Categories
Fréttir Greinar

Síðasti bóndinn í dalnum?

Deila grein

02/06/2023

Síðasti bóndinn í dalnum?

Saga íslenska bóndans nær langt aftur, allt aftur til landnáms, og hefur verið í lykilhlutverki við að móta íslenska menningu og samfélag. Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar aðlagað búskaparhætti sína að náttúrulegum aðstæðum landsins og skapað með því djúpa tengingu milli náttúrunnar og þjóðarinnar. Það er fátt íslenskara en hin íslenska lopapeysa og lambalæri með brúnni. Íslenskur landbúnaður hefur ekki bara verið mikilvægur út frá hagfræðilegum sjónarmiðum og skapað atvinnutækifæri heldur hefur hann haft djúpstæð áhrif á sjálfsmynd okkar sem þjóð. Það sjáum við einna best í áhrifum hans á menningu landsins enda á hann margar birtingarmyndir í skáldskap, tónlist, kvikmyndum, myndlist og handverki. Ferðamaðurinn sem sækir Ísland heim vill fá að njóta alls þess sem við höfum upp á að bjóða, hann vill íslenskan mat á diskinn sinn ekki innflutta kengúru eða lopapeysu frá Kína.

Hvers virði eru góð orð?

Sá sem hér skrifar hefur velt fyrir sér í ljósi núverandi ástands hvort öll sú umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægi þess að vera sjálfbær sé bara innantómt hjal sem draga megi fram á tyllidögum. Á sólardögum berjum við okkur á brjóst og segjumst standa fyrir dýravelferð, viljum að sú fæða sem við neytum sé án sýklalyfja og að aðbúnaður sé góður, bæði fyrir dýr og þá einstaklinga sem vinna við greinina. Við gerum ríkar kröfur til íslensk landbúnaðar og það er vel, því sætir það furðu að margir hverjir snúa blinda auganu við þegar hingað flæðir inn innfluttar landbúnaðarvörur sem margar hverjar koma úr stórverksmiðju búskap sem á ekkert skylt við öll okkar grunngildi.

Innflutningur gerir út af við innlendan landbúnað

Síðasta sumar samþykkti Alþingi að fella niður tolla af landbúnaðarvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Úkraínu. Tilgangurinn með þessum aðgerðum var að efla vöruviðskipti milli landanna og halda efnahag Úkraínu gangandi þrátt fyrir stríðsátök. Með þessum aðgerðum var svo litið á að Alþingi sameinaðist um sýna Úkraínu stuðning í verki. Við mat á áhrifum frumvarpsins var ekki talið líklegt að áhrifin yrðu veruleg en annað hefur síðan komið á daginn. Í dag er það ljóst að niðurfelling á tollum á vörum frá Úkraínu hefur haft veruleg áhrif á framleiðendur landbúnaðarvara hér á landi, sér í lagi vegna gríðarlegs innflutnings á kjúklingakjöti sem ekki var talið líklegt að fluttur yrði inn. Flutt hafa verið inn um 200 tonn af kjúklingakjöti frá því að lögin tóku gildi og út febrúar á þessu ári. Það er 200 tonn á sex mánuðum. Þar sem tölur fyrir mars, apríl og maí liggja ekki fyrir má gera ráð fyrir enn meira magn hafi komið til landsins. Það er erfitt ef ekki ómögulegt fyrir innlenda bændur að keppa við innflutningsverð á kjúklingi frá Úkraínu, en meðalinnflutningsverð hefur verið um 540 kr. og er það talsvert undir framleiðsluverði á Íslandi. Íslenskir alifuglabændur eiga ekki roð erlend stórfyrirtæki sem framleiða á einum degi sama magn og íslenskur bóndi framleiðir á einu ári.

Við þurfum að breyta um stefnu

Sem betur fer hefur ekki borið á innflutningi á mjólkur- og undanrennudufti á þessum tíma, það kann þó að vera sökum þess að verð á mjólkur- og undanrennudufti hækkaði mjög í upphafi árs 2022 en hefur nú farið lækkandi aftur. Útflutningur á undanrennu- og nýmjólkurdufti frá Úkraínu árið 2022 var um 24.600 tonn en það er 18 föld innanlandssala á Íslandi. Það tekur um 4 mánuði að byggja upp viðskiptasambönd og við sjáum það að ef við ætlum okkur að halda áfram þessum táknræna stuðningi sem þessum tekur það ekki langan tíma að gera út af við innlenda framleiðslu. Fréttir eru einnig að berast af því að öllu óbreyttu sé nautakjötið einnig á leiðinni frá Úkraínu. Það má ekki verða þannig að táknrænar aðgerðir Íslands í alþjóðasamfélaginu kippi hreinlega stoðunum undan heilu atvinnugreinunum hérlendis. Hér þurfum við frekar að líta til nágranna okkar í Noregi sem í staðinn fyrir að fórna innlendum landbúnaði með niðurfellingu tolla hefur styrkt Úkraínu og þannig úkraínska bændur með fjárframlögum í gegnum alþjóðastofnanir.

Vissulega er breytinga þörf

Í staðinn fyrir óheftan og gegndarlausan innflutning á landbúnaðarvörum til landsins þurfum við að gera betur við íslenskan landbúnað, og við viljum gera vel. Til marks um það liggur nú fyrir Alþingi Landbúnaðarstefna til ársins 2040, þessi stefna rímar margt í hverju við stefnu Framsóknar í landbúnaðarmálum síðustu ár. Stefnan markar nokkuð vel þann veg sem skynsamlegt er að fara við að nýta landið, auðlindir landsins, til góðra verka. Það gerum við með því að nýta landið til þess að framleiða matvæli. Nokkur umræða hefur verið síðustu misseri um stuðningskerfi landbúnaðarins, það fyrirkomulag sem við höfum í dag er að mínu mati svo sannarlega ekki meitlað í stein. Það er þörf á að gera breytingar á því með það að markmiði að hvetja bændur til þess að framleiða hollar og góðar afurðir, stuðningurinn á ekki að vera reiknaður út frá fjöldi ærgilda o.s.frv. heldur sé til þess fallin að hvetja bændur til þess að framleiða næg matvæli og að bændur hafi afkomu af sínum búskap. Í því samhengi er mikilvægt fyrir stjórnvöld að horfa á hvernig starfsumhverfið er í greininni. Við eigum að vera ófeiminn að ræða stuðning við landbúnað og við bændur þurfum að koma að þessu samtali líka með stjórnvöldum.

Að lokum, landbúnaður er ekki bara kjöt og mjólk, hann er einnig akuryrkja, garðyrkja, skógrækt og landgræðsla. Líkt og ég kom að í upphafi er landbúnaður eining hluti af menningu okkar og aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Með íslenskum landbúnaði, með því að nýta auðlindir landsins höfum við rík tækifæri til verðmætasköpunar ásamt því að tryggja afkomu þjóðarinnar. Töpum ekki niður því sem við höfum byggt upp frá landnámi, stöndum vörð um innlenda framleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2023.

Categories
Fréttir

Fráleitt að þessi tillaga nái fram að ganga

Deila grein

01/06/2023

Fráleitt að þessi tillaga nái fram að ganga

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, ræddi tillögu framkvæmdastjórnar ESB um að hækka bílprófsaldurinn í 18 ár, á fundi með samgönguráðherrum Norðurlandanna á fund í Lúxemborg. Segir Sigurður Ingi það fráleitt að þessi tillaga nái fram að ganga.

„Rök Íslands er að okkur hefur miðað vel í að fækka umferðarslysum meðal yngri ökumanna og sú staðreynd að landið liggur ekki að öðru landi geri auðveldara fyrir að færa rök fyrir því að það er ekki ástæða til breytinga,“ segir Sigurður Ingi.

Fundurinn fór fram fyrir fund ráðherraráðs ESB á sviði samgöngumála og gefst því gott tækifæri til að skiptast á skoðunum og koma sjónarmiðum Ísland að í samgöngumálum.

„Upplýsingaskipti um umferðalagabrot voru einnig rædd sem þýðir að hægt er að rukka aðila fyrir umferðalagabrot sé viðkomandi staddur í öðru en heimalandi.

Þá voru loftferðamálin „Fit for 55“ rædd og ég sagði frá samkomulagi sem náðst hefur við framkvæmdastjórn ESB um losunarheimildir í flugi,“ segir Sigurður Ingi.

Bauð þessum ágætu herramönnum, samgönguráðherrum Norðurlandanna, á fund í Lúxemborg, til að ræða ýmis samgöngumál. Hefð…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Fimmtudagur, 1. júní 2023
Categories
Fréttir

„Sumir þurfa að græða meira, virðist vera“

Deila grein

01/06/2023

„Sumir þurfa að græða meira, virðist vera“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, segir það langhlaup að leysa úr stöðunni í efnahagsmálum þjóðarinnar. Skyndilausnir sem breyta eða leysa úr stöðunni á einum degi eða nokkrum vikum eru ekki til, heldur sé þetta langhlaup þar sem við munum komast í mark. Það sé sameiginlegt verkefni okkar.

„Stýrivextir hækka, matarkarfan hækkar, útgjöld heimilanna hækka og væntanlega munu vextir bankanna einnig hækka í kjölfar stýrivaxtahækkunar. Sumir þurfa að græða meira, virðist vera,“ segir Ágúst Bjarni.

„Heilt yfir búum við í góðu samfélagi hér á landi og staða okkar á langflestum sviðum er góð. Það segja flestar tölur. Við búum í samfélagi þar sem náungakærleikur ríkir og samkennd með öðru fólki er ofar öllu. Við stöndum saman og hjálpumst að við að gera gott samfélag betra. Þetta sjáum við víða þegar á bjátar,“ segir Ágúst Bjarni.

„Fram undan eru áskoranir á húsnæðismarkaði. Við glímum við ákveðið ójafnvægi í dag sökum þess að of lítið hefur verið byggt af íbúðum síðustu 10–15 ár. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru háleit markmið um byggingu íbúða á næstu árum og hefur hæstv. innviðaráðherra nú þegar kynnt metnaðarfull markmið hvað það varðar og gert samninga. En það þarf meira til og samhliða þessu þarf að gera almenna markaðnum kleift að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á næstu árum,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Umræða um efnahagsmál hefur verið allsráðandi í samfélaginu undanfarnar vikur og skyldi engan undra. Stýrivextir hækka, matarkarfan hækkar, útgjöld heimilanna hækka og væntanlega munu vextir bankanna einnig hækka í kjölfar stýrivaxtahækkunar. Sumir þurfa að græða meira, virðist vera. Í allri umræðu um efnahagsmál verður að horfa á stóru myndina. Heilt yfir búum við í góðu samfélagi hér á landi og staða okkar á langflestum sviðum er góð. Það segja flestar tölur. Við búum í samfélagi þar sem náungakærleikur ríkir og samkennd með öðru fólki er ofar öllu. Við stöndum saman og hjálpumst að við að gera gott samfélag betra. Þetta sjáum við víða þegar á bjátar. Þýðir þetta að við sem samfélag stöndum ekki frammi fyrir áskorunum? Nei, við stöndum frammi fyrir áskorunum. Það eru svo sannarlega miklar áskoranir til staðar og alger óþarfi að fara í felur með það. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Við glímum við mikla verðbólgu í landinu líkt og löndin í kringum okkur og fólk er farið að finna verulega fyrir því. Ég hef áður fjallað um þessi mál, bæði í ræðum hér á Alþingi og í greinum, en við megum ekki missa sjónar á því að til eru lausnir við þessum áskorunum, þó engar skyndilausnir sem breyta eða leysa úr stöðunni á einum degi eða nokkrum vikum. Þetta er langhlaup og við munum komast í mark.

Fram undan eru áskoranir á húsnæðismarkaði. Við glímum við ákveðið ójafnvægi í dag sökum þess að of lítið hefur verið byggt af íbúðum síðustu 10–15 ár. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru háleit markmið um byggingu íbúða á næstu árum og hefur hæstv. innviðaráðherra nú þegar kynnt metnaðarfull markmið hvað það varðar og gert samninga. En það þarf meira til og samhliða þessu þarf að gera almenna markaðnum kleift að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á næstu árum.“

Categories
Fréttir

Stjórnvöld sendi skýr skilaboð út í feltið

Deila grein

01/06/2023

Stjórnvöld sendi skýr skilaboð út í feltið

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, segir það mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi trú og horfi til framtíðar með matvælaframleiðendum. Að Ísland verði sjálfbær þjóð varðandi fæðuöflun og fæðuöryggi.

„Það er hverri þjóð mjög mikilvægt að hlúa að matvælaframleiðslu sinni og horfa til þess að vera sjálfri sér næg í fæðuframboði. Við eigum mikið verk eftir óunnið hér á landi er kemur að því að geta sagt að við séum sjálfbær þjóð varðandi fæðuöflun. Vissulega erum við öflug í sjávarútvegi en við eigum mikið í land í því er snýr að fæðuöryggi þjóðarinnar og varðar landbúnaðarframleiðslu.

Það er því mikið fagnaðarefni fyrir alla áhugamenn og þá sem vinna við framleiðslu matvæla að stjórnvöld sendi þessi skýru og góðu skilaboð út í feltið, eins og sagt er,“ sagði Þórarinn Ingi.


Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Ég ætla hér að ræða ákveðin mál sem hefur verið á dagskrá og mál sem verður á dagskrá í dag, þ.e. um matvælastefnu og landbúnaðarstefnu sem matvælaráðherra lagði fram og hafa verið til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd. Það er vissulega ánægjuefni að á þessum fallega vordegi, er mér óhætt að segja, séum við að ræða um framtíð matvælaframleiðslu og landbúnaðar hér á landi. Það er mjög mikilvægt fyrir framleiðendur matvæla hér á landi að stjórnvöld sendi skýr skilaboð til þeirra sem í stafni standa um það að stjórnvöld hafi trú og horfi til framtíðar með þeim sem framleiða matvæli. Það er hverri þjóð mjög mikilvægt að hlúa að matvælaframleiðslu sinni og horfa til þess að vera sjálfri sér næg í fæðuframboði. Við eigum mikið verk eftir óunnið hér á landi er kemur að því að geta sagt að við séum sjálfbær þjóð varðandi fæðuöflun. Vissulega erum við öflug í sjávarútvegi en við eigum mikið í land í því er snýr að fæðuöryggi þjóðarinnar og varðar landbúnaðarframleiðslu. Það er því mikið fagnaðarefni fyrir alla áhugamenn og þá sem vinna við framleiðslu matvæla að stjórnvöld sendi þessi skýru og góðu skilaboð út í feltið, eins og sagt er.“

Categories
Fréttir

Norræn menning blómstrar!

Deila grein

31/05/2023

Norræn menning blómstrar!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, sat stjórnarfund Norræna menningarsjóðsins í vikunni. Verkefni fundarins var að fara yfir þá styrki sem voru veittir á þessu ári og þá öflugu listamenn sem hafa sótt um styrki í sjóðinn.

„Gróskan er mikil og hlakka til að halda áfram að fylgjast með norrænni menningu blómstra,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Á fundinum var samþykkt að halda næsta vorfund á Íslandi sem er fagnaðarefni því venjan er að fundirnir séu haldnir í Kaupmannahöfn. Þá var þetta síðasti fundur Benny Marcel sem hefur verið framkvæmdastjóri sjóðsins í 8 ár og lagt mikið til í því hvernig sjóðurinn hefur vaxið og styrkst á þeim árum,“ sagði Hafdís Hrönn.

Norræni menningarsjóðurinn er norrænn styrktarsjóður sem styrkir norræn samstarfsverkefni á sviði lista (myndlistar, leiklistar, dans, tónlistar og bókmennta). Í gegnum tíðina hefur sjóðurinn aðallega styrkt listviðburði. Hann var stofnaður af Norðurlandaráði 1. september 1966. Höfuðstöðvar sjóðsins eru í Kaupmannahöfn. Stjórn sjóðsins skipa tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna auk eins fulltrúa frá heimastjórnarsvæðunum Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.

Categories
Greinar

Lýð­heilsu fórnað fyrir inn­flutning

Deila grein

31/05/2023

Lýð­heilsu fórnað fyrir inn­flutning

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs voru flutt inn rúm 200 tonn af úkraínsku kjúklingakjöti til Íslands, íslenskir kjúklingabændur hafa gagnrýnt innflutninginn vegna áhrifa á sölu íslensks kjúklings. Innflutningur á samskonar kjöti frá Úkraínu var í kringum 80 tonn á síðasta ári. Í júní 2022 lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á tollalögum sem fólu í sér tímabundna einhliða niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu.

Þar er um að ræða hreina tollaniðurfellingu án fyrirvara, formaður deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum kveðst uggandi yfir þeim áhrifum sem innflutningur frosins, úrbeinaðs kjúklingakjöts frá Úkraínu getur haft á framtíð alifuglabænda.

Að mínu mati er slík tollaniðurfelling algjörlega fráleitt, það er vegið að kjúklingabændum með þessum innfluttningi og setur maður spurningar við aðbúnað dýranna í landi sem ríkir stríð.

Hlustum á sérfræðinga

Vilhjálmur Arason heimilislæknir, sem er með doktorsgráðu í rannsóknum um fjölónæmar bakteríur hefur bent á að þegar innflutningur kjöts var gerður frjáls með EES samningi á sínum tíma var opnað á aukna áhættu að við færum að fá fjölónæmu bakteríur sem koma óhjákvæmilega með kjöti hingað til lands. Og hefur hann talað um að þetta séu svokallaðar súnubakteríur, sameiginlegar bakteríur með dýrum og mönnum, sem berast með sláturkjöti.

Slíkar bakteríur séu stórt vandamál víða erlendis og Íslendingar hafi hingað til búið við þau forréttindi að heilnæmi íslenskra landbúnaðar afurða sé einstakur með lítilli notkun sýklalyfja, eða sú minnstu sem gerist í heiminum. En aðra sögu er að seigja frá Úkraínu, þar eru þessar bakteríur sérstakt vandamál, þar sem nær-alónæmar bakteríur finnast í meira magni en annars staðar í álfunni.

Aukin hætta er á að þessar bakteríur sem við erum að flytja hingað til lands blandast inn í íslenska flóru, bæði dýra- og mannaflóru. Einnig hefur Vilhjálmur bent á að Þegar þær valda sýkingum er það stórmál því að venjuleg sýklalyf virka oftast ekki og stundum engin sýklalyf. Þannig er íslenskri sérstöðu fórnað fyrir viðskiptahagsmuni og reglugerðir.

Bakteríur sem berast í menn

Súnubakteríur séu algengustu sára- og sýklabakteríur mannsins en geta líka lifað með dýrum og komið með innfluttu kjöti. Vilhjálmur hefur líka talað um flórubakteríur sem lifa lengi í görnum okkar og jafnvel stundum í öndunarvegi og húð. Mögulegt er þegar við fáum sár eða sýkjumst eins og þvagfærasýkingu getur sú sýking verið ómeðhöndlanleg Þetta er áhættan. í Úkraínu hefur þetta hlutfall verið hvað hæst og eru 20-40 prósent af blóðeitrunum og heilahimnubólgum með bakteríum sem eru algjörlega ónæmar fyrir lang flestum sýklalyfjum. Það segir sig sjálft að við erum að taka gríðarlega áhættu með því að vera að heimila slíkan innflutning í kjúklinga kjöti frá Úkraínu.

Varan er seld í flest öllum matvöruverslunum landsins ásamt því að vera notuð í miklu magni inn í veitingahús og mötuneyti landsins og jafnvel selt undir fölsku flaggi og neytendur hafa ekki nokkra vitneskju um uppruna vörunar.

Alþingi hefur val

Alþingismenn þurfa að huga að heilsu íslensku þjóðarinnar. Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins mun fjalla um tollfrjálsan innflutning úkraínskra vara á næstu dögum, þar skora ég á nefndarmenn að stoppa strax þann innflutning sem á sér stað frá Úkraínu, með þeim formerkjum að huga að heilsu íslensku þjóðarinnar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eitt dauðs­fall er of mikið

Deila grein

30/05/2023

Eitt dauðs­fall er of mikið

Í gær voru áhrifaríkir og fallegir tónleikar haldnir í Hörpu til að vekja athygli á ópíóðafíkn og styrkja skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins. Undanfarið hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um ópíóðafíkn og þann skaða sem af henni getur hlotist. Hér á landi eru vísbendingar um að ópíóðar séu í aukinni umferð í samfélaginu og að notkun þeirra sé að aukast þrátt fyrir það að dregið hafi úr lyfjaávísunum á ópíóða undanfarin ár. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, bregðast hratt við og tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og aðgengi að þeim sé tryggt.

Ráðist í aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur undirritaðs um víðtækar aðgerðir og fjölbreytt úrræði til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á skaðlega notkun ópíóíða og alvarlegar afleiðingar ópíóíðafíknar. Tillögur þessa efnis voru nýlegar kynntar fyrir ríkisstjórn. Þær voru í kjölfarið ræddar í ráðherranefnd um samræmingu mála og ákveðið að útvíkka þær enn frekar í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og auka áður áætlað fjármagn í aðgerðir úr 170 milljónum króna í 225 milljónir króna. Auk aðgerða sem miða að forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkun verður gagnasöfnun tengd vímuefnavanda samræmd og efld. Áhersla verður jafnframt lögð á stefnumótun, aukna upplýsingagjöf og fræðslu til almennings.

Aukið fjármagn í rannsóknir, gagnasöfnun og upplýsingamiðlun

Verkefni og aðgerðir sem ráðist verður í á þessu ári eru fjölmörg. Fjármagn verður eyrnamerkt styrkjum til félagasamtaka í verkefni til að vinna gegn fíknisjúkdómum, veita lágþröskuldaþjónustu, stuðning, fræðslu og styðja við fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma. Aðgengi að viðhaldsmeðferð verður aukið og aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtun ópíóíða bætt enn frekar um allt land. Viðbragðsþjónusta verður efld, afeitrunarplássum fjölgað og samstarf stofnana fyrir fólk í vanda með áherslu—á ópíóíðamisnotkun—verður aukið. Einnig verður ráðist í tilraunaverkefni að norskri fyrirmynd um þverfaglega endurhæfingu við ópíóíðafíkn.

Ráðist verður í vinnu þvert á viðeigandi ráðuneyti og stofnanir við að samræma öflun og birtingu gagna sem gefa raunsanna mynd af umfangi vandans og þróun þessara mála. Með því móti fæst betri yfirsýn, forgangsröðun verður markvissari, öll umræða verður gegnsærri og ákvarðanataka verður markvissari. Setja þarf upp rafrænt skráningarkerfi og gagnagrunn í þessu skyni. Enn fremur verður hlutverk Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum aukið og rannsóknargeta efld með áherslu á mælingar, rannsóknir og tölfræði sem tengjast fíknisjúkdómum. Að lokum er vert að nefna að rekstur neyslurýmis hefur nú þegar verið fjármagnaður af heilbrigðisráðuneytinu og beðið er eftir að Reykjavíkurborg finni neyslurými varanlegt húsnæði.

Stefnumótun um fíknisjúkdóma

Alþingi samþykkti á liðnu ári ályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú til umfjöllunar í þinginu. Þar eru lagðar til fjölmargar aðgerðir sem snúa almennt að geðþjónustu þvert á velferðarkerfið og munu nýtast vel við að þróa og efla þjónustu m.a. vegna fíknisjúkdóma. Til lengri tíma litið er mikilvægt að móta heildstæða stefnu um fíknisjúkdóma sem tekur til forvarna, heilsueflingar, skaðaminnkunar, greiningar, meðferðar og endurhæfingar með áherslu á samvinnu og samhæfingu. Því hefur undirritaður ákveðið að hefja þá vinnu.

Skaðaminnkun

Á liðnum árum hefur hugmyndafræði skaðaminnkunar rutt sér til rúms víða um heim. Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg. Skaðaminnkandi úrræði í fíknisjúkdómum eru meðal annars lyfjameðferð við ópíóðum, neyslurými og afglæpavæðing. Hér á landi hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref varðandi þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða en það er tímabært að taka enn stærri skref og vinna að stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við það.

Skýr stefna er nauðsynleg

Í viðkvæmum málaflokkum skiptir miklu máli að skýr stefna liggi fyrir til að skapa sátt um aðgerðir. Sérstaklega þegar þær þarfnast aðkomu margra ólíkra hagsmunaaðila. Undirritaður hefur því ákveðið að hefja vinnu við að móta stefnu í skaðaminnkun út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur myndast og þróa aðgerðaáætlun byggða á henni. Sú vinna mun einnig styrkja og tengjast heildarstefnumótun fyrir fíknisjúkdóma. Starfshópurinn sem verður skipaður er hugsaður sem fámennur kjarnahópur sem verður falið að hafa vítt samráð og eiga virkt samtal við helstu hagaðila til að stuðla að samþættingu, samvinnu og sátt.

Víðtækt samstarf

Vímuefnavandinn er fjölþættur og ekki aðeins einskorðaður við ópíóða eða alvarlegustu birtingarmynd vandans, ótímabær dauðsföll. Því þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Hér á landi eru dauðsföll af völdum eitrana ávana- og fíkniefna í flestum tilfellum vegna blandaðrar neyslu og í gegnum tíðina hafa ófá dauðsföll orðið af óbeinum völdum ávana- og fíkniefna sem erfiðara er að henda reiður á. Þegar kemur að ópíóðum vitum við að þeir eru einna hættulegastir vímuefna og því er full ástæða til að rýna í stöðuna og kanna hvar þarf að þétta öryggisnetið. Eitt dauðsfall af völdum vímuefna er einu dauðsfalli of mikið.

Þau verkefni sem hér hefur verið fjallað um kalla á víðtækt samstarf og samráð milli áðurnefndra ráðuneyta, stofnana, stjórnsýslustiga og félagasamtaka til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Síðast en ekki síst skiptir aðkoma einstaklinga í vanda og aðstandenda þeirra miklu máli og því verður aukin áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu, hvort sem fjallað er um þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, þróun nýrra úrræða eða stefnumótun.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2023.

Categories
Fréttir

Varnarlínur sauðfjársjúkdóma

Deila grein

26/05/2023

Varnarlínur sauðfjársjúkdóma

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu að mikilvægt sé að hækka eigi fjárveitingu til viðhalds á Hvammsfjarðarlóinu og Tvídægurlínu. Eins og kunnugt er, vegna riðutilfella í Miðfirði, skapaðist mikil umræða um varnarlínur sauðfjársjúkdóma og viðhald í vetur.

„Mér fannst nauðsynlegt að fá svör við ýmsum spurningum í tengslum við þessi mál og sendi því fyrirspurn á matvælaráðherra,“ segir Lilja Rannveig.

„Svar ráðherra dregur fram með skýrum hætti hvaða varnarlínur eru á viðhaldsáætlun. Einnig kemur fram að framlög til viðhalds þessara varnarlína hafa lækkað á undanförnum árum.“

„Það er hins vegar mikilvægt að nú hefur verið ákveðið hefur verið að hækka fjárveitingu til viðhalds á Hvammsfjarðarlínu og Tvídægrulínu,“ segir Lilja Rannveig.

Yfirlýsingu Lilju Rannveigar í heild sinni má sjá hér að neðan:

– Varnarlínur sauðfjársjúkdóma – Í kjölfar riðutilfella sem komu upp í Miðfirðinum nú í vetur skapaðist mikil umræða um…

Posted by Lilja Rannveig on Föstudagur, 26. maí 2023

***

153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1826  —  1001. mál.

Svar matvælaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um varnarlínur sauðfjársjúkdóma.

     1.      Hvaða varnarlínum sauðfjársjúkdóma hefur ráðherra ákveðið að skuli viðhalda, sbr. 12. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, og hvernig flokkast þær í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur?
    Ráðherra ákveður viðhald varnarlína að fengnum tillögum Matvælastofnunar þar um. Flokkun varnarlína í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur er skilgreind í auglýsingu nr. 88/2018, um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma.
    Fyrir árið 2023 hefur ráðherra samþykkt tillögur Matvælastofnunar um viðhald á eftirfarandi varnarlínum:

Tafla 1. Línur sem eru á viðhaldsáætlun 2023 og lýsing á staðsetningu þeirra.

LínaLýsing
2. Kalda­dalslína / Sogs- og BláskógalínaSog frá Ölfusá um Þing­valla­vatn og úr því um Ármanns­fell í Hval­fjarðarlínu við Kvíg­ind­is­fell.
4. Hval­fjarðarlínaÚr Hval­f­irði við Múla­fjall um Hval­vatn að Kvíg­ind­is­felli að Brunn­um við Uxa­hryggi í Hrúður­karla við Þórisjök­ul.
5. Snæ­fellslínaÚr Skóg­ar­nesi um Ljósu­fjöll í Álfta­fjörð.
6. Hvamms­fjarðarlínaÚr Hvamms­firði milli Þor­bergs­staða og Hrútsstaða um Laxár­dals­heiði í Hrúta­fjörð sunn­an Fjarðar­horns.
7. Gils­fjarðarlínaÚr Gils­firði um Snart­artungu í Bitru­fjörð.
9. TvídægrulínaÚr Hvamms­fjarðarlínu við Skeggöxl um Kvíslavötn og Arn­ar­vatn stóra í Langjök­ul við Jökulstalla.
10. MiðfjarðarlínaÚr Miðfirði um Miðfjarðar­vatn í Arn­ar­vatn stóra.
12. Kjalar­línaMilli Langjökuls og Hofsjökuls.
13. HéraðsvatnalínaHéraðsvötn og Aust­ari-Jökulsá.
17. Fjalla­línaJökulsá á Fjöll­um.
20. ReyðarfjarðarlínaÚr Reyðarf­irði upp með þjóðvegi og þaðan upp í Áreyjatind. Úr Áreyjat­indi í Sand­fell og þaðan niður í Gilsá í Grímsá. Grímsá í mörk Vaðs og Geirólfsstaða og þaðan yfir í Hall­ormsstaðarg­irðing­ar í Gilsá í Gilsár­dal í Lög­inn.
24. Kýl­ing­ar­lína / Tungn­aár­línaFrá Botnjökli í Mýr­dalsjökli um Mæli­fellssand í Torfajök­ul, frá Hábarmi um Kirkju­fells­vatn í Tungn­aá og þaðan að Jökul­grind­um í Vatnajökli.
26. Þjórsár­línaÞjórsá.

     2.      Hver hefur kostnaður verið við viðhald varnarlína á landinu á árunum 2018–2022? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum varnarlínum og árum.

Tafla 2. Samþykkt kostnaðaráætlun fyrir viðhald varnarlína árin 2018–2022 eftir einstökum varnarlínum og heildar raunkostnaður við viðhald varnarlína fyrir árin 2018–2022.

Lína20182019202020212022
2. Kalda­dalslína / Sogs- og Bláskógalína0 kr.3.700.000 kr.3.700.000 kr.1.700.000 kr.2.000.000 kr.
4. Hval­fjarðarlína12.000.000 kr.11.000.000 kr.0 kr.500.000 kr.500.000 kr.
5. Snæ­fellslína2.700.000 kr.3.700.000 kr.3.700.000 kr.4.700.000 kr.3.000.000 kr.
6. Hvamms­fjarðarlína3.800.000 kr.3.700.000 kr.3.700.000 kr.3.000.000 kr.3.000.000 kr.
7. Gils­fjarðarlína850.000 kr.850.000 kr.1.600.000 kr.1.200.000 kr.1.200.000 kr.
9. Tvídægrulína6.700.000 kr.9.000.000 kr.9.000.000 kr.4.500.000 kr.4.500.000 kr.
10. Miðfjarðarlína4.000.000 kr.4.000.000 kr.5.000.000 kr.6.000.000 kr.6.000.000 kr.
11. Vatns­neslína4.000.000 kr.5.000.000 kr.3.300.000 kr.4.200.000 kr.2.000.000 kr.
12. Kjalar­lína4.000.000 kr.4.300.000 kr.5.000.000 kr.4.300.000 kr.4.500.000 kr.
13. Héraðsvatnalína0 kr.0 kr.0 kr.150.000 kr.200.000 kr.
17. Fjalla­lína0 kr.50.000 kr.100.000 kr.100.000 kr.100.000 kr.
20. Reyðarfjarðarlína500.000 kr.500.000 kr.9.250.000 kr.5.000.000 kr.5.000.000 kr.
24. Kýl­ing­ar­lína / Tungn­aár­lína0 kr.600.000 kr.600.000 kr.600.000 kr.800.000 kr.
26. Þjórsár­lína0 kr.0 kr.50.000 kr.50.000 kr.100.000 kr.
SAMTALS ÁÆTLAÐ38.550.000 kr.46.400.000 kr.45.000.000 kr.36.000.000 kr.32.900.000 kr.
RAUNKOSTNAÐUR40.547.832 kr.59.174.627 kr.52.789.478 kr.38.069.395 kr.33.199.172 kr.

     3.      Hversu margir línubrjótar voru skráðir árið 2022? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum varnarlínum.

Tafla 3. Heildaryfirlit yfir línubrjóta árið 2022 eftir varnarlínum, aldri og kyni línubrjóta.

VarnarlínaÆrVeturgamaltHrútarLömbSamtals
Brú­arár­lína10034
Gils­fjarðarlína620715
Ham­ars­fjarðarlína200810
Héraðsvatnalína20035
Hval­fjarðarlína11226
Hval­fjarðarlína og Sogs- og Bláskógalína30036
Hvamms­fjarðarlína360615
Hvítár­lína13701838
Jökulsár­lína300710
Kjalar­lína6001117
Kjalar­lína og Þjórsár­lína10023
Kjalar­lína, Þjórsár­lína o.fl.10012
Kolla­fjarðarlína10023
Lag­ar­fljótslína410510
Markarfljótslína10012
Miðfjarðarlína9101323
Reyðarfjarðarlína20046
Skjálf­andalína410712
Snæ­fellslína7001219
Tungnár­lína4401220
Tvídægrulína4301017
Úr Húna- og Skaga­hólfi í Vest­ur­lands­hólf00022
Úr Miðfjarðar­hólfi og fór í Vest­ur­lands­hólf11013
Úr Vest­ur­lands­hólfi yfir í Gríms­nes- og Laug­ar­dals­hólf10023
Vatns­neslína02125
Þjórsár­lína410712
Ekki skráð01023
SAMTALS84313153271

     4.      Hver er áætlaður kostnaður vegna fyrirhugaðs viðhalds varnarlína á yfirstandandi ári? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum varnarlínum.

Tafla 4. Kostnaðaráætlun vegna viðhalds varnarlína 2023.

LínaKostnaðaráætlun 2023
2. Kalda­dalslína / Sogs- og Bláskógalína2.500.000 kr.
4. Hval­fjarðarlína600.000 kr.
5. Snæ­fellslína3.500.000 kr.
6. Hvamms­fjarðarlína5.000.000 kr.
7. Gils­fjarðarlína1.500.000 kr.
9. Tvídægrulína8.000.000 kr.
10. Miðfjarðarlína7.000.000 kr.
12. Kjalar­lína5.000.000 kr.
13. Héraðsvatnalína250.000 kr.
17. Fjalla­lína150.000 kr.
20. Reyðarfjarðarlína5.500.000 kr.
24. Kýl­ing­ar­lína / Tungn­aár­lína1.000.000 kr.
26. Þjórsár­lína150.000 kr.
SAMTALS40.150.000 kr.

     5.      Hyggst ráðherra grípa til einhverra sérstakra aðgerða varðandi viðhald eða endurnýjun varnarlína milli Miðfjarðarhólfs og aðliggjandi varnarhólfa á yfirstandandi ári?
    Í kjölfar þess að riðutilfelli komu upp í Miðfjarðarhólfi lagði Matvælastofnun fram tillögur um auknar fjárveitingar til viðhalds á Tvídægrulínu og Hvammsfjarðarlínu milli Vesturlandshólfs og Miðfjarðarhólfs svo mögulegt væri að skipta út verst förnu hlutum girðinganna og gera þær vel fjárheldar. Ráðherra samþykkti tillögur Matvælastofnunar um hækkun á fjárveitingu til viðhalds á Hvammsfjarðarlínu úr 3,5 millj. kr. í 5,0 millj. kr. og á Tvídægrulínu úr 5,0 millj. kr. í 8,0 millj. kr.

Categories
Fréttir

Ný stjórn Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

26/05/2023

Ný stjórn Framsóknar í Hveragerði

Aðalfundur Framsóknarfélags Hveragerðis fór fram 24. maí s.l. í Reykjadalsskála í Hveragerði.

Á aðalfundinum var gerð sú lagabreyting að sætum í stjórn var fjölgað úr þremur í fimm. Nýkjörna stjórn skipa, frá vinstri: 

Kolbrún Edda Jensen Björnsdóttir, Sæbjörg Lára Másdóttir, Marta Rut Ólafsdóttir, Lóreley Sigurjónsdóttir og Arnar Ingi Ingólfsson.

Ástæða er til að óska nýkjörinni stjórn til hamingju með kjörið og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi öflugu og kröftugu starfi Framsónarmanna í Hveragerði.

Aðalfundur félags Framsóknar í Hveragerði fór fram í Reykjadalsskála í kvöld. Ný fimm manna stjórn var kosin á…

Posted by Framsókn í Hveragerði on Miðvikudagur, 24. maí 2023
Categories
Greinar

Umferðaröryggi stóreflt!

Deila grein

25/05/2023

Umferðaröryggi stóreflt!

Þann 8. apríl 2020 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Hveragerðis. Verkinu átti skv. þeim samningi að ljúka haustið 2023.

Í dag er Suðurlandsvegur orðinn tvöfaldur að stórum hluta en hér er um að ræða nýbyggingu Hringvegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á alls 7,1 km kafla. Á þeim kafla sem um ræðir hafa fjölmörg og alvarleg slys átt sér stað í gegnum tíðina. Umferðarþungi mikill og fjölmargir leggja leið sína um hann á degi hverjum til dæmis til vinnu eða í frí austur fyrir Hellisheiði. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Framkvæmdin hefur óneitanlega mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í heild á Suðurlandi.

Slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur verið mikil undanförnum árum og alvarleg umferðarslys verið fleiri en við kærum okkur um. Ferðamenn leggja leið sína á Suðurlandið og samfélagið austan Hellisheiðar er sívaxandi og tækifærin fjölmörg sem þar eru. Fólksfjölgun mikil og stór hluti þeirra sem hafa flutt þangað m.a. sækja störf á Höfuðborgarsvæðið. Það skiptir fólk máli að upplifa öryggi á vegunum okkar og það hefur verið talið grundvöllur að stækkandi vinnusóknarsvæði víða um land. Þar af leiðandi fagna ég því að þessi framkvæmd sé orðin að veruleika en ekki stóð til að hleypa umferð inn á nýja vegarkaflann fyrr en í haust. Nú er svo komið að vegurinn hefur verið formlega opnaður og er verkefnið því um það bil 3 mánuðum á undan áætlun.

Ölfusárbrúin

Þessu til viðbótar mun ný Ölfusárbrú verða að veruleika því þann 6. mars sl. óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í alútboð vegna byggingar nýrrar brúar á Ölfusá ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum en stefnt er að því að klára verksamning um verkefnið fyrir lok þessa árs. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki rúmlega tvö ár og því hægt að áætla að öllu óbreyttu að Sunnlendingar fái að keyra um nýja Ölfusárbrú árið 2026. Þar er annar áfangi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu og því ánægjulegt að það verkefni sé komið af stað.

Umferðaröryggi er forgangsmál

Það er augljóst að frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók við samgöngumálunum hér á landi hefur umferðaröryggi aukist til muna en það hefur verið forgangsmál ráðherra og okkar í Framsókn. Við erum hvergi nærri hætt á þessari vegferð og haldið verður stöðugt áfram að bæta samgöngur hér á landi með umferðaröryggi í forgrunni í þeirri vinnu. Ég má til að senda þakkir til Sigurðar Inga, innviðaráðherra, fyrir hans ötulu baráttu í þágu umferðaröryggis og einnig vil ég hrósa öllum þeim sem að verkinu stóðu. Það hefur verið virkilega aðdáunarvert að keyra í gegnum framkvæmdasvæðið á hverjum degi og finna á eigin skinni þær umbætur sem hafa orðið á veginum. Þetta er verkefni sem markar tímamót í vinnu okkar að auknu umferðaröryggi í landinu við finnum öll fyrir umbótum sem þessum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2023.