Categories
Greinar Uncategorized

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Deila grein

09/11/2022

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir: „Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um.“

Sam­starf á norður­slóðum er okk­ur Íslend­ing­um afar mik­il­vægt enda nauðsyn­legt að sam­tal og sam­vinna fari fram um sam­eig­in­leg mál­efni svæðis­ins. Með þeim um­hverf­is­breyt­ing­um sem nú eiga sér stað auk ut­anaðkom­andi áhrifa standa íbú­ar norður­slóða frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um. Mik­il­vægt er að við sem búum þar störf­um sam­an að því að bæta lífs­kjör íbúa á norður­slóðum og styrkja fé­lags­lega og menn­ing­ar­lega þróun á svæðinu.

Eins og mörg­um er kunn­ugt ligg­ur starf Norður­skauts­ráðsins og þing­mannaráðstefn­unn­ar um norður­skauts­mál niðri um þess­ar mund­ir vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Þrátt fyr­ir að form­legt sam­starf liggi niðri sótti þing­manna­nefnd um norður­skauts­mál ráðstefnu um mál­efni norður­skauts­ins sem hald­in var á Græn­landi í sept­em­ber.

Ráðstefn­an var hald­in af danska þing­inu og bar yf­ir­skrift­ina: Ráðstefna þing­manna á norður­slóðum – nor­rænt og norður­am­er­ískt sam­starf. Á ráðstefn­unni komu sam­an þing­menn frá Norður­lönd­un­um og Norður-Am­er­íku og ræddu mál­efni norður­skauts­ins. Þar voru ýmis áhuga­verð verk­efni sem unnið er að á norður­slóðum kynnt með sér­stakri áherslu á Græn­land.

Áhersla á lausn­ir

Til­gang­ur ráðstefn­unn­ar var að deila reynslu og hug­mynd­um, eins og tíðkast hef­ur á þing­mannaráðstefn­unni, sem að jafnaði er hald­in annað hvert ár og hef­ur verið sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna aðild­ar­ríkja Norður­skauts­ráðsins frá 1993. Meg­in­viðfangs­efni voru lofts­lags­breyt­ing­ar, sjálf­bær efna­hagsþróun og mann­líf á norður­slóðum. Í því sam­bandi var komið inn á margt áhuga­vert, með áherslu á lausn­ir á áskor­un­um sem fólk á norður­slóðum glím­ir við. Fjallað var um mik­il­vægi þess að íbú­ar við norður­skautið verði í for­ystu við að leita lausna við græna og end­ur­nýj­an­lega orku­öfl­un, fyr­ir stór og smá sam­fé­lög. Dæmi um slík verk­efni eru frek­ari nýt­ing vatns­afls, til­raun­ir með sólarraf­hlöður sem koma skemmti­lega á óvart, rækt­un græn­met­is í gróður­hús­um í Nuuk og hug­mynd­ir um að nýta „jöklamjöl“ til áburðar.

Mörg og mik­il­væg mál­efni

Rétt­indi og varðveisla menn­ing­ar frum­byggja var til umræðu og þar á meðal mik­il­vægi þess að þeir væru sýni­leg­ir í kvik­mynd­um og fjöl­miðlum. Það er svo mik­il­vægt að skoða ver­öld­ina frá sjón­ar­hóli fólks­ins á norður­slóðum. Þá var lögð mik­il áhersla á að halda áfram að yf­ir­stíga mikl­ar fjar­lægðir norður­slóða og byggja upp mögu­leika dreif­býl­is­sam­fé­laga með góðum netteng­ing­um til að efla fjar­heil­brigðis- og vel­ferðarþjón­ustu og ra­f­ræna náms­mögu­leika.

Und­ir­rituð tók þótt í umræðu um geðheil­brigðismál og greindi meðal ann­ars frá ís­lenska for­varn­ar­mód­el­inu í vímu­vörn­um, vinnu að breyt­ing­um í mál­efn­um barna og ný­samþykktri stefnu í geðheil­brigðismál­um. Þar var einnig sagt frá áhuga­verðum rann­sókn­um Græn­lend­inga við að greina þætti sem styrkja geðheil­brigði fólks á norður­slóðum og fjallað um þró­un­ar­verk­efni til sjálfs­efl­ing­ar fólks sem ekki finn­ur sig í skóla­kerf­inu.

Íslenska sendi­nefnd­in sam­an­stend­ur af þrem­ur þing­mönn­um sem eru, auk und­ir­ritaðrar, Eyj­ólf­ur Ármanns­son og Berg­lind Ósk Guðmunds­dótt­ir. Með nefnd­inni starfar alþjóðarit­ar­inn Arna Gerður Bang. Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um. Ég get full­yrt að all­ir ráðstefnu­gest­ir hafi farið heim með mik­il­vægt vega­nesti inn í kom­andi verk­efni og stærra tengslanet en áður.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður þing­manna­nefnd­ar um norður­skauts­mál.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 7. nóvember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Deila grein

03/11/2022

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Fasteignagjöld sveitarfélaganna hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga og ekki að ósekju. Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur hækkað um tugi prósenta um allt land og miðað við óbreytt álagningarhlutfall þá leiðir hækkun fasteignamats sjálfkrafa til aukinnar skattheimtu óháð öðrum þáttum, s.s. launaþróun á viðkomandi svæði, íbúaþróun eða hvort þjónustuþörf hefur aukist að ráði. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag þegar sveiflur eru miklar og fyrirsjáanleikinn lítill sem enginn, hvorki fyrir íbúa sem skattgreiðendur eða fyrir sveitarfélögin sem þurfa að skipuleggja sín útgjöld.

Álögur á húseigendur og fyrirtæki aukast um 400 milljónir

Milli áranna 2022 og 2023 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri um 11,7% og íbúðarhúsnæðis um 25,6%. Miðað við óbreytta álagningarprósentu má gera ráð fyrir að tekjur Akureyrarbæjar gætu aukist um tæpar 400 milljónir króna vegna fasteignaskatts á árinu 2023 frá árinu í ár. Með öðrum orðum, heimilin taka á sig aukna og ófyrirséða byrði og fjölskyldur greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í fasteignaskatt. Skattbyrði fyrirtækjanna hér í bæ þyngist að sama skapi og fátt sem kemur á móti í rekstrarumhverfi þeirra sem auðveldar þeim að standa undir þessari auknu byrði.

Eiga heimili inni lækkun hjá Akureyrarbæ?

Þegar borin eru saman átta fjölmennustu sveitarfélögin, með 10.000 íbúa eða fleiri, kemur í ljós að Akureyri trónir á toppnum með hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis. Sé horft til síðustu fimm ára og skoðað hver þróunin hefur verið þá er ljóst að hún miðar heilt yfir í sömu átt og þá að sveitarfélögin hafa verið að lækka fasteignaskattsálagninguna. Akureyrarbær rekur hins vegar lestina hvað þessa þróun varðar, þ.e.a.s. fyrir utan Reykjavíkurborg sem hefur framan af verið með lægsta álagningarhlutfallið. Meðaltalslækkun álagningarhlutfalls á 5 ára tímabili hjá hinum sveitarfélögunum er 17,8% en hjá Akureyrarbæ er lækkunin á sama tíma aðeins 5,7%.

Ef við setjum okkur í hóp með fjórum fjölmennustu sveitarfélögunum (Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ) þá hefur álagður fasteignaskattur hlutfallslega hækkað mest hjá Akureyrarbæ á þessu sama tímabili. Tekjur vegna fasteignaskatta hafa með öðrum orðum aukist meira hér þrátt fyrir þá staðreynd að fólksfjölgun hefur verið hægari en í hinum sveitarfélögum, ef frá er talinn Hafnarfjörður, sem gerir samanburðinn enn óhagstæðari fyrir Akureyri. Ef við horfum til næstu þriggja sveitarfélaga á eftir okkur í stærð (Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Árborgar) þá hafa tekjur þeirra vegna fasteignaskatta aukist meira í samanburði við Akureyri, en þar hefur fólksfjölgun hins vegar verið mun hraðari, sem skýrir að stórum hluta auknar tekjur.

Við skerum okkur því sannarlega úr og ekki víst að það sé jákvæður samanburður. Það er vissulega einn af grunnþáttum í starfi bæjarstjórnar að ábyrg fjármálastjórn sé höfð að leiðarljósi. Það ætti þó ekki síður að vera kappsmál bæjarfulltrúa að gæta hófs í gjaldtöku og skattheimtu á íbúa – og á einhverjum tímapunkti hlýtur það að vera sanngirnismál að sækja ekki síauknar tekjur frá heimilum og fyrirtækjum frá ári til árs. Við vitum ekki enn hvaða ákvörðun önnur fjölmennari sveitarfélög koma til með að taka í sinni fjárhagsáætlanagerð en kjörnir fulltrúar flestra þeirra sveitarfélaga sem hér hafa verið nefnd gáfu það þó út í vor að álagningarprósentan yrði lækkuð í takt við hækkun fasteignamats.

Getum við lækkað fasteignaskatta?

Ein stærsta áskorunin í þeirri fjárhagsáætlanagerð sem nú stendur yfir er vaxtaumhverfi núlíðandi stundar. Rétt viðbrögð við þeirri áskorun er hins vegar að fara varlega í fjárfestingar sem kalla á miklar lántökur, aukinn rekstrarkostnað og aukinn fjármagnskostnað. Rétt viðbrögð, gagnvart íbúum okkar, er að horfa til mótvægisaðgerða sem verja lífskjör heimilanna. Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi þá eigum við að horfa til þess hvort við getum lækkað álagningarhlutfall fasteignagjalda til móts við hækkun fasteignamats, þannig að álagningin, að teknu tilliti til verðlags, hækki ekki milli ára.

Í vikunni var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2023 – 2026 lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts og þar með auknum útgjöldum heimila og fyrirtækja. Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum hins vegar til að þetta yrði endurskoðað áður en fjárhagsáætlunin er lögð fram til seinni umræðu. Ég á raunar ekki von á öðru en að meirihlutinn skoði það vel og leiti leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa, enda gefur málefnasamningurinn frá í vor ekki tilefni til annars en bjartsýni í þeim efnum.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Árlegt heilsuþing helgað lýðheilsu

Deila grein

21/10/2022

Árlegt heilsuþing helgað lýðheilsu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings 2022 sem að þessu sinni verður helgað lýðheilsu. Þingið verður haldið 10. nóvember á hótel Hilton Reykjavík Nordica. Þingið er öllum opið en fulltrúar heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem láta sig málið varða eru sérstaklega hvattir til þátttöku.

Boðsbréf ráðherra til útprentunar 

Kæri viðtakandi.

Heilbrigðisþing hafa verið haldin árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 var í mótun. Þingin hafa verið tileinkuð mikilvægum málefnum sem varða heilbrigðiskerfið og skipulag heilbrigðisþjónustu. Í ár hef ég ákveðið að helga þennan árlega viðburð lýðheilsu og boða því til lýðheilsuþings 10. nóvember næstkomandi. Þar verður einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem við getum sjálf gert til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt verður fjallað um hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geta með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum.

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Stefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lýðheilsustefnu skulu stjórnvöld stuðla að því að landsmenn verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, m.a. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, svo sem á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Liður í því er að tryggja fólki greiðan aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum um þessi efni sem auðvelda hverjum og einum að stunda heilbrigðan lífsstíl og viðhalda heilsu sinni eða bæta hana.

Verkefnahópur vinnur nú að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og er gert ráð fyrir að nýta afrakstur lýðheilsuþingsins inn í þá vinnu. 

Heilsulæsi – lykill að árangri

Þótt öflugt heilbrigðiskerfi og góð heilbrigðisþjónusta skipti miklu fyrir heilsufar landsmanna eru ótalmargir aðrir þættir sem eru ráðandi um það hvort almenn lýðheilsa sé góð. Við tökum á hverjum degi ákvarðanir sem hafa áhrif á heilsu okkar, oft án þess að leiða hugann sérstaklega að því. Dæmi um þetta eru ákvarðanir og val sem snýr t.d. að mataræði og öðrum neysluvörum, hreyfingu, svefni, félagslegum samskiptum, ýmsum streituvaldandi þáttum og svo mætti áfram telja. Mikilvægt er að hver og einn þekki og skilji hvaða áhrif ólíkir valkostir geta haft á heilsuna. Það skiptir jafnframt miklu máli að fólk þekki hvaða líkamleg eða andleg einkenni geta falið í sér viðvörun um að bregðast þurfi við og breyta venjum eða leita hjálpar heilbrigðisstarfsfólks. Þekking og skilningur á þessum þáttum nefnist heilsulæsi en þar kemur þó margt fleira til sem fjallað verður um á lýðheilsuþinginu 10. nóvember. 

Þátttaka og skráning

Lýðheilsuþingið er öllum opið en ég hvet sérstaklega fulltrúa heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem láta sig málið varða, til að taka daginn frá. 

Lýðheilsuþingið 10. nóvember verður haldið á hótel Hilton Reykjavík Nordica kl. 8.30 – 16.30. Nánari upplýsingar eru á heilbrigdisthing.is og þar fer einnig fram skráning þátttöku. Einnig er minnt á facebooksíðu þingsins. Aðgangur er ókeypis.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Tilkynningin birtist fyrst á stjornarradid.is 21. október 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Vin í eyði­mörkinni

Deila grein

18/10/2022

Vin í eyði­mörkinni

Eitt mesta uppvaxtarskeiðið í sögu Hveragerðis er hafið sem ekkert lát virðist vera á. Fjölgunin kallar á uppbyggingu innviða og hefur byggingu nýs leikskóla í Kambalandi verið flýtt. Eins hefur tveggja áfanga viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði verið sameinuð í eina og er því markvisst unnið að hönnun þeirra byggingar. Með því náum við að bregðast við þeirri fólksfjölgun sem verið hefur. Einnig er það verkefni næstu mánaða að fylgja eftir ákvörðunum um uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja með það að markmiði að þjóna betur þörfum íþróttastarfsins og bæjarbúa.

Fram undan eru áframhaldandi útboð á lóðum í eigu sveitarfélagsins til að mæta eftirspurn og þörf um húsnæði. Einnig vinna einkaaðilar að byggingu húsnæðis, fjöldi íbúða verður byggður við Lindarbrún og þá eru áform um að byggð verði fjölbýlishús á Tívolíreitnum. Fjölbreytt húsnæði mun því verða í boði í Hveragerði allt frá minni íbúðum í einbýlishús og markmið ríkisstjórnar um að auka framboð og jafna stöðuna á markaði höfð til hliðsjónar.

Þeir innviðir sem í uppbyggingu eru verða til þess fallnir að anna þeirri fjölgun íbúa sem gert er ráð fyrir. Fram að því verður verkefnið að takast á við vaxtarverki. Meðal annars með því að bjóða upp á foreldragreiðslur til að mæta þeirri stöðu fái barn ekki vist á leikskóla 12 mánaða gamalt.

Það er ákaflega ánægjulegt að sjá og upplifa áhuga fólks á því að búa í sveitarfélaginu og þar með velja sér Hveragerði til búsetu. Meðalaldur íbúa hefur farið lækkandi, fleira og fleira fólk með ung börn sækir í Hveragerði enda fjölskylduvænn bær og hafa bæjaryfirvöld skýr markmið um að hlúa enn betur að fjölskyldufólki. Við íbúar erum þakklát fyrir þennan mikla áhuga og hlýju sem Hveragerði er sýndur enda bærinn umvafinn einstökum náttúruperlum sem og fjölbreytileika tengdum heilsu- og þjónustu þar sem frumkvöðlar fá sín notið. Kannski er þetta einmitt umhverfið sem dregur fram það allra besta enda Hveragerði sannkölluð vin í hugum margra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Konur í Framsókn!

Deila grein

18/10/2022

Konur í Framsókn!

Síðastliðinn laugardag var haldið 20. Landsþing Landssambands Framsóknarkvenna sem nú hefur fengið nýtt nafn Konur í Framsókn eftir lagabreytingartillögu, Berglindar Sunnu Bragadóttur, sem samþykkt var á þingingu. Fundarstjóri var kosinn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður og fundarritari,Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður LFK.

Fráfarandi formaður Linda Hrönn Þórssdóttir stiklaði á stóru um þriggja á ára formannstíð sína. Heimsfaraldur setti sinn mikla svip á það metnaðarfulla starf sem hafði verið skipulagt. Hún ræddi stöðu kvenna í heiminum eftir heimsfaraldur og vísaði í erlendar rannskóknir. Talaði um mikilvægi hreyfingar eins og Kvenna í Framsókn í þágu jafnréttismála og þátttöku kvenna í stjórnmálum. Án þátttöku kvenna í stjórnmálum verður jafnrétti aldrei raunverulega náð.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir og Linda Hrönn fóru yfir ársreikninga sambandsins í fjarveru gjaldkera.

Þá flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, ávarp og þakkaði grasrótinni fyrir velgengni í sveitarstjórnarkosningunum. Hann talaði einnig um mikilvægi baklandsins þegar nýliðar eru fyrsta sinn í stjórn og taka þarf á krefjandi málum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar talaði um mikivægi öflugs félags eins og Kvenna í Framsókn. Hún fór yfir stöðu kvenna í samfélaginu m.t.t. jákvæðrar þrjóunar á atvinnumarkaði sl. 35 ár. Að hér væri lagaumhverfi sem stuðli að þessum jákvæðu breytingum með lögum um kynjahlutföll í stjórnum t.d. Ekki síður mikilvægt að aðgengi að leikskólum sé gott og daggæslu sem gert var átak í á sínum tíma undir forystu Kvennalistans og Framsóknar.

Fjöldi kvenna stóð í pontu og tjáðu sig um sín áherslumál. Konur hvöttu aðrar konur til að taka pláss og láta í sér heyra. Leikskólamálin voru rædd, rasismi í samfélaginu, MeToo, staða kvenna þegar kemur að fæðingarorlofi, konur lengur heima því þær eru oftar launalægri. Einnig rætt að það hafi aldrei verið betra að vera kona í stjórnmálum en í dag. Þá var ný stjórn hvött til að taka upp stöðu kvenna í atvinnulífinu.

Nýr formaður var kosinn Guðveig Eyglóardóttir og sagði hún m.a. í framboðsræðu sinni að hennar köllun væri í dag að valdefla aðrar konur.

Þingið var öflugt í alla staði, lagðar fram kraftmiklar ályktanir og augljóst var á konum á þinginu að það var orðið tímabært að hittast. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og ráðherra bauð Konum í Framsókn í móttöku á vinnustofu Kjarvals að þingi loknu.

Ný stjórn er eftirfarandi:

Formaður: Guðveig Eyglóardóttir (NV)

Framkvæmdastjórn:

Berglind Sunna Bragadóttir (R)

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir (SV)

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir (S)

Unnur Þöll Benediktsdóttir (R)

Til vara:

Anna Karen Svövudóttir (SV)

Karítas Ríkharðsdóttir (R)

Landsstjórn (6 og 6 til vara)

Díana Hilmarsdóttir (S)

Fanný Gunnarsdóttir (R-N)

Linda Hrönn Þórisdóttir (SV)

Rakel Dögg Óskarsdóttir (R-S)

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir (NA)

Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir (NV)

Drífa Sigfúsdóttir (S)

Ingveldur Sæmundsdóttir (R)

Magnea Gná Jóhannsdóttir (R-N)

Pálína Margeirsdóttir (NA)

Ragnheiður Ingimundardóttir (NV)

Þórey Anna Matthíasdóttir (SV)

Skoðunarmenn reikninga (2)

Hildur Helga Gísladóttir (SV)

Þorbjörg Sólbjartsdóttir (SV)

Categories
Fréttir Uncategorized

Móðurmál – samtök um tvítyngi fá styrk

Deila grein

19/09/2022

Móðurmál – samtök um tvítyngi fá styrk

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur styrkt samtökin Móðurmál um 15 milljónir króna. Styrkurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna barna á flótta og barna af erlendum uppruna.

Móðurmál eru samtök um tvítyngi sem kenna móðurmál önnur en íslensku, styðja við og taka þátt í rannsóknum á virku tvítyngi í samfélaginu. Þau hafa boðið upp á kennslu fyrir fjöltyngd börn á yfir 20 tungumálum frá árinu 1994.

Óttarr Ólafur Proppé, stjórn Móðurmáls og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra

Fyrr í vikunni lauk mennta- og barnamálaráðuneytið úthlutun styrkja til sveitarfélaga vegna móttöku barna á flótta. Stuðningurinn var veittur tímabundið til að styðja við fjölbreytt tómstunda- og menntunarúrræði fyrir börnin og undirbúning skólastarfs í haust.

Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. september 2022.

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir Uncategorized

Um 9 milljarða kvikmyndaverkefni til Íslands

Deila grein

12/09/2022

Um 9 milljarða kvikmyndaverkefni til Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra leiddi sendinefnd á vegum Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á uppbyggingu skapandi greinum. Jafnframt er ítrekað í stefnu stjórnvalda að kvikmyndagerð geti orðið enn mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Ljóst er að tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Í því ljósi kynnti ráðherrann Ísland sem ákjósanlegan fjárfestingakost í skapandi greinum og fór yfir sterka stöðu landsins efnahagslega. Meðal umræðuefna á fundnum ráðherra með fyrirtækjunum voru tækifæri og áskoranir í kvikmyndagerð ásamt þeim tækifærum sem felast í skapandi greinum á Íslandi. Nýleg hækkun úr 25% í 35% á endurgreiðslu framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð, sem samþykkt var á Alþingi í vor, var kynnt fulltrúum fyrirtækjanna og geta Íslands til að takast á við stór kvikmyndaverkefni rædd.

Eitt af dótturfyrirtækjum Universal, HBO max, tilkynnti í sumar um að þáttaröðin True Detective verði tekin upp á Íslandi. Um er að ræða stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en umfang þess er áætlað um 9 milljarðar króna en tökur munu standa yfir í 9 mánuði.

,,Ég finn fyrir miklum meðbyr hér í Los Angeles með þeim aðgerðum sem við höfum verið að hrinda í framkvæmd á undanförnum misserum til þess að efla skapandi greinar á Íslandi. Verkefnið True Detective er stærsta erlenda fjárfesting á sviði menningar í Íslandssögunni. Með skýrri sýn og margþáttuðum aðgerðum er okkur að takast að gera landið okkar að mjög álitlegum samstarfskosti í heimi kvikmyndanna. Alþjóðleg kvikmyndafyrirtæki eru tilbúin til þess að fjárfesta í stærri verkefnum til lengri tíma en þau gerðu. Það er gríðarlegur sigur fyrir íslenska menningu og efnahagslíf og staðfesting þess að það sem stjórnvöld eru að gera skiptir máli,’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Þá veitti ráðherra miðlunum Deadline, The Location Guide og Hollywood Reporter viðtöl þar sem hún fór yfir sýn sína um að gera Ísland að skapandi miðstöð milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 11. september 2022.

Mynd: Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Categories
Fréttir Uncategorized

Kynnti Ísland sem vænlegan tökustað fyrir Netflix

Deila grein

07/09/2022

Kynnti Ísland sem vænlegan tökustað fyrir Netflix

Umgjörð kvikmyndagerðar á Íslandi og hækkaðar endurgreiðslur vegna kostnaðar í kvikmyndagerð voru ræddar á fundi Lilju D. Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra með fulltrúum Netflix í Los Angeles ásamt því að kynna sér starfsemi fyrirtækisins.

Á fundinum fór ráðherra meðal annars yfir nýsamþykktar breytingar á lögum um endurgreiðslur framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð sem fela í sér hækkun úr 25% í 35% að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Markmið breytinganna er að laða að stærri erlend kvikmyndaverkefni sem alfarið verða unnin á Íslandi.

Breytingarnar eru liður í Kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem kynnt var árið 2020 en ýmsum aðgerðum í stefnunni hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd, allt frá vegvísi um sjálfbærni í kvikmyndagerð til nýrrar kvikmyndadeildar við Listaháskóla Íslands.

,,Ég hef sterka sannfæringu fyrir mikilvægi þess að búa skapandi greinum hagfelld skilyrði á Íslandi og stjórnvöld eru á slíkri vegferð. Nýleg hækkun á endurgreiðsluhlutfalli mun auka alþjóðlega samkeppnishæfni landsins í kvikmyndaheiminum og hafa jákvæð margfeldisáhrif á íslenskt samfélag. Í kvikmyndagerð eru fjölmörg spennandi og vel launuð störf, sem skemmtilegt er að takast á við. Ísland hefur margt fram að færa á þessu sviði, góða innviði og mannauð ásamt stórbrotinni náttúru,’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Fundurinn er hluti af ferð ráðherra til Los Angeles sem skipulögð er af Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 7. september 2022.

Mynd: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

05/09/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Landstjórn Framsóknar samþykkti í vor að boða til haustfundar miðstjórnar í Norðvestur kjördæmi og var 12. – 13. nóvember fyrir valinu. Fundurinn verður haldinn í Edinborgarhúsinu og hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og stendur fram yfir hádegi á sunnudeginum. Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu.

Hægt verður að fá gistingu á Hótel Ísafirði og Holt Inn.

Hægt er að panta gistingu á Hótel Ísafirði með því að senda tölvupóst á  lobby@hotelisafjordur.is kóðinn er „fundur Framsóknar“. 

Til að bóka á Holt Inn senda tölvupóst á holtinn@holtinn.is „Framsókn“. 

Upplýsingar um gistinguna:

Hótel Ísafjörður:

•              tveggja manna herbergi 20.000.- m/morgunmat nóttin

•              eins manns herbergi 16.500 m/morgunmat nóttin

https://isafjordurhotels.is/

Holt Inn:

•              Um þrjár herbergistegundir er að ræða, verðin eru eftirfarandi með morgunmat: 15.173.-, 16.618.- og 19.508.- 

Við hvetjum fólk til að panta sem fyrst til þess að hægt sé að bregðast við ef tryggja þarf fleiri herbergi.

Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

Á haustfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. 

Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og

b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Fræðslu- og kynningarnefnd. 

Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins.

Málefnanefnd. 

Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.

Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.

Framsókn

Categories
Fréttir Uncategorized

Þingmenn Framsóknar í Norðaustur kjördæmi bjóða í kaffispjall

Deila grein

15/08/2022

Þingmenn Framsóknar í Norðaustur kjördæmi bjóða í kaffispjall