Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Deila grein

28/01/2023

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Fyrir áramótin mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar á Alþingi um að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Líta má við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil, sem er nú 67% í eigu norska ríkisins.

Rafeldsneyti og framtíðin

Hugmyndin að þessari þingsályktunartillögu er nokkuð löng en orkuskiptin hafa kallað á umræðu um rafeldsneyti sem einn af þeim orkukostum sem til greina koma sem eldsneyti framtíðarinnar.

Við sem þjóð höfum ákveðin markmið í átt að kolefnishlutleysi og ætlum okkur að standast skuldbindingar okkar í loftlagsmálum. Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innanlands, liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þó framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.

Fjölmargir aðilar hafa sýnt áhuga á að hefja framleiðslu á rafeldsneyti hér á landi sem er jákvætt. Er bæði um innlenda en þó aðallega erlenda aðila að ræða. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt opinberlega að Landsvirkjun sé ekki að fara að leggja til orku í slík verkefni enda sé hún ekki til í því magni sem þarf til að slík framleiðsla beri sig. En áhugi þessara aðila er til kominn sökum þess að tækifærin í því að framleiða grænt rafeldsneyti hér á landi eru gríðarleg og mjög ábatasöm fjárfesting til lengri tíma litið. Rafeldsneytisframleiðsla er einnig stór þáttur í orkuskiptum þjóðarinnar og partur af því að ná þeim markmiðum í loftlagsmálum sem við höfum sett okkur.

Gagnrýnt hefur verið á undanförnum árum að arður stóriðjunnar og fiskeldis hér á landi fari úr landi. Gera má ráð fyrir að svipuð umræða fari af stað þegar umsóknir rafeldsneytisfyrirtækjanna koma til afgreiðslu. Til að skapa megi um það betri sátt hef ég horft til Noregs og hvernig Norðmenn, árið 1972 stofnuðu Statoil, ríkisrekið olíufyrirtæki, til að halda utan um vinnslu og dreifingu á olíu og gasi sem fyrirtækið vinnur í norskri lögsögu.

Nýtum sóknarfærin

Framangreint leiðir okkur að þeirri spurningu hvort ekki sé skynsamlegt að stofnað verði fyrirtæki í eigu ríkisins, jafnvel undir eða í samstarfi við Landsvirkjun sem sjái um framleiðslu á rafeldsneyti til orkuskipta á Íslandi með möguleika á útflutningi, enda óljóst hvort markaður hér á landi sé nægilega stór svo framkvæmdin sé arðbær. Með þessu móti getum við orðið sjálfbær um orku, stigið risa skref í orkuskiptum og stutt við markmið stjórnvalda í loftlagsmálum. Arðinn af framkvæmdinni mætti setja í samfélagssjóð, að fyrirmynd Norðmanna, ásamt hluta eða öllum hagnaði Landsvirkjunar og því ljóst að um verulegar upphæðir yrði að ræða á ári hverju. Slíkan sjóð mætti t.d. nota til að bregðast við áföllum í efnahagslífi landsins eða öðrum óvæntum atvikum sem við þekkjum því miður aðeins of vel þessi misserin. Högg ríkissjóðs yrði þá minna og efnahagslegur stöðugleiki meiri.

Ég vona að vel verði tekið í tillöguna, en í henni er óskað eftir því að málið verði skoðað. Ég er sannfærður um að framleiðsla á íslensku rafeldsneyti í eigu þjóðarinnar sé farsælt skref og muni skila okkur áfram í orkuskiptunum og setja Ísland í sérflokk þegar kemur að sjálfbærni í orkumálum.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar

Gott sam­fé­lag

Deila grein

27/01/2023

Gott sam­fé­lag

Hvað er samfélag og hvað einkennir gott samfélag? Ég held að við flest teljum að við tilheyrum og séum hluti af góðu samfélagi.

Ég sjálfur er alinn upp í Hafnarfirði og bý þar ásamt fjölskyldu minni. Þar var gott að alast upp, þar er gott vera og þar er gott að ala upp börnin sín.

Vaxtarverkir

Hafnarfjörður hefur stækkað gríðarlega frá því að ég sleit barnsskónum, en í þeirri miklu stækkun og öllum þeim vaxtarverkjum sem slíku fylgir tel ég að vel hafi tekist til við að halda utan um fólkið.

Hafnarfjörður er bær í sveit ef svo má segja og ég tel almennt að íbúar upplifi sig sem hluta af heild, þátttakendur í góðu samfélagi. Það er mikilvægt.

Góð umgjörð

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill í samfélaginu. Það þekki ég úr mínum heimabæ. Fólk stendur saman þegar á bjátar, það er tilbúið að koma og rétta fram hjálparhönd eða sýna samkennd með öðrum hætti.

Við erum gott samfélag með góða umgjörð, en það er eins og annað í lífinu að víða má gera betur og laga til eða fínstilla ákveðna þætti eins og það er stundum orðað.

Samstaða og samfélagsleg ábyrgð

Íbúar um allt land finna nú fyrir þeim miklu hækkunum sem eru að verða hvar sem litið er. Við sjáum það á lánum okkar, leigugreiðslum, matarkörfunni, tryggingum og svo mætti lengi telja.

Fólk tekur eftir og finnur fyrir því á eigin skinni að þetta hefur áhrif á fjármálin. Það reynir því víða á um þessar mundir og mikilvægt að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu.

Breiðu bökin

Nú reynir einnig á hin svokölluðu breiðu bök og að þau sýni að ekki þurfi að velta öllum hækkunum beint út í samfélagið með tilheyrandi áhrifum á fjármál heimila. Þau geta, en það er víst annað en að vilja.

Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2023.

Categories
Fréttir

Flugþróunarsjóður styður við stóraukið millilandaflug á landsbyggðinni

Deila grein

27/01/2023

Flugþróunarsjóður styður við stóraukið millilandaflug á landsbyggðinni

Beint millilandaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum mun stóraukast á árinu þegar tvö stór erlend flugfélög hefja flug þangað. Svissneska flugfélagið Edelweiss Air mun fljúga beint til Akureyrar frá Zurich í sumar og hyggur á aukið flug þangað í framtíðinni og þýska flugfélagið Condor hefur tilkynnt áætlunarflug frá Frankfurt til Egilsstaða og Akureyrar frá maí til október 2023. Condor er fyrsta erlenda flugfélagið sem hefur tilkynnt um reglubundið flug á báða vellina.

Félögin bætast við þau sem fljúga þangað fyrir en hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur verið með leiguflug frá Hollandi til Akureyrar frá árinu 2019 og þá hóf flugfélagið Niceair beint áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife sumarið 2022 og hefur hug á að bæta fleiri áfangastöðum inn í áætlun sína á árinu.

Flugþróunarsjóður, sem settur var á laggirnar árið 2015, hefur undanfarin ár stuðlað að því að byggja upp nýjar flugleiðir til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Sjóðurinn hefur um 230 milljónir króna til ráðstöfunar á árinu 2023 og hefur þegar gert samning um að styrkja Condor, Niceair, Voigt Travel og verkefnið Nature Direct, sem gengur út á að talað sé einni röddu um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli. Þá hefur Alþingi samþykkt 150 m.kr. viðvarandi árlegt framlag í sjóðinn.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir ávinning af starfi Flugþróunarsjóðs síðustu árin ótvíræðan: „Framboð flugleiða frá Akureyri beint til útlanda jókst mjög í fyrra með tilkomu Niceair og mun aukast til mikilla muna á árinu með nýjum flugfélögum og áfangastöðum. Með þessu stórbætast búsetuskilyrði og lífsgæði heimamanna og með auknu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða opnast fleiri gáttir inn í landið sem er forsenda framþróunar í ferðaþjónustu og frekari dreifingu ferðamanna um landið, allt árið um kring. Aukið millilandaflug frá fleiri stöðum en Keflavíkurflugvelli er hagsmunamál allra landsmanna”.

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Deila grein

26/01/2023

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra, hafa tekið höndum saman í að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Meðfram því á að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Framangreint er ein af áherslum ríkisstjórnarinnar og einnig kemur þetta fram í aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem gildir til lok árs 2022. Þar segir að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, s.s. sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, meðal annars eftir skýrslutöku hjá lögreglu.

Reglubundið samráð

Dómsmálaráðherra mun síðan styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis LSH um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis. Það felur m.a. í sér hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggir brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og tryggja þar með rétta miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola. Þá skal Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri framkvæma úttekt á árangri samstarfsins auk þess sem gerð verður úttekt á reynslu lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks af því aukna samstarfi sem hér er lýst.

Þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis

Þá hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samvinnu við heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, ákveðið að ráðast í greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis. Kortlögð verður aðkoma, hlutverk og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila, einkum þolendasamtaka að rekstri þeirra og leggja á að því drög að fyrirkomulagi til framtíðar. Vinnan hefur það markmið að finna hentugustu leiðina til að tryggja framtíðarstarfsemi þolendamiðstöðva á Íslandi, bæði út frá skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga og við að móta stefnu um aðkomu lögreglunnar að þjónustumiðstöðvum. Einnig verður tekin inn í vinnuna samræming við verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum sem og við rannsókn á öðrum ofbeldisbrotum. Þá hefur verið ákveðið að veita lögregluembættum sem hafa beina aðkomu að stjórnun þjónustumiðstöðva 18 millj. kr. styrk til að þróa áfram þverfaglegt og svæðisbundið samstarf í því skyni að efla stuðning og vernd brotaþola en það er í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins. Embættunum er svo falið að veita nauðsynlega aðstoð við greiningu á framtíðarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðva og huga að því að samræma og kynna starfsemi miðstöðvanna með það fyrir augum að samræma og kynna starfsemina út um allt land.

Aðgerðir í þágu þolenda og samstarf milli stofnana

Í Samráðsgátt Stjórnvalda þann 21. desember síðastliðinn birtust áform um fyrirhugað lagafrumvarp frá heilbrigðisráðuneytinu um það að lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna að höfðu samráði við þolanda og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Þar kemur einnig fram að ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla þegar í stað upplýst um málið að höfðu samráði við þolanda. Það er mikilvægt að slíkt samráð sé til staðar svo það verði ekki fælandi fyrir þolendur að leita sér heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisstarfsmenn líti ekki á það sem þvingun því rannsóknir hafa sýnt fram á að skyldutilkynning er slæm ef hún er ekki í samráði við sjúklinginn bæði fyrir þolanda og heilbrigðisstarfsmanninn.

Með fyrirhuguðu lagafrumvarpi yrði sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga að fengnu rökstuddu mati lögreglu um að viðkomandi einstaklingur sé verulega hættulegur. Miðlun þeirra upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu. Þetta er almannaheillamál og mikilvægt skref því samkvæmt 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þá ber okkur að vernda rétt hvers manns til lífs með lögum.

Eins og staðan er í dag þá eru heilbrigðisstarfsmenn bundnir fyllstu þagmælsku samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og mega aðeins víkja frá þagnaskyldunni vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða ákvæðum annarra laga líkt og barnaverndarlaga o.þ.h. Skilyrðið um þessa brýnu nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera mjög matskennt og ekki til þess fallið að hagur og öryggi þolenda sé í forgrunni. Það skiptir máli vegna alvarleika heimilisofbeldismála gagnvart þolendum og jafnvel þeim börn sem á heimilinu búa, stöðu þolenda almennt og í ljósi þess að heimildir til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi eru óljósar er brýnt að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Slík lagabreyting myndi hafa það í för með sér að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem líkur eru á að þolendur heimilisofbeldis veigri sér oft við að leita réttar síns og þekki jafnvel réttindi sín ekki nægilega vel við þær aðstæður. Án lagabreytingar geta lög og reglur hvað varðar þagnarskyldu hamlað framgangi mála hjá lögreglu og jafnvel komið í veg fyrir að þolandi fái viðunandi aðstoð í réttarkerfinu og réttar upplýsingar um réttarstöðu sína.

Undirrituð lagði fram þingsályktunartillögu á haustþinginu þar sem dómsmálaráðherra yrði falið að setja á fót starfshóp sem myndi móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Fyrirhugað frumvarp er fagnaðarefni í þessu samhengi, skýrt og mikilvægt skref í rétta átt til að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og þeirra barna sem verða fyrir áhrifum þess.

Með framangreindum aðgerðum er markmiðið að tryggja sem jafnast aðgengi þolenda að stuðningi og heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, efnahag eða öðrum aðstæðum. Þá hefur einnig verið lagt til að ráðist verði í vinnu á skipulagðri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og það er yfirleitt einstaklingarnir sem fyrst mæta þolendum eftir ofbeldi. Lengi hefur verið kallað eftir skýrum aðgerðum í þessum málaflokki og því mikið fagnaðarefni að við séum að sjá breytingar og alvöru aðgerðir í þágu þolenda. Okkur ber að tryggja faglega og trausta þjónustu við þolendur og með þeim hætti að þeir upplifi raunverulega og trygga aðstoð eftir áfallið því þarna er um einstaklinga að ræða þar sem traust þeirra hefur verið brotið með mjög grófum hætti. Þessar aðgerðir eru sannarlega þáttur í því að tryggja öryggi og þjónustu við þolendur heimilisofbeldis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Fréttir

Bætum stöðu og réttindi íþróttafólks

Deila grein

26/01/2023

Bætum stöðu og réttindi íþróttafólks

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins samtöl sín við íþróttafólk og forsvarsmenn íþróttafélaga nú í byrjun ársins. Fram hafi komið að þörf sé á betri umgjörð um afreksíþróttafólk til að fjármagna keppnis- og æfingaferðir. Aðstæður eru misjafnar hjá íþróttafólki, „t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu einstaklinganna sjálfa eða foreldra þeirra og svo eru þeir auðvitað oft háðir vinnuveitendum. Þessa stöðu þarf að jafna og jafnvel innleiða einhverja hvata“.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusambandið skrifuðu nýlega undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs hér á landi. Samhliða var tilkynnt að Vésteinn Hafsteinsson, þjálfari, hafi verið ráðinn til að halda utan um vinnuna við þessa stefnumótun og aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta stöðu og réttindi íþróttafólks.

„Því ber auðvitað að fagna sérstaklega og ég vil hvetja okkur öll og þá ráðherra sem að þessu koma áfram til góðra verka þegar að þessum málum kemur,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hérna upp og fagna góðu verkefni. Á síðasta ári mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Við höfum séð of oft og of víða að það hefur reynst erfitt fyrir okkar góðu íþróttamenn, unga og eldri — fyrir utan það að auðvitað vantar almennilega skilgreiningu á því hverjir teljast til afreksíþróttamanna — að fjármagna keppnis- og æfingaferðir og jafnvel til viðbótar við það að tapa launum á meðan fjarveru stendur. Þarna geta aðstæður verið æðimisjafnar, t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu einstaklinganna sjálfa eða foreldra þeirra og svo eru þeir auðvitað oft háðir vinnuveitendum. Þessa stöðu þarf að jafna og jafnvel innleiða einhverja hvata.

Ég var sjálfur á ferð um mitt kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, núna í byrjun janúar, og þetta er það sem við heyrum víða, ef ekki alls staðar, í samtölum við íþróttafólkið sjálft og forsvarsmenn íþróttafélaga, að þörf sé á betri umgjörð um þessi mál. Ég tek undir og fagna því mjög að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusambandið hafi nýverið skrifað undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs hér á landi. Ég tel að sú tillaga sem ég mælti fyrir hér síðasta haust falli vel að þessu markmiði og þessu verkefni og skapi þá umgjörð sem nauðsynleg er fyrir afreksíþróttastarf þannig að það verði eins og best verður á kosið og afreksíþróttafólkið okkar standi jafnfætis keppinautum sínum um allan heim. Nú er ljóst, það var tilkynnt samhliða, að Vésteinn Hafsteinsson, sem við könnumst auðvitað öll við fyrir afrek hans, muni starfa að þessum málum með íslenskum stjórnvöldum við það að móta aðgerðir sem eru til þess fallnar að bæta stöðu og réttindi þessa fólks. Því ber auðvitað að fagna sérstaklega og ég vil hvetja okkur öll og þá ráðherra sem að þessu koma áfram til góðra verka þegar að þessum málum kemur.“

Categories
Fréttir

„Tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar“

Deila grein

26/01/2023

„Tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins, náttúruhamfarir og hversu mikil áhrif þau hafa haft á þjóðarsálina, en á síðustu dögum hafa verið rifjuð upp og minnst atburða síðustu áratuga. Rakti hún viðbrögð og vinnu stjórnvalda við að bregðast við náttúruhamförum og ofanflóðasjóða sérstaklega.

„Árið 1996 var ofanflóðanefnd komið á fót og löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tók gildi árið 1997 sem var mikilvægt tímamótaverkefni. Farið var í rannsóknir, hættumat, hönnun og byggingu mannvirkja til að verja íbúabyggð fyrir snjóflóðum og sett upp framkvæmdaáætlun,“ sagði Líneik Anna.

Fór hún yfir að vinna við framkvæmdir og uppkaup á eignum hafi verið gerð á 15 þéttbýlisstöðum á landinu. Er vinnu við varnir lokið við sex þéttbýli.

„Upphaflega sneru verkefni sjóðsins að vörnum vegna ofanflóða og uppkaupa húseigna í samvinnu við sveitarfélög. Hlutverkið hefur nú verið víkkað út og fellur kostnaður við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða einnig undir sjóðinn,“ sagði Líneik Anna.

„Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði árið 2020 vöknuðum við öll upp við vondan draum um að framkvæmdir væru langt á eftir áætlun. Í framhaldi voru fjárveitingar til framkvæmda ofanflóðasjóðs auknar og stefnan sett á að öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum á íbúðabyggð verði lokið árið 2030.“

„Nú legg ég áherslu á að fjárheimildir verði áfram í takti við þessa áætlun um verklok. Það þýðir að það getur þurft að hækka fjárheimildir í takti við hækkanir á framkvæmdakostnaði og breytingar á framkvæmdaþörf í samræmi við nýjustu rannsóknir og uppfært hættumat. Þessu til áréttingar legg ég fram fyrirspurn hér á Alþingi til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um stöðu framkvæmda. Einnig álít ég nú tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar og samspils við ýmsar tryggingar,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni:

„Virðulegi forseti. Síðustu daga höfum við rifjað upp og minnst náttúruhamfara sem hafa haft mikil og djúpstæð áhrif á einstaklinga, fjölskyldur, samfélög og raunar þjóðarsálina alla. Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina farið í ýmiss konar vinnu til að verjast og bregðast við náttúruhamförum og hér vil ég ræða ofanflóðasjóð sérstaklega.

Árið 1996 var ofanflóðanefnd komið á fót og löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tók gildi árið 1997 sem var mikilvægt tímamótaverkefni. Farið var í rannsóknir, hættumat, hönnun og byggingu mannvirkja til að verja íbúabyggð fyrir snjóflóðum og sett upp framkvæmdaáætlun. Framkvæmdir og uppkaup hafa átt sér stað á 15 þéttbýlisstöðum og er lokið á sex þeirra. Upphaflega sneru verkefni sjóðsins að vörnum vegna ofanflóða og uppkaupa húseigna í samvinnu við sveitarfélög. Hlutverkið hefur nú verið víkkað út og fellur kostnaður við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða einnig undir sjóðinn. Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði árið 2020 vöknuðum við öll upp við vondan draum um að framkvæmdir væru langt á eftir áætlun. Í framhaldi voru fjárveitingar til framkvæmda ofanflóðasjóðs auknar og stefnan sett á að öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum á íbúðabyggð verði lokið árið 2030.

Nú legg ég áherslu á að fjárheimildir verði áfram í takti við þessa áætlun um verklok. Það þýðir að það getur þurft að hækka fjárheimildir í takti við hækkanir á framkvæmdakostnaði og breytingar á framkvæmdaþörf í samræmi við nýjustu rannsóknir og uppfært hættumat. Þessu til áréttingar legg ég fram fyrirspurn hér á Alþingi til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um stöðu framkvæmda. Einnig álít ég nú tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar og samspils við ýmsar tryggingar.“

Categories
Fréttir

„Aðgerðirnar fá glimrandi einkunn“

Deila grein

25/01/2023

„Aðgerðirnar fá glimrandi einkunn“

„Í gær var alþjóðlegur dagur menntunar og á þeim degi bárust okkur gleðifréttir um talsverða fjölgun útskrifaðra kennara hér á landi. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar sem er aukning um 160% frá meðaltali síðustu ára. Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega í ljósi kennaraskorts sem samfélagið hefur glímt við síðustu ár,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Frá árinu 2008 hafði útskrifuðum kennurum fækkað talsvert og ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að koma kennarastéttinni, einni mikilvægustu stétt samfélagsins, aftur á réttan kjöl. Árið 2019 setti menntamálaráðuneytið, sem var þá undir forystu hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, það í forgang að vinna gegn umræddum skorti.“

Útskrifuðum kennurum hafði frá 2008 fækkað talsvert og því markmiðið að efla kennaranám að nýju, gera það meira aðlaðandi starf en áður.

„Meðal aðgerða má nefna að á lokaári meistaranáms stendur nemendum til boða að fara í launað starfsnám sem og að fá námsstyrk til að ljúka námi á tilsettum tíma. Svo var horft til starfandi kennara og samstarfs þeirra við háskólastofnanir með því að styrkja þá til að stunda nám í starfstengdri leiðsögn og auka færni þeirra til að taka á móti nýliðum,“ sagði Lilja Rannveig. „Niðurstöður verkefnisins eru nú að koma fram og aðgerðirnar fá glimrandi einkunn. Fá störf eru jafn mikilvæg og gefandi og kennarastarfið og við verðum að tryggja að hæfir og kröftugir einstaklingar sjái framtíð í starfinu. Kennarar hafa mikil áhrif á samfélagið og það er mikilvægt að stéttin verði efld,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.

***

Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni:

Hæstv. forseti. Í gær var alþjóðlegur dagur menntunar og á þeim degi bárust okkur gleðifréttir um talsverða fjölgun útskrifaðra kennara hér á landi. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar sem er aukning um 160% frá meðaltali síðustu ára. Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega í ljósi kennaraskorts sem samfélagið hefur glímt við síðustu ár. Frá árinu 2008 hafði útskrifuðum kennurum fækkað talsvert og ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að koma kennarastéttinni, einni mikilvægustu stétt samfélagsins, aftur á réttan kjöl.

Árið 2019 setti menntamálaráðuneytið, sem var þá undir forystu hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, það í forgang að vinna gegn umræddum skorti. Strax voru aðgerðir kynntar með það að markmiði að efla kennaranám og gera það áberandi og enn meira aðlaðandi kost en áður. Meðal aðgerða má nefna að á lokaári meistaranáms stendur nemendum til boða að fara í launað starfsnám sem og að fá námsstyrk til að ljúka námi á tilsettum tíma. Svo var horft til starfandi kennara og samstarfs þeirra við háskólastofnanir með því að styrkja þá til að stunda nám í starfstengdri leiðsögn og auka færni þeirra til að taka á móti nýliðum.

Að lokum var samþykkt frumvarp um eitt leyfisbréf í kennarastéttinni sem hefur leitt til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga sem hefur aukið starfsmöguleika kennara um allt land.

Á þessu kjörtímabili tók hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason við keflinu sem nýr mennta- og barnamálaráðherra og hélt aðgerðunum áfram.

Niðurstöður verkefnisins eru nú að koma fram og aðgerðirnar fá glimrandi einkunn. Fá störf eru jafn mikilvæg og gefandi og kennarastarfið og við verðum að tryggja að hæfir og kröftugir einstaklingar sjái framtíð í starfinu. Kennarar hafa mikil áhrif á samfélagið og það er mikilvægt að stéttin verði efld.

Categories
Fréttir

„Heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid“

Deila grein

24/01/2023

„Heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Í skýrslunni eru nefnd margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Svo sem að efla og samræma bráðaþjónustu, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma og styðja við menntun og þjálfun.

„Ein umfangsmesta tillagan er að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga og heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum,“ sagði Líneik Anna.

„Vinnan að skýrslunni hefur nú þegar skilað umbótum og í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur að frekari umbótum í bráðaþjónustu á landsvísu.“

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur þegar ráðstafað tæpum 330 millj. kr. til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land.

„Þarna eru líka einfaldari tillögur eins og að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu hjartastuðtækja,“ sagði Líneik Anna.

„Vinna viðbragðsteymisins er afskaplega mikilvægt innlegg í viðbrögð og þróun heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid með fordæmalausri tíðni bráðra öndunarfærasýkinga,“ sagði Líneik Anna að lokum.

***

Ræða Líneikar Önnu í heild sinni:

Virðulegi forseti. Á fundum velferðarnefndar í síðustu viku var m.a. farið yfir skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Vinnan að skýrslunni hefur nú þegar skilað umbótum og í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur að frekari umbótum í bráðaþjónustu á landsvísu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Tillögurnar snúast um að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun og fleira.

Ein umfangsmesta tillagan er að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga og heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Þarna eru líka einfaldari tillögur eins og að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu hjartastuðtækja. Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hafi tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði, t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum um síma þar sem nefnd er betri vegvísun. Þá er unnið að frekari umbótum í vegvísun í heilbrigðisþjónustu þar sem horft er til þess að samræma upplýsingagjöf, auka samvinnu og dreifa álagi á heilbrigðisstofnanir. Þá hefur hæstv. heilbrigðisráðherra þegar ráðstafað tæpum 330 millj. kr. til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land. Vinna viðbragðsteymisins er afskaplega mikilvægt innlegg í viðbrögð og þróun heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid með fordæmalausri tíðni bráðra öndunarfærasýkinga.

Categories
Fréttir

Ráðast þarf í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi

Deila grein

24/01/2023

Ráðast þarf í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins hvað tryggingafélög hafi hækkað iðgjöld umfram almennar verðlagshækkanir.

„Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, eða árin 2016–2021, um 1.093 millj. kr. á lögboðnum tryggingum og 747 milljónir á frjálsum tryggingum,“ sagði Ágúst Bjarni.

Sagði hann það alvarlegt mál ef aðeins efnameiri fjölskyldur hefðu efni á líf- og sjúkdómatryggingum, þar sem þær hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir.

Þessar upplýsingar koma fram í svari við fyrirspurn Ágústs Bjarna til fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum.

„Af þeim tölum sem ég hef fengið er alveg ljóst að iðgjöld tryggingafélaga eru farin að bíta allhressilega í bókhald heimilanna til viðbótar við aðrar hækkanir sem eru að verða í samfélaginu,“ sagði Ágúst Bjarni.

Nefndi hann dæmi að meðalfjölskylda með bifreið eða bifreiðar og sé jafnframt með eigna- og líftryggingu sé að borga 550.000-700.000 kr. á ári.

„Ég tel, út frá þessum gögnum og því svari sem ég hef undir höndum, þörf á að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi þar sem farið yrði ofan í saumana á þessum málum og gerður nauðsynlegur samanburður hér á landi við markaðinn annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að gjaldtöku, rekstri félaganna og þeirri lagaumgjörð sem til staðar er og snertir með beinum hætti þá starfsemi sem hér um ræðir,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.

***

Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni:

Virðulegur forseti. Í byrjun desember sl. barst mér svar við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum. Almenningur fylgist vel með og tekur eftir þeim hækkunum sem verða hvar sem er í samfélaginu. Fyrirspurnina sendi ég eftir að hafa fengið ábendingar um mikla hækkun frá fjölda fólks. Af þeim tölum sem ég hef fengið er alveg ljóst að iðgjöld tryggingafélaga eru farin að bíta allhressilega í bókhald heimilanna til viðbótar við aðrar hækkanir sem eru að verða í samfélaginu. Dæmi: Meðalfjölskylda sem rekur bifreið eða bifreiðar og er með eigna- og líftryggingu er að borga 550.000–700.000 kr. á ári. Þetta eru háar tölur, virðulegur forseti.

Í ljós kemur í svari við fyrirspurn minni að tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín umfram almennar verðlagshækkanir. Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, eða árin 2016–2021, um 1.093 millj. kr. á lögboðnum tryggingum og 747 milljónir á frjálsum tryggingum. Þá er ég einnig hugsi yfir gjöldum vegna líf- og sjúkdómatrygginga en sé horft til þess sem fram kemur í svarinu sýnist mér að iðgjöld líf- og sjúkdómatrygginga hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir. Sú staða má aldrei koma upp, ekki undir nokkrum kringumstæðum, að þurfi fólk að draga saman seglin, draga saman í heimilisbókhaldinu, horfi það til þess að segja upp tryggingum sem þessum. Fyrir mér er það alvarlegt mál ef samfélagið er að þróast í þá átt að aðeins þeir efnameiri hafa efni á líf- og sjúkdómatryggingum. Ég tel, út frá þessum gögnum og því svari sem ég hef undir höndum, þörf á að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi þar sem farið yrði ofan í saumana á þessum málum og gerður nauðsynlegur samanburður hér á landi við markaðinn annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að gjaldtöku, rekstri félaganna og þeirri lagaumgjörð sem til staðar er og snertir með beinum hætti þá starfsemi sem hér um ræðir.

Categories
Fréttir

Sonja verkefnastjóri Þingflokks Framsóknar

Deila grein

23/01/2023

Sonja verkefnastjóri Þingflokks Framsóknar

Sonja Lind E. Eyglóardóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Þingflokks Framsóknar. Hún lauk BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2020 og fékk verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Sonja útskrifast með ML í lögfræði frá sama skóla nú í lok janúar 2023.

Sonja hefur starfað sem starfsmaður þingflokks Framsóknar frá árinu 2020. Áður en hún kom til starfa fyrir þingflokk Framsóknar vann hún hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, þá hefur Sonja víðtæka reynslu í hótel- og veitingarekstri. Sonja hefur tekið þátt í félagsstörfum fyrir Framsókn, hún hefur m.a. verið formaður Framsóknarfélags Borgarfjarðar og Mýra, þá situr hún í fræðslu og kynningarnefnd Framsóknar og Velferðarnefnd Borgarbyggðar.

Sonja er 41 árs, gift Pavle Estrajher umhverfis- og náttúrufræðingi og er búsett í Borgarnesi.