Categories
Greinar Sveitarstjórnarfólk

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Deila grein

07/02/2022

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Markvisst hefur verið unnið að því á kjörtímabilinu að halda álögum á íbúum í lágmarki og sérstaklega hefur verið horft til barnafjölskyldna með það að markmiði að létta þeim róðurinn. Það hefur tekist og er óumdeilt. Í upphafi kjörtímabils var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum hækkaður verulega og nýjum systkinaafslætti var komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Þar viljum við í Framsókn stíga enn frekari skref á næsta kjörtímabili og halda áfram á þeirri vegferð að lækka kostnað fjölskyldufólks með skynsamlegum hætti og um leið tryggja og treysta þjónustu við íbúa hér í bæ, unga sem aldna.

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er hafin

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er nú hafin víðs vegar um bæinn. Frá upphafi kjörtímabilsins hefur verið mikil uppbygging í Skarðshlíð og hefur kraftur uppbyggingarinnar aukist umtalsvert á undanförnu einu og hálfu ári. Íbúðir í Hamranesi, sem er okkar nýjasta byggingarland, eru nú byrjaðar að rísa en þar verða um 1700 íbúðir þegar hverfið verður að fullu byggt með öllum nauðsynlegum innviðum sem fylgja uppbyggingu nýrra hverfa.

Samhliða uppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum hefur þéttingu byggðar miðað vel áfram. Þar má nefna að framkvæmdir eru hafnar á Dvergsreitnum svokallaða, Hrauntungu, Stekkjarbergi og við Hjallabraut. Hús eru eru byrjuð að rísa á Dvergsreitnum, Hrauntungu og Stekkjarbergi og þá er jarðvegsvinna í fullum gangi við Hjallabraut. Lóðarhafar áætla að framkvæmdir hefjist nú á vormánuðum í Hraunum vestur-Gjótur, en þar liggur fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir 490 íbúðir auk verslunar og þjónustu. Deiliskipulag fyrir Ásland 4 hefur verið afgreitt úr skipulags- og byggingarráði, en þar má gera ráð fyrir um 500 íbúðum í heildina; mest sérbýli í bland við lítil fjölbýlishús.

Tækniskólinn, byggð við höfnina og miðbærinn

Það er ánægjulegt að segja frá því að mikil ásókn hefur verið í atvinnuhúsalóðir sem rokið hafa út á kjörtímabilinu. Þá hafa jafnframt stór og öflug fyrirtæki ákveðið að reisa höfuðstöðvar sínar í bæjarfélaginu, og má þar nefna fyrirtæki eins og Icelandair sem vinnur nú að því að flytja alla sína starfsemi til Hafnafjarðar. Það er ekkert launungarmál að slík fyrirtæki skila miklum tekjum til bæjarfélagsins, bæði beinum og óbeinum.

Nýr Tækniskóli mun rísa á Suðurhöfninni og ég vil leyfa mér að segja það hreint út að sá áfangi og sú ákvörðun sé ein sú stærsta á kjörtímabilinu. Hér er um að ræða gríðarstóra framkvæmd sem mun hafa jákvæð áhrif á bæjarfélagið allt; styrkja og styðja við miðbæinn okkar og þá starfsemi sem fyrir er. Framkvæmdin kemur einnig til með að efla og styðja enn frekar við þá miklu uppbyggingu sem fram undan er á Óseyrarsvæðinu og við Flensborgarhöfn.

Verkefni sem þessi eru af þeirri stærðargráðu að þau klárast ekki á einum degi, eða jafnvel á einu kjörtímabili. Hér er um að ræða samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélags og einkaaðila. Grunnurinn hefur hins vegar verið lagður og nú þarf að halda áfram veginn, vera með augun á boltanum eins og sagt er og fylgja málum vel eftir. Þetta er spennandi verkefni fyrir Hafnarfjörð og íbúa bæjarfélagsins.

Miðbærinn okkar mun einnig taka jákvæðum breytingum á næstu árum. Þar má nefna tvær samþykktar deiliskipulagstillögur, annars vegar stækkun Fjarðar og hins vegar reit 1 sem afmarkast af Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Tillögurnar gera það að verkum að verslunar- og veitingarrýmum mun fjölga umtalsvert í miðbænum á næstu árum, sem mun bæta við þá líflegu flóru verslana og veitingastaða sem fyrir eru í hjarta Hafnarfjarðar. Auk þess gera tillögurnar bæði ráð fyrir skynsamlegri blöndu hótelíbúða og nýrra íbúða. Allt ofangreint mun styðja við það sem fyrir er og gera miðbæ Hafnarfjarðar að enn eftirsóknarverðari stað til að sækja og reka verslun og þjónustu til framtíðar.

Snyrtilegur bær – átaksverkefni

Í upphafi síðasta sumars var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar var sérstaklega horft til uppsafnaðar fjárfestingaþarfar á endurnýjun gangstétta í eldri hverfum bæjarins auk nauðsynlegs frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru. Við sjáum það nú að þessum fjármunum var vel varið og átakið vel heppnað en merki þess sjást um allan bæ. Snyrtilegur og aðgengilegur bær fyrir alla á að vera okkar helsta keppikefli. Við þurfum að horfa heildstætt á þessi mál og tryggja að bærinn sé snyrtilegur og vel þrifinn; götur sópaðar, rusl tekið, grasblettir slegnir og götur mokaðar. Snyrtilegur og aðgengilegur bær er öruggur bær. Það er Hafnarfjörður og hann verður það áfram.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist á visir.is 5. febrúar 2022

Categories
Greinar

Staðið með menningu

Deila grein

01/02/2022

Staðið með menningu

Með hækkandi sól og skipulögðum skrefum til afléttingar sóttvarnaráðstafana sjáum við nú loks til lands í faraldrinum sem herjað hefur á heim allan í rúm 2 ár. Listamenn og menningarhús hafa svo sannarlega fundið fyrir högginu sem veiran hefur leitt af sér. Strax í upphafi faraldursins einsettu stjórnarflokkarnir sér að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins og það hafa mörg sveitarfélög einnig gert. Sérstök áhersla var lögð á listir og menningu enda er mikilvægi þeirra óumdeilt fyrir samfélagið.

Uppskeran er handan við hornið

Það má einnig reikna fastlega með því að framlag lista og menningar til andlegrar og efnahagslegrar viðspyrnu þjóðarinnar verði þýðingarmikið. Mannsandinn nærist meðal annars á menningu, að skemmta sér í góðra vina hópi, sækja tónleika, leiksýningar eða aðra menningarviðburði. Það styttist óðfluga í að samfélagið lifni við eins og við þekktum það fyrir heimsfaraldur. Uppskeran er handan við hornið og vel undirbyggð viðspyrnan fer að birtast okkur með tilheyrandi ánægju. Við horfum því björtum augum fram á veginn, sannfærð um að íslenskt menningarlíf fari að blómstra sem aldrei fyrr.

Nýjustu viðspyrnuaðgerðirnar, og væntanlega þær síðustu, undirstrika það. Með þeim var 450 milljónum króna varið til tónlistar og sviðslista sem hafa farið sérlega illa út úr heimsfaraldri með allt að 87% tekjufalli. Með aðgerðunum er okkar frábæru listamönnum skapað aukið rými til frumsköpunar, framleiðslu og viðburðahalds ásamt því að styðja þá til sóknar á erlenda markaði með listsköpun sína. Íslensk list og menning á mikið erindi á erlendri grundu. Það höfum við ítrekað séð á undanförnum árum, en íslenskir listamenn hafa margir gert það gott á erlendum mörkuðum. Kynningarverðmæti skapandi greina fyrir land og þjóð er óumdeilt og er mikil­væg­ur þátt­ur í alþjóðlegri markaðssetn­ingu Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og skapandi fólk. Við viljum halda áfram á þeirri braut.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar – og viðskiptaráðherra

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Í ólgusjó faraldurs

Deila grein

21/01/2022

Í ólgusjó faraldurs

Hver hefði trúað því að við stæðum enn í sama brimskaflinum nú í upphafi árs 2022 vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Undirritaður var fullur bjartsýni síðastliðið sumar þegar bólusetningar stóðu sem hæst, að nú væri þessari vegferð að ljúka. Því miður var sú ekki raunin. Við getum þó verið nokkuð bjartsýn að það fari að hylla undir lok faraldursins; veiran virðist vera að gefa eftir ef svo má segja. Sífellt færri veikjast og færri leggjast inn á spítala með alvarleg veikindi. Við getum vissulega einnig þakkað bólusetningum fyrir þessa góðu stöðu.

Erfið staða

Veitingaaðilar hafa staðið frammi fyrir mjög erfiðri stöðu undanfarin tvö ár. Þrátt fyrir það þá held ég að ekki nokkrum manni hafi dottið það í hug eða ætlast til þess yfir höfuð að fá allt tekjutap þessa tímabils að fullu bætt. Hins vegar er staðan þannig að mörgum fyrirtækjum í þessum atvinnugeira hefur blætt verulega þetta tímabil og eigið fé að verða uppurið og jafnvel gengið á sparifé eigenda margra fyrirtækja vegna íþyngjandi aðgerða sem hafa komið hart niður á þeim. Fyrirtækin finna verulega fyrir takmörkunum sem í gildi hafa verið en á bak við þau, eins og önnur fyrirtæki í landinu, eru einstaklingar og fjölskyldur með allar sínar skuldbindingar og mörg hver lagt allt undir til að halda rekstrinum gangandi. Þetta á vissulega við um margar aðrar atvinnugreinar í gegnum faraldurinn.

Við munum koma til móts við þessa atvinnugrein og ákveðið hefur verið að grípa til sérstakra aðgerða til þess að mæta fyrirtækjum í veitingarþjónustu. Þessar aðgerðir fela meðal annars í sér heimild til þess að fresta staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds og framlengja umsóknarfrest vegna almennra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021. Nú eru komnar fram frekari tillögur og ég fagna þeim, því það er mikilvægt að við bregðumst hratt og örugglega við.

Styrkur til veitingastaða

Fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Þar er lagt til að rekstraraðilar veitingastaða með vínveitingaleyfi sem hafa þurft að sæta skerðingu á opnunartíma og hafa orðið fyrir minnst 20% tekjufalli í almanaksmánuði frá desember 2021 til mars 2022 vegna takmarkananna geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu. Lagt er til að styrkurinn geti numið 90% af rekstrarkostnaði þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Samanlagðir styrkir til einstakara rekstraraðila geta orðið 10 til 12 millj. kr. Efnahags- og viðskiptanefnd er nú með málið til umfjöllunar og mun rýna allar útfærslur vel. Það er hins vegar staðföst trú mín að frumvarpið sé gott, en um leið og brýnt er að bregðast hratt við, þarf að vanda þarf vel til verka.

Með hækkandi sól

Við þurfum að komast í gegnum þetta saman, ég mun reyna að leggja mitt af mörkum með að kalla eftir úrræðum og greiða leið þeirra í gegnum þingið. Ég ber þá von í brjósti mér að þetta verði síðasti veturinn sem við þurfum að grípa til úrræða vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Það er janúar, febrúar handan við hornið og áður en við vitum sitjum við í sólinni og tökum fagnandi á móti bjartari tímum.

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður fyrir Framsókn og 1. varaformaður Efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2022.

Categories
Greinar

Sátt­máli fram­fara og vaxtar

Deila grein

08/12/2021

Sátt­máli fram­fara og vaxtar

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er ítarlegur og vel gerður. Hann vísar leiðina fram veginn og einkennist af bjartsýni varðandi þau tækifæri sem til staðar eru og bjartsýni um að við getum áfram bætt samfélagið og lagfært það sem þarf að laga. Stefna og áherslumál Framsóknar skína í gegn, en sáttmálinn byggir á skynsömum lausnum, jafnrétti og á því að einstaklingurinn sé ávallt hjartað í kerfinu. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar og framfara. Auka þarf verðmætasköpun og gefa fyrirtækjum nauðsynlegt svigrúm til að sækja fram, fjárfesta í tækjum og tólum til að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk til starfa að nýju. Slíkt treystir ríkisfjármálin á ný og gefur okkur sem þjóð tækifæri til að vaxa og dafna til frekari velsældar.

Einstaklingurinn er hjartað í kerfinu

Við stöndum frammi fyrir mjög stórri áskorun, þeirri að þjóðin er að eldast. Stóra verkefnið er því áhersla á lýðheilsu með það að markmiði að fólk eigi betra líf á efri árum og sé minna háð þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Einnig er það ánægjulegt að auka skuli sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera, en slíkt stuðlar að því að fólk verði lengur virkir þátttakendur í samfélaginu og á vinnumarkaði. Auk þess er það skref í rétta átt að frítekjumark atvinnutekna verði tvöfaldað um næstu áramót.

Ég fagna því sérstaklega að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur, en samhliða því er mikilvægt að virkt samtal eigi sér stað milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun málaflokksins og að nauðsynlegt fjármagn fari á rétta staði. Sveitarfélög vilja þjónusta íbúa vel, en það sem hefur gerst við tilfærslu stórra málaflokka frá ríki til sveitarfélaga er að þjónustan hefur færst nær fólkinu, hún aukist og orðið betri. Það hefur falið í sér umtalsverðan kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum. Ráðist verður í vinnu við að bæta stöðu langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra með nýju fyrirkomulagi umönnunarstyrks og umönnunargreiðslna, ásamt því að foreldrum sem missa barn verður tryggt sorgarleyfi. Einnig er rétt að nefna að áfram verður unnið að því mikilvæga verkefni í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu.

16,3 milljarða aukning til heilbrigðismála

Tækifæri eru til framsóknar í heilbrigðismálum og ánægjulegt er að framlög til málaflokksins séu að hækka um 16,3 milljarða. Um leið og fjármagn er aukið, er einnig svigrúm til að nýta fjármuni betur. Heilbrigðiskerfið á að veita fólki þá þjónustu sem það þarf og gera það innan skilgreinds biðtíma. Geðheilbrigðismál þurfa að vera í forgangi á kjörtímabilinu en ýmis jákvæð teikn eru á lofti sé tekið mið af markmiðum ríkisstjórnarinnar. Því þarf að fylgja eftir.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2021.

Categories
Greinar

Skipulagsmál og Tækniskólinn til Hafnarfjarðar

Deila grein

02/12/2021

Skipulagsmál og Tækniskólinn til Hafnarfjarðar

Stjórn­arsátt­máli nýrr­ar rík­is­stjórn­ar er ít­ar­leg­ur og vel gerður. Hann vís­ar leiðina fram veg­inn og ein­kenn­ist af bjart­sýni varðandi þau tæki­færi sem til staðar eru og bjart­sýni um að við get­um áfram bætt sam­fé­lagið og lag­fært það sem þarf að laga. Það er ein­læg skoðun mín að eitt­hvert besta skref til auk­inn­ar skil­virkni í kerf­inu hafi verið tekið með ákvörðun um sér­stakt innviðaráðuneyti. Það er al­gjör­lega ljóst að samþætta þarf skipu­lags­mál sveit­ar­fé­laga til að fá betri yf­ir­sýn yfir upp­bygg­ingu hús­næðis í nútíð og framtíð og annarra þátta; svo sem vega­fram­kvæmda. Mik­il­vægt er að gera nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar á starf­semi Skipu­lags­stofn­un­ar til að auka skil­virkni í fram­kvæmd­um öll­um, en í mín­um huga hef­ur sú stofn­un staðið brýnni upp­bygg­inu veru­lega fyr­ir þrif­um á und­an­förn­um árum og mætti lík­lega með réttu nefna Tafar­stofn­un rík­is­ins. Ánægju­legt er að sjá áherslu á styrk­ingu iðn- og verk­náms um land allt koma fram með skýr­um hætti í stjórn­arsátt­mál­an­um og að Tækni­skól­inn skuli byggður í Hafnar­f­irði í sam­ræmi við þá vilja­yf­ir­lýs­ingu sem und­ir­rituð var nú í sum­ar.

Kvik­mynd­ir og græn at­vinnu­upp­bygg­ing

Það var ánægju­legt að sjá frétt­ir af því að ný­lega hefði ráðherr­um borist bréf frá streym­isveit­unni HBO þar sem lýst var yfir áhuga á því að taka upp að fullu upp stór verk­efni hér á landi ef kosn­ing­ar­loforð Fram­sókn­ar um hækk­un end­ur­greiðslu­hlut­falls á sjón­varps- og kvik­mynda­verk­efni myndu ná fram á ganga. Enn ánægju­legra var að sjá það koma skýrt fram í stjórn­arsátt­mál­an­um að alþjóðlega sam­keppn­is­hæft stuðnings­kerfi sjón­varps- og kvik­mynda­efn­is yrði eflt enn frek­ar.

Rík­is­stjórn­in legg­ur ríka áherslu á að hraða orku­skipt­um og set­ur það fram með skýr­um hætti. Mark­miðið er að Ísland nái kol­efn­is­hlut­leysi og full­um orku­skipt­um eigi síðar en árið 2040 og verði óháð jarðefna­eldsneyti fyrst ríkja. Eigi þessi metnaðarfullu og góðu mark­mið að nást, er nauðsyn­legt að skapa sátt um nýj­ar virkj­an­ir sem byggja munu upp grænt og kol­efn­is­hlut­laust sam­fé­lag. Lokið verður við þriðja áfanga ramm­a­áætl­un­ar og kost­um í biðflokki verður fjölgað til að bregðast við þeim áskor­un­um sem fram und­an eru. Sér­stök lög verða sett um nýt­ingu vindorku með það að mark­miði að ein­falda upp­bygg­ingu vindorku­vera. Þetta eru góð skref og mik­il­væg.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. desember 2021.

Categories
Greinar

Fyrir at­vinnu­lífið, fyrir fólkið

Deila grein

22/09/2021

Fyrir at­vinnu­lífið, fyrir fólkið

Framsókn vann þetta kjörtímabil í anda samvinnu og skynsamlegra lausna, og við þurfum að halda því áfram á næsta kjörtímabili. Við þurfum að halda áfram að fjárfesta í fólki og búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk til vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs.

Svona vinnum við

Hér í Hafnarfirði sjáum við hversu mikilvægt öflugt og gott atvinnulíf er fyrir samfélagið okkar. Í upphafi þessa kjörtímabils var álagningastuðull fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði lækkaður úr 1,57% í 1,40%, og var það liður í því að létta undir með atvinnulífinu hér í bæ og skapa því aðlaðandi starfsumhverfi, bæði fyrir rótgróin og traust fyrirtæki sem og nýja aðila sem hingað vilja koma. Fyrirtækjum hefur fjölgað og iðnaðarhverfi Hafnarfjarðar byggjast hratt upp.

Auk þess að styðja vel við atvinnulífið var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum aukinn til muna og nýjum systkinaafslætti komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Aukinn systkinaafsláttur og hærri frístundastyrkur dregur úr útgjöldum barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er kærkomin kjarabót fyrir barnmargar fjölskyldur. Allt er þetta í takt við fjölskylduvænar áherslur og að fjárfesta í fólki. Það er nefnilega skynsamlegt að búa fyrirtækjum traust umhverfi og um leið að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera. Við í Framsókn vinnum í skynsömum lausnum sem þessum. Lausnir og framfarir sem fólk finnur fyrir.

Við viljum halda áfram

Við í Framsókn viljum halda áfram á þessari vegferð þar sem fjárfest er í fólki og atvinnulífinu. Þetta hefur flokkurinn gert í sveitarstjórnarmálum og á Alþingi í áratugi. Flokkurinn hefur boðað áherslur í þágu eldra fólks, lítilla- og meðalstórra fyrirtækja, barnafólks o.fl. Við náum ekki árangri með öfgafullum leiðum til vinstri eða hægri. Framsókn hefur náð árangri í fjölda ára með skynsömum lausnum á miðjunni. Framtíðin ræðst einmitt á miðjunni, og þar viljum við vera.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. september 2021.

Categories
Greinar

Vaxtarstyrkur fyrir þitt barn

Deila grein

08/09/2021

Vaxtarstyrkur fyrir þitt barn

Fjölbreytt og gott íþrótta- og tómstundastarf er okkur flestum tiltölulega aðgengilegt hér á landi. Það er eitthvað sem við sem samfélag getum státað okkur af og það sem meira er, þá getum við verið nokkuð stolt af því. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að kostir þess að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf eru óumdeilanlegir. Slíkt starf hefur jákvæð áhrif á félagsfærni barna, þroska þeirra sem og á andlega og líkamlega heilsu. Það á við hvort sem þau æfa boltaíþróttir, fimleika, júdó, skák, á fiðlu, rafíþróttir eða hvað annað. Það er mikilvægt að virkja börn til þátttöku í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi og um leið að tryggja tækifæri allra til að njóta góðs af því.

Jöfn tækifæri barna til að blómstra

Ríki og sveitarfélög hafa átt gott samstarf og unnið hefur verið náið með íþrótta- og tómstundahreyfingum landsins að lækkun greiðslubyrði fjölskyldna vegna þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Við getum þó enn gert betur. Fyrir margar fjölskyldur er það þungur róður að standa straum af kostnaði við þátttöku barna sinna í slíku starfi. Sérstaklega getur borið á þeirri stöðu nú í kjölfar áhrifa COVID-19 á efnahag og vinnumarkaðinn hér á landi.

Slík staða getur verið öllum erfið og ósanngjörn; sérstaklega gagnvart börnum. Við viljum tryggja jöfn tækifæri allra barna til að blómstra í þeirri íþrótt eða þeirri tómstund sem höfðar til þeirra og þau finna sig í óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Mörg sveitarfélög niðurgreiða þátttöku í íþróttum eða tómstundum í formi frístundastyrks. Það hefur vissulega leitt til þess að aukning iðkenda hefur orðið í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þeirra sveitarfélaga. Hins vegar eru enn fjölskyldur sem sjá sig ekki fjárhagslega færa til að greiða fyrir íþrótta- og tómstundiðkun barna sinna og úr því þarf að bæta.

Launsin liggur í vaxtarstyrk Framsóknar

Við í Framsókn viljum létta enn frekar undir með barnafjölskyldum og tryggja það að öll börn njóti góðs af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi með því að tryggja hverju barni 60 þúsund króna árlegan vaxtarstyrk. Sem dæmi myndi þriggja barna fjölskylda fá 180 þúsund króna vaxtarstyrk árlega og er það til viðbótar við þann frístundastyrk sem sveitarfélög bjóða upp á. Léttum lífið og fjárfestum í fólki.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og skipar 2. sætið á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. september 2021.

Categories
Greinar

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Deila grein

02/09/2021

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Ýmsir flokkar, sem ég myndi leyfa mér að kalla eins máls- eða eins manns flokka, hafa oftar en ekki haft uppi stór orð varðandi störf ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Ýmist kallað hana kyrrstöðustjórn, stjórn þriggja Framsóknarflokka (sem ég reyndar kann nokkuð vel við) eða stólastjórnina. Orðræðan hefur verið á þann veg að myndun þessarar ríkisstjórnar hafi ekki snúist um annað en völd og stóla og samstöðu um engar breytingar. Í þessu sambandi leyfi ég mér sérstaklega að nefna Evrópusambandsflokkinn, Viðreisn og flokk Sigmundar Davíðs, Miðflokkinn.

Leikurinn

Að þessu sögðu, þá ákvað ég að setjast niður og rýna nokkuð gaumgæfulega í afrekaskrá stjórnvalda á þessu kjörtímabili og útbúa lítinn spurningaleik fyrir alla; sem þó er ekki tæmandi fyrir þann árangur sem náðst hefur. Nú mæli ég með því að þú, ágæti lesandi, sækir blað og penna og merkir X fyrir framan þann bókstaf sem þú telur geyma rétta svarið. Líkt og í knattspyrnunni eru 3 stig í boði fyrir hvert rétt svar, í heildina heil 18 stig. Gangi þér vel.

Spurning #1

Fæðingarorlof í heilt ár. Hvaða flokkur lengdi fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækkaði greiðsluhámark úr 370 þúsund krónum í 600 þúsund krónur?

__A Viðreisn 

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #2

Auðveldari fyrstu íbúðakaup. Hvaða flokkur innleiddi sérstök hlutdeildarlán (einungis 5% útborgun), sem nýja leið fyrir ungt fólk og tekjuminni, til að eignast þak yfir höfuðið?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #3

Nýr menntasjóður. Hvaða flokkur setti á fót nýjan menntasjóð sem er með hærri framfærslu, möguleika á 30 % niðurfellingu höfuðstóls, val um óverðtryggð lán og beinan fjárstuðning við foreldra í námi?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #4

Loftbrúin brúar bilið. Hvaða flokkur innleiddi sérstaka Loftbrú (40% afsláttur af flugfargjaldi þrisvar sinnum á ári); aðgerð til að brúa bilið milli þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa næst þjónustunni sem þar er að finna?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #5

Bylting í málefnum barna. Hvaða flokki tókst að skapa breiða sátt um byltingu í málefnum barna, sem síðar skilaði sér í tímamótalöggjöf vorið 2021 sem tryggir að barnið sé hjartað í kerfinu?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #6

Samgöngusáttmálinn. Hvaða flokki tókst að rjúfa áratuga kyrrstöðu í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu með samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga sem þar eru?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Höldum áfram að fjárfesta í fólki

Leikinn væri hægt að lengja umtalsvert en látum þetta duga í bili enda einungis til gamans gert. Hér má sjá, svo ekki verði um villst, að áherslur Framsóknar á kjörtímabilinu og í ólgusjó Covid, hafa verið að fjárfesta í fólki og innviðum í íslensku samfélagi. Engin kyrrstaða, bara framfarir. Ég vona að þér hafi gengið vel í leiknum og sért með fullt hús stiga. Rétt svar var X fyrir framan B í öllum tilfellum. Ég vil meina að það sé líka hið eina rétta svar á kjördag, þann 25. september næstkomandi. Nú sem fyrr er mikilvægt að halda áfram á veg samvinnu og skynsamlegra lausna. Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Ágúst Bjarni Garðsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Á næsta kjörtímabili

Deila grein

23/08/2021

Á næsta kjörtímabili

Á engu hafði ég eins mikla óbeit þegar ég æfði íþróttir á yngri árum og útihlaupum. Tilbreytingalaus og langdregin og enginn fótbolti. Virtust allt að því tilgangslaus. Því var það einn góðan veðurdag að ég mannaði mig upp í að ræða þetta mál við þjálfarann. Fá einhverja umræðu um þessa afstöðu mína og botn í málið. Svarið sem barnið fékk var snjallt og þurrkaði út allar efasemdir mínar á augabragði; „Ágúst, ef þú getur bent mér á smið sem byggir hús án þess að byrja á grunninum, þá máttu endilega biðja hann um að hafa samband við mig.“ Þetta virkaði mjög hvetjandi á mig og steinlá hjá þjálfaranum, efasemdir mínar þurrkuðust út í einni svipan. Sýn þjálfarans var rökrétt og eðlileg, sá sem hefur úthaldið í hlaupin byggir tæknina ofan á það, en sá sem ekki getur hlaupið á kannski ekki mikið erindi í boltann.

En úr æskuminningum yfir í raunveruleikann. Verkefni stjórnvalda á næsta kjörtímabili verður einmitt þetta, svolítið langhlaup til að byrja með. Við þurfum að halda áfram að treysta þá innviði sem markvisst hafa verið byggðir upp á kjörtímabilinu; og má þar helst nefna stórátak í samgöngumálum vítt og breitt um landið. Á öðrum sviðum þarf að lyfta grettistaki, líkt og í heilbrigðismálum. Það þarf að búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk í vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs.

Einstaka menn telja að þetta verði best gert með því að veðja á þjóðfélagsgerð sem víða um heim er hruninn með ómældum hörmungum fyrir þegnana. Það skal fullyrt að boðberar hennar eru á villigötum. Framleiðslutæki þjóðfélaga verða ekki þjóðnýtt, þjóðinni til heilla, heldur yrði það þvert á móti okkar sameiginlega hörmung. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs. Það kann vissulega að vera að einhverjir vilji nú prófa úrelt og mannskemmandi fyrirkomulag, svona beint ofan í COVID-19. En frá mínum bæjardyrum séð, held ég að sú aðferðafærði sé fullreynd og alger óþarfi að taka þá áhættu. Við þurfum að halda áfram án öfga til hægri eða vinstri og með skynsemina á lofti. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Styðjum áfram öflugt íþrótta- og frístundastarf

Deila grein

06/08/2021

Styðjum áfram öflugt íþrótta- og frístundastarf

Þátttaka í íþróttum eða öðrum tómstundum hefur almennt reynst einstaklingum til góða m.t.t. heilsu, félagslífs og annarra þátta sem bæta lífsgæði. Vegna þessa er mikil áhersla lögð á að einstaklingar hafi tækifæri til að taka þátt í íþróttum eða öðrum tómstundum. Þetta á sérstaklega við um börn og unglinga, en það hefur góð áhrif á þroska þeirra og heilsu að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Það á við hvort sem þau æfa boltaíþróttir, fimleika, júdó, skák, á fiðlu, rafíþróttir eða hvað annað. Því er mikilvægt að ná að virkja börn og tryggja um leið jöfn tækifæri allra til slíkrar þátttöku, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Slíkt stuðlar auk þess að aukinni hreyfingu, bættri lýðheilsu og tryggir enn frekar fjölbreytta tómstundaiðkun hér á landi.

Frístundastyrkur

Meðal þeirra aðgerða sem komið hafa til framkvæmda er sérstakur íþrótta- og frístundastyrkur til tekjulágra heimila. Styrkurinn er veittur til barna innan sveitarfélags til niðurgreiðslu eða fullri greiðslu á skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Börn og unglingar, sem hefðu mögulega ekki getað stundað þá tómstund sem þau hafa áhuga á vegna efnahags eða félagslegra aðstæðna, hafa nú aukin tækifæri með þessari góðu aðgerð.

Styrkurinn hefur reynst árangursríkur og við höfum séð góðar niðurstöður í sveitarfélögum eins og Hafnarfirði og Kópavogi varðandi þátttöku barna og unglinga í skipulögðu starfi. Sem dæmi um þetta má nefna nýjustu tölur í Hafnarfirði, en þar var frístundastyrkurinn hækkaður nýlega, aldursviðmið hækkuð og reglur um notkun hans rýmkaðar. Tölurnar segja okkur að börnum og unglingum sem iðka íþrótt eða tómstund og nota frístundastyrkinn hefur farið fjölgandi. Meirihluti barna og unglinga í bænum iðka einhverja skipulagða íþrótt eða tómstund. Þetta er jákvæð þróun, styrkir einstaklinginn og samfélagið í heild.

Tækifæri eldri borgara

Kostirnir við iðkun íþrótta eða tómstundar takmarkast þó ekki við börn og ungmenni. Sveitarfélög hafa horft á jákvæð áhrif frístundastyrksins á lýðheilsu. Þá hefur einnig verið horft til eldri borgara í því samhengi, en frístundaiðkun getur leitt til verulegra félagslegra og heilsufarslegra hagsbóta þess hóps einnig. Þarna liggja tækifæri til bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Þess má geta að Hafnafjörður er fyrsta sveitarfélagið hér á landi til að bjóða eldri borgurum frístundastyrk. Mikil ánægja hefur verið með styrkinn, hann vel nýttur og hefur haft jákvæð áhrif á heilsueflingu eldra fólks.

Nú eru tækifæri til að halda áfram, þróa og styðja enn betur við öflugt skipulagt íþrótta- og frístundastarf. Áfram veginn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. ágúst 2021.