Categories
Greinar

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld

Deila grein

13/05/2019

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld

Gleði­banka­menn sungu frumraun okkar Íslend­inga í Júró­visjón árið 1986. Það ár var ekki bara merki­leg­ilegt fyrir okkur Íslend­inga með góðu júró­visón­lagi heldur fyrir heims­byggð­ina alla. Það ár var leið­toga­fundur hald­inn í Höfða milli Ron­ald Reagan, for­seta Banda­ríkj­anna og Mik­haíl Gor­batsjev, leið­toga Sov­ét­ríkj­anna. Slíkur við­burður var sögu­legur enda höfðu þessi ríki þá átt í ára­löngum átökum kennda við kalda stríð­ið. Hér til lands­ins komu um eitt þús­und frétta­menn hvaðan af úr heim­in­um. Þeir töl­uðu og skrif­uðu fréttir af þessum merki­lega fundi um gjörvall­ann heim­inn. Á nær ótelj­andi stjórn­varp­stöðvum og á fjöl­mörgum tungu­málum fluttu frétta­menn stór­merki­legar fréttir frá Íslandi.

Ímyndum okkur heim þar sem við fengum engar fréttir af Júró­vison. Ekk­ert væri fjallað um önnur lög, fyrir hvað þau standa eða lista­menn­ina sem flytja þau. Í slíkum frétta­lausum heimi hefði fólk aldrei fengið að upp­lifa von­ar­glæt­una sem sam­ræður og sam­tal leið­tog­anna í Höfða sköp­uðu og lögðu síðar grunn að enda­lokum kalda stríðs­ins. Fréttir og frétta­mennska eru horn­steinn heil­brigðar lýð­ræð­is­þró­un­ar. Menn­ing okk­ar, listir og sköpun þarfn­ast einnig umfjöll­unar og sýni­leika. Hver veit af list nema hann heyri og sjái list­sköp­un?

Oft er talað um fjöl­miðla sem fjórða vald­ið. Slíka nálgun má rétt­læta, vegna þess að öll þekk­ing er byggð á upp­lýs­ing­um. Með örri tækni­þróun og til­komu ver­alda­vefs­ins verður hins vegar vanda­mál að ekki eru allar upp­lýs­ingar byggðar á þekk­ingu. Þó til­koma fals­frétta sé í eðli sínu ekki ný af nál­inni og svo­kall­aðar gróu­sögur hafi lengi fylgt mann­legu sam­fé­lagi, þá hefur magnið marg­fald­ast af röngum upp­lýs­ingum sem haldið er að almenn­ingi. Slík aukn­ing er nú víða um hinn vest­ræna heim að grafa undan lýð­ræð­is­legri grund­vall­ar­virkni sem eftir upp­lýs­inga­öld­ina hefur byggst á sann­reyn­an­legri þekk­ingu. Nú sem aldrei fyrr er starf frétta­manna – vítt og breytt um sam­fé­lagið og landið allt – okkur nauð­syn­legt svo við getum tekið mál­efna­lega afstöðu í þeim fjöl­mörgu málum sem snerta sam­fé­lag­ið.

Eins og stjórn­mála­menn kenna sig við hægri eða vinstri, þá þarf almenn­ingur að fá tæki­færi til að sann­reyna hvort þeir eða til­lögur þeirra séu skyn­sam­leg­ar. Aðrar nor­rænar þjóðir hafa fyrir löngu síðan áttað sig á mik­il­vægi þess að styrkja sjálf­stæða og vand­aða frétt­um­fjöll­un. Nú loks­ins árið 2019 er rík­is­stjórn sem hræð­ist ekki sjálf­stæða og vand­aða frétta­mennsku, heldur styður í orðum og gjörðum þennan mik­il­væga grund­völl vest­rænnar sið­menn­ing­ar. Hag­rænn stuðn­ingur við fjölda frétta­manna, frekar en fjölda frétta er lík­leg til að auka fjöl­miðla­læsi, styðja við þekk­ing­ar­auka sam­fé­lags­ins og tryggja lýð­ræðis­vit­und og virkni á 21. öld­inni.

Alex B. Stefánsson, varaþingmaður og for­maður SIG­RÚNAR – Félags ungra Fram­sókn­ar­manna í Reykja­vík.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 11. maí 2019.

Categories
Greinar

Umferðaröryggi í forgangi

Deila grein

10/05/2019

Umferðaröryggi í forgangi

Það er sárt að hugsa til allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra slysa í umferðinni. Það er því það minnsta sem við getum gert að nýta þær upplýsingar sem við eigum um slys til að bæta öryggi okkar í umferðinni og koma í veg fyrir slys.

Í gær stóð ráðuneytið fyrir morgunverðarfundi um umferðaröryggi með yfirskriftinni Víti til varnaðar. Þar var meðal annars kynnt nýtt slysakort Samgöngustofu þar sem hægt er að sjá yfirlit yfir þau slys sem verða á vegum landsins. Mikilvægt er að nýta þá tölfræði sem til er svo hægt sé að auka forvarnir og bæta vegakerfið og stuðla þannig að jákvæðri þróun í umferðaröryggi og fækkun slysa.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á notkun vegakerfisins á örfáum árum. Á aðeins fimm árum hefur umferðin á þjóðvegunum aukist um ríflega 40%. Mest hefur hún aukist á Suðurlandsvegi austur að Jökulsárlóni þar sem hún hefur nánast tvöfaldast, langmest að vetrarlagi.

Það eru miklir hagsmunir í húfi. Síðustu árin hafa að meðaltali hátt í 200 manns slasast alvarlega eða látið lífið árlega sem ekki er ásættanlegt. Umferðarslys og óhöpp eru talin kosta yfir 50 milljarða á ári, og er þá ekki talinn sá sársauki og sorg sem slysunum fylgja. Því legg ég áherslu á að mannslíf og heilsa séu ávallt höfð í öndvegi og öryggi metið framar í forgangsröðun en ferðatími. Á umferðarþyngstu þjóðvegum þarf að halda áfram að aðskilja akstursstefnur en sú aðgerð hefur skilað góðum árangri og má nefna að umferðarslysum á Reykjanesbrautinni hefur fækkað um 40% frá því að akstursstefnur voru aðskildar. Þar vitum við nú þegar að slíkar upplýsingar nýtast til að auka umferðaröryggi.

Síaukinn umferðarþungi kallar á nýframkvæmdir, meira viðhald og auknar öryggisaðgerðir. Uppbygging samgöngumannvirkja er stór þáttur í því að bæta umferðaröryggi í ört vaxandi umferð. Auknu fjármagni hefur verið veitt til ýmissa framkvæmda til að flýta vegabótum og aukinn kraftur verður settur í yfirlagnir á vegum, malbik, viðhald malarvega og styrkingar. Allar slíkar framkvæmdir auka umferðaröryggi.

En betur má ef duga skal.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. maí 2019.

Categories
Greinar

Stöndum vörð um heilsu og velferð manna og dýra

Deila grein

09/05/2019

Stöndum vörð um heilsu og velferð manna og dýra

Kunningjakona okkar sem á von á barni var á ferðlagi um meginland Evrópu um páskana. Eins og títt er um ófrískar konur þá er hún gríðarlega meðvituð um það sem hún lætur ofan í sig og saknar auðvitað sérstaklega blóðugu steikarinnar og sushi. Hún hafði líka eftir umfjöllun í mörgum íslenskum fjölmiðlum orðið mun betur meðvituð um muninn á því öryggi sem hún býr við á Íslandi þegar hún fer út í búð að kaupa í matinn og þeim veruleika sem margar aðrar þjóðir búa við, bæði hvað varðar sýkingar í kjöti og sýklalyfjaónæmi sem skapast af gríðarlegri notkun sýklalyfja í stórum verksmiðjubúum meginlandsins.

Stærri ógnvaldur en krabbamein í framtíðinni
Það eru nokkuð mörg ár liðin frá því Margrét heitin Guðnadóttir, einn af okkar fremstu vísindamönnum, hafði uppi varnaðarorð varðandi innflutning á kjöti til Íslands. Á síðustu árum hafa fleiri virtir vísindamenn, innlendir og erlendir, tekið undir áhyggjur hennar. Og ekki að ástæðulausu. Með því að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist væru íslensk stjórnvöld einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi illa. Varðar það bæði sýkingar í matvælum og einnig áður nefnt sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Viljum við slíka tilraunastarfsemi? Og vill verslunin stunda slíka tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann?

Íslenskur landbúnaður í fremstu röð
Íslenskur landbúnaður stendur í fremstu röð þegar kemur að dýraheilbrigði og dýravelferð. Sú staða sem hefur náðst í þeim efnum er ekki komin til af sjálfu sér. Augljósasta dæmið hvað varðar virðingu bænda fyrir heilbrigði íslenskra dýrastofna má til dæmis sjá þegar hestamenn fara með hesta á heimsmeistaramót íslenska hestsins á meginlandi Evrópu og þurfa að skiljast við þá því aldrei fá þeir aftur að snúa heim í íslenskan haga vegna þeirra sjúkdóma sem hrjá lönd Evrópu.

Eitt mikilvægt skref í viðbót
Samkeppni er öllum holl en hún verður að vera skynsamleg fyrir lýðheilsu þjóðarinnar og verður að tryggja að íslenskir bændur keppi á jafnréttisgrundvelli við innfluttar vörur. Þær varnaðaraðgerðir sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur til í frumvarpi sínu sem liggur fyrir Alþingi eru í rétta átt en betur má ef duga skal. Stíga verður stærra skref sem felur í sér hreint og klárt bann við dreifingu matvæla sem sýkt eru af salmonellu og kampýlóbakter og innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur yfir ákveðnu marki.

Það mikilvægasta sem við eigum: heilsa
Mikilvægt er að við köllum nú til okkar helstu lögspekinga í þeim tilgangi að tryggja varnir manna og dýra á Íslandi. Þótt fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem hvað harðast berjast fyrir óheftum innflutningi séu miklir þá er heilsa og velferð þjóðarinnar það dýrmætasta sem við eigum. Okkar skylda er að standa vörð um heilsu og manna og dýra. Mikilvægara getur það ekki verið. Það er því okkar mat að málið þurfi lagfæringa við áður en til afgreiðslu kemur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar og Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. maí 2019.

Categories
Fréttir

Með varmadælum þar sem við á er stuðlað að sjálfbærni!

Deila grein

08/05/2019

Með varmadælum þar sem við á er stuðlað að sjálfbærni!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í dag að „eitt af þeim málum sem afgreitt var á Alþingi í gær var framlenging á heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af varmadælum sem notaðar eru til húshitunar á heimilum. Þetta er mikilvægt mál og nú þarf að finna leið til styðja og hvetja til uppsetningar varmadæla í öðru húsnæði utan hitveitusvæða.
Varmadælur eru umhverfisvænar lausnir sem bæta orkunýtni og lækka rafhitunarkostnað. Hægt er að fá 2–5 kílóvattstundir af hitaorku úr hverri kílóvattstund af raforku sem knýr varmadælu á meðan bein rafhitun skilar aðeins einni kílóvattstund af rafhita fyrir hverja kílóvattstund af raforku sem fer inn í íbúðarhúsnæði. Með notkun varmadæla þar sem við á er stuðlað að sjálfbærni.“

 

Categories
Greinar

Ný íþróttastefna til ársins 2030

Deila grein

07/05/2019

Ný íþróttastefna til ársins 2030

Íþróttir eru samofnar sögu okkar og höfum við Íslendingar byggt upp umgjörð um íþróttastarf sem er öðrum þjóðum fyrirmynd. Á sama tíma hefur íslenskt íþróttafólk náð góðum árangri í ýmsum greinum. Á vettvangi íþróttanna fer fram eitt öflugasta forvarnarstarf sem völ er á og rannsóknir sýna skýr tengsl á milli góðs námsárangurs og þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Í vikunni sem leið kynnti ég nýja íþróttastefnu til ársins 2030. Hún var unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og íþróttanefndar ríkisins með aðkomu ýmissa annarra hagsmunaaðila.

Öryggi, aðgengi og fagmennska 

Með nýrri íþróttastefnu skilgreinum við þau forgangsverkefni sem við viljum vinna að næstu árin og þar horfum við einkum til þriggja þátta. Í fyrsta lagi að umhverfi íþróttanna sé öruggt fyrir iðkendur og starfsfólk. Í öðru lagi tryggja gott aðgengi fyrir iðkendur óháð uppruna þeirra og aðstæðum og í þriðja lagi að styrkja faglega umgjörð íþróttastarfs í landinu. Virk þátttaka og aðgengi allra að íþróttastarfi verða áframhaldandi leiðarstef í íþróttastefnu stjórnvalda en að auki leggjum við nú sérstaka áhersla á þátttöku ungmenna með annað móðurmál en íslensku, jafnrétti og nánara samstarf innan íþróttahreyfingarinnar.

Í stefnunni er fjallað um skipulag og starfsemi íþróttahreyfingarinnar og þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á undanförnum árum. Fram kemur að mikilvægt sé að hlutverk og skipulag starfseininga í íþróttastarfi sé metið reglulega og að endurskoða megi verkefni, fjölda og skipulag íþróttahéraða landsins. Þá sé brýnt að auka samvinnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands til að einfalda, styrkja og samræma verkefni þeirra með það að markmiði að efla íþróttastarf í landinu.

Framlög hafa aukist 

Framlög ríkisins til íþróttamála hafa nær þrefaldast á síðustu níu árum en á þessu ári veitir ríkið rúmlega 967 milljónir kr. til samninga og styrkja vegna íþróttamála. Þar munar mest um aukin framlög til Afrekssjóðs og Ferðasjóðs íþróttafélaganna. Framlög til Afrekssjóðs hafa fjórfaldast frá árinu 2016 og umtalsverð hækkun hefur einnig orðið til Ferðasjóðs, úr 57 milljónum kr. árið 2010 í 130 milljónir kr. sl. þrjú ár. Ríkið veitir samkvæmt fjárlögum 2019 alls um 1,2 milljarða kr. til íþrótta- og æskulýðsmála.

Traustur grunnur 

Um helgina fór fram 74. íþróttaþing ÍSÍ þar sem fulltrúar íþróttahreyfingarinnar mættu til að stilla saman strengi sína. Þar var ánægjulegt að finna þann kraft sem einkennir starf innan hreyfingarinnar. Grunnur íþróttastarfs í landinu er traustur og aðstaða til íþróttaiðkunar almennt góð. Það er kappsmál okkar allra að halda áfram á þeirri braut og gera gott starf enn betra.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2019.

Categories
Fréttir

Hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Deila grein

03/05/2019

Hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór sérstaklega yfir norrænt samstarf í umræðu um skýrslu um utanríkismál á Alþingi í vikunni, en Silja Dögg gegnir embætti formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir hönd Alþingis.
„Norrænt samstarf er og hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs sem stofnað var árið 1952. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Norðurlandanna.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sendiskrifstofur Íslands eru í góðum samskiptum við norræna kollega heima og að heiman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem og annarra alþjóðastofnana. Þess má geta að Norðurlöndin starfrækja sendiráð sín á sameiginlegu sendisvæði í Berlín. Það hefur gefist afar vel.
En hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland? Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland afar miklu máli. Ísland er auðvitað smáríki og því veitir norrænt samstarf okkur ákveðna fótfestu á alþjóðavettvangi. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi. Þannig tala Norðurlöndin oft einum rómi, t.d. þegar kemur að öryggismálum, umhverfis- og loftslagsmálum og jafnréttismálum. Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grundvallargildi eins og mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins og um friðsamlega lausn deilumála. Á þessum sviðum eru Norðurlandaþjóðir í fararbroddi á heimsvísu og leggja áherslu á að deila þekkingu sinni til að efla samfélög í öðrum heimshlutum.“
Og áfram hélt Silja Dögg, „pólitísk fótfesta, öflug utanríkisviðskipti og samstarf um menningu, menntun, vísindi og þróun eru kostir norræns samstarfs í hnotskurn og styrkurinn felst í því hversu ótrúlega margir taka þátt í samvinnunni á hverjum degi. Við erum án efa sterkari saman. Íslendingar hafa haft mörg stór hlutverk í norrænu samstarfi á þessu ári. Þar höfum við gegnt formennsku í norrænu ráðherranefndinni, formennsku í samstarfi norræna utanríkisráðherra, sem kallast N5, og samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, NB8, ásamt því að taka sæti í stjórn Alþjóðabankans í Washington DC í fyrir hönd NB8-hópsins.“

Categories
Greinar

Betri kjör fyrir íslenska námsmenn í Bretlandi

Deila grein

30/04/2019

Betri kjör fyrir íslenska námsmenn í Bretlandi

Öflugt alþjóðlegt samstarf á sviði mennta- og vísindamála er afar mikilvægt. Besta leiðin til þess að stuðla að auknum framförum og uppbyggingu er með menntun og áreiðanlegum upplýsingum. Fyrir okkur, sem og aðrar þjóðir, er brýnt að þekking fái að ferðast og hafa áhrif til góðs.

Á fundi mínum með Chris Skidmore, ráðherra háskóla-, nýsköpunar- og vísindamála í Bretlandi ræddum við meðal annars farsæl samskipti landanna á sviði mennta- og rannsókna, ekki síst í ljósi fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ísland og Bretland eiga náið samstarf á sviði mennta- og vísindamála en síðan 2014 hafa rúmlega 2.000 nemendur í ríkjunum farið í nemenda- og starfsmannaskipti í gegnum Erasmus+ áætlunina. Þá er Bretland eitt helsta samstarfsland Íslands á vísindasviðinu í Sjóndeildarhring 2020 (e. Horizon 2020), áttundu rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að jafnræði ríki meðal landa á evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að skólagjöldum í breska háskóla eftir Brexit. Þetta myndi þýða mögulega lækkun á skólagjöldum fyrir íslenska námsmenn við breska háskóla en sem stendur greiða íslenskir nemendur hærri skólagjöld við breska háskóla en námsmenn frá ríkjum Evrópusambandsins.

Það er vilji beggja landa að efla samstarf á sviði mennta- og vísindamála, óháð Brexit. Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands og eitt helsta samstarfsland okkar í nemendaskiptum. Ég tel að hægt sé að gera enn betur þar og því lagði ég áherslu á að ræða sérstaklega lækkun skólagjalda fyrir íslenska námsmenn í breskum háskólum. Slíkt getur fjölgað íslenskum nemendum sem velja að læra í Bretlandi og eflt samband ríkjanna enn frekar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2019.

Categories
Greinar

Uppbygging skólastarfs á Suðurnesjum

Deila grein

27/04/2019

Uppbygging skólastarfs á Suðurnesjum

Húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja verður stækkað en skrifað var undir samning þess efnis af fulltrúum sveitarfélaga í vikunni. Viðbyggingin mun hýsa félagsrými nemenda og stórbæta aðstöðu þeirra. Stjórnvöld leggja mikla áherslu á að efla framhaldsskólastigið í landinu en framlög til þess í ár nema um 35 milljörðum króna en til samanburðar námu þau um 30 milljörðum árið 2017. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024 er gert ráð fyrir að þessi hækkun haldi sér. Við viljum að nemendur um allt land eigi greitt aðgengi að fjölbreyttri og framúrskarandi menntun og námsaðstöðu þar sem hver og einn getur fundið nám við sitt hæfi.

 

Stöðug framþróun skólastarfs 

Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum hefur verið í stöðugri uppbyggingu frá stofnun árið 1976, en hann var annar fjölbrautaskólinn sem byggður var hér á landi. Nemendur við skólann eru rúmlega 830, á starfs-, bók- og verknámsbrautum. Mikið framboð er af öflugum og fjölbreytilegum námsleiðum og mikilvægt fyrir hvert byggðarlag að þar sé öflugt skólastarf. Það hefur verið mikil þörf á uppbyggingu við fjölbrautaskólann. Á þessu svæði hefur orðið mikil fólksfjölgun á síðustu árum og það er mikilvægt að skólasamfélagið geti tekið við þeim sem vilja stunda nám og boðið upp á góða aðstöðu. Því er afar ánægjulegt að hægt sé að bæta nemendaaðstöðuna en hún er hjartað í hverjum skóla.

 

Tækifærin eru til staðar 

Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Fjórða iðnbyltingin er hafin og hún felur í sér sjálfvirknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og samfélags. Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur bætir einnig námsframvindu. Námsframboð á framhaldsskólastiginu er fjölbreytt og sérstaklega í starfs- og tækninámi. Þau tækifæri sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spennandi enda mikil spurn eftir slíkri menntun í atvinnulífinu. Ég hvet alla þá sem hyggja á nám í framhaldsskóla að kynna sér vel nám og störf í iðn- og tæknigreinum því margbreytileiki þeirra mun án efa koma flestum á óvart. Það er ljóst að framtíðin er full af tækifærum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2019.

Categories
Greinar

„Dáið er allt án drauma“

Deila grein

26/04/2019

„Dáið er allt án drauma“

Á dögunum var opnuð eftirtektarverð sýning í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þar sem þess er minnst að nú eru 100 ár liðin frá útkomu fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness, Barni náttúrunnar. Yfirskrift sýningarinnar er »Að vera kjur eða fara burt?« en höfundurinn ungi valdi að kljást við þá eilífðarspurningu í æskuverki sínu en samband Íslands við umheiminn er eitt helsta viðfangsefni sögunnar.

Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessa sýningu því hún er forvitnilegur aldaspegill, þar er leitast við að fanga tíðaranda og sögulegt samhengi, menningarlífið, bæjarbraginn og bakgrunn höfundarins sem þó var vart af barnsaldri árið 1919. Íslenskt samfélag var í örri mótun og þegar við hugsum til þess í dag hverjir það voru helst sem skilgreindu okkar samfélag áratugina á eftir þá leitar hugurinn ekki síst til skálda og listamanna.

Stórhuga menn
Í bók sinni Skáldalífi skrifar Halldór Guðmundsson um starfsbræður Halldórs Laxness, heimsmanninn Gunnar Gunnarsson og heimalninginn Þórberg Þórðarson – tvo aðra bændasyni sem dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og framtíð þjóðar. Það hefur sitthvað verið skrifað, rýnt og rannsakað um verk og lífshlaup þessara þriggja og þeir á köflum skilgreindir út frá því sem aðgreindi þá og sameinaði. Mér finnst einkar athyglisvert að hugsa til þess hvers konar samfélag mótaði þessa menn, hvað nærði metnað þeirra, sköpunarþrá og hugsjónir á sínum tíma.

Raddir unga fólksins
Bernskuverk Halldórs Laxness bar með sér fyrirheit og verkinu var tekið með nokkurri eftirvæntingu þótt ekki væri allir jafn hrifnir. Saga þessa verks er að mínu mati góð áminning þess fyrir okkur öll að huga vel að bernskuverkum. Að fagna þeim og hlusta á raddir unga fólksins okkar. Þó að hinn sautján ára Halldór Guðjónsson hafi verið fremur óvenjulegur ungur maður, og kominn til meiri þroska en flestir jafnaldrar hans þá og ekki síður nú, þá var hann ungmenni með erindi við heiminn. Það varð gæfa landsmanna og lesenda um allan heim að höfundurinn auðgaði með verkum sínum íslenskar bókmenntir og þar með bókmenntir heimsins með stílsnilli, hugviti og innsýn, og gerir enn.

Alþjóðleg verðlaun
Í dag er haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld, húsi Vigdísar. Dagskráin er liður í Bókmenntahátíð í Reykjavík sem hófst í gær en á þinginu verður tilkynnt um hver hlýtur alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn. Verðlaunin verða veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa auk forsætisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2019.

Categories
Fréttir

Gleðilega páskahátíð

Deila grein

17/04/2019

Gleðilega páskahátíð

Vegna páskaleyfis verður skrifstofa Framsóknar lokuð frá 18. apríl til og með 22. apríl. Opnum aftur þriðjudaginn 23. apríl.
Ef þið viljið koma að fyrirspurnum eða upplýsingum um flokksstarf má senda erindið á netfangið framsokn@framsokn.is.
Skrifstofa Framsóknar óskar landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Skrifstofa Framsóknar