Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

19/11/2018

Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins, haldinn að Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit dagana 17.-18. nóvember 2018, hvetur ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áfram til góðra verka en leggur áherslu á nauðsyn þess að halda áfram öflugri uppbyggingu innviða, atvinnutækifæra og lyfta grettistaki í húsnæðismálum.

Þjóðarátak í húsnæðismálum

Lyfta þarf grettistaki í húsnæðismálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að auka framboð af íbúðarhúsnæði á landinu öllu á viðráðanlegu verði. Það er óviðunandi hversu hægt sum sveitarfélög, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa dregið lappirnar í lóðaúthlutunum og ýtt þannig undir miklar og óraunhæfar verðhækkanir á húsnæði. Sérstaklega þarf að huga að stöðu fyrstu kaupenda og þeirra sem koma að nýju inn á húsnæðismarkaðinn og Skorar miðstjórn Framsóknarflokksins á ríkisstjórnina alla að vinna svissnesku leiðinni brautargengi á kjörtímabilinu enda eru húsnæðismál velferðarmál.

Menntamál eru efnahagsmál

Ríkisstjórnin á að halda áfram sókn sem er hafin í menntamálum landsins. Menntastefna og atvinnustefna verða að haldast í hendur enda getur skortur á vinnuafli í ýmsum fagstéttum haft neikvæð áhrif á verðlagsþróun og hagvöxt í landinu. Í því samhengi er þarf að halda áfram að efla sérstaklega verk-, iðn-, og starfsnám á landinu öllu og auka nýliðun í kennarastétt. Mennta- og námslánakerfið á að tryggja jöfn tækifæri fólks til að auka færni sína og þekkingu. Klára þarf heildarendurskoðun námslánakerfisins á kjörtímabilinu með það að markmiði að skapa jákvæða hvata fyrir námsmenn til náms og vinnu. Huga þarf að vellíðan nemenda á öllum skólastigum og tryggja greiðan aðgang þeirra að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu.

Afnám verðtryggingarinnar

Miðstjórn Framsóknarflokksins telur afar brýnt að húsnæðisliðurinn verði tekinn  úr vísitölu neysluverðs og að verðtryggingin verði bönnuð  af nýjum neytendalánum á kjörtímabilinu. Miðstjórn telur að kostnaður við eigið húsnæði sem reiknast til neysluverðsvísitölu sé  fremur fjárfesting  en neysla og í því ljósi skal húsnæðisliðurinn undanþeginn. Breytingunni er ætlað að vera til hagsbóta fyrir þorra lánþega. Framsóknarflokkurinn vill enn fremur að skapa hvata og stuðning til þess að heimili geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Þriðji orkupakkinn

Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.

Matvæli

Miðstjórn Framsóknarflokksins vill herða löggjöf á innfluttum matvælum til að verja lýðheilsu gegn matvælum sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið hér á landi auk þess að kolefnisspor þess er stórt. Ísland stendur öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, þar sem lyfjanotkun er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum. Aðrar kröfur um aðbúnað dýra og heilbrigði matvæla eru með þeim metnaðarfyllstu sem um getur.  Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess við erum eyja með hreina búfjárstofna. Miðstjórn krefst þess að stjórnvöld taki það upp við Evrópusambandið að núgildandi reglur um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum fái að gilda áfram.

Landbúnaður

Miðstjórn Framsóknarflokksins skorar á Alþingi að samþykkja frumvarp sem stuðlar að eflingu afurðastöðva í kjötiðnaði. Veita þarf innlendum kjötiðnaði tækifæri til samvinnu og bregðast við ört vaxandi samkeppni með því að undanþiggja afurðastöðvar frá ákvæðum samkeppnislaga. Uppgræðsla á landi og skógrækt eru verðmæt verkefni fyrir bændur til kolefnisjöfnunar og sem styður við metnaðarfullt loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Þá áréttar fundurinn mikilvægi þess að stjórnsýsla í kringum landbúnaðinn verði efld nú þegar til að halda á hans málum innan ríkisstjórnarinnar meðal annars með nýju matvælaráðuneyti.

Samgöngumál

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar þeirri miklu aukningu á fjármunum sem nú er varið til vegamála, bæði þegar kemur að nýfjárfestingum og viðhaldi. Þá fagnar Framsókn markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr loftmengun með því að auka rafvæðingu og orkuskipti í samgöngum. Hlutfall umhverfisvænna bifreiða fer ört vaxandi, nú þegar eru nýskráningar í okt 26% sem er jákvætt og í ljósi þess er nauðsynlegt að útfæra nýjar fjármögnunarleiðir sem renna til vegakerfisins. Miðstjórn Framsóknarflokksins styður tekjuleiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum.
Framsókn leggur áherslu á uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni.
Fundurinn leggur áherslu á að gerð eigendastefnu fyrir Isavia verði lokið sem fyrst með stækkandi atvinnugrein og hag þjóðarinnar í huga. Slík stefna þarf að liggja fyrir áður en ráðist er í skuldbindingar vegna stórframkvæmda.

Kjaramál

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamningum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistrygginga, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykillinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.

Efling nýsköpunar og rannsóknar

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar því að lagt hefur verið fram stjórnarfrumvarp um hækkun á þaki á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði úr 300 m. í 600m.kr. auk þess sem skattaafsláttur til handa einstaklingum sem fjárfesta í nýsköpunarfélögum er framlengdur. Hér er um mikilvægt skref að ræða til að efla nýsköpun fyrir Ísland. Miðstjórn Framsoknar fagnar einnig þingsályktunartillogu þingflokksins um mótun klasastefnu fyrir Ísland. Miðstjórnarfundur flokksins skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir að auka hvata til nýsköpunar enn frekar með því að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar og þróunarkostnað og með því að stofna sérstakan mótframlagssjóð ríkisins sem myndi fjárfesta með viðurkenndum fjárfestum í nýsköpunarfyrirtækjum.

Áframhaldandi uppbygging fiskeldis

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein og mun skapa okkur miklar útflutningstekjur.
Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að tryggja verndun villta laxstofnsins við Ísland, þess vegna er fiskeldi á afmörkuðum svæðum.
Mikil verðmæti eru fólgin í því að byggja upp fiskeldið og Framsóknarflokkurinn sem byggðastefnuflokkur mun styðja við þá uppbyggingu sem snýr að fiskeldi því að þau svæði sem hafa verið í uppbyggingu í greininni þurfa að hafa möguleika á að blómstra. Áfram þarf að vinna að mótvægisaðgerðum sem tryggja verndun alls lífríkis og lágmarka hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofninn.
Framsóknarflokkurinn er umhverfissinnaður flokkur. Því er mikilvægt  að finna jafnvægi á milli þessara hagsmuna, þeirra sem vilja vernda og nýta. Eitt útilokar ekki annað og alli hagsmunaaðilar eiga að geta blómstrað á Íslandi. Framsóknarflokkurinn mun hér eftir sem hingað til standa með þeim byggðum sem eiga undir högg að sækja.

Réttlæti handa heimilunum

Miðstjórn Framsóknarflokksins ítrekar ályktun sem samþykkt var á flokksþinginu í mars 2018 um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.
Það getur hvorki talist eðlilegt né ásættanlegt að um 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum eftir hrun og þegar fjöldinn er slíkur er ekki hægt að líta svo á að um „einkamál“ sé að ræða, heldur djúpstæðan kerfislægan galla sem verður að finna, skoða og leiðrétta.
Framsóknarflokkurinn mun ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan fleiri fjölskyldur missa heimili sín. Lög um nauðungaruppboð og aðfarir eru hliðholl fjármálafyrirtækjum og þau þarf að endurskoða. Jafnframt er kominn tími til að heimilin njóti vafans sem sannanlega er fyrir hendi í viðskiptum þeirra við fjármálafyrirtæki.

Upprunavottorð raforku

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins vill að leita verði leiðað til að sölu upprunavottana raforku úr landi verði hætt og að orkufyrirtækin verði hvött til að láta af þeirri stefnu. Það er mikilvægt skref í rétta átt í sívaxandi umræðu um kolefnislosun.

Categories
Greinar

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Deila grein

19/11/2018

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Allt land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti þess t.d. veiði og vatnsréttindi.

Meðferð og notkun alls landsins skiptir alla landsmenn máli bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands, því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fastegin.

Eignarhald, ráðstöfunarréttur og ábyrgð á landi þarf að vera í höndum landsmanna. Stjórnvöld og almenningur geta haft áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir þar sem sveitarfélög geta sett landnýtingu mismunandi skorður eftir náttúrufari, eðli ræktunar og manngerðs umhverfis.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands.  Án tafar þarf ríkisvaldið að setja skilyrði um að sá sem vill eignast land eða jörð hafi búsetu á Íslandi eða hafi áður haft hér fasta búsetu í a.m.k. 5 ár.  Þessa reglu þarf að aðlaga EES samningnum á málefnalegan hátt og það er einfalt að gera.

Einnig þarf að fylgja eftir áliti starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum frá því í september 2018,  um aðrar mögulegar breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.  Þessum tillögum voru gerð ítarleg skil í Bændablaðinu þann 1. nóvember s.l. og þegar hefur verið boðað að forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar.

Sveitarfélög geta notað skipulagsáætlanir betur en nú er gert  til að setja kvaðir um landnýtingu.  Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi í skipulagi.   Einnig væri athugandi að skilgreina í skipulagi,  jarðir þar sem heilsársbúseta er æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar,  s.s. öryggissjónarmið, eftirlit lands og náttúruvernd.  Í Landsskipulagsstefnu er nú þegar gert ráð fyrir að sett verði  fram leiðarljós um landnotkun í dreifbýli til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.

Þá geta stjórnvöld beitt skattlagningu til að hafa áhrif á nýtingu fasteigna eins og jarða og húsa sem á þeim standa. Þannig mætti beita fasteignaskatti sem hvata til nýtingar eigna í strjálbýli með því að leggja hærri skatt á eignir sem ekki eru í notkun.

Bætt skráning landeigna er forsenda þess að hægt verði að beita stjórntækjum markvisst við ráðstöfun lands. Til þess þarf að byggja upp miðlæga landeignaskrár sem inniheldur hnitsetta afmörkun allra landeigna; þjóðlenda, jarða og lóða.

Tæknin fyrir Landeignaskrá er til staðar,  aðeins þarf að setja reglur um skráningu og ganga skipulega til verks.  Landeignaskrá Íslands yrði gunnur að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu á auðlindum jarðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2018.

Categories
Greinar

Efling afurðastöðva í kjötiðnaði.

Deila grein

15/11/2018

Efling afurðastöðva í kjötiðnaði.

Nú liggur frammi frumvarp á Alþingi um breytingar á búvörulögum sem undirrituð er fyrsti flutningsmaður að. Frumvarpið felur í sér breytingar á þann hátt að  þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Það gæti m.a. falist ísamvinnu um flutning sláturgripa, dreifingu afurða og sölu á erlendamarkaði.

Eins og segir í greinagerð með frumvarpinu  er þetta gert í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er allt kjöt undir. Með frumvarpinu er tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði hafa nú takmarkaða möguleika til samstarfs og sameiningar þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Þá dregur það úr tækifærum til sóknar á erlenda markaði. Frumvarpinu er líka ætlað að bregðast við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum, en í dag eru um 20% af heildarneyslu innflutt kjöt. Litlar afurðastöðvar um landið hafa ekki einar og sér burði til að keppa á þessum markaði. Veruleikinn er að íslenskur landbúnaðar á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni.

Hagur neytenda og bænda

Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og var á sett á stað nefnd til að skoða hvaða úrræði væru í sjónmáli til að laga stöðu sauðfjárbænda. Í þeim viðræðum hefur verið nefnt að það þurfi að fara ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðustöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þessar afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leiti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að það sé grundvöllur til að hagræða í rekstri.  Verði frumvarpið samþykkt verður afurðastöðvum gert kleift að vinna saman og eða sameinast til að vinna t.d. að markaðstarfi erlendis eða hagræða í rekstri, það ætti að skila lægra verði til neytenda og hærri verði til bænda.

Í skýrslu KPMG um úttekt á afurðastöðvum er m.a. sagt að margt bendi til þess að fjöldi sláturhúsa sé of mikill og þeim þurfi að fækka til að auka hagræði í greininni. Þar segir líka að fækkun afurðastöðva gæti aukið arðsemi, sláturhúsin sem eftir verða hefðu svigrúm til að sjálfvirknivæðingar til að bregðast við erfileikum við að manna afurðastöðvarnar yfir háannatímann.

Hagsmunir bænda og neytenda fara saman og því er það sameiginlegt baráttumál að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 15. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

Deila grein

13/11/2018

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, fagnar farsælu ríkisstjórnarsamstarfi flokksins. Þau mál sem brenna heitast á fjölskyldum og almenningi í Reykjavík eru helstu stefnumál flokksins. Þau snúa öll að réttlæti. Bann við verðtryggðum húsnæðislánum er réttlæti, lægri vextir með tilkomu samfélagsbanka er réttlæti, húsnæðisliður úr vísitölu er réttlæti, Svissneska leiðin í húsnæðiskaupum er réttlæti, uppskurður lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðing er réttlæti, verja þarf rétt neytenda gegn ofurvaldi fjármálafyrirtækja, því það er réttlæti. Löngu er tímabært að almenningur geti leitað skjóls gegn fjármálastofnunum sem fara offari. Framsóknarmenn fagna því að gerð verði skýrsla um framferði yfirvalda og fjármálafyrirtækja eftir hrun.
11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Fréttir

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

Deila grein

13/11/2018

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, fagnar farsælu ríkisstjórnarsamstarfi flokksins. Þau mál sem brenna heitast á fjölskyldum og almenningi í Reykjavík eru helstu stefnumál flokksins. Þau snúa öll að réttlæti. Bann við verðtryggðum húsnæðislánum er réttlæti, lægri vextir með tilkomu samfélagsbanka er réttlæti, húsnæðisliður úr vísitölu er réttlæti, Svissneska leiðin í húsnæðiskaupum er réttlæti, uppskurður lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðing er réttlæti, verja þarf rétt neytenda gegn ofurvaldi fjármálafyrirtækja, því það er réttlæti. Löngu er tímabært að almenningur geti leitað skjóls gegn fjármálastofnunum sem fara offari. Framsóknarmenn fagna því að gerð verði skýrsla um framferði yfirvalda og fjármálafyrirtækja eftir hrun.
11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Greinar

Frelsi til heilbrigðis

Deila grein

12/11/2018

Frelsi til heilbrigðis

Ólafur Stephensen skrifar líflega grein í Morgunblað föstudagsins þar sem hann finnur að ýmsu því sem ég nefndi í grein minni í blaðinu á fimmtudag og varaði fólk við því, meðal annars, að taka of mikið mark á mér sem dýralækni. Munurinn á okkur Ólafi liggur þegar kemur að dýralækningum og dýraheilbrigði ekki síst í því að ég er dýralæknir en hann ekki. Er þá þessum hluta rökræðunnar lokið.

Einstök staða Íslands

Það sem einna helst einkennir líf, hvort sem það er mannlíf eða dýralíf, er að það þróast. Þetta á ekki einungis við um það að lífverur eldist, heldur einnig það að við vitkumst og þróumst í hugsun eftir því sem tíminn líður. Fyrir nokkrum áratugum mæltu amerískir læknar með einstaka sígarettutegundum í auglýsingum en sú aukabúgrein lækna er líklega úr sögunni. Sykurinn sem amma mín taldi meinhollan hefur einnig hrunið niður vinsældalista þeirra sem leggja áherslu á góða heilsu. : Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í. Ég mæli því ekki með því við Ólaf og verslunina að fara í slagsmál við lækna og dýralækna þegar kemur að heilbrigði manna og dýra á Íslandi.

Hrátt kjöt er ekki eins og hvert annað vörunúmer

Sá slagur sem Ólafur og verslunin eru í og hafa náð nokkrum árangri í er á sviði frjálsrar verslunar. Þá er bara spurningin sú hvort kjörbúðin sé rétti vettvangurinn fyrir matarslag. Hvort frjáls verslun með hrátt kjöt sé bara eins og hvert annað bókhaldsnúmer þegar við blasir á þeim mörkuðum sem verið er að opna að ástandið er bara alls ekki nógu gott. Og langt frá því.

Vakning um allan heim

EES-samningurinn er Íslendingum gríðarlega mikilvægur, ekki síst þegar kemur að hagsmunum sjávarútvegsins. Það að bera saman íslenskar sjávarafurðir og afurðir verksmiðjubúa meginlandsins er þó eins og að bera saman tómata og ananas. Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES-samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum.

Tökum ekki áhættuna

Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja við Ólaf og félaga: „I told you so“.

Fyrir áhugasama þá er rétt að benda þeim á að gúggla nöfn veirufræðingsins Margrétar Guðnadóttur heitinnar og Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, og sjá hvað greinar þeirra hafa að segja um innflutning á hráu kjöti og sýklalyfjaónæmi. Því þótt þau séu ekki dýralæknar þá hafa þau mikið til málanna að leggja.

Útdregið: Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Sókn er besta vörnin

Deila grein

12/11/2018

Sókn er besta vörnin

Degi íslenskrar tungu verður fagnað með fjölbreyttum hætti á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar hinn 16. nóvember nk. Dagurinn hefur fest sig í sessi í huga landsmanna og margir nýta hann til að fagna því sem vel er gert og minna á mikilvægi tungumálsins. Íslenskan skipti sköpum í sjálfstæðisbaráttu okkar og athyglivert er hversu mikla áherslu forystufólk á þeim tíma lagði á mikilvægi tungumáls og menntunar. Þegar litið er um öxl má með sanni segja að vel hafi tekist til við að auka lífsgæði á Íslandi. Við þurfum hins vegar alltaf að vera meðvituð um þá samkeppni sem ríkir um mannauðinn og keppa að því að lífskjör séu góð og standist alþjóðlegan samanburð.

»Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð,« er haft eftir Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvægt að undirstrika stöðu þjóðtungunnar. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda til að tryggja að tungumál líkt og íslenska séu gjaldgeng í nútímasamskiptum. Nauðsynlegt er að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna svo hún megi þróast og dafna til framtíðar. Ábyrgðin á því viðvarandi verkefni hvílir hjá stjórnvöldum og atvinnulífi hvers tíma.

Það eru forréttindi fyrir fámenna þjóð að tala eigið tungumál. Þjóðir hafa glatað tungumálum sínum eða eru við það að missa þau. Dæmi um slíkt er lúxemborgíska sem er eitt þriggja mála sem töluð eru í Lúxemborg. Um áratugaskeið hafa opinber skjöl í Lúxemborg verið birt á frönsku og þýsku en lúxemborgíska verið töluð. Líkt og Ísland er Lúxemborg fámennt land með háar þjóðartekjur en landfræðileg staða ríkjanna er afar ólík. Yfirvöld í Lúxemborg hafa hugað lítt að því að tæknivæða lúxemborgísku og því fer notkun hennar dvínandi.

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, m.a. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni verður kynnt þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

Deila grein

12/11/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið í Kópavogi, föstudaginn 9. nóvember 2018, lýsir yfir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á.
Kjördæmisþingið þakkar þann góða stuðning sem listar flokksins fengu í kjördæminu í sveitastjórnarkosningunum sem leiddi til þess að framsóknarmenn eru nú í meirihluta í tveimur af stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogi og Hafnarfirði.
Kjördæmisþingið fagnar því að tillaga samgönguráðherra að samgönguáætlun sé komin fram og að fimm ára samgönguáætlun sé fullfjármögnuð.  Fátt er þó mikilvægara í daglegu amstri íbúa kjördæmisins en bættar samgöngur og er ljóst að væntingar eru um mun hraðari uppbyggingu samgangna í kjördæminu en þar birtist.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að helstu mál flokksins í húsnæðismálum gangi eftir er varðar möguleikann á að nýta lífeyrisiðgjald til að kaupa á fyrstu íbúð (svissneska leiðin), að afborgunarhlé verði á námslánum af sama tilefni, bann við verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum og að húsnæðiskostnaður falli út úr vísitölu neysluverðs.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamingum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins.  Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykilinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.
Kjördæmisþingið telur menntun, menningu og íþróttir vera lykilstoðir í samfélagi okkar.  Því skiptir miklu máli að auka fjárveitingar til háskólanna og framhaldsskólanna til að efla starf þeirra. Lengi hefur verið beðið eftir breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Tekur kjördæmisþingið undir áherslur menntamálaráðherra um að breyta hluta námslána í námsstyrk, nýta LÍN til að stuðla að jafnræði til náms út um allt land og bregðast við alvarlegum skorti á ákveðnum starfsstéttum.
Kjördæmisþigið lýsir yfir áhyggjum af skorti á kennaramenntuðum starfsmönnum í leikskólum landsins. Rannsóknir sýna fram á að snemmtæk íhlutun í menntun og öðrum málefnum barna skiptir sköpum um þroska og velferð hvers einstaklings . Mikilvægt er að grípa til úrræða sem gerir starf innan leikskóla eftir sóknarvert svo hæfasta fólkið veljist til starfa.
Kjördæmisþingið lýsir yfir áhyggjum af aukinni vanlíðan ungs fólks og brottfalli þess úr framhaldsskóla. Mikilvægt er að skimma fyrir líðan nemenda í grunnskóla og grípa inn í fyrr en nú er gert og veita börnum aðstoð og þjálfun við hæfi. Einnig er mikilvægt að börn, unglingar og ungt fólk eigi greiðan aðgang að sálfræðiaðstoð og öðrum stuðningi sem hvetur þau til samfélagslegrar virkni og stuðlar að vellíðan.
Kjördæmisþingið telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Greinar

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Deila grein

09/11/2018

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Einstaklingum sem metnir eru til örokur hefur fjölgað ár frá ári. Fjölgun þeirra sem metnir hafa verið 75% öryrkjar fjölgaði um 3,9% milli áranna 2016 og 2017.

Það eru fjölmargar ástæður sem liggur á bak við örorku einstaklinga en einn sjúkdómur sem hefur meiri tíðni hér en víða erlendis er vefjagigt samkvæmt svari við fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á sl. vetri.

Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma.

Konur í meirihluta

Talið er að vefjagigt hrjái 2-13% fólks á hverjum tíma hún er algengari hjá konum en körlum eða 3-4 konur á móti einum karli. Það eru ekki til heildarupplýsingar um fjölda einstaklinga sem greinir hafa verið hér á landi en í rannsókn frá 1998 reyndist algengi vefjagigtar vera 5,6% á meðal 18 ára einstaklinga og eldri en erlendis er algengi vefjagigtar oftast á bilinu 1-4%. Vefjagigt er yfirleitt langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri.

Árangur af meðferð

Engar ritrýndar niðurstöður hafa verið birtar um árangur af meðferð á vefjagigt á Íslandi. Þraut – miðstöð um vefjagigt hefur tekið saman upplýsingar um árangur endurhæfingar fyrir fjögurra ára tímabil, árin 2011–2015. Niðurstöðurnar voru annars vegar birtar í skýrslu Þrautar til Sjúkratrygginga Íslands árið 2014 og hins vegar í nýlokinni meistararitgerð Sigríðar Björnsdóttur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar sýna þýðingarmikinn, marktækan bata eftir endurhæfingu hvað varðar heildarstöðu sjúklinganna, færni og lífsgæði. Niðurstöðurnar sýna einnig að verkir, þreyta, andleg líðan og streitueinkenni batna marktækt eftir endurhæfingu.

Fræðsla og forvarnir

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagift og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

Heilbrigðiskerfið þarf að leggja eyrun við þessum þögla sjúkdómi og viðurkenna hann sem stóran þátt í að konur á öllum aldri séu að detta út af vinnumarkaði og einangrast heima með verkjasjúkdóm sem gerir einstaklinginn óvirkan bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

Categories
Greinar

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Deila grein

09/11/2018

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Okkur ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja þeim tækifæri til þess að þroskast og dafna. Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartæki okkar og þar er lagður grunnur að tækifærum framtíðarinnar. Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Í þeirra tölum hefur einnig komið fram að íslenskt skólakerfi einkennist af jöfnuði.

Lesskilningur

Kveikjan að þessum skrifum er umræða í þinginu í gær um stöðu drengja. Hún bar yfirskriftina »Drengir í vanda« og þar ræddu þingmenn vítt og breitt um stöðu íslenskra drengja. Ég færi Karli Gauta Hjaltasyni, þingmanni Flokks fólksins, þakkir fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni. Mér er málið hugleikið og líkt og samstarfsfólk mitt í þinginu hef ég áhyggjur af slökum lesskilningi íslenskra drengja. Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2015 sýndu að 29% íslenskra drengja væru í lægstu hæfniþrepum prófsins og gætu ekki lesið sér til gagns. Það er stórt samfélagslegt verkefni að bæta læsi íslenskra barna og að því vinnum við í sameiningu. Eitt mikilvægt tæki til þess eru lesfimipróf sem innleidd hafa verið. Vísbendingar eru um að okkur miði í rétta átt samkvæmt nýjustu niðurstöðum.

Brotthvarf

Töluverður munur er á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum eftir kynjum og þar hallar á drengina. Á Íslandi eru fleiri karlar á aldrinum 25-34 ára án framhaldsskólamenntunar en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Menntunarstig þjóðarinnar hefur aukist mjög á sl. tíu árum, en háskólamenntuðum konum hefur fjölgað mun hraðar en körlum þannig voru konur eru tveir af hverjum þremur sem brautskráðust af háskólastigi hér á landi á árunum 2015-2016. Að undanförnu höfum við gripið til aðgerða til að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum m.a. með því að veita auknum framlögum til skólanna til að mæta nemendum í brotthvarfshættu, hefja skimun fyrir brotthvarfi og vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.

Samstarf um árangur

Vellíðan og velgengni nemenda er stöðugt verkefni skólafólks og menntakerfisins í heild. Þar þurfa margir þættir að koma saman til að árangur náist og hann sé viðvarandi. Nú í haust var stigið gott skref í þá átt að auka samstarf í þágu barna þegar ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis, ásamt fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að við hyggjumst auka samstarf okkar á þeim málefnasviðum er snúa að velferð barna og brjóta niður múra sem myndast geta milli kerfa. Markmiðið er skýrt; að tryggja sem best að börn og ungmenni fái heildstæða og samhæfða þjónustu þvert á stofnanir og kerfi.

Snemmtæk íhlutun

Þessi viljayfirlýsing kallast á við þær áherslur sem við höfum talað fyrir er snerta snemmtæka íhlutun. Hún felur í sér að börn og ungmenni fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og þeim sé veitt liðsinni áður en vandi þeirra ágerist. Við náum mestum árangri með snemmtækri íhlutun þegar allir leggja sig fram við að eyða þeim hindrunum sem geta skapast milli málefnasviða, stjórnsýslustiga og stofnana þegar kemur að því flókna verkefni að stuðla að velferð barna.Íslenskt menntakerfi er öflugt og mörgum kostum búið. Við viljum gera enn betur og sóknarfærin eru víða. Menntatölfræði og niðurstöður rannsókna eru mikilvæg innlegg í þá stefnumótun sem nú stendur yfir vegna mótunar menntastefnu til ársins 2030. Eitt af því sem er til skoðunar þar er hvernig við getum forgangsraðað með skilvirkari hætti í þágu þeirra sem mæta áskorunum í menntakerfinu, hvort sem það eru drengir eða stúlkur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2018.