Categories
Greinar

Al­þjóða­dagur for­eldra

Deila grein

01/06/2021

Al­þjóða­dagur for­eldra

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Í dag er alþjóðadagur foreldra. Hlutverkið er ærið en æ minni tími til að sinna því? Skólar, íþróttafélög og aðrir fagaðilar hafa tekið við hlutverki foreldra að einhverju leyti sem uppalendur. Foreldri þarf ekkert að læra til að vera heldur aðeins gera. Það segir í fyrra markmiði foreldrasáttmálans sem er víða í notkun: „Að vekja foreldra og forráðamenn til vitundar um mikilvægi þess að sýna börnum og unglingum umhyggju, virkan stuðning og setja þeim skýr mörk.‟ Ég vil hvetja foreldra að kynna sér sáttmálann. Svo skora ég á ykkur að taka hann upp, beita honum og iðka hann. Það er mikilvægt fyrir foreldra að hafa vettvang til að hittast, heyra frá öðrum hvernig þeir takast á við uppeldi. Ræða sömuleiðis þau gildi og viðhorf sem við teljum eiga erindi í foreldrasamfélagið. Foreldrasáttmálinn getur nýst sem öflugt stuðningstæki í uppeldinu.

Allt sem ætlast er til af foreldrum

Það er að mörgu að hyggja og hver telur sína leið þá bestu við uppeldið. Útivistartími, svefn, þátttaka í frístundastarfi og íþróttum, vinahópur, námið, vímuefni, sjálgfstraust, eftirlit og reglur, alnetið og samfélagsmiðlar og persónueinkenni. Já, viðfangsefnin eru mörg rétt eins og börnin sjálf.

Sömuleiðis vil ég hvetja foreldra til að lesa átjándu og nítjándu grein grunnskólalaga sem fjalla einmitt um foreldra. Þetta er skýrt; foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Og svo þetta; Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra.

Sterkustu bandamenn skólanna eru foreldrar

Væntir skólinn einhvers af foreldrum? Já. En það er sömuleiðis hlutverk skóla að upplýsa foreldra hvernig þeir geta stutt við barn sitt, t.d. með því að eiga samræður heima um nám og skóla. Að hlusta. Nám í dag er ekki eins og nám fyrir átján árum. Skólinn væntir þess að foreldrar kynni sér nám barna sinna og þær reglur sem gilda í skólanum. Það er algjörlega nauðsynlegt að foreldrar tali af virðingu um skólann og námið svo börnin heyri. Foreldrar þurfa að fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna og skólastarfinu almennt. Að halda í gamlar hugmyndir um skólann er hætt við að það hindri nýjungar og tilraunir í skólastarfinu. Þróun er nauðsynleg til að tryggja framtíð nemenda.

Hvað viltu segja við sjálfan þig sem barn?

Já, þau læra af okkur fullorðna fólkinu. Veltu því fyrir okkur hvernig fyrirmyndir við erum. Leyfum við okkur að tala illa um annað fólk, önnur börn, þegar börnin okkar heyra? Eða um vinnuna okkar og samstarfsfélaga. Hvað viltu segja við sjálfan þig þegar þú varst tólf ára ef þú vissir allt sem þú veist í dag? Hvaða boðskap berum við áfram til næstu kynslóðar í hraðadýrkandi neysluveröld?

Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar og betra samfélag

Deila grein

31/05/2021

Börnin okkar og betra samfélag

Ekk­ert í heim­in­um er mik­il­væg­ara en börn­in okk­ar – vellíðan þeirra, ham­ingja og framtíðar­tæki­færi. Það er skylda stjórn­valda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tóm­stund­a­starfi, njóti jafnra tæki­færa óháð bak­grunni og fé­lags­leg­um aðstæðum. Við vilj­um að öll börn fái örvun við hæfi, hvatn­ingu og mennt­un sem legg­ur grunn­inn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Fram­sókn­ar­flokks­ins eins og verk­in sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjör­tíma­bili höf­um við breytt fé­lags­kerf­inu og lagað að hags­mun­um barna. Við höf­um eflt og ein­faldað þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur þeirra, lengt fæðing­ar­or­lof, ráðist í kerf­is­breyt­ing­ar í skóla­kerf­inu, stutt sér­stak­lega við fá­tæk börn og ráðist í mik­il­væg verk­efni til að styrkja stöðu barna af er­lend­um upp­runa. Ný­samþykkt mennta­stefna tek­ur fyrst og fremst mið af þörf­um barna og vinna er haf­in við breyt­ing­ar á sam­ræmdu náms­mati, þar sem hags­mun­ir stofn­ana munu víkja fyr­ir hags­mun­um barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif heims­far­ald­urs á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Við höf­um sagt lestr­ar­vanda barna stríð á hend­ur og gripið til aðgerða til að efla lesskiln­ing. Útgáfa nýrra barna- og ung­linga­bóka hef­ur stór­auk­ist vegna póli­tískr­ar stefnu um stuðning við ís­lenska bóka­út­gáfu.

Það eru ekki nýj­ar frétt­ir að Fram­sókn­ar­flokkn­um sé um­hugað um börn og fjöl­skyld­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn inn­leiddi á sín­um tíma feðra­or­lof, rétt­ar­bót sem þótti frum­leg í fyrstu en öll­um þykir sjálf­sögð í dag. Ávinn­ing­ur barna og for­eldra af breyt­ing­unni er ómæld­ur og fjöl­skyldu­tengsl­in sterk­ari.

En við vilj­um gera enn bet­ur, fyr­ir börn úr öll­um átt­um. Búa svo um hnút­ana að öll börn fái jöfn tæki­færi og þjón­ustu við hæfi, til dæm­is sál­fræðiþjón­ustu sem nú er bæði af skorn­um skammti og kostnaðar­söm fyr­ir for­eldra. Slík þjón­usta á að vera eins og önn­ur heil­brigðisþjón­usta; aðgengi­leg fyr­ir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stig­um hans, en ekki bíða eft­ir því að barnið vaxi og vand­inn með.

Full­orðið fólk, bæði í fjöl­skyld­um og flokk­um, á að kenna börn­um á lífið. Vekja for­vitni þeirra og áhuga á heim­in­um, sjálf­um sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrk­leika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verk­efni ætl­ar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ekki að láta sitt eft­ir liggja og við vilj­um að Ísland verði barn­vænsta sam­fé­lag í heimi. Taktu þátt í því með okk­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2021.

Categories
Greinar

Til al­manna­heilla

Deila grein

28/05/2021

Til al­manna­heilla

Á dögunum voru samþykkt ný lög frá Alþingi. Í þeim fellst m.a. að lögaðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest hefur verið í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og einstaklingum er heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Þetta mál er ekki dottið af himnum ofan heldur hefur átt sér töluverðan aðdraganda.

7 ára meðganga

Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi 2013-2014. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Willum lagði áherslu á að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra.

Þingsályktunin náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Hugmyndin þróast áfram

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingu á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Starfshópur skipaður

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson. Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda.

Mikilvægt skref

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að vera framsögumaður á þessu máli og fá að taka þátt í þessu verkefni því að það voru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því. Þetta er eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Fyrst og fremst snýr þetta að óhagnaðardrifnum félögum þar sem fólk leggur mikið á sig með ókeypis vinnuframlagi. Þessi nýju lög koma til með að efla og styrkja starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. Hér er verulega verið að koma til móts við alla mikilvægu starfsemi sem unnin er í þessum félögum. Það er dásamlegt að vera þingmaður þegar svona mál eru afgreidd. Til hamingju allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu síðustu ár til þess að ná þessum breytingum fram. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2021.

Categories
Greinar

Vegir hálendisins

Deila grein

28/05/2021

Vegir hálendisins

Framtíðarsýn fyrir þjóðvegi á hálendinu er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr. Viðfangsefnið er spennandi þar sem margir ólíkir hagsmunir koma að. Vegakerfið á þjóðvegum landsins fylgir ákveðinni stefnu í samgönguáætlun, en á hálendinu eru tækifæri til að móta skýra sýn. Hægt er að fara margar leiðir í því. Á meðan uppbygging vega er þyrnir í augum sumra er hún tækifæri í augum annarra sem vilja gott aðgengi að hálendi Íslands, óháð fararskjótum. Í mínum huga er mikilvægt að móta framtíðarsýn um það hvaða vegi við viljum að séu greiðfærir og uppbyggðir svo allir komist og hvaða vegi við viljum að aðeins að vel útbúnar bifreiðar komist yfir.

Aðgengi fyrir alla

Með auknum ferðalögum fólks inn á hálendi Íslands og fjölgun ferðamanna undanfarinn áratug hafa augu fólks opnast fyrir nauðsyn þess að byggja upp innviði á hálendinu. Stofnvegirnir eru lífæð hálendisins, Kjalvegur, Sprengisandsleið, Kaldadalsvegur og Fjallabaksleið Nyrðri eiga að geta þjónað allri almennri umferð. Vegirnir eru núna lítið sem ekkert uppbyggðir og aðeins færir vel búnum bifreiðum. Töluvert vantar upp á að allir hafi jafnan aðgang og geti upplifað dulmögnuð svæði hálendisins.

Sú stefna sem er sett fram í landsskipulagsstefnu um samgöngur á miðhálendinu byggist á þeirri stefnu sem sett var með svæðisskipulagi miðhálendisins. Þar var gert ráð fyrir að stofnvegir um miðhálendið skyldu vera byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum.

Kjalvegur

Kjalvegur er til að mynda stofnleið með töluverða umferð, þverar landið frá suðri til norðurs og er annar tveggja þekktustu fjallvega landsins. Vegurinn er að stærstum hluta malarvegur. Annars vegar eru rúmlega 53 km niðurgrafnir, krókóttir og sums staðar mjór. Hins vegar hafa rúmlega 107 km verið byggðir upp, þar af tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Umferð um Kjöl hefur aukist. Svæðið er magnað eins og við þekkjum, vinsælt útivistarsvæði og dregur að sér fjölbreyttan hóp ferðamanna, hestafólk, göngufólk, skíðafólk, hjólafólk, þá sem fara um á bifreiðum o.fl. Víða myndast stórir pollar í vegum hálendisins sem gerir það að verkum að menn leita út fyrir þá og er því töluverður utanvegaakstur meðfram þeim. Með ört vaxandi umferð er mikilvægt að hægt sé að gera lagfæringar og hugsa til framtíðar eins og Vegagerðin hefur gert, í þeim tilgangi að gera viðhald auðveldara, með því að vinna að styrkingu og lítillega að uppbyggingu, þó aðeins á stuttum köflum í senn.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar við miðhálendisþjóðgarð

Þingflokkur Framsóknar fjallaði um uppbyggingu Kjalvegar í fyrirvörum sínum við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvara um að nauðsynlegt sé að viðurkenna og setja inn í frumvarpstexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Einnig voru fyrirvarar um að jaðarsvæðið taki tillit til uppbyggingar Kjalvegar og skipulags annarra vega með beinni skírskotun til skipulags og umráðaréttar sveitarfélaga.

Orkuskipti

Þá staðfesti ég fyrir tveimur árum síðan samning við Neyðarlínuna um lagningu ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals. Að því verkefni loknu komst á óslitin ljósleiðaratenging milli Suðurlands og Norðurlands sem bætir bæði öryggi og afkastagetu grunnkerfis fjarskipta hér á landi. Samhliða lagningu ljósleiðara um Kjöl var lagður raforkustrengur sem leysir af hólmi dísilvélar sem rekstraraðilar hafa hingað til reitt sig á. Raforkustrengurinn er liður í því að tryggja að Ísland nái  markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030 og markar framtíðarsýn fyrir Kjöl og þá uppbyggingu þarf að vera til staðar svo flestir geti notið þess að fara um á fjölbreyttum fararskjótum. Rafstrengurinn er með flutningsgetu sem í náinni framtíð verður hægt að nýta til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafknúna umferð um Kjalveg. Og vegna þess að við erum jú í orkuskiptum í samgöngum verða innviðirnir að haldast í hendur við nýja tíma því innan fárra ára verðar flestir bílar rafmagnsbílar.

Öryggi umfram allt

Ef horft er til umfangs ferðamennsku á hálendinu er það brýnt öryggismál í mínum huga að innviðir, hvort um er að ræða vegi eða fjarskipti geti þjónað þeim sem um svæðið fara. Til að hægt sé að uppfylla kröfur um að allir hafi sama aðgang og uppfylla ákvæði vegalaga um frjálsa för fólks um þjóðvegi þá þarf uppbygging innviða að miðast við að rafmagnsbílar komist um, hvort sem um er að ræða fólksbíla, jeppa eða rútur seinna meir. Rafstrengurinn á Kjalvegi boðar byltingu og dísilolía á tunnum heyrir nú sögunni til. Enginn þarf lengur að koma að köldum og saggafullum húsum utan mesta hlýindatímans. Þetta skapar alveg nýja möguleika og tækifæri fyrir fólk til að njóta útivistar á hálendinu. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að njóta hálendisins, því hvergi er betra að vera, hvort sem er ríðandi eða akandi, við smalamennsku eða sem ferðamaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 27. maí 2021.

Categories
Greinar

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Deila grein

27/05/2021

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Langþráðar afléttingar á samkomutakmörkunum í vikunni veittu okkur mikið frelsi. Við lögðum grímunni á flestum stöðum og urðum nánari í bókstaflegum skilningi. Í faraldrinum, sem er þó ekki alveg liðinn undir lok, höfum við með hæfni mannsins færst áfram, tekið breytingum og lært margt. En verður allt aftur eins og áður var?

Tæknin hefur sannað sig

Vinnumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma sem og hugmyndir okkar um hann. Haft er eftir forseta Alþingis að hann telji að kórónuveirufaraldurinn muni hafa varanlega áhrif á þingstörfin. Þá má nú segja að fjöllin hafi færst úr stað. Á meðan á faraldrinum stóð var opnað á fjarvinnslumöguleika sem ekki var áður þekkt í störfum þingsins. Það form sannaði að starfsemi þingsins var í engu lakari en áður. Vinnumarkaðurinn er að breytast og fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína. Farsóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi. Á aðeins einu og hálfu ári hefur margt breyst sem annars hefði tekið nokkur ár.

Skref inn í framtíðina

Sveigjanlegur vinnutími og störf án staðsetningar hefur hlotið viðurkenningu. Hugmyndir okkar um fjögurra veggja starfsstöðvar hafa breyst. Það er mikilvægt að við höldum áfram og undirbúum okkur fyrir áframhaldandi breytingar í þessa átt. Við vitum ekki hvert framtíðin leiðir okkur. Sú hefðbundna leið að mennta sig til ákveðinna starfa, vera komin í öruggt starf 25 ára og fá afhent gullúrið 67 ára fyrir vel unnin störf er ekki lengur sú mynd sem við getum kynnt fyrir börnum okkar. Þau vita betur, þau eru með þetta. „Gigg hagkerfið“ hefur hafið innreið sína. Við þurfum að vera tilbúinn að mennta okkur og endurmennta alla starfsævina og þannig efla færni okkar til að vera með í síbreytilegum heimi.

Samvinnurými

Á undanförnum mánuðum hafa sprottið upp samvinnurými víða um land. Samvinnurými bjóða upp á mismunandi aðild starfsmanna sem hentar hverjum og einum. Þar næst að leiða saman þekkingu og byggja undir félagslega þarfir fólks sem vinna við sín verkefni auk þess sem þau stuðla að jákvæðari samfélagsþróun. Slíkur vinnustaður getur rúmað mismunandi verkefni sem unnin eru vítt og breytt um heiminn. Með aukinni samskiptatækni og háhraðafjarskiptatengingum um allt land skapast tækifæri til að starfa við margvísleg störf víðar en innan fyrir fram ákveðinna veggja.

Samstarf stjórnvalda og háskóla

Stjórnvöld hafa fylgst vel með þessum breytingum og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fylgja þeim eftir. Því hafa stjórnvöld í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskólann Íslands sett á laggirnar vefnámskeið um gervigreind. Námskeiðið er opið öllum almenningi og má finna inn á island.is. Markmiðið með námskeiðinu er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni ásamt því að styrkja starfsmöguleika og starfshæfni Íslendinga eins og stendur í kynningunni.

Framtíðin er í okkar höndum, tökum þátt í að móta og njóta.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. maí 2021.

Categories
Greinar

Of sein til að ættleiða

Deila grein

26/05/2021

Of sein til að ættleiða

Á síðustu árum hafa fjölskyldumynstur tekið miklum breytingum. Þáttur stjúpforeldra í uppeldi barna hefur aukist. Hvergi í Evrópu eru jafn mörg börn fædd utan hjónabands og á Íslandi. Stjúpforeldrar líkt og foreldrar verða mikilvægir í lífi stjúpbarns, sem og stjúpbarnið í augum stjúpforeldris.

Krafa um samfellda sambúð

Stjúpættleiðing er ættleiðing á barni eða kjörbarni maka umsækjanda, hjúskapar- eða sambúðarmaka og oft á tíðum eðlileg framvinda þegar einstaklingur hefur gengið barni í móður- eða föðurstað. Við stjúpættleiðingu rofna öll tengsl barnsins við annað kynforeldri og stjúpforeldrið verður lagalegt foreldri í öllum skilningi. Í þeim kringumstæðum þegar kynforeldri er litlum eða engum kringumstæðum við barn sitt eða ef það er látið hefur stjúpforeldri fengið leyfi til þess að ættleiða barnið. Til þess að einstaklingur geti lagt fram umsókn um stjúpættleiðingu skal umsækjandi hafa verið í samfelldri sambúð með foreldri eða kjörforeldri barns í að minnsta kosti fimm ár.

Stjúpættleiðing ekki möguleg eftir skilnað eða andlát

Lífið er nú þannig að ekki öll hjónabönd eða sambúðir halda út, en tengsl sem myndast á þeim tíma milli einstaklinga halda þó áfram út lífið. Íslensk lög um ættleiðingar gera ekki ráð fyrir því að stjúpforeldri óski eftir að ættleiða stjúpbarn sitt eftir að hafa slitið hjónabandi eða sambúð við foreldrið. Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að stjúpættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Þá eru skilyrði umsækjanda heldur ekki uppfyllt ef foreldrið fellur frá þar sem umsækjandi er ekki í hjúskap eða sambúð þegar umsókn berst. Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda einungis sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl við báða blóðforeldra rofnar.

Hægt að breyta lögunum

Þetta gat á lögum um ættleiðingar er ekki stórt og það er auðvelt að stoppa í það. Eðlilegast væri að einstaklingur sem gengið hefur barni í móður- eða föðurstað í fjölda ára geti enn fengið að vera foreldri barnsins og veitt því sömu réttindin og mögulega önnur börn viðkomandi þrátt fyrir sambandsslit eða andlát. Því hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um ættleiðingar þar sem einstaklingi sem hefur verið í hjúskap eða sambúð í að minnsta kosti fimm ár með foreldri barns óskað eftir að ættleiða barnið þrátt fyrir að hafa slitið samvistum. Einnig legg ég til í frumvarpinu að mögulegt sé að óska eftir að ættleiða barn hafi maki eða sambúðarmaki fallið frá.

Það er óvíst að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi, en mikilvægt er að opna þessa umræðu. Þetta eru litlar breytingar á löggjöfinni en geta verið gríðarlega mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem eiga hér undir. Samfélagið breytist og löggjafinn þarf að fylgjast með.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. maí 2021.

Categories
Greinar

Fræ sem verða blóm

Deila grein

26/05/2021

Fræ sem verða blóm

Mennt er máttur og menningin auðgar andann og því þurfa mennta- og menningarstofnanir okkar að vera lifandi og kröftugar. Undirrituð hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu misseri og fengið að fylgja eftir nokkrum málum í gegnum nefndina sem menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir hefur lagt fram. Þar eru mál sem þjóna að sjálfsögðu landinu öllu en líka nokkur verkefni sem snúa beint að Suðurlandinu og ætla ég að rekja nokkur þeirra hér.

Menningarsalurinn
Menningarsalurinn í Hótel Selfossi hefur staðið fokheldur í tæp 40 ár. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 var aukafjárveiting upp á 140,5 milljónir króna til framkvæmda við menningarsalinn og gert er ráð fyrir annarri eins upphæð árið 2022. Framkvæmdirnar eru hluti af fjárfestingarákvæði ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Stefnt er á að framkvæmdum við salinn verði lokið á næstu tveimur árum. Við getum verið sammála um að nýr menningarsalur verði mikil lyftistöng fyrir menningarlíf á Suðurlandi.

Niðurfelling námslána
Meðal þeirra framfaramála sem Alþingi hefur samþykkt frá menntamálaráðherra á kjörtímabilinu eru lög um lýðskóla, lög um Menntasjóð sem fela m.a. í sér 30% niðurfellingu á námslánum, styrki til barnafólks og afnám ábyrgðamannakerfisins, menntastefna, kvikmyndastefna, lög um leyfisbréf kennara, hvatar til fjölgunar nema í kennaranámi og nýlega samþykkti Alþingi lög um breytingum á aðgengi í háskóla. Nú getur fólk sem hefur lokið 3. hæfnisstigi í starfs- eða tækninámi fengið aðgang í háskólanám. Nú gildir ekki einungis stúdentspróf, eins og áður. Ég tel að þessi breyting svari kalli atvinnulífsins um fjölbreyttari hæfni á vinnumarkaði, sér í lagi hæfni á tæknisviði og starfsmenntun.

Ný heimavist
Ákall var um að komið yrði upp heimavist fyrir nemendur FSu sem geta ekki farið daglega á milli heimilis og skóla vegna fjarlægðar. Sér í lagi fyrir yngri nemendur. Ráðherra tók vel í hugmyndina og heimavistin var opnuð sl. haust. Ásókn hefur verið minni en gert var ráð fyrir sem skýrist fyrst og fremst af áhrifum Covid-19. Ný heimavist er ánægjuefni fyrir Sunnlendinga enda er um að ræða lykilþátt þess að tryggja jafnrétti til náms fyrir ungmenni í landshlutanum.

Græn framtíð
Málefni Garðyrkjuskóla Íslands eru á borði ráðherra til úrlausnar og ég geri ráð fyrir að niðurstaðan verði farsæl fyrir framtíð garðyrkjunáms hér landi. Markmiðið er að efla garðyrkjunámið. Við sem tölum fyrir grænni framtíð og aukinni sjálfbærni, vitum að öflug menntastofnun á þessu sviði gerir þessi framtíðarsýn okkar að raunhæfum möguleika.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2021.

Categories
Greinar

Endurreisn hafin!

Deila grein

11/05/2021

Endurreisn hafin!

Grund­vall­ar­breyt­ing hef­ur orðið á viðhorf­um til starfs­mennt­un­ar á und­an­förn­um árum og áhug­inn á starfs­námi hef­ur auk­ist. Fag­stétt­ir sem glímdu við mikla mann­eklu horfa fram á breytt­an veru­leika og færniþarf­ir sam­fé­lags­ins eru bet­ur upp­fyllt­ar en áður. Í dag eru verk- og tækni­mennta­skól­ar meðal vin­sæl­ustu fram­halds­skóla lands­ins og laða í mikl­um mæli til sín hæfi­leika­fólk á öll­um aldri. Ég er því gríðarlega ánægð í hvert sinn sem við tök­um fleiri skref í átt­ina að bættu um­hverfi starfs- og iðnnema hér á landi.

Eitt slíkt skref verður tekið von bráðar á Alþingi Íslend­inga. Frum­varp mitt um breyt­ing­ar á inn­töku­skil­yrðum há­skóla er langt komið í meðför­um þings­ins. Þetta frum­varp er mikið rétt­læt­is­mál og fagnaðarefni fyr­ir allt mennta­kerfið, sér­stak­lega nem­end­ur. Mark­mið frum­varps­ins er að jafna mögu­leika fram­halds­skóla­nema sem ljúka prófi af þriðja hæfniþrepi sam­kvæmt aðal­nám­skrá fram­halds­skóla til frek­ara náms. Mik­il­vægt er að há­skól­arn­ir móti skýr og gegn­sæ viðmið fyr­ir nám, sem tek­ur mið af hæfni, færni og þekk­ingu nem­enda. Slík viðmið eru jafn­framt til þess fall­in að vera leiðbein­andi fyr­ir fram­halds­skól­ana við skipu­lag og fram­setn­ingu náms­brauta, ásamt því að nem­end­ur eru bet­ur upp­lýst­ir um inn­töku­skil­yrði í há­skól­um. Frum­varpið fel­ur því í sér aukið jafn­ræði til náms á há­skóla­stigi.

Frum­varpið er liður í aðgerðaáætl­un til að efla starfs- og tækni­mennt­un í land­inu sem unnið er að í sam­starfi við fjölda hagaðila. Í mín­um huga er end­ur­reisn iðnnáms haf­in hér á landi. Þrennt kem­ur til.

Í fyrsta lagi, aukið jafn­ræði á milli bók­náms og starfs­náms eins og fram kem­ur í þessu frum­varpi. Í öðru lagi eru breyt­ing­ar á vinnustaðanámi, sem styrk­ir það veru­lega og eyk­ur fyr­ir­sjá­an­leika. Í þriðja lagi hafa fram­lög til fram­halds­skóla­stigs­ins stór­auk­ist – tækja­kost­ur end­ur­nýjaður og svo er búið að tryggja fjár­mögn­un í ný­bygg­ingu við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti fyr­ir starfs- og list­nám – einnig er vinna haf­in við nýj­an Tækni­skóla.

Íslenskt iðnnám stend­ur mjög vel í sam­an­b­urði við er­lent, kenn­ar­ar vel menntaðir, þeir búa að fjöl­breyttri reynslu og náms­braut­irn­ar metnaðarfull­ar. Við erum því vel í stakk búin til að taka á móti gríðarleg­um fjölda nem­enda á næstu árum. Aðsókn hef­ur auk­ist mikið á síðustu árum og fyrstu vís­bend­ing­ar um inn­rit­un í fram­halds­skól­anna fyr­ir næsta skóla­ár gefa til kynna aðsókn­ar­met í verk­nám.

Það er mitt hjart­ans mál að við efl­um iðn- og starfs­mennt­un í land­inu og til þess þurf­um við góða aðstöðu og skýra sýn til framtíðar. End­ur­reisn iðnnáms hér á landi er sam­vinnu­verk­efni fjöl­margra. Ég þakka öll­um þeim sem leggja mál­inu lið!

Við erum klár­lega á réttri leið!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn: Framsókn í stuðningi á vinnumarkaði

Deila grein

07/05/2021

Klárum leikinn: Framsókn í stuðningi á vinnumarkaði

Síðastliðinn föstudag kynnti ríkisstjórnin frekari aðgerðir til að mæta afleiðingum Covid-19 í samfélaginu. Þetta er í takt við fyrri störf ríkisstjórnarinnar, en hún hefur sýnt kjark og ítrekað lagt fram metnaðarfullar aðgerðir með jákvæðum og áþreifanlegum niðurstöðum mörgum til hagsbóta. Hér er engin undantekning.

Eins og allir vita, þá hefur Covid-19 veiran haft töluverð áhrif á vinnumarkaði hér á landi. Mikill fjöldi hefur misst sína atvinnu og heilar starfsstéttir hafa lamast. Þó svo að þessi staða er tímabundin þá getum við ekki einungis beðið eftir því að hlutirnir komast aftur á/í réttan kjöl. Mikill fjöldi landsmanna þarfnast aðgerða strax, og þeirri þörf er ríkisstjórnin að svara. Við þurfum að klára leikinn og undirbúa viðspyrnu framtíðarinnar, sem hefst strax að loknum bólusetningum.

Meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur lagt á laggirnar er átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum störf“. Átakinu er ætlað að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og félagasamtök við að ráða til sín starfsmenn og með því fjölga störfum á vinnumarkaði. Þetta átak hefur gengið vonum framar og mikill fjöldi atvinnuleitenda hefur nýtt það til að stíga aftur inn á vinnumarkað. Í ljósi velgengninnar hefur verið ákveðið að víkka átakið með eftirfarandi úrræðum:

Fyrirtæki með starfsmann í ráðningarsambandi sem fær greiddar hlutabætur geta fengið styrk til endurráðningar hans í fyrra starfshlutfall. Sá styrkur miðast við hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hlutfalli við hækkun starfshlutfalls viðkomandi einstaklings, auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að fjóra mánuði.

Styrkur að hámarki 100.000 kr. verður greiddur til atvinnuleitenda sem hafa verið án atvinnu frá því fyrir tíma Covid-19 og hefur ekki notið lengingar á tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta. Styrkurinn verður greiddur í hlutfalli við bótarétt til þeirra atvinnuleitenda sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur vegna aprílmánaðar og höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í fjórtán mánuði eða lengur þann 1. maí 2021.

Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verður framlengt til 1. febrúar 2022. Réttur til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta var lengdur tímabundið úr þremur mánuðum í sex til að mæta tekjufalli vegna Covid-19 og upprunalega var gert ráð fyrir að heimilt yrði að nýta réttinn til 1. október 2021. Þetta tímabil verður nú framlengt til 1. febrúar 2022.

Þetta er allt gert til að laga stöðuna á vinnumarkaði og styðja við atvinnuleitendur. Til þess er leikurinn gerður.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn með samvinnu

Deila grein

06/05/2021

Klárum leikinn með samvinnu

Framsóknarflokkurinn hefur allt síðasta ár lagt áherslu á stuðningsaðgerðir til að fleyta fólkinu í landinu í gegnum kreppuna sem Covid skapar. Nú þegar við sjáum til lands í glímunni við farsóttina er mikilvægt að halda út og brúa síðustu vikurnar með lokaspretti sem tengir saman aðgerðir, viðheldur tekjum fólks og auðveldar fyrirtækjum að hefja vöxt.

Stjórnvöld hafa nú kynnt á annan tug aðgerða sem miða að þessu markmiði. Lokunarstyrkir verða framlengdir, fleiri geta sótt um viðspyrnustyrki, endurráðningar í fyrra starfshlutfall styrktar, bætt í ýmsar félagslegar ráðstafanir og úrræðum í menntakerfinu framhaldið.

Fjárfestum í fólki

Það er mikilvægt að fjárfesta í fólki með því að tryggja afkomu heimila, en samhliða því þarf að vinna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á einstaklinga. Það er best gert með því að tryggja fólki tækifæri til sjálfseflingar hvort sem er í gegnum nám, félagslega þátttöku eða þjónustu heilbrigðiskerfisins. Í gegnum allan faraldurinn hefur verið lögð áhersla á tækifæri til menntunar, þátttöku barna í íþróttum og ýmis félagsleg úrræði.

Ákveðið er að hlutabótaleiðin falli nú inn í atvinnuátakið „Hefjum störf“. Þannig að þeir sem nýta hlutabótaleiðina geta farið í fyrra starfshlutfall hjá vinnuveitanda og að hann fær styrk á móti í allt að fjóra mánuði. Stuðningurinn er þá bæði við fólk og fyrirtæki.

Bætt verður í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir fyrir viðkvæma hópa þar sem sérstök áhersla verður lögð á geðheilbrigðismál barna og ungmenna. Í því skyni verður 600 milljóna króna viðbótarframlagi veitt til geðheilbrigðismála og 200 milljónum inn í aðgerðaáætlun um viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á börn, eldri borgara, öryrkja og fólk af erlendum uppruna.

Ákveðið er að í sumar verði boðið upp á sumarlán fyrir námsmenn hjá Menntasjóði námsmanna eins og á síðasta ári. Auk þess verða tiltekin viðbótarlán í boði.

Fólk grípur tækifærin

Úrræðin sem gripið hefur verið til hafa nýst samfélaginu vel af því að fólk er tilbúið að nýta þau. Það liggur fyrir að fólk er sveigjanlegt, bregst við þegar einar dyr lokast og endurskoðar sín framtíðarplön.

Þannig fjölgaði nemendum töluvert bæði á framhalds- og háskólastigi milli skólaára. Ársnemum í framhaldsskóla fjölgaði um 1.340 og háskólanemum um 1.800 á haustönn 2020 frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Ef þessi fjölgun nemenda hefði komið fram í atvinnuleysi hefði það aukist um 1,5%. Þannig var ein af lykilákvörðun síðasta árs yfirlýsing Menntamálaráðherra um að tekið yrði við öllum nemum sem skólarnir gætu tekið við og nauðsynlegt fjármagn tryggt til kennslu þeirra.

Það liggur svo fyrir að þau mörgu félagslegu úrræði sem gripið hefur verið til hafa reynst það vel að þau eru komin til að vera. Einkum úrræði sem efla viðkvæma hópa samfélagsins.

Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. mai 2021.