Categories
Fréttir Greinar

Á­fall í kjöl­far riðu

Deila grein

28/04/2023

Á­fall í kjöl­far riðu

Áfallið þegar riðusmit kemur upp í fjárstofni getur verið verulegt og afleiðingarnar af riðusmiti geta verið mjög miklar og erfiðar fyrir bændur. Við sem stöndum hjá sýnum samkennd en getum lítið gert í þessum aðstæðum. Þær reglur og aðferðir sem nú eru í gildi þegar riðuveiki greinist í sauðkind miða að því að aflífa allan fjárstofninn á bænum. Verkferlar MAST snúa að því að greina sjúkdóminn og með staðfestu smiti þarf að aflífa stofninn, ráðast í smitrakningu og hefja hreinsunaraðgerðir á bænum sem tekur nokkurn tíma.

Með nýrri tækni verður vonandi hægt að ráða niðurlögum þessa erfiða sjúkdóms, það er með öflugri arfgerðargreiningu á fjárstofni landsins. Til að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni.

Áfallahjálp

Sem betur fer erum við komin á þann stað að þegar áfall ríður yfir grípur okkur stuðningsnet sem hjálpar okkur aftur á fætur. Þegar stærri áföll eða hamfarir í samfélögum verða eins og náttúruhamfarir þá taka yfir verkferlar í almannahjálp. Áföll geta haft varanleg áhrif og mikið tilfinningalegt álag. Það er því mikilvægt að sækja sér aðstoð sem fyrst til að vinna úr alvarlegum atburðum og koma þannig í veg fyrir vandamál í framtíðinni. Rauði krossinn hefur umsjón með áfallahjálp hér á landi í skipulagi almannavarna á Íslandi. Þetta teymi hefur verið virkjað við stór og smá tilfelli með aðkomu ýmissa fagaðila með góðum árangri.

Samfélag í sárum

Það skiptir máli að hafa hraðar hendur þegar riðutilfelli koma upp, Setja ferlið á stað hratt og örugglega. Hvert tilfelli er einstakt og þegar upp kemur riðutilfelli í einu hólfi getur farið á stað atburðarás sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Það er mikið álag á starfsmönnum MAST við slíkar aðstæður. Gæta þarf sérstaklega að því að hafa góð samskipti við fólk sem er að missa lífsviðurværið sitt auk þess sem aðstæður fjölskyldna eru settar í algjört uppnám. Ekki bara á einum bæ, heldur er allt samfélagið undir. Atvinnuörygginu er ógnað, menning og samskipti fara úr skorðum.

Því er mikilvægt að samhliða verkferlum MAST sem eru virkjað þegar riðutilfelli koma upp sé áfallateymi Rauða krossins virkjað til að veita áfallahjálp og veita samfélaginu ráðgjöf. Í nýuppkomnum riðutilfellum í Miðfjarðarhólfi er allt samfélagið undir. Þessu hefur verið líkt við hamförum því þarf að mæta með þeim verkfærum sem þekkt eru til að draga úr afleiðingum sem af þeim hlýst.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2023.

Categories
Greinar

Stöndum vörð um grunnþjónustuna

Deila grein

27/04/2023

Stöndum vörð um grunnþjónustuna

Í því árferði sem við búum við í Árborg um þessar mundir stöndum við frammi fyrir því að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Við þurfum að sýna ábyrgð í framkvæmd en það þýðir þó ekki að við getum skorið niður innviði og nauðsynlega grunnþjónustu inn að beini. Það bitnar bara á okkar allra mikilvægasta fólki, börnunum okkar og þeim sem þurfa á sértækum stuðningi að halda.

Skipulagsbreytingar geta skilað okkur í bættri þjónustu

Bæjarstjórn í heild sinni hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði við endurskipulagningu á rekstri Árborgar og hefur samvinnan gengið vel hingað til. Nú hefur verið farið af stað með skipulagsbreytingar og aðhaldsaðgerðir til að byggja upp samfélagið okkar til framtíðar. Það er aldrei auðvelt að fara í gegnum slíkar breytingar og mismunandi hvaða áhrif það hefur á líðan einstaklinga og einstakra hópa í samfélaginu okkar, því er mikilvægt að við sýnum aðgát því á bakvið allt sem við gerum er fólkið okkar og þeirra hagsmunir sem við berum ábyrgð á að tryggja. Ef vel er staðið að breytingunum mun það skila okkur í bættri þjónustu við alla íbúa Árborgar.

Stöndum vörð um farsæld barna

Þrátt fyrir erfiðleika í rekstri sveitarfélagsins Árborgar getum við öll verið sammála um að við verðum að standa vörð um farsæld barna og að mikilvæg grunnþjónusta verði ekki ágreiningsmál innan bæjarstjórnar. Við þurfum að finna leiðir til hagræðingar án þess að þjónusta sé skorin niður hjá þeim sem síst skyldi. Velta þarf við öllum steinum, byrjum ekki á þeim sem þurfa mest á okkur að halda og treysta á að við búum þeim betri framtíð með öflugu skóla-, frístunda-  og stuðningskerfi hér í Árborg. Aðför að farsæld barna er aldrei það sem við eigum að fara í. Það hefur þegar sýnt sig að með því að beita snemmbúinni íhlutun þá náum við að búa til farsæla fullorðina einstaklinga.

Það er sýn okkar í Framsókn að þó svo við þurfum að sýna ábyrgð í fjármálum sveitarfélagsins þá erum við ekki að fara í björgunaraðgerðir eftir að drukknun hefur átt sér stað. Byrjum á réttum enda og stöndum vörð um fjölskyldurnar og grunnþjónustu í þágu okkar allra mikilvægustu íbúa – barnanna okkar! 

Ellý Tómasdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst í dfs.is 27. apríl 2023.

Categories
Fréttir

Loftslagsmarkmið Íslands – markmið, vilji, ábyrgð og aðgerðir!

Deila grein

27/04/2023

Loftslagsmarkmið Íslands – markmið, vilji, ábyrgð og aðgerðir!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir það miður að á sama tíma og stjórnvöld hafi sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og um að verða kolefnishlutlaus sé verið að nota milljón tonn af jarðefnaeldsneyti og aukin heldur sé raforkuöryggi ekki tryggt um land allt.

„Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess eigum við að vera orðin óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Til að markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast á árarnar með stjórnvöldum auk þess sem óumflýjanlegt er að huga að frekari orkuöflun með grænni orku. Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum, sagði Halla Signý.

Segir hún að umtalsverðar fjárfestingar verði að eiga sér stað, í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo að áskilnaði sé ná. Bendir hún á að ábyrgð allra verði að koma til, tími aðgerða sé runninn upp.

„Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að auka raforkuframleiðsluna,“ sagði Halla Signý.

Halla Signý kom einnig inn á kolefnislosun frá landbúnaði. Kallar hún eftir að farið verði í rannsóknir og kortlagningu á kolefnislosun í framræstu ræktarlandi. Losun í landbúnaði er metin töluverð, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna.

„Það þarf samtakamátt margra þátta til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er ekki til ein lausn en fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal,“ sagði Halla Signý að lokum.

***

Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær var haldinn opinn fundur hjá umhverfis- og samgöngunefnd um loftslagsmarkmið Íslands. Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess eigum við að vera orðin óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Til að markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast á árarnar með stjórnvöldum auk þess sem óumflýjanlegt er að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.

Virðulegi forseti. Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Ljóst er að það þarf umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo að þetta markmið náist. Við erum líka sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra á þessum markmiðum. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljón tonn af jarðefnaeldsneyti og raforkuöryggi er ekki tryggt um allt land. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að auka raforkuframleiðsluna.

Þá vil ég að lokum nýta tækifærið og minnast á kolefnislosun frá landbúnaði sem er metin töluverð en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Þessa losun þarf að rannsaka og kortleggja, sér í lagi kolefnislosun í framræstu ræktarlandi. Það þarf samtakamátt margra þátta til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er ekki til ein lausn en fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal.“

Categories
Fréttir Greinar

Gul við­vörun verður rauð ef ekkert er að gert

Deila grein

27/04/2023

Gul við­vörun verður rauð ef ekkert er að gert

Seðlabankastjóri hefur nú ítrekað komið upp, kynnt stýrivaxtahækkanir og hvatt almenning til að draga úr neyslu. Í tólfta skiptið var stigið það stóra skref að hækka stýrivexti um heila prósentu. Við erum öll orðin meðvituð um afleiðingarnar og hvað áhrif þessar hækkanir hafa á rekstur heimila í landinu. Það verða allir að ganga í takt og mikilvægt er að Seðlabankinn sjálfur gangi fram með góðu fordæmi svo hægt sé að segja að hljóð og mynd fari saman.

Miklar afleiðingar á húsnæðismarkaði

Húsnæðismarkaðurinn hefur fundið fyrir aðgerðum Seðlabankans með margvíslegum hætti. Kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik með að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin dýrari. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á þá sem eru að taka sín fyrstu skref hvað varðar húsnæðiskaup og hefur þar af leiðandi einnig áhrif á fólk sem þarf að stækka við sig. Með öðrum orðum hefur þetta áhrif á keðjuna. Ungt fólk á varla möguleika í núverandi aðstæðum. Það er kannski vægt til orða tekið og réttara væri að segja að það ætti hreinlega ekki möguleika nema hugsanlega með aðstoð efnaðra foreldra. Þetta er vond staða og ekki í takti við það samfélag sem við viljum byggja.

Við sjáum að hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaðnum hefur dregist verulega saman og er það bein afleiðing aðgerða Seðlabankans sem ég hef margoft bent á. Það verður þó að segjast að Seðlabankanum hafi vissulega tekist ætlunarverk sitt sem var að kæla markaðinn, en við verðum þá jafnframt að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að bregðast við í nútíð og til framtíðar. Á tímum sem þessum er ekki hægt að setja á pásu og stöðva lífið tímabundið hjá ákveðnum hópi fólks og setja svo af stað aftur þegar ástandinu slotar. Nei, lífið einfaldlega heldur áfram og við sjáum nú margt fólk, ungt fjölskyldufólk og aðra kaupendur í fullkominni pattstöðu.

Lausnirnar eru einfaldar

Lausnirnar eru oft einfaldar en við erum ekki alltaf sammála hvaða leið við viljum fara. Ég hef áður skrifað og rætt um ýmsar leiðir til að bregðast við stöðunni en það blasir við okkur að það verður að grípa fyrstu kaupendur og ráðast í tímabundnar sértækar aðgerðir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Því til viðbótar þarf að hafa skýra sýn á uppbyggingu húsnæðis til framtíðar. Því legg ég til eftirfarandi leiðir sem ég trúi á og vona að fái hljómgrunn:

  1. Breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði en samhliða horfa enn frekar á greiðslugetu.
  2. Ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og þar má horfa til sérstakra lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum og/eða undanskilja þá aðila frá fyrirhugaðri lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 35% vegna framkvæmda við íbúðahúsnæði.
  3. Þá þurfa lífeyrissjóðirnir að axla ábyrgð og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Nauðsynlegar lagabreytingar eru að mínu mati engin fyrirstaða.
  4. Þessu til viðbótar þarf að tímasetja rýmkun á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda.

Aðgerð 2. væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja mætti nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun. Ég er full meðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástand líður undir lok. Við þá sem trúa því að svo verði ekki vil ég segja eftirfarandi og gera orð Páls postula úr fyrra Korintubréfi að mínum:

„Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2023.

Categories
Fréttir

„Veigamesta menntunarhlutverkið er í höndum foreldra“

Deila grein

25/04/2023

„Veigamesta menntunarhlutverkið er í höndum foreldra“

„Við búum í hröðu samfélagi, svo hröðu að við eigum það til að gleyma okkur í amstri dagsins — svo blikkum við og erum komin á efri árin og börnin orðin fullorðin,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Sagði hún fjölskyldulíf í dag vera allt annað en það hafi verið fyrir 30 árum.

„Í dag eru flestir fjölskyldumeðlimir með stútfullt dags-, viku- og mánaðarplan, allir kappkosta við að klára verkefni dagsins og áður en við vitum af er klukkan orðin hálfgerður óvinur manns,“ sagði Hafdís Hrönn.

Minnti hún á að flest myndum við viljum fleiri klukkustundir í sólarhringinn til að halda skipulagi.

„Við heyrum af því sem einnig hefur verið fleygt fram, að foreldrar í dag geri menntakerfið og skólana í auknum mæli ábyrg fyrir uppeldi barna sinna.“

„Ég velti fyrir mér hvort ekki sé ekki kominn tími á að líta aðeins inn á við,“ sagði Hafdís Hrönn.

Sagði hún veigamesta menntunarhlutverkið vera í höndum foreldra og undirbýr börnin fyrir dýpri færni í lífinu en mögulega sé hægt að læra í skólanum. Þegar svo á reyni verður að vera til staðar öflugt net sem grípur börnin og umfaðmar þau þegar á þarf að halda.

„Markvisst hefur verið unnið að því að vinna niður biðlista í greiningum barna, sem samt lengjast bara og lengjast. Hver er ástæðan? Getur verið að ákveðið tengslarof á milli barna og foreldra sé að eiga sér stað,“ sagði Hafdís Hrönn.

Það hefur komið fram í rannsóknum að rof í tengslum milli foreldra og barna á fyrstu 1.000 ævidögum þeirra geti haft verulega neikvæð áhrif á heilaþroska barna. Spurði hún hvort það sé hraðinn og það að fólk gefi sér ekki nægan tíma til að vera til staðar og í núinu með börnunum.

„Samvinna milli foreldra og skóla þarf að vera góð og öflug svo öll börn nái að blómstra eins og þeim er eðlislægt. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar, en fjölskyldan ber þá allra mikilvægustu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Við búum í hröðu samfélagi, svo hröðu að við eigum það til að gleyma okkur í amstri dagsins — svo blikkum við og erum komin á efri árin og börnin orðin fullorðin. Fjölskyldulíf í dag er allt annað en það var fyrir 30 árum síðan. Í dag eru flestir fjölskyldumeðlimir með stútfullt dags-, viku- og mánaðarplan, allir kappkosta við að klára verkefni dagsins og áður en við vitum af er klukkan orðin hálfgerður óvinur manns. Flest myndum við vilja fleiri klukkustundir í sólarhringinn til að halda skipulagi. Allir eru ómissandi með allt sitt, eða hvað?

Við heyrum af því sem einnig hefur verið fleygt fram, að foreldrar í dag geri menntakerfið og skólana í auknum mæli ábyrg fyrir uppeldi barna sinna. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé ekki kominn tími á að líta aðeins inn á við. Fjölskyldan hefur veigamesta menntunarhlutverkið og í því felst öðruvísi og dýpri færni í lífinu en fæst úr menntakerfinu. Þegar á reynir þurfum við einnig öflugt net sem grípur börnin okkar með þær áskoranir sem þau kunna að búa við og samfélag sem umfaðmar þau þegar á þarf að halda. Markvisst hefur verið unnið að því að vinna niður biðlista í greiningum barna, sem samt lengjast bara og lengjast. Hver er ástæðan? Getur verið að ákveðið tengslarof á milli barna og foreldra sé að eiga sér stað? Rannsóknir hafa sýnt að rof í tengslum milli foreldra og barna á fyrstu 1.000 ævidögum þeirra getur haft verulega neikvæð áhrif á heilaþroska barna. Er það hraðinn og það að við gefum okkur ekki nægan tíma til að vera til staðar og í núinu með börnunum okkar? Samvinna milli foreldra og skóla þarf að vera góð og öflug svo öll börn nái að blómstra eins og þeim er eðlislægt. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar, en fjölskyldan ber þá allra mikilvægustu.“

Categories
Fréttir

„Kindur lesa hvorki lög né reglugerðir“

Deila grein

25/04/2023

„Kindur lesa hvorki lög né reglugerðir“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, kom inn á umræðuna um sauðfé og sjúkdóma í kjölfar riðusmita í Miðfjarðarhólfinu í störfum þingsins.

„Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé sem veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Það er ekki hægt að bólusetja fyrir honum og sjúkdómurinn er því erfiður viðureignar. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi þegar upp kemur riða á bæ er að slátra öllu fé á bænum og fara í jarðvegsskipti; hreinsa, brenna og sótthreinsa. Þetta er mjög íþyngjandi skref fyrir alla sem málið varðar,“ sagði Lilja Rannveig.

Sagði hún að fundin sé arfgerð til að uppræta riðuna, þ.e. að hún sé verndandi gegn riðu.

„Mjög mikilvægt er að við styðjum við frekari rannsóknir og vinnum að því að gera stofninn ónæman gegn riðunni. Þetta mun taka nokkur ár,“ sagði Lilja Rannveig.

Minnti Lilja Rannveig á að önnur úrræði sem nýtt hafi verið, til þess að hindra framgang riðu og annarra sjúkdóma, sé að skipta landinu upp í sóttvarnahólf sem eru 25 svæði.

„Miðfjarðarhólf er eitt þeirra. Þeim er skipt upp eftir náttúrulegum hindrunum eins og ám, en líka með girðingum. Til að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdóma er almennt gert óheimilt að flytja sauðfé á milli þessara hólfa. En kindur lesa hvorki lög né reglugerðir og ef þær fá tækifæri til þá fara þær oft yfir girðingarnar, ef þær komast. Því er mjög mikilvægt að við höfum eftirlit með girðingunum. Það tekur langan tíma, því þetta eru mörg hundruð kílómetrar, en það þarf að hafa eftirlit og halda þeim við þegar þörf er á. Varnarlínugirðingar eiga alltaf að vera í toppstandi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Þessa dagana er mikið rætt um sauðfé og sjúkdóma. Umræðan kemur í kjölfar riðusmita í Miðfjarðarhólfi núna í aprílmánuði. Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé sem veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Það er ekki hægt að bólusetja fyrir honum og sjúkdómurinn er því erfiður viðureignar. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi þegar upp kemur riða á bæ er að slátra öllu fé á bænum og fara í jarðvegsskipti; hreinsa, brenna og sótthreinsa. Þetta er mjög íþyngjandi skref fyrir alla sem málið varðar. Áður höfum við ekki séð fram á að hægt væri að nýta neina aðra aðferð til að uppræta sjúkdóminn, en núna hefur fundist arfgerð sem er verndandi gegn riðu. Mjög mikilvægt er að við styðjum við frekari rannsóknir og vinnum að því að gera stofninn ónæman gegn riðunni. Þetta mun taka nokkur ár. Meðal annarra úrræða sem gripið hefur verið til, til þess að hindra framgang riðu og annarra sjúkdóma, er að skipta landinu upp í sóttvarnahólf sem eru 25 svæði. Miðfjarðarhólf er eitt þeirra. Þeim er skipt upp eftir náttúrulegum hindrunum eins og ám, en líka með girðingum. Til að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdóma er almennt gert óheimilt að flytja sauðfé á milli þessara hólfa. En kindur lesa hvorki lög né reglugerðir og ef þær fá tækifæri til þá fara þær oft yfir girðingarnar, ef þær komast. Því er mjög mikilvægt að við höfum eftirlit með girðingunum. Það tekur langan tíma, því þetta eru mörg hundruð kílómetrar, en það þarf að hafa eftirlit og halda þeim við þegar þörf er á. Varnarlínugirðingar eiga alltaf að vera í toppstandi.“

Categories
Fréttir Greinar

Mikilvægi Eddu

Deila grein

25/04/2023

Mikilvægi Eddu

Íslenska þjóðin er bókaþjóð og eru bók­mennt­ir samofn­ar sögu okk­ar og tungu­máli. Við vor­um ein­mitt minnt á það í liðinni viku þegar Hús ís­lensk­unn­ar var vígt með form­leg­um hætti og því gefið hið fal­lega nafn Edda. Í Eddu verða hand­rit­in, okk­ar merk­asti menn­ing­ar­arf­ur og fram­lag til heims­bók­mennta, geymd. Hand­rit­in og sá vitn­is­b­urður sem þau hafa að geyma um fræðastarf, mynd­list­ar- og menn­ing­ar­sögu, trú­mál, sagna­arf og ýmis hugðarefni fólks á þess­um fyrri tím­um í sögu þjóðar­inn­ar eru stór­merki­leg. Sú staðreynd að öll hand­rit­in í safni Árna Magnús­son­ar séu á varðveislu­skrá Menn­ing­ar­mála­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna yfir Minni heims­ins und­ir­strik­ar menn­ing­ar­legt mik­il­vægi þeirra á heimsvísu.

Þetta er staðreynd sem við get­um verið stolt af. Okk­ur ber að auka veg og virðingu menn­ing­ar­arfs­ins enn frek­ar, að sýna hand­rit­in, ræða þau, rann­saka og miðla til kom­andi kyn­slóða. Um 700 hand­rit eru í vörslu á söfn­um í Dan­mörku, en sátt­máli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Dan­merk­ur. Ég tel að fleiri ís­lensk hand­rit eigi að koma til Íslands frá Dan­mörku og hef unnið að auknu sam­starfi ríkj­anna á þessu sviði. Þannig mun Árna­safn við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla taka þátt í nýrri hand­rita­sýn­ingu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum með lang­tíma­láni á hand­rit­um. Þá munu lönd­in tvö efna til átaks til að styrkja rann­sókn­ir, sta­f­ræna end­ur­gerð og miðlun á forn­um ís­lensk­um hand­rit­um með sér­stakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Með Eddu – Húsi ís­lensk­unn­ar munu skap­ast tæki­færi til þess að lyfta menn­ing­ar­arfi okk­ar enn frek­ar en bygg­ing­in mun hýsa starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild­ar Há­skóla Íslands og verður miðstöð rann­sókna og kennslu í ís­lensk­um fræðum: tungu, bók­mennt­um og sögu. Þar verða jafn­framt varðveitt frum­gögn um ís­lenska menn­ingu, þ.e. hand­rit, skjöl, orða- og nafn­fræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í bygg­ing­unni eru ýmis sér­hönnuð rými, svo sem fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á forn­um ís­lensk­um skinn­hand­rit­um sem færa hand­rit­in til al­menn­ings, vinnu­stof­ur kenn­ara og fræðimanna, lesaðstaða fyr­ir nem­end­ur, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir og bóka­safn með lesaðstöðu.

Það var orðið löngu tíma­bært að verðugt hús yrði reist til að varðveita hand­rit­in okk­ar og sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið. Húsið hef­ur fengið frá­bær­ar viðtök­ur, þannig lögðu milli tólf og fjór­tán þúsund manns leið sína á opið hús í Eddu á sum­ar­dag­inn fyrsta til að virða fyr­ir sér þetta nýja heim­ili ís­lenskra bók­mennta og langþráð lög­heim­ili ís­lenskr­ar tungu. Með þeirri glæsi­legu aðstöðu sem fyr­ir­finnst í Eddu erum við bet­ur í stakk búin til þess að taka við fleiri hand­rit­um heim til Íslands og sinna menn­ing­ar­arfi okk­ar enn bet­ur til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það þarf heilt sam­fé­lag

Deila grein

25/04/2023

Það þarf heilt sam­fé­lag

Í þeim aðstæðum og þeim hraða sem samfélagið bíður ungum barnafjölskyldum upp á í dag, reikar hugurinn óhjákvæmilega til annarra tíma. Tíma sem voru kannski ekki einfaldari að neinu leiti, áskoranirnar voru aðrar, fjölskyldusamsetningin var kannski önnur, kröfurnar á foreldra og börn aðrar eða jafnvel öðruvísi. Hraðinn í samfélaginu var þó töluvert frábrugðinn því sem við búum við í dag.

Þegar ég sit og skrifa þennan pistil um málefni sem hefur verið mér hugleikið í nokkurn tíma þá reiknar hugurinn minn til Ísafjarðar í kringum 1991 þar sem ung móðir þá rúmlega sextán ára gömul með stúlkubarn tæplega eins árs, bjó innst inn í firði á Ísafirði, það var vetur, allt á kafi í snjó og faðirinn á sjó. En í vinnu þurfti móðirin að fara með barnið á snjóþotu rúmlega tveggja kílómetra leið inn í bæ. Ekki var mikið um það á þessum tíma að börn væru hjá dagmömmu eða snemma í leikskóla en henni var sú lukka að föðuramma stúlkunnar sá um hana frá þriggja mánaða aldri allt að þeim tímapunkti að hún gat farið á leikskóla rúmlega 2 ára gömul. Ekki einungis móðurinni varð af því gæfa heldur varð stúlkunni enn meiri gæfa að hafa fengið tækifæri til að mynda tengsl við ömmu sína sem urðu órjúfanleg fram yfir dauðadag hennar. Slík tengsl eru mikilvæg og gaf bæði ömmu og stúlku mikið því það eru ýmis gildi, ýmsar lífsreglur og lífsspeki sem aðeins fæst frá ömmu og afa. Því megum við ekki gleyma. Í tilviki þessarar stúlku þá voru fyrstu árin ekki alltaf einföld fyrir foreldra hennar en alltaf var þó ákveðin festa í lífinu sem amman hafði uppá að bjóða, alltaf opinn arm, alltaf góð ráð og stórfjölskyldan kom þar að líka sem reyndist ómetanlegt til framtíðar. Að alast upp í kringum ömmu og afa hefur í för með sér öðruvísi dýpt í lífinu, kennir manni aukna samstöðu, samkennd, virðingu og kærleika sem erfitt er að setja fingur á.

Getum við þetta ein og óstudd

Í dag eigum við það til að gleyma okkur í amstri dagsins, allir þurfa að vera mættir á slaginu, það eru börn sem þurfa á æfingar jafnvel tvær og þrjár á dag svo hittast allir heima í lok dags, það er möndlað eitthvað saman í eldhúsinu til að nærast og svo hlaupa allir frá borðinu í því skyni að sinna frekari verkefnum sem bíða þann daginn. Í tilviki barnanna eru það vinir og leikhittingar en í tilviki foreldranna er það að ná inn hreyfingu í daginn, klára vinnu sem náðist ekki þann daginn en þú ert nú samt viss um að ef þú klárar þetta ekki fyrir miðnætti þá hleypur það frá þér og verður ekki þarna þegar þú mætir daginn eftir. Nú svo þarftu að huga að andlegu heilsunni, líkamlegu og félagslegu því samfélagið krefst þess að við séum öll með næg verkefni og alltaf að, því annars ertu ekki að ná árangri eða hvað? Eða hvað felst í árangri fjölskyldunnar? Er það að allir sjái hversu vel þú stendur þig í lífskapphlaupinu sem er búið að temja okkur eða er það að rækta fjölskylduböndin eða jafnvel heilbrigð blanda af hvoru tveggja? Við heyrum jafnframt af því að foreldrar í dag gera menntakerfið og skólana í auknu mæli ábyrga fyrir uppeldi barnanna okkar en er það raunhæft, að leggja þær kröfur á fólk sem sjálft á börn og fjölskyldu og mætir í vinnuna, gerir sitt allra besta við að mennta börnin okkar í ákveðnum þáttum lífsins og svo segjum við fjölskyldan jæja þá er barnið búið að fá allt sem það þarf þetta árið því það mætti í skólann og fékk ákveðna færni sem er mæld á ákveðinn hátt? Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki kominn tími á að við lítum aðeins inná við. Fjölskyldan hefur ákveðið menntunarhlutverk líka, sem felst í öðruvísi lífsfærni en fæst úr menntakerfinu okkar.

Hverjir bera ábyrgð á börnunum okkar

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn hefur verið sagt og því er ég sammála. Það þarf heilt samfélag en þá er ég ekki að meina Dúnu í næsta húsi heldur eru það kynslóðirnar sem á undan hafa komið, mamma og pabbi, amma og afi og svo frænkur og frændur. Það er bjargföst trú mín að við höfum tapað ýmsu á þessari vegferð sem við höfum verið á og við ætlum að vera svo sjálfstæð í því að klára okkur sjálf í gegnum uppeldi barnsins að við áttum okkur ekki alveg á því hvað það er sem barnið verður af í gegnum lífið en líka amma og afi.

Á ákveðnum tímapunkti bjuggu þrjár kynslóðir undir einu þaki og allir tóku þátt í að ala upp barnið og kenna því á lífsins áskoranir, hvernig eigi að takast á við þær og hvaða lífsgildi þarf að hafa með sér í bakpokanum á því stórkostlega ferðalagi sem lífið er. Ég held að við ættum að líta aðeins tilbaka og gera okkur öll ábyrg fyrir því að koma að uppeldi barnsins, mynda tengsl milli kynslóða sem eru svo sterk og órjúfanleg að þau haldast fram yfir gröf og dauða. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar en fjölskyldan þá allra mestu. Það er ekki bara menntakerfið sem hefur með öllu stærsta hlutverkið í uppeldi barnanna okkar. Það erum við – Fjölskyldan.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 25. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Djúpið í örum vexti!

Deila grein

23/04/2023

Djúpið í örum vexti!

Við verðum að tryggja fleiri stoðir undir atvinnulíf þjóðarinnar. Já, við vitum, að þú hefur heyrt þetta nokkrum sinnum áður. En við viljum segja þér frá atvinnugrein sem er að skapa störf og það mjög fjölbreytt störf í samfélagi sem hefur verið í varnarbaráttu allt of lengi.

Undirritaðir áttu mjög fróðlega og góða ferð um liðna helgi er við kynntum okkur eldissvæði Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið lax í sjó í hartnær eitt ár með lágum afföllum og góðum vexti. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, fór yfir áherslur og framtíðarsýn fyrirtækisins á framleiðslunni í viðkvæmri náttúru og um leið verðmætri auðlind. Fróðlegt var að hlýða á yfirlit yfir þær miklu umhverfisrannsóknir sem fram hafa farið og þann viðamikla undirbúning sem fór fram áður en eldið fór af stað. Eins var upplýsandi að heyra hvað fyrirtækið býr að mikilli þekkingu eftir 20 ár í eldi og síðan áratuga reynslu af rækjuveiðum í Djúpinu.

Háafell vinnur eftir ströngum kröfum og vinnur nú að innleiðingu Whole Foods staðalsins fyrir sínar vörur, sem eru afar kröfuharðar, er varðar efni, fóður og sýnatökur. Whole Foods eru hvað þekktust fyrir sölu á hágæða matvælum sem eins lítið hefur verið átt við í framleiðslu og mögulegt er. Rétt er að geta þess að sýklalyf eru ekki notuð hjá þeim í fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum. Við erum sannfærð um að góðri umgjörð sé hægt að byggja upp greinina í sátt við náttúruna, en ekki á kostnað hennar.

Við höfum tækifæri til að skapa ný störf og er mikilvægt að farvegurinn sé þannig úr garði gerður að hægt sé að sækja hratt fram. Það er ekki ónýtt að geta tryggt betur og stuðlað að störfum er krefjast fjölbreytts bakgrunns. Gleymum heldur ekki afleiddum störfum, allt helst þetta í hendur að festa í sessi sterkara samfélag á Vestfjörðum.

Það þarf að vinna að sanngjarni skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga og tryggja uppbyggingu innviða. Framsókn hefur talað skýrt í þeim efnum, að gjaldtaka standi undir verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem eldi er stundað. Það er allra hagur.

Óhætt er að segja að framtíðin sé björt með nýrri atvinnugrein sem laxeldið er og ekki síst á stöðum sem hafa verið í mikilli varnarbaráttu síðustu áratugi. En það þarf einnig að taka af skarið og vera með skýra sýn á ákvarðanir sem þarf að taka. Laxeldið mun verða ein stærsta útflutningsgreinin og um leið tryggjum við frekari stoðir undir fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi.

Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 22. apríl 2023

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn stendur með bændum

Deila grein

22/04/2023

Framsókn stendur með bændum

Nú er sumarið komið og senn líður að þinglokum, tíminn líður hratt og kjörtímabilið er áður en við vitum af hálfnað. Ég hef fengið þann heiður að fá að vera þingmaður Framsóknar síðustu tvö ár eftir að hafa verið varaþingmaður árin á undan. Í grunninn er ég þó bóndi og baráttan fyrir bættum kjörum bænda var það sem dreif mig áfram til þess að bjóða mig fram til þings.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði, og mun ávallt og er því rétti flokkurinn fyrir mig til þess að starfa með. Framsókn á uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Á þessu kjörtímabili hafa þingmenn Framsóknar gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Ætla ég mér hér að tæpa á nokkrum málum sem það snertir á þessu kjörtímabili en umfangið er það mikið að það kemst ekki fyrir í einni grein. Fyrir þá sem er enn áhugasamari bendi ég á að á vef Alþingis þar sem finna má snyrtilega upp sett öll þingmál og ræður einstakra þingmanna.

Breyting á búvörulögum

Sá sem hér skrifar hefur lagt fram nokkur þingmannamál á yfirstandandi kjörtímabili sem snúa að landbúnaði og má þar fyrst og helst nefna frumvarp til breytingar á búvörulögum. Um er að ræða tillögu sem þingmenn Framsóknar hafa ítrekað lagt fram og er þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Þessi tillaga hefur ekki náð í gegn en hún gæti skilað mun betri afkomu afurðastöðva sem skilar sér bæði til bænda og neytenda. Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi að landbúnaður innan ESB er að miklu leyti undanþeginn samkeppnislögum. Um þetta mál hafa þingmenn Framsóknar fjallað um í ræðustól Alþingis og skrifað margar greinar m.a. þessa grein þar sem ég hvet áfram matvælaráðherra til að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði líkt og gert hafði verið ráð fyrir á þingmálaskrá. Ef við ætlum okkur ekki að staðna er mjög mikilvægt að ganga í verkin!

Fleiri þingmannamál

Auk þess hefur undirritaður lagt fram tvær þingsályktunartillögur er snúa að dýralæknum, annars vegar heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna og hins vegar tillögu sem snýr að því að veita sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. Þeir sem vilja glöggva sig frekar á þeim málum geta lesið hér smá greinarstúf sem ég skrifaði að því tilefni. Í haust mælti ég svo fyrir tillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Tillagan snýr að því að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 með það að markmiði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni. En ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Um þetta hef ég oft komið inn á í ræðustól Alþingis og fjallað um í greinum.

Þess utan hef ég lagt fram þrjár aðrar tillögur er snúa að landbúnaði með einum eða öðrum hætti, það er um refa- og minkaveiðileyfi til að veiða álft o.fl. utan hefðbundins veiðitíma og þjóðarátak í landgræðslu. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál frekar mæli ég með að fylgja tenglunum áfram til að lesa. Líneik Anna Sævarsdóttir lagði svo fram í annað sinn á þessu þingi þingsályktunartillögu er varðar úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. En þar er komið inn á vernd til bænda í kjölfar náttúruhamfara. Lesa má frekar um uppruna tillögunnar í þessari grein sem við Líneik Anna og Ingibjörg Isaksen skrifuðum síðasta vetur.

Eftirlitshlutverk þingmanna

Alþingismenn rækja eftirlitshlutverk sitt með sérstökum umræðum í þingsal við ráðherra um mál sem þeir bera ábyrgð á, með fyrirspurnum og/eða skýrslubeiðnum. Þingmenn Framsóknar hafa verið duglegir við fyrirspurnir til ráðherra varðandi hin ýmsu mál er snúa að landbúnaði. Fyrir áhugasama má kynna sér fyrirspurnir sem þingmenn Framsóknar hafa lagt fyrir ráðherra á þessu kjörtímabili en þær er; förgun dýraafurða og dýrahræjasamanburður á framleiðslu á innlendu og innfluttu kjötikornræktkolefnisbindingutryggingarvernd til bænda, aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslukolefnisjöfnun landgræðslunnarraforka til garðyrkjubændaframlag vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlumfæðuöryggiaukin nýting lífræns úrgangs til áburðarendurheimt votlendisnýting lífræns úrgangs til áburðar, og staða kjötframleiðenda. Þá hefur sá sem hér skrifað efnt til sérstakra umræðna um innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

Þess utan hafa þingmenn Framsóknar skrifað fjölda greina sem birst hafa á öldum ljósvakans síðustu ár til þess að vekja athygli almennings á málefnum bænda enda koma þau okkur öllum við. Nú síðast birti sá sem hér skrifar grein ásamt Höllu Signýju Kristjánsdóttur um nýja nálgun til þess að verjast riðu. Þá skrifaði Halla Signý grein um íslenska matvöru á páskum sem svar við grein þar sem vegið var að íslenskri matvælaframleiðslu. Þingmenn Framsóknar hafa verið ötulir við að benda á að staða íslenskra bænda sé grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Við höfum bent á að ef við viljum í alvöru standa með neytendum og innlendri framleiðslu þá er til leið. Ég þreytist ekki á að standa upp í ræðustól Alþingis og benda á að fæðuöryggi sé þjóðaröryggismál, það hefur Stefán Vagn Stefánsson einnig fjallað um, ásamt Ingibjörgu Isaksen. Þá hefur Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir m.a. gert að umtalsefni sínu erfiðri stöðu ungra bænda. Við vitum og höfum bent á að meginþorri þjóðarinnar vill ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku, við viljum standa vörð um innlendan landbúnað og matvælaframleiðslu þjóðinni til heilla. Að lokum langar mig einnig að minnast baráttu Framsóknar á síðasta kjörtímabili fyrir banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum, en við breytingu á lögum um innflutning matvæla settu þingmenn Framsóknar það skilyrði að aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna yrði samþykkt fyrir afgreiðslu málsins og þar með að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Öflugur landbúnaður er grundvöllur farsældar

Líkt og sagði hér í upphafi þá verður hér ekki tæmandi talið öll þau mál, ræður, greinar og erindi sem þingmenn Framsóknar hafa staðið fyrir til þess að standa vörð um innlendan landbúnað og matvælaframleiðslu. Við þingmenn getum gert okkar, en betur má ef duga skal. Okkar verkefni er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi. Við Íslendingar höfum frá landnámi lifað á því að rækta jörðina, halda skepnur og sækja sjóinn. Dugnaður, útsjónarsemi og hyggjuvit hafa verið okkar besta veganesti. Við í Framsókn ætlum okkur ekki að tapa niður því sem þau sem á undan okkur gengu byggðu upp. En til þess þarf samstöðu því með sundrung komumst við ekkert áfram.

Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 21. apríl 2023.