er þó mjög nei­kvæður í garð sumra hópa, t.d. kvenna og hinseg­in fólks. Því meira af nei­kvæðum gögn­um sem gervi­greind­in finn­ur, því lík­legra er það til þess að end­ur­spegl­ast í svör­un­um sem gervi­greind­in gef­ur okk­ur. Ef við leggj­um fullt traust á gervi­greind­ina til að aðstoða okk­ur þá gæti það leitt til auk­inn­ar upp­lýs­inga­óreiðu því gervi­greind­in met­ur ekki mann­lega þátt­inn og sann­leik­ann í þeim gögn­um sem hún vinn­ur úr.

Ég ræddi einnig um stöðu barna gagn­vart gervi­greind­inni í pall­borðinu. Fyrr á heimsþing­inu höfðu starfs­menn stærstu tæknifyr­ir­tækja heims mætt í pall­borð til að segja af­stöðu sinna fyr­ir­tækja gagn­vart gervi­greind­inni og töluðu um hana nær al­farið á já­kvæðu nót­un­um. Sú staðreynd að þessi fyr­ir­tæki hafa safnað gögn­um um hvert ein­asta manns­barn sem not­ar sam­fé­lags­miðla þeirra í mörg ár var lítið rædd í pall­borði tæknifyr­ir­tækj­anna. Áhugi þeirra á laga­setn­ingu í kring­um gervi­greind var líka mjög tak­markaður. En það er líka mjög erfitt að setja lög í kring­um gervi­greind. Ég nefndi að við gæt­um þó ein­blínt á þá hluta sem við gæt­um sett lög um; eins og per­sónu­vernd og gagna­söfn­un stór­fyr­ir­tækja. Á Íslandi nota 98% barna, eldri en 9 ára, síma. Sem þýðir að gagna­söfn­un um þau hefst mjög snemma og það er mjög lítið um alþjóðleg lög til að tak­ast á við það. Það er mik­il­vægt að all­ar þjóðir fari að huga að því að setja tækn­inni höml­ur – án þess þó að stöðva ný­sköp­un og tækni­fram­far­ir. Miðlalæsi, laga­setn­ing og alþjóðlegt sam­starf skipta sköp­um þegar kem­ur að gervi­greind­inni. Gervi­greind­in get­ur verið eitt af okk­ar helstu verk­fær­um til framþró­un­ar en ef við ger­um ekk­ert þá get­ur þetta orðið vopn sem snýst í hönd­un­um á okk­ur.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.