Categories
Greinar

101 Popúlismi Fréttablaðsins

Deila grein

27/02/2016

101 Popúlismi Fréttablaðsins

haraldur_SRGBLeiðari Fréttablaðsins 25. febrúar undirstrikar þekkingarleysi á málefnum Laugarvatns og að höfundur hefur einungis kynnt sér 101-hlið málsins. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun en er ekki hafin yfir gagnrýni. Sérstaklega ekki af hálfu þeirra sem veittu Háskólanum 12,5 milljarða króna í síðustu fjárlögum. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem og margir aðrir þingmenn, vilja bjóða upp á nám á Laugarvatni eins og hefur reyndar verið boðið upp á síðastliðin 84 ár. Gagnrýni á ákvörðun Háskólans er því ekki einhver popúlismi. Þetta snýst um mikið áfall fyrir litla byggð úti á landi, sem er samofin háskólasamfélaginu og byggir að stórum hluta sína starfsemi í kringum Háskólann og fékk engan fyrirvara. Námið á Laugarvatni er hluti af merkri menntasögu landsins. Laugarvatn hefur verið byggt upp sem menntaþorp, þekkingarsamfélag. Því miður virðast margir ekki bera nokkra virðingu fyrir því. Ákvörðunin um að loka á þessa merku sögu er áfall, ekki bara fyrir Laugarvatn heldur fyrir landið allt.

Nemendur, núverandi og fyrrverandi vilja halda náminu á Laugarvatni. Stjórnendur vilja breyta náminu til að tryggja aukinn áhuga sem og að aðlaga námið að breyttum áherslum samfélagsins. Háskólinn hefur ekki sinnt viðhaldi á fasteignum skólans á Laugarvatni undanfarin ár. Ekkert samtal var við fjárveitingavaldið til að koma til móts við Laugarvatn. Reiknireglan fyrir Laugarvatn miðast við að námið sé í Reykjavík. Allt þetta er gagnrýnivert en ekki popúlismi. Sérstaklega í ljósi þess að mikill stuðningur er við háskólanám í háskólaþorpinu Laugarvatni.

Fækkun nemenda hefur verið töluverð frá árinu 2010, eða frá því námið var lengt úr þremur árum í fimm. Fækkunin hefur þó ekki verið meiri í íþróttanámi en öðru kennaranámi. Aðrar kennaragreinar hafa komið verr út en íþróttakennaranám, þrátt fyrir að vera kenndar í höfuðborginni. Háskólinn hefur ekki gert greiningu á þessari fækkun hjá menntavísindasviði. Ljóst er því að fækkunin hefur ekkert með staðsetninguna að gera heldur kerfisbreytingar á kennaranámi almennt.

Málamyndagjörningur
Markmiðið var aldrei af hálfu Háskólans að halda náminu á Laugarvatni. Annars hefði verið ráðist í breytingar og eflingu á náminu á Laugarvatni líkt og gert var við leikskólakennaranám þegar skráning þar var hvað verst. Það var mikill áhugi heimamanna og velunnara námsins að fara í öfluga kynningu á náminu. Auðvitað hefði átt að vera í gangi alvöru samtal við Alþingi, Bláskógabyggð og háskólafélag Suðurlands, en ekki byrjað á því daginn eftir að ákvörðun Háskólaráðs var frestað, þó það hafi bara verið málamyndagjörningur.

Það er alfarið rangt hjá leiðarahöfundi að það sé einungis hægt að stunda íþróttakennaranám á Laugarvatni. Höfundur ætti að athuga heimasíðu Háskóla Reykjavíkur og endurskrifa greinina. Núna hins vegar verður ekki hægt að stunda íþróttakennaranám á landsbyggðinni. Einnig fer leiðarahöfundur ranglega með gæði náms á Laugarvatni, þar ætti hún að tala við rektor sjálfan enda námið mjög gott og mikil ánægja með það.

Ég fullyrði að nánast allir á Alþingi vilji stuðla að námi úti á landi samhliða uppbyggingu náms í höfuðborginni. Það virðist hins vegar ekki vera hægt í samstarfi við Háskóla Íslands. Háskólinn hefur rofið sátt um að Háskólinn eigi að vera Háskóli allra landsmanna.

Fréttamenn eiga að vera gagnrýnir á ákvarðanir og upplýsandi, ekki gagnrýnir á einstaka stjórnmálaflokka og taka afstöðu með eða á móti ákvörðunum. Það taldi ég vera markmiðið eða er markmiðið 101 Popúlismi?

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Birgitta á að fagna fjármunum í ljósleiðarann

Deila grein

26/02/2016

Birgitta á að fagna fjármunum í ljósleiðarann

Páll„Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Þetta er það mikið byggðamál að það er aldrei of mikið rætt í þessum sölum. Ég tek alveg undir áhyggjur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, en þetta er nú einu sinni þannig að þegar kemur að framkvæmdum og það loksins — og ég hefði haldið að hv. þingmaður fagnaði því að ríkisstjórnin væri loksins að setja fjármuni og hefja framkvæmdir á þessu mikilvæga máli frekar en að velta sér upp úr því hvernig hlutirnir eru gerðir.
Ég er nærri viss um að það er alveg sama hver tillagan verður, og þess skal getið að starfshópurinn er ekki búinn að skila tillögum til ráðherra, en í dag er þetta unnið þannig að fjarskiptafélögin sækja til fjarskiptasjóðs um styrki til þess að fjarskiptatengja staði á markaðsbrestssvæðum.
Þetta árið munum við líklegast leggja til að sveitarfélög sæki um styrki til þess að leggja á sínum svæðum sem þýðir með öðrum orðum að við munum væntanlega leggja til að þessir takmörkuðu fjármunir verði veittir þannig að þeim verði dreift á þrjú, fjögur svæði, á norðvestur-, norðaustur- og suðursvæði, í hlutfalli við það hversu margir ótengdir staðir eru á hverjum stað. Við reynum að tryggja að þetta dreifist um allt landið, mest á þá staði sem eru verst staddir, en við getum svo lengi deilt um það hvar við eigum að byrja verkið. Mér finnst mest um vert að við erum að byrja þetta mikilvæga verk.”
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Skýrari leiðsögn stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu

Deila grein

26/02/2016

Skýrari leiðsögn stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og áskorun átta félagasamtaka sem vinna að þessum málum þar um og taka þau undir hvert orð í skýrslunni.
Það er augljóst að við tökum þessa áskorun alvarlega vegna þess að hér hafa fleiri hv. þingmenn rætt þetta mál, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og hv. þm. Páll Valur Björnsson.
Um er að ræða viðvarandi skipulags- og kerfisvanda þannig að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda undanfarna áratugi til þess að bæta úr hefur það leitt til þess að meðal annars hafa safnast upp reglulega biðlistar þar sem við höfum reynt að takast á við þann vanda með reglubundnum átaksverkefnum.
Hér vantar samkvæmt skýrslunni mat á þjónustuþörfinni. Vísað er í erlendar rannsóknir og er áætlað að um 80% barna þurfi aldrei að leita út fyrir grunnþjónustuna, en þjónustustigin eru þrjú; grunn-, ítar- og sérþjónusta, og að um 16.000 börn og unglingar muni einhvern tíma þurfa á að halda ítar- eða sérþjónustu. Við árslok 2015 er biðlistinn eftir þeirri þjónustu samkvæmt skýrslunni 718 börn.
Það blasir auðvitað við samhæfingar- og skörunarvandi þar sem verkefnið er á borði fjölmargra aðila á ólíkum stjórnsýslu- og þjónustustigum. Þess vegna er kallað eftir skýrri leiðsögn stjórnvalda í þessum efnum, til þess að ná fram samhæfingu og samvinnu og skýrari verk- og ábyrgðarskiptingu þjónustuaðila.
Þingsályktunartillaga hæstv. heilbrigðisráðherra um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú í vinnslu hv. velferðarnefndar og þar er tækifæri til að ráðast að rótum vandans og styrkja grunnþjónustuna sem bætir kerfið í heild og til lengri tíma.
Ríkisendurskoðun telur ástandið algjörlega óviðunandi og ég vil því, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, hvetja hv. velferðarnefnd til að skoða sérstaklega ítar- og sérþjónustu, bæði með kerfislausnina í huga en ekki síður hvort ekki þurfi samhliða átak til að útrýma óæskilegum biðtíma og biðlistum.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Börnin okkar eru til fyrirmyndar

Deila grein

26/02/2016

Börnin okkar eru til fyrirmyndar

Elsa-Lara-mynd01-vefurÖll viljum við búa í fjölskylduvænu samfélagi. Samvera fjölskyldunnar er mikilvægur þáttur í þroska og velferð barna og unglinga og því er gleðilegt að sjá hvað samverustundum hefur fjölgað síðustu 10 ár. Í nýbirtum Félagsvísum sem Velferðarráðuneytið gefur út kemur þessi afgerandi þróun í ljós. Á einungis 10 árum hefur fjöldi barna á aldrinum 14 – 15 ára, sem segjast verja tíma með foreldrum sínum oft eða nær alltaf um helgar, farið úr 37% árið 2006 og í 63% árið 2014.

Minnkandi notkun áfengis og tóbaks
Lífsvenjur barna og unglinga á Íslandi hafa tekið miklum breytingum til hins betra síðasta áratuginn. Regluleg íþróttaiðkun barna á aldrinum 14 – 15 ára hefur aukist úr 31,8% árið 2006 í 39% árið 2014 og á sama tíma hefur notkun áfengis og tóbaks dregist saman. Fyrir 10 árum sögðust 12% 15 ára barna reykja eina eða fleiri sígarettur á dag en árið 2015 var hlutfallið farið niður í 2,5%. Þróunin er þó enn jákvæðari þegar þróun á notkun áfengis er skoðuð. Á þessum sama tíma hefur notkun áfengis 15 ára unglinga farið úr 26% niður í 4,6%. Ætla má að hér séu mismunandi áhrifavaldar að verkum. Forvarnir og fræðsla hefur aukist til muna og heilbrigði og hreysti hefur blessunarlega komist í tísku, ef svo má segja. Aukin samvera fjölskyldunnar er einnig stór þáttur í breyttu lífsmynstri og hafa breytingar á vinnumarkaði, t.a.m. sveigjanlegir vinnutímar og fjölskyldustefnur fyrirtækja, mikið að segja.

Fjölskylduvænna samfélag
Það er ekki sjálfgefið að þróunin sé með þessum þætti og við megum alls ekki sofna á verðinum. Það er mikilvægt að stjórnvöld hverju sinni leggi áherslu á að viðhalda og bæta það fjölskylduvæna samfélag sem hér hefur skapast. Heildarvinnuálag hjá íslenskum fjölskyldum er meira hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og þurfum við að gera betur í þeim efnum. Þar má nefna styttingu vinnuvikunnar og samfellu milli fæðingarorlofs og leikskóla, eins og kom fram í tillögum verkefnisstjórnar Velferðarráðuneytisins sem miða að samþættingu fjölskyldu – og atvinnulífs.

Við getum þó sannarlega glaðst yfir því hve langt við höfum náð nú þegar og það er ljóst að framtíðin er í góðum höndum hjá þessari frábæru kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 26. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Af stóru málunum

Deila grein

26/02/2016

Af stóru málunum

haraldur_SRGBFyrir kosningarnar árið 2013 var ljóst að mörg stór mál biðu úrlausnar á komandi því kjörtímabili. Það er óhætt að halda því fram að stóru málin hafi verið skuldamál heimilanna, afnám hafta, húsnæðismál og verðtryggingin. Það er því góður tímapunktur núna, þegar árið 2016 er gengið í garð, að horfa yfir farinn veg og meta stöðuna. Höfum við gengið götuna til góðs? Hefur eitthvað mjakast áfram og hvað stendur eftir.

„Móðir“ allra kosningaloforða efnt

Allt frá árinu 2009 höfðum við framsóknarmenn talað um mikilvægi þess að leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna. Leiðréttingin var unnin af fagmennsku, af sérfræðingum og tókst framkvæmd hennar frábærlega. Tveimur árum eftir kosningar höfðu heimili með verðtryggð húsnæðislán, sem var sá hópur sem hafði beðið hvað lengst eftir leiðréttingu sinna mála, fengið leiðréttingu á allri verðbólgu áranna 2008 og 2009 fyrir ofan 4% vikmörk Seðlabankans. Það er nauðsynlegt að ítreka það að  4 milljóna króna þak var á leiðréttingafjárhæð til að tryggja það að fjármagn leiðréttingarinnar dreifðist fremur á hina tekjulægri. Ekki var hugsað fyrir slíku þaki á 110% leið bankanna og síðustu ríkisstjórnar þar sem um 20 milljarðar fóru til 1% heimila í landinu, eða um 775 heimila.

Staðfesta við afnám hafta

„Hvernig getur þú talað svona með allt öðrum hætti en allir aðrir flokkar sem eru í framboði þings?“ Svona spurði Sigmar Guðmundsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, í þættinum Forystusætið á RÚV fyrir síðustu kosningar. Staðreyndin er einfaldlega sú að Framsóknarflokkurinn talaði einn flokka um að mögulegt væri að afnema höftin á kjörtímabilinu og af því gæti hlotist verulegur ávinningur fyrir ríkissjóð. Nú er svo komið að trúverðug áætlun um losun fjármagnshafta liggur fyrir. Ástæða fyrir trúverðuleika og góðum undirtektum kröfuhafa er augljóslega það að þeim voru gefnir upp valkostir ásamt því að réttir hvatar voru til staðar. Talað var um málflutning framsóknarmanna sem „popúlisma“. Nú er hinsvegar gert ráð fyrir að ráðstafanir slitabúanna til þess að uppfylla stöðugleikaskilyrðin nemi um 850 milljörðum og þar af nema greiðslur til stjórnvalda 5-600 milljörðum. Ekki er hægt að nefna eina ákveðna tölu þar sem framlagið er að stórum hluta í formi eigna, en ljóst er að ávinningurinn er gríðarlegur.

Heimilin, verðtryggingin og almannatryggingar

Fjögur húsnæðisfrumvörp eru nú komin til velferðarnefndar. Í þeim má meðal annars finna nauðsynlegar úrbætur í húsnæðismálum tekjulægri fjölskyldna og fjölgun félagslegs húsnæðis. Það má heldur ekki gleyma því að húsnæðisfrumvörpin spiluðu veigamikinn þátt í gerð kjarasamninga síðastliðið vor og því nauðsynlegt að þingið standi saman í því að afgreiða þau sem fyrst. Unnið er að afnámi verðtryggingar í takt við þá áætlun sem starfshópur lagði til árið 2014. Það er hins vegar alveg ljóst að sú barátta verður erfið þar sem við erum ekki einungis að kljást við pólitíkina á Alþingi heldur einnig varðhunda fjármagnseigenda.

Við erum á réttri leið og höfum unnið statt og stöðugt að því að bæta hag heimilanna á kjörtímabilinu. Að bæta hag heimilanna er ekki einhver kosningafrasi eins og heyrst svo oft frá þeim sem ekki treystu sér í þann slag á síðasta kjörtímabili. Það þurfa allir að hafa þak yfir höfuðið og eiga fyrir salti í grautinn. Kaupmáttur launa hefur aukist verulega á kjörtímabilinu. Hann er ekki bara einhver tala á blaði, heldur mælir hann raunverulega kaupgetu fólks. Það er einfaldlega staðreynd að Íslendingar fá meira fyrir launin sín í dag en nokkru sinni áður. Þann 1. janúar síðastliðinn hækkuðu bætur um 9,7%. Frítekjumark hefur hækkað og sú skerðing frá síðustu ríkisstjórn, oft verið kölluð Árna Páls skerðingin, hefur verið dregin að fullu til baka. Bætur almannatrygginga hafa hækkað töluvert meira en verðlag og þannig hefur kaupmáttur lífeyrisþega aukist. Það verður þó ekki sagt að nóg sé að gert. Því fer fjarri. Nú verðum við að halda áfram að gera vel, byggja ofan á því sem þegar hefur náðst og gera samfélagið í heild betra.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Suðra febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Börn og foreldrar verja æ meiri tíma saman

Deila grein

25/02/2016

Börn og foreldrar verja æ meiri tíma saman

born_ad_leikNýbirtir Félagsvísar sýna afgerandi þróun þess efnis að börn og foreldrar verja æ meiri tíma saman. Árið 2014 sögðust 63% barna á aldrinum 14-15 ára verja tíma sínum oft eða nær alltaf með foreldrum sínum um helgar samanborið við tæplega 37% barna árið 2006.
Sama þróun sést þar sem spurt var um tengsl við foreldra utan skóla, virka daga. Árið 2014 sagðist helmingur barna á aldrinum 14 til fimmtán ára vera oft eða nær alltaf í tengslum við foreldra sína utan skóla á virkum dögum samanborið við tæp 33% árið 2006.
Margt fleiraira áhugavert um lífsvenjur barna má lesa út úr könnuninni. Til dæmis stundaði mun hærra hlutfall barna á aldrinum 14-15 ára íþróttir reglulega árið 2014 (39%) en gerði það árið 2006 (31,8%).
Börnum sem segjast reykja eina sígarettu á dag eða fleiri hefur fækkað til stórra muna á síðust árum. Árið 2006 sögðust 12% 15 ára barna reykja eina eða fleiri sígarettur á dag en þetta hlutfall var komið niður í 2,5% árið 2015.
Ölvun meðal barna er einnig orðin mun fátíðari en áður. Árið 2006 sögðust 26% 15 ára  barna hafa orðið ölvuð síðustu 30 daga en árið 2015 var hlutfallið komið niður í 4,6%.
Þegar spurt var um hassneyslu sögðust 9% 15 ára barna hafa notað hass einu sinni eða oftar um ævina þegar um það var spurt árið 2006, á móti 3,3% barna á sama aldri árið 2015.

Categories
Fréttir

Er það stefna þessara banka að fara í aðra útrás?

Deila grein

25/02/2016

Er það stefna þessara banka að fara í aðra útrás?

frosti_SRGB„Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að vekja athygli á fréttum undanfarna daga um fjárfestingar íslenskra banka og lífeyrissjóða erlendis í norskum skipaiðnaði og norskum olíuiðnaði, í Fáfni og Havila. Ég verð að lýsa yfir áhyggjum vegna þessarar stefnu eða þessarar útrásar íslenskra banka sem hafa verið reknir og settir aftur á stofn með stuðningi ríkissjóðs og eru núna reknir með beinni eða óbeinni ábyrgð ríkissjóðs, að það sé stefna þessara banka að fara í aðra útrás, að fjárfesta erlendis meðal annars. Meðan við erum í höftum, öll þjóðin, hafa bankarnir verið að fjárfesta fyrir marga milljarða erlendis og ekki dreift áhættu sinni heldur þjappað henni saman inn í einhvern geira sem við höfum ekkert mikið vit á, norskan olíuiðnað. Hvers vegna þurfa framkvæmdamenn í norskum olíuiðnaði að leita til Íslands eftir fjármagni? Er ekki eitthvað að? Eru ekki vextirnir lægri í Noregi? Það er verið að taka áhættu, það er eitthvað í ólagi og það er eitthvað mikið í ólagi þegar íslenskir lífeyrissjóðir í stórum stíl, í staðinn fyrir að dreifa áhættunni, þjappa henni saman inn í þennan geira sem þeir hafa örugglega ekkert vit á.
Ég vil eiginlega kalla eftir því að gerður verði sem fyrst nýr samningur við Íslandsbanka, sem er nú alfarið orðinn ríkisbanki, og honum verði sett eigendastefna sem takmarki mjög möguleika bankans til að fara í útrás til útlanda. Ég vil líka að íslenskir lífeyrissjóðir komi fram og lýsi því hver stefna þeirra er varðandi fjárfestingar í útlöndum.“
Frosti Sigurjónsson  í störfum þingsins 24. febrúar 2016.
f

Categories
Fréttir

Flugfarmiðar hafa hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu

Deila grein

25/02/2016

Flugfarmiðar hafa hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Geta skal þess sem vel er gert. Fram kemur í frétt frá ASÍ að vörukarfa ASÍ hefur lækkað í sjö verslunum frá tímabilinu september 2015 þar til nú í febrúar. Hún hefur reyndar lækkað misjafnlega mikið, mest hjá Hagkaupum, minna hjá öðrum samkeppnisaðilum.
Það er góður áfangi, en betur má ef duga skal vegna þess að mesta lækkunin á tímabilinu er 3,8% en íslenska krónan hefur styrkst um 8% síðustu 12 mánuði gagnvart helstu viðskiptamyntum. Það er samt vel af sér vikið vegna þess að það gerist þrátt fyrir vaxtastigið í landinu, sem er í boði Seðlabankans eins og allir vita. En það breytir ekki því að afkoma þessara verslunarfyrirtækja er gríðarlega góð og hún hefur batnað með hverju ári og einnig í fyrra.
En það leiðir hugann að því að það lækka ekki allar vörur og öll þjónusta á Íslandi þrátt fyrir ærin tilefni. Olíufatið er núna í 31–32 dollurum og hefur sjaldan verið lægra. Það er orðinn drjúgur tími síðan olíufélögin í landinu lækkuðu verð sitt. Þau hafa hins vegar beitt tilviljanakenndum afslætti þrátt fyrir að engin sé Eurovision og ekkert sé fótboltamótið. En það breytir ekki því að ég tel að það sé tilefni til þess nú strax að lækka olíu- og bensínverð á Íslandi.
Ég vil geta um eitt í viðbót, herra forseti. Það er að í síðustu verðbólgumælingu kom fram að flugfarmiðar höfðu hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu en annars hefði orðið. En olíukostnaður Icelandair á síðasta starfsári lækkaði um 5,6 milljarða kr. Þeir eru með methagnað upp á 14 milljarða, (Forseti hringir.) og farmiðarnir hækka. Þarna er eitthvað að sem þarf að laga.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Háskólinn er lífæð Laugarvatns og samfélagsins þar í kring

Deila grein

25/02/2016

Háskólinn er lífæð Laugarvatns og samfélagsins þar í kring

logo-suf-forsida„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna harmar þá ákvörðun háskólaráðs Háskóla Íslands að flytja námsbraut í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur.
Háskólinn er lífæð Laugarvatns og samfélagsins þar í kring og þykir okkur augljóst að slík ákvörðun skuli vera tekin í óþökk kennara, nemenda og sveitarfélaga á Suðurlandi.
Við tökum heilshugar undir orð forsætisráðherra, að beina þurfi fjármunum til háskóla og menntastofnanna á landsbyggðinni, þar sem ljóst er að Háskóli Íslands er ekki að sinna því hlutverki sínu. Við tökum einnig undir orð þingmanna kjördæmisins hvað varðar flutning námsbrautarinnar og áhyggjur þeirra um framtíð þess samfélags sem byggst hefur upp í kringum námið á Laugarvatni. Þingmenn hafa sýnt vilja sinn í því að berjast fyrir bættum stuðningi við námsbrautina en ljóst er að háskólaráð og rektor hafa ekki nokkurn áhuga á aðstoð þeirra.
Við teljum að Háskóli Íslands eigi ekki einungis að þjóna þeim sem að búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig landsbyggðinni. Mikilvægt er að halda í 84 ára sögu íþróttakennaraháskólans á Laugarvatni og er það óskiljanlegt hvernig Háskóli Íslands getur bundið enda á sögu íþróttakennaranáms á Laugarvatni með þessari ákvörðun.
Við hvetjum háskólaráð til þess að heimsækja Laugarvatn og kynna sér starfsemina sem er þar og í kjölfarið endurskoða ákvörðun sína. Við lítum á þessa ákvörðun sem beina árás á háskólasamfélagið á landsbyggðinni.“
Stjórn SUF.

Categories
Greinar

Það sést til lands

Deila grein

25/02/2016

Það sést til lands

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraLengi hef ég haft trú á því að hægt væri að tryggja Vestfirðingum næga og stöðuga orku eða allt frá því að fulltrúar Vesturverks kynntu mér sínar hugmyndir um virkjunaráform í Hvalá.

Um nokkurn tíma hefur verið unnið að því að láta þetta verða að veruleika.

Hvalárvirkjun ein og sér er um 55 MW virkjun en með öðrum virkjunum, Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun, má ætla að um 100 MW framleiðsla sé raunhæf.  Síðan má nefna aðra kosti í Ísafjarðardjúpi sem minna eru rannsakaðir en geta talið allt að 35-40 MW. Í ljósi þess að virkjanir á Vestfjörðum framleiða einungis um 15 MW er um verulega aukningu á raforkuframleiðslu að ræða.

Vesturverk og HS Orka hafa sýnt mikla framsýni og keyrt þetta verkefni áfram af rökfestu og fagmennsku.

Forsenda þess að geta nýtt þessa kosti er að hægt sé að tengja framleiðsluna við raforkukerfið og koma henni um Vestfirði sem og inná landskerfið. Jákvæð teikn eru um að Nauteyri í Ísafjarðardjúpi sé góður kostur sem afhendingarstaður raforkunnar sem þýðir að verkefnið er framkvæmanlegt og arðbært.

Enginn þarf að efast um hve gríðarlega mikilvægt það er að geta nýtt þá raforkukosti sem til staðar eru á Vestfjörðum.

Aukin framleiðsla orku inná veitukerfi Vestfjarða eykur um leið hagkvæmni þess að ráðast í línulagnir og um leið möguleika á að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar s.s. kalkþörungaverksmiðju sem og að tryggja raforkuöryggi til fyrirtækja og heimila.

Með því að tengja frá Nauteyri til Ísafjarðar er komin á hringtenging raforku um Vestfirði sem er lykilatriði til að tryggja öryggi og dreifingu.

Ég held það sé óhætt að vera bjartsýnn á að þessi áform nái fram að ganga. Framkvæmdaaðilar hafa sýnt mikinn dugnað og framsýni og haft óbilandi trú á verkefninu og tel ég að nú sé kominn ágætur skilningur og trú á það hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum.

Frá því að ég fór að fylgja þessu máli eftir hef ég sannfærst meir og meir um mikilvægi þess og fyrir um tveimur árum varð ég sannfærður um að þarna sé eitt af mörgum tækifærum Vestfjarða til að blómstra á ný.

Það má því segja að það sjáist til lands í raforkumálum Vestfjarða.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í www.bb.is 23. febrúar 2016.