Categories
Fréttir

Munum bregðast við hratt og örugglega!

Deila grein

12/12/2019

Munum bregðast við hratt og örugglega!

Sigurður Ingi Jóhannssonsamgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í dag að ríkisstjórnin muni ræða atburði síðustu daga á fundi sínum á morgun föstudag. Sigurður Ingi minnir á hvað maðurinn eigi sér lítils gagnvart náttúruöflunum. Óveðrið sem gekk yfir landið dró fram veikleika í kerfum okkar sem verði að bregðast við hratt og örugglega.
„Við verðum að fara vel yfir þann viðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi, bæði hvað varðar raforkukerfið, þjónustulið Vegagerðarinnar og öryggi fjarskiptakerfisins. Það er hagsmunamál landsins alls en ekki síður stórkostlegt lífsgæðamál fyrir íbúa byggðanna,“ segir Sigurður Ingi.
„Ég mun sem byggðamálaráðherra leggja alla áherslu á að allir íbúar landsins búi við öryggi.“

Categories
Greinar

Endurreisn vegakerfisins

Deila grein

12/12/2019

Endurreisn vegakerfisins

Þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum er gríðarmikil. Vegagerðin áætlar að nauðsynlegt sé að fara í um 200 verkefni næstu 25 árin og eru þær framkvæmdir alls metnar á yfir 400 milljarða króna. Í síðustu viku lagði ég fram á Alþingi uppfærða samgönguáætlun. Í henni eru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin og framkvæmdum, sem í heild eru metnar á 214 milljarða króna, er flýtt.

Til að ná enn meiri árangri er gert ráð fyrir að sértækar framkvæmdir verði fjármagnaðar sem samvinnuverkefni, sbr. Hvalfjarðargangamódel. Slík verkefni mynda sterkan hvata til nýsköpunar sem getur lækkað kostnað og stytt framkvæmdatíma. Þau eru þjóðhagslega arðbær. Sex verkefni hafa verið talin fýsileg í þeim efnum og eru til umfjöllunar í sérstöku frumvarpi um samvinnuverkefni (PPP), þ.m.t. ný Ölfusárbrú (2022) og nýr vegur um Öxi (2021).

Ný samgönguáætlun boðar byltingu í uppbyggingu og viðhaldi miðað við síðustu ár. Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að að lágmarki 120 milljarðar fari til vegaframkvæmda, eða um þriðjungur þess sem þarf til nauðsynlegra framkvæmda. Loksins verður hægt að endurreisa vegakerfið og tryggja viðunandi viðhald svo tryggja megi örugga og greiða umferð með áherslu á tengingu á milli byggða. Viðhald á vegum verður aukið í takt við meiri umferð og lagt verður bundið slitlag á 400-450 km á tengivegi. Gaman er að segja frá því að Vatnsnesvegur er nú loksins kominn á áætlun eftir umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda.

Í lok tímabils samgönguáætlunar verða umferðarmestu vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskildar akstursstefnur. Það gildir um Vesturlandsveg fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og á Reykjanesbraut að flugstöðinni. Unnið er að því að finna leiðir til að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut enn frekar, einum umferðarmesta þjóðvegi landsins. Þar eru óleyst skipulagsmál við Straumsvík en Vegagerðin telur að framkvæmdir þar fari í útboð í lok árs 2022. Þá verður jarðgöngum á Austurlandi flýtt og næstu skref að Sundabraut kynnt fljótlega.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. desember 2019.

Categories
Fréttir

Grafalvarleg staða víða um land

Deila grein

11/12/2019

Grafalvarleg staða víða um land

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir grafalvarlega stöðu víða um land, rafmagnsleysi, fjarskiptaleysi, illfærð á vegum og veðurhæð mikil. Það bætti ekki úr skák að það sé óvenjuleg veðurhæð, mikil ofankoma og hitastigið hefur unnið allt saman með að gera ástandið alvarlega, sérstaklega fyrir flutningslínu rafmagns. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Í Skagafirði hefur verið rafmagnslaust í sólarhring. Skagfirðingar hafa barist fyrir styrkingu flutningsleiða sem myndi jafnvel mæta þessum vanda að nokkur leiti.
„Rafmagnslaust hefur verið á Sauðárkróki og víðar í sólarhring. Keyrt hefur verið á varaafli alveg síðan þá. „Auðvitað hefur þetta truflað björgunarstörf en þetta hefur ekki truflað þau þannig að þetta hafi hamlað okkur að stóru leyti, ekki enn. Viðbragðsaðilar hér hafa getað verið í sambandi sín í milli en samskiptin út hafa ekki verið með þeim hætti sem þau eiga að vera.“

Categories
Fréttir

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

Deila grein

11/12/2019

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

„Þann 10. desember ár hvert er degi mannréttinda fagnað um allan heim. Dagsetningin miðast við það þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var með mannréttindayfirlýsingu 10. desember 1948 og er þar á ferð fyrsta alþjóðlega skýringin á mannréttindum í heiminum, sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Mannréttindi eru grundvallaratriði sem allir einstaklingar hafa óháð þjóðerni, búsetu, kyni, tungumálum, litarhætti, trúarbrögðum, kynhneigð, kynvitund eða annarri stöðu. Mannréttindi hafa verið skilgreind í alþjóðasamningum, svæðisbundnum samningnum og í landsrétti flestra ríkja. Þau fela í sér alþjóðlega samþykktar kröfur til ríkja um að vernda mannhelgi borgara sinna.“

„Sem fyrr skorar Ísland hátt á flestum alþjóðlegum samanburðarlistum yfir stöðu mannréttinda en það þýðir ekki að slá slöku við því að sífellt má gera betur á því sviði. Mannréttindi eru ekki fullkomin hér frekar en nokkurs staðar annars staðar. Við eigum að halda umræðu um þau á lofti, velta upp spurningum um hvar megi gera betur, hvar megi draga lærdóm, hvert hlutverk okkar sem smáþjóðar á alþjóðavettvangi sé o.s.frv.
Virðingarleysi fyrir mannréttindum hefur leitt af sér djúpstæðan vanda sem erfitt er að kljást við, t.d. í þróunarríkjunum, og nefni ég sérstaklega fátækt, misskiptingu auðs og spillingu. Virðing fyrir mannréttindum er forsenda þess að hægt sé að færa hlutina til betri vegar til frambúðar.“

„Ég vek því athygli á viðburðum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands sem fram fóru í morgun í tilefni dagsins þar sem m.a. þessum málefnum var velt upp. Kjörtímabili Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fer senn að ljúka og munum að á vettvangi þess getum við sem lítið ríki haft mikil áhrif,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Ísland er grasræktarland

Deila grein

11/12/2019

Ísland er grasræktarland

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði „nú þegar vindurinn æðir yfir landið er veruleg hætta á jarðvegsfoki þar sem land er ekki hulið snjó. Þegar jarðvegur sem inniheldur lífrænt efni fýkur tapast mikið kolefni út í andrúmsloftið. Á degi jarðvegs 5. desember sl. stóðu bændur og stofnanir sem sinna moldinni fyrir góðum fundi. Þar var skýrt dregið fram hversu mikið verkefni við eigum fyrir höndum við að vernda mólendi landsins.“ Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins í gær.
„Með því að styrkja og auka gróðurþekju mólendis er bæði hægt að binda meira kolefni í gróðri og koma í veg fyrir að kolefni þyrlist út í andrúmsloftið í veðrum eins og í dag. Þeir sem standa í framkvæmdum eða ræktun þurfa líka að gæta þess að jarðvegur standi eins stutt opinn og mögulegt er,“ sagði Líneik Anna.

„Mikið kolefni er á hverjum tíma bundið í lífverum jarðar í hringrás náttúrunnar. Öll matvara er unnin úr lífverum sem eru hluti af hringrásinni og við ræktun matvæla er kolefni því í stöðugri hringrás.“

„Áskorun okkar er að tryggja að við matvælaframleiðsluna, vinnsluna og neysluna tapist kolefni ekki beint út í andrúmsloftið og þannig úr hringrásinni, heldur að sem allra mest af hráefninu nýtist til neyslu og það sem ekki nýtist fari beint inn í hringrásina aftur eða bindist í jarðvegi. Þá þarf að gæta að kolefnisfótspori við alla umsýslu, ræktun, meðhöndlun og flutning matvæla.

Í allri umræðu um loftslagsmál og í samhengi við val á matvælum til neyslu verður því að horfa á næringarefnahringrásina og framleiðslumöguleika í hverju landi fyrir sig sem og framleiðsluhætti. Ísland er grasræktarland og við getum verið og orðið sjálfum okkur nóg í framtíðinni um matvöru að mestu leyti; kjöt, fisk og grænmeti.

Við eigum að einbeita okkur að því að framleiða með eins litlu vistspori og mögulegt er. Liður í því er að gæta moldarinnar,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Forvarnagildi íþrótta, tómstunda eða æskulýðsstarfs óumdeilt

Deila grein

11/12/2019

Forvarnagildi íþrótta, tómstunda eða æskulýðsstarfs óumdeilt

„Það er óumdeilt að skipulagt starf barna og unglinga, hvort sem við erum að tala um íþróttir, tómstundir eða æskulýðsstarf, hefur gífurlega mikið forvarnagildi, bæði hvað varðar hinn líkamlega þátt en þó ekki síður andlega og félagslega þætti,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.

„Rannsóknir í þessum efnum sýna að umgjörðin skiptir miklu máli, að umgjörðin byggi jafnvel á föstum grunni. Þá er ég ekki einvörðungu að tala um mannvirki heldur að umgjörðin hafi verið til staðar í einhvern tíma þar sem eru reglur og hefðir, faglegar kröfur, metnaður og agi og utanumhald sem tryggja enn frekar faglega nálgun og styrkja þá tilfinningu þátttakenda að tilheyra skipulögðum hópi.“

„Hér á landi er reyndar einstakt starf unnið í skipulögðu starfi barna og unglinga í íþróttum og á fleiri sviðum. Framboðið er mikið og þátttaka foreldra er alltaf að verða meiri. Okkur hefur tekist vel til þar en við getum gert betur í að styðja við allt það sjálfboðaliðastarf sem að þessu stendur. Við vitum jafnframt að forvarnir snúa að fleiri þáttum, virðulegi forseti, og lýðheilsutengdar forvarnir spyrja heldur ekki um aldur. Þá erum við að tala um almenna heilsu og forvarnir gegn lífsstílstengdum sjúkdómum.
Því hef ég lagt fram á þessu þingi tillögu sem snýr að þjóðarátaki í lýðheilsutengdum forvörnum,“ sagði Willum Þór.

Categories
Greinar

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Deila grein

10/12/2019

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast ekki breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Sveitarstjórnar fólk má ekki vera ákvarðanafælið og óttast að styggja þá sem vilja toga í tauminn þegar framtíðin eru rædd. Til að hægt sé að taka ábyrgar ákvarðanir inn í framtíðina þarf langtímasýn að liggja fyrir.

Í þeirri framkvæmdaáætlun sem nú liggur fyrir til afgreiðslu með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til næstu 4 ára er gert ráð fyrir 550 milljónum í skólahúsnæði og er það viðbót við milljarð sem þegar hefur verið framkvæmt fyrir síðust 2-3 ár. Þrátt fyrir það liggur enginn áætlun fyrir hjá meirihluta sveitarstjórnar um framtíðarskipulag skólamála í sveitarfélaginu. Nú liggur fyrir mat hönnuða um að húsnæði Grunnskólans á Kleppjárnsreykjum sé það illa farið að hagkvæmast sé að rífa það og byggja nýtt skólahúsnæði. En áætlanir hafa legið uppi síðust ár um að fara í nauðsynlegar endurbætur á grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum. Kostnaðaráætlanir síðustu tveggja ára í framkvæmdaáætlun hafa farið langt fram úr öllu áætlunum, skortur er á aðhaldi og yfirsýn og útlit fyrir að sveitarfélagið sé komið langleiðina með efni í nýtt „Braggamál“ hér í Borgarbyggð.

Enginn áætlun eða framtíðarsýn hefur verið lögð fram af meirihluta sveitarstjórnar um nýtingu eigna sveitarfélagsins. En næstum allar eignir sveitarfélagsins hafa verið í mikilli viðhaldsþörf síðust ár.  Mikill tími, fjármagn og orka hefur farið í það síðustu ár að stofna vinnuhópa sem hafa skilað af sér ágætum skýrslum um nýtingu húsnæðis í eigu sveitarfélagsins og eru hópar starfandi í dag í tengslum við skipulag leikskólamála og framtíðarskipulag íþróttahússins í Borgarnesi. Ljóst er að núverandi meirihluta skortir sameiginlega sýn á framtíðina og því dettur botninn sífellt úr umræðunni þegar kemur að þeim hluta að taka ákvarðanir. Þrátt fyrir að íbúar hafi haft aðkomu að öllum vinnuhópum og skýrslum síðustu ár hefur það engu breytt um ákvarðanatökufælni meirihlutans.

Sveitarstjórnar fulltrúar meirihlutans forðast allar umræður sem krefjast niðurstöðu um langtímasýn þar sem ljóst er að þverpólitískt samkomulag næst ekki um málefni er snerta hagsmuni sveitarfélagsins til framtíðar. Þau hafa nýtt tímann vel frá síðustu kosningu til að þakka sjálfum sér fyrir jákvæða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, sem helgast eingöngu af jákvæðum hagrænum áhrifum sem auknar útsvarstekjur og aukið framlag úr jöfnunarsjóði hafa haft síðustu ár, ásamt því að klappa sér á bakið fyrir þau verkefni sem var unnið að á síðasta kjörtímabili eins og undirbúning að byggingu skólahúsnæðis Grunnskóla Borgarnes, nýtt deiliskipulag og ljósleiðaraverkefnið svo eitthvað sé nefnt.  Ég óttast að ekkert af þeim fjölmörgu málum sem legið hafa í loftinu ókláruð síðustu ár verði afgreidd á þessu kjörtímabili, tækifæri til uppbyggingar verði ekki nýtt og engar ákvarðanir teknar sem koma okkur á braut vaxtar fyrir sveitarfélagið. Meirihlutanum hefur ekki enn þá tekist að fanga nema lítið brot af þeim ágætu málum sem þau settu fram í málefnasamning sínum árið 2018. Á meðan engin sýn er til staðar og engin geta og eldmóður til þess að leiða verkefni áfram og klára dæmið munum við fylgjast með tekjum sveitarfélagsins ausið stefnulaust.

Við fulltrúar framsóknarflokksins í sveitarstjórn erum orðin langþreytt á að sitja fundi þar sem mikið er talað vilja til móta stefnu um hin ýmsu mál en ekkert gerist. Fyrirtækjum er ekki að fjölga, engin áform um uppbyggingu leiguhúsnæðis og engar framkvæmdir í gangi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir alþingi um styrkingu sveitarstjórnarstigsins kalla enn fremur á það að sýn sveitarstjórnarfulltrúa sé skýr á heildarhagsmuni. Tillögur sveitarstjórnarráðherra fela í sér tækifæri til styrkingar á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga ásamt því að hafa jákvæð áhrif á styrk sveitarfélaganna til að takast á við þróun og eflingu á hverju svæði. Við sveitarstjórnarmenn þurfum einnig að móta okkur sýn í tengslum við þær tillögur sem liggja fyrir í samráði við íbúa.

Við getum sem sveitarfélag hvar sem landfræðileg mörk okkar munu liggja á næstu árum  verið í fremstu röð. Mikilvægt er að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til að hagræða og framsýni sé viðhöfð í takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Það er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Verum ábyrg, á tánum, full af eldmóði og óhrædd við það að vera framsækin.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.

 

Categories
Greinar

Hugarfar framtíðarinnar

Deila grein

09/12/2019

Hugarfar framtíðarinnar

Í fram­haldi af niður­stöðum alþjóðlegra könn­un­ar­prófa Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. PISA) sem kynnt­ar voru í vik­unni hef ég kynnt aðgerðir sem miða að því að efla mennta­kerfið, ekki síst með auk­inni áherslu á námsorðaforða og starfsþróun kenn­ara. Þær aðgerðir verða út­færðar í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, sveit­ar­fé­lög­in og heim­il­in í land­inu. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni okk­ar allra að bæta læsi en það verk­efni snýr að tungu­máli okk­ar og menn­ingu.

Mennt­a­rann­sókn­ir sýna að ár­ang­ur í próf­um eins og PISA ræðst fyrst og fremst af færni nem­enda í rök­hugs­un og hæfi­leik­an­um til að nýta sér þekk­ingu sína til að meta og túlka texta. Góður málskiln­ing­ur og orðaforði er for­senda þess að nem­end­ur geti til­einkað sér þann hæfi­leika. Rann­sókn­ir benda til þess að orðaforði og orðskiln­ing­ur ís­lenskra barna hafi minnkað á und­an­förn­um árum og því verðum við að mæta. Niður­stöður PISA-próf­anna segja okk­ur að við get­um gert bet­ur. Ég trúi því að við get­um það með góðri sam­vinnu, eft­ir­fylgni og aðgerðum sem skilað hafa ár­angri í ná­granna­lönd­um okk­ar.

PISA-próf­in mæla fleira en lesskiln­ing og stærðfræði- og nátt­úru­læsi. Auk skýrslu með niður­stöðum próf­anna birt­ir Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­in (e. OECD) fleiri gögn sem varpa ljósi á stöðu mennta­kerf­is­ins út frá viðhorf­um, líðan og fé­lags­legri stöðu nem­enda og eru þær niður­stöður ekki síður fróðleg­ar. Sú töl­fræði bend­ir meðal ann­ars til þess að færri ís­lensk­ir nem­end­ur búi við einelti en nem­end­ur gera að meðaltali í sam­an­b­urðarlönd­um OECD og að hærra hlut­fall þeirra sé ánægt með líf sitt. Þá sýna þær niður­stöður að 73% ís­lensku nem­end­anna sem svöruðu PISA-könn­un­inni sl. vor séu með vaxt­ar­viðhorf (e. growth mind­set), það er að þau trúa því að með vinnu­semi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum geti þau þróað hæfni sína og getu. Þetta hlut­fall er tíu pró­sentu­stig­um hærra hér á landi en meðaltal í OECD-ríkj­un­um. Niður­stöður PISA sýna að slík­ir nem­end­ur hafa sterk­ari hvöt til þess að ná góðum tök­um á verk­efn­um, meiri trú á getu sinni, setji sér metnaðarfyllri mark­mið, leggi meira upp úr mik­il­vægi mennt­un­ar og séu lík­legri til þess að klára há­skóla­nám.

Þetta vaxt­ar­hug­ar­far er afar dýr­mætt því rann­sókn­ir sýna að viðhorf til eig­in getu og vits­muna ræður miklu um ár­ang­ur. Þeir nem­end­ur sem telja að hæfi­leik­ar þeirra og hæfni sé föst stærð eru þannig lík­legri til þess að gef­ast upp á flókn­ari verk­efn­um og vilja forðast erfiðleika og áskor­an­ir. Ég kalla þetta hug­ar­far framtíðar­inn­ar. Okk­ar bíða sann­ar­lega spenn­andi verk­efni og mörg þeirra flók­in. Árang­ur­inn mun ráðast af viðhorfi okk­ar og trú. Setj­um markið hátt og vinn­um að því sam­an.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2019.

Categories
Fréttir

Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni

Deila grein

06/12/2019

Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, segir nýja samgönguáætlun bera þess glögg „merki að við erum komin á gott skrið með að greiða niður innviðaskuldina í vegakerfinu eftir hrunið og þar er stórauknu fjármagni varið til vegagerðar.“ Þetta kemur fram í grein hennar á vikudagur.is.
Líneik Anna bendir á að nýframkvæmdum sem nema um 214 milljörðum króna sé flýtt frá fyrri áætlun.
„Á landsbyggðinni er ætlunin að flýta framkvæmdum um 125 milljarða. Samgöngusáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er birtingarmynd sameiginlegrar sýnar og heildarhugsunar fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa ríkjandi og fyrirsjáanlegan umferðarvanda. Þá er lagt upp með samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni,“ segir Líneik Anna.
Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum
„Það eru líka stigin stór skref í fluginu. Flugstefna hefur verið mótuð  í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriðið í henni er að millilanda– og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem á að taka ábyrgð á varaflugvöllunum.“
„Notendur millilandaflugvalla verða að taka þátt í rekstri varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvægt flugöryggismál fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi,“ segir Líneik Anna.

Categories
Greinar

Þjóð undir þaki

Deila grein

05/12/2019

Þjóð undir þaki

Íslenski húsnæðismarkaðurinn hefur einkennst af miklum sveiflum í gegnum tíðina. Ýmist hefur verið skortur á húsnæði eða offramboð og það sama má segja um aðgang að lánsfé. Núverandi stjórnvöld leggja áherslu á að draga úr því ójafnvægi sem ríkt hefur og kappkosta að mynda traustari umgjörð um húsnæðismál.

Frá því ég tók við embætti hefur það verið stefna mín að tryggja nægjanlegt framboð húsnæðis fyrir alla, óháð efnahag og búsetu. Þjóð undir þaki – jafnrétti og jafnvægi var yfirskrift Húsnæðisþings sem haldið var í síðustu viku. Þar var farið yfir stöðuna, þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og framhaldið.

Þegar hefur farið fram mikil endurskipulagning og umbótavinna á sviði húsnæðismála. Stjórnskipulag hefur verið einfaldað með tilfærslu mannvirkjamála yfir til félagsmálaráðuneytisins, þar sem húsnæðismál voru fyrir. Þá hef ég mælt fyrir frumvarpi um sameiningu Íbúða­lánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem er ætlað að stuðla að betri heildarsýn yfir málaflokkinn.

Umfangsmikil vinna við gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga hefur átt sér stað. Þeim er ætlað að tryggja að byggt sé í samræmi við þörf en á það hefur skort. Þá hefur hlutverk Íbúðalánasjóðs tekið mikilvægum breytingum en sjóðurinn ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála og gerir nú reglulegar og ítarlegar greiningar á húsnæðismarkaði. Þannig geta stjórnvöld tekið skilvirkari ákvarðanir sem tryggja að stuðningur skili sér þangað sem þörfin er mest.

Umbætur í húsnæðismálum voru ein grunnforsenda lífskjarasamninga sem undirritaðir voru fyrr á þessu ári. Því lögðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins í mikla vinnu við að greina stöðu húsnæðismála og skilgreina aðgerðir til úrbóta. Rúmlega 40 húsnæðistillögur voru lagðar fram og eru nú í úrvinnslu en þær fela meðal annars í sér stóraukin framlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins, bætta réttarstöðu leigjenda og innleiðingu hlutdeildarlána fyrir ungt fólk og tekjulága.

Ekki stendur til að skilja landsbyggðina eftir í þessum efnum og síðustu misseri hafa verið kynntar lausnir til að mæta ólíkum áskorunum sveitarfélaga á landsbyggðinni. Erum við þegar farin að sjá árangur þess og uppbyggingu á stöðum þar sem ríkt hefur stöðnun um lengri tíma. Ég bind vonir við að þessar aðgerðir, og fleiri til, styrki húsnæðismarkaðinn svo um munar til framtíðar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. desember 2019.