Categories
Fréttir

„Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa“

Deila grein

22/10/2019

„Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa“

„Hvort, hvernig, hvenær og af hverju ætti að selja hlut ríkisins í einum banka eða öllum — eða ekki? Gagnsæ stjórnsýsla, gagnsæ upplýsingagjöf, opið og gagnsætt söluferli — hvað þýðir þetta gagnsæi? Má gagnsæi víkja fyrir hagsmunum markaðsaðila? Gagnsæi er alltaf háð takmörkunum, hvað þá í viðskiptalífinu. Lykilatriðið hér er aðgengi að upplýsingum,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í gær.
„Almenningur þarf að reiða sig á ákvarðanir stjórnmálamanna, en hversu mikil afskipti eiga stjórnmálamenn að hafa af rekstri banka? Við viljum hafa armslengdina þegar hentar en geta gripið starfsemina traustataki þegar okkur líkar ekki hvert skal stefnt, eins og með uppbyggingu höfuðstöðva Landsbanka Íslands sem stendur nú yfir hér í nágrenninu.“
„Umræðan verður líka að snúast um stefnu, hvaða skoðun þeir sem fara með valdið hafa á því hvað á að gera. Söguna þekkjum við og er búið að fara yfir hana hér. Vantraust gagnvart einum stjórnmálamanni getur yfirfærst á alla stjórnmálamenn og öll stjórnmálin. Þannig verður vantraust gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum kerfislægt.“
„Eflaust telja sumir stjórnmálamenn sig meira traustsins verða til að taka ákvarðanir varðandi sölu og/eða sameiningu bankanna. Á að breyta um rekstrarform eða fyrirkomulag eins og hugmyndir um samfélagsbanka? Er bankastarfsemi á Íslandi of stór? Er óbreytt staða besta lausnin? Þess vegna er sú umræða sem hér fer fram mjög mikilvæg og þörf og sannarlega vakna ótal spurningar. Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa,“ sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Fréttir

Bankakerfið vinni ávallt í samfélagslega þágu

Deila grein

22/10/2019

Bankakerfið vinni ávallt í samfélagslega þágu

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, tók þátt í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í gær.
„Það verður auðvitað að skoða þróunina á viðskiptaumhverfinu og kannski ekki síst í ljósi þeirra verðmæta sem eru skráð í bókum ríkisins og meta hvað er skynsamlegast að gera til að nýta þau verðmæti á sama tíma og við tryggjum það kerfi sem þjónar almenningi hvað best, eins og hv. málshefjandi vakti máls á,“ sagði Willum Þór.
Hvernig og hverjum ætti að selja?
„Lengi hefur verið rætt um að aðskilja viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi en vegna þess hversu takmörkuð samkeppnin er höfum við mögulega ekki stigið það skref. Það hlýtur að skipta máli að sama skapi þegar við ræðum aðkomu ríkisins að rekstri banka hvernig þeim málum er fyrir komið. Það má auðvitað svara því að einhverju marki af hverju skynsamlegt er að losa um eignarhlut ríkisins en það er erfiðara að svara því hvernig og hverjum ætti að selja.“
„Það liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn vill draga úr eignarhaldi bankanna eins og boðað er í stjórnarsáttmála og hefur unnið að því markvisst, m.a. með útgáfu hvítbókar þar sem liggja til grundvallar markmið um traust, gagnsæi og stöðugleika, sem eru lykilatriði sem verður að hafa í huga. Þau þurfa ávallt að vera viðmiðin, auk þess sem það er niðurstaða hvítbókarinnar að burt séð frá eignarhaldi eða eignarformi — og það er kannski mikilvægast af öllu — vinni bankakerfið ávallt í samfélagslega þágu,“ sagði Willum Þór.

Categories
Greinar

Fjárfest til framtíðar

Deila grein

22/10/2019

Fjárfest til framtíðar

Staða rík­is­sjóðs er sterk, hag­vöxt­ur hef­ur verið mik­ill á Íslandi síðustu ár og at­vinnu­leysi lítið í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Heild­ar­skuld­ir rík­is­ins hafa lækkað mjög hratt frá fjár­mála­hruni; þær voru um 90% af lands­fram­leiðslu en eru nú um 30%. Stöðug­leikafram­lög, aðferðafræði við upp­gjör föllnu bank­anna og öguð fjár­mála­stjórn síðustu ára hafa átt rík­an þátt í því að þessi hag­fellda staða er uppi í rík­is­fjár­mál­um. Hrein er­lend staða, er­lend­ar eign­ir þjóðarbús­ins um­fram er­lend­ar skuld­ir, hef­ur þó aldrei verið betri. Staðan var já­kvæð um tæp­lega 630 ma.kr. eða 22% af lands­fram­leiðslu í lok ann­ars árs­fjórðungs þessa árs og batnaði um 10 pró­sent­ur á fyrri hluta árs­ins.

Þrátt fyr­ir góð teikn rík­ir tölu­verð óvissa um inn­lenda efna­hagsþróun á kom­andi miss­er­um bæði af inn­lend­um or­sök­um og sak­ir auk­inn­ar óvissu um alþjóðleg­ar hag­vaxt­ar­horf­ur og þróun á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Rík­is­fjár­mál­in taka mið af þess­ari stöðu og stefnt er að því að af­gang­ur af heild­araf­komu rík­is­sjóðs sem hlut­fall af vergri lands­fram­leiðslu verði að lág­marki í jafn­vægi árin 2020 og 2021, en af­gang­ur verði um 0,3% árið 2022. Brýnt er að mæta þörf­um efna­hags­lífs­ins til sam­ræm­is við breytt­ar horf­ur án þess þó að vikið verði tíma­bundið frá fjár­mála­regl­um um af­komu og skuld­ir eins og lög um op­in­ber fjár­mál heim­ila. Vegna góðrar stöðu rík­is­fjár­mála verður til svig­rúm sem veit­ir stjórn­völd­um tæki­færi til að vinna gegn niður­sveiflu með öfl­ugri op­in­berri fjár­fest­ingu og ráðast í ýms­ar innviðafjár­fest­ing­ar á næstu miss­er­um. Spá Seðlabanka Íslands ger­ir ráð fyr­ir að fjár­fest­ing­ar hins op­in­bera auk­ist á næstu árum.

Meðal innviðafjár­fest­inga sem tengj­ast mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu má nefna bygg­ingu Húss ís­lensk­unn­ar sem nú er í full­um gangi, bygg­ingu fé­lagsaðstöðu við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja, viðbygg­ingu við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti, upp­bygg­ingu við Mennta­skól­ann í Reykja­vík og við menn­ing­ar­hús á Sauðár­króki og Eg­ils­stöðum. Meðal annarra mik­il­vægra fjár­fest­inga­verk­efna má einnig nefna mál­tækni­áætl­un stjórn­valda. Marg­ar þess­ara fram­kvæmda eru löngu tíma­bær­ar og mark­mið þeirra allra að efla mennt­un og menn­ingu í land­inu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. október 2019.

Categories
Fréttir

„Það skiptir máli hverjir stjórna“

Deila grein

21/10/2019

„Það skiptir máli hverjir stjórna“

„Ég hef á ferli mínum í sveitarstjórnarmálum reynt að temja mér að hvorki örvænta um of eða fagna of snemma. En að viðhöfðum öllum almennum fyrirvörum þá eru þau drög að endurskoðaðri samgönguáætlun sem kynnt voru í morgun verulega góð tíðindi fyrir Austurland og landið í heild,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, í yfirlýsingu á dögunum.
Stefán Bogi vekur athygli á verkefnum á Austurlandi í nýrri samgönguáætlun í allnokkrum liðum.
„Mig langar að biðja ykkur að hugleiða í augnablik hvort stefnumörkun af þessu tagi hefði nokkurn tíma litið ljós ef einhver annar en formaður Framsóknarflokksins væri samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Það skiptir máli hverjir stjórna,“ segir Stefán Bogi.
 

Categories
Greinar

Segið já 26. október – aukinn slagkraftur

Deila grein

21/10/2019

Segið já 26. október – aukinn slagkraftur

Ef sameining Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar verður samþykkt mun nýtt sveitarfélag hafa sterkari rödd og stöðu í samskiptum við ríkisvaldið og í samstarfi sveitarfélaga á landsvísu.

Raunar er það svo að það eitt að hefja formlegar sameiningarviðræður hefur tryggt þessum sveitarfélögum sameiginlega meiri og innihaldsríkari samræður við ráðherra og þingmenn en ég hef áður kynnst á ferli mínum í sveitarstjórn. Með því að kynna skýra framtíðarsýn um stærra, öflugra og samhentara sveitarfélag er meiri von um að fá stuðning við þá uppbyggingu og framþróun á svæðinu. Árangurinn af þessari vinnu má meðal annars sjá í drögum að endurskoðaðri samgönguáætlun sem kynnt var í vikunni.

Það skiptir einnig orðið stöðugt meira máli að þeir sem gefa kost á sér til starfa í sveitarstjórn geti helgað sig þeim verkefnum en sinni ekki hagsmunagæslu íbúanna í hjáverkum meðfram öðrum störfum. Með stærra sveitarfélagi og breyttu skipulagi opnast meiri möguleikar á því að kjörnir fulltrúar geti verið í föstu starfshlutfalli og jafnvel fullu starfi við að þjónusta íbúa sveitarfélagsins og berjast fyrir hagsmunum þeirra. Þannig verður nýtt sveitarfélag með meiri slagkraft en þau sem fyrir eru hvert í sínu lagi.

Utan heimastjórna er gert ráð fyrir að fastanefndir sveitarfélagsins verði færri, fjölmennari og fundi örar en nú tíðkast. Allar þessar breytingar leiða til þess að nefndafólki mun fækka frá því sem nú er, úr ríflega 140 í rúmlega 40, en verkefni þeirra og ábyrgð eykst. Því er í áætlunum ekki gert ráð fyrir að kostnaður minnki heldur verði launakjör fulltrúa í góðu samræmi við ábyrgð þeirra og verkefni.

Um allt þetta má lesa nánar á heimasíðunni svausturland.is og ég hvet alla íbúa til að kynna sér málin, mæta á kjörstað og greiða atkvæði með sameiningu sveitarfélaganna þann 26. október.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 18. október 2019.

Categories
Fréttir

Sértæk þjónustueining fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma.

Deila grein

21/10/2019

Sértæk þjónustueining fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma.

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um sértæka þjónustueiningu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma á Alþingi á dögunum.
Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur að fyrirkomulagi sértækrar þjónustueiningar fyrir einstaklinga sem greinast með sjaldgæfa sjúkdóma. Þjónustueiningin verði til þess að tryggja að sjúklingar hafi einn viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og til þess að ný þekking og nýjustu rannsóknir skili sér í bættri þjónustu sem byggist á nýjustu gagnreyndu þekkingu hverju sinni. Þá verði starfshópnum falið að leita leiða til þess að tryggja einfaldari og skjótari aðgengi að nauðsynlegum lyfjum vegna sjaldgæfra sjúkdóma.
Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en 1. september 2020.“

„Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar Evrópu eru sjaldgæfir sjúkdómar, á ensku „orphan diseases“, sjúkdómar sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá fimm eða færri af hverjum 10.000 manns og er þá miðað við Evrópska efnahagssvæðið. Þekking á þessum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir á þeim takmarkaðar og lækning fjarlæg. Sjaldgæfir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á aðstandendur og eykst álagið með versnandi sjúkdómi. Miklu varðar að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandenda þeirra,“ sagði Willum Þór.
„Styrkja þarf umgjörðina um þessa einstaklinga, fylgjast með öllum sjaldgæfum sjúkdómum og sjá til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nýjustu þekkingu í meðferðum við þeim og ekkert síður sjúklingar og aðstandendur.“
„Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á skilvirk þjónustukaup. Meðal stefnumiða er að sjúklingur með mesta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu verði settur í forgang og að gerðar verði kröfur um aðgengi, gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Þá er í greinargerð með heilbrigðisstefnunni lögð áhersla á að sameina þjónustuþætti og setja á fót þekkingarsetur með þeim rökum að betra sé að þjappa saman færni, kunnáttu og þekkingu en að dreifa kröftunum um of. Þetta er auðvitað kjarninn í þeirri hugmyndafræði sem svona miðstöð fyrir sjúklinga með sjaldgæfa sjúkdóma hefur,“ sagði Willum Þór

Í Noregi er miðstöð sjaldgæfra greininga, Senter for sjeldne diagnoser, þverfagleg og sérhæfð miðstöð á landsvísu sem veitir upplýsingar, ráðgjöf og námskeið um ýmsa sjaldgæfa sjúkdóma. Þjónustan þar er ætluð notendum, aðstandendum og fagfólki sem annaðhvort er með eða fæst við sjaldgæfa sjúkdóma. Þar er einnig hægt að hafa beint samband við sérfræðiþjónustu fyrir sjaldgæfa sjúkdóma án tilvísunar frá lækni. Heilbrigðisþjónustunni er ætlað að vakta og miðla niðurstöðum meðhöndlunar, taka þátt í rannsóknum og myndun rannsóknarnetverks, taka þátt í kennslu, annast ráðgjöf og miðla sérfræðiþekkingu til heilbrigðisstofnana og annarra þeirra sem veita þjónustuna og nýta.
Í Svíþjóð er upplýsingamiðstöð um slíka sjaldgæfra sjúkdóma. Þar er markmiðið aukin vitund og þekking á slíkum sjúkdómum.
Í Finnlandi er jafnframt að finna slíka miðstöð sem á rætur í háskólasjúkrahúsinu í Helsinki. Þar var miðstöðin stofnuð til að efla greiningu, rannsóknir og meðferðir á sjaldgæfum sjúkdómum. Þar er áherslan lögð á tengslamyndun, fjarþjónustu, samstarf við ýmis sjúklingasamtök og fulltrúa heilbrigðisþjónustu.

„Flutningsmenn tillögunnar gera ráð fyrir því að við vinnu starfshópsins verði litið til þessara fyrirmynda og kannað hvernig útfæra megi þær hér á landi. Grundvallaratriðið er að til staðar sé sértæk eining sem bregðist við þeim tilfellum sem upp koma, leiðbeini sjúklingum og tryggi með því að þeir upplifi sig ekki hornreka í heilbrigðiskerfinu.“

Löggjöf um réttinn til að reyna, The Right to Try Act, var samþykkt í Bandaríkjunum 30. maí 2018. Hún veitir einstaklingum með sjaldgæfa sjúkdóma rétt á að fá lyf sem eru enn á rannsóknarstigi þannig að notkun þeirra er á ábyrgð sjúklings í samráði við lækni.

„Slík löggjöf er, eins og ég sagði, virðulegi forseti, alls ekki óumdeild og telja flutningsmenn tillögunnar nauðsynlegt að meta kosti og galla slíkrar löggjafar og bera saman við gildandi löggjöf hér á landi og draga fram í slíkum samanburði hvað mælir með eða á móti slíkum leiðum. Í því sambandi verður að líta til þeirra siðferðilegu spurninga sem slík löggjöf hefur óumdeilanlega í för með sér og hversu ríka ábyrgð er hægt að leggja á lækna þegar lyf hafa ekki fengið markaðsleyfi. Á hinn bóginn getur verið afar þungbært fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma að vera synjað um lyf sem gætu bætt lífsskilyrði þeirra verulega,“ sagði Willum Þór.
„Við erum með gott heilbrigðiskerfi en lengi má gott bæta.“

Categories
Greinar

Mót­vægis­að­gerðir í fisk­eldi

Deila grein

20/10/2019

Mót­vægis­að­gerðir í fisk­eldi

Ísíðustu viku birtist frétt í Fréttablaðinu þar sem vitnað var í skýrslu vísindamanna í Noregi um að núverandi mótvægisaðgerðir þar í landi séu ekki nægjanlegar til að draga úr slysasleppingum á eldislaxi og fullyrt að laxeldi í sjó sé mesta ógnin sem steðjar að villtum laxi í Noregi.

Villti laxastofninn í Atlandshafi hefur almennt verið á niðurleið undanfarin ár og svo er líka í Noregi. Athygli vekur að stofninn hefur verið í niðursveiflu bæði í löndum þar sem eldi er stundað og líka þar sem það er ekki stundað. Niðurstöður benda til að hrygningarstofninn sé nægilega stór en endurheimt upp í árnar aftur frá sjónum sé að versna.

Manngerð ógn

Í skýrslunni er talað um að bæði áhrif frá manninum og minni endurkoma laxins frá sjónum upp í árnar aftur séu ástæða fækkunarinnar. Þar er líka talað um að af þeim umsvifum mannsins sem hafa áhrif á laxinn séu slysasleppningar, laxalús og sjúkdómar enn þá stærstu hætturnar sem steðji að norska laxinum.

Það eru fleiri ógnir sem steðja að villta laxinum, eins og virkjanir, súrt regn og mannvirkjagerðir svo ekki sé talað um mengun í sjónum sem ógnar líka öðrum fisktegundum alstaðar í heiminum.

Mikilvægi mótvægisaðgerða

Hins vegnar hefur eldisfiski fækkað í norskum veiðiám þökk sé þeim mótvægisaðgerðum sem virkjaðar hafa verið þar. Þar má sjá mikinn mun og hafa vísindalegar rannsóknir stutt það og kemur það fram í fyrrnefndri skýrslu.

Verum á verði

Slysasleppingar í sjókvíeldi hafa komið upp og má búast við að svo verði áfram. Oftast er þar um mannleg mistök um að kenna. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur kallað eftir aðgerðum vegna þeirra. Laxeldisfyrirtækin þar hafa sent frá sér tillögur að aðgerðum til að draga enn frekar úr slysasleppingum og áhrifum þeirra. Íslensk stjórnvöld ættu að fylgjast vel með hvort eitthvað af þeim aðgerðum gætu hentað hér á landi. Með nýsamþykktum endurbótum á fiskeldislögum í vor er Ísland án vafa með einar ströngustu kröfur í heimi þegar kemur að fiskeldi og þannig viljum við hafa það áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst fyrst í Fréttablaðinu 19. október 2019.

Categories
Greinar

SAMGÖNGUÁÆTLUN Í SAMRÁÐSGÁTT

Deila grein

19/10/2019

SAMGÖNGUÁÆTLUN Í SAMRÁÐSGÁTT

Nú er endurskoðuð samgönguáætlun komin í samráðsgátt stjórnvalda og verður hún lögð fram á Alþingi um miðjan nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem samgönguáætlun er í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun.  Það ber vott um ný vinnubrögð undirstrikar raunverulegan vilja stjórnvalda til að efla samgöngur  um allt land. Ávinningur af samgönguáætluninni er aukið öryggi, stytting vegalengda og efling atvinnusvæða. Í áætluninni má sjá breytta forgagnsröðun. Á tímabilinu fara rúmlega 214 ma. kr. í flýtiaðgerðir miðað við fyrri áætlanir, þar af 125 ma. kr.  utan höfuðborgarsvæðisins. Sérstök jarðgangaáætlun verður aftur tekin upp, fyrsta flugstefna landsins mun lýta dagsins ljós og  einnig stefna um almenningssamgöngur milli byggða.

Vegasamgöngur færast frá söguöld

Nú loksins ætla stjórnvöld af fullri alvöru að færa  hringveg um Vestfirði til nútímans. Dýrafjarðargöng eru langt kominn og verða tilbúin á nýju ári. Margir hafa velt fyrir sér framhaldinu en í nýrri áætlun eru fjármunir settir í Dynjandisheiði strax á næsta ári og skal hún kláruð árið 2024. Alls eru áætlaðir 5.8 ma. kr.  í þá framkvæmd. Ætlunin er að klára Bíldudalsveg  innan 10 ára og mun sú framkvæmd kosta 4,8 ma. kr. Veiðileysuháls er á áætlun og áfram verður unnið í Djúpvegi með því að afleggja einbreiðu brúnna við Hattardal. Þá er að sjálfsögðu vegur um Gufudalssveit fjármagnaður og skal þeim framkvæmdum lokið á árinu 2023.

Það má því segja að Vestfirðingar sjái nú loksins frammá að fjórðungurinn sé að færast í nútímalegt horf hvað vegasamgöngur varðar.

Hafnarframkvæmdir

Dýpkun og lenging á Sundabakka á Ísafirði eru á áætlun á árinu 2021-2023, framkvæmdir á Suðureyri við stálþil eru fjármagnaðar og áætlað er að ráðast í endurbyggingu innri hafnarkants á Þingeyri innan þriggja ára. Í Bolungarvík er gert ráð fyrir framkvæmdafé upp á rúmar 160 ma. kr. á næstu fimm árum.

Neyðarástand á Bíldudalshöfn

Vesturbyggð ásamt fyrirtækjum sem nýta hafnaraðstöðu á Bíldudalshöfn hafa kallað eftir því að framkvæmdum við höfnina verði flýtt eins og hægt er. Athafnasvæði og viðlegupláss er lítið og stór aukin atvinnustarfsemi sem hefur byggst upp á síðast liðnum árum kallar á aðgerðir við höfnina.  Bent hefur verið á að neyðarástand skapist þegar mest er um að vera og því brýnt að þeim framkvæmdum verði flýtt.  Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjármagni í uppbyggingu hafnarinnar en ljóst er að það verður að flýta framkvæmdaáætlun og setja þær í útboð sem allra fyrst.

Framkvæmdir í forgang

Undir forystu núverandi samgönguráðherra Sigurðar Inga er hér verið að leggja fram fjármagnaða raunhæfa samgönguáætlun sem rímar við fjármálaáætlun þingsins. Þarna má sjá áratugalanga baráttu Vestfirðinga raungerast. Með betri samgöngum er hægt að ráðast að fullu í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu sem væntanlega mun skila sér í bættu samkeppnishæfu samfélagi fyrir fjórðunginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 18. október 2019.

Categories
Fréttir

Enn enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila

Deila grein

17/10/2019

Enn enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila

Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, minnti á í störfum þingsins í gær, að enn eru Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga án samnings við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila.
„Í gildi var rammasamningur milli aðila sem rann út um síðustu áramót. Frá þeim tíma hefur verið greitt samkvæmt einhliða gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem fól í sér umfangsmiklar og róttækar breytingar til lækkunar á framlögum til hjúkrunarheimila. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands annist kaup á heilbrigðisþjónustu sem byggist á þarfagreiningu og miðist við þarfir íbúanna í landinu, þar með talið íbúa hjúkrunarheimila. Viðræður milli aðila sem um ræðir hafa verið í gangi þótt stopular hafi verið á árinu og á meðan eru hjúkrunarheimilin rekin í mínus mánuð eftir mánuð,“ sagði Ásgerður.
„Samkvæmt mínum heimildum er kominn fram grunnur að samkomulagi en það þarf að ljúka gerð samnings og gera árið 2019 upp með þeim hætti að rekstur þessarar mikilvægu þjónustu nái jafnvægi. Þjónusta við aldraða er grunnþjónusta sem þarf að hlúa betur að. Það þarf að tengja aftur RUG-stuðul við nýtt dvalargjald þannig að hjúkrunarþyngd sé metin inn í gjaldstofninn.“
„Að lokum vil ég hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að skipa þverpólitíska nefnd sem fari yfir rekstur og framtíðarfyrirkomulag á byggingum og rekstri hjúkrunarheimila eins og hv. fjárlaganefnd lagði til í meirihlutaáliti sínu um fjármálaáætlun í vor. Stefnan getur ekki verið sú með fjölgun aldraðra og einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila og annarri öldrunarþjónustu að halda að ár eftir ár sé dregið úr fjármagni til þjónustunnar per rými,“ sagði Ásgerður.

Categories
Fréttir

Brothættar byggðir — og hvað svo?

Deila grein

17/10/2019

Brothættar byggðir — og hvað svo?

„Á Íslandi hefur lengi verið rekin sjálfvirk byggðastefna sem felur í sér nýtingu skattfjár á einum stað til uppbyggingar fyrir náð og miskunn, kjördæmapot, skattaívilnanir eða kjarkaðan ráðherra sem hefur fært opinber störf frá höfuðborgarsvæðinu. Gleymum því ekki að uppbygging hins opinbera á höfuðborgarsvæðinu er talin sjálfsögð og skynsamleg en ölmusa annars staðar,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Hvenær látum við okkur málið varða þannig að sú alvarlega byggðaröskun sem hefur átt sér stað vítt og breitt á landsbyggðinni stöðvist og landið haldist allt í byggð? Bíldudalur, Þingeyri, Árneshreppur, Hrísey, Grímsey, Öxarfjörður, Raufarhöfn, Bakkafjörður, Borgarfjörður eystri, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur. Hvaða svæði, þorp, bær eða byggð fer næst á lista?,“ sagði Hjálmar Bogi.
Með leyfi forseta:

Byggðastefna lyftir landi,
ef vandlega er farið með hana.
Hún er eins og heilagur andi,
það hefur enginn séð hana.

„Þannig orti eitt sinn góður og genginn Framsóknarmaður að nafni Þormóður Jónsson.“
„Þau svæði sem mynda fjarlæga skeifu utan um höfuðborgarsvæðið eru jafnvel svæði sem við þjónustum ekki nema að litlu leyti með stoðstofnunum ríkisins. Á meðan er sveitarfélögum ætlað að leysa vandann sem allir vita að hafa hvorki bolmagn, fjármagn né lausnir til að bregðast við svo vel sé. Fólk eltir nefnilega skattpeningana sína, menningu og þjónustu — og hvar er skattfé helst varið? Viðfangsefnið verður hvorki leyst með skjótvirkum hætti né verður hægt að beita almennum úrræðum til að leysa þetta sértæka verkefni. En það er grundvallaratriði að íbúar þessa lands búi allir við sem jöfnust kjör og þjónustu sem hið opinbera veitir, óháð búsetu.
Ég spyr því: Brothættar byggðir — og hvað svo?“