Categories
Fréttir

Flugöryggi á Akureyri

Deila grein

10/02/2016

Flugöryggi á Akureyri

thingmadur-hoskuldur„Virðulegi forseti. Í morgun í umhverfis- og samgöngunefnd var haldinn fundur sem bar yfirskriftina Flugöryggi á Akureyri.
Þannig er mál með vexti að Isavia hefur tekið ákvarðanir um að fækka flugumferðarstjórum og taka upp hina svokölluðu AFIS-þjónustu sem ég skil ekki öðruvísi en svo að þar verði einstaklingar sem eru með minna nám á bakinu og mun minni reynslu og hafa ekki heimild til þess að stýra hinum mjög svo mikilvæga radar sem er nauðsynlegur út af legu Akureyrarflugvallar.
Í rauninni er þetta skrýtið í því ljósi að stjórnvöld hafa lýst yfir miklum áhuga á að styrkja millilandaflug til Akureyrar og hafið aðgerðir í þá áttina. Við horfum upp á það núna, sem er gleðiefni, að efni sem kemur til úr Vaðlaheiðargöngum er sett til þess að undirbúa byggingu nýs flughlaðs. Þess vegna veltir maður fyrir sér í hvaða átt Isavia sé í rauninni að fara.
Fram komu fullyrðingar um að þetta væri eingöngu tímabundin aðgerð sem væri nauðsynleg út af manneklu, en þegar áhöld eru um að gerður verði nýr þjónustusamningur þar sem Isavia mun leggja til að AFIS-þjónusta geti viðgengist þá hefur maður á tilfinningunni að svo verði ekki.
Ég vil beina því til innanríkisráðuneytis og allra þeirra sem málið varða að tryggja að áfram verði sama þjónusta og verið hefur á Akureyrarflugvelli frá árinu 1960. Það skiptir gríðarlegu máli að þjónustan sé ekki bara sú sama heldur líka öryggið. Við höfum (Forseti hringir.) heyrt sömu vangaveltur áður. Þeim var hafnað út af öryggissjónarmiðum. Ég vona að svo verði líka núna og Isavia hverfi frá þessum hugmyndum hið snarasta.“
Höskuldur Þór Þórhallsson í störfum þingsins 3. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Takk, Magnús og Fréttablaðið

Deila grein

10/02/2016

Takk, Magnús og Fréttablaðið

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ leiðara Fréttablaðsins, Skoðun, þann 1. febrúar sl., skrifar Magnús Guðmundsson lipurlega um áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Rati frumvarpið í atkvæðagreiðslu segir hann svo um þingmenn: „Hver um sig getur sagt já og sett hagsmuni frjálsrar smávöruverslunar á oddinn eða greitt atkvæði á forsendum lýðheilsu og minni kostnaðar fyrir heilbrigðiskerfið og sagt nei.“ Takk, Magnús, fyrir þessi orð. Í þeim hverfist sannleikur þessa máls.

Allar rannsóknir benda til þess sama, að með auknu aðgengi fylgi aukinn áfengisvandi og minni lýðheilsa. Aðgengi er því lykilorð. Rannsóknir þessar hafa haft áhrif á stefnumótun í flestöllum þróuðum ríkjum, þ. á m. á Íslandi. Hvaða stefnu hafa stjórnvöld á Íslandi þá hvað varðar aðgengi að áfengi? Jú, sú stefna er skýr og endurspeglast í þeirri stefnu sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt og birt undir heitinu Stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Stefna þessi er auðfundin á veraldarvefnum fyrir þá sem hafa áhuga. Í stefnunni eru sex yfirmarkmið og er það fyrsta eftirtalið: „Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“ Aðgengi er því lykilorð í stefnu Íslands. Aðgengi á að takmarka en ekki auka.

Hagsmunir
Aukið aðgengi að áfengi og þar með aukin neysla er í mótsögn við bætta lýðheilsu. Verri lýðheilsa mun íþyngja heilbrigðiskerfinu og leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Það eru því ekki hagsmunir skattgreiðenda að frumvarpið verði samþykkt. Skattgreiðendum þykir flestum að þeir séu píndir nóg nú þegar. Hverjir græða þá á samþykkt frumvarpsins? Jú, þær verslanir sem ætla sér að selja áfengið, það blasir við. Verði frumvarpið samþykkt verður gríðarleg pressa á að aflétta auglýsingabanni á áfengi. Tekjur af áfengisauglýsingum eru einn stærsti tekjuliður dagblaða erlendis. Því hlýtur það að vera freistandi fyrir fjölmiðla að leggjast á sveif með þeim sem vilja að frumvarpið nái fram að ganga. Það er því þeim mun meiri ástæða til að þakka Magnúsi og Fréttablaðinu fyrir ofangreindan leiðara.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Fíllinn og fjarkinn

Deila grein

08/02/2016

Fíllinn og fjarkinn

Silja-Dogg-mynd01-vefFlestir vilja eignast eigið húsnæði á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. En það mun alltaf vera til sá hópur sem getur ekki eða vill ekki eiga húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er í dag, bæði hvað varðar kaup og leigu ómögulegur. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstíga í ályktunum sínum að nauðsynlegt sé að bæta húsnæðiskerfið. Auk þess samþykkti Alþingi  þingsályktun sumarið 2013 um aðgerðaáætlun í tíu liðum. Samkvæmt henni átti að taka á skuldavanda heimila, með því að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og opna tækifæri til að nýta séreignasparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Áætlunin kveður einnig á um að auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.  Markmið ríkisstjórnarflokkanna eru skýr. Við ætlum að bæta hag heimila landsins. Ekki bara húseigenda, heldur allra heimila. Við gleypum ekki fílinn í heilu lagi, en við erum svo sannarlega byrjuð.

Öruggt húsnæði fyrir alla

Umfangsmikið samráð var haft við hagsmunaaðila þegar frumvörpin fjögur um húsnæðismál voru unnin. Þar sem grunnur þeirra er vandaður þá er mjög líklegt að góð samstaða náist um afgreiðslu þeirra á Alþingi. Velferðarnefnd hefur þau nú til meðferðar og sú vinna gengur vel. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20-25% af tekjum. Með auknu framboði og breyttu fjármögnunarformi, lækkar leiguverð.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög (sbr. Búseti og Búmenn). Markmið þess er að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, gagnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á íbúalýðræði innan félaganna.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Næstu skref

Í framhaldi af þessari vinnu við ofangreind frumvörp þarf að taka á verðtryggingunni og endurskoða fjármálakerfið í heild sinni, með neytendavernd og gagnsæi í huga. Með það að markmiði að fólk geti eignast húsnæði á sanngjörnum kjörum. Horfa þarf til þess að fjölga hvötum til sparnaðar og endurskoða þau skilyrði sem sett eru fram um greiðslumat. Sú vinna er hafin í efnahags – og viðskiptanefnd þingsins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Víkurfréttum 5. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Sigrún með erindi hjá U3A um Rannveigu

Deila grein

07/02/2016

Sigrún með erindi hjá U3A um Rannveigu

Sigrún Magnúsdóttir 006Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun flytja erindi hjá U3A á þriðjudaginn, 9. febrúar, um þingkonuna Rannveigu Þorsteinsdóttur. Erindið er í röðinni um fimm fyrstu konurnar sem tóku sæti á Alþingi. Rannveig Þorsteinsdóttir sat á þingi 1949-1953.
Erindið fer fram í Félagsmiðstöðinni að Hæðargarði 31 í Reykjavík og hefst kl. 17:15.
Nánar um erindið.
Hvað er U3A?
U3A Reykjavík, The University of the Third Age Reykjavík, eru samtök fólks á þriðja æviskeiðinu, árunum eftir fimmtugt, sem vill afla sér og miðla þekkingu eins lengi og það vill og getur. Samtökin eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu U3A sem er til í 30 – 40 löndum víða um heim með hundruðum þúsunda meðlima.
Starf U3A Reykjavík fer fram með námskeiðum, fyrirlestrum, hópastarfi, kynnisferðum og ferðalögum. Engin skilyrði eru fyrir þátttöku og engin próf eru tekin.

Categories
Greinar

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Deila grein

05/02/2016

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁ sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu í 10 liðum. Um var að ræða aðgerðaáætlun sem fól það m.a. í sér að taka á skuldavanda heimila, auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.

Einn liður tillögunnar fjallaði um að félags – og og húsnæðismálaráðherra ætti að skipa verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnastjórnin hafi m.a. það hlutverk að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.  Verkefnastjórnin skilaði af sér tillögum árið 2014. Út frá þeirri vinnu komu síðar frumvörp sem nú er unnið að  í velferðarnefnd þingsins.

Aukum framboð og stuðning

Um er að ræða fjögur frumvörp, sem öll varða leigumarkaðinn. Margar umsagnir hafa borist um málin og eru flestar þeirra jákvæðar. Því ber að þakka því viðamikla samráði sem málin fóru í gegnum, við vinnslu þeirra. Unnið er hratt og vel að því að klára þessi mál svo þau verði sem fyrst að mikilvægum húsnæðisumbótum. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að leigan fari ekki yfir 20-25% af ráðstöfunartekjum.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð verulega og húsnæðisstuðningur miðast við fjölskyldustærð. Ætlunin er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög hefur það markmið að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, auka gagnsæi í rekstri þeirra og koma á auknu íbúalýðræði.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Fjölgun á leigumarkaði

En hvers vegna eru þessi frumvörp svona mikilvæg fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði? Hvers vegna er svona mikilvægt að þau nái fram að ganga? Jú það er vegna þess að

  • það er staðreynd að veruleg fjölgun hefur átt sér stað á leigumarkaði frá árinu 2008. Þannig voru 20,8 % heimila á Íslandi á leigumarkaði árið 2014, samanborið við 12,9 % árið 2008.
  • leigjendur á almennum leigumarkaði eru líklegastir til að hafa verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað, samanborið við aðra hópa á húsnæðismarkaði. Það er um verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað er að ræða þegar 40% eða hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum er varið í húsnæðiskostnað.

Auk þessa er óhætt að halda því fram að þær aðgerðir sem farið hefur verið í frá árinu 2008 og kostað 237 milljarða, hafa ekki komið til þessa hóps sem umrædd frumvörp eiga að ná til. Um er að ræða útgjöld til Íbúðarlánasjóðs, í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna.

Lækkum húsnæðiskostnað

Sumir vilja halda því fram að auknar húsnæðisbætur muni hækka leiguverð. Sem mótvægisaðgerð við þau sjónarmið var ákveðið að lækka fjármagnstekjuskatt á leigutekjur um 4 %, en þeirri aðgerð er m.a. ætlað að draga úr hækkunaráhrifum bótanna á leiguverð. Í umsögn Seðlabankans um málið segir að umrætt frumvarp muni skila sér í lægri húsnæðiskostnaði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði. Það passar vel við þær athugasemdir sem ráðgjafafyrirtækið Analityca hefur lagt fram um málið.

Heildarsamhengið mikilvægt

Þegar umrædd húsnæðisfrumvörp hafa verið afgreidd þá taka verðtryggingarmálin við. Í því samhengi þarf að horfa til vaxtabyrði lána og greiðslubyrði fólks af húsnæðislánum. Festa þarf í sessi hvata til húsnæðissparnaðar, t.d. í formi séreignasparnaðar. Jafnframt þarf að endurskoða þau úrræði sem sett eru fram í greiðslumati. Óhætt er að halda því fram að ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins vinni að heilum hug fyrir heimili landsins. Hvort sem um er að ræða þau heimili sem falla undir séreignastefnuna, heimili á leigumarkaði eða þau heimili sem falla undir húsnæðissamvinnufélög. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og því er mikilvægt að allar þessar aðgerðir nái fram að ganga.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur

Deila grein

03/02/2016

Ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur

24671716596_29475601b0Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að heyra að Bankasýsla ríkisins skuli ætla að kanna sölu Landsbankans á Borgun. Sá sem hér stendur sendi Bankasýslunni formlegt erindi í fyrra þar sem farið var fram á það að söluverð hlutarins í Borgun yrði metið en Bankasýslan treysti sér þá ekki til að verða við erindinu.

Það veitir ekki af því að taka þetta mál og athuga það vegna þess að ljóst er að forustumenn Landsbankans hafa orðið margsaga í þessu máli. Upphaflega sagði bankastjórinn að landsbankamenn hefðu ekki getað metið hlut Borgunar almennilega en gat þess samt að söluverðið væri hagstætt. Seinna í ferlinu lét hann það flakka að Samkeppniseftirlitið hefði herjað mjög á Landsbankann um að selja þennan hlut en það hefur komið í ljós að það er ekki rétt.

Nú halda landsbankamenn því fram að þeir hafi ekki getað vitað um svokallaðan hvalreka, eða á ensku „windfall“, sem varði það að Visa Inc. keypti evrópska hluta Visa.

Nú er það ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur, en hitt er annað mál að í þessu tilfelli er það rándýrt fyrir almenning í landinu. Það bárust nefnilega vísbendingar snemma árs 2014 á opinberum fréttamiðlum um þennan hvalreka sem væntanlegur var. Þá var líka getið um áhrif af sölu Visa Europe til Visa Inc. í árshlutareikningum og upplýsingum Visa Inc. þar sem þetta kemur fram.

Hafi menn í Landsbankanum ekki vitað af þessu bendir það til þess að þeir séu ekki mjög vel starfi sínu vaxnir og ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Hafi þeir hins vegar búið yfir þessum upplýsingum og látið hjá líða að nýta þær er sama niðurstaða auðfengin. Stjórn Landsbankans á að víkja út af þessu máli.

Þorsteinn Sæmundsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

 

Categories
Fréttir

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Deila grein

03/02/2016

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Sigurður Páll Jónsson 005Hæstv. forseti. Ferðamennska hefur stóraukist hér á landi undanfarin ár og er það ánægjuleg þróun þó að sumum þyki nóg um. En staðreyndin er sú að um 30% af landsframleiðslu kemur úr ferðamannageiranum. Auknum ferðamannastraumi fylgir aukið álag á alls konar þætti, suma fyrirséða og aðra ófyrirséða. Aukið álag á landsvæði hefur þegar komið í ljós og hafa stjórnvöld brugðist við að hluta til með breytingum á lögum um náttúruvernd. Álag á vegi landsins hefur aukist og kemur það aðallega niður á umferðaröryggi sem meðal annars hefur birst í auknum fjölda umferðarslysa hjá ferðamönnum sem ekki eru vanir íslensku gatnakerfi með of mörgum einbreiðum brúm, mjóum vegum auk malarvega og fleira.
Álag á vegi jókst einnig til muna eftir að strandsiglingar ríkisins voru aflagðar og þungaflutningar voru færðir á gatnakerfið. Það mætti að mínu mati taka snúning á því í umræðunni hvort flutningur á þungavöru um strendur landsins væri betur kominn sjóleiðis til að minnka álag á vegi. Dreifing ferðamanna um landið þyrfti að vera meiri og koma ferðafólks hefur nær eingöngu verið í gegnum Keflavík sem stýrir fólki meira um suðvesturland.
Egilsstaðaflugvöllur er kostur sem gera á tilraun með í vor með móttöku ferðamanna í sex mánuði fyrst í stað og ætti það að dreifa álaginu á landið og auka umsvifin fyrir austan og norðan. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur.
Koma farþegaskipa hefur aukist, en stærri hafnir landsins eru betur í stakk búnar að taka á móti þeim. Þó hefur minni farþegaskipum fjölgað og er ágætisreynsla að skapast í hringferðum slíkra skipa í kringum landið með viðkomu á ýmsum stöðum. Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið? Spyr sá sem ekki veit. Gakktu hægt um gleðinnar dyr, segir einhvers staðar, en þó örugglega og glaðlega.
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

 

Categories
Fréttir

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Deila grein

03/02/2016

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Elsa-Lara-mynd01-vefurHæstv. forseti. Þessa dagana vinnur hv. velferðarnefnd þingsins með húsnæðisfrumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Í gær birti Seðlabankinn umsögn sína vegna þessara mikilvægu mála. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við þau markmið sem frumvörpunum er ætlað að ná, þ.e. að koma til móts við húsnæðiskostnað leigjenda. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem eru á leigumarkaði með auknum húsnæðisbótum og auknu framboði á húsnæði fyrir efnaminni leigjendur. Um frumvarp um húsnæðisbætur segir í umsögn Seðlabankans, með leyfi forseta:
„Það felur í sér að þær fjölskyldur sem njóta kostnaðarþátttöku ríkisins samkvæmt frumvarpinu munu með tímanum þurfa að ráðstafa nokkru minni hluta tekna sinna en ella til húsnæðis og þar af leiðandi hafa meira til ráðstöfunar í aðrar neysluvörur og sparnað.“
Í umsögn Seðlabankans um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur segir, með leyfi forseta:
„Með frumvarpinu er lagt til að verulegum fjárhæðum verði varið til uppbyggingar á leiguhúsnæði sem verði ráðstafað til tekjulágra og annarra sem tilgreindir eru í frumvarpinu. Að öðru óbreyttu mun slíkt leiða til þess að leiguverð á slíkum íbúðum lækkar.“
Þessi umsögn er í samræmi við það sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica benti á í umsögn sinni þegar umrædd frumvörp voru til vinnslu innan velferðarráðuneytisins. Ríkið hefur sett verulega fjármuni í húsnæðismál undanfarin ár eða frá árinu 2008 en þar er um að ræða útgjöld til Íbúðalánasjóðs, útgjöld í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og útgjöld til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Sá hópur sem umrædd frumvörp eiga að ná til og eru í vinnslu innan hv. velferðarnefndar hefur ekki fengið úrbætur í húsnæðismálum. Því er mikilvægt að þessi frumvörp nái fram að ganga. Allir hv. þingmenn verða að hafa það í huga að umrædd frumvörp eru tengd kjarasamningum og hluti þess að kjarasamningar tókust á almennum vinnumarkaði síðasta vor.
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

Deila grein

03/02/2016

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

líneikVirðulegi forseti. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem skilað var í gær veldur mér áhyggjum. Samkvæmt áliti dómstólsins kveður EES-samningurinn á um að aðildarríkjum hans beri að leyfa innflutning á fersku kjöti svo framarlega sem það hefur staðist heilbrigðiseftirlit í heimalandinu. Ekki sé heimilt að gera þá kröfu að afurðirnar verði frystar eins og íslenskt stjórnvöld hafa alltaf krafist. Ég vil þó árétta það að álitið er ráðgefandi og afnemur ekki sjálfkrafa gildandi reglur á Íslandi.
Í gegnum árin hafa dýralæknar og aðrir sérfræðingar sem best þekkja til á þessu sviði varað við innflutningi á fersku kjöti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í orð Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, í Fréttablaðinu þar sem hann segir þessa niðurstöðu sorgartíðindi fyrir þá sem bera líf og dýraheilsu fyrir brjósti:
„Innflutningur á hráu kjöti til Íslands er bannaður vegna varna gegn dýrasjúkdómum og voru fyrstu lög í þá átt sett 1882. Staða Íslands með tilliti til dýrasjúkdóma er einstæð í heiminum og hana ber að varðveita með öllum tiltækum ráðum. Tilgangur bannsins er margþættur og er meðal annars að tryggja sem heilnæmasta innlenda matvöru, stuðla að dýravelferð, varðveita erfðafjölbreytileika eða erfðaauðlindir, draga úr lyfjakostnaði, vernda lýðheilsu og fleira. Liður í velferð dýra er að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu með því að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Um leið er lagður grunnur að því að áfram verði framleiddar heilnæmar búfjárafurðir í landinu, lausar við afleiðingar tiltekinna sjúkdóma eða lyfjaleifar þeim tengdum. Þar fyrir utan mætti svo auðvitað ræða æskileg umhverfisáhrif af flutningi kjöts, en það er annað mál.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

Deila grein

03/02/2016

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

ÞórunnHæstv. forseti. Í liðinni viku barst þingmönnum Norðausturkjördæmis bréf frá flugrekstrarstjóra Norlandair og þjálfunarstjóra Mýflugs sem hafa aðsetur á Akureyrarflugvelli. Innihald bréfsins er þess efnis að það vekur áhyggjur því að leiddar eru líkur að því að hugmyndir Isavia um skert þjónustustig leiði einnig til skertra öryggishagsmuna notenda þjónustunnar.
Akureyrarflugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur landsins á eftir Reykjavík og Keflavík. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi og mikla flugumferð hefur flugumferðarstjórum tekist að halda uppi háum öryggisstuðli. Sá árangur grundvallast á radarstöð sem staðsett er við hlið flugbrautarinnar og stjórnast af flugumferðarstjórum í flugturni. Af ýmsum ástæðum stefnir í að flugumferðarstjórum fækki úr sex í þrjá. Ekki fyrr en nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til nýráðninga og þjálfunar á nýjum flugumferðarstjórum. Vitað er að þjálfun þeirra tekur tíma og hafa starfandi flugumferðarstjórar boðist til að dekka tímabilið með skipulagningu vakta, líkt og þeir hafa reyndar gert fram að þessu samkvæmt upplýsingum mínum.
Hæstv. forseti. Stefnan virðist vera sú að manna vaktir með starfsmönnum sem hafa einungis brot af þeirri menntun, starfsþjálfun og réttindum sem flugumferðarstjórar hafa. Þessir starfsmenn hafa til dæmis ekki réttindi til að veita radarþjónustu og því er það öryggi sem sú stöð veitir ekki til staðar þegar þeir verða á vakt.
Í ljósi mikillar flugumferðar um Akureyrarflugvöll og þess að hann er miðstöð sjúkraflugþjónustu sýnist mér afar mikilvægt að þessi þjónusta sé ekki skert. Ekki má gleyma því að flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir bæði innanlands- og utanlandsflug allan sólarhringinn. Mikilvægi þess að veita þjónustu með radarleiðsögn hafa dæmin sannað, en ekki gefst tími til að telja þau upp hér. Ágreiningur virðist um túlkun á því hvað skert þjónusta er. Það gengur ekki. Menn verða að vera á sömu blaðsíðunni þegar mál sem varða öryggi og mikilvæga þjónustu eru rædd. Ég efast ekki um að innanríkisráðherra skoðar þetta mál vel og treysti því að farsæl lausn finnist.
Þórunn Egilsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.