Categories
Greinar

Sjálfstæði á óvissutímum

Deila grein

22/08/2022

Sjálfstæði á óvissutímum

Orku­mál og sjálf­bærni þeirra hafa verið í brenni­depli vegna hlýn­un­ar jarðar um nokkra hríð. Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu og deil­um þeirra við Evr­ópu­sam­bandið vegna refsiaðgerða er kom­in upp óviss­ustaða í orku­mál­um í álf­unni. Ekk­ert ríki í heim­in­um flyt­ur út jafn mikið gas og Rúss­land, en um helm­ing­ur alls gass sem notað er inn­an ESB kem­ur frá Rússlandi. Staðan er nú þannig að ekki er víst að Evr­ópa muni eiga nóg af gasi fyr­ir kom­andi vet­ur. Skort­ur á gasi í Evr­ópu leiðir til sam­drátt­ar með til­heyr­andi af­leiðing­um fyr­ir fyr­ir­tæki og fjöl­skyld­ur. Sam­kvæmt spám gæti verg lands­fram­leiðsla í ESB-ríkj­um lækkað um allt að 1,5% ef vet­ur­inn verður harður með al­var­leg­um trufl­un­um á gasbirgðum. Talað er um að þýsk­ur iðnaður gæti staðið frammi fyr­ir al­var­legri ógn vegna skorts á orku. Orku­verð á heimsvísu hef­ur hækkað veru­lega og hækkað fram­færslu­kostnað Evr­ópu­búa. Frá því snemma á síðasta ári hef­ur heims­markaðsverð á olíu tvö­fald­ast, verð á kol­um nærri fjór­fald­ast og verð á evr­ópsku jarðgasi nán­ast sjö­fald­ast. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn ger­ir ráð fyr­ir að fram­færslu­kostnaður heim­ila hækki að meðaltali um 7% miðað við það sem gert var ráð fyr­ir snemma árs 2021. Sum ríki skera sig þó úr en talið er að fram­færslu­kostnaður heim­ila í Eistlandi geti hækkað um allt að 20%.

Reyn­ir á sam­stöðu inn­an ESB

Í síðasta mánuði lagði fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fram til­lögu til að sporna við gasskorti á þá leið að aðild­ar­rík­in drægju úr gasnotk­un um 15% næsta vet­ur. Til­lag­an hef­ur sætt nokk­urri and­stöðu inn­an sam­bands­ins en Spán­verj­ar, Grikk­ir, Portú­gal­ar, Ítal­ir, Pól­verj­ar og Kýp­verj­ar eru meðal ann­ars and­víg­ir áætl­un­inni og halda því fram að eitt yf­ir­grips­mikið mark­mið sé ósann­gjarnt miðað við mis­mun­andi orku­sam­setn­ingu aðild­ar­ríkj­anna. Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins met­ur ástandið það al­var­legt að huga þurfi að því hvort sam­drátt­ur­inn þurfi að vera lög­boðinn inn­an sam­bands­ins. Það er greini­legt að fram und­an eru erfiðar samn­ingaviðræður milli ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem reyna mun á sam­stöðu þeirra.

Ísland nýt­ur sér­stöðu í orku­mál­um

Ég vil í þessu sam­bandi vekja máls á því að það skipt­ir veru­legu máli að vera sjálf­bær á sem flest­um sviðum. Á meðan ná­grann­ar okk­ar í Evr­ópu sjá fram á harðan vet­ur í orku­mál­um stönd­um við mun bet­ur að vígi. Við Íslend­ing­ar höf­um gríðar­mik­il tæki­færi þegar kem­ur að því að búa til græna orku og þar get­um við gert enn bet­ur. Aðgerðir í lofts­lags­mál­um til að ná kol­efn­is­hlut­leysi hafa fram­kallað græna iðnbylt­ingu um all­an heim og við erum meðvituð um mik­il­vægi þess að hraða um­skipt­um yfir í græna end­ur­nýj­an­lega orku. Það er verðugt mark­mið og raun­hæft að Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 en ávinn­ing­ur­inn af því að venja okk­ur af jarðefna­eldsneyti er ekki aðeins fyr­ir lofts­lagið, held­ur skipt­ir það máli fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar til lengri tíma litið. Orku­ör­yggi er þjóðarör­ygg­is­mál, við Íslend­ing­ar erum óþægi­lega háð inn­flutt­um orku­gjöf­um á viss­um sviðum og mik­il­vægt að við drög­um úr inn­flutn­ingi á orku­gjöf­um. Orku­ör­yggi kall­ar á aukna raf­orku­fram­leiðslu og öfl­ugra flutn­ings- og dreifi­kerfi sem aft­ur kall­ar á heild­rænt skipu­lag orku­kerf­is­ins og samþætt­ingu verk­ferla. Þá þarf einnig að mæta orkuþörf­inni með bættri ork­u­nýt­ingu og aukn­um orku­sparnaði.

Til að ná þessu fram er mik­il­vægt að unnið sé í sem mestri sátt um vernd og nýt­ingu landsvæða og nátt­úru­auðlinda. Okk­ar verk­efni nú er að leita leiða í sam­ein­ingu og sátt um hvernig við ætl­um að fram­leiða okk­ar grænu orku, hvort sem það er með vatns­afli, vindorku eða öðrum aðferðum.

Ágúst Bjarni Garðars­son, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Ingvar Gíslason látinn

Deila grein

19/08/2022

Ingvar Gíslason látinn

Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er látinn. Ingvar lést sl. miðvikudag á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi, 96 ára að aldri.

Ingvar fæddist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður og Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir.

Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947-1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1956. Héraðsdómslögmaður varð hann 1962.

Ingvar gegndi ýmsum störfum eftir námið og var m.a. skrifstofustjóri Framsóknarflokksins á Akureyri 1957-1963 og stundaði jafnframt ýmis lögfræðistörf.

Ingvar var árið 1961 kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og var alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var forseti neðri deildar Alþingis á árunum 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1979-1980.

Ingvar sat um árabil í stjórn atvinnubótasjóðs, síðar atvinnujöfnunarsjóðs. Hann átti m.a. sæti í rannsóknaráði, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og sat í húsafriðunarnefnd 1974-1983.

Ingvar átti sæti í Kröflunefnd 1974-1980. Hann var fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1971-1980 og 1983-1987 og sat nokkur ár í forsætisnefnd þess. Hann var í útvarpsréttarnefnd og í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í mörg ár.

Þá var Ingvar um skeið í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Ingvar var einnig ritstjóri tímarita og blaða, m.a. Stúdentablaðsins, Vikutíðinda og var ritstjóri Tímans 1987-1991. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og birt voru eftir hann nokkur ljóð. Hlaut hann verðlaun í ljóðasamkeppni á vegum menningarmálanefndar Akureyrar 1989. Árið 2016 sendi hann frá sér bókina Úr lausblaðabók – Ljóðævi.

Eiginkona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, fædd 1928, dáin 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erlingur Páll, Gísli, Sigríður og Auður Inga.

Við Framsóknarfólk minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar.

Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.

Categories
Fréttir

Fyrsta íslenska tónlistarstefnan og frumvarp til heildarlaga um tónlist kynnt í Samráðsgátt

Deila grein

18/08/2022

Fyrsta íslenska tónlistarstefnan og frumvarp til heildarlaga um tónlist kynnt í Samráðsgátt

Drög að stefnu í málefnum tónlistar og frumvarp til laga um tónlist eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og stendur samráðið til 31. ágúst nk.

Um er að ræða fyrstu heildarlöggjöf um tónlist á Íslandi.

„Þetta eru mikil tímamót, en með stefnunni og lögum um tónlist vinnum við að því að efla tónlist á landinu öllu og mörkum í fyrsta sinn heildarramma fyrir málefni tónlistar sem lengi hefur vantað. Með þessu viljum við búa tónlistinni hagstæð skilyrði til að vaxa og dafna um ókomna tíð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Mynd: Birgir Ísleifur Gunnarsson



Frumvarpið byggir á nýrri tónlistarstefnu en grunnur að henni var lagður með skýrslu starfshóps um Tónlistarmiðstöð frá árinu 2021. Á grunni þeirrar skýrslu hefur verið unnið að frekari mótun tónlistarstefnu og samhliða hafa verkefni Tónlistarmiðstöðvar verið skilgreind og útfærð. Við mótun stefnunnar var samráð haft við helstu hagaðila innan tónlistar en einnig við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið um þætti tengda tónlistarnámi.

Mikilvægt er að almenn sátt ríki um þá stefnu sem er mörkuð í málefnum tónlistar og að stjórnvöld hafi sem besta innsýn inn í ólík sjónarmið. Með birtingu í samráðsgátt gefst tækifæri til enn breiðara samráðs og því er  kallað er eftir umsögnum um innihald, áherslur og aðgerðir þær sem lagðar eru til í þessum drögum.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradis.is 17. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Deila grein

16/08/2022

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Sambandsslit og skilnaðir foreldra eru áfall fyrir börn. Alvarleiki þess konar áfalls og áhrifin af því geta hins vegar verið mjög mismunandi. Það er sérstaklega erfitt þegar illdeilur koma upp milli foreldra og þá geta áhrifin verið alvarleg og langvarandi. Það getur stundum verið flókið að feta stíg samskipta við fyrrum maka þannig að börn verði ekki fyrir slæmum áhrifum. Til þess að aðstoða foreldra sem eru í þessari stöðu þá er nú búið að tryggja framtíð úrræðisins Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (samvinnaeftirskilnad.is), en þar býðst foreldrum ráðgjöf til að draga úr ágreiningi í kjölfar skilnaðar með farsæld barna að leiðarljósi.

Barnið verði hjartað í kerfinu

Í upphafi árs 2020 fór ég til Danmerkur og skrifaði undir samning við danskt fyrirtæki sem býður upp á stafrænar lausnir í ráðgjöf til að draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli með farsæld barnanna að leiðarljósi. Úrræðið hafði þegar gefið mjög góða raun í Danmörku og hafði verið skylduferli fyrir foreldra sem skildu. Bæði hafði úrræðið aukið skilning foreldra á því hvernig samskiptum skyldi best háttað og þannig komið börnum til góða en auk þess lá fyrir hversu mikið hafði dregið úr vanlíðan foreldranna sjálfra eftir skilnað, dregið úr þunglyndi, dregið úr veikindadögum frá vinnu, og margt fleira.

Upphaflega var úrræðið sett upp sem tilraunaverkefni í tveimur sveitarfélögum á Íslandi til tveggja ára. Það var síðan útvíkkað til átta sveitarfélaga og er nú í boði á landsvísu. Foreldrum í skilnaðarferli er nú boðið upp á aðgang að rafrænum námskeiðum og félagslegri ráðgjöf hjá sérstökum ráðgjöfum innan sveitarfélaganna. Úrræðið fellur mjög vel að nýjum lögum um farsæld barna sem miða að því að beita sem allra mest snemmbærri aðstoð og fyrirbyggjandi aðgerðum í stað þess að glíma við flóknari vanda síðar meir.

Nær til yfir 800 barna í dag

Nú eru 764 notendur skráðir á stafræna vettvanginn, foreldrar sem eiga að meðaltali 2,1 barn saman, og haldin hafa verið átta námskeið fyrir fagfólk sem hafa veitt 142 aðilum ráðgjafaréttindi á þessu sviði til þess að veita enn frekari aðstoð en stafræni vettvangurinn býður upp á. Yfir 800 börn á Íslandi njóta þar með góðs af því að foreldrar þeirra njóta um þessar mundir leiðsagnar sérfræðinga um algeng mistök sem foreldrar gera í samskiptum í kjölfar skilnaðar. Þá er ótalið hversu jákvæð áhrif slíkt getur haft á foreldrana sjálfa, líðan þeirra og þátttöku í samfélaginu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greining birtist fyrst á frettabladid.is 13. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Óvissuflugið þarf að enda

Deila grein

16/08/2022

Óvissuflugið þarf að enda

Reykjanesskagi hefur enn á ný bært á sér. Jarðvísindamenn halda því fram að eldgosið í Meradölum og gosið í Geldingardölum gætu verið upphafið að löngu eldgosatímabili á Reykjanesskaga. Ekki er útilokað að þetta gostímabil gæti virkjað eldstöðvar nær Reykjavík þótt litlar líkur séu þó á því. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en með vitneskju um mögulega ógn af hraunrennsli næstu ár er eðlilegt að við hugum að því hvaða uppbyggingu við viljum fjárfesta í á svæðinu.

Óvissan um Hvassahraun

Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Undanfarna daga hefur greinilega komið fram í umræðunni að eldgos á Reykjanesi breytir mati og viðhorfum sérfræðinga og almennings til flugvallarkostsins í Hvassahrauni og enn einu sinni kemur í ljós að Reykjavíkurflugvöllur er afar mikilvægur hvort sem litið er á hann sem varaflugvöll eða almennan flugvöll fyrir innanlandsflug, sjúkraflug, þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar o.fl. Þegar Hvassahraun þótti vænlegasti staðurinn fyrir uppbyggingu flugvallar byggði það á spám um að ekki myndi gjósa á Reykjanesskaga næstu tvær aldir. Nú er komin upp ný staða sem ekki er hægt að líta fram hjá. Veðurstofan hefur það verkefni nú að meta áhættuna og stefnt er að því að hún skili því verkefni af sér á fyrrihluta næsta árs. Ef niðurstaða þess verkefnis leiðir í ljós að Hvassahraun sé ekki vænlegur kostur þarf að skoða hvort og ef annar og betri staður finnst. Slíkt tekur mörg ár, en það tekur um 15-20 ár að meta, hanna og byggja slíkan völl. Á sama tíma eru önnur stór og dýr verkefni framundan s.s. Sundabraut, Borgarlína og Landspítali, ásamt því að bæta þarf og byggja upp flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum svo nýta megi þá flugvelli betur þar sem kröfur eru sífellt að aukast, bæði vegna ferðaþjónustu og fraktflutninga á ferskvöru.

Við eigum flugvöll

Styrkur Reykjavíkurflugvallar er gríðarlegur. Mikilvægt er að hefjast handa við að efla hann enn frekar og bæta. Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni gleymist oft mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Vissulega er nauðsynlegt að bæta heilbrigðisþjónustu út á landi en óraunhæft er að veita alla þá þjónustu þar sem þörf kann að vera á. Þá er völlurinn einnig afar mikilvægur fyrir ferðaþjónustu um allt land. Á næstu árum er fyrirséð að miklar tækniframfarir komi til með að eiga sér stað í fluginu. Rafmagnsflugvélar eru á næsta leiti og Reykjavíkurflugvöllur getur orðið einn af styrkleikum borgarinnar til næstu áratuga með rafmagnsflugvélar í notkun nálægt stærsta atvinnu og háskólasvæði höfuðborgarinnar, vísinda og grósku í nýsköpun í Reykjavík Science City og með Landspítala á sama svæði.

Nú er mál að linni

Ef litið er til skýrslu vinnuhóps sem hét „Flugvallarkostir á suðvesturhluta landsins“ (skýrsla Eyjólfs Árna Rafnssonar frá árinu 2019), er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurflugvöllur fari næstu 15-20 árin og afar vafasamt að Hvassahraun sé álitlegur kostur, ekki síst í ljósi síðustu atburða, þótt hann komi þar helst til greina. Vegna óvissu hefur Reykjavíkurflugvöllur ekki fengið nauðsynlega yfirhalningu í 20 ár. Beðið hefur verið með viðhald vegna hugmynda um nýjan flugvöll sem nú virðast vera að renna út í sandinn, já eða út í hraun. Við þurfum að hætta þessari óvissu um Reykjavíkurflugvöll og þrengja ekki meir að vellinum. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum, við getum ekki látið önnur 20 ár líða.

Ingibjörg Isaksen,  þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Loksins lög um nikó­tín­púða

Deila grein

15/08/2022

Loksins lög um nikó­tín­púða

Eitt af þeim mikilvægu málum sem urðu að lögum við þinglok í júní var breyting á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur þegar nikótínvörum var bætt við lögin. Þar með voru nikótínpúðar í fyrsta sinn settir undir skýrar reglur. Komið var á reglum um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum og þar eru púðarnir að mestu felldir undir sömu reglur og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Vissulega sýnist sitt hverjum um reglur varðandi meðferð og markaðssetningu tóbaks og skyldra vara sem oft eru kallaðar staðgönguvörur tóbaks.

Það eru þó allir sammála, jafnt söluaðilar sem og fólk sem vinnur að forvörnum, um mikilvægi þess að um þessar vörur gildi skýrt regluverk og að leitað sé leiða til að draga úr líkum á að börn og ungmenni verði háð neyslu vöru af þessu tagi.

Hvað tafði?

Margir furða sig á að löggjafinn hafi ekki sett lög um notkun nikótínpúða fyrir löngu, en þegar nánar er að gáð hefur þessi vara aðeins verið á markaði í tæplega 3 ár. Þrátt fyrir það hafa heilbrigðisyfirvöldum borist fjölmörg erindi er varða nikótínpúða og fyrirspurnir um lagaumhverfi þeirra, hugsanlega leyfisskyldu fyrir sölu og markaðssetningu þeirra. Eftirlitsstofnanir sem fylgjast með öryggi vöru á markaði lentu í vandræðum því varan féll hvorki undir lög um lyf, matvæli eða tóbak. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum átti í vandræðum við að móta reglur um neyslu, þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, vegna skorts á leiðsögn í löggjöfinni.

Hvað breytist?

Með lagabreytingunni eru settar skýrar reglur um meðferð, sölu og markaðssetningu nikótínpúða og er ætlunin að tryggja eftir fremsta megni öryggi neytenda varanna og annarra sem til þeirra gætu náð, þar á meðal barna.

Nú liggur fyrir að einungis einstaklingum 18 ára og eldri er heimilt að kaupa nikótínvörur og sama gildir um þá sem selja nikótínvörur. Óheimilt er að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, að tryggt sé að nikótínvörur séu ekki staðsettar þar sem börn nái til og sýnileikabann gildi um vörurnar á sölustöðum þannig að þær verði ekki sýnilegar viðskiptavinum. Þá er skýrt að: „Notkun nikótínvara er óheimil þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, svo sem í dagvistun, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi, eins og til dæmis leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnuskólum og annarri sambærilegri starfsemi fyrir börn yngri en 18 ára.“

Þar með hefur allur vafi verið tekinn af um að notkun nikótínpúða sé óheimil alls staðar þar sem börn og ungmenni koma saman í dagvistun, sem og í skipulögðu skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi, hvort sem það á sér stað innan dyra eða utan. Þá er smásalan felld undir sambærilegar reglur og tóbak og neftóbak og á nú ekki að vera sýnileg í verslunum, nema um sérverslanir sé að ræða.

Við samþykkt málsins voru álitamálin leyst af virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og með mikilvægi forvarna að leiðarljósi. Forvarnir og lýðheilsa eru viðvarandi verkefni sem þarf að halda áfram að vinna að og horfa samtímis til öryggis, samræmis og jafnræðis varðandi reglur um sölu, auglýsingar og eftirlit.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. ágúst 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Þingmenn Framsóknar í Norðaustur kjördæmi bjóða í kaffispjall

Deila grein

15/08/2022

Þingmenn Framsóknar í Norðaustur kjördæmi bjóða í kaffispjall

Categories
Fréttir

Stuðningur við Parísaryfirlýsingu um fjárfestingar allra þjóða í framtíð menntunar

Deila grein

12/08/2022

Stuðningur við Parísaryfirlýsingu um fjárfestingar allra þjóða í framtíð menntunar

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra með Ingu Huld Ármann fulltrúa ungmenna á fundi menntamálaráðherra aðildarríkja UNESCO í sumar

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur staðfest við UNESCO stuðning Íslands við Parísaryfirlýsinguna: Áskorun um fjárfestingar allra þjóða í framtíð menntunar. Yfirlýsingin er liður í því að auka skuldbindingu aðildarríkja UNESCO til að styrkja menntakerfi alls heimsins í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 sem hefur haft veruleg áhrif á menntun um allan heim.

Meginskilaboð yfirlýsingar:

  • Brýnt úrlausnarefni er að taka á menntaáskorunum og ójöfnuði sem kom skýrt fram í COVID-19 heimsfaraldrinum.
  • Jafnræði, gæði og skilvirkni eru algild markmið í menntun.
  • Víðtækt og fjölþætt samstarf og virk þátttaka allra hagsmunaaðila um eflingu menntunar.
  • Forgangsraða, verja og auka fjármögnun til menntamála í aðildarríkjum.
  • Uppfylla markmið Incheon heimsþings um menntun frá 2015 og heimsfundar (GEM) frá 2020 um fjárhagslegar skuldbindingar á sviði menntunar.
  • Finna leiðir til að auka fjármagn til menntamála í gegnum umbætur í skattkerfinu með nýjum aðferðum til fjármögnunar og samstarfi hins opinbera og einkaaðila.
  • Forgangsraða fjárfestingum í menntakerfinu með áherslu á heimsmarkmið nr. 4 um gæðamenntun fyrir alla.


Frá fundi menntamálaráðherra aðildarríkja UNESCO í sumar þar sem Ásmundur Einar Daðason kynnti áform Íslands um eflingu menntakerfisins

UNESCO gegnir forystuhlutverki við innleiðingu og samhæfingu eftirfylgni með heimsmarkmiði 4 sem nær til alls menntakerfisins. Því er ætlað að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.

Ísland á nú sæti í framkvæmdastjórn UNESCO næstu fjögur árin.

Fréttin birtist fyrst á vef Stjórnarráðsins 11. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Stórskipahöfn í Hveragerði

Deila grein

12/08/2022

Stórskipahöfn í Hveragerði

Að nýloknum sveitarstjónarkosningum hefur nýr meirihluti í Hveragerði fengið verðug verkefni til að leysa og vinna úr og hefur verið ánægjulegt að finna þeim farveg. Verkefnin hafa mörg hver verið áskorun en það er einmitt það sem við sem þarna sitjum buðum okkar krafta í, fengum umboð til og tökumst á við af miklum áhuga og vilja.

Eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem komið hafa inn á borð bæjarstjórnar er viljayfirlýsing Hveragerðisbæjar og Þróunarfélags NLFÍ slhf. Viljayfirlýsing þessi fjallar í megindráttum um að hefja viðræður með það að markmiði að ná samkomulagi um skipulagningu á svokölluðu Sólborgarsvæði sem liggur austan Varmár og að Þróunarfélagið fái heimild til uppbyggingar á landinu.

Áformuð uppbygging felur m.a. í sér íbúðabyggð, svæði fyrir 6* hótel, heilsu- og vellíðunar dvalarstað, sem njóti sérhæfðrar ráðgjafar og faglegrar þjónustu frá Heilsustofnun, og fræðslusetur á sviði sjálfbærni og umhverfismála. Jafnframt verði fjallað um möguleika á stækkun og endurnýjun á húsnæði og aðstöðu Heilsustofnunar á núverandi svæði hennar í Hveragerði. Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að farið verði yfir uppbyggingu nauðsynlegra innviða á svæðinu og greiðslur þar að lútandi. Mikil áhersla er á að hafa víðtækt samráð við íbúa sveitarfélagsins um þróun og uppbyggingu svæðisins. Viljayfirlýsingin gildir til næstu áramóta með möguleika á framlengingu um sex mánuði.

Það eru tækifæri í fyrirhugaðri uppbyggingu, m.a. á heilsu- og vellíðunar dvalarstað og íbúðabyggð, ásamt skólum og annarri þjónustu við íbúa með sjálfbærni að leiðarljósi, auk þess að styðja við starfsemi Heilsustofnunar og uppbyggingu á atvinnu í Hveragerði.

Hér höfum við í Hveragerði fengið tækifæri til að byggja upp samfélagið okkar enn frekar og er það vel þess virði að kanna málið til hlítar, hvort hér leynist ef til vill okkar eigin stórskipahöfn. Það er hlutverk okkar bæjarfulltrúanna að vera opin fyrir þeim tækifærum sem koma upp og geta eflt stoðir sveitarfélagsins, styrkt fjárhaginn og eflt atvinnulífið. Umfram allt er það mannauðurinn, íbúarnir og starfsfólkið sem er stórskipahöfnin okkar.

Fram undan er bæjarhátíð Hvergerðinga, Blómstrandi dagar, en eins og gefur að skilja hefur sú hátíð ekki verið haldin hátíðleg síðustu tvö ár frekar en aðrir viðburðir. Það er því sérstök eftirvænting fyrir hátíðinni og munum við án efa gleðjast og njóta allra þeirra viðburða sem hátíðin hefur í för með sér. Um leið og ég óska okkur öllum í Hveragerði til hamingju með hátíðina fram undan þá bíð ég gesti einnig hjartanlega velkomna til að njóta með okkur.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Endurreisn ferðaþjónustunnar

Deila grein

11/08/2022

Endurreisn ferðaþjónustunnar

Eft­ir tvö krefj­andi ár sök­um heims­far­ald­urs er ljóst er að end­ur­reisn ferðaþjón­ust­unn­ar er haf­in af full­um krafti. Útlit er fyr­ir að kom­ur er­lendra ferðamanna yfir árið fari fram úr bjart­sýn­ustu spám. Ferðamála­stofa áætl­ar að heild­ar­fjöldi ferðamanna árið 2022 verði um 1,6 millj­ón, sem er um 80% af heild­ar­fjölda árs­ins 2019.

Það er ánægju­legt að heyra fjöl­marg­ar fregn­ir um gott gengi ferðaþjón­ust­unn­ar en sum­arið hef­ur gengið vel í grein­inni og vís­bend­ing­ar eru um að helstu kenni­töl­ur verði svipaðar og árið 2019. Veru­leg­ur stíg­andi hef­ur verið í kom­um er­lendra ferðamanna það sem af er ári, einkum síðustu mánuði. Þannig benda bráðabirgðatöl­ur Isa­via fyr­ir júlí til þess að ákveðnum vendipunkti hafi verið náð í mánuðinum. Brott­far­ir ferðamanna hafi verið alls 233.834 eða 101% af heild­ar­fjöld­an­um sama mánuð árið 2019. Er það í fyrsta skipti sem við sjá­um fjölg­un ferðamanna þegar töl­ur eru born­ar sam­an við 2019! Þá stefn­ir í stærsta komu­ár skemmti­ferðaskipa hingað til.

Þessi auknu um­svif ferðaþjón­ust­unn­ar koma greini­lega fram í hag­töl­um. Gjald­eyr­is­inn­flæði vegna ferðaþjón­ustu, miðað við greiðslu­korta­veltu fyrstu 6 mánuði árs­ins, nam alls 692 millj­ón­um evra. Það er u.þ.b. fjór­föld­un miðað við fyrra ár og um 88% af heild­ar­velt­unni sama tíma­bil árið 2019, í evr­um talið. Þá er meðal­velta á hvern ferðamann tölu­vert meiri en fyr­ir far­ald­ur­inn, sem er fagnaðarefni. Það skipt­ir höfuðmáli fyr­ir ís­lenska hag­kerfið að út­flutn­ings­grein­um þess vegni vel. Ferðaþjón­ust­an legg­ur þar gríðarlega mikið af mörk­um en á skömm­um tíma get­ur hún skapað mikl­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir þjóðarbúið, eins og rakið er að ofan.

Þessi ár­ang­ur er staðfest­ing þess að tím­inn í heims­far­aldr­in­um hafi verið vel nýtt­ur, bæði hjá stjórn­völd­um sem og hjá ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækj­un­um og hörkudug­legu starfs­fólki þeirra. Lögð var áhersla á að styðja við fyr­ir­tæki í gegn­um far­ald­ur­inn og verja þannig mik­il­væga þekk­ingu fyr­ir­tækj­anna og þá innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný. Að sama skapi juku stjórn­völd veru­lega fjár­fest­ing­ar í innviðum, bæði í sam­göng­um og á ferðamanna­stöðum, svo þeir yrðu bet­ur í stakk bún­ir til að taka á móti fleiri gest­um á ný. Auk­in­held­ur ákvað rík­is­stjórn­in að verja háum fjár­hæðum í markaðssetn­ingu á Íslandi sem áfangastað, með markaðsverk­efn­inu ,,Sam­an í sókn‘{lsquo} í gegn­um all­an far­ald­ur­inn, þrátt fyr­ir litla eft­ir­spurn eft­ir ferðalög­um á þeim tíma. Eitt af fyrstu verk­um mín­um sem ferðamálaráðherra var að verja 550 m. kr. í aukna markaðssetn­ingu til að tryggja enn kröft­ugri viðspyrnu ferðaþjón­ust­unn­ar.

Þær ákv­arðanir, sem tekn­ar eru hverju sinni, skipta framtíðina öllu máli. Með sam­stilltu átaki er okk­ur að tak­ast að end­ur­reisa ferðaþjón­ust­una eft­ir heims­far­ald­ur­inn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. ágúst 2022.