Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir að það verði að styðja við færni eldra fólks til sjálfstæðrar búsetu svo því sé stætt að búa heima hjá sér, eins lengi og hægt sé. „Það eru sjálfsögð mannréttindi.“ Hér skiptir heimahjúkrun lykilmáli.
„Það er því ekki að ástæðulausu að heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað 300 millj. kr. á fjárlögum ársins til að efla heimahjúkrun um allt land.
Auk þess hefur 1,4 milljarði kr. verið bætt inn í fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar til að styrkja enn frekar hlutverk hennar á landsvísu sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Halla Signý.
„Heilsugæslur um landið hafa verið í sérstakri vakt þessarar ríkisstjórnar frá árinu 2017 og hefur verið bætt verulega við fjárveitingu til þeirra í takt við aukið hlutverk.“
„Í þessu samhengi langar mig að nefna þá þróun sem hefur átt sér stað á Norðurlöndunum varðandi velferðartækni í þjónustu við eldra fólk. Þar hafa ýmiss konar tæknilausnir og nýsköpun sýnt að slíkt eykur líkur á því að fólk geti búið lengur heima, enda fer þeim sífellt fjölgandi í hópi eldra fólks sem geta tileinkað sér þessa nýju stafrænu tækni. Í hópi eldra fólks eru flestir orðnir vel tæknifærir.
Í Finnlandi hefur samþætting í þjónustu við eldra fólk gengið sérstaklega vel og þar hefur verið kynnt ný tækni til að rjúfa félagslega einangrun og ná þannig til stærri hóps fólks, sérstaklega í dreifðari byggðum. Þar vinna saman félagsþjónustan, endurhæfing og heimahjúkrun við að rjúfa einangrun og veita heildstæða nálgun við þjónustu til að byggja upp færni og sjálfstæði eldri borgara,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Það eru sjálfsögð mannréttindi að eldra fólki sé gert kleift að búa heima hjá sér eins lengi og stætt er. Svo að það sé mögulegt þarf að styðja við færni fólks til sjálfstæðrar búsetu. Bætt lýðheilsa er mikilvæg og huga þarf að andlegri og líkamlegri færni auk þess sem félagslegi þátturinn þarf alltaf að vera í fyrirrúmi. Til að mæta þörfum fólks sem býr heima en þarfnast aðstoðar til að viðhalda færni skiptir heimahjúkrun lykilmáli. Það er því ekki að ástæðulausu að heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað 300 millj. kr. á fjárlögum ársins til að efla heimahjúkrun um allt land. Auk þess hefur 1,4 milljarði kr. verið bætt inn í fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar til að styrkja enn frekar hlutverk hennar á landsvísu sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæslur um landið hafa verið í sérstakri vakt þessarar ríkisstjórnar frá árinu 2017 og hefur verið bætt verulega við fjárveitingu til þeirra í takt við aukið hlutverk.
Í þessu samhengi langar mig að nefna þá þróun sem hefur átt sér stað á Norðurlöndunum varðandi velferðartækni í þjónustu við eldra fólk. Þar hafa ýmiss konar tæknilausnir og nýsköpun sýnt að slíkt eykur líkur á því að fólk geti búið lengur heima, enda fer þeim sífellt fjölgandi í hópi eldra fólks sem geta tileinkað sér þessa nýju stafrænu tækni. Í hópi eldra fólks eru flestir orðnir vel tæknifærir.
Virðulegi forseti. Í Finnlandi hefur samþætting í þjónustu við eldra fólk gengið sérstaklega vel og þar hefur verið kynnt ný tækni til að rjúfa félagslega einangrun og ná þannig til stærri hóps fólks, sérstaklega í dreifðari byggðum. Þar vinna saman félagsþjónustan, endurhæfing og heimahjúkrun við að rjúfa einangrun og veita heildstæða nálgun við þjónustu til að byggja upp færni og sjálfstæði eldri borgara.“
„Gjörið svo vel, reddið þessu“
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/04/framsokn-ingibjorg-isaksen-forsida.jpg)
24/05/2023
„Gjörið svo vel, reddið þessu“Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um styttingu vinnuvikunnar á Alþingi.
Í kjarasamningum stjórnvalda og stéttarfélaga 2019 var gert samkomulag um verkefnið „Betri vinnutími“. Því er ætlað að vera útfærslu vinnutíma, með möguleika á mismunandi styttingu vinnuvikunnar, þannig að mest getur hún styst um allt að fjórar klukkustundir á viku.
Sett voru fram nokkur markmið með verkefninu, s.s. að bæta vinnustaðamenningu og starfsánægju, auka skilvirkni, bæta þjónustu og tryggja sveigjanleika starfsmanna. En forsenda breytinganna var að hvort tveggja þjónustustig og framleiðni yrði sú sama og áður eða betri.
Ingibjörg telur nú er rúm tvö ár eru liðin frá því að styttingin tók gildi, teldi hún „tímabært að staldra aðeins við og skoða hvaða reynslu við höfum af fyrirkomulaginu, útfærslu þess og framtíðaráformum hvað varðar vinnutíma starfsmanna.“
„Í skýrslu KPMG, sem gefin var út í nóvember í fyrra fyrir tilstilli fjármála- og efnahagsráðuneytisins, var staðan á „Betri vinnutíma“ metin og kostir og gallar tilgreindir eftir samtöl, greiningar og kannanir,“ sagði Ingibjörg.
„Af skýrslunni er ljóst að upplýsingar um ýmsa mikilvægi þætti eru enn óljósar hvað varðar afrakstur í kjölfar betri vinnutíma. Illa hefur gengið að greina mælanlegan árangur þar sem engar kröfur þess efnis voru gerðar til stjórnenda og stofnana. Eftirfylgni eða nánari rýni var engin af hálfu ráðuneytanna. Ekki var lögð áhersla á að taka núllpunkt eða greina stöðuna í upphafi styttingarinnar svo hægt væri að greina afköst og gæði starfsemi hverrar stofnunar fyrir sig. Því eru ansi margir þættir hér óljósir.“
„Flestar stofnanir ríkisins tóku þá ákvörðun að fara í hámark styttingar vinnuvikunnar þvert gegn ráðleggingum. Forræði yfir verkefninu og hlutverk aðila var heilt yfir óljóst og undirbúningstíminn var knappur. Það var í höndum hverrar stofnunar fyrir sig, stjórnenda þeirra og starfsmanna, að ákveða hvernig fyrirkomulagið væri. Í raun var það viðamikla verkefni að takast á við þær breytingar sem fólust í innleiðingunni fljótt komið í annarra manna hendur og í raun bara sagt: Gjörið svo vel, reddið þessu. En til að takast á við verkefnið hratt og vel þurfti mannauð, þekkingu og skipulag sem sumar stofnanir glímdu við og því fór mikill tími innan hverrar stofnunar í útfærslu, eins og kemur einmitt fram í skýrslu KPMG,“ sagði Ingibjörg.
„Einu haldbæru gögnin sem við höfum í höndunum eru ánægjukannanir starfsmanna með fyrirkomulagið sem koma jákvætt út. Að sjálfsögðu er ánægjulegt að starfsmenn hafi meiri tíma utan vinnustaðar til að sinna öðrum verkefnum, við sækjumst eftir því; eiga gæðastundir með fjölskyldu og vinum og skapa tækifæri fyrir ungar fjölskyldur til að geta jafnvel sótt börnin sín fyrr á leikskóla eða dagvistun. Hins vegar voru fleiri forsendur tilgreindar í upphafi verkefnisins, t.d. að þjónustustig og framleiðni starfsmanna minnki ekki.“
„Í skýrslu KPMG kemur fram að vísbendingar séu um að þjónustustig hafi heilt yfir lækkað í kjölfar styttingar vinnuvikunnar. Því kemur til álita hvort markmiðum um gagnkvæman ávinning af betri vinnutíma hafi verið náð. Hugmyndin um styttingu vinnuvikunnar er góð og gild en framkvæmdin hefur ekki gengið á öllum starfsstöðvum án þess að hafa áhrif á þjónustustig eða að hún hefur kallað eftir auknu fjármagni. Það á sérstaklega við um stofnanir sem bjóða aðallega upp á vaktavinnu en um þriðjungur ríkisstarfsmanna vinnur vaktavinnu, sem eflaust má einnig heimfæra á sveitarfélög. Á slíkum stöðum myndast mönnunargat í kjölfar betri vinnutíma sem kallar á fleiri stöðugildi til að viðhalda þjónustustigi. Við vitum að launakostnaður hefur hækkað og stöðugildum fjölgað með tilheyrandi áhrifum á fjárhag ríkisins, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar hafa margir þættir áhrif. En þær stofnanir sem báru mestan þunga af þessu voru einmitt þær sem urðu mest fyrir áhrifum af heimsfaraldi Covid-19.“
„Þó má velta fyrir sér hvaða áhrif stytting vinnuvikurnar hefur haft á þessa þróun. Engin opinber gögn sýna bein tengsl, en það væri áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra lumi á slíkum gögnum og þá sérstaklega hvað varðar heilbrigðisstofnanir.“
„Af öllu þessu er skýrt að mörgum spurningum er ósvarað. Stytting vinnuvikunnar hefur leitt til jákvæðrar þróunar á starfsánægju, sem skiptir máli. Hins vegar er nauðsynlegt að við fáum haldbærar upplýsingar um þróun annarra markmiða verkefnisins. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig verkefnið hafi gengið að hans mati með tilliti til þeirra markmiða sem sett voru í upphafi samninga og innleiðingar,“ sagði Ingibjörg að lokum.
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/03/framsokn-agust-bjarni-grunnmynd-mars-2023.jpg)
23/05/2023
Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, takk fyrir!Það var á sumarmánuðum 2019 sem þáverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hófu viðræður við innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, um að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að mislægum gatnamótum við Krýsuvík. Þetta krafðist mikillar vinnu og meðal annars góðs samstarfs við Vegagerðina, Carbfix og álverið í Straumsvík um skipulagsmál á svæðinu.
Á sínum tíma voru áform uppi um stækkun álversins í Straumsvík og keypti álverið þá land undir þá fyrirhuguðu stækkun. Á því landi sem álverið keypti liggur núverandi vegstæði Reykjanesbrautarinnar. Vegna þessa var vegstæði Reykjanesbrautarinnar á aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar fært ofar og átti sá flutningur brautarinnar að eiga sér stað um leið og álverið þyrfti landið og lóðina til stækkunar. Áform álversins um stækkun voru hins vegar felld naumlega í vel þekktri íbúakosningu árið 2007 og varð því ekkert af tilfærslu brautarinnar.
Skýrsla Vegagerðarinnar og Mannvits sýndi að hagkvæmast væri að breikka Reykjanesbrautina í núverandi vegstæði í stað þess að færa hana líkt og aðalskipulagið gerði ráð fyrir. Góð og lausnamiðuð samtöl við Sigurð Inga Jóhannsson innviðráðherra, fulltrúa Vegagerðarinnar og álversins í Straumsvík urðu svo til þess að þessari mikilvægu framkvæmd var flýtt og aðalskipulagi bæjarfélagsins breytt. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra vegkafla, en einnig byggingu brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Fyrir alla þessa vinnu og skilning ber að þakka og þar set ég undir alla þá aðila sem að þessum málum komu með einum eða öðrum hætti.
Þann 17. maí skrifuðu Vegagerðin og ÍAV undir verksamning um þessa mikilvægu framkvæmd. ÍAV bauð tæpa fjóra milljarða í verkið sem er talsvert undir þeirri kostnaðaráætlun sem lagt var upp með. Undirbúningur hefst strax og framkvæmdir munu hefjast í sumar. Umferðaröryggi er málefni sem snertir okkur öll og nú hyllir undir að kláraðar verði framkvæmdir við tvo slysamestu vegi landsins, Suðurlandsveg og svo Reykjanesbraut. Þetta eru því mikil gleðitíðindi fyrir okkur Hafnfirðinga og landsmenn alla.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2023.
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2022/12/SRS_2023-1200x800.jpeg)
23/05/2023
126 milljarða tekjur í menninguNýverið samþykkti Alþingi tillögur mínar til þingsályktanir um myndlistarstefnu og tónlistarstefnu til ársins 2030 ásamt því að samþykkja frumvarp um fyrstu heildarlöggjöf um tónlist á Íslandi. Markmiðið er skýrt; að efla umgjörð þessara listgreina til framtíðar.
Með myndlistarstefnunni er sett framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, að stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt, að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein og að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Lagðar eru til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.
Ný tónlistarstefna og heildarlöggjöf um tónlist er af sama meiði; að efla umgjörð tónlistarlífsins á Íslandi. Með lögunum hillir undir nýja Tónlistarmiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan. Nýr og stærri Tónlistarsjóður verður einnig að veruleika. Mun hann sameina þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar. Lykilhlutverk hans verður að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í tónlistariðnaði. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni og slagkraftur aukin verulega!
Í lögunum er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Tónlistarráði er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur milli stjórnvalda, Tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans enda felst í því mikill styrkur að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við alla stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.
Ofangreint mun skipta miklu máli til að styðja enn frekar við menningu og skapandi greinar á landinu og styðja vöxt þeirra sem atvinnugreina. Til marks um umfang þeirra þá birti Hagstofan nýverið uppfærða Menningarvísa í annað sinn. Samkvæmt þeim voru rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum rúmlega 126 milljarðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 einstaklingar á aldrinum 16-74 við menningu, eða um 7,3% af heildarfjölda starfandi, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar.
Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraftmikla hópi fólks úr grasrótinni sem kom að fyrrnefndri stefnumótun, framlag þess skipti verulegu máli.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2023.
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/01/asmundureinar-e1675174179980-1200x800.jpg)
22/05/2023
Þátttaka barna í innleiðingu barnasáttmálansYfir fjörutíu börn komu saman á þátttökuráðstefnu mennta- og barnamálaráðherra um Barnvænt Ísland og innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hérlendis. Markmiðið ráðstefnunnar var að ræða athugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðinguna og gefa börnum rödd í ákvörðunum er varða hag þeirra.
Ráðstefnan var haldin í Rósenborg á Akureyri, í samvinnu við Akureyrarbæ og grunnskóla á Norðurlandi. Þar var saman kominn 41 fulltrúi barna á aldrinum 13-15 ára frá tólf mismunandi skólum á svæðinu. Ungu ráðgjöfunum var falið að koma með sínar tillögur varðandi hvernig íslenska ríkið skyldi bregðast við lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar í þeim tilgangi að gera Ísland að enn betri stað fyrir öll börn.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði nýlega samning við alþjóðlegu samtökin Child Rights Connect. Samningurinn styður við réttindamiðaða nálgun í málefnum barna á Íslandi og innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Child Rights Connect eru félagasamtök sem starfa með Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Ráðstefnan hófst á fræðslu frá þátttökusérfræðingi þeirra þar sem rætt var við börnin um mannréttindindi og rétt þeirra til að láta skoðanir sínar í ljós. Útskýrð voru störf Barnaréttarnefndarinnar og fyrirkomulag vinnunar sem leiðir af sér lokaathugasemdirnar, sem hverju landi eru gefnar á 5 ára fresti, eftir úttekt á réttindum barna.
![](https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MRN/thatttokuradstefna-barnasattmali-2.jpg)
Að fræðslu lokinni var komið að þátttakendum að vinna sínar tillögur. Var þeim skipt upp á sex borð þar sem hvert borð fjallaði um sinn flokk athugasemda undir mismunandi yfirskriftum: Þátttaka barna; vernd gegn ofbeldi og barnvænt dómkerfi; fjölskyldan og fósturkerfið; börn í viðkvæmri stöðu; menntun og tómstundir; heilsa og umhverfið.
Í lok ráðstefnunnar kynnti hvert borð svo sínar tillögur sem teknar verða til greina við frekari úrvinnslu athugasemdanna innan stjórnarráðsins.
![](https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MRN/thatttokuradstefna-barnasattmali-3.jpg)
Ráðstefnan er liður í samstarfsverkefni ráðuneytisins og Child Rights Connect um leiðbeiningar fyrir önnur lönd varðandi hvernig hægt sé að tryggja og nýta þátttöku barna í úrvinnslu lokaathugasemda Barnaréttarnefndarinnar. Hún var einnig lokahnykkur í tveggja ára verkefni ráðuneytisins og Evrópuráðsins um þátttöku barna, CP4Europe, sem lýkur nú í júní.
Heimild: stjr.is
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/03/framsokn-agust-bjarni-grunnmynd-mars-2023.jpg)
19/05/2023
Samdráttur í byggingu íbúða – hvað er til ráða?Mér er hugsað til þeirra orða sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, lét falla á vaxtaákvörðunarfundi bankans í maí 2021. Þar sagði hann að ákvörðun Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að byggja ekki íbúðir og ný hverfi á nýju landi væri meðal annars ástæða þess að fasteignaverð hafi hækkað á þeim tíma. Ég held að þetta hafi verið hárrétt mat hjá seðlabankastjóra þá og við bæði erum og verðum áfram á sama stað ef ekki verður stefnubreyting hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum.
Sífelldar hækkanir eru farnar að hafa veruleg áhrif á fjárhag fólks og gengur þetta ekki til lengdar. Okkar helsta verkefni er því að ná tökum á verðbólgunni sem er of mikil um þessar mundir. Þar er margt sem hefur áhrif, en augljóst er að það ójafnvægi sem hér hefur ríkt á húsnæðismarkaði á undanförnum árum og sú staðreynd að hér hefur ekki verið byggt nægilega mikið af íbúðum hefur haft mikil og neikvæð áhrif á þróun verðbólgunnar.
Vond tíðindi úr nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins
Í byrjun maí kynntu Samtök iðnaðarins greiningu sem unnin var að þeirra frumkvæði um uppbyggingu íbúða, en í henni var gerð könnun meðal verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning. Greiningin gefur til kynna að verulegur samdráttur sé fram undan í byggingu nýrra íbúða næstu tólf mánuði og að fjöldi íbúða í byggingu verði 65% færri en tólf mánuðina þar á undan. Þetta eru tölur sem við viljum ekki sjá og eru algjörlega þvert á það sem þörf er á og nauðsynlegt er. Nokkrar ástæður eru tilgreindar fyrir þessum harkalega samdrætti og má þar meðal annars nefna að fjármagnskostnaður hefur hækkað gríðarlega og að sala eigna hefur gengið erfiðlega upp á síðkastið, sem er bein afleiðing þeirra harkalegu aðgerða sem Seðlabanka Íslands réðst í og snerta lánþegaskilyrðin sérstaklega. Þar voru sett þrengri viðmið fyrir greiðslumat og heimild lækkuð til veðsetningar við kaup á fyrstu íbúð. Þetta er meðal þeirra þjóðhagsvarúðartækja sem Seðlabankinn hefur úr að spila til að takmarka kerfisáhættu og lágmarka hættuna á fjármálaáföllum. Þessi aðgerð hefur hins vegar útilokað fyrstu kaupendur og aðra hópa, svo sem þá sem einstæðir eru og tekjulægri. Skortur á þessum kaupendum inn á markaðinn hefur rofið keðjuna. Hér er að myndast snjóhengja af kynslóðum sem munu á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn með miklum afleiðingum ef ekkert verður að gert. Hér vantar eignir og því eru allar fréttir um samdrátt í uppbyggingu húsnæðis vondar og kalla á raunverulegar aðgerðir sem hafa raunveruleg áhrif.
Leiðin að lausn vandans
- Fjölgum lóðum: Tökum upp Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins án kollvörpunar á hugmyndafræði. Með þessum einfalda hætti er hægt að fjölga lóðum og byggja ný hverfi. Slíkt þarf áfram að haldast í hendur við skynsamlega og ekki síður nauðsynlega þéttingu byggðar. Sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu verða öll að hafa svigrúm og getu til að taka þátt í þeirri nauðsynlegu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem þörf er á.
- Stígum skref til baka: Nauðsynlegt er að stíga varfærin skref til baka þegar kemur að reglum lánþegaskilyrða. Þar þarf að breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði en samhliða horfa enn frekar á greiðslugetu. Við sjáum marga hafa góða greiðslugetu og vilja komast út á markaðinn og eignast húsnæði. Þetta eru jafnvel hópar sem eru nú þegar að greiða háa húsaleigu. Við höfum ekkert með það að gera að lausar íbúðir endi í höndum fjármagnseigenda með þeim afleiðingum að þeir ríku verði ríkari.
- Tímabundnar sértækar aðgerðir: Ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og þar má horfa til sérstakra lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum og/eða undanskilja þá aðila frá fyrirhugaðri lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 35% vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði.
- Þátttaka lífeyrissjóða í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar: Þá þurfa lífeyrissjóðirnir að axla ábyrgð og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Nauðsynlegar lagabreytingar eru að mínu mati engin fyrirstaða.
- Beitum hlutdeildarlánum enn frekar: Tímasetja þarf rýmkun á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Hér erum við með gott úrræði í höndunum sem nauðsynlegt er að beita við núverandi kringumstæður og gagnast vel ákveðnum hópum samfélagsins, sérstaklega þeim sem tekjulægri eru. Þetta mun ýta við framkvæmdaaðilum að byggja hentugar eignir í kerfið.
Öruggt húsnæði fyrir alla
Í einhvers konar hagfræðileik er vel hægt að færa fyrir því rök að þær aðgerðir sem ég legg hér til séu þensluhvetjandi, en líkt og ég hef margoft sagt áður, þá mun núverandi ástand einungis leiða til hærra leiguverðs og ýta undir mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástand líður undir lok. Það mun aftur auka þrýsting á verðbólgu og hærri vexti (vegna skorts á eignum og mikillar eftirspurnar) – ástand sem hægt er að koma í veg fyrir og við viljum ekki sjá raungerast að óþörfu. Húsnæði er óneitanlega ein af grundvallarþörfum mannsins. Það að búa í öruggu húsnæði hefur áhrif á alla þætti okkar daglega lífs; allt frá líkamlegri og andlegri vellíðan til menntunar, efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu.
Það er afar brýnt að tryggja áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis á landinu og það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Hér þurfa allir að taka þátt og ég hef áður rætt mikilvægi allra þessara aðgerða. Það má líkja þessu við keðju og aðgerðir sem þurfa allar að haldast í hendur. Aðgerð 3. væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja mætti nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun með miklum afleiðingum fyrir samfélagið í heild. Þær aðgerðir sem ég legg hér til eru ekki olía á eldinn heldur eru þær meðal á það ástand sem við erum í og eru leiðin í átt að betri heilsu samfélagsins.
Tökum höndum saman!
Ágúst Bjarni Garðssonar, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Greinin birtist fyrst á eyjan.is 18. maí 2023.
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/05/framsokn-xb-helgi-hedinsson-forsida-1200x1799.jpg)
17/05/2023
„Við eigum að treysta aðhaldið og tryggja nauðsynlega tekjuöflun“Helgi Héðinsson, varaþingmaður, kallar eftir að send verði skýr skilaboð út í samfélagið um aga og samstöðu á krefjandi tímum og að Alþingi gangi fram með góðu fordæmi. Segir hann öflug verkfæri vera til, til að verjast verðbólgunni, s.s. fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028, sem er nú til umfjöllunar á Alþingi.
„Verðbólgan er á fleygiferð og við finnum öll fyrir því á eigin skinni. Vextir hækka, greiðslubyrði lána þyngist, matarkarfan verður sífellt dýrari og mörgum reynist erfitt að ná endum saman,“ sagði Helgi og hélt áfram, „við viljum ekki frekari vaxtahækkanir. Við eigum að treysta aðhaldið og tryggja nauðsynlega tekjuöflun. Við eigum að hægja ferðina með niðurfellingu ívilnana og skattafslátta á þeim stöðum þar sem milljarðar renna í vasa sem þurfa ekki á þeim að halda.“
„Húsnæðismarkaðurinn, þar sem framboð hefur ekki mætt eftirspurn um langt skeið, hefur verið drifkraftur verðbólgu síðustu misseri. Markaðsbrestur er ríkjandi og það er mjög aðkallandi að tryggja aukið framboð húsnæðis sem mætt getur fjölbreyttum þörfum fólks. Íslendingar þekkja allt of vel hvaða áhrif verðbólga getur haft ef ekki tekst að kveða hana niður. Í því ljósi verður að vera algert forgangsmál að grípa til aðgerða sem styðja við Seðlabankann í þeirri viðleitni að ná verðbólgunni niður. Enginn kærir sig um að skilja Seðlabankann einan eftir í súpunni með sitt breiðvirka en sársaukafulla meðal, vaxtahækkanir,“ sagði Helgi.
Ræða Helga í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á, í ljósi þeirra áskorana sem hér eru ræddar í dag, að minnast Tryggva bróður míns sem féll fyrir eigin hendi þennan dag fyrir þremur áratugum. Því miður bíða þau grimmu örlög að dauðinn sé betri en lífið allt of margra og við eigum sem samfélag að leggjast á eitt að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Í því samhengi vil ég ræða eina stærstu ógnina sem að okkur steðjar um þessar mundir og veikir getu okkar til að styrkja stoðir samfélagsins; verðbólguna. Verðbólgan er á fleygiferð og við finnum öll fyrir því á eigin skinni. Vextir hækka, greiðslubyrði lána þyngist, matarkarfan verður sífellt dýrari og mörgum reynist erfitt að ná endum saman. Húsnæðismarkaðurinn, þar sem framboð hefur ekki mætt eftirspurn um langt skeið, hefur verið drifkraftur verðbólgu síðustu misseri. Markaðsbrestur er ríkjandi og það er mjög aðkallandi að tryggja aukið framboð húsnæðis sem mætt getur fjölbreyttum þörfum fólks. Íslendingar þekkja allt of vel hvaða áhrif verðbólga getur haft ef ekki tekst að kveða hana niður. Í því ljósi verður að vera algert forgangsmál að grípa til aðgerða sem styðja við Seðlabankann í þeirri viðleitni að ná verðbólgunni niður. Enginn kærir sig um að skilja Seðlabankann einan eftir í súpunni með sitt breiðvirka en sársaukafulla meðal, vaxtahækkanir. Við viljum ekki frekari vaxtahækkanir. Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Þar eru öflug verkfæri til að verjast verðbólgunni. Við eigum að treysta aðhaldið og tryggja nauðsynlega tekjuöflun. Við eigum að hægja ferðina með niðurfellingu ívilnana og skattafslátta á þeim stöðum þar sem milljarðar renna í vasa sem þurfa ekki á þeim að halda. Slík aðgerð sendir skýr skilaboð um aga og samstöðu á krefjandi tímum og við eigum að ganga fram með góðu fordæmi.“
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/01/Stefan2.png)
17/05/2023
Langþráðri niðurstöðu náðÞau ánægjulegu tíðindi bárust seinni partinn í gær að sáttir hafi náðst vegna fyrirhugaðrar löggjafar ESB um losunarheimildir á flugferðir. Á blaðamannafundi sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra héldu í forsetabústaðnum kom fram að tekið verði tillit til séríslenskra aðstæðna og að Ísland muni hljóta undanþágur sem gildir til tveggja ára og hægt verði að deila á milli flugfélaga.
Hér er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál Íslands frá því EES- samningurinn var tekin upp og íslensk stjórnvöld hafa verið vakin og sofin yfir því að tryggja að Ísland þurfi ekki að undirgangast íþyngjandi losunarskatt sem fyrirhugað var að leggja á flugleggi til og frá landinu. Ef þessum mikilvæga áfanga hefði ekki verið náð hefði verið fyrirséð að kostnaður vegna ferðalaga til og frá landinu hefði hækka umtalsvert, en við sem eyþjóð erum í ólíkri stöðu en flest önnur lönd í Evrópu.
Við þurfum þó að draga úr olíunotkun
Þrátt fyrir að þessu mikilvæga hagsmunamáli hafi verið náð höfum við en verk að vinna. Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftlagsmálum og þar er flugið ekki undanskilið. Stefnt er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Notkun olíu er helsti losunvaldurinn og fer 52% af allir olíunotkun Íslendinga í flug. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að hætta alfarið að nota olíu og unnið er allra leiða til þess. Eigi orkuskiptin að ganga upp er fyrirséð að finna þurfi aðra nýja græna endurnýjanlega orkugjafa í stað olíunnar.
Rafeldsneytisframleiðsla
Sá sem hér skrifar lagði í vetur fram þingsályktunartillögu um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi en framleiðsla rafeldsneytis sem vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammóníaks, metanóls eða metans, eru græn tækifæri sem bíða þess að vera nýtt. Rafeldsneyti má nýta í þyngri farartæki líkt og flugvélar og skip. Auk þess að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innan lands liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þótt framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir.
Mikilvægi þess að Ísland geti orðið sjálfbært er kemur að öflun á rafeldsneyti er ótvírætt eins og núverandi ástand heimsmála sýnir svo rækilega. Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál fyrir utan þá þjóðhagslegu hagsmuni sem af því hljótast að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifærin eru því mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og þetta styður við markmið okkar um orkusjálfstæði Íslands og öruggar samgöngur til og frá landi.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2023.
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2023/02/framsokn-halla-signy-HSK_kringla.jpg)
17/05/2023
Sögulegir tímar í dagHelstu þjóðarleiðtogar Evrópu eru nú saman komnir í Hörpu til viðræðna og það má með sanni segja að sagan sé að skrifa sig hér á Íslandi, enda ekki oft sem fundir af þessari stærðargráðu eru haldnir hérlendis. Það eru 17 ár síðan Evrópuráðið fundaði með þessum hætti en þetta er í fjórða sinn í 74 ára sögu stofnunarinnar sem leiðtogar aðildarríkja koma saman undir merkjum ráðsins. Umstangið er verulegt og eitthvað sem við höfum svo sannarlega ekki vanist hér áður. Af öllu er að merkja að skipulagið er gott og þeir sem hafa staðið að baki fundinum eiga hrós skilið.
Mikilvæg skilaboð
Evrópuráðið er ekki sprottið upp úr engu, það var sett á fót í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, auka samvinnu innan álfunnar og koma í veg fyrir annað stríð. Á fundi sem þessum leggja leiðtogar pólitískan ágreining til hliðar, byggja upp persónuleg tengsl og móta sameiginlega sýn fyrir frið í Evrópu.
Evrópuráðið hefur mikilvæga hlutverki að gegna við að gæta að mannréttinum, lýðræði og að alþjóðareglur séu virtar. Það er ekki er hægt að ofmeta mikilvægi funda sem þessa. Þegar leiðtogar þjóða safnast saman á einum stað fá þeir einstakt tækifæri til þess að efla skilning, tengjast og byggja upp traust. Á sama tíma senda þeir öflug skilaboð til borgaranna og alþjóðasamfélagsins um mikilvægi þess að standa saman um grundvallar mannréttindi.
Rússar þurfa að bera ábyrgð
Helsta málefni fundarins er að ræða innrás Rússa í Úkraínu, hvernig bæta megi það tjón sem Rússar hafa valdið og hvernig draga megi þá til ábyrgða fyrir þau voðaverk sem framin hafa verið. Eitt af því sem stefnt er að er að koma á fót svokallaðri tjónaskrá þar sem þau sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásarinnar fá það skráð og síðar bætt, en sömuleiðis verður leitað leiða til að draga þau til ábyrgðar sem framið hafa glæpi í Úkraínu. Ef viðræður ganga vel er gert ráð fyrir að undirrituð verði sameiginleg yfirlýsing sem líklega fær nafnið Reykjavíkuryfirlýsingin (e. Reykjavík Declaration).
Ísland eyja friðar
Við eigum að vera stolt yfir því að Ísland hafi verið valið til þess að hýsa þennan merka viðburð, alveg eins og Ísland var valið á sínum tíma til þess að hýsa leiðtogafund milli Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev, en sá fundur er talin hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki og markaði tímamót þar sem tekin voru skref í átt að friði og endalokum kalda stríðsins.
Enn á ný er Ísland og Reykjavík sameiningartákn friðar, það er ekki að ástæðulausu sem Yoko Ono fann Friðarsúlunni heimili á Íslandi, Ísland á að vera, og er, hlutlaus staður þar sem helstu leiðtogar eiga að geta komið saman og lagt áhyggjur sínar á borð og leitað lausna. Það er heiður fyrir okkur að hýsa þessa mikilvægu samkomu, vonandi munu fulltrúar fundarins finna fyrir þeim góða anda sem hér ríkir og hann skili sér áfram í góðri vinnu.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2023.
Framtíð lýðræðis í Evrópu
![](https://framsokn.is/wp-content/uploads/2022/12/SRS_2023-1200x800.jpeg)
17/05/2023
Framtíð lýðræðis í Evrópu„Við höfum verið að sjá hnignun lýðræðis jafnt og þétt síðustu ár svo staðan núna ætti varla að koma okkur stórkostlega á óvart,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra á málþingi Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um lýðræði fyrir framtíðina sem fór fram í Veröld húsi Vigdísar um helgina.
Á málþinginu sköpuðust góðar umræður um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni.
Meðal framsögufólks auk menningar- og viðskiptaráðherra voru Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Alexander Shlyk, sérstakur ráðgjafi Sviatlana Tsikhanovskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, Mariia Mezentseva, formaður úkraínsku landsdeildarinnar á Evrópuráðsþinginu, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 og Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar.
Ógn steðjar að lýðræðinu
Í vestrænum samfélögum hefur almennt verið sú sýn að lýðræði sé hornsteinn farsælda þrátt fyrir að stjórnarfyrirkomulagið sé ekki gallalaust. Hins vegar hefur ekkert stjórnarfar reynst betra enda byggist það á skýrum lögum, frelsi einstaklinga til athafna og tjáningar, valddreifingu og sjálfstæðum dómstólum ásamt reglubundnum kosningum.
„Staðan í heiminum í dag er sú að fleiri búa við einræði eða um 72% íbúa heimsins samanborið við 50% fyrir áratug samkvæmt greiningu Lýðræðis margbreytileikans. Í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi eru fleiri einræðisríkisstjórnir en lýðræðisríkisstjórnir. Því miður er vaxandi skoðun að annað stjórnarfar en lýðræði geti búið til betri lífskjör,“ sagði ráðherra á málþinginu.
„Þjóðir heims geta ekki horft fram hjá þessu og verða að spyrja sig gagnrýnna spurninga. Ógn steðjar að lýðræðinu og ein birtingarmynd þess er stríðið í Úkraínu. Þá sé mikilvægt að standa vörð um frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi einstaklinga ásamt því að sporna gegn falsfréttum og hatursorðræðu.“
Mikilvægt að hvetja til þátttöku
Þá var mikið rætt um stöðu minnihlutahópa, bil á milli kynslóða og áhrif loftslagsbreytinga á samfélög. Ráðherra hvatti ungt fólk að gera sig gildandi í umræðunni, taka þátt í stjórnmálum og grasrótarsamtökum og láta rödd sína heyrast sem víðast.
Fram kom í máli Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, að vaxandi áhyggjur séu upp varðandi hnignun lýðræðis í Evrópu. Rússland hafi til að mynda færst frá því að vera lýðræðisríki. Það sé von margra að leiðtogafundurinn í Reykjavík marki ákveðin þáttaskil þegar 46 leiðtogar heimsins sameinast um ákveðna hornsteina lýðræðis. Markmiðið sé að endurvekja, styrkja og í einhverju tilvikum enduruppgötva þá.
„Lýðræðið er fólksins, ekki stjórnmálamanna, og því mikilvægt að hvetja það til að taka þátt og viðhalda lýðræðinu,“ sagði Tiny Kox á málþinginu.
Málþingið er hluti af dagskrá fundar stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins sem kemur saman í Reykjavík í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fer nú fram í Hörpu.
Heimild: stjr.is