Categories
Fréttir Greinar

Stórmál sem þarf að klára

Deila grein

15/08/2024

Stórmál sem þarf að klára

Auðlind­ir og nýt­ing þeirra er eitt af stærstu hags­muna­mál­um hvers þjóðrík­is og gæta ber þeirra í hví­vetna. Það stytt­ist í að Alþingi komi sam­an að nýju eft­ir sum­ar­leyfi til þess að fjalla um hin ýmsu mál­efni. Fyr­ir þing­inu að þessu sinni mun meðal ann­ars liggja fyr­ir frum­varp um rýni á fjár­fest­ing­um er­lendra aðila vegna þjóðarör­ygg­is og alls­herj­ar­reglu. Með orðinu rýni í þessu sam­hengi er átt við grein­ing­ar og mat á því hvort að viðskiptaráðstaf­an­ir sem tryggja er­lend­um aðilum eign­araðild, veru­leg áhrif eða yf­ir­ráð yfir at­vinnu­fyr­ir­tækj­um eða fast­eigna­rétt­ind­um hér á landi, ógni þjóðarör­yggi eða alls­herj­ar­reglu.

Gild­andi lög­gjöf um þessi mál er kom­in til ára sinna og er for­gangs­mál að úr því verði bætt enda er Ísland orðið eft­ir­bát­ur helstu sam­an­b­urðaríkja í þess­um efn­um. Þannig hafa til að mynda flest ríki á Evr­ópska efna­hags­svæðinu og aðild­ar­ríki Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD) sett lög­gjöf sam­bæri­lega þeirri sem lögð er til með frum­varp­inu. End­ur­spegl­ar þessi þróun í sam­an­b­urðarlönd­um okk­ar meðal ann­ars fjöl­breytt­ar og sí­breyti­leg­ar áskor­an­ir í ör­ygg­is­mál­um sem opið og alþjóðlegt viðskiptaum­hverfi get­ur leitt af sér, meðal ann­ars ógn­um sem geta steðjað að grund­vall­ar ör­ygg­is­hags­mun­um ríkja og spretta af fjár­magns­hreyf­ing­um milli landa. Í tíð minni sem ut­an­rík­is­ráðherra árið 2016 fékkst samþykkt fyrsta þjóðarör­ygg­is­stefn­an fyr­ir Ísland sem stjórn­völd­um var falið að fylgja eft­ir, en í henni er meðal ann­ars lögð áhersla á að vernda virkni mik­il­vægra innviða og styrkja áfallaþol sam­fé­lags­ins gagn­vart hvers kyns ógn við líf og heilsu fólks, um­hverfi, eign­ir og innviði.

Leiðar­stefið í frum­varp­inu um rýni á fjár­fest­ing­um er­lendra aðila er samþætt­ing sjón­ar­miða um mik­il­vægi er­lendra fjár­fest­inga fyr­ir efna­hags­lífið ann­ar­s­veg­ar og hins veg­ar að er­lend­ar fjár­fest­ing­ar í mik­il­væg­um innviðum og ann­arri sam­fé­lags­lega mik­il­vægri starf­semi, sem skil­greind eru sem viðkvæm svið, séu í sam­ræmi við þjóðarör­yggi og alls­herj­ar­reglu. Þar und­ir falla meðal ann­ars innviðir sem tengj­ast orku, hita­veitu, vatns- og frá­veitu, sam­göng­um, flutn­ing­um, fjar­skipt­um, sta­f­ræn­um grunn­virkj­um, fjár­mála­kerfi, vörn­um lands­ins, stjórn­kerfi, land­helg­is­gæslu, al­manna­vörn­um, lög­gæslu, neyðar- og viðbragðsþjón­ustu, rétt­ar­vörslu og heil­brigðis­kerfi. Einnig út­veg­un eða fram­leiðsla á mik­il­væg­um aðföng­um, þ.m.t. í tengsl­um við orku eða hrá­efni eða vegna fæðuör­ygg­is. Að sama skapi nær frum­varpið yfir nýt­ingu vatns­orku, jarðvarma, vindorku, náma og annarra jarðefna í þjóðlend­um, en ýms­ar hindr­an­ir eru í nú­gild­andi lög­gjöf um nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, meðal ann­ars í gegn­um leyf­is­veit­inga­ferli og tak­mörk­un­um á er­lendu eign­ar­haldi, líkt og í sjáv­ar­út­vegi. Und­ir viðkvæm svið sam­kvæmt frum­varp­inu fell­ur einnig meðhöndl­un mik­il­vægra trúnaðar­upp­lýs­inga og veru­legs magns viðkvæmra per­sónu­upp­lýs­inga sem og þjón­usta á sviði netör­ygg­is í þágu mik­il­vægra innviða svo dæmi séu tek­in.

Mik­il­vægt er að fram­kvæmd rýn­inn­ar sé skil­virk og slái í takt við það sjón­ar­mið að er­lend fjár­fest­ing er mik­il­væg ís­lensku hag­kerfi. Það er brýnt að Alþingi klári þetta stór­mál á kom­andi þingi, þar sem ís­lensk­ir hags­mun­ir verða hafðir að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hamstrar barnið þitt blýanta?

Deila grein

14/08/2024

Hamstrar barnið þitt blýanta?

Nýverið fjallaði háskólaráðherra um þá ógn sem hugmyndafræðinni um eignarréttinn og ábyrgð stafaði af því að grunnskólabörn fái námsgögn án endurgjalds í skólanum. Þar sagði hún sögur af börnum sem koma heim með töskur fullar af ritföngum og öðrum námsgögnum sem þau hafa ekki notað og hélt því fullum fetum fram að ómögulegt væri að koma fyrir hjá þeim ábyrgðartilfinningu gagnvart þessum hlutum vegna þess að þau ættu þau ekki.

Nú búa tvö börn á mínu heimili og ég get í fullri hreinskilni sagt að þau hafa aldrei – ekki einu sinni – komið heim með töskur fullar af ritföngum. Vissulega er reynsla mín takmörkuð við þessi tvö börn, en ég á ofboðslega erfitt með að ímynda mér að stílabækur og blýantar séu svo heillandi fyrir grunnskólabörnum að stórir hópar þeirra finni hjá sér þörfina til að hamstra þeim. Sé það raunin myndi ég ætla að þar væri kjörið tækifæri fyrir foreldra til að ræða við börnin sín um sjálfstjórn. Að þó eitthvað sé frítt þá þýði það ekki að maður þurfi að taka alla hrúguna.

Það er gífurlega mikilvægt að við temjum börnunum okkar að bera virðingu fyrir hlutunum og ganga vel um þá jafnvel þó þau eigi þá ekki ein. Dæmi um hluti sem börn komast í kynni við daglega sem þau hafa afnot af en eiga ekki sjálf eru leiktæki á leikvöllum, skólabyggingin, íþróttahúsið og búnaðurinn þar, nú og bara nær öll íslensk náttúra. Að sjálfsögðu þurfa þau að læra að fara vel með eigin muni (sem gengur alla jafna upp og ofan) en það er engu síður mikilvægt að þau læri að fara vel með eigur annarra og hluti sem eru í eigu okkar allra.

Upphaf skólaársins er kvíðavaldur fyrir margar fjölskyldur sem þurfa að passa upp á hverja krónu til að ná endum saman í hverjum mánuði og þurfa nú að kljást við öll viðbótar útgjöldin sem nýju skólaári fylgir. Þó það sé vissulega ekki stærsti bitinn af kökunni þá er það tvímælalaust mörgum fjölskyldum kærkomin búbót að þurfa ekki að bæta námsgögnum við í það reikningsdæmi. Mér þykir þetta því áhugaverð tímasetning fyrir háskólaráðherra til að bridda upp á þessu umræðuefni, því þó þessir einstaklingar séu kannski ekki í hennar nærumhverfi þá eru þeir svo sannarlega til og eru, að mér sýnist, umtalsvert fleiri en hana grunar.

Það að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til menntunar felur í sér að tryggja þeim aðgengi að þeim tækjum og tólum sem þarf til að stunda nám. Ég er því þakklát að jafnt aðgengi allra barna að menntun vegi þyngra í huga mennta- og barnamálaráðherra en áhyggjur af meintum hömstruðum blýöntum.

Berglind Sunna Bragadóttir, varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. ágúst 2024.

Categories
Fréttir

„Við viljum einfalda og samræma upplýsingar í menntakerfinu sem byggja á raunupplýsingum hverju sinni, börnum, foreldrum og skólasamfélaginu til hagsbóta“

Deila grein

13/08/2024

„Við viljum einfalda og samræma upplýsingar í menntakerfinu sem byggja á raunupplýsingum hverju sinni, börnum, foreldrum og skólasamfélaginu til hagsbóta“

Frigg er nýr gagnagrunnur utan um skráningu upplýsinga um íslenska nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla sem nú er í smíðum. Upplýsingarnar hafa fram til þessa verið vistaðar hjá mismunandi aðilum í mismunandi kerfum en verða með Frigg á einum miðlægum stað þvert á skóla, skólastig og landsvæði.

„Frigg mun svara langvarandi þörf á einfaldri og miðlægri upplýsingagátt yfir nemendur á landsvísu í takt við tímann. Við viljum einfalda og samræma upplýsingar í menntakerfinu sem byggja á raunupplýsingum hverju sinni, börnum, foreldrum og skólasamfélaginu til hagsbóta. Grunnurinn er eitt undirstöðuatriða í innleiðingu Matsferils og lykillinn að áframhaldandi umbótaaðgerðum sem byggja þurfa á gögnum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu um Frigg - mynd

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu um Frigg

Gagnagrunnurinn mun m.a. halda utan skráningu barna og ungmenna í, úr og milli skóla og námsárangur nemenda í hinu nýja samræmda námsmati, Matsferli, á síðari stigum. Stefnt er að því að opna gagnagrunninn fyrir lok þessa árs.

Frigg er samstarfsverkefni mennta og barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Stafræns Ísland (SÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) um samræmt verklag við nemendaumsýslu og innleiðingu þvert á skóla og sveitarfélög.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnur nú að smíði og hýsingu gagnagrunnsins sem nær yfir öll börn og ungmenni með lögheimili hér á landi fram að háskólastigi. Yfirsýn og afgreiðsla innritunar í skóla verður samræmd þvert á skóla og sveitarfélög. Útbúin verður umsókn um innritun í grunnskóla og umsókn um skólaskipti, á Island.is með einföldun og góða notendaupplifun að leiðarljósi. Í fyrstu mun grunnurinn ná yfir alla nemendur í grunnskólum landsins og síðar bætast leik- og framhaldsskólar við.

Opnun gagnagrunnsins markar einfaldari, skilvirkari og gagnsærri stjórnsýslu óháð stjórnsýslustigum, með öruggum gagnainnviðum, betri opinberri þjónustu og nútímalegra starfsumhverfi. Þá mun einfalt og samræmt notendaviðmót á einum stað einfalda til muna aðgengi foreldra og barna að þjónustu og upplýsingum er varða þau sjálf.

Markmið Friggjar er að:

  • tryggja að öll börn njóti skólavistar, hvar sem er á landinu,
  • tryggja einfaldan og skilvirkan flutning barna milli skóla og sveitarfélaga,
  • tryggja samræmi og gagnsæi í allri málsmeðferð sem tengist nemendaumsýslu, milli skóla og sveitarfélaga,
  • tryggja einskráningu gagna er varða börn, viðhald, rekjanleika og sjálfvirkar uppfærslur þeirra,
  • undirbyggja aukin gæði rauntímaupplýsinga um málefni barna,
  • undirbyggja frekari þjónustuþróun við börn, án hindrana, í þágu farsældar.

Gagnagrunnurinn styður við hugsun um inngildandi skólastarf, þar sem virðing er borin fyrir fjölbreyttum þörfum og styrkleikum nemenda. Samræmt skráningarkerfi og gagnagrunnur fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er grunnforsenda þess að hægt sé að nýta gögn til stuðnings við skólastarf og skólaþjónustu.

Frigg er þáttur í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 og áherslum stjórnvalda um stuðning við skóla- og frístundastarf, inngildandi menntun, samþættingu þjónustu, samspili milli þjónustukerfa og stafrænni umbreytingu.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Ylja og skaðaminnkun

Deila grein

12/08/2024

Ylja og skaðaminnkun

Þau ánægjulegu tímamót áttu sér stað fyrr í vikunni er fyrsta staðbundna neyslurýmið hér á landi var formlega opnað. Rauði Kross Íslands rekur þjónustuna á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands og Reykjavíkurborgar í sérútbúnu húsnæði í Borgartúni 5. Þjónustan, sem fengið hefur nafnið Ylja, byggir á skaðaminnkandi hugmyndarfræði sem felur í sér þá nálgun að draga úr afleiðingum vímuefnanotkunarinnar og stuðla að jákvæðum breytingum, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem notendur vímuefna, 18 ára og eldri, geta notað vímuefni undir eftirliti sérhæfðs starfsfólks. Markmiðið með rekstri neyslurýmis er að draga úr alvarlegum afleiðingum vímuefnanotkunar í óöruggum aðstæðum s.s. sýkingum, smitsjúkdómum og ofskömmtun ásamt því að veita mikilvæga lágþröskulda heilbrigðisþjónustu, stuðning og ráðgjöf.

Ylja eykur öryggi

Þjónusta Ylju var starfrækt sem færanlegt neyslurými í sérútbúinni bifreið til reynslu í eitt ár frá mars 2022 með það að markmiði að meta þörfina fyrir staðbundið, varanlegt neyslurými hérlendis. Verkefnið dró fram að full þörf er fyrir slíka þjónustu og þann ávinning sem af henni hlýst en samkvæmt skýrslu samtakanna um verkefnið nýttu um 130 einstaklingar sér þjónustu Ylju í tæplega 1400 skipti á tímabilinu.

Í skýrslunni var einnig tekið fram að sérútbúin bifreið eða færanlegt rými er ekki fullnægjandi aðstaða fyrir þessa mikilvægu skaðaminnkandi þjónustu og að staðbundið neyslurými væri skynsamlegt næsta skref.

Í Ylju er veitt nálaskiptaþjónusta og heilbrigðisþjónusta s.s. meðhöndlun sýkinga, sára og skimun fyrir smitsjúkdómum. Þá hefur Ylja hefur einnig lagt áherslu á að mynda traust og tengingu við notendur þjónustunnar og veita þeim sálfélagslegan stuðning og ráðgjöf í þeim tilgangi að stuðla að jákvæðum breytingum fyrir þjónustuþegan.

Skaðaminnkun í verki

Opnun Ylju er til marks um aukna áherslu stjórnvalda á skaðaminnkandi nálgun og úrræði fyrir þann hóp sem glímir við fíknisjúkdóma. Í því samhengi má nefna samning Sjúkratrygginga um frú Ragnheiði, skaðaminnkandi þjónustu Rauða Kross Íslands sem sinnir nálaskiptaþjónustu og heilbrigðisþjónustu á vettvangi. Frú Ragnheiður á einnig í samstarfi við göngudeild smitsjúkdóma um vettvangshjúkrun sem frá og með janúar 2024 veita vettvangsþjónustu tvisvar í viku.

Þá hefur Heilbrigðisráðuneytið í samstarfi við landspíta, markvisst unnið að því að auka aðgengi að Naloxone, sem er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíóða, í skaðaminnkandi tilgangi að kostnaðarlausu.

Í byrjun árs 2023 var sérstöku fjármagni veitt til Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar til að ráða 2 hjúkrunarfræðinga sem veita heimilislausum einstaklingum með flóknar þjónustuþarfi nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi.

Aðgengi að viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn hefur verið aukið en sú þjónusta er í dag aðgengileg á sjúkrahúsinu Vogi, Landspítala og hjá geðheilsuteymi fanga.

Á vegum Matthildar, samtaka um skaðaminnkun, stendur yfir tilraunaverkefni, sem styrkt er af heilbrigðisráðuneytinu og snýr að því að ná til einstaklinga sem reykir ópíóða og örvandi vímuefni og veita þeim skaðaminkandi þjónustu í sínu nærumhverfi.

Stefnumótun til framtíðar

Skaðaminnkandi hugmyndafræði er samofin fjölmörgum þáttum samfélagsins. Til að skapa betri umgjörð og framtíðarsýn fyrir skaðaminnkun innan heilbrigðiskerfisins skipaði ég starfshóp sem falið var það verkefni að leggja drög að stefnu og aðgerðaráætlun í skaðaminnkun og á ég von á skýrslu þess efnis um mánaðarmótin.

Þá er einnig að störfum starfshópur sem er að endurskoða stefnu í áfengis og vímuvörnum á heildrænan hátt sem nær til forvarna, meðferðar, endurhæfingar, eftirfylgni og lagaumhverfis og þá er sérstök áhersla á að hún taki mið af þörfum mismunandi hópa.

Samhliðar þessari stefnumótunarvinnu var sett á fót þingmannanefnd um áfengis og vímuvarnarmál sem hefur það hlutverk að rýna þær tillögur sem fram koma í þeim tilgangi að dýpka umræðuna, draga fram ólík sjónarmið og auka samstöðu um aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum.

Opnun Ylju markar tímamót og ég er sannfærður um að sú faglega og góða þjónusta sem Rauði Kross Íslands veitir þar muni auka öryggi, draga úr skaða og stuðla að jákvæðum breytingum hjá þjónustuþegum Ylju.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þakk­læti

Deila grein

09/08/2024

Þakk­læti

Nú þegar hinsegindagar standa yfir er þakklæti mér efst í huga. Þakklæti fyrir það fólk sem hefur barist fyrir réttindum hinsegin fólks svo að við öll fáum að búa í opnara og frjálsara samfélagi.

Ég nýt þeirra forréttinda að hafa alist upp á Íslandi, í samfélagi sem á mælikvarða heimsins er opið og frjálst land. Land þar sem fólk má elska þann sem það elskar, giftast og stofna fjölskyldu með aðila af sama kyni og skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar. Þar sem umræða um hinseginleikann og fjölbreytileika mannkyns er opin í það minnsta mun opnari en hún var áður og mun opnari en hún er víðast hvar í heiminum, þótt margt sé enn óunnið og baráttunni alls ekki lokið.

Þegar ég var unglingur stundaði ég nám við alþjóðlegan menntaskóla í Noregi og síðar vann ég í alþjóðlegum menntaskóla í Taílandi. Það var mikil lífsskólun að búa með 200 unglingum frá um 95 löndum. Fyrir utan að eignast vini frá ólíkum menningarheimum fékk ég líka innsýn inn í þessa menningarheima og stöðu samnemenda minna í þeirra heimalöndum, einkum þegar kom að hinseginleika. Sum þeirra höfðu lagt sig fram við að sækja um skóla annarsstaðar í heiminum til þess að komast frá þeim veruleika sem blasti við þeim heima fyrir þar sem þau voru ekki samþykkt fyrir að vera þau.

Fleiri en einn samkynhneigður skólafélagi minn frá löndum í Suður-Ameríku höfðu verið send í prógram sem átti að vera til þess fallið að gera þau gagnkynhneigð, eins og kynhneigð sé val eða ,,eitthvað til að laga.” Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þann sálarlega skaða sem slíkt prógram veldur einstaklingi. Það var sárt að heyra af raunum þessara samnemenda sem gerðu ekkert rangt heldur voru dæmd fyrir að vera þau sjálf af bæði fjölskyldum þeirra og samfélaginu. Það er allt rangt við það.

Í störfum mínum við alþjóðlegan menntaskóla í Taílandi áttaði ég mig á því að hinsegin samfélagið innan skólans vantaði samastað og sýnileika. Ég réðist því í það verkefni að stofna félagsstarf sem stuðlaði að fræðslu og umræðu um hinseginleikann og skipulagði gleðigöngu innan skólans. Fljótt var ljóst að mikil nauðsyn var fyrir þessum vettvangi. Nemandi frá afskekktu þorpi í Pakistan hafði aldrei heyrt um samkynhneigð eða hinseginleika. Þetta var aldrei rætt í hans þorpi og engar hinsegin fyrirmyndir voru í hans samfélagi. Fróðleiksþorsti hans var því mikill. Ég man hvað það kom mér á óvart að hann hafði aldrei heyrt um hugtök eins og ‘hinseginleiki’ enda er ég fædd árið 1997 á Íslandi og ólst upp í samfélagi þar sem flestir þekkja og skilja hugtök sem falla undir regnhlífarhugtakið ,,hinsegin” og í gegnum barnæskuna fylgdist ég með réttindabaráttu hinsegin fólks og samfélaginu mínu þróast í opnari og réttlátari átt. Þegar ég var að skipuleggja gleðigönguna með nemendum skólans brugðust sumir foreldrar barna í skólanum vægast sagt illa við. Veggspjöld sem auglýstu gönguna voru tekin niður og ég gleymi því aldrei þegar skólastjórinn sagði mér að foreldri hefði mætt á skrifstofuna sína til að tilkynna skólanum að hann hyggðist láta barnið sitt skipta um skóla vegna göngunnar. Það sem ég var þakklát skólastjórnendum fyrir að standa með mér og nemendum í þessu máli. Það hefði ef til vill verið auðveldara fyrir þá að hlusta á reiða fordómafulla foreldra sem vildu banna hinsegin sýnileika og samstöðu innan veggja skólans.

Þessar sögur eru áminning um mikilvægi opinnar umræðu og fræðslu um hinseginleika og sýnileika fjölbreytileikans til þess að vinna gegn fáfræði og fordómum. Þær minna okkur á hvað við höfum náð langt í samfélagslegri umræðu og viðurkenningu á lagalegum réttindum hinsegin fólks hérlendis. Því miður hafa verið teikn á lofti um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Við þurfum að stíga fast til jarðar gegn þeirri þróun og uppræta fordóma í okkar nærumhverfi. Við megum ekki láta efasemdaraddir um mikilvægi hinseginfræðslu stjórna því hvort hinseginfræðsla sé kennd í skólum landsins. Okkur ber skylda til að fræða um fjölbreytileikann og mannréttindi einstaklinga. Í því samhengi má einnig benda á að ungmennaráð víða um land hafa óskað eftir aukinni hinseginfræðslu. Unga fólkið okkar vill fræðast meira um hinseginleikann.

Það er hagur okkur allra að fólki líði vel í eigin skinni og fái að lifa í frjálsu og opnu samfélagi þar sem það er samþykkt eins og það er.

Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur rutt brautina og barist og berst enn fyrir réttindum hinseginfólks. Það er fyrir ykkar baráttu að Ísland er í 2. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks og í efsta sæti á réttindakorti transfólks í Evrópu.

Gleðilega hinsegin daga!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. ágúst 2024.

Categories
Fréttir

Nýtt og betra samræmt námsmat

Deila grein

09/08/2024

Nýtt og betra samræmt námsmat

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fer yfir breytingarnar í íslensku menntakerfi í viðtali við visir.is. Segir hann það fagnaðarefni hversu mikið hefur verð rætt um menntamál undanfarið, ræðir hann þar sérstaklega samræmt námsmat.

Matsferill mun leysa gömlu samræmdu prófin af hólmi. „Hugsunin á bak við þennan Matsferil er sú að þetta sé miklu betra verkfæri fyrir skólana til að nýta dag frá degi fyrir nemendurna til að sjá framfarir, og býður líka upp á möguleikann á því að tengja við nýjan gagnagrunn sem tekur til starfa nú í október,“ segir Ásmundur Einar.

Hægt verði að grípa krakkana „miklu miklu fyrr“ þegar frávik verða í námi.

Ný lög um námsgögn, skólaþjónustu og inngildandi menntun

Samhliða þessum breytingum er einnig verið að ljúka við ný lög um námsgögn, en fyrirhuguð er gríðarleg aukning í námsgagnagerð. Eins verði frumvarp lagt fram um skólaþjónustu og inngildandi menntun, sem búið er að vinna í samráði við fjölda aðila.

„Í mikilli samvinnu við fólkið sem starfar á vettvangi skóla og fleiri aðila hefur síðastliðin ár verið unnið að umtalsverðum breytingum á íslensku menntakerfi. Það hefur verið gaman að finna þann samtakamátt sem einkennt hefur undirbúning þessara stóru kerfisbreytinga sem nú eru að líta dagsins ljós.“

„Menntamál eru eitt mikilvægasta mál samfélagsins og þannig mál okkar allra. En um leið og við eigum og þurfum að ræða þessi mál og þær ýmsu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, þá megum við ekki líta fram hjá því magnaða starfi sem fer fram svo víða og þeim mikla mannauði sem starfar í íslensku menntakerfi.“

Undanfarið hefur mikið verið rætt um menntamál sem er fagnaðarefni. Í mikilli samvinnu við fólkið sem starfar á…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Föstudagur, 9. ágúst 2024
Categories
Fréttir Greinar

Leið til aukinnar upp­byggingar í­búðar­hús­næðis

Deila grein

09/08/2024

Leið til aukinnar upp­byggingar í­búðar­hús­næðis

Á undanförnum árum hef ég fjallað mikið um húsnæðismál hér á landi og viðrað áhyggjur mínar af stöðunni til framtíðar ef ekkert yrði að gert. Þetta hef ég gert bæði sem sveitarstjórnarmaður á sínum tíma og nú sem þingmaður. Það er að afleiðingarnar af óbreyttri stöðu yrðu á endanum hátt fasteigna- og leiguverð sem leiða myndi að óbreyttu til aukins þrýstings á verðbólgu. Ég hef ætíð lagt mig fram um að fara yfir stöðuna líkt og hún blasir við mér, fjallað um tillögur til að bregðast við og koma í veg fyrir þá mynd sem ég teikna upp hér að ofan. Fyrir það hef ég oft fengið gagnrýni, talinn vera of svartsýnn og draga fram of dökka mynd af stöðunni. Staðreyndin er hins vegar sú að staðan virðist því miður vera að teiknast upp eins og ég hef óttast þrátt fyrir margar góðar og öflugar aðgerðir af hálfu hins opinbera. Þær leysa þetta hins vegar ekki einar og sér.

Seðlabankinn þarf að lækka vexti

Ríkisstjórnin hefur komið að mikilvægum aðgerðum sem snúa að kröftugri húsnæðisuppbyggingu sem gagnast þeim sem eru eignalitlir og tekjulágir og hafa því átt erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum. Hér er um að ræða aðgerðir sem eru bæði raunverulegar og skynsamlegar. Einnig tel ég brýnt að lífeyrissjóðir nýti sér þá auknu heimild sem Alþingi veitti þeim í sumar og mun auðvelda þeim að fjárfesta í leigufélögum. Það mun styðja okkur í því verkefni að byggja upp heilbrigðari leigumarkað en hér hefur verið með meira öryggi og fyrirsjáanleika fyrir fólk sem það kýs. Almenni markaðurinn þarf þó einnig að koma með því staðreyndin er sú að við erum að byggja of lítið. Við höfum þó enn tækifæri til að bregðast við, en til þess þarf að hafa hraðar hendur og láta verkin tala.

Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði. Við vorum á réttri leið, en það hefur komið bakslag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á lóðum á nýjum svæðum, hárra vaxta og hertra lánþegaskilyrða. Með öðrum orðum; það vantar lóðir, lánsfjármagn er dýrt sem hefur letjandi áhrif á framkvæmdaaðila og fólki hefur verið gert erfiðara um vik að komast í gegnum greiðslumat vegna hertra lánþegaskilyrða. Í raun má einfalda þetta mjög og segja að það sé dýrt að byggja og erfitt að selja. Það er eitraður kokteill í núverandi ástandi þar sem nauðsynlegt er að byggja til að anna þeirri eftirspurn sem til staðar er og verður og til að ná tökum á verðbólgunni til framtíðar. Seðlabankinn þarf því að lækka stýrivexti og losa um lánþegaskilyrði með skynsamlegum hætti.

Fjölgun lóða með endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins

Mér verður æ oftar hugsað til þeirra orða sem seðlabankastjóri lét hafa eftir sér á vaxtaákvörðunarfundi bankans í maí 2021 og segja má að hann hafi svo ítrekað aftur á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í apríl 2024, tæpum þremur árum síðar. Þar sagði hann ákvörðun Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að byggja ekki íbúðir og ný hverfi á nýju landi væri meðal annars ástæða þess að fasteignaverð hafi hækkað. Sum sveitarfélög hafa einfaldlega ekki það svigrúm að brjóta nýtt land, því það er ekki til staðar innan þeirra vaxtamarka sem svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins segir til um og samþykkt var árið 2015. Sveitarfélög þurfa að hafa svigrúm og getu til að brjóta nýtt land og byggja, samhliða því að þétta byggð.

Nú þurfum við öll að taka höndum saman, því með samhentu átaki er hægt að koma í veg fyrir þá sviðsmynd sem ég hef ítrekað haldið á lofti að aukinn skortur og samdráttur í uppbyggingu húsnæðis fyrir fólk muni koma í bakið á okkur með miklum áhrifum á fasteigna- og leiguverð. Það er því afar brýnt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taki svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til endurskoðunar án kollvörpunar á þeirri hugmyndafræði sem þar býr að baki. Tíminn hefur einfaldlega liðið frá samþykkt þess og forsendur hafa breyst. Með þessari einföldu aðgerð, endurskoðun svæðisskipulagsins, er hægt að fjölga lóðum og byggja ný hverfi. Sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu verða öll að hafa svigrúm og getu til að taka þátt í þeirri nauðsynlegu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem þörf er á. Um það hljótum við að vera sammála.

Þann 14. ágúst kl. 17:00

Húsnæði er ein af grunnþörfum fólks og hefur áhrif á allt okkar daglega líf, allt frá andlegri heilsu til efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu. Það er því óumflýjanlegt að staðan á húsnæðismarkaði verði áfram eitt af okkar stærstu viðfangsefnum næstu mánuði. Sjálfur hef ég nýtt sumarið vel og undirbúið viðburð síðustu vikur sem fram fer í Bæjarbíói þann 14. ágúst næstkomandi. Þar ætla ég að fjalla um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu, þær áskoranir og þau tækifæri sem til staðar eru og áhrif þeirra á íslenskt efnahagslíf til lengri og skemmri tíma. Til mín koma öflugir frummælendur úr ýmsum áttum samfélagsins sem við fylgjum svo eftir með pallborðsumræðum í kjölfarið. Það þarf samstöðu og sameiginlegan skilning til að leysa úr því stóra samfélagsverkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef trú á að það sé hægt. Viðburðurinn er öllum opinn og ég vonast til að sjá sem flest.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stað­bundið neyslu­rými: Stórt skref í skaða­minnkun

Deila grein

08/08/2024

Stað­bundið neyslu­rými: Stórt skref í skaða­minnkun

Í nokkur ár hefur Rauði Krossinn rekið færanlegt skaðaminnkandi úrræði í bíl, Frú Ragnheiði, sem þjónustað hefur fjölda fólks sem glímt hefur við fíknisjúkdóma. Markmið Frú Ragnheiðar, sem ekur um götur borgarinnar og sækir fólk heim, er að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem kann að hljótast af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða. Þar er veitt lágþröskuldaþjónusta svo sem nálaskiptaþjónusta.

Fyrir þremur árum gerðu velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Rauði Krossinn samning um rekstur færanlegs neyslurýmis í bíl, kallað Ylja. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem neytendur vímuefna sem eru 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Markmiðið með slíkum rýmum er skaðaminnkun við notkun vímuefna. Í neyslurými er notanda m.a. boðið upp á almennar ráðleggingar um sprautubúnað og sprautunotkun og aðrar hættuminni aðferðir við inntöku efna og almenna ráðgjöf um hreinlæti og sjálfshjálp til að koma í veg fyrir sýkingar og draga úr líkum á sjálfsskaða. Þar er dreift hreinum sprautubúnaði fyrir hvern notanda og tekið við notuðum sprautubúnaði til förgunar. Sem og að notanda er veitt upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem honum stendur til boða. Er því um þarfa heilbrigðisþjónustu að ræða sem hefur það markmið að auka lífsgæði, bæta heilsu og stuðla að ábyrgari neysluhegðun þeirra sem nota vímuefni.

Þegar samningur Reykjavíkurborgar við Rauða Krossinn var við að renna út óskaði Velferðarráð Reykjavíkurborgar eftir áframhaldandi samstarfi við Rauði Krossins um rekstur Ylju, en talið var betra að rekstur slíks rýmis væri á föstum stað. Var það meðal annars vegna þess að bílar eiga það til að hristast þegar hvasst er úti og þá getur verið varasamt að nota sprautubúnað. Í staðbundnu húsnæði er þá hægt að bjóða fleiri einstaklingum inn í einu og byggja upp og veita aukna heilbrigðisþjónustu.

Staðbundið neyslurými

Í dag opnar neyslurýmið Ylja formlega við Borgartún. Rauði Krossinn mun reka þetta neyslurými samkvæmt samningi við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, en ekki er hægt að fjalla um þetta án þess að minnast á þátt heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar. Willum Þór hefur verið mikill stuðningsmaður úrræðisins og hvatt til þess neyslurými yrði fundinn fastur staður. Heilbrigðisráðuneytið stendur undir kostnaði við reksturinn.

Það er afar jákvætt að þessi starfsemi, sem er mikilvægt skref í minnkun á þeim skaða sem fíknisjúkdómar geta valdið, hefur fengið fastan samastað og um leið viðurkenningu á mikilvægi þessa úrræðis. Þessu skrefi ber að fagna og viljum við þakka þeim sem hafa starfað í málaflokknum um árabil, oft við erfiðar aðstæður.

Magnea Gná Jóhannsdóttir og Þorvaldur Daníelsson, fulltrúar Framsóknar í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

„Stökktu í djúpu laugina! Áfram Ísland”

Deila grein

07/08/2024

„Stökktu í djúpu laugina! Áfram Ísland”

Ólymp­íu­leik­arn­ir í Par­ís standa sem hæst um þess­ar mund­ir. Við erum stolt af okk­ar ís­lensku þátt­tak­end­um, sem hafa staðið sig afar vel og náð tak­marki sínu sem íþrótta­fólk. Tvennt er mér sér­stak­lega hug­leikið í tengsl­um við leik­ana: ann­ars veg­ar frammistaða og viðtal við sund­kapp­ann Ant­on Svein Mckee, og hins veg­ar banda­ríska fim­leika­kon­an Simo­ne Biles.

Ant­on Sveinn McKee komst áfram í undanúr­slit í 200 metra bring­u­sundi og synti á 2:10,36 sem var ní­undi besti tím­inn í und­an­rás­un­um. Hann náði hins veg­ar ekki að kom­ast í úr­slit og hafnaði í 15. sæti. Þetta er einkar góður ár­ang­ur hjá íþrótta­mann­in­um sem hef­ur æft þrot­laust síðustu ár. Viðtalið sem var tekið við hann hjá RÚV fangaði at­hygli mína, og sér­stak­lega þá skila­boðin hans til allra sem vilja láta drauma sína ræt­ast. Ant­on talaði um mik­il­vægi þess að gef­ast aldrei upp, sama hversu erfiðar aðstæður geta verið. Hann minnti á að ár­ang­ur næst ekki á einni nóttu, held­ur þarf feiki­lega vinnu og hug­rekki til að stíga út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann. Sam­hliða því ræddi hann um veg­ferðina á Ólymp­íu­leik­ana og það þroska­ferli. Skila­boð Ant­ons voru að lífs­ins veg­ur snýst ekki endi­lega að ná sett­um mark­miðum, held­ur frem­ur að gera ávallt sitt besta.

Ég hef fylgst afar vel með fim­leik­um frá unga aldri. Ég æfði sjálf fim­leika og fylgd­ist náið með Nadiu Comă­neci í Moskvu 1980 og svo Mary Lou Rett­on í Los Ang­eles 1984. Báðar voru stór­kost­leg­ar í fim­leik­um og afar gam­an að fylgj­ast með þeim. Simo­ne Biles er í dag fremsta fim­leika­kona ver­ald­ar og það hafa verið al­gjör for­rétt­indi að fylgj­ast með henni þessa Ólymp­íu­leika og hversu sterk hún hef­ur komið til baka eft­ir áfallið í Tókýó. Heim­ildaþátt­ur­inn á streym­isveit­unni Net­flix um hana er líka einkar áhuga­verður, en þar er farið yfir ævi­skeið henn­ar og hvernig hún fjall­ar um þau áföll sem hún hef­ur upp­lifað. Markverðast er þó hversu op­in­skátt hún ræðir þessi mál og hvernig hún hef­ur sigr­ast á hverri áskor­un og endað sem eitt stærsta nafn fim­leika­sög­unn­ar.

Það sem ger­ir Simo­ne Biles enn sér­stæðari er hæfn­in henn­ar til að vera opin um and­legu heils­una sína. Í Tókýó 2020 tók hún þá erfiðu ákvörðun að draga sig úr keppni til að gæta eig­in heilsu, sem vakti mikla at­hygli og umræður um mik­il­vægi and­legs heil­brigðis í íþrótt­um. Hún hef­ur síðan þá orðið tákn fyr­ir mik­il­vægi þess að setja and­lega heilsu í for­gang, jafn­vel þegar und­ir er mik­ill þrýst­ing­ur að utan.

Þetta íþrótta­fólk á það sam­eig­in­legt að vera ein­lægt, ein­beitt og vinnu­samt. Eig­in­leik­ar sem búa til traust­an jarðveg fyr­ir að ná ár­angri. Loka­orðin frá Ant­oni Sveini, þegar hann hvet­ur okk­ur öll til að elta drauma okk­ar með því að: „Stökkv­um í djúpu laug­ina. Áfram Ísland!“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóð­há­tíð í Eyjum fagnar 150 ára af­mæli

Deila grein

03/08/2024

Þjóð­há­tíð í Eyjum fagnar 150 ára af­mæli

Þjóðhátíð í Eyjum hefur verið fastur liður í menningarlífi Vestmannaeyinga síðan árið 1874. Þessi árlega hátíð, sem á rætur sínar að rekja til 1000 ára afmæli Íslands, er nú einn af helstu menningarviðburðum landsins og þúsundir Íslendingar sækja ár hvert. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hef­ur verið hald­in í ág­úst­mánuði síðan árið 1916, að und­an­skildu 2020 og 2021 vegna heims­far­ald­urs­ins.

Í bók Brynleifs Tobíassonar, Þjóðhátíð 1874, má finna fallega lýsingu á hátíðarhöldunum. Fram kemur að Þjóðhátíð eyjaskeggia væri haldin í Herjólfsdal, þar sem Herjólfur, fyrsti landnámsmaður Vestmannaeyja, reisti sér bæ. Dalurinn, sem er á þrjá vegu luktur hamrafjöllum, 600-700 feta háum, er eins og náttúrulegt leiksvið fyrir hátíðina. Höfundur segir m.a.: ,,Hinn 2. ágúst 1874 voru saman komin í dalnum um 400 manns. Tjöld voru reist þar yfir vistum, fólk kom til að snæða og drekka kaffi, sumir tóku að dansa, en aðrir hófu söng, og sátu menn þar við góða skemmtun fram undir miðnætti. Veður var bjart og logn í dalnum, og fór hátíðin fram með góðri gleði og bestu reglu.”

Frá þessum fyrstu hátíðarhöldum hefur Þjóðhátíð í Eyjum vaxið og dafnað og stendur hátíðin í þrjá daga og inniheldur fjölbreytta dagskrá sem samanstendur af tónleikum, leiksýningum, íþróttaviðburðum og fjölskylduskemmtun. Brekkusöngurinn er einn af hápunktum hátíðarinnar en þá safnast Eyjamenn og gestir saman í söng og kveikja í bálkesti sem lýsir upp dalinn. Þjóðhátíðarlag er samið fyrir hverja hátíð og telja margir að það sé einn af lykilþáttunum í að skapa þjóðhátíðarstemmninguna. Hefðin skapaðist árið 1933 en þá orti Árni Guðmundsson úr Eyjum kvæðið Setjumst hér að sumbli og Oddgeir Kristjánsson samdi lag við textann. Oddgeir hélt svo áfram að semja þjóðhátíðarlögin nánast óslitið þar til að hann féll frá árið 1966 en þeir Árni í Eyjum, Ási í Bæ og Loftur Guðmundsson skiptust á að semja textana. Frá árinu 1969 hafa tæplega 50 manns komið að lagasmíðum og textaskrifum þjóðhátíðarlaganna. Þjóðhátíðarlagið fyrir árið 2024 heitir Töfr­ar og er samið af Hall­dóri Gunn­ari Páls­syni og Klöru Elías­dótt­ur, sungið af tónlistarkonunni Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur.

Íþróttafélögin í Vestmannaeyjum hafa haft veg og vanda af hátíðinni. Árið 1916 fór fram fyrsta Þórsþjóðhátíðin og seinna meir fóru Íþróttafélagið Þór og Knattspyrnufélagið Týr að halda hátíðina til skiptis. Týr á oddatölu og Þór á sléttri tölu. Eins og gefur að skilja, þá lögðu félögin mikinn metnað í að gera Þjóðhátíðina sem veglegasta og mikil samkeppni á milli þeirra. Í árslok 1996 voru Þór og Týr sameinuð í ÍBV og frá árinu 1997 hefur ÍBV staðið fyrir Þjóðhátíð í Herjólfsdal. Þúsundir sjálfboðaliða bera þjóðhátíðina uppi og eiga þeir allir miklar þakkir skildar.

Þjóðhátíð í Eyjum er því ekki aðeins hátíð fyrir Eyjamenn, heldur fyrir allt Ísland. Hún er tákn um samstöðu og gleði, og minnir okkur á mikilvægi þess að halda í hefðirnar okkar og njóta þeirra saman. Með hverju ári styrkist þessi einstaka hátíð og heldur áfram að vera ljósið í menningarlífi Vestmannaeyja.

Eins og fram kemur í Þjóðhátíðarlagi ársins: ,, Það eru töfrar inni í Herjólfsdal, ég skil hjartað alltaf eftir þar”. Þá efast ég ekki um að margir munu upplifa mikla töfra í Vestmannaeyjum núna um helgina.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. ágúst 2024.