Categories
Fréttir

Tryggir leigjendum lágmarksréttindi

Deila grein

07/03/2024

Tryggir leigjendum lágmarksréttindi

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingar á húsaleigulögum. Markmiðið er að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps um endurskoðun laganna sem ráðherra skipaði og kynntar voru í fyrrasumar.

Helstu breytingar í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að stuðlað verði að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um þróun leiguverðs, í öðru lagi að kveða á um að skrá skuli alla leigusamninga um íbúðarhúsnæði í leiguskrá HMS verði rýmkuð, í þriðja lagi að styrkja forgangsrétt leigjenda um áframhaldandi leigu og loks að kærunefnd húsamála verði efld.

„Húsaleigulög tryggja leigjendum lágmarksréttindi við leigu íbúðarhúsnæðis en skortur á framboði leiguhúsnæðis og lök samningsstaða sem af honum leiðir gerir leigjendum oft erfitt um vik að standa á rétti sínum. Verði frumvarpið að lögum mun það skýra verulega rétt leigjenda. Samhliða þessum breytingum er mikilvægt að einnig verði horft til aðgerða til þess að auka framboð á leiguhúsnæði í samræmi við húsnæðisstefnu og aðgerðaáætlun á grundvelli hennar sem mælt var fyrir á síðasta ári,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Langtímaleiga og aukinn fyrirsjáanleiki

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar með það að markmiði að stuðla að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, bæði á meðan samningur er í gildi og þegar samningur er farmlengdur eða endurnýjaður. Vísitölubinding leigusamninga, óháð tímalengd þeirra, hefur leitt til þess að erfitt er fyrir leigjendur að sjá fyrir hvernig leiga muni þróast milli mánaða og tíðar hækkanir, m.a. vegna verðbólgu, gera það að verkum að húsnæðiskostnaður leigjenda hækkar oft mikið á samningstímanum. Frumvarpinu er ætlað að setja skýrari ramma utan um í hvaða tilvikum er heimilt að hækka leigu á samningstíma.

Lagt er til að ekki verði heimilt að semja um reglubundnar breytingar á leigufjárhæð í samningum til 12 mánaða eða skemur. Með því megi stuðla að auknum fyrirsjáanleika um leigufjárhæð í styttri samningum og fjölga leigusamningum til lengri tíma.

Þá er lagt til að í samningum til lengri tíma verði heimilt að fara fram á breytingu á leigufjárhæð vegna breyttra forsendna. Það geti verið vegna verulegrar hækkunar rekstrarkostnaðar, aðlögunar leigu að markaðsleigu og hækkun leigu hjá óhagnaðardrifnu leigufélagi til samræmis við sambærilegar eignir í eigu félagsins. Þetta geti einnig stuðlað að því að samningsaðilar velji í auknum mæli að gera ótímabundna samninga eða lengri tímabundna samninga. Gert er ráð fyrir að tólf mánuðir líði að lágmarki frá gildistöku leigusamnings þar til að hægt er að óska eftir breytingu á leigufjárhæð. Þá eru lagðar til breytingar til að skýra betur reglur um hvernig leiga skuli ákvörðuð við endurnýjun eða framlengingu leigusamnings.

Almenn skráningarskylda leigusamninga

Í frumvarpinu er lagt til að skráningarskylda í leiguskrá HMS taki til allra leigusamninga um húsnæði sem ætlað er til íbúðar. Einnig skuli skrá allar breytingar á leigufjárhæð á gildistíma samnings. Skráningarskylda var fyrst lögfest árið 2022 og tók gildi 1. janúar 2023 en náði þá einungis til leigusala sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis. Markmiðið með skráningu leigusamninga í leiguskrá HMS er að tryggja áreiðanlegar og heildstæðar upplýsingar um leigumarkaðinn, ekki síst um markaðsleigu húsnæðis sem er meginviðmið sanngjarnrar og eðlilegrar leigufjárhæðar samkvæmt húsaleigulögum

„Skráning leigusamninga í leiguskrána hefur heilt yfir gefist vel, þó að hún taki aðeins til hluta leigusamninga. Góðar upplýsingar um leigumarkaðinn og samsetningu hans, fjölda leigusamninga, þróun leiguverðs og tímalengd samninga eru gríðarlegar mikilvægar fyrir stjórnvöld til þess að geta með upplýstum hætti brugðist við þeim áskorunum sem leigjendur og leigusalar standa frammi fyrir og til þess að átta sig á hvernig best er hægt að styðja við virkan leigumarkað til hagsbóta fyrir alla aðila,“ sagði ráðherra á Alþingi.

Forgangsréttur leigjenda aukinn

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um um forgangsrétt leigjenda til áframhaldandi leigu húsnæðis verði styrkt og að leigusala verði gert að kanna hvort leigjandi hyggist nýta sér forgangsrétt sinn. Í gildandi lögum þarf leigjandi að tilkynna leigusala að hann hyggist nýta forgangsrétt sinn eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok leigutíma til þess að forgangsréttur virkjist. Þá er lagt til að í lögunum verði taldar upp ástæður sem heimila uppsagögn ótímabundins leigusamnings. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða að ræða.

Kærunefnd húsamála efld

Loks er  lagt til að kærunefnd húsamála verði efld til að tryggja öflugt og skilvirkt réttarúrræði við úrlausn á ágreiningi milli samningsaðila. Í frumvarpinu er kveðið á um flýtimeðferð mála sem varða ágreining um leigufjárhæð þannig að úrskurður um leiguverð liggi fyrir innan tveggja mánaða. Einnig er lagt til að ráðast í fræðsluátak um réttindi á leigumarkaði og aðilum leigusamninga tryggð áframhaldandi lögfræðiráðgjöf um réttindi sín og skyldur þeim að kostnaðarlausu.

Þá er lagt til að kærunefndin taki framvegis við kærum á ensku þar sem stórir hópar leigjenda hafa ekki íslensku að móðurmáli. „Leigumarkaðurinn er oftast fyrsta stopp einstaklinga og fjölskyldna sem setjast hér að. Þessi hópur stendur oft höllum fæti í samskiptum við leigusala og á erfiðara um vik að leita réttar síns vegna skorts á kunnáttu í íslensku,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni á Alþingi.

Mælti fyrir frumvarpi sem á að taka á tíðum leiguverðhækkunum og óskýrum reglum um hvernig og hvernær megi hækka…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Fimmtudagur, 7. mars 2024

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Gefum íslenskunni séns“

Deila grein

06/03/2024

„Gefum íslenskunni séns“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins aðlögun innflytjenda inn í samfélagið og hvernig við getum sem best boðið fólki að starfa og lifa í okkar samfélagi. Hafandi í huga að merkilegasti menningararfurinn sé tungumálið okkar íslenska þá er það á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum við innflytendur.

„Það er því á ábyrgð samfélagsins og okkar að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið; innflytjenda sem við höfum verið svo heppin að fá hingað til landsins og má finna um allt land í öllum byggðarkjörnum; fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og viðhalda hagkerfinu til framtíðarkynslóða. Það er staðreynd að stór hluti, eða 87%, innflytjenda er á vinnumarkaði hér á landi og er það vel,“ sagði Halla Signý.

„Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið „Gefum íslenskunni séns“ sem er m.a. stofnað af Fræðslumiðstöð Vestfjarða með Ólafi Guðsteini Kristjánssyni í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að því. Þetta sprettur upp af átaki sem var á Ísafirði með það að markmiði að auka vitund fólks gagnvart íslensku og tileinkun málsins.“

„Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu á að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um allt land, söguna og náttúruna. Merkilegasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar íslenska. Við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari.“

„Við verðum því að vera opin fyrir því hvernig við getum boðið þeim sem flytja hingað og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma að starfa og lifa í okkar samfélagi. Það er á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum og leyfa fólki — það eru allir af vilja gerðir — að byggja undir þá kunnáttu sem það býr yfir. Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlært og setjast ekki í dómarasæti heldur vera fyrirmynd,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Samfélag okkar er sem betur fer ekki einsleitt heldur fjölbreytt. Það er því á ábyrgð samfélagsins og okkar að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið; innflytjenda sem við höfum verið svo heppin að fá hingað til landsins og má finna um allt land í öllum byggðarkjörnum; fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og viðhalda hagkerfinu til framtíðarkynslóða. Það er staðreynd að stór hluti, eða 87%, innflytjenda er á vinnumarkaði hér á landi og er það vel.

Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið Gefum íslenskunni séns sem er m.a. stofnað af Fræðslumiðstöð Vestfjarða með Ólafi Guðsteini Kristjánssyni í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að því. Þetta sprettur upp af átaki sem var á Ísafirði með það að markmiði að auka vitund fólks gagnvart íslensku og tileinkun málsins. Það hafa verið haldin námskeið og málþing sem hafa vakið athygli og nú er verkefnið að færast á fleiri svæði. Þátttakendur eru íbúar á svæðinu, bæði íslenskir að uppruna og innflytjendur. Það er mikilvægt að allir taki þátt.

Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu á að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um allt land, söguna og náttúruna. Merkilegasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar íslenska. Við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari. Við verðum því að vera opin fyrir því hvernig við getum boðið þeim sem flytja hingað og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma að starfa og lifa í okkar samfélagi. Það er á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum og leyfa fólki — það eru allir af vilja gerðir — að byggja undir þá kunnáttu sem það býr yfir. Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlært og setjast ekki í dómarasæti heldur vera fyrirmynd.“

Categories
Fréttir

Tryggjum öruggari knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús

Deila grein

06/03/2024

Tryggjum öruggari knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins hættulegar slysagildrur í knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahúsum, svo sem „óvarðar járnstoðir aftan við endalínur knattspyrnuvallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda“. Sagði hún stoðirnar verið varðar í sumum húsum og þá þurft alvarlegt slys til.

„Iðkendur, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð geta slasast illa. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegu slysi.

Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en líklega vantar viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli til þess að gripið sé til markvissra aðgerða,“ sagði Líneik Anna.

Öryggisreglur ekki ná utan um þennan þátt, a.m.k. sé „ekki hægt að sjá af reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, reglugerð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um öryggi leikvalla og leiksvæða eða eftirlit með þeim eða í reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum né byggingarreglugerð.“

Þarna er viðfangsefni sem fellur á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar.

„Ég skora því á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, í samvinnu við íþróttafélögin að grípa til ráðstafana og jafnframt að móta reglur til framtíðar um frágang í kringum vellina. Jafnframt mun ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi málið,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús hafa valdið byltingu í möguleikum til ýmiss konar íþróttaiðkunar innan húss yfir veturinn hér á landi en í sumum þessara húsa eru því miður hættulegar slysagildrur. Þá hef ég sérstaklega í huga óvarðar járnstoðir aftan við endalínur knattspyrnuvallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda. Í sumum húsunum hafa stoðirnar verið varðar en því miður hefur stundum þurft alvarlegt slys til. Iðkendur, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð geta slasast illa. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegu slysi. Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en líklega vantar viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli til þess að gripið sé til markvissra aðgerða. Í fljótu bragði sýnist mér öryggisreglur ekki ná utan um þennan þátt. Það er alla vega ekki hægt að sjá af reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, reglugerð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um öryggi leikvalla og leiksvæða eða eftirlit með þeim eða í reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum né byggingarreglugerð. Þarna er viðfangsefni sem fellur á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar. Ég skora því á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, í samvinnu við íþróttafélögin að grípa til ráðstafana og jafnframt að móta reglur til framtíðar um frágang í kringum vellina. Jafnframt mun ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi málið.“

Categories
Fréttir

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar vegna kjaraviðræðna

Deila grein

05/03/2024

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar vegna kjaraviðræðna

Sveitarstjórnarráð Framsóknar hvetur sveitarstjórnarfólk um land allt til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, sem hafa það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu. Lækkun vaxta eykur kaupmátt allra heimila. Sveitarstjórnarráð Framsóknar styður að ríki og sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórn hefur samþykkt enda setur Framsókn barnafjölskyldur í forgang. Jafnframt styður ráðið að dregið verði úr gjaldskrárhækkunum sem snúa að barnafjölskyldum.

Sveitarstjórnarráð Framsóknar 5. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vor á Vestfjörðum

Deila grein

05/03/2024

Vor á Vestfjörðum

Það var fal­legt að fljúga inn til lend­ing­ar á Ísaf­irði í gær þar sem ég varði deg­in­um í að funda með Vest­f­irðing­um um hin ýmsu mál. Það er eng­um blöðum um það að fletta að mik­il breyt­ing hef­ur orðið til batnaðar á Vest­fjörðum á und­an­förn­um árum; kraft­mik­il upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað í at­vinnu­líf­inu á svæðinu, fjár­fest­ing hef­ur verið í betri vega­sam­göng­um og auk­in bjart­sýni og til­trú á framtíð svæðis­ins er til­finn­an­leg.

Ferðaþjón­usta hef­ur vaxið á Vest­fjörðum líkt og ann­ars staðar á land­inu. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir lands­hlut­ann þegar alþjóðlegi ferðabóka­út­gef­and­inn Lonely Pla­net valdi Vest­f­irði sem besta áfangastað í heimi árið 2022. Slíkt varð til þess að beina hinu alþjóðlega ferðak­ast­ljósi að svæðinu með já­kvæðum áhrif­um enda hef­ur svæðið upp á margt að bjóða. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst í mik­illi ásókn í að heim­sækja Vest­f­irði und­an­far­in sum­ur og hef­ur gist­ing selst upp í fjórðungn­um.

Brýn­asta áskor­un­in í ferðaþjón­ustu í lands­fjórðungn­um er hins veg­ar að lengja ferðatíma­bilið, en mark­miðið er að heils­árs­ferðaþjón­usta verði starf­rækt á svæðinu. Lögð hef­ur verið áhersla á að draga úr árstíðasveiflu í öll­um lands­hlut­um und­an­far­inn ára­tug með þónokkr­um ár­angri, þó við get­um gert tals­vert bet­ur í þeim efn­um. Leng­ing ferðatíma­bils­ins stuðlar að betri nýt­ingu innviða, eins og hót­ela og veit­ingastaða, og skap­ar betri skil­yrði fyr­ir auk­inni fjár­fest­ingu í ferðaþjón­ustu.

Á opn­um fund­um mín­um að und­an­förnu um nýja ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda, sem farið hafa fram um allt land, hef­ur átt sér stað gagn­legt sam­tal við hag­hafa í grein­inni. Þar hafa fyrr­nefnd sjón­ar­mið meðal ann­ars verið reifuð sem mik­il­vægt er að hlýða á og nýta í því verk­efni að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar. Þannig hafa Vest­f­irðing­ar til dæm­is sam­mælst um að vinna að og kynna hina svo­kölluðu Vest­fjarðaleið, 950 kíló­metra langa ferðamanna­leið um Vest­f­irði og Dal­ina sem opnaðist með til­komu Dýra­fjarðarganga í októ­ber 2020. Á leiðinni er að finna marga af fal­leg­ustu áfanga­stöðum Vest­fjarða sem gam­an er að heim­sækja.

Stjórn­völd munu leggja sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að styðja heima­menn í því að klára verk­efnið með sóma en metnaðarfull vinna ligg­ur að baki verk­efn­inu sem verður til þess að vekja auk­inn áhuga á að heim­sækja Vest­f­irði.

Vest­f­irðing­ar hafa einnig lagt kapp á að hlúa að tungu­mál­inu og aðgengi að því í gegn­um verk­efni Gef­um ís­lensku séns. Með því er leit­ast við að virkja fólk í nærsam­fé­lag­inu sem er til­búið að veita fólki af er­lend­um upp­runa hjálp við að til­einka sér ís­lensku í sam­vinnu við fyr­ir­tæki, stofn­an­ir og ein­stak­linga. Það skipt­ir meðal ann­ars at­vinnu­lífið miklu máli sem og sam­fé­lagið allt.

Tæki­fær­in eru sann­ar­lega til staðar vest­ur á fjörðum sem og út um allt land, nú er bara að vinna sam­an að því að nýta þau til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2024.

Categories
Fréttir

Seinni hálfleikur kjördæmavikunnar!

Deila grein

01/03/2024

Seinni hálfleikur kjördæmavikunnar!

Í gær var fjórði dagur kjördæmavikunnar. Þingmenn okkar og ráðherrar hafa heldur betur ferðast víða og nýtt þennan dýrmætan tíma vel. Það skiptir máli bæði fyrir þá og kjósendur að hitta sem flesta, viðhalda mikilvægu samtali og kynnast öllum sjónarhornum um þau málefni sem eru helst í deiglunni í okkar samfélagi. Gærdagurinn var þar engin undantekning og voru m.a. haldnir fjórir opnir fundir á vegum Framsóknar.

Á Selfossi héldu Ásmundur Einar, Jóhann Friðrik og Hafdís Hrönn opinn fund þar sem m.a. var rætt um frístundaverkefnið „Frá vanvirkni til þátttöku“, málefni hælisleitenda, landbúnaðarmál og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna stöðunnar í Grindavík. Með þeim á fundinum voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Árborg, þau Arnar Freyr Ólafsson og Ellý Tómasdóttir.

Á Skagafirði voru Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt sveitarstjórnarfulltrúum Framsóknar í Skagafirði, þeim Einari Eðvald Einarssyni, formanni byggðaráðs, Hrund Pétursdóttur og Hrefnu Jóhannesdóttur. Þar var m.a. rætt um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, raforkumál, verðbólgu og vexti, Skagafjarðarhöfn, búvörulög, og blóðmerar.

Á Reyðarfirði héldu Willum Þór, Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi opinn fund ásamt Jóni Birni Hákonarsyni, Þuríði Lillý Sigurðardóttur og Birgi Jónssyni, bæjarfulltrúum Framsóknar í Fjarðabyggð. Þar var m.a. rætt um strandveiðikvóta, samgönguáætlun, bráðaheilbrigðisþjónustu, verðtrygginguna, Reykjavíkurflugvöll og verkefnið „Það er gott að eldast“.

Willum Þór og Líneik Anna héldu svo áfram og mættu á Egilsstaði seinna um daginn. Þar var m.a. rætt um hjúkrunarheimili, veiðigjöld, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, liðskiptaaðgerðir og þjónustugjöld á flugvöllum. Með þeim voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Múlaþingi, þau Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Vilhjálmur Jónsson og Björg Eyþórsdóttir.

Nú eru aðeins tveir opnir fundir eftir:

  • Í dag, klukkan 16 verða Willum Þór og Líneik Anna með fund í félagsheimili eldri borgara, Hlyn, á Húsavík. Sérstakir gestir verða sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Norðurþingi þau Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar, og Eiður Pétursson.
  • Á morgun, laugardag, er opinn fundur í Kiwanissalnum í Hafnarfirði. Þar verður Ágúst Bjarni með bæjarfulltrúum okkar í Hafnarfirði, þeim Margréti Völu Marteinsdóttur og Valdimar Víðissyni, formanni bæjarráðs og verðandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar.
Categories
Greinar

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Deila grein

29/02/2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, geitur og nautgripi samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar, á grundvelli EFTA-löggjafar.

Anton Guðmundson.

Í reglugerð 916/2012, með tilskipun 2008/71/EB, kemur fram að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki. Komi endurnýtt eyrnamerki á sauðfé, geitum og nautgripum inn í sláturtíð haustið 2024 verður þeim, skv. ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), fargað í sláturhúsi.

Sé um nautgrip að ræða verður skepnunni fargað og kjötinu eytt, en í tilfelli sauðkindar eða geitar verður merkinu eytt en dýrið samþykkt til slátrunar. 

Þessi reglugerð hefur það í för með sér að gríðarlegur kostnaðarauki er settur yfir á íslenska bændur sem berjast nú víðast hvar við að halda lífi í sveitum landsins sem snýr að byggðastefnu og matvælaöryggi í landinu.

Sem dæmi þá þýðir þetta fyrir bónda sem hefur tæplega 1.000 númer á ári og hvert örmerki kostar 320 krónur, að hann þarf að kaupa á hverju ári 800 hnappa, gerir það 256 þúsund krónur í hreinan aukakostnað fyrir bóndann sem bætist síðan við heildarkostnað á númerum en margir bændur hafa ákveðið að hætta að marka lömbin sín, aðallega vegna dýraverndunarsjónarmiða, og samkvæmt reglugerð verða bændur þá að setja tvö númer, sem sagt númer í bæði eyrun.

Þetta þýðir í raun að bændur þurfa að kaupa merkingar á rúmlega 300 þúsund krónur á hverju ári sem er svo fargað. Hreinleiki íslensks landbúnaðar er einstakur á heimsvísu og það þekkjum við sem byggjum þetta land. Því má með sanni segja að það þykir undrun sæta að íslensk stjórnvöld skuli hleypa reglugerðinni í gegn.

Þau sjónarmið eru ekki höfð að leiðarljósi í ákvörðun þessari að landbúnaður hérlendis er mun faglegri en þekkist víðast hvar í Evrópu. Reglugerð þessi á þess vegna ekki erindi við íslenskan landbúnað. Hún mun hafa í för með sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir íslenska bændur.

Um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir bændur og þarf því að endurskoða ákvörðunina út frá því sjónarmiði. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í sjálfstæðu lýðveldi og á ekki ávallt að renna þeim EFTA-tilskipunum sem vinna gegn hagsæld þjóðarinnar áreynslulaust í gegn.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Þriðji dagur í kjördæmaviku!

Deila grein

29/02/2024

Þriðji dagur í kjördæmaviku!

Í gær var þriðji dagur kjördæmavikunnar. Áfram ferðast þingmenn okkar og ráðherrar um landið og eiga áfram í dýrmætu samtali í gegnum heimsóknir og á opnum fundum. Það hefur verið dásamlegt að sjá hvað þingmenn og ráðherrar Framsóknar hafa fengið góðar viðtökur. Auk þess hafa opnu fundirnir gengið vel og umræður á þeim verið fróðlegar, skemmtilegar og opinskáar. Í gær voru haldnir þrír slíkir fundir. 

Í Kópavogi héldu Willum Þór og Ágúst Bjarni opinn fund í húsnæði Siglingafélagsins Ýmir. Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs, og Sigrún Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, voru með þeim í slagtogi. Þar var m.a. rætt um málefni ungra fíkla, farsældarlögin, bráðaheilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og breytingar á leikskólakerfi Kópavogsbæjar.

Á Akranesi voru Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt Ragnari Baldvini Sæmundssyni og Liv Åse Skarstad, bæjarfulltrúum. Á þeim fundi var m.a. rætt um núverandi kjaraviðræður, almannatryggingakerfið, stuðning til atvinnurekenda í Grindavík, námslánakerfið, öflun raforku og veiði á grásleppu.

Á Vopnafirði héldu Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi opinn fund þar sem m.a. var rætt um laxeldi, veiði á grásleppu, uppbyggingu samgangna, uppbyggingu hafnar á Langanesi, styttingu framhaldsskólans og landbúnað.

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar eru alls ekki hættir að eiga í samtali við kjósendur og í dag heldur ferðin áfram.

Í dag höldum við fjóra opna fundi:

  • Klukkan 17:30 í Þórðarbúð á Reyðarfirði verða Willum Þór, Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi á opnum fundi. Með þeim verða bæjarfulltrúar Framsóknar í Fjarðabyggð.
  • Klukkan 20:00 í Tehúsinu á Egilsstöðum halda Willum Þór og Líneik Anna opinn fund ásamt sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Múlaþingi.
  • Klukkan 20:00 á Kaffi Krók í Skagafirði verður opinn fundur með Stefáni Vagni, Lilju Rannveigu og Höllu Signýju. Með þeim verða sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Skagafirði.
  • Klukkan 20:00 á Hótel Selfossi á Selfossi verða Ásmundur Einar, Jóhann Friðrik og Hafdís Hrönn. Með þeim á fundinum verða bæjarfulltrúar Framsóknar í Árborg.
Categories
Greinar

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Deila grein

28/02/2024

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz er einn virtasti hagfræðingur samtímans. Hann er þekktur fyrir framlag sitt til hagfræðinnar, einkum á sviði upplýsingahagfræði, opinberrar stefnumótunar og þróunarhagfræði.

Stiglitz hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar um hagfræði upplýsinga sem varð til þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir í hagfræði árið 2001. Framlag Stiglitz á þessu sviði breytti skilningi manna á markaðsöflum með því að varpa ljósi á mikilvægi ófullkominna upplýsinga með því að varpa ljósi á það hvernig ójafn aðgangur að upplýsingum getur haft efnahagsleg áhrif.

Áhrif Stiglitz ná langt út fyrir háskólasamfélagið þar sem hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í efnahagsmálum. Hann fór fyrir efnahagsráðgjafanefnd Bill Clinton Bandaríkjaforseta og talaði meðal annars fyrir stefnu sem mótaðist á svokallaðri „þriðju leið“. Hann gerðist síðar aðalhagfræðingur og aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans. Á starfstíma sínum beitti hann fyrir því breyttum áherslum hjá bankanum í þágu fátæktar og sjálfbærrar þróunar sem á þeim tíma viku frá hefðbundnum efnahagslegum venjum. Stiglitz hefur verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar, en árið 2000 fékk Seðlabanki Íslands hann til að gera úttekt á íslensku hagkerfi, með áherslu á stýringu peninga- og gengismála í litlum, opnum hagkerfum.

Stiglitz hefur ritað fjölmarar bækur á sviði hagfræði og þjóðfélagsmála. Í bók sinni „Globalization and Its Discontents“ frá árinu 2002 benti hann annmarka ríkjandi efnahagsstefnu varðandi hnattvæðingu þar sem hann gagnrýndi svokallaða eftirlitslausa hnattvæðingu og færði rök fyrir því að hnattvæðingin ýtti undir ójöfnuð og skaðaði í raun þá sem veikast standa. Ákall Stiglitz um jafnari og félagslega meðvitaðri nálgun á hnattvæðingu vakti talsverða athygli á sínum tíma og vakti upp umræður um hlutverk alþjóðlegra stofnana í þeim efnum og nauðsyn sanngjarns alþjóðlegs efnahagskerfis Á undanförnum árum hefur Stiglitz verið ötull talsmaður þess að dregið yrði úr tekjuójöfnuði, sem hann telur eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Í bókinni: „The Price of Inequality“ frá árinu 2012 fór hann ofan í rætur og afleiðingar vaxandi tekjumunar og varpaði fram tillögur um hvernig draga úr þeirri þróun. Stiglitz heldur því fram að sanngjörn og réttlát dreifing fjármagns sé ekki aðeins siðferðilega rétt heldur einnig nauðsynleg til að viðhalda hagvexti til lengri tíma.

Hér að ofan eru eingöngu nefndar tvær bækur eftir Stiglitz, en hann hefur ritað fjölda bóka og er von á nýrri bók í apríl nk. og mun hann meðal annars fjalla um efni hennar á fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á föstudaginn.

Stiglitz er einn áhrifamesti hagfræðingur og hugsuður samtímans. Arfleifð Stiglitz liggur ekki aðeins í þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið heldur í þeim áhrifum sem hugmyndir hans hafa á alþjóðlegt efnahagslandslag undangengna áratugi. Hann heldur áfram að móta bæði fræðilega umræðu og efnahagslega stefnumótun sem leggur áherslu á félagslega samvinnu og sjálfbærni.

Haldið verður málþing með Joseph Stiglitz föstudaginn 1. mars í Veröld, húsi Vigdísar, kl. 12-13:30. Áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Góður dagur í kjördæmaviku 

Deila grein

28/02/2024

Góður dagur í kjördæmaviku 

Dagur tvö í kjördæmavikunni.  

Þingmennirnir okkar og ráðherrar ferðast um landið og fara víða í heimsóknir. Í lok dags eru opnir fundir, en í gær voru þrír fundir haldnir í Bláskógabyggð, Borgarnesi og Mosfellsbæ. Að venju var vel mætt á fundina, en samtöl af þessu tagi eru verðmæt. Þá sérstaklega sem veganesti fyrir þingmenn okkar og ráðherra í áframhaldandi vinnu þeirra. 

Í Efsta Dal í Bláskógabyggð var haldinn opinn fundur með Sigurði Inga, Jóhanni Friðriki og Hafdísi Hrönn. Þar var m.a. rætt um búvörusamninga, framleiðslustyrki til bænda, álag á vegakerfið á Suðurlandi, samgönguáætlun, dreifikerfi raforku og orkuskipti. 

Í skátaheimili Mosverja í Mosfellsbæ mættu Willum Þór, Ásmundur Einar og Ágúst Bjarni á opinn fund. Með þeim voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ þau Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson. Þar var m.a. rætt um málefni hælisleitenda, uppbyggingu hjúkrunarheimila, blóðmerahald, almannavarnir í kjölfar jarðhræringa í Grindavík og núverandi kjaraviðræður. 

Í Landnámssetrinu í Borgarnesi ræddu Lilja Dögg, Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý við kjósendur á opnum fundi. Með þeim voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Borgarbyggð þau Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar og formaður Kvenna í Framsókn, Davíð Sigurðsson, Eva Margrét Jónudóttir og Sigrún Ólafsdóttir. Rætt var um framtíð Reykjavíkurflugvallar, núverandi kjaraviðræður, uppkaup ríkisins í íbúðarhúsnæði í Grindavík, málefni ferðaþjónustunnar, inngildingu innflytjenda og orkuþörf hér á landi. 

Í dag höldum við þrjá opna fundi, á Vopnafirði kl. 18.00 og í Kópavogi og Akranesi kl. 20.00.

  • Í húsnæði Siglingafélagsins Ýmir í Kópavogi verða Willum Þór og Ágúst Bjarni ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar í Kópavogi. 
  • Í safnaðarheimilinu á Vopnafirði verða Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi. 
  • Á Dalbraut 4 á Akranesi verða Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar á Akranesi.