Categories
Greinar

Hver er verðmiðinn á vellíðan barna?

Deila grein

04/05/2022

Hver er verðmiðinn á vellíðan barna?

Nú stendur innleiðing farsældarlaganna yfir, en þau snúa að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Innleiðingin felur meðal annars í sér að endurskoða og samræma verklag allrar þjónustu sem er veitt innan þeirra kerfa er koma að málefnum barna að einhverju leyti. Þannig ná lögin yfir alla þjónustu hvort sem hún er á ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Þjónustunni er skipt niður á þrjú stig sem veitir okkur mun betri yfirsýn og tryggir samfellda þjónustu barna. Akureyrarbær hefur tækifæri til að vera leiðandi í þeirri innleiðingu, og sýna þannig fram á að sveitarfélagið er sannarlega Barnvænt sveitarfélag – í orði sem og á borði.

Það er kalt á toppnum

Við sjáum fyrir okkur pýramída sem skiptist í þrennt þar sem neðsti hlutinn, þessi breiðasti, táknar alla grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum og styður við farsæld barna; þarna erum við til dæmis með ungbarnavernd, leik- og grunnskóla og annars konar stuðning sem er veittur í samræmi við mat á þörfum barnsins. Áskoranir barna á fyrsta stigi krefjast í einhverjum tilfellum tímabundinnar þjónustu sem er þá sniðin að þörfum barnsins. Í miðju pýramídans er veittur markvissari stuðningur ef að stuðningur á fyrsta stigi bar ekki árangur, þjónusta annars stigs er einnig oft tímabundin en sem dæmi um þá þjónustu er heilbrigðis- félags- eða skólaþjónusta. Á þessu stigi þarfnast barn mögulega aukins stuðnings vegna til dæmis félagslegrar einangrunar eða námserfiðleika. Efst á pýramídanum, í litla hlutanum, er veitt einstaklingsbundinn og sérhæfður stuðningur sem er oft veittur til lengri tíma. Áskoranir barna sem hafa fetað sig upp pýramídann eru þannig að þau þurfa úrræði svo að heilsu þeirra og öryggi sé ekki ógnað og skortur á stuðningi á þriðja stigi getur haft virkilega alvarlegar afleiðingar. Dæmi um þjónustu á þriðja stigi eru til dæmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga og fjölþættur stuðningur við jaðarsett börn. Á þriðja stigi eru málin nær undantekningarlaust barnaverndarmál. Auðvitað viljum við ekki að börn þurfi að upplifa það að tróna á toppnum í þessum pýramída, enda getur það verið bæði kalt og einmanalegt. Hinsvegar viljum við að þau börn sem sannarlega þurfa á stuðningi að halda, fái hann og að við útrýmum hættunni á að þau falli fram af eða á milli. Við viljum ekki að þau týnist í kerfinu og með þessari samþættingu þjónustu sjáum við til þess að öryggi barna sé tryggt.

Hvernig byrgjum við brunninn?

Eðlilega upplifum við vanmátt þegar við hugsum um börnin á þriðja stigi, og við getum rætt það þar til við verðum blá í framan með kökkinn í hálsinum, en til að byrgja brunninn er nauðsynlegt að efla grunninn og styrkja stoðir pýramídans. Við þurfum að standa við bakið á þeim sem veita grunnþjónustu innan sveitarfélaga og við þurfum að efla forvarnir. Ef við eflum snemmtæka íhlutun, sem þýðir að við leggjum meiri kraft í forvarnir barna fyrr, veitum við þeim verkfæri sem mun fækka þeim börnum sem leita upp pýramídann. Fyrir þá sem hugsa í krónum og aurum þá er toppurinn dýrastur fyrir kerfið og börnin sem þangað leita kosta sveitarfélögin meira en þau sem eru á fyrsta stigi. Ef við leggjum fjármagn í forvarnir fyrir börn og foreldra þeirra, munum við með tímanum spara sveitarfélaginu töluverða fjármuni. Akureyrarbær býr svo vel að vera með framúrskarandi forvarnarstarf á landsvísu, sem önnur sveitarfélög líta til. Við erum heppin að þurfa ekki að finna upp hjólið, við þurfum bara að smyrja það og ryðverja. Eflum forvarnarstarf sveitarfélagsins enn frekar og styðjum þannig við börnin í þessu fyrsta Barnvæna sveitarfélagi landsins.

Alfa Jóhannsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir starfar sem forvarnarfulltrúi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum og skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Er betra að búa annars staðar en í Reykjavík?

Deila grein

03/05/2022

Er betra að búa annars staðar en í Reykjavík?

Nýlega birti Félagsvísindastofnun HÍ niðurstöður úr Þjóðmálakönnun um þjónustu sveitarfélaga í aðdraganda kosninga. Ánægja íbúa er mun minni í Reykjavík en að jafnaði í öðrum sveitarfélögum. Einungis 42,1% Reykvíkinga eru frekar ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna sem borgin veitir samanborið við 65,8% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og 62,1% íbúa landsbyggðarinnar. Niðurstöðurnar eru blaut tuska í andlit borgaryfirvalda. En koma þær eitthvað sérstaklega á óvart?

Listinn er langur og auðvelt er að benda á atriði eins og viðvarandi lóðaskort, langa biðlista í leikskólum, myglaða skóla vegna skorts á viðhaldi, samgöngur í ólestri, sorphirðu og svo mætti lengi telja. Það bíður betri tíma en hér ætla ég að fjalla um þjónustu sem er mun sértækari og vill oft gleymast með hækkandi sól en það er snjómokstur á götum borgarinnar.

Snjómokstur í ólestri

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nýliðinn vetur. Hann var harðari en gengur og gerist. En við búum á Íslandi. Eins og afi minn sagði alltaf „ Á Íslandi er allra veðra von… með korters fyrirvara.“ Þrátt fyrir að Veðurstofan og Almannavarnir gefi út mun nákvæmari spár og viðvaranir en áður þá er eins og borgaryfirvöld séu minna undirbúin til að takast á við áskoranir Vetur konungs. Margar vikur í röð var ekki hægt að moka götur borgarinnar sem olli því að smærri bílar áttu erfitt um vik. Þegar lengra leið á voru göturnar orðnar að eins konar lestarteinum með tilheyrandi skemmdum á bílum vegna hjólfara sem voru allt að 25-30 sentimetra djúp. Þegar klakabrynjuðu göturnar voru loks mokaðar olli það gríðarlegum skemmdum á götum með tilheyrandi kostnaði. Ástandið var svo slæmt að fyrirtæki í borginni tóku sig saman og greiddu fyrir mokstur gatna sem voru á forræði borgarinnar.

En hvað klikkaði? Vissulega stjórnum við ekki veðri og færð en fyrirhyggja og skilningur á verkefnum skiptir miklu máli um hvernig til tekst. Borgaryfirvöld fengu sent kvörtunarbréf frá starfsfólki vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar þar sem talað var um hringlandahátt, þekkingar- og skilningsleysi á verkefninu og hreint út sagt virðingarleysi af hálfu borgaryfirvalda. Snjómoksturstæki máttu ekki vera á nagladekkjum vegna stefnu borgarstjórnarmeirihlutans um að draga úr notkun nagladekkja alveg óháð því hvers konar aðstæður við er að glíma. Starfsfólk er því sett í ómögulega stöðu og engan veginn gert kleift að sinna starfi sínu af kostgæfni.

Snjómokstur er kannski ekki ofarlega í huga okkar núna þegar grasið er að grænka en punkturinn er þessi. Fyrst ekki er haldið betur á afmörkuðu verkefni eins og snjómokstri, hvernig fer þá með öll stóru verkefnin?

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri, varaþingmaður og skipar 4. sæti lista Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2022.

Categories
Greinar

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í Suður­nesja­bæ

Deila grein

03/05/2022

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í Suður­nesja­bæ

Næring er ein af grunnþörfum mannsins. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Næring er lykilatriði til að allir nemendur ljúki á jafnréttisgrundvelli grunnskólastigi án aðgreiningar og endurgjalds.

Öll viljum við að börnin okkar séu vel nærð í amstri dagsins og teljum við í Framsókn því sjálfsagt að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Suðurnesjabæjar. Þannig stuðlum við jafnræði á milli heimila óháð efnahag og stöðu foreldra.

Lykilatriði fyrir gott og heilbrigt samfélag er að réttindi barna og tækifæri þeirra sé sem best til að dafna og þroska hæfileika sína. Við viljum vera stolt af Suðurnesjabæ.

Skólaskyldu er ætlað að leggja grunn að virkri þátttöku barna í lýðræðissamfélagi og veita viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf á vinnumarkaði. Tryggjum börnunum okkar bjarta framtíð.

Framsókn vill vera hreyfiafl framfara í samfélaginu!

Anton Kristinn Guðmundsson, skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2022.

Categories
Greinar

Tryggjum ferska sýn í Suðurnesjabæ!

Deila grein

02/05/2022

Tryggjum ferska sýn í Suðurnesjabæ!

Framsókn í Suðurnesjabæ er að bjóða fram ung og ný andlit sem og reynslumikla einstaklinga. Frambjóðendur Framsóknar eiga allir það sameiginlegt að vilja berjast fyrir hagsmuni íbúa bæjarfélagsins, hvort sem það er fyrir barnafjölskyldur, sterkt atvinnulíf eða fyrir eldra fólkið. Það er markmið Framsóknar að gefa öllum hópum bæjarfélagsins raddir og raunveruleg áhrif.

Hjá Framsókn er fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í bæjarpólitík. Reynsla er auðvitað dýrmæt en hún á sér sitt upphaf. Það eru margvíslegar áskoranir sem bæjarfélagið okkar stendur frammi fyrir, breytingar sem við þurfum öll að koma að. Mikilvægi þess að nýtt ungt fólk komi að mikilvægum ákvörðunum í samfélaginu er augljóst.

Nú gefst frábært tækifæri til að tryggja Suðurnesjabæ öfundsverða stöðu. Enda er það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að bæjarfélagið standi ekki í stað. Bæjarstjórnin á að endurspegla og vera sterk rödd allra íbúa bæjarfélagsins. Því er það hagur okkar allra að þar sé sem breiðasti hópur fólks, með reynslumiklu og nýju fólki.

Suðurnesjabær er gott samfélag sem hægt er að gera enn betra og til að svo verði þurfum við að koma fram með nýjar og ferskar hugmyndir og nýja sýn inn í bæjarstjórn.

Framtíðin er björt með nýju og ungu fólki!

Úrsúla María Guðjónsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 2. maí 2022.

Categories
Greinar

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Deila grein

01/05/2022

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá Reykjavík orðin kolefnishlutlaus, fyrst höfuðborga? Væri hverfisskipulag byggt út frá umhverfissjónarmiðum þar sem fólk fær notið náttúru innan hverfis? Væri Reykjavík borg þar sem almenningssamgöngur eru skilvirkar, notendavænar og betri kostur en annar ferðamáti? Væri næturstrætó enn gangandi? Væru hleðslustöðvar aðgengilegar um alla borg til að auðvelda fólki orkuskipti í rafknúin hjól og bíla?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri hér húsnæðisskortur? Væri ungt fólk fast á heimilum foreldra sinna í mörg ár vegna þess að fasteignaverð er uppsprengt eða myndu öll eiga þess kost að eignast þak yfir höfuðið? Ætli hér væri byggt nógu mikið af stúdentaíbúðum þannig að enginn stúdent myndi þurfa að fara á biðlista eftir heimili? Væri ekki líka komin heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðið? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára væri grunnþjónusta í 15 mínútna göngu- eða hjólafjarlægð? Þannig að öll geti sótt grunnþjónustu innan hverfis hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, sundlaug, kaffi- og veitingahús eða matvöruverslun.

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá ekki búið að eyða öllum biðlistum á leikskóla? Væru leikskólarnir ekki með sveigjanlegri opnunartíma til að mæta foreldrum á vinnumarkaði eða í námi? Væri búið að tryggja betra starfsumhverfi leikskólakennara? Myndu foreldrar kannski fá að ráða hvenær á sumrin leikskólabörnin þeirra taka sumarfrí eftir því hvenær hentar fjölskyldunni?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að byggja kerfi sem tekur vel á móti innflytjendum og eykur tækifæri fólks af erlendum uppruna til að nýta hæfileika sína? Væri stutt sérstaklega við nýsköpunarstarf, sprotafyrirtæki og aðra atvinnuuppbyggingu fyrir ungt fólk á þeirra forsendum? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að tryggja öryggi kvenna og alls fólks á djamminu?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri innviðir borgarinnar í lagi? Þannig að grunnskólabörn myndu ekki þurfa að sækja skóla í öðru hverfi vegna myglu í sínum hverfisskóla? Væru ungmennahús í öllum hverfum borgarinnar og félagsmiðstöðvastarf eflt? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að jafna leikinn með því að tryggja að frístundakort barna veiti öllum börnum þess kost að stunda þær tómstundir sem þau dreymir um? Væri ekki búið að byggja upp öfluga íþróttaæfingaraðstöðu í öllum hverfum borgarinnar og þjóðarleikvang?

Við sem erfum ákvarðanir dagsins í dag verðum að vera þátttakendur í ákvarðanatöku sem munu varða okkar framtíð. Það er mikilvægt að við nýtum kosningaréttinn okkar og kjósum ungt fólk, að við kjósum Framsókn sem treystir ungu fólki með því að hafa ungt fólk í forystusætum í borginni! Ef þú kýst ekki mun eldra fólk kjósa fyrir þig og ráða þinni framtíð með sinni forgangsröðun á verkefnalista borgarstjórnar. Nýtum kosningaréttinn okkar 14. maí.

Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, 25 ára háskólanemi og skipar 3. sæti á lista Framsóknar í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram 14. maí n.k.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. maí 2022.

Categories
Greinar

Íþrótta- og tómstundamál í Fjarðabyggð fyrir alla

Deila grein

01/05/2022

Íþrótta- og tómstundamál í Fjarðabyggð fyrir alla

Íþrótta- og tómstundamál eru sífellt stærri þáttur í rekstri sveitarfélaga. Bestu forvarnirnar sem við eigum eru öflugt íþróttastarf og virkt félagslíf fólks á öllum aldri. Fjarðabyggð er svo heppið að búa að góðum stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum sem vinna ötulega að því að efla og styrkja öflugt íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu öllu. Framsókn í Fjarðabyggð hefur haft skýra sýn á þennan málaflokk og unnið ötulega að ýmsum verkefnum þar á líðandi kjörtímabili.

Heilsuefling er líka fyrir eldra fólk

Eitt af þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili er samstarverkefni við Dr. Janus Guðlaugsson um heilsueflingu og bætt lífsgæði eldri borgara, svokallað Janusarverkefni. Því miður kom COVID faraldurinn í veg fyrir að hægt væri að byrja á verkefninu árið 2020 og 2021, en nú horfir til betri vegar, og stefnt að því að verkefnið hefjist síðar á þessu ári.

Markmið Janusarverkefnsins snýr að skipulagðri heilsurækt og bættri heilsu eldri einstaklinga með það að markmiði að þeir geti sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er. Slík heilsuefling er mikilvægur þáttur í því að bæta lífsgæði eldri íbúa. Bætt heilsa gerir eldra fólki kleift að búa lengur í sjálfstæðri búsetu, kemur í veg fyrir eða seinkar innlögn á dvalar og hjúkrunarheimili og opnar á möguleika á að fólk starfi lengur á vinnumarkaði. Þess má geta að kostnaður vegna ársdvalar einstaklings á dvalar- og hjúkrunarheimili á Íslandi er á milli 13 og 15 milljónir króna, en áætlaður kostnaður á einu ári vegna heilsueflingar 80 – 100 eldri einstaklinga er á milli 12-14 milljónir króna.

Við teljum að það sé til mikils að vinna með þessu verkefni, eldri íbúar geta átt möguleika á að verða heilsuhraustari, þeir geta vonandi búið lengur heima án aðstoðar og síðast en ekki síst þá eflist félagslegi þátturinn þar sem fólk myndi hittast í líkamsræktinni, sundi eða jafnvel stofna til gönguhópa.

Öflugt íþrótta – og tómstundastarf til framtíðar

Á þessu ári verður innleiddur íþrótta- og tómstundastyrkur sem verður 10.000 krónur á hvert barn á grunnskólaaldri í Fjarðabyggð. Þessi upphæð verður endurskoðuð ár hvert, en reynsla annara sveitarfélaga sem hafa sett á laggirnar slíkan styrk sýnir að hann muni hækka. Það verður vonandi til þess að hjálpa börnum að sinna íþróttastarfi óháð efnahag og hvetja til ennfrekari þátttöku.

Þá var á yfirstandandi kjörtímabili farið í ýmsar framkvæmdir í íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins. Þar má helst nefna byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði, sem tekið verður í notkun á haustdögum og rennir vonandi frekari stoðum undir öflugt íþróttalíf á svæðinu. Þá var einnig skipt um gervigrasið í Fjarðabyggðarhöllinni, en það gamla var orðið lúið eftir mikla notkun undanfarin ár. Nýja grasið er afar vandað og mun vonandi þjóna öflugu knattspyrnustarfi í sveitarfélaginu vel.

Ýmislegt fleira hefur líka verið gert í þessum málaflokk, má þar til dæmis nefna að komið var á meira samstarfi milli félagsmiðstöðva og farið var í að lagfæra þau húsnæði sem nýtt eru undir þá starfsemi. Þannig var samkomuhúsið á Stöðvarfirði sem var klætt og lagfært umhverfi þess. Þá eru að hefjast framkvæmdir við Félagslund með það fyrir augum að félagsmiðstöðin deili þar húsnæði líkt og gert var með Egilsbúð á Norðfirði.

Þá er það okkar trú að nýtt kerfi almenningssamgangna muni til framtíðar gera fólki kleift að nýta sér það öfluga íþrótta- og tómstundastarf sem Fjarðabyggð býr að, óháð búsetu í hverfum sveitarfélagsins. Við höfum nú þegar séð að fólk sækir í auknum mæli á milli fjarða vegna þessa og mun það vonandi halda áfram að aukast.

Framsókn til framtíðar í íþrótta- og tómstundamálum

Fram undan eru ýmis verkefni í íþrótta- og tómstundamálum í Fjarðabyggð. Framsókn í Fjarðabyggð vill halda áfram að vinna ötulega að því að byggja undir öflugt íþrótta- og tómstundastarf í Fjarðabyggð

Á komandi kjörtímabili þarf að halda áfram með þau verkefni sem unnið hefur verið að, og skapa þannig áfram kjöraðstæður fyrir öflugt íþróttalíf, þar sem horft er til þess að flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Skoða þarf leiðir til að ljúka við lagfæringar og einangrun Fjarðabyggðarhallarinnar svo hún nýtist okkur öllum sem best. Fara þarf í átak í að endurnýja búnað í þeim heilsuræktum sem Fjarðabyggð rekur strax, halda áfram að styðja við íþróttafélög og önnur félög, hækka frístundastyrkinn fyrir börn og ungmenni og halda áfram að auka samstarf og samvinnu á málaflokknum svo fátt eitt sé nefnt. Til þess þurfum við ykkar liðsinni, íbúar góðir, á kjördag 14.maí nk. með því að þið setjið X við B fyrir framtíðina í Fjarðabyggð.

Pálína Margeirsdóttir, er bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð og skipar 6. sæti á framboðslista Framsóknar í Fjarðabyggð

Bjarni Stefán Vilhjálmsson, er verkstjóri og skipar 7. sæti á framboðslista Framsóknar í Fjarðabyggð

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. maí 2022.

Categories
Greinar

Samgöngur skipta alla máli!

Deila grein

01/05/2022

Samgöngur skipta alla máli!

Í dreifbýlu sveitarfélagi líkt og Rangárþingi eystra skipta samgöngur stærstan hluta íbúa mjög miklu máli. Þær koma við daglegt líf íbúa og því verður að tryggja að þær séu með sem allra besta móti. Því miður hefur sveitarfélagið ekki fullt forræði yfir samgöngukerfum sveitarfélagsins og langstærstur hluti þess er á forræði Vegagerðarinnar. Því er mikilvægt að sveitarfélagið leggi hart að því að fá samgöngubætur við Vegagerðina og ráðamenn þá sem þar geta haft áhrif. Á undanförnum árum hefur B-listinn lagt höfuðáherslu á að kortleggja samgöngukerfi sveitarfélagsins með það að markmiði að hafa haldbærar staðreyndir til grundvallar þeim kröfum sem gerðar verða til yfirvalda. Ekki verður séð að nokkuð annað verkfæri muni nýtast til hagsmunagæslu fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Dæmi um þau verkfæri sem sveitarfélagið hefur nú í hendi eftir gagnaöflun síðustu ára eru:

  • Úttekt fagaðila á öllum vegum í dreifbýli þar sem þeir hljóta öryggiseinkunn.
  • Umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið í heild.
  • Auglýsing um umferð í þéttbýlinu Hvolsvelli sem lækkar meðal annars hámarkshraða í íbúðargötum.
  • Samgönguverkfræðingur hefur gert úttekt með öryggi vegfarenda í þéttbýlinu Hvolsvelli að leiðarljósi.

Allar þessar aðgerðir munu liggja til grundvallar í þeirri vinnu sem framundan eru hjá sveitarfélaginu til þess að bæta þau samgöngukerfi sem það hefur yfir að ráða með það að markmið að bæta lífsgæði íbúa og ekki síður auka öryggi þeirra. Þá veita þessar upplýsingar sveitarfélaginu verkfæri til þess að fylgja betur eftir kröfum sínum við valdbær stjórnvöld.

Sveitarfélagið hefur einnig fengið tugi milljóna úr styrkvegasjóði til viðhalds samgönguleiða. Hefur mikil bragarbót orðið á þeim vegköflum sem mögulegt hefur verið að sækja um styrki fyrir og fyrir liggur að áframhald verður á þeirri vinnu á næstu árum.

Það er mín skoðun að á næstu árum verði sveitarfélagið að leggjast í töluverða vinnu við viðhald og endurbætur á bæði götum og gangstéttum í þéttbýli. Vinna verður áætlun til nokkurra ára með það að markmiði að götur og gangstéttir séu til fyrirmyndar fyrir alla íbúa sveitarfélagsins og gesti þess óháð ferðamáta. Þá þarf að leggja höfuðáherslu á að þrýsta á Vegagerðina að bæta tengivegi í dreifbýli og þá sérstaklega þá sem skólabörn þurfa að aka um alla daga til og frá skóla, með það að markmiði að stórauka lagningu bundins slitlags á umrædda vegi.

Almenningssamgöngur hafa verið í algjöru lamasessi og því fáir sem nýta sér þær, með hækkandi eldsneytisverði eykst kostnaður ungmenna á framhaldsskólaaldri sem þurfa að aka um langa leið til og frá skóla. Málaflokk almenningssamgangna þarf því að skoða alvarlega og þrýsta á Vegagerðina sem hefur þann málaflokk á sinni könnu að bæta verulega þá þjónustu sem boðið er uppá til að auka ásókn og mæta þörfum íbúa.

Bjarki Oddsson
Formaður Samgöngu- og umferðarnefndar Rangárþings eystra.
Höfundur skipar 3. sæti framsóknarmanna og annara framfarasinna í Rangárþingi eystra.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 1. maí 2022.

Categories
Greinar

Byggjum upp atvinnulífskjarna í Reykjanesbæ

Deila grein

30/04/2022

Byggjum upp atvinnulífskjarna í Reykjanesbæ

Við fjölskyldan fluttum í Dalshverfi í Innri-Njarðvík sumarið 2018 skömmu eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Eitt af síðustu verkunum á æskuslóðunum í Vestmannaeyjum þá var einmitt að kjósa. Þegar við komum til Reykjanesbæjar blasti enn við kynningarefni Framsóknar fyrir kosningarnar. Brosmild og einbeitt andlit frambjóðenda horfðu til mín undir slagorðinu: „Við getum gert það!“

Ekki datt mér í hug þá að tæpum fjórum árum síðar yrði mér boðið að taka sæti á lista með þessu sama fólki og fleiri öflugum fulltrúum Framsóknar í Reykjanesbæ. Þegar leitað var til mín fyrr í vetur spurði ég mig að tvennu: Hvað hef ég lært af því að búa í Reykjanesbæ og hvað hef ég fram að færa til starfa fyrir sveitarfélagið?

Kröftugt og fjölbreytt atvinnulíf

Þegar ég flutti til Reykjanesbæjar vann ég á útvarpsstöðinni K100 og síðar sem fréttamaður á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni. Ég fjallaði um málefni Reykjanesbæjar og kynntist öflugu atvinnulífi við Keflavíkurflugvöll sem getur að sama skapi verið viðkvæmt, samanber áhrifin af falli flugfélagsins WOW air og heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Í málefnaskrá Framsóknar á nýjum vef okkar www.framsoknrnb.is kemur fram að við viljum styrkja tengslin við sjávarútveginn með landeldi á Reykjanesi og tryggja að Njarðvíkurhöfn verði nýtt enn frekar til viðhalds skipaflota landsins. Þá umræðu þekki ég vel frá Eyjum þar sem skipalyfta er of lítil fyrir stærstu skip flotans.

Atvinnulífskjarni í Reykjanesbæ

Ég mun leggja áherslu á að atvinnulífskjarni í Reykjanesbæ verði að veruleika. Ég hef verið mjög spenntur fyrir slíkum hugmyndum frá árinu 2008 þegar ég flutti aftur til Vestmannaeyja eftir tölvunarfræðinám í Danmörku. Undanfarin ár hef ég fylgst með umræðu um nýsköpunarsetur, skrifstofuhótel og ýmsa möguleika við tæknistörf á landsbyggðinni. Eftir Covid-faraldurinn eru störf án staðsetningar skyndilega orðin algengari en áður. Atvinnulífskjarni í heimabyggð styður við einstaklinga sem vinna fjarri vinnustaðnum að hluta. Sjálfur vinn ég fyrir hugbúnaðardeild Marel, ýmist í húsnæði fyrirtækisins í Garðabæ eða að heiman.

Aftur vísa ég til frambjóðenda Framsóknar á auglýsingaskiltunum í Reykjanesbæ sumarið 2018 og slagorðsins: „Mengandi stóriðju burt!“ Margt hefur áunnist varðandi kísilverið í Helguvík á yfirstandandi kjörtímabili en málinu er ekki lokið. Framsókn í Reykjanesbæ vill enga mengandi stóriðju í Helguvík.

Gerum gott samfélag enn betra.

Sighvatur Jónsson, skipar 6. sæti á B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. apríl 2022.

Categories
Greinar

Niður­staða í máli Garð­yrkju­skólans á Reykjum

Deila grein

30/04/2022

Niður­staða í máli Garð­yrkju­skólans á Reykjum

Málefni Garðyrkjuskólans á Reykjum hafa heldur betur verið milli tannanna á fólki síðastliðnar vikur og mánuði. Ýmsir aðilar kepptust um að fullyrða um að ekkert væri viðhafst innan ríkisstjórnarinnar og spjótum beint að Framsókn. Auðvitað var það svo ráðherra Framsóknar, Ásmundur Einar Daðason, sem greip boltann og leiddi málið til lykta með árangursríkum hætti sem er garðyrkjunámi á Íslandi til hagsbóta. Verkin tala sínu máli og munu gera það áfram.

Framsókn klárar málið

Á föstudaginn síðastliðinn kynnti mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar, samkomulag um að rekstur starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum yrði tryggður. Fjölbrautaskóli Suðurlands mun taka við umsjón verkefnisins og bjóða öllu starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur sinnt kennslu og tengdum störfum á Reykjum ráðningu frá 1. ágúst 2022.

Þetta er vissulega fagnaðarefni. Samkomulagið mun tryggja áframhaldandi garðyrkjunám á Reykjum og fyrirkomulagið mun efla það enn frekar. Starfsmenn halda sinni vinnu og nemar þurfa ekki að hafa áhyggjur.

Eflt nám og uppbygging

Einnig var ákveðið að umsýsla Reykjatorfunnar og mannvirkja fyrrum Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi flytjist frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna við upphaf haustannar 2022. Það er forsenda þess að hægt sé að nýta svæðið á nýjum vettvangi undir námið. Með því verða húsakostum viðhaldið á réttan máta ásamt því að frekari uppbyggingu má vænta. Næsta ár verða heldur betur spennandi í íslensku garðyrkjunámi.

Einnig verður skipaður starfshópur undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytisins um framtíðarfyrirkomulag og nýtingu á Reykjum og eflingu starfsnáms, rannsókna og nýsköpunarstarfs. Starfshópurinn mun skoða tengingu námsins við atvinnulífið og ákveðið sjálfstæði þess gagnvart FSU. Að loknum störfum skal starfshópurinn skila inn tillögum að úrbótum á starfsemi og frekari eflingu hennar, þá varðandi bæði uppbyggingu á svæðinu, bætta kennslu og bættrar námsaðstöðu (aðstaða, tækjakostur, námsefni o.fl. sem þar á við). Mennta- og barnamálaráðherra getur þá í samvinnu við FSU unnið í átt að gera námið enn öflugra, sem vissulega er starfsmönnum, nemum og garðyrkjunáminu öllu til hagsbóta. Gert er ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í desember 2022.

Mikil gróska á náminu

Nú þegar hafa 108 manns innritað sig í starfsnám í garðyrkju og skyldum greinum. Það er greinilegt að áhuginn er til staðar og því er mikilvægt að þessi stóru skref voru stigin í átt að frekari eflingu námsins. Garðyrkjunám þjónar stóru hlutverki í framtíð Íslands, þá bæði varðandi fæðuöryggi og baráttunni við loftlagsbreytingar. Með aðgerðum Framsóknar er verið að stuðla að sjálfbærri framleiðslu íslenskra matvæla og auka tæknivæðingu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. apríl 2022.

Categories
Greinar

Viðnámsþróttur íslenska hagkerfisins er mikill en blikur eru á lofti

Deila grein

29/04/2022

Viðnámsþróttur íslenska hagkerfisins er mikill en blikur eru á lofti

Sam­kvæmt hagspá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins sem birt­ist í síðustu viku er spáð að veru­lega hægi á hag­vexti í kjöl­far árás­ar­stríðsins í Úkraínu og af sömu ástæðum jafn­framt spáð að enn muni bæt­ast í verðbólgu miðað við fyrri spá frá því í janú­ar sl. Ein stærsta efna­hags­áskor­un­in sem alþjóðahag­kerfið hef­ur staðið frammi fyr­ir um ára­bil er ein­mitt verðbólga og þær aðgerðir sem verður að ráðast í til að ná tök­um á henni. Það á ekki að koma á óvart að gert sé ráð fyr­ir um 7% verðbólgu meðal iðnvæddra ríkja í ljósi þess að pen­inga­magn í um­ferð jókst veru­lega í kjöl­far alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar 2008-2009. Ásamt því var ráðist í um­fangs­mik­l­inn rík­is­stuðning vegna Covid-19-far­ald­urs­ins á heimsvísu. Áskor­un­in fram und­an verður að ná tök­um á verðbólg­unni með skyn­sam­legri hag­stjórn án þess að það bíti frek­ar á hag­vexti, en til þess þarf sam­stillt átak.

Verðbólg­an á heimsvísu

Verðbólga í Banda­ríkj­un­um mæld­ist í mars 8,5% á árs­grund­velli og hef­ur ekki verið hærri í rúm 40 ár. Á síðustu vik­um hef­ur verðbólga enn auk­ist með hækk­andi verði á olíu, málm­um og mat­væl­um og enn frek­ari hnökr­um á alþjóðleg­um birgðakeðjum. Ofan á þetta bæt­ist skort­ur á vinnu­afli. Óvíst er þó að verðbólg­an haldi áfram að hækka á árs­grund­velli, en hins veg­ar eru kjöraðstæður fyr­ir verðbólgu að ná fót­festu. Raun­vext­ir seðlabanka Banda­ríkj­anna eru nei­kvæðir, rík­is­fjár­mál ekki nægi­lega aðhalds­söm og trú­verðug­leiki pen­inga­stefnu hef­ur greini­lega beðið hnekki. Hætta er á að kaup­mátt­ur launa drag­ist sam­an vegna verðbólgu. Þess­ar aðstæður geta leitt til þess að neysla og fjár­fest­ing­ar drag­ist sam­an í Banda­ríkj­un­um og eru það mjög nei­kvæðar frétt­ir fyr­ir heims­hag­kerfið, því eins og sagt er að ef banda­ríska hag­kerfið hóst­ar – þá fær heims­hag­kerfið kvef. Svipuð staða er uppi beggja vegna Atlantsála. Horf­urn­ar í Evr­ópu hafa jafn­framt dökknað eft­ir að stríðið í Úkraínu braust út, verðbólga þar er einnig í hæstu hæðum og stærsta hag­kerfið þeirra, Þýska­land, er áfram háð Rússlandi með orku­öfl­un. Slík óvissa, og þær hækk­an­ir sem eru að eiga sér stað á orku og mat­væl­um, veld­ur því að vænt­ing­ar neyt­enda þar hafa versnað hratt. Hag­vöxt­ur í Kína mæld­ist 4,8% á fyrsta árs­fjórðungi og enn hef­ur hægt á efna­hags­bat­an­um í Kína vegna Covid-19. Óljóst er hvenær hjarðónæmi mun mynd­ast í því landi sem stund­um er kallað verk­smiðja heims­ins. Þetta ástand mun leiða til þess að við sjá­um frek­ari rof á birgðakeðjum. Reynsl­an kenn­ir okk­ur að verðbólga bitn­ar helst á þeim sem síst skyldi. Hætta er á að fjár­magns­straum­ar sem hafa legið til ný­markaðsríkja snú­ist við og hækk­un mat­væla er jafn­framt mikið áhyggju­efni meðal ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkja.

Ísland og horf­urn­ar

Ísland er mjög opið hag­kerfi og ná­tengt hag­kerfi ná­grannaþjóða og get­ur okk­ar hag­kerfi smit­ast af efna­hags­áföll­um ekki síður en af far­sótt­um. Nokk­ur óvissa rík­ir hins veg­ar um áhrif versn­andi horfa í heims­bú­skapn­um á Ísland. Ljóst er þó að auk­in óvissa og verðbólga kunna að draga úr ferðavilja, hins veg­ar benda þær upp­lýs­ing­ar sem við höf­um und­ir hönd­um til að ferðasum­arið 2022 verði gjöf­ult. Horf­urn­ar fyr­ir aðrar lyk­ilút­flutn­ingsaf­urðir eru góðar, þar á meðal sjáv­ar­út­veg, álfram­leiðslu og hug­verkaiðnað. Sam­kvæmt fjár­mála­stöðug­leikamati Seðlabanka Íslands er staða fjár­mála­kerf­is­ins góð. Það dró úr van­skil­um lána árið 2021 í banka­kerf­inu, bæði hjá fyr­ir­tækj­um og heim­il­um. Einnig hef­ur hægt á skulda­vexti heim­ila und­an­farna mánuði.

Verðbólg­an mun samt áfram verða hag­kerf­inu snú­in og því afar brýnt að öll hag­stjórn­in rói á sömu mið. Bú­ast má við að inn­flutt verðbólga hafi áhrif og mögu­lega munu vaxta­breyt­ing­ar hafa áhrif á mikl­ar eign­ir þjóðar­inn­ar er­lend­is. Rík­is­fjár­mál­in þurfa að verða aðhalds­söm og pen­inga­stefn­an þarf já­kvæða raun­vexti til lengri tíma séð ekki síður en aðrir seðlabank­ar um víða ver­öld. Ein helsta upp­spretta verðbólgu á Íslandi und­an­far­in miss­eri hef­ur þó verið íbúðamarkaður­inn og gott dæmi um það er að aug­lýst­um íbúðum til sölu á höfuðborg­ar­svæðinu hafði fækkað um nærri 69% frá því í árs­lok 2019 og ekki verið jafn fáar frá því að byrjað var að safna gögn­un­um árið 2006! Það er auðvitað þyngra en tár­um taki að borg­ar­skipu­lagið hafi ekki tekið á þess­um vanda. Niðurstaðan er sú að þessi þróun kem­ur lang­sam­lega verst niður á ungu fólki sem er að kaupa í fyrsta sinn.

Aðgerðir sem draga úr verðbólgu

Stærsta verk­efnið fram und­an er að ná tök­um á verðbólg­unni. Seðlabanki Íslands hef­ur verið skýr í sinni af­stöðu og hóf vaxt­ar­hækk­un­ar­ferlið einna fyrst­ur allra seðlabanka þróaðra ríkja. Bank­inn þarf að gera allt sem í hans valdi stend­ur til að vænt­inga­stjórn­in sé skýr og ein­beita sér að því að verðbólg­an hörfi. Ljóst er að rík­is­fjár­mál­in þurfa jafn­framt að vera aðhalds­söm til að styðja við pen­inga­stefn­una ásamt því sem vinnu­markaður­inn verður að taka til­lit til aðstæðna. Mark­miðið er að draga jafnt og þétt úr af­komu­halla og stöðva hækk­un skulda hins op­in­bera í hlut­falli af lands­fram­leiðslu eigi síðar en árið 2026. Þessi skýra sýn fer einnig sam­an með því að rík­is­sjóður styðji við þau heim­ili sem eru í mestri þörf. Vera kann að flýta þurfi aðgerðum sem miða að því að fjár­mála­kerfið spili með, svo sem með sveiflu­jöfn­un­ar­auk­an­um sem á að taka gildi í sept­em­ber nk. og end­ur­skoðun á gildi eig­in­fjárauk­ans.

Staðan í efna­hags­mál­um er sann­ar­lega vanda­söm, því seðlabank­ar heims­ins mega ekki stíga það fast á brems­urn­ar að þeir fram­kalli efna­hagskreppu, sér­stak­lega í ljósi þess að heims­bú­skap­ur­inn var rétt að ná sér eft­ir far­sótt­ina. Þrátt fyr­ir efna­hags­áskor­an­ir í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð býr ís­lenska hag­kerfið yfir mikl­um viðnámsþrótti. Staða rík­is­sjóðs er sterk, hrein­ar er­lend­ar eign­ir þjóðarbús­ins hafa aldrei verið meiri, fjár­hags­staða fyr­ir­tækja og heim­ila er góð, út­flutn­ings­at­vinnu­veg­ir eru þrótt­mikl­ir, þ.e.a.s. sjáv­ar­út­veg­ur, orku- og hug­verkaiðnaður. Ferðaþjón­ust­an er einnig að koma mjög sterk inn. Að auki höf­um við sjálf­stæða pen­inga­stefnu og svig­rúmið til aðgerða er mun meira en þeirra ríkja sem til­heyra evru­svæðinu og skuld­astaða þjóðar­inn­ar og vaxt­ar­horf­ur betri en yf­ir­leitt geng­ur og ger­ist á því svæði.

Þeir sem komn­ir eru fram yfir miðjan ald­ur og muna verðbólgu­tím­ann vilja ekki hverfa aft­ur til þess tíma þegar verðbólgu­draug­ur­inn ógnaði lífs­kjör­um ár eft­ir ár. Með sam­stilltu átaki get­um við komið í veg fyr­ir að hag­stjórn­ar­mis­tök fyrri ára­tuga séu end­ur­tek­in og viðhaldið stöðug­leika.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2022.