Categories
Fréttir

Heilsugæsluþjónusta í Suðurnesjabæ

Deila grein

02/09/2024

Heilsugæsluþjónusta í Suðurnesjabæ

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu um opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ ásamt Guðlaugu Rakel forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) og Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra.

Markmiðið með viðbótarstarfsstöð HSS í Suðurnesjabæ er að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu í sveitarfélaginu, færa hana nær íbúum og styrkja um leið þjónustuna við íbúa. Á starfstöðinni verður í boði almenn heilsugæsluþjónusta á ákveðnum tímum. Fyrirkomulagið fellur vel að áherslum stjórnvalda um jafnt aðgengi óháð búsetu og því verkefni að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað notenda innan heilbrigðiskerfisins. Áætlað er að þjónustan á nýrri starfsstöð verði aðgengileg íbúum næsta vor.

Suðurnesjabær varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs fyrir 6 árum og er ört vaxandi sveitarfélag. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og telur íbúafjöldi í Suðurnesjabæ 4.184 íbúa. Þjónustan verður staðsett í Vörðunni, húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 í Sandgerði.

Langþráð ákvörðun og mun skipta sköpum fyrir aðgengi íbúa!

„Það er sannarlega mikið fagnaðarefni að baráttan fyrir bættri heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sé nú að skila sér í undirritun viljayfirlýsingar um rekstur heilsugæslusels í Suðurnesjabæ. Þessi ákvörðun er langþráð og mun skipta sköpum fyrir aðgengi íbúa sem hefur verið ábótavant frá því að þjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var lögð niður í sveitarfélaginu vegna fjárskorts. Álagið á heilsugæsluna í Reykjanesbæ hefur aukist verulega á undanförnum árum og því er opnun heilsugæslusels afar brýn, í næst stærsta bæjarfélagi á Suðurnesjum, til þess að færa þjónustuna nær íbúunum,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður.

Mikilvægur áfangi fyrir íbúa í Suðurnesjabæ Það er sannarlega mikið fagnaðarefni að baráttan fyrir bættri…

Posted by Jóhann Friðrik Friðriksson on Föstudagur, 30. ágúst 2024

„Þegar ég settist á Alþingi, gerði ég það að forgangsverkefni mínu að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum enda var það eitt mikilvægasta verkefnið í hugum kjósenda á svæðinu. Ég lagði áherslu á aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og lagði fram þingsályktun um heilsugæslusel í Suðurnesjabæ tvívegis. Ég fékk verulega góðan stuðning Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra auk bæjarfulltrúa flokksins í Suðurnesjabæ og bæjarstjóra sem nú er að skila árangri öllum til heilla. Frá því að ég hóf baráttu mína hefur árangurinn í heilbrigðismálum verið verulegur. Ný einkarekin heilsugæsla hóf starfsemi við Aðaltorg í Reykjanesbæ, sem hefur stórbætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á svæðinu og fengið afar jákvæðar viðtökur. Stöðin er að auki fyrsta einkarekna heilsugæslan sem starfar samkvæmt nýju fjármögnunarlíkani fyrir landsbyggðina. Það gekk ekki þrautalaust að ná fram slíkum árangri en dropinn holar steininn,“ segir Jóhann Friðrik.

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ verður að veruleika!

Anton Guðmundsson, bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ, segir „bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig höfum við átt fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Með tvo bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ, þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra er slagkraftur okkar í Framsókn mikill.“

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ verður að veruleika ✅Í dag undirritaði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra,…

Posted by Anton Guðmundsson on Föstudagur, 30. ágúst 2024
Categories
Fréttir Greinar

Gæði náms

Deila grein

02/09/2024

Gæði náms

Góður náms­ár­ang­ur er liður í því að tryggja far­sæld barna og far­sæld ein­stak­linga er mik­il­væg und­ir­staða ár­ang­urs í námi. Þess vegna verður metnaður alls starfs­fólks í skóla­kerf­inu að snú­ast um hvort tveggja; gæði náms og far­sæld.

Stefna og for­ysta stjórn­valda

Sveit­ar­fé­lög­in bera ábyrgð á skóla­starfi í leik- og grunn­skól­um en ríkið í fram­halds­skól­um og há­skól­um, engu að síður verður rík­is­valdið að axla ábyrgð á for­ystu í mennta­mál­um í sam­vinnu við hagaðila. Í þeim efn­um hafa mik­il­væg skref verið stig­in á síðustu árum og verið er að stíga enn fleiri mik­il­væg skref. Þessi vinna hef­ur í sum­ar vakið mik­il­væga þjóðfé­lagsum­ræðu um skóla­mál. Umræðan hef­ur til þessa einkum snú­ist um náms­mat en mik­il­vægt er að umræðan haldi áfram og að hún víkki út til fleiri viðfangs­efna.

Um­bóta­skref í sam­ræmi við stefnu

Mennta­stefna til árs­ins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2021, og er hún bæði byggð á alþjóðlegu sam­starfi og víðtæku sam­ráði inn­an­lands. Nú er unnið að inn­leiðingu stefn­unn­ar í sam­ræmi við fyrstu aðgerðaáætl­un­ina. Ein af aðgerðunum í inn­leiðing­unni er upp­bygg­ing heild­stæðrar skólaþjón­ustu um land allt sem styður við nám og far­sæld barna og ung­menna.

Mark­miðið er að stuðla að öfl­ugri skólaþróun með fjöl­breytt­um verk­efn­um sem kenn­ar­ar, skóla­stjórn­end­ur, annað fag­fólk og nem­end­ur hafa frum­kvæði að. Með öðrum orðum: það á að byggja upp öfl­uga stoðþjón­ustu til að styðja við starfið í skól­un­um en við meg­um aldrei missa sjón­ar á því að grunnþjón­ust­an fer fram í skól­un­um og þar þarf barnið að ná ár­angri.

Á síðasta ári samþykkti Alþingi ný lög um Miðstöð mennt­un­ar og skólaþjón­ustu og tók stofn­un­in til starfa 1. apríl sl. Miðstöðin er þjón­ustu­stofn­un með skýrt stuðnings- og sam­ræm­ing­ar­hlut­verk vegna skóla­starfs á leik-, grunn- og fram­halds­skóla­stigi og hún er í lyk­il­hlut­verki við inn­leiðingu mennta­stefnu.

Árið 2021 voru líka samþykkt lög um samþætta þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna, lög­in tóku gildi árið 2022 og áætlað er að ljúka inn­leiðingu þeirra á þrem­ur til fimm árum.

Þannig helst inn­leiðing mennta­stefnu og laga um far­sæld barna í hend­ur und­ir for­ystu mennta- og barna­málaráðuneyt­is, enda far­sæld og ár­ang­ur í námi órjúf­an­lega tengd eins og áður sagði.

Næstu skref

Kynnt hef­ur verið að í vet­ur fái Alþingi til um­fjöll­un­ar frum­vörp til laga um náms­gögn, breyt­ing­ar á ákvæðum laga um náms­mat í grunn­skól­um og frum­varp um inn­gild­andi mennt­un þar sem stefna um skólaþjón­ustu er út­færð. Einnig er áætlað að leggja fram stefnu og fram­kvæmda­áætl­un um far­sæld barna, og mun sú stefna marka ákveðin þátta­skil í inn­leiðingu far­sæld­ar­lag­anna.

Það er því al­veg ljóst að það er margt sem við þurf­um að ræða auk náms­mats­ins, s.s. náms- og kennslu­gögn fyr­ir allt mennta­kerfið, ytra og innra mat á skóla­starfi, áfram­hald­andi fjölg­un kenn­ara­nema og inn­tak náms fag­fólks sem vinn­ur með börn­um og ung­menn­um, nem­enda­lýðræði, ís­lensk­una og mennt­un barna og ung­menna með fjöl­breytt­an tungu­mála- og menn­ing­ar­bak­grunn sem og starfsþróun skóla­fólks.

Það er sann­ar­lega verið að bæta heild­ar­sýn í mennta­mál­um og stíga mik­il­væg og nauðsyn­leg fram­fara- og um­bóta­skref.

Við þurf­um að halda áfram að ræða um yf­ir­stand­andi breyt­ing­ar, mark­mið, gæði og ár­ang­ur í mennta­mál­um.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar og sit­ur í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Er ekki allt í gulu?

Deila grein

02/09/2024

Er ekki allt í gulu?

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Um er að ræða mikilvæga og árlega vitundarvakningu þar sem fjölmargir taka höndum saman og vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og sjálfsvígsforvarna. Í gulum september sameinumst við á þeirri vegferð að vekja upp von.

Gulur er litur sjálfsvígsforvarna, táknrænn fyrir þá vitundarvakningu sem á sér stað, táknar von, hlýju og birtu ásamt því að vekja upp jákvæðar tilfinningar. Slagorð mánaðarins „er ekki allt í gulu?“ vísar til samkenndar; þess að láta sig náungann varða og hlúa að geðheilsunni.

Fjölbreytt dagskrá verður í tengslum við Gulan september sem hefst með formlegri opnun í ráðhúsi Reykjavíkur. Þann 10. september er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og eru landsmenn hvattir til að taka þátt og klæðast gulu.

Lífsbrú

Margt jákvætt hefur gerst á undanförnum árum þegar kemur að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum hér á landi. Verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna vinnur með miðstöð sjálfsvígsforvarna sem ber heitið Lífsbrú. Markmið miðstöðvarinnar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.

Nafnið Lífsbrú vísar til vitundarvakningar á breiðum grunni um mikilvægi uppbyggilegs og heilbrigðs lífs, allt frá frumbernsku og leggur einnig huglæga brú yfir til þeirra sem haldnir eru sjálfsvígshugsunum; það er alltaf von.

Samhliða opnun miðstöðvarinnar var settur á laggirnar Lífsbrú-sjóður sem ætlað að byggja enn frekar undir sjálfsvígsforvarnir í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.

Uppfærð aðgerðaráætlun

Forvarnir eru viðvarandi verkefni. Starfshópur vinnur nú að því að uppfæra aðgerðaráætlun í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við lýðheilsu- og geðheilbrigðisstefnu.

Jafnframt er Ísland þátttakandi í Evrópuverkefninu ,,Joint Action ImpleMENTAL 2022-2024“ sem meðal annars snýr að innleiðingu gagnreyndra sjálfsvígsforvarna og nýtist vel í mótun framtíðarsýnar og aðgerðaráætlunar í sjálfsvígsforvörnum.

Samvinnuverkefni

Geðrækt og forvarnir eru samvinnuverkefni sem er samofið samfélaginu og snertir flesta anga þess. Þannig geta kraftar öflugs hugsjónafólks, félagasamtaka og stjórnvalda komið saman að umbótum og er Lífsbrú vettvangur slíkrar samvinnu. Framlag þessa hugsjónafólks og félagasamtaka er þakkarvert.

Ég vil hvetja sem flest til að taka þátt í gulum september og kynna sér dagskrána sem finna má á vef Embættis Landlæknis.

Við skulum stöðugt minna okkur á að það er alltaf von. Réttum út hjálparhönd, sýnum hlýju, skilning og samhug; framhald seiglu og vonar; allt í gulu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sóknar­flokkurinn tryggir heil­brigðis­þjónustu í Suðurnesjabæ

Deila grein

02/09/2024

Fram­sóknar­flokkurinn tryggir heil­brigðis­þjónustu í Suðurnesjabæ

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig höfum við átt fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Með tvo bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ, þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra er slagkraftur okkar í Framsókn mikill.

Ráðherra sem lætur verkin tala

Framsóknarflokkurinn hefur tekið mikilvægt skref í átt að því að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur unnið þrekvirki í því að efla heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.

Samtal sveitarstjórnarmanna við þingmenn og ráðherra skiptir máli

Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem sveitarstjórnarfólk, skynjum betur nærumhverfið og erum í nánari tengslum við byggðarkjarnana sem við störfum í og þarfir þeirra. Þess vegna er mikilvægt að miðla þessum upplýsingum áfram inn í landsmálin, svo að allir rói í sömu átt. Samtal við þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins hefur verið einstaklega gott, og mikill skilningur hefur verið á því að veita þessu stóra og mikilvæga málefni framgöngu. Einnig hafa Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS), og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, unnið frábæra vinnu og sett mikinn kraft í verkefnið svo það geti raungerst með skjótum hætti.

Stefna Framsóknarflokksins um heilbrigðismál undirstrikar þetta vel: „Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem hið opinbera tryggir landsmönnum jafnt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um heilbrigðiskerfið og umfram allt tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“

Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnu og frjálslyndis og er hreyfiafl framfara í samfélaginu. Þetta hefur Willum Þór heilbrigðisráðherra sýnt í verki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Getum við sparað saman?

Deila grein

31/08/2024

Getum við sparað saman?

Við erum stöðugt að velta því fyrir okkur hvar sé hægt að gera betur í ríkisrekstri og spara fjármuni. Hvar má fara betur með fjármuni almennings? Það hafa ýmsir uppi miklar hugmyndir sem þó eru settar í þann eina búning að báknið sé stöðugt að þenjast út og það þurfi að koma í veg fyrir það án nokkurra tillagna. Vissulega er umfang hins opinbera meira þegar fólki fjölgar jafn hratt og verið hefur undanfarin ár. Það sést best á auknu álagi á heilbrigðis- og velferðarkerfi þjóðarinnar, auknum starfsmannafjölda á öllum skólastigum og svo framvegis. Ég held samt sem áður að víða sé hægt að gera betur og hef m.a. á síðustu árum lagt fram tillögu þess efnis.

Aukið samstarf og sameiningar opinberra stofnana og fyrirtækja

Á liðnum þingum hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Það er rétt að fara stuttlega yfir innihalda tillögunnar því á yfirskrift hennar mætti gera ráð fyrir að hér væri á ferð tillaga þess efnis að setja á fót nýja stofnun, þá til viðbótar við þær fjölmörgu sem nú þegar eru til staðar; sem margar eru tiltölulega litlar. En þvert á móti er hér um að ræða tillögu þess efnis að stjórnvöldum verði falið að koma opinberum stofnum og fyrirtækjum fyrir á sama stað (undir einu þaki) til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Hér má nýta hugmyndafræði klasasamstarfs, sem farið hefur vaxandi á undanförnum árum, til að efla samvinnu og samstarf opinberra stofnana og fyrirtækja ásamt því að ná fram hagræðingu. Síðast en ekki síst að færa núverandi ástand til betri vegar. Hin augljósa hagræðing og þau samlegðaráhrif sem myndu nást fram væru til að mynda með sameiginlegum rekstri tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis og betri nýtingu mannauðs. Í mínum huga er hér algjörlega vannýtt dauðafæri til að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum með sameiningu og auknu samstarfi opinberra stofnana og fyrirtækja.

Samgöngu- og umhverfismál

Skynsamlegast væri að staðsetja slíka klasa þar sem umferðarmannvirki nýtast betur, í þeim skilningi að umferð verði vísað í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga snemma morguns og síðdegis. Hver kannast ekki við það ástand? Þá er rétt að horfa til staðsetningar þar sem finna má hágæðaalmenningssamgöngur. Þannig nýtast umferðarmannvirki vel og við minnkum álag og spörum tíma fólks. Hér er því ekki bara um almenna hagræðingu að ræða, eða stórt samgönguverkefni, heldur einnig mikilvægt innlegg í umhverfismálin. Talandi um dauðafæri, þá væri það í raun sjálfsmark ef Alþingi samþykkir ekki tillögu sem þessa.

Í lokin er rétt að nefna að ég hef tekið vel í allar tillögur sem miða að sama markmiði og hér er farið yfir. Þær hafa hins vegar verið of fáar og of litlar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á­fengið innan seilingar

Deila grein

31/08/2024

Á­fengið innan seilingar

Coca Cola, eitt verðmætasta vörumerki heims um áratuga skeið, náði framúrskarandi árangri með ákaflega einfaldri hugmyndafræði. Ofuráhersla á dreifingu, að vera ætíð innan seilingar (e. within arm‘s reach). Við þekkjum þetta frá sjálfsölum, þegar við ferðumst um heiminn og hvert sem litið er má sjá vörur þeirra, en einnig hér heima á Íslandi þegar við förum í verslanir, sjoppur, bensínstöðvar, sundlaugar og svo framvegis. Að margra mati er þetta einhver árangursríkasta áhersla í sögu markaðsmála, enda árangur Coca Cola óumdeildur. Fyrirtækið er nú verðmetið á ríflega 43 þúsund milljarða króna.

Lögmálin

Þegar kemur að árangri í sölu á vörum er í megin atriðum fernt sem máli skiptir. Varan sjálf og eiginleikar hennar, verðið, kynningar- og markaðsstarf og dreifing. Þetta er þaulrannsakað og litið á sem lögmál í markaðsfræðum. Áherslur Coca Cola komu upp í huga undirritaðs í tengslum við umræðu um sölu og dreifingu á áfengi í Íslandi. Sögu Coca Cola og lögmál markaðsfræðinnar þekkja auðvitað hagsmunaöfl sem vilja auka aðgengi og dreifingu á áfengi þó oft sé leitast við í umræðunni að skauta fram hjá þeirri staðreynd og því slegið fram að hér sé um einhvers konar mannréttindi að ræða. Að frelsið standi og falli með auknu aðgengi að áfengi sem nú þegar er all nokkuð og að þetta skipti í raun engu máli. Þá er því gjarnan slegið fram að takmörkun á aðgengi og dreifingu sé tímaskekkja og gamaldags, en því fer sannarlega fjarri, enda dreifing eitt allra mikilvægasta verkfærið þegar kemur að sölu á vörum. Það lögmál stendur og hefur ekkert breyst.

Íslenska forvarnamódelið

Um árabil hefur hér á landi ríkt fyrirkomulag og stefna sem byggir á því að virkja allt samfélagið með forvörnum, takmörkuðu aðgengi og stýringu í gegnum ÁTVR. Það fyrirkomulag, sem aðrar þjóðir líta öfundaraugum, hefur tryggt okkur einhverja bestu stöðu í heimi þegar kemur að áfengisneyslu, ekki síst meðal ungmenna. Ástæður þess hafa verið tíundaðar í fjölda greina meðal annars eftir heilbrigðisráðherra og sérfræðinga á sviði forvarna og óþarft að fara nánar út í hér, en það er ekki tilviljun að hvergi bólar á aðilum sem koma að heilbrigðismálum eða félagasamtökum á sviði heilbrigðismála sem tala fyrir auknu aðgengi og þar með aukinni neyslu á áfengi.

Þegar allt kemur til alls

Þegar allt kemur til alls er málið í raun einfalt. Baráttan um aukið aðgengi og dreifingu á áfengi snýst aðeins um hagsmuni. Annars vegar er um að ræða hagsmuni samfélagsins, kostnað sem leggst á samfélagið vegna áfengisneyslu og harm sem áfengisneysla veldur og við þekkjum svo mörg. Hins vegar eru þarna undir gífurlegir einkahagsmunir aðila sem sjá hag í því að auka dreifingu og þar með neyslu á áfengi. Við þurfum einfaldlega að velta því fyrir okkur hvort við viljum verja það fyrirkomulag sem reynst hefur vel og skipað okkur í fremstu röð meðal þjóða í þessum málaflokki, eða láta undan einkahagsmunum og talsmönnum þeirra.

Helgi Héðinsson, markaðsfræðingur og framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðheilsuhugsjónin

Deila grein

30/08/2024

Lýðheilsuhugsjónin

Varhugaverð þróun hefur átt sér stað undanfarin misseri í sölu og afhendingu áfengis hér á landi í formi netsölu. Um einkasölufyrirkomulag með áfengi á smásölustigi gilda lög. Markmið þeirra er að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist m.a. á bættri lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks.

Fyrr í sumar sendi undirritaður bréf, til fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með framkvæmd laga um verslun með áfengi og tóbak (afrit á dómsmálaráðherra), til þess að vekja máls á markmiðsákvæðum laganna, stefnu ríkisstjórnarinnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ásamt því að koma áfram ákalli félagasamtaka, heilbrigðisstétta og breiðfylkingu foreldrasamtaka um aðgerðir í þágu lýðheilsu.

Íslenska forvarnarmódelið

Síðustu áratugi hefur hér á landi verið unnið öflugt forvarnarstarf á sviði áfengis og tóbaksforvarna sem kallað er íslenska módelið. Meginmarkmið íslenska forvarnarmódelsins er að ná að virkja allt samfélagið í baráttunni gegn vímuefnum með samvinnu og verndandi þáttum. Okkur tókst, í samvinnu fjölmargra aðila sem starfa í nærumhverfi barna og með þátttöku ungmenna, foreldra og forráðamanna, að byggja undir fjölmarga verndandi þætti í umhverfi ungmenna sem rannsóknir sýna að hafi jákvæð og verndandi áhrif og draga þannig úr áhættuhegðun.

Árangur okkar í áfengis-, vímuefna- og reykingaforvörnum ungmenna hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og þar er aðgangsstýring sterkasta vopnið. Þennan árangur megum við ekki gefa eftir því í honum felast ómæld verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Íslenska forvarnarmódelið er ekki tímabundið átaksverkefni eða afmörkuð aðgerð heldur er það samofið samfélaginu og þeim viðhorfum sem við höfum tileinkað okkur.

Íslensku samfélagi hefur, umfram flestar aðrar þjóðir, tekist að viðhalda einkasölufyrirkomulagi ríkisins á áfengi og hefur það sett okkur í öfundsverða stöðu. Fyrirkomulagið byggir á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felast í að takmarka aðgengi og draga þannig úr skaða af völdum neyslu áfengis. Í lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra kemur skýrt fram að það fyrirkomulag netverslana sem þróast hefur hér á landi síðustu misseri sé í andstöðu við lög.

Ákall samfélagsins

Ákall samfélagsins um viðbrögð stjórnvalda er skýrt. Áskoranir hafa borist stjórnvöldum frá fjölmörgum fagfélögum og samtökum sem hafa látið þetta mikilvæga mál sig varða. Nú síðast hafa á annan tug félaga innan heilbrigðisstétta á Íslandi skorað á ríkisstjórnina að skera úr um lögmæti netsölu, fylgja eftir markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi og hvika ekki frá gildandi lýðheilsustefnu til ársins 2030.

Læknafélag Íslands hefur sent frá sér áskorun til alþingismanna um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka skaða af áfengisneyslu og tekur fram að þar sé stýring á aðgengi að áfengi sterkasta vopnið. Í áskorun félagsins er einnig tekið fram að aukið aðgengi að áfengi, eins og netverslun og heimsending, sé til þess fallið að valda enn meiri skaða í samfélaginu.

Þá hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorað á bæði Alþingi að standa vörð um lýðheilsustefnu og heilbrigðisstefnu til 2030 og hvatt ríkisstjórnina til að halda sig við lýðheilsumarkmið stjórnarsáttmálans og standa þannig með heilsu og velferð þjóðarinnar. Sömu sögu er að segja af Félagi lýðheilsufræðinga sem hvetur alla alþingismenn til að standa vörð um lýðheilsu.

Breiðfylking foreldrasamtaka hefur barist ötullega fyrir því að brugðist verði við þessari þróun og hafa jafnframt skorað á alþingismenn að standa vörð um einkasölu ríkisins á áfengi.

Verjum góðan árangur

Það verða alltaf sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar að leggja aukna áherslu á lýðheilsu og forvarnir. Rannsóknir á sviði lýðheilsumála hafa sýnt að takmarkanir á aðgengi að áfengi eru meðal öflugustu forvarnaraðgerða sem við eigum og hefur verið staðfest að þær hafa áhrif til að draga úr neyslu áfengis.

Verjum þann góða árangur sem við höfum náð og viðhöldum því einkasölufyrirkomulagi sem reynst hefur vel. Brýnt er að herða framkvæmd gildandi reglna með það að markmiði að snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað varðandi aðgengi að áfengi. Sama hvernig á það er litið, þá hlýtur lýðheilsa þjóðarinnar að vega mun þyngra en verslunarfrelsi og markaðsvæðing EES á áfengissölu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. ágúst 2024.

Categories
Fréttir

Seljum auðlindir ekki frá okkur!

Deila grein

29/08/2024

Seljum auðlindir ekki frá okkur!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir lagaumgjörð um jarðir og auðlindir grundvallarmál sem verði að vera sífellt á dagskrá. „Mikil ásókn er í auðlindir á landi og mikilvægt að við seljum þær ekki frá okkur. Komandi kynslóðir eiga að erfa land sem er vel búið til sjálfbærrar nýtingar og verðmætasköpunar.“

  1. Jarðir þurfa að vera í eigu fólks sem býr á Íslandi.
  2. Það þarf að tryggja að landið sem hentar best til matvælaframleiðslu verði ekki tekið í annað.
  3. Það þarf að tryggja að þeir sem vilja búa í dreifbýlinu og byggja sína afkomu á landnýtingu njóti forgangs að landi.

Hvað verði að gera að mati Líneikar Önnu er: „að skapa umhverfi sem styður miklu betur við nýliðun og ættliðaskipti á bújörðum og styðja við verkefni bænda um kolefnisbindingu. Bændur verði að geta nýtt hluta af sínu landi til kolefnisbindingar ef það hentar með öðrum búskap.“

Jafnframt segir Líneik Anna að meta verði árangur af breytingunum á jarðalögum sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili og að halda verði áfram vinnu við að skilgreina það land sem best hentar til matvælaframleiðslu.

Jarðir – (af gefnu tilefni) 1. Jarðir þurfa að vera í eigu fólks sem býr á Íslandi. 2. Það þarf að tryggja að…

Posted by Líneik Anna Sævarsdóttir Alþingismaður on Miðvikudagur, 28. ágúst 2024
Categories
Fréttir Greinar

Höfuðborg full af menningu

Deila grein

24/08/2024

Höfuðborg full af menningu

Haldið er upp á það í dag að Reykja­vík­ur­borg fékk kaupstaðarrétt­indi hinn 18. ág­úst 1786. Af því til­efni er venju sam­kvæmt blásið til Menn­ing­ar­næt­ur í Reykja­vík þar sem ís­lensk menn­ing í víðum skiln­ingi fær notið sín fyr­ir aug­um og eyr­um gesta. Í hug­um margra mark­ar Menn­ing­arnótt enda­lok sum­ars­ins og þar með upp­haf hausts­ins sem von­andi verður okk­ur öll­um gæfu­ríkt. Eitt af því sem er­lend­ir gest­ir nefna við mig í sam­töl­um um Ísland er hversu blóm­legt menn­ing­ar­líf fyr­ir­finnst í Reykja­vík. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér eins og við vit­um. Um ald­ir hafa Íslend­ing­ar verið fram­sýn­ir þegar kem­ur að því að styðja við lista­menn og búa menn­ing­unni sterka um­gjörð til þess að vaxa og dafna. Með hverju ár­inu sem líður njót­um við rík­ari ávaxta af þeirri stefnu, með hverj­um lista­mann­in­um sem stíg­ur fram á sjón­ar­sviðið og fang­ar at­hygli okk­ar sem hér búum, en ekki síður um­heims­ins.

Ragn­ar Kjart­ans­son, Lauf­ey, Björk, Kal­eo, Hild­ur Guðna­dótt­ir, Vík­ing­ur Heiðar og Of Mon­sters and Men hafa til dæm­is getið sér stór­gott orð er­lend­is og rutt braut­ina fyr­ir ís­lenska menn­ingu í heim­in­um. Okk­ur Íslend­ing­um leiðist ekki að fagna vel­gengni okk­ar fólks á er­lendri grundu. Árang­ur sem þessi sam­ein­ar okk­ur og fyll­ir okk­ur stolti. Fyrr­nefnd­ir lista­menn eiga það sam­merkt að hafa sprottið upp úr frjó­um jarðvegi lista- og menn­ing­ar sem hlúð hef­ur verið að ára­tug eft­ir ára­tug hér á landi. Á Menn­ing­arnótt í Reykja­vík gefst fólki kost­ur á að kynna sér þá miklu grósku sem grasrót menn­ing­ar­lífs hér á landi hef­ur upp á að bjóða. Mynd­list og tónlist, hönn­un og arki­tekt­úr, sviðslist­ir og bók­mennt­ir – það geta all­ir fundið eitt­hvað við sitt hæfi.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið veiga­mik­il skref á þeirri veg­ferð að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­lífs­ins í land­inu enn frek­ar. Nýtt ráðuneyti þar sem menn­ing­ar­mál fengu aukið vægi varð loks­ins að veru­leika, stefn­ur og al­vöruaðgerðir til að styðja við hin ýmsu list­form hafa raun­gerst – og fleiri slík­ar eru á leiðinni. Ný tón­list­armiðstöð og ný sviðlistamiðstöð sem hafa tekið til starfa, unnið hef­ur verið að upp­bygg­ingu menn­ing­ar­húsa á lands­byggðinni, fjölg­un lista­manna­launa og auk­inn stuðning­ur við kynn­ingu á ís­lenskri menn­ingu hér­lend­is og er­lend­is eru aðeins örfá dæmi um það sem hef­ur verið áorkað. List­inn er lang­ur. Menn­ing­arnótt er eitt af þeim sviðum þar sem afrakst­ur vinn­unn­ar brýst fram og fram­kall­ar gleði og eft­ir­minni­leg­ar stund­ir hjá fólki. Ég óska Reyk­vík­ing­um og gest­um þeirra gleðilegr­ar Menn­ing­ar­næt­ur og hvet sem flesta til þess að mæta og taka þátt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.

Categories
Greinar

Mikil­vægi þess að taka hús­næðis­liðinn úr neyslu­vísi­tölunni

Deila grein

23/08/2024

Mikil­vægi þess að taka hús­næðis­liðinn úr neyslu­vísi­tölunni

Vísitala neysluverðs (VNV) er ein af mikilvægustu mælieiningum sem notuð er til að meta verðlagsbreytingar á Íslandi. Vísitalan hefur bein áhrif á fjármál heimilanna, til dæmis með því að hafa áhrif á verðtryggðar skuldir og húsnæðislán. VNV inniheldur ýmsa þætti, þar á meðal verðlag á hrávöru og húsnæði. Húsnæðisverð hefur undanfarið haft mikið vægi í vísitölunni vegna verulegra verðhækkana á fasteignamarkaði, sem stafar að miklu leyti af mikilli umframeftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Þessar hækkanir hafa kynt undir verðbólgu, sem stendur nú í 6,3%.

Verðbólguhvetjandi þáttur

Þar sem húsnæðisverð hefur svo mikil áhrif á VNV, verður það sjálfkrafa verðbólgu hvetjandi þáttur. Þegar húsnæðisliðurinn hækkar, hækkar vísitalan í heild sinni, sem aftur hækkar verðtryggðar skuldir heimila. Þetta býr til vítahring þar sem verðbólga kallar á hærri afborganir, sem gerir fjárhag heimila enn erfiðari.

Það er því mikilvægt að Alþingi taki málið til skoðunar og setji á dagskrá að fjarlægja húsnæðisliðinn úr VNV. Með því að gera það væri unnt að ná fram skýrari mynd af raunverulegum verðlagsbreytingum sem hafa ekki tengsl við fasteignamarkaðinn. Þetta gæti dregið úr áhrifum húsnæðisverðs á verðbólgu og létt á fjárhag heimila með verðtryggð lán.

Húsnæðisverð á ekki að vera drifkraftur verðbólgu

Húsnæðisverð á ekki að vera drifkraftur verðbólgu, og því er nauðsynlegt að endurskoða samsetningu neysluvísitölunnar til að tryggja að hún endurspegli betur raunverulegt verðlag í landinu. Með því að taka húsnæðisliðinn úr VNV gæti verið mögulegt að ná fram stöðugra efnahagsumhverfi, sem er hagstætt fyrir bæði heimili og fyrirtæki. Alþingi ber ábyrgð á því að taka skref í þessa átt og tryggja sanngjarnt og stöðugt efnahagskerfi.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. ágúst 2024.