Categories
Greinar

Hvers vegna flutti ég aftur vestur?

Deila grein

03/05/2018

Hvers vegna flutti ég aftur vestur?

Að ákveða hvað maður vill starfa við er stór ákvörðun. Fyrir nokkrum árum, í lok menntaskólagöngunnar þurfti ég líkt og aðrir jafnaldrar mínir að huga að framtíðinni. Á endanum varð sjávarútvegsfræði á Akureyri fyrir valinu, enda fæddur og uppalinn á Ísafirði þar sem aðal atvinnugrein sveitarfélagsins hefur verið sjávarútvegur. Stefnan var alltaf sú að koma aftur heim og leyfa börnunum og fjölskyldu að njóta sömu forréttinda og ég fékk þegar ég var að alast upp. Hins vegar er ekki sjálfgefið að geta látið slíkt ganga upp en við sáum ákveðin tækifæri og höfðum trú á staðnum sem varð til þess að við fjölskyldan fluttumst aftur vestur.

Tækifærin

Atvinnulífið hjá okkur byggist að mestu á þremur þáttum í dag, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og þjónustustörfum við íbúa. Í minni grein, sjávarútveginum, hefur gróskan verið meiri en í mörg ár. Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis er í miklum vexti, hátæknifyrirtækið Skaginn 3X á góðri leið að verða eitt þekktasta tæknifyrirtæki tengt matvælaiðnaði í heiminum og HG að endurnýja togara og hyggjast byggja nýtt frystihús. Ferðaþjónustan hefur svo vaxið og mörg tækifæri eru innan hennar þar sem við ættum að einblína á sérstöðu svæðisins.

Stærsta einstaka tækifærið og ný stoð undir atvinnuvegina okkar er hins vegar fiskeldi. Í Dýrafirði einum verður hægt að ala um 10.000 tonn af laxi á ári, til þess að setja þetta í samhengi er verð á slægðum laxi gróflega um þrefalt hærra en verð á slægðum þorski. Í Dýrafirði einum verða því til verðmæti sem jafngilda 30 þúsund tonnum af slægðum þorski! Við erum með lifandi dæmi á suðurfjörðunum um þau stakkaskipti sem fiskeldið hefur valdið, þorpin sem áður voru í miklum vandræðum eru farin að eflast og vaxa.

Fiskeldi í Ísafjarðardjúpi mun sömuleiðis leiða til mikillar fólksfjölgunar í bæjarfélaginu og á nærsvæði þess, enda gerir varfærið mat ráð fyrir eldi upp á 30.000 tonna burðarþol. Undanfarið ár hafa hins vegar orðið ítrekuð áföll í uppbyggingu fiskeldis í Djúpinu. Þá skiptir höfuðmáli að hafa bæjaryfirvöld sem setja sig vel inn í málin og berjast fyrir hagsmunum svæðisins á öllum vígstöðvum. Fiskeldisfundur með Hafró um miðjan apríl sl. sýndi að þrátt fyrir að fiskeldisfyrirtækin eru tilbúinn að leggja mikið á sig til þess að koma til móts við umhverfissjónarmið, koma enn loðin svör frá stjórnvöldum um hvenær sé hægt að fara af stað.

Í þessu ástandi verða bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ, sem fulltrúar stærsta sveitarfélagsins á Vestfjörðum að hafa forystu um að berjast fyrir hagsmunum svæðisins.

Áskoranir

En með uppbyggingu fylgja áskoranir. Í Ísafjarðarbæ er lítið um laust húsnæði og úrræði fyrir ungar fjöldskyldur daprar varðandi leikskólamál. Eins og staðan er í dag er varla hægt að segja að ungar fjölskyldur geti flutt hingað vestur og gengið beint inn í samfélagið og komið sér á vinnumarkaðinn einfaldlega vegna húsnæðisskorts. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld bregðist við þeim vanda, til dæmis með því að gefa afslátt af gatnagerðargjöldum líkt og oddviti Framsóknar kom í gegn síðastliðið sumar.

Við þurfum að tryggja að börn komist inn á leikskóla fljótt eftir að fæðingarorlofi foreldra ljúki og koma í veg fyrir að fólk þurfi að grípa til þess ráðs að þurfa að keyra með börnin sín á leikskóla utan síns bæjarkjarna líkt og margar fjölskyldur hafa þurft að gera. Það þarf að vera krafa bæjarbúa að fjölga skuli leikskólaplássi í Ísafjarðarbæ og koma á laggirnar ungbarnaleikskóla og flýta því að foreldrar ungra barna komist út á vinnumarkaðinn.

Það fylgja því ótrúlegir kostir að búa hér en við verðum samt sem áður að vera samkeppnishæf varðandi þjónustu og kröfur íbúa, sama hvort það sé í skóla, íþrótta eða húsnæðismálum.

Framtíðin er fyrir vestan

Fyrir þremur árum sáum við Heba Dís tækifæri í að koma aftur heim og vera hluti af þeirri uppbyggingu sem er að fara af stað eftir langvarandi varnarbaráttu byggðanna undanfarin ár. Með trú á svæðinu og samfélaginu keyptum við okkur gamalt hús sem við höfum verið að gera upp. Nálægðin við fjöllin, umhverfið, lognið, nálægðin í frístundir, fólkið og frelsið eru ótvíræðir kostir þess að búa hér.

En til þess að geta notið allra þessa kosta þarf atvinnu. Þess vegna verðum við að tryggja umhverfi fyrirtækjanna, frumkvöðlanna okkar og einstaklinga sem eru að byggja hér upp samfélagið. Ég hef fulla trú á að með öflugri baráttu bæjarins í samvinnu við önnur sveitarfélög megi tryggja atvinnuuppbyggingu, m.a. fiskeldi, sem gerir okkur fært að ráðast í stórsókn á öðrum sviðum samfélagsins og byggja upp bæjina innan Ísafjarðarbæjar.

Kæru frambjóðendur og íbúar. Setjum markið á að horfa lengra til framtíðar en einungis eitt kjörtímabil og stefnum á að byggja hér upp barnvænt samfélag sem sé eftirsóknarvert og geti leitt okkur inn í nýja tíma með ört fjölgandi fólki og blómstrandi mannlífi.

Ég ætla allavega að leyfa mér að vera bjartsýnn og segja að framtíðin sé fyrir vestan.

Anton Helgi Guðjónsson, sjávarútvegsfræðingur og skipa 5. sæti lista Framsóknar í Ísafjarðarbæ.

Greinin birtist á bb.is 28. apríl 2018.

Categories
Greinar

Umhverfismál í forgang í Árborg

Deila grein

02/05/2018

Umhverfismál í forgang í Árborg

Framboð Framsóknar og óháðra í Árborg leggja ríka áherslu á umhverfismál og telur tímabært að setja skýra stefnu í þessum málaflokki í samvinnu við íbúa. Lögbundið er að hvert sveitarfélag leggi fram aðalskipulag þar sem fram kemur stefna þess um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Sveitarfélög geta jafnframt sýnt frumkvæði og lagt í stefnumörkun umfram það sem lögbundið er.

Í stefnumörkun felst að greina stöðuna og setja markmið. Við leggjum til að í greiningavinnunni verði kolefnisspor sveitarfélagsins kortlagt og þættir eins og plastnotkun og matarsóun skoðaðir í því samhengi, til viðbótar við hin hefðbundnu sorphirðu- og fráveitumál. Í kjölfarið verði sett markmið um hvernig við getum bætt okkur sem samfélag.

Ganga þarf lengra í flokkun á sorpi og gefa möguleika á m.a. því að taka á móti lífrænum úrgangi, en þannig má draga úr urðun og skapa í leiðinni verðmæti. Stórbæta þarf fræðslu og kynningu á ferlinu, ekki bara á flokkuninni sjálfri heldur líka hvað verður um úrganginn. Auka þarf hvata fyrir flokkun og skoða kosti þess að koma upp grenndarstöðvum til að mæta þörfum íbúanna. Sorphirðugjald vegna urðunar á sorpi hefur hækkað verulega og eru engar líkur að sú þróun snúist við. Við viljum með þessu sporna á móti þessum hækkunum og um leið auka sjálfbærni.

Löngu er tímabært að sveitarfélagið standist kröfur í fráveitumálum, en reglugerð um fráveitur og skólp tók gildi árið 1999. X-B leggur áherslu á heildarlausn í fráveitumálum sem þjónar öllum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins. Útfærsla með sjó sem viðtaka er ein af fjórum leiðum sem lagðar eru til í mati á umhverfisáhrifum á hreinsun skólps, sem nú er í lögbundnu ferli. Að okkar mati virðist þetta hagkvæm heildarlausn, lífríki Ölfusár, fjörunnar, og okkur íbúum til góða.

Setjum X við B í komandi sveitarstjórnarkosningum og stígum saman inn í 21. öldina í umhverfismálum.

Guðbjörg Jónsóttir, frambjóðandi í 3. sæti Framsóknar og óháðra í Árborg.

Categories
Greinar

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Deila grein

02/05/2018

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Nú dregur að kosningum, Heiða er að hætta sem forseti sveitarstjórnar að loknum fjórum árum og Kata leiðir B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks næstu 4 árin. Okkur stöllurnar langar til að líta saman yfir sveitarfélagið okkar á þessum tímamótum.

Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með vexti Dalvíkurbyggðar síðustu árin og einmitt núna er mikil framsýni og áræðni í íbúum, frumkvöðlum og fyrirtækjum. Ný atvinnutækifæri hafa orðið til á Árskógssandi, Hauganesi og Dalvík. Bændurnir í sveitunum hafa hlúð að sínum fyrirtækjum og uppfært þau til nútímans svo eftir er tekið um land allt. Ferðaþjónusta blómstrar um allt sveitarfélagið í höndum drífandi einstaklinga. Búið er að úthluta lóðum til nýbygginga í iðnaði og þá hafa risið og eru að rísa ný íbúðarhús eftir langa bið.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár staðið í framkvæmdum og m.a. endurbótum við tónlistarskóla, leikskóla, leikhús og sundlaug, ljósleiðaravæðingu og stækkun á þjónustusvæði hitaveitu. Ráðist var í nauðsynlega uppbyggingu við Dalvíkurhöfn í kjölfar ákvörðunar Samherja um að byggja hér upp hátæknifrystihús, ákvörðun sem skiptir sköpum fyrir Dalvíkurbyggð. Nú er nýbúið að leggja fram ársreikning fyrir 2017 sem sýnir mjög góða afkomu og búið er að gera samning um uppbyggingu á íþróttasvæði við íþróttamiðstöðina.

Hinn jákvæði ríkjandi andi er ómetanlegur fyrir byggðarlagið okkar og smitar út frá sér út í þjóðfélagið. Fólk lítur á Dalvíkurbyggð sem vænlegan búsetuvalkost og eignir sem koma á sölu seljast oftast strax. Íbúum er farið að fjölga aftur eftir fækkun síðustu ára og það er afar jákvætt.

Dalvíkurbyggð er skemmtilega fjölbreytt sveitarfélag með ólíka búsetukosti og fjölbreytt atvinnulíf. Hér er mikill mannauður, drifkraftur og dugur. Að þessu öllu ber að hlúa. Takk fyrir góð ár og það er einlæg tilhlökkun að fylgja sveitarfélaginu okkar áfram til næstu framtíðar.

Gleðilegt sumar,
Katrín Sigurjónsdóttir, 1. sæti B-listans 2018 og
Heiða Hilmardóttir, fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúi B-listans.

Categories
Fréttir

Íbúafundur í Reykjahverfi

Deila grein

01/05/2018

Íbúafundur í Reykjahverfi

Frambjóðendur boðuðu til opins fundar í Heiðarbæ, félagsheimilinu í Reykjahverfi í kvöld. Fundurinn var afar gagnlegu. Íbúar komu skoðunum sínum á framfæri, ræddu um hagsmuni alls samfélagsins og það sem stendur þeim næst. Sömuleiðis kynnti framboðið hugmyndir sínar, leiðir og lausnir.

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi

Categories
Fréttir

Íbúafundur í Reykjahverfi

Deila grein

01/05/2018

Íbúafundur í Reykjahverfi

Frambjóðendur boðuðu til opins fundar í Heiðarbæ, félagsheimilinu í Reykjahverfi í kvöld. Fundurinn var afar gagnlegu. Íbúar komu skoðunum sínum á framfæri, ræddu um hagsmuni alls samfélagsins og það sem stendur þeim næst. Sömuleiðis kynnti framboðið hugmyndir sínar, leiðir og lausnir.

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi

Categories
Greinar

Sterkara samfélag

Deila grein

28/04/2018

Sterkara samfélag

Þann 26. maí er boltinn hjá okkur íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar að hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins í sveitarstjórnarkosningum.
Framsóknarmenn og stuðnings­menn þeirra völdu sinn framboðslista á fjölmennum aðalfundi þann 26. febrúar sl. og hafa síðan unnið að undirbúningi kosninganna. Undirrituð er stolt af því að leiða lista öflugra einstaklinga sem vilja vinna af krafti samfélaginu til heilla næstu fjögur árin. Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra vilja vera valkostur fyrir íbúa sem vilja enn sterkara samfélag. Þess vegna höfum við rætt við fjölmarga íbúa, bæði á opnum fundum og á öðrum vettvangi. Við munum kynna stefnumál okkar á næstu vikum en þetta er meðal annars það sem við viljum gera.

Öflug stjórnsýsla
Auglýsa eftir bæjarstjóra. Við leggjum áherslu á að bæjarstjórinn ásamt öðru forystufólki sveitarfélagsins láti að sér kveða í samfélaginu og tali máli þess þannig að eftir sé tekið á landsvísu.

Kröftugt atvinnulíf
Tökumst á við nýjar áskoranir sem hafa komið upp á yfirborðið með auknum straumi ferðamanna. Fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar eiga mjög mikið undir ferðaþjónustunni komið. Gott samstarf sveitarfélags og ferðaþjónustufyrirtækja er öllum mikilvægt, ekki síst þeim fjölmörgu einyrkjum og fyrirtækjum sem þjónusta þessa atvinnugrein. Við viljum standa vörð um þessi staðbundnu fyrirtæki og þjónustuaðila. Auk þess þarf að byggja áfram upp innviði fyrir sjávarútveginn og leggja alla áherslu á að rannsaka Grynnslin og sjá hvað raunhæft er að gera til að bæta innsiglinguna. Sveitarfélagið stendur frammi fyrir mikilli áskorun um hvernig hægt sé að styrkja landbúnað í sessi og þarf að taka virkan þátt í því að leita leiða til að treysta afkomu bænda.

Félags- og heilbrigðismál í fyrirrúmi
Sveitarfélagið Hornafjörður er góður staður til að búa á en við getum gert betur. Við vitum að aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst á sviði geðheilbrigði, þarf að bæta og við ætlum að tryggja að svo verði. Tryggja þarf uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis sem allra fyrst svo bæta megi aðbúnað og vinnuaðstöðu íbúa og starfsfólks. Við viljum efla heimaþjónustu til eldri Hornfirðinga og annarra þeirra sem á þurfa að halda.

Skólarnir hjarta samfélagsins
Eftir mikla fjárfestingu í húsnæði í grunn- og leikskóla er mikilvægt að hlúa nú að starfinu innan veggja skólanna. Ekki að því sé ábótavant heldur þarf sveitarfélagið að halda áfram áherslu á aðbúnað starfsfólks og nemenda, auka aðgengi að stuðningsþjónustu og fleiri atriðum sem gerir skólana okkar að enn betri vettvangi fyrir börn okkar og unglinga.
X-B fyrir sterkara samfélag.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, 1. sæti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Greinin birtist á eystrahorni.is 26. apríl 2018.

Categories
Greinar

Öflugur valkostur í Árborg – XB

Deila grein

27/04/2018

Öflugur valkostur í Árborg – XB

Það eru ákaflega frambærilegir einstaklingar sem spanna mjög vítt svið er skipa lista Framsóknar og óháðra í Árborg. Hver og einn er tilbúinn að leggja sitt að mörkum til að bæta samfélagið okkar með meginhlutverk kjörinna fulltrúa í huga sem er að fara að lögum og gæta jafnræðis meðal íbúa. Við erum reiðubúin að axla ábyrgðina og teljum tímabært að fá ferska vinda inní ráðhús Árborgar.

Á næstunni mun framboðið kynna sínar áherslur þar sem forgangsröðun verkefna verða kynnt. Mörg krefjandi verkefni eru framundan í ört stækkandi sveitarfélagi við uppbyggingu og viðhaldi innviða. Við munum setja umhverfis- og skipulagsmál á dagskrá en auk þess verða málefni fjölskyldunnar sett í öndvegi. Í grunninn snýst val kjósenda um forgangsröðun á verkefnum og traust á þeim aðilum sem bjóða sig til þeirra verka sem framundan eru.

Ég vil skoða að sveitarfélagið fari leið sem mörg fyrirtæki, sem náð hafa árangri, hafa tileinkað sér og innleiða gildi samfélagslegrar ábyrgðar með sjálfbærni í huga. Á það bæði við í starfsemi bæjarins og eins meðal bæjarbúa sjálfra. Þetta felur í grunninn í sér að í sameiningu náum við betur settum markmiðum og aukum þannig verðmætasköpun bæði í veraldlegum og óveraldlegum gildum. Til að marka stefnuna er nauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að móta framtíðarsýn til lengri tíma.

Guðbjörg Jónsdóttir, 3. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Árborg.

Greinin birtist á dfs.is 22. apríl 2018.

 

 

Categories
Greinar

Fjölgum fjársjóðum

Deila grein

27/04/2018

Fjölgum fjársjóðum

Ein af þeim áskorunum sem við tökumst á við um þessar mundir er að almennu læsi ungmenna hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Það er skoðun mín að framboð barna- og unglingabóka á íslensku skipti máli í þessu samhengi. Það eru sóknarfæri til að gera betur í þeim efnum.

Á verðlaunahátíð barnanna, Sögum, um liðna helgi kynnti ég aðgerðir til umbóta. Það var ánægjulegt að geta þar greint frá nýjum styrkjaflokki fyrir barna- og unglingabækur sem verður bætt við bókmenntasjóð Miðstöðvar íslenskra bókmennta á næsta ári. Markmið hans er að styðja við ritun barna- og unglingabóka á íslensku og auka framboð af vönduðum bókmenntum fyrir þessa aldurshópa.

Það er vitundarvakning um þessi mál samhliða aukinni þjóðfélagsumræðu um menntamál. Það er ljóst að það er vilji til að gera betur í þessum efnum. Til að mynda efndu nemendur í Hagaskóla til málþings í vetur undir yfirskriftinni „Barnið vex en bókin ekki“. Þar kom fram að þau teldu áhuga barna og ungmenna á bókmenntum vera til staðar. Skólafólk, foreldrar og rithöfundar hafa einnig kallað eftir aðgerðum til þess að efla megi útgáfu barna- og unglingabóka hér á landi. Í skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu var meðal annars bent á að efla þyrfti útgáfu barna- og unglingabóka með sérstöku tilliti til myndskreyttra bóka og léttlestrarbóka. Það slær í takt við stefnu mína sem mennta- og menningarmálaráðherra.

Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til þess að efla læsi í landinu er að tryggja gott aðgengi barna og ungmenna að bókum.

Læsi barna er samvinnuverkefni samfélagsins alls. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi og nauðsynleg til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls. Bókmenntir er samofnar sögu okkar og við ætlum í sameiningu að tryggja að svo verði áfram. Nýju barna- og unglingabókastyrkirnir eru liður í því að fjölga þeim fjársjóðum sem íslenskar bókmenntir hafa að geyma.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. apríl 2018.

Categories
Greinar

Höggvum á hnútinn

Deila grein

25/04/2018

Höggvum á hnútinn

Þann 19. september árið 2016 var haldin mikil sýning í Kópavogi þar sem bæjarstjóri og formaður bæjarráðs undirrituðu samkomulag við heilbrigðisráðherra um uppbyggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi. Stefnt var að því að taka heimilið í notkun seinni hluta árs 2018.

Ekkert bólar hins vegar á upphafi framkvæmdanna og er nú málið komið fyrir dómstóla og ekki sér fyrir endann á þessum vandræðagangi. Hönnun og framkvæmdir munu ekki fara af stað fyrr en eftir einhver ár ef ekkert verður aðhafst. Það hefur vantað pólitíska forystu hjá núverandi meirihluta í Kópavogi til að knýja málið áfram og algjörlega óviðunandi að tugir einstaklinga fái ekki inn á hjúkrunarheimilið við Boðaþing vegna þessa seinagangs.

Kópavogsbær á að höggva á hnútinn í þessu máli og taka yfir hönnun og framkvæmdir við hjúkrunarheimilið. Reykjavíkurborg fór slíka leið í samvinnu við Hrafnistu vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg í Reykjavík. Eftir sem áður mun ríkið greiða sinn hluta af framkvæmdunum. Það er óásættanlegt að horfa upp á núverandi stöðu mála og við framsóknarmenn munum taka af skarið fáum við umboð til þess frá íbúum í Kópavogi.

Birkir Jón Jónsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi

Baldur Þór Baldvinsson, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi.

Categories
Greinar

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Deila grein

25/04/2018

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Sogkraftur þéttbýliskjarna og höfuðborga er þekktur um allan heim. Okkar verkefni á landsbyggðinni miða að því að sporna við fólksflótta til höfuðborgarinnar með því að tryggja rekstrarumhverfi hefðbundinna greina til framtíðar og auk þess að skapa aðstæður sem miða að því að auka aðdráttarafl landsbyggðarinnar sem góðum valkost fyrir einstaklinga og fyrirtæki að setjast að. Aukin fjöldi fjölskyldufólks metur Borgarbyggð sem góðan búsetukost, stundar vinnu á höfuðborgarsvæðinu og keyrir daglega á milli. Borgarbyggð er orðinn hluti af atvinnusvæði höfuðborgarinnar og nauðsynlegt að við nýtum tækifærin sem því fylgja.

Í ársreikningum sveitarfélagsins síðust ár kemur fram að framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er hundruðum milljóna meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem er merki um aukin hagvöxt og góðan bata í efnahagsmálum. Skuldir ríkisjóðs hafa lækkað og efnahagsleg skilyrði hafa verið hagfelld.  Á landsvísu sjáum við að undirstöðu atvinnugreinum er að fjölga með meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu. Tækifærin í matvælaframleiðslu hér á landi til framtíðar eru mikil með okkar sérstöðu.  Og það má gera þær væntingar til ferðaþjónustunnar að hún tryggi búsetu á ársgrunni og eigi þátt í að fjölga íbúum. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið mikill síðustu ár og talið er að um 50% af hagvaxtaraukningu sé hægt að rekja til ferðaþjónustunnar og ávinningurinn er ýmiskonar en því tengjast líka áskoranir.  Forsendur fyrir því að við getum nýtt okkur þessi tækifæri eru gott samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Það er okkur í hag að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur skilning, þekkingu og áhuga á atvinnugreinum landsbyggðarinnar. Það er samstarfsverkefni þessara aðila að gera gangskör í tryggja lífæðar atvinnulífsins það eru samgöngur og fjarskipti. Forgangsverk í byggðastefnu samtímans verður að vera skilvirkari uppbygging 3ja fasa rafmagns og viðhald og vöxtur vegsamgangna á landsbyggðinni. Það er undirstöðu atriði til að styðja við vöxt og viðgang atvinnu og búsetu.

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Við þurfum metnaðarfulla skólastefnu frá leikskóla upp í framhaldsskóla sem tekur mið af þeirri þróun sem á sér stað með áherslum á að virkja hugvit og sköpun og efla tækni- og raungreinar. Við þurfum að meta hvað hefur tekist vel og hvar má gera betur.  Verum ábyrg með skýra sín og óhrædd við það að vera róttæk.

Með framsækinni stefnumótun getum við sem sveitarfélag verið í fremstu röð.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar.