Categories
Greinar

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Deila grein

06/04/2022

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Nýlega voru styrkir veittir í fyrsta sinn úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði. Sjóðurinn hefur bæði það hlutverk og þá áherslu að auka þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á sviði mannvirkjagerðar. Alls var 95 milljónum króna veitt til 23 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefna á sviði mannvirkjagerðar.

Sjóðurinn er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 og rann umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun rann út 9. desember síðastliðinn. Alls bárust fjörutíu umsóknir og var heildaupphæð umsókna 452 milljónir króna. Til að meta umsóknir var sett á fót sérstakt fagráð sem gerir tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem síðan veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

Það er mikilvægt að sjóðurinn sé farinn að virka og fjármagn byrjað að streyma í hin ýmsu verkefni. Það er alveg ljóst að það er bæði þjóðfélagslega hagkvæmt og mikilvægt að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar. Nauðsynlegt er að efla íslenskt hugvit og kalla fram hugmyndir um notkun á íslensku hráefni í byggingariðnaði. Um leið og slíkt er gert er mikilvægt er að leita leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna. Það verður einungis gert með aukinni nýsköpun á þessu sviði og frekari rannsóknum hér á landi.

Stóra myndin segir okkur það að byggingariðnaðurinn er talinn bera ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu. Það er því alveg ljóst að það er til mikils að vinna og þessi stóri iðnaður sem byggingariðnaðurinn er mun geta spilað stórt hlutverk þegar kemur að úrbótum í loftslagsmálum.

Ég er því mjög ánægður að sjá að áherslur sjóðsins í úthlutuninni hafi snúið að þeim samfélagslegu áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Vistvænt steinsteypa með minna sementi, vistbók – gagnabanki vistvænna byggingarefna á Íslandi, fyrsta hampsteypuhús á Íslandi og hámörkun steinefna til að lækka kolefnisspor venjulegrar og vistvænni steypu eru meðal verkefna sem öll fá styrk úr sjóðnum við fyrstu úthlutun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. apríl 2022.

Categories
Greinar

Stuðningur á erfiðum stundum

Deila grein

04/04/2022

Stuðningur á erfiðum stundum

Í síðustu viku voru samþykkt í ríkisstjórn tvö frumvörp sem hófust í félagsmálaráðuneytinu í tíð Ásmundar Einars Daðasonar en frestuðust því miður vegna kórónuveirufaraldursins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur nú lagt þau fram og koma þau til umræðu á Alþingi á næstu dögum.

Sorgarorlof

Annars vegar er um að ræða frumvarp um sorgarorlof, en hingað til hefur það verið undir vinnuveitanda komið hvort foreldrar fái orlof eða leyfi eftir að þeir missa barn. Að sjálfsögðu á það að vera hlutverk ríkisins að grípa utan um foreldra og fjölskyldur sem verða fyrir áfalli sem þessu. Ekkert foreldri á að þurfa að standa í því að hafa áhyggjur af framfærslu eða vinnuskyldu þegar tekist er á við sorgina við að missa barn. Með frumvarpinu verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir barnsmissi verður því tryggður réttur til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tímabilinu. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.

Varla er til verri tilhugsun hjá foreldrum en að missa barnið sitt, getur það tekið langan tíma að vinna úr sorginni og áfalli við barnsmissi. Margir foreldra eru lítt vinnufærir fyrstu mánuðina eða árið og þurfa sumir hverjir að leita sér aðstoðar í langan tíma. Í mínum hug er það skylda ríkisins að styðja við þá örfáu foreldra sem missa börn sín ár hvert. Það er það minnsta sem við sem samfélag getum gert.

Umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna

Hins vegar er um að ræða frumvarp um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Þar er lagt er til að sett verði sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna sem koma í stað gildandi laga, með það að markmiði að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna. Meðal annars með því að auka skilvirkni stuðningskerfisins og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila. Frumvarp um umönnunargreiðslur er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Þetta frumvarp er mikið framfaraskref, en það fylgir því oft gríðarlegt álag að eiga fatlað eða langveikt barn sem krefst mikillar umönnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að létta byrðarnar á foreldrum þessara barna þannig að þeirra kraftur geti farið í sinna því sem mikilvægast er, barninu.

Einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu að missa eða annast langveikt barn eiga ekki að þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. Nóg er álagið fyrir. Ég fagna því að þessi mál eru að koma til umræðu á Alþingi og bind einlægar vonir við þau komist hratt í gegnum þingið. Við hljótum að vera sammála um það hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2022.

Categories
Greinar

Alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins

Deila grein

03/04/2022

Alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins

Greiðari alþjóðaviðskipti und­an­far­inna ára­tuga hafa skilað þjóðum heims mikl­um ávinn­ingi og eru það ekki síst fá­tæk­ustu lönd­in sem hafa notið þess í formi bættra lífs­kjara. Alþjóðabank­inn tel­ur að þeim ein­stak­ling­um sem búa við sára fá­tækt hafi fækkað um meira en helm­ing á síðustu þrjá­tíu árum þar sem meira en millj­arði manna hef­ur verið lyft úr gildru fá­tækt­ar. Þessa þróun má ekki síst rekja til greiðari alþjóðaviðskipta.

Á und­an­gengn­um árum hef­ur heims­bú­skap­ur­inn orðið fyr­ir tals­verðum áföll­um og í fyrsta skipti í meira en tvo ára­tugi hef­ur fjölgað í hópi þeirra sem búa við sára fá­tækt. Það eru ákveðnar blik­ur á lofti um sam­drátt í heimsviðskipt­um og spor kreppu­ára síðustu ald­ar hræða. Þá voru fyrstu viðbrögð þjóðríkja ein­angr­un­ar­hyggja og var það ekki fyrr en eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina, ekki síst með til­komu Brett­on Woods-stofn­ana og GATT, að viðskipti byrjuðu að glæðast á ný með til­heyr­andi hag­sæld.

Kenn­ing­ar Smith og Ricar­do

Árið 1776 kom út bók skoska hag­fræðings­ins Adams Smith, Auðlegð þjóðanna . Í þeirri bók kynnti hann kenn­ingu sína sem kall­ast al­gjört for­skot (e. ab­solu­te advanta­ge) í alþjóðaviðskipt­um, sem geng­ur út á að hver þjóð ein­blíni á að fram­leiða eina vöru á skil­virk­ari hátt en aðrar. Jafn­framt taldi Smith að viðskipt­um á milli landa ætti ekki að vera stjórnað eða þau tak­mörkuð með inn­grip­um stjórn­valda. Hann full­yrti að viðskipti ættu að flæða eðli­lega í sam­ræmi við markaðsöfl eða „ósýni­legu hönd­ina“. Ekki voru all­ir hag­fræðing­ar sam­mála þess­ari nálg­un og héldu sum­ir hag­fræðing­ar því fram að sum lönd gætu verið betri í að fram­leiða marg­ar vör­ur og þannig haft for­skot á mörg­um sviðum, sem lýs­ir raun­veru­leik­an­um bet­ur. Breski hag­fræðing­ur­inn Dav­id Ricar­do kom fram í kjöl­farið með kenn­ing­una um sam­an­b­urðarfor­skot (e. comparati­ve at­vanta­ge) árið 1817. Hann hélt því fram að jafn­vel þótt land A hefði al­gera yf­ir­burði í fram­leiðslu ým­issa vara gæti samt verið sér­hæf­ing og viðskipti milli tveggja landa. Staðreynd­in er sú að mun­ur­inn á þess­um tveim­ur kenn­ing­um er lít­ill. Alþjóðaviðskipti byggj­ast enn í dag að grunni til á þess­um kenn­ing­um og hag­ur þjóða hef­ur vænkast veru­lega í kjöl­farið.

Áföll­in; Trump, C-19 og Pútín

Inn­rás­in í Úkraínu er þriðja áfallið sem heimsviðskipt­in verða fyr­ir á ein­um ára­tug. Fyrst gaf Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti tón­inn 2016-2020, með boðun ein­angr­un­ar­hyggju og viðskipta­stríði við nokk­ur lyk­il­ríki. Nú­ver­andi stjórn­völd hafa ekki dregið nægj­an­lega mikið til baka í þess­um efn­um og er það áhyggju­efni. Næst tók hin ill­ræmda far­sótt við, þar sem hag­kerf­in urðu fyr­ir mikl­um áföll­um í alþjóðleg­um vöru­viðskipt­um, fjár­magns- og fólks­flutn­ing­um. Nú er hafið skelfi­legt stríð í brauðkörfu Evr­ópu með þeim af­leiðing­um að setið er um hafn­ir Svarta­hafs­ins og efna­hagsþving­an­ir á Rúss­land hafa hrundið af stað fram­boðsáfalli sem allt heims­hag­kerfið finn­ur sár­lega fyr­ir. Verðið á hveiti hef­ur hækkað um 40% og það kann að vera að Evr­ópu­bú­ar upp­lifi skort á gasi til hit­un­ar næsta vet­ur. Þá hef­ur verð á nikk­eli rokið upp en það er meðal ann­ars notað í raf­geyma, t.d. fyr­ir raf­magns­bíla.

Frek­ari aðför að alþjóðaviðskipt­um mun vinna gegn lífs­kjör­um á heimsvísu, því verða þjóðir heims að standa sam­an gegn því að al­var­leg aft­ur­för verði í alþjóðaviðskipt­um. Það kall­ar meðal ann­ars á nýtt átak til efl­ing­ar heimsviðskipt­um þar sem snúið verður af braut viðskipta­tak­mark­ana, sem skotið hafa upp koll­in­um á síðustu árum, en horft verði til þess hvað bet­ur má fara í viðskipt­um landa á milli með skýr­ari regl­um og stuðningi við alþjóðastofn­an­ir á þessu sviði, þar með talið Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina (WTO).

Staða Íslands í alþjóðaviðskipt­um

Ekk­ert er sjálf­gefið í þess­um efn­um. Viðskiptaum­hverfi Íslands er með besta móti. Hags­mun­ir okk­ar eru tryggðir í gegn­um EFTA, með samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið, í gegn­um tví­hliða viðskipta­samn­inga og inn­an fjölþjóðlegra stofn­ana eins og Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar og Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD). Við erum þjóð sem þrífst á alþjóðaviðskipt­um!

Í sögu­legu ljósi hef­ur hag­ur ís­lensku þjóðar­inn­ar vænkast með aukn­um viðskipt­um enda er talið að smærri ríki njóti einkum góðs af frjáls­um viðskipt­um. Oft er talið að fyrra tíma­bil hnatt­væðing­ar hafi átt sér stað í fram­haldi af tækni­fram­förum upp úr miðri 19. öld og staðið fram að fyrra stríði. Seinna tíma­bilið hófst síðan eft­ir að seinni heims­styrj­öld­inni lauk. Lífs­kjör okk­ar eru góð vegna þess að aðgengi að helstu mörkuðum, hvort held­ur með sjáv­ar­fang, orku, ferðaþjón­ustu eða hug­verk, er gott. Um leið og ein­hverj­ar blik­ur eru á lofti um slíkt aðgengi, þá rýrna lífs­kjör hratt á Íslandi og því þurfa stjórn­völd stöðugt að vera á tán­um og end­ur­meta stöðuna.

Góður ár­ang­ur Íslands utan ESB

Á hverj­um degi á Ísland í frá­bæru alþjóðlegu sam­starfi á fjöl­mörg­um sviðum sem við get­um verið stolt af. Þar er mjög gott sam­starf við Evr­ópu eng­in und­an­tekn­ing. Ísland er í raun í öf­undsverðri stöðu að vera þátt­tak­andi í góðu sam­starfi við Evr­ópu­sam­bandið og önn­ur ríki inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins á grund­velli EES-samn­ings­ins – og á sama tíma geta gert tví­hliða fríversl­un­ar­samn­inga við önn­ur ríki í heim­in­um. Versl­un­ar­frelsi Íslands er gott og á und­an­förn­um árum hef­ur viðskipta­stefna Íslands, til dæm­is hvað varðar álagn­ingu tolla og vöru­gjalda, þró­ast mjög í frjáls­ræðisátt. Þannig voru al­menn­ir toll­ar felld­ir niður af fatnaði og skóm í árs­byrj­un 2016 og af hvers kyns ann­arri iðnaðar­vöru í árs­byrj­un 2017 svo dæmi séu tek­in. Í sam­an­b­urði á tollaum­hverfi Íslands, ESB og hinna EFTA-ríkj­anna kom fram að hlut­fall toll­skrár­núm­era sem bera ekki toll nam tæp­um 90% hér á landi en var um 27% í ESB. Þá var meðaltoll­ur einnig lægri hér, 4,6% miðað við 6,3% inn­an ESB.

Snýst á end­an­um um lífs­kjör

Það er ljóst að vel­meg­un á Íslandi er með því mesta sem geng­ur og ger­ist í ver­öld­inni allri – og þar skip­um við okk­ur í deild með lönd­um eins og Nor­egi og Sviss sem einnig standa utan ESB. Það er stefna okk­ar í Fram­sókn sem og stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar að hags­mun­um Íslands sé best borgið utan ESB. Ný­verið var þings­álykt­un­ar­til­laga um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu lögð fram af þing­flokki Pírata, Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar. Rök­semd­in fyr­ir tíma­setn­ingu þjóðar­at­kvæðagreiðslu um svona veiga­mikið atriði er vík­ur að skerðingu full­veld­is­ins ligg­ur ekki fyr­ir. En leiða má að því lík­ur að tíma­bund­inn auk­inn stuðning­ur við aðild að ESB í skoðana­könn­un­um spili þar inn í. Stuðning­ur sem sum­ir telja til­kom­inn vegna óviss­unn­ar sem inn­rás Rússa í Úkraínu hef­ur valdið. Síðast þegar stuðning­ur við aðild að ESB jókst tals­vert var í kjöl­far fjár­mála­áfalls­ins 2008. Fram­lagn­ing fyrr­nefndr­ar þings­álykt­un­ar­til­lögu er ekki síður at­hygl­is­verð í ljósi þess að aðeins 6 mánuðir eru liðnir frá þing­kosn­ing­um í land­inu þar sem kjós­end­ur sögðu skoðun sína á lýðræðis­leg­an hátt. Óhætt er að segja að þeir flokk­ar sem vilja ganga í Evr­ópu­sam­bandið, Sam­fylk­ing­in og Viðreisn, hafi ekki riðið feit­um hesti frá þeim kosn­ing­um með aðild­ar­mál­in að vopni. Þannig var Viðreisn gerð aft­ur­reka í kosn­inga­bar­átt­unni með efna­hags­hug­mynd­ir sín­ar um að varða leiðina í átt að upp­töku evru. Mig rek­ur einnig ekki minni til þess að Viðreisn hafi gert aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu að skil­yrði þegar hún hafði tæki­færi til þess í rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokkn­um og Bjartri framtíð. Það seg­ir vissu­lega ákveðna sögu. Þegar öllu er á botn­inn hvolft snýst þetta um góð lífs­kjör. Líkt og hef­ur verið rakið hér að ofan hef­ur Ísland komið sér í sterka stöðu á sviði alþjóðaviðskipta og lífs­kjara í fremstu röð. Stefna okk­ar hingað til hef­ur virkað vel í þeim efn­um, og á þeirri braut eig­um við að halda ótrauð áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.

Categories
Greinar

Meira bíó!

Deila grein

01/04/2022

Meira bíó!

Nýlega fjallaði RÚV um gott gengi kvikmyndaiðnaðarins hér á landi en áætlað er að hann hafi skilað samfélaginu 9 milljörðum króna á síðasta ári. Þá er gert er ráð fyrir áframhaldandi velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar á næstkomandi árum. Þetta er fagnaðarefni en kemur þó lítið á óvart, enda býr Ísland yfir stórum hópi af fagfólki í greininni sem vinnur frábært starf á hverjum degi hvort sem um er að ræða leikstjóra, leikara, tónskáld, tæknimenn eða aðra. Velgengni Íslendinga er aðdáunarverð og hróður íslenskar kvikmyndagerðar hefur farið vaxandi á erlendri grundu síðustu ár.

Suðupottur tækifæra

Íslenskt kvikmyndaefni er sýnt í erlendri dagskrá í auknu mæli ásamt erlendum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem tekin hafa verið upp hér á landi. Af því leiðir að Ísland fær mikilvæga landkynningu sem hefur aftur jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og ímynd landsins. Tækifærin sem felast í öflugum kvikmyndaiðnaði eru fjölmörg. Við sjáum að erlendir aðilar sækja til landsins í auknu mæli. Nú um stundir er verið að taka upp fjögur erlend kvikmyndaverkefni í stærri kantinum hér á landi. Þar á meðal er stórt verkefni frá Sony og annað frá Netflix og BBC. Eitt af þessum verkefnum er hasarmyndin Heart of Stone, sem framleidd er af Netflix. Um er að stóra framleiðslu, fyrstu myndina í flokki mynda sem ætlað er að sverja sig í ætt við hasarmyndir á borð við Mission: Impossible og James Bond myndirnar. Söguþráður myndarinnar á sér stað að hluta til hér á landi og ýmis konar kennileiti Íslands koma til sögunnar. Þvílík auglýsing fyrir Ísland.

Auknum umsvifum í kvikmyndagerð fylgja fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri um land allt sem kallar á ýmsa sérfræðiþekkingu. Á bak við eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna. Þá skapast við framleiðslu á kvikmynd fjöldi annarra afleiddra starfa. Hótel, gistiheimili, leiðsögumenn, bílaleigur og veitingastaðir víða um land njóta góðs af. Þúsundir starfa og auknar tekjur í ríkissjóð eru skýr dæmi um jákvæð áhrif kvikmyndagerðar hér á landi – og þar getum við náð enn lengra. Framsókn lagði ríka áherslu á kvikmyndagerð fyrir síðustu alþingiskosningar en við höfum óbilandi trú á getu kvikmyndaiðnaðarins til að skapa raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið.

Í orði og á borði

Þessi þróun sýnir og sannar að afslættir til iðnaðarins virka. Í stóru myndinni leiða þeir til aukinnar velmegunar innan hans til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur sett það á oddinn að hækka endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð til þess að laða stór verkefni sem væru að stærstum hluta tekin upp hér á landi. Það er í samræmi við fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnuna fyrir Ísland sem Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra kynnti til leiks á síðasta kjörtímabili. Í stefnunni er að finna metnaðarfullar aðgerðir sem munu auka verulega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar hér á landi. Strax hefur verið hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.

Við í Framsókn skiljum mikilvægi þess að styðja við íslenska kvikmyndagerð. Á okkar vakt hefur verið staðið fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands ásamt því að komið var á fyrstu endurgreiðslum í kvikmyndagerð á laggirnar. Sagan hefur sannað gildi þessara mikilvægu aðgerða og undirstrikað tækifærin sem felast í kvikmyndagerð fyrir land og þjóð. Framtíðin er björt og það verður ánægjulegt að taka þátt í því að styðja menningarmálaráðherra og ríkisstjórnina í því verkefni að ná enn lengra fyrir kvikmyndagerð í landinu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2022.

Categories
Greinar

30. mars 1949

Deila grein

30/03/2022

30. mars 1949

„Hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada,“ sagði Winst­on Churchill, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, er hann kjarnaði orð eins hers­höfðingja sinna um hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. All­ar göt­ur síðan hef­ur land­fræðileg lega Íslands skipað grund­vall­arsess í varn­ar­mál­um vest­rænna ríkja.

Tryggt frelsi og ör­yggi hef­ur um ára­bil verið grund­vall­arþátt­ur í vel­ferð okk­ar. Það var því fram­sýnt skref sem ís­lensk stjórn­völd stigu 30. mars 1949 þegar ákveðið var að Ísland myndi ger­ast stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Með því skipaði Ísland sér í hóp 12 stofn­ríkja sam­bands­ins. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór Atlants­hafs­banda­lagið þess á leit við Ísland og Banda­rík­in að rík­in gerðu ráðstaf­an­ir sín á milli með varn­ar­samn­ingn­um árið 1951 við Banda­rík­in. Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið stofna ör­yggi þess sjálfs og friðsamra ná­granna þess í voða eins og það er orðað í samn­ingn­um. Staðfesta stjórn­valda þess tíma tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörn­um og varðveita þannig frið og ör­yggi á svæðinu.

Í ljósi þess friðsama veru­leika sem við á Íslandi höf­um búið við und­an­far­in ár hef­ur umræða um varn­ar­mál verið í lág­marki. Það má segja að á einni nóttu hafi veru­leiki Evr­ópuþjóða breyst með óverj­an­legri inn­rás Rússa í Úkraínu. Stríðið sem þar geis­ar er köld áminn­ing um að sú sam­fé­lags­gerð sem við búum við hér á vest­ur­hveli jarðar er ekki sjálf­sögð. Lýðræðið, frelsið og mann­rétt­ind­in eru ekki sjálf­gef­in. Það er nauðsyn­legt að standa vörð um þessi gildi og verja þau gegn ábyrgðarleysi og þeim sem kæra sig lítt um þau.

Árás­ar­stríðið í Evr­ópu und­ir­strik­ar mik­il­vægi varn­ar­mála og staðfest­ir nú sem endra­nær mik­il­vægi þess að taka virk­an þátt í ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starfi vest­rænna lýðræðisþjóða. Ég er stolt að hafa staðið í stafni sem ut­an­rík­is­ráðherra þegar fyrsta þjóðarör­ygg­is­stefna lands­ins var samþykkt á Alþingi Íslend­inga 13. apríl 2016. Í henni eru tí­undaðar áhersl­ur sem ætlað er að tryggja sjálf­stæði, full­veldi og friðhelgi landa­mæra Íslands, ör­yggi borg­ar­anna og vernd stjórn­kerf­is og grunn­innviða sam­fé­lags­ins. Þá var nýtt þjóðarör­ygg­is­ráð sett á lagg­irn­ar sem met­ur ástand og horf­ur í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um með reglu­legu milli­bili og hef­ur eft­ir­lit með fram­fylgd þjóðarör­ygg­is­stefn­unn­ar.

Á þeim árum sem liðin eru frá stofn­un Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur starf­semi þess og þátt­taka Íslands tekið mikl­um breyt­ing­um. Það end­ur­spegl­ar hinn sí­breyti­lega veru­leika sem við búum við og þurf­um að laga okk­ur að hverju sinni – hvort sem um er að ræða kalda­stríðs-, hryðju­verka-, netör­ygg­is- eða Rúss­land­s­ógn­ir. Reglu­lega ger­ast at­b­urðir sem und­ir­strika mik­il­vægi þess að huga vel að varn­ar­mál­um. Þá vakt þurf­um við ávallt að standa og taka virk­an þátt með vinaþjóðum okk­ar í að standa vörð um þá sam­fé­lags­gerð sem við þekkj­um. Þrátt fyr­ir að Ísland sé lítið skipt­ir fram­lag okk­ar miklu máli í þessu sam­hengi – rétt eins og Winst­on Churchill benti rétti­lega á hér á árum áður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2022.

Categories
Greinar

Fæðu­öryggi er þjóðar­öryggis­mál

Deila grein

30/03/2022

Fæðu­öryggi er þjóðar­öryggis­mál

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, hefur farið mikinn í umræðunni um fæðuöryggi. Þar hefur hann talað niður ógnina sem steðjar að fæðuöryggi þjóðarinnar og leggur til aðgerðir sem grafa undan fæðuörygginu og eru þess eðlis að þær draga úr innlendri matvælaframleiðslu.

Þessi málflutningur er óábyrgur. Ógnin er raunveruleg. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál en ekki hagsmunamál atvinnurekenda eða bænda.

Fæðuöryggi á Íslandi

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi frá 2021 segir að eiginlegt fæðuöryggi Íslendinga sé háð 4 meginforsendum; að auðlindir til framleiðslu eru til staðar, að þekking og tæki til framleiðslu eru til staðar, að birgðir eru til að af þeim fæðutegundum sem innlend matvælaframleiðsla getur ekki tryggt og, síðast en ekki síst, að aðgengi að aðföngum fyrir innlenda framleiðslu er tryggt.

Staðan er þessi. Innlend matvælaframleiðsla er háð innfluttum aðföngum, svo sem hráefni til fóðurgerðar, áburði, fræjum og olíu.

Í því ástandi sem birtist okkur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu er staðan sú að aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu er tvísýnt. Þá sérstaklega að hráefnum til fóðurgerðar og áburði til lengri tíma litið.

Viðkvæm staða

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur hins vegar litlar áhyggjur.

Hann talar um að nægt framboð sé til staðar á aðföngum og aðeins séu verðhækkanir í kortunum. Sjálfur vona ég að hann hafi rétt fyrir sér, en staðreyndin er sú að ástandið í korn- og ábuðraframleiðslu í heiminu er laklegt. Staðan er viðkvæm og það má ekkert út af bregða svo illa fari.

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi kemur fram að ,,stríð eru sennilega sú tegund „hamfara” sem líklegast er að geti á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri.“

Korn er undirstaðan í dýrafóðri og Úkraína er stærsti framleiðandi korns í álfunni. Almennt er hátt í 40 milljón tonn af korni framleitt í Úkraínu á ári hverju. Í eðlilegu árferði væru úkraínskir bændur að sá fræjum á akra sína en hafa þurft að vopnast og verjast.

Sömuleiðis hefur áburður meira en tvöfaldast í verði þar sem Rússland og Hvíta Rússland, sem bæði eru undir viðskiptaþvingunum, spila stórt hlutverk í aðfangakeðju áburðaframleiðslu. Sú hækkun hefur keðjuverkandi og markþætt áhrif á framboð landbúnaðarafurða, þ.a.m. kornafurðum.

Svartar sviðsmyndir

Skortur á fóðri hér á landi veldur framleiðslustöðvun í eggja-, alífugla- og svínarækt og dregur úr framleiðslu í nautgriparækt, mjólkuriðnaði og að einhverju marki í sauðfjárrækt.

Skortur á áburði hefur aðeins hægari áhrif en mun draga smá saman úr framleiðslu á lambakjöti, nautakjöti og mjólk. Varlega áætlað mun uppskera dragast saman um fjórðung á fyrsta ári áburðarleysis.

Sjálfur tel ég skynsamlegt að við tryggjum okkur gagnvart mögulegum skorti á aðföngum, olíu, korni, sáðvöru og áburði. Varabyrgðir sem duga að lágmarki til eins árs.

Það er mikilvægt að yfirvöld grípi inn í og komi fram með aðgerðaráætlun sem snýr að því að tryggja aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu ásamt aðgerðum til að bregðast við miklum verðhækkunum við framleiðslu til að tryggja afkomu matvælaframleiðenda.

Til framtíðar þurfum við að skapa íslenskum bændum sanngjarnari starfsskilyrði, atvinnugreininni og neytendum til hagsbóta. Á sama tíma þurfum við að auka sjálfbærni í fóðurframleiðslu og nýta þau tækifæri sem felast í aukinni kornframleiðslu hér á landi. Með markvissum aðgerðum getum við framleitt allt að 80% af því kjarnfóðri sem við þurfum til innlendrar matvælaframleiðslu.

Ólafi er mikið í mun að benda á hið augljósa í umræðunni, þ.e. að lega landsins á norðurhveli jarðar veldur því að við verðum aldrei sjálfum okkur næg, að við getum ekki borðað allan fiskinn sem við veiðum og að stríðsátökin í Úkraínu marka ekki endalok frjálsra heimsviðskipta. Það er allt satt og rétt og enginn sem heldur öðru fram. Hins vegar er skynsamlegt að nýta þá styrkleika og þau tækifæri til framleiðslu sem landið hefur upp á að bjóða. Að stuðla að aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu eykur fæðuöryggi. Um það eru sérfræðingar, þjóðaröryggisráð og alþjóðastofnanir sammála um þó svo að Ólafur Stephensen hafi einhverjar aðrar hugmyndir.

Fæðuöryggi þjóðarinnar er nefnilega of mikilvægt til að leyfa sérhagsmunum að grafa undan því til að skara eld að eigin köku.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. mars 2022.

Categories
Greinar

Grænar al­mennings­sam­göngur

Deila grein

30/03/2022

Grænar al­mennings­sam­göngur

Eitt af stefnumálum Framsóknar í Hveragerði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí næstkomandi er að bæta samgöngur í bæjarfélaginu. Bærinn hefur stækkað ört á síðustu misserum, íbúum fjölgað og fjarlægðir á milli ystu svæða hafa lengst. Við viljum útvíkka starfsemi frístundastrætós fyrir alla Hveragerði. Til að auka þjónustu við íbúa er mikilvægt að fjölga ferðum og stoppistöðvum en á tímum Hamarshallar gekk strætóinn eingöngu á milli frístundaheimilis og hallarinnar. Þessu þarf að breyta. Íþróttamannvirki bæjarins munu halda áfram að byggjast upp á svæði Hamarshallarinnar sem og við íþróttahúsið við Skólamörk en með fjölgun ferða og stoppistöðva munu fleiri íbúar í Hveragerði geta nýtt sér strætóinn.

Í takt við samtþykkt bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundi þann 14. mars 2019 um að sett verði markmið í átt að kolefnishlutleysi Hveragerðisbæjar árið 2030 er skýrt í huga Framsóknar að besti kosturinn í þessari samgöngubútbót sé að strætóinn verði knúinn rafmagni, grænn strætó. Í bókun bæjarstjórnar frá sama fundi kemur fram að með markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2030 skipi Hveragerði sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.

Grænn strætó eykur þjónustu við íbúa, bætir samgöngur og er markmið í átt að kolefnishlutleysi. Ný framsókn í Hveragerði.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Hveragerði.

Categories
Greinar

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Deila grein

27/03/2022

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Stríðið í Úkraínu hef­ur varað í rúm­an mánuð. Af­leiðing­arn­ar birt­ast okk­ur á degi hverj­um, með mynd­um af mann­falli al­mennra borg­ara. Millj­ón­ir flótta­manna eru á ver­gangi, heilu íbúðahverf­in hafa verið jöfnuð við jörðu, ung­ar fjöl­skyld­ur eru aðskild­ar – allt eru þetta birt­ing­ar­mynd­ir mis­kunn­ar­lauss stríðs í Evr­ópu, sem flest okk­ar þekkja ein­ung­is úr sögu­bók­um. Við finn­um fyr­ir af­leiðing­um stríðsins á hverj­um degi; verð á bens­ín, mat, kambstáli og nikk­el hef­ur hækkað veru­lega. Þess­ar hækk­an­ir þýða að verðbólga eykst og neysla og hag­vöxt­ur munu minnka. Lífs­kjör á heimsvísu rýrna! Þess má geta að Rúss­land og Úkraína fram­leiða 26% af hveiti, 16% af korni, 30% af byggi og 80% af sól­blóma­ol­íu. Ljóst er hag­kerfi ver­ald­ar­inn­ar munu finna fyr­ir mikl­um skorti á fram­leiðslu á þess­um afurðum og því miður munu fá­tæk­ustu lönd heims­ins lík­lega finna enn meira fyr­ir þessu.

Þörf á sam­stillt­um aðgerðum á heimsvísu

Það eru blik­ur á lofti og eft­ir­spurn­ar­kreppa gæti mynd­ast vegna verðhækk­ana. Þessi þróun þarf ekki að raun­ger­ast ef efna­hags­stjórn­in er skyn­söm. Til að kljást við Kreml­ar-ógn­ina verða leiðandi hag­kerfi heims­ins að stilla sam­an aðgerðir sín­ar sem miða að því að vera minna háð orku­fram­leiðslu Rúss­lands. Í hag­sög­unni eru dæmi eru mikl­ar hækk­an­ir á olíu, til dæm­is eft­ir Yom Kipp­ur-stríðið 1973 og ír­önsku bylt­ing­una 1979 og svo þær hækk­an­ir olíu­verðs sem áttu sér stað 2010-2011 eft­ir fjár­málakrepp­una 2008. Áhrif þess­ara hækk­ana á heims­hag­kerfið voru þó gjör­ólík. Fyrri hækk­an­ir höfðu mik­il áhrif og urðu til þess að veru­lega hægðist á alþjóðahag­kerf­inu en þær seinni gerðu það ekki. Hver er þá mun­ur­inn?

Tíma­mót­a­rann­sókn Bernan­kes, Gertlers og Wat­sons

Árið 1997 birtu Bernan­ke, Gertler og Wat­son tíma­móta­hagrann­sókn sem fjallaði um áhrif hækk­un­ar olíu­verðs á banda­ríska hag­kerfið. Niðurstaða þeirra var að efna­hagskreppa raun­gerðist ekki vegna þess að olíu­verð væri að hækka, held­ur vegna þess að seðlabank­inn hefði áhyggj­ur af víxl­verk­un launa og verðlags, og hækkuðu því stýri­vexti mikið sem viðbrögð við hækk­un olíu­verðs. Paul Krugman hef­ur ný­lega bent á mun­inn á því hvað gerðist eft­ir ol­íu­áfallið á 8. ára­tugn­um ann­ars veg­ar og hins veg­ar eft­ir fjár­málakrepp­una 2008 þegar Bernan­ke var við stjórn­völ­inn hjá banda­ríska seðlabank­an­um og hélt aft­ur af vaxta­hækk­un­um þrátt fyr­ir áköll um annað. Það ber þó að hafa bak við eyrað að aðstæður á hag­kerf­um heims­ins eru ólík­ar á hverj­um tíma og þurfa viðbrögð stjórn­valda að taka mið af því. Við höf­um lært af reynsl­unni að birt­ing­ar­mynd­ir efna­hags­áfalla eru ólík­ar. Það er ljóst að verðbólga er stórskaðleg öll­um hag­kerf­um og í ljósi verðhækk­ana und­an­far­inna mánaða er ekki að undra að vaxta­hækk­un­ar­ferlið sé hafið víða um heim. Það er þó afar brýnt að þær efna­hagsþreng­ing­ar sem eru í vænd­um verði ekki of mikl­ar og seðlabank­ar bregðist ekki of hart við. Í því sam­bandi er mik­il­vægt að sam­ræm­is sé gætt í stefnu­mörk­un hins op­in­bera. Af þeim sök­um er mik­il­vægt að hið op­in­bera gangi í takt og styðji við pen­inga­stefn­una, t.d. í rík­is­fjár­mál­um.

Horf­urn­ar á Íslandi

Hnökr­ar í alþjóðaviðskipt­um hafa hægt á end­ur­reisn­inni í kjöl­far Covid. Óverj­an­leg inn­rás Rússa í Úkraínu eyk­ur enn á lík­ur þess að það hægi á hag­vexti. Hrávöru­verð hækk­ar mikið á alþjóðamörkuðum og því mun verðbólga aukast í kjöl­farið. Það verður áfram óvissa um þró­un­ina meðan stríðið var­ir. Óljóst er þó hvaða áhrif stríðið hef­ur á greiðslu­jöfnuð þjóðarbús­ins, þ.e. lík­legt er að viðskipta­kjör rýrni vegna hækk­andi verðbólgu en á móti kem­ur að ferðaþjón­ust­an virðist enn standa sterkt. Því ætti gengi krón­unn­ar að hald­ast stöðugt að öllu öðru óbreyttu. Íslend­ing­ar þurfa ekki að leita í sögu­bæk­urn­ar til að kynna sér áhrif verðbólgu á heim­il­in. Stóra málið í efna­hags­stjórn­inni hér á landi er að halda verðbólg­unni í skefj­um. Það er mjög sorg­legt að horfa upp á að helm­ing­ur­inn af 6,2% verðbólg­unni á Íslandi er vegna mik­ill­ar hækk­un­ar hús­næðis­verðs á höfuðborg­ar­svæðinu. 22,4% hækk­un mæl­ist nú á höfuðborg­ar­svæðinu! Hér er ekki gengið í takt til stuðnings bar­átt­unni gegn verðbólg­unni! Það verður að auka fram­boð hag­kvæmra lóða og fara í stór­átak í hús­næðismál­um ef þetta á ekki að enda með efna­hags­legu stór­slysi, því er afar gott að skipu­lags­mál­in séu kom­in í innviðaráðuneyti Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar!

Það hafa orðið ótrú­leg­ar breyt­ing­ar í heim­in­um á ein­um mánuði og óviss­an verður áfram ríkj­andi á meðan stríðið var­ir og jafn­vel leng­ur. Það er auðvitað hrylli­leg til­hugs­un að heim­ur­inn sé jafn­brot­hætt­ur og raun ber vitni. Brýn­ast fyr­ir hag­stjórn­ina bæði á heimsvísu og hér inn­an­lands er að fara í aðgerðir sem miða að því að draga úr verðbólguþrýst­ingi og styðja Seðlabanka Íslands í sinni veg­ferð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.

Categories
Greinar

Sýslumönnum skal ekki fækka

Deila grein

27/03/2022

Sýslumönnum skal ekki fækka

Síðastliðna daga hef­ur sprottið upp umræða um fækk­un sýslu­mann­sembætta hér á landi. Talað er um að sam­eina ákveðin embætti í eitt og jafn­vel að fækka sýslu­mönn­um í ein­ung­is einn sýslu­mann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt um­dæmi. Þetta er áhyggju­efni þar sem sýslu­menn sinna veiga­miklu hlut­verki inn­an sinna um­dæma. Þeir þjóna sínu nærsam­fé­lagi í mik­il­væg­um og per­sónu­leg­um mál­um íbúa þess hvort sem það eru þing­lýs­ing­ar, gjaldþrot eða mik­il­væg mál­efni fjöl­skyldna. Af þessu er aug­ljóst að mik­il­vægi þess að sýslu­menn séu inn­an hand­ar er óum­deilt. Sýslu­menn eru umboðsmenn hins op­in­bera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veru­leika þá verður búið að eyða grund­vall­ar­hlut­verki þeirra.

Haft er eft­ir for­manni Fé­lags sýslu­manna að dóms­málaráðuneytið hafi fundað með sýslu­mönn­um um málið og að efa­semd­ir séu um ágæti þess inn­an þeirra raða. Skilj­an­lega, enda er nauðsyn­legt að sýslu­menn séu til staðar í nærum­hverf­inu og hafi ein­hverja teng­ingu við sam­fé­lagið. Með brott­hvarfi þeirra úr um­dæm­inu eyðist sú teng­ing, eðli máls­ins sam­kvæmt.

Vissu­lega bjóða tækninýj­ung­ar fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar upp á nýj­ung­ar, tæki­færi og upp­færslu ferla og aðferða. Þó er aug­ljóst að áform um að fækka sýslu­mann­sembætt­um tölu­vert brjóta í bága við byggðasjón­ar­mið, en við höf­um skuld­bundið okk­ur til að vinna í þágu þeirra. Fækk­un embætt­anna hef­ur í för með sér nei­kvæð áhrif á mörg byggðarlög, þá helst utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ásamt því er aug­ljóst að at­vinnu­tæki­fær­um í fá­menn­ari byggðum fækk­ar, en það er göm­ul saga og ný að op­in­ber störf hverfi af lands­byggðinni í óþökk íbúa. Boðað hef­ur verið að með þessu verði störf­um og verk­efn­um sýslu­manna fjölgað, sem er af hinu góða, enda höf­um við í Fram­sókn verið öt­ul­ir tals­menn fjölg­un­ar op­in­berra starfa á lands­byggðinni. Það færi bet­ur á því að halda sýslu­mönn­um og nú­ver­andi um­dæm­a­mörk­um og færa þau störf sem áætlan­ir eru upp um að flytja í kjöl­far breyt­ing­anna til nú­ver­andi embætta og þar með styrkja þær mik­il­vægu stjórn­sýslu­ein­ing­ar sem sýslu­mann­sembætt­in eru í dag.

Fækk­un sýslu­mann­sembætta þvert yfir landið mun ekki verða með mínu samþykki. Hún fer gegn þeim mark­miðum sem sett voru fram í stjórn­arsátt­mála Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks­ins og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs. Fækk­un­in yrði mikið högg inn­an ým­issa byggða þvert yfir landið. Rök­in fyr­ir henni halda ekki vatni eins og staðan er í dag.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.

Categories
Greinar

Ný Framsókn um allt land

Deila grein

23/03/2022

Ný Framsókn um allt land

Fátt er stjórn­mál­un­um óviðkom­andi þegar kem­ur að því að skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir fólk til þess að lifa góðu lífi. Hring­inn í kring­um landið tek­ur fólk úr ýms­um átt­um þátt í stjórn­mál­um til þess að bæta sam­fé­lagið sitt og stuðla að aukn­um lífs­gæðum.

Um liðna helgi fór fram 36. flokksþing Fram­sókn­ar und­ir yf­ir­skrift­inni Ný Fram­sókn um allt land, en sá vett­vang­ur fer með æðsta vald í mál­efn­um flokks­ins. Þar var sam­an kom­inn öfl­ug­ur hóp­ur fólks sem brenn­ur fyr­ir því að bæta sam­fé­lagið með sam­vinn­una að leiðarljósi. Virki­lega ánægju­legt var að sjá þá miklu breidd og þau fjöl­mörgu nýju and­lit sem hafa gengið til liðs við flokk­inn og taka þátt af full­um krafti í mál­efn­a­starfi hans. Það end­ur­spegl­ar þann mikla meðbyr sem Fram­sókn nýt­ur um allt land sem er já­kvæður upp­takt­ur fyr­ir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar þann 14. maí.

Und­an­far­in sex ár hafa verið ágæt­is­prófraun fyr­ir Fram­sókn. Á þess­um tíma hef­ur gengið á ýmsu, meðal ann­ars þrjár alþing­is­kosn­ing­ar, klofn­ing­ur og fleira. And­spæn­is slík­um áskor­un­um hef­ur fram­sókn­ar­fólk hring­inn í kring­um landið risið upp og tekið slag­inn fyr­ir hug­sjón­um sín­um, rúm­lega aldr­ar gamla flokk­inn sinn og sótt fram til sig­urs. Flokk­ur­inn kem­ur vel nestaður og full­ur orku til leiks í kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar eft­ir vel heppnaðar alþing­is­kosn­ing­ar í sept­em­ber síðastliðnum.

Ljóst er að fjöl­marg­ir kjós­end­ur sam­sama sig vel með því sem Fram­sókn stend­ur fyr­ir, því sem flokk­ur­inn iðkar og áork­ar fyr­ir sam­fé­lagið. Rót­gró­in aðferðafræði sam­vinnu er ekki sjálf­gef­in – en hana höf­um við í Fram­sókn stuðst við í allri okk­ar vinnu, hvort sem um er að ræða í rík­is- eða sveit­ar­stjórn­um.

Und­an­farið hafa fram­boðslist­ar Fram­sókn­ar fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar verið kynnt­ir. Þeir eru skipaðir úr­vals­sveit­um fólks með fjöl­breytt­an bak­grunn, reynslu og þekk­ingu. Það skipt­ir miklu máli hvernig haldið er utan um stjórn­artaum­ana í sveit­ar­fé­lög­um enda bera þau ábyrgð á mik­il­vægri nærþjón­ustu við íbú­ana.

Ég tel að fólk sé ekki að kalla eft­ir ein­streng­ings­legri vinstri- eða hægri­stefnu – held­ur miðju­stefnu líkt og Fram­sókn­ar, stefnu sem virk­ar og eyk­ur raun­veru­lega lífs­gæði íbú­anna. Þetta á sér­stak­lega við í Reykjar­vík­ur­borg þar sem önd­verðir pól­ar hafa tek­ist hart á und­an­far­in ár. Þétt­ing eða dreif­ing byggðar, bíll eða hjól eru dæmi um orðræðu sem hafa her­tekið borgar­póli­tík­ina á sama tíma og þjón­ustu borg­ar­inn­ar hrak­ar. Í þessu krist­all­ast þörf­in fyr­ir sterka rödd Fram­sókn­ar á miðjunni. Hið aug­ljósa er að tala um þétt­ingu og dreif­ingu byggðar, bíl og hjól. Þannig eig­um við að nálg­ast viðfangs­efni sam­fé­lags­ins, út frá þörf­um fólks sem vill ein­fald­lega að hlut­irn­ir virki. Á það mun Fram­sókn leggja áherslu á í kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um um allt land, brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða og stuðla að já­kvæðri um­bót­um fyr­ir sam­fé­lagið allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 21. mars 2022