Categories
Greinar

Á næsta kjörtímabili

Deila grein

23/08/2021

Á næsta kjörtímabili

Á engu hafði ég eins mikla óbeit þegar ég æfði íþróttir á yngri árum og útihlaupum. Tilbreytingalaus og langdregin og enginn fótbolti. Virtust allt að því tilgangslaus. Því var það einn góðan veðurdag að ég mannaði mig upp í að ræða þetta mál við þjálfarann. Fá einhverja umræðu um þessa afstöðu mína og botn í málið. Svarið sem barnið fékk var snjallt og þurrkaði út allar efasemdir mínar á augabragði; „Ágúst, ef þú getur bent mér á smið sem byggir hús án þess að byrja á grunninum, þá máttu endilega biðja hann um að hafa samband við mig.“ Þetta virkaði mjög hvetjandi á mig og steinlá hjá þjálfaranum, efasemdir mínar þurrkuðust út í einni svipan. Sýn þjálfarans var rökrétt og eðlileg, sá sem hefur úthaldið í hlaupin byggir tæknina ofan á það, en sá sem ekki getur hlaupið á kannski ekki mikið erindi í boltann.

En úr æskuminningum yfir í raunveruleikann. Verkefni stjórnvalda á næsta kjörtímabili verður einmitt þetta, svolítið langhlaup til að byrja með. Við þurfum að halda áfram að treysta þá innviði sem markvisst hafa verið byggðir upp á kjörtímabilinu; og má þar helst nefna stórátak í samgöngumálum vítt og breitt um landið. Á öðrum sviðum þarf að lyfta grettistaki, líkt og í heilbrigðismálum. Það þarf að búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk í vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs.

Einstaka menn telja að þetta verði best gert með því að veðja á þjóðfélagsgerð sem víða um heim er hruninn með ómældum hörmungum fyrir þegnana. Það skal fullyrt að boðberar hennar eru á villigötum. Framleiðslutæki þjóðfélaga verða ekki þjóðnýtt, þjóðinni til heilla, heldur yrði það þvert á móti okkar sameiginlega hörmung. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs. Það kann vissulega að vera að einhverjir vilji nú prófa úrelt og mannskemmandi fyrirkomulag, svona beint ofan í COVID-19. En frá mínum bæjardyrum séð, held ég að sú aðferðafærði sé fullreynd og alger óþarfi að taka þá áhættu. Við þurfum að halda áfram án öfga til hægri eða vinstri og með skynsemina á lofti. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Styðjum áfram öflugt íþrótta- og frístundastarf

Deila grein

06/08/2021

Styðjum áfram öflugt íþrótta- og frístundastarf

Þátttaka í íþróttum eða öðrum tómstundum hefur almennt reynst einstaklingum til góða m.t.t. heilsu, félagslífs og annarra þátta sem bæta lífsgæði. Vegna þessa er mikil áhersla lögð á að einstaklingar hafi tækifæri til að taka þátt í íþróttum eða öðrum tómstundum. Þetta á sérstaklega við um börn og unglinga, en það hefur góð áhrif á þroska þeirra og heilsu að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Það á við hvort sem þau æfa boltaíþróttir, fimleika, júdó, skák, á fiðlu, rafíþróttir eða hvað annað. Því er mikilvægt að ná að virkja börn og tryggja um leið jöfn tækifæri allra til slíkrar þátttöku, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Slíkt stuðlar auk þess að aukinni hreyfingu, bættri lýðheilsu og tryggir enn frekar fjölbreytta tómstundaiðkun hér á landi.

Frístundastyrkur

Meðal þeirra aðgerða sem komið hafa til framkvæmda er sérstakur íþrótta- og frístundastyrkur til tekjulágra heimila. Styrkurinn er veittur til barna innan sveitarfélags til niðurgreiðslu eða fullri greiðslu á skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Börn og unglingar, sem hefðu mögulega ekki getað stundað þá tómstund sem þau hafa áhuga á vegna efnahags eða félagslegra aðstæðna, hafa nú aukin tækifæri með þessari góðu aðgerð.

Styrkurinn hefur reynst árangursríkur og við höfum séð góðar niðurstöður í sveitarfélögum eins og Hafnarfirði og Kópavogi varðandi þátttöku barna og unglinga í skipulögðu starfi. Sem dæmi um þetta má nefna nýjustu tölur í Hafnarfirði, en þar var frístundastyrkurinn hækkaður nýlega, aldursviðmið hækkuð og reglur um notkun hans rýmkaðar. Tölurnar segja okkur að börnum og unglingum sem iðka íþrótt eða tómstund og nota frístundastyrkinn hefur farið fjölgandi. Meirihluti barna og unglinga í bænum iðka einhverja skipulagða íþrótt eða tómstund. Þetta er jákvæð þróun, styrkir einstaklinginn og samfélagið í heild.

Tækifæri eldri borgara

Kostirnir við iðkun íþrótta eða tómstundar takmarkast þó ekki við börn og ungmenni. Sveitarfélög hafa horft á jákvæð áhrif frístundastyrksins á lýðheilsu. Þá hefur einnig verið horft til eldri borgara í því samhengi, en frístundaiðkun getur leitt til verulegra félagslegra og heilsufarslegra hagsbóta þess hóps einnig. Þarna liggja tækifæri til bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Þess má geta að Hafnafjörður er fyrsta sveitarfélagið hér á landi til að bjóða eldri borgurum frístundastyrk. Mikil ánægja hefur verið með styrkinn, hann vel nýttur og hefur haft jákvæð áhrif á heilsueflingu eldra fólks.

Nú eru tækifæri til að halda áfram, þróa og styðja enn betur við öflugt skipulagt íþrótta- og frístundastarf. Áfram veginn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Deila grein

08/06/2021

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Í lok maí samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar áframhaldandi aðgerðir vegna Covid19 sem eru til þess fallnar að styðja enn frekar við íbúa og atvinnulíf í bæjarfélaginu. Aðgerðirnar eru aukin fjárframlög til fjölgunar starfa, til innviðauppbyggingar og til sérstakra menningarviðburða sumarið 2021.

Það birtir til

Það er sérstaklega gleðilegt að sjá hve vel okkur gengur að bólusetja hér á landi. Við erum farin að sjá vel í ljósið við enda ganganna og líf okkar færist því samhliða hægt og bítandi í rétt horf. Verkefni okkar og viðfangsefni verða þó áfram krefjandi. Það mun taka tíma að vinna úr efnahagslegum afleiðingum faraldursins; minni umsvifum fyrirtækja, auknu atvinnuleysi og minni tekjum í samfélaginu. Þó verður að hafa það í huga að tímabundnar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa heppnast vel og mýkt höggið. Rauði þráðurinn í allri okkar vinnu hér í Hafnarfirði í gegnum faraldurinn hefur verið að halda uppi og tryggja góða og trausta þjónustu við íbúa ásamt því að viðhalda nauðsynlegu framkvæmdastigi.

Aukin framlög til sumarstarfa ungmenna

Samþykkt hefur verið að auka fjármagn um 250 milljónir króna í tímabundin störf. Sérstaklega mikilvægt er að tryggja þátttöku ungs fólks í vinnu og byggja upp fjölbreytta reynslu. Þessi mikla aukning verður til þess að hægt verður að fjölga störfum verulega, en í ár er gert ráð fyrir að störfum muni fjölga um 100 frá því í fyrra og verði þá um 200 störfum fleiri en eru á venjulegu ári. Störfin verða á vegum bæjarins þar sem boðið verður upp á fleiri störf í vinnuskóla, auk myndarlegrar þátttöku í atvinnuátaki stjórnvalda. Þar er boðið upp á sumarstörf fyrir námsmenn og tímabundin störf fyrir fólk í atvinnuleit. Hér er um að ræða fjölbreytt og spennandi störf og verður nýsköpunarstofan, sem sett var upp í Menntasetrinu við Lækinn síðasta sumar, m.a. nýtt.

Kröftug innspýting til framkvæmda og stuðningur við öflugt menningarlíf

Samhliða fjölgun starfa var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar má nefna mikla þörf í endurnýjun gangstétta í eldri hverfum auk frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru, nauðsynlegt viðhald á skólalóðum og endurnýjun stíga og rafmagns í Hellisgerði. Faraldurinn hefur auk þess haft veruleg áhrif á allt menningarlíf og viðburðarhald undanfarna mánuði. Því hefur verið ákveðið að bæta við 5 milljónum króna til sérstakra menningarviðburða í Hafnarfirði sumarið 2021. Þar, líkt og annars staðar í samfélaginu, er nú að rofa til og ég segi að við getum farið að leyfa okkur að hlakka til hinna ýmsu viðburða. Nú stendur yfir bæjarhátíðin Bjartir dagar og mun hún standa yfir í allt sumar þar sem reynt verður að endurspegla allt það fjölbreytta menningarlíf sem til staðar er í Hafnarfirði. Auk þess styttist óðum í Hjarta Hafnarfjarðar, hátíð sem forsvarsmenn Bæjarbíós halda í góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Hjarta Hafnarfjarðar hefst með glæsilegri dagskrá þann 7. júlí næstkomandi.

Það er bjart framundan. Förum varlega, virðum gildandi reglur en leyfum okkur að hlakka til komandi tíma. Við þurfum á því að halda.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Hlut­deildar­lán auð­velda ein­stak­lingum að eignast sína fyrstu íbúð

Deila grein

19/10/2020

Hlut­deildar­lán auð­velda ein­stak­lingum að eignast sína fyrstu íbúð

Frumvarp félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán, sem samþykkt var á Alþingi í byrjun september, mun auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hér er um að ræða mikilvæga aðgerð í því verkefni að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á íbúðamarkaðinn. Hlutdeildarlánin eru ólík þeim hefðbundnu fasteignalánum sem við flest þekkjum, að því leyti að nú lánar ríkið ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem tekju- og eignalitlir fyrstu kaupendur hyggjast kaupa. Lántakendur munu síðan endurgreiða lánið þegar íbúðin er seld og er hámarkstími lánanna 25 ár. Lánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og mun hækka og lækka í samræmi við þá þróun.

Hafnarfjörður hefur strax brugðist við

Nokkur umræða hefur skapast um ströng skilyrði varðandi verð og stærð íbúða. Í umræðunni hafa skapast áhyggjur af því að vegna markaðsaðstæðna muni fáar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið. Nýlega var tekin skóflustunga fyrir 65 nýjar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi. Ráðherra hefur sagt það skýrt að bæði sveitarfélög og verktakar þurfi að bregðast við frumvarpinu um hlutdeildarlán með auknu framboði lóða og íbúða. Við finnum strax fyrir því að framsýnir verktakar hafa brugðist við með mjög jákvæðum hætti og það sama gildir um skipulagsyfirvöld hér í Hafnarfirði. Nú þegar hefur verið samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að ráðast í aðalskipulagsbreytingu á svæði sem getur vel svarað þessu ákalli og þörf fyrir litlar, góðar og ódýrar eignir. Sú vinna mun halda áfram á næstu vikum og mánuðum.

Við erum sterkari saman

Það er alveg ljóst í mínum huga að með þessari aðgerð og þessari tegund lána, hlutdeildarlána, er verið að gera tekjulágum einstaklingum og þeim einstaklingum sem jafnvel hafa verið fastir á leigumarkaði mögulegt að eignast sína fyrstu íbúð. Líkt og fram hefur komið er verið að bregðast við og lækka þröskuld þess hóps sem hefur verið að greiða leigu en lítið náð að leggja til hliðar og jafnvel þurft að treysta á öflugt bakland sem í flestum tilfellum er ekki til staðar. Það er því sérstaklega mikilvægt að við séum öll saman í þessum báti og að við séum öll að róa í sömu átt. Ríkið hefur nú stigið þetta myndarlega fyrsta skref með því að setja fjögur þúsund milljónir árlega í þessa aðgerð. Fordæmi annarra landa ásamt því sem er að gerast í Gufunesi sýna, svo ekki verði um villst, að þetta er vel hægt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. október 2020.

Categories
Greinar

Öflug byggða­stefna

Deila grein

30/09/2020

Öflug byggða­stefna

Það er á­nægju­legt að sjá og meta fram­gang byggða­á­ætlunar það sem af er og ég tel að vel hafi tekist til bæði við fram­kvæmd og fyrir­komu­lag á­ætlunarinnar. Vel hefur gengið að sam­þætta byggða­sjónar­mið við aðrar stefnur og á­ætlanir ríkis og sveitar­fé­laga: byggða­gler­augun eru nú sett upp á f leiri stöðum en áður hefur verið. Vissu­lega mætti vera meira fjár­magn úr að spila en það fé sem til ráð­stöfunar er hefur verið vel nýtt.

Einnig hefur tekist vel til við að virkja marga aðila þvert á hrepps­mörk, stjórn­sýslu­stig og mála­flokka, og sveitar­stjórnar­stigið er mun betur tengt við fram­kvæmd byggða­á­ætlunar en áður. Það var hár­rétt á­kvörðun að sam­þætta byggða- og sveitar­stjórnar­mál undir einum ráð­herra. Þegar horft er yfir sviðið og farinn veg tel ég full­ljóst að sveitar­stjórnar- og byggða­mál verði ekki að­skilin héðan í frá.

Loft­brúin (Skoska leiðin) er ein mikil­vægasta byggða- og sam­göngu­að­gerð síðari ára. Loft­brúin veitir 40% af­slátt af heildar­far­gjaldi fyrir allt að sex flug­leggi á ári og er mark­miðið að bæta að­gengi íbúa á lands­byggðinni sem búa fjarri höfuð­borginni að mið­lægri þjónustu. Ljóst er að hér er um mikið rétt­lætis­mál að ræða fyrir þá sem búa fjarri höfuð­borginni og bæði vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað. Það er því sér­stak­lega á­nægju­legt að Loft­brúin sé nú orðin að veru­leika og komin til fram­kvæmda.

Í byrjun sumars hélt byggða­mála­ráð góðan um­ræðu­fund um endur­skoðun byggða­á­ætlunar, hvar við stöndum og hvert beri að stefna til fram­tíðar. Það var mjög gott að fá yfir­lit yfir byggða­stefnu og að­gerðir á Norður­löndunum. Við endur­skoðun byggða­á­ætlunar er mikil­vægt að skoða sér­stak­lega hvaða að­gerðir eru að skila árangri og byggja á­fram á þeim verk­efnum sem hafa þótt reynast vel.

Um leið er ljóst að sveitar­stjórnar­fólk um land allt lætur sig byggða­mál varða og það þurfum við líka að gera hér á höfuð­borgar­svæðinu. Byggða­stefna á að ná til landsins alls, en ekki bara til veikustu byggðar­laganna eins og áður var. Það er mikil­vægt fyrir okkur sem munum nú bera á­byrgð á því fyrir hönd ráð­herra og ríkis­stjórnar að endur­skoða byggða­á­ætlun og tryggja að hún verði það verk­færi sem byggðir landsins hafa þörf fyrir.

Við höfum úr miklu að moða og höldum glöð til móts við verk­efnið. Að lokum vil ég hvetja alla lands­menn, nær og fjær, til að taka þátt í því opna sam­ráðs­ferli sem nú stendur yfir. Mótum saman nýja og öfluga byggða­stefnu fyrir landið.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður byggðamálaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. september 2020.